15.11.2024 | 23:40
Árshámarkshiti á vetrarhelmingi ársins
Eins og minnst var á hér á hungurdiskum á dögunum varð hiti á tveimur veðurstöðvum sá hæsti á árinu til þessa. Þetta var á Hámundastaðahálsi í Eyjafirði (22,0 stig) og við Hólshyrnu í Siglufirði (21,9 stig). Fyrir allmörgum árum kannaði ritstjóri hungurdiska tíðni þess að hæsti hiti ársins lenti utan sumarsins og fann tilvik í öllum mánuðum nema marsmánuði. Ritstjóranum fannst þessi umfjöllun vera nýleg, en við flettingar kom í ljós að 14 ár eru liðin síðan. Það er því kominn tími til að athuga hvort eitthvað hafi gerst síðan í málinu. Það reyndist ekki mikið - svona tilvik eru í raun sárasjaldgæf.
Þegar almenn talning fer fram á því hvenær hæsti hiti ársins mælist á veðurstöðvum landsins kemur í ljós - ekki svo óvænt - að það það gerist oftast í sumarmánuðunum þremur, júní, júlí og ágúst. Dálítið misjafnt er eftir stöðvum hvaða mánuður er gæfastur - við látum slíka athugun bíða að sinni (þótt hún gæti verið allrar athygli verð). Sömuleiðis kemur í ljós að hæsti hiti ársins mælist alloft í maí eða í september, nægilega oft til þess að það telst varla óvenjulegt. Munur er þó á fyrri og seinni hluta þessara mánaða.
Það er aftur á móti óvenjulegt að hæsti hiti ársins mælist í apríl eða október - er þó - að því er ritstjórinn telur - líklegra síðast í apríl og fyrst í október heldur en í hinum hlutum mánaðanna. Í öðrum mánuðum er aðeins um tilvik á stangli að ræða - rétt eins og það á dögunum - tilviljun sú að óvenju hlýr dagur dúkki upp - einmitt þegar mjög fáir slíkir dagar hafa fallið á sumarmánuðina það sama ár. Jafnhlýir dagar sem komið hafa að vetrarlagi þurfa þannig ekki að hafa orðið þeir hlýjustu á árinu á veðurstöð - ef enn hlýrri (og e.t.v. alls ekki óvenjuhlýir) dagar hafa komið það sumarið. Hér erum við sum sé ekki að telja alla hlýja daga að vetrarlagi, heldur aðeins þá sem hitta í að verða hlýjustu dagar ársins á einhverri veðurstöð.
Ritstjórinn hefur nú endurtekið leitina frá því í desember 2010. Sömu skilyrði eru sett eins og þá. Þess er krafist að hámarksmælingar hafi verið stundaðar í öllum mánuðum ársins á veðurstöðinni. Það er rétt hugsanlegt að við gætum misst af einhverjum tilvikum með þessu móti, t.d. ef athuganir þriggja fyrstu mánaða ársins vantar - en allt annað skilar sér og hæsti hiti þeirra níu mánaða hafi mælst í nóvember. Líkur á að við séum að missa af einhverju eru þó varla miklar (en ekki núll).
Lítið var um hámarkshitamælingar hér á landi fyrr en um 1930, enda finnum við ekkert lengi framan af. Elsta tilvikið sem ritstjórinn rakst á er frá árinu 1959. Þá gerði óvenjuleg hlýindi snemma í október. Þann 6. sýndu mælar á þremur veðurstöðvum hæsta hita ársins, á Galtarvita, Hornbjargsvita og Seyðisfirði. Þremur dögum síðar, þann 9. var hæsti hiti ársins lesinn af mæli á Reyðará á Siglunesi. Þetta voru óvenjuleg hlýindi, 6.október 1959 var hlýjasti dagur ársins alls á landsvísu (meðalhiti). Hefur hlýjasti dagur ársins á landinu aldrei verið svo seint (svo vitað sé). Vormegin sumars varð 15.maí 1985 hlýjasti dagur ársins á landinu í heild og hefur aldrei orðið fyrr að vori. Um þetta er reyndar fjallað í gömlum pistli hungurdiska, (24. júlí 2023).
Þrettándi október 1961 og 19. október 1962 urðu hlýjustu dagar ársins (í merkingunni hámarkshiti hæstur) á Dalatanga. Fyrsti október 1973 var líka sérlega hlýr, hlýjasti dagur ársins á Siglunesi, Seyðisfirði, Dalatanga, Kambanesi og Teigarhorni. Á Dalatanga var talan 23,5 stig lesin af hámarksmæli kl.6 um morguninn. Þetta er jafnframt hæsti hiti sem mælst hefur í október hér á landi. Sú regla er ófrávíkjanleg á Veðurstofunni að tala er ætíð bókfærð á þann dag sem lestur á mæli fer fram. Þetta finnst sumum óþægilegt, í þessu tilviki vegna þess að hiti kann að hafa orðið hæstur fyrir miðnætti (næsti hámarksaflestur á undan var kl.18 þann 30.september). En þannig eru reglurnar, á tíma mannaðra athugana enduðu útgildamánuðir alltaf kl.18 síðasta dag mánaðarins - þá hófst næsti mánuður. Með tíðari mælingum sjálfvirkra stöðva er engin ástæða lengur til að halda þessum mánaðamótum til streitu. En munum þetta - tala telst til þess mánaðar sem aflestur fer fram í. Förum við að hringla í því lendum við strax í alls konar illkynjuðum vandræðum. En það væri gott að losna við þetta met með öðru sem greinilega væri sett t.d. kl.1 þann 1. Sama vandamál á við um októberhitamet Reykjavíkur - það er sett í útgildaoktóber en ekki í almanaksoktóber - en lesið í þeim síðarnefnda. Að vetrarlagi er hlýindum alveg sama hvað klukkan er og dagafærslur af þessu tagi því algengar á þeim tíma árs. Við fjöllum e.t.v. nánar um sólahringstímasækni hámarkshita síðar (ef þrek verður til).
Októbertíðindi urðu næst árið 1979. Þann 2. mældist hæsti hiti ársins á Galtarvita, margir muna auðvitað hvernig sumarið var það árið.
Mikil hlýindi urðu í október 1985, þann 14. mældist hæsti hiti ársins á Gjögri, Raufarhöfn, Þorvaldsstöðum, í Strandhöfn, á Seyðisfirði, Dalatanga, í Neskaupstað og daginn eftir á Kollaleiru. Þetta var kalt sumar (og þess getið hér að ofan að hlýjasti dagur ársins á landsvísu var í maí). Nokkrum dögum síðar, þ.23. kom hæsta hámark ársins á Siglunesi.
Þann 7. október 1992 mældist hæsta hámark ársins á Dalatanga og þ.2. árið 2001 hæsta hámark ársins á Fagurhólsmýri. Kannski varð hitinn hæstur eftir kl.18 þann 1. því þann dag mældist hæsti hiti ársins á stöð Vegagerðarinnar í Öræfum.
Hinn 26. árið 2003 var mjög hlýr. Enn mældist hæsti hiti ársins á Dalatanga, bæði á mönnuðu og sjálfvirku stöðinni. Eins og oft (ættum við kannski að segja venjulega) munaði 0,5 stigum á mæli mönnuðu stöðvarinnar (kvikasilfursmælir í skýli) og sjálfvirka mælinum. Hæsti hiti ársins mældist einnig þennan dag á Núpi á Berufjarðarströnd, í Vattarnesi og í Seley.
Árið 2007 skartaði hinn 19. hæsta hita ársins á Vatnsskarði eystra, þann 16. árið 2009 mældist hæsti hiti ársins á Fonti og þann 13. árið 2011 mældist hæsti hiti ársins í Bjarnarey.
Þann 27. október 2017 mældist hæsti hiti ársins á báðum veðurstöðvunum við Kvísker í Öræfum og sömuleiðis á Brúarjökli, síðastnefnda hámarkið var heldur hógvært, 10,6 stig.
Þá höfum við lokið októbertilvikunum. Þau eru auðvitað mun fleiri heldur en í mánuðunum á eftir. Í gagnagrunninum er ekkert tilvik í nóvember fyrr en árið 1964. Þann 2. það ár mældist hiti 17,2 stig á Kambanesi - og varð hæsti hiti ársins þar. Við skulum til gamans líta á háloftakort þennan merka dag, fyrsta skipti sem við upplifðum hæsta hita ársins á vetrarhelmingi ársins.
Kort japönsku endurgreiningarinnar sýnir einmitt það sem við viljum sjá til að festa trú okkar á metið. Mikil og hlý háloftahæð fyrir sunnan og suðaustan land og þykktin (litir) mjög væn. Meiri en 5520 metrar - einmitt yfir Kambanesi. Varla hægt að biðja um meir. Víðar var mjög hlýtt, t.d. mældust 17,6 stig á Akureyri (nóvembermet þá - og lengi síðan, lesið þann 3.) og 18,6 stig á Dalatanga. Spurning hvað sjálfvirkir mælar á Krossanesbraut og Dalatanga hefðu sýnt. Einkennileg eyða er í minni ritstjórans um þessi mánaðamót - hann man illviðri þann 21. og blíðu dagana á eftir eins og gerst hefði í gær - en síðan ekki neitt um veður fyrr en undir 10. nóvember. Sennilega hefur illviðrafíkn ekki verið svalað þessa daga og miðlun var með þeim hætti að ekkert fréttist af þessum metum (svo var blaðaverkfall - minnir ritstjórann). Nú er metafíkn miklu meiri - stöðugt leitað staðfestingar á trúnni (beggja vegna svells).
Næstu nóvembertilvikin komu síðan 1971. Það fyrra þann 10., þegar hiti fór í 19,7 stig á Dalatanga - og þann 24. þegar hiti fór í 18,5 stig á Kambanesi og 17,6 í Hólum í Hornafirði. Sömuleiðis fréttist af 24 stigum á Kvískerjum, en þar var ekkert hitamælaskýli - en trúverðugir bændur - sem kunnugt er. Við fjölluðum um þetta tilvik í eldri pistli.
Frá þessari öld vitum við af fjórum nóvembertilvikum til viðbótar því sem átti sér stað fyrir nokkrum dögum. Þann 9. árið 2001 fór hiti í 16,1 stig á Eyjabökkum og varð hæsti hiti ársins þar. Eftirminnilegt illviðri gekk yfir þessa daga. Árið 2016 fór hiti í 20,1 stig á Dalatanga þann 24. og varð hæsti hiti ársins. Um þetta var fjallað í pistli hungurdiska. Í pistlinum er getið um að hiti hafi farið yfir 20 stig á Dalatanga þann 26. árið 2013 - sum sé mjög óvenjulegt - en það var hins vegar ekki hæsti hiti ársins - og því ekki til umfjöllunar hér.
Árið 2018 fór hiti á Siglunesi í 17,8 stig þann 18. og var hæsti hiti ársins (sérlega mikið rigndi þá í Reykjavík - sjá hungurdiskapistil) og þann 4. árið 2020 fór hiti í 16,2 stig á Kambanesi og varð sá hæsti á árinu.
Í desember vitum við aðeins um eitt tilvik. Það varð tilefni þessarar athugunar á sínum tíma og um það fjallað í pistli árið 2010.
Þann 14. desember árið 2001 mældist hiti á Sauðanesvita 18,4 stig, sá hæsti á árinu - og aðeins 7 daga frá vetrarsólstöðum. Kortið sýnir stöðuna þennan dag. Mikil hæð fyrir suðaustan land og eindregin sunnanátt á landinu. Þykktin er mest um 5460 metrar og nægilega hvasst hefur verið til að ná góðum hlýindum að ofan við Sauðanesvita. Hiti fór í 16,0 stig í Dalsmynni í Hjaltadal - sem er gott þar á bæ.
Mikla hitabylgju gerði um miðjan janúar árið 2000. Er það í eina skiptið sem árshitamet stöðva falla á þann almanaksmánuð. Hiti mældist 18,5 stig á Dalatanga, lesið af þann 16., 19,6 mældust á sjálfvirku stöðinni - að kvöldi þess 15. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur á Íslandi í janúarmánuði. - Við bíðum enn eftir 20 stigum í janúar og febrúar.
Sama dag fór hiti í 14,9 stig í Seley - hæsti hiti sem þar hefur mælst að vetrarlagi. Þann 17. fór hiti í 16,3 stig á Kambanesi, sömuleiðis hæsta vetrarhámark þar.
Kortið að ofan getur staðið sem dæmi um veðurlag þessara þriggja daga. Gríðarleg hlý hæð fyrir sunnan land og sterk vestanátt yfir landinu. Þykktin fer upp fyrir 5520 metra þar sem mest er.
Við eigum aðeins eitt tilvik úr febrúar. Það var enn sem fyrr á Dalatanga, 18,1 stig þann 17. árið 1998. Þessi tala sker sig dálítið úr - og mætti fá nánari skoðun.
Mæling í mars hefur ekki enn endað sem hæsti hiti ársins á veðurstöð. Kannski þurfum við að bíða lengi eftir slíkum ósköpum.
Í apríl eru fjögur tilvik (auk nokkurra sem vafalítið eru röng). Það elsta er frá þeim 21. árið 1980 þegar hiti á Dalatanga mældist 14,8 stig. Hér nýtur dagurinn greinilega fádæma daufra hámarka þetta ár - hreint ótrúlegt að þetta dugi sem hæsti hiti ársins á þessum stað - en svona geta hlutirnir æxlast. Það var heldur skárra árshámarkið árið eftir á Dalatanga, en varð líka mælt í apríl, þann 19. 17,2 stig. Sama var á Kambanesi, 18,1 stigið þar varð hæsti hiti ársins. Minnisstæð blíða um þær mundir í huga ritstjórans.
Þann 28. árið 2006 mældist hæsti hiti ársins á stöð Vegagerðarinnar við Kvísker í Öræfum, hófleg 17,4 stig - og sama dag á Brúarjökli, en ekki nema 9,9 stig.
Árið 2007 gerði tvær vænar aprílhitabylgjur - sem skiluðu árshámörkum. Fyrst þann 3., en þá fór hiti í 21,2 stig í Neskaupsstað (þótti ótrúlegt) og varð hæsti hiti ársins. Sama var í Seley og á Kambanesi, hæsti hiti ársins 2007 mældist á báðum stöðum sama dag. Daginn eftir, þann 4. mældist hæsti hiti ársins á stöð Vegagerðarinnar við Kvísker, 19,7 stig.
Síðari hitabylgjan í apríl 2007 var þann 28. til 30. Hámarkið færist á þann 30. á Grímsstöðum á Fjöllum (19,8 stig), þann 29. á Vöglum, Staðarhóli, Möðruvöllum, Sóleyjarflatarmelum, Þeistareykjum, í Ásbyrgi og í Gerðisbrekku á Tjörnesi, en þann 28. á Skagatá.
Ekki vitum við enn af fleiri tilvikum sem þessum. Við sjáum af lestri þessum að sömu staðirnir eru nefndir æ ofan í æ. Þar er víðast skammt í bæði kaldan sjó (sem heldur sumarhitum niðri) og há fjöll sem draga hlýtt loft úr háloftum niður undir sjávarmál. Vindur blæs þar ekki heldur langar leiðir yfir snæviþaktar hásléttur eða heiðar. Ákveðin tegund stöðva.
Ábendingar um villur sem kunna að hafa slæðst inn í þennan langa stagltexta eru vel þegnar. Sjón ritstjórans dofnar og hönd hans vill leita á ranga lykla á prentborðinu. Kannski sér finnur hann eitthvað sjálfur og reynir þá að laga það - sýnið mildi þar til yfirlestri er rækilega lokið.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.