Ísland og Finnland á 5. áratugnum - hitasamanburður

Eins og flestir lesendur bloggsins munu vita ríktu mikil hlýindi hér á landi frá 1925  til 1965 eða þar um bil. Hlýindi voru þá einnig um mestalla Evrópu norðan- og vestanverða. Inn í þetta gríðarlega hlýindaskeið skutust þrír ofurkaldir vetur í Evrópu. Kuldanna gætti ekki hér á landi. Við skulum nú líta á tvær myndir okkur til fróðleiks.

w-tsth-tmarieh-allir-man

Fyrri myndin sýnir mánaðameðalhita í Stykkishólmi (blár ferill) og í Maríuhöfn á Álandseyjum (finnskur ritháttur á myndunum - rauður ferill) árin 1939 til 1948. Svo vill til að ársmeðalhiti á þessum tveimur stöðum er svipaður. Á þessu ákveðna tímabili var meðalhiti í Stykkishólmi 4,38 stig, en 4,86 á Álandseyjum. Þar með er ekki sagt að veðurfarið sé svipað. Spönn bláa ferilsins (árstíðasveifla hitans í Stykkishólmi) er miklu minni heldur en þess rauða (árstíðasveifla hitans á Álandseyjum).

Við sjáum að á Álandseyjum skera fjórir vetur sig úr í kulda. Það eru stríðsveturnir 1940, 1941 og 1942 og auk þeirra 1947. Í Stykkishólmi er það helst veturinn 1942 sem sker sig úr - en þá í hlýindum.

Ástandið á stöðunum tveimur sést enn betur á næstu mynd.

w-tsth-tmarieh-12km

Myndin sýnir 12-mánaða keðjumeðaltöl hitans á stöðunum tveimur. Sem fyrr sýnir blár litur hitann í Stykkishólmi, en sá rauði hitann á Álandseyjum. Við sjáum að Álandseyjaferillinn sveiflast meira frá ári til árs en Stykkishólmsferillinn. Við sjáum líka þá tilhneigingu að þegar kalt er á Álandseyjum er hlýtt í Stykkishólmi og öfugt. Hitaferlarnir eru að nokkru leyti í öfugum fasa sem heitir. Tíu árin öll eru hins vegar inni í hlýindaskeiði á báðum stöðum.

Þetta mikla hlýindaskeið náði yfir stóran hluta  norðurslóða, en gætti minna á suðlægari breiddarstigum. Þrátt fyrir hlýindin komu samt ofurköld ár í Evrópu inn á milli. Við sjáum á öfugfasanum að eitthvað fyrirbrigði annað en almenn hlýindi ræður mjög miklu um hitann. Þetta eru stóru bylgjurnar í vestanvindabeltinu - fyrirstöðuhæðir og fastsetin lægðardrög á milli þeirra. Takið líka eftir því að fasinn er ekki alltaf öfugur.

Við megum líka taka eftir því að „köldu“ tímabilin á Íslandi eru ekki nærri því eins köld að tiltölu og þau finnsku. Hafið sér til þess. Nefna má í framhjáhlaupi að talsverður hafís var norðan við Ísland 1943 og 1944 og sumarið 1943 er eitthvert mesta skítasumar sem um getur norðaustanlands.

Finnar telja hálfgert úthafsloftslag ríkja á Álandseyjum - er það gott dæmi um afstæða sýn á veðurlag. Það er líka dæmi um afstæða sýn að hér á landi taldist 1943 heldur hraklegt - í samanburði við hlýindin á undan sem höfðu þá staðið linnulítið í 15-17 ár. Í raun var ársmeðalhitinn 1943 aðeins 0,2 stigum undir meðallaginu sem við nú notum (1961-1990) en samt það kaldasta frá 1924 í Stykkishólmi. Núverandi stórhlýindi hafa staðið í 13 ár. Hversu kalt mun okkur þá þykja fyrsta meðalárið þegar það kemur? Hversu mikið kveinum við? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 362
  • Sl. sólarhring: 469
  • Sl. viku: 2660
  • Frá upphafi: 2414324

Annað

  • Innlit í dag: 338
  • Innlit sl. viku: 2453
  • Gestir í dag: 329
  • IP-tölur í dag: 323

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband