Ryk að sunnan?

Nú hefur mikill rykmökkur tekið sig upp úr Saharaeyðimörkinni og leggst yfir Miðjarðarhafið. Meginhluti makkarins á að berast til austurs, en sé að marka spár á hluti hans að slitna frá og berast norður um Bretlandseyjar og e.t.v. mun lítilræði komast alla leið til Íslands. 

Myndin hér að neðan sýnir dálitinn rykmökk á leið til vesturs yfir landið á miðvikudagskvöld (24.apríl).

w-blogg220419a

Á spákortum er hægt að fylgjast með þessum mekki allt sunnan frá Sahara. Þó hann sé veigalítill þegar hingað er komið (rætist spárnar) ætti hann samt að vera sjáanlegur. 

Í sumum spám er gert ráð fyrir töluverðum hlýindum á sumardaginn fyrsta í ár. Rifja má upp að hæsti hámarkshiti í Reykjavík á fyrsta sumardag er 13,5 stig, sem mældist 1998. Eins og staðan er þegar þetta er skrifað er rauhæfur möguleiki á að það met verði slegið. Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu á sumardaginn fyrsta er 19.8 stig á Akureyri 1976 (og óstaðfest 20,5 stig á Fagurhólsmýri 1933). Varla er þess að vænta að þau met verði slegin nú. 

En við sjáum til. 


Enn er hlýtt

Hlýindin hafa haldið áfram. Meðalhiti fyrstu 20 daga aprílmánaðar í Reykjavík er +5,5 stig, +3,3 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1961-1990 og +1,9 ofan meðallags síðustu tíu ára. Dagarnir 20 þeir næsthlýjustu á öldinni, árið 2003 var meðalhiti þeirra +6,0 stig. Kaldastir voru þeir 2006, meðalhiti +0,9 stig. Á langa listanum (145 ár) er hitinn nú í 5. hlýjasta sæti, hlýjast var 1974, meðalhiti dagana 20 +6,1 stig. Kaldastir voru þeir 1876, -3,7 stig og -2,1 stig 1951.

Á Akureyri er meðalhiti dagana 20 +5,7 stig, +4,8 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990, en +3,3 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum landsins, vikið er mest við Mývatn, +3,4 stig, en minnst er það við Laufbala, +0,7 stig, og +1,0 í Veiðivatnahrauni.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 61,2 mm og er það vel umfram meðallag - en ekki nærri neinu meti. Á Akureyri hefur úrkoman hins vegar mælst aðeins 4,0 mm - um fimmtungur meðalúrkomu - en ekki þó met heldur.

Sólskinsstundir hafa mælst 87,1 í Reykjavík það sem af er mánuði og er það nærri meðallagi.

Hita er spáð ofan meðallags síðasta þriðjung aprílmánaðar - 


Hlýir dagar

Mjög hlýtt hefur verið víða um land undanfarna daga, hiti langt ofan meðallags árstímans. Á landsvísu var laugardagurinn 13. sá hlýjasti, en í Reykjavík t.d. var meðalhiti föstudagsins 12. hærri. Langtímameðalhiti hækkar mjög í aprílmánuði, vorhlýnun komin í fullan gang - enda er það svo að hlýjustu apríldagar sem við þekkjum eru langflestir seint í mánuðinum. Efstir á flestum listum eru 18.apríl 2003, og 29. og 28. apríl 2007. 

En við gætum líka raðað hitanum á annan hátt og leitað að hlýjustu dögunum - miðað við vik eða staðalvik frá langtímameðalhita viðkomandi dags. Miðum við við vikin lendir 18.apríl 2003 í toppsætinu á landsvísu, en 1.apríl 1956 í því næstefsta (ekki man ritstjórinn þann dag - og vill ekki gefa honum vottorð nema að frekar athuguðu máli). Sé litið á staðalvikin eru 28. og 29. apríl 2007 á toppnum. Hlýindin nú standa þessum eldri hlýindum talsvert að baki.

Athugum nú stöðuna í Reykjavík sérstaklega - hlýindin þar hafa verið tiltölulega meiri en víða annars staðar. Föstudagurinn 12. er þannig 19. hlýjasti apríldagur frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík. Aðeins er vitað um þrjá hlýrri daga í Reykjavík svo snemma árs - athugum þó að meðalhiti einstakra daga fortíðar er ekki þekktur jafn nákvæmlega og nú. - En við látum sem ekkert sé. Meðalhiti föstudagsins 12. var 9,5 stig. Jafnhlýtt var sama almanaksdag árið 1929 - og enn hlýrra 30.mars 1893 og svo 27.mars 1948. Síðarnefndi dagurinn er vel þekktur meðal veðurnörda, en sá fyrri er óvottaður. 

Látum við vik frá meðalhita áranna 1931 til 2010 ráða röð lendir föstudagurinn 12. í áttundahlýjasta sæti - hiti hans var 6,8 stigum ofan meðallags. Efstur á þeim vikalista er 1.apríl 1965, hiti +8,0 stig ofan meðallags, en síðan kemur 29.apríl 2007 og 16.apríl í fyrra (2018). Á staðalvikalistanum er 29.apríl 2007 efstur, og síðan 7.apríl 1926 og 4.apríl 1963 (í vikunni á undan páskahretinu fræga). Eitthvað rámar veðurnörd í mikið vonbrigðakuldakast í maí 2007 - í kjölfar hitabylgjunnar í apríllok það ár (þó ekkert væri það á við slæm hret). - Stundum þarf að borga fyrir hlýindin. 

Meðalhiti í Reykjavík fyrri hluta aprílmánaðar er +5,0 stig, +3,1 stigi ofan meðallags áranna 1961-1990 og +1,4 ofan meðallags síðustu tíu ára. Dagarnir 15 voru jafnhlýir árið 2014, en árið 2003 var meðalhitinn +5,1 stig, það er hlýjasti aprílfyrrihluti aldarinnar. Sá kaldasti kom hins vegar 2006, en þá var meðalhiti +0,4 stig. Á langa listanum (145 ár) er hiti fyrri hluta apríl í Reykjavík í 9. til 10.hlýjasta sæti. Hlýjast var 1929, meðalhiti +6,6 stig, en kaldastur var fyrri hluti apríl 1876, meðalhiti -4,1 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta aprílmánaðar +4,3 stig, +3,7 stigum ofan meðallags 1961-1990 og +2,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum nema þremur, neikvæða vikið er -0,2 stig í Veiðivatnahrauni og Laufbala og -0,1 við Hágöngur. Jákvæða vikið er mest +2,5 stig á Patreksfirði.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 38,7 mm, í rúmu meðallagi, en aðeins 3,8 mm á Akureyri. Það er um fjórðungur meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 67,3 í Reykjavík - nærri meðallagi.


Óvenjudjúp lægð - miðað við árstíma

Nú (föstudagskvöld 12.apríl) er bæði hvasst og hlýtt á landinu. Hvassviðrið hefur raskað flugi um Keflavíkurflugvöll í dag - enn eitt dæmi um athyglisvert samspil nútímalifnaðarhátta og veðurs - fyrir ekki svo löngu hefði kostnaður og vesen vegna nákvæmlega sams konar hvassviðris ekki verið teljandi. - En vindurinn heldur áfram að blása og síðdegis á morgun, laugardag 13.apríl, fer að gæta áhrifa nýrrar lægðar suðvestur í hafi. Sú er þegar þetta er ritað um það bil að leggja í óðadýpkun, meir en 35 hPa á sólarhring. 

w-blogg130419a

Evrópureiknimiðstöðin segir miðjuþrýstinginn fara niður í 946 hPa síðdegis. Við virðumst eiga að sleppa við versta veðrið - en nógu hvasst verður samt - sé að marka spár. Það er athyglisvert að spár hafa síðustu daga gert meira og meira úr lægðinni sjálfri - en smám saman gert minna úr úrkomunni sem fylgir henni hér á landi. Mikill fjöldi dægurhámarkshitameta féll á veðurstöðvum í dag, m.a. bæði í Reykjavík (11,9 stig) og á Akureyri (15,1 stig). Gamla Akureyrardægurmetið (14,6 stig) er frá 1967 - aðeins 6 dögum síðar, þann 18., fór frostið á Akureyri í -14,8 stig - eftirminnileg umskipti fyrir þá sem það muna. 

Þó eitthvað dragi aftur úr hvassviðrinu á sunnudaginn eru fleiri lægðir - grynnri þó - í sjónmáli fram eftir næstu viku. 

Það er ekki mjög oft sem lægðir fara niður í 946 hPa í apríl - íslandsmetið í lágþrýstingi er 951,0 hPa sett á Bergstöðum í Skagafirði þann 11. árið 1990 og ómarktækt hærri (951,3 hPa) á Dalatanga þann 3. árið 1994. Þrýstingur virðist hafa farið niður fyrir 950 hPa í lægðinni 1994 þó ekki mældist svo lágur á stöðvunum - hefði e.t.v. gert það við sambærilegar aðstæður nú þegar mælt er samfelldara og þéttara. Ekki er vitað um nema þrjú önnur tilvik með lægri þrýstingi en 960 hPa í apríl hér á landi (1947, 1897 og 1904). 


Hlýtt - blautt - hvasst

Evrópureiknimiðstöðin reiknar tvisvar á dag 50 spár 15 daga fram í tímann og þuklar jafnframt á útkomunni og segir frá ef farið er nærri eða fram úr því sem mest hefur orðið í samskonar spám sem ná til síðustu 20 ára. Oft er ein og ein af spánum 50 með eitthvað útogsuðurveður - og telst það ekki til tíðinda.

En stundum gefur stór hluti spánna 50 til kynna að eitthvað óvenjulegt kunni að vera á seyði. - Líkur á því að svo sé raunverulega aukast eftir því sem styttra er í hið óvenjulega. Reynslu þarf til að geta notað þessar upplýsingar í daglegum veðurspám. Sú reynsla mun byggjast upp - og til munu þeir sem orðnir eru vanir menn. 

Nú ber svo við að vísar þriggja veðurþátta, hita, úrkomu og vindhraða, veifa allir fánum í spám sem gilda á laugardaginn kemur, 13.apríl.

Við skulum til fróðleiks líta á þessi kort - (þetta er ekki alveg nýjasta útgáfa - vegna viðloðandi tölvuvandræða á Veðurstofunni). 

w-blogg100419a

Hér er reynt að spá fyrir um hvort 24-stunda úrkomumagn er nærri metum. Tveir vísar eru sýndir - hér kallaðir útgildavísir (lituðu svæðin) og halavísir (heildregnar línur). Líkanið veit af því að úrkoma er að jafnaði minni hér á landi á þessum árstíma heldur en að haust- eða vetrarlagi - sömuleiðis veit það að úrkoma um landið vestanvert er meiri en t.d. norðaustanlands.

Hér verða vísarnir ekki skýrðir frekar, en þess þó getið að veðurfræðingum er sagt að hafa varann á ef útgildavísirinn fer yfir 0,9 - og sömuleiðis ef halavísirinn (nafnið vísar til hala tölfræðidreifingar) nálgast 2,0 - hér er hann yfir 2 á allstóru svæði - allt frá Reykjanesi í vestri og nær óslitið austur á Vatnajökul. Hæst fer vísirinn í 5,4 yfir hálendinu vestur af Vatnajökli - harla óvenjuleg tala - meira að segja í halavísum.  

En - líkan evrpópureiknimiðstöðvarinnar er ekki með full tök á landslagi - og þar að auki er ritstjóri hungurdiska nær reynslulítill í túlkun útgildaspáa af þessu tagi. Hvort kortið er að vara við einhverju sérstöku verður reynslan að skera úr um. 

Orðið „útgildavísir“ er þýðing á því erlenda, „extreme forecast index“, EFI, en „halavísir“ reynir að íslenska „shift of tail“, SOT. - Þýðingar þessar hafa ekki öðlast hefðarrétt (né annan) og aðrar (og vonandi betri) munu e.t.v. sýna sig síðar. 

w-blogg100419b

En hitavísar rísa einnig hátt á laugardaginn. Útgildavísirinn er ofan við 0,9 á allstóru svæði við innanverðan Breiðafjörð og í Húnavatnssýslum. Sömuleiðis á Grænlandssundi og fyrir norðan land. Hæstu gildi halavísisins eru hér úti af Vestfjörðum. Þó óvenjulega hlýtt verði er ólíklegt að hitamet verði slegin á landsvísu. Við skulum samt fylgjast vel með hitanum næstu daga. Hámarksdægurmet þess 13. er 15,7 stig sett í Fagradal í Vopnafirði árið 1938. Kominn tími á það - ekki satt - enda lægri tala en dægurmet dagana fyrir og eftir. 

w-blogg100419c

En vindvísar eru einnig háir - á myndinni yfir 0,9 vestan Langjökuls og Vatnajökuls. Bendir e.t.v. til þess að landsynningurinn muni búa til mjög öflugar fjallabylgjur. Hvort þeirra sér svo stað í raunveruleikanum vitum við ekki. 

Slæm landsynningsveður (á landsvísu) eru ekki algeng í apríl. Ekkert slíkt hefur enn komist á landsillviðralista ritstjóra hungurdiska - sem sér þó aftur til ársins 1912. Einhvern veginn hefur þannig viljað til að landið hefur sloppið - áttin frekar lagst í austur eða suður. Þetta er ábyggilega tilviljun frekar en regla. Mesti sólarhringsmeðalvindhraði landsynningsdags á landsvísu í apríl er ekki „nema“ 10,9 m/s. Það var 25.apríl 1955. Mikil skriðuföll urðu víða á landinu í þeim mánuði - en tengdust veðrinu 25.apríl ekki. 

Nú eru tíu dagar liðnir af apríl 2019. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er 3,2 stig, 1,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,5 neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í 12.hlýjasta sæti (af 19) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2014, meðalhiti þá +6,0 stig, en kaldastir voru þeir árið 2006, meðalhiti +0,1 stig. Sé litið til lengri tíma, 145 ára, voru dagarnir hlýjastir í Reykjavík 1926, meðalhiti þeirra þá var +6,6 stig, en kaldastir voru þeir 1886, meðalhiti -4,5 stig.

Meðalhiti fyrstu tíu daga aprílmánaðar nú er +2,0 stig á Akureyri, +1,6 stigum ofan meðallags 1961-1990, en í meðallagi síðustu tíu ára.

Hiti er undir meðallagi á flestum veðurstöðvum landsins, mest á sunnanverðu hálendinu, hæsta neikvæða vikið er við Hágöngur, -3,1 stig, en hiti er ofan 10-ára meðaltalsins á fáeinum stöðvum, mest +0,4 stig á Hornbjargsvita og í Grímsey.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 13 mm, og er það rúmur helmingur meðalúrkomu sömu daga. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 4 mm og er það nærri þriðjungi meðalúrkomu.

Sólskinsstundir hafa mælst 52,4 í Reykjavík, um 10 umfram meðallag.


Dálítið tímaraðafyllerí

Við skulum nú fara á dálítið tímaraðafyllerí. Þó raðir sem þessar séu sjaldséðar í veðurfræðiritum eru þær samt allrar athygli verðar - að mati ritstjóra hungurdiska - enda hefur hann fjallað um þær áður og birt af þeim myndir. Kominn er tími á endurnýjun. Skilgreiningar má finna í eldri pistlum. Að þessu sinni verður ekki farið lengra til baka en 70 ár - til ársins 1949. 

Við byrjum á stormum og vindi.

w-blogg030419-stormadagar

Ritstjóri hungurdiska hefur lengi haldið úti lista um illviðri á landinu. Þar með er listi um daga þegar fjórðungur veðurstöðva eða meira segir frá meiri vindi en 20 m/s einhvern tíma dags. Fjöldi slíkra daga er mjög breytilegur frá ári til árs - og ekki er að sjá að teljandi leitni sé í fjölda þeirra síðustu 70 árin. Síðustu 3 ár hafa verið róleg - en árið 2015 var fjöldi daganna vel yfir meðallagi. Við sjáum líka veruleg áratugaskipti. Þessi öld hefur hingað til verið fremur róleg miðað við árin í kringum 1990. Leitnin er ómarktæk. 

w-blogg030419-medalvindhradi

Ámóta breytileika má sjá í meðalvindhraða á landinu. Það truflar okkur nokkuð að framan af var logn oftalið (um það vandamál má lesa í eldri pistli). Vindhraði virðist hafa verið meiri á árunum í kringum 1990 heldur en algengast hefur verið á síðari árum. Síðustu 3 ár hafa verið mjög hægviðrasöm - en árin 2015 og 2011 var vindhraði meiri. 

Nokkuð samband er á milli ársmeðalvindhraða og ársmeðaltals óróa í loftþrýstingi frá degi til dags. Við skulum líka líta á mynd sem sýnir meðalóróa hvers árs. 

w-blogg030419-oroavisir

Hér sjást sömu áratugasveiflurnar enn, hámark í kringum 1990, en lágmark um 1960 og á þessari öld. Árið 2015 sker sig nokkuð úr - enda var það mjög umhleypingasamt eins og margir muna. Hér er enga leitni að sjá - allt með felldu. 

w-blogg030419-snjokoma

Snjókomu og snjóélja er getið sérstaklega í veðurskeytum. Við teljum saman hversu mörg slík skeyti eru á ári og reiknum hlutfall þeirra af heildarfjölda skeyta ársins - setjum síðan á mynd. Ekki er fjarri að hér sé um það bil eina athugun af hverjum 20 að ræða (50 af þúsund). Hæst var hlutfallið árið 1949 - þá var mikill snjóavetur á Suður- og Vesturlandi og mjög kalt vor - snjóaði fram á sumar norðanlands. Á myndinni má líka sjá að snjókoma var mjög tíð flest ár frá 1966 til og með 1983 - en hún var fátíð á árunum kringum 1960 - svo fátíð að leitnin sem reynt er að reikna og færð er inn á myndina getur varla talist mjög marktæk - og segir auðvitað ekkert um framtíðina. - En snjókoma er samt fátíðari á þessari öld en tíðast var á síðari hluta þeirrar síðustu. Enn er það árið 2015 (það kaldasta á öldinni það sem af er) sem sker sig nokkuð úr (ásamt 2008). 

w-blogg030419-snjohula

Snjóhuluröðin sýnir svipaða mynd. Hér er meðalsnjóhula landsins í hverjum mánuði reiknuð (í prósentum) - og mánaðargildin lögð saman í árssummu. Talan 300 þýðir því að alhvítum og flekkóttum dögum hefur verið safnað saman í þriggja mánaða samfellda snjóhulu. Hæstu tölurnar eru árin 1979 og 1983 - kannski var snjór þá þrálátastur. Það eru 1964 og 1960 sem eiga lægstu tölurnar. Nokkur þáttskil virðast (já, virðast) verða rétt upp úr aldamótum - þegar mest hlýnaði. Síðan þá hafa snjóalög verið heldur rýr á landsvísu, helst að árin 2008 og 2015 sýni viðleitni til fyrri vega. Við leggjum ekki mikið upp úr leitninni hér heldur - framtíðin ræðst þó af hitaþróun. Gögnin sýna ótvírætt að hlý ár eru að jafnaði snjóléttari en köld.

w-blogg030419-mistur

Þá er það tíðni misturs. Mistur er ekki algengt í veðurskeytum - en virðist þó hafa verið mun algengara fyrr á árum en síðar. Við sem munum mestallt þetta tímabil skynjum líka þessa breytingu. Evrópsk mengunarblámóða fyrri ára er horfin (henni fylgdi ákveðin stemning) - það er hún sem heldur misturhlutfallinu uppi fram yfir 1970. Toppar eftir það eru athyglisverðir. Eldgosin 2010, 2011 og 2014 koma mjög greinilega fram, aska og öskufok 2010 og 2011 (og öskufok 2012) - og brennisteinsmóða 2014 - og toppurinn 1991 til 1992 gæti tengst eldgosum líka - þetta eru þrátt fyrir allt árin sem Pinatubogosið hafði áhrif um heim allan. Svo er toppurinn 1980 tengdur Kröflueldum og einu af löngu gosunum í júlí það ár. Rétt spurning hvort gosið í Surtsey hefur hækkað misturhlutfall árin 1964 og 1965 - eftir að hraungosið í eynni hófst. 

w-blogg030419-thykktarbratti

Síðasta mynd þessa pistils er líklega sú sem erfiðast er að skilja. Hér má sjá „þykktarbratta“ við Ísland. Eins og þrautseigir lesendur hungurdiska vita segir þykktin frá hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktarbrattinn sem hér er settur á mynd segir af hitamun á milli 60. og 70. breiddarstigs. Við skulum ekki hafa áhyggjur af einingunum en lesendur mega trúa því að talan 36 þýðir um 6 stiga mun, og talan 24 um 4 stiga mun. Myndin sýnir að þessi hitamunur virðist hafa minnkað jafnt og þétt - og hefur aldrei verið jafnlítill í mörg ár í röð og nú þau hin síðustu. Við vitum ekki hvort þessi þróun er óvenjuleg eða ekki - né heldur hvort hún kemur til með að halda áfram - en hún er raunveruleg engu að síður. 

Það verður þó að teljast ólíklegt að öllu lengra gangi - við búumst alls ekki við því að hlýrra verði fyrir norðan land heldur en fyrir sunnan það. En þetta er líklega tengt þeirri almennu hlýnun sem orðið hefur á norðurslóðum - norðanáttir eru í raun og veru yfirleitt hlýrri en áður var - en minna munar í sunnanáttunum. Við höfum í huga að myndin segir ein og sér ekkert til um það hvort þverrandi hitamunur stafi af hlýnun fyrir norðan eingöngu. Taki hlýnun við sér fyrir sunnan land - eða kólni fyrir norðan - vex þykktarbrattinn umsvifalaust aftur. 


Nokkur umskipti?

Þó ekki sé hægt að segja að veður hafi verið slæm í nýliðnum marsmánuði er því ekki að neita að umhleypingar hafa verið talsverðir - fjölmargar lægðir af ýmsu tagi hafa runnið hjá landinu. Loftþrýstingur hefur líka verið undir meðallagi. Við byrjum pistil dagsins á því að líta á meðalkort marsmánaðar í 500 hPa-fletinum (og þökkum Bolla Pálmasyni og evrópureiknimiðstöðinni fyrir kortagerðina).

w-blogg020419b

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - og liggja stórhlykkjalítið um kortið þvert. Lögunin er reyndar ekki svo fjarri meðallagi, en eins og sjá má af vikamynstrinu (litir) hefur vestanröstin yfir Norður-Atlantshafi verið nokkuð sterkari en að meðallagi, línurnar liggja þéttar en vant er. Hæðarmunur á Landsenda á Spáni (Finisterre) og Scoresbysundi er um 500 metrar, um 140 metrum meiri en meðaltal segir til um. 

Nú er spáð breytingu. Kryppa á að koma á vestanáttina og sýnir kortið hér að neðan hvernig líkanið reiknar næstu tíu daga.

w-blogg020419a

Mikill viðsnúningur á að verða - hæðarvik eru í litum sem áður - og jafnhæðarlínur heildregnar. Köld lægð á að setjast að á Biskajaflóa, en hæð við Ísland. Þetta er meðalkort - á að sjálfsögðu ekki við alla dagana - og þar að auki ekki fullvíst að spáin rætist. En rætist þessi spá er úti um stöðugan lægðagang - (smálægðir ekki útlokaðar) - sú síðasta í bili kemur að landinu síðdegis á morgun - miðvikudag. Við sjáum blikubakka hennar nú þegar á lofti. 

Í fljótu bragði virðist þessi staða nokkuð vorleg - en sannleikurinn er samt sá að þetta er ekkert sérlega hlý hæð - þá daga sem ákveðinnar landáttar gætir fer hiti í henni þó trúlega vel yfir 10 stig á stöku stað. Kannski koma einhverjir góðir austanáttardagar á Suðvesturlandi. Kalt getur orðið á björtum nóttum. 

Gallinn við hæðir af þessu tagi er sá að í þeim er „stolið“ vorloft. Jú, það brúar kannski bilið þar til hið raunverulega birtist - en vetrarkuldi norðurslóða er langt í frá horfinn og það er ekki óalgengt að borga þurfi fyrir fyrirstöðublíðu í apríl með kuldanæðingi síðar. Ritstjórinn hefur þó ekki reiknað út hversu oft slíkrar „greiðslu“ er krafist. Gæti verið í þriðjungi tilvika (kannski tekst að skipta henni á nokkrar afborganir - ef það er þá nokkuð betra). En hið raunverulega vor er auðvitað á sinni leið til okkar - við vitum bara ekki hvenær það kemur. 


Af árinu 1827

Ekki segir mikið af veðri og tíð á árinu 1827 - við vildum gjarnan frétta miklu meira. Hita- og þrýstimælingar voru ekki gerðar nema á einum stað á landinu, í Nesi við Seltjörn - og höfðu þær ekki náð fullum gæðum. En miklu betra er þó að hafa þessar mælingar frekar en ekki neitt. Þær leyfa okkur að giska á meðalhita í Reykjavík og í Stykkishólmi - heldur óáreiðanlegar tölur að vísu, segja ársmeðalhita í Reykjavík 3,2 stig, en 2,5 í Hólminum. 

Þær segja okkur einnig að líklega hafi júní, október og nóvember verið nokkuð hlýir. Mikil hlýindi voru einnig á þorranum - en þau skiptust nokkuð á janúar og febrúar, afgangar þeirra mánaða voru ekki sérlega hlýir. Janúar telst því kaldur og febrúar í meðallagi, tölurnar segja júní einnig nokkuð hlýjan, og vel má vera að svo hafi verið í heildina - og suðvestanlands, en mikið er í heimildum úr Húnavatnssýslu og Skagafirði kvartað undan miklu hríðarillviðri sem gerði um hann miðjan. Mars var sérlega kaldur - einn þeirra köldustu sem vitað er um, einnig var kalt í apríl, maí, júlí og desember. 

ar_1827t

Við sjáum hér morgunhitamælingar Jóns Þorsteinssonar, gerðar í Nesi, um hálfellefu að morgni að okkar tíma. Þorrahlýindin sjást vel - flestir dagar frostlausir. Síðan kemur mikill kuldakafli, frost fór í -17,5 stig þann 6.mars og vel má vera að lágmarkshiti hafi orðið enn lægri, hafi hann verið mældur. Þessa daga var -5 til -6 stiga frost í loftvogarherbergi Jóns norðanmegin í Nesstofu. Um sumarið fór hiti nokkrum sinnum yfir 15 stig og sleikti 20 stig þrisvar sinnum (sem þykir nokkuð gott). Góð hlýindi gerði snemma í október. 

ar_1827p

Myndin sýnir daglegar loftþrýstimælingar Jóns. Við sjáum að mikill háþrýstingur hefur fylgt þorrahlýindunum - gaman að geta séð svona fornar fyrirstöðuhæðir - þá lagði Thames við London í norðaustankuldum. Meðalþrýstingur febrúarmánaðar varð óvenjuhár. Annað háþrýstisvæði ríkti í fyrstu sumarviku. Þrýstingur var venju fremur lágur í maí og júní. Líklega er mælingin 17.júní rétt - þá gekk mikið illviðri yfir landið norðanvert (og e.t.v. víðar) - en í Reykjavík var áttin vestlæg og hiti ekki mjög lágur. Var að vísu ekki nema 6. stig á loftvog Jóns að morgni 18.júní - 17.júní [16. afmælisdagur Jóns Sigurðssonar] hefur trúlega verið sólarlaus - og nóttin á eftir afskaplega köld, þó hiti utandyra hafi verið komin í 8,8 stig fyrir hádegi. Þegar kom fram í ágúst var þrýstingur aftur orðinn hár - og hefur bjargað heyskap syðra. Þrýstiórói var mikill í desember og þrýstingur með lægra móti.

Þetta má lesa um hafískomu að Austurlandi 1827 í Íslendingi 31.júlí 1852:

1827 kom ísinn með annarri viku góu inn á flóa og firði; hér um allt að tveim vikum áður gengu stillingar og hélufall hverja nótt, svo síðast var það orðið mikið, allt að því í skóvörp; þar fyrir, eða fyrra part þorra, var þægileg vetrartíð og litlir vindar, en við norðanátt; þegar ísinn rak fyrir og inn að landi var [norðaustan og austnorðaustan] hægviðri, dimmur til sjós og þokuslæðingur í fjöllum, ísinn fór að mestu burt fyrir messur; það var fjall- og helluís.

Annáll 19. aldar segir svo frá:

Frá nýári var víðast um land góð tíð til þorraloka, góa hörð og svo einmánuður og löngum stormar, fjúk og kuldar fram yfir fráfærur. Jörð greri seint og var víða kalin. Töður litlar en nýttust nokkurn veginn. Sumar votsamt er á leið og hröktust úthey. Haust vinda- og hretviðrasamt og snjóalög fyrri hluta vetrar. Hafís kom norðanlands inn á firði í mars, mun hann síðan hafa lagst um meiri hluta lands og eigi farið fyrr en langt var komið fram á sumar, og féll töluvert af peningi bæði austan lands og vestan. Fiskafli var í meðallagi undir Jökli, en minni syðra og fuglafli lítill við Drangey. 

Annállinn segir af fjölda skipskaða og óhappa en fæst af því er með dagsetningum. Þó segir:

Aðfaranótt hins 28.desember braut í leysingu snjóflóð bæinn Hryggi við Gönguskörð, dó þar inni kvenmaður og barn. Í sömu hríð drap Víðidalsár 5 hesta frá Þorkelshóli. 

Hið fræga Kambsrán var framið 9.febrúar. Hundadrepsótt gekk um landið og hundar dýrir. 

Espólin er heldur stuttorður um árið allt:

Espólín: CLI. Kap. Þá gjörði vetur þungan, er á leið, og þó vorið verra, og allt sumarið eftir voru löngum stormar, fjúk eða kuldar, og fall allmikið á kvikfé, nema lítinn kafla gjörði góðan í Julio; síðan urðu miklir kuldar og rigningar en stundum veður eða frost og snjóar, og mundu menn varla verra sumar, þar til haustaði. 

Skírnir segir heldur ekki margt um árið 1827:

Skírnir 1829 (bls. 74-75): Veturinn 1827 var víðast hvar á Íslandi harður, og vorið kalt og gróðurlítið, féll peningur því töluverður; einkum á Austur- og Vesturlandi. Grasvöxtur varð það sumar góður, en vegna rigningar hröktust hey víða, og reyndust því eftirá mjög dáðlaus.

Vetur:

Brandstaðaannáll: Stillt og frostamikið veður til þorra, en hann varð einhver hinn besti, með stöðugu blíðviðri og stundum þíðum, svo snjólausar voru heiðar. Gaf vermönnum æskilega, sem ekki biðu til góu. Á föstudag 1. í henni [23.febrúar] kom snjór og á eftir stöðugar hörkur og hríð ytra, en þar hélst um 2 vikur, en hér kóf, svo á snjólítilli jörð var lítt beitandi. Í góulok [fyrir 20.mars] mikil hláka 2 daga, eftir það snjór og óstöðugt, gott um páskahelgarnar [páskar 15.apríl].

Bjarni Thorarensen ritar tvö bréf snemma í mars og segir lítillega frá vetrarfari - sem er gott til þess tíma, m.a. nefnir hann að svo mildur hafi vetur ekki verið hérlendis frá 1799.

Gufunes 3-3 1827 (Bjarni Thorarensen): Jeg frygter nu meget for at De i Danmark have havt en (s55) overmaade stræng Vinter, da vores lige til for 8te Dage siden har været saa mild at der siden Aaret 1799 ikke har været en saadan, og maaske Veiret har nu netop ved denne Tild forandet sig i Danmark. ... Öefields Jökkelen ryger endnu og man har villet i Vinter have lagt Mærke til enkelte Ildglimt af samme, men ikke af Betydenhed. (s56)

Lausleg þýðing: Hræddur er ég um að sérlega kaldur hafi veturinn verið hjá ykkur í Danmörku því okkar vetur hefur - þar til fyrir átta dögum verið svo mildur að ekki hefur komið slíkur síðan 1799, e.t.v. breyttist veðrið í Danmörku á sama tíma. Eyjafjallajökull rýkur enn og í vetur hafa menn þóst sjá stöku eldglampa úr honum, en ekki svo máli skipti.

Gufunesi 4-3 1827 (Bjarni Thorarensen): Eyjafjallajökull rýkur enn stundum, og Sr. Jón Halldórsson á Barkarstöðum mágur minn skrifar mér að vart hafi orðið við eldglampa úr honum á jólaföstu, en ekki hefir þó nein virkileg eruption orðið. ... Hey eru hjá mörgum skemmd ... (s173) P.S. Þið hafið víst geysi harðan vetur í Danmörk því okkar kom ei fyrri en fyrir 8 dögum ... (s174)

Vor: 

Brandstaðaannáll: Á annan [páskadag, 17.apríl] byrjaði aftur frosta- og snjóakafli allan apríl og mestu vorharðindi. Óþolandi hörkur í maí til þess 12., að nokkra þíðu gerði vikutíma, síðan norðanþokur og ísing, svo gróðurlaust var i úthaga um fardaga. Norðanhríð á uppstigningardag  [24.maí] og á hvítasunnu [3.júní] versta veður. Varð lambadauði þann dag mikill. Eftir það 2 vikur allgott, svo gróður kom. 16. júní kom á dæmalaus hríð, er varaði 6 daga. Varð stórfenni til hálsa, en neðra þíðaði af hnjótum mót sólu eftir miðdegi. Fá var hýst og gefið utan hjá þeim, er áttu heiðarland og fé í góðu standi.

Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum í Öngulstaðahreppi segir í dagbók dagana 16. til 21. júní [íbr 36 8vo]:

[16.] Norðan þokufullur og stundum mikið snjómok, kyrrt áliðið og birti, seinast sunnan kaldur og hríð í fjöll. Rak hafís inn að Oddeyri..
[17.] Ýmist sunnan eða norðan, kaldur, regn og krapi um tíma.
[18.] Norðan mög kaldur, þykkur, þokufullur, úrfelli áliðið, seinast snjókoma. Fjörðurinn stappaður af ís.
[19.] Norðan hvass og mikið kaldur, stundum krapahríð.
[20.] Sama veður, úrfellislaust um tíma, en seinast snjókoma.
[21.] Sama veður, súld framan af, þó bleytuhríð, seinast kyrrt og bjartari.

Magnús Stephensen segir frá lakri tíð. Hann nefnir m.a. ísrek meðfram suðurströndinni allt vestur til Grindavíkur. 

Viðeyjarklaustri 4-7 1827 (Magnús Stephensen): (s64) ... mestu hafþök af ísum fyrir öllu Norðurlandi og Austurlandi, rak ís hér vestur með allt að Grindavík sem fádæmi eru. Engin skip nyrðra því enn sögð komin í höfn. Þar mikill fjárfellir og bágindi í Skagafjarðar og Húnavatnssýslu, sífelldir kuldar, stormar, þyrringar og gróðurleysi yfir allt land, hér syðra dágott fiskirí.

Sveinn Pálsson í Vík í Mýrdal segir frá þessari hafískomu í veðurbók sinni. Stóð hann furðulengi við. Kom að því er virðist 6.maí og rak þá til suðvesturs. Allmikil snjókoma var þá um morguninn milli kl. 7 og 8. Í vikuyfirliti sem Sveinn ritar þann 11.maí getur hann þess að frost hafi verið suma dagana þrátt fyrir suðvestanátt. Frá og með 18.maí og til mánaðamóta er getið um ís eða ísrek á hverjum degi og að sjá einnig 2 til 3 fyrstu daga júnímánaðar. 

Sumar:

Brandstaðaannáll: Eftir sólstöður lét ég kýr fyrst út, en lambfé komst af í veðursælum heiðardrögum. Gróðurleysi á fráfærum til heiðanna í júnílok. 3. júlí fyrst brotist í lestaferð. Um lestatíma stormur og kuldi á norðan og vestan, sjaldan hlýtt veður og fór grasvexti seint fram. 26. júlí byrjaði sláttur. Varð töðubrestur mikill. 30. júlí kom hret og óveður, er endaði óveðrakafla þennan. Eftir það viðraði vel og varð grasvöxtur í meðallagi. Víða hitnaði í töðum, því hálfsprottin tún voru slegin og snjókrapið varð mikið í þeim, er ei náði vel að þorna. Sláttatíminn varð notagóður. Gras dofnaði seint. Voru nú göngur færðar í 22. viku, því seint áraði og sumarauki var. 21.-22. sept. kom mikið norðanveður. Flæddi við það nokkuð hey í Þinginu og með Flóðinu.

Bjarni Thorarenssen segir frá vetrarlokum, vori og sumri í bréfum sem hann ritar í ágúst. Þar segir hann m.a. frá eldgosi í Austurjöklum (Vatnajökli) sem litlar eða engar aðrar heimildir finnast um. 

Gufunes 19-8 1827 (Bjarni Thorarensen): Slutningen af Vinteren og Foraaret var meget strengt ... (s57) Græsvæxten har her været meget maadelig, med Höebiergningen gaare det derimod taaleligen – i Österjöklerne har der i Foraaret været stærk Ildsprudning men som dog ikke har giort synderlig Skade, da der paa den tid herskede bestandig Nordenveir – ellers frygter jeg alletider Ildsprudninger fra hine Egne, da de i Aaret 1783 förte virkelige Giftpartekler med sig. (s60)

Lausleg þýðing: Vetrarlok og vor voru mjög hörð ... Gras hefur sprottið „hóflega“, en heyskapur er aftur á móti þolanlegur. Í vor voru mikil eldsumbrot í Austurjöklum, en hafa ekki valdið tjóni þar sem á var stöðug norðanátt - annars óttast ég alltaf gos á þeim slóðum þar eins og varð árið 1783 með raunverulegum eiturögnum.

Gufunesi 24-8 1827 (Bjarni Thorarensen): Veturinn byrjaði fyrst að gagni þegar póstskipið fór og vorið var hart. ... Grasvöxtur hefir verið í lakara lagi en heynýting bærileg það sem af er. (s175)

Ólafur í Uppsölum segir frá morgunfrosti 3. og 4. ágúst (vel má þó vera að ekki hefði mælst frost í hitamælaskýli). 

Það er að skilja á Jóni á Möðrufelli (mislesi ritstjórinn hann ekki illa) að ágúst hafi þar verið góður, hlýr, þurr og heyskap hagkvæmur. 

Hallgrímur á Sveinsstöðum í Húnaþingi lýsir tíð ársins fram til sumarloka - nefnir m.a. hina einstaklega blíðu þorraveðráttu - og júníhríðina miklu. 

21. september 1827 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973): (bls. 180)

Nú kem ég til að drepa á helsta árferðissögu ágrip hér í sýslu og nálægum norðursveitum. Fyrsta vika ársins var frostasöm og rosafengin, síðan stillt til þorrakomu, en mestallur þorri var há-sumri líkastur með miklum þíðum, svo örísa varð uppí háfjöll og tók að gróa kringum bæi, svo sáust fíflar og jafnvel bifukollur. En þá fimm dagar voru af góu, lagðist vetur að algjörlega með frosthörkum, fannkomum og hafþökum af Grænlandshafís kringum allt Norðurland og Vestfirði, og þessi stranga veðurátta hélst oftast með feikna kulda og frostum til bænadags [11.maí], gjörði þá viku hláku, þaðan frá þokur, kuldasvækjur, snjókomur og kraparigningar á víxl til 5.júní.

Batnaði þá um tíma, en kom á aftur þann 15.s.m. með ákefðar krapa og snjó-hríðum, sem héldust nótt og dag til þess 21. Króknuðu þá folöld og fullorðin hross til dauðs, og sauðfé dó hrönnum bæði í byggð og á afréttum. Kvenmann kól þá til örkumla á grasaheiði og karlmann í júlí í lestarferð. Oftast var veðurátta kulda og rosasöm til 4. ágúst, þá fyrst kom hér algjörlega sumarveðurátta, er hélst til 7. [september], oftast með hitavindum og hagstæðri heyskaparveðuráttu, svo töður nýttust víðast vel og úthey, er til þess tíma slegin voru. En síðan hefir heyskapur verið mjög erfiður vegna storma og úrfella af ýmsum áttum, svo sumstaðar fuku hey til stórskaða, og nú eru þau víða svívirt og hrakin úti, komin á flot af stórrigningum. Peningsfellir varð víðast mikill norðanlands á næstliðnu vori, nema í Þingeyjarsýslu, og unglambadauði ákafur. Gras tók mjög seint að spretta, en heyjafengur hefði þó að lokum orðið í góðu meðallagi víða (sumstaðar þó minni), ef nýting hefði heymegni samboðið.

Þessar lýsingar á hagstæðri tíð þegar á leið sumar eru í nokkurri mótsögn við Espólín sem hallmælir öllu sumrinu. 

Haust:

Brandstaðaannáll: Haustið síðan stillt og gott. 3. nóvember fyrst snjór og mesta harka. Ruddu sig brátt flestar ár. Síðan 7. nóvember góð hláka og vetrarfar, lengst auð jörð utan 13.-28. desember snjóakafli, þó fjárbeit góð. Á fjórða [28.desember] mikil hláka og vatnsgangur. Árferði var nú þungt vegna vorharðinda, málnytubrestur yfir allt, lamba- og fjárdauði  ýmislegur. Í Víðidalsfjalli króknuðu allmargir sauðir.     

Í athugasemdum sem Jón Þorsteinsson lætur fylgja með veðurathugunum sem hann sendi til Danmerkur í marsbyrjun 1828 segir m.a. (og átt við 1827):

Ved et blik paa denne Liste, bemærkes meget Let det Islandske Climats Særkjende, nl [nemlig]: at det er saa liden Forskjel mellem Sommer og Vinter: thi et stormfuldt Efteraars Vejrlig, vedvarer næsten uafbrudt det heele Aar;

Lausleg þýðing: Þegar litið er á listann (þ.e. veðurathuganaskrána) sést megineinkenni íslensks veðurlags léttilega, nefnilega að lítill munur er á sumri og vetri, stormasöm hausttíð viðvarir næstum því linnulaust allt árið. 

Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1827:

Sveita vorra vetrar tíð
var að þorra lokum blíð
góa og vor með gæða hlé
gáfu hor og dauða fé.

Hjörð af sveltu helju fann
hafís belta landið vann,
gróðann freri svæfði um svörð
seint því greri kalin jörð.

Töðu brestur túnum á
trú ég flestum yrði hjá.
rýttust þær en huldi hríð
Hnikars mær um engja tíð.

Haustið veitt vind og skúr
vætu hreytti lofti úr
hrinu yglið himna ský
heyin mygluð urðu því.

Vetrar kaflinn veifði snjó,
veittist afli norður þó
Snæfells-sveit um síldar vað
syðra heitir minna um það.

Hér lýkur (að sinni) umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1827. Ýmislegt er enn á huldu varðandi hafís, eldgos og fleira og vonandi að það upplýsist síðar. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr árbókum Espólíns. Smávegis af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Meðalvetrarhitinn

Nú getum við með sæmilegri samvisku bætt vetrinum 2018 til 2019 inn á línuritið sem birtist hér fyrir nokkrum dögum.

w-blogg300319a

Meðalhiti hans - á landsvísu - verður annað hvort +0,3 eða +0,4 stig. Hann er því langt inni í flokki þeirra hlýju. Á myndinni sjáum við að hann sómir sér vel meðal hlýindanna miklu á þessari öld - þó nokkuð skorti hann upp á allra hæstu hitahæðir. 

Einnig mun óhætt að segja að vel hafi farið með veður í vetur. Illviðri með færra móti og snjór - það litla sem var - lagðist ekki illa. Jörð er víðast hvar þíð. 

En nú er spurning hvernig fer með í apríl. Við treystum mánaðarveðurspám ekki vel - en þær segja nú að fyrsta vikan verði í kaldara lagi - en síðan komi tvær fremur hlýjar - lítið sem ekkert er sagt um fjórðu vikuna. 


Apríl - sem vetrarmánuður

Eins og oft hefur verið minnst á hér á hungurdiskum er meðalhiti á Íslandi svipaður allan tímann frá miðjum desember og til marsloka. Eftir það fer hann ört hækkandi - við getum sagt að það fari að sjást betur til vorsins. En þetta er auðvitað allt að meðaltali og meðaltöl fela margt og mikið. Stöku sinnum heldur veturinn áfram fram í apríl - eins og ekkert (eða lítið) hafi í skorist og apríl getur jafnvel verið kaldasti „vetrarmánuðurinn“ - og jafnvel kaldasti mánuður ársins alls. Hér skulum við aðeins velta okkur upp úr apríl sem vetramánuði - leita slíkra mánaða. 

Það truflar leitina nokkuð að apríl hefur hlýnað mikið á mælitímabilinu, hlýnunin er að jafnaði rúmt 1 stig á öld - þannig að það sem okkur þykir kaldur apríl taldist e.t.v. ekki óskaplega kaldur á 19.öld. Við beitum því dálitlum brögðum við leitina - og notum myndina hér að neðan til að hjálpa okkur.

w-blogg280319a

Það sem við sjáum á myndinni er þetta: Lárétti ásinn vísar til síðustu 200 ára (tæpra), en sá lóðrétti er hitakvarði. Græna feita línan sýnir 30-árakeðjumeðalhita vetra, til vetrarins teljast mánuðirnir desember til mars (ártalið við síðara árið). Vetur áranna 1989 til 2018 eru því lengst til vinstri - en línan hefst við árabilið 1824 til 1853. Vel sést hvernig línan hefur færst ofar og ofar (ekki þó samfellt).

Rauða þykka línan sýnir það sama - en á við apríl. Þessi lína hefur þokast upp á við líka - hlýja tímabilið um miðja 20.öld er þó ekki eins áberandi og í vetrarferlinum. 

Þreparitið sýnir hins vegar landsmeðalhita einstakra aprílmánaða - mjög breytilegur greinilega. Allt frá hinum illræmda apríl 1859 (svokallaður „álftabani“) til hlýindanna miklu 1974. 

Við merkjum sérstaklega þá aprílmánuði þegar meðalhiti er neðar en meðalhiti vetra næstu þrjátíu ára á undan. Sannir vetrarmánuðir (þó að vori séu). Það sem má vekja sérstaka athygli er klasinn kaldi frá 1948 til 1953. Þá komu 3 vetraraprílmánuðir, 1949, 1951 og 1953, sá síðastnefndi var reyndar líka kaldasti mánuður ársins. Aprílmánuðir áranna 1948, 1950 og 1952 voru líka kaldir. Ekki var teljandi ís hér við land þessi ár - þó hans yrði aðeins vart - en norðlægar áttir sérlega þrálátar. Umhugsunarvert inni á miðju löngu hlýskeiði - jú - við getum víst alltaf búist við svona nokkru þó almenn hlýindi ríki.

Við borð lá að ámóta klasi herji á árin í kringum 1990, en það er þó ekki nema apríl 1988 sem nær því að teljast vetrarmánuður samkvæmt þessu tali. Áður var apríl 1983 reyndar kominn í flokkinn. 

Á síðustu árum hafa mjög kaldir aprílmánuðir ekki sýnt sig - litlu munar þó að apríl 2013 komist í flokkinn - vegna þess hversu aðrir aprílmánuðir þriggja síðustu áratuga hafa verið hlýir - í langtímasamhengi var sá mánuður samt ekki sérlega kaldur. 

En - í framhjáhlaupi lítum við líka á spurninguna „á hvolfi“. Hversu oft hefur veturinn í heild verið sem apríl?

w-blogg280319b

Rauða línan á þessari mynd er sú sama og á þeirri fyrri, en þrepaferillinn sýnir vetrarhita. Við merkjum sérstaklega vetur þegar meðalhiti (allra vetrarmánaðanna saman) hefur farið upp fyrir meðalhita aprílmánaða („síðustu“ 30 ára). Þeir eru ekki margir - en samt. Fyrstan skal telja ofurveturinn 1846-1847 - einstakur á 19.öld, veturinn 1879 til 1880 komst nærri mörkunum. Við sjáum vel hversu óvenjulegur veturinn 1922 til 1923 var á sínum tíma - hefði orðið minnisstæðari ef veturinn 1928 til 1929 hefði ekki farið langt framúr. Eldri veðurnörd muna hinn einstaka vetur 1963 til 1964 mjög vel - vor allan veturinn (nærri því). 

Síðast fór 2002 til 2003 yfir mörkin sem við höfum sett, en allir vetur þessarar aldar hafa verið hlýir. 

Ritstjóri hungurdiska hefur hugsað sér að leita líka að „vetrardögum“ í apríl - en veit ekki alveg enn hvernig hann á að skilgreina slíkt. 

Allt telst þetta til skemmtiatriða fremur en strangra fræða - höfum það í huga. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg220925a
  • w-blogg170925b
  • w-blogg170925a
  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.9.): 233
  • Sl. sólarhring: 309
  • Sl. viku: 1614
  • Frá upphafi: 2500426

Annað

  • Innlit í dag: 210
  • Innlit sl. viku: 1436
  • Gestir í dag: 204
  • IP-tölur í dag: 201

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband