Munur á hita við Veðurstofuna og á Reykjavíkurflugvelli

Ég fæ oft spurningu um þetta. Einfalda svarið er að hann sé 0,1 stig. Heldur minni á vetrum en á sumrin. En hér er tilraun til aðeins ítarlegra svars, litið er á tvo mánuði, júlí og nóvember yfir 5 ára tímabil. Ég verð að biðjast afsökunar á myndinni sem er í alltof lágri upplausn. Reynt er að bæta fyrir það með því að koma myndahlutunum öllum fyrir í pdf-skjali sem fylgir sem viðhengi. Þar er upplausnin miklu betri.

flugv-tun

Myndin er fjórskipt. Í öllum tilvikum eru gildi pósitíf þegar hlýrra er á flugvellinum. Byrjum í efri línu - til vinstri. Þar má sjá hitamun staðanna tveggja (allar athuganir á klukkustundar fresti - allt tímabilið). Við sjáum (vonandi) að langoftast er munurinn lítill, hámarkið er rétt til hægri við núllið, það er oftar hlýrra á flugvellinum.

Mynd í efri línu til hægri sýnir muninn eftir tímum sólarhrings í júlí (blátt) og í nóvember (rautt). Í júlí er um 0,2 stigum hlýrra á flugvellinum á nóttunni og fram undir kl. 9, eftir það er munurinn lítill en vex hægt og bítandi eftir því sem á líður og nær aftur fyrra hámarki um kl. 22. ´

Mynd í neðri línu til hægri sýnir muninn eftir vindáttum. Þar er 9 = austanátt, 18 = sunnanátt, 27 = vestanátt og 36 = norðanátt. Í júlí er hlýrra á flugvellinum í flestum áttum nema á bilinu milli vesturs og norðvesturs (hafgolan), í hávestanátt er nærri 0,2 stigum hlýrra á Veðurstofutúninu. Í nóvember er myndin önnur. Þá er kaldara á flugvellinum í landáttunum frá austsuðaustri og vestur undir suðsuðvestur. Hlýjast að tiltölu á flugvellinum þegar vindur blæs úr vestsuðvestri (af hafi).

Síðasta myndin sýnir hitamun eftir vindhraða (m/s). Í júlí er munurinn að meðalatali nær enginn í logni, en vex síðan og er orðinn meir en 0,4°C þegar vindur er 10 m/s. Í janúar er 0,5 stigum hlýrra við Veðurstofuna í hægum vindi, en strax og vind hreyfir er munurinn lítill, síðan verður hann smátt og smátt meiri eftir því sem vindur vex.

Þrátt fyrir að fjarlægð milli stöðvanna sé lítil er samt um hitamun að ræða. Hann ræðst greinilega af þáttum eins og mismunandi hæð stöðvanna (munar um 45 metrum) og nálægð við sjóinn. Þessi hæðarmunur gefur tilefni til um 0,4°C hitamunar sé loft fullhrært, eins og sjá má þegar vindur er mikill. Sjórinn yljar á vetrum, en kælir á sumrin. Auk þess er flugvöllurinn á sléttu landi, hitahvörf haldast því betur við þar heldur en við Veðurstofuna þar sem stöðin stendur efst í kúptu landslagi.

Hver er svo mesti munur milli staðanna þessi fimm árin? Það vill svo til að hann er 4,1 stig á hvorn veginn. Í báðum tilvikum var talsvert frost og því voru mjög grunnstæð hitahvörf á sveimi á svæðinu, en þau gefa helst tilefni til sviptinga af þessu tagi. Í hvorugt skiptið hélst munurinn nema í eina athugun. Því mætti gefa gaum síðar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti

 Þetta eru skemmtileg og forvitnileg línurit, og ekki í öllu eins og maður hefði gert sér í hugarlund.  5 ár eru vissulega ekki langur tími, og á það hljóta höktið eða ókyrrðin í ritunum að skrifast.  En hvað er hökt og hvað endurspeglar e.k. raunveruleika til lengri tíma?  Hvers vegna er ekki skýrari dýfa síðdegis þegar hafgolan er sterkust?  Hvers vegna er dýfan í nóvember fyrir sólarupprás?  Ég hefði ekki veðjað upp á svona mikinn mun, Veðurstofunni í hag, í vindi milli A og S í nóvember.  Ég mundi hins vegar veðja á að nóvember 1993 sé ekki inni í safninu.

 Með bestu,

 HÓ

Haraldur Ólafsson (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 23:52

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir Haraldur. Árin eru aðeins fimm, en samtíma sjálfvirkar athuganir eru til í um tíu ár. Hér tók ég aðeins tvo mánuði, júlí og nóvember. Vonandi gefst tækifæri síðar til að bera stöðvarnar betur saman. Þetta er aðeins til gamans gert, ef til vill áttu einhvern nema sem gæti tekið málið að sér?

Trausti Jónsson, 5.12.2010 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg230424
 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.4.): 254
 • Sl. sólarhring: 408
 • Sl. viku: 1570
 • Frá upphafi: 2350039

Annað

 • Innlit í dag: 226
 • Innlit sl. viku: 1429
 • Gestir í dag: 223
 • IP-tölur í dag: 216

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband