Stórtækur 18. febrúar

Veðrahamur vetrarins á Íslandi nær að meðaltali hámarki frá því um áramót og fram til um 20. febrúar.  Varla er hægt að segja að marktækur munur sé á illviðratíðni yfir þennan tíma. En frá og með góu fer vetri að halla þótt hægt gangi í fyrstu. Í uppkasti að skrá um illveður sem ég er að taka saman kemur fram að 18. febrúar hafa orðið nokkur minnisverð stórslys hér á landi og í skrá minni falla nú 18 atburðir á þann dag. Þeim á sjálfsagt eftir að fjölga þegar fleira kemur í ljós.

Ég ætla ekki að telja upp alla 18 atburðina en nefna fáeina þá minnisstæðustu.

Árið 1885 biðu 24 bana þegar gríðarlegt snjóflóð féll úr Bjólfinum á Seyðisfirði ofan í byggðina. Fjórtán hús tók af og um 80 manns lentu í flóðinu. Fleiri hús urðu fyrir skemmdum. Víðar fóru hús og hjallar í snjóflóðum á Austfjörðum um svipað leyti enda voru snjóþyngsli óvenjuleg þennan vetur.

Sama dag árið 1910 fórust 20 manns í miklu snjóflóði úr Búðargili í Hnífsdal í sjó fram. Tólf til viðbótar slösuðust en fáeinir lifðu flóðið af. Flóðið var hluti af gríðarlegri og langri snjóflóðahrinu á Vestfjörðum. Þennan vetur voru feykileg snjóþyngsli víða um land.

Þriðja stórslysið 18. febrúar varð 1959 þegar vitaskipið Hermóður fórst með 12 mönnum undan Höfnum á Reykjanesi í aftakaútsynningsveðri. Tíu dögum áður hafði togarinn Júlí farist á Nýfundnalandsmiðum með 30 mönnum og grænlandsfarið Hans Hedtoft við Hvarf á Grænlandi með 95 manns innanborðs. Flestir sem þennan febrúar muna gleyma aldrei óhugnaðinum sem fylgdi þessum atburðum. En veðrið 17. til 18. febrúar olli gríðarlegu tjóni, mestu þó norðanlands. Hér má telja það helsta:

Þak tók af hluta íbúðarhúss á Sauðárkróki og járnplötur af mörgum húsum, þar varð einnig tjón í höfninni. Hluti hlöðuþaks fauk á bænum Reykjavöllum í Tungusveit. Fjárhús á bænum Kotá í útjaðri Akureyrar fauk og drápust 3 kindur, mikið af járni fauk af húsum á Akureyri og heil og hálf þök af húsum í byggingu, tré rifnuðu upp með rótum, m.a. mörg velvaxin í Gróðrarstöðinni, bátur fauk þar út á sjó og vegagerðarskúr fauk og skemmdi nokkra bíla. Jeppi fauk út af vegi í nágrenni Akureyrar og gjöreyðilagðist, lítil slys urðu á fólki.

Járnplötur fuku af allmörgum húsum á Húsavík og rúður brotnuðu, þar slösuðust tvær stúlkur er þær fuku um koll. Allmiklar skemmdir urðu á Árskógsströnd, þak tók af hlöðu á Stærra-Árskógi og braggi fauk í Hauganesi. Skemmdir urðu á verksmiðjunni á Hjalteyri og þar fuku skreiðarhjallar og fleira. Þak fauk af íbúðarhúsi á Búlandi í Arnarneshreppi. Skemmdir urðu á þökum á Dalvík. Járnplötur fuku og rúður brotnuðu í Hrísey, sömuleiðis á Grenivík. Þak tók af hlöðu á Litla-Gerði þar í grennd. Hálft þak tók af íbúðarhúsi á Svalbarði á Svalbarðsströnd, þar í sveit varð víða foktjón. Allmiklar rafmagns- og símabilanir urðu í Eyjafirði.

Meir en helmingur þaks á íbúðarhúsi á Stöng í Mývatnssveit fauk og víðar fauk járn þar í sveit. Talsverðir heyskaðar urðu í Aðaldal og minniháttar tjón varð á nokkrum bæjum í Bárðardal. Minniháttar foktjón varð í Mýrdal og á Ströndum. Ekkert hafði verið flogið innanlands í 6 sólarhringa þegar hér var komið.

Það má taka fram að talsvert tjón varð í fleiri veðrum vikuna á undan i óvenjusnarpri illviðrasyrpu.

Tvö eftirtektarferð fokveður hafa gengið yfir Seyðisfjörð þennan mánaðardag. Hið fyrra 1889 í vestan- og norðvestanofsa eins og stundum gerir í firðinum. Stórt síldveiðihús brotnaði. Í því eyðilögðust eða skemmdust 10 til 20 bátar og  mörg hundruð síldartunnur. Fleiri hús urðu fyrir skemmdum.

Síðara fokveðrið á Seyðisfirði er nýlegt, 2003. Mikið tjón varð á a.m.k. 30 einbýlishúsum í sunnan ofsaveðri. Þrjú húsanna stórskemmdust, fjöldi bíla dældaðist og tré rifnuðu upp með rótum. Kerra fauk á björgunarsveitarmann sem höfuðkúpubrotnaði. Skemmdir urðu víðar á Austfjörðum, en minniháttar að sögn. Þak losnaði á fiskmarkaðshúsi á Vopnafirði. Sunnanofsaveður munu vera sjaldgæf á Seyðisfirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig minnir að enn eitt slysið hafi átt sér stað 18 feb. (1943) þegar Þormóður fórst.

sveinn valgeirsson (IP-tala skráð) 19.2.2011 kl. 12:57

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir Sveinn., Ég hef skráð Þormóðsslysið á þann 17. febrúar 1943. Neyðarkallið þegar tilkynnt var að leki hefði komið að skipinu kom kl. 22:30 að kvöldi þess dags. Ég hefði alveg eins getað bókað slysið þann 18. Hermóður fórst undir morgun aðfaranótt þess 18. febrúar 1959 þannig að aðfaranóttin á bæði þessi miklu sjóslys rétt eins og stóru snjóflóðaslysin bæði urðu snemma morguns þennan mánaðardag. 31 fórust með Þormóði þar af 22 farþegar sem hefðu varla átt að vera með skipinu.

Trausti Jónsson, 19.2.2011 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband