Miklar lægðir

Það eru miklar lægðir sem eiga leið hjá landinu þessa dagana. Þrýstingur fór á þriðjudaginn niður í 941,7 hPa í Grindavík - sá lægsti í janúar á landinu í 5 ár - og á allmörgum stöðvum voru mánaðarstöðvarlágþrýstimet slegin. 

Lægðin sem á að plaga okkur á morgun (föstudag 10.janúar) er líka mjög djúp, megi trúa spám. Líklega innan við 945 hPa í miðju, hver lægsti þrýstingur á landinu verður samfara henni vitum við ekki með vissu. Reiknaðar spár hafa verið nokkuð hringlandi með braut lægðarmiðjunnar - óþægilega hringlandi þykir okkur sem erum farin að venjast ofurnákvæmum spám. Fyrir um 40 árum þegar ritstjóri hungurdiska sat í spámannssæti fylgdi mun meiri óvissa lægðum sem þessum - eða e.t.v. ætti að segja öðruvísi óvissa. Óvissuhugsunin náði alla vega ekki til margra daga eins og nú - það voru aldrei gefnar út spár lengra en tvo sólarhringa fram í tímann - og aldrei gefnar stormviðvaranir meir en sólarhring fram í tímann. Þýddi lítt að hugsa um slíkt á vaktinni. Eitt aðaláhyggjuefnið á þeim tíma voru sjávarflóð samfara hraðfara djúpum lægðum - ekki síst nærri stórstreymi. Þrátt fyrir áratugina alla liggja þessar áhyggjur nokkuð á sál ritstjórans - en varnir hafa verið bættar víða og þar að auki ættu betri spár að gera flesta rólegri. 

Eins og venjulega beinum við athygli þeirra sem eitthvað eiga undir að spám Veðurstofunnar - þar er veðrið vaktað dag og nótt - en ekki bara litið á það við og við eins og á ritstjórnarskrifstofum hungurdiska.

Við skulum samt líta á tvö kort úr kortasafni Veðurstofunnar - spár evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg100120a

Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting kl.15 síðdegis á morgun (föstudag 10.janúar). Þrýstingur í lægðarmiðju er hér um 942 hPa. Litirnir sýna 3 klukkustunda þrýstibreytingu. Rauðasti liturinn nær upp í 16 hPa, en við sjáum lítinn hvítan blett við lægðarmiðjuna. Þar segir spáin að þrýstingur hafi fallið um meir en 17 hPa [langt frá meti - en mjög mikið samt]. Ef vel er að gáð má einnig sjá daufar strikalínur. Þær marka þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, má þar sjá að ekki er sérlega kalt (miðað við árstíma). - En ekki eru ferðalög kræsileg meðan þetta gengur yfir. Ákafi hlýja loftsins að sunnan þrengir mjög að kalda loftinu norðvesturundan þannig að foráttuveður verður á Grænlandssundi - mikið fárviðri - meira en þau sem plagað hafa okkur til þessa í vetur. Vonandi slær því ekki að ráði inn á land. 

Næsta lægð á síðan að nálgast strax á mánudag.

w-blogg100120b

Hér sýna litirnir 6 stunda þrýstibreytingu (en ekki þriggja). Kortið gildir kl.18 síðdegis á mánudag, 13.janúar. Þrýstingur í þessari lægðarmiðju á að vera um 939 hPa þegar hér er komið sögu. Ekki er heldur mjög kalt - en eins og sjá má eru þrýstilínur mjög þéttar yfir landinu - ekki kræsilegt heldur. 

En þeir sem eitthvað eiga undir veðri ættu að fylgjast vel með bæði spám og athugunum. Hér fara margir vandræðamöguleikar saman, vindur, úrkoma, slæmt skyggni, hálka, hugsanleg slydduísing og snjóflóð - auk svo sjávarólgu eða flóða sem áður er á minnst. 


Óróleg tíð

Tíðafar er heldur órólegt þessa dagana, minnir dálítið á rússneska rúllettu. Líkön hafa þó staðið sig allvel til þessa, en óvissa samt veruleg. Djúp lægð fer hjá landinu í nótt og í fyrramálið (aðfaranótt mánudags) - einhver leiðindi fylgja henni - alla vega rétt fyrir ferðalanga að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar og veðurathugunum. 

Síðan á önnur lægð að koma að landinu á þriðjudag, enn dýpri en sú fyrri. Ástæða er til að fylgjast vel með vestanáttinni í kjölfar hennar. Leiðindin sem fylgja fara að vísu mjög eftir hitafarinu - hvessi í snjókomu er útlitið mjög slæmt, en heldur skárra þar sem blautt er í. Þetta þýðir að allar ferðir um fjallvegi eru trúlega vægast samt varasamar á þriðjudag. Sömuleiðis er lægðin svo djúp og svo hvasst verður undan landi að ef vindur fellur illa í sjávarstöðuna er varla von á góðu. Eru þeir sem eitthvað eiga undir hvattir til að fylgjast vel með þróuninni.

Svo er ekki allt búið - evrópureiknimiðstöðin er að spá óvenjulegri háloftastöðu á miðvikudaginn - svo óvenjulegri að gefa verður henni gaum. En rétt að taka fram að hún er á mörkum þess trúlega - og bandaríska líkanið er öllu vægara, og þar með e.t.v. trúlegra (en við vitum ekki enn um það). 

w-blogg050120a

Kortið gildir kl.18 síðdegis á miðvikudag, 8.janúar. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Undanfarna daga hefur verið mjög kalt norðvestan Grænlands. Svo virðist sem kuldapollurinn hreyfist nú til suðurs. Hálendi Grænlands stíflar framrás kalda loftsins að mestu til austurs - en megi trúa líkönum slettist jafnframt gusa af kulda yfir jökulinn og niður hlíðar hans austanverðar, allt frá Hvarfi norður undir Kulusuk. Þetta er mjög vandasöm staða fyrir reiknilíkön og margt sem getur farið úrskeiðis. Fari nægilega mikið af köldu lofti yfir jökulinn og niður hinu megin dragast veðrahvörfin ofan við „fossinn“ niður og mjög djúp háloftalægð verður til. Samkvæmt þeim reikningum sem kortið sýnir á 500 hPa-flöturinn að fara niður í 4610 metra þar sem hann er lægstur. Þetta er mjög óvenjulegt - og eins gott að ekkert hlýtt loft komist inn í lægðina. Ritstjóri hungurdiska hefur séð svona lága tölu á þessum slóðum áður - en ekki er það oft. 

Þeir sem hafa auga fyrir kortum af þessu tagi sjá að jafnþykktarlínurnar (litirnir) fylla að nokkru upp í hringrás háloftalægðarinnar. Vindur við jörð er því ekki nærri því eins mikill og e.t.v. mætti búast við. 

w-blogg050120b

Þó er það svo að seint á aðfaranótt fimmtudags (9.janúar) er spáð fárviðri af vestsuðvestri á Grænlandshafi - eins og kort reiknimiðstöðvarinnar sýnir. Hversu mikill vindur nær alla leið til Íslands er fullkomlega óljóst á þessu stigi málsins. Með þessu fylgir spá um 11 metra ölduhæð á utanverðum Faxaflóa, Snæfellsnesi og Reykjanesi á fimmtudaginn. Vonandi sleppum við við rafmagnstruflanir af völdum seltu í þessum vestanáhlaupum. 

Lægðagangurinn á síðan að halda áfram. En ritstjóri hungurdiska minnir enn á að hann gerir engar spár - en hvetur eins og venjulega lesendur til að fylgjast með spám „til þess bærra aðila“. 


Kalt í heiðhvolfinu

Í framhjáhlaupsfréttum er það helst að í dag mældist frost -92 stig í 25 km hæð yfir Keflavíkurflugvelli (í 20 hPa-fletinum). Í fljótu bragði finnur ritstjóri hungurdiska ekki lægri tölu í gögnum af þeim bæ, en geta verður þess að mælingar í 20 hPa-fletinum eru nokkuð gisnar. Ekki var met í næsta fleti fyrir neðan (30 hPa). Hin óvenjuútbreiddu glitský sem sést hafa víða um land tengjast þessu kuldastandi - óskaskilyrði fyrir myndun þeirra.

Glitský eru í sjálfu sér ekki óalgeng yfir landinu að vetrarlagi. Fyrir löngu ritaði ritstjóri hungurdiska stuttan pistil um árstíðasveiflu þeirra á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að að meðaltali sjást þau einn dag í hverjum janúarmánuði - en í reynd felur meðaltalið mikil áraskipti. Stundum sjást þau fjölmarga daga - en síðan geta liðið allmörg ár án þess að þeirra verði vart. 

Algengast er að glitskýin séu afleiðing þess að mjög hlýtt loft langt úr suðri ryður veðrahvörfunum upp - og þar með lyftist allt heiðhvolfið þar fyrir ofan - og kólnar við að lyftast. Bylgjur sem landið (eða jafnvel Grænland) mynda auka á líkur þess að loftið kólni niður í kjörhita skýjanna - sem er í kringum -80 stig, kannski nægja -75 stig. Vegna þess að þessi framsókn er úr suðri, er langoftast skýjað um landið sunnan- og vestanvert þegar þetta á sér stað og skýin sjást ekki - lágskýin fela þau. Glitský virðast því vera mun tíðari á Norður- og Austurlandi heldur en suðvestanlands. 

Fyrir kemur að skammdegisröst heiðhvolfsins slær sér af afli suður fyrir Ísland og heiðhvolfið ofan landsins lendir nærri miðju skammdegislægðar heiðhvolfsins - sem reyndar er misköld. Inni í lægðinni er frost oft meira en -75 stig í 22 til 35 km hæð. Þar geta því verið glitský - svo virðist sem að bylgjuform sé ekki eins áberandi á þeim skýjum og þeim sem fylgja suðvestanáttinni. 

Þau glitský sem sést hafa að þessu sinni eru í skammdegisröstinni sjálfri - þar eru bylgjur - kannski vaktar af Grænlandi. Röstin er óvenjuköld. 

w-blogg030120a

Myndin sýnir stöðuna í 30 hPa-fletinum [23 km hæð] á sunnudagsmorgni, 5.janúar - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. Rétt austan við land á hiti að fara niður í -90 stig. Spár gera ráð fyrir því að eitthvað hlýni þarna uppi í næstu viku. 

Á veðursíðum samskiptamiðla er mikið fjallað um stöðuna í heiðhvolfinu. Ástæðurnar eru e.t.v. tvíþættar. Annars vegar virðast breytingar vera að eiga sér stað þar uppi í tengslum við aukin gróðurhúsaáhrif - en hins vegar er nú mikið leitað að tengslum vindafars í heiðhvolfi og veðurs niður við jörð. Brotni skammdegislægðin upp - eða aflagist hún að mun komi fram áhrif á heimskautaröst veðrahvolfs. Ekki er ólíklegt að svo sé í raun og veru. Leita menn leiða til að spá ástandi heiðhvolfs lengra fram í tímann heldur en neðar - mynstur þar uppi er einfaldara heldur en veðrahvolfinu. Við höfum gefið þessum málum gaum á hungurdiskum áður og verður það ekki endurtekið að sinni. 

En aftur að upphafi þessa pistils. Mælingin frá því um hádegið, -92 stig í 20 hPa er ekki vís - varla leið að staðfesta hana - og við eigum ekki mikið af aðgengilegum gögnum úr þeim fleti til samanburðar. En tölvuskrár innihalda allgóð gögn úr 30 hPa-fletinum. Lægsti hiti sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli í honum er -87,2 stig - met sett á annan jóladag 2015. [Minnisgóðir kannast kannski við „ofurlægðina“ sem fór yfir landið nokkrum dögum síðar].

Á undanförnum árum hafa allmörg lágmarkshitamet fallið í heiðhvolfinu yfir Keflavíkurflugvelli - er það í samræmi við beinar væntingar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. En hafa verður í huga að breytingar á hitafari heiðhvolfsins geta einnig haft áhrif á hringrásina, bylgjukerfið - langt í frá er ljóst hvernig fer með það mál.  


Aldarafmæli Veðurstofunnar

Veðurstofa Íslands var stofnuð þann 1.janúar 1920. Í fyrstu var hún deild í Löggildingarstofunni. Veðurstofan tók þá þegar við formlegum veðurathugunum í landinu af þeirri dönsku en hún hafði komið upp allþéttu athugunarkerfi og rekið það í nærri hálfa öld (frá 1872). Síðustu árin var þó nokkuð farið að þynnast um. Kannski erfiðar samgöngur í heimsstyrjöldinni fyrri hafi ráðið nokkru, kannski eitthvað annað. Veðurskeyti höfðu fyrst borist frá landinu með reglubundnum hætti um sæsímann haustið 1906 og voru mjög mikilvæg veðurspám í Evrópu þó skeytastöðvarnar væru ekki margar. [Reykjavík, Ísafjörður, Akureyri, Grímsstaðir á Fjöllum, Seyðisfjörður og Vestmannaeyjakaupstaður]. Þessi veðurskeyti voru einföld, sjávarmálsþrýstingur, hiti, vindátt og vindhraði. Skýjahulu og veðri var „lýst“ með aðeins einum tölustaf (sem er þó meira en flestar sjálfvirkar athuganir bjóða upp á í dag). 

Í tilkynningu sem dagblaðið Vísir birti þann 1.febrúar segir m.a.:

Fyrst um sinn fylgir veðurlýsingunni enginn spádómur um það, hvernig veðrið muni verða. Slíkir spádómar eru nú sem stendur miklum vandkvæðum bundnir, og mundu ekki geta orðið svo ábyggilegir, að þeir kæmu að verulegu gagni. En til þess er ætlast, að þeir, sem hafa áhuga á því að vita um komandi veður, geri sér að venju að athuga veðurlýsingarnar, og reyni að finna í þeim nýjar reglur um veðurfarið.

En hvers konar veður blasti við mönnum þennan fyrsta starfsdag Veðurstofunnar? Við nýtum okkur bandarísku endurgreininguna sem ábendingu um stöðu þrýstikerfa.

w-blogg301219aa

Hæðarhryggur er yfir landinu vestanverðu, hæð yfir Grænlandi og kröpp lægð austur af Nýfundnalandi. Mikil norðanátt er fyrir austan land og teygir sig frá Svalbarða allt suður til Afríku. Sé þetta borið saman við raunveruleikann á Íslandi kemur í ljós að aðalatriðin virðast rétt, en greiningin vanmetur styrk norðanáttarinnar austanlands - ekki víst að allar þrýstiathuganir landsins séu með í leiknum. 

w-blogg301219b

Það er helsta kraftaverk endurgreininga að þær sýna okkur líka stöðuna í háloftunum - og þar með líklegar skammtímahreyfingar þrýstikerfa og þykktina að auki. Sú síðastnefnda virðist oft vera lítillega ofmetin endurgreiningum á fyrsta hluta 20.aldar og á 19.öld. 

Á landinu var veðrið um miðjan dag um það bil eins og kortið hér að neðan sýnir:

w-blogg301219ac

Bjartviðri var um landið sunnan- og vestanvert - og líka á Norðurlandi vestanverðu. Rokhvasst var austast, 10 vindstig í Papey, 9 á Teigarhorni og 8 á Seyðisfirði. Vestanlands var austan og norðaustan kaldi eða stinningskaldi, hægur norðanlands, á Akureyri andaði af suðri og logn var á Ísafirði. 

Afgangur þessa fyrsta vetrar Veðurstofunnar varð nokkuð erfiður. Það var mjög umhleypingasamt og snjór með allra mesta móti á Suður- og Vesturlandi. Vetur sem þessi hefði orðið annasamur á spávakt Veðurstofunnar enn þann dag í dag og gular og appelsínugular viðvaranir viðloðandi. Nánar á lesa um veður og tíð á árinu 1920 í samantekt hungurdiska.

Veðurstofa Íslands er ein af grunnstoðum nútímasamfélags og vonandi að hún fái enn að blómstra. Hún hefur líka verið góður og vinsamlegur vinnustaður ritstjóra hungurdiska í meir en 40 ár og kann hann bæði stofnun og samstarfsfólki öllu bestu þakkir. 

Ritstjórinn þakkar líka lesendum hungurdiska fyrir vinsemd á nýliðnu ári og óskar þeim öllum hins besta í framtíðinni. 

 


Stóri-Boli við áramót

Við heyrum nú hljóðin frá kuldapollinum Stóra-Bola handan yfir norðanvert Grænland - en vonum jafnframt að hann láti okkur í friði. Það er samt ákveðin fegurð sem fylgir skrímslinu þar sem það liggur á meltunni.

w-blogg291219a

Kortið er gert eftir gögnum frá bandarísku veðurstofunni nú í kvöld og gildir um hádegi á gamlársdag. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin sýnd í lit. Ísland er alveg neðst - umlukið tiltölulega hlýju lofti - þykktin yfir Suðausturlandi um 5400 metrar. 

Miðja Stóra-Bola er yfir Ellesmereeyju. Hann er „barmafullur“ af köldu lofti - það sést af því að jafnþykktar- og jafnhæðarlínur eru álíka margar og sammiðja. Þrýstingur við sjávarmál er nærri því sá sami undir öllum pollinum, rétt rúm 1000 hPa - vindur umhverfis hann er því mjög lítill. 

Á þessu korti er hæð 500 hPa-flatarins í miðju ekki nema 4610 metrar - með því allralægsta sem sést á þessum slóðum og þykktin - í þessari spá - er aðeins 4570 metrar þar sem hún er lægst. Það er e.t.v. á mörkum þess trúlega, evrópureiknimiðstöðin sýnir lægst um 4630 metra. Sú tala er heldur algengari. Kuldi er einnig mikill í neðri lögum megi trúa spánni. Þessi sama spáruna bandarísku veðurstofunnar sýnir um -45 stiga frost í 850 hPa - ekki mjög oft sem sú tala sést í spám, en evrópureiknimiðstöðin (og afsprengi hennar danska harmonie-spáin) sýna örlítið hærri hita í þeim fleti. Harmonie-spáin sýnir meir en -50 stiga frost á fjöllum Ellesmereeyju á gamlársdag, en mælingar eru þar af mjög skornum skammti inni í sveitum, frostið gæti hugsanlega farið í -55 til -60 stig þar sem það verður mest. 

Sumar spár gera ráð fyrir því að aðeins slettist úr pollinum þegar hann rekst á Grænland uppúr miðri viku - sú sletta gæti náð hingað til lands stutta stund. Síðan virðast reiknimiðstöðvar gera ráð fyrir því að pollurinn hörfi aftur til vesturs eða suðurs. Þó fyrirbrigði sem þetta valdi sjaldan vandræðum í sinni heimabyggð er annað uppi á teningnum sleppi þau út úr girðingunni. 


Hiti 2019 - miðað við síðustu tíu ár

Við skulum nú bera saman hita ársins 2019 og meðalhita síðustu tíu ára (2009 til 2018). Á landinu í heild má segja að árið hafi verið nákvæmlega í því meðallagi, rétt eins og árið í fyrra (2018). Vikamynstur þessara tveggja ára er þó ólíkt. Bæði árin var hiti rétt neðan tíuárameðallagsins á vestanverðu Norðurlandi, en á þessu ári var hiti líka neðan meðallags um Norðurland austanvert og á flestum stöðvum á Austurlandi. Þó var hiti í meðallagi á nokkrum útkjálkastöðvum við Austfirði. Hiti var ofan meðallags um landið vestanvert. Að tiltölu var kaldast á Sauðárkróksflugvelli og á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, hiti -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Að tiltölu varð hlýjast á nokkrum stöðvum þar sem mæliaðstæður eru e.t.v. ekki alveg staðlaðar (vegna snjóa), á fjallvegum á Vestfjörðum (vik 0,6°C eða meira á Mikladal, Gemlufallsheiði, Hálfdán, Þröskuldum og Kleifaheiði - og einnig á Fróðárheiði og í Tindfjöllum). Betur þarf að líta á mælingar á þessum stöðvum.

w-blogg281219a

Bláar tölur sýna neikvæð vik, en rauðar jákvæð. Svo verður að hafa í huga í huga að tölur á einstaka stöð gætu hrokkið til um 0,1 stig á síðustu 4 dögum ársins - og þar með jafnvel færst til milli lita á kortinu. Við verðum að hafa í huga að meðalhiti síðustu tíu ára er 1,0 stigi ofan við meðalhita síðustu aldar. Öll ár það sem af er 21.öld hafa verið hlý í þessu samhengi. Sé talið allt aftur til 1874 lendir landsmeðalhiti ársins 2019 í 15. til 18. hæsta sæti. Hlýjast var 2014, 2003 og 2016.

Hiti hefur síðustu tíu árin verið nokkuð í „jafnvægi“ eftir gríðarlega hlýnun áratuginn á undan - en samt langt ofan þess sem áður var.

w-blogg281219b

Hér má sjá 10-ára (120-mánaða) keðjumeðalhita á landinu. Ártalið er merkt í lok hvers tíu ára tímabils - fyrsta talan á þannig við áratuginn 1991 til 2000 (120-mánuði) og er merkt sem 2000. Meðalhiti síðustu tíu ára er nú 4,42 stig, 0,9 stigum hærri en árið 2001. Hlýnunin síðan þá samsvarar um 4,9 stigum á öld. Hraði hlýnunarinnar var mestur á árunum 2002 til 2010, þá samsvaraði hraðinn hlýnun um 10 stig á öld. Það sjá vonandi flestir að heimsendir er í nánd haldist slíkt áratugum saman. Gróflega má segja að við höfum þegar tekið út nærri helming þeirrar hlýnunar sem nú er helst gert ráð fyrir til næstu aldamóta. Ólíklegt er þó að það sem eftir er (komi það) eigi sér stað jafnt og þétt. Miklu líklegra er að allstór og skyndileg stökk verði fram og til baka - bæði til kólnunar og hlýnunar á víxl. Það er ótvírætt merki um alvarlega stöðu í heiminum gangi hlýnunin mikla sem við sjáum á myndinni hér að ofan ekki til baka að öllu eða einhverju leyti. Komi annað ámóta stökk á næstunni erum við komin í gjörólíkt tíðarfar.

Tíu ára lágmarkshita kuldaskeiðsins 1965 til 1995 var náð síðla árs 1986 (desember 1976 til nóvember 1986), hann var 3,0 stig. Árið 2001 hafði því þegar hlýnað um 0,5 stig frá því sem kaldast var.

w-blogg281219c

Það er fróðlegt að bera þessi miklu hlýindi saman við þau sem urðu fyrir nærri 100 árum. Þá varð hraði hlýnunarinnar [sem hækkun á 120-mánaða meðaltölum] mestur á árunum 1916/1925 til 1925/1934 og samsvaraði 13 stigum á öld þegar mest var (sjá myndina). Síðan sló á (svipað og eftir 2010) og áratugahiti hélst svipaður fram um 1960, en þá fór að kólna. Við skulum taka eftir því að hiti síðustu 20 ára er vel ofan við það sem var fyrir 80 árum, um 0,4 stigum. Kuldaskeið 20.aldar var þrátt fyrir allt hlýrra en það sem ríkti síðari hluta 19.aldarinnar. Sagan segir okkur að lítil regla sé í hitasveiflum á áratugakvarða - þær spár eru bestar í lengdina sem gera alltaf ráð fyrir svipuðum hita og verið hefur (við tökum þá aðeins á okkur arfavitlausar spár á meðan á stökkunum stóru stendur - en erum í sæmilegum málum þess á milli). Jú - svo geta þeir sem vilja gert ráð fyrir hnattrænni hlýnun til viðbótar - hvert hún er að leiða okkur vitum við auðvitað ekki.


Enn eitt hlýindaárið

Við áramót er hugað að tíðarfari liðins árs. Meðan við bíðum eftir uppgjöri Veðurstofunnar (sem dálítið er í) skulum við hér líta á fáein atriði - í nokkrum pistlum. Tíðarfar var talsvert ólíkt því sem var í fyrra (2018) - þó bæði árin teljist í langtímasamhengi hlý. Að þessu sinni voru hlýindin meiri um landið suðvestanvert heldur en eystra, alveg öfugt við það sem var í fyrra. Við lítum betur á vik í einstökum landshlutum í næsta pistli, en svo virðist sem meðalhitinn í Reykjavík sé sá sjöundihæsti frá upphafi samfelldra mælinga (1871) og á Akureyri við 25.sæti (af 139). Í Stykkishólmi virðist ársmeðalhitinn ætla að enda í 13. efsta - eða þar um bil, af 174. Endanleg skipan sæti er þó ekki ljós fyrr en síðustu dagarnir eru liðnir. Þetta er 24. árið í röð sem hiti er yfir meðallagi áranna 1961-1990 í Reykjavík. Svo virðist sem meðalhitinn þar endi í 5,7 stigum - eða þar um bil og í um það bil 4,3 stigum á Akureyri. En bíðum með endanlegt uppgjör. Þangað til lítum við á mynd sem sýnir ársmeðalhita í Stykkishólmi frá 1798 að telja. Þar virðist ársmeðalhitinn ætla að enda í 4,8 eða 4,9 stigum.

w-blogg271219a

Hér má glöggt sjá að árið 2019 er í flokki þeirra hlýrri á langtímavísu, hitinn +1,4 stigum ofan meðallags alls tímabilsins - og hlýrra en öll ár kuldaskeiðsins 1965 til 1995 - og á hlýskeiðinu frá 1925 til 1964 voru aðeins fjögur eða fimm ár (af 40) hlýrri en 2019. Á allri 19.öld var ekkert ár jafnhlýtt eða hlýrra en það sem nú er nær liðið.

En hvernig horfir málið við ef við „fjarlægjum“ hina almennu hlýnun? Það sýnir næsta mynd.

w-blogg271219b

Tölurnar á lóðrétta ásnum eru marklausar sem slíkar - við getum ímyndað okkur að þær segi frá hitanum hefði engrar almennrar hlýnunar gætt (þannig er það þó auðvitað ekki). Meðalhiti ársins 2019 er +0,6 stigum ofan meðaltals. Hér sést enn betur heldur en á hinni myndinni hvað tímabilaskipting er mikil - hvað kólnar og hlýnar skyndilega - jafnvel á aðeins 1 til 3 árum. Sömuleiðis sést mjög vel að breytileiki frá ári til árs var mun meiri á 19.öld heldur en nú. Líklega tengist það mun meiri hafís í norðurhöfum þá heldur en þar hefur verið á síðari árum. - Norðanáttin var mun kaldari heldur en sama átt nú - ef hún á annað borð var ríkjandi.

En árið 2019 er - hvað hitafar varðar - ekki boðberi neinna breytinga frá því sem verið hefur á þessari öld. Hlýskeið hennar ríkir enn. Hvenær því lýkur vitum við ekki. Þetta hlýskeið kom nokkuð óvænt (alla vega var óvænt hversu snögglega það skall á) - kuldaskeiðið 1859 til 1925 stóð í meir en 60 ár - þeir sem bjuggust við að einhver regla væri ríkjandi í skipan hlý- og kuldaskeiða gátu alveg eins vænst þess að kuldinn sem hófst 1965 stæði í 30 ár til viðbótar því sem hann gerði (væri kannski að ljúka upp úr 2020). Þeir sem enn halda fram einhverri reglu gætu sagt að hlýskeiðið ætti að standa í 40 ár - rétt eins og þau tvö fyrri sem við þekkjum allvel gerðu. - En það hefur nú ekki staðið nema í rúm 20. - En það er engin regla - núverandi hlýskeiði gæti lokið á morgun - eða það haldið áfram eða magnast enn frekar - aukist hin almenna hlýnun jarðar eins og sumir vænta.

En þessi miklu hlýindi sem gengið hafa yfir landið síðustu tvo áratugina eru orðin svo langvinn að þeim fjölgar óðum sem ekki muna annað ástand (alla vega ekki vel). Þá breytast viðmið óhjákvæmilega. Hiti ársins 2019 var á landsvísu nærri meðallagi síðustu tíu ára - rétt eins og í fyrra 2018. En við víkjum að því í næsta pistli.


Á norðurhveli nærri sólstöðum

Þó vetrartíð hafi nú um hríð plagað flesta landsmenn eru meginkuldapollar norðurhvels samt fjarri góðu gamni. Við erum samt vel norðan við meginvindröstina sem oftast hringar norðurslóðir á þessum tíma árs.

w-blogg221219a

Hefðbundið norðurhvelskort sýnir stöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin segir hana verða síðdegis á Þorláksmessu. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og af legu þeirra má sjá vindátt og vindhraða í miðju veðrahvolfi. Heldur gisnar eru þær við Ísland og nokkuð langt suður í þéttari línur. Litir sýna þykktina en hún segir af hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Loftið yfir Íslandi er ekki kalt, mörkin á milli grænu og bláu flatanna er við 5280 metra, meðaltal desembermánaðar er um 5250 metrar yfir landinu miðju, svipað og er á kortinu. Sjá má nokkurn þykktarbratta við Ísland - þar eru litir fleiri en einn - og búa til norðaustanþræsinginn sem hefur verið að plaga okkur undanfarna daga. Þrír bláir litir auk þess græna.  

Nokkuð afl þarf til að hreinsa til og stuðla að breytingum - annað hvort að koma röstinni sem nú er suður í höfum til okkar - eða þá að færa okkur alvörukulda. 

Tveir meginkuldapollar norðurhvels, sem við til hagræðis höfum nefnt Stóra-Bola og Síberíu-Blesa liggja báðir í fletum sínum, sá síðarnefndi stærri um sig, en Stóri-Boli er öllu snarpari. 

Vestur yfir Ameríku er nokkur bylgjugangur - kannski takist að sveifla röstinni eitthvað til svo kryppa myndist sem náð gæti til okkar. Ekki eru spár þó alveg sammála um slíkt framhald - jafnlíklegt talið að lægðir haldi áfram að berast til austurs fyrir sunnan land svipað og verið hefur - skiljandi eitthvað hrat eftir fyrir okkur - komandi upp að landinu úr austri (aðallega) - til viðhalds þykktarbrattans áðurnefnda (kaldasta loftið hrúgast upp við Grænland - sem hindrar för þess til vesturs). 

En norðurhvel er enn að kólna, hinn tempraði hluti meginlandanna kólnar 5 til 6 vikur áfram - hraðar en höfin gera. Líkur á sveiflum í heimskautaröstinni aukast þá og ná að meðaltali hámarki í febrúar (ekki þó árvisst). Norðurslóðir kólna enn vel fram í mars - en þá er farið að hlýna á meginlöndunum og lega rasta breytist. 

En við verðum að gefa öllu gaum, auðvitað kuldapollunum stóru, en líka sveiflum og sérvisku rastanna, austan- og norðanhratágangi auk staðbundinna uppákoma svosem hitahvörfum og hægviðra. Ekkert frí frá veðrinu - það er alltaf einhvern veginn. 


Fyrstu tuttugu dagar desembermánaðar

Þá eru það 20 fyrstu dagar desembermánaðar. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er -0,4 stig, -0,7 neðan meðallags áranna 1961 til 1990, en -1,1 neðan meðallags síðustu tíu ára og í 14.hlýjasta sæti (af 19) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2016, meðalhiti þá +5,6 stig. Kaldastir voru dagarnir tuttugu árið 2011, meðalhiti -2,8 stig. Sé litið til lengri tíma er meðalhitinn í 92. til 93. sæti af 144 - hlýjast 2016, en kaldast var 1886, meðalhiti -5,6 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana 20 -1,1 stig, +0,1 stigi ofan meðallags 1961 til 1990, en -0,2 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið kaldast við Faxaflóa, en hlýjast á Norðausturlandi. Á einstökum stöðvum er jákvæða vikið mest í Möðrudal, +1,1 stig, en kaldast að tiltölu hefur verið á Botnsheiði, -2,2 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Úrkoma hefur mælst 33,0 mm í Reykjavík, nokkru minni en í meðalári, en á Akureyri hefur úrkoman mælst 121,9 mm, þrefalt meðallag. Það mun vera það mesta sem vitað er um á sama tíma í desember - harla óvenjulegt.

Sólskinsstundir hafa mælst 21,7 í Reykjavík það sem af er mánuði, það fjórðamesta sem vitað er um sömu daga. Enn er því rétt hugsanlegt að árið verði það næstsólríkasta í Reykjavík frá upphafi mælinga -

Tíðafari mánaðarins til þessa hefur því verið nokkuð misskipt. Syðra hefur tíð verið að minnsta kosti sæmileg - en aftur á móti óhagstæð víða um landið norðanvert, sums staðar mjög svo. Það er þó fyrst og fremst um vestanvert Norðurland sem snjóalög eru óvenjuleg (fram til þessa). Hrossatjónið þar um slóðir verður að teljast óvenjulegt, en þó er það svo að þegar tjónlistum er flett finnast furðumörg dæmi um að hross hafi fennt og farist og það ekki aðeins um landið norðanvert heldur einnig í Borgarfirði og á Suðurlandi - þó sjaldgæft sé á þeim slóðum. Eins og oft áður er vandi á höndum varðandi nákvæma merkingu orðsins „óvenjulegt“. Ekki er ritstjóri hungurdiska viss um hið vissulega í þeim efnum.

Hér eru til fróðleiks tvö dæmi um að hross hafi fennt - merkileg að því leyti að þetta er í maílok 1952 og í júní 1959 (athugið að júníveðrið er ekki það frægasta sem gerði á þjóðhátíðardaginn).

hross-fennir_1952-05

Þessi frétt birtist í Tímanum 5.júní 1952. 

hross-fennir_1959-06

Og þessi úr Morgunblaðinu 17.júní 1959. 

Þessi tilvik (að hross hafi fennt) eru ekki nærri því eins víðtæk og þau sem áttu sér stað á dögunum, en sýna samt vel að þetta getur gerst á nærri því hvaða árstíma sem er. Engar fréttir hefur ritstjórinn þó af slíku frá miðjum júní og fram í septemberbyrjun (ekki þar með sagt að það hafi aldrei gerst á þeim tíma).


Áratugurinn kaldi 1861 til 1870

Brátt líður að yfirferð ritstjóra hungurdiska um veðurlag áranna 1861 til 1875. Allmörgum heimildum er þó óflett enn og lýkur þeim flettingum víst seint. Fyrstu pistlarnir ættu þó að birtast fljótlega. Áður en að því kemur skulum við líta á hitafar sjöunda áratugar 19. aldar svona almennt [til að fá samhengi í árapistlana]. Á heildina litið var mjög kalt í veðri hér á landi, sennilega sjónarmun kaldara heldur en á árunum 1881 til 1890 - þó ekki muni miklu. Hugsanlega var líka ámóta kalt á fyrstu tveimur áratugum 19.aldar, en ekki síðar. Stök köld ár hafa þó sýnt sig, út úr því sem algengast er á hverjum tíma. 

w-blogg181219a

Grái ferillinn sýnir 12-mánaða keðjumeðaltöl hita í Stykkishólmi 1860 til 1871. Strikalínan sem liggur þvert yfir myndina við 3,5°C er meðalhiti áranna 1861 til 1990 - hiti var nær allan tímann undir því meðaltali, stundum langt undir. Kaldast var á árunum 1865 og 1866 og svo aftur 1869, ársmeðalhiti 1866 fór niður fyrir 1,0 stig. Hlýjasta árið var 1864, en þá rétt skreið hitinn upp í meðaltal sem við (þau eldri) könnumst við. Enda var því ári hrósað. Heildregna strikið ofarlega á myndinni sýnir meðalhita síðustu tíu ára [2009 til 2018} - algjörlega utan seilingar á þessum tíma. Á kaldasta 12-mánaða tímabili þessarar aldar (mars 2015 til febrúar 2016) komst hiti niður í 4,02 stig - en á því hlýjasta (mars 2016 til febrúar 2017) fór 12-mánaðakeðjan upp í 5,93 stig. Sveiflur þær sem við höfum upplifað milli ára eru því talsvert minni en þær sem við sjáum á myndinni hér að ofan (þó miklar séu). 

Við gætum tekið eftir því að allregluleg þriggja ára sveifla er í hitanum á þessum árum. Stundum hefur þó tveggja ára sveifla verið áberandi - og stundum fjögurra ára - engin regla virðist á slíku til lengri tíma litið. 

Rauði ferillinn á myndinni sýnir sjávarmálsþrýsting. Hann er líka sveiflukenndur. Lágmörkin 1862 og 1868 eru óvenjuleg í langtímasamhengi - eiga þó fáeinar hliðstæður síðar, t.d. í kringum 1990. Samband þrýstings og hita hér á landi er flókið. Einstaka daga er þrýstingur að meðaltali lægstur í austlægum og norðaustlægum áttum, en á mánaðagrundvelli eru norðlægar áttir tíðari en suðlægar í háþrýstingi - snýst sum sé við að nokkru. 

En lágþrýstikuldi hér á landi er slæmur kuldi - fylgja honum oftast snjóar og illviðri á vetrum - en bleytur og kuldatíð á sumrin. Háþrýstikuldanum fylgja frekar stillur og mun skaplegra veður. 

Við eigum hitamælingar víðar að heldur en úr Stykkishólmi, úr sumum hefur verið unnið, en aðrar mælingar liggja óbættar hjá garði. Allar mælingar sem við vitum um eru mjög í takti við Stykkishólmsmælingarnar. Úrkomumælingar eigum við einnig í Stykkishólmi frá þessum tíma, en ekki frá öðrum stöðvum. 

w-blogg181219b

Hér sjáum við 12-mánaða úrkomusummur. Árið 1864 var þurrt og einnig síðari árin sem við sjáum á myndinni. Svarta strikið sýnir meðalúrkomu í Stykkishólmi á árunum 1961 til 1990. Mikil úrkoma í Stykkishólmi er ábending um suðlægar áttir. 

Mikið var um hafís á þessum árum, en líka komu hafíslítil ár. Um veðurfar einstakra mánaða og ára fjöllum við síðar í sérstökum pistlum um hvert ár fyrir sig. 

Veðurlag var mjög breytilegt í Evrópu þessi árin - rétt eins og hér. Stundum var þar furðuhlýtt - kannski þegar þrýstingur var hvað lægstur hér á landi - en meira fréttist þó af kuldum. Gríðarlegt hallaæri var víða á Norðurlöndum, ekki síst í Finnlandi og vesturferðir hrukku af stað fyrir alvöru.

Hér má til fróðleiks skjóta inn frétt um veðuröfgar í útlöndum sem birtist í Norðanfara 16.júní 1865. Slíkar öfgar eru síður en svo nýtt fyrirbrigði, t.d. fellibyljirnir sem virðast þarna hafa gengið á land á Indlandi. 

Næstliðinn vetur [1864 til 1865] var, einkum um miðbik norðurálfunnar, afar harður, snjóþungur og frostasamur. Víða keyrði niður svo mikla fönn að allir vegir urðu ófærir og eins járnbrautirnar, þá tók fannfergjan yfir á Skotlandi, hvar menn sumstaðar vegna fanndýptar fyrir dyrum urðu að fara út og inn um reykháfa og þakglugga, og peningur varð naumast hirtur. Þegar menn um jólin höfðu 6 stiga hita í Þrándheimi, var í Austur Seliseu í Prússlandi 25 st. frost og í Berlín 4. febr. 7, í Moská 14, í Líbau 18. Í Archangel hafði um mánaðarmótin janúar og febrúar verið venju framar hlýtt veður, stöðug rigning og mest 2 st. kuldi, en aftur fyrstu vikuna af febrúar varð frostið í Tórná á Finnlandi 32 st. á R. Í Sevilla í Andalúsíu á Spáni fraus olían í luktunum, svo ljósin slokknuðu. Í Lissabon í Portúgal, hvar menn ekki hafa séð snjó síðan 22.febrúar 1813 og aftur 2. janúar 1837, kom nú mikill snjór og mikið frost. Í Madrid á Spáni voru þá líka miklir snjóar og hríðar. Í Róm voru nær því á hverjum degi í 3 vikur einlægar krapahríðar og snjókoma. Í Suður-Ungar, höfðu snjóþyngslin og vetrarharðindin tekið af allar samgöngur; árnar bólgnuðu og stífluðust; líkum varð eigi komið til kirkna; flestir hinir fátækari hnepptust í eymd og volæði. 20. mars var 12 st. hiti í Nizza á Ítalíu, sem er eitthvert veðursælasta pláss, en daginn eftir 5 stiga kuldi, og í Wien sama daginn 12 st. frost, og hin mesta fannkoma. Í Búkarest í Wallackíinu, sem heyrir Tyrkjalöndum til, sama veður.

[Tíunda] október fyrra ár [1864] gjörði svo mikið útsunnan ofviður í Rio Janeiro, er stóð yfir að eins fjórðung stundar með hagli er varð sem hænu-egg á stærð, og mölvaði allar rúður í gluggunum er voru áveðurs; trén í skógunum rifust upp með rótum, húsin brotnuðu, hrundu til jarðar eða fuku um koll, fjöldi skipa brotnaði í spón og ótal manna fórust. Skaðinn var metinn 5 milljónir dollars.

Felliveður kom líka 5. október í Austurheimi við neðri Ganges og í Kalkútta, sem samtals olli mönnum þar tjóns, er metið var 400 milljónir núpíur, og þar af einungis í Kalkútta 270 milljónir, (hver rúpía úr silfri er 1 rd. en af gulli 7 rd) 220 skip strönduðu, og nokkur þeirra er báru hvert um sig yfir 1200 tons; yfir 2000 manns sættu líftjóni. Veðrið náði yfir 120 mílur með sjó fram og stóð yfir frá því kl. 10 f.m. til þess kl. 4 e.m. Í Masúlípatam í Austur-Indlandi hafði og svo 1. nóv. komið ógurlegt felliveður, svo sjóinn flóði mílu vegar á land upp, og í borginni var hann 6—7 álna djúpur. Þeir sem eigi gátu komizt fyrir á efstu loftum borgarinnar eða flúið úr henni í tíma, drukknuðu þúsundum saman. Mikill hluti borgarinnar lagðist í auðn. Eftir skýrslu breska jarlsins á Austur-Indlandi, hafa 60 þúsund manna farist þar árið sem leið í sjó og vötnum eða á annan hátt dáið voveiflega, auk þess sem stórsóttir, brennur og óargadýr fækka fólki þar.

Á hinum Capóverdisku eyjum, sem Portúgalar eiga og liggja 75 mílur í hafi út, undan vesturströndum Afríku, var árið sem leið mikið hallæri, svo af 55.000 manna dóu frá 1.janúar til 1. maí 7000 manns, og sendi þó stjórnin í Portúgal þangað 75.000 dollars að kaupa matvæli fyrir handa hinum fátækustu.

Norðanfari segir svo frá 25.janúar 1866:

Sáðvöxtur var næstliðið sumar, að öllu samanlögðu yfir Norðurálfuna ekkert meiri en í meðalári. Því þótt hann væri sumstaðar mikill t a.m. um allt Rússland, þá var hann á öðrum stöðum enda á Jótlandi miður og t.d. í nokkrum héruðum á Finnlandi, vegna kulda og votviðra svo sem enginn; og í Lappmörkinni féll í sumar 31.ágúst svo mikill snjór að til allra dala mátti aka á sleðum. Korn og jarðeplaakrar og sáðlönd ónýttist því, og hungursnauð þótti vís fyrir dyrum. Á Finnlandi var svo lítið um korn, þar er óárið gekk yfir, að fólk varð að mala trjábörk sér til viðurværis til drýginda mjölinu. Af þessum orsökum og fleiru var kornvaran farin að hækka í verði. Vínyrkjan var aftur þar sem hún er stunduð t.a.m. á suður Frakklandi og einkum í Portúgal með besta móti. Eftir fréttum frá Nýju-Jórvík í Vesturheimi, sem dagsettar eru 28 júlí [1865] var hveitiuppskeran þar hin besta og miklar fyrningar af kornvöru frá í fyrra, svo bæði gátu menn byrgt Suðurfylkin með matvæli, hvar nú er fyrir afleiðingar styrjaldarinnar hallæri og hin mesta dýrtíð, og líka ef á lægi, selt mikið af kornvöru til Norðurálfunnar. Í Austurindíum og Australíu (Eyja-álfunni) höfðu í sumar verið svo miklir hitar, að menn vissu eigi dæmi til. Allur jarðargróði sviðnaði sem af eldi eða skrælnaði. Sum vatnsföllin þornuðu upp. Margir sem voru sjóleiðis eða við útivinnu urðu að halda kyrru fyrir, því enginn þoldi að vinna fyrir hitanum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg170925b
  • w-blogg170925a
  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a
  • w-blogg130925b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 5
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 1251
  • Frá upphafi: 2499708

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 1139
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband