Vestrænn svali

Við höfum nú sloppið við svalann að vestan að mestu leyti frá því í snjókomunni 1. maí. En nú gerist hann nærgöngull að nýju en auðvitað hálfum mánuði hlýrri heldur en þá. Mikið hlýnar á norðurslóðum á þessum tíma árs, sérstaklega þar sem snjór hefur bráðnað. Snjóhula á norðurhveli er nú komin niður fyrir meðallag árstímans eftir að hafa verið ofan við það í mestallan vetur fram til sumardagsins fyrsta.

En lítum á hirlam-spákort sem gildir á laugardagsmorgni, 14. maí kl. 9. Það er að venju fengið af brunni Veðurstofunnar.

w-blogg140511b

Við erum í 500 hPa hæð, heildregnu, svörtu línurnar eru hæð flatarins frá jörðu í dekametrum (dam=10 metrar). Rauðu strikalínurnar sýna þykktina milli 500 og 1000 hPa-flatanna, hún er því meiri því hlýrra sem loftið er. Það er 5340 metra línan sem liggur um Ísland þvert. Háloftalægð - meðalstór kuldapollur - er á vestanverðu Grænlandhafi á leið beint í austur yfir Ísland (rauðgula örin).

Háloftalægðinni fylgir líka lægð við jörð, en hún færir ekkert hlýtt loft til landsins þótt vindur blási úr suðri þegar hún nálgast land - heldur kemur kaldara loft með lægðinni. Ekki er mjög mikið misgengi þykktar- og hæðarlína í kringum lægðina - hún á því litla möguleika á vexti um það leyti sem þetta kort gildir, en þó vottar fyrir köldu aðstreymi bæði sunnan og suðaustan við lægðarmiðjuna. Ég hef sett inn nokkrar bláar örvar sem sýna hvernig vindurinn (sem fylgir hæðarlínunum) ýtir þykktarlínunum þannig að kalt loft kemur í stað hlýrra.

Við sjáum að það er nærri því ómögulegt að við sleppum við að fá þykktina svölu - 5220 metra - yfir landið. Það þýðir að einhver hvít korn sjást detta úr lofti að næturlagi - og sjálfsagt gránar í fjöll og jafnvel á heiðum. Ekki er þó spáð mikilli úrkomu svo ég viti.

Bylgja sú sem hefur miðju í háloftalægðinni er á austurleið eins og áður sagði. Það þýðir að hún á litla möguleika á vexti, meira segja liggur við borð að hún strauist - eins og ég kalla. Þá slitnar þykktarbylgjan (hlýi geiri lægðarinnar) frá háloftabylgjunni og lægðin við jörð tognar eða flest út - eyðist nema hún finni betri vist austar - eða fái kuldaspark að norðan. Við fjöllum ekki meira um þann möguleika.

Á myndinni má sjá aðra háloftalægð, sú er við norðurodda Labrador, þar er þykktin nú innan við 5160 metra. Lægðin hreyfist til suðausturs og er það mun vænlegri hreyfistefna fyrir háloftalægðir í vexti heldur en að stefna tilgangslítið til austurs eins og sú fyrri. Enn láta hungurdiskar nægja að segja að háloftalægðir styrkja hringrás sína við hreyfingu til suðausturs - en minnast ekki á hvers vegna.

Vesturlægðin á einnig að koma hér við sögu síðar, en spár eru óljósar um það hvernig hún ætlar að taka það. Við fylgjumst með ef ástæða reynist til - en þetta ástand er reyndar algengt í maí.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 109
  • Sl. viku: 1491
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1298
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband