Hugsað til ársins 1960

Tíðarfar ársins 1960 var mjög hagstætt lengst af. Hlýtt var í veðri, en úrkoma undir meðallagi. Í janúar var tíð lengst af hagstæð og hæglát. Fyrri hluti febrúar var hagstæður, en síðan gerði nokkuð kaldranalegt tíðarfar og samgöngur voru þá erfiðar fyrir norðan. Í mars var með afbrigðum góð tíð, nema fyrstu vikuna. Gróður tók við sér. Apríl var sömuleiðis hagstæður og tíð var stillt. Hlýtt var í veðri. Bæði maí og júní þóttu mjög hagstæðir og fór gróðri vel fram. Hlýtt var í veðri. Í júlí var tíð hagstæð á Suður- og Vesturlandi, en vætusamt var fyrir norðan og austan. Tíð þótti með afbrigðum góð á Suður- og Vesturlandi, en óhagstæð í útsveitum norðaustan- og austanlands fyrstu þrjár vikurnar. Óvenjulegir þurrkar á Suður- og Vesturlandi. September var einnig hagstæður og uppskera úr görðum óvenju mikil. Október var sömuleiðis hagstæður, stilltur og úrkomulítill. Nóvember var enn með hagstæðasta móti, sérstaklega á Vesturlandi. Hlýtt var í veðri. Nokkuð óstöðug tíð var í desember og þótti óhagstæð síðari hlutann. 

Við förum yfir helstu veðurtíðindi ársins eins og þau komu fram í blöðum (timarit.is), hjá veðurathugunarmönnum og í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar. Við leyfum okkur að færa stafsetningu til nútímahorfa (að mestu), sömuleiðis eru textarnir oft styttir. Vonandi sætta höfundar sig við það. Óvenjulítið var um illviðri á árinu 1960 og árið því tíðindaminna er mörg önnur. Athygli vekja fáein þrumuveður sem ekki ollu þó miklu tjóni. Um miðjan maí gerði einskonar hitabylgju. Hún er sérstök fyrir það að útvega Reykjavík einn dag á dægurhitametalista ársins. Kannski er það einmitt á þessum tíma árs sem Reykjavík getur notið hlýinda umfram aðra staði á landinu. Síðari hluta sumars var sérlega þurrt á landinu, (eftir votviðrajúní sunnanlands og votviðri nyrðra í júlí). Engin úrkoma mældist í Reykjavík í 31 dag í röð, endaði sá kafli 4.september. Jafnlangur allsherjarþurrkkafli hefur komið einu sinni síðar (endaði 10. febrúar 1977) - aðrir þurrkaflar eru styttri. Í fréttunum hér að neðan er alloft minnst á þurrka og vatnsskort þó ekki sé að sjá að hann hafi orðið tilfinnanlegur. En trúlega hefði þetta ár fallið í flokk rýrustu ára í virkjanarekstri - hefði ámóta mikið verið virkjað þá og er nú.      

Veðurathugunarmenn tala vel um janúarmánuð:

Síðumúli: Janúar var dásamlega góður að veðurfari, mildur, snjóléttur og óstormasamur. Oft var logn og blíða sem um sumar væri. Allir vegir snjólausir og færir fyrir bíla landsfjórðunga milli, mun það fágætt, svo lengi vetrar. Jörð er hér svelluð og alhvít yfir að sjá, en snjórinn er mjög grunnur. Stóðhross ganga úti.

Hamraendar í Dölum (Guðmundur Baldvinsson): Þessi janúar hefur verið sá besti sem ég man að hafa lifað, aldrei stormar, aldrei hríðar, aldrei stórfelld úrfelli. Fjallvegir færir og oftast snjólausir.

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið óvenjuleg veðurblíða yfir allan mánuðinn. Stillt veður og snjólaust nema fyrstu daga mánaðarins. Allir vegir eru færir og snjólaust, eins á fjöllum sem í byggð nema smáskaflar.

Hólar í Hjaltadal (Friðbjörn Traustason): Nokkur frost öðru hvoru en miklar stillur. Veðurfar í heild ágætt.

Sandur í Aðaldal (Friðjón Guðmundsson): Tíðarfarið var milt, mjög hægviðrasamt, úrfellalítið og snjólétt. Færð mjög góð á vegum og hagar góðir.

Gunnhildargerði (Anna Ólafsdóttir) Veðrið var heldur hagstætt, engin stórveðri, en jörð var notalítil vegna hve öll jörð var svellrunnin. [21. Eftir kl.21 um kveldið var hér um slóðir óþolandi brennisteinsfýla, fram um miðnætti].

Við grípum niður í blaðafréttir í janúar. Þann 4. fórst vélskipið Rafnkell frá Sandgerði undan Reykjanesi og með honum 6 manna áhöfn. Annars var ekki mikið um stór sjóslys á árinu. Morgunblaðið segir frá þann 7.:

Almennt var ekki rætt ýtarlega um hinn hörmulega atburð manna á meðal í Sandgerði. — Sennilegast þykir, að brotsjór hafi fært hann á kaf á svipstundu. Ýmsir töldu slysstaðinn mundu vera þar nálægt, sem vitaskipið Hermóður fórst í fyrra. Aðrir töldu ýmislegt benda til þess, að hann hafi verið kominn nær Sandgerði, er ólagið sökkti bátnum.

Morgunblaðið segir 6.janúar frá hálkuóhappi.

Laust fyrir hádegi í gær rann Dalarútan út af veginum við Hafnarskóg uppi í Borgarfirði og fór á hliðina. í bílnum voru 16 farþegar. Slösuðust tveir farþegar nokkuð og tveir aðrir minna. D—100, sem er 26 manna Fordbifreið var á leið vestur í Dali, en hvasst var og vegurinn flugháll. Er bifreiðin kom á móts við Grjóteyri, rann hún á hálkunni. Þar er malarkambur og nokkuð hátt niður og fór bíllinn út af og hvolfdi.

Mikil hlýindi voru um nær allt land dagana 6. til 11. janúar. Tíminn segir frá þann 8.;

Undanfarinn sólarhring eða þrjú dægur hefur verið nánast júníhiti um suðvestanvert landið, frá 6 til 9 stiga hiti. Ekki hefur verið jafn hlýtt austanlands, þar hafa aðeins verið 2—3 stig. Svell er víðast horfið sunnan og vestanlands. Í fyrrinótt þiðnuðu svell víða austan fjalls svo að segja á einni nóttu, svo að vegir, sem um kvöldið voru alþaktir ís, voru auðir um morguninn. Áður voru vegir í nágrenni Reykjavíkur orðnir auðir, og víða kominn á þá mikill aur, er klakinn var að fara úr. Í Reykjavík hvarf öll hálka á örskömmum tíma og urðu þá allir jafn fegnir. Hér hafði verið svo mikil hálka nokkra daga, að vart var gengt um götur og hlutu margir slæman skell af völdum hálkunnar, þótt furðulega lítið yrði um slys, miðað við færð. Einnig jók það á slysahættuna á þessum tíma, að fótgangandi fólk flúði af gangstéttunum, sem voru eitt hála gler og út á akbrautirnar, sem flestar hverjar voru auðar. Sýndu bifreiðarstjórar þá sem oftar aðdáunarverða nærgætni við gangandi fólk, sem víða virðist eiga allan rétt fyrir bílunum.

Frá Selfossi berast þær fréttir, að þar hafi allur ís horfið. Ekki eru aurbleytur í vegum og hvergi hefur runnið vatn á þá, svo til hafi frést, en færðin er mjög þung. Bílstjóri, sem fór austur yfir fjall í gær, lét svo um mælt, að erfitt væri að aka vegna þungrar færðar. Úr austurhluta Rangárvallasýslu eru þær fréttir, að öll svell hafi tekið upp þar á örskömmum tíma. Mikil hlýindi eru þar, og þiðnar klaki óðum úr vegum, og eru þeir mjög þungir af  aurnum. Blaðið aflaði sér upplýsinga hjá Veðurstofunni, sem spáði því, að svipað veður myndi haldast fram yfir helgi. Ekki er búist við miklum rigningum sunnanlands, en vel má búast við að eitthvað dropi. Mega Sunnlendingar vel við una, ef þeir fá svipað veður og verið hefur nokkra hríð enn.

Morgunblaðið segir einnig af hlýindunum 9.janúar:

Vegir í nágrenni bæjarins hafa spillst nokkuð í hlákunni undanfarið vegna aurhlaupa. Er slík aurbleyta á vegunum líkust því sem ekið sé í hafragraut, eins og einn langferðabílstjóri komst að orði. Gott dæmi um hvernig ástandið á vegunum er, er t.d. vegurinn upp að Álafossi, og eins mætti nefna Miklubrautina. Þetta stafar af því að klaki var kominn í jörðu er hlána tók aftur. Vatnið gat ekki komist niður úr slitlaginu, heldur „hrærðist það upp“ undan hjólum bílanna. 

Tíminn segir 9.janúar frá jarðskjálfta:

Um klukkan fimm í gærdag varð allsnarpur jarðskjálftakippur á Selfossi. Hann var nógu mikill til þess, að rúður glömruðu. svo og lauslegt dót. Blaðið sneri sér til Veðurstofunnar til þess að fá nánari fréttir af þessu. Jarðskjálftans varð einnig vart á mælum í Reykjavík, en aðeins mjög lítið. Svo virðist sem. nokkrar hræringar hafi gengið yfir dálítið svæði, en átt upptök sín skammt frá Selfossi, eða innan fimm kílómetra fjarlægðar þaðan. Þessi kippur var mjög svipaður öðrum slíkum, sem kom á sama stað 8. ágúst síðastliðinn.

Hlaup kom úr Grímsvötnum í janúar. Þótt ekki væri það mjög stórt var kannski fylgst betur með því heldur en flestum fyrri hlaupum. Kom mjög við sögu í lítilli en fróðlegri bók sem gefin var út ekki löngu síðar - ungum ritstjóra hungurdiska mjög til ánægju. Hélt hann lengi að hlaupið 1960 hefði verið talsvert stærra en raunin var. 

Tíminn segir frá 16.janúar:

Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, flaug austur yfir Grímsvötn í gær, og hafði blaðið tal af honum, er hann kom aftur til Reykjavíkur. Skyggni var gott þegar kom austur fyrir Heklu og albjart yfir jöklinum. Sigurður flaug áður yfir Grímsvötn seint í ágúst s.l. sumar, en síðan hafa orðið nokkrar breytingar á vötnunum. Sprungur hafa myndast meðfram hömrunum, sem umlykja svæðið að vestan, sérstaklega hjá svokölluðum Vatnshamri. Þetta eru svipuð ummerki og sáust í júní 1954, en þá byrjaði Skeiðará að vaxa 4.júlí og hlaupið náði hámarki 18. júlí. Þetta og vöxturinn í ánni bendir ótvírætt til hlaups, sagði Sigurður. Blaðið hafði tal af Sigurði bónda á Fagurhólsmýri í gær og taldi hann nokkrar líkur fyrir að Skeiðarárhlaup væri í nánd. Áin vex nú hægt og fylgir vatninu jöklafýla eins og jafnan við hlaup. Farvegurinn hefur þó ekki breyst. Skeiðará var með mesta móti s.l. sumar og fram á vetur, þrátt fyrir litlar úrkomur. Síðan minnkaði vatnið, en hefur nú vaxið aftur eins og fyrr segir. Áhrif lofttegunda, sem fylgja hlaupum, hafa þó ekki sest á málmum, en það er algengt að falli á málma meðan þau standa yfir. Breytingar á jöklinum þykja hins vegar benda til þess, að hlaup sé í nánd.

Tíminn segir enn af hlaupinu 19.janúar:

Blaðið átti í gær tal við Sigurð Þórarinsson, jarðfræðing, en hann hafði þá átt símtal við Ragnar bónda í Skaftafelli um vöxtinn í Skeiðará. Vatnsmagnið í Skeiðará virtist vera mjög líkt og fyrir helgina, sagði Sigurður, eða svipað og sumarvatn. Er því varla hægt að tala um hlaup enn. Það var 8. janúar, sem fyrst sást, að áin var farin að vaxa, og síðan hefur hún vaxið hægt en nokkuð jafnt, og sé miðað við hlaupið í júlí 1954 þá fer þessi vöxtur svipað að, og mætti þá búast við að þetta hlaup næði hámarki um eða eftir 20. janúar. Sumarið 1954 varð vatnsmagnið 10,5 þúsund teningsmetrar, en það var ekki stórhlaup. Hins vegar varð vatnsmagnið um 40 þús. teningsmetrar í stórhlaupinu 1934. Enn er ekki komin teljandi brennisteinsfýla af vatninu og ekki sést heldur, að falli á málma. Hins vegar veit maður ekki hvað gerast kann, sagði Sigurður. Fyrir getur komið, að smágos verði, og þá líklega um þær mundir, sem flóðið nær hámarki. Vaxtar mun ekki gæta enn í Sandgígjukvísl, en þar fór nokkur hluti flóðsins fram 1954. Ekki er áin heldur farin að brjóta jökulinn neitt enn.

Mestallt árið voru stöðugar fréttir af blíðuveðri í blöðunum - við höldum þeim fram - þótt endurtekningasamar séu - til að sannfæra okkur um hina hagstæðu tíð. En þó var smávesen - krapi og ís í virkjunum landsins. Tíminn segir frá 20.janúar:

Haganesvík í gær — Einmuna veðurblíða hefur verið hér í Fljótum undanfarið en brá til kaldari áttar um helgina. Heita má að snjólaust sé í byggð, aðeins lítilsháttar föl.

Akureyri í gær. — Síðdegis í gær var tekin upp rafmagnsskömmtun á orkuveitusvæði Laxárvirkjunarinnar, og stendur bað enn. Svæðinu var skipt í tvennt og fær hvor hluti rafmagn í fjórar klukkustundir í senn. Nær þetta yfir allstórt svæði, eða meginhluta Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslu. Orsakir eru þær, að krap safnaðist í Laxá og hún botnfraus á öðrum stöðum, en það kalla Norðendingar grunnstingul. Nú er rennsli hennar aftur tekið að aukast upp við Mývatn, en á eftir að losa sig við margar hindranir á leiðinni niður að virkjun, svo sem krap og grunnstingul.

Hér hefur verið töluvert frost undanfarið, en ekki teljandi snjór, aðeins dálítil föl. Vegurinn milli Akureyrar og Reykjavíkur er skotfær, jafnt fólksbílum sem stærri bilum. Búist er við, ef veður helst óbreytt, að Laxárvirkjunin geti tekið til fullra starfa á ný innan
skamms, en veðurspá er mjög óhagstæð. — ED.

Einmuna. Tíminn 21.janúar:

Borðeyri, 15, janúar. Hér hefur verið einmuna tíð frá áramótum, og reyndar hefur í vetur verið eitt hið besta sem menn muna. Fé er beitt út og gefið með, og vegir eins og á sumardegi. Nú er að byrja að frysta hér og fjörðinn tekið að leggja, enda þarf ekki mikið frost til þess. JE

Dýrafirði, 15. jan. — Tíð hefur verið svo eindæma góð undanfarið að allir heiðavegir héðan eru fullfærir, þótt þeir hafi ekki verið mokaðir.

Tíminn segir enn fréttir af Skeiðará 26.janúar:

Fréttaritari Tímans á Fagurhótsmýri símaði blaðinu í gær, að Skeiðará væri hætt að vaxa og þess sæi vott að farið væri að fjara í ánni. Þótt hlaupið virðist þannig vera í rénun virðist fýlan af vatninu aukast og enn fellur mjög á málma fyrir austan. Frá Hornafirði var blaðinu símað að þar fyndist megn brennisteinslykt. Hæg vestan gola var og engu til að dreifa nema Skeiðará. Fýlan var svo megn á sunnudaginn að mönnum þótti nóg um, og meiri en menn minnast að hafa fundið áður í Hornafirði samfara hlaupi í Skeiðará. Um níu dagar eru liðnir síðan vatn fór að vaxa í Skeiðará. Var lengi vel búist við stórfelldu hlaupi, en eins og horfði í gær, eru engar líkur á því að sinni. Hins vegar er vatnsmagnið orðið gífurlegt, eða fjórfalt eða fimmfalt sumarvatn Skeiðarár. Flogið var yfir Grímsvötn og Skeiðará á sunnudaginn og teknar myndir á vegum Jöklarannsóknarfélagsins, en félagið hefur fylgst vel með öllum breytingum á ánni og Grímsvatnasvæðinu. Talið er að sigið í Grímsvatnalægðinni nemi nú einum þrjátíu metrum, en síðast þegar hlaup var í Skeiðará árið 1954, varð sigið 70—80 metrar. Í símalínunni milli Núpsstaðs og Skaftafells hafa farið fjórir staurar. Frá Skaftafelli og bæjum þar fyrir austan verður því að tala í gegnum Höfn í Hornafirði. Jakaburður er sama og enginn í samanburði við það sem áður var, en jakarnir eru stórir. Vonandi verður ekki gos, en áður fyrr urðu þau helst þegar hlaup var í rénun. Nú virðast meiri líkur til að svo verði ekki.

Smávegis snjóaði. Tíminn 27.janúar:

Í gær var víðast snjókoma á Suðvesturlandi, en annars staðar úrkomulaust og víða heiðskírt, hiti um frostmark. Í Mýrdal voru slydduél eða skúrir, en þegar nær dró voru snjóél. Veður var þannig svipað alla leið upp í Borgarfjörð, en þar var úrkomulaust, en éljagangur aftur vestast á Snæfellsnesi. Færð á vegum hafði þó í gærkvöldi ekki versnað neitt sem hét, en var þó hvað þyngst í Hvalfirði.

Tíminn segir vertíðarfréttir 31.janúar - stirð vika:

Vertíðin hefur gengið mjög stirðlega upp á síðkastið og sums staðar var um algera landlegu að ræða í þessari viku. Fyrst framan af janúarmánuði voru góðveður og góður afli, en um miðjan mánuð var sem snúið við blaði, og síðan hafa veður verið válynd og veiðin treg.

Tíminn segir 3.febrúar frá miklu hvassviðri í Vestmannaeyjum:

Austanhvassviðri var í Vestmannaeyjum s.l. laugardagskvöld [30.janúar] og sunnudagsnótt. Varð stórtjón á bátum svo að talið er að það muni nema hundruðum þúsunda. Landlegur hafa verið í  Vestmannaeyjum að undanförnu. Á laugardagskvöld rauk upp með austanhvassviðri og var  jafnframt stórstreymt. Hélst rokið áfram á sunnudagsnóttina og á háflæði, um sexleytið á sunnudagsmorgun [31.], var svo komið, að sjór gekk yfir allar bryggjur nema Friðarhöfn og voru mikil sog og ferleg í höfninni. Fjöldi báta sleit landfestar og ráku saman í eina bendu, sérstaklega við Bálaskersbryggju. Brotnuðu margir bátanna ofandekks. Þar á meðal voru tveir stálbátar og begldust þeir allverulega. Nýi báturinn Ófeigur annar var t.d. þannig útleikinn að leki kom að honum um dekkið. Fullvíst er talið, að taka muni allt að þremur vikum að gera við suma bátana. Telja má víst, að beint tjón á bátunum nemi hundruðum þúsunda en þar við bætist að sumir þeirra missa vafalaust af róðrum fyrir vikið. Svo til hver formaður í Eyjum var ræstur þegar mest gekk á kl. 6—8. S.K.

Morgunblaðið segir 2.febrúar af snjóleysi á Vestfjörðum:

Snjófall hefur verið minna í vetur á Vestfjörðunum heldur en á Suðvesturlandinu, sagði Arngrímur Fr. Bjarnason Morgunblaðinu í gær. Sagði hann að þegar komið væri suður fyrir Snæfellsnesið, væri alls staðar snjó að sjá, allt fram í sjó. Á Vestfjörðum aftur á móti er enginn snjór á láglendi. Arngrímur kvaðst telja að minni snjór hefði fallið í vetur á Vestfjörðum en nokkurn vetur annan síðustu 60 árin. Breiðdalsheiði og Botnsheiði eru lokaðar, en væru þær ruddar, sagði Arngrímur, væri nú og hefði verið alllengi opið akvegasamband milli Ísafjarðar og Reykjavíkur.

Febrúar var hlýr og hagstæður framan af. Óvenjuleg hlýindi og úrkoma gengu yfir, en síðan tók við hægviðri. Síðari hluta mánaðarins var vetrartíð sem stóð svo rétt um viku fram í mars. Veðurathugunarmenn lýsa tíðinni, þar á meðal er minnst á athyglisvert þrumuveður 21.febrúar:

Síðumúli: Febrúarmánuður var í heild góður að veðurfari. Þurrviðrasamur, svo að eftir þ.8. kom aldrei væta svo teljandi sé, enda er hér og á stöku stöðum farið að bera á vatnsskorti. Allan mánuðinn var að kalla snjólaus jörð. Vegir oftast eins og um hásumar. Seinni hluta mánaðarins var oft hvasst og því mjög gjóstugt og kalt.

Lambavatn: Það hefir verið mjög hagsætt veður hér yfir mánuðinn. Fyrri hlutann blíðviðri, en seinni hlutann austan- og norðaustankuldanæðingur. Allan mánuðinn hefir verið hér snjólaust, jafnt á fjöllum sem í byggð. Jörð er orðin mjög þurr og ónýt.

Barkarstaðir (Benedikt Björnsson): Óvenjugóð tíð allan mánuðinn. [7. Hér mestu vatnsflóð síðan 28. febrúar 1930].

Sandur: Tíðarfarið var milt fram til þ.10 og jörð snjólítil á láglendi, sérstaklega eftir hlákuna þ.7. Eftir þ.10. kólnaði og snjóaði talsvert svo færð þyngdist á vegum.

Gunnhildargerði: Fyrri hluti mánaðarins var með ágætum góður, en hinn síðari eins afleitur. Hér er kominn mikill snjór og er þó veðrahamurinn enn verri. [21. Kl. um 3 um nóttina voru þrumur, bjart varð í húsum og símtól eyðilögðust á þó nokkrum bæjum].

Dagarnir 6. til 8. urðu óvenjuhlýir, úrkoma mikil og leysingar. Vildi til að snjór var lítill fyrir. Mikil hæð var yfir Norðursjó, en lægðir vestur undan beindu mjög hlýjum og rökum loftstraumi langt sunnan úr höfum til landsins. 

Slide1

Tíminn segir frá 9.febrúar:

Stykkishólmi, 8. febr. — Síðastliðið laugardagskvöld [6.] gekk upp með hamfararoki af suðri hér í Stykkishólmi. Jafnframt rigndi verulega. f þessum ógangi fauk hér hlaða og fjárhús, eign Þórólfs Ágústssonar, útgerðarmanns. Byggingar þessar voru úr timbri og járni. Svipti rokið þeim gjörsamlega burtu svo aðeins stendur ber grunnurinn eftir. Húsin voru auð og mun Þórólfur hafa ætlað að nota þau sem fiskgeymslu. Er tjón hans verulegt því ekki þarf að búast við að mikið verði nýtilegt af efninu þó að eitthvað af því væri hægt að tína saman. Ekki er kunnugt um aðra skaða hér um slóðir af völdum þessa veðurs. K.B.G.

Nú um helgina gekk á með roki og rigningu víða um land, nema á Austfjörðum, og fylgdu miklir vatnavextir í kjölfarið. Hafa orðið mikil spjöll á vegum, einkum í Borgarfirði og í Austur-Húnavatnssýslu. Blaðið átti í erfiðleikum með að ná sambandi við fréttaritara sína í Skagafirði og Húnavatnssýslum í gær, þar sem símasamband hafði rofnað við þá staði í óveðrinu. Hvítá í Borgarfirði flæddi yfir veginn milli Hvítárbrúar og Hvítárvallaskála, svo og norðan við Ferjukotssíki. Í gærmorgun var þó komist yfir á þessum stöðum á stórum bílum, en gekk erfiðlega og var ekki hættulaust, því veginn gat hafa tekið alveg af. Síðast þegar fréttist var ekki vitað hve skemmdir voru miklar á þessum kafla.

Hægt er að komast framhjá þessari torfæru með því að fara upp fyrir, sem kallað er, og yfir Hvítá hjá Kljáfossi. Þá hafa lækir rofið veginn víða í Borgarfirði. Alófært er nú um veginn við Reykjadalsá hjá Fellsenda [í Dölum]. Þá er Skógarstrandarvegur við Miðá lokaður og ófært er hjá Hörðudalsá. Fyrir utan þetta hafa víða orðið meiri og minni skemmdir á þessu svæði. Blanda flæðir nú yfir Langadalsveg fyrir norðan Æsustaði og þar er ófært vegna ísruðnings úr ánni. Ruðningurinn braut eina tíu símastaura á þessum stað og má af því marka hver hamagangurinn hefur verið í Blöndu í þetta skipti, en nokkuð langt er frá ánni að símalínunni, þegar allt er með eðlilegum hætti.

Hér í nágrenni Reykjavíkur urðu vegir hvergi ófærir að kalla sökum vatnsagans og hlýindanna. Í gær var þó Mosfellssveitarvegur orðinn mjög illfær vegna bleytu. Á sunnudaginn var áætlunarbíllinn klukkutíma að komast upp að Hlégarði, sem venjulega er farið á 20 mínútum til hálftíma. Var hann bannaður fyrir alla umferð þungaflutningabíla. Hellisheiðarvegur var einnig heldur slæmur, hafði runnið úr honum á nokkrum stöðum, en hann var þó fær þeim, sem gættu sín og fóru varlega. 

Selfossi, 8. febrúar. Sunnanátt og rigning hefur verið hér undanfarið. Vatnsflaumur er mikill í Ölfusá og hefur hækkað í ánni undanfarna 3 daga um 3 metra, mest þó í gær og dag. Eðlileg hæð vatnsins er talin 90 cm en er nú tæpir 4 metrar. Í birtingu í morgun var vatnið komið upp á bakka norðan Tryggvaskála og náði upp í tvö höft á landbrúnni. Flæðir yfir veginn við ána og vatn er komið í kjallara Tryggvaskála. Þá hefur og eitthvað flætt inn í kjallara fleiri húsa við ána. Mun þetta mesta flóð í Ölfusá síðan 1948, en þá urðu hér miklar skemmdir á mannvirkjum, og var farið á bátum milli húsa. Kunnugir segja, að ef ekki væri nú alauð jörð og íslaus áin, þá hefði orðið hér stórtjón nú. Ekki er talin hætta á að áin vaxi mikið úr þessu þar sem reynslan er sú, að vatnið vex einn sólarhring eftir að rigning hættir, og nú er nokkuð farið að sjatna í Hvítá. Búist er við að Ölfusá hafi að þessu sinni náð hámarki sínu á miðnætti í nótt.

Laugarvatni, 8. febr. Algjör samgönguteppa er við Skillandsá í Laugardal. Flæðir áin brúna, og var hann algjörlega ófær í gær og dag. Ýmsar smærri brýr hafa og flotið burtu, t.d. hjá Gröf tók af brú, sem aldrei hefur haggast áður. Í 30 ár hefur aldrei verið svo hátt í Laugarvatninu sem nú. Nemur hækkunin áreiðanlega yfir einum metra. Var þó snjólaust með öllu og má nærri geta hvílíkt ofboðs flóð hefði orðið, er einhver teljandi snjór hefði verið á jörð. Menn muna ekki eftir jafn mikilli rigningu og hér var í fyrradag og í gær. Þá hafa og orðið ýmsar minni háttar skemmdir. Nú er vatn aftur heldur að sjatna. B.B.

Vatnsleysu, 8. febr. Uppfyllingin að vestanverðu við Brúarhlaðabrúna fór í nótt, og þar með er vegurinn lokaður. Flóðið var ekki mjög mikið í gærkvöldi, en fór hraðvaxandi í nótt. Þá kom og skarð í veginn við Stóru-Laxá. Ekki er enn vitað um skemmdir á veginum við Litlu-Laxá hjá Auðsholti, því þar er hann enn undir tveggja til þriggja metra djúpu vatni og Auðsholt einangrað. Vegurinn að Geysi mun og eitthvað hafa skemmst, en er þó slarkandi. Flóð hefur sjaldan gengið svo hátt sem nú. Þ.S.

Barkarstöðum [Fljótshlíð], 8. febr. Vegurinn hjá Merkiá og Árkvörn er ófær. Hjá Merkiá hefur tæst sundur uppfylling við brúna. Fara bílar yfir ána framan við brúna, en hægt er að komast annan veg hjá Árkvörn en þjóðveginn, svo að flutningar hafa ekki teppst. S.T.

Akureyri — 8. febr. Hér var aftakarok og illskuveður í gær og framan af degi í dag, en er nú heldur að lægja. Brunná, skammt utan við Akureyri, rann yfir veginn og tók hann alveg með sér, en hægt er að komast þessa leið eftir öðrum vegum. Sem dæmi upp á rokið má geta þess, að flugvél, sem stóð hér á flugvellinum, var reyrð niður með ýmiss konar óvenjulegum lóðum, svo sem jarðýtu, trukkbíl og 20 manna rútu. Auk þess var raðað sandpokum eins og tolldu á vængi hennar, en samt færðist hún til. Ekki urðu skemmdir á henni. Engir skaðar urðu teljandi innanbæjar hér, en eins og nærri má geta fauk allt, sem lauslegt var, svo sem ruslatunnur og annað slíkt. Ekki hreyfðust þó þök á húsum, svo heitið gæti. E.D.

Dalvík — 8. febr. Í gær var hér 12—15 stiga hiti með stormi og rigningu. Mikil 1eysing varð og braust vatnsflaumurinn inn í nokkur hús hér í þorpinu og olli skemmdum. Var unnið í gær og alla nótt að dæla vatni úr húsunum. Nú er orðið kaldara og vatnið sjatnað nokkuð. Svarfaðardalsá flæðir yfir Akureyrarveg, og hjá Hrísum er hann ekki fær nema stórum bílum, vegna vatns og jakaburðar. P.E.

Morgunblaðið segir frá hitameti 9.febrúar:

Í fyrrinótt gerðist það á Dalatanga við Mjóafjörð, að hitamælirinn sýndi 16 stig. Hafa svo mikil hlýindi ekki mælst áður á Íslandi á þessum tíma árs, síðan reglulegar veðurathuganir hófust hér. 

Slide2

Hámarkshitinn á Dalatanga fór reyndar í 17,0 stig og 16,9 á Seyðisfirði. Stóð þetta febrúarmet í nærri 40 ár, þar til 17.febrúar 1998. Þá fór hiti í 18,1 stig á Dalatanga. Eftir aldamót hefur hiti þrisvar mælst meiri en 17,0 stig í febrúar. Um (hið umdeilda) núgildandi met (19,1 stig, 12.febrúar 2017) er fjallað í sérstökum pistli hungurdiska. Metið á Dalatanga 1960 sló eldra met um 2 stig. Það var 15,0 stig sett í Fagradal í Vopnafirði þ.22. árið 1932 og jafnað í Vík í Mýrdal þ.15. árið 1955 (athuga mætti það tilvik nánar). Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa, jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin sýnd i litum. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktin náði hámarki yfir landinu þann 7. 5470 metrar, hefur aðeins orðið meiri tvo daga í febrúar í endurgreiningunni era5 - en hún nær aftur til 1940. Mest var þykktin þegar febrúarmetið 2017 var sett.

Morgunblaðið segir einnig af asahlákunni í pistlum 10.febrúar:

Skagaströnd, 9. febrúar. Suðvestan asahláku gerði hér um helgina. Vöxtur hljóp í allar ár og urðu þær kolmórauðar eins og í mestu vorleysingum. Neysluvatn þorpsbúa varð eins og grautur, en þeir fá það úr Hrafná, sem rennur rétt innan við kauptúnið. Í veðrinu rak hér á land nýbrotinn símastaur og álíta menn að hann sé kominn framan úr Langadal, þar sem Blanda braut 10 símastaura.

Dalvík, 9. febr.: — Aðfaramótt s.l. sunnudags gerði hér suðvestan rok með rigningu og 12 stiga hita. Snjór var í hlíðum. Leysti hann á svipstundu og varð af mikill vatnsflaumur. Brátt kom að því að skolpræsin fluttu ekki hið mikla vatn, er í þau rann, og gekk upp í kjallara og neðri hæðir húsa, er lægst stóðu í þorpinu. Stóðu menn í austri frá því um hádegi á sunnudag til kl. 8 á mánudagsmorgun. Einnig voru tvær brunadælur í gangi allan tímann, en um 8 leytið um morguninn fór heldur að kólna í veðri og vatnið að sjatna. Allverulegar skemmdir urðu í nokkrum húsum, einkum á gólfdúkum. Í flestum þessara húsa hefur aldrei komið upp vatn, þó gert hafi bráðaleysingar.

Bæ á Höfðaströnd, 9. febr.: — Aðfaranótt sunnudags gekk hér mikið sunnan veður. Á bænum Heiði í Sléttuhlíð fauk þak af hlöðu og talsvert af heyi. Konan var ein heima með smábörn og gat að sjálfsögðu ekkert aðhafst.

Í fyrrinótt rauf Hvítá í Biskupstungum skarð í hleðsluna á veginum að brúnni á Brúarhlöðum og var sú leið ekki fær bifreiðum í gær. Farið var að sjatna það mikið í báðum þessum ám í gær, að ekki var talin hætta á spjöllum af þeim völdum.

Tíminn segir af flóði í Blöndu 12.febrúar - og síðan hlýindum:

Blönduósi, 9. febr. — Ofsalegt flóð hljóp í Blöndu um síðustu helgi. Ruddist hún upp á bakkana hjá Æsustöðum og braut þar í fordæðuskap sínum 8 símastaura. Þá brotnuðu 3 símastaurar vestan Hnausakvíslar í Þingi og 1 vestan við Miðfjarðarbrú. Hér er auð jörð og ágætis veður. Reytingsafli er á Skagaströnd. Fá bátarnir 5—8 tonn í róðri. S.A.

Stykkishólmi, 8. febr. — Jarðýta er nú að vinna hér í Helgafellssveitinni og hefur svo verið síðan um áramót. Mun það vera sjaldgæft á þessum tíma árs ef ekki einsdæmi hér. Ýtan hefur verið að ryðja út uppmokstri úr skurðum. Þegar því er lokið hefur jarðýtustjórinn, sem er Ingólfur Hannesson, hugsað sér að hefja plægingar, ef ekki spillist tíð. Klaki er sáralítill í jörð, aðeins þunn skel. Þykir mönnum það að vonum góður sumarauki að geta unnið að jarðýtustörfum á þorra. KBG

Tíminn er enn í flóðum 13.febrúar:

Eins og kunnugt er af fréttum, hljóp mikið flóð í ýmsar stórár norðan lands og sunnan, nú um síðustu helgi. Flæddi vatn yfir stór svæði og olli miklum spjöllum á vegum og bar aur og grjót yfir slægjuland og er ekki fljótséð hve þau spjöll eru mikil. Flóðið rénaði yfirleitt snögglega og víða orðið sæmilegt á þriðjudag, en það var ekki fyrr en í gær að vatn var farið að sjatna að verulegu leyti á eylendinu í Skagafirði, en þar hefur vatninu gengið undarlega seint að síga fram. Svo virðist sem Vestari-vatnaósinn við Borgarsand hafi stíflast af jakaburði um tíma og hafi það mjög dregið úr rennsli vatnsins. Var eylendið lengi eins og hafsjór yfir að líta og áttu menn í miklum erfiðleikum með skepnur, bæði í húsum á flóðasvæðinu og einnig þær, sem úti gengu. Ekki er vitað til að nein vanhöld hafi orðið af völdum flóðsins, Þeir sem þekkja til geta haft það til marks um flóðið, að á tímabili náði það upp að túnum bæja á Langholtinu. Þá komst vatn í fjárhús á Ytri-Húsabakka og  Eyhildarholti, þótt ekki hlytust vandræði af.  Flóðið á eylendinu stafar mest af því, að jakastífla kom í Héraðsvötnin sunnan við brúna yfir Grundarstokk, en norðan Valla. Flæddu Vötnin þar út úr farvegi sínum og út á sléttuna. Miklar skemmdir urðu á veginum sem liggur fram með þeim þar a kafla. Vann jarðýta að því að ryðja jökum af brautinni og undanfarna tvo daga hefur möl verið ekið ofan í hana, en hún skrapaðist burt í hamaganginum.

Þótt Hvítá hafi gerst fjörmikil á Suðurlandi, stóð vatnið ekki lengi um kyrrt. Hún flæddi yfir allan vesturhluta Skeiðahrepps, að meira og minna leyti yfir lönd tólf jarða, svo bæirnir Útverk og sex býli í Ólafsvallahverfi voru umflotin. Var ekki hægt að komast þar á milli nema á bát. Flóðið í Hvítá náði hámarki um klukkan 6 á mánudagskvöld og fór úr því að fjara. Ekki munu skemmdir hafa orðið af flóðinu, svo teljandi sé, nema nokkurt vatn komst í tvær hlöður í Ólafsvallahverfi. Frá Útverkum hafa engar fréttir borist, því þar er enginn maður í vetur síðan íbúðarhúsið brann 1 haust.

Tíminn segir 14.febrúar af „öskufalli“ undan Ingólfshöfða:

Blaðið hafði spurnir af því að skipverjar á skipi nokkru stöddu undan Ingólfshöfða í gærmorgun hefðu orðið varir við öskufall á skipinu og séð mikið mistur til lands. Til þess að fá nánari fréttir af þessu hringdi blaðið til fréttaritara síns á Fagurhólsmýri og fékk eftirfarandi upplýsingar: Ekki mun hafa verið um ösku að ræða þarna, heldur er sennilegast, að framburður Skeiðarár, sem mest er leirleðja, hafi þornað upp og fokið. Þurrkar hafa gengið eystra upp á síðkastið og leirinn hefur þornað upp og breyst í mjög fíngert ryk, sem síðan fýkur langar leiðir án þess að um mikið, hvassviðri sé að ræða. Í Öræfum bar á rykfoki þessu um leið og sjatna tók í Skeiðará, en mest bar á því í gærmorgun, enda var þá strekkingur af vestri. Er allt útlit fyrir að fokið muni halda áfram enn um sinn, þar sem framburður Skeiðarár var geysimikill. Stöðugt fjarar í ánni og er nú mjög lítið í henni. Fyrst þegar fréttin um öskufall á skipið undan Ingólfshöfða barst manna á meðal, bjuggust ýmsir við því, að eldar væru uppi einhvers staðar þar eystra og nú myndi draga til stórtíðinda. En um það er sem sagt ekki að ræða, „askan“ var leir úr Skeiðará.

Morgunblaðið ræðir enn vatnavexti 16.febrúar - en líka vatnsþurrð:

Í ofsahlákunni, sem varð laugardaginn 6. febr. og náði hámarki aðfaranótt sunnudags, urðu einhverjir þeir mestu vatnavextir, sem komið hafa á síðari árum, í ám, um nær allt land. Sem betur fer hjaðnaði flóðið álíka snögglega og það hófst, því að öðrum kosti hefði víða farið illa og jafnvel orðið stórtjón. Í gær var auglýst rafmagnsskömmtun á orkuveitusvæði Laxárvirkjunar. Var komið krap í Laxá og um hádegi hafði rafstöðin aðeins 4000 kW yfir að ráða. Var þá hafin skömmtun og orkuveitusvæðinu skipt í tvö hverfi, sem fengu rafmagn 4 tíma í senn. ... Um hádegi í dag borðuðu Húsvíkingar kaldan mat í hálfköldum húsum, símaði fréttamaður blaðsins á Húsavik í gær. Rafmagnið var tekið af kl.8 um morguninn, áður en menn voru búnir að kynda upp og kom ekki aftur fyrr en kl.1. Þá var rafmagn, en átti að fara aftur kl.7, rétt áður en útvarpsumræður hófust. Í flestum húsum bæjarins er olíukynding, sem gengur fyrir rafmagni og iðnaður fellur allur niður með rafmagninu, því hvergi eru varastöðvar nema í frystihúsinu og mjólkurstöðinni.

Í gær var einnig auglýst í útvarpinu að komið gæti til rafmagnsskömmtunar í Skagafirði og Húnavatnssýslu. Blaðið spurðist fyrir um þetta hjá Eiríki Briem, rafmagnsveitustjóra. — Sagði hann að vegna frosta væri lítið í Gönguskarðsá og víðar og því auglýst til vonar og vara að komið gæti til rafmagnsskömmtunar. Sjaldan kemur þó fyrir rafmagnsleysi á þessu orkuveitusvæði, en getur orðið einu sinni eða tvisvar á vetri.

Það var mikið að starfa austur við Sog um helgina. Stöðva varð rafvélar Ljósafossstöðvarinnar í um það bil 20 klukkustundir. Þetta stóð í sambandi við norðan hvassviðri og nokkurt frost er gerði aðfaranótt sunnudagsins. Þá var Þingvallavatn lagt um 5 cm þykkum ís. Á laugardagskvöldið og sunnudagsnóttina tók ísinn að brotna vegna veðurs. Barst ísrek að orkuverunum og í lóninu við stíflugarð Ljósafossstöðvarinnar hafði á sunnudaginn myndast 6 m þykk íshella við ristarnar sem vatnið fellur í gegnum, inn á vélasamstæðurnar og náði þessi mikla íshella um 8 metra út frá stíflugarðinum. Varð að stöðva vélasamstæður  Ljósafossstöðvarinnar um klukkan 4 aðfaranótt sunnudagsins. Um það leyti fór líka rafmagnið hér í bænum, og var rafmagnslaust í klukkustund eða þar um bil. Klukkan 8 á sunnudagskvöldið hafði ástandið breyst svo til hins betra að hægt var að setja vélar Ljósafoss af stað á ný. Ekki munu þær þó hafa unnið með fullum afköstum fyrr en komið var undir kvöld í gær.

Nú kólnaði. Tíminn segir frá 18.febrúar:

Þar kom að vetrarsvipur færðist yfir landið. Hér sunnanlands hefur verið hvasst og kalt undanfarna tvo daga en ekki hefur þó snjóað. Nyrðra hefur hins vegar gengið á með hvössum éljum.

Húsavík, 17. febr. — Hér er mesta ólátaveður. Hefur verið hvasst af norðri í dag og gengið á með éljum, en með kvöldinu „harðnaði á dalnum" og er nú komin versta hríð með töluverðu frosti. Rafmagnið hefur þó ekki svikið okkur ennþá, en við öllu má búast. H.L.

Sauðárkróki, 17. febr. — Hér er allhvöss norðanátt í dag og hefur gengið á með dimmviðris-éljum. Heldur hefur hvesst með kvöldinu. Frost er 7—8 stig. Snjó hefur lítið fest enn.

Fosshóli, 11. febr. — Akfæri er hér svo gott á vegum að fólksbílar fara keðjulaust um allar heiðar. Er bílfært fram á fremstu bæi í Bárðardal og óvenjulegt á þorra. Bændur beita fé upp á kraft en gefa töluvert. Asahláka, rok og rigning var hér um síðustu helgi. Hljóp þá feikna vöxtur í Skjálfandafljót. Ekki hefur frést af teljandi tjóni en til marks um hvassviðrið má hafa að, að á Sandhaugum í Bárðardal fuku þrjú búnt af þakjárni og voru þó samanhespuð.

Grímsstöðum, 11. febr. — Tíðarfar hefur verið með eindæmum gott hér í vetur. Nú er mjög snjólítið enda var afbragðs hláka fyrir og um síðustu helgi og komst hitinn þá upp í 11 stig hér á Fjöllunum. Er slíkur ylur sjaldgæfur hér á þorra. Jörð er töluvert svellrunnin.

Tíminn segir síðbúnar fregnir af vatnavöxtunum í frétt 23.febrúar:

Garði í Grímsnesi, 13. febr. — Um síðustu helgi gerði hér asahláku og hlupu ár allar í ofsaflóð. Skaðar urðu þó hvergi teljandi Einn bær, Vatnsnes, varð alveg umflotinn vatni og varð um hríð ekki haldið uppi við hann samgöngum nema á „sjó“. Þegar aftur tók að frjósa, varð ófært bæði á „sjó“ o*g landi, en möguleikar á loftflutningum ekki fyrir hendi og var þá heimilið alveg einangrað í 2—3 daga. 

Slide4

Eins og veðurathugunarmaður í Gunnhildargerði á Úthéraði gat um gerði þrumuveður þar um slóðir aðfaranótt 21.febrúar. Skemmdir urðu á símabúnaði. Þetta er harla óvenjulegt þrumuveður. Háloftakortið sýnir líka nokkuð óvenjulega stöðu. Úrkomubakki virðist hafa komið úr austri og norðaustri í tengslum við háloftalægð sem var yfir landinu á suðurleið. 

Slide3

Á grunnkortinu sést úrkomubakkinn koma úr norðaustri. Eindregin norðaustanátt er í neðstu lögum, en óráðin eða suðlæg átt efra. Kannski hefur hlýtt loft lent undir köldu og fjalllendið milli Héraðs og Vopnafjarðar kveikt í blöndunni. Mætti athuga betur síðar. 

Tíminn segir af ófærð 24.febrúar:

Í kuldakastinu, sem gerði um síðustu helgi urðu nokkrir fjallvegir ófærir norðan- og austanlands. Allmikill snjór féll á Öxnadalsheiði norðanverða. Vaðlaheiði varð og ófær.  Þungfært er sumstaðar innan héraðs í Þingeyjarsýslum. Vegurinn fyrir Tjörnes er lokaður og ekki er fært úr Kelduhverfi til Kópaskers.

Tíð var afbragðsgóð lengst af í mars. Helst að vetrarsvipur væri á veðri fyrstu vikuna. Veðurathugunarmenn lýsa tíð:

Síðumúli: Það er vor í lofti og vor á jörð. Loftið er milt og túnin byrjuð að grænka. Fyrstu 6 dagana var frost. Eftir það var hér mesta veðurblíða svo að fáir eða engir muna slíkt í marsmánuði. Þann 4. snjóaði og rigndi, svo vatnsskortur sem orðinn var í febrúarlok var úr sögunni. Urðu menn því næsta fegnir.

Lambavatn: Það hefir verið óslitið góðviðri allan mánuðinn. Fyrstu vikuna var frost en alltaf snjólaust. Veðráttan líkist meira vori en vetri. Hvergi svell á polli eða snjór. Varla að sjáist snjór á fjöllum. Þótt veðurblíða hafi verið nú lengi lifnar lítið gróður, er það vegna þess að klaki er töluverður í jörð. Jörð alltaf snjólaus yfir veturinn.

Barkarstaðir. Óvenjugóð tíð allan mánuðinn.

Sandur: Fyrstu vikuna var kalt í veðri og talsverð snjókoma. En að öðru leyti var mánuðurinn framúrskarandi blíðviðrasamur. Voru ýmist þíðviðri eða stillur, heiðríkjur og sólbráðir. Leysti snjóa til mikilla muna seinni hluta mánaðarins.

Gunnhildargerði. Í upphafi kvaddi mánuðurinn sér hljóðs með illviðri og offorsi, en er fyrsta vikan var liðin brá til hins betra og var til mánaðarloka. Snjó tók mjög hægt og er mikið skefli enn. [3. Nú hefir komið svo illt veður að menn gátu ekki fyrr en um kveld komist í fjós að þeim bæjum sem þurfti út til að sinna kúm. Um snjó er ekki gott að komast að hinu sanna því veðurhæðin var svo geysileg að fyllt hefur upp sund og dokkir og til er að bústaðir manna hafa að mestu leyti horfið í snjó.

Hallormsstaður (Páll Guttormsson). Bylurinn 3.mars í lok kuldakaflans er byrjaði 10. febrúar og endaði 5. mars er dimmasti bylur er hér hefur komið í seinnitíð. Eftir það var mánuðurinn heiður og marga daga hátt hitastig eins og í mánuðunum á undan á þessum vetri.

Tíminn segir af hreinsandi snjókomu 5.mars - eftir margra vikna ryk. Eins er sagt frá lagnaðarís á Eyjafirði. 

Fáir munu hafa tekið snjókomu með meiri fögnuði að þessu sinni en Reykvíkingar, þegar langvarandi gjósti og ryki lauk skyndilega í fyrrinótt í kyrrlátri, hvítri og hreinni ofanhríð. Og fæstir töldu eftir sér að moka af gangstígnum í gærmorgun.

Akureyri, 4. mars. — Pollurinn og Eyjafjörður er nú ein samfelld ísbreiða alla leið út að Krossanesi og þar þvert austur yfir fjörðinn. Er þetta næsta fátítt, að svo samfelld ísbreiða og vakalaus sé á firðinum, og veldur erfiðleikum í sambandi við siglingar. Hekla kom hér við í gær í strandferð, og braut sér leið gegnum ísinn alla leið inn að Torfunesbryggju. Nokkur togskip lágu hér inni, og voru þau að tínast út í gærkvöldi, eftir að hafa tekið kost og Heklan hafði opnað rennu í ísinn. Um það leyti, sem Hekla tók að ryðjast gegn um ísröndina að utanverðu, lagði togskipið Hafþór af stað út. Gekk báðum skipunum fremur vel að brjóta frá sér, og gátu svo skipst á rennum, er þau höfðu mæst. Var þá allgóð braut opin fyrir þau skip sem eftir lágu. Ísinn er fremur meyr, og kemur það til af því að stöðugt hefur snjóað á hann, svo að hann hefur ekki fengið frið til þess að harðfrjósa eins og hann hefði verið auður í hreinviðri. Hefði snjórinn ekki verið svo mikill á honum, hefðu skipin hvorki komist lönd né strönd. ED.

Áfrahald á blíðufregnum. Tíminn 13.mars:

Akureyri, 12. mars. — Hér er nú hver dagurinn indælli hvað veðurfar snertir, kyrrt og sólfar um daga en nokkurt næturfrost. Fært er orðið á ný um héraðið, og Öxnadalsheiði einnig opin. Pollurinn er ennþá ísi lagður en þó er opið frá Torfunesbryggju. Aftur á móti er bátahöfnin lokuð og hefur engin trilla komist á sjó í meira en 3 vikur. Eru trillubátaeigendur teknir að gerast órólegir, því að nú fer að verða von á loðnunni.

Í Tímanum 22.mars er fróðlegur pistill um Skeiðará og fleira. Við styttum hann mikið hér en mælt er með að áhugasamir fletti honum upp:

[Sigurður Arason, bóndi, Fagurhólsmýri skrifar um Skeiðará og fleira] Vorið 1903 kom hlaup í Skeiðará og eldgos í Grímsvötn. Þetta eldgos sást mjög greinilega og hvar það var í jöklinum, þó mun enginn maður hafa komið á þær slóðir, þar sem eldgosið var, svo vitað sé, og ekki næstu ár á eftir. [...] Merkasti árangur af ferð Svíanna var sá, eins og kunnugt er, að þeir fundu mikið jarðhitasvæði þar sem gosið hafði eldi í sambandi við Skeiðarárhlaup, og nefndu Svíagíg. Dr. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, sem einnig er vel heima í þjóðlegum fróðleik, vék þessu nafni Svíanna til hliðar, ef svo mætti segja, og færði það yfir á hnúka þá sem nú eru nefndir i Svíahnúkar en gígana nefndi hann Grímsvötn, sem allir kannast við. Nafnið Grímsvötn var farið að falla í gleymsku, en var áður þekkt, og þá bundið við þennan stað, og til gamans má geta þess að Fjalla-Eyvindur þekkti það, og ekki ósennilegt að hann hafi heyrt söguna af Grími sem nafnið er kennt við. En Fjalla-Eyvindur var allra manna kunnugastur í óbyggðum og allt af að leita að þeim dal sem honum gæti hentað sér til framdráttar. Nokkrum árum eftir að Grímsvötn fundust fór að vakna áhugi á rannsóknum á Vatnajökli og því sem þar er að finna sem að jarðfræði lýtur o.fl. og hafa fræðimenn lagt leið sína þangað, bæði heimamenn og erlendir fræðimenn í samvinnu og mun það almannarómur að okkar menn hafi ekki látið skutinn eftir liggja. [...]

Síðan 1934 hefur vatn ekki farið að neinu ráði um sandinn, frá Skeiðará og Sandgígjukvísl. Sennilega landsvæði sem er um 200  ferkílómetrar að flatarmáli, þarna eru komnir allgóðir sumarhagar fyrir sauðfé, og yrði sennilega upp gróið land að miklu leyti, ef gróðurinn fengi grið, fyrir vatnaágangi. Á Breiðamerkursandi hefur haldist meiri gróður en á Skeiðarársandi. Einkum síðan jökulsambandi við það hafa árnar fengið fastari farvegi en renna ekki eins sitt á hvað og áður.

Tíminn lýsir góðri tíð 29.mars:

Við höfum ekki haft mikið af vetrarhörkum að segja á þessum vetri. Dag eftir dag hefur verið einmuna veðurblíða víðast hvar á landinu, og lítið sést af snjó. Frost hafa ekki verið mikil né langvarandi, en samt nóg til þess, að nú er víða. komin mikil aurbleyta á vegi.

Tíminn birti 1.apríl bréf úr Skáleyjum á Breiðafirði:

Skáleyjum, 25. mara. — Tíðarfar hefur verið mjög hagstætt hér í vetur. Frá áramótum fram í miðjan febrúar mátti heita stöðug blíðviðrishlýindi. 13. febrúar hvessti á norðan, kólnaði og gerði uppúr því samfelldan norðangarð um þriggja vikna skeið með frosti sem komst allt niður í 11 stig á Celsius hér í eyjunum. Góa heilsaði kuldalega og spáði því vel um tíðarfarið framundan. Samkvæmt gömlu máltæki, sem hljóðar svo: „Grimmur skyldi góudagurinn fyrsti, annar og hinn þriðji, þá mun góa góð verða.“ Það má segja að nú hafi farið eftir spánni, því upp úr þessu fór að hlýna og gerði suðaustan hægviðri sem má heita að hafi haldist síðan. Er nú jörð að verða þíð og nál farin að lifna í grundum. G.J.

Apríl var einnig hagstæður, en gróðri fór samt ekki mikið fram norðanlands sökum næturfrosta  Veðurathugunarmenn lýsa tíð:

Síðumúli: Aprílmánuður er í huga mínum ein samfelld heild góðviðra, en gott veður hefir ósegjanlega mikil og góð áhrif á líðan manna og dýra, og því dáum við það. Smámsaman grænka túnin, en gróðurinn fer mjög hægt, bæði á túnum og úthaga.

Lambavatn: Það hefir verið svipað veður þennan mánuð eins og fyrri mánuði. Oftast stillt veður og úrkomulítið. En aldrei nein sérstök hlýindi. Gróður frekar lítill og nú síðustu dagana hefir verið kaldara.

Hólar í Hjaltadal: Köld veðrátta. Viðvarandi skörp frost. Ekki mikið úrfelli. Óstöðug vindátt. Gróðurlaust að kalla í lok mánaðarins.

Sandur: Tíðarfarið milt og hægviðrasamt, en úrkomur talsverðar öðru hvoru. Snjólaust var að mestu á láglendi, en gróður nær enginn í mánaðarlokin vegna tíðra næturfrosta.

Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Hægviðramánuður mikill, en fremur kaldur.

Gunnhildargerði: Veðrið var mjög ákjósanlegt og tók allan snjó og gróðrarnál tók að lifna, en svo gerði áfelli í lokin.

Tíminn segir af veðri eystra 6.apríl:

Eskifirði, 4. apríl. — Nú er gott veður í dag, vorblíða, en í gær var hálfgerður bylur. Á þessu má sjá, að hér er heldur breytilegt veður, en yfirleitt má segja, að sæmilegt tíðarfar hafi verið í vetur. Nú er verið að moka Oddsskarð, og er vinnuflokkurinn á háskarðinu í dag. Gert er ráð fyrir, að það myndi taka svo sem 4-5 daga að opna skarðið.

Tíminn 8.apríl - enn einmunatíð:

Hrunamannahreppi, 2. apríl. — Einmunatíð hefur verið hér að undanförnu og farin er að sjást grænn litur á túnum. Vegir eru að byrja að spillast vegna aurbleytu.

Smáhríðarkast gerði líka norðanlands. Tíminn 9.apríl:

Siglufirði, 6. apríl. — Nú í gær og fyrradag hefur verið norðaustan hvassviðri með snjókomu. Alhvítt er yfir að líta, en snjórinn er laus og verður fljótur að hverfa, ef hlýnar og kyrrist í veðri. Í dag er heldur sð birta. BJ

Útsynning gerði nokkra daga - óhagstæður á sjó vestanlands. Tíminn 20.apríl:

Ólafsvík, 20.4. — Mjög hefur verið umhleypingasamt og misjafn afli það sem af er þessum mánuði. Veður er slæmt í dag og hafa bátarnir ekki komist út til að vitja um. Fiskurinn verður því mjög lélegur og ekki séð hvort bátarnir komast út í nótt. Svona illveður hafa þó verið sjaldgæf sem betur fer.

Tíminn birti 5.maí bréf úr Hrútafirði, þar er minnst á vatnsskort:

Hrútafirði, 26. apríl. Flestir munu sammála um að s.l. vetur sé einn snjóléttasti sem yfir þetta land hefur gengið á þessari öld. Hér í Hrútafirði hefur vart fest snjó í byggð frá því snemma í nóvember en þá gerði tveggja daga stórhríð. Í því veðri fórust nokkrar kindur frá stöku bæjum. Fljótlega tók þann snjó upp og síðan má heita að jörð hafi verið alauð. Vegir hafa verið sem á sumardegi og aldrei teppst daglangt. Nokkur frost voru um tíma og varð af þeim sökum tilfinnanlegur vatnsskortur á stöku bæjum. Heilsufar hefur verið gott bæði hjá mönnum og dýrum. — J.R.J.

Maí var lengst af mjög hagstæður, en þó gerði illvígt hret í kringum þann 20., sérstaklega vont á Vestfjörðum. Veðurathugunarmenn lýsa tíð.

Síðumúli: Óvanalega hlý og góð veðrátta allan mánuðinn. Grasspretta ákjósanlega góð.

Lambavatn: Það hefir verið mjög hagstætt. Gróður ágætur. Það gerði norðankulda og rok eftir 20. Kom þá þyrrkingur í gróður.

Sandur: Öndvegistíð allan mánuðinn, hlýindi og sólfar lengst af. Gróðri fór vel fram, þó fremur væri þurrviðrasamt. Tún voru orðin algræn fyrir mánaðarlok, fjalldrapi og birki laufgað og útjörð vel gróin. Er slíkt mjög óvenjulegt í maímánuði.

Reykjahlíð: Góð veðurátta og jörð vel gróin um mánaðamót. Seinasti ís fór af Mývatni 17.maí.

Hof í Vopnafirði (Hrafnkell Valdimarsson): Hagstæð tíð utan dagana 20. til 25. Þá fennti lömb og skóf yfir fullorðið fé.

Gunnhildargerði: Mánuðurinn var með eindæmum góður, nema áfellið um þann 20. Hríðin var ekki löng, en ströng. [22. Nú er ömurlegt út að líta, allt þakið snjó, sér vart milli húsa. 23.maí, besta skíðalieið af bæjarhlaðinu enda skefli víða].

Skriðuklaustur (Jónas Pétursson): Gróður fágætlega mikill í lok mánaðarins. Þrátt fyrir kuldakaflann eftir 20. verður þessi mánuður að teljast fremur hagstæður.

Tíminn segir kuldafréttir úr Dýrafirði í pistli 10.maí:

Dýrafirði, 5 maí. Hér hefur verið þrálát kuldatíð undanfarið, norðaustan strekkingur og hraglandi á fjöllum en úrkomulaust í byggð. Trén voru byrjuð að litka í góðu tíðinni í vetur, en hafa farið aftur og kalið. Jörð er ekki enn orðin klakalaus. Fé er því allt enn í húsi og á gjöf. J.D.

Þann 11.maí gerði mikið þrumuveður um hluta Vesturlands. Tjón varð á símum og símalínum. Tíminn segir frá 13.maí:

Borgarnesi — 12. maí. — Síðdegis í gær [11.] gekk þrumuveður yfir hér og vestur yfir Hraun- og Álftaneshrepp. Við símstöðina á Arnarstapa á Mýrum laust niður eldingu með þeim afleiðingum, að símaborðið gereyðilagðist. Símstöðvarstjórinn hafði verið að tala í símann og lagði tólið frá sér rétt andartak, og rétt sem þá kváðu við ofsalegar drunur líkt og hleypt hefði verið af haglabyssu í herberginu og eldingarnar stóðu hvarvetna út úr borðinu og tólinu. Í Hraunhreppi klofnaði símastaur, og á Ánastöðum í Hraunhreppi lá við íkveikju, er sló niður í inntak frá síma í húsið. Þar var þó voða afstýrt. Með þessum ósköpum fylgdi mikil skírnarskúr, eins og hellt væri úr fötu yfir réttláta og rangláta. Að öðru leyti var  blíðuveður á þessum slóðum, enda upplýsti Veðurstofan, að þrumuveður kæmi oftast í miklum hitum á sumrin, eða útsynningi á veturna. JE.—s

Enn segir af sama þrumuveðri í Tímanum 18.maí:

S.l. miðvikudag [11.], — fyrir réttri viku — brugðu kynngikraftar náttúrunnar á kreik vestur á Snæfellsnesi. Indælis veður var um daginn, og hafði verið alla vikuna, eins gott og venjulega gerist mánuði síðar að vorinu. Bændur og búalið var önnum kafið við vorverkin, og allt var eins gott og á varð kosið. Þegar líða tók á daginn heyrðust þungir dynkir í austrinu, líkt og oft heyrist þar vestra í góðu veðri, þegar verndarenglar landsins á Suðurnesjum liðka byssur sínar og þjálfa skotfimina. Snæfellingar lögðu þess vegna ekki eyrun eftir brestunum. Svo kom kvöldið, kyrrt og fallegt, og í kvöldkyrrðinni heyrðust dynkirnir ennþá betur, engu líkara en þeir færðust nær. Ekki ollu þeir þó neinum heilabrotum fremur en fyrr, og að loknu dagsverki gengu Snæfellingar til hvíldar og opnuðu fyrir útvarpstækin. En þegar kom að  framhaldsleikritinu „Ekið fyrir Stapann“, var sem fjandinn væri laus. Svartur himininn sem áður var heiður og blár, var allt í einu svartur og skýjaður, og nærri því samtímis skall á hellidemba, hávaðaþrumur og eldingar. Síminn tók viðbragð og hringdi með ógurlegum  gauragangi, og blossarnir stóðu fram úr útvarpsviðtækjunum. Húsin léku á reiðiskjálfi og glerið nötraði í gluggunum. Þessi djöflagangur stóð upp undir hálftíma, og hætti síðan jafn skyndilega og hann byrjaði. Þá var að gera sér grein fyrir því hvað skeð hafði.

Ljóst var að eldingu hafði lostið niður, en hve víða, og hve mikill usli hafði af því orðið? Áður en langt um leið kom það fram, að þeim hafði lostið niður á tveimur stöðum, annarri hjá Syðri-Tungu, en hinni hjá Ytri-Tungu. Hin síðarnefnda hafði rótað upp þar sem hún kom niður, en ekkert hjá því sem hin hafði af sér gert. Snúningsvél stóð úti á túni hjá bænum Syðri-Tungu. Í hana stakk eldingin sér, og þaðan niður í túnið og beint í símakapal sem þar var þræddur neðanjarðar. Er ekki að orðlengja það, að eldingin reif kapalinn upp á 65 metra kafla, en brenndi símalínuna á alls 250 metra vegalengd. Umhverfis gíginn sem myndaðist af sprengingunni var jarðveginum kastað 15 metra veg. Snúningsvélin stóð 100 metra frá fjárhúsunum í túninu. Kindur nokkrar voru á beit skammt frá þar sem eldingin kom niður, og brá þeim harkalega við. Hlupu þær ýmist saman í hnapp eða tvístruðust aftur og vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Kona nokkur, sem var á leiðinni í hús fann snöggan og óbærilegan hita, og var sem höfuð hennar ætlaði að klofna af loftþrýstingnum. Eins var um þá sem staddir voru innan dyra á nálægum bæjum, að þeir fundu mikinn og snöggan hita, og á eimum bæ fengu allir heimilismenn rafmagnshögg þar sem þeir sátu inni í húsum. Blossarnir stóðu langt fram úr öllum rafmagnstækjum, og á einum bæ gereyðilagðist útvarpstæki. Hefur ekki mátt miklu muna, að stórslys hlytust af þessum veðragangi. Því ef eldingum hefði i lostið niður í mannabústaði hefði áreiðanlega illa farið. — s —

Slide5

Þrumudagurinn 11.maí markar upphaf hitabylgju sem stóð í nokkra daga. Þótt við verðum að láta nánari greiningu á þrumuveðrinu liggja milli hluta hér má telja líklegt að það tengist framrás hlýja loftsins sem sjá má á kortinu hér að ofan. Það er furðuoft sem þrumur ganga í upphafi slíkra hitabylgna sem komnar eru úr suðaustri og austri. Það er eitt einkenni þessara þrumuveðra að þeim virðist sama um hvort nótt er eða dagur. Kannski var þetta veður öflugra fyrir þá sök að sólarylur hjálpaði til - en við vitum það ekki almennilega nema með betri og ítarlegri greiningu. 

Línuritið hér að neðan sýnir hita á 3 stunda fresti í Reykjavík dagana 11. til  23.maí. Einnig má sjá hámörk (rauðir krossar) og lágmörk (bláar stjörnur). Dagarnir 12, til 14. eru sérlega hlýir. Þykktin yfir landinu var ekki sérlega há, en blöndunarskilyrði virðast hafa verið með besta móti, sólar naut, vindur blés af austri yfir alauðar heiðar og láglendi. Nokkuð hlýtt var líka 15. og 16., en eftir það hallaði undan fæti. Við sjáum að dægursveifla hitans minnkaði stórum (það var alskýjað) og þann 20. gerði síðan verulegt kuldakast sem kemur við sögu hér að neðan. Lágmarkshiti aðfaranótt 23. fór niður í 1,0 stig.

w-1960-05-s001

Hitinn varð hæstur 20,6 stig, síðdegis þann 14. Þann 19.maí 1905 fór hiti í Reykjavík jafnhátt, reyndar 0,1 stigi hærra. Ómarktækur munur er á þessum mælingum, en árið 1905 stóðu mikil hlýindi aðeins í einn dag. Fjallað er um þetta gamla met í pistli hungurdiska um árið 1905

Þann 20. kólnaði snögglega. Snarpt lægðardrag í háloftum kom yfir Grænland og bjó til lægð á Grænlandshafi sem síðan þokaðist austur um norðanvert Ísland. 

Slide6

Kortið sýnir lægðardragið síðdegis þann 20. Versnaði veður mjög á Vestfjörðum og síðar einnig á Norður- og Austurlandi.

Slide7

Um kvöldið var blindhríð norðvestan við lægðina eins og kort japönsku endurgreiningarinnar sýnir réttilega. Þetta hret gekk þó nokkuð hratt hjá. Morgunblaðið segir af hretinu í pistli 21.maí:

Eftir þá öndvegistíð sem verið hefur um allt land undanfarið, skýrði Veðurstofan frá því í gærmorgun, að hinn ósvikni pólarstraumur, sem jafnan fylgir þegar háþrýstisvæði myndast yfir Grænlandi, væri að flæða inn yfir landið. Kuldans gætti þegar í gærmorgun á nokkrum stöðum. Í gærmorgun snemma var 8 stiga frost komið á Jan Mayen og um hádegið var það komið niður í 5 stig. Í vetur er leið var frostið litlu meira. Hér á landi var hvergi frost, en hitinn hafði komist niður í 0 stig á Raufarhöfn. Sagði fréttaritari Mbl. þar í símtali í gær, að er fólk reis úr rekkju í gærmorgun hafi jörð þar verið alhvít. Í gær gekk þar á með bleytuhríð en hitinn var kominn upp í 2 stig. Kuldaskilin yfir landinu voru afarglögg síðdegis í gær. Kuldabylgjan hafði þá flætt inn yfir landið og náði nærri því þvert yfir frá Snæfellsnesi og að Dalatanga, en þá hafði hún ekki enn skollið yfir Skagafjörð og Eyjafjörðinn. Illskuveður og kuldi var á Vestfjörðum í gær. 

Morgunblaðið heldur áfram 22.maí:

Það er vetrarríki í dag hér á Siglufirði, sagði Guðjón Jónsson fréttaritari Mbl. á Siglufirði í símtali laust eftir hádegi í gær. Hér er keðjufæri á öllum götum og Siglufjarðarskarð sem búið var að ryðja að mestu hefur nú teppst algjörlega á nýjan leik. Vonskuveðrið brast á seint á föstudagskvöld og í fyrrinótt var 0 gráðu hiti og mikil snjókoma. Margir höfðu sleppt kindum sínum, sagði Guðjón og voru ýmist við að ná fénu í hús í alla nótt og eru enn ókomnir. Hér var allt orðið iðgrænt og vorlegt um að litast, fólk var við garðyrkjustörf í frístundum sínum og voru margir búnir að setja niður í garða sagði Guðjón. Guðjón sagði, að þar í bænum væri hríðin svo dimm í snörpustu hryðjunum að varla sæist milli húsa, en þess á milli er nokkur hundruð metra skyggni. Í Siglufjarðarskarði var búið að ryðja bílum leið gegnum 4 metra þykka skafla í skarðinu, og búist hafði verið við að það yrði fært í dag. En nú er, mikill nýr snjór fallinn efra og enginn veit nú hvernig hægt verður að opna skarðið aftur. Þar efra er frost og þreifandi stórhríð.

Húsavík, 21. maí: — Eftir langstætt góðviðri og sérstakar veðurblíður brá hér í gær til norðan og norðaustan áttar, fyrst með slyddu en kólnaði er á daginn leið og var orðið hvítt niður í fjallsrætur í gærkvöldi. Í morgun var orðið alhvítt niður í sjó, og kominn ökklasnjór. Í allan dag hefur verið snjókoma. Veður þetta veldur bændum miklum örðugleikum, þar sem fannkoman er það mikil að helst verður að hýsa lambær, en burður allsstaðar byrjaður og sumstaðar langt kominn. Snjókoma er mest við ströndina og svo aftur í hásveitum, en t.d. í Reykjadal og fram Aðaldal var lítil sem engin snjór kominn í morgun. Um það bil er blaðið var að fara í prentun í gær, kl.4, náðist símasamband við Ísafjörð og sagði fréttaritari Mbl. þar að tekið væri að rofa til þar vestra. Í fyrradag og nótt var þar mikil snjókoma og versta veður, norðan og norðaustan stórhríð. En snjóinn tekur fljótt upp, sagði fréttaritari, vegna bleytunnar. Allir vegir vestur yfir fjall hafa lokast í nótt. Gera má ráð fyrir að talsverðir fjárskaðar hafi orðið í þessu veðri, t.d. á Snæfjallaströnd, en um það er ekki vitað með vissu hér ennþá. Tíð var orðin svo góð að ómögulegt var að halda fénu heima við, en sauðburður langt á veg kominn.

Stykkishólmi, 21. maí. — Hér var norðan hvassviðri í nótt og snjóaði niður á jafnsléttu. Fjöll eru alhvít og fremur kalt í veðri. — Fréttaritari.

Morgunblaðið segir enn af hretinu í pistli 24.maí:

Sennilega mun norðanveðrið fyrir helgina hvergi hafa orðið eins hart og norður á Snæfjallaströnd. — Þar geisaði að heita má iðulaus stórhríð á annan sólarhring. Í þessu veðri hafa týnst milli 25—30 kindur og yfir 20 unglömb, en sauðburður var rétt að hefjast, er  veðrið brast á. Um klukkan 10 á föstudagsmorguninn tók að fenna, og herti þá jafnframt veðrið. Var komið ofsaveður og ófært að vera úti um hádegisbilið. Hélst það veður allan daginn og fram um nónbil á laugardag. Bændurnir í Unaðsdal, Mýri og Bæjum fóru þá þegar ásamt heimilisfólki sínu að leita að fénu. Var þá komin þar svo mikil fönn fram í dölum og í fjöllum, að erfitt var að komast áfram. Í fyrstu óttuðust bændurnir að miklir fjárskaðar hefðu orðið í þessu harða áhlaupi. Á sunnudaginn fór veður batnandi og var þá haldið áfram að leita og enn í gær. Í gærkvöldi vantaði á þessa þrjá bæi 8—10 kindur á hverjum þeirra, en auk þess nokkuð af lömbum. Á Bæjum voru týnd 12—14 lömb og í Unaðsdal 8—10. Í Æðey var allt fé í húsi, er veðrið brast á. Kjartan bóndi í Unaðsdal sagði að veðurhamurinn hefði verið óskaplegur — eins og verstu haustveður. Rétt utan við bæinn var í gær langur skafl, sem nær fram túnið og sagði Kjartan hann vera um 2 metra háan. Í gær var sólskin þar og seig snjórinn mikið á þessum eina degi, en hiti var rétt ofan við frostmark. Taldi Kjartan að mesta frost í áhlaupinu hefði verið 3 stig. — Hann sagði að bændur myndu ekki fara til frekari leita fyrr en eftir 2—3 daga, þegar færð væri orðin betri. — 'k —

Páll bóndi á Þúfum í Reykjafjarðarhreppi símaði í gær, að sér væri ekki kunnugt um að hretið hefði valdið neinum fjársköðum þar í sveitinni.

Júní var hagstæður gróðri og spretta var góð. Úrkomur töfðu upphaf heyskapar sunnanlands, en nyrðra gátu margir hafið heyskap og náðu inn allmiklu áður en þar blotnaði til ama í júlí. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Indæl og ágæt veðrátta. Grasspretta í besta lagi, en sakir óþurrka og voranna hefir sláttur ekki hafist fyrr en nú alveg nýlega.

Lambavatn: Það hefir alltaf verið stillt veður, en nú seinni hluta mánaðarins hefir verið óslitin votviðri. Svo allt er á floti í vatni eins og mest á haustin. Grasspretta er góð, en lítið farið að slá nema í vothey.

Sandur: Tíðarfarið var gott, en helst til þurrviðrasamt. Fremur var svalt fyrri hluta mánaðarins, en síðari hlutinn mjög hlýr. Talsvert bar á kali í túnum.

Þorvaldsstaðir (Þórarinn Haraldsson): Tíð var köld og mjög tíðar og dimmar þokur framan af og frem yfir miðjan mánuði flesta daga var einhver úrkoma, en þó rigndi aldrei mikið. [24. Að kvöldi voru þrumur, óvenjulega mikið, eldingar og leiftur mjög tíð. Menn muna ekki svo miklar þrumur og eldingar sem var þetta kvöld].

Skriðuklaustur: Þessi júnímánuður sérstakur vegna skúra og hagfelldrar úrkomu fyrir gróður.

Tíminn segir af hafrannsóknum 8.júní [bara brot hér]:

Ægir hefur nú lokið rannsóknum í ár í hafinu vestur af Íslandi. Farin var sama leið og undanfarin ár, eftir því sem hafísinn leyfði, en hin breytilega hafíssins veldur því að ekki er alltaf hægt að fara yfir sömu svæðin ár eftir ár. Ísinn er þó á svipuðum slóðum og í fyrra. Um niðurstöður er að sjálfsögðu ekki hægt að fullyrða neitt á þessu stigi málsins en hins vegar virðist „vora“ óvenjuvel að þessu sinni í hafinu. ...

Tíminn segir 9.júní af sláttarbyrjun í Eyjafirði:

Sláttur er hafinn i Eyjafirði, og er það óvenju snemmt. Á mánudag {6. - annan dag hvítasunnu] hófst slátturinn á þremur bæjum, en grasspretta hefur verið mjög ör undanfarið og veður gott. Eru horfur á ágætu heyskaparsumri, ef ekki spillir veðri á næstunni. E.D.

Tíminn birti 1.júlí síðbúnar fréttir frá Raufarhöfn:

Raufarhöfn, 13. júní. — Hér hefur vorað afbragðsvel, sauðburður gekk að óskum og er lambfé allt komið á fjall. Grasspretta hefur verið óvenju góð til þessa og útlit fyrir gott heyskaparár. Síðustu dagana hefur þó gert norðanátt með kulda og éljagangi, og getur það orðið til að spilla grasvexti, ef ekki breytir fljótlega til batnaðar.

Tíminn segir af leysingum 21.júní:

Akureyri, 20.júní. Árnar byltast nú fram, kolmórauðar, langt út á Eyjafjörð, svo fjörðurinn er flagbrúnn fram eftir öllu. Farið er að flæða yfir veginn hjá Hrísum í Svarfaðardal og er jafnvel talin hætta á, að þar verði ófært með öllu í kvöld. Það er Svarfaðardalsá, sem þar flæðir yfir veginn hjá Hrísatjörn. Fnjóská er svo mikil og dökk að annað eins hefur ekki sést í háa herrans tíð, Hörgá sömuleiðis og Eyjafjarðará er eins og leirelgur. Þetta eru fyrstu verulegu vatnavextirnir í ánum á þessu ári.

Tíminn segir frá tíð á Snæfellsnesi 22.júní:

Miklaholtshreppi, 19. júní. Vortíðin var nær áfallalaus, samfelld hlýindi að kalla frá því snemma í apríl. Veturinn var í heild líka mjög hlýr og úrkomulítill og einn hinn besti sem komið hefur á þessari öld. Það mun einsdæmi að lofthiti komist upp í 20 gráður í byrjun maímánaðar eins og þó var nú í vor. Lítilsháttar hret gerði 20. maí, en það sakaði ekki gróður; snjó festi þó víða í byggð og skafla gerði í fjöll, en það varði stutt og tók snjóinn fljótt upp aftur, frost var ekki teljandi.

Tíminn segir af bleytutíð 24.júní:

Hveragerði, 23. júní. — Hér hefur verið rigning og leiðindaveður alla þessa viku og slagviðri með köflum svo að ekki hefur verið fært til útivinnu. Tún eru hér að verða fullsprottin, en menn hugsa ekki til heyskapar meðan þessi leiðindatíð stendur.

Tíminn segir hafísfregnir 2.júlí - ís var með minnsta móti:

Um mánaðamótin maí—júní reyndist ísinn vera lengra frá landi en undanfarin 5 ár. Síðari hluta júní hafði stóra ísspöng rekið suður undir Strandagrunn, en þar fyrir austan var ísinn mjög norðarlega. Í lok maí var hitastig sjávar fyrir vestan og norðan land öllu hærra en meðalhitastig undanfarinna 10 ára. Í júní var sjávarhitinn einnig talsvert yfir meðalhita, og virðist hiti sjávar við Norður- og Austurland verða hærri á á þessu sumri en undanfarin ár.

Júlí var votur víða nyrðra, en syðra viðraði lengst af vel til heyskapar. Þó var kvartað undan skúrum. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Veðrátta í júlímánuði var mjög hagstæð til heyskapar fram til þess 20. Þá höfðu flestir hér um slóðir slegið mest allan fyrri slátt á túnum og þurrkað og sett töðuna, en lítið hirt inn. Til þess vannst ekki tími, því nóg var að við að slá og þurrka heyið. Svo kom vætutíðin og sætin blotnuðu svo ekki var hægt að hirða þá upp stytti, nema þar sem súgþurrkun er. Urðu menn því að bíða með það og er þess vegna enn mikið úti víðast hvar. Grasspretta er ágæt og töðufall því mikið.

Lambavatn: Það hefir verið stillt og hagstætt veður. Heyskapur er óvenju langt kominn hjá öllum svona snemma. Grasvöxtur er óvenjugóður og nýting ágæt. Það eru venjulega skaflar undir Skörðunum sem ekki þiðna nema einstaka sinnum og þá ekki fyrr en seint í september. Nú eru þeir alveg horfnir fyrir miðjan júlí (18.).

Hólar í Hjaltadal: Yfirleitt hlýtt. Lítið sólskin. Mikið um skúraleiðingar með fjöllum. Úrkoma meiri og minni í 20 daga. Erfið heyskapartíð.

Sandur: Blíðviðri og þurrkar voru til þ.9. En þá gekk í óþurrka og úrkomur sem héldust til mánaðarloka að undanskildum 2 dögum, 15. til 17. Víða var búið að hirða tún þegar óþurrkarnir byrjuðu, en sumstaðar hröktust töður.

Gunnhildargerði: Veðrátta hefir verið hér þurrklaus og erfið til heyskapar, fýla flesta daga.

Fyrstu daga júlímanaðar fór lægð til austurs og síðar suðausturs fyrir sunnan land. Hún beindi mjög röku lofti að Suðaustur- og Austurlandi og gríðarmikið rigndi, sérstaklega í Öræfum. Veðráttan segir frá því að vatnsflaumur í Virkisá hafi sópað burt 20 metra kafla úr varnargarði og brotið skörð í veginn austan Virkisárbrúar. Brú yfir Kvíá hafi einnig sigið og skekkst. Sömu daga varð Mýrdalssandur ófær vegna vatnavaxta. Tíminn segir af úrkomunni 5.júlí:

Geysimikla rigningu gerði í Öræfum um helgina, og klukkan sex í gær var enn ekki lát á henni. Veðurstofan sagði blaðinu svo frá í gærkveldi, að undanfarinn sólarhring hefði úrkoma á Fagurhólsmýri mælst 159.9 mm en það er þriðja mesta úrkoma sem mælst hefur hér á landi. Úrkoman var minni sunnan og austan Öræfa, en þó var stórrigning bæði á Kirkjubæjarklaustri og í Hornafirði í gær. Mun hafa rignt um 40 mm á hvorum staðnum. Í Reykjavík gerði einnig mikla rigningu um stund á sunnudaginn, en tók fljótt af. Úrkoman var alls um 10 mm í Reykjavík. Í Öræfum var stórrigning allan sólarhringinn og herti enn þegar kom fram á kvöldið. Mældist úrkoman þar 96,4 mm í fyrrinótt en 63.5 mm i gærdag, alls 159,9 mm yfir sólarhringinn. Fylgdi veðrinu austan hvassviðri, um 8 vindstig. Áður hefur mest úrkoma mælst í Vík í Mýrdal á jólum 1926, 215,8 mm og í Hvalfirði í nóvember 1958, 184,6 mm. Mikill vöxtur er í öllum ám og vötnum eins og vænta mátti með þessu veðri, og í gærkvöldi var enn stórrigning eystra. Það er mjög sjaldgæft ag slík vatnsveður komi á þessum tíma árs. —ó.

Hvolsvelli, 4. júlí. — Menn halda hér almennt að sér höndum og biða þurrks, en stöðugur rosi hefur verið lengi undanfarið. Enginn bóndi mun hafa náð inn heytuggu enn sem komið er, en margir veigra sér við að hefja sláttinn meðan sama ótíð helst. Nokkrir hafa þó hirt í vothey, en það er neyðarurræði þar sem bændur telja betra að nota há til votheysgerðar. P.E.

Úrkoman sem hér að ofan er getið um að fallið hafi á sólarhring á Fagurhólsmýri, 159,9 mm er sú mesta sem vitað er um þar á bæ. Er þó ekki opinbert sólarhringsmet - féll ekki öll á sama „úrkomusólarhringinn“. Úrkoman þar mældist 118,1 mm að morgni þess 4. og 121,5 mm að morgni þess 5. eða samtals 239,6 þessa tvo daga. Opinbera metið er 124,8 mm sett 14. apríl 1962. Í 7. sæti er hins vegar mælingin 7. febrúar þetta sama ár, 1960. Í Kvískerjum mældist úrkoma þessa tvo daga 300,0 mm, en mælingar voru þá nýhafnar þar. 

Morgunblaðið segir 9.júlí frá hlaupi í Súlu:

Í gær hringdi Hannes á Núpsstað til Jóns Eyþórssonar, veðurfræðings, og tjáði honum að hann teldi að byrjað væri hlaup í Súlu. Hefði sennilega byrjað að vaxa í ánni í fyrradag og væri nú kominn jakaburður og allstórir jakar væru komnir fram fyrir símalínu. Sennilega væri einnig kominn vöxtur i Gígjukvísl. Hlaup í Súlu kemur úr Grænalóni. Þar safnast vatn í jökulstíflaða kvos sunnan undir Grænafjalli, sem er í vesturjaðri Skeiðarárjökuls, norður af Eystrafjalli, og brýst vatnið svo öðru hverju undir jökulhornið og fram með Súlutindum og í farveg Súlu. Hlaup hafa verið tíð úr Grænalóni að undanförnu og verið heldur lítil. Áður, meðan mörg ár liðu á milli hlaupa, gátu hlaupin orðið stórkostleg.

Laugardaginn 9.júlí gerði enn mikið þrumuveður. Þrumur heyrðust og eldingar sáust á flestum veðurstöðvum á Suðurlandi og vestur um Borgarfjörð. Krapaél gerði í Andakílsárvirkjun (og í Borgarnesi). Úrkoma mældist þó ekki mjög mikil á veðurstöðvunum. Þannig hagaði til að hæg og rök austanátt barst inn yfir Suðurland úr suðaustri, en ofar var þurrari norðaustanátt, einnig hæg. Sólarylur kveikti síðan á mikilli veltu stakra þrumuklakka. Um þrumuveður almennt - og þetta má lesa í gömlum hungurdiskapistli 29. júlí.2018. Þrumuveður þetta er afgerandi í æviminningum ritstjóra hungurdiska - en um það mál verður ekki fjallað hér. 

Tíminn segir af þrumuveðrinu í pistli 12.júlí:

Síðdegis á laugardag gerði mikið þrumuveður austanfjalls og fylgdi því hellirigning. Veðrið barst vestur til Þingvalla, og einnig varð þess vart í Reykjavík, þar sem gerði allmikla skúr um sexleytið. Veðrið stóð stutta stund, en mikil úrkoma var víða meðan það gekk yfir. Sólskin og blíðviðri var frameftir degi á laugardag, en skömmu eftir hádegi sást draga upp mikinn sorta í austri, og fylgdi honum mikill þrumugangur. Barst veðrið niður með Fljótshlíðinni með úrhellisrigningu, sem stóð tæpa klukkustund. Var úrkoman um 4 mm á Hellu. Þá olli veðrið miklum rafmagnstruflunum í spennistöðinni á Hellu, og stóðu rafmagnstruflanir í þrjá tíma. Það var um þrjúleytið, sem mest rigndi austanfjalls, en á sjötta tímanum barst það til Þingvalla, og þar mun það hafa orðið einna verst. Úrkoma þar varð 14 mm og gekk á með þrumum og eldingum. Sló þeim bæði niður í jörðu og í vatnið. Þar á meðal sló eldingu niður í fánastöng hjá sumarbústað við Þingvallavatn. Sló eldingunni niður í málmhún efst á stönginni, þar sem íslenski fáninn blakti. Féll fáninn til jarðar, en stöngin splundraðist og stendur ekki eftir af henni nema lítill stúfur, en flísarnar dreifðust víðs vegar í hring. Einnig urðu miklar rafmagnstruflanir á Þingvöllum. —  Þrumugangurinn heyrðist víðar sunnan lands á laugardag, en veðrið mun ekki hafa valdið öðrum spjöllum en þessum. —ó.

Tíminn segir af heyskapartíð 17.júlí:

Nú hefur afbragðs heyskaparveður staðið á svæðinu frá Eyjafjöllum og vestur í Dali og jafnvel lengra í um það bil 10 daga. Að vísu dró nokkuð úr s.l. laugardag, er þrumuveður gekk yfir þetta svæði, en síðan má heita að þurrkur hafi verið svo góður sem framast verður á kosið. Hins vegar hafa Eyfellingar orðið fyrir miklum óþægindum af því, að skúrasamt hefur verið með fjöllunum. Fréttaritari blaðsins á Hvolsvelli sagði á fimmtudaginn, að undir Fjöllunum hefði vart komið heill dagur án þess að skúraði, þótt veður væri gott að öðru leyti, og skúrarnar myndu einnig hafa náð efstu bæjum í Fljótshlíð. Bændum var orðið mál á þurrkinum, þar sem grasspretta var mjög góð í sumar, vegna þess hve snemma og vel voraði. s

Kvartað var undan óþurrkum nyrðra. Tíminn 31.júlí:

Fosshóli, 28. júlí. Nú er hér leiðindaveður og hefur staðið tvo síðustu daga, með mikilli rigningu. Vatnsaginn er svo mikill, að allt er á floti. — Annars hefur verið sómatíð í sumar, og geysilegur ferðamannastraumur. F.S

Akureyri, 28. júlí. — Hér hefur rignt óhemju mikið síðustu daga, og er fjörðurinn kolmórauður eins og í vorleysingum. Þó er ekkert lát á ferðamannastraumnum, sem hefur verið meiri hér í sumar en nokkru sinni fyrr, ekki hvað síst af útlendingum. — Áður en þessar rigningar hófust, voru margir langt komnir eða búnir með fyrri slátt, og nú liggur seinni sláttur undir skemmdum vegna sprettu, ef ekki breytir snarlega til hins betra með tíðarfarið aftur. ED

Reynihlíð, 29. júlí. — Hér hefur verið óþurrkur síðustu 10 dagana, eitthvað úrfelli alla daga og stundum mikil rigning. Mest mældist úrkoma 22 mm á sólarhring, 27. júlí s.l. Að sjálfsögðu er ekki átt við heyskap í þessari tíð, en fyrra slætti var áður vel á veg komið og eru margir búnir að alhirða af túnum. 

Talsverð aurhlaup urðu á Seyðisfirði og í Neskaupstað þann 30. og 31. júlí. Úrkoma mældist 107,6 mm að morgni þess 30. á Seyðisfirði, en ekki var mælt í Neskaupstað. Tíminn segir frá 3.ágúst: 

Mikil skriðuföll urðu á Seyðisfirði aðfaranótt laugardags {30.], en geysimikið vatnsveður stóð þar allan föstudaginn [29.] og fram á laugardagsmorgun. Engar teljandi skemmdir urðu af skriðunum, en mjóu munaði þó í eitt skipti þar sem stór skriða féll á milli mannvirkja. Mikill vöxtur hljóp í allar ár og læki í rigningunni, og um miðnætti hljóp allmikil aurskriða fram læk, sem fellur innan við söltunarstöðina Strönd. Stöðin stendur sunnanvert við fjörðinn spölkorn utan við bæinn og þar hjá stendur mjölgeymsluhús síldarverksmiðjunnar, sem nú er fullt af síldarmjöli. Innan við lækinn stendur íbúðarhús, og féll skriðan í um 50 metra fjarlægð frá því, en 10—15 metra frá mjölgeymsluhúsinu. Vinnu var að ljúka í söltunarstöðinni þegar þetta gerðist og voru menn nýfarnir yfir um aurskriðuna, þegar mikil stórgrýtisskriða hljóp fram sama farveg. Er hún um 50 metra breið, en mannhæðarþykk, þar sem hún er mest. Ekkert tjón varð af þessum skriðu föllum nema vegurinn til söltunarstöðvarinnar tepptist, en hann var ruddur aftur þegar á laugardag. Þá féllu margar minni skriður utar með firðinum, en ekki mun hafa hlotist tjón af þeim. Í þessu vatnsveðri stöðvaðist vinna í sí1darverksmiðjunni á Seyðisfirði um skeið vegna vatnsleysis. Kom það til af því, að vatnsleiðslur stífluðust af aur og leir, en það vatn, sem barst, var svo leirblandið að það var ekki nothæft. Féll niður vinna í verksmiðjunni eina vakt aðfaranótt laugardagsins, en að morgni komust vatnsleiðslur aftur í samt lag, og hófst vinna þá aftur. H.G.

Einnig varð aurhlaup í Neskaupstað. Tíminn 4.ágúst:

Neskaupstað, 3. ágúst. — Á sunnudag [31.júlí] hljóp upp lækur sem fellur gegnum Neskaupstað miðjan. og olli hann nokkru tjóni á verslunarhúsi kaupfélagsins Fram og götum í bænum. Lækurinn hefur fallið um steyptan stokk undir verslunarhúsið og fleiri mannvirki, en rauf nú af sér allar hömlur. Mikil úrkoma var næstu daga á undan, og bar lækurinn mikinn leir og grjót með sér svo að stokkurinn stíflaðist skammt frá sjó. Braust vatn upp um gólf verslunarhússins og urðu þar talsverðar skemmdir á vörum, og einnig braut hann upp götu í kaupstaðnum og gerði sér þar nýjan farveg til sjávar, og fellur þar enn. Röskuðust við þessi umbrot skolpræsi og raflagnir í götunni. — Erfitt verður að koma læknum í stokkinn aftur, enda er hann fullur af leir og grjóti. Þess má geta að fyrir fáum árum braust þessi sami lækur úr skorðum og olli þá miklum spjöllum á sundlaug bæjarins, íbúðarhúsi bæjarfógeta og fleiri mannvirkjum. V.S.

Morgunblaðið segir af sama atburði 5.ágúst - en með öðrum örðum:

Neskaupstað, 4. ágúst. Um hádegi á laugardag [30.] gerði mikla rigningu hér og féll skriða í læk einn, sem rennur gegnum kaupstaðinn. Er lækurinn í steyptum stokki á stórum kafla undir bænum, en aurskriðan í læknum fyllti stokkinn, svo hann stíflaðist og flóði vatnið upp úr. Það byrjaði að flæða upp um salerni i Kaupfélagshúsinu. Urðu þar einhverjar skemmdir á vörum af völdum aurs og bleytu og varð að loka búðinni um tíma. Lækurinn braut sér leið gegnum kaupstaðinn og gróf sums staðar djúpa skorninga í götuna. Verkamenn hjá bænum voru kallaðir út og komu sjálfboðaliðar til hjálpar, en svo vildi til að um 100 skip lágu í höfninni. Var læknum veitt yfir aðalgötuna og niður í sjó. — Flóð þetta olli miklum umferðartruflunum og lækurinn gróf upp einn háspennustreng, án þess þó að skemma hann. Ekki er enn búið að hreinsa stokkinn, enda er það mjög mikið og erfitt verk. Lækurinn rennur því enn um göturnar hér í Neskaupstað. — S.L.

Ágúst þótti eindæmagóður á Suður- og Vesturlandi, en heldur síðri norðaustanlands. Þar fór þó vel að lokum. Næturfrosta varð vart um miðjan mánuð og spilltu þau kartöflugrasi á stöku stað - ekki víða þó. Veðurathugunarmenn lýsa tíð:

Síðumúli: Ágústmánuður var svo góður að veðurfari að fullorðnir menn muna ekki um áratugi slíka tíð. Taðan, sem úti var í byrjun mánaðarins var hirt í hlöður og galta. Háin slegin og sumt af henni þurrkað, hitt sett í súrhey. Allur heyskapur búinn nokkrum dögum fyrir mánaðarlok. Marga daga var logn og unaðsleg veðurblíða, einkanlega síðustu vikuna. Úrkoma var mjög lítil.

Lambavatn: Það hefir verið óslitið góðviðri, bæði á landi og sjó. Heyskapur hefir gengið ágætlega og spretta óvenju góð.

Hlaðhamar (Kristín Ólafsdóttir): Þessi mánuður var óvenjulega þurrviðrasamur. Háarspretta mjög lítil.

Hólar í Hjaltadal: [18. Kartöflugras skemmdist mikið af frosti. 24. Kartöflugras að mestu fallið allvíða].

Sandur: Tíðarfarið var fremur svalt og úrfellalítið, en þó óþurrkasamt. Hey skemmdust þó yfirleitt ekki mikið vegna þess að lítið var slegið. Síðustu vikuna komu þurrkar allgóðir og hófst þá seinni sláttur á túnum.

Gunnhildargerði: Hér hafa verið kaldir og sólarlausir dagar, lítið heyja og slæm nýting.

Skriðuklaustur: Dágóður þurrkur fyrstu daga mánaðar og úrkomulítið. Norðvestanstormur um stund þann 5., er feykti heyi sumstaðar í nágrenni. Köld veðrátta en úrkomulítil fram til 24. Úr því blíðviðri og þurrkar til 29. Mánuðurinn í heild hagstæður.

Tíminn segir af óþurrkum nyrðra 12.ágúst:

Ólafsfirði, 8. ágúst. — Látlausir óþurrkar hafa verið hér undanfarnar þrjár vikur, og er hey mikið farið að hrekjast á túnum. Þótt þurrkglæta hafi komið einstöku sinnum hefur hún aldrei enst nema stutta stund, þar til í gær, að sólskin og blíðviðri var daglangt. B.S.

Tíminn segir af góðri berjasprettu nyrðra 16.ágúst:

Akureyri, 15 ágúst. — Berjaspretta hefur verið óhemju mikil í Eyjafirði og annarsstaðar norðanlands í sumar. Berin eru þegar orðin fullþroskuð, a.m.k. hálfum mánuði fyrr en venjulega. E.D.

Melum, 15. ágúst. — Tíðarfar hefur verið hér einmuna gott alllengi undanfarið, og miðar heyskap vel. Fyrra slætti er víðast lokið, og hefur nýting heyja verið ágæt. Hins vegar lítur ekki vel út með síðari slátt. Há sprettur treglega, og eru fáir farnir að slá hana. J.J.

Tíminn lýsir misjafnri heyskapartíð 20.ágúst:

Eins og kunnugt er af fréttum hefur heyskapartíð verið nokkuð misgóð í sumar. Einmunatíð hefur verið sunnan lands og vestan en dræmari á Norður- og Austurlandi. Horfur munu þó vera á því að heyfengur bænda verði víðast dágóður eftir sumarið og sumstaðar betri en um margra ára skeið. 

Mjög hagstæð tíð var í september. Veðurathugunarmenn lýsa:

Síðumúli: Fáir menn muna slíka veðurblíðu og væga úrkomu að hausti til eins og núna. Eina nótt var frost á mæli. Kýr liggja enn úti um nætur og er ekki gefið hey, bara matur, en nú er tún tekið að blikna og verður því brátt að gefa þeim og hýsa.

Lambavatn: Það hefir verið sama veðurblíðan þennan mánuð eins og fyrri mánuði sumarsins. Nema meiri rigning en aldrei stórgerð. Heyfengur er allstaðar góður og sumstaðar meiri en nokkurn tíma áður. Spretta í görðum er góð.

Sandur: Tíðarfarið var mjög úrkomulítið, hægviðrasamt og hagstætt. Seinni sláttur nýttist vel og verð heyfengur víðast mikill og góður.

Gunnhildargerði: Mánuðurinn var allur ágætur en snemma sölnaði allur gróður og lauf féll snemma. Berjavöxtur með eindæmum góður. Ég er búin að vera hér í 35 ár og hefi aldrei séð eins miklar fannir í fjöllum sem í sumar, víða fannir sem ég hefi aldrei séð fyrr í fjöllum.

Morgunblaðið segir frá 7.september - í sama veðri brotnaði bátur á Reykjavíkurhöfn (að sögn Veðráttunnar):

Akranesi, 6. sept: — Í nótt var hér hvassviðri af suðaustri. Á morgunflóðinu herti á veðrinu og þá sleit Selfoss, sem lá hér í höfninni, af sér landfestar að framan og snerist á augabragði frá bryggjunni, án þess þó að slíta af sér aftari vírana. Skall kinnungur skipsins á enda bátabryggjunnar. Við það kom gat á kinnunginn og einnig brotnaði hafnargarðurinn dálítið.

Tíminn segir 9.september frá skriðum í Hvalfirði:

Síðdegis í fyrradag [7.] runnu aurskriður yfir Hvalfjarðarveginn og tepptist umferð af þeim sökum nokkurn hluta dags. Þrjár lækjarsprænur rétt innan við Þyril höfðu hlaupið eftir rigningarnar undanfarið og báru fram ósköpin öll af aur og grjóti. Voru skriðurnar 3—4 metrar á þykkt en 15 metra breiðar. Nokkur umferð var um veginn þegar þetta vildi til á fjórða tímanum i fyrradag og komust bílarnir ekki leiðar sinnar. Var brugðið við skjótt að ryðja veginn og mun því hafa verið lokið um kl.9 um kvöldið. Vegamálastjóri telur að vegurinn hafi ekki spillst af skriðunum.

Skaftárhlaup voru ekki eins vel þekkt 1960 og síðar varð. Morgunblaðið 10.september:

Í fyrradag og gær lagði megna brennisteinsfýlu fyrir vit manna víða um norðanvert og austanvert landið. — Bárust Mbl. fregnir um þessa lykt frá Akureyri, Húsavík og úr Fljótsdal. Ekki höfðu menn skýringar á reiðum höndum af hverju lykt þessi stafaði. Húsvíkingar röktu  upptök hennar til Þeistareykja og drógu þá ályktun einkum af vindstöðu. Fljótsdælingar töldu brennisteinsfýluna, sem þangað barst, mundi komna frá Vatnajökli. Mbl. hringdi til Guðmundar Kjartanssonar, jarðfræðings í gærkvöldi og spurði hann hverjar orsakir mundu liggja til brennisteinsfýlu þessarar. Kvað hann vel koma til greina að þarna væri aðeins um að ræða venjulegt útstreymi þessara lofttegunda frá hverasvæðunum á hálendinu, en vegna vindstöðu hefði það borist lengra og víðar en venjulega.

Morgunblaðið segir áfram af jöklafýlu 11.september:

Í gær símaði fréttaritari blaðsins á Húsavík, að þar um slóðir væri enn meiri  brennisteinsfýla en daginn áður. Var þar suðvestlæg átt og var fýlan megn i gærmorgun á Kópaskeri, Húsavik og Máná á Tjörnesi, en fannst ekki á Raufarhöfn og Þórshöfn. Blaðið hafði samband við Jón Eyþórsson, veðurfræðing. Taldi hann líklegast að þetta væri úr Skaftá, þó ekki væri hægt að staðhæfa neitt fyrr en þess sæjust greinilegri merki. Hafði hann talað við Valdimar á Klaustri, sem sagði sterka fýlu úr Skaftá og kindur, sem höfðu ætlað að drekka úr ánni, höfðu snúið frá. Áin var þó ekki farin að vaxa, en mikill jökulgormur í henni í gærmorgun. Það sem einkum vakti athygli Jóns á Skaftá er að fyrir hlaupið í henni árið 1955 fannst á sama hátt megn fýla fyrir norðan, áður en áin fór að vaxa. Það sem þá gerðist var að sigdæld myndaðist hátt uppi í Vatnajökli, norðaustur af útfalli Skaftár. Sigdældir myndast venjulega þar sem jarðhiti er undir og bræðir jökulinn, þangað til vatnið brýst fram. Springur þá jökulinn yfir og brennisteinsgufur leita út, auk þess sem vatnið er búið að drekka í sig brennisteins efni og lyktar mjög. Annars kvaðst Jón ekkert geta staðhæft um það, hvort hér væri um slíkt að ræða, en þar sem engar fregnir hafa borist um neitt annars staðar frá, taldi hann það mjög líklegt.

Tíminn segir af vatnavöxtum í Skaftafellssýslu 13.september - skýrist nú orsök fýlunnar:

Kirkjubæjarklaustri, 12. sept. Miklir vatnavextir hafa verið hér og eru enn, þótt ekki hafi orðið usli að ennþá. Má þó ekki mikið út af bregða, til þess að vegurinn og brúin yfir Eldvatn frammi við Stórahvamm séu í voða. Vötnin,sem mestur vöxtur er í, eru Eldvatn, Skaftá og Hverfisfljót. S.l. fimmtudagskvöld kom mikil brennisteinslykt hingað að Klaustri, og mun hún sennilega hafa komið frá Vatnajökli. Hún fannst einnig á föstudag, en síðan eigi, enda hefur vindátt staðið þannig, að við því er vart að búast. Þessi þrjú vötn, sem að framan eru nefnd, eiga öll sömu upptök, og eru þau öll með miklum jökulgormi, hvít að lit, og mikill vöxtur í þeim. Við Stórahvammsbrú í Skaftártungu rennur Eldvatnið yfir veginn , en ekki meira en svo, að allir bílar komast þar greiðlega leiðar sinnar. Hins vegar er yfirborð árinnar rétt upp við brúarbitana. Var talið í gær, að vegurinn og brúin þar væru í voða, ef meira hækkaði í ánni, en eitthvað mun hafa fjarað síðan. Annars er Skaftá heldur að færast í aukana núna aftur, en ólíklegt að það verði til nokkurs tjóns, að heitið geti. VV

Fellibylurinn Donna herjaði á Bandaríkin. Tíminn segir frá 14.september, en ekkert varð úr veðri hér á landi. Leifar fellibylsins hurfu við Suður-Grænland:

Nokkrar líkur virðast á því að eftirstöðvar fellibylsins „Donna", sem geisað hefur í Bandaríkjunum, berist hingað til lands. Verður það sennilega á morgun, sem „Donna" berst hingað og má þá búast við hvassviðri, 10—11 vindstigum á Suður og Vesturlandi. Blaðið átti tal við Pál Bergþórsson veðurfræðing í gær og skýrði hann nokkuð frá ferðum „Donnu“ eins og Bandaríkjamenn hafa nefnt fellibyl þennan. Ef „Donna“ heldur áfram för sinni, eins og líkur benda til, má gera ráð fyrir að óveðrið dreifist nokkuð á 50. gráðu norðlægrar breiddar og verði að djúpri og kröftugri lægð og í þeirri mynd gæti hún borist hingað og yrði bað líklega á morgun (fimmtudag.) Ef svo verður, má gera ráð fyrir hvassviðri af suð-austri sunnanlands og vestan, 10—11 vindstigum. Eins og málum er nú háttað, eru hér hin ákjósanlegustu skilyrði fyrir „Donnu“ að ná sér niðri því hér hafa lægðir farið um að undanförnu, en þegar svo er, eiga fellibyljir hægar með að komast hingað. — En ýmislegt getur gerst á tveimur sólarhringum, og því ekki gott að segja hvað úr þessu verður. —h

Morgunblaðið 17.september:

Staðarbakka, 12. sept. — Öllum ber saman um að sumarið, sem nú er senn liðið, sé eitt hið ágætasta, er komið hefur hér um langt árabil. Eftir sérlega gott vor kom sólríkt og unaðslegt sumar, með nægu grasi og stöðugum þurrkum. Flestir eru nú hættir heyskap og eru hey með mesta móti, og vona menn að þau reynist sérlega góð til fóðurs.

Veðráttan getur þess að þann 19. hafi bifreið fokið út af vegi skammt norðan við Húsavík og að einn farþegi hafi slasast. Vel má vera að hér fari eitthvað milli mála - því vindur var almennt hægur á landinu þennan dag. Mætti athuga.  

Tíminn segir ísaldarfregnir 22.september:

Á þingi jarðfræðinga, sem haldið var í Kaupmannahöfn á dögunum var m.a. rætt um ísaldartímabilið. Því var slegið föstu á þinginu, að ísaldartími hefði ríkt hér á jörðu miklu oftar en menn hafa haldið til þessa og jafnframt var á það bent, að ekki væri minnsti efi á því, að ísöld ætti enn eftir að ganga í garð. Í erindi, sem dr. phil Johannes Iversen flutti á þinginu, sagði hann m,a. að eins og nú stæði væri loftslagið sífellt að gerast mildara en enginn efi væri á því, að nýtt ísaldartímabil væri framundan og gæti hæglega náð til  Danmerkur. Síðasta ísaldarskeiði lauk fyrir 8500 árum og varð þá skyndilega hlýrra loftslag ríkjandi á jörðinni en ísaldarskeið eru þekkt löngu fyrir þennan tíma — ísaldartímabil var einnig fyrir 500 milljónum ára.

Október var einnig mjög hagstæður. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Októbermánuður var einn hinn besti, sem menn muna um áratugi, mildur og þurrviðrasamur, kyrrt og fagurt veður einkenndi talsverðan hluta mánaðarins. Vætan var til bóta því vatnsskortur var að gera vart við sig sumstaðar og truflaði rafmagnsnotkun lítilsháttar. Jörðin er auð og þíð. Allur sauðfénaður gengur sjálfala.

Lambavatn: Það hefir verið óslitin stilla yfir mánuðinn og hlýindi. Það er óminnilegt hér að kúm hafi verið beitt allan mánuðinn. En þeim hefir verið gefið með. Blóm hér í garðinum eru alblómstruð eins og á sumar, því alltaf hefir verið hægviðri og aldrei kuldi svo teljandi er.

Sandur: Tíðarfarið var óminnilega stillt og þurrviðrasamt, en dálítið svalt öðrum hvoru, einkum seinni hlutann. Lagði þá vötn. Kúm var víða beitt fram um þ.20.

Gunnhildargerði: Öndvegistíð allan mánuðinn.

En ekki var allt í góðu. Kartöflumygla gerði vart við sig. Tíminn 15.október:

Þrátt fyrir hið góða sumar ber nú svo við, að kartöflur á Suðurlandi og allt austur í Höfn í Hornafirði eru nú sýktar af kartöflumyglu og stöngulsýki. Ekki er þetta þó svo mikið að hætta stafi af, en þykir undarlegt eftir svo gott og þurrt sumar.

Enn af einmunatíð. Tíminn 21.október:

Akureyri, þriðjudaginn 18. okt. 1960 „Elstu menn muna ekki annað eins". Þessi margsagða setning á sannarlega við veðurfarið á Akureyri um þessar mundir. Haustið hefur verið með eindæmum gott, sumarið var með betra móti, þrátt fyrir óþurrkakafla um nokkurt skeið og kulda, sem fylgdi, og vorið var einnig ágætt, svo ekki er að furða þótt elstu menn muna vart annað eins ár.

Tíminn segir af árstíðaskiptunum 23.október:

Í gær heilsaði veturinn. Menn hafa ekki orðið varir við þau ársíðaskipti enn nema á almanakinu. Haustblíðan hefur verið með eindæmum. Dag eftir dag sumarveður, stillilogn og varla komið frostnótt. Jörð er enn sumargræn og blóm springa út. Fjöll hafa varla gránað. Ef litið er aftur til veturnótta í fyrrahaust verður ekki annar dómur upp kveðinn en sá, að þetta ár hafi verið eitt hið allra besta sem íslendingar hafa lifað á þessari öld. Og þessari árgæsku hefur verið furðulega jafnskipt milli landsins barna. Við áttum öndvegisvetur, blíðasta vor, stórgjöfult sumar og friðsælt haust. Náttúran verður ekki sökuð um árgalla í þetta sinn.

Og góðviðrið hélt enn áfram í nóvember - óvenjulegt orðið. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Tíð óviðjafnanlega góð allan mánuðinn. Enginn man slíka veðráttu um áratugi. Aldrei sást snjóföl á jörð né snjókorn í lofti. Jörðin er auð og frosin og allt of þurr fyrir skepnur sem úti ganga. Allt sauðfé gengur sjálfala.

Lambavatn: Það hefur verið óvenjugott. Aldrei hefur komið hér snjófjúk nema 29. gerði slydduél svo að aðeins gránaði í rót.

Hólar í Hjaltadal: Allskörp frost síðari hluta mánaðarins. Að öðru leyti einmunaveðrátta, svo elstu menn muna ekki slíka blíðu í nóvember.

Sandur: Tíðarfarið var afbragðsgott, hlýtt og hægviðrasamt. Jörð var auð og þíð lengst af. Aðeins föl síðustu dagana.

Reykjahlíð: Einn ágætasti nóvember. Ís leysti alveg af Mývatni um miðjan mánuð. Vatnið lagði aftur um 20.

Gunnhildargerði: Mánuðurinn var mildur og hagstæður.

Og óvenjulegt tíðarfar var einnig í Færeyjum. Við hleypum að frétt um það. Tíminn 4.nóvember:

Þórshöfn [í Færeyjum] 3.11. (einkaskeyti til Tímans) — Hér hafa verið látlausir þurrkar að undanförnu og ekkert útlit fyrir að þeim linni. Ekki hefur komið dropi úr lofti dögum saman. Allir vatnsgeymar hjá rafstöð Færeyja eru orðnar tómir og verður að skammta rafmagn. Færeyingar sitja því í myrkri frá kl.8 að kvöldi til kl.7 að. morgni á hverjum sólarhring. (John)

Tíminn segir af vatnsþurrð í Gönguskarðsárvirkjun við Sauðárkrók og fleiru 8.nóvember:

Sauðárkróki, 1. nóv. — Vegna hinna langvarandi þurrka er nú svo komið að vatnsþurrð er orðin í Gönguskarðsá en þaðan fær Sauðárkrókur og vestur og framhluti Skagafjarðar raforku. Mundi horfa til hreinna vandræða ef ekki væri unnt að miðla orku frá Skagaströnd. Fyrirhugað er að sett verði upp díselrafstöð á Sauðárkróki til þess að tryggja næga orku þegar vatnsafl er fyrir hendi. Hefur bygging stöðvarhússins staðið yfir undanfarið og er hún nú langt komin, vélarnar eru væntanlegar í vetur. G.Ó. 

Borgarfelli, í okt. Þetta sumar er nú liðið og er það eitt af hlýjustu sumrum sem ég man, og að flestu leyti hagstætt. Hvað grasvöxt og heyskap snertir, að vísu var júlímánuður okkur Skaftfellingum talsvert erfiður vegna mikilla rigningademba, sem oft komu ofan í þurrt og hálfþurrt hey, sem að sjálfsögðu skemmdu og töfðu nokkuð, en með ágústmánuðinum minnkuðu demburnar og var sá mánuður eindregin þerritíð og aldrei slíku vant urðu þeir best úti verkun heys, sem áttu þá mest óslegið. Almennt er góður heyskapur. Haustið allt sem af er hefur verið einmuna blíða, varla fundist frost enn og ekki sést föl á fjöllum.

Siglufirði, 4. nóv. Siglufjarðarskarð er nú búið að vera lokað í tvo daga. Hefur það verið óvenjulengi fært í þetta sinn og sjaldgæft að það verði ekki ófært einhvern tíma seinni part sumars þó að snjó taki þá af því aftur fyrir haustið.

Tíminn segir af úrkomu eystra 23.nóvember: 

Egilsstöðum, 18. nóv. — Veður hefur verið ljómandi stillt og blítt í allt haust, en í síðustu viku kom mikið úrfelli og vöxtur í allar ár [sólarhringsúrkoma mældist 31,8 mm á Hallormsstað þann 14.]. Ekki munu þó skaðar hafa orðið, þótt við hafi legið sums staðar. Regnið kom sér vel að því leyti, að áður var sums staðar orðið vatnslítið á heimilum.

Lægð nálgaðist landið aðfaranótt 29. og olli skammvinnu austanveðri. Morgunblaðið 30.nóvember:

Fyrsti stormurinn á haustinu gekk yfir Reykjavík í fyrrinótt og gærmorgun. — Veðurhæðin mældist mest á hinn sjálfritandi vindmæli Veðurstofunnar, 11 vindstig, en til jafnaðar voru 8 vindstig hér í bænum. Í óveðrinu kom upp eldur í geymsluskúr, sem áfastur var við lítið íbúðarhús og skemmdist það mikið. Einn strætisvagn fauk út af Suðurlandsbrautinni, en slys varð ekki á mönnum. Milli klukkan 7 og 8 í gærmorgun, var stór Volvo-strætisvagn á leið inn í Voga. Var Vagnstjórinn einn í vagninum, því um aukaferð var að ræða. Þetta var um það leyti sem veðrið var einna mest. Er vagninn var kominn á móts við Grensásveg, en þar er dálítil bunga á veginum, vissi vagnsjórinn ekki fyrri til, en að vagninn sviptist til, um leið var hann kominn út af veginum, og nam ekki staðar fyrr en úti í skurði. Þessi feikna dreki, sem vegur allt að 7 tonn tómur, varð fyrir allverulegum skemmdum. Fjaðraumbúnaður á framhjólum slitnaði undan, og undirvagn hafði skælst. Framhurð eyðilagðist og sitthvað fleira brotnaði eða laskaðist. Var öflugur krani fenginn til að ná vagninum upp. Við borð lá að „slægi í baksegl“, á Lögbergsvagni, í gærmorgun. Skall á hann „vindhnútur“ er hann var rétt nýkominn yfir brúna á Hólmsá og tókst hann aðeins á loft og kastaðist lítillega til á veginum. Í Reykjavíkurhöfn urðu nokkrar trillur, sem eigendur leggja þar í hirðuleysi,
fyrir skemmdum.

Tíminn segir frá sama veðri 30.nóvember - en fréttirnar eru frá Vestmannaeyjum og undan Eyjafjöllum:

Vestmannaeyjum, 29. nóv. Ofsarok af austri reið hér yfir Eyjarnar í nótt og mun vera eitt hið mesta hvassviðri, sem hér hefur komið — og er þó oft golulegt í Eyjum. Á Stórhöfða mældist veðurhæðin 14,5 vindstig þegar hvassast var og mun það á máli veðurfræðinga heita fárviðri og mun bera nafn með rentu. Ekki er blaðinu kunnugt um að neitt tjón hafi orðið í þessum veðurham og má það kallast mikil mildi. Sjógangur var að vísu mikill en þó minni miklu en ef verr hefði staðið á sjó.

Í gær var hvassviðri mikið undir Eyjafjöllum, svo sem oft vill verða í austanátt, en ekki er blaðinu kunnugt um, að verulegt tjón hafi orðið af því. Þó má það teljast í frásögur færandi, sem henti tvo bíla rétt austan við Seljaland. Þar var mjólkurbíll frá Selfossi á leið austur undir Austur-Eyjafjöll, og var kominn ca. 3—4 km austur fyrir Seljaland, þegar framrúðan, sem er stór og bogadregin rúða, splundraðist skyndilega og varð að salla sem rauk á bílstjórann. Hann hélt þá ekki lengra á bílnum, en fór heim að Fit og hringdi þaðan niður að Seljalandi, og bað vörubílseiganda, sem þar býr, að hlaupa undir bagga með að sækja mjólkina. Lofaðist hinn til þess, en beið hátt á aðra klukkustund eftir því að veður lægði nokkuð. Loks þótti honum viðlit að leggja af stað, en ekki var hann kominn nema svo sem 2—3 km austur fyrir Seljaland, þegar fór á sömu leið með framrúðuna í hans bíl. Sú rúða var bein, og mjög lítil af vörubílsrúðu að vera. Hvorugur bílstjóranna varð þess var, að steinn eða annað slíkt lenti á rúðunni, og telja þeir að veðurhæðin ein hafi ráðið. Í báðum bílunum var öryggisgler, en það hefur þá náttúru að það molnar og verður að salla, svo það sker ekki, en báðir fengu einhvern salla í augun, en það kom þó ekki að sök. Þriðji bíll, sem erindi átti þessa leið, var olíubíll frá Hvolsvelli á leið til Víkur, en hann lagði ekki í veðrið og beið á Seljalandi uns rokið gekk niður um fjögurleytið.

Í Tímanum 30.nóvember má lesa fréttabréf úr Hrútafirði:

Úr fréttabréfi úr Hrútafirði (J.R.J) Enn ríkir sama veðurblíðan hér sem um landið allt. Eftir hið dásamlega sumar hefur ríkt hin indælasta haustblíða svo að elstu menn muna ekki annað haust betra. Oftast logn og hreinviðri og vart komið dropi úr lofti, að ekki sé nú minnst á snjó, nema föl hefur gert til fjalla. En er ég minnist á snjó og fjöll þá dettur mér Tröllakirkja í hug, okkar „fjalladrottning“ Hrútfirðinga. Hún hefur nú fannir færri og smærri sér til skrauts en um ára- eða kannski aldaraðir. Og verði vetur nú snjóléttur eða líkur þeim er leið og fari eftir hlýindasumar, þá geta ferðamenn er aka um Holtavörðuheiði búist við að líta bana alauða að áliðnu næsta sumri, en það mundi algjör nýlunda. Og það segja mér fróðir menn að snjódílar þeir er af hjörðu í sumar í Tröllakirkju muni komnir mjög til ára eða kannski aldagamlir orðnir.

Tíminn 3.desember - enn af haustblíðu:

Ólafsfirði 26 nóvember. Tíðarfar hefur verið svo gott hér í haust og það sem af er vetrinum, að elstu menn telja sig ekki muna aðra eins blessaða blíðu á þessum árstíma. Okkur Ólafsfirðingum þykir það sannarlega mega teljast til tíðinda, að Lágheiði skuli hafa verið bílfær i allt haust og þar til nú 5 vikur af vetri. En í dag er dálítið kaldara og lítilsháttar fjúk og þó ekki meira en svo, að rétt er grátt í rót.

Desember var heldur óhagstæðari, sérstaklega síðari hlutinn. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Fram undir miðjan mánuð var jörð aðeins fölvuð af snjó sem hvarf fljótt aftur en á aðfangadag jóla snjóaði mikið í logni í og varð jafnt yfir allt svo ekki sást fyrir vegum. Mjólkurbíllinn tepptist hér og komst ekki með mjólkina úr Hvítársíðu og Þverárhlíð til Borgarness, fyrr en á jóladag. Núna er jörðin flekkótt að meiri hluta af snjó og svellum og mjög mikil hálka. Sauðfé ekki beitt, nema hleypt útí vatn.

Lambavatn: Það hefir verið vindasamt, en kuldalítið og snjólétt. Nú, síðustu vikuna af árinu hefir verið hér sífelld austan- og norðaustan hvassviðri.

Sandur: Tíðarfarið var frekar gott lengst af, en þó gerði smááhlaup af og til. Snjólétt var en hagar spilltust nokkuð vegna áfrera.

Gunnhildargerði: Tíðarfarið var mjög umhleypingasamt. Hér hefir verið leiðinda veðrátta þennan mánuð, sér í lagi síðari hlutann oft svo mikið illveðri að ekki var unnt að hafa búfé nema í húsum þótt hagi væri sæmilegur. Og svo dimmur að margan daginn varð að hafa týru af olíulömpum til að geta komið frá nauðsynjastörfum.

Tíminn segir frá því 7.desember að loks sé orðið ófært milli Norður- og Austurlands, en það gerðist venjulega mun fyrr að hausti á þessum árum:

Grímsstöðum. — Nú er orðið ófært bifreiðum yfir Möðrudalsheiði til Austfjarða, og er þetta óvenju seint, Í mörgum árum teppist þessi akvegur þegar um mánaðamótin september—október. Hríðarveður er nú yfirleitt norðan og austanlands, og teppast flestir meiriháttar fjallvegir. Það hefur nú verið hríðarveður hér í 3—4 daga og er kominn ofurlítill snjór. Það er farið að verða þungfært bifreiðum hér í kring og ekki eru aðrir vegir til byggða færir en til Mývatnssveitar. Ófært er orðið niður í Axarfjörð. Enn mun vera fært til Möðrudals en alófært er þaðan austur yfir, enda er þessi vegur gamlir troðningar, sem teppast af óverulegum snjó.

Slide9

Að kvöldi 7. kom langt, en skarpt lægðardrag upp að Reykjanesi. Kortið sýnir stöðuna að morgni þess 8. Gerði þá mikla slyddu og síðar snjókomu í Keflavík. Um morguninn kl.9 mældist úrkoma frá því kl.18 33,7 mm. Upp úr hádegi þ.8. stytti upp að mestu, en mælingin kl.18 sýndi 46,3 mm. Á sólarhring höfðu því fallið 80 mm, (en dreifist á tvær dagsetningar í skýrslum). Þetta er hærri tala en hið opinbera sólarhringsúrkomuhámark Keflavíkurflugvallar [71,9 mm, 25.ágúst 1966]. Eins og við var að búast olli þetta nokkrum vandræðum á flugvellinum - og síðar einnig niður í Keflavík. Þessi mikla úrkoma náði ekki nema rétt inn fyrir Vogastapa. Morgunblaðið segir frá í frétt þann 9. [látum nöfn flugvéla og félaga standa eins og í fréttinni]:

Keflavíkurflugvelli 8.desember. Um kl. 3 í nótt tók að hlaða niður snjó á Keflavíkurflugvelli og um hádegi var flugvöllurinn þakinn sex þumlunga lagi af blautum, jafnföllnum snjó. Þrjár flugvélar tepptust á flugvellinum vegna snjókomunnar, en það voru tvær Connstellation flutningavélar, önnur frá TNA, en hin frá hollenska flugfélaginu KLM. Þriðja flugvélin var Vickers Viscount frá flugfélaginu All Italia. Snjónum var rutt af flugbrautunum með stórvirkum snjóplógum, svo að ástand brautanna var flugvélunum ekki til trafala, en það var blautur snjórinn, sem hlóðst á vængi flugvélanna, sem töfinni olli. Það stoðaði ekki þótt snjónum væri sópað af vængjum og stéli, nýr snjór hlóðst jafnharðan á flugvélarnar aftur. Það er talið hættulegt að hefja til flugs, flugvél, sem er þakin blautum snjó, því jafnskjótt og flugvélin er komin í kaldara loft, breytist snjórinn í ís, en ísing er hlutur, sem allir flugmenn óttast, þar sem ísinn breytir lögun vængsins og getur orsakað slíka röskun á flugeiginleikum vélarinnar að hún missi flugið og steypist til jarðar. Snjókoma þessi náði aðeins skammt inn fyrir Vogastapa, en þegar komið var inn á Vatnsleysuströnd var jörð alauð og rigning. — RÞ.

Tíminn segir svo 11.desember frá vandræðum í Keflavík - og einnig af snjóflóði í Öxnadal:

Í fyrrinótt [aðfaranótt 10.] urðu nokkrar skemmdir á húsum í Keflavík, er kjallarar fylltust af vatni. Leitað var aðstoðar lögreglunnar í Keflavík vegna þriggja kjallara, sem voru á floti í vatni. Þó var veður stillt og ekki mikil rigning. Ástæða fyrir þessum flóðum var sú, að mikill snjór var á götunum, og þegar hann bráðnaði höfðu göturæsin ekki við að taka á móti leysingunni, og því fór sem fór.

Í fyrradag [9.] bar svo til, er bræður tveir í Hörgárdal gengu að fé, að fram sprakk snjóskafl í gili og svipti öðrum þeirra með sér um 100 m niður eftir hlíðinni. Var hann nokkuð meiddur og miður sín eftir, en ekki mun hann lífshættulega skaddaður. Bræðurnir eru Friðfinnur og Reynir Friðfinnssynir frá Baugaseli. Reynir var ofar og sá, er snjóflóðið tók bróður hans og tvo hunda þeirra. Reynir hljóp nú til bróður síns. Hann var að mestu á kafi í fönn, hélt fullri meðvitund, en var mjög aumur um líkamann eftir hrakning þennan. Studdi nú Reynir Friðfinn niður á jafnsléttu, en komst sjálfur í Baugasel um alllangan veg til að sækja bíl. Friðfinnur liggur rúmfastur heima. Annar hundurinn komst hjálparlaust úr fönn, en hinn hefur ekki fundist. [Í Morgunblaðinu 15.desember er fróðlegt viðtal við Friðfinn um flóðið].

Tíminn segir 13.desember frá enn einu þrumuveðrinu. Þrumur gengu þrjá daga í röð suðvestanlands: 

Meiriháttar þrumuveður með eldingum og öðru tilheyrandi gekk yfir Reykjavík og grennd í fyrrinótt [aðfaranótt 12.] og mun þó, eftir fregnum að dæma hafa verið einna aðsópsmest í Árnessýslu. Þar var víða rafmagns- og símasambandslaust, og kl. 20 í gærkvöldi voru 6 stöðvar ekki enn komnar í samband. Þær stöðvar, sem ekki voru komnar í samband, voru Torfastaðir, Geysir, Múli, Laugarvatn, Minniborg og Kiðjaberg. Fyrir þessar sakir gat blaðið ekki haft tal af  fréttariturum sínum á þessum stöðum. Skemmdir munu hafa orðið einna mestar í  Hraungerðishreppi. Þar eyðilögðust 6 rafmagnsstaurar á línunni, en einnig urðu skemmdir á Ölfuslínu, Þorlákshafnarlínu, línunni milli Þorlákshafnar og Eyrarbakka, og var meirihluti Árnessýslu rafmagnslaus fram eftir degi í gær og er siðast til fréttist var bilunin á Eyrarbakka— Þorlákshafnarlínunni ekki fundin. Víða eyðilögðust spennistöðvar, og sums staðar sprungu varhús á bæjum. Á Oddgeirshólum í Hraungerðishreppi splundruðust t.d. einangrarar í spennistöð fyrri tvo bæi, og á Bollastöðum í Flóa gereyðilagðist stofninntak rafmagnsins, og sömuleiðis sprungu öll öryggi í rafmagnstöflunni og postulínseinangrunin tættist af varhúsum. Ekki er blaðinu kunnugt um, að frekari skemmdir hafi orðið á híbýlum manna við þetta óskapa veður, né að rafmagnstæki hafi skemmst. Óveðrið mun ekki hafa staðið nema svo sem hálfa klukkustund.

Morgunblaðið segir 14.desember frá óvenjulegri veðurspá (sem reyndar rættist):

Í gærkvöldi spáðu veðurfræðingar þrumuveðri um suðvestanvert landið fyrir nóttina. Í stuttu símtali við Pál Bergþórsson um þessa óvenjulegu spá, sagði hann, að þrumuveður væri reyndar svo fátítt fyrirbrigði, að eiginlega væri tilgangslaust að setja þau fram í veðurspá. Ýmislegt benti þó til þess, að slíkt veður væri í aðsigi, m.a. hefðu frá veðurathugunarskipinu Indía, sem staðsett er úti í hafi, sést rosaljós, þó að ekki hefðu heyrst drunurnar í þrumunum sakir fjarlægðar.

Eins og kom fram í yfirliti Ingibjargar í Síðumúla hér að ofan snjóaði sumstaðar allmikið um jólin. Lægð kom að landinu aðfaranótt aðfangadags og gekk yfir landið og austur með. Í kjölfarið snerist vindur til norðaustanáttar. Lægð dýpkaði mjög nokkuð fyrir sunnan land á annan dag jóla og fór norðaustur nærri Færeyjum - en snerist síðan í hring fyrir austan land og komu leifar hennar loks nærri Norðausturlandi síðdegis þann 28. 

Slide10

Veðurkort Morgunblaðsins sýnir stöðuna um hádegi þann 27. Þá var lægðin komin rétt norður fyrir Færeyjar, en mikil bleytuhríð var um allt Norðurland - eins og lesa má í lýsingu Jónasar Jakobssonar veðurfræðings. Hann notar þar orðið „kerlingarhláka“. Ritstjóri hungurdiska er ekki nákunnugur því orði, en af fáeinum dæmum má ráða merkinguna. Haraldur Matthíasson gefur einna greinarbestu skilgreininguna - við vitnum beint í hann [greinina Veðramál frá 1953, bls.99]:

Kerlingarhláka: „ ... Þá er hláka aðeins skamma stund, kemur nokkurt krap, síðan frýs hann og hleypir öllu í ís og hjarn. Slík hláka er til ills eins og nefnist því oft spillibloti. Kerlingarhláka nefnist það einkum, er rignir á norðan. Þykir slík hláka ótrygg mjög. Orðið er sjaldan notað“. 

Svo virðist sem eyfirðingar séu sammála þessari skilgreiningu, rigning í norðanátt að vetrarlagi. En þessi umrædda hláka var afskaplega leiðinleg nyrðra. Morgunblaðið segir frá 28.desember:

Jólaveðrið var talsvert misjafnt á hinum ýmsu stöðum á landinu, hvít jól og gott veður fyrir sunnan, bleytuhríð víða á Vestfjörðum og fyrir norðan og hríðarbylur víða á Austfjörðum. Nokkrir fréttaritarar blaðsins úti á landi símuðu fregnir af jólunum í sínum byggðarlögum, en símasambandslaust var við Norðausturlandið í gær, eins og skýrt er frá á öðrum stað í blaðinu.

Tíminn birtir fregnir frá Akureyri 28.desember:

Akureyri, 27. des. — Svo bar til um jólin aS 7 menn frá Akureyri urðu veðurtepptir í Öxnadal, og komust ekki heim til sín fyrr en í gær. — Hér er hrakveður í dag, gengur á með  krapahryðjum, og er ófært um götur nema á klofstígvélum. Á aðfangadag fóru 7 menn frá Akureyri í heimsókn á fremstu bæi í Öxnadal, Engimýri og Háls. Þegar þeir hugðust snúa heim á leið, reyndist orðið ófært, svo þeir urðu að gista jólin í Öxnadalnum. Skipti fólkið sér niður á bæi, og hefur sjálfsagt notið góðra jóla í Öxnadalnum. Í dag er hér bleytuhríð mikil, og veður allt í krapi. Niðurföll í götum eru öll stífluð, og er helst ekki hægt að hreyfa sig utan dyra nema í klofstígvélum. — Vegir hér í grenndinni eru flestir opnir enn, en færðin er mjög að þyngjast. E.D

Egilsstöðum, 27. des. — Um jólin var hér leiðindaveður, snjókoma og hvasst á jóladag, en í gær gerði krapahríðarveður og er svo enn í dag. Mikið slitnaði niður hér að rafmagns- og símalínum i veðrinu. T.d. slitnuðu niður flestar heimtaugar að bæjum hér á Völlunum, eða svo til allar þær línur sem lágu þvert á veðuráttina, sem var norðaustan. Aðallínan liggur í sömu stefnu, og því slapp hún. Staurar eru hvergi brotnir heldur voru það línurnar sem sliguðust undan ísingarþunga. — Það mun taka nokkra daga að gera við skemmdirnar. ES

Akureyri, 27. des. — Ísing mikil hefur sest á símalínur hér austur og norður um, svo mjög lítið er hægt að hringja sem stendur. — Erfitt verður að gera við þær skemmdir, því veður er vont, færð mjög erfið og dagurinn stuttur. Í dag voru 9—10 vindstig hér norður með Eyjafirðinum og hiti um frostmark. Af þessum völdum settist mikil ísing á símalínur og sleit þær niður. Sambandið milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar er rifið, og eins milli Skóga í Fnjóskadal og Fosshóls í Bárðardal. Af þessum sökum er alveg sambandslaust austur um frá Akureyri, það er hægt að hringja yfir Vaðlaheiðina að Skógum og ekki lengra. — Þá mun einnig vera slitið í Öxnadal, til Svalbarðseyrar og eitt hvað frammi í firði. Það verður óhægt um vik að gera við þetta. Allt hjálpast að, veður er illt, alveg á takmörkunum að komast um vegna ófærðar, dagurinn er stuttur, og loks eru bæirnir ekki aflögufærir með mannskap til aðstoðar. — Rafmagnið hefur staðið þessa ísingu af sér, það var eitthvað um samslætti í dag en það er orðið gott nú. Þetta er líklega fyrsti veturinn, sem ekkert hefur bjátað á með rafmagnið fram til þessa tíma. ED

Tíminn segir enn af skemmdum af völdum ísingar 29.desember:

Geysimiklar skemmdir hafa orðið á raflínum í Eyjafirði og á Akureyri vegna ísingar og hafa alls um 30 staurar brotnað undan þunga íssins á svæðinu og loftlínur víðast hvar slitnar í hengla. Í fyrradag gerði mikið úrfelli í Eyjafirði. Hiti var þá um frostmark og geysileg ísing settist á allar loftlínur. Eru allir vírar á Akureyri og nágrenni 10—15 cm gildir, eða handleggssverir. Um 15 staurar brotnuðu undan ísþunganum á Akureyri þ.á.m. átta fyrir sunnan og ofan bæinn. Til marks um ástandið má geta þess að 20 ljósastaurar eru við aðalspennistöðina fyrir ofan bæinn, og hafði þar vírinn slitnað í hverju bili. Hafa loftlínur Akureyringa aldrei fyrr goldið slíkt afhroð vegna ísingar. Þegar menn frá Rafveitu Akureyrar voru að gera við línur fyrir ofan bæinn í gærdag brotnuðu þrír staurar skammt frá þeim, með miklum brestum, líkt og skotið væri af fallbyssu. Rafmagn er alls staðar á Akureyri, og innanbæjarkerfið óskemmt, Á nokkrum stöðum er þó enn loftlína, og Glerárhverfi er þannig rafmagnslaust af þeim sökum. Götuljós eru einnig af skornum skammti, þar sem loftlína er. — Knútur Ottested taldi að viðgerð á Akureyri mundi taka viku. Verst mun ástandið þó vera í innsveitum Eyjafjarðar. Þar eru heimtaugar slitnar í hengla, og nálega 15 staurar hafa brotnað. Ekki er enn fyllilega vitað um heildartjón það sem orðið hefur vegna ísingarinnar, en það er mjög mikið. Ingólfur Árnason, rafmagnsveitustjóri, mun hafa reynt að fá línumenn frá Reykjavík norður til aðstoðar, enda Akureyrarrafveitan ekki aflögufær um mannhjálp.

Tíminn heldur áfram 30.desember:

Unnið er nú af kappi að við gerð rafmagnslína í Eyjafirði. Ísing á loftlínum hefur þó síður en svo minnkað frá því í gær og fyrradag, og má allt að eins gera ráð fyrir áframhaldandi skemmdum vegna þessa. Stillt veður var á Akureyri í gær.

Ísafirði 28. des. — Hér hefur verið slydduhríð yfir öll jólin. Er færð þung um bæinn af þessum sökum, þótt verið sé að moka og reynt að halda leiðum opnum. Héðan hefur ekki gefið á sjó síðan nokkuð fyrir jól en, afli hafði verið ágætur hjá bátunum. Munu þeir róa strax og gefur. Guðm. 

Morgunblaðið segir af góðri tíð 30.desember - líklega úr Gaulverjabæ:

Seljatungu 30.desember. Snjólaus og mildur vetur, áfallalaust og hlýtt vor, sólríkt sumar, svo að ekki hefir komið annað jafngott síðan fyrir aldamót og svo stillt og mild haustveðrátta að fátítt er. - Gunnar.

Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og veðurlag ársins 1960. Að vanda er þykk talnasúpa í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smávegis af apríl 2024

Við lítum nú á nýliðinn apríl - sem þótti kaldur - og var það miðað við það sem verið hefur síðustu þrjá áratugina. Taflan hér að neðan sýnir hvernig meðalhiti hans raðast - talan 24 er sett við kaldasta aprílmánuð aldarinnar. 

w-blogg040524a

Á Norðurlandi var þetta næstkaldasti aprílmánuður þessara 24 ára, en á Suðurlandi hafa sex aprílmánuðir verið kaldari frá aldamótum. Í töflu í yfirliti Veðurstofunnar kemur í ljós að mánuðurinn raðast nærri miðju á þeim stöðvum sem mælt hafa síðustu 140 ár - eða lengur. Sýnir þetta okkur vel hvað apríl hefur hlýnað - alla vega í bili. 

Þegar litið er á háloftameðaltöl sjást sérkenni nýliðins aprílmánaðar vel.

w-blogg040524b

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en vik frá meðaltalinu 1981 til 2010 eru sýnd í litum, blátt þar sem flöturinn er lægri en meðaltalið. Hæðarhryggur var vestan við land og norðlægar áttir því mun algengari en venjulega í apríl, en hæð flatarins við Ísland þó nærri áðurnefndu meðallagi. Þegar vindur stendur af Grænlandi er oftast niðurstreymi austan við. Loftið í niðurstreyminu hlýnar og myndar lok yfir kaldara loft sem streymir til suðurs meðfram Grænlandi yfir Ísland. Í slíkum tilvikum er meðalhiti í neðri hluta veðrahvolfs heldur hærri en vænta mætti - miðað við hita í neðstu lögum. Loftið er stöðugra heldur en að meðallagi.

w-blogg040524c

Heildregnu línurnar á síðara kortinu eru þær sömu og á því fyrra, en jafnþykktarlínur eru daufar og strikaðar. Litir sýna hér þykktarvikin. Séu þau jákvæð (gulir og brúnir litir) hefur verið hlýrra í neðri hluta veðrahvolfs en að meðaltali. Mjög hlýtt var vestan Grænlnads. Á bláu svæðunum hefur hiti verið undir meðallagi - þykktin minni en venjulega. Ekki ber mikið á kulda á kortinu - talsvert minna heldur en vikin í töflunni að ofan gætu gefið til kynna. Ástæður þessa hafa þegar verið nefndar. Annars vegar er áðurnefnt misgengi milli norðvestanáttar uppi og norðan- og norðaustanáttar niðri, en hins vegar viðmiðunartímabilið - aprílmánuðir á því voru að jafnaði kaldari heldur en venjulegast hefur verið eftir aldamót. Við þurfum alltaf að vara okkur dálítið á viðmiðunartímabilum. Í huga ritstjórans var nýliðinn apríl nokkuð venjulegur hvað hita snerti - meðalmánuður, en í huga yngra fólks þess sem fór að fylgjast með veðri fyrir 10 til 25 árum var mánuðurinn tvímælalaust kaldur. Gæti leitt til alvarlegra deilna um spámannsins skegg - .

Við þökkum BP fyrir kortagerðina. 


Augnagotur - (hæð vestur af Grænlandi)

Jú, ritstjóri hungurdiska gefur veðrinu gaum á hverjum degi. En þegar lítið er um að vera - og fókusinn farinn að gefa sig vegna aldurs er mun erfiðara en áður að vera með margt í takinu í einu. En mænan - og hinar ósjálfráðu veðurstöðvar hennar virka enn. 

Í dag sá ritstjórinn (útundan sér) að hæðinni vestan við Grænland var spáð í 1047 hPa í miðju - á morgun. Það er svosem ekki mjög óvenjulegt á þessum tíma árs - en klingir samt bjöllum í mælaborðinu. Ekkert illt mun þó á seyði - að sögn reiknimiðstöðva og við getum trúað þeim.   

w-blogg020524a

Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir á hádegi á morgun föstudaginn 3.maí. Þarna er hæðin við Baffinsland - um það bil í hámarksstyrk. Lægð er á Grænlandshafi - búin að vera þar í dag líka. Ekki er langt í hlýja austanátt - hún nær vestur fyrir Færeyjar (þótt sjávarloftið sjái um veður þar (eins og venjulega). Svo virðist sem þessi hlýindi nái ekki hingað til lands því mjög kalt loft sækir fram við Grænland. - Og þá er komið að aðalatriði pistilsins. 

w-blogg020524b

Það er þetta háloftakort. Engin hæð við Baffinsland - heldur ískalt lægðardrag þar nærri. Þetta lægðardrag hefur í dag verið að vinna sig inn á Grænlandshaf og verður á morgun orðið að sérstakri háloftalægð - sem mun frekar styrkjast. Kalda loftið nálgast landið heldur - og kemur alla vega í veg fyrir öll hlýindi úr suðri eða austri vel fram yfir helgi (sé að marka reikninga). 

Hungurdiskar hafa alloft fjallað um hæðir af þessu tagi. Þær liggja undir köldum háloftadrögum og fylla þau - þannig að ekki (eða varla) sér votta fyrir lægð niðri við sjávarmál. Fyrir tíma háloftaathugana var þetta auðvitað sérlega varasamt. Hálendi Grænlands stíflar gjarnan framrás kuldans í neðstu lögum - en ekki uppi. Allskonar varasamir hlutir geta þá farið á kreik austan jökulsins. Er það allt með fjölbreyttu sniði. 

Það afbrigði sem nú er uppi virðist vera af fremur meinlausri gerð. Köld lægð dýpkar á Grænlandshafi. Eina snjókoma marsmánaðarins ofurhlýja 1964 átti sér stað við þessar aðstæður - tók undirbúningurinn marga daga. Þetta veldur því að spár Veðurstofunnar hafa eitthvað minnst á él hér vestanlands í kringum helgina - alla vega á fjallvegum. Hér liggur ástæða þeirra spáa. 

Páskahretið mikla 1963 er í skylduliði þessarar stöðu - en miklu orkumeira (ef svo má að orði komast) - sömuleiðis aprílhretið mikla 1882. Fleiri afbrigði mætti telja - en rétt að endurtaka að allt virðist saklaust nú. 

Við tökum samt ofan fyrir hæðinni - og gefum hugsanlegum næturhálkublettum gaum. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 90
  • Sl. sólarhring: 340
  • Sl. viku: 2857
  • Frá upphafi: 2427409

Annað

  • Innlit í dag: 72
  • Innlit sl. viku: 2560
  • Gestir í dag: 70
  • IP-tölur í dag: 70

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband