Bloggfærslur mánaðarins, október 2021

Nærri meðallagi víðast hvar

Í öllum aðalatriðum hefur farið vel með veður í október. Hiti á landinu í heild er nærri meðallagi (+0,1 stigi ofan meðallags 1991 til 2020). Heldur svalara hefur verið fyrir norðan heldur en á Suðurlandi. Taflan sýnir stöðuna þegar einn dagur er eftir af mánuðinum - röðin sem nefnd er hliðrast trúlega lítillega (sáralítill munur er á tölum nærri miðri röð).

w-blogg311021a

Á Suðurlandi er þetta sjöttihlýjasti októbermánuður aldarinnar, en sá 16.hlýjasti á Norðurlandi eystra (fimmtikaldasti). 

Úrkoma er neðan meðallags í Reykjavík (eins og reyndar í flestum mánuðum ársins), en á Akureyri hefur hún verið með allra mesta móti - þó líklega ekki metmikil. Það er á fleiri stöðvum á sömu slóðum sem úrkoma er nærri metmagni októbermánaðar. Við látum Veðurstofuna um að gera það upp. 

Sólskinsstundafjöldi er ofan meðallags í Reykjavík, en neðan þess á Akureyri. 


Landafræði lofthjúpsins - meðalhiti og breiddarstig

Fyrir 11 árum (19.nóvember 2010) birtist hér á hungurdiskum stuttur pistill sem bar yfirskriftina „Hlýtt er á Íslandi - miðað við landfræðilega breidd“. Þar segir m.a.: „Flestir vita að hér á landi er mjög hlýtt miðað við það að landið er á 65° norðlægrar breiddar, rétt við heimskautsbauginn nyrðri. Ein ástæðan er sú að landið er umkringt sjó sem geymir í sér varma sumarsins og mildar veturinn“. Fleiri ástæður koma við sögu - t.d. móta bæði Grænland og fjarlægir fjallgarðar tíðni vindátta - suðlægar áttir eru mun tíðari hér í háloftunum heldur en norðlægar (þó suðaustan-, austan- og norðaustanáttir séu algengastar við jörð). Í pistlinum var einnig að finna lítillega einfaldari gerð myndarinnar hér að neðan.

w-blogg261021b

Á láréttum ás myndarinnar má sjá breiddarstig, 20 gráður norður eru lengst til vinstri, en norðurpóllinn lengst til hægri. Lóðrétti ásinn sýnir ársmeðalhita. Svörtu punktarnir sýna ársmeðalhita á 87 veðurstöðvum víða um norðurhvel jarðar. Gögnin eru úr meðaltalssafni Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) fyrir tímabilið 1961-1990. Þó hlýnað hafi síðan breytist halli línunnar nánast ekki neitt og hreyfing hennar upp á við svo lítil að varla sæist. Við tökum strax eftir því að mjög gott samband er á milli breiddarstigs stöðvanna og ársmeðalhitans. Ef við reiknum bestu línu gegnum punktasafnið kemur í ljós að hiti fellur um 0,7 stig á hvert breiddarstig norður á bóginn.

Það má taka eftir því að á köldustu stöðinni er ársmeðalhitinn nærri mínus 20 stigum, ívið kaldara en hér er talið hafa verið á ísöld. Á þeirri hlýjustu er meðalhitinn um 27°C. Spönnin er um 47 stig. Hver skyldi hafa verið halli línunnar á ísöld? - Breytist hann eitthvað í framtíðinni vegna enn ákafari hlýnunar?

Punktarnir ofan línunnar eru staðir þar sem hlýrra er en breiddarstigið eitt segir til um. Reykjavík er meðal þeirra. Sjá má að ársmeðalhitinn er um 6°C hærri en vænta má og svipaður og er að jafnaði á 55°N. Haf - og landfræðilegar aðstæður aðrar valda þessum mun eins og áður sagði.

En höldum nú aðeins áfram með smjörið og lítum til austurs og vesturs - innan bilsins sem lóðréttu línurnar á myndinni marka, 59 til 66 gráður norðurbreiddar.

w-blogg261021

Hádegisbaugur Greenwich er merktur sem núll (0°), austurlengd er jákvæð á myndinni - allt austur að 180°A og vesturlengd neikvæð vestur á 180°V. Allra austasti hluti Síberíu er handan 180° baugsins „vestast“ á þessari mynd. Lóðrétti ásinn sýnir meðalhita. 

En hér eru mislitar punktadreifar, sú græna táknar ársmeðalhitann - sú bláa er janúarhiti, en sú rauða júlíhiti. Ársmeðalhiti er óvíða hærri á þessu breiddarbili (59 til 66°N) heldur en hér á landi - Noregsströnd hefur örlítið betur. 

Í janúar er munur á meginlöndunum og hafi enn meiri, hiti hér á landi er ekki fjarri frostmarki við ströndina, en frostið meira en -40 stig að meðaltali austur í Síberíu og í kringum -30 stig á okkar breiddarstigi vestur í Kanada. Mun hlýrra er í janúar við norðanvert Atlantshaf heldur en á sama breiddarstigi við Kyrrahaf - enda er oft hafís í Beringshafi vestan Alaska og norðan Aljúteyja. 

Í júlímánuði ber svo við að óvíða er kaldara á sama breiddarstigi heldur en hér - á Grænlandi reyndar og austast í Kanada - og við Beringshaf - en annars staðar er hlýrra í júlí heldur en hér. 

w-blogg261021c

Myndin sýnir samband breiddarstigs og meðalhita júlímánaðar. Hér fellur hiti um um það bil 0,5 stig á hvert breiddarstig - heldur minna en í ársmeðaltalinu. Þó Ísland (hér Reykjavík) sé með kaldari stöðum á sama breiddarstigi er hiti hér samt ekki langt frá því sem almennt samband segir - punkturinn liggur mjög nærri aðfallslínunni. Við megum taka eftir því að flestar stöðvar norðan við 70. breiddarstig eru marktækt neðan hennar - bein áhrif frá þeirri vinnu sem fer í að bræða hafísinn í Íshafinu og vetrarsnjó á landi. Haldi hnattræn hlýnun sínu striki munu þeir staðir sem nú eru á jaðri hafíssvæðanna hlýna mest - færast nær aðfallslínunni - og sömuleiðis þeir staðir þar sem vetrarsnjór minnkar. Jan Mayen er t.d. hér meir en 5 stigum neðan aðfallslínunnar - Ammasalik á Grænlandi sömuleiðis. 

Sunnar er slæðingur af punktum langt neðan aðfallslínunnar - þar er talsvert kaldara heldur en breiddarstigið eitt greinir frá. Þar eru t.d. bæði Madeira og Kanaríeyjar. Á þessum eyjum er stöðug norðan- og norðaustanátt á sumrin og veldur því að kaldur sjór vellur upp undan ströndum meginlandanna og umlykur eyjarnar. Þannig hagar til víðar. Hlýjastar á línuritinu eru stöðvar við Persaflóa - og stöðvar á láglendum svæðum í Mið-Asíu eru líka langt ofan aðfallslínunnar. 

w-blogg261021d

Á janúarmyndinni er halli aðfallslínunnar 0,8 stig á breiddargráðu. Reykjavík er langt ofan línunnar - hér „ætti“ meðalhiti í janúar samkvæmt henni að vera um -15 stig. Janúarmeðalhiti í Reykjavík er svipaður og á 48. breiddarstigi aðfallslínunnar. Það eru stöðvar í Síberíu og Kanada sem lengst liggja neðan línunnar. 

Það er freistandi að halda áfram - reikna fleira og smjatta meira - en ritstjórinn lætur það ekki eftir sér að sinni.

 

 


Sumarmisserið 2021

Við gerum nú eins og oft áður - lítum á meðalhita sumarmisseris íslenska tímatalsins og berum saman við fyrri sumur. Sumarmisserið telst standa frá sumardeginum fyrsta fram að fyrsta vetrardegi. Þegar þetta er skrifað vantar enn einn dag upp á fulla lengd - en það skiptir litlu (engin hitamet í húfi).

w-blogg211021a

Myndin sýnir sumarhita í Stykkishólmi frá 1846 til 2021 (eitt sumar, 1919, vantar í röðina). Það sumarmisseri sem nú er að líða var hlýtt, sé litið til langs tíma, en er hiti þess var nærri meðallagi á þessari öld í Stykkishólmi. Ekkert sumar á árunum 1961 til 1995 var hlýrra en þetta - og aðeins þrjú mega heita jafnhlý (1961, 1976 og 1980). Reiknuð leitni sýnir um 0,7 stiga hlýnun á öld - að jafnaði - en segir auðvitað ekkert um framtíðina frekar en venjulega.

Hitinn í Stykkishólmi var í sumar ekki fjarri meðallagi landsins. Eins og flestir muna enn voru óvenjuleg hlýindi um landið norðan- og austanvert frá því um sólstöður og nokkuð fram í september. Áður en það tímabil hófst var öllu svalara - og einnig síðan. Sumarmisserið er samt í hlýrra lagi á þeim slóðum.

w-blogg211021b

Taflna sýnir röðun hita sumarsins á spásvæðum Veðurstofunnar. Röðin nær til þessarar aldar (21 sumarmisseri), en vikin reiknast miðað við síðustu tíu ár. Vonandi er rétt reiknað. 

Að þriðjungatali telst sumarmisserið hafa verið kalt við Faxaflóa, en hlýtt á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðausturlandi og á Austurlandi að Glettingi. Hiti er í meðallagi á öðrum spásvæðum.

Ritstjórinn er (eins og margir aðrir í hans stétt) mjög spurður um veðurfar vetrarins - hvernig það verði. Lítið hefur hann um það að segja - en minnir á gamla fyrirsögn úr Morgunblaðinu 24. febrúar 1954:

mbl_1954-02-24_ekki-a-faeri-vedurfraedinga

Og er svo enn. - En það þýðir ekki að ástæðulaust sé fyrir menn að halda áfram að reyna, ekki síst nú þegar búið er að spilavítisvæða slíkar spár eins og flest annað. Miklir fjármunir eru undir - vonandi stundum til verulegs hagræðis - en oft verða líka margir illa úti eins og í svartapétri barnæskunnar. 


Fyrstu 20 dagar októbermánaðar

Fyrstu tuttugu dagar októbermánaðar hafa verið fremur kaldir víðast hvar á landinu (miðað við sömu almanaksdaga á þessari öld). Meðalhiti í Reykjavík er 5,8 stig, +0,2 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðaltalið raðast í 12.hlýjasta sæti (af 21). Hlýjastir voru sömu dagar árið 2016, meðalhiti þá 9,1 stig, en kaldastir voru þeir 2008, meðalhiti 4,2 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 49.hlýjasta sæti (af 146). Hlýjastir voru sömu dagar 1959, meðalhiti þá 9,5 stig, en kaldastir voru þeir 1981, meðalhiti -0,3 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú 3,3 stig, -1,1 stigi neðan meðallags áranna 1991 til 2020, og -1,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára (en í meðallagi 1961-1990).
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðausturlandi, hiti raðast þar í 11.hlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast hefur verið á Vestfjörðum þar sem dagarnir eru í 19.hlýjasta sæti (þriðjakaldasta).
 
Hiti í Skaftafelli er +1,0 stig ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast að tiltölu hefur verið á Þverfjalli, hiti -2,5 stig neðan meðallags.
 
Úrkoma hefur mælst 41,6 mm í Reykjavík, um þrír fjórðu hlutar meðalúrkomu, en hefur úrkoman mælst 96,8 mm, eða rúmlega tvöfalt meðallag.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 76,6 í Reykjavík, 15 fleiri en í meðalári. Sólskinsstundir hafa verið færri en í meðalári á Akureyri.

Enn af öfugsniða

Nú er uppi sú staða að allsnarpur kuldapollur er á leið til suðurs um Grænlandshaf vestanvert. Jafnframt sækir hlýrra loft fram úr suðri - tengt miklu lægðarkerfi austan við Nýfundnaland. Hitabratti vex við Ísland. Við lítum á nokkur veðurkort sem sýna stöðuna kl.3 aðfaranótt sunnudags 17.október. Staða sem þessi er ekki beinlínis óalgeng, en henni fylgir nær ætíð veruleg óvissa, bæði hvað varðar vindstyrk, úrkomumagn og úrkomutegund. Hér að neðan er ekki leyst úr þessari óvissu - Veðurstofan reynir það hins vegar - en við lítum samt á stöðuna. Þetta er ekki auðveld lesning.

w-blogg161021a

Daufu heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting. Hæð er yfir Grænlandi en lægð langt suður í hafi, miðjan utan kortsins. Rauðar strikalínur sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Það er 5400 metra jafnþykktarlínan sem er rétt við Suðurland, en 5160 línan rétt norðan Vestfjarða. Þetta segir okkur að 12 stiga hitamunur (bratti) er yfir landið. Vindörvarnar á kortinu sýna svonefndar þykktarvind - hann er því meiri sem hitabrattinn er. Bláir litir sýna þau svæði þar sem þykktin er minnkandi - það kólnar, en gulir og rauðir litir sýna svæði þar sem þykktin vex - það er að hlýna. Við sjáum berlega að það er á kólna yfir Vestfjörðum, en yfir Suðurlandi er að hlýna. Kalda loftið úr norðri fer undir það hlýja úr suðri, skil myndast og skerpast. 

w-blogg161021b

Hér má sjá stöðuna í 500 hPa-fletinum - í rúmlega 5 km hæð. Snarpur kuldapollur er við Grænland - hann á að fara til suðurs næsta sólarhringinn - við það leitar hlýja loftið sem á leið hans verður til austurs og norðausturs og vindur snýst þá úr vestsuðvestri til suðvesturs, suðurs og síðan suðausturs og austurs yfir Íslandi. Þetta tekur 2 til 3 daga. 

Mikil barátta er einnig á milli kalda og hlýja loftsins niður undir jörð.

w-blogg161021c

Kortið sýnir hæð 925 hPa-flatarins á sama tíma og kortin að ofan. Hér er vindátt alveg andstæð við það sem hún er í efri lögum. Blæs mjög ákveðið af austri og norðaustri yfir landinu vestanverðu. Fjöll hafa við þessar aðstæður minni áhrif á úrkomudreifingu heldur en venjulega - úrkomumyndunin á sér stað annað hvort uppi í suðvestanáttinni - eða í þeirri hæð þar sem vindur er hægur á milli hinna andstæðu átta. Úrkoman myndast eins og venjulega sem snjór. Fyrsta úrkoman fellur niður og gufar upp - við það kólnar loftið frekar - um síðir rakamettast það nokkurn veginn þannig að snjórinn fer neðar og neðar - hann fer að lokum niður í hita ofan frostmark og fer að bráðna - við það kólnar loftið þannig að snjórinn kemst neðar og neðar. Verði úrkomuákefðin nægilega mikil kemst hann alveg til jarðar - það snjóar - og sé vindur nægilegur gerir hríðarveður. 

w-blogg161021d

Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um úrkomu og vind kl.3 aðfaranótt sunnudags - á sama tíma og kortin að ofan. Undan Reykjanesi er úrkomuákefð mikil, 5 ti 10 mm á klukkustund, en minni yfir landi. Litlir krossar tákna snjókomu - þeir eru nær einráðir yfir landi. 

Á tímanum frá desember fram í apríl getur maður gengið út frá því að spá sem þessi væri ágæt ábending um snjókomu á láglendi. Meira vafamál er um það svona snemma hausts. Það getur líka verið að það snjói t.d. við norðanverðan Faxaflóa - þó það geri það ekki í lágsveitum höfuðborgarsvæðisins. 

Svo er líka spurning hversu mikil úrkoman (snjórinn?) verður - og hversu lengi snjóar - geri það það á annað borð. Spár virðast - þegar þetta er skrifað - hins vegar sammála um að það hláni þegar háloftaáttin hefur náð að snúa sér úr suðvestri í suður og suðaustur. 

En við fylgjumst eins og venjulega með spám Veðurstofunnar og tökum mark á. 

 


Fyrri hluti októbermánaðar

Meðalhiti fyrri hluta októbermánaðar er +6,3 stig í Reykjavík, það er +0,3 stigum ofan við meðallag sömu daga áranna 1991 til 2020, og í meðallagi síðustu tíu ára. Hann raðast í 11. hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir 15 árið 2010, meðalhiti þá 9,5 stig, en kaldastir voru þeir 2005, meðalhiti þá 3,8 stig. Á langa listanum er hitinn í 42.hlýjasta sæti (af 146). Hlýjast var 1959, meðalhiti þá +10,2 stig, en kaldast var 1981, meðalhiti -0,7 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta október +4,0 stig, -0,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,2 neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðausturlandi, hiti raðast þar í 9. hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast hefur verið á Vestfjörðum þar sem hiti raðast í 18. hlýjasta sæti (fjórðakaldasta).
 
Jákvæð hitavik miðað við síðustu tíu ár eru mest í Skaftafelli og við Lómagnúp, +1,0 stig, en kaldast að tiltölu hefur verið á Þverfjalli, hiti -2,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 29,8 mm og er það um 60 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 77,4 mm sem er um tvöföld meðalúrkoma.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 62 í Reykjavík, 15 umfram meðallag og fleiri en í september öllum.

Fyrstu 10 dagar októbermánaðar

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 10 daga októbermánaðar er +6,7 stig. Það er +0,7 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020 og +0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 10. hlýjasta sæti (af 21) á þessari öld. Dagarnir 10 voru hlýjastir árið 2002, meðalhiti þá +9,7 stig. Kaldastir voru þeir árið 2009, meðalhiti +2,6 stig. Á langa listanum er hann í 42.sæti (af 146). Hlýjastir voru dagarnir tíu árið 1959, meðalhiti +11,0 stig, en kaldastir voru þeir árið 1981, meðalhiti aðeins +0,1 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú +4,8 stig. Það er -0,3 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020, og -0,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Á landsvísu hefur verið hlýjast að tiltölu á Suðausturlandi. Þar eru dagarnir tíu þeir fimmtuhlýjustu á öldinni, en kaldast - að tiltölu - hefur verið á Vestfjörðum, þar raðast hiti í 14. hlýjasta sætið.

Á einstökum stöðvum er jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár mest í Skaftafelli og við Lómagnúp, +1,8 stig, en neikvætt vik er mest á Klettshálsi og á Þverfjalli -1,8 stig.

Úrkoma hefur mælst 16,4 mm í Reykjavík og er það helmingur meðalúrkomu. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 66,4 mm, sem er meir en tvöföld meðalúrkoma sömu daga.

Sólskinsstundir hafa mælst 40,8 í Reykjavík, 8 stundum fleiri en í meðalári.


Tveir stórir skriðuatburðir á árinu 1946

Hér verður fjallað lítillega um tvo stóra „skriðuatburði“ sem urðu á árinu 1946, annar varð í ágúst austur á fjörðum, en hinn við Eyjafjörð í september. Í báðum tilvikum kom aftakaúrkoma við sögu fremur en leysingar og hlýindi. Septemberúrfellið rataði betur í þá fáu úrkomumæla sem voru uppi á þessum tíma. Við lítum fyrst á það. 

w-blogg071021-1946-09a

Taflan sýnir tíu úrkomusömustu sólarhringa á Akureyri og í Reykjavík frá upphafi mælinga. Rétt að taka fram að mælingarnar sem nefndar eru í Reykjavík 1892 ná sennilega til meira en eins sólarhrings í báðum tilvikum. Það er talan sem er efst á Akureyrarlistanum sem er til umfjöllunar hér - og reyndar líka sú sem þar er númer 5. Að morgni 23.september 1946 reyndist sólarhringsúrkoman á Akureyri hafa verið 91,8 mm, um 40 mm meiri en næstmest hefur þar mælst. Þegar vanir menn (ritstjóri hungurdiska telur sig í þeim hópi) sjá svona tölu fyllast þeir gjarnan vantrú - getur þetta hreinlega verið? Þessi tala er þar að auki miklu hærri heldur en hæstu tölurnar í Reykjavík - en næsthæsta Akureyrartalan myndi lenda þar í 5.sæti (ef við sleppum 1892). 

Nánari athugun sýnir að þessi tala er alveg rétt. Við mælingu kl.18 daginn áður (þann 22.) voru 51,5 mm í mælinum - og kl.06 að morgni 23. voru þar 40,3 mm. Ekki nóg með það, heldur höfðu nokkrum dögum áður fallið 55,0 mm á tveimur dögum (27,5 mm hvorn dag um sig, mælt að morgni 18. og 19.). 

Úrkoma var ekki mæld víða á þessum árum, langt á milli mælistöðva. Akureyri var þó ekki eini staðurinn þar sem úrkoma var fádæma mikil, því á Skriðulandi í Kolbeinsdal í Skagafirði mældist úrkoman að morgni þess 23. september 106,8 mm. Virðist einsdæmi á þeim slóðum,  því. næsthæsta talan þar er 47,0 mm. Í Reykjahlíð við Mývatn mældist úrkoman sama morgun 48,3 mm. Sextíu ár liðu þar til það met var slegið - en síðan þrisvar eftir það. 

Pétur Jónsson veðurathugunarmaður í Reykjahlíð segir í athugasemd með septemberskýrslunni: „Mánuðurinn yfirleitt góður nema nokkrir dagar frá 22. Þann dag stórfelldara vatnsveður hér en nokkur dæmi hafa þekkst áður í okkar athugun“.

Og Kolbeinn Kristinsson á Skriðulandi: „… en 16. brá til stórfelldrar norðaustanáttar með úrfelli. Þó tók út yfir úrfellið 22. september og aðfaranótt þess 23, sem mér mun lengi í fersku minni. 24. var besta veður og upp þaðan til mánaðarloka“.

Við lítum nú á veðurstöðuna - en síðan á afleiðingar veðursins.

w-blogg071021-1946-09b

Kortið er klippa úr greiningu bresku veðurstofunnar og gildir að morgni laugardagsins 21.september. Alldjúp lægð er á Grænlandshafi á leið austur - en langt suður í hafi eru lægðarbylgjur - og í þeim gríðarlega hlýtt loft langt úr suðri. Lægðin á Grænlandshafi er mjög köld - tengd kuldapolli sem nýfarinn var yfir S-Grænland - eins og sést á háloftakortinu hér að neðan.

w-blogg071021-1946-09c

Þetta kort er úr safni bandarísku endurgreiningarinnar c20v2 og sýnir hæð 500 hPa-flatarins síðdegis þennan laugardag, 21.september. Rakt og hlýtt sunnanloftið er að mæta köldu lægðinni að vestan, sígild vandræðauppskrift. Lægðin dýpkaði nú mjög hratt og fór til norðausturs, rétt við austurströnd Ísland og allan sunnudaginn, þann 22. var foráttuveður á landinu - eins og veðurkortið hér að neðan sýnir.

w-blogg071021-1946-09d

Lægðin nærri 960 hPa í miðju. Hún fór svo nálægt landi að um tíma varð vindur suðvestlægur í Papey, en ekki á Teigarhorni. Þó mjög mikið rigndi austanlands, virðist aðalúrkomuhnúturinn verið fremur fljótur að fara þar yfir - en lagðist hins vegar að Norðurlandi og stóð þar miklu lengur við. Skaplegra var vestanlands. 

Veðurathugunarmaður á Hofi í Vopnafirði lýsir veðri þann 22.: „Óskaplegt rigningarillviðri með ólátastormi, einkum framan af“. Daginn eftir var þar alhvítt niður fyrir miðjar hlíðar.

w-blogg081021e

Myndin sýnir þrýsting á landinu og þrýstispönn (munur á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu) á 3 stunda fresti í september 1946. Fyrri hluti mánaðarins er rólegur og lítið um að vera. Þá breytti um veður, djúp lægð kom að landinu suðaustanverðu og olli töluverðu illviðri dagana 16 til 19. Úrkomuveðrið mikla fylgdi síðan næstu lægð og fór þrýstispönnin þá upp í 28,1 hPa. Í dag hefði hún líklega mælst enn meiri vegna fjölgunar stöðva. Enn ein lægð kom að landinu suðaustanverðu þann 25., en var þó veigaminni en þær fyrri. Síðan varð aftur skaplegt veður. Haustið varð síðan eitt hið besta sem vitað er um. 

Úrkoman mikla olli gríðarlegum skriðuföllum, einkum þó í Eyjafirði. Hér er byggt á frásögnum blaða. Öll dagblöðin skýrðu frá - en voru ekki alltaf sammála í smáatriðum. Hér er aðeins úrval frétta - og misræmi í fregnum ekki lagað. 

Tíminn birti þann 24. október nokkuð ítarlega frásögn:

Úr bréfi frá Arnóri Sigurjónssyni. Skriðuföllin í Dalsmynni hafa verið stórkostlegri náttúruviðburður heldur en menn hafa almennt gert sér ljóst og fram hefir komið af frásögnum blaða- og útvarps. Hamfarirnar hafa verið ógurlegar. Þar sem áður voru gróðursælar hlíðar, standa nú eftir ber og skafin fjöllin og undirlendið er kafið margra metra þykku aurlagi og grjótruðningi. Það, sem hér hefir gerzt. minnir helzt á eldgos, flóðbylgjur og fellibylji að mikilleik. Arnór Sigurjónsson, bóndi á Þverá í Dalsmynni, hefir lýst hervirkjunum í bréfi, sem Tíminn birtir hér kafla úr með leyfi hans. Arnór var ekki heima, þegar skriðurnar féllu, en hefir síðan skoðað þessa náttúruviðburði.

„Mér finnst þetta," segir Arnór, „miklu ægilegra að sjá en nokkrar frásagnir, sem ég hefi af því heyrt, og þó hefir sumt verið orðum aukið. Stórfelldastar eru skriðurnar í Laufásfjallinu, er við Dalsmynni horfir, og hefir meiri hluti alls jarðvegs hrunið úr fjallinu frá því skammt utan við Skuggabjörg allt út undir Fnjóskárbrú. Skriðurnar hafa átt upptök sín í ca. 500 metra hæð og fallið ofan í Fnjóská. Allt undirlendið sem var þarna handan árinnar er þakið þykkum aur- og grjótruðningi, en niður við ána, þar sem aftur er nokkur brekka, er allt sleikt ofan í berg. Norðaustanmegin í Dalsmynninu hafa hins vegar aðeins fallið einstakar skriður, og eru spýjurnar allt að 100—200 metra breiðar. Stærstu spýjuna þeim megin, þá er féll rétt sunnan við Ártún, hefi ég ekki séð. Bóndinn í Ártúni, Sigurbjörn Benediktsson, horfði og heyrði á, er hún féll. Hann segir svo frá, að hún hafi farið með ógurlegum hraða og þvílíkum hávaða, sem fjallið væri allt að hrynja. Gufu- og leirstrókarnir höfðu staðið hátt í loft upp og þessum ósköpum hafði fylgt hinn megnasti ódaunn, og skildi hann það svo að leirinn og grjótið hefði hálfbráðnað við' hitann, er myndaðist við núninginn, er skriðan féll. Svo var sem rokhvass stormsveipur færi framhjá um leið og skriðan hrundi rétt framhjá bænum, en er hjá leið, var eftir á enginu og túninu heim undir bæ þykkur leirelgur, er kyrrðist smámsaman. Þessi mikla skriða hefir reynzt nál. 2 metra þykk á veginum fyrir ofan bæinn, en hún er svo grjótlítil, að talað er um að slétta hana og hreinsa grjótið, sá í hana síðan og gera þannig að túni. — Skriðan, austan á Þverárfjalli, er ekki nema á 2. hundrað metra á breidd. En hún er geysiþykk og reyndar ennþá hroðalegri en mér hefði dottið í hug að hún væri. Skammt norðan við hana, í Þúfulandi, er önnur skriða álíka breið, en tæplega eins efnismikil, og margar skriður eru þarna nærri, allar smærri, flestar í Þverárlandi. Miklu meiri hluti gróðurlendisins í brekkunni er þó eftir, en því er líkast, sem brekkan sé öll rifin og tætt. Ég gat ekki varizt því, að ég var lengi eftir mig, er ég hafði skoðað þessi umbrot, ekki vegna skaðans á landinu, heldur vegna umhugsunar um það, hve lítils við menn erum megnugir gegn ósköpum sem þessum."

Tíminn segir þann 26.september (lítillega stytt hér):

Í byrjun þessarar viku geisaði hið versta veður víða um land og urðu af völdum þess miklir skaðar, einkum við Eyjafjörð. Í Dalsmynni féllu skriður á lönd margra bæja og varð fólk að flýja heimili sín. Er talið, að ein þessara jarða sé ekki byggileg eftir það jarðrask, sem orðið hefir. Víða hafa skriður fallið á engjar og úthaga, vegir skemmzt, símasamband rofnað og hey flætt. Akureyrarbær var rafmagnslaus í sólarhring vegna skemmda á raflínunni. Réttum hefir sums staðar verið frestað og menn og skepnur orðið fyrir hrakningum í leitum.

Stórfelldast tjón virðist hafa orðið í Dalsmynni austan Fnjóskár. Þar byrjuðu skriður að falla að undangengnu ofsalegu úrfelli síðastliðið sunnudagskvöld [22.september]. Sá fólk þá þegar fram á, hvað verða vildi. Flúðu menn af fimm bæjum, sem standa undir svonefndu Gerðafjalli, og leituðu athvarfs á næstu heimilum, aðallega Laufási og Lómatjörn. Bæir þeir, sem fólkið yfirgaf, eru Litlagerði. Pálsgerði. Miðgerði, Borgargerði og Ártún.

Skriður héldu áfram að falla úr fjallinu um nóttina og ollu gríðarmiklu tjóni. Litlagerði er talið óbyggilegt. Nær allt túnið er í kafi í aur og eðju og grjóti. Bæjarhúsin standa á hóli, og má heita, að þau ein og hlaðvarpinn umhverfis þau hafi sloppið við eyðingu. Bóndinn í Litlagerði var nýbúinn að reisa steinhús á jörð sinni. Af landi jarðarinnar Ártúns eyddist þriðjungurinn. Hins vegar er túnið þar óskemmt. Á Miðgerði féllu tvær skriður. Önnur fyllti farveg bæjarlækjarins og eyðilagði rafstöð, sem þar var. Hin féll meðal annars yfir túnið og gerði verulegt tjón. Í Pálsgerði féll skriða á allstórt nýræktað land og varð það fyrir miklum skemmdum. í Borgargerði varð einnig verulegt tjón. Ekkert tjón varð þó á húsum né gripum, svo vitað sé. Sauðfé er ekkert á þessum slóðum, því að allsherjarslátrun vegna fjárpestanna var nýlega lokið. Hinum megin Fnjóskár, nokkru innar en gegnt Gerðabæjunum, féllu einnig miklar skriður. Þar er skógur allmikill, sem heitir Gæsaskógur. Hann tættist sundur af skriðuföllum. Skógur þessi er í Laufáslandi. Nýr vegarkafli stórskemmdur.Enn féllu skriður úr Kjálkanum, fjallinu milli Svalbarðsstrandar og Dalsmynnis. Lenti ein þeirra á túninu í Fagrabæ og skemmdi það mikið og eyðilagði stóran kartöflugarð. Nýlokið var á þessum slóðum vegarkafla, sem tengdi byggðina út með firðinum við Svalbarðsströnd og innsveitirnar. Þessi vegur stórskemmdist, allt frá Saurbrúargerði að Fagrabæ. Má segja, að allur nýi kaflinn sé ýmist á kafi í aur og grjótruðningi eða sundurtættur af vatni og skriðum. Vegurinn upp Fnjóskadal er einnig stórskemmdur. Vaðlaheiðarvegurinn rofnaði af völdum vatnavaxta. Á land Höfðabrekku í Grenivik féll skriða og varð af talsvert tjón. Kom hún úr Höfðanum.

Miklu víðar en hér verður getið hafa skriður fallið við Eyjafjörð. En þær hafa yfirleitt lent á úthaga eða engjar og ekki haft eins mikla eyðileggingu í för með sér og skriður þær, sem hér hefir verið sagt frá. Að Vatnsenda í Saurbæjarhreppi féll þó skriða á túnið og olli talsverðum skemmdum, og sömuleiðis lenti skriða á túninu á Möðruvöllum í Hörgárdal og gerði nokkurn usla. Í Ólafsfirði flæddu hey á nokkrum bæjum í vatnavöxtunum. Auk þess má vel vera, að ekki séu enn komin til grafar öll kurl, því að símalínur rofnuðu viða og sums staðar er ekki komið á símasamband. Þannig var enn símasambandslaust frá Akureyri austur um Þingeyjarsýslu.

Alþýðumaðurinn á Akureyri segir svo frá 1.október - (nokkuð stytt hér). Í textanum er sagt frá flóðum og skriðuföllum á Akureyri. Líklega hefur Glerá brotist úr farvegi sínum og flætt um Oddeyrina utanverða - er það líklegra en að sjávarflóðbylgju sé um að kenna - það er þó athyglisvert að talað er um slíka bylgju á Siglufirði og rétt að útiloka ekkert:

Síðari hluta sunnudagsins gekk flóðbylgjan yfir malarkambinn norðaustan á Tanganum og yfir Oddeyrina neðanverða. Neðri hluti Gránufélagsgötu hvarf undir vatn, og víða flóði inn í kjallara og eyðilagði það sem í þeim var. Víðar hljóp vatn inn í hús. T.d. í Versl. Esju og Fornsölunni varð vatnið svo mikið að skemmdir hlutust af. Hér og þar sprungu skólpleiðslur og vall vatnið upp á yfirborð gatnanna, og göturæsin urðu að lækjafarvegum. Skriða féll úr brekkunni bak við húsið nr. 35 við Hafnarstræti og náði aurinn upp á glugga efri hæðar. Kartöflugarðar sprungu fram úr brekkunni ofan við nr: 32 og 76 við Aðalstræti og vall leðjan austur yfir götuna. Víðar féllu smáskriður úr brekkunni. Hve miklir skaðar hafa af þessu hlotist er ekki fullljóst enn. Vegurinn yfir Hólmana lá lengi undir sjó og vatni — ófær. Lækir úr Vaðlaheiði rifu skörð víðar en á einum stað í þjóðveginn, svo hann var ófær, fyrri hluta mánudagsins.

Skriða féll úr fjallinu ofan við Möðruvelli í Hörgárdal og eyðilagði mikinn hluta af Nunnuhólstúninu. Skriður féllu úr fjallinu bak við Vatnsenda, Hóla og Nýjabæ inn í firðinum: Skemmdu þær miklar engjar og hluta af túninu á Vatnsenda. Jarðfall myndaðist við bæinn Stekkjaflatir í Möðruvallasókn. Nýi vegurinn á Svalbarðsströnd eyðilagðist á löngum kafla af vatnagangi og skriðuföllum. Þó urðu bæirnir í Dalsmynni og syðst í Höfðahverfi fyrir þyngstum búsifjum. Flúði fólkið á þremur bæjum húsin á sunnudaginn og hélt þar ekki til tvær næstu nætur. Túnið að Litlagerði eyðilagðist nær því allt af skriðuhlaupi. Einnig Miðgerðistún að all-verulegu leyti. Þá féll stór skriða milli Ártúns og Borgargerðis og gerði mikinn usla. Víðar ollu skriðuföll skemmdum þar ytra.

Miklar skemmdir urðu á símalínum víða á Norðurlandi og Vestfjörðum. Ekki er getið neinna verulegra skemmda í sjóþorpum. Þó gekk flóðbylgjan yfir sjóvarnargarðinn norðan á Siglufjarðareyri og flæddi yfir eyrina á stórum parti. Mannskaðar urðu engir á sjó svo vitað sé.

Dagur segir þann 10.október frá skemmdum inni í Eyjafirði:

Eyfirzkur bóndi hefir ritað blaðinu fréttamola úr byggðinni og segir m. a.: Eftir gott sumar og þurrviðrasamt, brá til stórfelldra rigninga fyrir röskum hálfum mánuði. Nokkrir bændur áttu hey úti, sem hafa ekki öll náðst enn. Í þessum vatnavöxtum féllu allmiklar skriður á þremur stöðum. Á Tjörnum tók af allgóða engjaspildu og var töluvert hey á henni. Á Halldórsstöðum féllu tvær skriður á engi; önnur þeirra tók skika af túninu. Á Vatnsenda skemmdist engi mjög tilfinnanlega og tún einnig nokkuð og þar mun hafa tapast talsvert af heyi.

Tíminn segir þann 26.september frá vandræðum víðar - sumt af því á við fyrra veðrið - það sem varð hvað verst 15. til 19.september.

Sums staðar norðan lands hefir réttum verið frestað vegna illviðranna, svo sem í Húnavatnssýslu. Gangnamenn á Auðkúluheiði sneru aftur vegna óveðurs. Hefir snjóað til fjalla og allt niður í byggð í framsveitunum. Menn og skepnur hafa eðlilega orðið fyrir hrakningum og vosbúð af völdum þessa íhlaups nú um gangna- og réttaleytið.

Í ofviðrinu, sem skall á um fyrri helgi og stóð fram í miðja viku, urðu miklar skemmdir á hafnarmannvirkjum í Bolungarvík, en í sumar hefir verið unnið þar að hafnarbótum. Tíðindamaður blaðsins hefir aflað upplýsinga um skemmdirnar frá Þórði Hjaltasyni í Bolungarvík. Í sumar var unnið að hafnarmannvirkjum í Bolungarvík. Voru steypt 11 steinker, sem hvert um sig var 9 m. að lengd og 3 1/2 m. að breidd. Kerum þessum var sökkt í tveimur röðum, hverju við endann á öðru, en ellefta kerinu var sökkt fyrir enda bryggjunnar, þannig, að það lokaði þró þeirri, er myndaðist á milli kerjanna. En bilið á milli þeirra var fyllt upp með lausu grjóti. Ofan +a steinkerin var aftur steyptur veggur, rúmlega 2 metrar að hæð, og var síðan fyllt upp með grjóti. Var þá bryggjan orðin 7 metrar að hæð. Bilið á milli steinkerjanna var 10 metrar, en bryggjan var samtals 17 metra breið. Eftir að fyllt hafði verið upp með grjóti á milli kerjanna, var steypt plata ofan á allt saman, sem var yfirborð bryggjunnar. Var búið að steypa þá plötu til hálfs, er ofviðrið skall á um helgina.

Á aðfaranótt sunnudagsins 15. september skall á ofviðri með foráttu brimi. Um hádegi var veðurofsinn orðinn aftaka mikill og brimið svo mikið, að slíkt hefir ekki komið í Bolungarvík árum saman. Þegar á sunnudaginn tók sjórinn að rífa lausa grjótið upp úr bryggjunni, þar sem ekki var búið að steypa plötuna yfir og fór svo fram allan sunnudaginn og fram á mánudag. Var brimið þá farið að ná grjóti undan þeim hluta bryggjunnar, er búið var að steypa yfir, og tók einnig með sér hluta af steinsteyptu plötunni. Um hádegi á þriðjudag tók ein holskefla innri garðinn ofan að steinkerjunum. Sópaðist hann ásamt mestum hluta uppfyllingarinnar, inn í höfnina og braut ofan af steinkerjunum. Aðrar skemmdir urðu ekki á sjálfum kerjunum, nema þær, að hornkerið að innanverðu færðist nokkuð til, og ennfremur er hætt við að fleiri ker hafi raskazt á grunninum.

En eins og fram kom í inngangi voru þetta ekki einu stórflóðin þetta sumar. Þann 5. og 6. gerði mikið úrhelli á Austfjörðum. Því fylgdi töluvert tjón, mest á Eskifirði. Við notumst hér við frásögn dagblaðsins Tímans, en öll dagblöðin greina einnig frá atburðum, sumir hlutir eru þar nákvæmar raktir:

Tíminn segir frá þann 9. ágúst (lítillega stytt):

Stórrigningar hinar mestu voru austan lands framan af þessari viku, og leiddu af þeim vatnavextir, sem valdið hafa gríðarmiklu tjóni, einkum í Eskifjarðarbæ, þar sem vatn hefir flætt um göturnar, Runnið inn í mörg hús og eyðilagt garða og margs konar verðmæti. Einnig hafa orðið miklar skemmdir á vegum á þessum slóðum. Mikið tjón varð einnig á Seyðisfirði.

Meginbyggðin í Eskifirði stendur á alllangri strandlengju norðan við fjörðinn, og renna þar niður hlíðina allmargir lækir eða smáár, er þó geta orðið miklar í stórfelldum leysingum. Vatnið tekur að flóa um göturnar. Seint á mánudaginn [5.ágúst] gerði stórfellda rigningu austan lands og rigndi víða látlaust talsvert á annan sólarhring. Á þriðjudagsnóttina brutust lækirnir, sem eiga upptök sín í Lambeyrardal upp frá Eskifjarðarbæ, úr farvegum sínum og tóku að flóa um götur bæjarins, og jókst vatnsflaumurinn sífellt er leið á þriðjudaginn [6.ágúst]. Mun hann hafa orðið mestur á þriðjudagskvöldið og fyrri hluta miðvikudagsnætur.

Ár þær, sem mestum usla ollu, eru Grjótá, Lambeyrará og Ljósá. Grjótá fyllti farveg sinn aur og grjóti og flæddi í mörgum kvíslum milli húsanna, sem standa á svonefndri Grjóteyrartungu. Voru tólf hús, sem í bjuggu um sextíu manns i hættu stödd. Flúði fólk brott og leitaði sér hælis annars staðar á miðvikudagsnóttina.

Tjónið varð gífurlegt. Gróf grunna sums staðar að nokkru leyti undan húsunum, og kjallarar og jafnvel íbúðir á gólfhæðum fylltust af vatni og aur. Gafl á stóru steinhúsi hrundi, dráttarbraut skemmdist og sömuleiðis vélar á tveimur vélaverkstæðum. Auk þess ónýttist mikið af vörum, svo sem steypurör, hleðslusteinar, tugir smálesta af kolum og fleira. Einnig flutu brott um þrjátíu hestar af nýhirtu heyi. Kartöflugarðar og trjágarðar eru þaktir auri og grjóti eða gróðurmoldin hefir algerlega sópast brott, og þarf ekki að gera ráð fyrir uppskeru úr þeim matjurtagörðum, er flóðið náði til. Lambeyrará og Ljósá ollu einnig skemmdum á vegum og mannvirkjum, þótt ekki sé það tjón eins stórkostlegt. Nú er unnið að því að hreinsa til i bænum eftir sem föng eru á í skyndi, og hleypa ánum í rétta farvegi. Finnst fólki að vonum að það hafi hlotið þungar búsifjar af völdum þessara rigninga. Talið er, að tjón það, sem orðið hefir í Eskifirði nemi hundruð þúsunda, þótt enn hafi það , ekki verið metið. Er mjög um það rætt, að ríkinu beri skylda til að hlaupa hér undir bagga, er svo óvænt og stórfellt tjón hefir að höndum borið.

Í Bleiksá hljóp einnig úr farvegi sínum og flaut yfir þjóðveginn, svo að ófært var á bifreiðum milli Eskifjarðar og | Reyðarfjarðar, auk þess sem skriðuföll urðu á Hólmaströnd sunnan Eskifjarðar gegnt bænum. Á veginum til Viðfjarðar urðu einnig skemmdir á vegum vegna þessa óvenjulega úrfellis, svo sem á Fjarðarheiði.

Þá hafa einnig orðið tilfinnanlegir skaðar í Seyðisfirði af völdum rigningarinnar. Þar féllu miklar skriður við fjörðinn norðanverðan. Brotnuðu símastaurar, tók af túnspildu og skák af Dvergasteinsengi, braut hlöður og fjárhús og varð ýms usli minni háttar. Við Loðmundarfjörð er símasambandslaust.

Þann 10.ágúst eru frekari fregnir í Tímanum:

Á Asknesi við sunnanverðan Mjóafjörð varð fólkið að flýja bæinn aðfaranótt miðvikudagsins [7.ágúst]. Brauzt á, sem rennur þar um túnfótinn úr farvegi sínum. Var húsfreyja ein heima með börn þessa nótt, því að húsbóndinn, Hans Wium, var staddur í Neskaupstað. Bjó konan um sig í tjaldi og hafðist þar við, unz morgnaði. Í Norðfirði urðu tilfinnanlegar skemmdir. Hljóp mikill vöxtur í Norðfjarðará og læki, sem koma úr fjöllunum beggja megin sveitarinnar. Flæddi vatnið yfir engjar og bithaga og bar með sér aur og möl og jafnvel stórgrýti. Munu skemmdirnar hafa orðið mestar á Skorrastað og Neðri-Miðbæ, bæjum skammt innan við fjarðarbotninn að norðan. Eitthvað af heyi mun hafa flotið burt. Einnig urðu skemmdir á vegum á þessum slóðum, og tvær brýr á veginum til Neskaupstaðar tók af. Var önnur þeirra lítil trébrú, en hitt steinbrú, og gróf vatnsflaumurinn undan henni undirstöðuna, svo að hún seig á hliðina. Í sjálfum Neskaupstað urðu ekki neinar skemmdir. Víða um Austurland urðu skriðuföll, sem spilltu gróðurlendi, og ýmsar skemmdir af völdum vatnagangsins.

Í Þjóðviljanum 10.ágúst er sagt nánar frá atburðum í Asknesi í Mjóafirði:

Á Asknesi við sunnanverðan Mjóafjörð varð fólkið að flýja bæinn aðfaranótt miðvikudagsins [7.ágúst]. Brauzt á, sem rennur þar um túnfótinn úr farvegi sínum. Var húsfreyja ein heima með börn þessa nótt, því að húsbóndinn, Hans Wium, var staddur í Neskaupstað. Bjó konan um sig í tjaldi og hafðist þar við, unz morgnaði. Í Norðfirði urðu tilfinnanlegar skemmdir. Hljóp mikill vöxtur í Norðfjarðará og læki, sem koma úr fjöllunum beggja megin sveitarinnar. Flæddi vatnið yfir engjar og bithaga og bar með sér aur og möl og jafnvel stórgrýti. Munu skemmdirnar hafa orðið mestar á Skorrastað og Neðri-Miðbæ, bæjum skammt innan við fjarðarbotninn að norðan. Eitthvað af heyi mun hafa flotið burt. Einnig urðu skemmdir á vegum á þessum slóðum, og tvær brýr á veginum til Neskaupstaðar tók af. Var önnur þeirra lítil trébrú, en hitt steinbrú, og gróf vatnsflaumurinn undan henni undirstöðuna, svo að hún seig á hliðina. Í sjálfum Neskaupstað urðu ekki neinar skemmdir. Víða um Austurland urðu skriðuföll, sem spilltu gróðurlendi, og ýmsar skemmdir af völdum vatnagangsins. 

Í þessu tilviki er ekki jafn augljós hvað veldur úrkomuákafanum og í septemberveðrinu.

Samtímaveðurkort og endurgreiningar segja frá nokkuð myndarlegri lægð sem fór til austnorðausturs fyrir suðaustan land. Ákveðin austanátt var ríkjandi í marga daga - og greiningar gefa helst til kynna að sama átt eða mjög svipuð hafi verið ríkjandi í öllu veðrahvolfinu. 

w-blogg081021f

Myndin sýnir þrýsting á landinu og þrýstispönn í ágúst 1946. Mun rólegra yfirbragð er á þessari mynd heldur en septemberlínuritunum. Þó má sjá að þrýstispönn gefur til kynna ákveðinn vind alla dagana frá 5. og fram á þann 10. - og svo aftur eftir þann 20. Atburðalýsingarnar gefa til kynna að mest hafi gengið á Austfjörðum að kvöldi þess 5. og fram á 6. Þá má (með góðum vilja) sjá eitthvað kerfi fara yfir (örin bendir á það). Kannski hefur það verið illvígur úrkomubakki sem þá kom úr austri eða suðaustri yfir Austfirði. Það var síðar sem úrkoman verð mest á Norðurlandi. Þess má geta að nú brá svo við að nær ekkert rigndi á Skriðulandi í Kolbeinsdal í Skagafirði. Áttin væntanlega of austlæg. 

Því miður hafa íslandskort fyrri hluta ágústmánaðar 1946 glatast á langri leið - þannig að við þyrftum að endurgera kortin til að ráða frekar í stöðuna. Úrkoma mældist víða mjög mikil - m.a. varð sólarhringsúrkoman á Akureyri að morgni þess 8. sú fimmtamesta sem vitað er um þar á bæ. 

Veðurathugunarmenn bera tíð þessa mánaðar góða sögu og telja hana hagstæða - þrátt fyrir rigningar um tíma. Á Höfn í Bakkafirði segir Halldór Runólfsson: „ ... ekki stórfelldar rigningar nema dagana 6. til 10. Þá var úrfelli meira en menn muna um þetta leyti árs. Þó urðu ekki verulegir skaðar. Vegir skemmdust lítilsháttar“. Veðurathugunarmenn eystra segja frá snjó í hæstu fjöllum þann 8. 

Sé litið á úrkomutölur dagana 6. til 10. kemur í ljós að þær eru samtals nokkuð háar austanlands - þó ekki væri um met að ræða einstaka daga. Þessa 5 daga féllu t.d. 219,2 mm í Fagradal í Vopnafirði og yfir 100 mm á Höfn í Bakkafirði, á Dalatanga, Seyðisfirði, Teigarhorni og Djúpavogi. Atburðir á Eskifirði og Mjóafirði benda til þess að þar hafi verið um mikla úrkomuákefð að ræða - gríðarmikið hafi fallið á til þess að gera skömmum tíma. 

Við látum þessa yfirferð um úrfellin í ágúst og september 1946 duga hér. Kannski lítum við á fleiri tilvik síðar. 

 


Dálítið af september

Nýliðinn september var hlýr framan af en síðan kaldur. Meðalhiti í byggðum landsins var 7,9 stig og er það +0,2 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020 - og meðallags síðustu tíu ára. Almennt uppgjör er væntanlegt frá Veðurstofunni. 

w-blogg041021a

Að tiltölu var kaldast við Faxaflóa, hitinn þar lendir í neðsta þriðjungi hita á öldinni, í 15. sæti af 21. Aftur á móti var hiti á Austfjörðum rétt inni í hlýjasta þriðjungnum, 7.sæti af 21. 

w-blogg041021b

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í september, litirnir sýna vik frá meðallagi. Kuldapollur var yfir Grænlandi og beindi til okkar fremur svalri suðvestanátt. Þetta er ekki sérlega óvenjuleg staða, var furðulík í september í fyrra - nema þá var neikvæða vikið mun umfangsmeira á kortinu. En staða sem þessi gefur samt til kynna umhleypingatíð og úrkomur. Skásta veðrið austanlands, í landáttinni. 

Mánuðurinn var í illviðrasamara lagi, svipaður og september 2007 og 2008, en hretamánuðirnir 2012 og 2013 eru ekki langt undan.

Í tilefni skriðufallanna í Kinninni undanfarna daga má minna á mikil skriðuföll sem urðu á þeim slóðum seint í september 1863. Má lesa um þau í pistli hungurdiska um árið 1863 (vitnað í Norðanfara): „gekk að rík norðanátt, hvassviður og dæmafáar úrkomur, ýmist stórrigningar, krapi eða snjókoma, einkum frá 18.-23. [september]; láku þá og streymdu flest hús, er voru með torfþaki, svo að hvergi var flóafriður. Flest sem í húsunum var lá undir meiri og minni skemmdum. Hey sem komin voru undir þak eða í hlöður, drap sumstaðar, svo upp þurfti að draga; skriður og jarðföll hlupu fram hér og hvar t.a.m. millum Þóroddstaða og Geirbjarnarstaða í Köldukinn í Þingeyjarsýslu, hvar mælt er að fallið hafi skriða eða jarðfall, 100 faðma breitt ofan úr fjallsbrún og allt niður í Skjálfandafljót svo það stíflaðist að nokkru leyti, 7 eða 8 skriður og jarðföll, er sagt að fallið hafi í Garðsnúp í Aðaldal og nefndri sýslu, og tekið töluvert af heyi t.a.m. frá einum bæ um 30 hesta. Í skriðum þessum, einkum þeirri í Kinninni, lenti sauðpeningur, er menn eigi gjörla vita tölu á“.

Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina. 


Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 120
  • Sl. sólarhring: 144
  • Sl. viku: 955
  • Frá upphafi: 2420770

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 843
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband