14.11.2024 | 13:28
Nýtt landshitamet fyrir nóvember
Í dag, fimmtudaginn 14.nóvember var sett nýtt landshitamet fyrir nóvembermánuð þegar hiti fór í 23,8 stig á Kvískerjum í Öræfum. Gamla metið (23,2 stig) var sett á Dalatanga 1999. Í fljótu bragði virðist um rétta mælingu að ræða þannig að við trúum henni - í bili að minnsta kosti. Ritstjórinn verður þó að játa að hann hefur ekki séð nýlega mynd af stöðinni, en minnið segir honum að allt ætti að vera í lagi - á þessum árstíma að minnsta kosti.
Við skulum nú líta aðeins betur á málið. Fyrst verður fyrir spákort frá því í morgun (14.11).
Þetta er úr þróunarspálíkani Veðurstofunnar (sem reiknað er flesta daga í 750 metra upplausn). Ef við rýnum í kortið má sjá staðbundið hitahámark við Kvísker. Ekki sést vel hvaða hita er spáð, en sýnist vera 16 til 17 stig - nokkuð gott að ná bletti sem þessum. Annar ámóta blettur er svo austast á Breiðamerkursandi - eða rétt þar austan við. Kannski hefur verið sett hitamet þar.
Á línuritinu eru þrír ferlar sem sýna hitamælingar á 10-mínútna fresti frá því kl.2 síðastliðna nótt (aðfaranótt 14.) þar til klukkan 14:40 í dag. Blái ferillinn sýnir hámarkshita hverra 10-mínútna í Kvískerjum, en á bak við þá tölu eru 6 hitamælingar, 6 tveggja mínútna meðaltöl, hæsta gildið valið. Græni ferillinn sýnir það sama en á Fagurhólsmýri í sömu sveit. Miklu munar á hitanum á stöðvunum tveimur. Loftið á Fagurhólsmýri komið af hafi, en á Kvískerjum var það komið að ofan, hitað af niðurstreymi yfir austurhlíðum Öræfajökuls. Hitinn fór í 18 stig strax upp úr kl.6 og náði fyrst 20 stigum milli kl. 7 og 8. Þokaðist síðan upp á við og náði hámarki upp úr kl.12.
Rauði ferillinn sýnir hitamælingar frá stöð Vegagerðarinnar við Kvísker. Ekki er langt á milli stöðvanna. Frá því upp úr 6 og fram á 8. tímann var hlýrra á vegagerðarstöðinni og fór hiti í 21,7 stig upp úr kl.7. Meiri sveiflur voru þar síðan á hitanum heldur en á stöð Veðurstofunnar. Mælingarnar sem hér eru sýndar eru þó ekki alveg sambærilegar. Þótt hita sé getið á vegagerðarstöðvunum á 10-mínútna fresti, vantar þar 8 (eða 9) mínútna mælingar á milli hverrar skrásetningar. Á Veðurstofustöðvunum getum við fengið upplýsingar um hæsta og lægsta tveggja-mínútnahita milli hvers mínútutugar, en ekki á vegagerðarstöðvunum. Reyndar er málið þannig vaxið að ritstjóri hungurdiska veit ekki hvort viðmiðunartími vegagerðarhitamælanna er 1 mínúta eða 2 mínútur (það getur verið mismunandi eftir því hvors er óskað) - varla er það þó 10-mínútur. Nú er rétt hugsanlegt að stöðvarnar mæli þennan millihita í raun og veru, en hann bara berist ekki til Veðurstofunnar. Atriði eins og þessi eru mikilvæg þegar met eru staðfest eða þeim hafnað.
Til gamans skulum við líta á línurit sem ber saman hita á athugunartíma (10-mínútna fresti) og hámarkshitans sem skráður er á sama tíma - mælingarnar frá Kvískerjastöð Veðurstofunnar frá kl.2 til 14:40.
Hámarkið hittir í í um 1 tilviki af 8 (við búumst við 1 af 6 - sem sjálfsagt er, væru athuganir nægilega margar). Í álíka mörgum tilvikum munar meira en 1 stigi á hámarki og athugunarhita - meðaltalið er 0,4 stig. Með vangaveltum af þessu tagi má giska á að nokkrar líkur séu á því að mælingin á vegagerðarstöðinni hafi ekki hitt í hæsta hita dagsins - og nokkrar líkur sé á því að munurinn sé meiri en 0,5 stig - gæti verið enn meiri. Til að meta það frekar þurfum við auðvitað að vita hvort hæsta mælingin er niðurstaða 2-mínútna meðaltals eða einhvers annars tímaskeiðs. Upplýsingar auðvitað vel þegnar. Veðurnörd vita vel að almennt séð hafa stöðvar Vegagerðarinnar reynst ólíklegri til meta heldur en stöðvar Veðurstofunnar. Ástæður kunna að vera fleiri en ein - en þessi er líklega ein þeirra. Aðalatriðið er að rugla þessum tveimur mismunandi stöðvagerðum og metum þeirra ekki saman. Þær keppa ekki í sama þyngdarflokki.
Að lokum lítum við á gervihnattamynd sem tekin er um hádegi í dag (12:08) (af vef Veðurstofunnar).
Sé rýnt í myndina (hún stækkuð) sést mjög vel hversu háreistar bylgjur rísa yfir Vatnajökli sunnanverðum og Öræfajökli - má segja að hitametið sé afleiðing bylgjugangsins. Þar skiptist á gríðarlegt uppstreymi (hvít ský) og snarpt niðurstreymi á milli (eyður í skýjabreiðuna).
Þetta tilvik í dag minnir nokkuð á gamla þjóðsagnamælingu frá Kvískerjum. Um hana er fjallað í gömlum pistli hungurdiska. Úr þeim pistli má rekja sig í blaðafréttir af þeim merka atburði.
Látum þetta duga að sinni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2024 | 21:45
Af hlýindum og metum
Eins og ráð var fyrir gert varð mjög hlýtt á landinu í gærkvöldi (11.nóvember 2024) og í nótt. Þótt landshitamet nóvembermánaðar væri ekki slegið að þessu sinni (23,2 stig) vantaði ekki mjög mikið upp á og ný stöðvamet voru sett á fjölmörgum veðurstöðvum. En metametingur er alltaf nokkuð erfiður. Þegar litlu munar á nýjum og eldri metum má flækja málin mjög með því að vísa í breytingar á mælitækni eða mæliháttum, stöðvar hafi verið fluttar til og svo framvegis. Sannleikurinn er og verður sá að leitin að nákvæmum metum telst langoftast til skemmtunar frekar en harðsoðinna vísinda. En það er þó þannig að þegar fjöldi meta er sleginn samtímis eða miklu munar á nýjum og eldri metum má kannski trúa því að einhver merking sé að baki. Metatalningar geta gefið vísbendingar um veðurlag - og hugsanlega breytingar á því.
Nú þegar hafa ýmsir tekið saman helstu tölur í hinni nýliðnu hitabylgju. Að endurtaka það hér er kannski óþarfi. Ritstjóri hungurdiska greinir ætíð á milli hinna almennu sjálfvirku veðurstöðva Veðurstofunnar og nánustu samstarfsaðila hennar annars vegar og veðurstöðva Vegagerðarinnar og ýmissa annarra hins vegar. Meginástæðan er ekki sú að einhver sérstakur efi sé með tölur hinna síðarnefndu heldur fremur að ekki er vitað hvernig hámarkshiti þeirra er skilgreindur í smáatriðum, né heldur eru upplýsingar fyrirliggjandi um það hversu vel hver einstök stöð er staðsett, í hvaða hæð mælar séu o.s.frv. Athuganir Vegagerðarinnar (flestar) berast þó til Veðurstofunnar og safnast þar í sérstaka töflu sem þar er aðgengileg til rannsókna. Þakkar ritstjóri hungurdiska auðvitað fyrir það, því gagnlegar eru stöðvarnar sannarlega þótt hann vilji ekki gefa hámarksmælingum þeirra metastimpla sem ætlaðir eru öðrum stöðvum. Það fellst mikið öryggi í því að annað kerfi, óháð Veðurstofunni sé í rekstri í landinu komi alvarlegar bilanir upp á - eins og hefur þegar sýnt sig stund og stund.
Svo vill til að þessu sinni að hæsti hámarkshiti sem getið er í þessari hitabylgju mældist á Vegagerðarstöð, Ólafsfjarðarvegi við Sauðanes, 22,9 stig, aðeins 0,3 stigum neðan við nóvemberhitametið frá Dalatanga 1999 og áður er minnst á.
Svo skemmtilega vill til að á tveimur stöðvum Vegagerðarinnar var hámarkshitinn í þessari hitabylgju jafnframt hæsti hiti ársins á stöðvunum. Þetta var á Hámundastaðahálsi í Eyjafirði (22,0 stig) og við Hólshyrnu í Siglufirði (21,9 stig). Fyrir allmörgum árum kannaði ritstjóri hungurdiska tíðni þess að hæsti hiti ársins lenti utan sumarsins og fann tilvik í öllum mánuðum nema marsmánuði. Þessa könnun gerði hann fyrir 14 árum og mætti endurtaka.
Stöðvarmet telst ekki merkilegt nema að mælt hafi verið í nokkur ár, því lengur sem mælt hefur verið því merkilegra verður metið. Að þessu sinni voru sett ný nóvembermet bæði í Grímsey og á Grímsstöðum á Fjöllum. Hámarksmælingar á þessum stöðvum eru ekki alveg samfelldar frá upphafi stöðvanna, en þó meira og minna, 150 ár í Grímsey og 118 ár á Grímsstöðum. Á báðum stöðvum var metið slegið svo um munar. Hiti fór í 15,5 stig í Grímsey, hæsta eldri tala er frá því í nóvember 1944, 13,8 stig. Sú tala var hins vegar talin svo óáreiðanleg að henni var sleppt í Veðráttunni. Var það þrátt fyrir allt rangt mat? Alla vega kemur talan 15,5 stig í Grímsey meira á óvart í huga ritstjóra hungursdiska heldur en flestar aðrar tölur úr hitabylgjunni. Ástæðan er sú að langt er í fjöll í Grímsey og því óvænt að þangað berist svona hlýtt loft. Svipað á raunar einnig við um tölurnar frá Grímstöðum á Fjöllum (16,5 stig) og Möðrudal (16,2 stig). Oftar en ekki er snjór (að minnsta kosti einhver) á þessum stöðum í nóvember og sá varmi sem getur þrátt fyrir allt borist að ofan fer í að bræða hann (sem kostar mikið). Stöðvarnar eru líka langt frá háum fjöllum.
Glæsilegt met var líka slegið á Akureyri. Þar eru sem kunnugt er tvær veðurstöðvar Veðurstofunnar. Önnur á Lögreglustöðinni, en hin við Krossanesbraut. Að þessu sinni stóð Krossanesbrautin sig betur, hiti þar fór í 22,3 stig, sló gamla stöðvarmetið um 6,9 stig. Stöðin hefur mælt í 20 ár.
Á Lögreglustöðinni fór hiti í 20,4 stig. Það verður (í bili að minnsta kosti) nýtt nóvembermet á Akureyri. Gamla metið var 17,5 stig, sett 2004. Hámarkshiti hefur verið mældur á Akureyri síðan 1938. Spurt hefur verið um ástæður þessa munar á stöðvunum tveimur. Við skulum líta aðeins nánar á hann með því að skoða mynd.
Hér má sjá hámarkshita hverrar klukkustundar á Akureyri 11. nóvember og fram til kl.17 þann 12. Grái ferillinn á við Krossanesbrautina, en sá rauði Lögreglustöðina. Grænu súlurnar (hægri kvarði) sýnir mismun hámarkshitans á stöðvunum tveimur. Svo vill til að hann er allan tímann hærri á Krossanesbrautinni, oftast um 0,5 stig, en þegar hlýjast er hann hins vegar meiri en 2 stig.
Trúlega er einhver munur á stöðvunum tveimur - en varla þó svona í þessum skammdegisaðstæðum þar sem áhrif sólar eru víðs fjarri. Langlíklegasta skýringin er munur á umbúnaði mælanna. Krossanesbrautarmælirinn er í hefðbundnum hólk sjálfvirkar stöðvar, en hitamælirinn á Lögreglustöðinni er aftur á móti inni í gamla hitamælaskýlinu. Þar eru loftskipti mjög hæg og snerpa skýlisins enn minni en venjulega í slíku skýli - því það er hætt að opna það á þriggja klukkustunda fresti eins og gert var í áratugi.
Hvað á nú að gera með hitamet Akureyrar í nóvember? Ritstjóri hungurdiska er kominn á eftirlaun og hefur varla tillögurétt nú orðið - hvað þá meira. En þetta er eins og sjá má ákveðið vandamál, vilji menn stunda þessa íþróttagrein (metameting) af snerpu og festu. Og ekki er það aðeins á Akureyri sem þetta gerist - heldur nánast alls staðar. Rétt er að taka fram að þessi munur kemur langoftast lítt eða ekki fram í mánaðameðaltölum (en getur þó gert það) - og er það mun óþægilegra.
Hiti er einnig mældur á Akureyrarflugvelli. Þar eru hins vegar ekki hámarkshitamælingar - og tölur aðeins gefnar upp á klukkustundarfresti - og án aukastafs. Hæsta tala þessarar hitabylgju þar var 19 stig.
En fleiri met voru sett. Ritstjóri hungurdiska fylgist með klukkustundarmetum á landsvísu. Nóvembermet voru slegin fyrir klukkustundir næturinnar, frá og með kl.23 og á öllum heilum tímum til kl.9 að morgni. Nokkrar stöðvar komu við sögu: Krossanesbraut (kl.23 og 24), Bakkagerði (kl.1 - og aftur kl.8), Siglufjörður (kl.2 og kl.3), Ólafsfjörður (kl.4), Skjaldþingsstaðir (kl.5, 6 og 7 og kl.9).
Eitt nóvembermet var sett í háloftaathugun yfir Keflavík kl.23. Hiti í 850 hPa fór í 11,4 stig. Eldra met, 10,0 stig var komið til ára sinna, sett 13.nóvember 1961 - rétt um þær mundir sem ritstjóri hungurdiska fór fyrst að fylgjast með veðri af ákafa. Merkilegt hvað tíminn líður, 63 ár (þar áður voru 63 ár aftur til ársins 1898).
Nokkuð vantaði upp á að hitamet væru slegin í öðrum hæðum.
Í viðhengi geta nördin fundið lista um ný nóvemberhitamet á sjálfvirkum veðurstöðvum - og hversu miklu munar frá eldri metum. Stöðvum sem athugað hafa í minna en fimm ár er sleppt.
11.11.2024 | 13:26
Fyrstu 10 dagar nóvembermánaðar 2024
Mikil umskipti urðu um mánaðamótin síðustu þegar mikil hlýindi tóku við af sérlega svölum október. Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 10 daga nóvember er 6,6 stig, +3,5 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +2,9 stig ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Þetta er hlýjasta nóvemberbyrjun aldarinnar í Reykjavík, en kaldastir voru þessir sömu dagar árið 2010, meðalhiti þá +0,1 stig. Á langa listanum raðast hitinn nú í 8. hlýjasta sæti af 151. Fyrstu tíu dagar nóvember voru hlýjastir árið 1945, þá var meðalhiti þeirra +8,2 stig, en kaldastir voru þeir 1899, meðalhiti -4,0 stig.
Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu nú +5,9 stig, +4,4 stigum ofan við meðallag 1991 til 2020, og +4,0 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Sex nóvembermánuðir hafa byrjað á hærri tölum síðustu 89 árin, síðast 1987 - eins og í Reykjavík.
Dagarnir tíu eru að meðaltali þeir hlýjustu á öldinni á mestöllu landinu. Á Austurlandi að Glettingi og á Suðausturlandi eru þeir næsthlýjastir og þriðjuhlýjastir á Austfjörðum.
Miðað við síðustu tíu ár er hitavikið mest við Sátu, í Nautabúi, Torfum og á Hvanneyri, +4,6 stig, en minnst +0,7 stig á Fonti.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 56,2 mm og vantar ekki mikið upp á tvöfalda meðalúrkomu. Á akureyri hafa aðeins mælst 4,3 mm og er það um fimmtungur meðaltals. Einnig hefur verið þurrt á Dalatanga, þar hefur úrkoman mælst 20 mm, tæpur þriðjungur meðallags.
Sólskinsstundir hafa mælst 9.8 í Reykjavík, 6,7 færri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 15 og er það 7 stundum fleiri en að meðaltali.
Hlýindi eiga að haldast næstu daga, en síðan kólnar talsvert - að minnsta kosti í bili.
10.11.2024 | 21:08
Óvenjulegt?
Hlýtt hefur verið á landinu að undanförnu - eftir kalda tíð í október. Sé að marka spár munu hlýindin ná hámarki aðra nótt eða á þriðjudag (12.nóvember).
Hér má sjá þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.6 að morgni þriðjudags (heildregnar línur), litir sýna hita í 850 hPa fletinum (í um 1400 metra hæð) á sama tíma. Þykktin mælir (sem kunnugt er) meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Innsta jafnþykktarlínan við Austurland sýnir hvar þykktin er meiri en 5600 metrar. Þetta þætti meira að segja mikið að sumarlagi - og hæsti hiti kortsins í 850 hPa er rúm 15 stig, hærri en nokkru sinni hefur mælst yfir Keflavíkurflugvelli (árið um kring). En hafa verður í huga að hér kemur niðurstreymi yfir Austurlandi og þar austur af við sögu - nokkuð sem ekki á sér stað í hlýrri sunnanátt yfir Keflavík. Tölur sem þessar eru því mun algengari við Austurland heldur en suðvestanlands.
Hitamet nóvembermánaðar yfir Keflavík er 10,0 stig í 850 hPa, orðið harla gamalt reyndar, sett 13.nóvember 1961 (og kannski ekki mjög nákvæmt). Háloftakanna er ekki sleppt til mælinga nema tvisvar á dag og er þess vegna nokkur heppni ef hann hittir í hlýjar tungur á hraðferð að vetrarlagi, en þó er vissulega vel þess virði nú að gefa athugunum morgundagsins (mánudags 11.nóvember) gaum hvað möguleg met snertir. Svo virðist sem frostlaust verði upp fyrir 3 km, langt upp fyrir hæstu fjöll landsins.
En þrátt fyrir þetta er alls ekki víst að um methita verði að ræða á veðurstöðvunum. Þegar að byggðum Austur- og Norðausturlands kemur hefur loftið blásið um langa hríð yfir hálendið. Þrátt fyrir hlákuna er yfirborðshiti ekki langt frá frostmarki. Loftið kólnar því á leið sinni og verður þar með stöðugra - erfiðara er að losna við það og uppblöndun við hið gríðarhlýja loft fyrir ofan verður tregari. Þegar svona hlýtt loft fer um að sumarlagi er greiðari leið til blöndunar, auk þess sem yfirborð landsins er mun hlýrra, sérstaklega sé það þurrt og sól hefur skinið á það baki brotnu. Að vetrinum er því mun erfiðara um vik - helst er von um háar hitatölur nærri háum fjöllum - þar er heldur meiri von um hræru.
Til gamans skulum við líka líta á mættishita í 850 hPa-fletinum. Mættishitinn sýnir hversu hlýtt loft getur orðið sem dregið er beint niður til 1000 hPa þrýstings - án blöndunar.
Við sjáum að hæsta talan á kortinu er 28,9 stig. Því er ekki að neita að slík tala liti ævintýralega út á mæli veðurstöðvar - í nóvember. En það er víst lítil von til þess að slíkt sjáist. Mættishiti í 925 hPa (í um 700 metra hæð) er (í spánni) um 25 stig. Neðar sjást greinileg hitahvörf þar sem þyngra og kaldara loft situr - og fer væntanlega ekki.
Þess má enn geta að hitamet nóvembermánaðar er 23,2 stig, sett á Dalatanga 11.nóvember 1999 - við heldur minni þykkt en hér er spáð. Þá hafa æskileg tengsl orðið við hlýja loftið ofan við. Dæmi í hina áttina er úr gömlum hungurdiskapistli (7.nóvember 2011).
Þetta er sams konar kort og það fyrra hér að ofan (en eldri gerð). Þykkt var þá spáð yfir 5600 metrum yfir Norðausturlandi - eins og nú - og hámarkshita í 850 hPa um 13 stig (ívið lægra en nú). Þetta er 36 stunda spá - spáin sem vitnað var í að ofan er 42 stunda spá. Það sem gerðist hins vegar var að í raun urðu hiti og þykkt ívið minni en spáð hafði verið - og skilyrði að öðru leyti ekki alveg jafn hagkvæm og 1999. Mesti hiti sem mældist var þó 21,0 stig (á Skjaldþingsstöðum). Það má taka eftir því að áður en metið var sett 1999 var hitamet nóvembermánaðar hér á landi 19,7 stig, líka sett á Dalatanga, en þann 10. 1971. Svo virðist sem stöðin á Dalatanga sé einna líklegust til meta við þessar vetraraðstæður, þar er hátt fjall nærri - og von til þess að ná í loft sem ekki hefur kólnað við stöðuga og langvinna snertingu við blautar eða frosnar heiðar. Ekki er heldur langt í há fjöll á Skjaldþingsstöðum og sömuleiðis á Seyðisfjörður líka fáeinar vænar vetrartölur. Sauðanesviti vestan Siglufjarðar er sömuleiðis líklegur. Sé áttin nægilega vestlæg koma Kvísker í Öræfum sterkt inn. Líklegt er að stöðvamet verði sett, jafnvel mjög mörg.
Á aðfaranótt fimmtudags er svo aftur búist við hlýju lofti til landsins - en þó ekki alveg jafnhlýju og hér hefur verið fjallað um. Síðan á að kólna rækilega. Hætt er við að hvasst verði á köflum næstu daga, jafnvel úr hófi. Vonandi kemur tíudagayfirlit hungurdiska síðan á morgun.
8.11.2024 | 22:41
Smávegis af illviðri gærdagsins (7.nóvember 2024)
Nokkuð hvasst varð á landinu í gær (fimmtudaginn 7.nóvember). Lægð fór til norðurs fyrir vestan land - og síðan norðaustur í höf. Um nóttina snerist vindur úr austlægri átt í suðlæga. Þá hlýnaði skemmtilega snögglega - sums staðar um meir en 10 stig á fáeinum mínútum. Í daglegu uppgjöri ritstjóra hungurdiska setur hann mörk hins áhugaverða við 8 stiga breytingu á klukkustund. Það er ekki oft sem slík skyndibreyting á sér stað á jafnmörgum veðurstöðvum sama daginn - nú var það á 16 stöðvum og á tíu þeirra varð breytingin 10 stig eða meira, mest á Ólafsfirði þar sem hitinn fór úr 2,7 stigum í 15,8 á innan við klukkustund, hækkun um 13,1 stig.
Jafnframt því sem vindur gekk til suðurs hvessti mjög. Hámarksútbreiðslu náði hvassviðrið um kl.9 um morguninn, eftir það slaknaði nokkuð en síðdegis bætti aftur í á Vestfjörðum. Ofviðranörd gætu hér greint á milli tveggja ofviðragerða - (eins og lýst var í pistli hungurdiska í gær).
Mánaðarvindhraðamet voru slegin á fáeinum veðurstöðvum sem athugað hafa í um 20 ár eða meira. Má þar nefna Súðavík, Hornbjargsvita, Straumnesvita, Bolungarvík, Seljalandsdal og svo Flatey á Skjálfanda. Á öllum Vestfjarðastöðvunum var metið sett í síðari strengnum og er vel að landið hafi sloppið við hann að öðru leyti. Vakthafandi veðurfræðingur vakti athygli ritstjóra hungurdiska á því að furðulítið varð úr veðri á höfuðborgarsvæðinu - þótt gríðarmikill vindstrengur hafi verið í fjallahæð. Í grunninn er kannski ekki erfitt að finna skýringu - alla vega á ritstjórinn slíka á lager - en þar sem allsendis óvíst er hvort hún er rétt skal lesendum vægt (alla vega að þessu sinni).
Í hinu áðurnefnda daglega uppgjöri ritstjórans kom jafnframt í ljós að veðrið náði inn á annan (af tveimur) listum sem ritstjórinn hefur um langt skeið notað til að fylgjast með illviðratíðni. Annar þeirra mælir fjölda stöðva þar sem vindur nær 20 m/s einhvern tíma sólarhrings - að þessu sinni fór mælitalan í 34 prósent (stöðva í byggð) - það næstmesta á árinu. Til að komast á listann þarf dagur að ná 25 prósentum eða meir. Að jafnaði hafa slíkir dagar verið um 12 á ári, en hafa hingað til ekki verið nema tveir það sem af er 2024. Verður að teljast að hér sé um óvenjulega illviðrarýrð að ræða - en afgangur ársins gæti svo sannarlega bætt úr því. Hinn dagurinn á árinu sem náði þessu máli var 25. janúar (með 42 prósent).
Til að komast á hinn listann gerir ritstjórinn þá kröfu að meðalvindhraði sólarhringsins í byggðum landsins nái meir en 10,5 m/s (ástæða tölunnar er einfaldlega sú að hann vill að til lengdar séu ámóta margir dagar á hvorum lista). Veður gærdagsins vantaði aðeins upp á (meðaltalið var 10,29 m/s) - við getum sagt að það hafi ekki staðið nægilega lengi - eða þá að vindur hafi ekki verið nægilega mikill. Það kom ritstjóranum einnig á óvart að þetta er þriðjahæsta tala ársins. Hinir tveir dagarnir voru 4.júní (norðanhretið mikla) og hvassviðri 7. apríl. Hvorugur þessara daga náði inn á hinn listann og veðrinu 25.janúar var líkt farið og því í gær, að það náði ekki inn á meðalvindhraðalistann. Ekkert illviðri ársins hefur því komist á báða lista - nokkuð óvenjulegt - en kannski rætist úr (vonandi þó ekki).
Spár eru nokkuð órólegar næstu daga - í báðum merkingum þess hugtaks. Spáð er órólegu veðri - og reiknimiðstöðvar senda frá sér næsta ólíkar spár. Þær eru þó um það bil að verða sammála um að eftir helgi komi enn eitt hlýindaskotið - harla óvenjulegt reyndar.
Hér er nýjasta spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á þriðjudag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Segja má að landið allt sé í sumarhlýindum á þessu korti og þykktin meiri en 5580 metrar yfir Austurlandi. Þetta er að vísu ekki alveg einsdæmi í nóvember, en eldri tilvik eru mjög fá. Það er misjafnt hvað þau hafa skilað háum hitatölum á veðurstöðvunum. Ámóta tilvik 8. nóvember 2011 náði 21,0 stigum á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Íslandsmetið í nóvemberhita, 23,2 stig frá Dalatanga 11.nóvember 1999 var sett við ívið lægri þykkt heldur en hér er spáð, en til að met verði sett þarf að hitta í margt í senn. Eitt af því er þétt stöðvakerfi. Nútíminn er þannig líklegri til að ná metum (hvað sem hnattrænni hlýnun líður) út úr hraðfara veðurkerfum að vetrarlagi heldur en gömlu skýlin með sínum hægari loftskiptum - og stöðvarnar mun fleiri. Við vitum þannig nokkuð áreiðanlega af ámóta tilvikum á fyrstu áratugum háloftamælinga - sem ekki náðu að skila 20 stigum og vantaði jafnvel talsvert upp á.
En óróinn á að halda áfram. Kannski er vafasamt að sýna kortið hér að neðan. Líklega á það eftir að breytast mörgum sinnum - en látum okkur hafa það samt (við sýnum stundum kort skemmtideildarinnar).
Hér er kominn fimmtudagur 14.nóvember. Enn er mjög hlýtt austanlands - en köld stroka ryðst með látum að landinu úr vestri. Við skulum taka eftir því að bæði jafnhæðar- og jafnþykktarlínur eru mjög þéttar, þykktarbrattinn dregur mjög úr afli rastarinnar næst jörðu, en mjög lítið misgengi þarf til að hér verði um versta veður að ræða - og einhvers konar norðankast í kjölfarið - skammvinnt eða ekki. Bandaríska veðurstofan er með allt öðru vísi spá - mun mildari. Kannski við trúum henni frekar því eins og áður sagði hefur farið ótrúlega vel með veður allt þetta ár - þótt margir kvarti. Kuldapollar norðurhvels eru nú að ná sér á strik og eru - eins og venjulega til alls líklegir.
Hér hefur ekkert verið minnst á veður helgarinnar. Rétt fyrir þá sem eru í ferðalögum milli landshluta að fylgjast vel með veðri og veðurspám. Munum að engar veðurspár er að finna á hungurdiskum - aðeins umfjöllun um veður.
7.11.2024 | 14:58
Snörp lægð
Þessa dagana eru hlýjar suðlægar áttir ríkjandi á landinu. Þótt fjöldi dægurstöðvameta hafi verið slegin eru hlýindin samt ekki nægileg til að geta talist óvenjuleg eða einstök - alla vega ennþá. Þó nokkuð hafi blásið finnst ritstjóra hungurdiska vindhraði allmennt hafa verið undir væntingum - miðað við stöðuna. Ekki hefur hann þó klórað sér verulega í höfðinu yfir því.
Lægðin sem er að fara til norðurs fyrir vestan land í dag er þó heldur öflugri heldur en fyrirrennarar hennar og spár eru jafnvel að gera ráð fyrir snörpum suðvestan- eða vestanhvelli á Vestfjörðum og sums staðar á Norðurlandi líka. Við skulum reyna að taka mark á þeim - eigum við eitthvað undir.
Kortið er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar og sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) klukkan 21 í kvöld, fimmtudag 7.nóvember og einnig 3 klukkustunda þrýstibreytingu á sama tíma (frá 18 til 21) með litum. rauðir litir sýna fallandi loftvog, en bláir rísandi. Við bendum sérstaklega á blett vestur af Vestfjörðum þar sem þrýstiris sprengir litakvarðann. Loftvog á þar að stíga um +21,3 hPa þar sem mest er. Örar breytingar á loftþrýstingi eru að jafnaði merki um möguleg illviðri, því meiri eftir því sem breytingarnar eru meiri. Þess vegna er ekki annað hægt en að vara við mögulegum stormi - eða því þó meira.
En við sjáum líka á myndinni að lægðin grynnist ört, það er ekkert þrýstifall við hana sem stenst á við hina rísandi loftvog og er hér meira að segja svo langt gengið að stutt hlýtur að vera í dauða lægðarinnar - eða þess anga hennar sem illviðrinu veldur.
Eins og oft hefur verið fjallað um hér á hungurdiskum áður má líta svo á að illviðri megi skýra með misgengi hæðar veðrahvarfanna og hitafars í veðrahvolfi. Það er venjulega svo að kalt loft fylgir lágum veðrahvörfum, en hlýtt háum. Við mælum hitann gjarnan með svonefndri þykkt og með því að fylgjast með dreifingu jafnþykktarlína og jafnhæðarlína veðrahvarfanna getum við líka metið eðli illviðra. Veðrahvörfin eru hins vegar nokkuð erfið viðfangs, en þar sem mjög gott samband er á milli hæðar þeirra og hæðar 500 hPa-flatarins getum við vel notað jafnhæðarlínur þess flatar í stað veðrahvarfanna í vangaveltum okkar.
Misgengið sem um er rætt getur einkum orðið þrenns konar. (i) Séu jafnhæðarlínur mjög þéttar (eins og gerist í háloftaröstum) en jafnþykktarlínur gisnari er það merki um að hes úr röstunum liggi frá þeim í átt til jarðar. Verst er ástandið hverfi jafnþykktarlínurnar alveg undir röstinni. (ii) Séu jafnhæðarlínur gisnar, en jafnþykktarlínur þéttar (loftið undir veðrahvörfunum óvenju kalt) er vindur lítill í háloftum, en öflugur í neðri lögum, því meiri eftir því sem jafnþykktarlínurnar eru þéttari - og þá oft jafnvel af andstæðri átt við háloftavindinn. Við getum talað um lágrastarveður og snúist vindátt við getum við talað um öfugsniðaveður. (iii) Stöku sinnum gerist það að hlýtt loft lokast af undir lágum veðrahvörfum, loftið er þar mun hlýrra heldur en umhverfis. Þetta er óeðlilegt ástand og er þá vindur ekki mestur í háloftum (getur þó verið mikill) heldur vex hann eftir því sem neðar dregur (þar til núnings fer að gæta), bætir sum sé í vind neðarlega í veðrahvolfi. Allir fellibyljir hitabeltisins eru þessarar (iii) tegundar, en hlýindin í þeim miðjum hafa þó orðið til á allt annan hátt heldur en í lægðum þeim á norðurslóðum sem eiga þó þetta sameiginlega einkenni.
Illviðrið sem búist er við í kvöld á Vestfjörðum er þessarar þriðju tegundar. Hlýtt loft hefur lokast af undir fremur lágum veðrahvörfum og bætir í vind í lægri lögum. Þetta veður er þó að fyrirferð með minnsta móti og eiga spárnar því í nokkrum erfiðleikum með að ná því. Bæði verður þetta (innilokunar-)ástand skyndilega til og lifir ekki lengi. Þess vegna er óvissa umtalsverð.
Þó þessi flokkun illviðra sé nokkuð skotheld á hver flokkur sér þó fjölmörg tilbrigði. Sum þeirra reyna á flokkunina - svo til verða greinilegir undirflokkar - allt getur auðveldlega endað í miklu flokkunarfylleríi sem ritstjórinn hefur oft lent á. Slíku fylgja svo sannarlega miklir timburmenn. Bergjum því varlega á veigunum og látum þær ekki leiða okkur á miklar villigötur.
En fylgist með spám Veðurstofunnar og annarra til þess bærra aðila. Ritstjóri hungurdiska er löngu hættur að gefa út spár - framtíðin er óráðin.
3.11.2024 | 21:57
Smávegis af október 2024
Október 2024 er horfinn á braut og rétt eins og fleiri mánuðir að undanförnu var hann í svalara lagi.
Taflan hér að ofan sýnir að hann var kaldastur októbermánaða á öldinni á Ströndum og Norðurlandi vestra, en annars yfirleitt í næstkaldasta til fjórðakaldasta sæti. Athugum þó að hér er reiknað fyrir heil spásvæði - einstakar veðurstöðvar kunna að raðast á annan hátt (sjá yfirlit Veðurstofunnar).
Mánuðurinn var samt mjög tvískiptur. Framan af ríkti eindreginn háþrýstingur, en síðan tók við skammlífari lágþrýstisyrpa. Loftþrýstingur í mánuðinum í held var því ekki óvenjulegur, ólíkt þeim öfgum sem gengið hafa undanfarna mánuði. Þetta þýðir að meðalþrýstikort og meðalhæðarkort háloftanna sýna heldur ekki mjög miklar öfgar.
Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Það var frekar svalt fyrir norðaustan land þykktin þar um 25 metrum neðan meðallags, neðri hluti veðrahvolfs var rúmu einu stigi kaldari en að meðaltali 1981-2010. Annars má segja að hiti sé ofan meðallags á öllu kortinu. Kuldinn einskorðast við þetta litla svæði og var því meiri eftir því sem neðar dró - enda sjáum við að háloftavindáttin er að meðaltali úr norðvestri - og vindátt nærri sjávarmáli af norðri. (En höfum þó í huga hið tvískipta eðli mánaðarins sem áður var á minnst). Kannski drergur að því að hiti verður líka ofan meðallags í norðanátt (verður þá fokið í flest skjól).
En vikin eru meiri neðst og ef taka má mark af greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar var sjór nokkuð kaldur á allstóru svæði fyrir norðan land. Þetta má sjá á kortinu að neðan.
Á ljósgulu og ljósbláu svæðunum er hiti nærri meðallagi (ómarktækt ofan eða neðan við). En það er blettur úti af Húnaflóa þar sem sjávarhitavikið (yfirborð) er allt að -2,8 stig, sem er nokkuð mikið. Hitavikin sem sett eru á hin hefðbundnu hafíssvæði vestur undir Grænlandi eru óviss (það er erfitt að reikna áreiðanleg meðaltöl á slíkum svæðum). Sömuleiðis er ekki ljóst hvort sá munur sem kemur fram á Húnaflóa og Skagafirði annars vegar (hiti vel undir meðallagi) og svæðunum austar (Skjálfanda og Axarfirði - þar sem hiti er í eða rétt yfir meðallagi) er raunverulegur. Ekki er gott að segja hvað veldur þessum neikvæðu hitavikum. Því miður sjást ekki neinar mælibaujur inni á þessu svæði - þær sem sjást eru austar. Ritstjórinn treystir sér því ekki til að vera með neinar ágiskanir um ástæður vikanna, en þær ástæður gætu verið af margvíslegum toga.
Eins og fram hefur komið í yfirliti Veðurstofunnar var mánuðurinn í hægviðrasamara lagi. Ritstjórinn á eftir að kanna það mál (og fleiri) nánar - en sem kunnugt er er hann kominn á eftirlaun og veit minna og minna um málefni líðandi stundar.
Þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.
Vísindi og fræði | Breytt 4.11.2024 kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2024 | 17:15
Spáð í ársmeðalhitann
Fyrir nokkrum dögum birtist hér á hungurdiskum pistill um hita íslenska ársins (frá fyrsta vetrardegi 2023 til síðasta vetrardags 2024). Í ljós kom að hann var í lægra lagi miðað við tískuna síðustu áratugi, sá lægsti frá því fyrir aldamót. Í framhaldi af því var ritstjórinn spurður hvort sama yrði með árið í heild.
Sannleikurinn er auðvitað sá að ekki er enn hægt að reikna meðalhita ársins alls - tveir mánuðir eru til loka þess. Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) hefur fyrir löngu tekið upp þann plagsið að gefa út yfirlýsingar um ársmeðalhitann löngu áður er árið er liðið. Ritstjóri hungurdiska er ekkert allt of hrifinn af slíku - en hefur samt stundum áður látið tilleiðast að gera ámóta reikninga.
Þeir fara þannig fram að meðalhiti fyrstu tíu mánaðanna er reiknaður fyrir fjölda ára og borinn saman við endanlegan meðalhita sama árs. Svo er athugað hvernig fer allmennt fyrir áætlunum.
Myndin hér að neðan sýnir mismun meðalhita ársins og meðalhita fyrstu tíu mánaða þess í byggðum landsins.
Við leyfum okkur það óhóf að fara 200 ár aftur í tímann. Meðalmunurinn er um 0,7 stig. Meðalhiti fyrstu tíu mánaða þessa árs er 4,1 stig og líklegur ársmeðalhiti því 3,4 stig. En í raunveruleikanum eru nokkrar sveiflur frá ári til árs. Mestur var munurinn árið 1880. Það hafði verið sérlega hlýtt, en síðustu tveir mánuðir ársins voru alveg sérlega kaldir. Spá um meðalhita þess árs gerð í lok október hefði tekist mjög illa. Svipað má segja um fleiri ár, t.d. 1824 og 1841, en í þeim tilvikum lauk árinu á óvenjulegum kuldaköflum. Á síðari árum munar mest 1973 en margir muna enn þá miklu kulda sem gerði þá síðustu tvo mánuði ársins.
Meðalhiti hefur alltaf lækkað frá 10-mánaða meðaltalinu yfir í ársmeðaltalið. Minnstu munaði þó haustið 2002, en þá voru nóvember og desember alveg sérlega hlýir.
Við getum líka gert þetta á annan hátt. Reiknað línulega aðfallsjöfnu:
Dreifiritið lítur svona út. Við sjáum að sambandið er harla gott. Örfá ár hanga neðan í aðalskýinu. Það eru þau sömu og við höfum nefnt. Lítilsháttar halli er á línunni. Séu fyrstu tíu mánuðirnir hlýir verður munurinn á ársmeðalhitanum og tíumánaðahitanum heldur meiri en þegar mjög kalt er. En munurinn er þó ekki mikill. Ef við reiknum út spá fyrir árið í ár með þessari aðferð verður niðurstaðan sú sama og áður, 3,4 stig. Við sjáum líka að þrátt fyrir að mörgum hafi þótt veður frekar kalt er meðaltalið í ár þó ofan meðaltal tímabilsins alls. Hefðu fyrstu tíu mánuðirnir verið óvenjuhlýir hefðum við samkvæmt þessum reikninum þurft að draga meira frá tíumánaðahitanum heldur en meðaltalið (0,7 stig).
En hvað gerist svo? Það vitum við ekkert um. Verði nóvember og desember sérlega hlýir gæti ársmeðalhitinn hangið í 3,8 stigum eða svo. Það yrði þá kaldasta ár frá 2015. Standist spáin um 3,4 stig verður árið hins vegar það kaldasta síðan 1998. Verði nóvember og desember óvenjukaldir, verður árið e.t.v. það kaldasta frá 1995. En þá var meðalhiti á landsvísu ekki nema 2,8 stig. Til þess að hrapa um 1,3 stig eða meira frá tíumánaðahitanum nú þurfum við nóvember og desember eins og 1973 (eða nærri því). Einhvern veginn vonar ritstjórinn að svo verði ekki - en smekkur manna er misjafn eins og gengur.
Við reynum hins vegar að gleyma þessari spá eins fljótt og mögulegt er.
28.10.2024 | 17:49
Litið á nokkur veðurkort - þriðjudag 29.október
Við lítum nú á fáein veðurkort sem öll sýna stöðuna síðdegis á morgun, þriðjudaginn 29.október 2024. Þetta er ekki sérlega merkileg staða - en þó má nota hana til að benda á notagildi kortanna. Þessi pistill er fyrst og fremst skrifaður með uppeldisleg sjónarmið í huga - þeir sem ekki taka slíku þurfa auðvitað ekki að lesa lengra. Finna má mikið úrval spákorta á vefnum - og kannski er það orðið eitt aðalvandamál veðurfræðinga nú til dags að velja sér kort til skoðunar - fer það eftir stöðu hvers dags hversu gagnleg hver gerð er. Það úrval sem við bjóðum upp á í dag er þannig aðeins lítill hluti þess sem hægt er að velja um. Enn erfiðara er að einnig er úr fjölmörgum mismunandi líkönum að velja. Þau eru engan veginn sammála, aðalatriðin kannski þau sömu fyrsta sólarhringinn, en smáatriðin ekki og eftir því sem spár ná yfir fleiri daga verður fjölbreytni þess veðurs sem boðið er upp á meiri og meiri.
Sú spá sem við lítum hér á er í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar og er byggð á greiningu á miðnætti síðastliðnu - þetta er því 42 stunda spá sem gildir kl.18 á morgun. Önnur spá - með sömu kortum er væntanleg nú undir kvöld. Einhver munur verður á þessum tveimur spárunum, en aðalatriðin ættu samt að verða þau sömu.
(i) Þetta kort sýnir hæð 300 hPa-flatarins og vind í honum síðdegis á morgun. Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Flöturinn er í um 9 km hæð yfir jörð. Hefðbundnar vindörvar sýna vindstefnu og styrk, en litir merkja þau svæði þar sem vindurinn er mestur. Dekksti blái liturinn sýnir vindhraða meiri en 80 m/s. Við sjáum hér bút úr heimskautaröstinni svonefndu sem hlykkjast í kringum norðurhvel - oftast þó í bútum. Það svæði þar sem vindurinn er mestur köllum við rastarkjarna - við getum líka notað hugtakið skotvindur (rastarinnar). Ritstjóri hungurdiska hefur þá sérvisku að vilja ekki nota orðið skotvindur um heimskautaröstina sjálfa - heldur aðeins þá hluta hennar sem líta út eins og sést á myndinni. Kannski bananalaga, oftast snýr kryppan til norðurs, en önnur kryppulega sést líka. Vindhraði í heimskautaröstinni er gjarnan mestur nærri veðrahvörfunum, á mörkum veðrahvolfs og heiðhvolfs. Svo vill til að í þessu tilviki gætir vindsins í röstinni lítt við jörðu. Það stafar af því að niðri í veðrahvolfi jafnar mikill hitamunur hann upp. Kalt loft liggur í neðri lögum - vestan og norðan rastar.
Það sjáum við að nokkru á næsta korti. (ii) Það sýnir hæð 500 hPa-flatarins, vindstefnu og styrk, en litirnir sýna hita í fletinu. Ekki er alveg jafnhvasst í þessum fleti (í rúmlega 5 km hæð) og er uppi í 300 hPa, en nóg samt, 50 til 60 m/s þar sem mest er. Dreifing hitans kemur fram sem mislitir borðar, þeir eru örmjóir við suðurströnd Íslands og sýnir það hitabrattann, mörgum stigum hlýrra er rétt sunnan við land heldur en yfir landinu. Þegar komið er norður á landið er hitamunur ekki teljandi á stóru svæði. Í rauninni er þetta loft ekki sérlega kalt, það eru frekar hlýindin suður af sem eru mikil. Ef við gætum svipt röstinni burt og látið hitadreifinguna eina um að búa til vindinn myndu þrýstilínur verða mjög þéttar þar sem jafnhitalínurnar eru þéttastar - og vindur blása að austnorðaustri. Þessi austnorðaustanátt - sem ekki sést - dugar að mestur til að jafna út ofsafengna vestsuðvestanátt háloftarastarinnar - þannig að vindur á landinu er ekki mikill.
Við förum nú niður í 925 hPa. (iii) Það er um það bil fjallahæð, um 700 metrar í þessu tilviki. Það er dálítill vindstrengur sunnan við landið - vestsuðvestanátt rastarinnar rétt nær til jarðar, en mjög skert. Örsmá lægð er norðan við land - á leið til Noregs.
Hér erum við komin niður að sjávarmáli. (iv) Yfir landinu er hálfgerð áttleysa, en ákveðnari vestanátt (tengd háloftaröstinni) sunnan við land. Grænu litirnir sýna úrkomu, hún er nokkuð ákveðin á landinu suðvestanverðu. Inni í úrkomusvæðunum má sjá litla þríhyrninga, þeir gefa til kynna að úrkoman sé af klakkauppruna, skúradembur. Einnig má sjá tákn fyrir snjókorn inni yfir landi (hærra yfir sjávarmáli). Það kemur nokkuð á óvart hversu stór hluti úrkomunnar er klakkakyns, venjulega er úrkoma það síður undir háloftaröst í hæðarsveigju. En hér er líkanið að segja okkur að einhver óstöðugleiki liggur í veðrahvolfinu. Til að greina ástæðu hans nánar þyrftum við helst að fá að sjá svokallað þversnið - en slík eru ekki á lager sem stendur. Við látum því nægja að trúa þessu bara.
Á þessu korti (v) má enn sjá jafnþrýstilínur sjávarmálskortsins (heildregnar), en aðrar upplýsingar eru úr 700 hPa-fletinum, í um 3 km hæð. Þar eru vindörvar, vindur undir háloftaröstinni er um 25 m/s úr vestsuðvestri. Litir sýna lóðréttar hreyfingar, þær eru mældar í Pa/s (Pasköl á sekúndu) - talan 1 er ekki mjög fjarri 0,1 m/s. Bláu litirnir sýna uppstreymi, en þeir brúnu niðurstreymi. Landið vekur bylgjur, hreyfingin er upp yfir Suðvesturlandi, en síðan til skiptis upp og niður. Ákafinn er mestur áveðurs, þar sem dekksti blái liturinn sýnir svæði þar sem uppstreymið er meira en 2 Pa/s - samsvarar um 0,2 m/s. Það meir en nægir til að kæla loftið (þegar loft lyftist til lægri þrýstings kólnar það) og þar með þétta rakann sé loftið mettað. Úrkoma fellur. Á niðurstreymissvæðunum verður skýjarof (í þessari hæð).
(vi) Hér erum við komin upp í 400 hPa, kringum 7 km hæð, jafnhæðarlínur eru heildregnar. Brúnu litirnir sýna svonefnt iðumætti. Iðumætti segir okkur frá því hversu þétt mættishitafletir liggja. Þeir liggja mun gisnara í veðrahvolfinu heldur en uppi í heiðhvolfi. Hiti fellur að meðaltali um 0,6 stig á hverja 100 metra í veðrahvolfi, alloft um allt að 1 stig á 100 metra, en stundum minna. Stöku sinnum hækkar hiti með hæð. Þá tölum við um hitahvörf. Hegðun hitafalls með hæð greinir að heiðhvolf og veðrahvolf. Í heiðhvolfi fellur hiti nær ekkert með hæð (alla vega mjög lítið miðað við veðrahvolfið). Veðrahvörfin liggja mishátt og ná stundum niður í 400 hPa (og stöku sinnum enn neðar). Komi fram svæði með miklu iðumætti í 400 hPa bendir það til þess að þar komi loft úr heiðhvolfi við sögu. Á kortinu sjáum við borða af slíku lofti liggja suðvestan úr hafi, yfir Ísland og alveg austur til Noregs. Þetta er einmitt í jaðri rastarinnar - á norðvesturhlið hennar. Röstin dregur loft niður vinstra megin við rastarkjarnann. Suðvestan við Grænland má sjá lítinn hnút með miklu iðumætti. Hann berst til Íslands og kemur hér við sögu á fimmtudag (sé að marka spár) og á þá að hreinsa frá - vindur að snúast til norðurs í bili.
Eru nú flestir farnir að þreytast (en engin miskunn er sýnd). (vii). Hér má enn sjá sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur). Litirnir sýna hins vegar svonefndan stöðugleikastuðul. Grænu svæðin gefa mjög stöðugt loft til kynna, en brúnir litir óstöðugt. Brúni borðinn sýnir að loftið við Ísland er nokkuð óstöðugt og ber nokkuð saman við hin lágu veðrahvörf á fyrri mynd. Skýrir kannski úrkomuna sem við vorum að velta vöngum yfir.
Nú (viii) förum við upp í 100 hPa-flötinn, hann er í um 16 km hæð. Litir sýna hita. Hér er hlýrra fyrir norðan land heldur en fyrir sunnan. Einmitt einkenni rastarinnar. Hún dregur loft niður fyrir norðan og vestan - það hlýnar í niðurstreyminu. Við getum því (óbeint) séð legu rastarinnar á þessu korti, jafnvel þótt miðja hennar sé ekki greinileg sé litið á vindhraðan einan.
Og uppi í 30 hPa (ix), í um 23 km hæð ná áhrif rastarinnar ekki. Á þessum árstíma kólnar þar hægt og bítandi - heimskautanótt vetrarins dreifir smám saman úr sér og sólin hættir að hita ósonið (og fleira). Ákveðin hringrás er hér að verða til í kringum heimskautið, vindhraði þó ekki nema um 25 m/s, en þetta er upphaf skammdegisrastarinnar sem mjög er í tísku þessi árin. Hún hringar sig í kringum skammdegissveipinn (stratospheric polar vortex) sem sumir segja að ráði miklu um vetrarveðráttu á meginlöndunum (ekki þó fullt samkomulag um það). En ótrúlegar umræður skapast þó á hverjum vetri um stöðu sveipsins og uppbrot hans og rastarinnar. En haustið er ekki nægilega langt framgengið til þess að samband sé komið á á milli heimskautarastar og skammdegissveips - enda er skammdegisröstin ekki búin að ná máli - og heimskautaröstin varla heldur.
Síðasta kortið ætti að vera föstum lesendum hungurdiska kunnugt. Það sýnir hæð 500 hPa-flatarins á norðurhveli ásamt þykktinni (litir). Jafnhæðarlínurnar eru mjög þéttar sunnan Íslands (röstin). Fjarlægðin frá bylgjudalnum við Nýfundaland til næsta bylgjudals austan við er óþægilega löng - getur varla haldist það í marga daga. Kryppumyndun er því líkleg - jafnvel síðar í vikunni. Leiðinlegur kuldapollur er við Spán (þar eru appelsínuviðvaranir í gildi) - og mikil hlýindi víða í Bandaríkjunum.
Við megum gjarnan taka eftir því að á norðurslóðum eru engir afgerandi kuldapollar, tiltölulega jafn kuldi á öllu bláa svæðinu og jafnhæðarlínur inni í því ekki þéttar. Þetta er ekki óvenjulegt ástand á þessum tíma árs. Kuldapollarnir stóru ættu að fara að sýna sig þegar kemur fram í nóvember og síðan ná fullum þroska á jólaföstunni. Þangað til tölum við enn um haustveðráttu.
24.10.2024 | 22:15
Íslenska sumrinu lýkur
Fyrsti vetrardagur er á laugardaginn kemur (26.október) og óhætt að reikna meðalhita liðins sumars - allt frá sumardeginum fyrsta, en hann bar upp á 25.apríl í ár (2024). Að vísu lifa enn tveir dagar, en þeir munu ekki hnika meðalhitanum neitt sem heitir, þótt það gerist alloft að síðustu dagana hrekkur hitinn til á aukastaf - vegna upphækkana - eða niðurfellingar annars aukastafs (okkur smámunasömum til hrellingar).
Sumarið var í kaldara lagi miðað við það sem verið hefur í tísku síðustu 25 árin.
Meðalhiti í byggðum landsins reiknast 7,1 stig og er það -0,9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og -0,6 stigum neðan meðallags 1991 til 2020. Næstkaldasta sumarmisseri aldarinnar, 2015 var lítillega kaldara - en ekki marktækt. Myndin nær aftur til 1949. Ef vel er að gáð má koma auga á strikalínu þvert yfir myndina - neðan hennar hefur sumarhiti verið lægri heldur en nú. Þannig var flest ár frá og með 1963 til 1999, enda er hiti sumarsins nú +0,3 stigum yfir meðallagi sumra á tímabilinu 1961 til 1990. Langkaldast var 1979, en hlýjast 2010 - þetta á við landið í heild.
Í Reykjavík er meðalhitinn 7,9 stig, sjónarmun kaldara var þar 2018. Á Akureyri er meðalhitinn 7,5 stig, rétt ofan við 2015 (sem margir muna).
Við skulum líka (til tilbreytingar) reikna meðalhita þess sem við getum kallað íslenska árið, vetrar- og sumarmisserin saman. Það eru eitthvað skiptar skoðanir um það hvenær á að skipta um ár í íslenska tímatalinu - við gætum gert hvort sem er. Hér reiknum við hitann frá fyrsta vetrardegi í fyrra til dagsins í dag - og fyrir önnur ár frá fyrsta vetrardegi til síðasta vetrardags árið á eftir. Til þess að gera þetta rétt verðum við að vita hita hvers daga. Fyrir landið í heild náum við aðeins aftur til 1949. Byrjum á að líta á það.
Hér sjáum við að það ár sem nú er nærri liðið er afgerandi það kaldasta á landinu aftur til aldamóta - og lægri tölu höfum við ekki séð síðan 1996-97, í 27 ár. Fólk man nú yfirleitt ekki veður fyrstu æviára sinna - þannig að óhætt mun að segja að varla nokkur undir 35 ára aldri muni jafnkalt ár. - En það er eins og með sumarhitann að á sjöunda og níunda áratugnum hefði þetta talist fremur hlýtt ár - og í góðu lagi á þeim áttunda. Við sem komin erum á áttræðisaldur munum kuldana auðvitað eins og þeir hefðu verið í gær.
Að meðaltali munar um 0,3 stigum á ársmeðalhita í Stykkishólmi og á landinu, landmeðalhitinn er lítillega lægri - auðvitað eru samt nokkur áraskipti, en mjög svipað lag er á langtímasveiflum. Í Stykkishólmi vitum við daglegan hita allt aftur til hausts 1845 (nema haustið 1919) og getum því reiknað ársmeðalhitann íslenska allt það tímabil.
Þetta ætti að vera orðin kunnugleg mynd hjá þrautseigari hluta lesenda hungurdiska. Sá hluti myndarinnar sem nær yfir árin frá 1950 er nærri því eins og fyrri mynd - en hér getum við litið miklu lengra aftur. Við það dettur leitnin úr +1,4 stigum á öld, niður í +0,9 stig - sem sýnir að til að reikna leitni þurfum við langan tíma, 75 ár duga ekki. Að auki segir leitnin sem slík ekkert um framtíðina.
En árið í ár hefði verið hlýtt fyrir 1920 (strikalínan merkir meðalhita þess þvert yfir myndina), en þá var breytileiki hitans frá ári til árs líka mun meiri en hann hefur verið síðustu árin. Hafísnum er venjulega kennt um. Nærvera hans stingur inn fáeinum ofurköldum mánuðum sem hver um sig hefur mikil áhrif á meðalhitann, jafnvel þótt aðeins sé um staka mánuði að ræða þar sem slíkt ástand ríkir hverju sinni. Undantekning var veturinn 1880 til 1881 - frostaveturinn mikli - þegar ísinn hafði þessi ofuráhrif marga vetrarmánuði í röð - fleiri heldur en t.d. 1917 til 1918 eða 1865 til 1866. Meðalhiti þessa kalda árs var rétt ofan frostmarks í Stykkishólmi.
En eins og sagði hér að ofan er framtíðin frjáls.
Vísindi og fræði | Breytt 25.10.2024 kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.7.): 8
- Sl. sólarhring: 261
- Sl. viku: 1315
- Frá upphafi: 2486383
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 1163
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010