Óvenjulegir veðurþættir eru óvenjulegir í ár

Í gær var fjallað um loftþrýstimetið. Ársmeðalhitinn og ársúrkoman er að verða skýr, hvoru tveggja óvenjulegt á Suður- og Vesturlandi, en ekki er alveg um met að ræða. Í hvaða sæti árið lendir í árangursröðinni fyrir þessa veðurþætti er enn ekki alveg ljóst, svo glöggt stendur keppnin.

Ætli sé ekki hægt að segja að árið hafi verið það snjóléttasta sem vitað er um hér í Reykjavík. Þegar um slík met er að ræða er eins gott að athuga skrárnar vel í leit að villum. Svo virðist sem árið sé eitt hið hægviðrasamasta um áratuga skeið. Þar sem vindhraðamælingar einstakra stöðva eru fullar af ósamfellum er best að nota landsmeðaltal. Við bíðum eftir því. Óþægilegar kvarðabreytingar hafa verið gerðar vindstiganum í gegnum tíðina þannig að erfitt er að fara lengra aftur en 1949 í samanburði - að sinni.

Þess vegna hefur staðið leit að veðurþáttum sem gætu gefið óbeint mat á meðalvindhraða. Ég hef ritað um sérstaka aðferð í erlend tímarit sem mér sýnist vænleg hér á landi. Samstarfsmenn mínir í nágrannalöndum hafa einnig um þetta skrifað en eru kannski ekki alveg trúaðir.

Aðferðin sem hér um ræðir er útreikningur á daglegum breytileika þrýstings, einfaldlega með því að finna mun á þrýstingi í dag og í gær. Þá er hægt að ganga í þrýstiröðina löngu sem gerð var í tengslum við nao-fárið mikla sem minnst var á í síðasta pistli. En um breytileikann var ritað löngu síðar. Ég reikna hann alltaf samviskusamlega út á hverju ári.

Í ár bregður svo við að vísitalan er lægri en oftast áður (í samræmi við lágan vindhraða), á síðari áratugum er það einungis árið 1960 sem á svipaða tölu. Það ár og gæði þess muna auðvitað öll forn veðurnörd.

Þrýstibreytileikavísitala

Árið 1985 er ekki mjög langt undan og einnig 1941 en síðan þarf að fara allt aftur fyrir um 1860 til að finna ámóta. Rétt er að taka fram að lágu gildin 1837 og 1838 eru grunsamleg, en ég hef þó ekki fundið neina sérstaka galla í gögnunum.

Reikna má breytileikavísitölu hitans á sama hátt og hef ég notað morgunathugun í Stykkishólmi allt frá 1846 til þessa dags.

Hitabreytileikavísitala

Í ljós kemur að síðustu tvö ár (2009 og 2010) skera sig nokkuð úr ásamt reyndar 1985 og 1987. Hitabreytileiki frá degi til dags er óvenju lítill þessi árin. Síðan þarf að fara aftur til 1851 til að finna ámóta. Mikla athygli vekur hvað hafísárin og sá kuldi sem fylgdi í kjölfar þeirra kemur vel fram á línuritinu og sömuleiðis ísatímabilið fyrir 1920. Árin kringum 1850 eru tiltölulega lág enda var ís þá minni en síðar varð (og áður).

Úrkomu- og snjólagsvísitölur af ýmsu tagi er ekki hægt að reikna fyrr en undir vor að upplýsingar frá veðurstöðvum hafa fengið gátmeðferð (?). Fleira skýrist einnig síðar, t.d illviðratalningar og vindáttafrábrigði.  

Greinar:

Jones, P.D., T. Jónsson, and D. Wheeler, (1997) Extension to the North Atlantic Oscillation using early instrumental pressure observations from Gibraltar and South-West Iceland, International J. of Climatology Vol.17, 1433-1450

Jónsson, T. and E. Hanna (2007) A new day-to-day pressure variability index as a proxy of Icelandic storminess and complement to the North Atlantic Oscillation index 1823–2005. Meteorologische Zeitschrift, Vol. 16, No. 1, 025-036

Hanna, E., J. Cappelen, R.Allan, T. Jónsson, F. Le Blancq, T. Lillington and K. Hickey, (2008): New Insights into North European and North Atlantic Surface Pressure Variability, Storminess, and Related Climatic Change since 1830. J. Climate 21, pp. 6739–6766. DOI: 10.1175/2008JCLI2296.1

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5
 • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (22.4.): 235
 • Sl. sólarhring: 442
 • Sl. viku: 1999
 • Frá upphafi: 2349512

Annað

 • Innlit í dag: 219
 • Innlit sl. viku: 1811
 • Gestir í dag: 217
 • IP-tölur í dag: 213

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband