Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2021

Rifjast upp

Þegar þetta er skrifað (síðdegis á föstudegi, 8.janúar 2021) er spáð illviðri um landið austanvert, þar eru appelsínugular viðvaranir Veðurstofunnar í gildi. Kortið hér að neðan gildir kl.6 í fyrramálið - (úr fórum evrópureiknimiðstöðvarinnar).

w-blogg080121a

Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting, litafletir úrkomu, og strikalínur hita í 850 hPa-fletinum. Við sjáum snarpa lægð skammt fyrir norðaustan land. Vestan hennar er gríðarlegur vindstrengur úr norðri - fárviðri þar sem mest er. Spár gera ráð fyrir því að þessi strengur muni strjúkast við landið norðaustan- og austanvert. Rétt að fylgjast með spám Veðurstofunnar. 

Í huga ritstjóra hungurdiska rifjast af einhverjum (ósjálfráðum) ástæðum upp annað veður sem hann tók á þann 1.desember fyrir 40 árum, 1980. Það bar reyndar aðeins öðruvísi að - skammvinnt landsynningsveður gerði áður og skemmdir urðu í vatnavöxtum um landið sunnanvert - og framhaldið var líka annað heldur en verður nú. 

Til gamans skulum við líta á kort frá því kl.6 að morgni 1.desember 1980.

w-blogg080121b

Afskaplega svipað - næst Íslandi. Kort dagsins í dag er öllu kaldara (mánuði nær miðjum vetri). Það er líka mjög mikill svipur með háloftakortunum - en við látum þau eiga sig að sinni. 

Talsvert tjón varð í þessu veðri. Hér er færsla úr atburðaskrá ritstjóra hungurdiska (aðalheimild hér Veðráttan - tímarit Veðurstofunnar):

Talsverðar skemmdir urðu á mannvirkjum austanlands í hvassviðri, m.a. fauk lögregluvarðstofan á Seyðisfirði á haf út og söluskálar skemmdust. Einnig fuku timburskúrar, bílar og þakplötur. Tveir smábátar sukku í höfninni þar. Foktjón varð einnig í Neskaupstað, þak tók af hálfu fjölbýlishúsi ofarlega í bænum, rúta fauk um koll og gamall nótabátur fauk út á sjó og eyðilagðist, hús voru þakin aur og mold eftir veðrið, ljósastaurar lögðust á hliðina og brotnuðu. Þakplötur fuku á Eskifirði, þar á meðal margar af hraðfrystistöðinni, hlið gamallar skemmu lagðist inn. Tveir bátar sukku í Reyðarfjarðarhöfn og fólksbifreið eyðilagðist, margir bátar skemmdust, reykháfur síldarverksmiðjunnar féll og brotnaði, jeppabifreið fauk um koll og járnplötur tók af mörgum húsum, íbúðarhús í byggingu stórskemmdist og mikið tjón varð í Þurrkstöðinni þar sem mikið af timbri fauk á haf út. Meirihluti af þaki gamals frystihúss fauk á Djúpavogi og rúður brotnuðu í nokkrum húsum. Byggðalínan slitnaði er 18 staurar brotnuðu við Jökulsá á Fjöllum. 

w-blogg080121e

Hægt er að leita að fleiri náskyldum veðrum með hjálp endurgreininga. Finnast þar fljótt fáeinar ámóta stöður - ekki allar tjónvaldar. En þó er hér veður sem gerði 6.febrúar 1952 - lesum forsíðufrétt Tímans þann 8.febrúar. Þó ritstjóri hungurdiska sé farinn að gamlast man hann samt ekki eftir því - [í framhaldinu á síðu 7 segir þetta: „Á Reyðarfirði hvessti nokkru síðar og gerði fljótlega hið mesta illviðri með stormi og snjókomu. Raflínur fuku saman og varð mikill hluti kauptúnsins rafmagnslaus í fyrrinótt. Þak fauk af húsi og annað hús skemmdist mikið. Urðu fjölskyldur þessara húsa að flýja úr þeim meðan veðurofsinn var sem mestur“].

w-blogg080121f

Kort bandarísku endurgreiningarinnar lítur svipað út og kort dagsins - og kortið 1980 - líka í háloftunum. 

w-blogg080121g

Við skulum vona að veðrið nú verði öllu vægara - margir tilviljanakenndir þættir spila saman þegar kemur að tjóni - rétt eins og náskyldir og einsútlítandi eru í raun ólíkir. 


Smávegis af desember

Norðaustan- og austanáttir voru ríkjandi í mánuðinum. Það sést vel á þrýsti- og þrýstivikakorti evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg040121a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, en vik sýnd með litum. Bláir litir sýna neikvæð vik - mikil yfir Bretlandseyjum, en þau rauðbrúnu eru jákvæð, allmikil yfir Grænlandi, norðaustanáttin mun stríðari heldur en að jafnaði. Uppi í miðju veðrahvolfi var hins vegar hálfgerð áttleysa, vestanáttin „brást“. 

Þetta hafði í för með sér eindregin úrkomuvik líka.

w-blogg040121b

Hér má líka sjá meðalþrýstinginn (heildregnar línur - en gisnar dregnar en á fyrra korti). Litirnir sýna úrkomuvik, sett fram í prósentum. Á Austfjörðum segir líkanið hana hafa verið meir fimmfalt meðallag - ekkert óskaplega fjarri lagi. Mesta úrkoma í einum punkti í líkaninu var um 490 mm - nokkru minni en mest var á veðurstöð (um 800 mm á Seyðisfirði og rúmlega 600 í Neskaupstað og á Hánefsstöðum í Seyðisfirði). Trúlega giskar nákvæmara líkan heldur betur á heildarúrkomuna heldur en líkan reiknimiðstöðvarinnar. [Þó það sé grófara en hin eru ekki mörg ár síðan ritstjóra hungurdiska hefði þótt upplausn þess hárnákvæm - en svona eru framfarirnar]. 

Það má finna slatta af desembermánuðum með ámóta stríða norðaustanátt - þarf ekki að leita lengra til baka en eitt ár til að finna svipað. Að þessu sinni var þó styttra í suðlægu áttirnar í háloftunum fyrir austan land heldur en oftast áður. Er þar trúlega að leita skýringar á úrkomuákefðinni nú. 

Þakka Bolla P. að vanda fyrir kortagerðina. 


Meðalhiti í Stykkishólmi

Meðalhiti ársins 2020 var 4,5 stig í Stykkishólmi, 0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára, en nákvæmlega í meðallagi áranna 1991 til 2020. 

w-blogg010121c

Grænu súlurnar á myndinni sýna vik mánaða ársins 2020 frá þessu nýja meðaltali. Sjá má að hiti var undir því fjóra mánuði ársins, í janúar (aðeins lítillega), í mars, júlí og í september. September varð því kaldasti mánuður ársins að tiltölu í Stykkishólmi. Október var aftur á móti hlýjastur. Í afgangi mánaðanna (sjö) var hiti lítillega ofan meðallags - en árið endaði í meðallagi.

Á myndinni má einnig sjá samanburð tímabila. Bláu súlurnar bera saman hita gamla meðaltalstímabilsins 1961 til 1990 og þess nýja, 1991 til 2020. Talsvert hefur hlýnað í öllum mánuðum, mest í janúar og september. Árið hefur síðustu 30 árin verið 1 stigi hlýrra heldur en næstu 30 ár á undan og munar um minna þegar svo langt tímabil er undir. 

Gulbrúnu súlurnar sýna bera hins vegar saman hita áranna 2011 til 2020 og næstu 30 ára þar á undan, 1981 til 2010. Síðustu 10 ár hafa verið um 0,7 stigum hlýrri en 30 ára tímabilið næst á undan. Einn mánuður, nóvember hefur verið kaldari síðustu tíu ár en næstu 30 nóvembermánuðir á undan - og litlu munar í ágúst. Aðrir mánuðir hafa verið hlýrri en áður, sumir umtalsvert hlýrri. 

w-blogg010121a

Hér má sjá ársmeðalhita síðustu 220 árin rúm í Stykkishólmi. Tíminn fyrir 1830 er nokkuð óviss. Við sjáum að tímabilið allt hefur hiti hækkað um 1,6 stig eða svo, gríðarleg breyting. Við sjáum vel að hlýindi þessarar aldar eru orðin talsvert veigameiri en þau sem næst voru á undan (1926 til 1964) - og bæði 10-ára (rautt) og 30-ára (grænt) meðaltöl hærri en nokkru sinni áður síðustu 220 árin.

Hiti hefur þó hækkað minna síðustu 10 árin en þau næstu á undan - þegar hlýnunin „fór fram úr sér“. Ekkert lát er þó að sjá á hlýindunum. Þrjátíu ára meðaltalið (græn lína) er enn á uppleið. Næsta ár, 2021 mun þrjátíuárameðaltalið þó mæta fremur hlýju ári (1991) - árið 2021 þarf að verða hlýrra en það til þess að 30 ára meðaltalið hafi enn hækkað um næstu áramót. - En þetta hlýja ár, 1991, var þó aðeins 0,1 stigi hlýrra en hið nýliðna, 2020, (sem sumir reyna að tala niður). Árin 1992 til 1995 voru hins vegar fremur köld, meðalhiti þeirra um 1 stigi lægri heldur en hitinn árið 2020. Auðvitað vitum við ekkert um hita næstu ára - en flestir myndu veðja á að meðalhiti þeirra verði samt hærri en 3,5 stig þannig að í lok árs 2025 hafi 30 ára meðaltalið enn hækkað. Til þess að það hækki enn eftir það þarf hins vegar að bæta í hlýnun frá því sem verið hefur. 

Við höfum stundum líka litið á það sem ritstjóri hungurdiska nefnir „leitnilausan hita“. Þá hefur hann numið langtímahlýnun á brott úr hitaröðinni.

w-blogg010121b

Gróflega má segja að hér afhjúpist hinar „náttúrulegu“ sveiflur. Við sjáum tvö mjög mislöng kuldaskeið og þrjú hlýskeið. Það fyrsta að vísu nokkuð götótt - inni í því eru fáein mjög köld ár. Af þessari mynd má glögglega sjá að talsvert mætti kólna hér á landi án þess að hægt væri að tala um að hnattræn hlýnun hafi „brugðist“ okkur að einhverju leyti. Það mætti kannski fara að nefna það falli 10-ára meðalhiti um 1,5 til 2 stig eða meira frá því sem nú er. Þar til slíkt gerist þýðir ekkert að ræða slíkt (haldi hiti á heimsvísu áfram að hækka á svipaðan hátt og hann hefur gert síðustu 40 árin). Áratugamisvægi milli hita hér á landi og „heimshita“ er oft umtalsvert. Um það var fjallað nokkuð ítarlega í pistlum á hungurdiskum um mánaðamótin apríl/maí 2016. Leitarorðið er „heimshiti“.

Við munum á næstunni rifja upp fleiri atriði varðandi veður á árinu 2020 - en ársyfirlit Veðurstofunnar mun auðvitað birtast um síðir. 

Ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og öðrum velunnurum árs og friðar og þakkar góðar og vinsamlegar undirtektir á liðnum árum. Hann er orðinn nægilega gamall til að óska þess að nýhafið ár verði sem tíðindaminnst í veðri og allir hamfaraviðburðir haldist víðs fjarri. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 110
  • Sl. viku: 1496
  • Frá upphafi: 2348741

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1302
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband