Óvenjulegt veðurkerfi

Hríðarbylurinn sem gekk yfir landið í dag (miðvikudaginn 6. mars) er óvenjulegur. Það er t.d. ekki algengt að hríðarveður standi svo lengi í Reykjavík, meir en 3 athugunartíma samfleytt (meir en 9 klukkustundir - en minna en 12).  Þótt austanbyljir séu ekki svo fátíðir í Reykjavík standa þeir yfirleitt ekki nema í 3 til 5 tíma. Allmikið frost hélst allan tímann sem bylurinn stóð og þegar þetta er skrifað um miðnætti byldaginn er ekki hægt að segja að veðrinu sé lokið - þótt úrkomulítið sé.

Ef við notum sömu skilgreiningu og notuð er í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar, (tíðni hríðarveðra) finnum við 425 hríðarathuganir í Reykjavík frá 1949 að telja. Af þeim falla 177 (42%) á áttir milli norðurs og austsuðausturs eins og bylurinn í dag. Býsna fjölbreyttar veðuraðstæður eru þá uppi en auðvitað engar nákvæmlega þær sömu og voru í dag.

En við skulum ekki velta okkur of mikið upp úr því en líta á þrýstikort sem sýnir líka mættishita í 850 hPa.

w-blogg070313a

Enga lægð er að sjá nærri landinu. Þrýstilínur eru gríðarþéttar bæði yfir landinu vestanverðu sem og á Grænlandshafi. Hlýja bylgjan (lægðardragið) gengur vestur og mun um síðir mynda lokaða lægð á suðvestanverðu Grænlandshafi. Áhöld eru um hvort hlýja loftið kemst norðar en kortið sýnir. Ef trúa má líkaninu er mættishiti í 850 hPa hæð milli 6 og 8 stig á smábletti yfir Rangárvallasýslu á kortinu. Hiti fór reyndar í dag yfir 6 stig í hvassviðrinu við Markarfljótsbrú.

Þegar staða sem þessi kemur upp er oftast suðvestanátt yfir nyrsta hluta hlýja svæðisins - og þannig var það nú. Það sem var óvenjulegt í dag er að uppi í 5 kílómetra hæð var hæðarbeygja á vindinum - þar var hæðarhryggur - en ekki lægðardrag eins og algengast er. Þessu veldur væntanlega kuldapollurinn mikli sem við lentum í jaðrinum á. Hann tekur fast á móti - mun fastar í neðri lögum en þeim efri.

Vonandi fer veðrinu að slota - en þó segja spár að vindur eigi að þrjóskast við og eru ekkert allt of bjartsýnar með hitann heldur. Úrkoman í þessu óvenjulega veðurkerfi er varla heldur alveg búin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Snjórinn er moldugur,allt er þakið mold,sem hefur svifið með snjónum,hefði betur farið í pollagalla, því ég varð að skipta um föt eftir að hafa mokað bílinn út.

Helga Kristjánsdóttir, 7.3.2013 kl. 14:46

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rangæingar sluppu að mestu við hríðina en fengu í staðinn biksvartan öskubyl, og þegar áttin varð austanstæðari komust askan og moldin til Reykjavíkur.

Ómar Ragnarsson, 7.3.2013 kl. 21:28

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Já það hlaut að vera,hafði grun um eitthvað slíkt.

Helga Kristjánsdóttir, 7.3.2013 kl. 22:30

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Bestu þakkir fyrir ábendingarnar. Ég varð mjög var við þetta við skaflamokstur í morgun - efstu 10 cm skaflsins voru afburðaskítugir en skjannahvítur snjór undir. Skyggni var gefið mjög slæmt á Kirkjubæjarklaustri í veðurathugunum - en af völdum sandfoks en ekki snjókomu.

Trausti Jónsson, 8.3.2013 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 252
  • Sl. sólarhring: 304
  • Sl. viku: 1826
  • Frá upphafi: 2350453

Annað

  • Innlit í dag: 178
  • Innlit sl. viku: 1627
  • Gestir í dag: 169
  • IP-tölur í dag: 169

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband