Af færiböndum

Lægðahringrás má lýsa á margvíslegan hátt. Flestir rótgrónir áhugamenn um veður kannast við Björgvinjarlíkanið. Það var notað um áratugaskeið í sjónvarpsveðurfregnum hérlendis og ýtti það mjög undir skilning almennings á veðurfræði þrýstikerfa. Eins og flest sem er notað hugsunarlítið hefur hefur það slitnað með árunum og er á síðustu árum orðið ansi útvatnað. Þegar líkanið var sett fyrst fram um 1920 voru engar háloftaathuganir fyrir hendi í daglegum spám, engar gervihnattamyndir og auðvitað engar tölvuspár.

Þegar gervihnattamyndir fóru menn að troða því sem þar sást inn í líkanið - stundum gekk það vel en stundum illa. Ljóst varð að e.t.v. var best að reyna að túlka myndirnar á annan hátt. Það hefur svosem gengið upp og ofan og ný sjónarmið hafa aldrei alveg komið í staðinn fyrir gamla skilahugsunarháttinn.

Við skulum nú líta á tillögu sem kom fram fyrir rúmum 30 árum og hefur verið talsvert notuð í fræðilegri umræðu. Það skal þó tekið fram að sumir veðurfræðingar eru ekkert hrifnir og víst er að sú mynd sem hér er sýnd á ekki við nema um hinar dæmigerðustu riðalægðir. Þetta er kallað færibandalíkanið, ég er ekki hrifinn af nafninu en nota það þar til betra finnst. En skoðum myndina:

w-færiband-carlson

Myndin sýnir einfaldaða hringrás í kringum riðalægð, sjá má staðsetningu hefðbundinna kulda- og hitaskila. Loft af þrennum uppruna kemur við sögu og leitar saman yfir lægðarmiðjunni:

(i) Hlýr, mjög rakur loftstraumur í hlýja geiranum (rauðlitaði flöturinn), loftið í honum hreyfist hraðar en lægðarmiðjan og lyftist yfir kalda loftið framan við hitaskilin, úrkoma fellur úr þessu lofti þegar það lyftist, hvort sem það er upp eftir skilafletinum eða fjöllum á leið þess. Þetta er „hlýja færibandið“ (e. warm conveyor).

Taka má eftir því að í upphafi er þetta loft í hæðarbeygju, fer síðan í væga lægðabeygju, en endar aftur í hæðarbeygju í háloftahryggnum framan við lægðakerfið. Tölurnar sem lesa má á fletinum er hæð loftstraumsins í hPa. Hann kemur inn í lægðarhringrásina í 800 hPa - um tveggja kílómetra hæð lyftist síðan og endar framan og ofan við lægðina í 300 hPa (um 9 kílómetrum). Sjö kílómetra lyfting getur skilað gríðarlegri úrkomu.

(ii) Kaldur, en einnig rakur loftstraumur á undan hlýju skilunum og neðan þeirra, loftið í honum hreyfist inn í átt að lægðarmiðjunni, en áður en þangað er komið fer það að leita upp um leið og það sveigist fyrst til suðurs, vestan við miðjuna, en uppstreymið er svo mikið að það er óðar komið í suðvestanáttina yfir lægðinni og fer þaðan út til norðausturs í svipaða stefnu og loftið í hlýja færibandinu. Þessi loftstraumur er kallaður „kalda færibandið“.

Dæmigert er að lyftingin í kalda færibandinu sé frá um 900 hPa upp í 500 hPa eða svo. Kalda loftið er ekki eins rakt og það hlýja, en samt rennur mikil úrkoma úr loftinu við þessa 4 kílómetra hækkun.

Takið eftir því að hér greinir mjög á við hina hefðbundnu Björgvinjarþróun. Í því líkani fer kalda loftið á undan lægðinni aldrei upp og í „gegnum“ skilin, enda er þar litið á skil sem nokkurn veginn „efnislegan“ flöt sem ekkert fer í gegnum. Uppstreymið í færibandalíkaninu verður m.a. vegna útstreymis (divergence) í efri hluta veðrahvolfsins, í stað þess lofts sem leitar í sundur verður að koma loft að neðan. Ég vona að tækifæri gefist síðar til að skýra ástæður útstreymisins.

(iii) Háloftavindröst eða hes hennar (oftast pólröstin) sem fer einnig í gegnum lægðakerfið, eftir niðurstreymi sem gerir það mjög þurrt, leitar þetta loft aftur upp nærri nærri lægðarmiðjunni og myndar þar þurru rifuna (dry slot) sem má sjá á gervihnattamyndum af vaxandi lægðakerfi.

Öll þessi einkenni þrjú sáust mjög vel á illviðrislægðunum sem hér voru til umfjöllunar fyrir rúmri viku. Við skulum halda þessum þremur hugtökum til haga: Hlýja færibandið, kalda færibandið, þurra rifan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta er athyglisverð greining og alltaf sér maður hér ný hugtök. Hlýja færibandið (hlýi geirinn), kalda færibandið (landsynningur), þurra rifan (útsynningur). Það vantar kannski þarna að klára færiböndin þannig að þau nái að fara í hring.

Ég hef stunduð nöldrað yfir því að það vanti skil inná veðurkort, jafnvel þótt þau séu eitthvað úrelt birtingarform. Sjálfsagt ná þau ekki að sýna vel hvað er að gerast í háloftunum eða í stórum lægðarsvæðum þar sem allt er komið í eina samskilasúpu eins og hefur verið hér undanfarið. Það er annars varla að hingað komi gamaldags lægðir af „Björgvinjarskólanum“ með allt vel aðskilið. En samt, þótt skilin segi ekki alla söguna þá miða þau við aðskilnað loftmassa niðri við jörð þar sem maður heldur sig yfirleitt. Spurningin er þó kannski hversu miklu er hægt er að koma fyrir á veðurkortum og hvenær þau fara að vera of flókin.

Emil Hannes Valgeirsson, 20.2.2011 kl. 11:39

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta er tillaga sem eigi við um dæmigerðustu riðalægðir, segirðu. Og að sumir veðurfræðingar séu ekki sammála. En væntanlega eru fæstar riðalægðir ''dæmigerðar''. Hvað á þá við það sem algengast er? Það liggur svo í orðunum hjá þére að menn séu ekki lengur neitt einhuga um það hverrig lægðir eru gerðar eins og menn kannski voru fyrst eftir að Björgvinjarlíkanið kom fram. Hver er hin algengasta skoðun á þessu, hvernig lægðir eru, ef hægt er að tala um það?

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.2.2011 kl. 13:07

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Og þessir pistlar þínir sýna æ betur hve mikil þörf er á íslenskri bók um nútímaveðurfræði þar sem fjallað væri á íslensku um það sem verið er að skrifa um á útlendum málum. Það hefur hreinlega ekki verið gert áður á seinni árum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.2.2011 kl. 13:11

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka viðbrögðin Sigurður og Emil. Ég vona að þessi hugtök geti orðið smám saman skýrari með frekari umfjöllun eða dæmum Ég vil þó reyna að eyða þeim misskilningi strax að þurra rifan er ekki hinn hefðbundni éljaútsynningur. Landsynningurinn er oftast hluti af kalda færibandinu og hlýja færibandið er meira en bara hlýi geirinn. Ég hef alls ekkert á móti því að réttdregin skil séu sett á veðurkort í þeim forna anda sem Emil nefnir en þoli illa áberandi klám í þeim efnum. Björgvinjarlíkanið og færibandalíkanið eru ekki keppinautar í þeim skilningi að ef annað er rétt sé hitt vitlaust heldur eru þau mismunandi sjónarhólar þar sem sama landslag er skoðað. Sjónarhólarnir eru reyndar enn fleiri. Menn eru einhuga um eðli lægða, enda reiknast þróun þeirra mjög vel í líkönum - það eru einfaldanirnar sem eru misjafnar.

Trausti Jónsson, 20.2.2011 kl. 20:56

5 identicon

Takk fyrir þetta og allan annan fróðleik í þessum pistlum. Ómenntuðum manni á þessu sviði verður sífellt ljósara að veðurvísindi eru fráleitt "absolute" grein og sífellt er vitneskja manna að aukast með fleiri og flóknari verkfærum, sem framþróunin gefur af sér til athugana og útreikninga. Trausti á heiður skilinn fyrir það hversu honum tekst vel að gera þessi flóknu vísindi aðgengileg með pistlum á mannamáli sem flestir eiga að geta skilið að einhverju marki.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 20.2.2011 kl. 21:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 38
  • Sl. sólarhring: 105
  • Sl. viku: 2485
  • Frá upphafi: 2434595

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 2207
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband