Sérlega hlýr ágústmánuður

Nýliðinn ágústmánuður var (rétt eins og júlí) sérlega hlýr á landinu. Methlýindi voru um allt norðanvert landið, hafa aldrei verið meiri í ágúst á fjölmörgum veðurstöðvum og á nokkrum stöðvum var mánuðurinn hlýrri en nokkur annar mánuður hefur verið til þessa, t.d. bæði í Stykkishólmi og í Grímsey, en athuganir hafa verið gerðar á þeim stöðum frá því á 19.öld. Þetta er líka hlýjasti mánuður sem við vitum um á Hveravöllum. Í Reykjavík er þetta næsthlýjasti ágústmánuður allra tíma - lítillega hlýrra var 2003. Á Teigarhorni var hann næsthlýjastur, ásamt ágúst 1947, lítillega hlýrra var þar í ágúst 2003 rétt eins og í Reykjavík. Heldur svalara að tiltölu var syðst á landinu. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var hitinn í 6.hlýjasta sæti ágústmánaðar. Við bíðum endanlegrar staðfestingar á tölum í yfirliti Veðurstofunnar sem ætti að vera tilbúið á morgun (fimmtudag) eða á föstudag. 

w-blogg010921i

Taflan sýnir eins konar uppgjör fyrir einstök spásvæði. Víðast hvar er mánuðurinn sá hlýjasti á öldinni. Það er aðeins á Suðausturlandi, Suðurlandi og við Faxaflóa þar sem hitinn er ekki í fyrsta sætinu.

Meðalhiti í byggðum landsins í heild reiknast 12,2 stig. Það jafnar fyrra met, úr ágúst 2003 og meira en hæst hefur orðið í öllum öðrum mánuðum ársins.

Ágústmeðalhámarkshiti veðurstöðvar varð nú hærri en áður, 19,0 stig, það var í Ásbyrgi. Hæsta eldri tala sem við hiklaust viðurkennum er 18,4 stig (Staðarhóll í ágúst 2004). Lágmarksmeðalhitamet var slegið - ekki aðeins fyrir ágúst heldur fyrir alla mánuði.  Hann mældist nú hærri en nokkru sinni. Það gerðist á Bíldudal, 11,6 stig. Eldri met (fyrir hvaða mánuð sem er) er 11,0 stig (Garðar í Staðarsveit, júlí 1991, Surtsey, júlí 2012 og Arnarstapi á Snæfellsnesi, júlí 1943 (vafasamt)). Hæsti meðallágmarkshiti í ágúst til þessa var 10,9 stig, í Vestmannaeyjakaupstað 2003.

Það er líka óvenjulegt að hiti komst upp fyrir 20 stig 20 daga í mánuðinum. Er það með mesta móti, mest er vitað um 23 slíka daga í einum mánuði (ágúst 2003) síðustu 70 árin rúm.

Uppgjör Veðurstofunnar með endanlegum hita-, úrkomu- og sólskinsstundatölum mun eins og áður sagði væntanlega birtast fljótlega. Úrkoma var lítil víða norðaustan- og austanlands, sumstaðar minni en í ágúst í fáeina áratugi. Úrkoma var einnig neðan meðallags víða á Suður- og Vesturlandi, en á því voru samt nokkrar undantekningar, sérstaklega á utanverðu Snæfellsnesi og á stöku stað austanfjalls.

Suðvestanlands var sólarlítið, sólskinsstundir hafa ekki verið jafnfáar í Reykjavík í ágúst síðan árið 1995, en mjög sólríkt inn til landsins norðaustanlands. Mögulegt er að sólskinsstundamet ágústmánaðar verði slegið á Akureyri - eða alla vega nærri því - við Mývatn mældust sólskinsstundir nú ámóta margar og í ágúst 2004. Endanlegar tölur ættu að liggja fyrir næstu daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg230424
 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.4.): 293
 • Sl. sólarhring: 442
 • Sl. viku: 1609
 • Frá upphafi: 2350078

Annað

 • Innlit í dag: 262
 • Innlit sl. viku: 1465
 • Gestir í dag: 259
 • IP-tölur í dag: 250

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband