Þoka í Reykjavík

Þoka er ekki algeng í Reykjavík eða við Faxaflóa yfirleitt. Hún var varla til í mínum veðurheimi þegar ég var krakki. Þoku verður að meðaltali vart í Reykjavík í fimm nóvembermánuðum af hverjum sex og stendur yfirleitt mjög stutt hverju sinni. Ég var spurður að því á förnum vegi nú síðdegis hvernig á þessari þoku stæði og mér varð orðavant - en stundi þó upp einhverri líklegri skýringu. Þannig er - að til að geta svarað spurningunni heiðarlega hefði ég þurft að fylgjast með því hvernig hana bar að. Flestar þokur líta svipað út að innan - þó ekki alveg. Ég var hins vegar svo niðursokkinn í villur í gömlum veðurathugunum að athygli mín var ekki á myndun þokunnar.

Stutta skýringin er sú að þokan hafi myndast vegna kælingar á mjög röku lofti. Það gera reyndar flestar þokur. Hver er þá kælingarvaldurinn? Hvaðan kom raka loftið? Útgeislun er grunnástæða kuldans, yfirborð jarðar kólnar mjög hratt í björtu veðri. Var þetta þá útgeislunarþoka? Já, það er hugsanlegt, hún hefur þá myndast við þéttingu raka sem fyrir var yfir bænum.

Önnur tillaga er að rakt loft utan frá sjó hafi í mjög hægum vindi borist inn yfir land, en þar sem landið var mjög kalt (vegna útgeislunar) kólnaði loftið og rakinn í því þéttist. Hafi þokan myndast á þennan veg verður hún að kallast aðstreymis- frekar en útgeislunarþoka.  

thokugerd

Myndin sýnir tvær gerðir þoku, þá sem er þykkust neðst (oftast útgeislunarþoka) og þá sem er þykkust efst (aðstreymisþoka). Upp á myndunum er upp en af rauðu línunni má lesa hita og hvernig hann breytist með hæð. Þegar hann er á leið til hægri hlýnar upp á við, en annars kólnar. Hitaferillinn í a) á þó aðeins við í stutta stund eftir að þokan myndast. Eftir að hún er orðin til fer loft að kólna mest á efra borði þokunnar og hiti verður þá sá sami uppúr og niður úr. Hitaferillinn í b) sýnir dæmigerð hitahvörf*. Hiti fellur votinnrænt (0,6°C/100 m) upp að hitahvörfunum, hlýrra er þar fyrir ofan.

Sé þokan eins og á mynd a) sést mjög oft upp úr henni og sé hún nógu þunn nefnist hún dalalæða. Þar sem landslag er hæðótt eins og hér í Reykjavík er hún þykkust í kvosunum. Sé þokan eins og gerð b) er hún hins vegar oftast meiri á holtunum heldur en í kvosunum. Ég er ekki alveg viss um hvort var í dag. Kannski eins konar blanda. Svo er til þokutegund sem kallast blöndunarþoka. Hún er líklegust í rigningu, kannski verður þannig þoka í nótt?

En þokan í dag var hættuleg vegna ísingar sem myndaðist þegar dropar hennar lentu í árekstri við frostkalda hluti, enda var lúmsk hálka og ísing myndaðist fljótt á bílrúðum.

* : Ég hef alltaf vanist því að hitahvörf séu fleirtöluorð og nota því eintölumyndina hitahvarf ekki. Það gera hins vegar margir og ekkert við því að segja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Trausti, komdu á Austurvöll fimmtud. 18. kl. 14.00 til að biðja Alþingi um,

frjálsar handfæra veiðar, sem leysa fátæktar og atvinnu vanda Íslendinga!

Aðalsteinn Agnarsson, 18.11.2010 kl. 00:00

2 identicon

Var úti á Álftanesi þegar ég varð fyrst var við að þoka byrjaði, þá myndaði hún rúmlega 1 m teppi yfir grasinu þar, segir það nokkuð að þetta sé frekar útgeislunarþoka en aðstreymis?

Af hverju er annars þoka ekki algengari en ella í Rvík? Smá hugdettur veðuramatörs: Spilar eitthvað inní að sjórinn er hlutfallsega heitara miðað við landið en annars staðar á landinu? Þarf meiri ríkjandi vestanátt beint frá hafi en ekki yfir land eins og er oft í ríkjandi sunnanáttum? Eða er þetta kjánalegar hugdettur sem ekkert vit er  í ;)

p.s. Aðalsteinn, gerðu það fyrir mig að tala um veður á veðurbloggi.

Ari (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 00:29

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Yfirborð landsins kólnaði vegna mikillar útgeislunar en satt best að segja renna þessar tvær þokutegundir saman í eitt þegar ástandið er á þann veg sem það var í dag. Sjór við Ísland er hlýrri en loftið nærri allt árið, hér suðvestanlands er það aðeins stuttur tími á sumrinu (júlí) þegar sem landið er hlýrra, einmitt á þeim tíma eru þokur langalgengastar í Reykjavík. Þessi tími er lengri sums staðar fyrir norðan og austan. Ég mun vonandi geta fjallað um sjóinn síðar, en það er alveg rétt hjá þér að helst þarf að vera vestanátt til að þoka verði í Reykjavík.

Trausti Jónsson, 18.11.2010 kl. 00:50

4 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Sæll Trausti

Ég var á ferðinni í gær í þessari þoku sem var nú bara með þeim þéttari sem ég hef séð hér á svæðinu. Eitt vakti furðu mína og það var að suður í Hafnarfirði  var á smá kafla engin þoka. Þetta var belti upp með læknum  í Hvömmunum og uppí Setbergslandið. Svo tók við sama svarta þokan þegar ég kom uppá hæðina neðan við Áslandshverfið. Ég keyri þessa leið á hverjum morgni og þegar kalt er í veðri er jafnan kaldast  þarna á þessu svæði í kring um lækinn. Getur það verið skýringin?

Gylfi Björgvinsson, 18.11.2010 kl. 10:57

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Einn leiðindagalli er á metabók Burt fyrir íslenska lesendur. Allur hiti er fahrenheit (sem er nú viðráðanlegt) en úrkoma í þumlungum og snjódýpt í þumlungum og fetum. Ótrúlegt að ameríkanar haldi sig við þetta alveg endalaust.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.11.2010 kl. 16:35

6 Smámynd: Trausti Jónsson

Gylfi. Við lækinn hefur sjálfsagt verið hægur, kaldur loftstraumur undan halla i átt til sjávar. Þokan var svo þunn að það hefur aðeins þurft lítilsháttar blöndun við loft ofan við til að hreinsa hana burt á svæðinu.

Metrakerfið hefur aldrei slegið í gegn í Ameríku og tugabrot ekki heldur. Þeir halda sig fremur við fjórðunga, áttunga og sextánduhluta úr sínum mælieiningum. Úrkoma í þumlungum er fremur auðveld viðfangs, tomman er 25,4 mm og nákvæmni upp á 25 mm gerir auðvelt að margfalda tommurnar 10 tommur eru því 250 mm. Loftþrýstitomman er erfiðari vegna þess að við notum þar hPa eða mb, það má sjálfsagt venjast því að margfalda tommurnar með 100, deila síðan með þremur og bæta 16 við. Prófum það 29"x100 = 2900, deila með þremur: 2900/3 = (nokkurn veginn) 967, bætum 16 við og fáum 983 hPa. Rétt niðurstaða er 982,1 mb. Jæja, reiknivélin er kannski auðveldari. Það má þó gleðja sig við að tommurnar ameríksku eru ekki franskar eins og lesnar voru af fornum loftvogum, þar voru tugabrot ekki notuð á eftir heilu tommunum heldaur tólftuhlutar, síðan komu tugabrot. Dæmi 27"3',2 franskar tommur = 984,1 hPa. Bandarískir veðurfræðingar nota hPa eða kPa í skrifum sínum í alþjóðleg rit en sleppa tommunum.

Trausti Jónsson, 19.11.2010 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 880
  • Sl. viku: 2330
  • Frá upphafi: 2413764

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2149
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband