Óvenjulegur apríl í háloftunum

Eins og fram kom í pistli gærdagsins á hungurdiskum var það óvenjuleg staða í háloftunum sem færði okkur aprílhlýindin. Við skulum nú líta nánar á hana. Kortin eru úr smiðju Bolla Pálmasonar og evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg020519a

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins í apríl 2019. Litirnir gefa hæðarvikin til kynna - jákvæð (brún og bleik) og neikvæð (bláleit). Af legu hæðar- og vikalína má ráða vindáttir - og hversu óvenjulegar þær eru. Vikin gefa til kynna að suðaustanáttir hafi verið óvenjutíðar. Við getum með samanburði við fyrri ár sagt til um hversu óvenjulegt þetta er. Þá kemur í ljós að vindur hefur aldrei áður verið jafnsterkur úr austri í 500 hPa yfir landinu. Áreiðanlegar upplýsingar ná aftur til 1949, og alláreiðanlegar aftur undir 1920. Við sjávarmál hefur austanáttin hins vegar verið meiri 5 sinnum áður - mest var hún í apríl 1961.

Sama á við um austanáttina yfir Keflavík, hún hefur ekki verið meiri en nú í öllum þrýstiflötum upp í 200 hPa (11,5 km hæð). Þar fyrir ofan er nokkur viðsnúningur og þegar komið er upp í 30 hPa er svo komið að það er vestanáttin sem var óvenjuþrálát - hefur aðeins tvisvar sinnum verið þrálátari (frá 1973). 

Háloftasunnanáttin hefur aðeins þrisvar verið meiri í apríl heldur en nú, það var 2011, 2003 og 1974. Sama á við um sunnanátt við sjávarmál.

Meðalhæð 500 hPa-flatarins [yfir miðju landi] hefur þrisvar verið meiri í apríl en nú, (1929, 1974 og 1978), en meðalþykktin (sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs hefur aldrei verið meiri en nú í aprílmánuði - litlu munar þó á henni í apríl 1974 og 1926 (eldra ártalið ekki eins áreiðanlegt hvað þykktarmatið varðar). 

w-blogg020519b

Næsta mynd sýnir þykktarvikin. Þau voru enn meiri við Norðaustur-Grænland heldur en hér á landi. Þar sem mest er var hiti í neðri hluta veðrahvolfs +8 stigum ofan meðallags áranna 1981-2010 og hitavik í 850 hPa um +9 stigum ofan meðallags sömu ára, en ekki „nema“ +3 til +5 stig yfir Íslandi. 

Þess má einnig geta að þykktarbrattinn yfir landinu (frá suðri til norðurs) hefur aldrei verið jafnlítill eða minni í apríl heldur en nú. Heimskautaloftið greinilega víðsfjarri.

Við skulum einnig athuga hvernig hiti mánaðarins hefur staðið sig í hinum ýmsu þrýstiflötum yfir Keflavíkurflugvelli. Taflan hér að neðan sýnir meðalhita í aðskiljanlegum þrýstiflötum, allt frá 925 hPa (i um 600 metra hæð) og upp í 30 hPa (í um 23,5 km hæð). 

röðafár mánflöturmeðalh
126201949251,3
26920194850-2,0
16920194700-9,4
16920194500-24,7
26920194400-36,3
366920194300-49,7
536920194250-54,1
606920194200-54,1
516920194150-52,1
546920194100-54,0
41472019470-56,3
44472019450-57,8
44472019430-57,9

Fyrsti dálkurinn segir frá því í hvaða hlýindasæti hiti flatarins í nýliðnum apríl er. Upplýsingar um meðalhita í 925 hPa-fletinum ná ekki lengra aftur en 26 ár, en í 850 til 100 hPa eigum við meðaltöl 69 ára, en færri ár fyrir efri fleti. Í fimm neðstu flötunum er hiti mánaðarins annað hvort hæstur eða næsthæstur á tímabilinu. Við sjáum að mikil skil eru á milli 400 og 300 hPa-flatanna. Hiti í 300 hPa var nærri meðallagi og uppi í heiðhvolfinu er hann greinilega undir meðallagi. Í efstu flötunum var aprílmánuður meira að segja meðal hinna köldustu. Eins og minnst var á í pistli gærdagsins er varlegt að ræða um hnattræna hlýnun í þessu samhengi - en kuldi í heiðhvolfi er þó líka almennur fylgifiskur hennar.  

w-blogg020519c

Til samanburðar skulum við líta á þykktarvik þriggja fyrri hlýrra aprílmánaða. Fyrst árið 2003. Þá var apríl nærri því jafnhlýr og nú hér á landi - en ekki nærri því eins hlýr og nú við Norðaustur-Grænland. Háloftavindar voru af suðsuðvestri en ekki suðsuðaustri eins og nú.

w-blogg020519d

Líkt var ástandið í apríl 1974. Þá var meðalhiti á landinu í heild lítillega hærri en nú, en ekki var eins hlýtt um landið norðan- og vestanvert og nú - og ekki heldur í háloftunum yfir Keflavík. Vestanátt var meiri í háloftum en nú.

w-blogg020519e

Að lokum er apríl 1926. Nokkuð óvíst að vísu, en vikin fyrir norðan býsnamikil. Vindur þó mun hægari í háloftum. 

Ekki eigum við áreiðanleg háloftagisk fyrir hlýjustu aprílmánuði 19. aldar t.d. hinn gríðarhlýja árið 1852. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Hér er nákvæmara og lengra videó um vorið sem kom svo snögglega í Apríl.

https://www.youtube.com/watch?v=jAW0D_4hld8&list=PLcQHErcAX1OO4wmH2K5CjTkqlCOX3Rs83&index=8&t=0s

Benedikt Halldórsson, 4.5.2019 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 114
  • Sl. sólarhring: 265
  • Sl. viku: 1688
  • Frá upphafi: 2350315

Annað

  • Innlit í dag: 73
  • Innlit sl. viku: 1522
  • Gestir í dag: 72
  • IP-tölur í dag: 71

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband