Ótrúlegir veðurspádómar 2

Enn er veðrið upp úr helgi og um miðja næstu viku til umfjöllunar. Þær spár sem um það voru gerðar í gær voru með miklum ólíkindum - nýjum metum var spáð bæði í loftþrýstingi á Íslandi sem og í styrk háloftahæðar í nágrenninu. Spá (gfs) bandarísku veðurstofunnar var meira afgerandi heldur en reiknimiðstöð Evrópuveðurstofa (ECMWF) en sú síðarnefnda var einnig nærri meti.

Í morgun hélt bandaríska spáin svipuðu en evrópska spáin gerði hins vegar ráð fyrir að hann brysti á með aftakanorðanveðri hér á landi strax á miðvikudagskvöld. Metþrýstingur (yfir 1065 hPa) yrði hins vegar yfir Norðvestur-Grænlandi. Nú síðdegis er bandaríska spáin heldur linari á háþrýstingnum heldur en áður, þó er í henni spáð þrýstingi yfir 1051 hPa í Reykjavík á miðvikudaginn.

Í spá bresku veðurstofunnar nær þrýstingur tæplega 1050 hPa á miðvikudaginn. Bandaríska nogaps-líkanið (hjá hernum) er með allt öðru vísi spá nú síðdegis. Í henni nær hæðin ekki til Íslands, en í hennar stað er allmyndarleg lægð á Grænlandshafi sem samkvæmt spánni á að valda austanillviðri hér eftir miðja næstu viku.

Allir þeir sem fylgjast reglulega með veðri vita að veðurspár eru óvissar, 4 til 6 daga spár greina sjaldnast rétt frá því sem raunverulega verður og 7 til 10 daga spár eru oftast vitlausar. Ekki þó svo vitlausar að því megi treysta (þá væru þær heldur ekki svo slæmar). En þetta er hrikalega stór tölvuleikur eða íþróttamót og ekkert síður spennandi en helgarleikirnir í knattspyrnu.

En veðrátta er óvenjuleg um þessar mundir og því er von á ýmsum óvenjulegum fréttum. Nú er t.d. spáð miklu kuldakasti í norðausturríkjum Bandaríkjanna um eða upp úr helgi. Þar á að snjóa heil ókjör. Sömuleiðis er 5160 m þykktarlínunni spáð suður á miðja Ítalíu. Ef það rætist verður kalt í Feneyjum. Þá mun ef til vill snjóa í efri byggðum Ítalíu svipað og í gömlu Fellinikvikmyndinni, hét hún ekki Amarcord? - Sú var góð.

Nú er hádegisspáin frá reiknimiðstöðinni orðin í seinna lagi. Hvaða stöðu boðar hún?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Magnúsdóttir

En, halló! Ef svona slæmu veðri er spáð í norðausturríkjum BNA, hvernig verður veðrið hér á Íslandi þá í næstu viku, ef þú vilt vera spámaður í eigin föðurlandi? - Eigum við von á áframhaldandi hláku, frosti  eða úrkomu í líki snjóar (það eru jú að koma jól). Það væri bara skemmtilegt ef þú gæfir okkur jólaspána. Það væri fín jólagjöf fyrir landann. :)

Ingibjörg Magnúsdóttir, 9.12.2010 kl. 23:06

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Kæra Ingibjörg. Ég hef að mestu látið af veðurspádómum. Við þá vinnur fjöldi manna dag og nótt og er því að jafnaði betur treystandi í þessum efnum heldur en mér. Nú horfi ég á spárnar af varamannabekknum - er í besta falli einhvers konar línuvörður. En stundum sé ég eitthvað sem er óvenjulegt - jafnvel í öllu því spákraðaki sem nú er aðgengilegt hverjum sem er. Tölvuspárnar síðustu daga hafa sannarlega verið óvenjulegar - sennilega úr öllu hófi - en þrátt fyrir það hafa margir gaman af því að fylgjast með þeim og heyra lýsingu. Knattspyrnuleikir sem enda í markalausu jafntefli geta verið góðir, jafnvel er gaman að heyra einhvern sem vel þekkir til lýsa þeim. En veðrið hér á landi í næstu viku er sannarlega óráðið - sömuleiðis eru örlög appelsínutrjánna í Flórída ekki enn ráðin - ekki fyrr en frýs eða ekki frýs í raunheimi. Sama má segja um framhaldandi kuldasúg í Evrópu - sem venjulega er svo mild. En spár eru farnar að koma fyrir jóladagana - þær breytast hins vegar mikið frá klukkustund til klukkustundar og varla hægt að fara að lýsa því. Það er nefnilega það - skipti.

Trausti Jónsson, 10.12.2010 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040524c
  • w-blogg040524b
  • w-blogg040524a
  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 258
  • Sl. sólarhring: 337
  • Sl. viku: 1344
  • Frá upphafi: 2352303

Annað

  • Innlit í dag: 223
  • Innlit sl. viku: 1209
  • Gestir í dag: 213
  • IP-tölur í dag: 212

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband