29.4.2025 | 16:57
Hlaupið yfir árið 1981
Tíð var lengst af talin óhagstæð á árinu 1981, Kalt var í veðri og haustið (október og nóvember) það kaldasta síðan 1917, sem varinngangur frostavetrarins mikla 1918. Uggur var í mögum um endurtekningu, því ámóta kalt var einnig 1880, á undan frostavetrinum mikla 1880-81. Samlíkingin brást þó að þessu sinni. Langversta einstaka veður ársins gekk yfir 16. til 17. febrúar, fárviðri sem olli gríðarmiklum sköðum og er gjarnan kennt við Engihjalla í Kópavogi. Um lægðina sem olli þessu veðri var fjallað í eldri pistli hungurdiska og verður ekki endurtekið hér. Í þessum pistli er hins vegar farið ítarlegar yfir tjón í veðrinu - en aftast.
Fyrstu þrír mánuðir ársins voru allir erfiðir og umhleypingasamir, það var helst austast á landinu að tíð var heldur skárri. Í apríl var hagstæður kafli framan af, en síðan varð tíð aftur köld og óhagstæð. Maí var hægviðrasamur og þurr, gæftir voru góðar. Júní var talinn fremur óhagstæður, en ekki mjög úrkomusamur. Tún voru illa farin eftir veturinn. Svipað var í júlí að tíð var talin fremur óhagstæð þó úrkomur væru ekki mjög miklar. Í ágúst brá til mikilla votviðra á Suður- og Vesturlandi, en allgóð tíð var norðaustanlands. Í september var aftur á móti mjög votviðrasamt um landið norðanvert. Uppskera úr görðum var sæmileg suðvestanlands, en annars undir meðallagi. Í október var tíð óhagstæð um allt norðanvert landið, en talin nokkuð góð sunnanlands. Það var óvenju kalt. Nóvember var sæmilegur framan af, en síðan óhagstæð. Desember var umhleypingasamur, vond færð var fyrir norðan, en annars góð. Gæftir voru stopular.
Í textanum hér að neðan er leitast við að rifja upp helstu veðurviðburði ársins, oft með beinum tilvitnunum í texta frétta- og dagblaða. Í fáeinum tilvikum hafa augljósar prentvillur verið leiðréttar og stafsetningu í stöku tilviki hnikað til - vonandi að meinalausu.
Tíð var köld og umhleypingasöm í janúar, færð var oft slæm og svellalög mikil. Árið byrjaði á kunnuglegu áhyggjuefni, stöðunni í lónum Landsvirkjunar. Tíminn segir frá 3.janúar:
AM Ástandið á virkjanasvæði Landsvirkjunar er nú erfiðara en nokkru sinni áður, þar sem yfirborð Þórisvatns er nú 2 metrum lægra en á sama tíma í fyrra og er veruleg aukning skömmtunar til stórra orkukaupenda í undirbúningi. Hafa staðið yfir að undanförnu viðræður milli Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytis um þennan mikla vanda.
Svartsýni gætti einnig með hafísinn, bæði fyrstu vikur ársins og svo reyndar aftur seint að hausti, en ekkert varð úr. Illviðri febrúarmánaðar hreinsuðu hann burt frá landinu og fluttu hann suðvestur um Grænlandssund. Tíminn segir frá 14.janúar:
FRI Flest virðist benda til þess, að við munum ekki fara varhluta af hafís á þessu ári en erfitt er að gera sér grein fyrir því nú hve mikill hann verður þótt ljóst sé, að hann verði mun meiri en í fyrra. Páll Bergþórsson veðurfræðingur, hefur nú á annan áratug reynt að spá fyrri hluta vetrarins um hvernig hafísinn muni verða með vorinu og leggur hann til grundvallar lofthitastigið við Jan Mayen, en þetta hefur hann gert í hjáverkum. Í samtali við Tímann var Páll Bergþórsson spurður um þessi mál og þá fyrst um hvernig útlitið væri nú? Þetta litur frekar þunglega út og mun verr en í fyrra, sagði Páll. Árið í fyrra var gott hvað þetta snertir,enda kom þá enginn is en nú eru talsvert miklu meiri loftkuldar norður af Jan Mayen, en þá voru, en það bendir til meiri sjávarkulda. Þau ísár sem veruleg hafa orðið frá fyrri helmingi þessarar aldar voru þrjú, 1965, 1968 og 1969. Þá varð íssins vart í kringum 5 mánuði á hverju ári við landið. Áttu von á að ísinn hylji fiskimið fyrir norðan landið? Mér sýnist útlitið ekki vera nærri eins slæmt og var fyrrgreind þrjú ísár en ég held, að ísinn verði meiri í ár en hann hefur verið að jafnaði undanfarin 10-20 ár. Maður getur ekki tiltekið nákvæmar tölur í þessu sambandi, en allt bendir til þess.
Þ.11. gerði mikið vestanhvassviðri, en það olli þó ekki tjóni sem getið er um. Vaxandi lægð fór yfir landið þann 13. og í kjölfarið gerði norðan stórhríð um landið norðaustanvert, sömuleiðis varð mjög hvasst sunnanlands. En þetta veður gekk fljótt niður, en frost herti mjög. Tíminn segir frá 15.janúar:
FRI Mjög slæmt veður var á Norðausturlandi í gærdag [14.] en samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni þá var veðrið verst frá Skagafirði og til Austfjarða. Skólum var viða aflýst á þessu svæði af þessum sökum og miklar truflanir urðu á flugsamgöngum. ... sem dæmi um veðurofsann þá var 11 vindstiga rok á flugvellinum á Egilsstöðum og skafrenningur.
AM Í gær [14.] var viða versta veður sunnan og suðvestanlands. Á Kjalarnesi, skammt frá Móum, fuku tveir bilar á hliðina um kl.17, sendiferðabíll og rúta frá Guðmundi Jónassyni. Ekki var vitað um slys á mönnum, en ekki var reynt að ná bilunum upp á veg að nýju í gær, vegna veðurofsa. Undir Ingólfsfjalli fór fólksbíll á hvolf í vindhviðu og annar við Eyrarbakka. Þá var vitað um fimm bila í umdæmi lögreglunnar á Selfossi, sem fokið höfðu út af veginum án þess að hvolfa. Töldu lögreglumenn þar þetta eitt versta norðanveður um árabil, en harðar snjóflögur flugu um á Selfossi í gær og voru þess dæmi að menn urðu að skriða, til þess að takast ekki á loft.
Á þessum árum var stöðugur órói á Kröflusvæðinu, árið 1981 urðu þar tvö eldgos. Nokkuð náið var fylgst með hæðar- og hallabreytingum á svæðinu. Pistillinn hér að neðan mætti eiginlega endurnýta nú á dögum í stöðunni nærri Grindavík - aðeins þörf á að skipta út nöfnum. Pistillinn birtist í Tímanum þann 20.janúar:
FRI Land hefur aldrei náð meiri hæð en nú á Kröflusvæðinu og nú er komið þar svipað hættuástand og skapast hefur fyrir kvikuhlaup áður. Að sögn Báru Björgvinsdóttur jarðfræðings á skjálftavaktinni þá eru engin önnur merki sem benda til að kvikuhlaup sé í aðsigi til dæmis litið sem ekkert um jarðskjálfta. Ómögulegt er að segja til um hvað gerist á næstu dögum eða vikum nema að kvikuhlaup verður, en hvort það verður eingöngu neðanjarðar eða brjótist upp á yfirborðið er ekki hægt að segja til um. Eitthvað gæti gerst í nótt en svo gæti einnig liðið mánuður í atburði hér þannig að við erum í biðstöðu, sagði Bára að lokum.
Í frostunum urðu vandræði við inntaksmannvirki við Búrfellsvirkjun. Tíminn segir af þeim 21.janúar:
AM Seint í fyrrakvöld tók að rofa til við Búrfellsvirkjun, þannig að séð varð til við að veita íshrönninni fram hjá inntaksmannvirkjunum, en eins og blaðið skýrði frá í gær, safnaðist slíkur is að inntaksvirkjunum á mánudag, að orkuframleiðsla virkjunarinnar féll úr 180 MW í 5 -6 MW og varð að keyra allar olíuaflstöðvar landsins á meðan.
Mjög órólegt veður var dagana 17. til 24. Margar lægðir fóru hjá og hlánaði um stund í sumum þeirra. Úrkoma varð töluverð, oftast snjókoma eða slydda. Þ.23. fór kröpp lægð hratt til norðausturs með suðausturströndinni. Tíminn segir frá vandæðum í pistli 24.janúar:
AM Í gær eftir hádegið skall á stórhríð sunnanlands og var færð að þyngjast mjög í Árnes- og Rangárvallasýslum, en allt orðið ófært vestan Vikur. Þá var hríð skollin á yfir Hellisheiði og á veginum um Þrengsli. Viða var aflýst mannfundum sunnanlands og í Eyjum í gær og m.a. frestaðist ferð starfsmanna frá Hrauneyjarfossi til Reykjavíkur af völdum veðursins.
Þann 26. hlánaði um stund. Þá var sett met - sem enn virðist standa. Munur á hámarks- og lágmarkshita sama dags á sömu stöð (sólarhringsspönn) var 33,9 stig. Þetta var í Möðrudal, lágmarkshiti -23,8 stig, en hámarkshiti sama dags +10,1 stig. Á Akureyri var spönnin 23,0 stig [-11,4 og +11,6 stig] og er það met þar á bæ. Þetta kvöld féll mjög óvenjuleg skriða við Lund í Lundareykjadal. Morgunblaðið segir frá þessu 28.janúar:
Snjó- og aurskriða olli miklu tjóni í fyrrakvöld [26.], er hún féll á útihús við bæinn Lund í Lundarreykjadal í Borgarfirði. Skriðan, sem kom úr hól ofan gripahúsanna, sópaði burt fjósi og hlöðu og litlu hesthúsi, sem var áfast hlöðunni. Tíu nautgripir í fjósinu ýmist drápust í skriðunni eða slösuðust það mikið að aflifa varð þá, og tvö tryppi í hesthúsinu fórust.
Þorbjörn Gíslason, bóndi á Lundi, sagði í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í gær, að hann teldi að skriðan hefði fallið milli klukkan níu og tíu í fyrrakvöld. Ég taldi mig þá heyra eitthvað sem ég ekki gat gert mér grein fyrir hvað var, sagði Þorbjörn, en er ég fór út á ellefta tímanum um kvöldið, sá ég hvers kyns var. Þorbjörn sagðist hafa verið með tuttugu og einn nautgrip í fjósi, þar af þrettán mjólkurkýr. Af þeim væru nú aðeins fjórar eftir, því níu þeirra gripa er fórust voru mjólkandi kýr. Fjósið sópaðist burtu stafna á milli, en gólf þess og haughús undir stendur enn. Miklar skemmdir urðu einnig á hlöðunni og nokkrar á heyinu, en Þorbjörn kvaðst í gær telja að bjarga mætti miklu af heyinu. Hópur manna vann þá að björgunarstarfinu, bændur í nágrenninu og úr næstu sveitum, og einnig björgunarmenn úr Reykholtsdal. Íbúðarhúsið að Lundi, sem stendur um 60 metra frá útihúsunum, skemmdist ekki. Það er ljóst, að hér hefur orðið mjög mikið tjón, sagði Þorbjörn, þó enn sé of snemmt að segja til um hve það er mikið. Hús og gripir voru vátryggð, og léttir það mikið undir, en þetta er þó mikið áfall. Þorbjörn sagðist enn ekki hafa ákveðið hvernig byggt yrði upp á ný, en auk nautgripanna og hrossanna er hann með hátt á þriðja hundrað fjár. Hann sagði hólinn ofan peningshúsanna ekki háan né mikinn, en hluti hans eða sneið úr honum hefði farið af stað með þessum afleiðingum. Auk þeirra skemmda er fyrr er getið, urðu smávægilegar skemmdir á túni og girðingum. Skriðan rann raunverulega aðeins um 10 metra niður á húsin, og er ótrúlegt hvað þetta olli miklu tjóni, Í þessu var sambland af snjó, leir og aur, mjög þungt," sagði Þorbjörn. Þorbjörn Gíslason hefur búið í rösklega fimm ár á Lundi, en hann tók þá við búi af foreldrum sínum.
Morgunblaðið getur snjóflóðs á Bíldudal í hlákupistli þann 27.janúar:
Veður verður væntanlega mjög svipað í dag eins og það var í gærdag að sögn Trausta Jónssonar, veðurfræðings, þ.e. tiltölulega hlýtt í lofti og rigning viða, eða a.m.k.
rigningargusur. ... Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar, að flestir aðalvegir á landinu væru þokkalega færir, en mikil hálka væri víðast hvar. Tiltölulega lítið var farið að bera á vatnsskemmdum á vegum í gær, en ef sama tíðarfar verður eitthvað áfram má búast við skemmdum. Fréttir bárust þó af snjóflóðum í Hvalfirði og á Bíldudal í gærkvöldi. Á Bíldudal rann snjóflóðið á rafmagnsspennistöð og eyðilagði einn spenni. Varð því að skammta rafmagn.
Tíminn segir af leysingum og vandræðum af þeirra völdum í frétt 28.janúar:
HV Það hefur verið mikil leysing og rigning víða um land í dag og flætt yfir vegi þar sem ræsi og skurðir hafa viða verið fullir af klaka. Af þessu hafa víða orðið minniháttar vegaskemmdir, runnið úr vegbrúnum og grafið í vegi. Alvarlegast er þetta þó austur í Öræfum, því þar tók Austurlandsveg í sundur snemma í morgun og hefur hann verið ófær í dag, fram undir þetta. Nú er búið að koma þar yfir stærri bilum og ráðgert að á morgun verði búið að koma nýju ræsi í veginn, þannig að hann verði fær öllum, á morgun, sagði Arnkell Einarsson, hjá Vegaeftirlitinu, í viðtali við Byggða-Tímann í gær. Skriður voru í Ólafsvikurenni, sagði Arnkell ennfremur, þannig að það lokaðist í morgun, en var opnað dag. Vegurinn um Heydal lokaðist í dag, þegar gróf frá brú við bæinn Heggstaði í Hnappadal. Engar viðgerðir geta farið fram þar í dag og ekki er séð hvernig að þeim verður staðið enn. Það hafa fallið snjóflóð á ýmsum stöðum, til dæmis féll flóð í Dýrafirði, milli Þingeyrar og Ketilseyrar. Það er sjötíu metra breitt og eins til tveggja metra þykkt. Eins var Óshlið lokuð í morgun vegna snjóflóða, en búið er að opna hana.
Í Borgarfirði hafa verið miklir vatnavextir og nú er ófært um brúna á Hvítá hjá Hvítárvöllum. Þar er vatnið svo mikið, að það rennur yfir fyllinguna á milli brúnna. Eins er stífla í Grímsá, þannig að vegurinn neðan við Hest er illfær vegna þess, að vatn flóir yfir hann. Sama er að segja á fleiri stöðum í Borgarfjarðarhéraði. Um Vesturlandsveg í Norðurárdal var ófært í morgun. Þar fóru tvær ár úr farvegi sinum, en það hefur fjarað þegar liðið hefur á daginn og er nú fært öllum bilum. Það er greiðfært allt norður í Skagafjörð. Mikið vatn var í morgun á Vallarbökkunum. Það hefur
farið sjatnandi og var fyrir skömmu orðið fært öllum duglegri bílum, þótt þrjátíu sentímetra vatnsdýpi væri enn. Síðan er fært um Akureyri, allt til Húsavíkur og um Austurland suður til Vopnafjarðar. Ef við lítum á Austurlandið betur, þá er sæmileg færð á Fljótsdalshéraði, viðast hvar. Þó er ófært til Borgarfjarðar, fært um Fjarðarheiði, en þar er mikil hláka. Verið er að moka Oddsskarð
Morgunblaðið segir einnig af vatnavöxtum í pistli 29.janúar:
Sauðárkróki. 27. janúar 1981. Í gær [26.] gerði asahláku hér á Sauðárkróki, með tilheyrandi vatnsflaumi úr brekkunum fyrir ofan bæinn. Rann vatnið einkum eftir Skagfirðingabraut og fyllti hliðargötur og opin svæði í miðbænum. Faxatorg var um tíma eins og hafsjór yfir að líta. Starfsmenn bæjarins höfðu ærið að starfa því niðurföll fylltust og höfðu ekki undan. Björgunarsveitin var kölluð út til aðstoðar, svo og slökkvilið staðarins. Vatn rann víða inn í íbúðarhús og olli umtalsverðum skemmdum, sem þó munu ekki allar vera komnar í ljós. Mikið vatn flæddi inn í sundlaugarhúsið, og voru dælur þar í gangi í alla nótt. Einnig flæddi inn í barnaskólann, og varð að fella þar niður kennslu í morgun. Það er algengt að vatnagangur af völdum skyndilegrar hláku geri Sauðárkróksbúum óskunda. Fyrr á árum rann Sauðáin gegnum bæinn og í leysingum olli hún oft tjóni og óþægindum en fyrir löngu hefur henni verið veitt í aðra átt. Engu að síður geta bæjarbúar átt von á svona uppákomu þegar þannig viðrar, og er afar brýnt að gera frekari ráðstafanir til að fyrirbyggja tjón af þessum sökum. Kári
Morgunblaðið segir fleiri flóðafregnir 30.janúar:
Hvítá og Ölfusá hafa flætt yfir bakka sína og valdið nokkrum truflunum á vegasambandi á ýmsum bæjum í Árnessýslu. Hafa nokkrir bæir verið einangraðir vegna vatnagangs, en í gær var hægt að aka nokkuð um á klakanum. Var frostið komið nálægt 10 stigum þegar mest var, en í gærkvöldi fór mjög hlýnandi á ný og var jafnvel búist við erfiðleikum á ný af þeim
sökum.
Austri segir hrakningssögu af Borgarfirði eystra í pistli þann 30.janúar (talsvert stytt hér):
Á annan í jólum brann íbúðarhúsið á Hofströnd og missti bóndinn þar, Ingibjörn Kristinsson, allt sitt, bæði hús og innbú. Tjón hans er gífurlegt. Ekki var þó ein báran stök, því viðlagasjóðshúsi sem Ingibjörn festi kaup á í Vestmannaeyjum, var skipað upp á Reyðarfirði, vegna veðurs og flutt landleiðina til Borgarfjarðar. Bíllinn fauk útaf í Njarðvíkurskriðum og skemmdist bæði bíll og hús þótt mildi væri að ekki fór ver. Í ofsaroki aðfaranótt þriðjudags [27.] fauk svo önnur hliðin úr húsinu, en viðgerðir á því voru hafnar. Skemmdist húsið hálfu meira en við útafkeyrsluna. Í öll þessi þrjú skipti sem Ingibjörn varð fyrir skakkaföllum, var ofsaveður.
Þann 30. hófst loks kvikuhlaupið sem búist hafði verið við við Kröflu. Tíminn segir frá 31.janúar:
FRI Skömmu eftir kl.7 í gærmorgun [30.] hófst kvikuhlaup til norðurs á skjálftasvæðinu við Kröflu og um kl.14 braust kvikan upp á yfirborðið og sjöunda eldgosið frá því að umbrot hófust 1975 var hafið. Frá því að gos hófust á þessu svæði þá hefur aldrei liðið jafnlangur tími frá því að kvikuhlaup hófst og þar til kvikan braust upp á yfirborðið, en land hefur heldur aldrei risið jafn hátt og fyrir þetta gos. Eins og áður sagði þá er þetta 7. gosið á þessum slóðum frá því að umbrot hófust 1975, en hinsvegar hafa nú orðið þarna 4 gos á s.l. 10 mánuðum (stytt).
Tíð var einnig erfið í febrúar, en þó skárri austanlands heldur en annars staðar. Tíminn segir enn af samgöngutruflunum 3.febrúar:
Stjas/Vorsabæ. Miklar truflanir hafa orðið á samgöngum í Árnessýslu og Flóa síðustu daga vegna vatnagangs í hlákunni. Er ástandið mjög slæmt í neðanverðum Flóa og einna verst á Fljótshólavegi á milli Króks og Arabæjarhjáleigu. Var í gærmorgun ófært öllum ökutækjum um veginn og urðu mjólkurbíll og skólabíll að snúa við er þeir ætluðu þessa leið, þar sem vatnið hafði grafið burt allan klaka og foræði eitt undir. Á Tunguholtsvegi má nú heita ófært fyrir alla bila. Aðrir vegir mega heita slarkfærir, þótt viðsjárverðir séu þeir viða. Vegagerðin reynir nú að opna ræsin, en vegna þess hve vatnsfarvegir eru fullir af klaka, flyst straumurinn illa fram og flæðir yfir vegina.
Áhyggjur af hafís héldu áfram, Tíminn segir í frétt 11.febrúar:
BSt Sjómenn frá Grímsey urðu nýlega varir við íshrafl í sjó um 7 mílur frá eynni og tóku þeir þá upp net sin til að missa þau ekki undir is, sagði Vilborg Sigurðardóttir, símstöðvarstjóri í Grímsey, er blaðamaður Tímans hringdi þangað norður til þess að forvitnast um hvort ís væri kominn í námunda við Grímsey. Veðrið hefur yfirleitt verið afleitt í vetur, sagði Vilborg, má segja að alltaf sé vitlaust veður.
AM Í gærkvöldi ræddum við við Þór Jakobsson, deildarstjóra ískönnunardeildar Veðurstofunnar og spurðum hann um ískönnunarflug sem Landhelgisgæslan flaug í gær. Þór sagði að fyrst hefði verið flogið vestur á Dohrnbanka og komið þar að ísjaðrinum í 108 sjómílna fjarlægð vestur af Bjargtöngum. Þéttleiki hafísþekjunnar var þar um fjórir tíundu hlutar. Var þar mikið af jöklum, sumum stórum og þykkum og virtist hann vera margra mánaða gamall og langt að rekinn. Ísröndin einkenndist af löngum böndum og röstum, tjörnum og flóum. Nokkrum sjómílum fjær landi tók við þéttari is. Þá var flogið í norðaustur og jaðarsvæðið þrætt. hafísinn var tæpar 50 sjómílur NV af Vestfjörðum og voru þar sjö til níu tíundu hlutar hafsins þaktir ísi. ísjaðarinn er um það bil 50 sjómílur norður af Horni. Ísjaðarinn fyrir Norðurlandi er svo að meginísjaðarinn frá vestri til austurs er um 10 sjómílur norður af 67 gráðum norðlægrar breiddar. Suður af meginjaðrinum er um 30 sjómílna breitt belti af gisnum is og voru þar innan um stórir jakar á reki. Gisna beltið var 15 sjómílur norður af Grímsey, en næst landi var ísinn norðvestur af Rauðanúp um 12 sjómílur. Ísbrúnin sveigði til norðurs, þegar komið var rétt austur á móts við Langanes. Leiðangursstjóri var Helgi Hallvarðsson og skipherra Þröstur Sigtryggsson.
Þ.11. gerði allmikið landsynningsveður sem endaði með hægari vindi og snjókomu á höfuðborgarsvæðinu og raunar á Snæfellsnesi líka. Ófærð varð einnig nokkur á Norður- og Austurlandi. Tíminn segir af þessum erfiðleikum 12.febrúar:
BSt Í fyrrinótt var hið versta veður í Reykjavík og nágrenni. Miklir samgönguerfiðleikar voru í höfuðborginni fram eftir degi í gær. Þegar Tíminn leitaði frétta hjá Vegagerðinni af færð víðs vegar um landið, kom þó í ljós, að færðin var viða ekki eins slæm og við hafði verið búist. Til dæmis sagði Hjörleifur Ólafsson vegaeftirlitsmaður, eftir vegagerðarmönnum, að sumarfærð hafi verið um Suðurnes þegar komið var suður fyrir Hafnarfjörð. Einnig sagði hann, að það hefði mátt heita fært í gær af höfuðborgarsvæðinu og alla leið austur á Eskifjörð, en eina haftið hefði kannski verið Mýrdalssandur, en þar var mjög þungfært. Í stórum dráttum sagði Hjörleifur færðina góða á Suðurlandi, en einna verst hefði færðin verið á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Strax um morguninn var opnaður vegurinn um Þrengsli, en um miðjan dag var verið að opna Hellisheiði. Reyndar sagði hann, að færðin gæti spillst þar aftur ef hvessti, því að snjór er töluverður.
Í Mosfellssveit þurfti að moka dálitið, en litið sem ekkert í Hvalfirði og fært er stórum bilum um Borgarfjörð og norður í Húnavatnssýslur. Mikil snjókoma hefur verið á Ströndum, og sagði Hjörleifur ófært til Hólmavikur og þar lengra norður. Á Snæfellsnesi eru ófærir vegir um Kerlingarskarð og Fróðárheiði, en fært um Heydal. Mikill snjór og ófærð var utarlega á Snæfellsnesi. Reyna átti þó að opna veginn milli Ólafsvikur og Hellissands, en þar féllu mörg snjóflóð, svo hætt var við að opna veginn fyrir Ólafsvikurenni. Litið var vitað um færð á Vestfjörðum, þar var óveður enn og ekkert farið að reyna við að opna vegi. Vonskuveður var líka í Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. ... Ófært var til Siglufjarðar úr Fljótum, en sæmileg færð annars í Skagafirði. Ólafsfjarðarmúli var ófær, en fært var frá Akureyri til Dalvikur og fyrst í gærmorgun var fært um Dalsmynni til Húsavikur, en þar var komið vitlaust veður um miðjan dag, og sagði Hjörleifur, að búast mætti við, að þar væri allt orðið ófært aftur. ófært er eins og er um flesta vegi á norðausturhorni landsins, en í fyrradag var þar bjartviðri en 20 gráðu frost. Á Austurlandi er þungfært á Héraði, og Fagridalur ófær. Sömuleiðis Fjarðarheiði og Oddsskarð. En suður með Fjörðum er góð færð og allar götur suður að Mýrdalssandi, eins og fyrr segir, en þar er mjög þungfætt. Mýrdalssandur er sem sagt eina haftið á þessari leið núna, annars væri fært fyrir alla bila frá Reykjavík og austur á Eskifjörð, sagði Hjörleifur að lokum.
Sagt var frá veðrinu mikla 16. til 17. febrúar í sérstökum pistli hungurdiska. Þetta veður er í flokki hinna hvössustu sem yfir landið hafa gengið. Í þessum gamla pistli var aðeins lauslega fjallað um tjón, hér er því ítarlegri listi, en til að fregnir af tjóni ríði þessu ársyfirliti ekki alveg á slig var ákveðið að flytja fréttalistann aftast í pistilinn - sem eins konar viðhengi.
Síðari hluta febrúar var í aðalatriðum skaplegt veður. Austlægar áttir voru ríkjandi og hröktu þær hafísinn alveg frá landinu. Mars var kaldur og óhagstæður, einna skást var tíðin um landið suðvestanvert.
Norðaustanáttin var sérlega þrálát í mars. Kortið sýnir meðalsjávarmálsþrýsting og þrýstivik mánaðarins.
En norðaustanáttin var grunn. Ofan hennar var vestlæg átt ríkjandi. Í veðurlagi sem þessu er úrkoma ekki eingöngu bundin við landið Norðan- og Austanvert. Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, þykktina (daufar strikalínur) og þykktarvik. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þessi marsmánuður var kaldur hér á landi. Tveir langir kaflar með þessu vegurlagi mörkuðu mánuðinn. Fyrsta vikan og síðan langur kafli frá miðjum mánuði og um tíu daga skeið.
Mikil hæð var yfir Grænlandi fyrstu daga marsmánaðar, en háloftalægðardrag kom úr norðvestri og úr varð staða sem olli snjókomu suðvestanlands, þótt norðaustanátt væri ríkjandi. Úr þessu varð fyrst til lægðardrag við Suðvesturland og síðan allmikil lægð suðaustan við land.
Þann þriðja var háloftahæð yfir Grænlandi sunnanverðu. Brúna örin sýnir norðvestlæga átt sem ríkjandi var í miðju veðrahvolfi noraustan við hæðarmiðjuna. Kortið sýnir annars sjávarmálsþrýsting og hita í 850 hPa (í um 1400 metra hæð). Norðaustanáttin gengur undir norðvestanáttina ofar og þrengir þá kalt loft sér suðvestur um Grænlandssund og Ísland (blá ör). Eftir því sem loftið úr norðri verður kaldara (kemur af norðlægari og norðlægari slóðum) lækkar hæð 500 hPa flatarins (minna fer fyrir köldu lofti heldur en hlýrra). Við það myndast lægðardrag í háloftunum þar undir sem ákafi köldu framrásarinnar er mest. Vindur austan lægðardragsins snýst í suðvestur og smám saman myndast einnig lægðardrag niður við sjávarmál. Þessi þróun er að hefjast á þessu korti. Þegar háloftalægðardragið þroskast verður til úrkomusvæði austan þess. Snjóað getur bæði norðanlands og sunnan.
Þremur dögum síðar er staðan orðin þessi. Gríðarmikill norðuastanstrengur er yfir landinu, undir háloftalægðardragi og í vesturjaðri þess.
Ofar er áttin hins vegar óráðin og vindur mjög hægur. Mikill þykktarbratti er yfir Íslandi, hitamunur mikill á milli lofts sem er yfir Suðausturlandi og Vestfjörðum. Knýr sá munur norðaustanáttina. Dagana 4., 5. og 6., herti mjög á henni, en síðan slaknaði á. Þann 10. dýpkaði síðan önnur lægð fyrir sunnan land, nálgaðist landið og úr varð hláka.
Tíminn segir frá 7.mars:
KL Í gær var versta veður um allt land og má í fáum orðum segja, að ófært hafi verið um landið, allt frá Selfossi, austur, norður og suður að Norðurárdal í Borgarfirði. Að sögn Arnkels Einarssonar hjá Vegagerð ríkisins var svo slæmt veður um allt land að ekki var hægt að standa að snjómokstri, nema aðeins að litlu leyti. Til hafði staðið að opna suðurströndina allt til Egilsstaða og norðurleiðina allt austur til Húsavikur, en hvorugt af þessu var hægt að framkvæma vegna veðurs. ... Víða um land er hætta á snjóflóðum og nefndi Arnkell sem dæmi, að í Vattarnesskriðum hefði stöðvast bilar, sem fluttu grasköggla. Þrátt fyrir veðurofsann og ófærðina, var farið þeim til hjálpar, vegna ótta við snjóflóð. Úr Fnjóskadal bárust þær fréttir, að mikil hætta væri á snjóflóðum í Dalsmynni og snjóflóð féllu í Ljósavatnsskarði. Arnkell tók skýrt fram, að ófærðin stafaði fyrst og fremst af veðurofsanum. Það sé ekki vitað um ástand veganna, svo að vera kunni, að þegar veðrið gengur niður, sé ástandið ekki eins slæmt og útlit var fyrir í gær. KL
Mörgum er nú farið að finnast nóg um langan og strangan vetur, og þegar vorið minnti aðeins á sig um s.l. helgi, fylltust margir von um betri tíð, sem heldur betur hefur brugðist. En hvernig er útlitið framundan? Horfurnar eru þær, að lítið verði um breytingar, sagði Guðmundur Hafsteinsson veðurfræðingur. Veðrið verður svipað í dag og það var í gær. Það er kuldalegt útlit, ef það er litið til lengri tíma, en hvort það verður jafnhvasst, þori ég ekki að segja til um. Aðspurður um snjóflóðahættu, sagði Guðmundur Veðurstofuna ekki hafa gefið neinar aðvaranir varðandi hana. Hins vegar hefði veðrið verið þannig, að miklar líkur væru til að snjóhengjur hefðu sett hlémegin í fjöll og væru þá lausar fyrir.
Í illviðrinu þann 4. hvarf bátur. Tíminn segir frá 10.mars:
BStAð sögn Hannesar Hafstein framkvæmdastjóra Slysavarnafélags Íslands hefur leit verið hætt að vélbátnum Báru VE 141 og er báturinn talinn af. Bátsverjar voru tveir ... S.l. miðvikudag heyrðist siðast til bátsins, en hann var þá um 32 sjómílur út af Garðskaga. Þegar ekki heyrðist neitt í bátnum um kvöldið hófst leit þegar, því að menn óttuðust um bátinn, því að veður var slæmt.
Þann 16. myndaðist lægð á Grænlandshafi, hún dýpkaði ört og fór síðan austur um landið. Hún olli svo miklu norðanveðri og hélst norðanáttin nokkuð sterk í nokkra daga.
Tíminn segir frá 18.mars:
AM Mikið hríðarveður gerði vestanlands og norðan í fyrrinótt og stóð það viða enn í gærdag, einkum þó norðaustanlands. Guðmundur Sveinsson á Ísafirði sagði í gær að þar hefði verið talsverður bylur í fyrrinótt og í gærmorgun, en tekið var að birta upp síðdegis og veður orðið sæmilegt. Ekki kvað Guðmundur hafa snjóað nein ósköp, en aftur á móti væru allir fjallvegir ófærir og lokað var inn í Súðavik og Bolungarvík. Átti Guðmundur þó von á að þessir vegir yrðu ruddir undir kvöld í gær. Sæmileg færð var á götum á Ísafirði.
Hið mesta óveður var á Sauðárkróki kl.15 í gær, þegar við ræddum við Guttorm Óskarsson norðanstormur og hríðarkóf. Veðrið skall á í fyrrinótt og níu vindstig komin í gærmorgun. Snjókoma var þó ekki meiri en svo að vel var fært um götur bæjarins, þótt fáir væru á ferli. Á Húsavik var afleitt verður og þreifandi bylur, þegar við ræddum við Hafliða Jósteinsson, en þar skall veðrið á um sjöleytið í gærmorgun. Sagði Hafliði að rétt sæi á milli húsa vegna hríðarkófsins. Illfært var orðið um götur á Húsavik, vegna fannfergis.
Þann 24. mátti segja að hríðin stæði enn yfir, en úr því fór að hlána. Tíminn segir frá 24.mars:
BSt Nú hefur í heila viku staðið yfir stórhríð á Vestfjörðum, Norðurlandi og Norðausturlandi. Vegir eru viðast ófærir og kennsla hefur fallið niður í skólum vegna óveðurs og ófærðar. Blaðamaður Tímans hafði tal af Páli Bergþórssyni veðurfræðingi til að spyrjast fyrir um veður á landinu og veðurútlitið fyrir næstu daga. Páll sagði að illviðri og stórhríð væri frá Snæfellsnesi, á Vestfjörðum og um Norðurland og Norðausturland, en heldur hefði dregið úr frosti. Þetta er orðin óvenjulega löng hríð, sagði Páll. Þó er mikið að mildast í bili og nú dregur nokkuð úr veðurhæð, en það er spurning um það, hvort það veröur nokkur bati til langframa. Ég er hræddur um að það verði viðvarandi norðaustanátt áfram, og hún gæti þá heldur versnað á ný. Í veðurspá um miðjan dag í dag (mánudag) gerðum við ráð fyrir því, að veður mildaðist nokkuð, en ég hafði bara ekki brjóst í mér að tala um það, að líklega myndi það ekki standa lengi. Þegar þetta verður lesið í blaðinu, býst ég alveg eins við, að við hér á Veðurstofunni verðum farnir að spá norðaustan átt á ný, sagði Páll.
BST Á Ísafirði hefur verið rosatíð að undanförnu, sagði Guðmundur Sveinsson netagerðarmaður á Ísafirði, er blaðamaður Tímans hafði tal af honum í gær. Það má segja að stórhríð og hvassviðri hafi staðið í 8 daga og einna verst var veðrið s.l. sunnudag. Þá var ekki hundi út sigandi, eins og sagt er. Á laugardaginn var þó flogið hingað, og fengum við þá póst og blöðin fyrir s.l. viku t.d. fékk ég 5 blöð af Tímanum, og er þá heldur farið að slá í fréttirnar, þegar blöðin koma svona gömul. Skólar á Ísafirði voru lokaðir í morgun (þ.e. mánudagsmorgunn) en kennsla hófst eftir hádegið. Töluvert íshröngl er í höfninni og pollinum, sem myndast þegar svona mikið snjóar á krap í sjónum og verður úr mikið frauð eða móður, eins og við köllum það sagði Guðmundur.
Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum í Húnavatnssýslu sagði, að það væri ekkert hægt að segja gott um veðrið eða færðina, en blaðamaður hafði byrjað á því að spyrja hann um veður og færð og hvað hann segði gott! Það hefur verið hérna leiðinda illviðri undanfarið, en núna þessa stundina (miðjan dag í gær) hefur svolítið mildast og rofað til, sagði Magnús. Snjó sagði hann ekki vera svo óvenjulega mikinn í lágsveitum, en hríðardagar væru mjög margir og tíðarfar erfitt. Reynt hefur verið að halda vegum opnum, t.d. hefði skólabíllinn, sem ekur börnum að skólanum að Húnavöllum komist með krakkana alla daga nema tvo, að sögn Magnúsar. En ófærð er þó mest í Langadal og í uppsveitum. Snjó hefur fest minna hér í lágsveitum, sagði Magnús, en verið samt mjög slæmt veður, og skóli hefur fallið niður suma daga á Skagaströnd og Hvammstanga, og þetta er orðið mjög langvarandi og þreytandi illviðrakafli. Svellalög eru mikil á túnum og í högum og erfitt fyrir hross, sem eru úti, að bjarga sér. Þótt hrossum sé gefið úti þá er mjög ónæðissamt hjá þeim, en þau eru viða höfð úti. Magnús sagði að búast mætti við að nú færi að sneiðast um hey hjá sumum, en ekkert vandræðaástand væri þó enn, en þegar svona langur kafli kemur og öll hross og allar skepnur eru á gjöf þá gengur á heyin. Það má segja að við séum innilokaðir núna hér í sveitinni, því að heiðar allar eru ófærar, sagði Magnús. Hann sagðist hafa það eftir mönnum, sem nýlega fóru Holtavörðuheiði, að heiðin sjálf væri ekki svo snjóþung. Nýi vegurinn væri það hár að blásið hefði af honum, en þegar kæmi suður af þá væri þar mesta ófærðin.
Ekki gefið á sjó í viku. Því er nú fljótsvarað um veðrið, það er bara snarvitlaust og hefur verið það í viku eða meir, alveg látlaust, sagði Guðmundur Jónsson í Grímsey. Ekki hefur verið hægt að fara á sjó héðan síðan á hinn sunnudaginn í heila viku. Enginn bátur hreyfður. Það er mikil ísing á bátunum í höfninni, því að kuldinn er svo mikill í sjónum, en þegar gefur fiskast vel, og kominn er á land í Grímsey nú meiri afli en í maílok í fyrra. Guðmundur sagði, að ekki hefði fest svo mjög mikinn snjó í Grímsey, því að snjó skefur af í rokinu, og t.d. er flugvöllurinn sem sagt auður og því hægt að fljúga þegar gefur. Flugfélag Norðurlands hefur þrjár fastar áætlunarferðir í viku þegar veður leyfir og svo er skipið Drangur hálfsmánaðarlega. Enginn skortur er í Grímsey á nauðsynjum og ekki fellur dagur úr skólanum. Krakkarnir drifa sig alltaf í skólann, sagði Guðmundur. Þetta smáfólk er svo hart af sér og vant öllum veðrum, bætti hann við.
Vegurinn um Fagradal lokaður heila viku. Hér hefur verið linnulítil hríð frá því á þriðjudag í síðustu viku. Kominn er töluverður snjór hérna, og bættist mikill snjór við s.l. nótt, sagði Jón Kristjánsson á Egilsstöðum, er hann var spurður um veður og færð í gær. Jón sagði að telja mætti að allir vegir væru ófærir þarna á Héraði, ef eitthvað hreyfði vind þá væri það mikil fönn, að ekki þýddi að reyna að opna vegina því að snjóinn skefur jafn óðum í skafla og lokast vegirnir þá um leið. Það hafa verið afar miklir samgönguörðugleikar hér um slóðir, sagði Jón, og erfiðast er að ekki er hægt að opna veginn um Fagradal niður á Firði til að koma þangað mjólk, en vegurinn hefur verið lokaður nú í viku. Það er viða erfitt ástand í mjólkurmálum á Fjörðunum vegna þess. Það hefur verið reynt að fljúga austur að Egilsstöðum þegar einhver uppstytta hefur verið á snjókomu og var siðast flogið austur á sunnudag, en þó var þá mjög vont veður. Kennsla hefur fallið niður dag og dag í þessum illviðrakafla vegna óveðurs og ófærðar, og fólk komst stundum varla milli húsa. Það má segja að þetta hafi verið óveður með litlum upprofum norðanátt síðan á öskudaginn, og er fólk farið að vona að þetta taki enda, sagði Jón.
Óli Halldórsson á Gunnarsstöðum við Þórshöfn sagði okkur á Tímanum, að þetta væri 7. dagurinn, sem mætti segja að norðlensk stórhríð hefði geisað þar. Það brast á á mánudagskvöldið þann 16. og síðan er ekki hægt að tala um upprof. Í gær var þó veðrið heldur skárra að því leyti að ekki var eins mikið frostið. Við köllum nú ekki mikið frost, þótt það sé svona 8-10 stig, sagði Óli. Við vorum vön hér miklu frosti á ísavetrinum, en þá er nú orðið ansi napurt, þegar frostið var yfir 20 stig með hvassviðri og snjókomu. Óli sagði, að þeir á Gunnarsstöðum hefðu komið mjólk frá sér til Þórshafnar alla dagana nema í gær, en það var ekkert reynt til að moka þá, en á að moka í dag. Allir vegir eru ófærir núna, jafnvel hafísvegurinn, sem hefur þó komið að góðum notum í vetur. Einu sinni tók mjólkurferðin 6 klukkutíma til Þórshafnar frá okkur, en það er þó ekki nema 13 km., sagði Óli. Flugvöllurinn við Þórshöfn er á malarkambi fyrir norðan þorpið og hefur litið fest snjó á honum, og er þvi flogið öðru hverju til Þórshafnar. Það hefur þó verið oft erfitt í vetur að halda opnum veginum út að flugvellinum. Veturinn núna hefur minnt mig mikið á veturinn 1951. Það var mikill snjóavetur og veðurfarið var svona jafnbölvað allan veturinn, og litið um upprof, en gaf snjó á snjó. Þá var mjólkinni ekið á hestasleðum og einn daginn eftir óveðursdaga, voru þá á Þórshöfn 54 hestasleðar. Nú eru þessir sleðar vist allir ónýtir, en þeir voru notaðir svolítið árið 1967 og dregnir af dráttarvélum, en þeir voru ekki smíðaðir fyrir slíkt og liðuðust í sundur. Vélsleðar eru nú mikið notaðir í snatt og með smáflutninga. Ófært er til Raufarhafnar núna og læknir, sem á að fara þangað tvisvar í viku, hefur ekki komist þangað síðan á fimmtudag fyrir nærri hálfum mánuði, sagði Óli Halldórsson að lokum.
Þann 23. fórst grænlenskur rækjutogari vestur af Patreksfirði, vegna ísingar og brots að því er talið var. Tveir menn fórust, en aðrir skipverjar björguðust naumlega (Morgunblaðið 24.mars). Morgunblaðið segir 26.mars líka frá óvenjulegum ísalögum á Breiðafirði:
Talsverð vandræði hafa verið hjá Breiðafjarðarbátum að undanförnu vegna hafíss við hafnir og hafa bátar teppst í landi vegna íss og einnig átt erfitt með að komast til hafnar af sömu ástæðu. Í gær var varðskip fengið til þess að aðstoða 5 skelfiskbáta í Stykkishólmi til þess að komast á sjó, en íshroði fyllti höfnina og aðsiglingu að henni. Varðskip sigldi auðveldlega í gegnum hroðann og braut ísinn, en síðan sigldu bátarnir fimm í kjölfar varðskipsins út úr höfninni. Einnig hafa bátar í öðrum Breiðafjarðarhöfnum lent í samskonar vandræðum. Í gær lentu Stykkishólmsbátar í miklum töfum á leið inn í höfnina vegna íssins og sátu þar fastir í nokkra klukkutíma, en allir voru komnir að bryggju fyrir myrkur. Þegar Morgunblaðsmenn flugu yfir Breiðafjörð í gær voru miklir ísflákar víða um fjörðinn og t.d. voru hafnirnar á Ólafsvík, Stykkishólmi, Hellissandi og Rifi meira og minna fullar af ís, en sjaldgæft er að ís hrannist upp við Hellissand. a.J.
Morgunblaðið segir af vondum gæftum 29.mars:
Ógæftir og aflaleysi hafa hrjáð verstöðvar um allt sunnanvert landið, allt frá Hornafirði til Akraness, og hefur marsmánuður einkum verið slæmur. Allar horfur eru á því að heildaraflinn á vetrarvertíðinni verði talsvert minni en á síðasta ári. Sjómenn sunnanlands eru mjög óánægðir með fyrirhugað páskafrí og telja ógæftirnar að undanförnu nægar verndunaraðgerðir.
Tíminn segir af tjóni garðyrkjubænda í pistli 3.apríl - aðaltjónið á gróðurhúsunum varð í febrúarveðrinu mikla, en frost eftir það gerðu vont verra:
FRI Nú er orðið ljóst að tjón gróðurhúsabænda í Árnessýslu vegna kuldakaflans í vetur nemur um 1628 þúsund kr. (162 gamlar milljónir) en úttekt á tjóninu lauk nýlega og hafa matsmenn skilað af sér niðurstöðum til viðkomandi hreppa. Sigurður Pálsson sveitarstjóri í Hveragerði sagði í samtali við Tímann að Biskupstungnahreppur hefði orðið verst úti, en þar nam tjónið 975 þúsund kr. Þar á eftir kom svo Hveragerði, en tjónið þar nam 357 þúsund kr. Af einstökum fyrirtækjum þá varð Garðyrkjustöð Björns og Þráins verst úti í Hveragerði og nam tjónið hjá þeim um 73 þúsund kr, en þar á eftir kom garðyrkjustöð dvalarheimilisins Ás með 46 þúsund kr. tjón. Tjónið er aðallega á gleri og plasti en Sigurður nefndi auk þess sem dæmi að einn aðili hefði orðið fyrir 29 þúsund kr. tjóni á gróðri.
Apríl var frekar hagstæður, en þó var nokkuð kalt síðustu vikuna.
Þann 9. byrjaði óvænt eldgos í Heklu. Sættust menn einhvern veginn á það að um eins konar framhald af hinu allmikla, en jafnframt óvenjustutta gosi í fjallinu í ágúst árið áður. Vegna veðurs bar mjög lítið á þessu gosi og sú spurning hlýtur að vakna hvort fleiri Heklugos hafi verið með þessum hætti. Það er ritstjóra hungurdiska minnisstætt hve litla athygli þetta gos hlaut. Rétt að þess væri getið í blöðum. Tíminn segir af gosinu 10.apríl:
AM Þegar Tímamenn voru staddir sunnan við gígana í Skjólkvíahrauni í gær, aðeins fjóra kílómetra frá hinum nýju gosstöðvum í Heklu, mátti glöggt sjá tvo öskuspúandi gíga í fjallinu og langa sprungu í milli þeirra, sem talsverðir gufustrókar komu upp úr. Farið var upp undir rætur Heklu um Dómadalsveg og Sörlahraun og þegar bílarnir staðnæmdust um 8 km. frá eldinum mátti glöggt heyra hinar þungu drunur og fagurblágráir bólstrar gnæfðu við himinn. Á fjögurra km göngu upp í Skjólkvíagíga skiptust á skin og haglél en stundum glaðnaði svo til að hliðar í Heklu sáust allgreinilega.
Gosið hófst kl. 02:55 í fyrrinótt og í gærmorgun var talið að hér væri um fremur kraftlitið gos að ræða, a.m.k. miðað við gosið í ágúst í fyrra. Öskubólstrarnir risu þá í 4,5 km hæð, einkum gufumökkur hið efra, en öskumökkur hið neðra. Nokkur gjóska féll í Hrauneyjarfoss í fyrrinótt og settist á bíla og rúður húsa og snjór var kolgrár yfir að lita. Gosið sótti verulega í sig veðrið um kl.11 í gærmorgun og þegar við vorum á gosstöðvunum var að sjá sem í því væri verulegur kraftur. Samfylgdarmenn okkar voru tveir sérfræðingar Landsvirkjunar, þeir Matthías Loftsson, jarðfræðingur og Sveinn Þorgrímsson, eftirlitsverkfræðingur og töldu þeir mjög ólíklegt að hraun væri ekki tekið að renna, úr gígunum. Jarðfræðingar virðast sammála um að þetta gos muni vera framhald gossins í ágúst í fyrra og þótt það hafi ekki byrjað af sama krafti, gæti það samt orðið langvinnt.
AM Að sögn bóndans á Ásólfsstöðum í Gnúpverjahreppi var hraun tekið að renna niður Hekluhliðar í gærkvöldi, en þegar menn litu gosið fyrst augum í gærmorgun, var það talið litið og ef til vill aðeins öskugos, en nú eru öll tvímæli tekin af um að svo er ekki. Þegar þeir jarðfræðingarnir Matthías Loftsson og Vilberg Kristinsson sem fyrstir sáu gosið fóru að Búrfelli kl.08:30 í gærmorgun, sáu þeir til Heklu í mjög hreinu skyggni á milli skúrahryðja og lagði hinn sérkennandi blágráa gosmökk þá í norðurátt. Engar drunur var að heyra þá, né merki um elda og byggðu menn hugmyndina um að hér væri aðeins öskugos á ferð af fyrstu upplýsingum, en svo þungskýjað var á hálendinu í gær að hvorki sást glögglega til gossprungunnar og gíganna af landi né úr lofti.
Þjóðviljinn segir af tjóni vegna fannfergis í pistli 10.apríl:
[Hrísey] Í fannferginu á dögunum urðu skreiðarhjallar Fiskvinnslustöðvar KEA illa úti. Í hjöllunum voru um 400 tonn af hráefni og að auki um 120 tonn af þorskhausum. Stór hluti hjallanna fór í kaf og var snjódýptin á þeim viða á annan metra. Öll tiltæk tæki voru notuð tii að ryðja snjónum frá hjöllunum og af handafli var svo mokað ofan af fiskinum.
Tíminn segir af lokum Heklugossins í pistli 22.apríl:
AM Heklugosinu lauk s.l. fimmtudag [16. apríl, skírdag] og hafði það þá staðið í eina viku. Svo sem áður hefur komið fram töldu jarðfræðingar þetta gos aðeins framhald gossins í ágúst 1980, en nú er ástæða til að ætla að gosinu sé alveg lokið, að sögn Guðrúnar Sverrisdóttur hjá Norrænu eldfjallastöðinni, sem við ræddum við í gær. Guðrún sagði að eftir fyrra gosið hefðu komið stöðugar gufur upp af fjallinu, en nú sýndist sem þær væru alveg horfnar og gæti það verið til marks um að Hekla hefði lokið sér af að sinni. Að þessu sinni var hraunflóðið miklu minna en áður, en þykkara.
Lægð fór yfir landið og dýpkaði þann 28. Í kjölfar hennar gerði hríð norðanlands. Tíminn segir frá 29.apríl:
AM- Í gærmorgun brá til glórulausrar snjókomu um allt Norðurland sem í gærkvöldi náði suður undir Borgarfjörð að vestan, en til Hornafjarðar suðaustanlands. Þessu olli mjög lítil lægð sem dýpkaði skyndilega og olli hitaskilum, sem liggja yfir landinu, að sögn Páls Bergþórssonar, veðurfræðings, í gærkvöldi. Páll sagði að tilkynnt hefði verið í gær um 5 stiga frost, 7 vindstig af norðvestri og ákafa snjókomu á miðum úti af Húnaflóa og í Æðey, svo og á Skaga og viðar, en allar veðurstöðvar norðanlands tilkynntu um nokkra snjókomu. Þegar við ræddum við menn á Ísafirði og Sauðárkróki var jörð orðin alhvít og á Ísafirði töldu menn Breiðdalsheiði orðna ófæra.
Tíð var meinlaus í maí. Í Veðráttunni er getið um skemmdir sem urðu á símalínum í þrumuveðri nærri Kambanesi. Menn höfðu áhyggjur af kali í túnum eftir áfreðasaman vetur. Tíminn segir frá 23.maí:
Því miður litur nú orðið út fyrir að ískyggilega mikið sé um kal á Suðurlandi, sagði Jónas Jónsson, búnaðarmálastjóri í samtali við Tímann. Sagði hann mikið um kal í Ölfusi, þó nokkuð í Flóa og á Rangárvöllum og austur í Landeyjum. Við því sé því að búast að verulegt kal sé viða í lágsveitum og einnig eitthvað í uppsveitum á Suðurlandi. Óttar Geirsson, jarðræktarráðunautur er nú á ferð um Suðurland á vegum Búnaðarfélagsins ásamt jarðræktarráðunautum þar, að kanna kal og hvað helst muni til úrbóta. Jónas gat þess einnig, að mikið sé um kal í Reykjavík.
Þann 27.maí týndist flugvél með fjórum mönnum á Holtavörðuheiði. Þrátt fyrir mikla leit fannst hún ekki fyrr en hálfum mánuði síðar. Tíminn segir frá 11.júní:
Þyrla Landhelgisgæslunnar fann flakið af TF-ROM klukkan rúmlega átta í gærkvöldi [10.júní], þar sem það var hálfvegis á kafi í ísilögðu vatni uppi á miðri Holtavörðuheiði, einungis tvo og hálfan kílómetra austan við veginn. Flugvélin mun hafa hrapað í þýfða jörð, brotnað og kastast síðan út í vatnið, sem talin er hugsanleg skýring á því að neyðarsendir vélarinnar virkaði ekki. ... Mikið hefur áður verið leitað á því svæði þar sem flakið fannst, meðal annars gengu leitarsveitir þar um, en skilyrði voru mjög erfið. P.M./JSG.
Júní var kaldur og tíð talin fremur óhagstæð. Ekki var þó mikið um tjón. Aðfaranótt 13. nálguðust skil djúprar lægðar landið og varð mjög hvasst undan Suðurlandi. Í veðurathugunarbók frá Stórhöfða í júní segir:
Miklar skemmdir á gróðri um alla Heimaey í ofviðrinu þ.13." [Vindur fór þá í 71 hnút og hviða í 94 hnúta].
Austurland segir af kuldum 11.júní:
Síðasti vetur var kaldur. Menn höfðu vænst þess að með hækkandi sól kæmu hlýindi og góð sprettutíð. Þessar vonir rættust að nokkru um mikinn hluta landsins, en á Norður- og Austurlandi hafa þær látið sér til skammar verða. Ef undan er skilin vika um páskana, hefur verið stöðug norðlæg átt með tilheyrandi kulda og sjaldan séð til sólar. Og ekki er víst að sumarið sé enn gengið í garð hér eystra. Í gærmorgun var hitinn á Strandhöfn og Dalatanga aðeins ein gráða og á Kambanesi stóð mælirinn á núlli. En allra síðustu daga hefur þó verið léttskýjað og því hlýtt að deginum. Það gefur auga leið, að gróðri hefur lítið farið fram. Enn er úthagi grár yfir að líta. Líklegt er að sláttur hefjist með seinna móti hér eystra. Nokkur huggun er að því, að tún í þessum landshluta munu minna skemmd af kali en í sumum landshlutum öðrum.
Tíð var köld í júlí, en heyskapur gekk sæmilega - þar sem sprottið hafði - en allur gangur var á því.
Tíminn segir af jarðskjálfta 7.júlí:
Allsnarpur jarðskjálfti varð á föstudaginn kl.15:10 og voru upptök hans 25-27 kílómetra frá Reykjavík, eða skammt vestur af Krísuvik. Skjálfti þessi reyndist vera 4 stig á Richterkvaröa, og mátti finna hann í Reykjavík. að sögn Ragnars Stefánssonar jarðskjálftafræðings var skjálfti þessi sá stærsti í skjálftahrinu sem hófst um kl.3 aðfaranótt föstudags og voru upptök allra skjálftanna þau sömu. Ekki taldi Ragnar þessa skjálftahrinu vera neinn fyrirboða, sagði einungis að svona hrinur á Krísuvikursvæðinu og Reykjanesinu kæmu alltaf öðru hvoru.
Tíminn segir af kaldri tíð og lélegri sprettu í pistli 8.júlí:
Slæm tíð, kuldi og úrkomuleysi hafa sett strik í reikninginn hjá bændum víða um land, hvað slátt snertir. Víðast hvar er sláttur enn ekki hafinn, og á mörgum stöðum er þess ekki vænst að hann geti hafist fyrr en eftir 20. júlí eða undir mánaðamót. Undir Eyjafjöllum er sláttur þó víða hafinn svo og í Fljótshlið. Ástandið mun vera hvað best á Suður- og Suðvesturlandi, en eins mun það vera viðunandi í innsveitum Eyjafjarðar, en þar eru þó nokkuð margir bændur sem hafa hafið sláttinn. Slógu þeir nokkuð mikið nú um síðustu helgi, en í innsveitum Eyjafjarðar er nú allvíða að koma sæmilegt gras. Sprettan þar gengur þó hægt sem annars staðar og stafar það af kuldum og úrkomuleysi. Enginn sláttur er hafinn í Þingeyjasýslum, en eitthvað örlítið eru skagfirskir bændur byrjaðir að slá. Hvergi á Austurlandi mun sláttur vera hafinn, og er það hald manna fyrir austan að það sé a.m.k. hálfur mánuður í það að hann geti hafist. Sömu sögu er að segja af Vestfjörðum og Snæfellsnesi. Þar gæti sláttur í örfáum undantekningartilfellum, þar sem um alfriðuð tún er að ræða, hafist eftir u.þ.b. eina viku, en mun lengra er í að hann geti hafist hjá allflestum bændum. AB
Syðra var vond rigningatíð í ágúst, en skárra nyrðra. Tíminn birti 15.ágúst heyskaparfrétt, upphaf hennar er með einkennilegasta móti (verður að segja):
Ég á nú frekar von á því að heyskapur verði minni en í meðallagi, en hann verður hins vegar mun meiri en búist var við að hann yrði. Það voru slæmar horfur í vor, en það hefur ræst nokkuð úr. þetta sagði Jónas Jónsson, búnaðarmálastjóri, þegar við ræddum við hann um stöðuna í heyskaparmálum landsmanna, nú í lok annarrar viku ágústmánaðar. Í vor var mikið talað um gífurlegt kal í túnum nær því um allt land, og Jónas lýsti því þá m.a. í löngu viðtali við Útvarpið að líkur væru á vandræðaástandi viða vegna heybrests. En hefur óttinn við vandræði horfið? Það verður örugglega heyvöntun þar sem kalið var mest. Spurning er hvað miklu verður hægt að miðla, sagði Jónas Jónsson.
Tíðin í ágúst var verst á Snæfellsnesi. Tíminn segir frá 3.september:
Mjög alvarlegt ástand er í heyskaparmálum á sunnanverðu Snæfellsnesi og úr þessu virðist fátt geta bjargað því að um stórfelldan niðurskurð á búfé verði að ræða í haust, sagði Þórður Gíslason bóndi á Ölkeldu, í Staðarsveit í símtali við Tímann. Kal í ræktaðri jörð var hér mikið i vor. Bændur biðu því lengi eftir því að eitthvað sprytti og sláttur hófst ekki almennt fyrr en seint í júlí. Um verslunarmannahelgina komu nokkrir sæmilegir þurrkdagar og náðu þá margir nokkrum heyjum. Fádæma óþurrkatíð hefur verið hér allan ágústmánuð og mjög litið náðst af þurrum heyjum. Heyfengur bænda er því sáralitill og á sumum bæjum næstum enginn. Mikið af heyjum liggur nú undir skemmdum, bæði slegið og óslegið. Eins og nú horfir er útlit fyrir stórfelldan niðurskurð á fé í haust ef ekkert kemur til bjargar. Nú stórrignir hér alla daga, og jörðin viða sem hafsjór yfir að lita. Ástand er eitthvað skárra hjá þeim bændum sem hafa góðar votheysgeymslur, sagði Þórður. Sjó.
September var kaldur, úrkomusamt var fyrir norðan, en þurrkdagar fleiri syðra. Sighvatur Björgvinsson alþingismaður gaf prýðilega lýsingu á illviðrunum á Vestfjörðum í mánuðinum í viðtali við Alþýðublaðið 29.september:
Veðurfarið á Vestfjörðum nú í haust hefur sett allar ráðagerðir okkar um fundarhöld í kjördæminu úr skorðum, sagði Sighvatur Björgvinsson, alþingismaður, í viðtali við Alþýðublaðið. Búið var að ákveða og auglýsa almenna stjórnmálafundi á Tálknafirði, Patreksfirði og Bíldudal helgina 4.-6. september, fundi á Þingeyri og á Flateyri helgina 12. og 13. og kjördæmisþing að Núpi helgina 19. og 20. Af þessum fundum hefur aðeins auðnast að halda einn fund á Patreksfirði sunnudaginn 6. september. Aðrir fundir hafa fallið niður vegna veðurofsa. Sighvatur sagði, að fyrsta veðuráhlaupið hafi skollið yfir strax aðfararnótt mánudagsins 7. september. Þá urðum við að fella niður fund á Bíldudal vegna fannfergis og ófærðar og komumst við Karvel Pálmason með naumindum til Ísafjarðar seint á mánudagskvöld. Þaðan voru svo allir vegir tepptir bæði í lofti og á landi alla þá viku og var ekki um annað að ræða en að hætta við fundina á Þingeyri og Flateyri um næstu helgi því ófært var á staðina.
Væntu menn þess að nú væri þessu veðuráhlaupi lokið, en því var ekki að heilsa því réttri viku siðar, eða aðfararnótt laugardagsins 19. september skall á fárviðri á Vestfjörðum, 12 vindstig og hríð. Þá stóð til að halda kjördæmisþing okkar Vestfirðinganna á Núpi og hafði ég ekið vestur á föstudegi. Veðurofsinn var slíkur að ekki kom annað til greina en að fresta þinginu, því fljótlega urðu allar heiðar kolófærar vegna hvassviðris og fannfergis. Ég fór suður til Reykjavíkur aftur þennan dag og hef satt að segja aldrei ekið í slíku fárvirði og var þá í fjörðunum í Austur-Barðastrandarsýslu og á hálsunum þar. Hvassvirðið var slíkt að grjótið rauk af vegarköntunum og skall á bílnum eins og haglél. Raunar var ekkert ferðaveður. Önnur tilraun var síðan gerð til þess að halda kjördæmisþing s.l. laugardag, en þá fór á sömu leið. Eftir ágætt veður í vikunni skall þriðja áhlaupið á undir vikulokin, að vísu ekki jafn snarpt og helgina áður en engu siður nægilegt til þess að heiðar urðu ófærar og fresta varð kjördæmisráðstefnunni. Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að veðuráhlaup geti komið á Vestfjörðum snemma hausts, raunar ekki lengra síðan en í fyrrahaust að illvirði með snjókomu brast á í byrjun september, en svona mörg og slæm áhlaup á þessum árstíma eru heldur óvanaleg og hafa eins og sjá má sett allar okkar fundaáætlanir úr skorðum. Er illt til þess að vita, því kjördæmisráðstefnan, sem vera átti á Núpi, hafði verið vel undirbúin og vitað var um mikla þátttöku af öllum fjörðunum.
Lægð dýpkaði nokkuð snögglega fyrir sunnan land þann 7. og varð hvasst af austri um tíma. Morgunblaðið segir af tjóni á Siglufirði í pistli 9.september:
Siglufirði. 8. september. Mikið rok gerði hér í morgun og varð talsvert tjón er skreiðarhjallar fuku um koll hjá Þormóði ramma, Hinriksensbræðrum og útgerð Guðrúnar Jónsdóttur. Síðdegis var veðrið gengið niður og fóru menn þá til að safna skreiðinni saman. en skreiðin var næstum fullverkuð. Nokkuð snjóaði í fjöll í dag og var hvítt niður undir byggð. mj.
Morgunblaðið segir illviðrafréttir frá Ísafirði 12.september (stytt):
Ísafirði. 11. september. Óvenjulangur harðindakafli hefur gengið yfir Vestfirðinga þessa viku. Engar flugsamgöngur voru á sunnudegi til föstudags. Engin dagblöð og enginn póstur nema hvað lítilsháttar bögglapóstur kom með m/s Vela í gær, fimmtudag. ... Ekki er vitað um skemmdir á mannvirkjum svo teljandi séu, þó hefur einhvers staðar komist vatn í kjallara húsa. Vatn komst í símastrenginn inn á flugvöll og hefur verið símasambandslaust við flugvöllinn í allan dag.
Þann 18. dýpkaði lægð norður af Bretlandseyjum og fór síðan til norðvesturs um sunnanvert Ísland. Þá hvessti mjög af norðri, einkum á Vestfjörðum. Kortið sýnir stöðuvna um hádegi þann 19. september. Þá er sérlega stríður norðanstrengur yfir Vestfjörðum, en mun skaplegra veður austar á landinu. Lægðin kom frá Bretlandseyjum. Tíminn segir af þessu veðri 22.september, en síðar komu fleiri fréttir af fjártjóni í því:
Mikið aftakaveður gekk yfir Vestfirði um helgina og varð viða nokkurt tjón af völdum þess. Veðurhæð mældist allt að sjötíu hnútum i mestu hviðunum og viða snjóaði alveg niður i byggð A sunnudagsmorgun varð ofsinn til þess að tveir hrefnubátar slitnuðu upp og rak á land á Brjánslæk og er annar þeirra tal- inn með öllu ónýtur eftir. Slitnaði hann upp um sex leytið, en rúmum tveimur stundum síðar slitnaði annar hrefnubátur upp og rak sömu leið á land. Skemmdist hann mun minna.
Víðáttumikil lægð fyrir suðaustan land olli mikilli úrkomu austanlands og sumstaðar fyrir norðan 24. og 25. Skriður féllu á Seyðisfirði og Eskifirði. Tíminn segir frá í pistli 29.september:
Það jaðraði við að um hættuástand væri að ræða hér, sagði Jónas Hallgrímsson bæjarstjóri á Seyðisfirði í viðtali við Tímann í gær þegar hann var spurður um afleiðingar skriðufallanna og vatnavaxtanna þar fyrir austan nú um helgina. Skriður féllu beggja vegna fjarðarins á Seyðisfirði og ollu miklum usla, vatn streymdi inn í kjallara og skreiðarhjallur fór illa. Sömu sögu var að segja á Eskifirði, en Áskell Jónsson bæjarstjóri þar, tjáði blaðamanni Tímans að Lambeyrará hefði streymt um götur bæjarins eftir að aurskriða hafði stíflað hana á föstudagskvöld. Fór mikill aur í nýbyggingar og auk þess fór einn íbúðarkjallari illa af sömu sökum. Ekki er enn ljóst um hversu mikið tjón er að ræða þar fyrir austan.
Mjög vætusamt hefur verið á Austfjörðum að undanförnu og hafa vatnavextir í ám þar eystra verið gífurlegir. Á föstudagskvöldið féll mikil aurskriða í Lambeyrará á Eskifirði, með þeim afleiðingum að áin stíflaðist og vatn úr henni flæddi um götur Eskifjarðar og gerði mikinn óskunda. Að sögn Áskels Jónssonar bæjarstjóra á Eskifirði þá eyðilögðust götur á Eskifirði vegna vatnsflaumsins sem streymdi um götur bæjarins, nokkrar lóðir fóru illa af sömu sökum og síðan flæddi vatn, aur og leðja inn í nýbyggingar, auk þess sem einn íbúðarkjallari fór mjög illa af vatni og aur. Áskell sagði að enn væri ekki ljóst um hve mikið tjón væri að ræða, en ljóst væri að það væri talsvert. Sagði hann að reynt yrði að fá einhverja fyrirgreiðslu úr Bjargráðasjóði vegna þessa tjóns. Það var nú eiginlega orðið á mörkunum að um hættuástand væri að ræða.
Þetta var alveg hroðalegt veður, sagði Jónas Hallgrímsson bæjarstjóri á Seyðisfirði, þegar blaðamaður Tímans sló á þráðinn til hans í gær til þess að forvitnast nánar um það hvernig vætutíðin hefði farið með Seyðfirðinga. Í sannleika sagt, þá var maður farinn að halda að hér væri ekkert að verða byggilegt lengur, sagði Jónas. Það var búið að rigna á okkur í þrjár vikur meira og minna og svo endaði þetta með þessum líka ósköpum. Jónas sagði að á föstudag hefðu fallið tvær skriður úr Bjólfinum. önnur hefði fallið beint upp af gamalli verbúð frá síldarárunum, þar sem nú væri geymd skreið. Skriðan féll á verbúðina, og orsakaði mikið tjón, því þar var mikið af fullþurri skreið sem beið útflutnings, en skreiðin skemmdist að meiru eða minna leyti við skriðufallið. Þessi skriða lokaði veginum. Einum fjögur hundruð metrum utan féll önnur skriða, sem einnig lokaði veginum. Sunnan fjarðarins féll skriða við svokallað Nóatún úr Strandatindi og eins féllu einar þrjár skriður úr Botnunum fyrir ofan Botnahlið, en þar er efsta byggðin sunnan fjarðarins. Skriður þessar féllu alveg niður að byggðinni og í sumum tilvikum fóru þær alveg inn á húsatún. Jónas sagði að þá hefði ástandið verið orðið það slæmt á föstudagskvöld, að fólki sem bjó við götu þá þar sem skriðurnar féllu, hefði verið ráðlagt að flytja sig um set yfir nóttina. Enn væri ótalinn sagði Jónas, sá fjöldi kjallara á Seyðisfirði sem fyllst hefðu af vatni þegar holræsi voru hætt að hafa undan, þannig að kynditæki hefðu skemmst. Jónas sagði að ræsisbrú hefði tekið af Garðarsvegi, þar sem Dagmálalækur færi í gegn um, en lækurinn hefði verið eins og versta jökulsá á tímabili. Þannig hefði byggðinni verið skipt í tvennt þar innan við og ekki hefði orðið aftur fært fyrr en á sunnudag, en þá tókst að opna vegina aftur. AB
Morgunblaðið segir 2. október frá illviðrum á Vestfjörðum, einkum því sem gerði 19. september:
Botni. 30. september. Heyskap er nú loks lokið nema hvað einstaka menn eiga lítilsháttar óhirt. Veðráttan til þurrheyskapar var afar erfið hér í ágúst og byrjun september en grasspretta var með minna móti og því byrjaði heyskapur seint. Heyfengur er mjög misjafn, meðaluppskera á einstaka bæjum en flesta vantar á og einstaka allverulega. Því eru heykaup og flutningar með meira móti núna. Tíðarfar hefur verið mjög rysjótt í september svo sem fréttir hafa borið með sér. Laugardaginn 19. september gerði hér afspyrnu norðaustanrok og hríðarbyl svo að veður var með því versta sem komið hefur lengi. Fé fennti á nokkrum bæjum á Langadalsströnd og Snæfjallaströnd, auk þess sem fé hrakti í skurði og læki og jafnvel fyrir björg. Ekki munu öll kurl komin til grafar en vitað er að tugir fjár hafa farist. Bændum hefur því gengið seint og illa að smala fé sínu og sumir orðið frá að hverfa vegna veðra. Göngur hefjast í Reykjarfjarðarhreppi 2. október. Slátrað hefur verið í rúma viku á Ísafirði og eru dilkar yfirleitt léttari en í fyrra. Ágúst
Morgunblaðið segir 4.október frá sama veðri, 19. september:
Húsavík. 3. október. Er veturinn genginn í garð eftir þetta leiðinlega sumar og ekkert vor? Þannig spyrja margir hér nyrðra um þessar mundir, enda hafa þeir dagar, sem liðnir eru af þessari viku, fremur borið merki vetrar en hausts. Úrfelli í septembermánuði hefur verið óvenjumikið, og heildarúrkoma í mánuðinum varð 158 mm, sem er tvöfalt meira en meðaltalsúrkoma í september um árabil. Svo mikil var ótíðin að aðeins mældust þrír dagar úrkomulausir í mánuðinum. Mest varð úrfellið hinn 19. september, 46,7 mm., en það er mjög sjaldgæf úrkoma hér á einum sólarhring. Þetta veður hefur gert fjárleitarmönnum erfitt fyrir í göngum, sem þó eru taldar hafa gengið sæmilega. Einnig hefur sjósókn verið stopulli en ella. Fréttaritari
Október var sérlega kaldur og snjóasamur, almennt sá kaldasti síðan 1926. Á fáeinum stöðvum var alhvítt allan mánuðinn. Þann 12. mældist metsnjódýpt á Akureyri (fyrir októbermánuð), 50 cm.
Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins í október (heildregnar línur), þykktina (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Háloftalægð austan við land veldur norðanátt og mjög miklum kulda.
Morgunblaðið segir frá fannkomu á Akureyri og víðar 10.október:
Akureyri, 8. október. Óvenjumiklum snjó, miðað við árstíma, hefur kyngt niður á Akureyri og nágrenni undanfarna daga. Snjódýptin mun vera orðin um hálfur metri miðað við jafnfallinn snjó enda er færð viða þung á götum bæjarins og hálka mikil. Helstu umferðargötur voru þó ruddar i dag. Flugsamgöngur á vegum Flugleiða hf lágu alveg niðri á mánudag og þriðjudag. Vegna úrhellisrigninga síðari hluta septembermánaðar reyndist kartöfluupptaka mjög seinleg enda garðarnir rennblautir og illir yfirferðar með upptökuvélar. Reyndin varð líka sú, að fæstir bændur höfðu lokið uppskerustörfum, þegar frostin komu og jörðin huldist snæbreiðu og sumir voru lítið eða ekki byrjaðir. Talið er, að um 500 lestir af kartöflum séu enn í jörðu, eða um þriðjungur uppskerunnar eins og hún hefði getað orðið. Vonlaust er að ná þessu magni upp héðan af nema því aðeins að skjótt bregði til asahláku og þá stórskemmdu. Ekki bætir úr skák, að spretta var yfirleitt mjög léleg í sumar við Eyjafjörð. Ljóst er að eyfirskir kartöflubændur hafa orðið fyrir stóráföllum að þessu sinni. Til marks um það hve snemma og óvænt veturinn gekk í garð nú, þrem vikum fyrir veturnætur, má nefna að trjágróður stóð yfirleitt með fullu og ósölnuðu laufskrúði, þegar snjónum tók að kyngja niður. Sv.P.
Morgunblaðið segir enn af snjóþyngslum 13.október:
Bæ\Höfðaströnd 9. október. Sláturtíð stendur nú sem hæst á Sauðárkróki og mikið kapp lagt á að ljúka verki. sérstaklega úr Fljótum og dölum i austurfirðinum. þar sem fjallmenn hafa þurft að draga fé úr fönn, skurðum og öðrum hættum. Þó ekki sé fullséð hver meðalvigt verður á dilkum, þá er sýnilegt að meðalvigtin er mjög misjöfn, jafnvel 1218 kíló á milli bæja. Þyngsti dilkur. sem mun hafa komið til þessa, úr Austur-Fljótum. vó 29,9 kíló. Björn
Húsavík. 9.október. Í ellefu daga hefur verið hér um slóðir stöðugur éljagangur og snjókoma svo að víða er snjór í mjóalegg og sums staðar meira. En snjókoman hefur verið meiri eftir því, sem nær hefur dregið ströndinni. Þetta hefur á margan hátt valdið bændum miklum
erfiðleikum. Síðustu leitir gengu illa svo að heimtur eru ekki góðar.
Neskaupstað 11. október. Fjáreigendur hér um slóðir hafa átt í hinum mestu erfiðleikum að undanförnu og hafa orðið fyrir skakkaföllum af völdum fannfergis og erfiðs tíðarfars. Fyrir röskri viku síðan fóru smáhændur héðan úr bænum, og einhverjir innan úr sveit, á litlum bátum yfir til Mjóafjarðar til að smala fé sinu og flytja hingað til Neskaupstaðar. Þeir náðu saman yfir 500 fjár, en þá skall á mikil snjókoma og fljótlega var með öllu orðið beitarlaust. Var þá gripið til þess ráðs að moka snjó af túnum til að féð næði einhverju, en einnig var fénu gefið gamalt hey. Þrátt fyrir þetta var féð orðið mjög þrekað og illa á sig komið undir vikulokin. Ekki varð viðlit að koma fénu til Norðfjarðar á litlu bátunum og því var gripið til þess ráðs að fá varðskipið Tý til að flytja féð yfir til Neskaupstaðar. Selflytja þurfti féð úr litlu bátunum um borð í varðskipið og var það erfitt verk en tókst þó. Þá var fé Mjófirðinga flutt á þennan hátt til slátrunar í Neskaupstað. Um 700 fjár eru eftir í Mjóafirði og eiga mestan hluta þess bændur af Héraði og verður það væntanlega flutt á sama hátt til Reyðarfjarðar. Bændum tókst að smala Viðfjörð, Hellisfjörð og suðurbæina áður en veðrið versnaði til muna, en hins vegar voru ekki aðstæður til að smala Gerpi og Sandvík og eru menn uggandi um féð, sem þar gekk í sumar. Marga bændur vantar enn töluvert af fé sínu. Hér í bænum er í dag 50 cm jafnfallinn snjór.
Morgunblaðið segir enn af erfiðri tíð 17.október:
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur vetur þegar herjað á bændur í Eyjafirði og víðar og valdið þeim verulegum erfiðleikum og fjárhagslegu tjóni, sem þeir telja að þeim verði ekki bætt. Kartöflubændur eiga nú ákaflega erfitt uppdráttar eftir uppskerubrest nú og 1979. Þeir hafa vegna þess orðið að steypa sér í skuldir og yfir sumum þeirra vofir nú gjaldþrot. Sauðfjárbændum hafa einnig orðið fyrir miklu tjóni og erfiðleikum og telja þeir að sláturfé hafi rýrnað um allt að 2 kílóum auk þess sem nokkuð hefur verið um fjárskaða. Þó telja menn að vetrarkoman hafi ekki valdið öllum erfiðleikunum. Sumarið var ákaflega kalt og votviðrasamt og dró úr allri sprettu og á því sinn þátt í uppskerubrestinum. Sumir bænda telja þó að það sé fremur stjórnun landbúnaðarmála en tíðarfarið, sem mestum erfiðleikum valdi. Nefna þeir þar kjarnfóðurskatt, þrátt fyrir að búmarkið sé í gildi, að erfiðlega gangi að fá greitt fyrir afurðir og valdi það miklum vaxtakostnaði og telja dráttarvexti allt of háa. Þá nefna þeir að bjargráðasjóður sé nánast tómur og sé því ekki fær um að leysa vandann á viðunandi hátt þó það eigi að vera hlutverk hans.
Morgunblaðið ræddi því við nokkra bændur til að gera lesendum sínum nánari grein fyrir ástandinu og fara viðtölin hér á eftir.
Snjó hefur einnig kyngt niður á Akureyri, ófærð hefur verið á götum og kyrrstæðir kaffærðir bilar valdið erfiðleikum við snjómokstur.
Hér var hvorki vor né haust og sumarið aðeins 6 vikur. Erfiðleikar bænda eru því hrikalegir vegna þess að nú eru um 500 lestir eða meira af kartöflum í jörðu og undir snjó að verðmæti 30 milljónir króna, færð hefur verið erfið og því vandræði með sauðfé. Þetta veldur því að
nauðsynlegt verður að flytja inn kartöflur í verksmiðjuna á Svalbarðseyri og uppboð vofir yfir mörgum kartöflubændanna, sagði Sveinberg Laxdal á Túnsbergi, Svalbarðsströnd, formaður Félags kartöfluræktunarbænda í Eyjafirði.
Hér heilsaði fyrsti október okkur með snjókomu og síðan hefur snjóað þar til þann fimmtánda. Jafnfallinn snjór er 50 til 80 cm á dýpt og dýpkar eftir því sem framar kemur í dalina. Þetta tíðarfar gæti dregið úr fallþunga dilka um allt að 1 til 2 kílóum og er það tilfinnanlegt hjá fjárbændum," sagði Þorgils Gunnlaugsson, bóndi á Sökku í Svarfaðardal.
Fáskrúðsfirði 16. október. Bændur á Austurlandi hafa átt í miklum erfiðleikum í haust vegna óvenju mikilla snjóa á þessum árstíma. Smalamennska hefur gengið erfiðlega og auk þess sem féð hefur víða hríðhorast fyrir slátrun, þá er talið að talsverðir fjárskaðar hafa orðið.
Þrátt fyrir fannfergið var vindur oftast nær ekki mjög hvass fyrri hluta október, en stöðug norðaustanátt, kuldi og snjókoma. Hvasst var af norðri þann 19. Fáeinir hlýrri dagar komu loks um og upp úr 20., en fljótt herti aftur á.
Morgunblaðið heldur enn áfram 23.október - nú bættust hafísáhyggjur við:
Bæ. 19. október. Tíðarfar í Skagafirði, eins og víðast hvar á Norðurlandi, er með eindæmum erfitt, svo að níræðir menn muna ekki slíkt, þar sem skipti um frá höstugri sumarveðráttu til vetrarharðinda, venjuleg haustveðrátta kom ekki. Sláturfjárflutningar gengu þó áfallalítið, en voru þó oft erfiðir sérstaklega úr dölum austan fjarðar, úr Viðvíkursveit allt út í Fljót. Mikið vantar af fé á þessu svæði og efalaust er eitthvað undir fönn.
Húsavík. 22.október. Vegna þess hve seint voraði á þessu ári, laufguðust tré hér norðanlands seint, en jafnframt felldu þau laufin óvenjulega seint, ekki tilbúin til þess fyrr en með síðara móti. Hér í bænum er ekki hægt að segja að haustlitir hafi sést á trjánum, og í fyrstu snjóum stóðu þau grænlaufguð upp úr snjósköflunum, og eru enn að fella lauf, svo að snjórinn í görðunum er víða þakinn laufi, svo og götuslóðar. Þetta er óvanaleg sjón hér, og að sögn fróðra getur þetta boðað illt fyrir trjágróðurinn næsta vor, því trén hafa ekki búið sig undir veturinn eins og þeim er eðlilegt. Er þetta líkast því sem eina árstíð vanti hér inn í, því víða er laufið enn grænt, hefur frosið þannig, ekki náð að sölna eðlilega, en liggur nú ofan á fönninni í görðum bæjarbúa. - Fréttaritari
Þær upplýsingar sem við höfum undir höndum sýna að hafís hefur aldrei verið meiri nálægt Íslandi í októbermánuði en nú, en við höfum farið í gegnum gögn frá síðustu eitt hundrað árum, sagði dr. Þór Jakobsson veðurfræðingur og forstöðumaður hafísdeildar Veðurstofunnar í samtali við Morgunblaðið í gær.
Morgunblaðið segir af illviðri eystra í pistli 24.október:
Djúpavogi. 23. október ÍHKI. Síðastliðinn mánudag [19.] gekk hér í norðan storm. Þann dag komu tveir bátar hér inn með síld, og var saltað fram eftir kvöldi. Aðfaranótt þriðjudags herti veðrið og var komið fárviðri upp úr miðnætti, og geisaði það fram yfir hádegi á þriðjudag, en úr því fór að lægja. Talsverðar skemmdir urðu hér í kauptúninu, þakplötur fuku af nýbyggðu sundlaugarhúsi og fleiri húsum, rúður brotnuðu í nokkrum byggingum og að minnsta kosti tveir bílar skemmdust er þeir urðu fyrir fjúkandi járni. Símasambandslaust var hér fram eftir vikunni, og er reyndar megnasta ólag á símanum ennþá.
Djúp lægð fór til austurs fyrir sunnan land þann 25. Fyrst hvessti af austri með snjókomu, líka suðvestanlands, en síðan hlýnaði nokkuð.
Tíð þótti sæmileg framan af nóvember, en köld og óhagstæð eftir það. Djúp lægð fór til norðausturs fyrir suðaustan land þann 3. og olli hún hvassviðri, slyddu og ísingu á Austurlandi. Einnig gerði skammvinnt ofviðri í Vestmannaeyjum.
Morgunblaðið segir af veðrinu eystra í pistli 5.nóvember:
Það er búið að vera sambandslaust við Stöðvarfjörð, Breiðdalsvík og Djúpavog og svo þaðan til Hafnar í Hornafirði frá því í fyrradag, en samband er reyndar að komast á við þessa staði smám saman," sagði Reynir Sigþórsson, umdæmisstjóri Pósts og síma á Egilsstöðum, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær [4.]. Fjöldi staura hefur brotnað í þessu óveðri, að mér skilst um 60, en þetta er annað áfallið sem við verðum fyrir í þessum mánuði, í fyrra skiptið brotnuðu 30 staurar. Annars er það svo, að við erum alveg á næstunni að taka í notkun nýja örbylgjustöð fyrir þetta svæði, eða á næstu tveimur vikum, þannig að lítil hætta á að verða á að heilu byggðarlögin hér verði sambandslaus í framtíðinni, sagði Reynir. Hann kvað ástandið vera verst á Stöðvarfirði, þar lægju símastaurar niðri á stóru svæði. Við komum símasambandi á aftur á þessu svæði með því að leggja kapal ofan á jörðina, það tekur of langan tíma að reisa alla staurana við aftur.
Vísir segir af sköðum í Vestmannaeyjum í frétt 5.nóvember:
Gífurlegar skemmdir urðu í Vestmannaeyjum í gær [3.nóvember] þegar ofsaveður [af norðri] reið yfir bæinn á tímabilinu frá 17:30. til 18:00. Að minnsta kosti tuttugu skreiðarhjallar fuku um koll í veðrinu og þarf ekki að tíunda hvað það hefur haft mikið tjón í för með sér. Byggingarpallar við saltfiskverkunarhús staðarins hrundu niður, auk þess sem vitað er að uppsláttur við fleiri hús í bænum hafi fokið um koll. Þess skal og geta að rúta, sem var að flytja fólk heim úr vinnu á meðan veðrið gekk yfir fauk út af veginum, en ekki er talið að hún hafi skemmst mikið af þeim sökum. SER
Umhleypingar héldu áfram, fyrst með suðlægum áttum. Morgunblaðið segir af tjóni í pistli 14.nóvember:
Talsvert hvassviðri var af suðaustri suðvestan- og vestanlands í gær [13.] og má búast við roki af suðvestan og rigningu eða slyddu yfir helgina. Síðdegis í gær fuku tvær bifreiðar út af vegum og áætlunarbifreið á leið í Stykkishólm var 4 tíma á milli Grundarfjarðar og Stykkishólms, en venjulega er sú leið ekin á 45 mínútum eða skemmri tíma. Áætlunarbifreið frá SBK fór út af veginum á Arnarneshæð um klukkan 15 í gær en vindhviða hreif bifreiðina á háhæðinni. Lenti hún á staur á vegarkantinum, en engan sakaði. Í Borgarfirði fauk jeppabifreið út af veginum, en að Síðumúla í Borgarfirði og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist mestur vindhraði síðdegis í gær. Áætlunarbifreiðin á leið til Stykkishólms lenti í erfiðleikum eins og áður sagði og sagði bílstjórinn að sérstaklega hefði gengið illa er komið var út fyrir Hraunsfjörðinn á leið til Grundarfjarðar. Í gærkvöldi átti að hefjast helgarmót í skák á Hellissandi, en mótinu var frestað þangað til í dag þar sem keppendur voru ekki allir komnir á vettvang í gær. Ýmsum samkomum var aflýst vegna veðurs og m.a. á Ólafsvík var kennsla í grunnskólanum felld niður eftir hádegi.
Morgunblaðið segir 25.nóvember frá eldgosi við Kröflu - öðru gosi ársins þar:
Gos hófst á Kröflusvæðinu aðfaranótt miðvikudagsins 18. nóvember og gaus samfellt í liðlega tvær klukkustundir á 8 km langri sprungu frá Leirhnjúk og til norðurs. Hraunrennsli fór síðan minnkandi og í fyrradag var síðast vart við hreyfingu á hrauni en nokkrar hraunslettur komu upp úr litlum gíg sem fyrr um morguninn var talinn hættur að krauma. ... Hraunið í þessu gosi er um 18 ferkílómetrar og er það víðfeðmasta hraunið frá því að gostímabilið hófst í desember 1975, en að rúmmáli er þetta gos talið með þeim stærri sem hafa orðið á svæðinu á þessu tímabili.
Djúp lægð fór fyrir suðaustan land þann 26. og 27. og enn kom lægð að landinu þann 29. Mikil úrkoma var um landið austanvert þessa daga með ísingu á raflínum og snjóþunga. Morgunblaðið segir frá 1.desember:
Miklar rafmagnstruflanir urðu víða á Austur- og Norðausturlandi um helgina [28. til 29. nóvember]. Rafmagnslínur slitnuðu og staurar ýmist brotnuðu eða féllu niður. Erling Garðar Kristjánsson, rafmagnsstjóri Austurlands, sagði í samtali við Morgunblaðið, að átta staurar hefðu brotnað í Öræfalínu. Síðan urðu skemmdir á línunni í Lóni, en þar brotnuðu tveir staurar. Þá urðu miklar skemmdir á línunni frá Stöð í Stöðvarfirði út í þéttbýlið og þar var rafmagnslaust í rúman sólarhring. Þessar skemmdir hafa þegar verið lagfærðar. Kolfreyjustaðalína fór svo í annað sinn í þessum mánuði, og þar brotnuðu fimmtán staurar. Lína slitnaði að Hafnanesi við Fáskrúðsfjörð, en þar er fjarskiptastöð. Í Helgustaðahreppi fóru svo einir fjörutíu staurar niður. Slit urðu á línum á Héraði, Jökulsárhlíð og Hjaltastaðaþinghá. Þá slitnaði Vopnafjarðarlína yfir Lagarfljóti, sagði Erling Garðar ennfremur. Í síðustu óveðurshrinu fyrr í þessum mánuði brotnuðu liðlega eitt hundrað staurar og sagði Erling Garðar, að það væri mjög óvenjulegt, að svona áhlaup kæmu hvert á fætur öðru. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú, að jörð er þíð samhliða óhemjumikilli ísingu og mjög slæmu veðri. Það hafa farið línur í þessum áhlaupum sem aldrei hafa farið áður, sagði Erling Garðar. Hann sagði ennfremur, að búið væri að gera við mestan hluta skemmdanna en viðgerðum myndi ljúka á morgun.
Þak á saltfiskhúsi Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga gaf eftir undan snjóþunga aðfaranótt s.l. föstudags [27.]. Þakið á húsinu sem er 400500 fermetrar er algjörlega ónýtt, en húsið er gamalt. Töluverðar birgðir af saltfiski voru í húsinu, en tjón á fisknum er ekki talið verulegt. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga var búið að kaupa annað verkunarhús fyrir nokkru, og er búist við að saltfiskverkunin flytjist þangað á næstunni og verði þar a.m.k. á meðan viðgerð stendur yfir. Mjög mikið snjóaði á Fáskrúðsfirði á fimmtudag og fram á föstudagsnótt og var snjórinn allur mjög blautur, og sökum þyngsla lagðist þakið saman. Þá lagðist söltunarskýli í eigu söltunarstöðvarinnar Pólarsíld einnig saman undan snjóþunga þessa sömu nótt.
Desember var kaldur (nema rétt fyrstu dagarnir) og nokkuð illviðrasamur. Snjóþungt var fyrir norðan, en léttara syðra.
Hæð var fyrir sunnan land og mjög hlýtt loft barst til landsins. Kortið sýnir stöðuna um hádegi þann 4. Taka má eftir dálitlu lægðardragi yfir Grænlandi. Þetta lægðardrag fór vaxandi og í kjölfar þess barst mjög kalt loft úr norðri yfir landið.
Morgunblaðið segir af hlýindunum í pistli 4.desember:
Óvenjuheitt hefur verið í veðri hér á landi síðustu daga og á hádegi í gær var hitastig um allt land 8 til 10 gráður. Þessum hlýindum hefur fylgt talsverð úrkoma og hafa vegir víða skemmst vegna þess og meðal annars lenti kartöflubíll í hvarfi á vegi í Þykkvabænum í gær með þeim afleiðingum að hann valt og nokkuð af kartöflunum skemmdist. Að sögn Veðurstofunnar eru hlýindi sem þessi ekki mjög óalgeng, þó svo langt sé liðið á árið. Þau stafi af samspili hæða og lægða, sem veita þá hingað heitu lofti langt sunnan úr löndum. Hins vegar munu landsmenn ekki njóta þessara hlýinda miklu lengur, því veðurfræðingar spá því, að í dag fari kólnandi og á morgun verði komin norðanátt og kuldi um allt land. Hjá vegaeftirlitinu fengust þær upplýsingar, að mikið vatnsveður hefði verið á Vestfjörðum, sem og víðar og hefðu vegir þar skemmst nokkuð af vatnagangi og aurbleyta væri komin í þá, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum. Því hefðu verið settar þungatakmarkanir á veginn úr Þorskafirði og að vegamótum Flateyrarvegar. Þá hefði orðið eitthvað um minniháttar vegaskemmdir vestanlands og sunnan. Að öðru leyti væru flestir vegir, aðrir en hæstu fjallvegir, færir.
Lægðardragið fór suður yfir landið þann 6. og snerist vindur þá til norðanáttar og kólnaði verulega. Næstu daga var mikil hæð yfir Grænlandi og hvöss norðaustanátt ríkjandi á landinu. Kortið sýnir stöðuna í háloftunum þann 8. og hin miklu umskipti sem orðið höfðu á fáum dögum.
Morgunblaðið segir frá 9.desember:
Vonskuveður var víða á Norður- og Austurlandi í gærkvöldi og fylgdi veðurhamnum töluverð ofankoma. Um kl.22:30 fór rafmagn af mestöllu Norðurlandi og norðanverðum Austfjörðum. Sér ekki út úr augum," sagði Páll Dagbjartsson fréttaritari Morgunblaðsins í Varmahlíð. Snjó
festir þó ekki mikið ennþá en mjög erfitt er að aka fyrir snjókófi. Norðurleiðarrútan fór hér framhjá fyrir skömmu síðan og sleppur líklega til Akureyrar en fer varla lengra. Það verður þó að teljast býsna vel af sér vikið eins og veðrið er. Þá hefur veðrið valdið erfiðleikum í sambandi við skólaakstur. Börn héðan úr sveitinni verða líklega að gista í skólanum í nótt. Skólinn hefur starfað hér eins og venjulega þrátt fyrir veðrið en hins vegar féll skólahald niður á Hofsósi bæði í dag og í gær vegna veðurs. Að öðru leyti gengur flest sinn vanagang hér í byggðarlaginu þrátt fyrir veðrið."
Hér hefur verið norðan stórhríð í allan dag en þrátt fyrir það náði rútan að komast hingað frá Akureyri. Nú er trúlega orðið ófært yfir til Akureyrar," sagði Sigurður P. Björnsson fréttaritari Morgunblaðsins á Húsavík. Flug hefur fallið niður hingað síðan á mánudag vegna veðurs og bátarnir hafa ekki getað róið það sem af er þessari viku. Skólar hafa starfað hér eins og venjulega þrátt fyrir veðrið og flest gengur sinn vanagang. Þetta fer að verða daglegt brauð hjá okkur að hann bresti á með svona veður því alveg síðan í september hefur verið hér ótíð og snjóar. Veðurfarið þefur verið svo slæmt það sem af er vetri að elstu menn eru farnir að hafa á orði að þeir muni ekki annað eins sumir þeirra líkja þessu við fyrrihluta vetursins 191718 en aðrir telja að tíðarfarið nú sé mun verra.
Á þessum árum voru oft uppi áhyggjur um afköst hitaveitunnar í Reykjavík. Minnist ritstjórinn funda með forsvarsmönnum hennar í kuldaköstum. Þetta var áður en virkjað var á Nesjavöllum. Morgunblaðið segir frá 11.desember:
Ef þessir kuldar héldu áfram, gæti orðið skortur á heitu vatni hjá Hitaveitu Reykjavíkur síðustu daga hefur þetta staðið alveg í járnum en þó erum við með nóg heitt vatn ennþá, sagði Jóhannes Zoega hitaveitustjóri í samtali við Morgunblaðið Við höfum verið með allar holur inni, en þrátt fyrir það hefur aðeins lækkað á geymunum hjá okkur. Við höfum því ekki þurft að grípa til þess að kynda með olíu og þar sem veður fer batnandi mun varla koma til þess að sinni. En þó þetta hafi sloppið núna, er hættan á vatnsskorti hjá Hitaveitunni mun meiri þegar líður á veturinn. Í janúar og febrúar er notkunin svo mikil að vatnsborð á hitaveitusvæðunum fer mjög að lækka og þar með hlýtur dælingin að minnka. Þetta er stórum alvarlegri hlutur fyrir okkur en þótt hann geri smáhvell í desember. Sannleikurinn er sá að Hitaveitan er alls ekki búin til að mæta því álagi sem orðið getur á köldum vetri. Við höfum ekki verið eins illa stæðir og nú hvað þetta varðar síðastliðin 10 ár. Þennan tíma höfum við alltaf haft nokkurn varasjóð til að grípa til en nú er búið að éta hann alveg upp með auknum tengingum. Eins og nú er komið höfum við því ekkert í bakhöndinni ef veturinn verður harður.
Morgunblaðið segir 15.desember frá ísstíflu í Jökulsá á Fjöllum:
Grímsstoðum á Fjöllum, 14.desember. Mjög mikið vetrarríki hefur verið hér frá byrjun októbermánaðar og undanfarið hefur verið algengt að frostið hefur farið niður í 20 gráður á Celsíus. Þá hefur ófærð verið töluvert mikil. Í dag lagði sjúkrabíll upp frá Reykjahlíð áleiðis hingað til að sækja sjúkling, en varð frá að hverfa á fjallinu milli Grímsstaða og Reykjahlíðar. Það var því lagt af stað héðan á velbúnum bíl, en þegar komið var að Jökulsá, kom í ljós, að mikill jakaburður hafði farið af stað, sennilega einhver sá mesti í manna minnum og það var um 200 metra vatnshaf yfir veginn, þannig að vonlaust var að halda áfram. Því er ekki að neita, að það horfir ansi illa fyrir okkur, að vera svona gersamlega innilokuð. Þetta er okkar aðalleið til aðdrátta og nú líður að jólum og fólk hugsar sér til hreyfings úr þéttbýlinu í jólafrí. Annars má segja um þennan jakaburð, að hann er sennilega einhver sá almesti í manna minnum. Hann nær alveg upp í brúargólfið og kunnugir menn telja, að það hafi bjargað brúnni, að hann fór utan farvegs að hluta til. Það má telja víst, að vegurinn grafist í sundur á hluta innan tíðar. Í kvöld verða svo kannaðar hugsanlegar leiðir til að flytja sjúklinginn. - Benedikt.
Morgunblaðið segir 19.desember frá óvenjulegum ísalögum á Þingvallavatni:
Þingvallavatn er nú allt ísi lagt og er ísinn sumstaðar sjö sentímetra þykkur. Guðfinnur Ólafsson í Skálabrekku við Þingvallavatn hefur búið þar alla sína æfi eða um 60 ár og man hann ekki eftir að annað eins haft gerst svona snemma. Sagði Guðfinnur í samtali við Morgunblaðið að sjaldan legði ís um vatnið fyrir sólstöður og aldrei hefði hann vitað það fyrr að ís legðist yfir allt vatnið fyrir áramót. Þetta er mjög óvenjulegt, sagði Guðfinnur, en bætti því við að undanfarið hefði verið óvenjulega mikið frost við Þingvallavatn og stillur og væri það mjög hagstætt fyrir ísmyndun.
Morgunblaðið segir 22.desember enn frá stöðunni við Jökulsá á Fjöllum:
Jökulsá á Fjöllum hljóp í nótt úr farvegi sínum og er nú mun meira vatn utan farvegs en áður, hátt á annan metra á dýpt og nær vatnsflaumurinn allt að 200 metra frá bökkum árinnar. Meira vatn er utan farvegs en áður hefur þekkst. Þegar menn hugðust fara til Mývatnssveitar um hádegisbilið kom í ljós, að áin hafði hlaupið úr farvegi sínum, og vonlaust að komast vestur yfir. Tveir menn þurftu nauðsynlega að komast vestur yfir, og var brugðið á það ráð að fara með þá á snjóbíl yfir Hólssand og niður í Axarfjörð, um 50 kílómetra leið. Það voru mikil vonbrigði að komast ekki vestur yfir til að sækja póst og vörur til Mývatnssveitar. Ráðgert var að sækja póst, en óvíst er að það takist fyrir jól. Hins vegar er ljóst, að það hefur bjargað brúnni, að áin hefur hlaupið úr farvegi sínum. Nú er bara og bíða og sjá hvenær tækifæri gefst til að komast vestur yfir ána. Benedikt
Morgunblaðið rifjar upp upphaf Kröfluelda í pistli 23.desember:
Sex ár eru um þessar mundir liðin frá upphafi Kröfluelda. Fyrsta gosið hófst að morgni laugardagsins 20. desember árið 1975. Síðan hefur gosið sjö sinnum á þessum slóðum og hafa engir jarðeldar, sem sögur fara af, staðið í lengri tíma hér á landi. Jarðvísindamönnum er ekki vel við að spá um hvað gerist á næstu mánuðum og árum á gossvæðinu, en eitt eru þeir þó sammála um, þessum umbrotum er ekki lokið og sést það e.t.v. best á því, að land rís nú með miklum hraða við Kröflu.
Veðrið á Þorláksmessukvöld varð veðurfræðingum á vakt minnisstætt. Sagt er frá því í sérstökum pistli hungurdiska.
Um jólin gerði óvenjulegt austan- og suðaustanveður sunnan til á landinu. Verst varð veðrið undir Eyjafjöllum og á Suðurnesjum. Berlega kom í ljós að vindhraðamælir á Keflavíkurflugvelli var orðinn þreyttur, mun hvassara var þar en mælirinn sýndi. Leiddi það til þess að skipt var um mæli.
Kortið sýnir stöðuna að morgni annars dags jóla þegar veðrið var í hámarki. Gríðarlegur vindstrengur var yfir landinu. Það var óvenjulegt bragð af þessu veðri, í Borgarfirði varð t.d. hvasst af landsuðri, en þó var úrkoma sáralítil, vantaði því eitt megineinkenni landsynningsroka. Ástæða til að gefa slíkum veðrum gaum.
Verulegt tjón varð í veðrinu. Einnig varð óvenjulegur atburður vestur á Suðureyri. Í Morgunblaðinu þann 29. segir fyrst frá þeim atburði, en síðan illviðrinu suðvestanlands:
Morgunblaðið 29.desember:
Bjarg féll á Hjallaveg 11 á Suðureyri og fór í gegnum húsið Ég hélt þetta væri fallbyssukúla eða eitthvað þannig, sagði 12 ára gamall Súgfirðingur, Sigurður Pétursson, sem varð fyrir þeirri sérstæðu lífsreynslu að mörg hundruð kílóa steinn kom niður í gegn um loftið á eldhúsinu, þar sem hann var að raða leirtaui í uppþvottavélina að kvöldi annars dags jóla, straukst rétt framhjá honum og hvarf út um eldhúsvegginn og hafnaði niðri í garði. Hannes, 7 ára gamall bróðir hans, var að hjálpa honum og stóð þar sem steinninn kom í gegn um loftið, en hann sakaði ekki frekar en bróður hans, þótt þakplata kæmi ofan á hann. Foreldrar drengjanna, Pétur Sigurðsson, skipstjóri á st. Elínu Þorbjarnardóttur, og Sigríður Jónsdóttir, söngstjóri og organisti á Suðureyri, sátu inní stofu og horfðu á sjónvarpið þegar óhappið varð. Þriðji sonur þeirra, Gunnar 10 ára, og leikfélagi hans, Pálmi Gunnarsson, 12 ára, léku sér á gangi hússins þar sem steinninn fór yfir á leið sinni úr þessu síðasta loftkasti sínu niður hlíðina, en það hefur verið um það bil 50 metra svif. Líklega hefur steinninn brotnað í tvennt í næstsíðustu niðurkomunni og er hinn hlutinn í garði næsta húss. Steinninn losnaði úr fjallinu Spilli í um það bil 400 m hæð. Af förunum í hlíðinni eftir hann má merkja að hann breytti um stefnu á leið sinni og kom niður töluvert utar í hlíðinni en hann lagði af stað.
Af viðtölum við Súgfirðinga má ráða að húsið og þau hús sem standa við Hjallaveg eru ekki talin í hættu af skriðum eða grjótfalli. Hefur því að vonum slegið óhug á marga sem þarna í hlíðinni búa. Steinninn flaug yfir mest allt húsið, sem er um 10 metra breitt, fór í gegn um þakið u.þ.b. 3 metrum frá eldhúsveggnum, síðan í gegn um timburloft í eldhúsinu og út um steinsteyptan vegg. Húsið er mikið skemmt, t.d. virtist þeim hjónunum að loftið í stofunni hefði hreinlega lyfst og víða eru innréttingar úr lagi gengnar. Óvissa ríkir um hvort Viðlagatrygging bætir tjónið, þar sem þar eru sett skilyrði um, að tjón sé af völdum aurskriðu en ekki af falli einstakra steina. Úlfar
Óveðrið sem geisaði hér á landi frá jóladagskvöldi til hádegis annan í jólum varð að sögn Veðurstofunnar í Reykjavík langverst við suðausturströnd landsins. Það er svæðið frá Mýrdal, um Vestmannaeyjar og síðan um Suðurnes. Óveðrið aðfaranótt laugardags olli miklum skemmdum á Keflavíkurflugvelli. Var talið að tjónið sem það hefði valdið næmi að minnsta kosti tveimur milljónum nýkróna. Þak fauk af íbúðarhúsi og þurftu sautján manns að yfirgefa heimili sín. Ennfremur fauk hluti þaks af mötuneyti yfirmanna varnarliðsins. Þrjár gamlar vöruskemmur eyðilögðust meira og minna og sömuleiðis gamlir braggar. Margir bílar urðu fyrir skemmdum af völdum þakfoks. Bandaríkjastjórn mun bæta íbúunum á herstöðvarsvæðinu tjón á eignum þess. Olíubryggjan í Keflavík varð fyrir mestum skemmdum í Keflavík þegar óveðrið geisaði um jólin og bátar sem voru við höfnina, en talið er að olíubryggjan sé ónýt. Ekki hefur tjón af völdum óveðursins í Keflavík og Njarðvík verið metið enn. Að sögn lögreglunnar í Keflavík bárust tugir hjálparbeiðna frá Keflavík, Njarðvík og Vogum og var þá um að ræða þakplötufok, rúðubrot og auk þess skemmdir á bílum eða öðrum hlutum sem orðið höfðu fyrir þakplötum eða öðru lauslegu sem tókst á loft. Mjög margir hjálparsveitarmanna aðstoðuðu fólk á þessu svæði og voru það Björgunarsveitin Stakkur í Keflavík og Hjálparsveit skáta í Keflavík og Njarðvík sem ásamt lögreglunni unnu við hjálparstarfið. Sagði lögreglan að veðurofsinn sem hófst um jóladagskvöldið hafi að mestu verið liðinn hjá á hádegi á annan í jólum en mestan þann tíma voru hjálparsveitir að störfum. Eins og áður sagði er olíubryggjan talin ónýt en vindur stóð að sunnan og suðaustan og er sú vindátt mjög slæm fyrir höfnina því þá stendur vindur beint inn í hana að mestu leyti. Olíubryggjan var ekki innar við hafnargarðinn en hún var mest notuð til að taka við olíutunnum til Keflavíkurflugvallar. Sagði lögreglan í Keflavík í samtali við Morgunblaðið að fólk hafi tekið óveðrinu og skemmdum á húsum sínum og eignum öðrum með mestu ró, enda varð veðrið aldrei það slæmt að þyrfti að lýsa yfir hættuástandi og ekki þótti ástæða til að kalla út almannavarnanefnd Suðurnesja. Þorsteinn Marteinsson er formaður Björgunarsveitarinnar Stakks í Keflavík og sagði hann að alls hafi verið um 25 manns við hjálparstörf og sinnt um 50 til 60 hjálparbeiðnum. Sagði hann að 60 prósent af útköllum hafi verið vegna þakplötufoks og rúðubrota en annað hafi verið vegna lausra hluta sem farið höfðu af stað. Sagði Þorsteinn Marteinsson að í tveimur eða þremur tilfellum hafi heilir þakhlutar fokið í einu. Ekki lentu hjálparsveitarmennirnir í neinum sérstökum erfiðleikum í hjálparstarfi sínu og ekki urðu nein meiðsli á fólki. Það var brugðist fljótt við þegar sýnt þótti að negla þyrfti stóra hluta af þökum niður og setja plötur í glugga, og kaupfélagið í Keflavík opnaði fyrir hjálparsveitirnar verslunina svo hægt var að ganga að nöglum og hömrum að vild. Hjálparsveitarmennirnir skiptu sér niður í nokkra hópa og dreifðu þeir sér um bæinn auk þess sem einn hópur var sendur í Vogana en ekkert tjón varð í Sandgerði eða í Garðinum.
Í Vogum slitnuðu tveir bátar upp í höfninni, Ágúst Guðmundsson og Gulltoppur, og rak þá upp í grjótgarð við bryggjuna. Það tókst að draga þá á flot á flóði daginn eftir og eru skemmdir á þeim ekki taldar miklar. Þakplötur fuku af nokkrum húsum og ollu skemmdum á eignum manna. Að sögn fréttaritara Morgunblaðsins, Eyjólfs Guðmundssonar, voru kallaðar út hjálparsveitir til aðstoðar vegna stormsins og er það í fyrsta sinn sem það gerist í Vogum. Auk járnfoks fuku klæðningar utan af húsum og gróðurhús splundruðust í veðurofsanum. Rafmagns- og vatnslaust var fram undir hádegi á laugardag.
Seint á jóladagskvöld var komið aftakaveður í Grindavík og upp úr því hófust hringingar til lögreglu og hjálparsveita og sagt af þakjárni sem væri að losna. Björgunarsveitin í Grindavík kallaði út alla sína menn og þegar mest var voru um 20 til 30 manns við hjálparstörf. Tjón af völdum óveðursins er áætlað ríflega milljón krónur. Að sögn Guðfinns Bergssonar, lögregluvarðstjóra í Grindavík, fauk járn af þökum á ýmsum stöðum í bænum og var á einum stað sem járn fauk af hálfu þakinu. Þá fauk töluvert járn af þaki Fiskmjölsverksmiðjunnar og m.a. varð Fiskverkunarhús Þorbjarnar hf illa úti í veðrinu, en það er í smíðum og var önnur hæð hússins tilbúin undir steypu, en allur sá uppsláttur, að heita má, brotnaði niður í óveðrinu. Þá fauk mikið járn af þaki Hraðfrystihúss Þórkötlustaða, en hægt var að koma í veg fyrir miklar skemmdir þar. Alls urðu útköllin 33 á meðan óveðrið geisaði, en heimahús sluppu í heildina nokkuð vel. Aðeins ein rúða brotnaði vegna óveðursins og bílar skemmdust ekkert. Bílskúrar nokkrir skemmdust þó eitthvað, bæði þeir sem í smíðum eru og aðrir fullsmíðaðir. Þá varð golfvöllur þeirra Grindvíkinga heldur illa leikinn af óveðrinu, en hann er talinn ónýtur. Grjót og sandur hlóðust á hann, en í tvö undanfarin ár hefur verið unnið við að hreinsa svæðið undir golfvöllinn.
Í Hafnarfirði fauk megnið af þakjárni af tveimur íbúðarhúsum við Arnarhraun og Brekkuhvamm og annars staðar hrundu vinnupallar við fjölbýlishús sem er í byggingu og ollu þeir m.a. tjóni á nokkrum bílum. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Hafnarfirði, þurfti fólk ekki að yfir gefa heimili sín vegna stormsins. Nokkur vandræði urðu í Hafnarfjarðarhöfn vegna þess að skip losnuðu, en ekki var kunnugt um tjón af þeim sökum. Auk fyrrtaldra skemmda brotnuðu rúður á nokkrum stöðum.
Morgunblaðið birti 31.desember fréttapistil úr Miðfirði:
Staðarbakka, Miðfirði, 29. desember. Fyrir jólin var snjóföl hér og leit út fyrir að nú yrðu hvít jól, en að kvöldi jóladags, þegar óveðrið gekk yfir Suðurnes, hlýnaði hér um slóðir. Hvasst var, en hvergi er þó talað um skaða af því veðri. Þá tók upp allan snjó, svo hér er nú alautt. Í dag er norðankuldi og nokkurt frost, en úrkomulaust. Það lætur kannski undarlega í eyrum, þegar svo mikið hefur verið talað um fannfergi á Norðurlandi, að hér í sveit hefur eiginlega aldrei komið snjór í vetur, aðeins föl stöku sinnum. Það sýnir að miklu getur munað á tíðarfari þó á Norðurlandi sé.
Milli jóla- og nýjárs var norðaustanhvassviðri víða um land. Náði það hámarki þann 30. Ekki fréttist af stórvandræðum eða tjóni.
Lýkur hér að segja frá veðri og tíð á árinu 1981. Í viðhenginu má finna skrár um meðalhita, úrkomumagn og fleira.
Hér fyrir neðan er síðan langur listi frétta af tjóni í illviðrinu 16. til 17. febrúar. Fjallað var um lægðina og veðurlag þessa daga í sérstökum pistli hungurdiska.
Fregnir af tjóni 16. til 17. febrúar voru fyrirferðarmiklar. Ekki er hér farið í gegnum þær allar. Slæðingur er þó af endurtekningum. Fyrst segir af sjóslysi, en síðan illviðrinu og tjóni í því:
Morgunblaðið segir af sjóslysi 17.febrúar:
Tveggja skipverja af Heimaey VE 1 er saknað, en þeir féllu fyrir borð, er bátinn hrakti stjórnlaust undan ofsaveðrinu í gærkvöldi upp í fjöru, skammt vestan við Hólsárós á Þykkvabæjarfjöru. Í nótt klukkan hálf tvö voru björgunarsveitarmenn frá Hvolsvelli komnir á strandstað og var ætlunin að taka þá níu skipverja, sem voru um borð í Heimaey, í land. Heimaey stóð rétt á strandstað og voru mennirnir um borð ekki taldir í hættu. Skipverjarnir tveir munu hafa fallið fyrir borð um það bil, er skipið rak inn í brimgarðinn.
Vísir segir af tjóni á höfuðborgarsvæðinu í pistlum þann 17.febrúar:
Vitað er um 15-20 hús á Seltjarnarnesi, sem skemmdust í óveðrinu í nótt. Skemmdirnar voru aðallega af völdum bárujárnsplatna, sem fuku af húsum og skullu á öðrum húsum og bilum. Þak af húsi einu á Skólabraut fauk af í heilu lagi út götu og lokaði algerlega Skólabrautinni. Skemmdir urðu talsverðar á bílum, mikið um rúðubrot og aðrar skemmdir, vegna þess að þakplötur og öskutunnulok fuku á þá. ATA
Mikill hluti þaks íþróttahúss KR er nú kominn á haf út. Bárujárnið á þakinu losnaði upp og var sem skæðadrífu bæri til hafs, séð frá íbúum í nágrenni KR-heimilisins. Íþróttahúsið
stendur á bersvæði, þannig að ekki hlaust mikið tjón af þess völdum á öðrum húsum. ATA
Hér geisaði slíkt veður, að elstu menn muna ekki eftir öðru eins, sagði lögregluþjónn á Fáskrúðsfirði, í samtali við Vísi. Á Kolmúla við Reyðarfjörð fauk fjárhús um koll og mesta mildi, að ekki skyldi hljótast slys á mönnum vegna þess, því að fjöldi manns var þar veðurtepptur í alla nótt. Plötur úr fjárhúsinu, sem var tæpir 300 fermetrar, fuku þó á bíla í grenndinni og skemmdi töluvert. Að sögn lögregluþjónsins var ekki vitað, hversu margt fjár var í húsinu eða hvort eitthvað hafði drepist. Þá fóru margir bilar á hliðina og meðal annars mjólkurbíll þeirra Fáskrúðsfirðinga og má hann heita ónýtur eftir. KÞ
Hluti af þaki fæðingardeildar Landspítalans fauk í nótt og lokaði Eiríksgötunni. Þá fuku þakplötur af ótal húsum í öllum hverfum borgarinnar og hættulegt var að vera á ferli utandyra þar sem allt lauslegt fauk til í óveðrinu. Lögreglan fékk um 260 hjálparbeiðnir og Almannavarnir annað eins. Þá eru ekki meðtalin smáviðvik, eins og að koma fólki heim til sin. Lögreglan ók til að mynda hátt á annað hundrað manns úr Þjóðleikhúskjallaranum heim. Sjálfboðaliðar störfuðu í alla nótt við að negla niður þakplötur og safna saman lausum þakplötum, til að koma þeim undan veðrinu. Eru plöturnar meðal annars geymdar í lögreglustöðinni við Hverfisgötu og eru fangageymslur yfirfullar af bárujárni. Mikið var að gera á Slysadeild Borgarspítalans í nótt, en slysin, sem fólk hafði orðið fyrir, voru yfirleitt minniháttar. Flestir höfðu skorið sig á glerbrotum og nokkrir höfðu brotnað. ATA
Helmingurinn af þaki Hlégarðs í Mosfellssveit fauk í illviðrinu í nótt og ollu þakplöturnar miklum skemmdum á íþróttamannvirkjunum við Varmárskóla. Meðal annars brotnuðu margar rúður. Kennsla fellur niður í Varmárskóla í dag vegna vatnselgs í kjallara og á fyrstu hæð skólahússins. Í morgun var ekki vitað, hvað olli vatnselgnum, því ekki var séð, að skemmdir hefðu orðið á skólahúsinu í illviðrinu. Allmiklar skemmdir urðu á nýbyggingum í Mosfellssveit og margir bilar fuku út af veginum og ultu. ATA
Dagblaðið sama dag (17.febrúar):
Ég hef aldrei séð annað eins, sagði lögreglumaður í Árbæjarstöð lögreglunnar í Reykjavik í morgun. Þakplötur fuku eins og skæðadrífa, bílar fuku saman í hrúgur, engum var stætt og fólk skreið á fjórum fótum. Stanslaus útköll voru hjá lögreglunni og björgunarsveitum, sem voru í alla nótt að bjarga fólki og eignum. Tjónið er svo gífurlegt og viðtækt að ekki hefur verið nokkur leið að sinna t.d. bílatjóninu. Ég get ekki líkt þessu við neitt annað en gosið í Vestmannaeyjum. Ég er í raun og veru hissa á því að ekki skyldi verða manntjón í bænum, þakplöturnar fuku um allt eins og skæðadrífa, sagði Arnþór Ingólfsson aðalvarðstjóri í Reykjavikurlögreglu. Kallaðar voru út hjálparsveitir og viðbótarlögreglulið, ástandið var skelfilegt. Ekki er hægt að gera sér grein fyrir tjóninu, sem varð á höfuðborgarsvæðinu í óveðrinu í gærkvöldi og nótt, en ljóst er að það er gífurlegt. Veðurhæðin var gífurleg og verst var ástandið í Árbæjar, og Breiðholtshverfum þar sem þakplötur hreinlega sópuðust af húsum. Í miðborginni má sem dæmi taka, að þakplötur fuku af verslunarhúsi Víðis í Austurstræti, Fjalakötturinn laskaðist, og hluti af þaki fauk af Iðnaðarbankanum. Á Seltjarnarnesi fauk þak af íbúðarhúsi á Skólabraut í heilu lagi. Þá fauk uppslátturinn að barnaheimilinu við Hnitbjörg og þakið fauk að miklu leyti af fæðingardeild Landspítalans. Þá fuku plötur af Borgarspítalanum og húsum á víð og dreif um borgina. Þrjár vaktir voru kallaðar út til starfa hjá slökkviliðinu og unnu 40 manns þar í alla nótt við hjálparstörf. Margir lögreglumenn, sem eiga öfluga jeppa lögðu þá fram til starfa. Tjón varð í smábátahöfninni í Elliðavogi, hesthúsum í Víðidal. En það er guðs mildi hve fólk hefur sloppið vel, sagði einn lögreglumaðurinn í Reykjavík í morgun -JH.
Geysilegt tjón varð á fleiri hundruð bílum hér í Kópavogi, sagði varðstjóri Kópavogslögreglunnar í morgun. Bílarnir eru allt frá því að vera lítið skemmdir og upp í ónýtir. Þá urðu skemmdir á fleiri tugum húsa, þök fuku, plötur voru eins og skæðadrífa, raflínur slitnuðu og gler brotnaði í gluggum. Slys urðu þó ekki alvarleg á fólki, 34 fluttir í slysadeild skornir eftir gler. Trúlega hefur mesta tjónið orðið á Víghólaskólanum, en þar fauk meiri parturinn af þakinu og rúður brotnuðu. Mjög slæmt ástand var við háu
blokkirnar við Engihjalla, bílar í bendu og drasl fjúkandi á þá. -jh.
Vísir heldur áfram 18.febrúar:
Hafi ég nokkurn tíma orðið hræddur á ævinni, þá var það þessa nótt, sagði Hafþór Edmond, skósmiður, sem býr að Skólabraut 11 á Seltjarnarnesi, en þakið á því ágæta húsi fauk
burtu eins og það lagði sig í óveðrinu á mánudagskvöldið. Okkur gat ekki órað fyrir þvi að annað eins og þetta gæti gerst. Maður hefur kannski séð slíkt í kvikmyndum, en...
Á efri hæðinni bjó kona með kornabarn og hún flúði út um tíu leytið, en þá var rúmlega helmingur þaksins fokinn burtu, sagði Sigrún Halldórsdóttir, kona Hafþórs. Sigrún sagði að þau hjónin hefðu orðið vör við eldglæringar og séð bjarma rétt áður en þakið fauk. Töldu þau líklegustu skýringuna að eldingu hefði slegið niður í reykháfinn, því þakið var nýtt og vel byggt. Það var hreinlega eins og orrustuflugvél hefði skellt sér niður, slíkur var hávaðinn og þrýstingurinn, sagði Sigrún. Maðurinn minn fór út skömmu siðar til að huga að nýbyggingu, sem við eigum hér rétt hjá, og þegar hann kom aftur, sagði hann að þakið væri nær allt fokið burt. Ég vildi fara út, svo hrædd var ég, en Hafþór bannaði mér það. Skömmu siðar heyrðust miklir skruðningar. Hafþór opnaði dyrnar og leit út, og þá var afgangurinn af þakinu kominn niður á jörðina, beint fyrir framan útidyrnar okkar, sagði Sigrún. Þetta var svo óraunverulegt, ég helt mig væri að dreyma, sagði Hafþór Þess má geta, að þegar þakið féll, skemmdust bæði bíll þeirra hjóna, svo og bíll Þórunnar
Brandsdóttur, sem býr á efri hæð hússins. ATA
Tíminn rekur tjón víða um land í löngum pistlum 18.febrúar:
AM Í veðurofsanum í fyrrinótt urðu allir landshlutar fyrir meira eða minna eignatjóni, þótt verst yrði ástandið vestan og þó einkum suðvestanlands. Spurðumst við fyrir um tjón víðs vegar um land og er svo að heyra sem þakplötur hafi viðast valdið mestum skakkaföllum er þær tóku flugið í snörpustu hviðunum.
Grindavik: Í Grindavik fauk þakjárn af fimm íbúðarhúsum og að miklu leyti af þaki geymslu í eigu kaupfélagsins. Þá fór álklæðning af tveimur íbúðarhúsum að nokkru leyti. Við eitt hús í Grindavik splundraðist bilskúr og dreifðist brakið víðs vegar. Reyndu menn að bregða köðlum yfir þök húsa til þess að halda þeim niðri. Þá fauk þar þak af yfirbyggðum Blaser og laskaði þakið bílinn mikið að öðru leyti um leið. Maður sem féll í vindhviðu fyrir framan dyr heimilis síns fótbrotnaði og var fluttur í sjúkrahúsið í Keflavik og varð að fylla sjúkrabílinn af björgunarsveitarmönnum, til þess að halda honum á veginum á leiðinni. Mikill fjöldi báta leitaði hafnar í Grindavik og varð ekki neinn skaði i höfninni, svo lögreglan suður frá vissi til. Bátar sem ekki komust til hafnar leituðu hins vegar vars undir Stapa.
Keflavik: Í Keflavik Sökk 20 tonna bátur í höfninni og annar einnig 20 tonna bátur í Ytri-Njarðvík. Nöfn þeirra hafði lögreglan í Keflavik ekki hjá sér í gær. Mikið var um að þakjárn fyki af húsum og var annríki mikið hjá lögreglu og björgunarsveitinni Stakk við að handsama þær, svo og annað lauslegt, sem var að fjúka. Þar varð mikið um rúðubrot af völdum vindofsa og grjótflugs. Fógeti, almannavarnanefnd og slökkviliðsstjóri voru á vakt í nýju Lögreglustöðinni alla nóttina. Svipað ástand var í Sandgerði, Vogum, Njarðvík og Vatnsleysuströnd.
Vestmannaeyjar: Í Vestmannaeyjum varð verulegt tjón á flugstöðinni, en þar brotnuðu 40 rúður af grjótflugi. Þá fór hálf þekjan af flugskýli Bjarna Jónassonar hjá Eyjaflugi og dyr brotnuðu og enn brotnuðu rúður viðar um kaupstaðinn, auk þess sem plötur fuku hér og þar af húsum. Bátar slitnuðu upp í höfninni í ofsanum, en tjón hlaust ekki af.
Selfoss: Skemmdir virðast ekki hafa orðið verulegar á Selfossi, en þar sem annarsstaðar var mikið um að járn fyki af húsum og uppsláttur við hús kaupfélagsins fauk og er ónýtur. Þá hafði frést af miklum skemmdum á gróðurhúsum í Laugarási og á Flúðum, einkum í gróðrarstöðinni á Áslandi hjá Guðmundi Sigurðssyni. Ekki hafði frést um tiltakanlegt tjón á
Eyrarbakka, Þorlákshöfn og Stokkseyri.
Akranes: A Akranesi varð geysilegt tjón, þegar grjótfylling fór framan af hafnargarðinum á 60 metra kafla. Á Akranesi var ástandið annars svipað því og gerðist í Reykjavík, bilar voru á ferð og flugi undan rokinu, járn losnaði af húsum og rúður fóru í mask fyrir vindi eða flugi lausagripa. Þar hafði björgunarsveit SVFÍ og slökkviliðið nóg að starfa þessa eftirminnilegu nótt.
Borgarnes: Í Borgarnesi var vitað að miklar skemmdir höfðu orðið víða í nærliggjandi sveitum, þótt engin heildarmynd væri enn fengin af tjóninu í gærkvöldi. Í bænum fauk þakið nær alveg af Bifreiða- og trésmiðju KB, að nokkru leyti af fleiri húsum. Verst var veðrið frá því um kl.8:30 til kl.1 um nóttina.
Stykkishólmur: Í Stykkishólmi fauk útgerðar- og geymsluhús Sigurðar Ágústssonar af grunni að mestu, en það er á annað hundrað fermetrar. Lenti húsið á næsta húsi sem er verslunarhúsið Hólmskjör. Enn fauk þak af íþróttastúku við íþróttavöllinn í heilu lagi og liðaðist sundur.
Ísafjörður: Veðrið kom misjafnlega niður á Vestfjörðum og á Patreksfirði og Tálknafirði höfðu engar skemmdir orðið enda varð veður þar ekki svo svæsið. Á Ísafirði var sæmilegt veður fram til kl.3 í fyrrinótt, en þá reið það yfir af miklum ofsa. Þar slitnaði 12 tonna bátur, Gunnar Sigurðsson, frá bryggju og sökk. Í Æðey slitnaði upp trilla og rak á land. Enn varð það óhapp á ísafirði að stór vöruflutningabíll frá flutningaþjónustu Bjarna Þórðarsonar fór á hliðina þar sem hann stóð á bifreiðastæði. Þá fauk járn af einu húsi í Hnífsdal. Fjöldi staura í rafmagnslinunni til Vestfjarða brotnaði í óverðinu.
Víða norðanlands er að sjá sem menn hafi sloppið vel við veðrið til dæmis voru ekki fregnir af neinum alvarlegum skemmdum á Akureyri, þótt járn losnaði þar að litlu leyti af fjórum húsum að sögn lögreglu. Á Þórshöfn var ekki heldur um neinn skaða að ræða og veðrið ekki verra en algengt er á vetrum. A Hvammstanga náði veðrið hins vegar miklum krafti og þar flettist járn af vesturhlið húss sparisjóðsins. Járnflugið olli þó engum skemmdum, þar sem það mun að mestu hafa hafnað í árgili í grenndinni. Þá fauk nokkuð járn af heilsugæslustöðinni og nokkur gróðurhús í eigu einstaklinga urðu illa úti. Þá urðu verulegar skemmdir í sveitinni í grennd Hvammstanga en ekki er nánar kunnugt um þær. Rafmagnslaust var í þorpinu kl.18 í gærkvöldi og hafði þá verið rafmagnslaust í 20 klst.
Sauðárkrókur: Á Sauðárkróki var vél frá Arnarflugi í gær og lá við að hún fyki í rokinu sem mældust 100 hnútar á vellinum. Tókst að forða að hún fyki með því að binda hana við fjóra stóra vörubila meðan hvassast var. 15 farþegar sem með vélinni komu lentu í miklum erfiðleikum með að komast til byggða því bíllinn fór út af veginum hjá Hafsteinsstöðum og sat þar í tvo klukkutíma. Tjón varð í bæ og héraði en hluti af þaki fór hjá Fiskiðjunni einnig hjá Útgerðarfélagi Skagfirðinga, hjá Mjólkursamlaginu og frystihúsinu Skildi. Þak fauk alveg af á bænum Fosshóli í Sæmundarhlið en að hluta á fjölda annarra bæja. Þá urðu skemmdir á tveimur bátum í höfninni, Tý, 38 lestir og Stakkafelli 42 lestir.
Austfirðir: Misjafnt var hvernig óveðrið kom niðurá Austfjörðum. A Neskaupstað, Höfn í Hornafirði og á Seyðisfirði varð veður aldrei mjög slæmt en talsvert tjón varð hins vegar á Vopnafirði en þar fauk þaf af einu íbúðarhúsi og nokkrar plötur af öðrum. Þá var vitað um tjón af foki í sveitinni í grenndinni.
Morgunblaðið fer einnig yfir tjón í pistlum 18.febrúar:
Fjöldi landsmanna var utandyra, að lagfæra hús sín og athuga skemmdir á bílum o.s.frv., er Morgunblaðsmenn óku um höfuðborgarsvæðið í gærdag. Mest var tjónið að öllum líkindum að Engihjalla í Kópavogi þar sem varð milljarða (gamalla króna) tjón á ökutækjum. Bilar tókust á loft og fuku, svo skipti tugum metra, bílaraðir klesstust saman, þakplötur losnuðu mjög viða og nokkuð var um rúðubrot. Húsmæður að Engihjalla í Kópavogi sögðust hafa átt vægast sagt hörmulega nótt. Stórar íbúðablokkir standa við Engihjalla, og í austari endum þeirra
hélst fólkið ekki við og flýði í vestari hlutann. Það hvein í öllu og rúður svignuðu, húsin nötruðu og skulfu, jafnvel á neðstu hæðum. Það varð engum svefnsamt í Engihjallanum, meðan versta veðrið gekk yfir, sagði ung kona við blaðamann Morgunblaðsins. Utandyra var ekki stætt, bílar tókust á loft. Sjónarvottur fullyrti í samtali við Morgunblaðið, að næstum hefði verið hægt að ganga undir suma bílana, sem feyktust um á bílastæðinu milli Engihjalla 18 og 25. Að Engihjalla 25 hitti blaðamaður þá Sigurð Inga Ólafsson, tæknifræðing og Sigtrygg Jónsson framkvæmdastjóra hjá Byggingarsamvinnufélagi Kópavogs, sem er að reisa stórt fjölbýlishús að Engihjalla 25. Þaðan höfðu fokið vinnupallar, stórir og þungir, langar leiðir. Fjöldi þeirra eyðilagðist og margir vinnupallar stórskemmdu bifreiðir á bílastæðinu milli Engihjalla 18 og 25. Eftir því sem Sigtryggur sagði, munu tryggingarfélög ekki greiða eigendum þeirra bíla bætur, sem vinnupallarnir eyðilögðu, vegna þess að þeir fuku í óveðri. Það er mjög lítið sem fólkið getur fengið í bótagreiðslur, sagði Sigtryggur, sem og við í Byggingarsamvinnufélaginu nema stjórnvöld grípi til sérstakra ráðstafana, sem hlýtur að vera óhjákvæmilegt. Hér á þessu bílastæði er vitað um að a.m.k. þrjátíu bíla sem hafa stórskemmst, og ég reikna með að meðaltjón sé svipað og það sem ég varð fyrir sjálfur, eða um tvær milljónir gamalla króna. Ég reyndi að komast hingað uppeftir um kvöldmatarleytið í fyrrakvöld, sagði Sigurður Ingi, en varð að snúa við. Ég komst hreinlega ekki inní götuna. Og ég vissi af einum hérna í nágrenninu, sem sat af sér óveðrið inni í bifreið sinni og þorði sig hvergi að hræra, nötrandi af hræðslu. Ég bý við Engihjallann, sagði Sigtryggur, og þegar við íbúarnir höfðum barist út að bílunum upp úr kvöldmatarleytinu í gærkvöldi
ætluðum að færa þá til þá urðu allt upp í tíu manns að sitja í bílunum og hanga á þeim, svo þá tæki ekki á loft. Við sátum fimm í mínum bíl, meðan við færðum hann, og tveir héngu utan á. Svo strengdum við kaðal milli húsa til að komast að bílunum, og fyrir rest skriðum við það var ekki um annað að ræða. Í rauninni var stórhættulegt að vera utandyra.
Það er varla ofsagt, að þakplötur hafi fokið af þriðja hverju húsi við Ásgarð í Reykjavík, þar sem Morgunblaðsmenn hittu fyrir smiði uppi á þaki eins raðhúsanna. Nær allt þak Lögreglublokkarinnar svokölluðu við Ásgarð var farið og plöturnar lágu sumstaðar eins og hráviði. Stofugluggar höfðu brotnað í sumum húsanna og fólkið bjóst ekki við neinum bótagreiðslum, nema ríkisstjórnin gripi til sérstakra ráðstafana. í nýjum húsakynnum Prentsmiðjunnar Eddu við Smiðjuveg hafði orðið milljónatjón og smiðir voru þar að störfum. Í byggingavöruverslunum og glersölum á höfuðborgarsvæðinu var nánast örtröð í allan gærdag
og héldu verslunarmenn, að öll kurl væru ekki komin til grafar, því margir vildu áreiðanlega ekki fara í nema bráðabirgðaviðgerðir, meðan óljóst væri um bótagreiðslur. Þaksaumur, þakpappír, plastdúkar, bárujárn, báruplast og hvaðeina sem þarf til lagfæringar á þökum seldist næstum upp í mörgum verslunum, og glersalar afgreiddu gler í gær, eins og þeir gátu.
Björn Haraldsson kerfisstjóri hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur sagði í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í gær, að bilun hefði orðið á linunni milli Geitháls og Elliðaáa, en samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins fuku járnplötur á línuna í óveðrinu. Sagði Björn að á meðan á
viðgerð stóð hafi þurft að taka línuna út, og til skömmtunar varð að grípa þar sem ekki var unnt að flytja nægilegt rafmagn inn í borgina á þeim tíma.
Milli 10 og 20 vagnar Strætisvagna Reykjavíkur skemmdust í óveðrinu á mánudagskvöldið, en í 7 vögnum brotnuðu framrúður, þaklúgur fuku af 8 vögnum og afturrúður brotnuðu í nokkrum vögnum. Hættu vagnarnir akstri undir kl.11 um kvöldið.
Við vorum með fjóra menn af vaktinni í störfum og auk þeirra voru kallaðir út starfsmenn vélaverksta'ðis og trésmiðjunnar til aðstoðar. en nokkrar skemmdir urðu á flugvélum og flugskýlum, sagði Guðmundur Guðmundsson slökkviliðsstjóri á Reykjavíkurflugvelli í samtali við Morgunblaðið. Ein flugvél fauk og lenti á hvolfi og urðu á henni talsverðar skemmdir, þá fauk hluti af hurð á flugskýli 1, syðri endanum, en flugvélarnar sluppu þó við skemmdir. Hins vegar fauk flugvélarflak á svokallað Andraskýli og braut af því hurðina. Lenti hún á
flugvélum, sem þar voru inni og skemmdi þær nokkuð. Þetta eru helstu skemmdirnar, en auk þess má nefna rúðubrot á skrifstofubyggingu flugmálastjóra, og skúrar, sem verið var að smíða undir radíóvita, fuku um koll.
Kiðafelli Kjós. 17.febrúar. Tjón varð á flestum bæjum í Kjós í óveðrinu sem geisaði á mánudagskvöldið og aðfararnótt þriðjudagsins. Járn fuku af húsum, m.a. á Tindastöðum. Morastöðum, Eyjum og á Hálsi. Eitthvað mun líka hafa fokið af sumarbústöðum. Á Botnsá fauk nýbyggt brúargólf, sem var um 70 m hærra en gamla brúin, og ók fólksbifreið framaf og lenti í Botnsá. Þótt ótrúlegt kunni að virðast slasaðist ökumaður ekki alvarlega. Hér hjá mér á Kiðafelli fór ein hliðin af risinu á hlöðunni og stofuglugginn hreinlega sprakk inní stofu til mín með miklum hávaða. Það gerðist rétt eftir að rafmagnið fór í gærkveldi. Rafmagnslaust hefur verið hér í sveitinni síðan og verður áfram, því á Kleifunum hér skammt frá eru farnir 5 staurar á Kjósarlínunni. Staurar munu hafa farið víðar um Kjós. Þetta er langversta veður sem hér hefur komið í manna minnum, oft hefur það nú verið slæmt, en aldrei eins og í fyrrakvöld og gærnótt. Hjalti.
Akranesi 17. febrúar. Þessi stórskaðastormsveipur. sem gekk yfir landið í gærkvöldi og nótt, er vissulega sá harðasti, sem farið hefur hér yfir Akranes. Hann olli miklu tjóni á mannvirkjum, en slasaði þó engan að öðru leyti en því að kona fauk og féll og meiddist lítilsháttar. Þakskífur fuku af mörgum húsum og hurfu af sumum með öllu. Gróðurhús og skjólgarðar skemmdust mikið og rúður brotnuðu. Mest tjónið varð þó á grjótgarði utanvert við aðalhafnargarðinn sem hefur verið hlaðinn til skjóls fyrir sjógangi á undanförnum árum. Ysti hluti hans hvarf í hafið og flattist út í sandinn með öllu og er það talið tugmilljóna tjón. Skip, sem voru í höfninni urðu þó ekki fyrir neinum skakkaföllum. Stór olíutankur við Sementsverksmiðjuna beyglaðist og lagðist inn í einni vindhviðunni. Bíl var ekið ofan í Botnsá við brúna, en pallur hennar, gólfið, hafði fokið af rétt áður. Hér á Akranesi var rafmagnslaust öðru hvoru í gærkvöldi, en Andakílsárstöðin reyndist þó furðu traust og óaðfinnanlegur orkugjafi í þessu mikla veðri. Björgunarsveitir og lögreglan voru á ferðinni til öryggis og aðstoðar fram eftir nóttu. Þakplata úr áli lenti hér á blettinum hjá undirrituðum í einni af verstu vindhviðunni um miðnættið. Gæti hún hafa komið alla leið frá
Reykjavík, því ekki er vitað um álklæðningu á húsum úr þeirri átt, sem hún kom fljúgandi. Júlíus.
Magnús Oddsson, bæjarstjóri á Akranesi, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að tjónið hefði orðið á hafnargarðinum þegar lágt var í sjó. Menn hefðu grun um að ástæður þess að garðurinn gaf sig nú fremst væru óveðrið, sem gerði í desember. Þá rofnaði stórt skarð í garðinn og líklegt væri að þá hefði einnig orðið bilun fremst á garðinum. Það væri 4050 metra kafli, sem hefði farið nú, en þetta hefði verið rammgerðasti hluti garðsins og björgin allt að 15 tonn á þyngd. Hann sagði að menn frá Vita- og hafnamálastofnun væru væntanlegir til að líta á garðinn og leggja á ráðin um viðgerð. Engar varabirgðir eru til af grjóti og því gæti viðgerð dregist fram á sumar.
Borgarfirði. 17.febrúar. Hér í Borgarfirði varð gífurlegt tjón í óveðrinu og á það jafnt við um alla hreppa Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Það er sama hvar ég hef keyrt í gegnum í dag, alls staðar hafa þakplötur og húshlutar tekist á loft í óveðrinu og á flestum bæjum hafa menn haft i nógu að snúast í dag við að dytta að því, sem gekk úr lagi í veðrinu. Í gróðurhúsahverfinu að Kleppjárnsreykjum í Reykholtsdal varð mikið tjón og 2 gróðurhús lögðust nánast saman er austurendi gekk inn. Öll gróðurhús í hverfinu eru meira og minna skemmd og þá um leið plöntur í uppeldi í húsunum. Eigendur húsanna, sem skemmdust mest eru þeir feðgar Bernharð Jóhannesson og Jóhannes Jónsson. Bernharð sagði mér í dag, að í hans húsum hefðu 2 þúsund af 5 þúsund tómatplöntum eyðilagst, en það þýðir að hann sendir 810 tonnum minna af tómötum á markað á besta sölutímanum í maí og júní í sumar heldur en hann hafði ráðgert. Ef litið er á eina einstaka sveit þá hefur Bæjarsveitin orðið harðast úti. Á Fossatúni varð gífurlegt tjón, hlaða fauk alveg niður að jörðu og veggir liggja flatir og af hlöðunni við hliðina fauk allt járn þannig að berar sperrurnar standa eftir. Helmingur járns á fjósi fauk í veðrinu, hluti af fjárhúsþaki, hluti af geymslu, 4 rúður brotnuðu í íbúðarhúsi og þar fuku plötur af þaki og hluti álklæðningar á íbúðarhúsinu. Sem dæmi um veðurhaminn þá sjást för á álklæðningunni eins og eftir skot úr haglabyssu, en skæðadrífu af smásteinum rigndi yfir klæðninguna. Í Bæjarsveitinni má telja upp bæjarröðina, alls staðar varð eitthvað tjón og víða mjög mikið. Hjá Hesti brotnuðu 4 rafmagnsstaurar auk staurasamstæðu hjá Vatnshömrum, sem kurlaðist í sundur. Þá veit ég um fjóra símastaura, sem brotnuðu í Lundareykjardal, en þó varð heldur minna tjón þar en víða annarsstaðar. Ef litið er á tjón í öðrum sveitum Borgarfjarðar þá eru útihús að Vatnsenda í Skorradal mikið skemmd. Hlaða lagðist saman þar og opnaðist inn í fjárhús, þar sem féð var nýrúið og nýbaðað. Að Þverholti í Álftaneshreppi fór þak af húsum. Í Munaðarnesi fór þakhluti af íbúðarhúsi Þórðar Kristjánssonar, umsjónarmanns með orlofshúsunum. Suðurhluti þaksins sviptist af þannig að í dag hefur snjóað inn hjá honum. Að Kvíum í Þverárhlíð urðu verulegar skemmdir og að Norðtungu fór ný hlaða mjög illa. Að Síðumúla í Hvítársíðu fauk hluti af þaki og sömuleiðis á húsi einu í Reykholti. Að Hvanneyri fauk bíll og þegar ég kom út í morgun sá ég rafmagnsstaur í ljósum logum, en 2 staurar brunnu í látunum. Þá brotnuðu rúður í heimavist bændaskólans og hluti af þaki nautastöðvar Búnaðarfélags Íslands fauk í veðrinu. Að Skeljabrekku í Andakíl fór þak í heilu lagi af fjósi og kurlaðist það niður túnið eins og það hefði lent í hakkavél. Í Borgarnesi varð ekki mikið tjón, þó er ljóst að þar urðu skemmdir á íbúðarhúsum og helmingur þaks leikskólans fauk. Skemmdir urðu á Borgarpakkhúsinu og sendiferðabíll tókst á loft og lenti á öskubíl staðarins. Rafmagnslaust hefur verið að miklu leyti í öllu héraðinu síðan í gærkvöldi og því um leið hitaveitulaust á Hvanneyri og í Borgarnesi, en mörg hús á þessum stöðum hafa verið tengd við Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Ófeigur.
Ólafsvík 17. febrúar. Sterkviðri var hér mikið. en þó hefur það gerst áður og jafnvel meira en var nú. Skemmdir urðu samt nokkrar og helst þær, að skreiðarskemma með nokkru af skreið lagðist saman. Skemman sjálf er ónýt talin og skreiðin illa farin, en skemman lagðist saman undan veðrinu. Rafmagnslaust var í alla nótt, en í morgun var rafmagn í 2 til 3 tíma, en síðan aftur straumlaust. Er ekki vitað hvenær rafmagn kemst á að nýju, en nú er það skammtað og fá þorpin á Snæfellsnesi rafmagn nokkra tíma í senn. Bátar voru flestir komnir inn um klukkan 10 í gærkvöld og voru engir erfiðleikar á ferðinni hjá þeim. Vinna lá her alveg niðri í dag vegna rafmagnsleysis þar sem atvinnufyrirtækin fengu ekki rafmagn. - Helgi.
Grundarfirði, 17. febrúar. Miklar skemmdir urðu á íbúðarhúsinu á Naustum í Eyrarsveit þegar gluggar mót suðri brotnuðu en þar er stofan. Veðurofsinn var slíkur, að hurðarbúnaður gaf sig og allt fór á tjá og tundur í íbúðarhúsinu. Bóndinn á Naustum. Páll Torfason, var staddur í Grundarfirði þegar ósköpin gengu yfir og var kona hans heima með börnin. Hlaðan á bænum fór svo að segja í heilu lagi og er tjón Páls tilfinnanlegt. Hér í þorpinu urðu verulegar skemmdir enda varð veður mjög hvasst. Rúður brotnuðu í húsum, járnplötur fuku af húsum og fóru vinnuflokkar um þorpið í dag til að vinna að viðgerðum. Þá gjöreyðilagðist nýlegur bíll. Hann kastaðist yfir á lóð næsta húss og er. Fleiri bílar fuku hér í Grundarfirði en skemmdir urðu ekki miklar. Allt rafmagn fór af þorpinu klukkan 17:30 í gær og kom rafmagn ekki fyrr en undir klukkan átta í kvöld. Emil.
Stykkishólmi 17. febrúar. Veðrið hér tók að versna mjög kvöldmatarleytið, en það var ekki fyrr en siðar að menn áttuðu sig á veðurhæðinni og var kallað á hjálparsveitir um miðnættið. Um það bil 20 hús hafa skemmst af völdum veðursins meira eða minna og má segja mestar skemmdir á fiskgeymsluhúsi sem nánast splundraðist. Milli 30 og 40 menn unnu við ýmiss konar aðstoð og lagfæringar, trésmiðir, björgunarsveitir og slökkviliðið og náðu þeir að forða miklum skemmdum. Rafmagn fór af um kl.19 í gærkvöld. Var þá sett í gang dísilrafstöð, sem ekki hefur verið notuð lengi, en hún annar ekki öðru en nauðsynlegri þjónustu. Hafa því sumir ekki haft rafmagn frá því í gærkvöldi og eru hús nú að kólna upp. Fáir bílar hafa skemmst og má það undarlegt heita þar sem nokkur umferð var. Frá sveitunum í kring berast þær fregnir, að þök hafi fokið af útihúsum. Fréttaritari.
Hellissandi, 17.febrúar. Hann var stinningshvass hérna á Hellissandi. en varla mikið meira en það. Þá má segja að veðrið hafi farið framhjá okkur að þessu sinni. Hér varð ekkert tjón sem nokkru nemur í veðrinu og bátarnir, sem flestir voru í Vikurál, héldu inn til Patreksfjarðar. Það var allt í lagi hjá þeim blessuðum. Rögnvaldur.
Dalasýsla: Kirkjan að Staðarhóli í Saurbæ í Dölum fauk í heilu lagi af grunni sinum í óveðrinu og skall á félagsheimilinu þar skammt frá. Kirkjan skemmdist verulega og svo fór einnig um félagsheimilið. Þá skemmdist verslunarhús Saurbæinga og almennt talað, þá urðu miklar skemmdir í Dalasýslu. Það sem er þó fréttnæmt í þessu er, að fréttir um skaðana víðs vegar um sýsluna bárust ekki til Almannavarnanefndarinnar á Búðardal fyrr en seinni partinn í dag, sagði Skjöldur Stefánsson í Búðardal í gær í samtali við Morgunblaðið. Allar samgöngur innan sýslunnar lágu að miklu leyti niðri og þá var símasamband mjög erfitt. Almannavarnanefnd undir forustu Péturs Þorsteinssonar sýslumanns var kölluð út undir miðnætti þegar veðrið var að rjúka upp. Veðurofsinn náði hámarki í Dölum um miðnætti. Að minnsta kosti 20 íbúðarhús í Búðardal og nágrenni urðu fyrir tjóni. Skemmdir urðu á Grunnskólanum í Búðardal og sama gilti um Laugaskóla. Víða um sveitir í Dölum urðu skemmdir en þó mestar að Svínakoti í Miðdölum. Þar fauk þakið af nýlegum fjárhúsum og hvarf út í veður og vind. Bóndinn á bænum hafði nýlega lokið vetrarrúningi. Björgunarsveitir voru kallaðar út skömmu fyrir miðnætti og í gær var unnið að viðgerðum eftir skemmdirnar.
Húsið lagðist á hliðina og brotnaði síðan niður. Það er gjörónýtt og eitthvað brotnaði af glerjum í öðrum húsum vegna fjúks á glerbrotum, en það er hægt að laga sagði Jóel Jóelsson garðyrkjubóndi í Mosfellssveit í gær, en 200 fermetra gróðurhús gjöreyðilagðist hjá honum í
óveðrinu í fyrrakvöld. Í húsinu voru sex þúsund páskaliljur og sagði Jóel, að þær lægju undir rústunum og væru allar ónýtar.
Patreksfirði. 17.febrúar. Hér var mikill stormur í gærkvöldi og í nótt, en enginn ofstopi. Hins vegar er hér meiri snjór núna en síðastliðin 30 ár og hefur snjónum kyngt niður síðustu daga. Utarlega í þorpinu er 2300 metra langur kafli, sem ekki er byggt á vegna snjóflóðahættu. Undanfarna daga hefur fólk óttast snjóflóð úr fjallinu og jafnvel flutt úr húsum sinum vegna þess. Fyrir nokkrum dögum féll snjóflóð úr fjallinu, en það var lítið og olli engum skaða.
Þingeyri, 17. febrúar. Suðvestanáttin er venjulega versta áttin hérna og hér var mjög hvasst í 23 tíma upp úr klukkan 2 í nótt. Ekki var þó um ofsaveður að ræða og ég veit ekki um neitt tjón í plássinu í þessu veðri. Við Þingeyringar erum hins vegar komnir á bólakaf í snjó og ég minnist ekki annars eins fannfergis hér. Hjá mér er snjór upp á stofuglugga og slíkt hefur ekki gerst áður.
Báðar línurnar slitnuðu svo að segja við bæjarveginn á Mjólká. Í þeirri gömlu fóru 16 staurar og 6 stæður í hinni nýju en í þeim eru 12 staurar. Það var aftaka strengur þarna niður og staurarnir brotnuðu og aðrir rifnuðu upp með rótum, ef svo má að orði komast, sagði Ólafur Helgi Ólafsson, deildarstjóri hjá Orkubúi Vestfjarða í samtali við Morgunblaðið.
Bolungarvík, 17. febrúar. Mesta tjónið hér í bæ varð er hluti þaks frystihússins sviptist af í heilu lagi. Sá hluti þaksins, sem fauk var yfir matsal á efstu hæð hússins og voru það um 180 fermetrar af þakinu, sem fuku í óveðrinu. Átta tommu sperrur kubbuðust sundur í látunum
og í morgun sá upp í heiðan himininn í gegnum þakið. Talið er að þakplötur af Rækjuvinnslunni hafi brotið rúður í matsalnum og þannig hafi myndast þrýstingur, sem að lokum svipti þakinu af húsinu. Í dag sást ekkert af þakinu, sem trúlega hefur fokið á haf út. Hér er rafmagn skammtað í dag og fær fólkið rafmagn í 2 tíma, en er án þess í 4 tíma. Gert er ráð fyrir nokkurra daga rafmagnsskömmtun, en ekki er búið að kanna nákvæmlega hversu mikið tjón varð á raflínum og staurum. Plötur fuku af tveimur húsum og af Verslunarhúsi Einars Guðfinnssonar. Flutningavagn fauk um koll og traktorskerra tók mikla rispu. Gunnar.
Hólmavík, 17.febrúar. Óveðrið sem gekk yfir landið í gærkvöld kom hér við sögu eins og annars staðar. Rækjubátar frá Hólmavik og Drangsnesi voru allir á sjó í gær, en voru flestir komnir að landi þegar óveðrið skall á. Eftir kvöldmat fór að hvessa verulega af suðri með miklum sjógangi og gerði ofsaveður, eitt hið versta. sem menn muna eftir hér um slóðir. Nokkrir bátar skemmdust í höfninni og einhverjir urðu að fara frá bryggju og halda sjó í alla nótt úti á firði. Skemmdir urðu á landgangi hafskipabryggjunnar. Verið er að gera við það í dag. Rafmagnslaust hefur verið hér að mestu leyti síðan í gærkvöld og er enn, en skammtað í tvo tíma í senn. Byggðalínan fór í sundur og er ekki lokið viðgerð ennþá. Eftir miðnætti snerist vindur í suðvestan og hvessti þá enn. Fóru þá að fjúka þakplötur af húsum og gömul hlaða fauk eitthvað út í buskann. Skemmdir urðu líka á húsum á Drangsnesi. Fregnir hafa ekki borist úr sveitunum vegna símabilana. Er þetta eitt versta veður, sem menn muna hér um slóðir. Andrés.
Hvammstanga, 17.febrúar Það var snarvitlaust veður hér á Hvammstanga í gærkvöldi og var veðrið verst frá miðnætti til um klukkan tvö. Rækjubátarnir voru úti er veðrið skall á og lentu í barningi. en voru komnir inn um tíuleytið. Um miðnætti slitnaði einn báturinn frá og rak frá bryggju upp á grunn. Hann skemmdist nokkuð, en aðrir bátar sluppu. Járn fauk af öðrum helmingi þaksins á Sparisjóðnum og dreifðist um plássið, en olli samt ekki teljandi tjóni. Rúður brotnuðu í sjúkrahúsinu og tók þak af einni lítilli byggingu við sjúkrahúsið. Á Stað í Hrútafirði fauk þak í heilu lagi af fjárhúsi og sömuleiðis einn veggur þess. Stóð féð eftir í tóftinni, en sakaði ekki. Einnig fauk þak af gömlu íbúðarhúsi á Stað, Á Bjarghúsum í Vestur-Hópi fór þak af íbúðarhúsi og á Torfastöðum í Miðfirði fór hálft þakið af íbúðarhúsi. Karl.
Sauðárkróki. 17.febrúar. Ofsaveður var hér í gær og nótt og á flugvellinum mældist vindhraðinn 110 hnútar þegar hvassast var. Nítján manna Twin Otter flugvél Arnarflugs var í áætlunarferð til Siglufjarðar. en hún lenti hér í gær og er hér ennþá. Varð að fá 4 vörubíla til að binda vélina við svo hún fyki ekki í verstu hryðjunum. Tókst vélin reyndar á loft stundum. en kaðlarnir héldu. Farþegar fóru með bíl áleiðis til Varmahlíðar, en þegar komið var til móts við Hafsteinsstaði fauk hann útaf og varð fólkið að vera um kyrrt í bílnum í nokkra tíma áður en óhætt var talið að ganga til næsta bæjar. Tveir menn héldu þó á næsta bæ til að láta vita og urðu þeir að skríða. Sjúkrabíll frá Hofsósi fauk í Tröllaskarði í Hegranesi og skemmdist mikið. Tveir menn komust við illan leik til Keflavíkur eftir að hafa skriðið mestan hluta leiðarinnar. Skemmdir urðu talsverðar hér á Sauðárkróki, þök fuku og skemmdir urðu á nokkrum byggingum, m.a. mjólkursamlaginu, frystihúsinu. Skemmdir urðu einnig á stálgrindahúsum í eigu Fiskiðju Sauðárkróks og Útgerðarfélags Skagfirðinga. Styttan hesturinn eftir Ragnar Kjartansson á Faxatorgi fauk af stalli sínum en skemmdist ekki mikið. Að sögn Jóns Halls Jóhannssonar lögregluvarðstjóra voru lögreglumenn á vakt alla nóttina til að aðstoða fólk og er ekki vitað um slys á fólki. Þá voru félagar í björgunarsveitum kallaðir út og höfðu ærinn starfa fram á morgun bæði í bænum og sveitunum. Þök fuku af útihúsum og skemmdir urðu á mörgum bæjum, en ekki er vitað hversu miklar. Leifur Þórarinsson á Keldulandi í Hegranesi sagði þetta vera mesta veður, sem hann myndi eftir hér um slóðir. Rafmagnstruflanir urðu nokkrar og útvarp á FM-bylgju datt út og síminn var lítt nothæfur langtímum saman sennilega vegna mikils álags. Kári.
Bæ á Höfðaströnd. 17.febrúar. Hér varð mikið tjón á hverju einasta heimili í ofsaveðrinu, bæði í Fosshreppi og víðar þar sem ég hef haft spurnir af. Þök af útihúsum og íbúðarhúsum skemmdust víða, en ekki urðu skaðar á fólki nema hvað eftir að sjúkrabíll hafði ekið fólki til Sauðárkróks, fauk hann um koll á bakaleiðinni. Þetta gerðist í Hegranesi. og slasaðist ökumaðurinn talsvert, síðubrotnaði og marðist. Varð hann og annar maður úr bílnum að skriða heim að bænum Keflavik, þar sem ekki var stætt vegna veðurhæðarinnar. Hér um kring skemmdist svo mikið, hey fauk til dæmis og allt lauslegt, en búpeningur annar en hross voru inni við. Ekki er enn vitað til að hross hafi skaðast í veðrinu. Rafmagn fór af og til og símasambandslaust var um tíma. Veðrið skall á um klukkan 22 og var síðan verst um miðnætti og fram til klukkan tvö, en útvarpið hætti einmitt útsendingum er mest gekk á, og þótti mörgum undarlegt svo ekki sé meira sagt. Ég er að verða áttræður, og hef aðeins vitað til að svona vont veður hafi komið einu sinni áður. Þá var ég á sjó á Skagafirði, var í samfloti með tveimur öðrum bátum. Einn báturinn fórst og menn tók út af hinum. Þetta var 2. desember 1933, mannskaðaveður. Björn í Bæ.
Siglufirði, 17.febrúar. Smápartur fauk af þaki hér í veðrinu og tveir búðargluggar brotnuðu. Mjög hvasst var á tímabili, en enginn ofsi. Bíll fór héðan í gærkvöldi með farþega, er ætluðu með flugi frá Sauðárkróki. Þetta er ferð, sem yfirleitt tekur um eina klukkustund og
stundarfjórðung að aka, en að þessu sinni var bíllinn í 5 tíma á leiðinni. Það varð þó ekki til þess að fólkið missti af flugvélinni því hún fór ekki frá Sauðárkróki fyrr en í gær vegna veðursins. Á Siglufirði er í dag sólskin og ágætis veður. mj.
Grímsey, 17. febrúar. Hér var ofstopaveður og mældust yfir 90 hnútar upp úr miðnætti, fyrst á sunnan og svo suðvestan. Í höfninni var allt í einni kös og mildi að ekki skyldi allt fara niður. Stóru bátarnir eru meira og minna skemmdir eftir að hafa lamist saman á bólinu. en legufærin héldu ekki í þessu veðri. Þriggja tonna trilla Einars Þorgeirssonar sökk og milli jóla og nýárs sökk trilla Sæmundar Traustasonar. Í þessu veðri slitnaði önnur trilla upp, en er hana rak að bryggjunni tókst að ná henni og koma í skjól, en hún var þó mikið brotin. Einn báturinn er brotinn að aftan, hann er nánast opinn eins og skuttogari. Ekki er nákvæmlega vitað hve tjónið er mikið en víst, að gera þarf við alla báta Grímseyinga meira og minna. Okkur þótti það lélegt hjá Almannavarnarráði ríkisins að láta loka fyrir útvarpið eftir að veðrið var að mestu gengið yfir syðra. Þá voru erfiðleikarnir að byrja hér nyrðra, en það virtist ekki skipta máli að þessu sinni. Alfreð.
Húsavík 17. febrúar. Þetta fór hér yfir. eins og annars staðar. Hér var hvasst en ekkert afspyrnuveður. Það tókst að bjarga hér öllu sem bjarga þurfti. Aðeins heyrði ég af einu þaki. sem leit út fyrir að myndi fjúka. Það var á nýbyggingu og tókst að koma í veg fyrir slíkt í tæka tíð. Fréttaritari.
Hellu, 17. febrúar. Tólf tonna vörubíll fauk um 100 metra í nótt og lenti tvær billengdir út í Rangá. Þar fannst hann í morgun en enginn varð var við þegar bíllinn fauk. Menn hér í sveit eru sammála um, að hvassviðrið í nótt sé hið mesta er þeir hafa kynnst og sjálfur verð ég að segja, að ekki man ég eftir öðru eins veðri. Þrátt fyrir það varð ekkert meiriháttar tjón hér á Hellu. Hins vegar fauk járn af húsum í Næfurholti, Hólum og Svínhaga en það eru efstu bæir á Rangárvöllum. Þá fauk þak af stórri heyhlöðu í Gunnarsholti. Segja má, að eitthvert tjón hafi orðið á flestum bæjum, en sem betur fer hvergi tilfinnanlegt utan það sem áður var talið. Jón.
Hveragerði, 17.febrúar. Hér í Hveragerði geisaði mikið óveður í gærkvöldi og framan af nóttu. Hjálparsveit skáta var kölluð út til að liðsinna fólki, járnplötur fuku og brutu rúður í íbúðar- og gróðurhúsum. Allt lauslegt fauk og voru sumar götur þorpsins eins og ruslahaugur á að líta í morgun. Rafmagnslaust varð um klukkan 19 og gerði það björgunarstarf erfiðara. Mest mun tjón hafa orðið hjá garðyrkjubændum því sum gróðurhúsin eru mikið brotin og auk skemmda á húsunum munu afurðir, sem í þeim eru hafa spillst af kulda en hér var komið fjögurra stiga frost í morgun. Á síðustu tveimur árum hafa margir eldri garðyrkjubændur selt gróðrarstöðvar sínar og ungir menn keypt þær. Margir þeirra efnalitlir og sumir með mörg börn á framfæri og er þeirra tjón því sérstaklega tilfinnanlegt. Sigrún.
Grindavik. 17.febrúar. Vitað er um meiri eða minni skemmdir á 13 húsum hér í bænum, en þær eru þó ekki mjög stórvægilegar. Nokkrar plötur hafa fokið af hverju húsi og valdið skemmdum er þær fuku um. Mestar skemmdir urðu á geymsluhúsi nokkru er þakið sviptist af því. Björgunarsveitin Þorbjörn og lögreglan voru á þönum fram til kl.9 í morgun við hvers kyns hjálparstörf, en verkefnin voru nánast ótæmandi. Ekki er vitað um alvarleg slys, en maður fótbrotnaði er hann datt á svelli. Var hann fluttur í sjúkrabíl til aðgerðar og varð að manna bílinn fílefldum karlmönnum til að hægt væri að hemja hann á veginum. Búist hafði verið við flóðum nú undir morguninn, en af því varð ekki þar sem vindátt snerist meira til vesturs og var því fremur kyrrt í höfninni. Fréttaritari.
Að sögn lögreglunnar í Keflavik, muna menn þar syðra ekki eftir öðru eins veðri og gekk yfir í fyrrakvöld og aðfaranótt þriðjudags. Járnplötur fuku um kaupstaðinn eins og skæðadrífa og viða brotnuðu rúður. Stór hluti þaksins á nýja íþróttahúsinu í Keflavík fauk, svo og á Félagsbíói. Tólf tonna bátur í Njarðvíkurhöfn sökk og skemmtibátur gjöreyðilagðist. Að sögn lögreglunnar litu menn eftir bátum sínum alla nóttina. Á hafnarbakkanum rifnuðu stór klakastykki upp og fuku út í veður og vind. Kona varð fyrir rúðu sem fauk inn í íbúðarhús og skarst hún. Að öðru leyti virðist sem fólk hafi ekki orðið fyrir meiðslum í kaupstaðnum en hins vegar bar á því, að fólk hringdi til lögreglunnar og vildi komast úr húsum sínum, þar sem það taldi sér ekki vært lengur vegna veðurofsans. Í Garðinum fauk hálft þak af fiskverkunarhúsi og hvarf það á haf út. Þak fauk af heilu fjölbýlishúsi í Njarðvíkum. Þannig var ástandið svipað um öll Suðurnesin. Að sögn lögreglunnar bárust í allan gærdag tilkynningar um tjón. Hjálpar- og björgunarsveitir voru kallaðar út um öll Suðurnesin og var unnið sleitulaust að björgunarstarfi alla nóttina.
Í Garðabæ varð veðurhamurinn hvað mestur á tímabilinu frá kl.10 til 11 í fyrrakvöld. Tjón varð nokkuð á húsum og mannvirkjum, mest bar á þakskemmdum og rúðubrotum sem víðar. Björgunarlið var kallað út síðari hluta kvölds og vann fjöldi manns við björgunar- og hjálparaðgerðir fram eftir nóttu. Í gærmorgun mátti víða sjá fólk dytta að húsum sínum. Í Skógarlundi hitti blaðamaður Morgunblaðsins tvo húseigendur, sem voru ásamt hjálparliði á þökum húsa sinna. Ytra byrði húss annars þeirra sviptist af í einu lagi í óveðrinu og hluti af þaki hins. Birgir A. Eggertsson Skógarlundi 17 sagði, að ástandið hefði verið hvað verst á milli kl. tíu og hálf ellefu. Hann sagði að það hefði líklega bjargað hluta af þakinu, að hann bar sandpoka o.fl. á þann hlutann sem ekki fauk í fyrstu atrennu. Í Skógarlundi 15 búa Grétar Guðmundsson og Sigríður Þórisdóttir ásamt dóttur sinni Erlu Sigríði, en ytra byrði á þaki hússins fauk í einu lagi út í veður og vind í veðurhamnum. Sigríður sagði: Það varð mikill hávaði og titringur þegar þakið fauk, og við biðum eiginlega eftir, að það sem eftir var færi sömu leið, svo mikill var veðurhamurinn. Við flúðum til nágrannanna og bárum síðan mestalla búslóðina, innihurðirnar og allt lauslegt yfir í næsta hús, ef svo færi að húsið stæði eftir þaklaust. Við sváfum síðan í næsta húsi í nótt. Maður er rétt að jafna sig eftir þetta." Erla Sigríður sagðist hafa verið svoldið hrædd, en mamma hennar sagðist viðurkenna, að hún hefði verið dauðhrædd og t.a.m. rokið fáklædd yfir til nágrannanna, þegar ósköpin dundu yfir.
Tíminn heldur áfram 19.febrúar:
EO/KH Á Flúðum í Hrunamannahreppi varð gífurlegt tjón í óveðrinu síðastliðið mánudagskvöld líkt og viðast hvar á landinu. Meðal annars skemmdust gróðurhús mikið og ræktun eyðilagðist að verulegu leyti. Blaðið hafði samband við Guðmund Sigurðsson garðyrkjubónda að Flúðum í gær, en hann á þar stærsta gróðurhúsið og er það jafnframt stærsta gróðurhús á landinu. Guðmundur sagði að tjónið væri að mestu leyti tvíþætt, í fyrsta lagi tjónið á húsinu sem skipti nokkrum milljóna gamalla króna og í öðru lagi tjón á ræktuninni sem skipti eiginlega meira máli. En endanlegar tölur liggja ekki fyrir fyrr en eftir u.þ.b. 10 daga. Guðmundur taldi að tjónið í heild næmi um 20-30 milljónum gamalla króna. Húsið er um 2600 fermetrar og að sögn Guðmundar skemmdust um 300 fermetrar í óveðrinu. Tjón á gróðurhúsum í Flúðahverfinu var gífurlegt og slapp ekkert hús sagði Guðmundur að lokum og einn tómatabóndinn hafði tapað svo að segja öllum plöntunum vegna frosts. Ekkert var hægt að aðhafast við björgunarstörf á Flúðum fyrr en á þriðjudagsmorgun er veður lægði.
AS/Mælifelli Engir stórskaðar urðu í Lýtingsstaðahreppi í illviðrinu á mánudag nema á Ljósalandi. Þar eyðilagðist álbogabygging undir báruplasti, nýlegt hús. Búið var að sá til tómata í gróðurhúsinu og er það allt ónýtt. Á Reykjum skemmdust gróðurhús töluvert og nokkuð fór af gleri í gróðurhúsinu í Laugarhvammi eins og oft vill verða er hvessir að ráði. Þakplötur losnuðu og fuku á mörgum bæjum, svo sem Mælifellsá, og á Varmalæk, en bílar fuku og skemmdust meira og minna á Laugarbökkum og viðar. Veður var vont hér í sveit, en tæplega hægt að kalla það fárviðri.
AM Skemmdir urðu á hinni nýju Boeing 727-200 þotu Flugleiða, þar sem hún stóð á Keflavikurflugvelli í ofviðrinu aðfaranótt þriðjudags. Varð hún fyrir foki af þaki flugskýlis í grenndinni og var það einkum sandur og asfalt sem borið var á þakið. Urðu skemmdir á málningu á vélinni og gluggum, en einnig komust óhreinindi inn í hreyflana þar sem hlífar sem lagðar voru yfir þá fuku af þeim. Þá skekktist uppgöngustigi aftan á vélinni. Sveinn Sæmundsson blaðafulltrúi Flugleiða sagði okkur að nú væri lokið við að hreinsa hreyflana. Hafa menn orðið að vinna það verk utan dyra vegna skorts á skýlisaðstöðu en vonir stóðu til að hún kæmist í hús í gær, til frekari skoðunar og átti hún að vera ferðbúin á ný nú í dag. Fokkervélar á Reykjavíkurflugvelli voru bundnar við akkeri í óveðrinu og sluppu þær óskemmdar en Twin Otter vél, sem Flugleiðir hafa á leigu frá Flugfélagi Norðurlands, skemmdist þegar vængendi rakst í jörð þrátt fyrir að reynt hefði verið að hlífa vélinni fyrir veðrinu með því að leggja fyrir hana stórum bilum.
Morgunblaðið heldur líka áfram 19.febrúar:
Hvanneyri 18. febrúar Enn berast fréttir úr sveitum Borgarfjarðar um tjón, sem varð í óveðrinu mikla aðfaranótt þriðjudags. Nú er ljóst, að skemmdir hafa orðið á næstum hverjum einasta bæ í héraðinu. Þegar þetta er skrifað um hádegisbilið er enn rafmagnslaust og símalaust víðast hvar í héraðinu og brotnir staurar eru víðar en í fyrstu var talið. Svo ótrúlega harkalega hefur þetta veður gengið yfir, að lýsingar á skemmdum eru magnvana. Hér í héraði vissu menn af þessu veðri, þ.e.a.s. þeir tóku spá Veðurstofunnar alvarlega, en tjónið, sem nú er ljóst að orðið hefur, er langtum meira, en svartsýnustu menn gerðu ráð fyrir. Allir sem geta hjálpa nú til við lagfæringar eftir því sem aðstæður leyfa hjá hverjum og einum. Björgunarsveitin í Borgarnesi, nemendur Bændaskólans á Hvanneyri og Samvinnuskólans að Bifröst hafa unnið að bráðabirgðaviðgerðum og a.m.k. munu nemendur á Hvanneyri vinna áfram við það. Nú þegar vantar orðið bárujárn í héraðið og einnig gler í gróðurhúsin. Ekki er kunnugt um slys á mönnum, en mikil skelfing greip um sig meðal fólks víða í hamförunum þegar járnið tættist af húsunum eða þegar húshlutar liðuðust í sundur og hurfu gersamlega í sumum tilfellum. Kannski er það stórfurðulegt, að engin skyldi farast í hamförum þessum. Vera má, að hér hafi sterk lýsingarorð verið notuð, en ef það á ekki við núna, þá á það aldrei við. Ófeigur
Vífilsstaðir: Byggingin frá 1910 stóð sig best, sagði Hrafnkell Helgason yfirlæknir á Vífilsstaðaspítala í viðtali við Morgunblaðið á þriðjudag, en þök af tveimur viðbyggingum við aðalsjúkrahúsbygginguna fuku af í heilu lagi nóttina áður, auk þess plötur af íbúðarhúsum á staðnum og ketilhúsi. Bifreið eins sjúklinganna á spítalanum varð undir hluta af einu þakinu og skemmdist mjög mikið. Hrafnkell sagði, að þökin, sem fuku af í heilu lagi, hefðu verið á svonefndum leguskála og á rafmagnsverkstæði og saumastofu. Leguskálinn er opinn til suðurs og sagði hann, að veðurhamurinn hefði rifið þökin af og hefðu myndarlegir stöplar rifnað upp og fokið með þökunum, sem skullu niður skammt frá. Þá hefðu þakplötur fokið af íbúðarhúsum og ketilhúsi og brotið tvær rúður í aðalbyggingunni, eina í forstofu og aðra á sjúkrastofu. Þá sagði Hrafnkell: Einu verulegu vandræðin vegna þessa voru hjá fólkinu, sem bjó í íbúðarhúsinu sem þakplöturnar fuku af. Það átti í mjög miklum erfiðleikum með að komast frá húsinu, sem er steinsnar frá aðalbyggingunni, þangað yfir. Það tókst þó og eitthvað af fólkinu svaf í aðalbyggingunni í nótt. Þetta var hvað verst á tímabilinu frá kl. 1011.30 um kvöldið, en snerist síðan meira í vestrið og lægði. Það má telja mildi, að aðeins ein bifreið skemmdist verulega, því margir bílar stóðu allt í kringum svæðið sem er nú þakið af þekjum.
Skálholti, 18.febrúar. Það urðu gífurlegar skemmdir í Biskupstungum í óveðrinu. Tjónið varð mest á garðyrkjustöðvum í sveitinni, en þær eru á milli 20 og 30. Má segja, að hvert einasta gróðurhús hafi orðið fyrir stórskemmdum, afurðatjónið er gífurlegt. Mest öll uppskeran eyðilagðist, en garðyrkjubændur höfðu verið vongóðir um góða uppskeru í ár, og sumir bjuggust meira að segja við að fá uppskeruna eftir hálfan mánuð eða svo. En nú er sem sé uppskera garðyrkjubænda í Biskupstungum nær öll ónýt. Bændur eru smeykir um að það sé ekki til nóg gler í öllu landinu, svo mikið brotnaði í gróðurhúsunum. Víða í sveitinni urðu svo minniháttar skemmdir, járnfok og rúðubrot. Rafmagnslaust var hjá okkur mánudagsnóttina og allan þriðjudaginn, og símasamband í lakara lagi. Björn.
Staðarbakka. 18.febrúar. Ofviðrið, sem gekk yfir landið að kvöldi hins 16., olli miklu tjóni hér um slóðir. Veðurhæðin var einhver sú mesta sem hér hefur komið. Ekki hefur heyrst um neitt slys á mönnum né skepnum en tjón á húsum hefur orðið mikið, aðallega útihúsum og jafnvel íbúðarhúsum. Aðallega hefur farið járn af þökum, en húsin sjálf staðið í flestum tilvikum. Hér var með öllu rafmagnslaust í sólarhring. Hin nýja byggðalína bilaði svo
alvarlega og er viðgerð ekki með öllu lokið enn. B.G.
Geitaskarói, 17.febrúar. Fréttaritari Morgunblaðsins hafði samband við lögregluna á Blönduósi, til að fá upplýsingar um skemmdir af völdum óveðursins sem geisaði í nótt. Yfirlögregluþjónn kvaðst vilja lýsa yfir undrun sinni á hátterni Almannavarna ríkisins síðastliðna nótt. Þegar veðrið tók að ganga niður á Stór-Reykjavíkursvæðinu, var tilkynnt í útvarpinu að veðrið ætti enn eftir að versna á Norður- og Austurlandi. Síðan var útsendingu hætt. Á Blönduósi, varð talsvert tjón á allmörgum húsum, rúður brotnuðu og þakplötur fuku. Vinnuskúr frá Pósti og síma fór í loftköstum á annað hundrað metra, jeppi valt, en ekki urðu slys á mönnum. Hjálparsveitir og björgunarmenn voru kölluð út, og menn fóru í fjölmörg hús til að aðstoða húseigendur. Miklar skemmdir urðu einnig úti um sveitir. Til dæmis fauk þak af gömlum fjárhúsum og hlöðu á Fremsta-Gili, að Hvammi í Langadal fauk þak af gamalli fjárhúshlöðu í heilu lagi, þök skemmdust víða á íbúðarhúsum, nokkurra mánaða gamalt slitlag fauk af Langadalsveginum, sumarhús fauk og járnplata fauk og drap eitt hross, og mætti lengi telja. Endanlegar upplýsingar um tjón munu þó ekki liggja fyrir fyrr en í lok vikunnar. Ágúst.
Mjög miklar skemmdir urðu í óveðrinu í Dalasýslu, að sögn Péturs Þorsteinssonar. sýslumanns: Það eru yfir 20 íbúðarhús skemmd, fauk af þeim járn og rúður brotnuðu o.fl. Og milli 20 til 30 gripahús eru mikið skemmd. Svo fór, eins og kunnugt er Staðarhólskirkja af grunninum og
lenti á félagsheimilinu í Tjarnarlundi, og brotnaði við það einn veggur þess. Hún hangir saman, kirkjan, en skekktist mikið, og sagði mér hreppstjórinn í Saurbænum, að það væri erfitt að gera sér grein fyrir því hvort hægt væri að koma kirkjunni aftur fyrir á grunninum, hún hefði skekkst það mikið. Svo fór af henni turninn. Staðarhólskirkja átti fyrir skömmu 80 ára afmæli og var þá gerð myndarlega upp. Mér skilst að það hafi tekist að bjarga munum úr kirkjunni. Hér fuku bílar og ýmislegt fauk á þá, og það má segja það sé opið inná skrifstofuna á verslunarhúsinu í Skriðulandi í Saurbæ. Það varð meira og minna stórtjón í öllum sveitunum, nema einni. Þakið fauk af fjárhúsinu á Svínhóli í Miðdal, en þar var fé allt nýrúið og þurfti að flytja það burtu.
Ísafirði, 18.febrúar. Eina meiriháttar óhappið sem varð í óveðrinu mikla var að tólf tonna rækjubátur, Gunnar Sigurðsson ÍS 13, slitnaði frá bryggju í Sundahöfn og rak þvert yfir höfnina, um 100 metra spöl, og upp í grjótgarð, þar sem hann brotnaði og sökk. Báturinn er mikið skemmdur og óvíst hvort borgar sig að gera við hann. Úlfar
Þorlákshöfn, 18.febrúar. Hér var mjög vont veður í fyrrakvöld, en ég tel þó að við höfum sloppið vel miðað við þær miklu skemmdir sem orðið hafa um allt land. Hér losnuðu plötur á húsþökum og á Reykjabraut 10 fauk járnplata inn um stóran stofuglugga. Fólk var nýfarið úr stofunni til allra hamingju, því glerbrotin þeyttust um allt og húsgögn og annað skemmdust mikið. Þá fór plata inn um glugga á skrifstofu á Reykjabraut 5. Það var mikil mildi að hún fór fram hjá manni, sem sat þar við skrifborð sitt. Þarna urðu miklar skemmdir. Þá brotnuðu þrjú gróðurhús og lögðust saman. Björgunarsveitarmenn voru hér til taks og aðstoðuðu fólk svo og starfsmenn hreppsins, en önnur óhöpp en þau sem getið hefur verið um hef ég ekki frétt af. Ragnheiður.
Dagblaðið minnist á veðrið í pistli þann 19.febrúar:
Jóhannes Reykdal - úr pistli]: Í gær fréttist það að trúlega félli niður spurningaþáttur sá sem þeir Tommi og Jenni (Guðni og Trausti) áttu að stjórna í vetur, yrði niður að falla að sinni og bíða haustnótta: Það þykir mér miður og að skaðlausu hefði annað mátt niður falla í staðinn. Annars fengum við stóran skammt af hinum helmingnum af þeim félögum í gærkvöldi. Trausti veðurfræðingur kom fyrst fram hjá félaga Sigmari og fræddi okkur um vonda veðrið og önnur slík sem á okkur hafa dunið undanfarin ár. Sagði hann að hver klukkustund væri dýrmæt þegar vara ætti við veðrum sem þessum og nefndi sem dæmi að með hálfrar stundar fyrirvara mætti bjarga mörgum bílum frá skemmdum eins og nú urðu í þessu veðri. Er það sannarlega von mín eins og Trausta að þeir veðurfræðingar sem nú eru að ljúka námi fái vinnu með því að ríkisvaldið auki fjárframlög til Veðurstofunnar, því eins og Trausti orðaði það í gærkvöldi, að bjargi hver þeirra einum bíl á ári frá eyðileggingu af völdum veðurs þá er kostnaðurinn greiddur.
Tíminn segir enn frá óveðrinu í pistli 20.febrúar:
MÓ/Sveinsst. Miklar rafmagnstruflanir urðu í Húnavatnssýslu í óverðinu nú á dögunum og urðu menn rafmagnslausir allt frá nokkrum klukkustundum til þriggja sólarhringa, þar sem verst var. Mikið var um staurabrot og línuslit, m.a. brotnaði staurasamstæða í byggðalinunni
og komst hún ekki í fullt lag, fyrr en á miðvikudag.
Tíminn rekur frekar tjón á garðyrkjustöðvum í pistli 22.febrúar:
Eins og komið hefur fram í Tímanum varð mikið tjón í Hrunamannahreppi í óveðrinu nú í vikunni. Hefur Skúli Gunnlaugsson á Miðfelli nú sent okkur myndir og nánari upplýsingar. Einna mest varð tjónið hjá garðyrkjubændum, en þeir höfðu flestir plantað í gróðurhús sin fyrir nokkru síðan. Tómatarækt er að mestu stunduð í hreppnum. Í flestum gróðurhúsanna brotnaði gler meira og minna og sums staðar var sem sprenging hefði orðið í húsunum, plöntur brotnuðu niður og sópuðust sums staðar í dyngjur fyrir vindinum. Garðyrkjubóndinn á Áslandi, Guðmundur Sigurðsson, sem rekur 2500 fm. garðyrkjustöð taldi meirihlutann af tómötunum ónýtan og tjónið nema meiru en 20 miljónum g.kr. í Hvammi, Grafarbæjum, Brún, Silfurtúni, Laugalandi og viðar, er skaði af veðrinu mjög mikill og erfitt að meta hann á þessu stigi. Á Hrafnkelsstöðum fauk þak af íbúðarhúsi og tók ein járnplatan í sundur rafmagnsheimtaug á Syðra Seli, en þar fór gler úr einum 10 gluggum á fjósi. Þá tók þak af fjárhúsi í Skyggni og stóð tóftin ein eftir. Viðar urðu minni skaðar, t.d. fór járn af fjárhúsi og geymslu í Syðra Langholtá, hálft þak af hlöðu í Miðfelli. Rúður fóru í íbúðarhúsi í Efra-Langholti af áfoki og heyvagn fauk á bil í Ásgarði og stórskemmdi hann. Enn hefur veðrið valdið kjúklingabændum skaða, einkum þeim, sem voru með útungun. Klakalög eru nú á öllum túnum og óttast menn kalskemmdir, ef ekki bregður til betri tíðar fljótlega.
Tíminn 12.mars (um febrúarveðrið):
Fárviðrið, sem geisaði aðfaranótt 17. febrúar s.l. olli miklum sköðum í Árneshreppi á Ströndum norður. Trúlegt er, að ekki hafi orðið meira tjón á mannvirkjum af völdum náttúruhamfara þar um slóðir síðan þrjú hafskip hvalveiðimanna frá Spáni rak þar á land og brotnuðu í spón fyrir meira en þrem öldum. Þegar birti og veðrið gekk niður gat að lita viðurstyggð eyðileggingarinnar og alls konar uppakomur á flestum bæjum sveitarinnar; brotna glugga, fokin þök og uppsprengdar hlöður, laskaða skúra, niðurbrotnar geymslur og brenglaða bila. Við einn fólksbílinn hafði Kári verið svo harðleikinn, að hann er talinn gjörónýtur. Sömu skil ætlaði hann að gera heyhleðsluvagni á öðrum bæ, hóf hann á loft, en hætti við áform sitt í miðjum klíðum og setti hann mjúklega niður á endann, þannig að hann stóð á beislinu eins og ballettdansari í hvíldarstöðu. En stoltastur var Kári af kraftlyftingum sinum á Finnbogastöðum í Trékyllisvik þar sem hann þreif yfirgefið íbúðarhús upp af grunni og þeytti því yfir 20 m vegalengd á gafl landsímastöðvarinnar með slíku afli að það brotnaði í spón. En á íbúðarhúsinu, sem fyrir varð urðu þó ekki aðrar skemmdir en þær, að gluggarnir á gaflinum brotnuðu. Svona aflraunir minna á söguna af Finnboga ramma, sem einmitt bjó síðustu æviár sín á Finnbogastöðum.
Endir.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.4.): 160
- Sl. sólarhring: 162
- Sl. viku: 1370
- Frá upphafi: 2463112
Annað
- Innlit í dag: 143
- Innlit sl. viku: 1212
- Gestir í dag: 133
- IP-tölur í dag: 127
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning