Kalt eða hlýtt?

Nánast hvar sem ég hef komið undanfarna daga hef ég verið spurður að því hvort vorið sé að koma og hvort kuldunum fari ekki að linna. Tilfinning flestra virðist því benda til þess að kalt hafi verið í veðri - en mælarnir sýna allt annað - vel að merkja ef tekin eru nokkurra daga meðaltöl. Þessar köldu sleikjur kuldans í vestri hafa einhvern veginn vakið meiri athygli heldur en allir hlýju dagarnir. Þeir hlýjustu svo hlýir að nokkur dagshitamet voru slegin fyrr í mánuðinum. Enn hafa engin kuldamet verið nálægt því í hættu.

En hvers konar veðurlag er þetta þá eiginlega? Eins og margoft hefur verið rakið hér á hungurdiskum á undanförnum mánuðum hafa mjög skæðir kuldapollar verið óvenjuþrálátir skammt vestan Grænlands. Kuldinn á Vestur-Grænlandi hefur þó ekki keyrt um þverbak fyrr en núna í apríl. Mér sýnist við smáþukl að mánuðurinn eigi möguleika á einhverjum af toppsætum (botnsætum?) kulda í apríl. Frostið hefur að meðaltali verið nærri -10 stig í Nuuk það sem af er mánuðinum. Hafa verður í huga að enn eru 10 dagar eftir sem gætu lyft mánaðarmeðaltalinu rækilega.

Ágengum kuldapollum í vestri fylgir venjulega sunnanátt hér á landi og mjög órólegt veðurlag - eins og við höfum svo sannarlega fengið að kynnast. Við skulum líta á tvær myndir úr smiðju bandarísku veðurstofunnar. Þær taka báðar yfir tímabilið frá 1. febrúar til 15. apríl á þessu ári og eru vikakort. Vikakort sýna hversu langt frá meðallagi viðkomandi veðurstiki er.

w-ncep-hanomal1000020411

Myndin sýnir vik hæðar 1000 hPa-flatarins frá meðallagi umrætt tímabil. Jafnvikalínur eru dregnar fyrir 8 metra bil, en 8 metrar samsvara 1 hPa. Sjá má að þrýstingur á Snæfellsnesi hefur verið 8 hPa undir meðallagi (64 metra). Kortið er býsna líkt að formi til eins og þau sem sýna meðalþrýsting. Lægðin suðvestan við Ísland er sterkari en hún á að sér og þrýstingur yfir Evrópu er yfir meðallagi. Þetta þýðir að sunnan- og suðvestanáttir eru sterkari en að meðaltali hér á landi. Sunnanáttin er nærri því alltaf hlý, en suðvestanáttin bara stundum. Hvernig því er háttað sést betur á næstu mynd.

w-necp-hanoma500-020411

Hún sýnir hæðarvikin í 500 hPa-fletinum. Hér sést hversu ágengur kuldapollurinn er (L-ið) og að suðvestanáttin er talsvert sterkari en vant er á N-Atlantshafi austanverðu. Ég hef sett rauða (hlýtt) og bláa (kalt) ör til að sýna mismunandi uppruna suðvestanáttarinnar hér á landi að undanförnu. Ef við fylgjum vikalínunum má sjá að bilið milli línanna minnkar úr suðvestri og í átt til Íslands. Hér hafa tekist á hlýtt loft (í hæðarbeygju) og kalt loft (í lægðarbeygju). Í þeim átökum hefur oft verið hvasst.

Þetta með lægðar- og hæðarbeygjurnar er mjög mikilvægt. Lægðarbeygjuloftið er óstöðugt og kalt, en það í hæðarbeygjunni er stöðugt og hlýtt. Lægðarbeygjum á háloftakortum fylgir að jafnaði kalt loft, en hlýtt hæðarbeygjum. Suðvestanátt í hæðarbeygju er mun líklegri til að koma ís til Íslands heldur en suðvestanátt í lægðarbeygju eins og hefur verið fram að þessu í vetur. Suðvestanátt í lægðarbeygju er orðin að sunnanátt skammt norðan Íslands, en í hæðarbeygju verður hún að vestanátt fyrir norðan land og munar miklu á sunnan- og vestanáttinni við að koma ís hingað til lands. En við verðum auðvitað alltaf að hafa í huga að á þessum tíma árs er ísinn sjaldan meira en í 10 daga fjarlægð frá Íslandi - og oft minna - miðað við rétta vindátt.

Þessi staða platar nao mælingar dálítið. Venjulega þegar þrýstingur er lágur við Ísland er hann óvenju hár við Asóreyjar. Nú bregður svo við að þrýstingur er í meðallagi á Asóreyjum þótt hann sé lágur við Ísland, hvað þá með nao? Rétt er að taka fram að vikin á kortunum hér að ofan eru ekki mjög stór miðað við hvað vik geta orðið á stundum.

En átökin milli suðvestanáttanna tveggja halda áfram næstu daga með skakviðrum sínum. Kannski að fólki haldi áfram að finnast kalt þótt í raun sé býsna hlýtt. Svo er hækkandi loftþrýstingi spáð eftir helgi - það verður spennandi að sjá hvort af verður eða hvaða stöðu möguleg háþrýstisvæði velja sér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þessi apríl hefur verið óvenju hlýr finnst mér, hér á Austurlandi. Hlýtur að vera töluvert yfir meðallagi... eða hvað?

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.4.2011 kl. 04:32

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Já Gunnar, hitinn austanlands er langt yfir meðallagi og mánuðurinn, það sem af er, með allra hlýjustu aprílmánuðum sem vitað er um austanlands, sbr. athugasemd mína við blogg í gær.

Trausti Jónsson, 21.4.2011 kl. 13:22

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Á bls. 38 í Fréttatímanum er frábært dæmi um það hvernig menn láta varðandi veðrið um þessar mundir. Það er ekki heil brú í öllu kuldakjaftæðinu í greininni.

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.4.2011 kl. 15:29

4 identicon

Mjög leiðinlegt veður hefur verið hér s/v-lands það sem af er ári, úrkomusamt sólarlítið og vindasamt.  Þó svo a 10 dagar séu eftir af apríl, tel ég ólíklegt að þetta breystist. 

Við verðum að álykta sem svo, að þetta veðir ríkjandi veðrakerfi næstu vikur eða mánuði sem mun þýða lélegt sumar hér s/v-lands, en betra n/v-lands.

Það að ætla að "afsaka" þetta með því að þetta hafi einhvern tímann verið svona áður, er ekki til neins.  Kannski var þetta svona einhver ár á kuldatímabilinu frá 1960-1985, en í dag  á meintu alheimshlýnunarskeiði, passar þetta ekki.  Í öllu falli má álykta sem svo, að alheimshlýnunarskeiðið sé á enda, enda bendir allt til þess, að kulda(drullu)polla-veðrakerfið hafið náð hér völdum næstu misserin.  Ekkert getur ógnað því, enda er komið brakandi sumar í Evrópu.

Við hér á Íslandi (amk. á s/v-landi) getum búið okkur undir vætusamt, svalt og sumar árið 2011, sama hvað hámenntaðir veðurfræðingar segja, enda hefur þeim oftast skjátlast.

Vilji menn komast í sól og hlýju sumarið 2011,ættu menn að ferðast til útlanda, eða til norður eða austurlands.

Það fólk sem er að kafna úr hita og sól erlendis, verður ekki vonsvikið af því að koma til Reykjavíkur sumarið 2011, það mun örugglega geta krafist endurgreiðslu af það fær ekki skýjað og vætusamt veður hér ef það á annað borð vill forðast hita og mollu í sínum heimahögum erlendis.

Ferðaþjónustuaðilar hér á landi geta tryggt svalt og sólarlítð veður fyrir ferðalanga sem verða þreytir á sól og hita í Evrópu og Ameríku næsta sumar. 

Hvað sem öllu líður, að þá mun sumairð í ár hér s/v-lands verða svalt, úrkomusamt og sólarlítð, og minna á margt um veðrið í eins og það er í september.

Fólk sem vill forðast svona veðurlag ætti að panta sér ferð til útlanda og það strax, því ólíklegt að þessar þrálátu s/v-áttir munu láta undan síga næsta mánuði.

Þó svo að ég sé ekki menntaður veðurfræðingur, hef ég iðulega haft rétt fyrir mér varðandi veðurspár ca. 3-4 mánuði fram í tímann. 
Veðurfærðingar geta því óhikað farið í frí, því veðrið næstu vikur og mánuði verður svipað og það hefur verið síðustu vikur, s/v-áttir, vindasamt, úrkoma og sólarlítið.  Njótið frísins á meðan veðufræðingar.

Kristján F. Kristjánsson (IP-tala skráð) 22.4.2011 kl. 01:00

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Fínn húmor!

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.4.2011 kl. 01:08

6 Smámynd: Trausti Jónsson

Takk fyrir það, gott að frétta af því, ekki veit ég hvernig sumarið verður. Gaman væri að fá fleiri spár.

Trausti Jónsson, 22.4.2011 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 917
  • Sl. sólarhring: 1114
  • Sl. viku: 3307
  • Frá upphafi: 2426339

Annað

  • Innlit í dag: 817
  • Innlit sl. viku: 2973
  • Gestir í dag: 799
  • IP-tölur í dag: 735

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband