Barmafulla lægðardragið nálgast

Reiknimiðstöðvar eru enn ósammála innbyrðis auk þess að vera sífellt að stilla sig af eða hreinlega skipta um skoðun varðandi lægðardragið sem nálgast úr vestri. Því skal ekki leynt að veðurnördið í ritstjóranum hefur gaman af því að fylgjast með rásandi spám en jafnframt hafa allir aðrir aðilar í honum lítið gaman af norðanskotum - sérstaklega lítið gaman.

Pistillinn í dag er beint framhald á pistli gærdagsins. Fjallað er um lægðardrag sem kemur barmafullt af kulda upp að Vestur-Grænlandi, fer síðan yfir jökulinn og slær sér niður á Grænlandshaf - eða Grænlandssund - eða?

Í lægðardragi barmafullu af kulda gætir hringrásar þess ekki við jörð. Suðvestan- og sunnanáttin á undan því kemur ekki fram nema í háloftunum. Þegar lægðardragið fer yfir Grænland missir það niður um sig buxurnar og sýnir um skamma hríð sína réttu hlið. Suðvestanáttin holdgerist og lægðardrag verður líka til við jörð. En kalda loftið sem fyllti dragið bíður færis.

Lítum nú á kortin. Þetta eru sömu kort og í gær nema þau gilda sólarhring síðar. Fyrsta kortið gildir á föstudagskvöld 1. mars kl. 21 og sýnir sjávarmálsþrýstinginn (venjulegt veðurkort). Næsta kort sýnir ástandið á laugardagskvöld - sólarhring síðar og það síðasta sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum á sama tíma. Almennar skýringar á kortunum má finna í pistli gærdagsins.

w-blogg010313a

Lægðin sem á kortinu er fyrir norðaustan land er sú sem er nú (á fimmtudagskvöld) að dýpka fyrir vestan land. Hlýjasta loftið hefur yfirgefið landið en kalda loftið ekki búið að ná sér á strik. Hlýtt loft er aftur í framsókn á sunnanverðu Grænlandshafi og vekur næstu lægð. Kalda hæðin fyrir vestan Grænland hylur meir en barmafullt háloftalægðardrag. Þrýstingur í hæðarmiðju er talinn 1049 hPa.

w-blogg010313b

Ný lægð er orðin til á kortinu sem gildir á laugardagskvöld. Hún ætti undir öllum venjulegum kringumstæðum að fara allhratt til austnorðausturs og austurs í kjölfar fyrri lægðar og vera meinlaus fyrir landið. En hún fær lægðardragið jökulkalda í bakið og það leitast við að draga hana aftur á bak og næstu daga hér á eftir fer fram mikið tog (það er að segja ef nýjustu spár rætast), lægðin gæti verið ýmist fyrir norðaustan eða vestan land - og jafnvel sunnan við það. Ekki eru reiknistofur sammála um það. Það er þó algengast í þessari stöðu að lægðin hreyfist ekki mikið í stefnuna norðaustur/suðvestur heldur að hún negli sig frekar niður á einhverjum stað og mjakist þaðan í suðaustur. Við sjáum til hvernig fer með það.

Á kortinu eru tvær bláar örvar. Sú sem er yfir Suður-Grænlandi stendur fyrir framrás kalda loftsins úr vestri yfir Grænland, það er að segja í meir en 3 kílómetra hæð, en hin sýnir kuldastrauminn suður með ströndinni. Hvor straumurinn nær undirtökunum fer algjörlega eftir mættishita loftstraumanna þegar þeir mætast. Sá sem hefur lægri mættishitann fer undir hinn.

Textinn með síðasta kortinu er þungur undir tönn og varla fyrir nema áköfustu veðurnördin. Aðrir lesendur eru beðnir velvirðingar - en þeir þurfa ekki að lesa áfram.

w-blogg010313c

Hér sést háloftalægðardragið mjög vel. Miðja kuldapollsins er yfir Grænlandi og lægstu þykktartölurnar (um 4730 metrar) eru ekki alveg marktækar vegna hæðar jökulsins. En alltént er gríðarlegur þykktar- og hæðarbratti á milli Íslands og Grænlands. Hæðarbrattinn býr til vind sem blæs samsíða jafnhæðarlínunum, í þessu tilviki er hann á bilinu 40 til 45 m/s. Þykktarbrattinn samsvarar vindi upp á 60-65 m/s. Þótt það sé ekki raunverulegur vindur látum við samt svo og köllum þykktarvind. Vindur við jörð er vigurmismunur 500 hPa vinds og þykktarvindsins.

Svo vill til að þykktar- og hæðarbratti eru í þessu tilviki nokkurn veginn samsíða (yfir Grænlandssundi - en ekki sunnar í draginu). Við getum því afhjúpað vind við jörð með einföldum frádrætti. Við segjum suðvestanáttina pósitífa.: 40 m/s (vindur) - 60 m/s (þykktarvindur) = -20 m/s (við jörð). Mínusmerkið segir hann blása úr norðaustri. Vindur í Grænlandssundi er eftir þessu að dæma um 20 m/s og áttin norðaustlæg.

Nú gerist það að þegar lægðardragið breiðir úr sér til suðurs (mjóa örin) að það dregur úr hæðarbrattanum - án þess að þykktarbrattinn slakni jafnmikið (nýjar birgðir af köldu lofti koma stöðugt suður með austurströnd Grænlands. Hvað gerist þá? Fari hæðarbrattinn niður í 20 m/s en þykktarbrattinn haldist óbreyttur verður eftir -40 m/s vindur. Ekki gott það.

Evrópureiknimiðstöðin segir vindhámarkið í Grænlandssundi verða um 36 m/s síðdegis á sunnudag. Kalda loftið breiðir síðan úr sér og vindur jafnast nokkuð. Hversu sunnarlega norðaustanstormurinn nær er ekki enn vitað. Ameríska veðurstofan var nú í kvöld (fimmtudag) mjög svartsýn, setti vind í Reykjavík í 20 m/s í -6 stiga frosti og éljahreytingi á þriðjudag. Æ.

2.3. kl. 00:30 var ranglega merktum kortum skipt út, beðist er velvirðingar á mistökunum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 57
  • Sl. sólarhring: 123
  • Sl. viku: 1806
  • Frá upphafi: 2348684

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 1582
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband