Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016
14.7.2016 | 22:06
Hlýrra hljóð í spánum (en ekki eindregið mynstur)
Fyrri hluti júlímánaðar hefur verið heldur svalur víðast hvar á landinu - sé miðað við síðustu tíu ár. Sé miðað við lengri tíma reynist kalda svæðið mun rýrara. - Hiti hefur verið rétt ofan meðallags síðustu tíu ára á strandsvæði frá Vattarnesi í austri og vestur um til Reykjaness - en inn til landsins á þessu svæði hefur hiti verið neðan meðallags, sem og annars staðar á landinu.
Jákvæða hitavikið hefur verið mest á Ingólfshöfða +0,7 stig, og +0,6 við Skarðsfjöruvita, í Kvískerjum og í Vestmannaeyjabæ. Neikvæða vikið er aftur á móti mest við Upptyppinga og Siglufjarðarveg, -2,6 stig og telst það býsna mikið.
Hin almenni kuldi kemur ágætlega fram á þykktarvikakorti evrópureiknimiðstöðvarinnar síðustu tíu daga og sjá má hér að neðan.
Litirnir sýna þykktarvikið. Við Ísland er það mest -62 metrar, það jafngildir um -3 stiga hitaviki í neðri hluta veðrahvolfs. Enn kaldara hefur verið við Nýfundnaland og Suður-Grænland. Sömuleiðis hefur kuldinn teygt sig austur um Evrópu - en hlýtt hefur verið í Norður-Noregi og suður á Pýreneaskaga (sem allt í einu er orðin lenska að kalla Íberíuskaga - ritstjóranum er svosem sama).
En nú ber svo við að breytingum er spáð. Spákort næstu tíu daga er mjög ólíkt hinu fyrra.
Hér ríkja hlýindi um mestallt svæðið sem kortið sýnir. Vikið við Ísland er allt upp í 50 metra, þess er vænst að neðri hluti veðrahvolfs verði 2,5 stigum hlýrri en að meðaltali á þessu tímabili. - Þetta eru allmikil umskipti, meir en 5 stiga hlýnun.
En hvort og hvernig þessi hlýindi skila sér í garða og á leikvelli landsmanna er svo óvíst. Trúlega verður hlýrra á nóttum en verið hefur - en minni munur á síðdegishitanum - alla vega á þeim svæðum landsins sem hafa upp á síðkastið notið óvenjumargra sólarstunda. - Sé eitthvað að marka þessa spá á annað borð er þó ábyggilega hægt að gera ráð fyrir því að umtalsvert hlýrra verði á hálendinu en verið hefur.
Svo er annað mál að vikamynstrið er ekkert sérstaklega eindregið - það bendir heldur til þess að fjölbreytt veðurlag leynist á bakvið meðaltalið og lítt á vísan að róa. Úrkomuspáin sem fylgir gerir ráð fyrir að úrkoman verði undir meðallagi um mestallt land - lítið undir því vestanlands - en meira fyrir norðan. Spáð er að úrkoma verði samtals yfir meðallagi suðaustanlands og á sunnanverðum Austfjörðum þessa tíu daga.
14.7.2016 | 00:46
Smávegis (fljótfærnislegt) um þurrka
Talsvert er nú rætt um þurrka - sérstaklega á Suðausturlandi. Lítum á málið á fáeinum myndum. - Ritstjórinn ákvað að nota tímabilið 1971 til 2000 til viðmiðunar - það er hans uppáhaldstímabil í slíkum reikningum. Ástæðan er sú að þá eru úrkomumælingar hvað þéttastar á landinu - og meðaltöl eru til fyrir fleiri stöðvar en fyrr og síðar.
Mánaðarúrkomu hverrar stöðvar er varpað yfir í hlutfall af ársmeðalúrkomu þessa tímabils. Með því fæst beinn samanburður á milli stöðva - alveg sama hvort meðalúrkoma þeirra er mikil eða lítil. - Þetta er auðvelt að gera fyrir einstakar stöðvar, fyrir landshluta eða fyrir landið allt.
Meðalhlutur hvers mánaðar í ársúrkomunni ætti að vera rúm 8 prósent - í raunveruleikanum er hlutur vormánaðanna nokkru lægri en þetta - en haustmánaðanna hærri. Þurr tímabil eru líklegri á vorin og snemmsumars heldur en að hausti og vetri.
Fyrsta myndin sýnir þriggja mánaða summur mánaðahlutfallstalna á árunum 2010 til 2016.
Lárétti kvarðinn sýnir ár - merkingin er sett við júnímánuð hvers árs. Lóðrétti kvarðinn sýnir hins vegar þriggja mánaða summur hlutfallstalna. Að öðru jöfnu búumst við við því að summan sú sé í kringum 25 (fjórðungur úrkomunnar fellur á fjórðungi ársins).
Á myndinni eru fjórir ferlar. Sá blái sýnir meðalhlutfallstölu úrkomu allra stöðva á Suðurlandi - allt frá Breiðdal í austri og vestur á Reykjanes. - Rauði ferillinn sýnir hlutfallstölu mönnuðu stöðvarinnar á Kirkjubæjarklaustri (hann endar í apríl 2013 - en þá var hætt að mæla á stöðinni). Græni ferillinn sýnir hlutfallstölu stöðvarinnar í Snæbýli, en sá bleiki tölu sjálfvirku stöðvarinnar á Klaustri.
Í öllum aðalatriðum fylgjast ferlarnir nokkuð vel að - vot og þurr tímabil eru þau sömu og meira að segja sýna ferlarnir svipuð hlutföll. Þetta bendir til þess að úrkoma fylgist nokkuð vel að á öllu Suðurlandi þegar þriggjamánaða úrkoma er lögð saman og borin saman við meðaltöl.
Við hljótum þó að taka eftir því að talsverðu munar á ferlum stöðvanna á Klaustri - sem báðir miða reyndar við meðaltal mönnuðu stöðvarinnar á árunum 1971 til 2000. Sú spurning vaknar hvort mannaða stöðin hafi verið komin úr takt við sjálfa sig síðustu árin sem hún var í rekstri - eða þá að eitthvað vanti upp á mælingar sjálfvirku stöðvarinnar.
Það er skoðun ritstjóra hungurdiska (aðeins skoðun - vel að merkja) að mælingar á mönnuðu stöðinni hafi í raun og veru verið farnar að raskast síðustu ár hennar - miðað við fyrri tíð vegna trjágróðurs og minnkandi vinds við mælinn. Rauði ferillinn sé því of hár þessi síðustu ár. Takið eftir því að hefði trjágróður alla tíð verið með sama hætti á stöðinni eru líkur til að rauði ferillinn hefði legið neðar. - Hér er möguleg ósamfella í úrkomumælingum.
Ferlar Snæbýlis og sjálfvirka mælisins á Klaustri (sem miðar við minni trjágróður fyrri tíma - og er ekki inni í trjálundi) fylgjast betur að (sjálfvirku mælingarnar byrjuðu 2011). - En samt er ritstjórinn á þeirri skoðun að hann mæli aðeins of lítið miðað við mönnuðu stöðina - og þyrfti því sitt eigið viðmiðunarmeðaltal.
En - úrkomuhlutfallssumma bæði á Snæbýli og sjálfvirka-Klaustri er nú komin niður í 7 prósent af ársúrkomu og er það óvenjulegt - þetta er reyndar þurrasti tími ársins eins og áður sagði. Þó er ámóta lága tölu að finna á sama tíma árið 2012 - ekki þó alveg jafnlága. Eins er það eftirtektarvert að topparnir á fyrri hluta myndarinnar eru miklu myndarlegri heldur en síðari hluta tímabilsins.
Við skulum líka líta á 6-mánaða summurnar - ætti að vera um 50 prósent ársúrkomunnar.
Þetta er ekki ósvipuð mynd - við sjáum hér enn betur að mannaða stöðin á Klaustri hefur verið komin eitthvað fram úr sér síðustu árin sem hún var starfrækt. - Snæbýli og sjálfvirka stöðin fylgjast hins vegar vel að og sömuleiðis er lengst af ágætt samræmi milli þeirra og Suðurlandsferilsins bláa - sem endar reyndar við síðustu áramót. Vonandi verður hægt að uppfæra hann síðar í sumar. Sexmánaðaþurrkurinn á Klaustri og í Snæbýli er nú rétt búinn að toppa 6-mánaða þurrkinn 2012 - sem reyndar var mestur á tímabilinu apríl til september eins og sjá má á myndinni.
Það er freistandi að líta á lengra tímabil - og skulum við rétt gera það.
Hér tökum við með Suðurland (grár ferill) og Klaustur (rautt og bleikt) aftur til 1950. - Það er sárasjaldan sem 6-mánaða úrkoma hefur verið minni en nú á Klaustri. - Með því að rýna í myndina má sjá að hlutfallstölur Klausturs og Suðurlands fylgjast almennt mjög vel að - en þó hefur sjálfvirka stöðin frekar tilhneigingu til að hanga neðan í Suðurlandsröðinni - sem aftur bendir til þess að hún þurfi sína eigin viðmiðun - það er því ekki fullvíst að summa síðustu 6 mánaða - sem er sú lægsta á allri myndinni sé í raun og veru lægst - það eru ámóta þurrkar bæði 1977 og svo um miðjan 7. áratuginn.
Ekki verður hér skorið úr um það - en auðvitað ætti að líta betur á málið.
6.7.2016 | 23:26
Furðudjúp lægð (langt suður í hafi)
Venjulega er ekki mikið af djúpum og kröppum lægðum á leið um Atlantshaf í júlí. Kemur fyrir að vísu - en vekur samt alltaf athygli veðurnörda. Núna er ein slík langt suður í hafi - bæði djúp og furðukröpp - er þó ekki af fellibyljaætt.
Evrópureiknimiðstöðin segir hana verða svona kl.6 fimmtudagsmorguninn 7. júlí.
Fárviðri er sunnan- og suðvestanvið lægðarmiðjuna - ábyggilega martröð fyrir siglingamenn að lenda í svona nánast upp úr þurru í júlímánuði - en þeir eru vonandi ekki margir á þessum slóðum.
Lægðin fer hratt til norðausturs í átt til norðanverðra Bretlandseyja og ýtir heldur undir kulda og trekk hér á landi um helgina - án þess þó beinlínis að koma við sögu.
6.7.2016 | 02:14
Kuldi í lofti
Máttur sólarinnar er mikill - en - þrátt fyrir að víða um landið sunnan- og vestanvert mælist nú hæsti hiti það sem af er ári og veðurblíða stingi sér víða niður er ekki allt sem sýnist. Frekar kalt er í lofti - nætur kaldar - og jafnvel hætta á næturfrosti á stöku stað í bjartviðri og hægum vindi.
Næturfrosthætta líður að vísu hjá um leið og eitthvað þykknar í lofti og vind hreyfir - en þá afhjúpast líka kuldinn í sólarleysi og gjósti. - Flestir vilja víst heldur sólina og hægviðrið - þótt það kosti kaldar næstur.
Kalda loftið sem hefur undanfarna daga læðst frá norðurslóðum ríkir næstu daga á mjög stóru svæði eins og sjá má á kortinu hér að neðan.
Myndin sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina næstu tíu daga - en mest ber þó á lituðum þykktarvikunum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og þykktarvikin sýna því hversu mikið hitinn víkur frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Talan milli Vestfjarða og Grænlands er -60 metrar, sem þýðir að búist er við því að hiti verði að meðaltali um -3 stigum undir meðallagi á þeim slóðum næstu tíu daga - og það er mikið á þessum tíma árs.
En við verðum að sjálfsögðu að hafa í huga að hér er um tíu daga meðalkort að ræða - ekki verður sami kuldi allan tímann - þykktin á að ná lágmarki sínu um helgina - þá verða vonandi einhver vindur og ský til að forða miklum næturkulda.
Það ber líka til tíðinda að langt suður í hafi er í uppsiglingu sérlega djúp lægð - miðað við árstíma - hafi reiknimiðstöðin rétt fyrir sér (sem ekki er víst) - ameríska spáin er ekki nærri því jafnkrassandi. Lægðin kemur ekki mikið við sögu hér á landi - en bætir í norðaustanáttina um helgina.
Annars er auðvitað best að vera bara grunlaus um kulda af þessu tagi - meðan sólin skín í heiði og lognið umvefur land og sæ verða fáir varir við hann - nema auðvitað veðurnördin - og margir lesendur þessa pistils klóra sér bara í höfðinu yfir masi ritstjóra hungurdiska - og láir þeim það enginn.
2.7.2016 | 18:58
Tangarsókn á norðurslóðum
Töluvert er um að vera á norðurslóðum um þessar mundir - og hefur óbein áhrif á veður hér á landi. Kortið sýnir háloftastöðu á norðurhveli síðdegis á mánudag (4. júlí) - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Norðurskaut er rétt ofan við miðja mynd og 20. baugur vesturlengdar gengur niður eftir henni um Ísland til Kanaríeyja. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og segja til um vindátt og vindhraða, en þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. - Litakvarðinn ætti að skýrast sé kortið stækkað. - Ef vel er að gáð má reyndar sjá að hann er sprengdur í smábletti yfir Íran - hvítur blettur þar sem þykktinni er spáð meiri en 6000 metrum.
En mörkin á milli gulra og grænna lita eru við 5460 metra - við viljum helst vera í gula litnum á þessum tíma árs. Meðaltalið í júlí er reyndar nákvæmlega á þessum mörkum hér á landi - þannig að dvöl í ljósasta græna litnum (þykkt á bilinu 5400 til 5460 metrar) er mjög algeng. Reyndar er líka algengt að landið sé í næsta þykktarbili (og lit) þar fyrir neðan (5340 til 5400 metrar) - en okkur finnst það samt kalt - og viljum helst vera laus við slíkt.
En við norðurskautið er nú öflugur kuldapollur - þeir hafa svosem oft sést kaldari á þessum tíma - en um miðjuna hringa sig fjórar jafnhæðarlínur - gott fóður í djúpa lægð og á ein slík að sýna sig - fara niður fyrir 980 hPa á þriðjudag. - Er það önnur djúpa lægðin á þessum slóðum á stuttum tíma - heldur óvenjulegt að sögn.
En það sem skiptir máli fyrir okkur er að sótt er að kuldapollinum úr tveimur áttum samtímis - sannkölluð tangarsókn. Gríðarlega hlýtt loft streymir til norðurs bæði yfir Norður-Kanada og yfir Norður-Rússlandi, hér merkt með stórum rauðum örvum. - Hvað gerir kalda loftið þá? Það verður að leita undan.
Til allar hamingju virðist meginkuldinn ætla að hrekjast í áttina frá okkur - en hluti hans hefur þó farið í útrás til suðurs - eins og bláu örvarnar sýna. Þetta er svosem ekkert hættulega kalt loft - en samt heldur til ama - og eins og allt loft sem kemur í háloftum að norðan ber það í sér lægðarbeygju sem eykur líkur á úrkomumyndun og skýjum. - Það breiðist þar að auki yfir stórt svæði og hindrar aðsókn hlýrra lofts - sem reynir þó að nálgast - en verður aðallega að sveigja af til austurs.
Bláu hringirnir á kortinu sýna annars vegar krappan kuldapollinn (sá minni) en hins vegar gróflega legu heimskautarastarinnar sem hringar sig um norðurhvel á 40. til 50. gráðu norðurbreiddar - ekkert ósvipað og að meðaltali. En jafnframt sést vel hversu miklar hlýju kryppurnar eru - langt norðan við sína eðlilegu bústaði.
Við skulum til gamans líta á meðalkort júlímánaðar fyrir tímabilið 1981 til 2010. - Litakvarði þykktarinnar er sá sami og á efra korti - en athuga ber að jafnhæðarlínurnar eru dregnar þéttar en á fyrra korti, með 30 metra bili, en ekki 60 metra.
Bláu hringirnir eru teknir af fyrra kortinu. Við sjáum að heimskautaröstin er ekkert fjarri sinni venjulegu stöðu - og líka að það er að meðaltali kaldara hérna megin norðurskauts heldur en handan þess - kalda loftið nær miklu sunnar vestan við okkur heldur en Síberíu- og Kyrrahafsmegin. - Við sjáum líka að innri hringurinn er líka nærri venjulegri stöðu - að vísu mun snarpari í dag heldur en á meðalkortinu.
En hér vantar hlýju töngina. - Um svipað leyti í fyrra var myndin nokkuð önnur - við skulum að lokum rifja þá stöðu upp.
Stóri, blái hringurinn er enn settur á kortið til samanburðar. - Hér er enginn innri blár hringur. - En hlý hæð er í námunda við norðurskautið - kalda loftið hefur hrakist suður - m.a. hingað til lands - kaldasta loft norðurhvelsins alls er við austurströnd Grænlands vestur af Íslandi - og afleiðing þessarar röskunar er sömuleiðis að hringurinn stóri breiðir meira úr sér í átt til Kyrrahafs heldur en nú (hvítur hringur).
Einhvers staðar verður kalda loftið að vera - en því líður samt best á heimaslóðum - yfir Norðuríshafinu þar ver það sig best og lengst fyrir upphitunaröflunum - sé það hrakið annað hlýnar það fljótar - sérstaklega ef það lendir yfir meginlöndunum í júlímánuði. - Um leið og sól lækkar á lofti verður hins vegar breyting á - þá fara meginlöndin að verða kalda loftinu vinsamlegri.
2.7.2016 | 00:39
Af væntanlegum ársmeðalhita í Reykjavík 2016
Í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar fyrir júnímánuð 2016 er líka minnst á meðalhita fyrstu sex mánaða ársins. Í Reykjavík er hann um 1,0 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,1 stigi undir meðallagi síðustu 10 ára.
Mjög mikil fylgni er á milli hita fyrrihluta árs og ársins alls eins og sjá má á fyrri myndinni hér að neðan. - En þó er það þannig að hitinn það sem af er ári segir ekki margt um hitann það sem eftir lifir árs - að vísu reiknast fylgnin mjög marktæk - en sú marktækni lítur ekkert sérstaklega sannfærandi út - eins og sjá má á síðari myndinni.
Lárétti ásinn sýnir meðalhita fyrstu sex mánaða ársins í Reykjavík 1866 til 2015, lóðrétti ásinn sýnir aftur á móti ársmeðalhita sama árs. Í ár (2016) var meðalhiti fyrrihlutans 4,02 stig (merktur með rauðri strikalínu). - Fylgnistuðull reiknast 0,87 - kannski þýðir það að um 80 prósent breytileikans sé þegar kominn fram?
Ef við förum beint í aðfallslínuna (þá bláu) eða notum líkinguna til að reikna fáum við út ársmeðalhitann 5,06 stig (5,1 stig). Það er 0,8 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, -0,3 undir meðallagi síðustu tíu ára, en 0,6 stigum hlýrra en í fyrra. Árið yrði það þriðja til fjórðakaldasta á öldinni.
Þó það sé auðvitað líklegt að örlög ársmeðalhitans séu nokkuð mörkuð megum við samt ekki falla í þá freistni að telja að myndina megi nota til spádóma um hitann síðari hluta ársins - hann er frjáls (eða nærri því). Það sýnir síðari myndin.
Hér er lárétti ásinn sá sami og áður - sýnir meðalhita í Reykjavík fyrri hluta árs. Á lóðrétta ásnum er hins vegar hitinn síðari hluta ársins. - Jú, það reiknast marktæk fylgni (er okkur sagt), fylgnistuðull er þó ekki nema 0,38. Aðfallið spáir því að meðalhiti í Reykjavík á síðarihluta ársins verið 6,1 stig - og meðalhitinn þá 5,06 stig (sama spá og á fyrri mynd - enda sömu gögn).
Við skulum taka sérstaklega eftir því að árin sem eiga köldustu fyrrihlutana (1866 og 1867) tekst að skila síðarihlutahita sem er ámóta hár og árin sem eiga tvo hlýjustu fyrrihlutana (1929 og 1964) skila. - Jökulkaldir fyrrihlutar áranna 1881 og 1920 eiga síðarihluta um og yfir meðallagi. Ekki mjög niðurneglt samband árshlutanna þessi árin.
Lítum á hvernig fór með ár þegar meðalhiti fyrrihluta árs var í kringum 4 stig eins og nú (í kringum rauðu strikalínuna). Þar er 1880 neðst á svæðinu. Meðalhiti fyrri- og síðarihluta ársins var ámóta, 4,25 og 4,29 stig - árið endaði í 4,27 stigum. - Árið í ár getur varla orðið laklegra en það. - Jú auðvitað getur það það - við vitum ekkert um framtíðina - en við látum þá tölu samt standa sem algjört lágmark væntinga -
Í hinum öfgunum má sjá árið 1941 - meðalhiti fyrri hluta árs var þá 3,92 stig, 0,1 stigi lægri en nú. - Meðalhiti síðari hluta árs 1941 var hins vegar 7,90 stig - og ársmeðalhitinn þar með 5,91 stig - í 3. til 5. hlýjasta sæti allra áranna. - Ekki amalegt það.
Greinilega ýmsir möguleikar í stöðunni - þrátt fyrir að einhver væri að segja að 80 prósent breytileikans væri þegar kominn fram?
En hver dagur þrengir að afgangnum.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 16
- Sl. sólarhring: 211
- Sl. viku: 981
- Frá upphafi: 2420865
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 862
- Gestir í dag: 13
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010