Ísing á línum

Ætli sé ekki óhætt að fara að minnast á ísingu. Frægt ísingarveður gerði einmitt um þetta leyti árið 1972. Helstu sköðum er lýst svo: Mikið tjón varð vegna ísingar á raf- og símalínum í mörgum landshlutum 27. (október) og næstu daga. Um 500 síma- og rafmagnsstaurar brotnuðu eða lögðust niður. Girðingar eyðilögðust. Mest varð tjónið í Strandasýslu og hluta Húnavatnssýslu, en einnig mun víðar, á Snæfellsnesi, í Dalasýslu, í Hvalfirði, Ísafjarðardjúpi á Mýrdalssandi og í Grímsnesi, í Ólafsfirði og í Öræfum. Fleiri skaðar urðu.

Þetta veður fékk meira að segja sérstaka umfjöllun í tímaritinu Veðrinu sem félag veðurfræðinga gaf út á þessum árum (tilvitnun neðst í pistlinum). Mikið ísingartjón varð einnig í veðrinu mikla sem olli snjóflóðinu hræðilega á Flateyri fyrir 15 árum og fleiri ísingarveður í október mætti nefna.

Ísing er einkum af þrennu tagi: 1. Frostrigning, 2. slydduísing, 3. skýjaísing.

Rigning sem myndar ísingu er kölluð frostrigning. Hún á sér stað þegar hitahvörf liggja nærri jörð, frost er þá allra næst jörðu en frostlaust ofan við. Lagið neðan hitahvarfanna getur verið mjög þunnt en líka einhverjir tugir metra eða meira. Einnig myndast ísing ef rigning fellur á frosna jörð þó hiti í lofti sé ofan frostmarks. Sá myndunarháttur er algengari hérlendis. Blási vindur blandar hann kalda loftinu oftast saman við það hlýrra ofan við og færir hita við jörð því upp fyrir frostmarkið.

Vegna blöndunaráhrifa vindsins eru frostrigning og frostúði ekki eins algeng hér á landi og víða erlendis. Þetta veðurlag er mjög hættulegt vegna skyndilegrar hálkumyndunar. Ís sem hleðst á tré og línur veldur oft umtalsverðu tjóni, sérstaklega í Ameríku þar sem bæði orku- og símalínur eru yfirleitt ofanjarðar. Slæmt frostrigningarveður sem komast mun í sögubækur liggur örugglega í leyni í framtíðinni hér á landi. Hvenær það verður veit auðvitað enginn, en samt vonandi að því verði spáð rétt áður en vandræðin verða.

slydduising

Sú tegund ísingar sem veldur mestu tjóni hér á landi er slydduísing. Hún myndast í vindi þegar hálfbráðinn snjór (slydda) klessist á línur eða reyndar hvað sem er. Þar sem úrkoman fellur er loft ekki alveg mettað raka, úrkoman fellur úr skýi niður í örlítið þurrara loft. Myndin hér að ofan á að lýsa þessu. Þetta veldur því að uppgufun getur átt sér stað við raka fleti. Uppgufunin þarf orku og hún er tekin m.a. frá fletinum sjálfum sem þá kólnar að bræðslumarki og úrkoma sem fellur á hann klessist (frýs) við hann. 

Ísing getur orðið á raflínum þó hennar gæti lítið niður við jörð þar sem vindur er hægari en ofar og rakastig ívið hærra (100%).  Uppgufun er því minni og ísingar gætir síður. Hærra uppi þar sem raflínur liggja er vindur meiri. Hann færir því sífellt loft sem ekki er alveg rakamettað að línunni og uppgufun getur haldið þar áfram. Sé ákoma slydduflyksna meiri en sem nemur uppgufun safnast hún fyrir á línunni sem ísing.

Sé rakastig niður undir jörð lægra en 100% getur slydduísing auðvitað orðið þar líka. Fjölmörg dæmi eru um að ísing slagi girðingar.

Ef úrkoman stendur lengi hækkar gerist gjarnan annað tveggja, rakastigið hækkar upp í 100% og ísingin minnkar - eða bráðnun úrkomunnar sem fellur úr skýinu kælir loftið þannig að hiti fellur niður fyrir frostmark og ísingin hættir. Sé sífellt aðstreymi af ómettuðu lofti sem blandast inn í slydduna sem fellur getur ísingin haldið óhindrað áfram. Staðhættir geta mjög ýtt undir slíka blöndun þannig að ísingartilvik eru mjög algeng á sumum stöðum en sárasjaldgæf á öðrum.

Þriðja ísingartegundin er skýjaísing. Hún verður í rakamettuðu lofti þar sem undirkældir skýjadropar setjast á alla fleti og frjósa þar fastir sé hiti flatanna í frostmarki eða undir því. Ísing af þessu tagi getur myndað miklar furðumyndir þegar ís hleðst upp á móti vindáttinni. Hér á landi gætir hennar einkum á fjallatindum og bungum ofan við 600 m hæð yfir sjó.

Ísing á sjó er hættuleg vegna þess að hún breytir stöðugleika skipa. Við fjöllum ekki um hana að sinni.

Grein í Veðrinu sem mælt er með (aðgengileg um timarit.is):

Flosi Hrafn Sigurðsson og Eiríkur Sigurðsson (1975): Ísingarveðrið mikla 27.-28. október 1972. Veðrið. 19., bls. 8-18.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Trausti

Er algengt eða fátítt að rigning sé undirkæld, þ.e. að hitastig rigningadropanna sé heldur lægra en 0°C, en samt á fljótandi formi?   Þegar svona undirkælt vatn verður fyrir truflun frýs það samstundis.

Ég minnist þess einu sinni þegar ég var að hjóla heim frá skólanum í Lundi í Svíþjóð. Þá lenti ég í rigningu sem mér fannst vera undirkælt vatn. Á fáeinum mínútum myndaðist glær þykk klakabrynja á stönginni og stýrinu á reiðhjólinu, eiginlega án þess að það blotnaði áður.

Ég minnist þess ekki að það hafi verið frost í lofti, a.m.k. var það óverulegt.

Spurningin er eiginlega hvort svona fyrirbæri með undirkældri rigningu séu algeng.

Ef ég skil þig rétt, þá er svokölluð frostrigning annað fyrirbæri. Er það ekki?

Með góðri kveðju,

Ágúst H Bjarnason, 27.10.2010 kl. 16:38

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Sæll Ágúst. Það má almennt segja að því minni sem vatnsdropi er því auðveldara á hann með að lifa í frosti. Flest ský eru örsmáir vatnsdropar, samanber skýjaísinguna í pistlinum. Nærri því öll úrkoma sem hér fellur (og líka í Svíþjóð) verður til þegar vatnsdropar þéttast á ísögnum í skýjum. Ísagnirnar klessast síðan saman og mynda snjókorn (líka á sumrin). Snjókornin falla svo til jarðar. Þau bráðna að sjálfsögðu þegar þau falla niður í hlýrra loft og mynda þá regndropa. Áður en droparnir myndast verður til slydda (krapi). Þegar komið er niður úr skýinu getur uppgufun hafist. Rigni mikið án aðfærslu af hlýju lofti færist frostmarkið neðar og neðar undir skýinu, bæði vegna uppgufunar og bráðnunar.

En falli regndropi úr skýi niður í frost loft fellur hann um stund án þess að frjósa en heilfrýs um leið og hann aflagast eða lendir á öðrum dropum. Þá myndast ískorn (sem bandaríkjamenn kalla sleet). Rétt áður en það gerist er hann undirkældur um skeið. Vel má vera að þú hafir hitt fyrir dropa í Lundi sem svo var ástatt um, sérstaklega ef það hefur gerst í námunda við skúraský. En svo er einnig stundum furðumikill munur á lofthita og yfirborðshita flata. Ég hef lent í því sjálfur oftar en einu sinni (og þú sjálfsagt líka) að aka eftir blautum vegi þannig að það sem slettist á bílinn frýs jafnvel þótt bæði lofthiti og yfirborðshiti vegarins séu yfir frostmarki. Ástæðan er uppgufunarkólnun við yfirborð bílsins (krefst aðfærslu þurrara lofts).

Þarna erum við komin að mörkum frostrigningar og slydduísingar. Í slydduísingu er ekki frost nema á flötunum þar sem vatn er að gufa upp. En við hittum líka oft fyrir undirkælda (mjög smáa) vatnsdropa, t.d. þegar frýs á bílrúðum um leið og við setjum þurrkurnar í gang.

En sannleikurinn er sá að barátta milli frosts og þíðu í nærveru allra fasa vatnsins nærri mettunarraka getur orðið ofboðslega flókin. Réttar skýringar á hverju tilviki fyrir sig eru því oftast ágiskun.

Trausti Jónsson, 27.10.2010 kl. 20:04

3 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Trausti

Alltaf gaman að lesa pistlana hjá þér! Mig langar að segja þér frá fyrirbæri eflaust skylt ísingu sem ég varð vitni að fyrir fáum árum, trúlega hefur þetta verið 2006. Ég var á leið norður í Borgarnes um miðjan dag snemma vors, í skúraveðri þar sem skiptist á allsnarpur vindur í skúrum með rólegra á milli, ekki sást til sólar en skýjaflákarnir hafa ekki alveg náð saman því það gætti nokkuð mikillar birtu.

Á leið minni gegnum skóginn undir Hafnarfjalli fór ég að taka eftir því að birkið virtist blómstra hvítum blómum - ég var utan við mig að vanda og fyrsta hugsunin var að hérna væri vorið komið. En svo áttaði ég mig á því að þetta var víst ekki það sem mætti búast við í birkiskógi, að hann blómstraði eins og kirsuberjatré.

Ég stöðvaði bílinn og gekk inn í skóginn og þá sá ég að trén og allar greinar í yfir 2 m hæð frá jörðu voru þaktar uþb. háls sentimetra þykku íslagi. Þetta var mjög falleg sjón og undarleg, ísinn var blautur og hitastig var nokkuð yfir frostmarki, trúlega 5 gráður. Birtan var þessleg að glampaði af ísnum úr dálítilli fjarlægð en þegar maður kom alveg að var ísinn glær og formlaus.

Þegar ég kom inn í Borgarnes tók ég eftir að toppar á tveimur grenitrjám sem standa uppi á svolitlum kletti voru einnig þaktir íslagi.

Kveðja

Binni

Brynjólfur Þorvarðsson, 28.10.2010 kl. 07:41

4 identicon

Þetta var fróðlegt atarna. Þegar ég var yngri var ég um rúmlega 20 ára skeið í hjálparsveit og það kom fyrir að við lentum í því að aðstoða RARIK-menn við að hreinsa ísingu af raflínum. Það er með hreinum ólíkindum og líklega trúa fáir sem ekki hafa séð þesskonar ísingu, hversu mikil og þung hún getur orðið. - Það er líka fróðlegt og skemmtilegt að sjá innlegg Brynjólfs Þorvarðssonar hér að ofan

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 28.10.2010 kl. 07:47

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka ykkur fyrir Brynjólfur og Þorkell. Ég vann sjálfur nokkuð að ísingarmálum fyrir 15 til 25 árum í samvinnu við RARIK og þekki því vel hversu mikið getur hlaðist á línur á stuttum tíma í slyddu. En RARIK hefur á þessum tíma og síðar tekið málið mjög föstum tökum, bæði hvað val á línustæðum varðar sem og almenna hönnun á línum, auk þess sem línur hafa á ýmsum erfiðum stöðum verið lagðar í jörð til að forðast staðbundin og endurtekin ísingarvandamál. Einnig hafa merkilegar sjálfvirkar álagsmælingar staðið lengi. Ég held að þekking þeirra á vandamálinu sé nú meðal þess besta sem gerist í heiminum. Ég sjálfur hef hins vegar lítið komið nálægt þessum málum lengi.

Trausti Jónsson, 28.10.2010 kl. 09:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg250125d
  • w-blogg250125c
  • w-blogg250125b
  • w-blogg250125a
  • w-blogg220125id

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.1.): 110
  • Sl. sólarhring: 114
  • Sl. viku: 2224
  • Frá upphafi: 2437045

Annað

  • Innlit í dag: 93
  • Innlit sl. viku: 2025
  • Gestir í dag: 83
  • IP-tölur í dag: 81

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband