Mikið kuldakast síðustu daga?

Já, eiginlega er það mikið. En það þarf talsverðan uppgröft til að gera því skil tölfræðilega og það er ekki orðið nógu langt eða merkilegt til þess að ég leggi þá vinnu á mig. Ef það endist viku í viðbót er aldrei að vita hvað ég geri. Mesti broddurinn virðist úr kastinu, en samt er ekki spáð afgerandi hlýnun næstu vikuna. Þykktin á erfitt með að komast upp úr bilinu á milli 5280 og 5340 metra. Ekki mjög uppörvandi það.

Ég nota gjarnan langa hitamælingaröð Stykkishólms til að meta kuldaköst og hitabylgjur sem standa aðeins í nokkra daga eða dyljast við að leggjast með óreglulegum hætti á mánaðamót þannig að hefðbundin mánaðameðaltöl duga ekki. Ég held sérstaklega upp á morgunhitann til þessara nota. Ástæðan er sú að hitinn kl. 9 er nálægt því að vera dæmigerður fyrir ástand loftsins almennt yfir landinu á hverjum tíma. Upplýsinga um sérlega kaldar nætur eða sérlega hlý síðdegi verðum við að leita að annars staðar heldur en í Stykkishólmi.

Morgunhitaröðin í Stykkishólmi nær allt aftur til 1846. Við berum hita núlíðandi maímánaðar saman við meðaltal allra áranna.

w-sth_09-mai2011

Lóðrétti ásinn sýnir hitann, sá lárétti daga maímánaðar. Bláa línan sýnir hitann í maí 2011, myndin er gerð þann 26. og nær línan því ekki lengra.  Mikil umskipti urðu þann 19. til 20. og kalt hefur verið síðan. Rauða línan sýnir meðalhita allra annarra ára, 165 að tölu.

Ef við nú berum þetta kuldakast, 19. til 26. maí saman við fyrri ár kemur í ljós að 2011 er í 19. sæti hvað kulda snertir - meðalhiti 3,3 stig. Kaldast var 0,9 stig á sama tíma árið 1860. Allur listinn er í viðhenginu. Þar má sjá - og vekur athygli að árið 2006 er í 7. sæti með meðalhitann 2,3 stig. Skammt undan eru bæði 2005 og 2007. Kuldaköst hafa verið einkennilega algeng á nákvæmlega þessum tíma árs á nýhafinni öld.

Úrvalsdagar þessir voru hlýjastir 1946, meðalmorgunhiti var þá 10,6 stig, ótrúlegt þegar horft er á myndina að ofan. Kuldakastið það vorið byrjaði þ.31. maí og stóð til 12. júní. Kaldasta 8-daga röðin var frá 2. til 9. júní, meðalhiti var þá aðeins 3,7 stig. það er kaldara en var nú - miðað við meðaltal. Mikil leiðindi að lenda í slíku.

Reyndar var það þannig 1946 að maívikan hlýja var hlýrri heldur en meðalhiti í júní til ágúst. Það hefur aðeins gerst tvisvar frá 1846. Auk 1946 var það 1907. Menn geta reiknað þennan mun með því að nota tölurnar í viðhenginu. Þar má sjá meðalhita júní til ágústmánaðar í Stykkishólmi í sérstökum dálki.

Velta má vöngum yfir því hvort líkindasamband sé á milli hita þeirrar viku maímánaðar sem við höfum beint augum að annars vegar og sumarhitans hins vegar. Taki menn viðhengistöfluna inn í töflureikni má sjá á mynd (og reikna) að sambandið er á mörkum þess að vera marktækt í einhverjum skilningi. Aðfallslína sýnir að sumur eru ívið líklegri til að vera hlý sé maívikan það heldur en sé hún köld. Líklegra er að köld vika komi í köldu ári heldur en hlýju - en fyrir alla muni takið ekki mark á spádómum af þessu tagi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er reyndar athyglisvert hér á Húnaflóasvæðinu að minni þoku gætir en venjulega. Í fávisku minni hef ég ímyndað mér að orsökin sé sú, að loftið sé komið annarsstaðar frá og kaldara og þurrara en venjulega. En varðandi horfur til framtíðar, þá er svo að sjá að margumtalaður kuldaboli vomi yfir Diskó-flóa og Baffinslandi og honum sé spáð áframhaldandi dvöl þar fram í aðra viku hér frá.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 27.5.2011 kl. 10:42

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er ábyggilega rétt hjá þér Þorkell að ekki hefur verið mikið um þokur á Húnaflóasvæðinu í vor - miðað við það sem oft er. Skýring þín er líka líklega rétt. Mér skilst að sjór hafi verið tiltölulega hlýr á þessum slóðum. Samskipti yfirborðs (lands eða hafs) og lofts ráða miklu um þokumyndun. Aðstreymisþoka eins og algeng er á þessum slóðum þarf helst tiltölulega hlýtt loft að austan til að myndast, sjórinn er þá kaldari heldur en loftið sem að steðjar. Annars er getur þokumyndun verið mjög flókin og varasamt er að alhæfa um of.

Trausti Jónsson, 28.5.2011 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg261224ia
  • w-blogg261224d
  • w-blogg261224b
  • w-blogg261224c
  • w-blogg261224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.12.): 624
  • Sl. sólarhring: 879
  • Sl. viku: 3006
  • Frá upphafi: 2423656

Annað

  • Innlit í dag: 590
  • Innlit sl. viku: 2738
  • Gestir í dag: 570
  • IP-tölur í dag: 557

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband