Smávegis af illviðri - og sólarleysi

Vindur í illviðri gærdagsins (þ.28.september) komst yfir 20 m/s á 28 prósentum veðurstöðva í byggð. Veðrið í síðustu viku náði hins vegar 34 prósentum. Meðalvindhraði á öllum stöðvum í byggð var 9,8 m/s, en var 8,8 m/s í veðrinu í síðustu viku (þetta eru bráðabirgðatölur). Ársmet vindhraða (10-mínútna meðaltal) var slegið í Botni í Súgandafirði, þar er sjaldan hvasst. Vindur fór þar í 22,6 m/s, en hviða í 39,7 m/s, vindátt var af vestnorðvestri (310 gráður). Ekki hefur verið athugað þar nema í 9 ár. Septembermet voru slegin á fáeinum stöðvum þar sem athugað hefur verið í meir en 20 ár. Þar má nefna Bolungarvík, Súðavík, Hólasand, Möðrudalsöræfi, Víkurskarð, Steingrímsfjarðarheiði, Kleifaheiði, Ennisháls og Fróðárheiði. Við rifjum upp að septembermet voru einnig sett í síðustu viku, en þá fyrst og fremst um landið sunnanvert. Veður sem þessi eru ekki algeng í september, en margir muna þó vel hretin miklu þann 10.september 2012 og 15. september 2013. Sömuleiðis gerði ámóta hret þann 21. september 2003 og (heldur minna) 9. september 1999. Slæm norðanhret má einnig finna rétt handan mánaðamótanna, t.d. þann 4. og 5. október 2004.

Kuldinn síðustu daga hefur dregið meðalhita mánaðarins mjög niður og er hann sitt hvoru megin meðallags aldarinnar - svalari að tiltölu vestanlands heldur en fyrir austan. Úrkoma er rífleg víðast hvar. Sólarleysi er óvenjulegt í Reykjavík. Þetta verður þar trúlega einn af fimm sólarlausustu septembermánuðum síðustu 100 ára - sem stendur eru fjórir mánuðir neðar á listanum (2 dagar eftir). Þetta eru 1912, 1921, 1943 og 1996. Sá síðasttaldi átti góðan endasprett - sem er erfitt að eiga við. September 1943 verður neðar en september nú - mælingarnar í september 1921 eru nær örugglega gallaðar - og teljast því ekki með í keppninni. Þær virðast hins vegar í lagi 1912 - og sólskinsstundafjöldi í þeim mánuði minni en nú. Sumarið í í heild er sólarrýrt í Reykjavík, raunar það sólarrýrasta í meir en 100 ár. Það eru aðeins 1913 og 1914 sem eru svipuð. Þetta er líka í fyrsta skipti sem sólskinsstundir vorsins (mánuðirnir tveir, apríl og maí) eru fleiri heldur en sumarsins (mánuðirnir fjórir, júní til september). Afskaplega óvenjulegt svo ekki sé meira sagt.

Það var í september 1963 sem ritstjóri hungurdiska fyrst heyrði orðið „haustkálfur“ notað um hret snemma hausts. Mjög slæmt hríðarkast gerði þá í göngum og réttum í kringum jafndægrin. Sögðu menn það boða góðan vetur - sumir til jóla - en aðrir allan veturinn. Svo fór að veðurlag varð heldur hryssingslegt áfram allt fram til jólaföstu, en síðan tók við einn sá besti og blíðasti vetur sem ritstjórinn hefur enn lifað. Þótti honum sem mark væri kannski takandi á haustkálfatalinu. En síðan eru liðin mörg haust og ekki ætíð á spár af þessu tagi að treysta. 

w-blogg290921v-a

Hér eru til gamans tvær blaðaúrklippur af timarit.is. Sú eldri úr sunnudagsblaði Vísis 1937 þar sem minnst er á haustkálfatrúna, en hin úr löngum pistli Gísla Sigurðssonar í Lesbók Morgunblaðsins í október 1969. Þar fjallar hann um ýmislegt tengt rigningasumrinu mikla 1969 sem - eins og hér hefur verið minnst á - endaði með hríðarbyl í Reykjavík og víðar um land síðustu dagana í september. - Texti myndarinnar verður læsilegri sé hún stækkuð.  


Bloggfærslur 29. september 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 108
  • Sl. viku: 1284
  • Frá upphafi: 2351069

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1106
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband