Færsluflokkur: Vísindi og fræði
8.6.2025 | 23:40
Maí sem sumarmánuður?
Ýmsir hafa vikið þeirri spurningu að ritstjóra hungurdiska hvernig sé með maí sem sumarmánuð? Fyrir nokkrum árum var hér á hungurdiskum fjallað um september sem sumarmánuð og þar kom nokkuð skýrt fram að þótt september gæti alloft talist til sumarsins gerði maí það hins vegar aldrei. Svarið er enn hið sama, maí er aldrei sumarmánuður en við skulum samt líta nánar á málið. Við reynum að leita uppi þann maímánuð sem kemst næst því.
Til leitarinnar notum við landsmeðalhita í byggð. Reyndar er sú gagnaröð ekki sérlega áreiðanleg framan af - og stenst varla alvarlega rýni - en við látum sem ekkert sé í þessum leik. Við gætum leitað á sama hátt fyrir einstakar stöðvar - og gerum það e.t.v. einhvern tíma í framtíðinni (eða kannski gera lesendur það bara sjálfir). Svarið kann að verða eitthvað annað þegar einstakar stöðvar eru undir.
Það háir leit af þessu tagi nokkuð að allmikið hefur hlýnað síðustu 150 árin - það á við bæði um maí og sumarið í heild. Hlýnunin er á bilinu 0,7 til 0,8°C/öld.
Það sem við sjáum á myndinni er þetta: Lárétti ásinn vísar til síðustu 200 ára (rétt rúmlega), en sá lóðrétti er hitakvarði. Græna feita línan sýnir 30-árakeðjumeðalhita (alþjóða-) sumarsins, til þess teljast mánuðirnir júní til ágúst. Sumur áranna 1995 til 2024 eru því lengst til hægri - en línan hefst við árabilið 1824 til 1853. Græni ferillinn hefur í heildina þokast upp á við, en þó er sveiflan sem við sjáum í 30-ára hitanum enn meiri en hlýnunin er. Rétt að benda á að þessi 30-ára ferill hefur aldrei legið hærra en nú, sumarið hefur aldrei verið hlýrra.
Rauða þykka línan sýnir það sama - en á við maí. Þessi lína hefur þokast upp á við líka - fjöláratugasveiflurnar enn meira áberandi en sumarhitasveiflurnar - en fylgjast að mestu að í tíma, en þó ber svo við að 30-ára meðaltalið nú er ekki alveg jafnhátt og það var hæst á árunum 1928 til 1961 - munar 0,2 stigum.
Þreparitið sýnir hins vegar landsmeðalhita einstakra maímánaða - mjög breytilegur greinilega. Allt frá hinum illræmda maí 1979 (og 1866, sem var ámóta kaldur) allt til hlýindanna miklu í nýliðnum maímánuði. Hann var, á landsvísu, sá hlýjasti sem við þekkjum til.
Enginn maí kemst nærri meðalhita sumarsins (sem slatti af septembermánuðum náði), ekki einu sinni sá nýliðni, þó má benda á að hann var lítillega hlýrri heldur en meðalsumarið á árunum 1865 til 1893, hefði verið sannur sumarmánuður þá.
Á myndinni setjum við ártöl við hlýjustu og köldustu maímánuðina. Á landsvísu hefur það aðeins þrisvar gerst að maí hefur verið hlýrri heldur en júní sama ár, en aldrei hlýrri en júlí eða ágúst sama árs. Eins og rifjað var upp á hungurdiskum ber það hins vegar oftar við á einstökum stöðvum að maí sé kaldari heldur en júní. Sérataklega á þetta við um landið norðaustanvert, en hefur raunar gerst víðar.
Vegna hins sérlega hlýja maímánaðar í ár er nú, kannski í fyrsta sinn, möguleiki á að hann verði hlýrri (þegar upp er staðið) heldur en júní, júlí eða ágúst. Þess má t.d. geta að sumarið 1979 var landsmeðalhiti í bæði júní og júlí lægri heldur en meðalhitinn í maí nú og meðalhiti í ágúst það ár var jafn meðalhita maímánaðar nú. Svipað var sumarið 1993, þá voru bæði júní og júlí kaldari á landsvísu heldur en maí nú, og ágúst aðeins rétt sjónarmun hlýrri. Við vonum þó (þrátt fyrir að það væri einstakur viðburður) - að það gerist ekki.
Vísindi og fræði | Breytt 9.6.2025 kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2025 | 22:08
Smávegis um hinn hlýja maí 2025
Eins og fram kemur í yfirliti Veðurstofunnar var maí fádæma hlýr hér á landi, sá hlýjasti á öldinni og um mestallt land sá hlýjasti frá upphafi hitamælinga á landinu. Suðvestanlands átti hann þó í nokkurri keppni við nokkra eldri öndvegismaímánuði. Maí var fjórði hlýi mánuðurinn í röð. Taflan yfir röðun hita á spásvæðunum og nær eins og venjulega til þessarar aldar er einföld, þetta var hlýjasti maí á öldinni á öllum spásvæðum.
Að tiltölu var hlýjast á Miðhálendinu og um landið norðaustanvert. Er mjög óvenjulegt að mánaðarhlýindamet séu slegin á jafn afgerandi hátt og þar gerðist, met bætt um nærri 2°C.
Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Hér á landi var þykktin 40 til 60 metrum yfir meðallagi, hiti var því 2,0 til 3,0 stig ofan meðallags í neðri hluta veðrahvolfs. Við megum taka eftir horninu á milli jafnhæðar- og jafnþykktarlína, sýnir hlýtt aðstreymi.
Bæði vestan- og sunnanátt í háloftunum voru í ríflegu meðallagi, sunnanáttin öllu meira þó. Svipaða vindastöðu má finna í hinum rómaða maímánuði 1939 og þykktarvikin nú eru líka svipuð og var í maí 1946 og 1935, en báðir þeir mánuðir voru sérlega hlýir hér á landi. Á kortinu sést í jaðar kaldari svæða, við Grænland norðvestanvert og við austanvert Eystrasalt.
Hlýindin eru hálfu til einu stigi umfram þær væntingar sem þykktarvikin segja frá. Ritstjóranum finnst líklegt að það stafi af óvenjuháum sjávarhita undan Norðurlandi sem og snjóleysi á hálendinu. Hvort tveggja er að minnsta kosti að einhverju leyti afleiðing hlýinda fyrri mánaða, það virðist stundum muna um slíkt þegar met eru slegin.
Einn af þeim eldri maímánuðum sem var í alvörusamkeppni við þennan var almanaksbróðir hans árið 1946. Þá leit mjög vel út með met, en síðustu tvo daga mánaðarins snerist til kaldrar norðanáttar og fyrstu dagana í júní gerði leiðindahret og snjóaði víða um landið norðanvert. Um það má lesa nánar í pistli hungurdiska um árið 1946.
Árið 1946 varð júní víða kaldari heldur en maí á mestöllu svæðinu frá Borgarfirði í vestri og austur á norðanverða Austfirði, á Akureyri munaði 1,5 stigum. Að júní sé kaldari heldur en maí hefur gerst nokkrum sinnum, síðast árið 2017. Þá var júní kaldari heldur en maí á fáeinum stöðvum norðaustanlands, ekki munaði þó jafnmiklu og 1946, enda maí 2017 kaldari en 1946. Við vitum ekki um tilvik af þessu tagi í Reykjavík á tíma samfelldra mælinga. Svo virðist sem það hafi þó gerst árið 1851, þá var júní kaldari en maí í Reykjavík, Stykkishólmi, Hvammi í Dölum, á Siglufirði og á Akureyri, en ekki á Ofanleiti í Vestmannaeyjum. Maí var mjög hlýr árin 1928 og 1935, þá varð júní kaldari en maí á allmörgum stöðvum. Fleiri ár mætti einnig nefna.
Eins og áður sagði var þetta fjórði hlýi mánuðurinn í röð. Í áðurtengdu yfirliti Veðurstofunnar er sagt frá því að meðalhitinn í Reykjavík fyrstu fimm mánuði ársins sé sá þriðjihæsti frá upphafi mælinga (155 ár). Sömu mánuðir 1929 og 1964 voru hlýrri heldur en nú. Á Akureyri er meðalhiti mánaðanna fimm í fjórðahlýjasta sæti 145 ára og austur á Seyðisfirði í því þriðjahlýjasta (120 ár), þar var hlýrra í sömu mánuðum 1929 og 1974.
Fyrir mánuði hafði ritstjóri hungurdiska ekki mikla trú á því að meðalhiti í Reykjavík næði 8 stigum, viðurkenndi þó möguleikann. Að hann færi í 9 stig (9,0) vildi ritstjórinn varla nefna - hvað þá að meðalhiti maímánaðar á Akureyri næði 10,1 stigi og bætti eldra (vafasamt met frá 1933 um 0,7 stig). Slíkt var eiginlega handan hins mögulega fyrir fjórum vikum, enda hæsti meðalhiti maímánaðar sem vitað er um á landinu.
En eitt af því sem ritstjórinn hefur löngu lært - á löngum ferli - er að veðrið er sífellt að koma á óvart og að taka á sig nýjar og óvæntar myndir. - Munu einhverjar óvæntar uppákomur verða í sumar? Þó hretið nú sé auðvitað afskaplega leiðinlegt eru hret af þessu tagi ekki óalgeng. Það er ekki létt að skilgreina hret, en lausleg talning ritstjórans finnur samt um 40 júníhret á síðastliðnum 100 árum, vissulega misslæm. Kannski fækkaði þeim eitthvað við harðari skilgreiningu, en tölur sýna samt að þau geta engan veginn talist sjaldgæf, alla vega miklu algengari heldur en hitabylgja maímánaðar. Svo verðum við einnig að hafa í huga að hugtakið hret felur ekki eingöngu í sér veðrið sjálft, heldur einnig samfélagið sem fyrir því verður. Tvö hret sem virðast hvað veður snertir vera nánast eins geta kallað fram mjög misjöfn viðbrögð eða tjón. Þannig geta þau í reynd verið mjög ólík og haft mjög mismiklar afleiðingar.
Við þökkum BP fyrir kortagerðina - að vanda.
31.5.2025 | 17:29
Hlýjasta vorið
Á Veðurstofunni nær vorið til tveggja mánaða, apríl og maí. Ritstjóri hungurdiska reiknar meðalhita í byggðum landsins og ber saman við fyrri ár. Í ljós kemur að vorið 2025 er það hlýjasta frá upphafi mælinga - sjónarmun (og reikningslega ómarktækt) hlýrra heldur en vorið 1974.
Myndin sýnir þetta á einfaldan hátt. Lárétti ásinn sýnir tímann (allt aftur til 1823). Fyrstu 50 ár raðarinnar eru reyndar harla óviss - en við greinum þó vel á milli hlýrra og kaldra vora - og hlýrra og kaldra skeiða á þeim tíma. Ábyggilega er það marktækt. Nýjasta talan, 2025 sker sig nokkuð úr, ásamt hinni óvenjulegu tölu vorsins 1974. Ekki liðu þá nema fimm ár þar til eitt kaldasta ár 20.aldar reið yfir, hið eftirminnilega 1979. Þá voru liðin 30 ár frá ámóta vori, 1949. Ekki hafa viðlíka köld vor komið síðan.
Köldustu vor 21. aldarinnar (hingað til) voru 2013 og 2015, en langflest ár síðustu áratuga hafa verið hlý, þó ekkert þeirra viðlíka hlýtt sem það sem lýkur í dag.
Árið, það sem af er, hefur líka verið óvenjuhlýtt (nema janúar). Í Reykjavík er þetta næsthlýjasta ársbyrjun síðustu 75 ára og sú þriðjahlýjasta á Akureyri og á Dalatanga. Nánari upplýsingar um þá stöðu - og niðurstöðu maímánaðar koma frá Veðurstofunni fljótlega eftir helgina, en svo virðist sem maí sé nokkuð öruggur með að taka efsta sætið um allt land, sumstaðar meira að segja með miklum mun - en meir um það síðar. Þá verður einnig ljóst hvernig vorhitinn raðast í hinum ýmsu landshlutum, ekki er víst að það nái alls staðar toppsætinu af 1974.
Í framhaldi af þessu kemur hin eðlilega spurning, hvernig er þá með tímabilið mars til maí? Alþjóðaskilgreiningin á vori á norðurhveli nær til þriggja mánaða. Fljótlegt var að reikna þau meðaltöl líka og má sjá þau á mynd hér að neðan.
Sömu fyrirvarar gilda og á fyrri mynd - allt fyrir 1874 er ónákvæmara heldur en það sem á eftir kemur. Í flestum tilvikum koma sömu ár við sögu hlýinda og kulda og þau á fyrri mynd. Alþjóðavorið 1974 raðast þó sjónarmun ofar en 2025, en sem fyrr er munurinn ekki marktækur. Að því mun koma að aðrar aðferðir verða notaðar við reikninga sem þessa og geta sæti þá hæglega hliðrast lítillega. Sama á við um röðun á hita á einstökum stöðvum, hún kann að vera önnur en sú sem hér er sögð eiga við landið allt.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2025 | 20:59
Á kuldapollavaktinni
Það er alltaf fróðlegt að fylgjast með kuldapollum og í pistli dagsins koma tveir við sögu. Ekki eru þeir mjög stórir, en samt afgerandi á sinn hátt. Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á sunnudag 1.júní (eftir tvo sólarhringa) verður hér fyrir valinu sem sýningaratriði.
Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins. Af þeim ráðum við vindátt og vindstyrk í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykktina, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Þeir vönu sjá umsvifalaust að hér hafa orðið mjög mikil umskipti frá því sem var á dögunum þegar óvenjuleg hitabylgja gekk hér yfir. Landið var þá dögum saman í þykkt sem á kortinu er sýnd með gulbrúnum lit - þykktin var meiri en 5520 metrar.
Við höfum nú í nokkra daga verið á mörkum dekkri grænu litanna - eins og spáð er áfram fram á sunnudag. Þykktin er nærri 5340 metrum. Neðri hluti veðrahvolfs er um 10 stigum kaldari heldur en mest var í hitabylgjunni. Meðalþykkt um mánaðamótin maí/júní er í kringum 5380 metrar. Í dag - og á sunnudaginn er loft í neðri hluta veðrahvolfs því um 2 stigum (40 m) kaldara heldur en að meðaltali. Loftið er nægilega kalt til þess að í hægum vindi nægir sólarylur til þess að búa til skúraklakka yfir landinu með tilheyrandi dembum á víð og dreif.
En á sunnudaginn er að draga til tíðinda. Við sjáum tvo kuldapolla. Sá sem er meira afgerandi er við Norðaustur-Grænland, illilegur að sjá. Hinn er á suðvestanverðu Grænlandshafi, virðist veigalítill og hreyfist allhratt til austurs fyrir sunnan land. Við köllum hann Sprett.
Það er sérstaklega tvennt sem gerir reiknilíkönum hér nokkuð erfitt fyrir. Annars vegar er spurningin um það hvort stærri kuldapollurinn, við getum til bráðabirgða kallað hann Hroll verpir eggi eða ekki. Með því er spurt hvort syðri endi hans slitnar frá meginkuldanum eða ekki. Á þessu korti er aðkenning að slíku, alllangur poki suður úr meginkuldanum. Gerist það verður framhaldið orkuminna heldur en ella. Þetta er nokkuð vandasamt.
Hitt atriðið varðar samskipti kuldapollanna tveggja. Hvernig verður stefnumótið? Nú er það svo að mikil tilhneiging er til þess að miðjur svona kuldapolla forðist hvor aðra - þeir dansa sig inn í sameiningu frekar en að rekast beint og hiklaust saman. Hafa á meðan dansinum stendur tilhneigingu til að snúast um einhvers konar sameiginlega miðju - og nálgast hana síðan smám saman.
Undanfarna daga hafa líkönin verið á verulegu hringli með þetta atriði. Það skiptir hins vegar öllu fyrir veðrið hér á landi, hvort það verður bara leiðinlegt eða hvort það verður hreinlega afleitt - á því er mikill munur. Þótt ritstjóri hungurdiska geti á fágætum stundum verið býsna glúrinn, á hann samt engan möguleika á að giska betur heldur en reiknilíkönin. En hann sér alla vega að þau eiga í verulegum vanda - og hvers eðlis þessi vandi er.
Sem stendur stingur evrópureiknimiðstöðin upp á því að út úr sameiningunni verði til 966 hPa lægð við Færeyjar á miðvikudaginn (4.júní). Fari svo er um harla óvenjulegan atburð að ræða - við eigum ekki á lager nema fimm tilvik af lægri júníþrýstingi heldur en 975 hPa hér á landi frá upphafi mælinga. Vissulega eru svo djúpar lægðir mun algengari en það á svæðinu öllu að sumarlagi, en tölur undir 970 hPa eru samt alltaf mjög eftirtektarverðar í júní.
Þess má að lokum geta að Hrollur er þverskorinn sem ritstjóri hungurdiska (en enginn annar) kallar svo. Slíkir kuldapollar kunna oftast(?) ekki góðri lukku að stýra.
Ritstjóranum finnst líka nokkuð merkilegt að aðeins hálfum mánuði eftir að hann leitaði að hita- og háþykktarmetum, skuli hann nú leita uppi kulda- og lágþykktarmet.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2025 | 21:20
Í flatneskju - (og augun hvarfla til norðurs)
Nú er hitabylgjan mikla alveg frá. Í stað hennar hefur lægri þrýstingur tekið við, en engar afgerandi lægðir alveg við landið, þær öflugustu ganga nú til norðausturs nærri Bretlandseyjum. Á austurvæng hverrar lægðar er hlýtt loft og sullast eitthvað af slíku í átt til okkar þegar hver lægð fer hjá, en á móti kemur að lægðirnar draga einnig á eftir sér slóða af kaldara lofti úr norðri. Óljóst hvor aldan, sú suðræna eða sú norræna skilar meiru hverju sinni. Erfitt að halda utan um það þegar lægðirnar eru að minnsta kosti þrjár.
Þótt kuldinn á norðurslóðum sé á venjubundnu vorundanhaldi tregðast hann við yfir Norður-Íshafi, þar er varnarþing hans að sumarlagi. Eftir því sem meginlöndin hlýna þrengir meira að honum, það sem eftir er af kuldanum safnast saman í afmarkaðar háloftalægðir, kuldapolla.
Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir síðdegis á miðvikudag, 28.maí 2025. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstyrk og stefnu í miðju veðrahvolfi. Mikil flatneskja er við Ísland, en öflug röst úr vestri stefnir á Bretland (ein af lægðunum áðurnefndu). Litirnir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Í hitabylgjunni vorum við inni í gulum og brúnum lit - en þeir eru nú fjarri. Þykktin hefur minnkað um rúma 200 metra (hiti fallið um 10 stig). Ámóta hæð og var hér fyrir viku er nú nærri Úralfjöllum, en þó hlýrri, eins og vera ber yfir meginlandi. Eins eru mikil hlýindi austarlega í Síberíu og vestarlega í Kanada.
Á norðurslóðum eru hins vegar þrír afgerandi kuldapollar. Sá eini sem við þurfum að fylgjast vel með er sá við Norðausturgrænland, þykktin í miðju hans er ekki nema 5090 metrar, hávetur á smábletti. Flatarhæð og þykktarmynstur eru nokkurn veginn sammiðja þannig að ekki er auðvelt að ráða í hvaða stefnu pollurinn tekur - taki hann á annað borð á rás. Við höfum ekki mikinn áhuga á að fá hann hingað - en það er samt alveg jafnlíklegt og hvað annað. Spá reiknimiðstöðvarinnar á hádegi gerir reyndar ráð fyrir því að svo verði - og að þar með verði fullhefnt fyrir blíðuna.
Við getum samt ekki látið einhverjar líkanhótanir valda okkur teljandi áhyggjum - við bíðum alla vega áreiðanlegri frétta - það er mjög margt sem getur riðlað spánum, margt sem líkönin ekki sjá. Bandaríska veðurstofan er með allt aðrar hugmyndir - og mun viðkunnanlegri - alla vega sem stendur.
25.5.2025 | 21:21
Enn af hitabylgjunni
Nú er maíhitabylgjunni miklu lokið. Eins og fram kom í yfirliti Veðurstofunnar er þetta langmesta hitabylgja sem við vitum um í maímánuði - þótt nákvæmur samanburður við eldri tilvik sé að vísu nokkuð erfiður þegar leitað er langt aftur í tímann. Landsmet var sett í maíhita og langflestar veðurstöðvar landsins skiluðu nýjum maímetum, þar af nokkrar þar sem mælt hefur verið mjög lengi. Þótt ákefðin væri mikil var það þó ekki síður úthaldið sem var óvenjulegt. Hiti komst yfir 20 stig einhvers staðar á landinu tíu daga í röð og daginn sem útbreiðslan var mest, þann 18., fór hiti í 20 stig á meir en helmingi stöðva í byggðum landsins, og daginn eftir á nærri helming stöðva. Aðeins sárafáar hásumarhitabylgjur skila hærra hlutfalli.
Ritstjóri reiknar (sér til hugarhægðar) meðalhita sólarhringsins í byggðum landsins. Þann 17. reiknaðist hann 13.5 stig og 13.2 stig þann 18. Þetta er um einu stigi meira heldur en við höfum áður séð í maí á því tímabili öllu sem við eigum auðveldan samanburð við (aftur til 1949) er (1,5 stigum hærra en hæsta meðaltal sjálfvirku stöðvanna 1997 til 2024 og 1,4 stigum hærra heldur en meðaltal mannaðra stöðva (1949-2012)).
Meðalhámarkshiti á landinu stendur sig enn betur. Hæsti meðalhámarkshitinn nú (19,4 stig) er um þremur stigum hærri heldur en við vitum um áður í maímánuði og lendir reyndar meðal tíu efstu sólarhringa á ársgrunvelli líka.
Annað er að segja um lágmarkshitann. Hann var að vísu mjög hár og hæsta sólarhringslágmarkið nú var 14,2 stig (á Skrauthólum þann 17.). Það er lítillega (en þó ómarktækt) hærra en hæstu sólarhringslágmörk sem við þekkjum í maí (14,0 stig). Slík lágmarksmet voru nú sett á rúmlega 40 stöðvum sem athugað hafa í 15 ár eða meira, það er lægra hlutfall heldur en hlutur nýrra hámarksmeta. Meðallágmarkshitinn nú var hæstur þann 17., 6,9 stig og er það langt neðan mets. Þótt nætur væru hlýjar meðan á hitubylgjunni stóð, voru þau hlýindi ekki nærri því eins almenn og hlýindin að deginum.
Þetta kemur líka í ljós þegar við athugum hvaða klukkustundarmet voru slegin. Við athugum hver er hæsti hiti (ekki hámarkshiti) sem mælst hefur á hverri heilli klukkustund (1997 til 2025). Kemur þá í ljós að öll eldri met allra klukkustunda frá 8 að morgni til 22 að kvöldi féllu, en aftur á móti engin yfir nóttina. Að vísu höfðu hlýindi þann 7. maí áður slegið út metið kl.5.
Línuritið sýnir hæsta hita hverrar klukkustundar í maí á sjálfvirkum veðurstöðvum í byggð. Annar ferillinn (blámerktur) sýnir hvernig metum var háttað á tímabilinu 1997 til 2024, en efri ferillinn sýnir breytinguna sem varð nú í maí. Metið sem skráð er kl.5 var sett þann 7., en hin ýmist þann 15., 17. 18. og 20. Engin ný met af þessu tagi voru sett yfir blánóttina, kl.8 var eldra met jafnað, kl.9 og 10 munaði nánast engu, og aftur kl.20 og 21. Aftur á móti var eldra met kl.16 slegið um nærri 4 stig. Hægt væri að fabúlera um þetta séreinkenni þessarar hitabylgju, en hér verða lesendur ekki þreyttir með slíku.
Rekist ritstjórinn á einhverjar athyglisverðar viðbótarupplýsingar um hitabylgjuna sem ekki hefur þegar verið getið um mun hann frekar bæta þeim við hér heldur en stofna nýja pistla.
21.5.2025 | 13:47
Fyrstu 20 dagar maímánaðar 2025
Fyrstu 20 dagar maímánaðar 2025 hafa verið alveg sérlega hlýir, sérstaklega þó síðasta vikan rúm. Meðalhiti í Reykjavík er 9,1 stig og er það +3,1 stigi ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og +3,8 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Er þetta langhlýjasti slíkur kafli það sem af er öldinni. Meðal aldarbræðra voru sömu dagar 2015 kaldastir, meðalhiti þá 3,7 stig. Á langa listanum (151 ár) er hiti nú í næsthlýjasta sæti, það var lítillega hlýrra fyrstu 20 daga maímánaðar 1960, meðalhiti í Reykjavík var þá 9,3 stig, en lækkaði um 0,5 stig til mánaðamóta og endaði í 8,7 stigum. Hlýjasti maí í Reykjavík er 1935, meðalhiti þá endaði í 8,9 stigum. Kaldastir voru þessir sömu dagar árið 1979, meðalhiti þá var aðeins 0,5 stig.
Á Akureyri hefur verið enn hlýrra heldur en í Reykjavík. Meðalhiti fyrstu 20 dagana er 10,7 stig og er það +5,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +5,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Við getum reiknað meðalhita hluta mánaða á Akureyri 90 ár aftur í tímann og eru þessir dagar nú þeir langhlýjustu meðal almanaksbræðranna, nærri 2 stigum hlýrri heldur en hlýjast var áður (1936). Að vísu er hlýjasti maímánuður sem við þekkjum á Akureyri 1933, en við eigum meðaltöl stakra sólarhringa hans ekki á lager til reikninga (enn sem komið er). Sá mánuður endaði í 9,4 stigum - þannig að eitthvað borð er fyrir báru fyrir kólnandi tíð nú undir lok mánaðar.
Í Stykkishólmi er sama staða. Þar er meðalhiti fyrstu 20 dagana 8,7 stig, 0,9 stigum hærri en mest hefur verið sömu daga áður, en það var reyndar árið 1889.
Ljóst er að víða um land verður þetta hlýjasti maímánuður allra tíma - en höfum samt í huga að 11 dagar eru eftir, rétt rúmur þriðjungur mánaðarins. Sem stendur eru dagarnir 20 þeir hlýjustu á öldinni á öllum spásvæðum landsins. Mest víkur frá meðaltölum á fjöllum og heiðum eystra. Trúlega á tvennt þátt í því, annars vegar fjarlægð frá sjó (kælandi áhrif hans einskorðast við neðstu lög loftsins, hins vegar er snjór trúlega nokkru minni heldur en í meðalári. Varmaorka hefur því nýst betur til hitunar lofts en ella - það er dýrt að bræða snjó. Mest er vikið á Hallormsstaðahálsi, +7,6 stig, en minnst í Surtsey, +2,0 stig - þar eru áhrif sjávarins auðvitað mikil.
Sem stendur er meðalhiti hæstur á Hallormsstað, +11,0 stig, og 10,7 á Egilsstöðum og Akureyri og Torfum.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 33,4 mm og er það í tæpu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman aðeins mælst 5,6 mm og er það um þriðjungur meðalúrkomu. Austur á Dalatanga hefur úrkoman mælst aðeins 3,3 mm sem er tuttugasti hluti meðalúrkomu - og hefur sjaldan verið minni sömu daga. Á það einnig við stóran hluta Austurlands.
Sólskinsstundir hafa mælst 179 í Reykjavík, um 43 umfram meðallag, en hafa oft mælst fleiri í maí. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 189,7 og er það 81 stund meira en í meðalári - nokkuð langt í met samt.
Það er einnig athyglisvert að fylgjast með hitastöðu ársins til þessa. Í Reykjavík situr það í næsthlýjasta sæti (frá 1949), en talsvert langt er upp í það efsta, 1964 og er utan seilingar í þessum mánuði. Auk þess þarf að keppa við árið 1929 - sem er líka ofar. Árið 2025 hefur gengið nokkuð hratt upp listann á Akureyri og miðað við tímann frá 1949 er það nú í 3. til 4. hlýjasta sæti (á eftir 1964 og 1974). Á Dalatanga er það líka í 3. hlýjasta sæti sama tímabils - en aðeins sjónarmun neðan 1964 og 1974 - mjög litlu munar á 5 efstu sætunum.
20.5.2025 | 22:01
Molar úr hitabylgjunni
Hitabylgjunni er ekki alveg lokið - og uppgjörs varla að vænta fyrr en þá. En þó má þegar nefna nokkur sundurlaus atriði.
Ritstjórinn heldur úti lista um hámarkshita hvers almanaksdags á landinu (dægurhámarksmet). Rétt að taka fram að þetta er ekki opinber listi, sjá má þar fáeinar vafasamar tölur sem mætti nota hreinsiefni á, en það er líka ágætt að láta þessar gömlu tölur berjast fyrir tilveru sinni og verjast í lengstu lög. Eins og fram hefur komið var sett nýtt landshitamet fyrir maímánuð á dögunum og mun Veðurstofan trúlega lýsa því yfir opinberlega fljótlega. En ný dægurmet hafa nú verið sett átta daga í röð, það er einsdæmi. Við vitum af fáeinum 5 daga syrpum, en ekki átta. Og það er ekki þannig að eldri met hafi verið naumlega slegin, tvo daga munar meir en fimm stigum á gömlu og nýju landsmeti.
Hér á landi eru hitasveiflur meiri á vetrum heldur en að sumarlagi, vik frá meðallagi eru því að jafnaði meiri á vetrum. Mestu vikin nú eru á háfjallastöðvum á Austur- og Norðurlandi (sjávaráhrifa gætir þar síst). Mesta vikið var á Gagnheiði í gær (19.maí). Meðalhiti sólarhringsins var þá 14,6 stig yfir meðallagi síðustu tíu ára og daginn áður, þann 18. var vikið nær hið sama, 14,5 stig. Vik yfir 13 stig hafa verið á Hallormsstaðahálsi, Vaðlaheiði og Austurárdalshálsi í Húnavatnssýslu.
Upplagt var að bera þetta saman við það mesta sem við vitum um frá aldamótum. Allra mesta jákvæða vikið á því tímabili var 14,8 stig á Torfum í Eyjafirði þann 18.nóvember 2018, síðan koma Gagnheiðarvikin. Fáeinar stöðvar aðrar eiga staka daga með meiri vikum en +13 stigum, þar af eitt tilvik í apríl, á Kollaleiru 3.apríl 2007.
Allnokkur fjöldi er af stærri neikvæðum vikum, þau eru öll að vetrarlagi, mest -23,4 stig við Mývatn 25.janúar 2002. Leit hefur ekki farið fram í eldri gögnum. Trúlega mun hún skila enn stærri neikvæðum vikum, en óvissara er með þau jákvæðu.
Frést hefur af nýjum maímetum á stöðvunum á Norðaustur-Grænlandi og á Jan Mayen.
Ritstjóri hungurdiska hefur undanfarin ár skilgreint og talið sumardaga í Reykjavík. Að meðaltali er tæplega einn sumardagur í Reykjavík í maí, þegar þetta er skrifað (20.maí) eru þeir orðnir sjö í röð. Röðin nær aftur til 1949 og flestir hafa sumardagar í maí, áður, orðið fimm. Það var í árið 2002 og þeir voru fjórir í maí 1960. Árin 1991 til 2020 voru að meðaltali 28 slíkir dagar á ári í Reykjavík. Síðasta vika hefur því skilað fjórðungi meðaltalsins og fleiri heldur en ýmis fyrri sumur alls, t.d. 1995 og 1989, svo ekki sé talað um 1983 þegar aðeins einn slíkur dagur skilaði sér í hús allt árið.
Það er alltaf verið að spá kólnandi veðri og má segja að nú fari átakanlega að skorta einhverja úrkomu. Sumarið í framhaldi af því er flestum (eða kannski réttara, öllum) hulið.
Hitabylgjunnar gætir ekki svo mjög í háloftaathugunum yfir Keflavík. Þó var hitamet maímánaðar jafnað í 925 hPa-fletinum, hiti mældist þar 11,6 stig að kvöldi þess 16., sama og 14.maí 2005. Þess verður þó að geta að aðgengileg mæliröð fyrir 925 hPa nær aðeins aftur til 1993 og samkeppni um met því minni en fyrir aðra staðalfleti háloftaathugana. Þess má geta að hiti í 400 hPa þann 12. (rétt áður en hitabylgjan hófst) komst inn á topp-tíu hitalista flatarins.
Vísindi og fræði | Breytt 21.5.2025 kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2025 | 23:04
Sígur á seinni hlutann
Nú fer að síga á seinni hluta þeirrar óvenjulegu hitabylgju sem gengið hefur yfir landið síðustu daga. Ekki alveg tímabært að fara í uppgjör en það er samt hægt að fullyrða með nokkurri vissu að þetta sé mesta hitabylgja sem við höfum séð í maímánuði frá upphafi mælinga og í fljótu bragði er hún enn óvenjulegri fyrir það að hvað lengd og útbreiðslu varðar virðist hún öflugri heldur en nokkur hitabylgja sem við höfum séð í júní í að minnsta kosti 80 ár. Þær áköfu júníhitabylgjur sem við höfum þó séð hafa verið styttri og ekki náð jafn mikilli útbreiðslu og þessi.
Það er erfitt að svara því til fullnustu hvað veldur. Margar tilviljanir koma þar við sögu. Fyrst er það staða veðurkerfa. Hún hefur verið í óvenjulegra lagi. Síðan má efalítið telja snjóleysi, búið að bræða mestallan vetrarsnjó af stórum svæðum landsins. Sjávarhiti er þar að auki í hærra lagi miðað við árstíma.
Á hinu almenna veðurkorti sést staðan vel.
Hringrás lofts á norðurhveli er mjög rofin. Í stað sæmilega hreinnar vestanhringrásar í kringum kulda norðurslóða hefur mikil og hlý hæð skotist norður á bóginn við Ísland og legið þar í friði í nokkra daga. Sunnar er vestanáttin mjög slitrótt - fjölmargar smábylgjur á ferð og valda sumar þeirra kulda langt suður á bóginn - greiðsla fyrir hlýindin hér. Enn eru þrír nokkuð öflugir kuldapollar yfir íshafsslóðum, en gera sig ekki líklega til að angra okkur í bili. En hæðin endist ekki endalaust - að henni sækir kaldara loft, en til allrar hamingju úr suðvestri. Það þýðir að þótt talsvert kólni þegar hæðin brotnar verður ekki hægt að tala um að hret taki við - heldur venjulegur maíhiti.
Flettingar sýna að þessi hæð er með öflugra móti, við eigum kannski tvær eða þrjár ámóta á lager síðustu 80 ára - ekki meir. Þykktin sem fylgir (hún mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs) er mikil líka, en er þó ekki við met. Hlýindin eru við það að vera þau mestu sem búast má við við þessa þykkt. Þannig að það er eitthvað fleira sem kemur við sögu. Sólin er auðvitað mjög öflug á þessum árstíma, landið þurrt og heppilegt niðurstreymi hefur komið í veg fyrir að skúrir tækju að myndast.
Ljóst er að almennar líkur á atburði sem þessum eru mjög litlar - en hann gerðist samt. Gaman væri ef einhverjir góðir aðilar tækju að sér að finna uppruna þessa lofts - en ritstjóri hungurdiska er orðinn of gamall í slíka leynilögreglurannsókn. Hann mun þó á næstunni reyna að henda upp einhvers konar talnasamanburði - en ekki fyrr en þessu linnir.
16.5.2025 | 20:07
Óvenjuleg hlýindi
Óvenjulega hlýtt er víða um land þessa dagana. Eins og fram hefur komið í fréttum var sett nýtt maíhitamet fyrir landið allt í gær (15.maí 2025) þegar hiti komst í 26,6 stig á Egilsstöðum. Veðurstofan á að vísu eftir að staðfesta metið - nauðsynlegt er að kanna hvort stöðin sé í lagi. Staðbundin met hafa verið sett á fjölmörgum stöðvum - og auðvitað dægurmet í hrönnum. Ritstjóri hungurdiska mun þó bíða með að gera einhverja grein fyrir þessum metum - þar til mestu hlýindin eru liðin hjá.
Í dag (16.maí) mældist hiti yfir 20 stig í Reykjavík. Er svo hár hiti sárasjaldgæfur í borginni. Aðeins er vitað um 3 eldri tilvik af hærri hita en 20 stigum frá upphafi mælinga. Það var árin 1901, 1905 og 1960. Árið 1901 stóðu hlýindin í nokkra daga og náðu til fleiri hluta landsins. Austri á Seyðisfirði segir að þar í bæ hafi hitinn farið í 26 stig - en við getum ekki tekið þá mælingu bókstaflega - fróðleg engu að síður. Árið 1905 og 1960 náðu hlýindin ekki jafnvíða um landið. Um þessi tilvik öll má lesa í eldri pistlum hungurdiska. Í öllum þessum tilvikum þremur vildi svo til að þessi maíhámörk urðu jafnframt hæsti hiti ársins í Reykjavík. Sumrin 1905 og 1960 voru þó hagstæð í heild, en 1901 varð aftur á móti rigningasumar um landið suðvestanvert.
Árið 1972 mældist hæsti hiti ársins í Reykjavík líka í maí, en var þó ekki nema 16,3 stig. Sýnir að ekki er á vísan að róa með hlýja daga þar á bæ.
Á mjög mörgum stöðvum öðrum en Reykjavík hefur það gerst að hæsti hiti ársins hefur orðið í maímánuði. Þannig var t.d. 1987, en þá gerði langa hitabylgju sem víða um land átti hæsta hita ársins. Sumarið 1987 var þó mjög hagstætt. Á Akureyri varð hiti hæstur í maí þetta ár. Hámarkshitamælingar hófust ekki á Akureyri fyrr en 1938. Hæsti hiti ársins hefur fjórum sinnum mælst í maí á þessu tímabili, 1987 - eins og áður sagði, en líka 1985, 1956 og 1951.
Það er sjaldgæfara að hæsti hiti ársins á landinu öllu mælist í maí. Gögn sýna það aðeins þrisvar, en yngsta tilvikið, frá 1962 er almennt talið vafasamt (sjá pistil um það ár). Hin tilvikin tvö eru svo gömul að stöðvakerfið var svo gisið að við getum varla fullyrt að þetta sé marktækt. En þau gögn sem til eru segja það hafa gerst 1907 og 1890.
Síðara árið var einmunatíð frá því um 20. mars og út maí, jörð greri óvenjuvel og allt í blóma. Þá gerði mikið áfelli snemma í júní, þann 5. var sagt frá ökklasnjó í Vestmannaeyjum. Eftir hretið var tíð bærileg - en hitinn náði samt aldrei sömu hæðum og um vorið. Árið 1907 var óvenjulegt á marga vegu. Hlýindin í maí mjög skammvinn, sumarið sérlega kalt - en jafnfram fádæma þurrt á Suðurlandi.
En veðrið er aldrei eins frá ári til árs og hlýindin nú segja ekkert um sumarið að öðru leyti en því að sólin hitar landið og það geymir í sér hluta varmans og þannig séð verða líkur á hlýjum dögum því heldur meiri - ef ytri skilyrði önnur leyfa.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.7.): 27
- Sl. sólarhring: 758
- Sl. viku: 2651
- Frá upphafi: 2481022
Annað
- Innlit í dag: 27
- Innlit sl. viku: 2319
- Gestir í dag: 27
- IP-tölur í dag: 27
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010