Smágert (?) veður

Þessa dagana verður veður að teljast smágert miðað við það sem hefur verið að undanförnu. Mér er langt í frá tamt að nota þetta orð „smágert“ um veður og þyrði varla að gera það hefði ég ekki dæmi. Í fréttablaðinu „Vestra“ á Ísafirði stendur þessi veðurlýsing þann 13. febrúar 1915:

Tíðarfar fremur smágert og frostvægt undanfarið, en all umhleypingasamt.

Þetta finnst mér góð veðurlýsing - ég veit hins vegar varla hvaða einkunn hún fengi hjá stílfræðingum. Eru „fremur“ og „all-“ bráðnauðsynleg? Ef til vill ekki, en þetta er samt hinn gamli góði veðurlýsingastíll - dregið úr og bætt í eftir þörfum. „Óþörf“ smáorð gegna álíka hlutverki og aukastafir í hitamælingum - stilla lýsinguna betur að raunveruleikanum. Orðalagið í Vestra er því nákvæmara heldur en ef sagt væri: Tíðarfar smágert og frostvægt undanfarið, en umhleypingasamt. Hvað sem smekkmenn á mál segja.

Algeng setning í gömlum veðurlýsingum er: Tíðarfar fremur gott undanfarið. Það er engin ástæða til að telja það gott sem er bara fremur. Tíðarfar gott undanfarið.

Af því ég nú minnist á smágert veður minnist ég þess óljóst að hafa heyrt orðið smáviðri. Er það einhver andstæða við stórviðri?

En þessa dagana er veður fremur smágert miðað við það sem verið hefur að undanförnu og bara allgott. Eða betra (?): Veður er nú smágert og gott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta eru áhugaverðar vangaveltur. Sjálfum finnst mér aukaorð gera veðurlýsingar mannlegri. Í talmáli notar fólk gjarnan blótsyrði í veðurlýsingum t.d. „djöfulli hvasst“ og „helvíti umhleypingasamt“ en kannski er bið á að slíkt verði tekið upp hjá Veðurstofunni.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.3.2011 kl. 13:10

2 identicon

Skemmtileg " veðurlýsing " er í bók Jónasar frá Hrafnagili í kaflanum um trúarlífið:

Hún er svona ;......" nafngreindur maður á 19.öld kom út að morgni dags á þorranum ; var harðviðri og renningshríð á norðan , kampar á fjöllum , en kollheiður.

Karl signir sig , gýtur augunum upp í loftið og segir : " Mikið andskoti getur hann verið þrælslegur um hausinn núna "

                                                          Óli Hilmar Briem

óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 29.3.2011 kl. 21:34

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka athugasemdirnar. Ég held að enginn hafi gert stílfræði-, orðflokka-, setningarfræðilega greiningu (eða hvað það heitir) á veðurlýsingum í dagbókum og fréttum. Dr Haraldur Matthíasson snertir þetta aðeins í hinni stórfróðlegu og merkilegu grein sem hann skrifaði í afmæliskveðju til Alexanders Jóhannessonar 1953 undir fyrirsögninni Veðramál. Þessi grein er skyldulesning veðurnörda.

Veðramál. Haraldur Matthíasson (1953).
Birtist í: Afmæliskveðja til próf. dr. phil. Alexanders Jóhannessonar, háskólarektors, 15. júlí 1953 frá samstarfsmönnum og nemendum.  s. 76-116.

Trausti Jónsson, 30.3.2011 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 38
  • Sl. sólarhring: 143
  • Sl. viku: 1959
  • Frá upphafi: 2412623

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1712
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband