Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2025

Hlýindaspá

Spár gera ráð fyrir hlýindum á landinu næstu vikuna eða svo. Þess er þó varla að vænta að markverð landsmet verði sett, þó eitt núverandi dægurhitamet liggi vel við höggi því það er áberandi lægra heldur en þau sem eru dæmigerð. Dagana 4. til 15. apríl eru öll landsdægurmet yfir 16 stigum, nema þann 7., það er ekki nema 14,4 stig sett á Kollaleiru í Reyðarfirði árið 2011. Hæsta hitatala fyrri hluta aprílmánaðar er hins vegar 21,2 stig sett í Neskaupstað þann 3. árið 2007 og hiti fór líka yfir 20 stig á Skjaldþingsstöðum þann 9. árið 2011. Staðan er þannig núna að svo gríðarháar tölur kæmu nokkuð á óvart - en miði er möguleiki. Spár dagsins gera ráð fyrir hámarksþykkt, meiri en 5520 metrum yfir austanverðu landinu í næstu viku - of langt er í það nú til að við getum treyst slíkum spám. 

w-blogg030425i

Við getum hins vegar verið sæmilega viss um að þykktin verður vel yfir meðallagi næstu tíu daga eins og spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar hér að ofan sýnir. Myndarlegt, hlýtt háþrýstisvæði er við norðanverðar Bretlandseyjar og beinir hingað mjög hlýju lofti langt úr suðri. Hámarksþykktarvikið á kortinu er um 150 metrar, hiti í neðri hluta veðrahvolfs meir en 7 stig ofan meðallags. 

Þótt varla sé búist við hrinu landsdægurmeta eru metahrinur líklegri á einstökum veðurstöðvum. Við skulum til gamans líta á hámarkshitadægurmet Reykjavíkur. 

w-blogg030425a

Rauðu súlurnar á myndinni sýna hámarksdægurmet Reykjavíkur alla daga ársins. Þau eru flest kringum 9 stig, eða rétt rúmlega það í janúar til mars, en fara síðan ört hækkandi, sérstaklega undir lok aprílmánaðar. Enn vantar talsvert upp á að allir dagar júlí og ágústmánaðar hafi nokkru sinni náð 20 stigum. Strikalínan ofan við sýnir hins vegar landsdægurmetin, talsvert hærri en þau í Reykjavík.

Til að sjá betur þann árstíma sem nú stendur yfir er hér önnur mynd.

w-blogg030425b

Við lítum nánár á hluta línuritsins að ofan. Það er 25.janúar sem á 10,1 stig alveg lengst til vinstri á línuritinu. Síðasti dagur lengst til hægri er 22.júní. Lægsta hámarksdægurmetið er 8,0 stig. Það á reyndar hlaupársdagurinn 29.febrúar, hann er verr settur en aðrir dagar í keppni sem þessari, fær aðeins að taka þátt fjórða hvert ár - en það kemur væntanlega að því að hann hittir í einhverja hærri tölu en hann hefur enn nælt sér í. Í mars hækka tölurnar smátt og smátt, sól hækkar á lofti. Fáeinir dagar skera sig úr fjöldanum og eru sérmerktir á myndinni, 27. mars 1948 er dæmi. Stendur sig miklu betur heldur en vænta mætti - enda var þetta mjög óvenjulegur dagur víða um land. Fyrri hluti apríl er frekar snautlegur miðað við þessa fínu daga um mánaðamótin. Dægurmetin liggja á bilinu 10,3 stig og upp í 12,5 stig. Það er ekki fyrr en þann 16. að 13 stigin fara að ná sér á strik, og enginn dagur kemst upp fyrir 27.mars fyrr en 25. apríl 2019. Þá fór hámarkið í 14,7 stig. Tveir aðrir dagar (26. og 30.apríl) árið 2019 settu líka ný met - og sá síðarnefndi á enn mánaðarmet apríl í Reykjavík, 17,1 stig. 

Fyrstu 20 stig vorsins í Reykjavík eru frá 14.maí 1960. Sá dagur er einnig sérstakur fyrir það að vera sá eini á árinu þar sem Reykjavík á líka landsdægurmetið. Annars eru metin síðari hluta maí flest á bilinu 17 til 18 stig. 

Nú er það svo að spár reiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu daga gera ekki ráð fyrir nýjum dægurhitametum í Reykjavík. Ástæðan er þó ekki skortur á hlýju lofti heldur fremur að það sjáist full lítið til sólar og að vindátt verði ekki nægilega austlæg. En staðan er samt þannig að rétt er að gefa málinu gaum og reyna að grípa góðviðrisgæsina ef hún gefst. 

Við notum tækifærið og lítum á eina mynd til viðbótar. 

w-blogg030425c

Hún sýnir mismun á hámarkshitadægurmetum landsins alls og Reykjavíkur. Einn dag ársins er munurinn núll, 14.maí eins og áður er nefnt. Mestur er munurinn 11.nóvember, 11,5 stig. Ekki er um marktæka árstíðasveiflu að ræða - heldur tilviljanakennt allt saman, meðalmunur í kringum 6 stig allt árið. 

Eins og sjá mátti á fyrstu myndinni, þeirri sem sýndi þykktarvik á Atlantshafi er ástæðu hlýindanna að leita í kryppu á hringrás vestanvindabeltisins. Hin miklu hlýindi einskorðast við tiltölulega afmarkað svæði. Kaldara er bæði austan og vestan við. Köldu vikin eru þó minni en þau hlýju, bendir kannski til þess að þeir kuldapollar sem þar verða á ferð séu ekki mjög fyrirferðarmiklir eða fastir fyrir. En það þarf samt að fylgjast vel með þeim næstu vikurnar. 


Smávegis af mars 2025

Mars var hlýr hér á landi, en eins og í febrúar vantaði þó upp á methlýindi. Taflan sýnir hvernig hiti á spásvæðunum raðast. Hún nær til 25 ára - í marspistli Veðurstofunnar má finna meðaltal og röðun á einstökum stöðvum. 

w-blogg020425a

Að tiltölu var hlýjast við á Vestfjörðum þar sem þetta var næsthlýjasti mars á öldinni, en ívið hlýrra var í mars 2004. Á öðrum spásvæðum er algengast að hitinn raðist í 3. til 5. hlýjasta sæti aldarinnar, á Suðurlandi þó í sjöunda sæti og það sjötta á Miðhálendinu. 

w-blogg020425b

Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Hér á landi var þykktin 65 til 70 metrum yfir meðallagi, hiti var því 3,0 til 3,5 stig ofan meðallags í neðri hluta veðrahvolfs. 

Vestanáttin í háloftunum var vel yfir meðallagi, en sunnanáttin í meðallagi - eins og kortið sýnir. Svipuð vindastaða var uppi í mars 2021, en þá var þó kaldara en nú - hlýindin voru mest um landið austanvert. Hlýindi eru um mestallt svæðið sem kortið sýnir, mest á norðvestanverðu Grænlandi. Kuldapollurinn Stóri-Boli fjarri sínum venjulegu beitarhögum. Eins og sjá má á kortinu var aftur á móti kuldapollur yfir Pýrenneaskaga, enda var þar úrkomusamara og kaldara heldur en venjulega í marsmánuði.

Við þökkum BP fyrir kortagerðina - að vanda. 


Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg030425c
  • w-blogg030425b
  • w-blogg030425a
  • w-blogg030425i
  • w-blogg020425b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.4.): 33
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 1583
  • Frá upphafi: 2458670

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 1442
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband