Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Fyrstu 15 dagar febrúarmánaðar

Fyrri hluti febrúar hefur verið hlýr. Meðalhiti í Reykjavík er +3,0 stig, +2,6 stigum ofan meðallags áranna 1991-2020 og +2,9 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Raðast í þriðjahlýjasta sæti sömu daga á öldinni, hlýjastir voru þeir árið 2017, meðalhiti þá +4,1 stig, en kaldastir voru þeir í fyrra meðalhiti -2,5 stig. Á langa listanum raðast hitinn nú í 14. hlýjasta sæti (af 153). Hlýjast var 1932, meðalhiti þá 4,5 stig, en kaldast var 1881, meðalhiti -5,9 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú +2,4 stig, +3,2 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og 3,6 stig ofan meðallags síðustu tíu ára og sjöundahlýjast síðustu 90 árin.
 
Á spásvæðunum raðast hitinn yfirleitt í 3 til 4 hlýjasta sæti á öldinni, við Breiðafjörð í það fimmta. Miðað við síðustu 10 ár hefur að tiltölu verið hlýjast við Mývatn, hiti +4,5 stig ofan meðallags, en kaldast í Seley, hiti þar +1,5 stig ofan meðallags.
 
Úrkoma hefur mælst 91,2 mm í Reykjavík og er það hátt í tvöfalt meðaltal og það sjöttamesta sömu almanaksdaga frá upphafi mælinga. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 49,8 mm og er það nærri tvöföld meðalúrkoma, en langt frá meti þó. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 39,2 mm og er það í þurrara lagi.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 15,8 í Reykjavík, 13 stundum færri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 16,2 og er það í meðallagi.
 
Fyrsta vikan var illviðrasöm í meira lagi, en síðan hefur hægt um.

Ritstjórinn hrökk aðeins við

Við höfum stöku sinnum í gegnum tíðina litið á ýmsar ólíkindaspár „skemmtideildar“ evrópureiknimiðstöðvarinnar. Þær hafa langflestar verið þannig að ólíkindin hafa blasað við. Langalgengast er að slíkar spár rætist ekki. Spáin sem hér er bent á er þannig séð í svipuðum flokki nema hvað nokkuð þjálfað auga þarf til að átta sig á því hver ólíkindin eru. 

w-blogg140225a

Hér má sjá spá um hæð 500 hPa-flatarins og þykkt mánudaginn 24. febrúar 2025. Þetta er það langt í framtíðinni að ólíklegt er að þessi staða verði uppi þennan ákveðna mánudag. Í fljótu bragði virðist kannski ekki mikið „að“. Maður hrekkur þó við þegar maður áttar sig á því að það er febrúar, en ekki apríl - og það er norðanátt - og 500 hPa-flöturinn er nokkuð neðan meðallags - og að þykktin yfir landinu er nærri 100 metrum hærri en að meðallagi (það er 4-5 stigum hlýrra en í meðallagi) - í norðanátt. 

Leit að svipaðri stöðu í fortíðinni skilar líka heldur rýrri niðurstöðu. Það má kannski finna 2 eða 3 tilvik á því 75 ára tímabili sem áreiðanlegar háloftaathuganir hafa verið gerðar, en ekki fleiri - og þá aðeins að sveigjanleikaleyfi sé gefið. 

En ritstjórinn veit að skemmtideildin er ekki alveg áreiðanleg (mjög óáreiðanleg - ætti að segja) og hann vill því ekki enn leggja vinnu í að reyna að svara spurningunni um það hver sé hlýjasti norðanáttadagurinn sem komið hefur í febrúar - en ef þessi spá heldur - er sennilega rétt að leggja í alvöruleit. Leitargögn og fararskjótar eru fyrir hendi í þann leiðangur - ef frekara tilefni gefst til. En lesendur verða bara að trúa því að þetta er óvenjulegt - það sýna skyndiflettingar. 


Hvað gerum við í austanáttinni?

Eftir illviðri síðustu viku skipti yfir í hagstæðara veðurlag, til þess að gera hlýja austanátt. Viðbrigðin svo mikil að sumum finnst jafnvel að vor sé í lofti. Austanátt þessi virðist ætla að halda eitthvað áfram. Það er samt ýmislegt sem veðurnördin gefa gaum.

w-blogg130225a

Sjávarmálskortið hér að ofan gildir síðdegis á morgun, föstudaginn 14. febrúar 2025. Mikið lægðasvæði er sunnan við land, en öflug hæð yfir Grænlandi og hafinu þar austur af. Eindregin austanátt ríkir á stóru svæði, allt frá Noregi í austri vestur um til Labrador. Lægðin sem er langt suður af landinu grynnist, en ný og öflug lægð er við Nýfundnaland á austurleið - tekur við hlutverki hinnar fyrri í viðhaldi austanáttarinnar. Allt í sóma.

w-blogg130225b

Á háloftakortinu sem gildir á sama tíma má sjá jafnhæðarlinur 500 hPa-flatarins (heildregnar) og einnig þykktina (merkt með litum). Af legu jafnhæðarlína getum við ráðið að vindstefna í rúmlega 5 km hæð er aðeins suðlægari heldur en í mannheimum og vindstyrkur er töluvert minni. Jafnframt má sjá að nokkur þykktarbratti er yfir landinu, hlý tunga sunnan við, en kaldara fyrir norðan. Þessir tveir þættir, hæðar- og þykktarbratti leggjast hér saman - og styrkja austanáttina í neðri lögum. 

Háloftahæðarhryggur gengur til norðurs skammt austur af landinu, allt norður fyrir Grænland. Loftið sem „heldur honum uppi“ kólnar og þá veikist hann smám saman, nema hann fái meira hlýtt loft að sunnan sér til viðhalds. Kannski mun lægðin við Nýfundnaland sjá til þess? Fari svo munum við njóta lítið breytt veðurlags nokkra daga til viðbótar. 

En eins og venjulega í austanáttinni fylgjumst við náið með því sem gerist í háloftunum. Reiknimiðstöðvar eru nokkuð óvissar á framhaldinu. Evrópureiknimiðstöðin segir í dag að fleiri lægðir komi frá Nýfundnalandssvæðinu eftir helgina og verði smám saman ágengari - og að þá muni loftþrýstingur falla aftur - en hann er nokkuð hár í dag. Aðrar spár undanfarna daga hafa gefið til kynna að lægðirnar muni um síðir brjóta sér leið fyrir sunnan land og vindur muni þá snúast til norðaustanáttar og kólnandi veðurlags. Hæðarhryggurinn þokast þá vestur fyrir Grænland. Þriðji möguleikinn er að loft fyrir norðan land kólni í friði, þá mun vindur yfir landinu smám saman snúast til vesturs - þótt austanátt haldi áfram í mannheimum - austanáttin verði þannig bara plat. Í slíkum kringumstæðum getur margt gerst, en er yfirleitt til leiðinda. 

Það sem við gerum er að fylgjast með háloftavindum - og loftvog. Á morgun er vindur suðlægari í hæð heldur en neðar. Hlýtt loft streymir að (ekki af ákafa að vísu - en samt). Fari vindur í hæð að blása úr norðaustri eða austnorðaustri meðan vindur við jörð er úr háaustri er aðstreymið orðið kalt. 

Næg vinna framundan, en henni þarf þó ekki að sinna í langan tíma á degi hverjum - rétt að gefa loftvoginni, vindátt, háloftaathugunum yfir Keflavíkurflugvelli og þessum spákortum gaum. Horfum líka til himins - segja skýin okkur eitthvað? 


Drjúgur pistill um áhrif Grænlands

Við rifjum nú upp fornan pistil hungurdiska - sem endaði á orðunum „ég er að hugsa um að endurtaka þetta síðar eða bæta í, nóg er efnið“. Lesendur hungurdiska munu kannast vel við innantóm loforð af þessu tagi - þau eru víst drjúgmörg. Það sem hér fer að neðan er að mestu leyti samhljóma eldri pistli, en þó er bætt við skýringarmyndum og smávægilegar lagfæringar gerðar - vonandi til bóta - en ekki endilega.

Grænland hefur gríðarleg áhrif á veðurfar við norðanvert Atlantshaf og þar með hér á landi. Áhrifin einskorðast ekki við lofthjúpinn heldur sjávarhringrás líka. Austur-Grænlandsstraumurinn ber með sér bæði hafís og kaldan sjó til landsins, í mestu hafísmánuðum verður Ísland eins konar skagi út úr miklu meginlandi norðurheimskautsins. 

Því er stundum haldið fram að miklum kuldum stafi frá Grænlandsjökli og Grænland sé þannig eins konar kuldalind. Rétt er þó að tala varlega um slíkt, því oftar er málum öfugt farið. Loft kólnar að sönnu mikið yfir hájöklinum og streymir niður til allra átta, en við að falla niður til sjávarmáls hlýnar það um 20 til 30 stig. Loftið í kringum Grænland er líka stöðugt að kólna og hiti þess er því oftast lægri heldur en hiti loftsins sem streymir beint ofan af jöklinum.

Líkanreikningar hafa leitað skýringa á því hversu hlýtt er hér á landi miðað við breiddarstig. Loft- og sjávarstraumar valda langmestu (kemur ekki á óvart), en hins vegar má það koma á óvart er að hin lóðrétta hringrás sem kólnunin yfir jöklinum og þar með fallvindarnir niður af honum ná að eiga hlut í hlýindunum. Tvennt kemur til:

Loft sem annars hefði legið einskis nýtt í háloftum lendir í niðurdælingu yfir jöklinum og hluti þess leitar yfir Ísland og getur þar blandast niður í hvössum vindum yfir fjöllum hér. Kalda loftið af jöklinum kemst þó sjaldnast niður að sjávarmáli. Loft streymir nú samt niður eftir jöklunum. þar til það mætir kaldara lofti neðan við. Í stað þess togast efra loft niður og hlýnar það einnig þurrinnrænt (1°C/100 metra lækkun). Þetta niðurstreymi verður til þess að veðrahvörfin dragast niður og úr verður lægðarsveigja sem bætir heldur í sunnanátt á Íslandi og veldur því að hér er hlýrra en væri ef Grænland væri lágslétta nærri sjávarmáli - auk blöndunaráhrifanna áðurnefndu.

Sömuleiðis hindrar Grænland að loft frá nyrstu eyjum Kanada streymi til landsins. Kalt loft er þungt og það rekst á vegg við Grænland og verður að fara umhverfis það. Við fáum oft að kynnast lofti sem kemur að norðan meðfram austurströnd Grænlands. Það er miskunnarlítið, en loftið sem ætlar syðri leið verður að fara suður fyrir Hvarf og þar með fara yfir hlýjan sjó sem dregur mjög úr kulda þess, þó að vísu sé það oftast heldur hráslagalegt. 

Kuldinn sem fylgir Grænlandi er því ranglega kenndur því, en réttilega ísasvæðinu austan þess.

Þótt háhryggur Grænlands sé ekki „nema“ 2 – 3 þúsund metra hár hefur hann veruleg áhrif á framrás lofts í báðar áttir. Þegar vindur í neðri hluta veðrahvolfs er austlægur myndar Grænland fyrirstöðu og neyðir vind til að beygja úr austlægri í norðaustlæga stefnu (norðlæga norðan sjötugasta breiddarbaugs). Þar sem (grunnar) austanáttir eru tíðar á heimskautasvæðunum liggur kaldur norðan- og norðaustanstrengur langtímum saman meðfram Grænlandi, oft á skjön við þrýstilínur nærri ströndinni. Ganga má svo langt að kalla þetta hið eðlilega ástand á svæðinu. Þessi norðlægi straumur getur einnig drifið sig sjálfur ef svo má segja, án þess að vindur úr austri þrengi að. Slík norðanátt er þó að jafnaði hæg.

En þegar þrengir að strengnum mjókkar hann, en þykknar jafnframt og verður stríðari. Mörg illviðri hér á landi tengjast þessum streng og við viljum gjarnan kalla ástandið Grænlandsstíflu. Loftið sem kemur þá að landinu á sér oft mjög norðlægan uppruna og telst þá oft sérstakur loftmassi sem upphaflega er ekki eiginlegur hluti af hringrás lægðarinnar sem veldur suðaustan- eða austanáttinni sem þrengir að strengnum.

Nokkuð skörp skil verða þá á milli norðlæga loftsins annars vegar og þess sem sækir að úr austri. Freistandi er þá að teikna skil á kort, en hvers konar skil eru það? Þau tengjast oft engum lægðum. Við þessi skil má stundum sjá éljagarða sem eru mörg hundruð kílómetrar á lengd, ná frá Jan Mayen og langleiðina til Svalbarða. Kalsalægðir (öfugsniðnar) geta birst við þessa garða. [Við notum hér heitið „kalsalægð“ yfir erlenda hugtakið „Polar Low“, öfugsniðin kalsalægð er það sem á erlendum málum heitir „reverse shear polar low“). 

Stundum verður Ísland fyrir því að stífla sem verið hefur við Grænland norðaustanvert „brestur“ og kalda loftið fellur suður um Ísland, þá má oft greina eins konar kuldaskil við syðri brún kalda loftsins, skil sem eru ekki tengd neinni eiginlegri lægð. Þó myndast stundum kalsalægðir í þessu lofti eftir að það er komið suður fyrir land og valda þær leiðindum á Bretlandseyjum. 

Þegar loft kemur að Grænlandi úr vestri (mjög, mjög algengt) rekst það á fjalllendið. Það fer síðan eftir stöðugleika (og fleiru) hvernig framhaldið verður. Sé loftið stöðugt stíflast framrás loftsins og það leitar að jafnaði suður með landi og fyrir Hvarf. Sé þetta loft kalt fréttir austurströnd Grænlands (og Ísland) lítið af kuldanum fyrir vestan. Sé það óstöðugt gerist það sama - nema að óðstöðugleikinn nái hærra heldur en jökullinn (ekkert sérlega algengt). Það gerist ekki nema þegar loftið er afspyrnukalt upp í margra kílómetra hæð. En þá fréttist aldeilis af kalda loftinu. Það fer þá yfir jökulinn sem ekkert sé og fellur niður austurströndina í ofsastormi sem Grænlendingar kalla Piteraq. Ekkert getur bjargað málunum nema að loftið austan við sé enn kaldara en það sem að vestan kemur.

Við erum því með ýmis tilbrigði þess hvað verður þegar loft kemur að Grænlandi að vestan.  Algengt er að niðurstreymi sé austan Grænlands í vestanátt, loft í niðurstreymi hlýnar, en vegna þess að loft í neðri lögum austan við er fremur kalt, nær niðurstreymið aldrei til jarðar en niðurstreymishitahvörf myndast við efra borð kalda loftsins. Er eins og teppi hafi verið lagt yfir það loft sem neðst liggur. Þá þornar oft og léttir til hér á landi, á sumrin hlýnar jafnvel þó kuldaskil fari yfir. Rakastig getur fallið nokkuð rösklega.

Hér á hungurdiskum höldum við upp á þykktina, stikann sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hæstu þykktartölur sem sjást í tölvuspám hér við land eru oftast tengdar niðurstreymi við Austur-Grænland að sumarlagi. Þar sést hinum afskaplega sjaldséðu 5700 metrum bregða fyrir. Nánast vonlaust er þó að ná þessu lofti yfir til Ísland og þar að auki ná því niður - vonbrigðaveður. 

Lægðardrög myndast gjarnan milli Ísland og Grænlands þegar vestanátt ef yfir Grænlandi  og hangir þar fast vegna þess að það er bundið niðurstreyminu. Þá snýst vindur til suðvestanáttar hér á landi og algengt er að þokusudda reki þá að vestanverðu landinu. Þá kemur upp sú aðstaða að suðvestanáttin sem getur verið býsna hlý á vetrum er samt kaldari en niðurstreymisloftið sem myndar teppið.

w-blogg110225d

Efri hluti myndarinnar á að sýna teppi, þversnið frá vestri til austurs (austur lengst til hægri). Loft streymir ofan af Grænlandsjökli, en það er ekki nógu kalt til að hreyfa við enn kaldara lofti sem liggur meðfram ströndinni - það loft er e.t.v. komið alla leið úr norðurhöfum - eða hefur farið suður fyrir Hvarf. Teppið er oft ofan Íslands. Veðrahvolfið bólgnar þegar loftið hlýnar og halli myndast á veðrahvörfunum (rauð lína). Af hallanum getum við ráðið að vindur þar uppi blæs inn í myndina, þar er suðlæg vindátt. 

Sé loftið austan Grænlands hins vegar hlýrra en það sem er á leið yfir jökulinn kemst kalda loftið alveg niður að sjávarmáli austan við og myndast þá mjög kröftug lægð milli Íslands og Grænlands. Sé fallið mjög víðtækt og stórfellt dragast veðrahvörfin mjög niður, og lægð getur myndast. Stundum má sjá straumstökk, mikla lyftingu veðrahvarfanna rétt austan við niðurstreymið, þar uppi kólnar loft þá mjög og oft má sjá mikinn skýjafald myndast. 

Sé málum öðrum þannig háttað að lægðin sem þarna myndast - eða styrkist er á leið til norðausturs gerir venjulega útsynningsillviðri með tilheyrandi særoki hér á landi. Úrkoma er þá lítil vegna þess hvað loftið sem fellur niður af Grænlandi verður þurrt. Þó það fari síðan yfir hlýjan sjó til Íslands nær það ekki að rakamettast vegna þess hve hvasst er (tími hvers loftbögguls yfir sjónum er lítill).

Sé háloftabylgjan á leið suðaustur á hún sem slík mun meiri vaxtarmöguleika. Fer það eftir braut bylgjunnar hvað gerist við Ísland. Ef hún er norðarlega gerir norðanáhlaup. Fari hún yfir mitt Grænland getur fyrst gert suðvestanátt en síðan norðaustanáhlaup. Einnig festast lægðirnar stundum á Grænlandshafi og losna ekki. Þá dælist suðlægara loft til Íslands.

Stundum þegar Grænland stíflar framrás kulda úr vestri nær loftið að krækja suður fyrir í mikilli vindröst sem getur náð til Íslands (þó algengara sé að hún haldi til austurs fyrir sunnan land). Loftið sem fer þessa leið mætir þá lofti sem annað hvort hefur lent í niðurstreymi austan Grænlands og er þá þurrt og tiltölulega hlýtt, eða þá hefur sigið suður austan Grænlands og er mjög kalt. Við skilyrði af þessu tagi myndast gjarnan élja- eða vindgarðar frekar en lægðir yfir Grænlandshafi.

w-blogg110225c

Rissið á myndinni tekur saman helstu punkta hér að ofan. Bláu línurnar eru hið „eðlilega ástand“. Allt er í jafnvægi kalt loft leitar sína leið suður með Austur-Grænlandi. Loft sem kemur að vestan hefur oftast tilhneigingu til að beygja fyrir Hvarf, þar er vindröst sem síðan dreifir úr sér á Grænlandshafi (ljósbláar örvar). Græna örin sýnir hvernig háloftavindar sveigja þegar mikið af köldu lofti fellur niður við Austurströnd Grænlands (Piteraq). Rauða örin sýnir mun algengara ástand, loft að vestan lyftist yfir Grænland, en kemst ekki niður hinu megin og býr til teppi. Gráa örin á að minna okkur á stíflumyndunina, oftast eru stífluáhrifin mest yfir Grænlandssundi, en mjög mörg mjög slæm illviðri hér á landi eru stífluættar. 

w-blogg110225e

Hér má sjá - til minnis - nokkrar lægðabrautir við Grænland. Lægðir sem koma frá Labrador fara oft norður með vesturströnd Grænlands (iii-a) og oft klofna nýjar lægðir frá þeim við Hvarf. Þessar nýju lægðir fara sína leið, stundum austur, en alloft beint til Íslands líka. Norðanlægðirnar eru einkum þriggja gerða. Þær sem koma beint úr norðri og halda nánast beina leið til suðurs (iv-a), en hlykkjast síðan suðaustan við Ísland (því Ísland er ekki áhrifalaust). Þetta eru oft hættuleg veður - og voru enn hættulegri hér áður fyrr fyrir tíma tölvuspáa og enn frekar fyrir tíma veðurskeyta. Gera lítil boð á undan sér, jafnvel skýlausar. Liggi háloftastraumar yfir Grænland kemur oftast hlykkur á þá þegar loftið fer að falla niður af jöklinum (og suðurstefnan hjálpar til, iv-b). Sé leið lægðarinnar svipuð og merkt er iv-c eru líkur til að suðaustanátt nái sér á strik við Ísland þegar lægðin dýpkar á Grænlandshafi. 

En Grænland hefur líka áhrif á vindáttatíðni við Ísland. Við rifjum hér upp gamla mynd sem sýnir áttatíðni ofviðra á Íslandi.

w-blogg110225f

Reiknuð er út meðalvigurstefna vinda á landinu þegar illviðri ganga yfir - og hún sett fram sem vindrós lögð ofan á kort af svæðinu. Eftirtektarvert er hversu lítið er um illviðri á áttabilinu hávestur yfir í norðnorðvestur - og einnig úr hreinni suðaustanátt (yfir öllu landinu). Hér má sjá áhrif bæði Grænlands og Íslands. En sennilega er kominn tími á að endurnýja þessa mynd. 

Við látum hér staðar numið (og lofum ekki framhaldi - það ræðst bara). 

 


Fyrstu tíu dagar febrúar 2025

Fyrstu 10 dagar febrúarmánaðar 2025 hafa verið hlýir - en harla illviðrasamir. Meðalhiti í Reykjavík er +2,5 stig, +2,5 stigum ofan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020 og +2,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 5. hlýjasta sæti (af 25) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2017, meðalhiti þá +3,4 stig, en kaldastir voru þeir 2009, meðalhiti -3,7 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 24. hlýjasta sæti, af 153. Hlýjast var 1965, meðalhiti þá +6,0 stig, en kaldast var 1912, meðalhiti -7,8 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú +3,1 stig, +4,5 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +4,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára, sjöttahlýjasta febrúarbyrjun síðustu 90 ára.
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Norðurlandi eystra, þar er hitinn þessa tíu daga sá næsthæsti á öldinni, en við Breiðafjörð og á Vestfjörðum er hann í 7. hlýjasta sæti.
 
Á einstökum veðurstöðvum hefur, miðað við síðustu tíu ár, verið hlýjast á Egilsstöðum, hiti þar +6,0 stigum ofan meðallags. Kaldast að tiltölu hefur verið á Lambavatni á Rauðasandi, hiti þar +1,3 stig ofan meðallags.
 
Úrkoma hefur verið óvenjumikil. Hún hefur mælst 88,7 mm í Reykjavík, það mesta sömu daga á öldinni og hefur aðeins tvisvar mælst meiri sömu daga (það var 1991 og 1921). Á Akureyri hefur úrkoman mælst 49,7 mm, en 33,7 á Dalatanga. Í Reykjavík og á Akureyri er um meir en tvöfalda meðalúrkomu að ræða, en á Dalatanga er úrkoman um 80 prósent meðallags,
 
Sólskinsstundir hafa mælst 8,8 í Reykjavík, um 10 færri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 5,3, 5 færri en í meðalári.
 

Töluverð breyting

Nú virðist verða töluverð breyting á veðurlagi. Fleygur af köldu lofti ryðst frá Kanada út yfir Atlantshaf eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

w-blogg110225a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 á morgun (þriðjudag 11.febrúar). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Hún er lítil þar sem kalt er (bláir litir). Við sjáum fleyg af köldu lofti stefna til austurs langt fyrir sunnan land. Lág veðrahvörf fylgja kalda loftinu og þegar það ryðst til austurs snýst vindur í háloftum til austurs fyrir norðan kalda fleyginn og ber um hríð hlýrra loft til landsins. Loftið sem umlykur landið er þó ekki afbrigðilega hlýtt, þykktin yfir landinu miðju um 5330 metrar. Það er þó um 90 metrum hlýrra en að meðaltali (um 4 stig). 

Rifjar upp gamla mynd úr lagerhillu ritstjóra hungurdiska.

w-blogg110225b

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í febrúar 1991 til 2020 og meðalþykkt. Suðvestanáttin eilífa ríkir að meðaltali í miðju veðrahvolfi, örlítið suðlægari reyndar í febrúar en öðrum mánuðum - það eru áhrif frá meginlandinu Ameríku - þar liggur kalt loft (og lág veðrahvörf) sunnar en í öðrum mánuðum. Bláu örvarnar sýna hvað gerist þegar fleygar af köldu lofti ryðjast inn á svæðið. Þeir sem koma úr vestri hafa tilhneigingu til að snúa vindi til austlægari áttar í háloftum hér á landi (mismikið auðvitað eftir styrk), en þeir sem koma úr norðri bæta í vestanáttina í háloftunum. Takið eftir því að sá snúningur sem fleygarnir valda er í báðum tilvikum hægrihandargrip - þumall út úr myndinni fylgi aðrir fingur örvarstefnunni. 

Þetta gefur kannski tilefni til að rifja upp setningu úr gömlum pistli hungurdiska (29. júní 2011) - þar sem ritstjórinn segir í lokin: Ég er að hugsa um að endurtaka þetta síðar eða bæta í, nóg er efnið. 

Hér að neðan verður það endurtekið - en ekki fyrr en á morgun. 


Vattarneshviður (og hugtökin snúði og snælda)

Ritstjóri hungurdiska þykist hafa séð fréttir af foktjóni í miklum vindhviðum við Vattarnes í illviðrinu á dögunum. (Illa gengur þó að finna fréttir um það á netinu - ábendingar vel þegnar). Á Vattarnesi var sett upp sjálfvirk veðurstöð árið 2000 og hefur athugað síðan. Fyrir löngu, á árunum 1931 til 1944 var þar skeytastöð, athugunarmenn þeir Þórarinn Grímsson Víkingur (1931-1941) og síðan Sigurbjörn Guðjónsson. Skeytasendingum var síðan haldið áfram á Djúpavogi, 1944 til 1961 og á Kambanesi 1961 til 1992, en þar var þá sett upp ein fyrsta af sjálfvirkum stöðvum Veðurstofunnar. Tókst þannig allan þennan tíma að halda uppi skeytasendingum frá stöðvum á sunnanverðum Austfjörðum þar sem sá á haf út. 

En veðrið á dögunum var mjög hart víða á Austfjörðum, eftir fréttum að dæma varð mest tjón í Stöðvarfirði, en einnig fauk á Vattarnesi. Þar hefur ritstjóri hungurdiska aldrei komið og á síðari árum er staðurinn kominn mjög úr alfaraleið. Ritstjórinn fékk senda ábendingu um frétt af tjóni í veðrinu á Vattarnesi - og kann sendanda bestu þakkir fyrir.

vattarnes_klippa_landmaelingar_atlasblad_gerpir 

Kortaklippunni hér að ofan er nappað úr atlaskortasafni Landmælinga Ísland og sýnir Vattarnes og nágrenni. Við þykjumst strax sá að um hviðuvænan stað er að ræða, fjallshryggur með bröttum tindum og hafið þar fyrir utan. Hviðurnar gætu svosem verið af fleiri en einni gerð.  

w-blogg090225a

Línuritið tekur saman vind á veðurstöðinni frá því kl.1 aðfaranótt miðvikudagsins 5. febrúar  (2025) til kl.16 laugardaginn 8. Bláu súlurnar sýna mesta 10-mínútna meðalvind hverrar klukkustundar. Það vekur athygli að hann er ekki sérlega hár, fór mest í 21,5 m/s að kvöldi þess 5. Rauði ferillinn les aftur á móti vindhviðurnar. Þær eru ógurlegar, allmargar fara upp fyrir 50 m/s og sú stríðasta sem mældist fór upp í 54,8 m/s. Menn reikna gjarnan svokallað hviðuhlutfall. Hægt er að skilgreina það á fleiri en einn veg, en hér reiknum við hlutfallið á milli hámarksvinds klukkustundar (10-mínútur) og mestu hviðu sömu klukkustundar (hægri kvarði á línuritinu, grænir punktar). Oft er hviðuhlutfallið hærra en 3, vindhraði í mestu hviðu er meir en þrisvar sinnum meiri heldur en meðalvindurinn. Hér er mikið í lagt. Algengasta hviðuhlutfall er 1,2 til 1,4, en tölur um 2 og þar rétt fyrir ofan má einnig teljast algengt, en tíðni á hærri tölum er töluvert minni. 

Fleiri en ein ástæða getur verið fyrir hviðum af þessu tagi. Oftast er talað um að vindi úr efri loftlögum (þar sem vindur er mun meiri en nær jörðu) „slái niður“ vegna kviku vegna bylgjumyndunar eða bylgjubrots við fjöll. Í sjálfu sér ekki ólíklegt hér. 

Fyrir mjög mörgum árum fór ritstjóri hungurdiska að fylgjast með vindhviðum við Borgarnes. Það var auðvelt, fjörðurinn blasti við út um glugga á heimili foreldra hans og hviðurnar sáust sem særok, og var særokið oft í til þess að gera kröppum hvirflum sem bárust með vindinum, en í hvirflunum sjálfum var vindhraði mun meiri heldur en utan við. Hvirflar þessir héldu loft lögun og afli kílómetrum sama og ef þeir komu inn á Nesið fuku lausir hlutir gjarnan til. 

Eftir að hafa fylgst með þessu árum saman fór ritstjórinn að taka eftir því að langflestir sveipirnir (ekki alveg allir þó) höfðu vinstrihandarsnúning - öfugt við snúning jarðar og þann sem er í kringum lægðir. Þessi hegðan var svo áberandi að leita varð skýringa. Ekki gott að segja hvort sú skýring sem hér er gripið til er sú rétta, en það má reyna að nota hana. [Það sem hér fer á eftir flokkast sem fimbulfamb - er við fárra hæfi].

Núningur á milli vindstrengsins við Austfirði annars vegar og fjallshlíðar/strandar hins vegar býr til (hægri) iðu yfir ströndinni. Í grófum dráttum er hægt að segja að „margfeldi“ vindhraða og iðu varðveitist. Þetta margfeldi heitir á erlendum málum „helicity“. Ritstjórinn vill, með góðu eða illu, hafa íslensk nöfn á hugtökum. Eftir töluverð vandræði datt honum í hug að kalla þetta snúða upp á íslensku. Nafnið ber þá í sér einhverja tilvísun til snúnings.

Það er snúðinn sem varðveitist. Þegar vindstrengurinn sterki er kominn fyrir Hafnarnesið missir hann aðhald landmegin, úr honum dregur, en við það losnar um iðuna, hún fær að leika lausum hala sem skrúfvindar og rokur, nánast logn á milli, en fárviðri í byljunum. Þessa kenningu (ef kenningu skyldi kalla) mætti kanna með því að telja hlutfall hægri og vinstrisnúnings á hvirflunum yst í Reyðarfirði - í sunnanátt. Sé hlutfall hægrisnúnings mun hærra heldur en vinstrisnúnings (öfugt við það sem er á Borgarfirði) vaxa mjög líkur á að eitthvað sé til í þessari kenningu. Sé hlutfallið jafnt eru önnur ferli líklegri sem skýring - sé vinstrisnúningur algengari gætu aðrir landslagsþættir komið við sögu. 

Fyrst að búið er að nefna snúðann er freistandi að fullgera brandarann með því að nefna einnig hugtakið snældu - því tengist annað ótrúlegt (en næsta raunverulegt) varðveislulögmál. Hér er snælda þýðing á erlenda hugtakinu „enstrophy“. Iða er vigureigind eins og áður sagði. Jörðin snýst í hægrisnúningi, jarðiðan er skilgreind sem jákvæð, vinstrihandarsnúningur neikvæður. Snælda er skilgreind sem iða í öðru veldi (deilt með tveimur) - og mælir því magn iðunnar - hvort sem hún er neikvæð eða jákvæð. Snælda er því mælikvarði á „beygjumagn“ (sem er miklu ljótara orð). Komi kröpp beygja á loft - verður að rétta úr einhvers staðar nærri - segir lögmálið. En til huggunar má segja að snældulögmála er aðeins getið í örfáum veðurfræðitextum - ritstjóri hungurdiska vill bara eiga þýðinguna á lager - aldrei að vita hvenær hún kemur að gagni (eins og Hans klaufi sagði gjarnan). 


Smávegis af illviðrinu á dögunum

Illviðrið á dögunum skoraði mjög hátt á öðrum illviðravísi ritstjóra hungurdiska, þeim sem hann kennir fremur við snerpu heldur en úthald. Úthaldsvísirinn var að vísu nokkuð hár líka, en það spillti fyrir honum (ef svo má segja) að veðrið var ekki nema rúmlega sólarhrings langt, skiptist á tvær dagsetningar, hefði skorað betur hefði það hitt betur í. Úthaldsvísirinn mælir meðalvindhraða sólarhringsins í byggðum landsins. Til að vera listatækur þarf meðalvindurinn að ná 10,5 m/s. Hann var 12,0 m/s miðvikudaginn 5., en 11,2 m/s fimmtudaginn 6. 

Til að verða listatækur á snerpulistanum þarf hámarksvindur (10-mínútna meðaltal) að ná 20 m/s á að minnsta kosti fjórðungi veðurstöðva í byggð. Það hefur hann gert þrjá daga það sem af er febrúar, þann 1. fór hlutfallið í 36 prósent, en 69 prósent þann 5. og 64 prósent þann 6. Svo háar tölur sjást aðeins á 3 til 5 ára fresti. 

w-blogg080225a

Á myndinni eru tveir ferlar. Sá rauði (hægri kvarði) sýnir meðal-hámarksvindhraða í byggðum landsins á klukkustundar fresti dagana 28. janúar til 6.febrúar. Við sjáum nokkur vindhámörk þessa daga, mestu topparnir eru þann 1, þegar klukkustundargildið nær 15 m/s og síðan í veðrinu mikla þegar meðal-hámarksvindhraðinn nær 19,4 m/s. 

Dökki ferillinn (bláar súlur) sýnir hins vegar þrýstispönn landsins, mun á hæsta og lægsta þrýstingi sömu klukkustundar. Það kemur varla á óvart að ferlarnir tveir falla saman að mestu, enda ræður bratti þrýstisviðsins mestu um vindhraða. Mest fer þrýstispönnin í 33,6 hPa síðdegis á miðvikudag. Þessi einfaldi kvarði hefur þann ókost að hann segir ekkert til um fjarlægðina sem spönnin nær yfir. Sambandið er því ekki alveg það sama í vestlægum/austlægum áttum og norðlægum/suðlægum vegna þess að landið er lengra frá austri til vesturs heldur en frá norðri til suðurs. Með lipurri forritun mætti þó lagfæra þennan ókost. 

Þótt þétting þrýstiathuganakerfisins á undanförnum 20 árum valdi því að spönnin vaxi lítillega getum við samt notað það samband sem við finnum nú til að meta ýmis eldri veður, óháð öðrum upplýsingum, jafnvel langt aftur í tímann, áður en vindhraðamælingar urðu jafn áreiðanlegar og samfelldar og nú er. 

Við minnum á metingspistil Veðurstofunnar um illviðrið, þar má einnig lesa um vel heppnaðar spár. Við notum einnig tækifærið til að minna á gamlan pistil hungurdiska um halaveðrið svokallaða, en í dag, 8. febrúar eru einmitt 100 ár frá því það gekk yfir landið.  


Eldingaábendi

Þrumuveðrið sem gekk yfir vestan- og sunnanvert landið í gær (miðvikudag 5.febrúar) fór ekki framhjá ritstjóra hungurdiska, hann minnist þess varla að hafa að vetrarlagi séð svo marga eldingarglampa á stuttum tíma. En hafa verður í huga að hann svaf af sér hið mikla eldingaveður sem gekk yfir snemma morguns þann 15.febrúar 1959 - óskiljanlegt - því aðrir íbúar hússins vöknuðu - og eldingu sló niður í Borgarneskirkju sem þá var í byggingu og olli nokkru tjóni. Kannski var þetta atvik eitt þeirra helstu sem kveiktu áhuga verðandi veðurnörds?

Það sem kom e.t.v. enn meira á óvart að þessu sinni var að eldingaveðri þessu var reyndar spáð með meir en tveggja sólarhringa fyrirvara. Spáð já, en sú spá þurfti samt ákveðna túlkun því spár af þessu tagi eru svo nýtilkomnar í því veðurlagi sem hér ríkir að ef vel á að vera þarf reynslu til að spárnar verði nýtingarhæfar. Þá reynslu hefur ritstjórinn ekki. Það kemur í hlut annarra að gera grein fyrir þessu ákveðna eldingaveðri og þeim spám sem hefði mátt nota til að segja fyrir um það. 

En nú ber svo við að eldingaábendi þetta er einnig að gera ráð fyrir allmiklum líkum á eldingum  um landið vestanvert í kringum hádegi á morgun (föstudaginn 7.febrúar) og enn og aftur síðla nætur aðfaranótt laugardags. Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér þó til þess að taka mark á þessu - né hafna möguleikanum. Hann hefur einfaldlega ekki þá reynslu sem til þarf, en vonandi er að einhverjir „unglingar“ grípi boltann. 

Ritstjórinn mun hins vegar á næstunni klóra sér eitthvað í höfðinu yfir ástæðum þrumuveðursins í gær. Eins og eitt uppáhaldsorðtak hans segir: „Það er mjög auðvelt að finna skýringar, en mjög erfitt að finna réttar skýringar“. Það er auðvelt að finna eyju á Breiðafirði, en rétt eyja - það er allt annað mál - og krefst þekkingar. 

 


Stöðvarfjörður

Mikið illviðri hefur gengið yfir landið undanfarna daga, einkum í gær (miðvikudag 5.febrúar) og í dag (fimmtudaginn 6.). Svo virðist sem einna mest tjón hafi orðið í Stöðvarfirði. Meðan við bíðum eftir því að allar tölur berist á ritstjórnarskrifstofu hungurdiska (og veðrametingur geti hafist þar) skulum við rifja upp fáein illviðri sem komið hafa við sögu í firðinum. Til að fletta notar ritstjórinn atburðaskrá hungurdiska - töflu sem hann tók saman fyrir um áratug. Unnið hefur verið að þéttingu skrárinnar á undanförnum árum, en lítið er þar þó um nýlega viðburði. Ritstjóranum finnst einhvern veginn að önnur nörd (eða jafnvel opinberir aðilar) geti þar bætt um betur - en e.t.v. hefur enginn eða ekkert áhuga á slíkri vinnu.

Hvað um það. Ekki er mikið um illviðratíðindi frá Stöðvarfirði fyrr en um miðja síðustu öld. Ekki er þó hægt að ætla að þar hafi verið illviðralaust með öllu því við eigum til prýðilega lýsingu á vindum í firðinum. Höfundur hennar er séra Magnús Bergsson sóknarprestur í Stöð og er hún dagsett á gamlársdag 1839 (nálgast 200 árin). Magnús var því fljótur að svara tilmælum sem Hið íslenska bókmenntafélag beindi til klerka víðs vegar um land. Voru þessi tilmæli í spurningaformi. Beðið var um lýsingar á sóknum og háttum manna. Átta spurningar voru sérstaklega um veður. Svör Magnúsar eru meðal þeirra ítarlegustu í safninu. 

austurland_franskt_1833_dk001474_klippa-stodvarfjordur

[Kortaklippunni er stolið af vef danska þjóðskjalasafnsins. Það kom út í Frakklandi 1833].

Við rifjum hér upp svar Magnúsar við 22. spurningu í lista félagsins - og dáumst að orðfæri hans [xxii: Er þar veðrasamt? Og af hvörri átt og um hvörn tíma árs, mest eður minnst?]:

Í hreinni landátt er sveitin að kalla veðrasæl því sögn manna er að þar sjaldan sem aldrei komi stórveður af norðri, því er þar oft blíðalogn eða lítil kylja af þessari átt þegar í sveitunum hvoru megin, einkum Breiðdal, er grenjandi gustur af norðri. Hér leiðir það líka að í snjóvatíð rífur þar aldrei til jarðar, þar einungis þotvindur setur snjóinn í harðfennisfergjur, og yfir höfuð oftast í hörðustu vetrum minnstir landvindar.

Af hafaustri, austri, norðaustri, norðri og vestri koma þar engin veður er telja megi en af suðri, eður öllu fremur landsuðri, koma þar veður hin ógurlegustu, það standa stundum af miðjum fjöllunum sunnan megin fjarðarins og eru þá hörðust út í sveitinni en stundum standa þau fyrir andnes sömu fjalla; standa þau þá inn fjörð og eru hörðust á innsveitinni. Harka og afl þessara veðra framúrskarandi og ógurlegt, þau taka fjörðinn frá ysta til innst í einlægt rok upp á móts við tinda, flytja stundum steina úr stað, sem eru meðalmanns tak, rykkja jafnvel hálffreðnum þökum af húsum, kippa króm og hjöllum frá veggjum og endog rífa naglföst borð af húsræfrum. Um afl og óstjórn veðra þessara eru margar sögur, sem ótrúlegar virðast mættu, hvörra hér verður ei getið. Af því þetta ætíð eru þíðuveður fylgist og með þeim áköf stórrigning er eykst af vatnsdrífi því sem stormurinn með sér flytur, endog upp til dala, svo að þó áfrör og snjóar liggi á jörðu verður á skömmum tíma öríst. Þetta eru kölluð landsynningsveður og stendur á þeim dægrið, hálft annað og mest tvö dægur í senn, oftar linnir þeim upp á þann máta að hann snýr sér til norðvesturs og skírist þá loftið, en oft stendur ei nema litla stund á hvíld þeirri, mest tvo til þrjá daga.

Líka ber við að af norðvestri koma veður sem lítið gefa eftir landsynningnum að hörku nema hvað þau jafnvel fara fram með enn sviplegri rykkibyljum. Þessi veður eru oftast milli frosts og hláku en og stundum frostveður, en þó ber við að þau hafa snjóburð með sér. Þessi norðvestanveður sýnast því að vera sama átt sem landsynningur því á þeim stendur skamma stund og þegar hann gengur úr þeim gengur upp með landsynningsveðrið; sjaldan eru landsynningsveður nema í bestu vetrum en það er merkilegt að þau byrja með hausttímanum og hætta með vortímanum. Þeirra verður aldrei vart á sumri og það er ei þó hann sé að sunnan og útsunnan enda mundu þau þá og gjöra bráðan og óbætanlegan skaða á heyjum og fleiru.

Vafalítið má telja að þessi lýsing séra Magnúsar eigi enn vel við vindafar í firðinum - geri aðrir betur. 

Síðan segir fátt af vindum í Stöðvarfirði fyrr en tjóns í hvassviðri er getið árið 1956. Þann 1. febrúar það ár gerði aftakaveður á landinu - um það má lesa í sérstökum pistli hungurdiska. Þar á meðal er stutt frétt um tjón í Stöðvarfirði:

Tíminn 3.febrúar 1956: Stöðvarfirði í gær. Í fárviðrinu í fyrrinótt urðu talsverð spjöll í Stöðvarfirði. Á Háteigi, sem er sveitabýli í firðinum fuku fjárhús og hlaða. Missti bóndinn þar talsvert af heyi og varð fyrir tilfinnanlegu tjóni. Það verður þó að teljast mikil heppni, að kindur, sem voru í fjárhúsinu sakaði ekki. Stóðu þær allar eftir lifandi í fjárhústóftunum, þegar húsin sjálf höfðu fokið ofan af þeim. Í Stöðvarfirði var veðrahamurinn mestur eftir hádegi í fyrradag og lengi nætur í fyrrinótt.

Næstu stórfréttir af foki í firðinum urðu haustið 1963. Þá gerði annað aftakaveður sem hungurdiskar hafa líka fjallað um sérstaklega. Við rifjum hér upp frásögn Morgunblaðsins sem birtist 26. október:

Stöðvarfirði, 25.október. Á miðvikudaginn [23.] brast hann á með sunnan- og suðvestan roki. Annað eins veður hefur hér ekki komið í mörg ár. Fuku margar járnplötur af húsum og þrír bátar, sem lágu á legunni sukku. Það voru 2 trillubátar og einn 9 tonna dekkbátur. Kafari var fenginn frá Norðfirði og vann hann að því í dag að ná dekkbátnum upp. Haft er eftir kafaranum, að bátnum hafi hvolft, því bæði möstrin væru brotin. Síðdegis i dag tókst að ná dekkbátnum upp og var hann talsvert skemmdur. Trillubátunum tókst að ná upp í gær. Það verk unnu eigendur þeirra með aðstoð hjálpfúsra. Bátarnir voru lítið skemmdir. — Tíðarfar hefur verið fjarska umhleypingsamt í haust, en sumarið var yfirleitt ágætt. Stefán.

Árið 1972 varð stórtjón vegna sjávargangs á Austurlandi - þar á meðal í Stöðvarfirði. Frá þessu veðri er sagt í samantekt hungurdiska um árið 1972. Í fregnum frá Stöðvarfirði er tekið fram að ekki hafi verið tiltakanlega hvasst þegar sjávarflóðið varð. Við látum því nægja að vísa í fyrri pistil - þar er lýsing á aðstæðum. 

Í mars 1976 varð tvisvar foktjón í Stöðvarfirði, fyrst þann 5. og síðan þann 21. Djúpt virðist á fregnum af þessu tjóni í blöðum, við vitnum hér í smáklausu í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar. Þar segir: [5.] „urðu allmiklar skemmdir á húsum í Stöðvarfirði, járn fauk af þökum og þak fauk í heilu lagi“, og [21.] „skemmdir urðu á hafnarmannvirkjum i Stöðvarfirði og Breiðdalsvík. Járn fauk af húsum og vinnupallur fauk“. Kannski var fréttamat annað heldur en nú er.

Foktjón varð einnig tvisvar á Stöðvarfirði í desember 1982, þann 1. og 19. Fyrra veðrið var þar mun verra en hið síðara (en það síðara mun verra á landsvísu): Morgunblaðið segir frá 2.desember 1982:

Stöðvarfirði, 1.desember. Sunnan óveður gekk yfir Stöðvarfjörð í dag og urðu miklar skemmdir á húsum og bílum. Hvessa tók upp úr hádegi, en verst var veðrið um klukkan 16:00. Þakjárn fauk af mörgum húsum, stór hurð fauk af frystihúsinu og einnig fauk hurð af skemmu við síldarbræðsluna. Bílar fuku út í skurði og einnig brotnuðu rúður í nokkrum bílum og rúða brotnaði í barnaheimilinu og voru börnin send heim. Veðrið gekk fljótt yfir og um sexleytið í dag var farið að lygna aftur. Ekki er vitað um heildartjón i bænum, en ljóst að tjón hefur orðið talsvert. S.G.

Ekki þurfti að bíða mörg ár eftir næsta foktjóni á Stöðvarfirði, Morgunblaðið segir frá 4. febrúar 1986:

Stöðvarfirði, 27.janúar. Aðfaranótt sunnudagsins 26. janúar. sl. varð þó nokkurt tjón í suðaustan roki á Stöðvarfirði. Félagar úr Björgunarsveitinni Björgólfi voru fyrst kallaðir út skömmu eftir miðnætti, en þá höfðu m.a. fokið járn- plötur af húsum, rúður brotnað og ýmislegt fleira gengið úr lagi. Um kl.2 hafði verið lokið við lagfæringar á helstu skemmdunum og var þá mikið farið að lægja. Bjuggust flestir við því að eiga náðugar stundir það sem eftir lifði nætur. En það var bara lognið á undan storminum því um kl.5 sömu nótt hvessti hann aftur. Var áttin þá austlægari og sýnu hvassara en í fyrra áhlaupinu. Fyrst fauk stór hluti útihúsa og í sömu rokunni þeyttist lítill árabátur 2—300 m og gjöreyðilagðist. Höfðu þó festingar hans verið treystar fyrr um nóttina. Brak úr útihúsunum mun hafa skemmt 2 íbúðarhús og bíl, en rúður brotnuðu í nokkrum farartækjum. Mesta tjónið varð þó við höfnina, en þar skemmdust 2 bátar, sem stóðu uppi á landi. Tókst þó að afstýra frekara tjóni með dyggri framgöngu smábátaeigenda og björgunarsveitarmanna, sem voru á þönum þar til veðrið fór að lægja. Ekki urðu teljandi skemmdir á smábátum þeim, er voru á floti í höfninni. Félagar úr björgunarsveitinni unnu allan sunnudaginn meðan að birtu naut við að tína saman járnplötur og hreinsa til eftir óveðrið. Steinar.

Á þessari öld er þess tvívegis getið í atburðaskránni að gámar hafi fokið í Stöðvarfirði og valdið skemmdum. Það var 6.janúar 2002 og 6.nóvember 2011.

Við látum þessa upprifjun duga að sinni. 

Vitnað var í: Múlasýslur: Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1874,  Reykjavík, Sögufélagið, 2000, s.447-448


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg300325a
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • Slide13
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • tx rvk 300708 arason i08m afrit

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.3.): 58
  • Sl. sólarhring: 476
  • Sl. viku: 1590
  • Frá upphafi: 2457145

Annað

  • Innlit í dag: 54
  • Innlit sl. viku: 1458
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband