Djúpar lægðir næstu daga

Nú bregður svo við að N-Atlantshaf er alveg fyrirstöðulaust og geta lægðir því runnið hindrunarlítið frá austri til vesturs. Lítið hefur verið um djúpar lægðir í vetur en næstu daga fá þær tækifæri á að sýna sig. Það táknar þó ekki endilega að veðrið verði sérlega slæmt en rétt er samt að fylgjast með því. Ég minni enn á það að bloggið hungurdiskar er ekki spáblogg og þótt það stundum tali í þeim dúr eru lesendur hvattir til að taka meira mark á formlegum spám Veðurstofunnar heldur en því losaralega hjali sem hér má finna. En lítum samt á háloftakortið eins og það er þegar þetta er skrifað (um miðnætti að kvöldi 30. janúar 2011).

w-h500-300111-24hirlam6

Hvað sjáum við svo hér? Svörtu, heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins á miðnætti, en rauðu strikalínurnar þykktina milli 500 og 1000hPa-flatanna. Gríðarleg háloftalægð (kuldapollurinn Stóri-Boli) er við sunnanverða Baffinseyju og nær hringrásin í kringum hann nærri því yfir allt N-Atlantshaf alveg sunnan frá Bermúdaeyjum austur og norður um langleiðina til Svalbarða. Tvö áberandi lægðardrög eru á svæðinu, annað ekki langt frá Jan Mayen en hitt suðaustur af Hvarfi á Grænlandi.

Við sjáum líka að jafnhæðarlínurnar eru mjög þéttar sunnan við Nýfundnaland og norðaustur um Ísland. Mikill vindur fylgir þéttum línum enda eru þetta hesin undir heimskautaröstinni.

Þykktarlínurnar eru líka þéttar. Í aðalatriðum er þykktin lægst þar sem 500 hPa-hæðin er lág, en há er þykktin þar sem hæðin er há. Suðvestan við Ísland er þó allstórt svæði þar sem misgengi er mikið á milli þykktar- og hæðarlína. Norðaustur af staðnum sem merktur er y á kortinu liggja þykktarlínurnar nærri þvert á hæðarlínurnar. Svipað má sjá suður og suðvestur af y-inu. Þarna segum við að loft sé mjög riðið enda vaxandi riðalægð á svæðinu á hraðri leið norðaustur í átt til Íslands.

Þeir sem ekki vilja lesa tölur geta sleppt því sem hér kemur á eftir.

Með því að draga þykktargildin frá hæðargildunum getum við fundið lægðina. Við stað sem merktur er x á myndinni sjáum við (vonandi) að hæðar- þykktargildi eru þau sömu, 528 dekametrar (5280 metrar), 528 mínus 528 eru núll. Hæð 1000 hPa-flatarins er því 0 metrar, hann liggur við sjávarmál og þrýstingur þar er því 1000 hPa. Rétt austur af y-inu sést hvernig 522 hæðarlínan og 540 þykktarlínurnar snerta næstum hvor aðra. Þar er hæð 1000 hPa-flatarins því 522 mínus 540 = -18 dekametrar - eða -180 metrar.  Mínusmerkið þýðir að þrýstingur er minni en 1000 hPa og við vitum að í fyrsta kílómetranum næst jörðu eða svo eru 80 metrar = 10 hPa, -180 metrar er því á milli 22 og 23 hPa eða 1000 mínus 22 = 978 hPa. Sem er reyndar nálægt miðjuþrýstingi lægðarinnar.

Hér á sérstaklega að taka eftir því að lægðarmiðjur eru þar sem fleygar af hlýju lofti ganga lengst í átt að lægra 500 hPa fleti.

Lítum nú aðeins á Stóra-Bola. Innsta jafnhæðarlínan er 468 dekametrar. Ætli miðjuhæðin sé ekki um 466 dekametrar (=4660 metrar). Þykktin er nánast sú sama. Þrýstingur við sjó er því um 1000 hPa. Stóri-Boli sést því varla sem lægð við jörð - hann er barmafullur af köldu lofti. Þess má geta að þykktin sést varla fara öllu neðar en þetta. En nú er líka miður vetur.

Ímyndum okkur nú að okkur tækist einhvern veginn að koma 540 þykktarlínunni inn undir miðju Stóra-Bola, segjum inn að hæðinni 470. Hversu djúp yrði sú lægð? Jú 470 mínus 540 = -70 dekametrar eða -700 metrar. Það eru nærri 90 hPa og lægðin sú væri því um 912 hPa djúp.

Nú er það svo að um leið og Stóri-Boli færist út yfir opið haf hlýnar í honum og hann grynnist mikið. Þykkt og hæð hækka nokkurn veginn i takt, rosaleg éljaský myndast með tilheyrandi pólarlægðum. En þar sem hringrásin nær yfir mjög stórt svæði getur hlýtt loft dregist inn í átt að miðju Bola með riða áður en hæðin hækkar. Við það verða til mjög djúpar og miklar lægðir.

Tölvuspár eru ekki sammála um það hver verða örlög kuldapollsins né hversu djúpar þær lægðir verða sem honum fylgja. Sú sem kemur á morgun á víst að verða um 960 hPa í miðju, sú sem von er á á miðvikudaginn fer e.t.v. niður í 950. Sem stendur er ekki spáð miklum illviðrum hér á landi með þessum lægðum nema á hálendi og fjallvegum. Braut þeirra er fremur hagstæð okkur. Lægðirnar gætu orðið fleiri og sumar spár gera t.d. ráð fyrir mikilli úrkomu á Bretlandseyjum og Vestur-Noregi síðar í vikunni. Sömuleiðis gera sumar spár ráð fyrir verulegu kuldakasti í Bandaríkjunum í tengslum við Stóra-Bola.

En eins og venjulega er margt sem þarf að hafa auga með í veðrinu. En fylgist með spám Veðurstofunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta er mikil þykktarveðurfræði. Maður þarf að hafa sig allan við til að ná jarðsambandi.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.1.2011 kl. 01:12

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Já, satt er það Emil. En í þessum fræðum sem og öðrum ná menn jarðsambandinu með endurtekningu á endurtekningu ofan. Mér finnst bara með réttu eða röngu að íslenskir lesendur megi fá að vita aðeins meira um heim veðurfræðinnar heldur en hingað til hefur legið hér á lausu. - Ég vona að mér fyrirgefist það.

Trausti Jónsson, 31.1.2011 kl. 01:59

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Frábært blogg, les það á hverjum degi, alltaf fróðari en deginum áður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 31.1.2011 kl. 11:53

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Háloftakort hafa lengi verið á netinu öllum aðgengileg, jafnvel upp í hæstu hæðir. Það sem hefur einmitt vantað eru skýringar fyrir fólk og hvernig veður á jörðu markast að því sem gerist þarna uppi. Um þetta hefur aldrei verið skrifað fyrr á íslensku og þessar upplýsingar eru heldur ekki á hverju strái á netinu annars staðar, allra síst frá íslensku sjónarhorni. Þetta eru því mjög þakkarverð skrif.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.1.2011 kl. 12:10

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tek undir með Ómar, fróðlegt og skemmtilegt blogg.

Nú er mikið talað um meðal hitastig og hita og kuldamet á ýmsum veðurstöðvum. En hvað með vindhraða? Hafa verið marktækar breytingar á vindhraða, samfara aukinni hlýnun?

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.1.2011 kl. 12:21

6 Smámynd: Trausti Jónsson

Gunnar. Ekki er einhlítt samband milli illviðra eða vindhraða og meðalhita. Illviðri hafa hins vegar verið undarlega fátíð samfara hlýindunum síðasta áratuginn, áberandi fátíðari en áður.

Trausti Jónsson, 1.2.2011 kl. 00:33

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Alarmistarnir", tala um aukningu fellibylja og við vitum að leifar þeirra berast að Íslandsströndum. Því væri ekki óeðlilegt að álykta að meðalvindhraði á árs grundvelli hefði aukist eitthvað hér.... ef það er staðreynd, að fellibyljir séu algengari og ofsafengnari í Karíbahafinu, í kjölfar hnattrænnar hlýnunnar.

Rökin fyrir hærri tíðni fellibylja eru lógísk, en þeir virðast ekki skila sér í hús með afgerandi hætti, eins og "alarmistarnir" fullyrða.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.2.2011 kl. 00:43

8 Smámynd: Trausti Jónsson

Eitt af vandamálunum varðandi breytingar á fellibyljatíðni er að nú er farið að telja þá og mæla miklu betur en var hægt að gera fyrir 100 árum. Menn eru þó sífellt að vinna að því að komast fyrir þennan misfelluvald með einhverjum hætti - sumt af þeirri vinnu lofar mjög góðu. Annað vandamál fellst í því að tjónnæmi vex miklu hraðar heldur en tíðnin er hugsanlega að aukast. Því er hægt að spá með nokkurri vissu að tjón af völdum fellibylja vaxi að mun næstu 20-30 árin (ef ekki skellur á ný og svakalegri gerð heimskreppu). Þetta mun gerast jafnvel þótt fellibyljum fækki.

Trausti Jónsson, 1.2.2011 kl. 01:19

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta með "tjónnæmnina" hefur einmitt verið "notað" sem sönnun fyrir aukningu fellibylja og er þá vitnað í tjónaskýrslur tryggingafélaga. Þá er jafnan skautað fram hjá þéttingu byggðar (fólksfjölgun). Tjónaaukning segir okkur ekkert um aukningu fellibylja.

Á þessari síðu: http://www.stormpulse.com/  er hægt að telja fellibylji og styrkleika þeirra undanfarinna ára og ekki er hægt að sjá að aukningin sé fyrir hendi, og allra síst á hlýjustu árunum. Hvað á maður að lesa í það?

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.2.2011 kl. 01:44

10 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Gunnar, hvar hefur "tjónnæmni" verið "notuð" sem "sönnun" fyrir aukningu fellibylja og þá, af hvaða "alarmistum"? Geturðu bent á einhverjar heimildir fyrir þessum fullyrðingum þínum? Kannski væri líka ráð að fá þína skilgreiningu á "alarmistum", gæti verið fróðlegt að fá það upp á yfirborðið - mig grunar að ég sé í þínum hópi "alarmista" fyrir að vilja skrifa og hafa skoðanir um loftslagsmál og loftslagsvísindi...

Sveinn Atli Gunnarsson, 1.2.2011 kl. 09:39

11 identicon

Takk fyrir fræðandi blogg!!

Jón Halldór Gunnarsson (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 09:55

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Skilgreining á orðinu alarmisti... hmm. Viðvörunarbjöllu-isti ?  

Þetta hefur t.d. verið fullyrt af Al Gore, sem "lengra komnir alarmistar" hafa reyndar afneitað í seinni tíð. Auk þess hefur þetta sjónarmið oft komið fram í fjölmiðlum. Annars er ég ekki hérna til að standa í orðaskaki við þig, Svatli. Þú dúkkar víða upp til þess að "leiðrétta" pöpulinn og yfirleitt er frekar leiðinlegur og yfirlætislegur tónn í þér.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.2.2011 kl. 16:07

13 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Gunnar, að venju ætlarðu bara að fullyrða án heimilda (hvaða fjölmiðla ertu að tala um?) og fara út í persónuleg skot á mig - en það er svo sem ekkert nýtt í því hjá þér. Merkilegar þykja mér þessar endalausu fullyrðingar þínar um hvað "viðvörunarbjölluistar" (hvað sem þetta orða á nú að þýða eða hvernig sem það nú er skilgreint hjá þér) eiga eða eiga ekki að hafa sagt - Ef þú spyrð mig, þá er þetta nú úr frekar lausu lofti gripið hjá þér Gunnar, venju samkvæmt. Það getur hver sem er fullyrt, en það er meiri list fólgin í því að sýna fram á heimildir eða gögn máli sínu til stuðnings. Þú mættir, Gunnar, huga meira að heimildum og gögnum en innihaldslausum uppnefningum og staðlausum staðhæfingum - en það kemur mér reyndar ekki á óvart að þú reynir að upphefja sjálfan þig með persónulegum skotum á mig...

Sveinn Atli Gunnarsson, 1.2.2011 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 988
  • Sl. sólarhring: 1101
  • Sl. viku: 3378
  • Frá upphafi: 2426410

Annað

  • Innlit í dag: 881
  • Innlit sl. viku: 3037
  • Gestir í dag: 861
  • IP-tölur í dag: 795

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband