Árleg hitaútgildi marsmánaðar (jæja)

Ekki er fyrirsögnin efnileg - enn verra væri þó: Árleg hitastigsútgildi marsmánaðar. En látum okkur hafa það.

Fyrri myndin sýnir árlegan hámarkshita í mars 1874 til 2010.

w-tx-ar-mars

Við höfum áður litið á nokkrar myndir af þessu tagi. Þær sýna flestar mikla leitni hámarkshita. Ástæða leitninnar er aðallega þétting stöðvakerfisins. Fyrir 1900 voru metavænar stöðvar fáar enda náði hámarkshitinn ekki 10 stigum í flestum árum. Eftir 1920 var slíkt hins vegar sjaldgæft og þá fór 14 stiga hámarkshiti að verða nokkuð algengur. Síðan komu fáein mjög há gildi á tæpum 20 árum. Þar fer fyrst metið fræga frá Sandi í Aðaldal, 18,3 stig þann 27. 1948, 17,5 stig á Dalatanga 27. mars 1956 og 17.9 á Sámsstöðum þann 31. 1965.

Síðan varð hlé á mjög háum tölum þar til seint á 10. áratugnum. Þá fjölgaði sjálfvirkum stöðvum og margar þeirra voru metavænar. Hæsti hiti í mars mældist svo á Eskifirði 28. mars 2000 og varð nærri því eins hár á Dalatanga 31. mars 2007. Hiti fór í 17,3 stig á Húsafelli þann 27. árið 2005. Hámarkið á Akureyri 1990, 8,6 stig er óttalega aumingjalegt. Hámark marsmánaðar hafði þá ekki orðið jafnlágt síðan 1921 að 8,1 stig mældust í Vestmannaeyjum.

Lágmarkshiti marsmánaðar sýnir ekki jafnmikla leitni vegna stöðvaþéttingar. Það er aðallega vegna þess að athuganir hófust snemma á helstu lágmarkshitametastöðum landsins.

w-tn-ar-mars

Allra lægsta gildið er þó ekki frá slíkum stað, heldur mældist það á Siglufirði þann 21. árið 1881. Það var áður nefnt hér á blogginu á dögunum (4. mars) - í öðru samhengi. Með góðum vilja m´sjá að mánaðarlágmörk eru almennt hærri á árunum 1920 til 1940 heldur en fyrr og síðar þótt stöku lág gildi séu þar einnig innan um.

Mars 1998 á langlægsta gildi síðari ára, en þá mældist hiti við Mývatn -34,7 stig, ekki svo langt frá Siglufjarðarmetinu. Vel má vera að það gamla met falli á næstu árum - ef stöðvar halda áfram að vera jafnþéttar og nú er.

Lægsti hiti marsmánaðar er nærri því alltaf lægri en -15 stig. Varð þó ekki nema -8,0 stig í þeim fræga mars 1929, sú tala mældist á Eiðum á Fljótsdalshéraði þann 2. Mars 1964, einnig fádæma hlýr er ekki langt undan en þá mældist lægsta lágmark mánaðarins -10,8 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 25.

Frost hefur ekki oft farið niður fyrir -30 stig í mars. Auk 1881 og 1998 gerðist það 1882 (Grímsstaðir þann 7.), Möðrudal 1892 (þann 10.), á sama stað 1919 (4. mars), enn á sama stað 1962 (þann 15.) og í Reykjahlíð 1969 (þann 9.).  

Ég legg lista yfir útgildi hvers árs í viðhengið þeim til skemmtunar sem vilja velta vöngum yfir því hvaða stöðvar þetta eru sem gefa met. Sitthvað fleira mætti skoða. Hugsanlegt er að eitthvað af villum leynist í listanum - ábendingar um það eru vel þegnar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 45
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 1794
  • Frá upphafi: 2348672

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 1572
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 42

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband