25.9.2024 | 00:10
Hugsað til ársins 1963
Árið 1963 varð mjög veðurviðburðaríkt. Vetur góður, vor hart, sumar kalt, en haustið umhleypingasamt. Auk fjölmargra veðurviðburða varð á árinu einn þriggja öflugustu jarðskjálfta hér á landi frá upphafi mælinga (kenndur við Skagafjörð), framhlaup varð í Brúarjökli, mesta framhlaup aldarinnar á Íslandi og ný eyja (Surtsey) myndaðist í eldgosi suðvestan við Vestmannaeyjar.
Árið þótti lengst af fremur óhagstætt, nema janúar til mars og svo desember. Úrkoma var undir meðallagi. Janúar var hagstæður til sjávar og sveita. Vegir flestir færir. Febrúar var einnig mjög hagstæður lengst af. Sérlega góð tíð var í mars og tók gróður vel við sér. Hlýtt var í veðri. Apríl varð hins vegar óhagstæður vegna eins mesta hrets sem um getur á þessum árstíma. Maí var kaldur og hretviðrasamur lengst af. Gróðurlítið var í mánaðarlok. Sæmilega hagstæð tíð var í júní. Gróðri fór vel fram. Júlí var kaldur og fremur óhagstæður, einkum um landið norðanvert. Hægviðrasamt og þurrt var í ágúst. Heyskapur gekk sæmilega. Tíð í september var óhagstæð til lands og sjávar. Óvenju mikla snjóa gerði á hálendinu og víða í byggð. Lengst af hagstæð tíð í október, en nokkuð stórgerð síðari hlutann. Nóvember þótti óhagstæður norðanlands, en hægstæðari syðra. Í desember var tíð hagstæð og hæglát.
Við förum yfir helstu veðurtíðindi ársins eins og þau komu fram í blöðum (timarit.is) og í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar - og nýtum að venju gagnagrunn Veðurstofunnar. Við leyfum okkur að stytta textana (og stöku sinnum hnika til stafsetningu). Vonandi sætta höfundar sig við það. Í þetta sinn sækjum við mest til Tímans og Morgunblaðsins sem voru áberandi duglegust blaðanna við miðlun veðurupplýsinga þetta ár. Hungurdiskar hafa áður fjallað um veður á árinu. Sérstakir pistlar hafa birst um þrjú meginillviðri (páskahretið, leitahretið og lægðina skæðu 23. október). Sömuleiðis hefur áður birst pistill um leifar fellibylsins Flóru, auk hugleiðinga um umskiptin miklu sem urðu um jólin 1962, einnig var hugsað sérstaklega til maímánaðar 1963. Vísað er í þá pistla - þar má finna fleiri veðurkort og almenna umfjöllun - þótt eitthvað sé hér endurtekið.
Árið er ritstjóra hungurdiska sérstaklega minnisstætt. Þetta var annað árið sem hann fylgdist með veðri nánast hvern einasta dag og mundi lengi frá degi til dags. Þó flest þeirra smáatriða sé nú horfið og fjölmargir dagar dottnir út er enn ógrynni mynda ljóslifandi í huganum. Veturinn var miklu betri en flestir síðari vetur, vorið var skítt, sumarið kalt og snemma haustaði. Næstu árin fóru í það að átta sig á því að árstíðasveiflan væri kannski ekki endilega svona - þótt árið 1964 hafi að sumu leyti hegðað sér ekki ósvipað - í höfuðdráttum.
Janúar var mjög óvenjulegur. Meðalþrýstingur í janúar hefur aldrei verið hærri síðustu 200 árin. Fyrri hluta mánaðarins var samfelld vetrarblíða, hægir vindar og heiðríkja. Frost voru talsverð inn til landsins, en ekki mikil við sjávarsíðuna. Um miðjan mánuð hörfaði hæðin til suðausturs og ríktu suðlæg hlýindi þá í viku. Skyndilega gerði hvassan útsynning - sem virtist ætla að breyta veðurlagi, en ekkert varð úr því og síðustu dagana var hæðin mætt aftur, jafnvel enn öflugri en áður.
Á kortinu má sjá meðalhæð 500 hPa-flatarins í janúar 1963 og vik frá meðallagi aldarinnar. Hæðin veldur kaldri norðlægri átt langt suður í Evrópu, en hlýindi eru vestan hennar. Þetta er óvenjuleg staða.
Morgunblaðið ræðir hættu á heyskorti í frétt 4.janúar:
Bændur víða um land hafa fækkað búpeningi sínum í haust og vetur vegna heyskorts. Vont árferði var síðastliðið sumar svo að segja um land allt og hvatti Búnaðarfélag Íslands bændur til þess að gæta hófs í ásetningi, þar sem litlar sem engar líkur væru til að hægt yrði að útvega hey.
Leifar af veðurfréttum ársins 1962 í Morgunblaðinu 5.janúar:
Úr Austur-Skagafirði. Mjög umhleypingasamt hefir verið undanfarið en þó litlar snjókomur. 22.23. des. gekk hér yfir eitt mesta sunnanveður, sem koma hér. Í þessu afspyrnuroki urðu þó furðanlega litlar skemmdir, þak tók af nýbyggðu húsi á Sleitustöðum í Hólahreppi, eign Sigurðar Björnssonar bílstjóra þar. Sagt er mér einnig að í Framfirðinum hafi orðið nokkur vandræði með hrossin, sem hlupu út í ófærur. Annars er ekki hægt að segja að tíðarfar á þessu senn endaða ári hafi verið mjög óhagstætt en einhvern veginn mun það hafa notast verr en oft áður, og eftirtekja almennings mun vera frekar rýr til lands og sjávar. Mun þó afkoma fólks vera í meðallagi. Björn
Árið 1963 var langt í frá því að teljast hafísár. Samt voru fregnir af honum alltíðar og ritstjóri hungurdiska man vel áhyggjur þeirra eldri manna sem mundu erfið ísár - auk þess sem veðurnördinu þótti ísinn vera eitthvað spennandi. Morgunblaðið segir frá hafís 6.janúar - en einnig af lagnaðarís og góðri færð:
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hafa tvö skip orðið vör við ís á siglingarleið út af Horni. Um kl.11 í fyrrakvöld var tilkynnt að nokkrir ísjakar, hættulegir skipum, væru á reki um 6 sjómílur norðaustur af Hornbjargsvita. Í gærmorgun var aftur tilkynnt um íshröngl, sem gæti verið hættulegt skipum, á venjulegri siglingaleið norðaustur af Hornbjargi. Veðurstofan skýrði svo frá, að orsakir þessa mætti sennilega rekja til þess, að fyrir jólin var um tíma vestlæg átt, og hefur þá líklega rekið úr ísröndinni, sem liggur nokkuð langt undan Íslandi, og jakar borist austur hingað.
Akureyri 5. janúar. Allir vegir héðan frá Akureyri eru nú mjög vel færir, svo að jafnvel smærri bílar komast keðjulausir allra sinna ferða. Í vikunni var farið yfir Lágheiði, sem liggur milli Ólafsfjarðar og Skagafjarðar og mun það einsdæmi á þessum tíma árs. Mikið frost er hér á Akureyri í dag; 17 stig niður við sjávarmál, en mun nokkru meira uppi á brekkunum. Akureyrarpollur er allur ísi lagður og nokkuð út fyrir Oddeyrartanga. Ágætur skautaís er kominn innan til á Pollinn og þar er nú fjöldi manns á skautum. Skip hafa komið hér daglega að undanförnu og þess vegna er fær renna gegnum ísinn inn að Torfunefsbryggju. Þar sem ísinn hefir ekki verið brotinn af skipum er hann 46 þumlunga þykkur. Fyrirhugað hefir verið að útbúa skautasvell á íþróttavellinum og mun það að líkum framkvæmt í dag og verður það upplýst með kvöldinu.
Frost og þurrkar höfðu nú staðið í nærri þrjár vikur og bera tók á vatnsskorti. Tíminn segir frá 8.janúar:
ED-Akureyri 7. janúar. Hér hefur verið frost hvern einasta dag síðan á Þorláksmessu og jafnframt stillur og hreinviðri. Er nú svo komið, að vatnsskortur er farinn, að gera vart við sig á nokkrum bæjum hér um slóðir og verða bændur af flytja vatn í tunnum þó nokkurn spöl, til þess að brynna búsmala. Þess má geta, að sumstaðar eru kýr orðnar svo vanar því að drekka úr sjálfbrynningartækjum, að þær líta ekki við vatni í fötum og hafa bændur orðið að grípa til þess að setja vatnið inn á brynningarkerfið, til þess að kýrnar fáist til að drekka það.
Morgunblaðið segir einnig frá vatnsskorti 8.janúar:
Kifsá, Kræklingahlíð, 7. janúar. Óvenjumiklar og langvarandi frosthörkur hafa verið hér í Eyjafirði að undanförnu. Snjólaust er hér með öllu og gengur frostið því mjög djúpt í jörð. Smálækir eru víða notaðir sem vatnsból hér í sveitum og eru þeir nú flestir botnfrosnir og því víða vatnslaust með öllu bæði fyrir fólk og fénað. Vélar allar eru erfiðar í gangsetningu og því eina úrræðið að bera vatnið. Er það allerfitt og tímafrekt, þar sem stór kúabú eru og oft langt að sækja vatnið. Sums staðar fæst ekki annað en krapavatn, sem síast upp um sprungur í svellin. Eldri menn muna ekki eftir að slíkt hafi komið fyrir hér síðan 1918. Eru margir bændur uggandi um, að þessa gæti mjög á grassprettu á komandi sumri. Frostið hefur verið milli 10 og 20, en þó nær 20 stigum nær óslitið á aðra viku. Sem stendur er hér 10 stiga frost, en í dag er skýjað. Víkingur
Og illvígur vatnsskortur kom upp á Vopnafirði. Tíminn 9. janúar:
EDAkureyri, 8.janúar. Sjö hundruð manna byggðarlag, Vopnafjarðarkauptún, er nú orðið vatnslaust með öllu og verður að flytja allt vatn að í tunnum. Við þetta hefur alvarlegt ástand skapast og m.a. hefur barnaskóla staðarins verið lokað. Um síðustu helgi hvarf vatnið algjörlega af vatnsveitukerfi Vopnafjarðarkauptúns. Í kauptúninu, sem stendur undir lágum þurrum ási er enginn lækur né uppspretta, sem koma að notum. Hins vegar voru nokkrir brunnar notaðir í gamla daga, en þeir eru löngu af lagðir, en nú er verið að hreinsa suma þeirra upp. Neysluvatn flytja þorpsbúar nú að í tunnum á bifreiðum og er nú neysluvatnið orðið ákaflega dýrmætt austur þar. Vatnsveita þorpsbúa liggur í uppsprettulindir í Skarðslandi, nokkru ofan við brúna á Vesturdalsá og liggur hún því yfir áðurnefndan ás. Er vatninu dælt upp í vatnsgeyma, sem standa uppi á áðurnefndum ási, en þaðan rennur það svo niður i kauptúnið. Útlitið vegna vatnsleysisins er býsna alvarlegt. Menn á Vopnafirði búast alveg eins við því, að þótt vatnsbólið, sem nú er alveg tómt, fyllist að nýju, kunni að vera frosið í leiðslum. Barnaskóla staðarins hefur verið lokað eins og fyrr segir og er ekki ofsagt, að ástandið í þessu sjö hundruð manna kauptúni sé orðið býsna alvarlegt.
MB-Reykjavík, 8.janúar. Langvarandi stillur hafa nú verið norðanlands, allt frá því um jól. Stillum þessum hafa fylgt hreinviðri og frost, en frost hefur þó yfirleitt verið vægt við sjávarsíðuna. Viða norðanlands er nú farið að örla á vatnsskorti, eins og sagt er frá í blaðinu í dag. Nú upp á síðkastið hefur frost hert í innsveitum norðanlands. Mesta frost þar mældist síðastliðinn laugardag [5.] í Möðrudal, en þá var þar tuttugu og níu stiga frost. Jón Jóhannesson, sem er veðurathugunarmaður í Möðrudal sagði í viðtali við blaðið í dag, og þetta væri þriðja mesta frost, sem mælst hefur, síðan hann tók við veðurathugunum, í fyrra mældist þar 33 stiga frost eins og sagt var frá í blaðinu 30. desember og í annað skipti hefði þar mælst 32 stiga frost.
Morgunblaðið tekur stöðuna hjá fréttariturum 9.janúar:
Morgunblaðið sneri sér í gær til nokkurra fréttaritara sinna norðanlands og austan og innti þá eftir veðurfari þar að undanförnu. Bar flestum saman um að tíð hefði verið með eindæmum allt frá jólum, stillur miklar en þó talsvert frost. Frostið virðist þó heldur vera að ganga niður, þótt veður sé kyrrt ennþá. Hér á eftir fara frásagnir fréttaritara.
Blönduósi 8/1. Hér hafa verið stillur að heita frá því á jólum, ef frá eru taldir tveir dagar er nokkuð var hvasst. Ekki hefur snjóað hér svo orð sé á gerandi og vegir allir ágætir í héraðinu, nema fremst í Langadal. Blanda ruddi sig rétt fyrir jólin nema fremst í dalnum, og hefur bólgnað þar upp þannig að víða hefur flætt yfir veginn. Hefur bílum oft verið illfært um innanverðan Langadal af þeim sökum að undanförnu. Björn.
Bæ, Höfðaströnd 8/1. Hér hefur veður verið gott að undanförnu en frost mikil og víða er að verða vatnslítið. Snjólaust er að kalla. Stillur hafa verið miklar og veður gott ef frá er talið frostið. Vegir eru ágætir, og yfir Lágheiði til Ólafsfjarðar má telja sumarfærð. Siglufjarðarskarð er hins vegar teppt, en talið að ekki sé þar ýkja mikill snjór. Héðan eru allir, sem vettlingi geta valdið, farnir suður í atvinnu og á Hofsósi standa allmörg hús auð af þeim sökum. Björn.
Siglufirði 8/1. Hér er ágætisveður í dag og lítið sem ekkert frost. Snjór er hér ekki mikill, en þó föl yfir allt, enda svolítil ofanhríð í morgun. Undanfarna daga hefur verið töluvert frost, allt að 89 stigum, en stillur svo miklar að menn hafa ekki fundið eins til þess. Stefán.
Egilsstöðum 8/1. Veður hefur verið þannig hér undanfarinn hálfan mánuð að ekki hefur blakt hár á höfði. Stillur hafa verið og frost, allt upp í 20 stig. 10 stiga frost var hér í morgun og virðist frostið vera að ganga niður. Vegir eru sumarauðir og er farið á venjulegum bílum um allar trissur. Þarf varla vegi til því að allt er gaddfreðið, og þeir keyra á jeppum uppá hæstu fjöll. Um jólin var farið á jeppum uppá Gagnheiðarhnúk inn af Fjarðarheiði, sem er allhátt fjall. Ari.
Reyðarfirði 8/1. Veður er hér ljómandi gott og hefur verið einmunatíð frá Þorláksmessu. Síðustu dagana hefur verið hér talsvert frost, allt að 1012 stigum. Í dag er 6 stiga frost, og virðist því eitthvað vera að draga úr kuldanum. Allir vegir eru færir hér um slóðir, meira að segja Oddsskarðsvegur, og er það mjög óvenjulegt á þessum árstíma, ef ekki einsdæmi. Arnþór.
Höfn í Hornafirði 8/1. Hér er blíðskaparveður, logn og frostlaust. Bátar róa allir og fiska sæmilega, allt upp í 20 skippund. Annars hefur verið frost að undanförnu og komu bílar hingað frá Seyðisfirði og voru ekkert lengur en gerist á sumrin. Gunnar.
Tíminn segir frekar af vatnsskorti 10.janúar:
MB-Reykjavík, 9. janúar. Eins og áður hefur verið skýrt frá í blaðinu er nú víða orðinn vatnsskortur norðanlands vegna langvarandi frosta og úrkomuleysis. Vatnsból eru þorrin og vatnsleiðslur frosnar og vatnsborðið lækkar ískyggilega við Skeiðfossvirkjunina. Vatn er víða flutt að í tunnum og neyðarástand hefur enn ekki skapast, þar eð færi er nú einstaklega gott um allar sveitir norðanlands, allt frosið og yfirleitt autt. En ef hríð gerði og vegir yrðu ófærir, án þess að úr rættist með vatnsskortinn, væri þar vá fyrir dyrum, og sumir fréttaritarar blaðsins telja þá hættu á hreinu neyðarástandi. Í Óslandshlíð hefur vatnsskortur gert vart við sig á nokkrum bæjum. Í Haganesvík er mikill vatnsskortur. Þar bætir ekki úr skák, að í síðustu leysingum grófst ósinn á Hópsvatni niður, svo vatnsborðið lækkaði þar mjög, en þaðan er vatn tekið fyrir fyrirtæki staðarins. Er nú verið að reyna að stífla ósinn að nýju. Í Eyjafirði er ástandið víða slæmt. Á Þelamörk er yfirvofandi vatnsleysi á mörgum bæjum, í Öngulsstaðahreppi eru sex stórbýli vatnslaus og víða yfirvofandi vatnsskortur, í Saurbæjarhreppi er vatnslaust á mörgum bæjum og sömu sögur er að segja úr Svarfaðardal, Glæsibæjarhreppi og Arnarneshreppi. Í Hrísey er vatn meirihluta dagsins, en fer minnkandi. Eins og sagt er frá í blaðinu í dag (miðvikudag) er vatnsból Vopnfirðinga algerlega þorrið. Nú er dælt vatni úr lind, sem er allmiklu nær kauptúninu en vatnsbólið og vatn það, sem úr henni fæst, sett inn á kerfið. Þetta vatnsmagn er þó algjörlega ófullnægjandi og óvíst, hversu það endist. Vatn Þórshafnarbúa mun farið að minnka og er farið sparlega með það. Blaðið átti í dag tal við Tryggva Sigurbjörnsson, rafveitustjóra á Siglufirði. Hann skýrði svo frá, að vatnsstaðan í uppistöðulóni Skeiðfossvirkjunar væri sæmilega góð, en síðustu daga hefði vatnsborðið lækkað mjög ört, síðustu tvoþrjá daga um 15 sm á sólarhring. Myndi ekki verða hjá því komist að grípa til dísilstöðva Síldarverksmiðja ríkisins, ef þessu héldi lengi áfram. Þar eð jörð væri auð, myndi ekki eins mikið gagna þótt hlánaði, eins og ef snjór væri yfir.
Morgunblaðið segir af lagnaðarís við Djúp 10.janúar:
Þúfum, N-ÍS, 9. janúar. Gott veður hefur verið jafnan nú undanfarið, en frost nokkuð, einkum til dala. Jörð er því nær snjólaus, og ber því víða á vatnsskorti. Sums staðar er vatnsleysið svo mikið, að til stórbaga er. Innfirðir Djúpsins, bæði Mjóifjörður og Skötufjörður, eru lagðir ísi. Djúpbáturinn kemst því ekki á alla viðkomustaði af þeim sökum. PP.
Veðurkort Morgunblaðsins sýnir hina óvenjulegu stöðu vel. Hæðin mikla nær yfir megnið af kortinu þann 10.janúar - og þannig var staðan meira og minna fram undir miðjan mánuð þegar smálægð komst loks inn á Grænlandshaf. Jón Eyþórsson hefur sett hita á fáeinum stöðvum á Íslandi inn á kortið til að sýna lesendum að fremur hlýtt er við sjávarsíðuna, ekki nema -1 stigs frost á Galtarvita. Mun meira frost er í hægviðrinu inn til landsins, -8 stig í Reykjavík. Farið var í ísflug þennan dag og hefur Jón einnig dregið ísjaðarinn nánar inn á kortið. Ísinn virtist ekki sérlega ógnandi - en kom nær. Sjá fréttir hér að neðan.
Tíminn furðar sig á stillunum 11.janúar:
MB-Reykjavík, 10. janúar. Allar horfur eru á því, að frost og stillur haldist enn um sinn hér á landi og háþrýstisvæðið, sem yfir landinu liggur stenst allar árásir lægðanna, sem venjulega ráða lögum og lofum hér á þessum árstíma. Blaðið átti tal við Jón Eyþórsson veðurfræðing í dag og spurðist fyrir um það, hversu lengi þeir á Veðurstofunni ætluðu að láta þetta veður haldast. Ætli við látum ekki Drottin ráða þessu áfram, sagði Jón, annars eru ekki fyrirsjáanlegar neinar breytingar á veðrinu. Það er ekkert komið frost núna hérlendis, ekki nema 12 og 13 stig á köldustu stöðunum. Annars er það óvenjulegt á þessum árstíma, að svo langvarandi stillur séu á þessum slóðum, venjulega hefur hver lægðin rekið aðra og tíð verið umhleypingasöm. Það hefur verið mikið háþrýstisvæði yfir landinu lengi og það hefur hefur náð yfir Grænlandshaf, Suður-Grænland, til Færeyja og Skotlands og staðist allar árásir lægðanna. Jón Eyþórsson sagði, að ís væri ekkert nær landinu nú, en venja væri á þessum árstíma. Vegna ísfrétta um daginn, kvað Jón þetta hafa verið athugað í gær og hefði þá komið í ljós, að ísinn væri nú á venjulegum slóðum, um 60 sjómílur út af Straumnesi og færðist ekki nær landi, fremur þokaðist hann fjær.
Tíminn segir 15.janúar frá ísstíflu í Laxá í Aðaldal og krapastíflu í Héraðsvötnum:
ÞJ-Húsavík, 14. janúar. Í fyrradag stíflaðist Laxá í Aðaldal um 15 km frá Húsavík. Flæddi áin yfir þjóðveginn á kafla, svo að hann var ófær í fyrradag og gær, uns klakastíflan var sprengd þá um kvöldið af vegavinnumönnum. Klakastíflan kom í ána í svonefndu Grundarhorni, sem laxveiðimenn þekkja vel. Mikill hluti árinnar flæddi út í hraunið. Bærinn Knútsstaðir, sem stendur þarna í hrauninu, var alveg umflotinn vatni þennan tíma, svo ekki var hægt að komast til né frá bænum. Hlaða frá bænum var neðar í túninu, og var á annað fet af vatni í henni. Það er ekki óalgengt, að Laxá stíflist í þessum olnboga, en sjaldgæft er, að stíflan verði á aðra mannhæð, eins og var í þetta sinn. Þegar vegavinnumenn höfðu sprengt klakann, rann áin aftur i eðlilegan farveg, og hefur verið fært síðan. Meðan ófært var, fóru menn Reykjahverfisleið til Húsavíkur.
Í gærmorgun kom krapastífla í Héraðsvötnin og tóku þau þá að flæða yfir bakkana austur á bóginn hjá Akratorfu. Jókst flóðið allan sunnudaginn og fram undir morgun í dag. Þjóðvegurinn til Akureyrar, sem þarna liggur um, er nú undir vatni á 7800 metra löngum kafla, og er hann með öllu ófær til umferðar. Bílar hafa þó komist leiðar sinnar með því að fara yfir tún Höskuldsstaða og Miðhúsa fram hjá vatnselgnum, en sú leið myndi ekki verða fær mikið lengur, ef frost héldi áfram. En til þess eru ekki miklar líkur; í dag var komin frostleysa í Skagafirði, og er allt útlit fyrir að þíðan haldist, svo að vonir standa til, að úr flóðinu dragi. Héraðsvötn hafa oft áður flætt yfir bakka sína á þessum slóðum, en aldrei áður að austanverðu, svo að vegurinn færi undir vatn. Öll fyrri flóð hafa,orðið yfir vesturbakkann, og hafa þau þar af leiðandi ekki valdið sömu umferðartruflun og flóðið i gær.
Tíminn segir enn af Héraðsvötnum 17.janúar - og síðan af hafís á Vestfjarðamiðum:
GÓ- Sauðárkróki, 16.janúar. Svo kann að fara að leiðin norður lokist með öllu í Blönduhlíð í Skagafirði, þar sem Héraðsvötnin hafa flætt yfir bakka sína. Eins og áður hefur verið skýrt frá liggur þjóðvegurinn þar á löngum kafla undir vatni, en bílar hafa sneitt fram hjá elgnum með því að fara yfir tún nærliggjandi bæja. Flóðið er enn ekkert farið að fjara út, en hláka er komin nyrðra og liggja því túnin undir skemmdum, haldi um ferð áfram um þau til nokkurra muna. Og fari svo, að túnin verði ófær áður en vegurinn verður fær að nýju, er ekki annað sýnna en að vegasamband milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar rofni að fullu.
VIB-Reykjavík, 16. janúar.
Samkvæmt upplýsingum fréttaritara blaðsins á Vestfjörðum er hafís á miðum Vestfjarðabáta og hefur nokkuð hamlað veiðum.
Morgunblaðið segir af stíflunni í Skagafirði 22.janúar:
Fyrir rúmum mánuði sprengdu Héraðsvötn í Skagafirði af sér ís á kafla meðfram Akratorfu í Blönduhlíð og rann nokkur hluti þeirra ofan á ísi á alllöngum kafla. Nokkru síðar ruddu vötnin sig á 200300 m kafla og myndaðist við það stífla fyrir norðan og vestan Stóru-Akra, og flæddi þá yfir veginn á 600700 m kafla við bæina Höskuldsstaði og Miðhús í Blönduhlíð. Hafa bílar orðið að aka um tún þessara bæja til þess að komast leiðar sinnar.
Um miðjan mánuð þokaðist hæðin í örlítið austlægari stöðu og færði landsmönnum hlýja sunnanátt. Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins 19.janúar. Þá var mikið og erfitt hríðarveður á Suður-Englandi er kuldapollur úr austri fór þar vestur um. Mjög kalt er vestur í Kanada. Hluti þess lofts komst að vestan allt til Íslands og þann 23. skipti um veðurlag í fáeina daga. Djúp lægð kom að Suður-Grænlandi og sendi snarpt afkvæmi hratt til norðausturs um Grænlandssund. Allt annað veðurlag en ríkt hafði lengi (og einnig lengi á eftir). En það var bara þessi eina lægð. Sú næsta virtist ætla að gera svipað - en stöðvaðist vestan Grænlands eftir að hafa sent sunnanslyddu yfir Ísland - og síðan birtist hæðin aftur, jafnvel enn öflugri en fyrr.
Tíminn lýsir útsynningskastinu 25.janúar:
MB-Reykjavik, 24. janúar. Í morgun var komið vonskuveður um vesturhluta landsins, hvass útsynningur með éljum, og hefur veðrið haldist allan daginn og í kvöld var veðurhæðin níu vindstig að meðaltali hér í Reykjavík og komst upp í 12 stig í hryðjunum. Slys hafa orðið vegna veðurs þessa á vegum og óttast er um trillubát á Sundunum hér. Veðrið er verst um suðvestanvert landið og var veðurhæð mest í Vestmannaeyjum 10 stig að meðaltali. Bátar reru úr verstöðvum á Reykjanesi og víðar, en þegar blaðið hafði samband við fréttaritara sína í kvöld var ekki talin ástæða til þess að óttast um þá. Éljagangurinn náði sunnanlands austur að Kirkjubæjarklaustri og norðanlands austur á Langanes, en austast á landinu var veður bjart og stilltara.
Í kvöld var tekið að óttast um trillubát með einum manni, sem fór frá Korpúlfsstöðum um fjögurleytið í dag áleiðis til Reykjavíkur. Var leitað til Slysavarnafélagsins um klukkan sjö í kvöld og klukkan níu fóru leitarflokkar þess úr Reykjavík af stað til þess að ganga fjörur, og um hálf tíu leytið fór björgunarbáturinn Gísli J. Johnsen af stað til leitar. Þrír menn héldu héðan úr bænum á trillubátnum Ufa, RE-284, í dag og ætluðu út í Þerney til þess að sækja þangað hross Höfðu þeir lítinn bát í eftirdragi til þess að ferja hrossin á út í trillubátinn. Svo hafði talast til, að menn frá Korpúlfsstöðum færu út í Þerney á annarri trillu og hittu Reykvíkingana þar, þegar til þeirra sæist. En um það leyti er þeir á Úfa komu að Þerney, var veður orðið svo slæmt, að Korpúlfsstaðamenn töldu ófært að fara út. Eftir nokkra bið við Þerney komu Reykvíkingarnir að landi á Korpúlfsstöðum og ræddu við heimamenn. Lögðu Korpúlfsstaðamenn fast að þeim að verða um kyrrt. Féllust tveir mannanna á það, en hinn þriðji, Valberg Sigurmundsson. vildi ekki heyra það nefnt og hélt einn af stað. Bilaði vélin í bátnum, meðan enn sást til hans úr landi, en Valberg tókst að koma henni aftur af stað og hélt áfram. Hvarf hann brátt sjónum þeirra, er í landi voru, enda myrkur að skella á. Um sjöleytið sneri annar ferðafélaga hans, sem kominn var landveg til Reykjavíkur, sér til Slysavarnafélagsins og tilkynnti, að Valberg myndi ókominn hingað. Var þegar hafist handa um að kanna, hvort báturinn væri kominn í höfn eða í Vatnagarða eða þá að landi við Gufunes. Svo reyndist ekki og voru þá björgunarsveitirnar þegar kallaðar út. Um níu-leytið lögðu svo leitarflokkar af stað til þess að ganga fjörur. Ætlaði annar flokkurinn að ganga Geldinganesið en hinn Álftanesið og síðan ætluðu þeir að hittast í Víðinesi. Stjórnaði Baldur Jónsson þessum flokkum. Hálftíma síðar lagði Gísli Johnsen af stað til leitar á Sundunum. Hafði þessi leit engan árangur borið þegar blaðið fór í prentun í nótt.
Morgunblaðið segir af sama veðri 25.janúar - og ísabroti á Akureyri:
Í gær var allhvasst um vestanvert landið og gekk á með hríðarbyljum, er kalt loft streymdi inn yfir landið úr vestri, og í gærkvöldi var orðið mjög hvasst í verstu hryðjunum. Veðurstofan sagði að þetta mundi væntanlega ekki standa lengi, því önnur lægð væri á leiðinni og mundi því lægja í dag. Síðdegis lokaðist gamli Hellisheiðarvegurinn. Ekið var um Þrengslaveginn nýja yfir Hellisheiðina. Aðrir vegir voru allir opnir, skv. upplýsingum vegamálastjóra. Skafrenningur var á Holtavörðuheiðinni, en vegurinn var enn fær í gærkvöldi. Flugferðir innanlands lágu niðri í gær vegna veðurs, nema hvað ein flugvél fór til Akureyrar, en bíður þar. Reykjavíkurflugvöllur lokaðist öðru hverju í hryðjunum, en Kaupmannahafnarvél FÍ lenti þar síðdegis. Loftleiðavél, sem væntanleg var í gærkvöldi, átti að lenda á Keflavíkurflugvelli.
Akureyri, 24. janúar. S.l. nótt losnaði ísinn, sem var innantil á Pollinum, þar sem hlýindi voru og sunnanátt. Ísinn rak norður fjörðinn og lenti stór ísspöng á bryggju Skeljungs h.f., sem er syðst og vestast á Oddeyrartanganum. Við þessa bryggju eru afgreidd olíuflutningaskip, sem flytja olíu til Skeljungs h.f. og Olíuverzlunar Íslands h.f. á Akureyri. Ísinn braut allar undirstöður fremri hluta bryggjunnar, en starfsmönnum Skeljungs tókst að bjarga mælum og olíuleiðslum, sem á bryggjunni voru. Framhluti bryggjunnar flýtur nú í sjónum, en er þó fastur við þann hluta, sem ekki brotnaði. Að sögn Steindórs Jónssonar, umboðsmanns Skeljungs á Akureyri, er ekki unnt að leggja olíuskipi að bryggjunni eins og er, nema það liggi við akkeri og hafi festingar á öðrum stöðum en á bryggjunni. Þó mun unnt að landa olíu við bryggjuna með því að setja flotslöngur í land.
Morgunblaðið segir aftur af vatnsskorti 30.janúar - og fiskadauða í Höfðavatni:
Egilsstöðum, 29. janúar. Alvarlegur vatnsskortur er að verða hér í Egilsstaðakauptúni og má segja að það valdi margskonar meiriháttar vandræðum. Hér eru m.a. starfandi mjólkurbú, sem stöðvast að sjálfsögðu ef ekki rætist úr fljótlega, og frystihús, þar sem ekki hefur verið hægt að láta frystivélamar ganga síðan á laugardag vegna vatnsskorts. Kemur það þó ekki að sök í frystihúsinu á meðan frost er úti. Í kvöld er hér að heita vatnslaust. Vatnsskortur þessi stafar af frostunum, sem hér hafa verið undanfarnar vikur. Egilsstaðakauptún fær vatn undan svonefndum Egilsstaðahálsi ofarlega í Egilsstaðaskógi. Kemur vatnið frá uppsprettulindum, svo og úr svonefndum Hálslæk, sem rennur nokkuð fyrir ofan kauptúnið. Vegna frostanna er vatnið orðið að heita ekki neitt og ekki er snjónum til að dreifa, svo hægt væri að bræða hann, því jörð má að heita auð á Héraði. Er víða farið að bera á vatnsleysi í Héraði. Ari.
Bæ, Höfðaströnd, 29. janúar. S.l. sumar var Höfðavatn opnað til sjávar eftir langt árabil. Áður hafði verið töluverð silungsveiði í vatninu og jókst hún að mun við þetta. Má geta þess að Sambandið keypti um 10 tonn af silungi úr Höfðavatni á s.l. sumri. ... Nú er Höfðavatn allt ísi lagt, og er menn af bæjum hér fóru út á vatnið, kom í ljós, að hrannir af dauðum silungi eru í ísnum. Ekki er gott að segja hvað hér er um mikið magn að ræða, en menn telja þó að það nemi fleiri tonnum. Um ástæðurnar til þessa er ekki kunnugt, en mönnum dettur í hug að er vatnið var að smáleggja, hafi verið göt á ísnum og tjarnir. Hafi silungurinn synt upp í þessi göt og orðið innlyksa í ísnum. Að öðru leyti geta menn ekki gert sér grein fyrir þessu fyrirbæri. Föl er nú á ísnum og erfitt að kanna aðstæður, en menn hér hafa fullan hug á því að höggva upp ísinn næstu daga til þess að kanna hvernig í þessu máli liggur, hvort silungurinn sé óskemmdur o.s.frv. Björn.
Eftir hinn skammvinna útsynning sneri hæðin aftur - enn öflugri en fyrr. Lítið vantaði á að þrýstingur næði 1050 hPa og 500 hPa-flöturinn varð hærri yfir Keflavíkurflugvelli en nokkru sinni hefur mælst í janúar fyrr og síðar. En hæðin varð ekki alveg jafn föst í sessi og áður. Háloftalægðardrag kom úr norðri og fór til suðurs rétt fyrir austan land. Gekk þá harður norðanstrengur yfir landið, víða varð hvasst og foktjón undir Eyjafjöllum og víðar. Einnig fréttist af ísreki. Síðan snerist vindur í austanátt sem stóð linnulítið fram yfir 20. Oftast var mjög milt veður, en stöku sinnum snjóaði - stóð sá snjór þó afarstutt við hverju sinni.
Þetta norðankast er að ýmsu skylt páskahretinu um vorið. Lægðardragið var þó ekki jafn afgerandi öflugt, það fór austar heldur en páskadragið og vindur gekk fljótar niður. Hitabreytingar urðu ekki jafn afgerandi. Kortið sýnir veðrið sunnudaginn 3.febrúar. Lokuð lægð hefur myndast skammt undan Suðurlandi.
Á háloftakotinu mánudaginn 4.febrúar má glöggt sjá að mjög kalt loft er yfir landinu. Það er hes háloftarastar sem knýr vindinn - en í mikilli norðanátt er algengara að vindur sé til þess að gera hægur í háloftum, illviðrið verður þá til vegna mikils þykktarbratta, hitamunur er mikill á takmörkuðu svæði í neðsta hluta veðrahvolfs. Á kortinu má líka sjá slíkt veður. Þéttar jafnþykktarlínur fyrir suðaustan land undir hægviðri í háloftum. Þessi lágröst gekk síðan vestur með Suðurlandi og olli síðar miklu sandfoki í Vík í Mýrdal. Að kvöldi 3. fór vindur á Stórhöfða í 32 m/s af norðnorðaustri (hesið) - en gekk síðan niður og að kvöldi 5. var þar nærri logn, en síðan kom lágröstin og þann 6. fór vindur þar í 34,5 m/s af austri.
Morgunblaðið segir frá 5.febrúar:
Aðfaranótt mánudags [4.] lá við slysi á Hvalfjarðarveginum, er vindhviða kastaði vörubíl á fólksbíl og síðan út af veginum. Vörubíllinn T-192 var á leið til Reykjavíkur, en bilaði á móts við Stíflisdal. Kom þar að fólksbíllinn E-125 og ætlaði að lýsa honum meðan viðgerð færi fram. Allt í einu kom mikil vindkviða og svipti vörubílnum til, kastaði honum á fólksbílinn og síðan út af veginum. Skemmdist fólksbíllinn talsvert, en mesta mildi var að ekki varð slys, því tveir menn voru rétt skriðnir undan vörubílnum, er hann kastaðist til. Tvennt var í vörubílnum og 3 í fólksbílnum, en ekkert varð að þeim.
Um síðastliðna helgi bárust fréttir um mikið ísrek frá bátum í grennd við Horn. Vitavörðurinn í Hornbjargsvita sá einnig ísbreiðu skammt undan landi. Morgunblaðið átti í gær samtal við Jón Eyþórsson veðurfræðing og spurði hann um ástæður fyrir ísreki þessu. Ummæli Jóns Eyþórssonar: Í stillunum að undanförnu hefur myndast lagnaðarís á hafinu norður af Horni, sagði Jón. Ísröndin var um 60 sjómílur norður af Straumnesi. Hafís myndast yfirleitt miklu norðar og er lagnaðarís oft milli jakanna, en svo ókyrrt er venjulega á hafinu milli Grænlands og Íslands að það telst til undantekninga að þar myndist lagnaðarís, en það hefur þó gerst nú. Hins vegar er hafísinn oft í svo stórum breiðum að hann fyllir sundið milli Íslands og Grænlands. Nú bar svo við í fyrradag, að það hvessti á norðan og síðar norðaustan. Ísinn bar undan vindi og straumi upp að ströndinni og sá vitavörðurinn í Hornbjargsvita ísspöngina í gær. Skyggni er svo slæmt fyrir norðan land, að ekki er hægt að komast að hve stór ísbreiðan er. Ég var hræddur um að norðaustanáttin dytti niður, en þá hefði straumurinn hrifið ísinn með sér og borið hann austur með norðurströndinni. Svo varð þó ekki, því að vindurinn hélst og ísinn rak vestur fyrir og er hættan liðin hjá í þetta sinn. Það er því norðaustanstrekkingnum að þakka að ísinn tók þessa stefnu, en hjó ekki strandhögg við norðurströndina. Nú bíðum við bara eftir að rofi til yfir hafinu, svo að sjá megi hve víðáttumikill landsins forni fjandi er. Hvað verður um ísinn, sem rekur suður með vesturströndinni? Hann rekur suður i haf. Meðan frost helst, heldur áfram að bætast við hann.
Borgareyri, Eyjafjallahreppi, 3.febrúar. Undir Eyjafjöllum var ofsaveður af norðaustri s.l. nótt [aðfaranótt 3.]. Tjón varð á húsum, hey fuku og símalínur slitnuðu. Í Berjanesi undir Austur-Eyjafjöllum fuku tvær hlöður, skúr og fjárhús. Tjón á heyjum mun þar hafa orðið allverulegt. Í Ysta-Bæli í sömu sveit voru 5 hey austur undir bænum, Af þeim sést ekkert eftir. Þetta munu hafa verið eitthvað á annað hundrað hestar. Í Skógaskóla er rafmagnslaust og á nokkrum bæjum þar í kring og símabilanir urðu þar einhverjar. Í Ormskoti undir Vestur-Eyjafjöllum fuku þök af tveimur hlöðum, hluti af þeirri þriðju og skúr. Brotnuðu margar rúður þar í íbúðarhúsinu og útihúsum, sem orsakaðist af grjótfoki. Rafmagnslínur biluðu þar líka og er rafmagnslaust á Skálabæjum og símabilanir, einkum meðfram fjallinu. Þessar upplýsingar eru skv. símtölum við Skarðshlíð og Varmahlíð. Markús
Tíminn segir af sama veðri - og ís 5.febrúar:
EÓ-Þorvaldseyri, 4.febrúar. Í gær [3.] gerði ofsaveður af norðri og olli miklum skemmdum hér undir Fjöllunum, Fjórar hlöður fuku, einnig fjárhús, járn fauk af fleiri húsum, jeppi fauk út af veginum og fjölmargar rúður brotnuðu vegna grjóthríðar í rokinu. Mun veðrið hafa náð hámarki um ellefuleytið í gærkvöldi. Í Berjanesi fuku tvær heyhlöður og fjárhús og auk þess fuku þar fimmtíu til sextíu hestar af heyi. Þar brotnuðu einnig nokkrar rúður. Bóndinn í Berjanesi heitir Andrés Andrésson. Í Ysta-Bæli fauk eitthvað af útiheyi. Þar býr Sveinbjörn Ingimundarson. Í Ormskoti kaup þak af tveimur hlöðum og járn af þeirri þriðju. Þar fuku einnig um þrjátíu hestar af heyi og hluti af þaki á geymsluskúr. Í íbúðarhúsi og fjósi brotnuðu 37 rúður af völdum grjóthríðar. Líta rúðurnar út eins og eftir skothríð, á þeim eru kringlótt göt, sum á stærð við tveggja krónu pening, önnur á stærð við undirskálar. Svo mikill hefur krafturinn verið, að götin eru yfirleitt regluleg að ummáli, og ekki brotið utan þeirra. Í túninu á Ormskoti eru nú skaflar af möl og grjóti. Þar býr Sigurður Eiríksson. Í Varmahlíð fuku 60 hestar af heyi hjá Einari Sigurðssyni. Í gærkvöldi um ellefu leytið, var bóndi héðan úr sveitinni á ferð í jeppa vestur með fjöllunum. Er hann var kominn langleiðina vestur undir Holtsá, fannst honum hvassviðrið orðið svo mikið, að ekki væri ráðlegt að aka lengra. Ók hann því bílnum út af veginum og skildi hann þar eftir, og hélt af stað fótgangandi. Er hann var nýlagður af stað, sá hann að jeppinn fauk á hliðina. Í morgun kom í ljós, að eftir að jeppinn fauk um, hafði hann færst til á hliðinni og var stórskemmdur. Auk þessa, sem nú hefur verið sagt frá, hafa rafmagns- og símalínur slitnað hingað og þangað um sveitina.
MB-Reykjavík, 4. febrúar. Rekíshrafl hefur borist að Vestfjörðum og Hornströndum og í gær var óttast, að landsins forni fjandi" væri að verða landfastur. Nú hefur komið í ljós, að svo slæmt er ástandið ekki, heldur virðist hafa verið um einstakar allstórar spangir að ræða. Varðskipið Albert var í dag látið kanna siglingaleiðina fyrir Horn og gáfu skipverjar eftirfarandi lýsingu á siglingaleiðinni: Smá íshrafl er á siglingaleið út af Aðalvík og nokkuð þéttari ísspöng 6 sjómílur frá Rit. Frá Straumnesi að Horni eru einn og einn jaki á stangli en talsvert hrafl um 8 sjómílur út af Hólmavíkurbjargi. Fyrir austan Horn er alveg íslaust. Ekki var unnt að fljúga í ískönnunarleiðangur í dag vegna veðurs. Fréttaritari blaðsins á Patreksfirði, SJ, símaði í dag, að skipstjóri á breskum togara, er þangað kom í dag, hefði talið ísinn vera 2030 mílur út af Arnarfirði. Á laugardaginn missti báturinn Tálknfirðingur um 20 bjóð í ís á miðunum út af Vestfjörðum. GS, fréttaritari blaðsins á Ísafirði, símaði í kvöld, að íshrafl væri undan Grænuhlíð. Haldist svipuð vindátt fyrir Vestfjörðum, mun tæplega ástæða til að óttast, að ísinn verði landfastur, að sögn Jóns Eyþórssonar, þar eð ísinn rekur næstum beint í vestur i norðaustanátt, vegna strauma, en snúist vindur t. d. til suðvestanáttar, má búast við, að ís sá, er nú er úti af Vestfjörðum, geti orðið landfastur við Horn.
Tíminn segir af ískönnunarflugi í frétt 6.febrúar:
MB-Reykjavík 5.febrúar. Jón Eyþórsson veðurfræðingur fór í dag í ískönnunarflug með landhelgisgæslumönnum. Í ljós kom að ísröndin er nær landi en venja hefur verið undanfarin ár. Einnig berast nú fréttir af ís á nýjum slóðum, út af Melrakkasléttu og telur Jón nokkra hættu á því að sá ís kunni að berast suður fyrir Langanes með Austur-Íslandsstraumnum. [sjá ískort í blaðinu]
Tíminn heldur áfram með sömu frétt 7.febrúar:
MB-Reykjavík, 6. febrúar. Ég spái því, að á morgun verði engan ís að sjá úr landi og hann verði rekinn langt frá landinu, sagði Jón Eyþórsson í viðtali við blaðið í kvöld. Nú er austan- og suðaustanátt á þessu svæði og mun verða eitthvað áfram. Í dag, klukkan 2, var tilkynnt úr Grímsey, að þaðan sæist ís úr landi. Væri þar um að ræða nokkra smájaka. Eg tel víst, að þar sé um að ræða ís af sama svæði og þann, sem sást undan Rauðunúpum í gær, sagði Jón.
Morgunblaðið segir ítarlega af fárviðrinu undir Eyjafjöllum 7.febrúar:
Hér undir Eyjafjöllum er ekki hægt að segja annað en að veðursæld ríki. Í skjóli hinna háu og tignarlegu fjalla má segja að sé logn og blíða dag eftir dag, þótt annarstaðar blási kaldir vindar. En út af þessu bregður þó oft og það dálitið eftirminnilega. Um síðustu helgi gerði hér ofsaveður af norðaustri og olli það verulegu tjóni á nokkrum bæjum. Ég fór í dag ásamt Árna Sigurðssyni á Bjarkarlandi að litast um og sjá hvað gerst hafði á því svæði sem veðrið var harðast. Við héldum að Ormskoti, en þar fuku hlöður og fjárhús, eins og Morgunblaðið hefur áður skýrt frá. Járn og timbur varð þó ekki á vegi okkar, því rokið hafði feykt því burtu. Að Ormskoti var útlitið þannig, að maður hefði getað haldið að íbúðarhús, nýbyggð hlaða og fjós hefðu orðið fyrir árás í hernaði. Þar eru milli 30 og 40 rúður brotnar, en þó ekki eins og venjulega, heldur eru þær allar með götum hér og þar, enginn brestur sjáanlegur út frá þeim. Stærstu götin eru um 1520 sentímetrar í þvermál. Gluggarnir eru allir með tvöföldu gleri og stykkin, sem hafa brotnað úr, liggja heil ýmist fyrir neðan gluggana eða milli rúðanna. Lygileg saga, en sönn. Sigurður Eiríksson, bóndi, sagði, að um hádegi á sunnudag hafi farið að hvessa af norðaustri með vaxandi veðurhæð er á daginn leið. Um klukkan 8 um kvöldið var komið afspyrnurok. Um það leyti fuku hlöðurnar. Brak úr þeim lenti á síma- og raflínum og sleit þær. Að sjálfsögðu rofnaði bæði síma- og rafmagnssamband. Aftur lægði um kl.10 í bili svo að hann komst slysalaust í fjósið til að gefa kúnum og mjólka þær. Svo hvessti aftur og veðrið gekk ekki niður fyrr en klukkan að ganga 7 um morguninn, en síðan má segja að logn og góðviðri hafi verið, þó með nokkru frosti. Við gengum um túnið, sem er illa á sig komið eftir möl, sem hefur fokið á það. Þar er tæpast grasrót sjáanleg á allstóru svæði umhverfis bæinn. Skurður er í túninu, sem liggur frá norðri til suðurs. Hann er hálffullur af möl, mosa og sinu, sem mölin hefur skafið af á leið sinni í skurðinn. Þarna sáum við stein, sem fokið hafði, og vegur hann 325 grömm. Margir álíka stórir steinar eru þarna. Við þáðum góðan beina hjá Sigurði Eiríkssyni og hans ágætu konu og kvöddum svo og héldum að Berjanesi. Þar, eins og í Ormskoti, er stórt og nýlega byggt fjós og einnig hlaða. Á vesturhlið fjóssins er engin rúða ábrotin. Fólksbifreið stóð á hlaðinu og sást ekkert af framrúðunni, en hálf afturrúðan var eftir. Við hittum Andrés bónda Andrésson, hressan að vanda, þar sem hann og nokkrir aðkomumenn voru að flytja hey þaðan sem áður voru hlöður. Þar var timburbrak, brotnir steinveggir og ónýtt járn, sem tínt hafi verið saman til þess að það yrði ekki að tjóni í næsta veðri. Að þessir bæir urðu svona illa útá í þessu veðri stafar fyrst og fremst af því, að stormsveipirnir koma óboðnir fram úr giljum og skörðum í fjöllunum. Hversu mikið heytap er á þessum bæjum er ekki hægt að segja um, en það mun vera allverulegt.
Á Stóru-Borg, Nýlendu, Varmahlíð og Núpi fauk af heyjum, sem úti voru, allt frá 30 til 60 hestar að talið er. Veður þetta olli ekki slysum á mönnum eða skepnum og nú er aftur góðviðri i okkar kæru sveit Markús.
Morgunblaðið segir rekafréttir 9.febrúar - í fréttinni er einnig sagt frá merkilegri ískomu við Látra á stríðsárunum:
Látrum 6. febrúar. Sá nú orðið sjaldgæfi atburður gerðist hér í dag, að á fjörur rak stórtré, tvö fet í þvermál, og um tuttugu að lengd, en slíkt hefir ekki gerst í um tuttugu ár, eða ekki síðan að hafís hætti að koma hér að landi, en með þeim forna fjanda kom oftast einhver reki, stundum hvalreki. Nú er hafís hér skammt undan landi og mun þetta tré sending frá honum sem norðanáttin hefir komið til skila.
Hér hefir hafís ekki orðið landfastur síðan á stríðsárunum síðari, þá varð hann hér landfastur og sá ekki útyfir hann af hæstu fjöllum hér í kring, til vesturs og norðurs, en suður fyrir Bjargtanga fór samfelldur ís yfirleitt ekki neitt að ráði. Í þetta umrædda skipti kom ísinn að landinu hér á mikilli ferð og öllum að óvörum, munaði minnstu að togarinn Vörður frá Patreksfirði yrði honum að bráð. Hann var að næturlagi að koma út frá Patreksfirði og ætlaði suður úr. Þegar komið var suður á Breiðavík, sáu þeir er á verði voru, eitthvað bera við hafsbrún, en myrkur var, og engin skip með ljós. Nálgaðist þetta óðum og þótti þeim í svip líklegast að þar færi skipalest, en þótti hún þó allfyrirferðarmikil. Skipstjórinn var þá fljótur að átta sig á því, að hér væri um samfelldan hafís að ræða sem ræki að landinu með miklum hraða, og mundi koma jafn snemma að Blakk og Bjargtöngum, fylla hvern vog og vík, og kreista í sundur skip hans ef honum tækist ekki að forða því. Þar sem styttra var í Blakkinn valdi hann þá leiðina, og slapp rétt inn fyrir Blakkinn, áður en ísinn rakst á landið með braki og brestum, og því afli að molað hefði hvert skip sem milli hans og lands hefði verið. Mörg tré komu þá með ísnum. Voru þá fleiri karlmenn hér á Látrum til að bjarga, en voru í dag, en söm var aðferðin, velt á skrúftóg". sem er mjög auðvelt, jafnvel þótt tré væri nokkur tonn, ef fjaran er slétt. Allt fólkið, ungt og gamalt hér á Látrum, fékk sér göngutúr í dag til að bjarga trénu, mun það ekki hafa hent hér fyrr, að húsfreyjur gengu almennt til þeirra starfa, en lukkulegar voru þær við starfið. Þórður.
Morgunblaðið segir af foktjóni 12.febrúar:
Akranesi, 11. febrúar Í norðaustan hvassviðrinu, sem gerði um næstliðna helgi [3.febrúar], fauk jeppakerra um 10 m spöl, en hún stóð á túninu á Másstöðum í Akranesshreppi. Einnig fuku tveir hestvagnar í Skálatanga í sama hreppi og brotnuðu þeir í spón. Annar vagninn fauk langt niður í stórgrýtta fjöru, en hinn tókst á loft upp og fór hann yfir rafmagnsheimtaugina, og heimilisfólkið horfði á. Í einni hrinunni tók rúðu úr á sama bæ og munaði minnstu að hún lenti á bóndanum. Enn brotnaði rúða á næsta bæ. Og fjórar þakplötur fuku af hlöðu í Miðhúsum, og nokkrar járnplötur af veggjum hlöðunnar. Oddur.
Morgunblaðið segir af fuglum - og harðindunum í Evrópu 14.febrúar:
Eins og skýrt var frá í grein frá Vestmannaeyjum í Morgunblaðinu fyrir stuttu, hefst þar við um þessar mundir erlend fuglategund í stórhópum. Það er vepjan, sem heima á í Evrópu. Hún heldur sig á vetrum aðallega beggja vegna Ermasunds og í Miðjarðarhafslöndum, en flytur sig norðar á sumrum. Nú bregður hinsvegar svo við, að mikill fjöldi vepju er kominn til landsins og heldur sig á Suðurlandsundirlendinu og í Vestmannaeyjum. Á Suðurlandi mun hún einkum halda sig í grennd við jarðhitasvæði. Morgunblaðið sneri sér til dr. Finns Guðmundssonar, fuglafræðings, og spurði hann um þetta fyrirbæri. Hann kvað vepjuna vera hér vetrarflæking, sem kæmi árlega, en sjaldan í stórum stíl, þótt stundum hefði mátt kalla það göngur. Nú væri hins vegar mjög mikið um hana, og hefði hún farið að koma fyrir alvöru í janúar. Fuglar þessir kæmu sennilega frá Bretlandseyjum, og væru þeir að flýja frosthörkurnar og snjóalögin hingað norður eftir. ... Dr. Finnur kvað neyðarástand ríkja í þessum málum í Evrópu eftir hinar óvenjulegu frosthörkur. Víða væru alger jarðbönn, og fréttir bærust alls staðar að um það, að fuglar færust unnvörpum. Sumir fuglastofnar fara á flæking og flýja kuldann í allar áttir, eins og vera mundi um vepjurnar, sem hingað eru komnar. í mörgum löndum Evrópu hefði verið gripið til skyndiráðstafana í verndunarskyni, svo sem að banna með öllu hvers kyns fuglaveiðar um tíma. Búast mætti við því, að fuglalíf hér yrði með daufara móti í sumar, t.d. hefðu skógarþrestir drepist unnvörpum í Bretlandi.
Í norðanillviðrinu þann 3. varð ekki tjón að marki í Mýrdal, en aftur á móti þegar vindur snerist til norðausturs eftir að það veður gekk niður. Morgunblaðið 19.febrúar:
Vík í Mýrdal, 6.2. 1963. Eftir að rosanum í desember linnti, gerði góðviðri á aðfangadag jóla og hefur það að mestu haldist til þessa. Hafa margir þessara góðu daga verið bjartir og fagrir sem sumar væri. En s.l. sunnudag um hádegisbil [3.febrúar], barst á norðan stórviðri, er stóð í tvo daga. Ekki fylgdi því úrkoma, en nokkurt frost og mikil veðurhæð. Hér í Mýrdal er ekki kunnugt um skaða af þessu veðri. Í morgun [6.] var svo sami veðurofsinn skollinn á aftur. Vindur var á norðaustan og svo mikið sandrok af Mýrdalssandi, að rétt sást til næstu húsa í Vík. Ekki dró úr sandrokinu fyrr en nokkru fyrir hádegi, er snjóa tók.
Nokkur lægðagangur var við landið síðustu viku febrúarmánaðar. Lengst af var hlýtt, en náði samt að snjóa þegar kröpp lægð fór norður yfir mitt landið. Þótti veðurnördi þetta skemmtileg lægð. Tíminn segir frá 27.febrúar:
MB-Reykjavík, 26. febrúar. Í nótt og í dag hefur snörp lægð farið norðaustur yfir landið. Olli hún talsverðri snjókomu á Suðurlandi í nótt og fram eftir degi, en mikilli rigningu austanlands. Einnig mun talsvert hafa snjóað nyrðra vegna hennar. Búist er við að á morgun hvessi af suðaustri með rigningu um mestan hluta landsins, þó einkum um sunnan og vestanvert landið, þar má búast víð stormi. Eins og fyrr segir var talsverð snjókoma sunnanlands og þyngdist færð nokkuð vegna hennar, einkum undan Vestur-Eyjafjöllum og í Landeyjunum. Þar mun og hafa verið um kálfadjúpur snjór. Snjórinn er mjög jafnfallinn og því mjög blindandi, svo eru vegir og þíðir undir. Mjólkurbílar munu hafa tafist í fjóra til fimm tíma af þessum sökum. Samkvæmt upplýsingum Vegamálaskrifstofunnar er færð nú orðin mjög þung á Öxnadalsheiði og aðeins fær stórum bifreiðum. Þar var í dag skafrenningur og þýðingarlaust að ýta af veginum.
Tíminn fagnar því 28.febrúar hversu fá sjóslys hafi orðið það sem af er vetri (en því miður átti það eftir að breytast um páskana):
MB-Reykjavík, 27. febrúar. Þegar þetta er skrifað, er aðeins einn dagur eftir af febrúarmánuði og fyrstu tvo mánuði ársins hefur ekkert sjóslys orðið, það er að segja ekki drukknunarslys. Banaslys hefur að vísu orðið um borð í skipi, en af öðrum orsökum. Þessir tveir mánuðir hafa samt yfirleitt verið einhverjir mestu slysamánuðir ársins á sjó, enda þá verstu veðra von. Séu til dæmis síðustu fjögur ár tekin þá kemur í ljós, að árið 1959 farast 43 menn á þessum tveim mánuðum, 1960 farast 6, 1961 fórust tveir og 1962 fimm.
Síðasta dag febrúarmánaðar gerði allmikið landsynningsveður um landið vestanvert, en það stóð ekki lengi. Tíminn 1.mars:
JK-Reykjavík, 28.febrúar. Í hvassviðrinu í morgun fuku heilmargar þakplötur af nýja gagnfræðaskólahúsinu i Kópavogi. Bárujárnsplöturnar fuku víðsvegar, ein lenti á vélarhúsi bíls og skemmdi hana, og önnur braut grindverk í grenndinni. Engin slys urðu á fólki af þakplötuhríðinni. Plöturnar byrjuðu að losna um hálfáttaleytið í morgun, og fór mikill hluti af suðurhlið þaksins. Hús þetta var reist í sumar sem leið.
Marsmánuður var einstaklega blíður og framan af var oftast bjartviðri. Í Borgarfirði var marga daga strekkingsvindur sem þótti hentugur til að reyna flugdreka - (gekk eitthvað slíkt æði yfir landið?).
Morgunblaðið segir 5.mars frá vandræðum við Blöndu í Langadal - og góðri færð eystra:
Blönduósi 4. mars. Um helgina flæddi yfir veginn í Langadal, bæði norðan og sunnan við Auðólfsstaði og hefir verið ófært um veginn á bílum frá því á laugardagskvöld. Flóðið stafar af jakastíflu, en áin hefir á þessum slóðum verið undir ís frá því snemma í vetur. Ennfremur er stífla í henni hjá Gunnsteinsstöðum, en flóðið nær þó ekki yfir veginn þar. Mikið engjaflæmi á Auðólfsstöðum og Æsustöðum er undir vatni og miklar íshrannir liggja á því frá því fyrir jól, en þá hljóp tvívegis mikill ruðningur í ána. Ekki er enn vitað um skemmdir á enginu, en búast má við að Þær séu talsverðar. Ekki eru horfur á að flóðið sjatni meðan vöxtur helst í ánni, nema því aðeins að hún ryðji sig. Að þessu er mikil samgöngutruflun, því vegurinn er á kafi í vatni á löngum kafla. Bílaumferð austur og vestur um sýsluna fer nú fram um Svínvetningabraut. Mikill aur er kominn hér og hvar á vegi og einnig hefir runnið eitthvað úr vegum á stöku stað. Þetta leiðir til þess að þung færð er víðast hvar, þótt enn geta ekki talist ófærð. Björn
Seyðisfirði, 4.mars. Sá einstæði atburður hefir nú gerst, að Fjarðarheiði er fær í byrjun mars. Var heiðin rudd í dag, og sagði Helgi Gíslason vegaverkstjóri að það hefði verið létt verk, enda litill snjór á heiðinni. Venju fremur snjólétt hefir verið hér í vetur og einkar hagstætt tíðarfar frá jólum, um skeið þó nokkurt frost, en einstakar stillur og úrkomulaust. Það hefir aldrei gerst frá því bílvegur var gerður yfir Fjarðarheiði að hún væri fær á þessum tíma árs. Áður en heiðin var rudd nú að þessu sinni höfðu jeppar og bílar með drif á öllum hjólum farið yfir hana. Sveinn
Morgunblaðið talar um vorblíðuna 12.mars (og ekki að ástæðulausu):
Meðan öll Norður-Evrópa er á kafi í snjó og ísinn teppir siglingaleiðir er Ísland að heita má snjólaust og okkur finnst komið vorveður. Stillan, sem byrjaði um jólin, hefur verið óvanalega langvinn. Að vísu var allt annað en hlýtt fyrst eftir áramótin, og kom þá hörkufrost engu síður en í nágrannalöndunum, varð allt að 29 stiga frost norður á Fjöllum. Síðan smáhlýnaði aftur eins og títt er þegar kuldar setjast að á meginlandi álfunnar. Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, gefur okkur þá skýringu, áð þannig verði þetta gjarnan þegar kalt háþrýstisvæði sest að yfir meginlandinu, einkanlega Norðursjávarlöndunum, kalt loft streymir þá norðaustan frá Rússlandi og Síberíu vestur um Evrópu og til Bretlandseyja og heldur síðan áfram sem suðaustanátt til landsins og hlýnar svo mikið á leiðinni að það er orðið þægilega hlýtt eftir árstíma þegar hingað kemur. Þetta fyrirbæri, kuldar í Evrópu og hlýtt á Íslandi, þekkja menn frá fyrri tíð. Mörgum ættu að vera í fersku minni ísaveturnir þrír, sem gengu yfir Norðurlönd á stríðsárunum, en þá var mjög gott hér. Eins var gott ár skömmu eftir stríðið, veturinn 1947. Þá voru langvarandi kuldar á meginlandinu, en stillur, þurrviðri og mikið sólskin hér. Þá voru flugsamgöngur upp teknar hér, m.a. hafði Air France hér bækistöð og farþegar sem komu hér um, undruðust stórlega, er þeir komu úr kulda og þokulofti úti og í glaða sólskin og blíðu hér.
Febrúarmánuður hlýjastur og þurrastur. En nú skulum við athuga hitatölurnar, sem við fengum hjá Öddu Báru Sigfúsdóttur veðurfræðingi. Þá kemur í ljós að nóvembermánuður er einasti vetrarmánuðurinn, sem er undir meðallagi hvað hita snertir hér á landi. Mestu munar í febrúarmánuði. Þá er 2 stiga meðalihiti og rúmum tveimur stigum hlýrra en venjulegt er, sem ekki er svo lítið. Auk þess var mánuðurinn mjög þurr, úrkoma ólík því sem venja er og engin frost sem teljandi eru eftir 6. febrúar. Í októbermánuði var hitinn 5,2 stig, en meðalhiti þess mánaðar er 4,9 stig. Nóvember var fremur kaldur hitinn 1 stig, en er venjulega 2,6 stig. Desembermánuður var ósköp venjulegur með 0,8 stiga meðalhita. Einnig var janúar rétt í meðallagi, til jafnaðar 2 stiga frost og síðan kom þessi hlýi febrúarmánuður. Auk þess sem hlýindi hafa flesta mánuði vetrarins verið fyrir ofan meðalilag hefur mjög litið snjóað og stillur verið langvinnar.
Morgunblaðið fjallar enn um góðviðrið 14.mars:
Það hefðu einhvern tíma þótt stórtíðindi, að vorverk og jarðvinnsla væru hafin á Íslandi fyrir miðjan marsmánuð. Sú hefur þó orðið raunin á tilraunasvæði Búnaðardeildar Atvinnudeildar Háskóla Íslands við Korpúlfsstaði.
Morgunblaðið 20.mars - menn fara að óttast vorharðindi - eða hvað?:
Sumir óttast, að eftir jafn góðan vetur og verið hefur hingað til, hljóti að bregða til hins verra um veðurlag i vor og sumar. Morgunblaðið frétti, að veturinn 19311932 hefði að veðurfari verið svipaður því, sem liðið er af þessum vetri. Morgunblaðið sneri sér af þessu tilefni til Jónasar Jakobssonar, veðurfræðings. Kvað hann það rétt vera, að veturinn 19311932 hefði um margt verið líkur þessum. Þá hefði verið heldur kalt framan af vori, í apríl og maí, en hlýtt og gott veður síðari hluta maí. Þó hefði víða verið of þurrt fyrir gróðurinn, enda úrkoma 20% fyrir neðan meðallag. ... Niðurstaðan er í því sú, að við eigum í vændum allgott vor og gott sumar, ef veðurlagið verður eitthvað líkt því, sem var fyrir 31 ári.
Tíminn fjallar einnig um hina góðu tíð 17.mars:
MBReykjavík, 16. mars. Elstu menn muna ekki annað eins. Þannig er komist að orði í mörgum fréttasendingum utan af landi um veðrið á þessum vetri og manna í milli heyrist oft talað um að tíð sé dæmalaus. En hún er það ekki ... Blaðið átti í dag tal við Öddu Báru Sigfúsdóttur veðurfræðing og spurði hana um þessi mál. Adda Bára veitti eftirfarandi upplýsingar. Meðalhiti októbermánaðar var 5,2 gráður, en meðaltalið er 4,9 gráður. Meðalhiti nóvember varð 1.0 gráður, en meðaltalið er 2,6 gróður, svo hann hefur verið miklu kaldari en meðaltalið. Meðalhiti í desember varð 0,8 gráður, en meðaltalið er 0,9 gráður. í janúar varð meðalhitinn 0.2 gróður en meðaltalið er -0,4. Það er fyrst í febrúar, sem verulegt frávik verður til hins hlýrra. Meðaltal febrúarmánaða er -0.1 gráða, en meðalhitinn í ár varð 2.0 gráður. Um marsmánuð er ekki unnt að segja neitt enn þá, og ég er vön að segja öllum, sem eru að hrósa vetrinum, að hann sé nú ekki liðinn enn þá, sagði Adda Bára. Hins vegar hefur mars verið ákaflega mildur, og ef svo heldur áfram sem horfir, verður hann vafalaust langt fyrir ofan meðaltal. Febrúarmánuður í ár er heldur ekkert einsdæmi. Árið 1932 var hér langsamlega hlýjasti febrúarmánuður, sem mælst hefur, þá var meðalhitinn 5,4 stig, og skömmu áður, 1929, var hann 3,3 stig. Og ekki eru mörg ár síðan febrúar var hlýrri en nú, því 1956 var meðalhitinn 2,7 gráður og 1959 var hann 2,3 gráður.
Tíminn segir 24.mars frá þriðja alþjóðlega veðurdeginum - og eins af viðvarandi óvenjulágum loftþrýstingi í Japan. Hinn víðkunni danski veðurfræðingur Aksel Wiin-Nielsen segir einhvers staðar frá því (nenni ekki að fletta því upp í bili) að tilviljun hafi ráðið því að þennan vetur hafi menn í fyrsta skipti reynt að reikna orkuflæði milli hitabeltis og heimskautasvæða í tölvum - og jafnframt reynt að þátta flæðið á bylgjutölur (umfang bylgjusveipa). Útkoman varð töluvert önnur en menn höfðu búist við. Olli það nokkru hugarangri - en síðar áttuðu þeir sömu sig á því að þessi vetur, 1962-1963, var í raun mjög afbrigðilegur. Fyrirstaðan við Ísland (og hinn lági þrýstingur í Japan voru sitthvor hliðin á saman peningnum, bylgjumynstur vestanvindabeltisins var stórlega raskað. Hætt er við að nú á tímum væri veðurfarsbreytingum af mannavöldum strax kennt um. En skiptum yfir á Tímann:
MB-Reykjavík, 23. mars. Í dag er þriðji alþjóðlegi veðurdagurinn og er hann að þessu sinni helgaður flugveðurþjónustunni. Veðurþjónusta er nú á dögum algerlega ómissandi fyrir hinar miklu flugsamgöngur, og enginn flugmaður leggur af stað í flugferð nú á dögum, nema afla sér allra fáanlegra upplýsinga um veðurfar á væntanlegri flugleið og millilandaflugvélar taka oft á tíðum á sig allstóran krók frá beinni línu, til að forðast óhagstæða vinda, ísingu og önnur óhagstæð veðurskilyrði. Við litum inn á Veðurstofuna á Reykjavikurflugvelli í tilefni dagsins og hittum þar Jónas Jakobsson, veðurfræðing að máli. Veðurstofan hér innir af höndum margvíslega þjónustu fyrir flugið, allt innanlandsflug og gerir allar flugveðurspár fyrir þær flugvélar, sem fara frá Reykjavíkurflugvelli vestur um haf, og einnig þær vélar, er fara austur um haf eftir hádegið. Þær, sem fara austur fyrir hádegi fá hins vegar veðurspár frá Keflavík, en þar eru veðurfræðingar Veðurstofunnar á vakt allan sólarhringinn.
KH Reykjavík, 23. mars. Japanskir veðurfræðingar velta nú áhyggjufullir vöngum yfir djúpu lágþrýstisvæði, sem virðist ætla að breiðast yfir norðurhvel jarðar og spyr hver annan, hvort. veðurfar þetta eigi rætur sínar að rekja til einhvers óþekkts náttúrufyrirbrigðis. Lágþrýsti hefur hefur verið óvenju mikið í Japan það sem af er ársins, t.d. var meðalloftþrýstingur í janúar aðeins 1000,4 mb, en er venjulega 1016,3 mb. Svo mikið frávik er statistískt svo óvenjulegt, að það gæti aðeins átt sér stað á einu dægri með mörg þúsund ára millibili. Hinn óvenju lági loftþrýstingur hefur m.a. haft í för með sér, að hafið umhverfis Japan hefur hækkað. Grunur veðurfræðinganna um, að hér sé eitthvað óþekkt á seyði, styrkist við það, að óvenju hár loftþrýstingur hefur verið að undanförnu í nánd við Norðurpólinn, m.a. við Ísland, þar sem loftþrýstingur í janúarmánuði var að meðaltali 1027 mb, en er venjulega 999 mb. En nú er sem sagt búist við að lágþrýstisvæðið muni breiðast yfir norðurhvel jarðarinnar. Japanskir veðurfræðingar safna nú til sín upplýsingum viða að úr heiminum, ef vera kynni að þeir gætu leyst gátuna um orsök þessa óvenjulega veðurfars. Blaðið átti tal við Jónas Jakobsson, veðurfræðing, út af þessum fréttum. Hann vildi lítið gera úr áhyggjum hinna japönsku veðurfræðinga en sagði, að það væri náttúrlega vitað mál, að ef slík frávik yrðu ár eftir ár frá meðalloftþrýstingi, þá mundi kólna á norðlægum breiddargráðum. þar sem áhrifa hlýrra hafstrauma gætti ekki.
Seint að kvöldi 27.mars varð óvenjuöflugur jarðskjálfti í mynni Skagafjarðar. Einn af þremur öflugustu skjálftum sem mælst hafa hér við land frá upphafi mælinga. Aldrei þessu vant var ritstjóri hungurdiska steinsofandi svo snemma kvölds (klukkan rúmlega 23) og missti af skjálftanum - þótti það miður. Tíminn segir frá 28.mars:
TK-Reykjavík, 28. mars. Í gærkveldi um kl.23:15 fannst mjög snarpur jarðskjálftakippur hér í Reykjavík. Enn snarpari var kippurinn á Norðurlandi og snarpastur á Siglufirði og norðanlands og á Vestfjörðum fylgdu í kjölfarið aðrir kippir vægari. Á Siglufirði klofnuðu hús og hrundi úr reykháfum og á Akureyri var fólk svo felmtri slegið. að það klæddist og flúði út á götur með ungbörn í fangi. Samkvæmt upplýsingum jarðskjálftadeildar Veðurstofunnar um kl.2 í nótt virtist allt benda til þess að upptök jarðskjálftans hefðu verið norðan af landinu um 450 km frá Reykjavík. Er fyrsti jarðskjálftakippurinn einhver hinn orkumesti, sem mælst hefur á mæla Veðurstofu íslands. Hér fara á eftir upplýsingar þær, er blaðinu tókst að afla sér áður en það fór í prentun í nótt:
Fréttaritari blaðsins á Akureyri símaði að þar hefðu fundist tveir jarðskjálftakippir um kl. 23:15. Var hinn fyrri mjög snarpur og langur en hinn síðari heldur vægari og mun styttri. Hús nötruðu og leirtau glamraði en dynur mikill barst frá jörðu er jarðskjálftarnir gengu yfir. Fólk var felmtri slegið og klæddist það, sem háttað var og hélt sig utan dyra. Fréttaritari Tímans taldi að eftir hljóðinu að dæma virtist sem kippurinn gengi frá suðvestri til norðausturs. Fréttaritari Tímans í Bolungavík símaði, að þar hefði fundist snarpur jarðskjálftakippur. Var klukkan þá 17 mínútur yfir 11 og stóð kippurinn í hálfa mínútu. Kippsins varð einnig vart í Vestmannaeyjum og var hann þó mjög vægur þar.
MB-BÓ-Reykjavík, 28. mars. Eins og sagt var frá í blaðinu í dag, varð mikill jarðskjálfti um mestan hluta landsins í nótt er leið. Stærsti kippurinn varð klukkan 23:15 í gærkvöldi og í kjölfar hans fylgdu aðrir kippir og fram eftir degi í dag fundust kippir í nágrenni upptaka jarðskjálftans, sem voru í mynni Skagafjarðar. Fólk varð víða allskelkað og flýði út úr húsum sínum og búsmali ærðist í húsum, útihús hrundu og skemmdust á Skaga, sjúkrahúsið á Sauðárkróki og símstöðvarhúsið á Skagaströnd skemmdist talsvert, heitar laugar hurfu og innanhúss urðu víða skemmdir. Þetta mun vera mesti jarðskjálfti, sem átt hefur upptök sín hérlendis síðan 1934. Jarðskjálftinn mældist erlendis, til dæmis varð hans vart á jarðskjálftamælum á Jan Mayen, en þar mældist hann klukkan 23:17:25 eftir íslenskum tíma.
MBReykjavík, 28. mars. Náttúruhamfarir gera yfirleitt ekki boð á undan sér. Þó voru ekki allir óviðbúnir því, að jarðskjálfti yrði að þessu sinni, að minnsta kosti ekki Víkurbúar í Mýrdal. Prestur þeirra, Páll Pálsson, hafði sem sé sagt sóknarbörnum sínum það fyrir, að jarðskjálfta væri von og töldu allir víst að nágrannakona þeirra, Katla gamla, ætti sín von. Þegar svo jörðin titraði í nótt töldu allir víst að sú gamla væri farin af stað en sem betur fer reyndist svo ekki.
Morgunblaðið segir einnig frá skjálftanum 28.mars [meira efni tengt skjálftanum má finna í blöðunum]:
Morgunblaðið náði í nótt tali af Þórði Sighvatz á Sauðárkróki. Skýrði hann frá því, að geysimikill landskjálfti hefði orðið norður á Skaga og sagðist hann vita til þess, að bóndinn á Fossi á Skaga hefði slasast illa, þegar hann reyndi að koma sér og fjölskyldu sinni út um glugga á bænum. Mun húsið hafa leikið á reiðiskjálfi og fólkið gripið til þess ráðs að forða sér út um glugga, en bóndinn skorist illa, og var ráðgert að flytja hann til Sauðárkróks í bíl í nótt. Þá sagði Þórður, að sprungur hefðu myndast með niðurföllum í nýja sjúkrahúsinu á Sauðárkróki í versta kippnum. Þá fór margt fólk út úr húsunum og meiddust tvær konur, önnur datt niður stiga, þegar hún hugðist hlaupa út úr húsi sínu, en ekki var Þórði kunnugt um meiðsli hinnar.
Síðustu fréttir frá Siglufirði: Stefán Friðbjarnarson fréttaritari Morgunblaðsins á Siglufirði símaði í nótt, að skömmu fyrir kl.2 hefði enn fundist kippur þar í bæ, en vægur. Sterkasti kippurinn stóð yfir í 23 mínútur. Þá léku hús hér á reiðiskjálfi. Húsin Túngata 10 og Túngata 10B sem eru sambyggð steinhús löskuðust í harðasta kippnum og myndaðist smárifa á samskeytum þeirra sem er um 2 metra löng og 45 sm breið. Einnig mun reykháfur hafa hrunið á einu íbúðarhúsi, Hvanneyrarbraut 5B.
Morgunblaðið segir áfram frá 2.apríl:
[Brot úr pistli frá Birni í Bæ á Höfðaströnd] Allir eru sammála um að hér hafi ekki í manna minnum komið eins harðir jarðskjálftar, og líklega má þakka hvað vel og traustlega er nú orðið byggt að ekki varð meira tjón og þó skemmdust fjöldi húsa, miðstöðvar stórskemmdust, dyraumbúningar skemmdust, myndir, klukkur og annað lauslegt duttu niður og brotnuðu. Einna mestar skemmdir munu hafa orðið í læknisbústaðnum, þar sem veggir og loft sprungu illa; gólflistar losnuðu frá veggjum, veggflísar hrundu niður í eldhúsi, miðstöð bilaði. Úr sumum hillum í apóteki var næstum sópað niður á gólf og bækur úr bókaskápum út um gólfin. Við getum hugsað okkur hvernig er að vera í húsum, þegar slíkt og þvílíkt gengur á. Sem betur fór var læknir heima hjá konu sinni og tveim litlum dætrum. Í Kaupfélaginu hafði furðanlega lítið brotnað og skemmst, nokkrar sprungur sáust þó í veggjum og ljóshjálmar brotnuðu. Á skrifstofugólfi Kaupfélagsins stóð skjalaskápur ca. 2300 kg að þyngd, hann færðist til um 15 cm.
Tíminn segir enn af gróðri og góðri tíð 5.apríl:
Í gær rigndi hér í Reykjavík, og þótt enn sé snemmt vakti rekjan garðagróðurinn, og víða um bæinn mátti sjá tré, sem voru að byrja að laufgast. Fyrir nokkrum dögum var víðirinn farinn að laufgast, en í gær mátti sjá laufgaðan reyni í garði á Bergþórugötu. Þetta gerist hér á meðan ísalög eru enn við strendur landa, sem kölluð hafa verið hlý til þessa, samanborið við Ísland. Á öðrum stað í blaðinu er þess getið að vorannir séu í nánd hér sunnanlands. Það er því ekki ofsögum sagt af því, að síðari hluti þessa vetrar hefur verið með þeim mildustu á þessari öld. Gróðurinn ber vitni þess. Við töluðum í gær við Hafliða Jónsson, garðyrkjuráðunaut borgarinnar. Hann kvaðst einmitt hafa veitt því sérstaka athygli í morgun, hvernig gróðurinn hefði tekið við sér af vætunni, og til dæmis hefði hann séð ljómandi fallega útsprungna selju í garði við Laugaveginn. Hann bar engan kvíðboga fyrir því, að illa kynni að fara ef kæmi hret, garðagróðurinn mundi þola það úr þessu.
BO-Reykjavík, 4. apríl. Blaðið átti í dag tal við Þorstein á Vatnsleysu um tíðarfarið og búskaparhorfur í þessu dæmafáa árferði. Það fer að koma vorhugur í menn, sagði Þorsteinn, en þó hefur verið andkalt um nætur í uppsveitum sunnanlands, og lítið dýpkað á klaka s.l. hálfan mánuð. Nú eru um 20 cm niður á klakann víða hvar, en hann er sennilega þunnur og víða eru klakaslit í gömlum túnum. Vegir eru góðir eins og á sumri og verða að líkindum sæmilegir nema hann leggist í miklar rigningar. Menn eru nú að bera út hauga og viða að tilbúnum áburði, en dreifa honum ekki strax. Það hefur gefist illa meðan klaki er í jörðu, áburðurinn hefur þá flotið burt. Fé er allt á fullri gjöf nema hvað eitthvað kynni að hafa sloppið á fjallabæjum. Sauðburður mun yfirleitt hefjast á venjulegum tíma eða síst fyrr því tilhleypingu var síður en svo hraðað. Heyfengurinn var yfirleitt minni en menn höfðu gert sér grein fyrir, og má því kallast sérstök blessun að tíðarfarinu. Í hörðu ári hefði víða orðið þröngt fyrir dyrum. Þó má telja að slíkt árferði taki nokkuð fyrir sig fram. Til dæmis er greinilegt, hvað fé er verr fram gengið að haustinu eftir svo snjólausa vetur. Afréttargróðurinn verður magur þegar snjóinn vantar, og það kemur niður á vænleika fjárins. Þá þarf heldur ekki að gera ráð fyrir góðu berjaári, en menn hafa veitt því athygli, að berjaspretta og vænleiki sauðfjár á haustin haldast nokkuð í hendur. Um framhaldið í vor er lítið hægt að spá, að minnsta kosti ekki fyrir leikmenn. Reynslan hefur þó sýnt, að það er engu síður góðs að vænta þótt veturinn hafi verið mildur.
Morgunblaðið segir enn af skemmdum í skjálftanum mikla í pistli 9.apríl:
Skemmdir á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki af völdum jarðskjálftanna urðu miklu meiri en haldið var í fyrstu. Talið er að viðgerð á húsinu kosti 80100 þúsund krónur. Morgunblaðið átti í gær tal við Svein Ásmundsson, byggingarmeistara, en hann reisti sjúkrahúsið á sínum tíma. Sveinn sagði, að skemmdir af jarðskjálftunum hefðu ekki orðið á burðarpunktum hússins, heldur léttbyggðum skilveggjum og múrverki. Byggingarmeistarinn taldi mjög eftirtektarvert, að skemmdirnar af jarðskjálftunum hefðu nær eingöngu orðið á þeim hluta hússins, sem enginn kjallari er undir. Þar sprungu veggir, múrverk brotnaði niður Skemmdirnar urðu miklu meiri en ég hefði getað látið mér detta í hug, sagði Sveinn, einkum með tilliti til þess að sjúkrahúsið var eina húsið á Sauðárkróki, sem skemmdist, en það er jafnframt traustbyggðast og býst ég við að viðgerðarkostnaður verði ekki undir 80100 þúsund krónum.
Þann 9.apríl varð gríðarleg og snögg breyting á veðri - hið fræga páskahret skall á. Um það má finna sérstakan pistil hungurdiska - en sleppum að mestu hér.
Eftir að hretið gekk yfir varð veðurlag skárra í nokkra daga, varð jafnvel vorlegt [sumardagurinn fyrsti var 25.apríl]. Um mánaðamótin kólnaði aftur og var veðurlag hryssingslegt mestallan maímánuð. Fyrst með köldum norðlægum áttum og eftir þann 20. gerði allmikla útsynninga í nokkra daga, jafnvel með krapahryðjum á Suður- og Vesturlandi. Þá var mun skárra norðaustan- og austanlands. Loftþrýstingur var að meðaltali með allra lægsta móti miðað við árstíma, sá næstlægsti í 200 ára sögu þrýstiathugana. Mikil umskipti frá háþrýstingi vetrarins.
Þann þriðja var mjög vaxandi lægð á Grænlandshafi. Hreyfðist hún austur. Minnisstæðar eru ískyggilegar veðurspár þennan dag. [Kl.10:10 Faxaflói og Breiðafjörður, Faxaflóamið og Breiðafjarðarmið: Gengur í norðvestan storm með éljagangi síðdegis, en snýst í norðrið og léttir til í nótt.]. Kortið sýnir stöðuna á hádegi þennan dag. Svo sannarlega virtist illt í efni. En betur fór á en horfðist. Lægðin hægði á sér, fór að grynnast og veðrið varð ekki eins slæmt og útlit var fyrir. En allur var varinn góður - og hann gekk í norðanátt og kólnaði og þann 6. rétt slefaði hámarkshiti upp fyrir frostmark í Reykjavík.
Tíminn segir af hretinu 5.maí:
MB Reykjavík, 4. maí. Í nótt snjóaði talsvert vestan lands og sunnan, en færð mun ekki hafa spillst til muna. Þó var Hellisheiði þungfær í morgun. Einnig munu vegir þungfærir vegna aurbleytu á nokkrum stöðum. Snjókoman í nótt náði yfir allt vestanvert landið og austur um Suðurland, austur á Síðu. Ekki munu vegir hafa spillst að ráði vegna þessarar snjókomu, enda veður frostlaust og snjórinn rann viða í sundur nokkurn veginn jafnóðum. Einna verst mun veðrið hafa orðið út af Vestfjörðum og vestur af Reykjanesi, en þar var vestan stormur fyrri part dagsins í dag. Vestfjarðarbátar voru yfirleitt ekki á sjó í nótt, því veður var slæmt í gær og Veðurstofan spáði slæmu. Í morgun var stillt og bjart veður um allt norðan og austanvert landið. Frostlaust var alls staðar á láglendi, en við frostmark á Grímstöðum. Lægðarmiðja var yfir Reykjavík klukkan sex í morgun, en hún þokaðist síðan suður fyrir Reykjanes. Jón Eyþórsson veðurfræðingur spáði í dag, að á næstunni yrði hér norðaustlæg átt og næturfrost.
Tíminn segir enn af hretinu 8.maí:
MB-Reykjavík, 6. maí. Í dag er lítið sumarlegt um að litast víða um land. Um Norðurland og Vestfirði er hvöss norðanátt, snjókoma og frost, og norðanstrekkingur víðast annars staðar og éljagangur um vestanvert landið. Vegir munu þó ekki hafa spillst neitt að ráði. Um allt norðan og vestanvert landið var i dag allhvöss norðanátt og snjókoma á Norðurlandi, einkum þó á annesjum og á Vestfjörðum. Einnig náði snjókoma niður í uppsveitir Borgarfjarðar en við Faxaflóa og Breiðafjörð voru víða él. Léttskýjað var með suðurströndinni austur á Austfirði, en þar fyrir norðan tók svo snjókoman við. Til dæmis sást ekki milli bæja i Axarfirðinum í dag fyrir hríð. Um miðjan daginn í dag var einna hvassast hér í Reykjavík, 8 vindstig og einnig voru 8 vindstig á Galtarvita og þar var einnig mikil snjókoma Frost var um 3 stig á Vestfjörðum, einnig á Síðumúla, 1 stig á Akureyri og 5 í Möðrudal. Veðurfræðingur Veðurstofunnar spáði því í dag, að norðanáttin héldist eitt.hvað áfram og búast mætti við einhverri snjókomu áfram.
Djúpar lægðir fóru yfir landið eða rétt fyrir sunnan það í kringum miðjan mánuð. Víða rigndi, mest þó á Norðaustur- og Austurlandi. Morgunblaðið segir frá tjóni í pistli 14.maí:
Aðfaranótt sunnudags [12.] og fram á dag rigndi mikið á Austur- og Norðurlandi og urðu spjöll á vegum austanlands og norðaustan, en vegirnir á Norðurlandi eru óskemmdir, en blautir. Ástandið er sérlega slæmt á Héraði, því ekki er hægt að koma tækjum eftir vegunum þar til að gera við, að því er Helgi Hallgrímsson hjá Vegagerðinni tjáði blaðinu. Vegirnir voru mjög blautir fyrir og þoldu illa þessa viðbótarrigningu. Klaki er í jörðu og vatnið sígur því hægt niður. Vegirnir niður á firðina urðu ekki eins illa úti. En aurskriða féll á veginn skammt frá Eskifjarðarkauptúni og skemmdi hann. Í gær var viðgerð hafin. Þá féll snjóskriða á Oddsskarðsveginn og lokaði honum. Í gærmorgun var verið að skoða skriðufallið og búist við að hægt yrði að hefjast handa um að ryðja veginn síðdegis. Allir fjallvegir eystra eru opnir að undanteknum vegunum um Fjarðarheiði og Oddsskarð.
Júní taldist hagstæður - víðast hvar. Mikla hitabylgju gerði í fyrstu viku mánaðarins. Fyrri dagana var hún áköfust um landið norðan- og austanvert [hiti komst m.a. í 24,8 stig á Akureyri þann 3.], en mjög hlýtt varð einnig vestanlands, sérstaklega þann 7. Sá dagur varð líklega sá hlýjasti sem ritstjóri hungurdiska hafði minni til fram að þeim tíma. Síðdegis gerði einnig minnisstætt þrumuveður, eldingarnar sáust vel úr Borgarnesi, en þar varð þó ekki mikil úrkoma.
Um miðjan mánuð gerði nokkra daga hret. Slík norðanhret um miðjan júní voru nánar fastur liður þessi árin, 1959, 1961 og 1962 hafði alltaf gert slík hret. Veðurnördið unga velti fyrir sér reglu í þessu sambandi (sem ekki er).
Morgunblaðið segir almennar tíðarfréttir úr Grímsey 11.júní:
Grímsey, 31. maí Tíðarfar var með afbrigðum gott frá áramótum til 9. apríl, er mannskaðaveðrið mikla gerði. Gæftir voru góðar, en afli fremur lítill, hrognkelsaveiðin var þó mikið að glæðast í aprílbyrjun, enda hefir jú veiði venjulega verið mest í þeim mánuði. En þann 9. apríl breyttist veðrið skyndilega, eins og öllum er minnisstætt og voru hér upp frá því næstum stöðug hríðarveður og harðneskja til 20. maí, að brá til sunnanáttar og hlýinda og hefur það haldist síðan. Á þessu tímabili var næstum aldrei hægt að fara á sjó og fór því hrognkelsaveiðin alveg út um þúfur. Sama er að segja um þorskveiðina, að hún hefir engin orðið, bæði vegna gæftaleysis og fiskleysis. Almennt heyleysi var að verða hér fyrir sauðfé, sem hafði staðið inni allt til 20. maí, en það er nálægt mánuði lengur en venjulega. Var þá líka sauðburður næstum hálfnaður. Hey fékkst úr landi og kom það hingað daginn áður en batinn kom. En það kom í góðar þarfir, því gróður var enginn kominn. Og þrátt fyrir slæma tíð framan af vorinu eru fénaðarhöld mjög góð og er furðulega mikill gróður kominn nú.
Morgunblaðið fjallar 12.júní um tjón af völdum vetrarflóða í Blöndu:
Blönduósi, 4. júní. Þegar ísa leysti í vor, kom í ljós, að Blanda hafði í vetur gert mikinn usla á nokkrum jörðum í Langadal, einkum Æsustöðum og Gunnsteinsstöðum. Þar braut hún land og bar möl og sand upp á engi. Í flóðum og ísruðningi snemma í vetur komu miklar jakastíflur í ána og flæddi hún þá yfir alla flata bakka og hólma. Farvegir margra kvísla stífluðust algerlega og þegar vöxtur hljóp í ána síðar um veturinn og fram undir vor, gekk hún oft hátt upp á bakka. Nokkur hross fórust í stórflóði og ruðningi laust fyrir jólin. Telja bændur í Langadal að Blanda hafi sjaldan eða aldrei áður verið svona baldin. Björn Bergmann.
Tíminn segir 13.júní frá áhrifum páskahretsins á gróður:
MB-Reykjavík, 12. júní. Samkvæmt. upplýsingum dr. Sturlu Friðrikssonar hefur minna borið á kali hérlendis heldur en í fyrra og virðist páskahretið ekki hafa gert gróðri eins mikið mein og margir óttuðust í fyrstu, en þó væri spretta allmiklu seinni á ferðinni en oft áður. Vegna hinna miklu hlýinda, sem verið hefðu undanfarið, hefði gróðri hins vegar farið mjög vel fram og væri ekki ástæða til að óttast annað, en spretta yrði yfirleitt sæmileg ef ekkert sérstakt kæmi fyrir úr þessu. Að vísu eyðilagðist nýgræðingur mjög viða af völdum þess, en rótarskemmdir virðast yfirleitt ekki hafa verið mjög miklar, þannig að gróður mun ná sér. Dr. Sturla kvað sér ekki kunnugt um að neinn sérstakur landshluti hefði orðið illa úti, hvað þetta snerti. Hann kvað lingerðar grastegundir eðlilega hafa orðið verr úti. Til dæmis hefði Randagras farið illa í tilraunareitum. Randagras er landnemi hérlendis og við það hafa verið bundnar talsverðar vonir í sambandi við nýrækt á mýrasvæðum. Hins vegar hefðu aðrir stofnar sýnt mikið viðnám. Bæri þar fyrst að nefna norska stofna af vallarfoxgrasi, þeir hefðu staðið mjög vel í frostunum. Þessir stofnar hefðu verið talsvert notaðir í grasfræblöndur, þó hefði ekki fengist eins mikið af þeim og æskilegt hefði verið, en það stæði allt til bóta. Dr. Sturla kvað sprettu yfirleitt muni vera heldur seinna á ferðinni en oft áður vegna páskahretsins, því gróður hefði þá verið kominn óvenju langt, en þar eð rótarskemmdir hefðu yfirleitt ekki verið mjög miklar, væri ástæða til að vona, að hann myndi ná sér og síðustu dagana hefði gróðri farið mjög vel fram.
Tíminn fjallar einnig um gróðurinn 16.júní:
MB-Reykjavík, 15.júní. Garðagróður beið talsverðan hrekki í páskahretinu hér suðvestanlands, en annars staðar á landinu hafa ekki orðið á honum teljandi varanlegar skemmdir samkvæmt upplýsingum Ingólfs Davíðssonar. Verst hefur alaskaöspin orðið úti, svo og þingvíðir og ýmsir runnar hafa einnig skemmst illa. Ingólfur Davíðsson tjáði blaðinu í dag, að skemmdir á garðagróðri af völdum páskahretsins hefðu aðallega orðið suðvestanlands. Þar var gróður kominn lengst á veg, vegna langvarandi hlýindakafla og safastraumur kominn um þau tré, sem fljótust eru til. Þau tré frusu eðlilega illa og á þeim hafa orðið varanlegar skemmdir. Verst hafa Alaskaöspin og þingvíðirinn orðið úti og sitka-grenið hefur einnig farið illa víða. Þær tegundir, sem seinna eru til, hafa sloppið miklu betur. Að vísu hafa sumstaðar orðið skemmdir á birki og reynivið, en ekki í stórum stíl. Þá hafa einnig orðið miklar skemmdir á ýmsum runnum. Til dæmis hafa rósir orðið illa úti hér suðvestanlands, svo og fleiri runnar, sem fljótir eru til. Ingólfur kvað áberandi, hve skemmdirnar hefðu orðið mestar, þar sem gróður var lengst kominn, á Reykjanesinu og austur um Suðurland, austur í Fljótshlið. Til dæmis væri gróður ekki eins illa farinn í innsveitum sunnanlands og við sjávarsíðuna. Svo glögg væru skilin, sagði Ingólfur, að gróður í Heiðmörk væri ekki eins illa leikinn og í Reykjavík.
Tíminn segir af ís - og sauðburði 19.júní:
MBReykjavík, 15.júní. Allmikið hefur verið um tilkynningar um ís í veðurfregnum útvarpsins undanfarna daga. Blaðið hringdi í dag í Jón Eyþórsson veðurfræðing og sagði hann, að ekki væri um neinn óvenjulegan ís að ræða, þarna væri oftast einhver ís á reki um þetta leyti.
MB-Reykjavík, 15. júní. Samkvæmt upplýsingum dr. Halldórs Pálssonar, búnaðarmálastjóra, hefur sauðburður yfirleitt gengið vel í vor, en þó hefur nokkuð verið um lambalát, einkum á Suðurlandi. Fóðurbirgðir voru yfirleitt litlar síðastliðið haust, en þrátt fyrir páskahretið munu bændur yfirleitt hafa sloppið sæmilega. Þó urðu margir bændur, einkum sunnanlands, að gefa talsvert mikinn fóðurbæti í vor um sauðburðinn. Sauðburðurinn gekk yfirleitt vel. Þó voru nokkur brögð að lambaláti sunnanlands hjá einstaka bændum eins og venjulega. Seinni part maí gerði mikla kalsarigningu og hafði hún slæm áhrif á sauðburðinn og olli talsverðu tjóni hjá nokkrum bændum. Þá gerði lambablóðsótt einnig talsvert tjón hjá sumum, en gegn henni er nú til bóluefni og fer tjón af henni rénandi. Gróður beið mikinn hnekki af páskahretinu, sem kunnugt er, en hinn góði bati, sem kom nú um mánaðamótin, hefur hleypt fjörkippi i hann og nú taldi búnaðarmálastjóri, að horfur væru góðar.
Hretið um miðjan mánuð varð verst á Ströndum. Tíminn 26.júní:
GPV-Trékyllisvík, 25. júní. Óvenjulegt illviðri hefur geisað hér síðastliðna viku, og snjóaði niður í fjöru, þegar verst lét. Hefur grasspretta algjörlega staðnað á þessu tímabili, og bændur hafa misst fjölda lamba. Illviðri þetta hófst með norðanuppgangi á laugardaginn 15.júní, og á sunnudag og mánudag var óvenju kalt og snjóaði niður í miðjar hlíðar. Hélst þetta veðurlag fram á föstudag og var allra verst á fimmtudag 20. júní. Snjóaði þá alveg niður í fjöruborð. Til marks um úrkomuna á þessu tímabili er, að veðurathugunarstöðin á Kjörvogi mældi 4050 mm úrkomu á hverjum sólarhring. Í dag sést í fyrsta skipti í langan tíma til sólar. Lömb hafa víða drepist í þessu veðri. Á fjórum bæjum drápust milli 10 og 20 lömb, en eitthvað minna á öðrum bæjum. Það er þó ekki fullkannað enn. Bændur hér eru mjög svartsýnir á sumarið. Spretta er hreint engin núna, var aðeins farin að lifna fyrir illviðrakaflann, en stendur nú algjörlega í stað. Engum er farið að detta sláttur í hug. Úthagi er eitthvað skárri, en langt frá því góður.
Tíminn segir af ísflugi 28.júní:
BÓ-Reykjavík, 27.júní. Flugvél Landhelgisgæslunnar, Sif, fór í ískönnunarflug í gær og kom í ljós, að ísinn er heldur fjær landi en venjulega á þessum tíma árs.
Morgunblaðið fjallar enn um gróðurskemmdir í páskahretinu í pistli 28.júní:
Í kuldakastinu um páskana skemmdist trjágróður mjög mikið austur í Múlakoti, en þar voru trén farin að laufgast þegar í aprílbyrjun. Samkvæmt upplýsingum frá Ólafi Túbals er nú ljóst, að trén hafa orðið helmingi verr úti en í síðasta Heklugosi. Ólafur sagði, að trén hafi byrjað að laufgast í aprílbyrjun og verið orðin eins og í maí, þegar páskahretið kom. ... Ólafur sagði, að undarlegt væri að elstu trjánum gengi verst að ná sér aftur og nefndi hann að 78 metra hátt blágrenitré væri alveg líflaust. Hins vegar sagði Ólafur, að blómagróður dafnaði vel og ekki fyndist kal í túnum. Það væru trén, sem verst hefðu orðið úti, helmingi verr en í síðasta Heklugosi.
Eftir þann 20. gerði aðra hitabylgju á Norður- og Austurlandi, þó ekki alveg samfellda. Nú komst hiti hæst í 27,1 stig á Skriðuklaustri þann 27. Heldur svalt sjávarloft lá lengst af yfir landinu vestanverðu. Stöku dagur þó nokkuð hlýr lengst inni í dölum og uppsveitum.
Tíminn segir af heyskaparhorfum 30.júní:
MB-Reykjavik, 29.júní. Víða um land eru bændur nú byrjaðir að slá, en þó mun ekki hægt að segja, að sláttur sé almennt hafinn. Samkvæmt upplýsingum búnaðarfélagsins má telja líklegt að slátturinn hefjist almennt nú upp úr helginni, ef vel viðrar. Alllangt er síðan fyrstu bændur hófu slátt, en það var talsvert fyrir miðjan mánuðinn, sem bændur austur í Skaftafellssýslu slógu fyrstu spildurnar. Nú eru margir bændur hér sunnanlands farnir að slá og fyrir viku síðan hófst sláttur á mörgum bæjum norður í Eyjafirði. Einnig eru þeir, sem vinna grasmjöl, farnir að slá af krafti. Grasspretta beið mikinn hnekki í páskahretinu, sem kunnugt er, vegna hinna miklu hlýinda víðast hvar um land að undanförnu hefur sprettu farið mjög vel fram. Þó mun óvíða orðin bein þörf á að hefja slátt vegna sprettunnar.
Fyrsta vika júlímánaðar var lengst af mjög hlý og hagstæð og gætti hlýindanna um tíma nánast um land allt. En síðan hallaði mjög undan fæti og snerist í sérlega kalda tíð og illa. Nokkuð hlýnaði aftur síðustu dagana, en þá gengu suðlæg illviðri yfir.
Morgunblaðið segir frá blíðu 9.júlí:
Í gær [mánudaginn 8.júlí] var mesti góðviðrisdagur, sem komið hefur hér í Reykjavík á yfirstandandi sumri. Veðrið var svipað um land allt, norðan gola eða kaldi og léttskýjað fyrir sunnan og vestan og víðast hvar á Norðurlandi. Hitinn var mestur á Hellu á Rangárvöllum, komst upp í 22 stig um miðjan dag og um sama leyti mældist 18 stiga hiti hér í Reykjavík. Á hlýjum sólskinsdegi gengu borgarbúar léttklæddir um strætin að venju og hver, sem frekast gat brá sér í sólbað því að flestum er það mikið kappsmál að safna brúnku á andlitið enda veitir ekki af að notfæra sér út í ystu æsar þann stutta tíma, sem til þess gefst.
Tíminn segir ísfréttir 9. og 10.júlí:
[9.] MB-Reykjavík, 8. júlí. Hafísinn er nú mjög nálægt Vestfjörðunum, nær en hann hefur verið undanfarin ár á þessum tíma. Í kvöld er ísröndin talin vera aðeins 810 mílur undan Horni. Nú er hæg austlæg átt á þessum slóðum, og gera menn sér vonir um, að ísinn muni reka brott aftur.
[10.] KH-Reykjavík, 9. júlí. Ísbreiðan út af Vestfjörðum virðist hafa þokast nær landi s.l. sólarhring, og eru smájakar á reki milli lands og aðalísbeltisins. Úti fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi er hæg austanátt, sem hindrar, að ísinn reki austur á síldarmiðin. Seint í dag barst fregn frá vitaskipinu Árvaki um, að sést hefðu tveir ísjakar á siglingaleið 2 sjómílur í réttvísandi norður frá Hælavikurbjargi, og sjást þeir ekki í radar. Veðurathugunin á Horni tilkynnti mikið íshrafl grunnt á siglingaleið út af Hornbjargi. ... Jón Eyþórsson veðurfræðingur, sagði blaðinu í kvöld, að erfitt væri að segja til um nálægð íssins, þar sem ekkert könnunarflug var farið í dag, en ísröndin virtist hafa þokast nær landi, lægi svona 510 mílur norður af Horni. Ekki væri vitað hversu mikil ísbreiðan væri, þar sem þoka hefði hindrað mælingar á því í ískönnunarfluginu í gær. Jón kvaðst búast við, að ekki þyrfti nema hressilega austanátt, svo að ísinn hyrfi á augabragði. En nú væri hún svo hæg, að hún gerði ekki betur en hindra það, að ísinn reki austur á síldarmiðin.
Morgunblaðið spyr Jón Eyþórsson um fyrri ískomur 10.júlí:
Blaðið spurði Jón Eyþórsson veðurfræðing að því í gær kvöldi hvenær síðast hefði orðið landfastur ís hér við land að sumri til. Hann sagði svo frá: Hinn 6. 8. júní 1914 var ísinn aðeins mílu undan Horni og hinn 10. var hann orðin landfastur við Straumnes og Helgarvík. Við Grímsey var ísinn landfastur til 8. júní, en seinni hluta mánaðarins var hann víðast 40 mílur undan Norðurlandi og rak svo burt og sást ekki framar á því ári. 1915, allan júnímánuð, lá hafísinn við Norðurland og hindraði mjög skipaferðir, stundum vestur, stundum austur. Síðari helming júnímánaðar var mikill ís út af Eyjafirði, en náði ekki austur að Langanesi. Í júlímánuði var enn mikill ís við Norðurland og um miðjan mánuðinn var hann landfastur við Siglufjörð svo að Botnía varð að snúa þar við. Eftir 20 júlí var íslaust á Eyjafirði og Skjálfanda. Og 26. júlí var orðið alveg íslaust við Norðurland. Jón kvaðst ekki þora alveg að fullyrða hvort ís hefði orðið landfastur síðan, en taldi það vart mundi hafa átt sér stað.
Veður fór nú mjög kólnandi. Tíminn segir frá 12.júlí:
ED-Akureyri, 11.júlí. Í nótt snjóaði í fjöll norðanlands, og hefur veður verið kalt síðan um helgi. Í dag er aðeins tveggja stiga hiti á Grímsstöðum og aðeins fjögurra stiga hiti við sjávarsíðuna hér norðaustanlands. Í fyrrinótt voru næturfrost sumstaðar, þegar fjær dró sjó, og skemmdist kartöflugras af völdum þess. Þeir bændur, sem fyrst byrjuðu heyskap, eru sumir búnir með fyrri slátt og aðrir langt komnir og úthagi er mjög vel sprottinn. Víða er rúningu sauðfjár lokið, en annars staðar verður rúið, strax og hlýnar.
FB-Reykjavík, 11.júlí. Í kvöld var byrjað að bræla upp fyrir norðan, og á Raufarhöfn var norðvestan stinningshvassviðri og slydda. Þar var aðeins þriggja stiga hiti. Á Seyðisfirði var norðaustanátt, og þar snjóaði i fjöll bæði í dag og í gær. Þar er leiðindaveður og nokkuð hvasst. Fjöldi norskra síldarskipa hefur leitað vars á Seyðisfirði síðustu dagana, og fer þeim stöðugt fjölgandi.
Tíminn segir 13.júlí frá ísreki uppi í landsteinum - og hagstæðri tíð á Suðurlandi:
MB-Reykjavík, 12.júlí. Svo virðist nú, sem ísrek sé uppi í landsteinum á Hornströndum. Er þar bersýnilega um að ræða ístunguna, sem sást úr flugvél Landhelgisgæslunnar í gær, en ísrek úr henni hefur færst nær landi. Klukkan 16:45 barst Veðurstofunni skeyti frá Dísarfelli, sem var þá á siglingu fyrir Horn. Segir þar, að fjóra og hálfa sjómílu austur af Horni sé allþétt rekísbelti, er stefni norður-suður, og virðist það ná upp undir land við Smiðjuvíkurbjarg ... Klukkan 18 segir svo í skeyti frá Hornbjargsvita, að ísrek sé á allri siglingaleiðinni fyrir Horn, alveg upp í landssteina. ... Nú er mjög kalt fyrir norðan. Klukkan átján var aðeins tveggja stiga hiti á Horni og slydduél. Á Kjörvogi var þriggja stiga hiti og slydduél, á Hrauni á Skaga og Siglunesi var einnig þriggja stiga hiti en rigning, í Grímsey var þriggja stiga hiti og þurrt, Ægir var staddur um 100 km norður af Siglunesi og þar var 3ja stiga hiti, á Raufarhöfn var 4ra stiga hiti og rigning (þar var 2ja stiga hiti um hádegið) og á Langanesi var 5 stiga hiti og rigning. Á Norðurlandi hefur ríkt norðlæg átt að undanförnu og ekki hefur ísinn vermt hana.
PE-Hvolsvelli, 12. júlí. Óvenjuhlýtt hefur verið hér að undanförnu, og hitinn komist upp í 2324 stig í forsælu. Heyskapur er almennt byrjaður, og margir hér um slóðir búnir að ná töluvert miklu heyi upp í galta. Austur í sýslunni, t.d. undir Eyjafjöllum hefur verið mjög skúrasamt og til tafar. Fénaður hefur að undanförnu verið rúinn af kappi og síðan rekinn á fjall.
Morgunblaðið minnist líka á ísinn 14.júlí:
Landsins forni fjandi, hafísinn, birtist nú í vikunni á siglingaleið um við norðanvert landið. Fæstir núverandi íslendingar muna eftir verulegum hafísárum, en á síðari hluta 19. aldar þrengdi hann svo að, að ekki síst þess vegna flúðu þúsundir manna land og settust að í Vesturheimi. Vegna gerbreyttra samgangna og lifnaðarhátta eru menn nú á allt annan veg við því búnir að taka misæri af völdum hafíss en áður. Af því að þeir eru honum óvanir, mundu menn þó e.t.v. finna sárar til hans en á meðan við honum var búist árlega. Því miður bendir allt til þess, að slíkir harðindatímar gangi fyrr eða síðar yfir á ný. Meðal annars af þeim sökum er mikilsvert, að atvinnuvegir landsmanna verði fjölbreyttari og að við eigum ekki jafn mikið undir veðurlagi og nú.
Haustið 1961 varð eldgos í Öskju. Nokkuð var fylgst með eldstöðinni eftir það . Tíminn segir frá leiðangri þangað og breytingum í pistli 14.júlí. Síðan er talað um heyskaparhorfur:
MB-Reykjavík, 13.júlí. Nokkrar breytingar hafa orðið í Öskju upp á síðkastið. Vatnsborð Öskjuvatns hefur á s.l. vetri lækkað um einn til einn og hálfan metra en það svarar til þess að um fimmtán milljón tonn hafi runnið úr vatninu. Vatnsborð Vítis hefur lækkað um hálfan þriðja metra frá hæsta fjöruborði og hitastig þess hefur hækkað um sautján gráður. Dr. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur er nýkominn heim úr leiðangri í Öskju ásamt Haraldi Sigurðssyni jarðfræðinema. Þeir urðu varir við margt mjög athyglisvert ... Hitastigið í Víti hefur hækkað um 17 stig frá því 1961, úr 22 stig í 39 stig. Einnig hefur yfirborð vatnsins í Víti lækkað um 2,5 metra frá hæsta fjöruborði, sem að öllum líkindum hefur verið 1961, a.m.k. ekki síðar. Þá sáu þeir félagar einnig tvö ný uppstreymi í Víti. Annað er skammt frá gamla uppstreyminu, en hitt er um tuttugu metra úti í gígvatninu og um tuttugu metra frá miðju og streymir þar upp tært, heitt vatn. Líkist uppsprettan suðu, eins og oft vill verða um slíkar uppsprettur, en ekki komust þeir félagar að henni. Ekki telur Þorleifur gott að segja, hvað veldur hitaaukningunni í Víti, það getur stafað frá hinni nýju uppsprettu og einnig frá því, að yfirborðið hefur lækkað. Vatnið í Víti er sem kunnugt er mjög mengað brennisteini og leir en eins og fyrr segir er nú komin þar ferskvatnsuppspretta, og er þar líklega um nýja sprungu að ræða. Af nýju eldstöðvunum er það helst að frétta, að nýju gígarnir hafa margir hverjir dýpkað, þar eð botnar hafa fallið niður og einnig hefur hrunið mikið úr börmum þeirra. Er nú víða komið þverhnípi, sem fært var mönnum í fyrra. Þá eru og allir leirhverir kólnaðir í nágrenni gosstöðvanna, og er nú snjór í sumum þeirra. Víða leggur gufu upp úr nýja hrauninu og vikur er þar víða enn heitur.
MB-Reykjavík, 13. júlí. Samkvæmt upplýsingum dr. Halldórs Pálssonar búnaðarmálastjóra, er sláttur nú í fullum gangi um mestallt land. Spretta er víðast hvar sæmileg og sums staðar góð, þrátt fyrir kuldakastið í vor. Tíðin hefur leikið við bændur sunnanlands undanfarið, og má nú segja, að þurrkar séu jafnvel orðnir fullmiklir, ef tillit er tekið til háarsprettu. Norðanlands er nú kuldakast og má búast við, að það hafi sín áhrif á sprettuna.
Tíminn ræðir kulda og ís í pistlum 16.júlí:
MB-Reykjavík, 15.júlí. Samkvæmt upplýsingum Jónasar Jakobssonar veðurfræðings mældist tveggja og hálfs stigs frost niður við jörð hér í Reykjavík, s.l. laugardags- og sunnudagsnætur, og síðastliðna nótt eins stigs frost. Á laugardagsnóttina [13.] mældist svo 56 stiga hiti í hinni venjulegu mælingarhæð, tvo metra frá jörðu, þannig að hitamismunurinn á þessum tveim metrum hefur verið um átta stig! Það er ekki óvenjulegt, að talsverður hitamismunur sé á þessu bili, einkum á heiðskírum sumarnóttum, en Jónas kvað svona mikinn mun mjög óvenjulegan.
MB-Reykjavík, 15. júlí. Svo virðist, sem íshraflið, er komið var inn undir Horn, sé enn þá að lóna þar, þótt það sé sennilega á einhverju reki vestur á bóginn, en á þessum slóðum hefur verið hæg norðaustanátt undanfarið.
Morgunblaðið fjallar einnig um kulda 16.júlí:
Síðustu dagana hefur verið norðanátt um land allt og að venju hefur það haft í för með sér talsverða kulda. Hefur hitastigið farið niður í 2 stig á láglendi og í frostmark á stöðum sem hærra standa. Á Hveravöllum þaðan sem nú í sumar berast veðurfregnir, hefur komið slydduél og einnig hafa borist fregnir af slydduéljum á nokkrum stöðum Norðanlands. Í gær var hitinn á Gjögri t.d. 3 stig, á Hrauni á Skaga 4 stig, í Grímsey 6 stig og virðist heldur hlýna eftir því sem austar dregur á Norðurlandi. Hefur verið súld og leiðindaveður þar á annesjum síðustu dagana, ekki kalt en sólarlaust. Sunnanlands þurrt í innsveitum og að auki hefur verið þurrt og kalt, en skúrir oft síðdegis.
Enn voru fréttir af ísreki. Tíminn 17.júlí:
MB-Reykjavík, 16.júlí. Ennþá virðist talsvert ísrek lóna uppi andir Vestfjörðum. Kyndill tilkynnti í dag: Samfelld ísbreiða á siglingaleið, 7 sjómílur suðaustur af Hornbjargi. Þess má geta, að skyggni mun hafa verið slæmt á þessum slóðum og getur því hafa verið um jaðar á spöng, sem ekki þarf að hafa verið stór að ræða. Hornbjargsviti tilkynnti í dag: Mikið ísrek á siglingaleið út af Hornbjargi. Ægir var i dag staddur um 30 km norður af Kolbeinsey í góðu skyggni og varð ekki var við ís.
Kuldinn fór nú að bíta. Næturfrost gerðu vart við sig víða um land og sömuleiðis snjór. Ritstjóra hungurdiska er snjórinn minnisstæður. Einn morguninn var alhvítt niður í efsta hjalla Brekkufjalls við Borgarfjörð, en það er rétt rúmlega 400 metra hátt. Sömuleiðis var snjór ekki langt ofan við byggð við Hreðavatn. Ekki minnist ritstjórinn þess að hafa séð snjó svo neðarlega í fjöllum í júlí allar götur síðan. Tíminn segir af næturfrostum 20.júlí:
MB-Reykjavik, 18. júlí. Samkvæmt upplýsingum fréttaritara blaðsins á Suðurlandi hafa kartöflugrös víða farið þar illa síðastliðna þriðjudagsnótt [16.], en þá var næturfrost víða um Suðurland. Fréttaritari blaðsins á Akureyri segir frá því, að áður hafi kartöflugrös í Svarfaðardal víða farið illa. Eins og gengur og gerist, þegar væg næturfrost koma, skemmast kartöflugrös mjög misjafnlega mikið, þótt stutt sé á milli. Kemur þar ýmislegt til, s.s. vindur. Til dæmis munu kartöflugrös yfirleitt hafa farið mjög illa á Hvolsvelli, sumstaðar eru þau algerlega fallin. Aftur á móti sagði Jóhann Franksson á Hvolsvelli, að grös hjá honum hefðu mjög lítið skemmst. Hann kvað aðeins sjá lit á einstaka stað á kornakrinum; efstu laufin hefðu rétt gulnað, en um skemmdir væri ekki að ræða. Í Þykkvabænum munu engar skemmdir hafa orðið og ekki austur i Mýrdal. Í Holtunum munu einhverjar skemmdir hafa orðið og talsverðar skemmdir í uppsveitum Árnessýslu, t.d. Biskupstungum og Grímsnesi, og er óttast, að þær séu það miklar að þær komi talsvert niður á vexti. Aðfaranótt 10. þ.m. var næturfrost á Dalvík og skemmdist kartöflugras þar þá talsvert, en nokkrum nóttum síðar kom svo enn frost og þá skemmdist grasið enn meir. Einnig munu hafa orðið talsverðar skemmdir inni í Svarfaðardal, einkum vesturkjálkanum. Á Svalbarðsströnd og í Saurbæjarhreppi munu engar skemmdir hafa orðið.
Ísinn virtist loks horfinn. Tíminn 21.júlí:
MB-Reykjavík, 20. júlí. Svo virðist nú að ísinn fyrir Vestfjörðum hafi lónað frá landinu aftur. Blaðið átti í nótt tal við Jóhann Pétursson, vitavörð á Hornbjargi og sagðist hann engan ís hafa séð undanfana daga. Í gærkvöldi var þar um 30 km skyggni og engan ís að sjá.
Þann 20.júlí var sólmyrkvi - raunar aðeins um 50 prósent deildarmyrkvi hér á landi - en ritstjóri hungurdiska hafði samt væntingar - rafsuðuhjálmur var nánast innan seilingar. En því miður var alskýjað og ekkert sást - gerði reyndar leiðinda norðaustan- og norðankast - Veðurstofan kannski óþarflega hógvær í vindhraðaspánni.
Tíminn segir frá foktjóni og skriðuföllum þann 23.:
PE-Hvolsvelli, 23. júlí. Miklir heyskaðar urðu í Fljótshlíðinni og undir Eyjafjöllum í rokinu um helgina ,sem kom óvænt. Fauk hey, bæði laust og úr göltum og munu sumir bændur hafa misst á annað hundrað hesta af heyi. Rokið skall á um miðnættið á sunnudagsnóttinni [21.]. Margir bændur áttu flatt hey, sem farið var að þorna, og því laust fyrir. Til dæmis hafði Sigurður á Barkarstöðum slegið stóra spildu á laugardaginn og áætlar, að á henni hafi verið um 300 hestar. Úr því telur hann að hafi fokið um helmingur, og skúr, er kom seinni partinn í gær, hafi bjargað því, að ekki fór allt. Þá fauk einnig víða hey úr göltum og munu frá 50 hestum og upp að hundrað hafa tapast á allmörgum bæjum, bæði í Fljótshlíðinni og undir Eyjafjöllum. Það var ekki fyrr en í gærkvöldi, sem veðrið gekk niður. Áttin var austlæg eða norðaustlæg, en þær áttir eru sem kunnugt er mjög slæmar hér um slóðir. Margir bændur hér um slóðir eru mjög gramir yfir því, að veðri þessu var ekki spáð fyrr en það var að skella á og voru menn því mjög óviðbúnir, en miklu magni hefði mátt bjarga, ef bændur hefðu reiknað með því.
FB-Reykjavík, 22. júlí. Í kvöld bárust þær fréttir til Siglufjarðar, að aurskriður hefði fallið á Siglufjarðarveginn og myndi þurfa að fara og hreinsa hann. Í nótt sem leið byrjaði að hríða í fjöllin og snjóaði þar enn um kvöldmatarleytið í kvöld. Á Siglufirði sjálfum var ausandi rigning og þar hafði verið ofsarok í allan gærdag. Búist var við því, að kólnaði veðrið, svo nokkru næmi mundi þegar fara að hríða, því úrhellið var svo mikið.
Skálholtshátíð var haldin þessa helgi [21.júlí], hin nýja kirkja var vígð. Gekk sæmilega þegar upp var staðið. Morgunblaðið segir frá 23.júlí:
Veðurhorfur drógu mjög úr aðsókn að Skálholti á vígsludegi hinnar nýju dómkirkju. Nóttina fyrir gerði aftakarok og rigningu, og hættu því margir við að heimsækja Skálholtsstað af þeim sökum. Er blaðinu kunnugt um að margir Reykvíkingar hættu við að fara, en sátu í þess stað heima og hlustuðu á athöfnina í útvarpi. En eftir að vígsluathöfnin hófst í Skálholti, féll ekki dropi úr lofti og birti til er á daginn leið, þótt rok væri enn mikið. Varð því umferð jöfn og stöðug allan daginn, menn komu, stóðu stutt við og fóru. Áætlar lögreglan að 78000 manns hafi komið í innan við 2000 bílum. Urðu því engir erfiðleikar í umferðinni. ... Um nóttina hafði fólk gist í 5060 tjöldum og nágrannagististaðir eins og Laugarvatn voru löngu upppantaðir vegna hátíðarinnar. Margir áttu erfitt með að hemja tjöldin um nóttina og einnig síðari hluta dags, þegar skyndilega herti storminn. Fór þá meðal annars hið stóra hjálpartjald skátanna og póstmenn urðu að taka niður sitt tjald og flytja starfsemina út í hjólhýsi, sem þeir höfðu meðferðis. Einnig áttu kvenfélagskonur, sem stóðu fyrir veitingum, í mesta basli með sitt gríðarstóra veitingatjald, stór rifa kom á þakið, fækka varð gasvélum og eftir mikinn barning voru fimm bílar fengnir til að halda í stögin. Höfðu veitingakonur búist við meiri mannfjölda og áttu stafla að óseldu kaffibrauði og öðrum veitingum í lokin.
Akranesi, 22.júlí. Bændur í Skorradal voru s.l. laugardag búnir að hirða í hlöðu einn þriðja af fyrri slægju. Þar hefur rignt flesta daga vikunnar eitthvað og tafið þurrkinn. Er það vinningur vegna háarsprettunnar, þó minni sé hann vegna þess, hve tíð er köld. Aðfaranótt laugardags gerði frost í dalnum, svo að kartöflugras féll.
Dagarnir 23. og 24. júlí urðu einhverjir hinir köldustu sem við vitum um á þessum tíma árs. Kortið sýnir veðrið kl.9 að morgni þess 23. Hiti kringum 1 stig á Ströndum og víða ekki nema 2 til 4 stig um landið norðanvert, rétt ofan frostmarks á Grímsstöðum á Fjöllum. Ekki nema 5 stig í Reykjavík. Lágmarkshiti í Reykjavík var ekki nema 1,4 stig í Reykjavík aðfaranótt 25.júlí og 3,3 stig aðfaranótt þess 15. Fyrri talan er sú lægsta sem vitað er um í júlí í Reykjavík frá upphafi samfelldra lágmarksmælinga 1920 og reyndar líka lægri en þær eldri lágmarksmælingar sem til eru frá mæliskeiði dönsku Veðurstofunnar í Reykjavík. Í þessu kuldakasti kom ein frostnótt bæði á Hólmi fyrir ofan Reykjavík og á Þingvöllum. Harla óvenjulegt.
Tíminn segir frá hretinu í pistlum 24.júlí:
IK-Siglufirði, 23.júlí. Í gærkvöldi og nótt fennti á Siglufirði og fyrri hluta dags í dag, en síðan fór að bleyta. Um klukkan 9 i morgun var stöðugur éljagangur, og var þá allt orðið grátt og ökklasnjór allt niður í hlíðarlöggina. Þegar líða tók á daginn varð snjórinn blautari og rann hann um leið og hann kom niður. Áætlunarbíllinn lagði af stað frá Siglufirði í morgun, og fór ýtan á undan honum. Ýtan hefur enn ekki komið aftur, og mun bíllinn hafa komist heilu og höldnu yfir skarðið. Mjólkurbíllinn frá Sauðárkróki komst hingað einnig í dag, en aðrir bílar hafa ekki faríð yfir skarðið, enda ekkert vit fyrir lága bíla eða driflausa að leggja út i slíka tvísýnu.
GB-Reykjavík, 23. júlí. Í hvassviðrinu á sunnudaginn [21.] var lögreglan í Kópavogi kvödd í vesturbæinn, þar sem þakplötur voru farnar að fjúka af húsi. Hús þetta er í smíðum á Kópavogsbraut 94, og losnuðu þar nokkrar plötur af þaki og fuku til jarðar að næsta húsi. Tókst að handsama þær áður en af þeim hlytust spjöll.
Tíminn heldur áfram 25.júlí:
MB-Reykjavík, 24.júlí. Síðastliðinn rúman hálfan mánuð hefur tíð verið köld hérlendis, einkum um norðanvert landið, og mun óhætt að fullyrða, að nú sé langt síðan slíkt kuldakast hafi komið hérlendis á þessum árstíma. Hefur kuldinn þegar valdið talsverðu tjóni, m.a. á kartöflugrasi, eins og sagt hefur verið frá hér í blaðinu, og haldi þessu áfram, má búast við, að það komi einnig niður á sprettu háar og jafnvel kornrækt norðanlands. Það var upp úr 8.júlí, sem brá til hinnar þrálátu norðanáttar, sem síðan hefur haldist hérlendis. Hafa henni yfirleitt fylgt óþurrkar norðanlands og hefur hitastig þar stundum heilu dagana verið rétt yfir frostmarki með slydduhríð niður í byggð og snjókomu á fjöllum. Má geta nærri hver áhrif slíkt veðurlag hefur á jarðargróður. Hér sunnanlands hafa þurrkar fylgt norðanáttinni eins og venjulega, en kaldur hefur vindurinn oft verið og hitinn á nóttunni stundum farið niður undir frostmark og niður fyrir það. Hafa hér sunnanlands orðið skemmdir á kartöflugrasi. Enn er oft snemmt að segja til um það, hver meðalhiti mánaðarins verður, og við skulum vona, að síðustu dagarnir geri þar bragarbót, en Jónas Jakobsson, veðurfræðingur sagði við blaðið í dag, að ef ekki brygði fljótlega til hins betra, væru allar horfur á því, að þessi mánuður yrði einn kaldasti júlímánuður um langt skeið, þótt byrjunin hefði verið góð.
Morgunblaðið fer hring um landið 25.júlí:
Morgunblaðið hringdi í gær til sjö manna víðsvegar um landið og innti þá frétta af veðurfarinu, enda tala menn nú ekki um annað öllu meira en kuldakastið. Einnig ræddi blaðið snöggvast við Jón Eyþórsson veðurfræðing. Honum fórust svo orð: Undanfarinn hálfan mánuð hefir verið þráleit norðanátt hér á landi og þó einkum mætt á norðanverðu landinu með úrkomu og kalsaveðri. Annað slagið hefir snjóað í fjöll, Og síðast í gærmorgun var snjókoma og eins stigs hiti á Hveravöllum. Sunnanlands hefir veður verið bjartara og oftast nær þurrt, þó að nokkrar fjallaskúrir hafi stungið sér niður hér og hvar. Hlýjast og best hefir veður jafnaðarlega verið í Skaftafellssýslum. Nú telur Veðurstofan, að norðanáttin sé að ganga niður og gerir ráð fyrir batnandi veðri um allt land.
Helgi Arason á Fagurhólsmýri sagði, að í Öræfum hefði að undanförnu verið góð tíð og ekki kalt. Síðustu tvo dagana hefði meira að segja verið ljómandi blíða og sólskin. Í fyrri viku brá reyndar til óþurrka nokkra daga en heyskapur hefur gengið ágætlega. Jónas Pétursson, alþingismaður, sem staddur var á Seyðisfirði, sagði m.a.: Undanfarnar vikur eða röskan hálfan mánuð hefir verið kuldatíð hér á Austurlandi. Óþurrkar hafa verið eftir því, en ekki stórfelldar úrkomur. Hins vegar hefir snjóað til fjalla oft á þessum tíma, en seint spratt, og því slógu færri en þurft hefðu í góðu tíðinni í byrjun júlí. Liggur taða þvi enn á túnum og spillir fyrir háarsprettu.
Sigurjón Jónsson á Vopnafirði sagði, að þar um slóðir hefði að undanförnu verið andstyggilegt veður, ein versta tíð, sem menn þar muna um þetta leyti árs Síðasta hálfan mánuð hefur ekki tekið snjó úr fjöllum og verið linnulaus norðaustan- og norðanstormur. Í fyrrinótt og nótt snjóaði á Fossheiði, en það hefur ekki orðið til að tálma umferð. Í síðustu viku komu tveir þurrir dagar, sem bændur notuðu almennt til að slá, en þeir eru ekki enn farnir að ná upp tuggu, heyið liggur aðeins og hrekst. Jóhannes Sigfinnsson á Grímsstöðum í Mývatnssveit sagði, að þar um slóðir hefði undanfarið verið hin mesta ótíð. Hitinn sjaldan verið meiri en 2 stig, Í dag hefði þó farið hlýnandi og hitinn komist í 4 stig. Stöðug norðanátt hefði verið og úrkoma, án þess þó að hægt hefði verið að tala um stórrigningar. Áður en ótíðin byrjaði voru bændur langt komnir með heyskapinn, svo að bændur í Mývatnssveit eru betur settir en bændur víðast hvar á Norðurlandi. Silungsveiði í Mývatni hefur verið sæmileg, nema hvað hvassviðri hefur verið svo mikið síðustu daga, að tæpast hefur gefið á vatnið Á morgnana hefur verið snjór niður í fjallarætur, en tekið upp fyrir sólbráð yfir daginn. Bændur láta veðrið lítið á sig fá og snúa sér að öðrum störfum, meðan á ótíðinni stendur, en veðrið kemur verst niður á ferðafólkinu, sem hefur naumast tíma og getur tæpast hreyft sig út fyrir dyr.
Björn Jónsson i Bæ á Höfðaströnd sagði, að i Skagafirði hefði verið norðan stormur, úrhellisrigning utarlega í firðinum, inn undir Hofsós, en inni í firði hefði verið þurrt veður. Snjór væri í fjöllum og í morgun hefði verið snjór niður undir bæi. Heyskapur í Skagafirði gekk vel, þar til fyrir hálfum mánuði.
Högni Torfason á Ísafirði sagði að þar væri ágætis veður og sólskin, og hefði farið lygnandi í dag, komið nærri logn á sjötta tímanum. Þó væri heldur kalt í veðri, snemma á morgnana hefði verið 34 stiga hiti en hlýnað meðan sólar hefði notið. Högni kvaðst vera nýkominn sunnan úr landi, og hefði í Dölum og í Barðastrandarsýslu verið talsverður snjór í fjöllum, og þar hefði greinilega verið mikið hvassviðri og hey fokið á mörgum bæjum. Í gær hefði hann lent í bleytukafaldi á Dynjandaheiði, en snjór hefði alveg tekið upp á Breiðadalsheiði. Afli hefur undanfarið verið tregur, en glæðst síðustu tvær vikur, þegar á sjó hefur gefið.
Í samtali við blaðið sagði Kristófer í Kalmanstungu í gær, að undanfarnar vikur hefði verið mikill kuldi þar og snjóað oftsinnis niður undir tún. Í fyrrakvöld hefði t.d. verið eins stigs hiti, og snjór var á túni í gærmorgun, en kafald til fjalla.
Akranesi 24. júlí Í fyrrinótt, aðfaranótt þriðjudags, gránaði Skarðsheiði ofan í miðjar hlíðar. Á þriðjudagsmorguninn gerði él og sást með berum augum, að heiðin var hvítari eftir. Oddur.
Tíminn segir 26.júlí frá því að Öskjuvatn hafi mælst dýpsta stöðuvatn landsins, og bætir við fregnum úr hrakviðrinu.
BÓ-Reykjavík, 25.júlí. Á sunnudagsnóttina [21.] fuku steypumót af 160 fermetra hlöðu í Úthlíð í Skaftártungu. Var alveg búið að ganga frá mótunum til steypu, en þau voru spýtnahrúga á sunnudagsmorguninn. Búið er að ganga frá mótunum í annað sinn.
Tíminn segir 28.júlí tíðarfregnir af Ströndum:
GPV-Trékyllisvík, 27.júlí. Hér hefur verið hret síðast liðinn hálfan mánuð og hiti oft aðeins um frostmark. Oft hefur snjóað í fjöll. Mánudag, þriðjudag og miðvikudag síðastliðinn snjóaði alveg niður að láglendi. Í gær kom svo hláka og svo hlýtt varð í veðri að hægt var að vera úti vettlingalaus. Viðbúið er að það sé aðeins svikahlé. Sláttur hófst hér fyrir 20. þ.m., en tún eru svo snögg, að þau verða ekki slegin með vélum nema að mjög litlu leyti.
Síðustu viku júlímánaðar voru suðlægar áttir ríkjandi, oft var nokkuð hvasst. Morgunblaðið segir af foktjóni í pistli 28.júlí:
Í hvassviðrinu á föstudagskvöld [26.] hrundi hluti einnar álmu nýrrar skólabyggingar á Digranestúni i Kópavogi. Unnið hefur verið að þessari byggingu í sumar og átti að taka þrjár kennslustofur í notkun upp úr áramótum. Skólahúsið verður samsett úr nokkrum einnar hæðar álmum, sem tengdar verða saman með göngum. Veggirnir eru hlaðnir og stóðust þeir ekki vindhviðurnar, sem um þá næddu í fyrrakvöld, enda höfðu þeir engan stuðning og voru ekki búnir að ná þeirri hörðnun, sem nauðsynleg er.
Þann 30. og aðfaranótt 31. fór allkröpp lægð norður um vestanvert landið. Tíminn segir frá hvassviðri í pistli 1.ágúst:
KW-Vopnafirði, 31.júlí. Í gærkveldi [30.] gerði hér ofsaveður af suðri og suðvestri og urðu miklir heyskaðar á flötu heyi. Sumstaðar hefur heyið sópast svo burtu, að þar sem heyflekkir voru er eins og vel rakað. Mesti heyskaði á bæ, það ég hef frétt, er á þriðja hundrað hestar. Seinni partinn í gær fór að hvessa hér af suðri og suðvestri og var orðið mjög hvasst á sjöunda tímanum. Mesta hvassviðrið stóð í 23 tíma, en lægði síðan nokkuð. Þó var hvasst fram undir morgun. Miklir heyskaðar urðu í veðri þessu, einkum á flötu heyi. Á Refsstað munu milli tvö og þrjú hundruð hestar hafa tapast og á næstu bæjum við Refsstað, Egilsstöðum og Engihlíð á annað hundrað hestar. Þá hafa einnig orðið miklir heyskaðar á Vindfelli, Krossavík, Eyvindarstöðum og Fagradal og ef til vill víðar.
Morgunblaðið segir sömu fréttir 1.ágúst:
Vopnafirði 31.júlí: Síðdegis í gær gekk hér i sunnan rok, með þeim afleiðingum að hey fuku í suðurhluta sveitarinnar eða nánar til tekið frá Síreksstöðum út í Fagradal. Heymagnið sem fauk mun hafa verið frá nokkrum tugum upp í 100 hestburðir á bæ. Eitthvert tjón mun hafa orðið á Refsstað. Þar fauk af 56 hekturum. Páll bóndi á Refsstað fullyrti að á síðustu 150 árum hafi aldrei komið annað eins veður á þessum árstíma. Sama sagði Frímann bóndi í Krossvík. Taldi þetta líkast þeim veðrum, sem koma stundum síðari hluta septembermánaðar. Hann missti ca. 40 hestburði, sem fuku í læk, er stíflaðist af heyinu og flutti það til sjávar eða gjöreyðilagði það. Ekki taldi Páll mögulegt að segja með nokkurri vissi hvað heytjónið væri mikið, því töluverðu verður hægt að bjarga af því heyi, sem settist í girðingar og önnur afdrep. Mun það fara eitthvað eftir veðrinu, því ef rignir í heyið svona, verður það ónýtt. Til dæmis um veðurofsann má geta þess, að jeppabíll, er var á ferð inn með fjöllunum, varð að stansa í eina klukkustund á leið sinni yfir Krossavíkuröxl, því stormurinn virtist ætla að lyfta honum upp, ef reynt var að keyra hann. Þegar gekk í rokið, voru tveir litlir fiskibátar á sjó 2 tonna trilla og 5 tonna dekk bátur. Trillan komst í landvar í svokallaðri Drangsneshöfn og lá þar af sér mesta rokið. Kom hún ekki í höfn fyrr en í nótt og var farið að óttast um hana. Hinn báturinn hleypti í veðrinu til Bakkafjarðar. S.J.
Engin blöð komu út 2. til 14.ágúst vegna verkfalls. Mikið var um verkföll sem höfðu áhrif á blaðaútgáfu á árinu 1963. Tilviljun olli því að ekki var mjög mikið um veðurtíðindi meðan á verkföllunum stóð. Ágústmánuður varð tiltölulega hagstæður og heyskapur gekk allvel, enda var hann í flokki þurrustu ágústmánaða bæði um vestan- og norðanvert landið og veður til þess að gera meinlaust. Illviðri um verslunarmannahelgina spillti þó þjóðhátíð í Eyjum. Alldjúp lægð kom að landinu úr suðvestri þann 2. Morgunblaðið segir frá 15.ágúst:
Um verslunarmannahelgina gerði versta veður í Vestmannaeyjum, og varð að aflýsa þjóðhátíðarhöldunum í Herjólfsdal að mestu. Á föstudag [2.ágúst] fór fram guðsþjónusta í dalnum, og lúðrasveit lék, en um hálf tólfleytið um kvöldið varð að aflýsa frekari hátíðahöldum þar, og fluttu menn sig þá niður í bæ, þar sem þjóðhátíðin fór fram að mestu. Svo hvasst var í Herjólfsdal, að tjöld fuku víða og a.m.k. 3 tjöld fuku á haf út. Fólk þyrptist til lögreglunnar í Vestmannaeyjum vegna húsnæðisvandræða og tókst lögreglunni að greiða úr vandanum. Var fólkinu komið fyrir í herbergjum fiskvinnslustöðvanna, á barnaheimili, sem stóð autt um helgina, og einnig á einkaheimilum úti í bæ. Tekið var til bragðs að stíga dansinn í samkomuhúsum bæjarins, og stóð þar dansleikur til kl.4 á sunnudagsmorgun [4.].
Tíminn fer yfir heyskap og heyskaparhorfur 17.ágúst:
HB-Reykjavík, 16. ágúst. Samkvæmt upplýsingum Halldórs Pálssonar búnaðarmálastjóra, eru allar horfur á því, að heyfengur verði með minna móti í sumar, en hins vegar eru þau hey, sem þegar hafa náðst, yfirleitt góð og lítið hrakin. Undanfarið hefur verið þurrkur víðast um land og hey náðst lítið hrakin. Yfirleitt má telja, að sláttur hafi gengið sæmilega um allt land. En hins vegar er háarspretta léleg, bæði vegna þurrkanna og hinna miklu kulda. Kvað Halldór útséð um það að hvernig svo sem viðraði það sem eftir er sumars, myndi heyfengur verða undir meðallagi, en gæðin myndu hins vegar verða með betra móti. Halldór kvað ástandið verst með sprettu á norðanverðum Ströndum og verst í Árneshreppi. Sér hefði nýlega verið sagt, að spretta væri þar svo gott sem engin og mjög slæmt útlit. Þá sagði Halldór Pálsson einnig, að útlitið væri slæmt með kartöfluuppskeruna. Kartöflugrös hefðu fallið í öllum landsfjórðungum í frostunum í sumar. Að vísu færi mjög mikið eftir því, hvernig haustið yrði, en eins og sakir stæðu nú, væri ekki hægt að segja, að útlitið væri gott.
Morgunblaðið segir ítarlega af heyskap 20.ágúst:
Heyskapur í sumar verður að líkindum í meðallagi. Illa leit út um slátt um tíma, en síðustu daga hafa komið nokkrir þurrkdagar víðast um land og ber fréttariturum þeim, sem Morgunblaðið talaði við í gær, saman um að þessir þurrkdagar hafi breytt útlitinu verulega. Vegna kuldanna má heita léleg háarspretta um allt land. Hér fara á eftir umsagnir nokkurra fréttaritara blaðsins um heyskapinn í sumar:
Búðardal 19.ágúst. Heyskapur er farinn að ganga sæmilega núna. Hér kom mjög erfiður kafli, en síðasta vika var sæmileg og nú er þurrkur. Spretta var góð bæði á túnum og úthaga, sérstaklega var vel gróinn úthagi upp í háfjöll. Vegna þurrkakaflans núna og ef svo heldur áfram má búast við að heyskapur verði sæmilegur. F.Þ.
Þingeyri, 19. ágúst. Dásamlegt veður er hér, hlýtt bæði í gær og í dag. Sláttur gengur ágætlega og eru bændur yfirleitt búnir að hirða fyrri slátt, enda hefur ágætur þurrkur verið alla s.l. viku. Tún voru ágætlega sprottin fyrir fyrri slátt, en vegna kulda er búist við að háin spretti illa og seinni sláttur verði í minna lagi. Magnús.
Staðarbakka, 19. ágúst. Góð veðrátta hefur verið í Miðfirði að undanförnu og í gær var ágætur þurrkur. Hey eru komin inn að mestu leyti og það sem enn er úti er orðið þurrt. Illa lítur út með hána vegna kulda, sem hafa verið, það fennti meira að segja í fjöll fyrir nokkru. Benedikt.
Víðidalstungu, 19.ágúst. Sláttur hefur gengið heldur seint í Vestur-Húnavatnssýslu, enda hefur tíð verið óhagstæð. Góður þurrkur var hér í 34 daga og þá náðu margir töluverðu inn af heyjum. Segja má í heild, að ástandið sé vandræðalaust, en það er þó verra á nesjum en innsveitum. Fyrri slætti er að ljúka þar sem best gengur. Spretta var sæmileg, en fremur lítil spretta er í hánni.
Sauðárkróki, 19.ágúst. Þurrt veður hefur verið undanfarna 23 daga víðast hvar í Skagafirði og hafa bændur náð inn ansi miklu. Fram til þessa hefur ástandið verið víða slæmt. Á ytri hluta Skagans var ekki komið strá í hlöðu fyrir 4 dögum. Þar voru eilífar þokur, en nú hefur þurrt veður verið a.m.k. Frammi í Skagafjarðardölum er heyskapur orðinn sæmilegur. Jón.
Bæ, 19. ágúst. Á Höfðaströnd hefur verið heldur tafsamur heyskapur, en þó hafa hey ekki hrakist. Margir bændur eru búnir að slá og eiga mikið úti af þurru og hálfþurru Heyi. Þoka er þessa dagana og lítið hægt að þurrka. Háarspretta er misjöfn. Þeir sem báru á snemma fá sæmilega sprettu. Ég býst við, að náist það hey sem nú er úti verði vel meðalheyskapur. Björn.
Breiðdalsvík, 19.ágúst. Sláttur gekk seint hér í sveit á tímabili vegna slæms og kalds veðurs, en það hefur verið ágætt síðustu dagana. Flestir eða allir bændur hafa nú getað náð inn heyjum eftir fyrri slátt, en verr lítur út með síðari slátt, því háin hefur sprottið seint. Spretta var ágæt fyrir fyrri slátt og þeir sem byrjuðu fyrstir að slá náðu miklu inn, því tíð var góð fyrr í sumar. Mikið hefur verið um véla- og bílakaup í Breiðdalnum. Hafa a.m.k. 6 dráttarvélar verið keyptar og einir 12 bílar. Afkoman virðist því vera góð. Páll
Þorlákshöfn, 19. ágúst. Sláttur hefur gengið ágætlega í Ölfusinu í sumar. Nokkrir bændur eru búnir að hirða allt sitt hey en aðrir eiga eftir seinni slátt. Spretta var ágæt og náðu bændur heyjum óhröktum. Veðurfarið hefur verið mjög sæmilegt, sólskin oft og tíðum. Magnús.
Morgunblaðið heldur áfram að lýsa hagstæðri tíð 23.ágúst:
Hjá Klemenz sprettur kornið Já, ekki er nú hlýtt, segir Klemenz á Sámsstöðum, þegar hann kom inn frá að taka veðrið eitt kvöldið í sumar, hálf áttunda gráða, þetta hefur verið einkennilegur dagur hvað veðurlag snertir, hitamismunur næstum 10 stig, enda hefur skipst á sterkt hitaskin og hálfgerðar krapadembur".
Þúfum, 22. ágúst:. Síðustu viku hefir brugðið til hinnar bestu veðráttu við Djúp, ágætur heyskapur dag eftir dag. Má telja að nær allstaðar sé fyrri sláttur kominn í hlöðu vel hirtur með ágætri nýtingu og heyskaparhorfur því stórbatnað. Geti svo farið ef svipuð tíð héldist að heyskapur yrði í meðallagi. P.P.
Morgunblaðið er enn í heyskapargír 30.ágúst:
Eyjafirði, 26. ágúst. Árferði hefur verið fremur hagstætt til landbúnaðar hér í Eyjafirði í sumar. Það voraði vel, og var hvergi kal í túnum, enda var grasvöxtur alls staðar mikill og jafn. Þó spruttu illa tún, þar sem jarðvegur er þurr og harður eða mjög grunnur, en það er óvíða hér um slóðir. Nokkuð spratt þó seint, og gæti það hafa stafað af því, hve frost var mikið í jörðu í vor, eftir þennan mjög svo snjólétta vetur. Heyskapur byrjaði því ekki af fullum krafti, fyrr en um mánaðamótin júní og júlí, en þá voru þurrkar ágætir hvern dag síðustu viku júní og fyrstu viku júlí. Allmikið náðist því af heyjum þennan hálfa mánuð, einkum hjá þeim, sem gátu byrjað fyrir mánaðamót. Viku af júlí gekk svo í norðan kulda og óþurrkatíð í hálfan mánuð, og snjóaði þá jafnvel niður í byggð. Þetta kuldakast olli því, að nýslegnu túnin hvítnuðu upp og náðu sér ekki með sprettu, og er því háarspretta yfirleitt mjög léleg. Einnig kippti þetta úr kartöfluvexti, og dæmi voru til, að sæi á kartöflugrasi. Má því verða hagstæð tíð fyrir kartöflusprettu fram um miðjan september, ef uppskera á að verða sæmileg. Síðan í júlílok hefur svo verið afburða heyskapartíð, og er heyskap víða að verða lokið. Nýting heyja er mjög góð og engin tugga hrakin. V.G.
Morgunblaðið segir af ísflugi 31.ágúst:
[Ísflug 29.ágúst] Tjáði Jón Eyþórsson veðurfræðingur blaðinu í gær að ísröndin væri 42 sjómílur út af Straumnesi og væri það nær en vanalegt væri á undanförnum árum á þessum árstíma. Hér er um að ræða ísrek, smáa jaka og íshellur en einstaka borgarísjakar eru inn á milli. Sumstaðar er rekið mjög gisið eða ekki nema 1/10 af yfirborði sjávar þakið ís. Þess á milli er rúmlega helmingur sjávar undir ís og sumstaðar í jaðri ísbeltisins, sem skagar suður með Vestfjörðum, eru íshellurnar svo þéttar að varla er bil á milli. Ísinn liggur einkennilega þar sem er mikill skagi suður með Vestfjörðum en auður sjór vestan hans.
Flestar fregnir af Ströndum þetta árið voru heldur neikvæðar. Tíminn 7.september:
GPV-Trékyllisvík, 6. september. Í sumar hefur tíðarfar hér verið óvenjulega kalt og hretviðrasamt. Hefur hvert illviðrishretið rekið annað með stuttu millibili. Frá miðjum júní fram til 26. var óslitinn norðangarður með stórviðri, og snjóaði ofan í byggð suma dagana. Í því veðri fór fé illa og lítið spratt. Seinustu daga júní hlýnaði og gekk til vestanáttar. Hélst það fram til 11. júlí. Á þessu tímabili var þurrkur svo mikill, að víða brann af harðvellistúnum. Hafísinn lónaði skammt undan ströndinni og andaði napurt, ef hafgolu gerði. Fyrir miðjan júlí brá aftur til norðanáttar og kólnaði í veðri. Stóð það fram til 25. júlí. Þennan tíma var hiti lítið yfir og um frostmark og næturfrost. Féllu þá kartöflugrös. Frá 19. til 24. júlí snjóaði flesta dagana svo snjór var niður á láglendi. Fram úr því brá heldur til batnaðar og glæddist spretta á túnum lítilsháttar. Síðan hefur verið ríkjandi austan- og norðanátt, kalt í veðri þokuslegið en stórillviðralaust. Vegna tíðarfars og mjög lélegrar grassprettu hófst sláttur ekki fyrr en 17.20. júlí. Spretta var afar léleg og sums staðar nær engin. Mikið hefur verið slegið með orfi og ljá vegna sneggju og hefur það tafið til muna. Allir hafa nú lokið túnaslætti, og má yfirleitt segja, að heyskapur sé mjög rýr svo að til vandræða horfi. Háaspretta er engin. Engjaheyskapur bætir ekki úr að ráði héðan af. Einhverjir, sem verst eru staddir munu hafa gert ráðstafanir að kaupa hey.
September var illviðra- og hretasamur. Tvö meginhret gerði. Það síðara var tekið fyrir í sérstökum pistli á hungurdiskum, kölluðum það leitahretið - og við endurtökum það ekki hér. Nærri hálfum mánuði áður gerði einnig slæmt hret. Það var þó bundnara við landið norðaustanvert, en var býsna slæmt: Tíminn segir fyrst frá 10.september:
Þegar líða tók á laugardagskvöldið [7.] færðist óveðrið út af Vestfjörðum nær landi og hvessti og rigndi á Vestfjörðum og síðan breiddist óveðrið yfir norðanvert landið og byrjaði að rigna þar og hvessa, og kólnaði um leið. Seinni partinn í gærdag [8.] var kominn 3 til 4 stiga hiti á láglendi, en hiti við frostmark í hæstu sveitum. Í morgun [9.] var hitinn svo orðinn um frostmark á Hólsfjöllum og snjóaði þar og mun alls staðar hafa snjóað í fjöll, því hitinn var aðeins frá 1 til 3 stigum við sjó. Óhemju rigning var á Máná á Tjörnesi, en þar mældist 60 mm úrkoma [reyndar 55,7 mm, en tæpir 100 á tveimur sólarhringum] frá kl.18 í gærdag til kl.9 í morgun og 40 mm [39,2 mm] á Raufarhöfn og á Staðarhóli [37,6 mm], en á Siglunesi var úrkoman 29 mm yfir nóttina. Austan til á landinu hefur nú dregið úr úrkomunni, en útlit er fyrir. að vott verði á grasi sunnanlands á morgun, að því er veðurfræðingar segja. Í allan dag hefur verið skafrenningur og snjókoma í Siglufjarðarskarði, og því ekki talið ráðlegt að ryðja skarðið, þar eð skafa myndi í förin jafnóðum. Lágheiðin til Ólafsfjarðar var að verða ófær í dag og sömuleiðis Möðrudalsöræfin. Fréttaritari blaðsins á Egilsstöðum skýrði frá því í dag, að þar væri kominn norðangarri, og snjóað hefði í fjöll. Akureyrarrútan sneri við á Jökuldalsheiði í morgun, en stórir bílar sitja þar fastir í snjó á Möðrudalsfjallgarði. Þá sagði hann einnig, að gránað hefði í Fjarðarheiði, en bílar kæmust þar hindrunarlaust og sama máli gilti um Oddsskarð.
Morgunblaðið segir einnig frá 10.september (úrkomutölurnar ekki nákvæmar):
Um helgina gekk mikil úrkoma yfir norðanvert landið með slyddu á láglendi og snjókomu í fjöllum, fyrir ofan 200 m hæð, svo heiðavegir urðu ófærir, einkum á Norðausturlandi og Siglufjarðarskarð lokaðist. Úrkoman var fádæma mikil, t.d. 60 mm. frá kl.18 á sunnudag til kl.9 í gærmorgun á Máná á Tjörnesi og 40 mm á Raufarhöfn og Staðarhóli í Þingeyjasýslu og hefur ekki mælst svo mikil í 14 ár. Veðrið kom inn yfir Vestfirðina á laugardag, hvöss norðaustanátt með úrkomu og kulda og stefndi suðaustur. Á sunnudag var komin talsverð rigning um norðanvert landið og það kalt að tók að snjóa í fjöll og í gærmorgun var 23 stiga hiti í lágsveitum og um frostmark á Grímsstöðum á Fjöllum og 1 stigs frost í Möðrudal. Siglufjarðarskarð lokaðist af snjó á sunnudagskvöldið, en áætlunarbílnum var hjálpað yfir í gærmorgun. Það hélt þó áfram að snjóa í skarðið í gær og var það orðið alveg ófært í gærkveldi. Hvítt var niður að sjó á Siglufirði. Lágheiðin milli Fljótanna og Ólafsfjarðar var orðin ófær smábílum í gær, en keðjufær stórum bílum. Á Hólsfjöllum, á Möðrudalsöræfum og í Mývatnssveit var 15 sm snjór í gærmorgun og hélt áfram að snjóa í gær. Ekki var vegurinn um Hólsfjöllin þó talinn ófær bílum. Reykjaheiði varð ófær bílum í gærmorgun, og leiðin til Raufarhafnar um Tjörnesið hefur verið lokuð um skeið vegna endurbyggingar í Hallbjarnarstaðagili, en einhverjir bílar munu þó hafa skrönglast þá leið frá Húsavík í gær. Fréttaritari blaðsins á Vopnafirði sagði að í fyrrinótt hafi snjóað niður undir bæi. Jeppabíll sem kom Hauksstaðaheiði í gærmorgun, fór í snjóskafla sem náðu upp að luktum. Ekki er vegurinn talinn ófær, en fréttaritarinn á Raufarhöfn sagði að það væri ekki snjór en svo mikil úrkoma að vatnsmælirinn hefði ekki sýnt svo mikla úrkomu í 14 ár. Snjór er á Reykjaheiði og Axarfjarðarheiði, en bílar hafa farið fyrir Tjörnes. Fréttamenn blaðsins sem voru staddir á Lágheiði í gær, komust þar yfir á Volkswagen, en með því að ýta bílnum nær alla leiðina. Þeir sögðu að snjór væri niður að sjó í Fljótum og inn fyrir Hofsós, en snjólaust og rigning á Sauðárkróki. Fréttaritarinn á Húsavík sagði í gærkvöldi, að þar væri snjór niður undir byggð, jörð væri hvít í Reykjahverfinu og ökklasnjór í Axarfirði. Væru menn uggandi um að slík krapa- og bleytuhríð yrði fé á afrétti erfið.
Þá fauk Skoda-bíll undir Ingólfsfjalli síðdegis á sunnudag [8]. Sviptivindar slæmir voru undir fjallinu og fór bíllinn á hvolf á veginum. Fólk sakaði ekki.
Morgunblaðið heldur áfram 12. september:
Bæ, Höfðaströnd, 11. september. Hér hefur rignt og snjóað frá því á laugardag [7.] og er allt á floti niður við sjóinn, en ökkladjúpur snjór í dölunum og upp við fjallið. Töluverð hey hafa verið úti og sums staðar standa bólstrar (sátur) hálfir í vatni. Í afréttunum er kominn þó nokkur snjór og í gær var farið fram eftir og sleppt niður fyrir afréttargirðingar mörg hundruð fjár, sem stóð niður við girðingarnar. Siglufjarðarskarð hefur annað slagið verið lokað en er opnað fyrir áætlunarbílnum með ýtu. Jafnvel eldri menn muna ekki eftir svo mikilli rigningu og úrkomu í svona langan tíma. Á túnum eru svo stórar tjarnir, að synda má í sumum þeirra. Björn
Húsavík, 11. september. Í Reykjahverfi hafa 5 kindur varið grafnar úr fönn eftir hríðarveðrið sem gekk yfir um helgina. Þó að í dag sé komið bjart veður blasa við bændum miklir erfiðleikar í sambandi við göngurnar, sem nú eru að hefjast. Vestan til á Reykjaheiði mun snjór vera einna mestur og það mikill, að umbrotafæri er fyrir hesta. Bændur í Reykjahverfi, sem fara í göngur í nótt og vanir eru að fara á hestum, verða nú að fara gangandi í fjárleitina. Í dag hefur jarðýta unnið að því að opna sæmilega rekstrarleið fyrir fé af austanverðri Reykjaheiði og úr Kelduhverfi, en snjórinn minnkar eftir því sem fjær dregur Reykjahverfi. Fé úr Kelduhverfi hefur oftast undanfarin ár verið flutt á bílum til Skógarréttar, en þar sem bæði Reykjaheiði og Tjörnesvegur eru ófær bilum verður að reka féð. Fréttaritari.
Tíminn segir frá göngum og fjárheimtum 13.september:
FB-Reykjavík, 12. september. Undangöngur eru hafmar í Þingeyjarsýslu, og eru það fyrstu göngur á landinu. Fóru Bárðdælir fyrir einum 4 eða 5 dögum fyrstir manna í göngur. Í fyrradag var farið í undanleitir úr Reykjahverfi og úr Aðaldal, og var farið austur á Reykjaheiði. Lagt var upp frá tveimur bæjum, Geitafelli í Aðaldal og Skarðaborg í Reykjahverfi, og ákveðið að fara austur í gangnamannaskálann á Þeistareykjaheiði. Frá Skarðaborg fór Þórarinn Jónsson bóndi, og lenti hann í slíkri ófærð að hann varð að snúa við. ... Reykdælingar og Húsvíkingar ganga vestanverða Reykjaheiði, og heimalönd Reykdælinga í dag, og rétta í Skógarrétt. Þeir urðu að fara hestlausir, því hestum er ekki við komið vegna snjóa. Gerð hefur verið slóð með ýtu til þess að reka féð eftir.
Eftir að norðanhretin gengu yfir komu nokkrir útsynningsdagar með eftirminnilegum haglhryðjum. Tíminn segir frá 14.september:
Um miðjan dag í gær [13.] gerði úrhellisrigningu og krapahríð í Reykjavík, svo mikla, að miðbærinn í Reykjavík hreinsaðist af fólki í verstu hryðjunni, og í búðadyrum stóðu hvarvetna óþolinmóðir og leituðu lags. Ræsin á malbikuðu götunum fylltust og vatnið flóði um götur og gangstéttir. Þegar slotaði og fólk fór að fara ferða sinna aftur, voru stórir pollar um allar götur og reyndi þá á langstökkhæfileika margra. ... Annars ar um allt Suðurland útsynningur i allri sinni dýrð.
KHJ Reykjavík, 11. september. Þurrkarnir í sumar hafa orðið þess valdandi, að votheyshlöður bnda standa nú víðast tómar, að því er Gísli Kristjánsson, ritstjóri Freys, sagði blaðinu í dag. Hann sagði, að aðeins einstaka bóndi mundi hafa haft þá reglu að heyja jafnframt í þurrhey og vothey. Héðan af mun bændum varla gefast tækifæri til að heyja 1 vothey, sem neinu nemur, og kemur það sér illa fyrir þá.
Fréttir bárust nú aftur af vatnsskorti (eftir sérlega þurran ágústmánuð - og vetur). Morgunblaðið 19.september:
Hafnarfirði. Eins og heyra mátti í Ríkisútvarpinu í gær, var fólk í bænum hvatt til að fara sparlega með vatn og láta ekki renna að óþörfu. Fékk blaðið þær upplýsingar í gærkvöldi, að það stafaði af þverrandi vatni í Kaldárbotnum í Kaldárseli, og ástæðan talin sú að síðastliðinn vetur hefði verið mjög snjóaléttur og nú þurrkasumar. Að vísu væri um nóg vatn að ræða í lóninu í Kaldárbotnum, en allmikið af því rynni niður um botn þess út í hraunið. Hefði það til dæmis lækkað um 2 sm nú síðustu 4 daga. Var hafist handa þegar í morgun með ýtum og er í ráði að byggja stíflugarð þvert yfir lónið, og vona menn þá að úr vatnsskortinum rætist. Mun það verk taka 23 daga. Vatnsskorturinn hefir einkum gert vart við sig i hinum nýju hverfum á Hvaleyrarholti og á Klausturhæðinni. Var blaðinu tjáð, að fyrir nokkrum árum (1954 eða 55) hefði vatnið í Kaldárbotnum lækkað að mun, en þá hafði ekki verið byggt á fyrrnefndum stöðum og vatnsskorturinn ekki komið að sök. Vona forráðamenn vatnsmála í Hafnarfirði að það takist að vinna bug á vatnsskortinum innan fárra daga, eins og fyrr segir, en biður fólk að spara vatnið á meðan eins og mögulegt er. G.E.
Morgunblaðið segir 21.september frá fyrra hretinu (það er kannski að einhverjir muni eftir hljómsveitinni sem fjallað er um):
Mývatnssveit, 11. september. Um síðustu helgi [7. til 8.] gerði hér versta veður. Á sunnudag rigndi mikið, um kvöldið kólnaði og fór þá að snjóa. Hélst snjókoman alla nóttina og fram eftir degi á mánudag. Var þá kominn allmikill snjór eða 15-20 sm jafnfallinn. Sum staðar urðu skemmdir á trjágróðri í görðum, t.d. í kirkjugarðinum á Skútustöðum. Þar sligaði snjóþunginn og braut tré og greinar. Víðar munu skemmdir hafa orðið, þó mér séu þær ekki allar kunnar. Enn fremur lentu menn í hrakningum og villum, þeir sem voru úti á mánudagsnótt. Fjórir menn héðan úr sveitinni, þ.e. Kóralhljómsveitin, fóru á laugardagskvöld norður á Þórshöfn og léku þar á samkomu. Á sunnudagskvöld spiluðu þeir svo á Sólvangi á Tjörnesi. Lagt var þaðan upp heimleiðis um kl.2 um nóttina. Vegna vegagerðar í Hallbjarnarstaðagili var vegurinn lokaður til Húsavíkur. Urðu þeir því að fara veginn fyrir Tjörnes um Kelduhverfi og Jökulsárbrú í Axarfirði. Þeir voru í fólksbíl. Þegar að Jökulsárbrú kom, náðu þeir stórum fólksflutningavagni frá Húsavík en í honum voru aðeins 2 menn. Strax og upp fyrir brúna kom, versnaði færðin mjög, enda feikna fannkoma, og varð að setja á keðjur. Gekk ferðalagið seint, enda farið að skafa í skafla. Þegar þeir komu að nýja veginum suður í Landsheiðinni, sást ekkert fyrir, villtust þeir á gamla veginn og brutust eftir honum 4 km eða þar til ekki varð komist lengra. Sökum snjódýpis var ekki nokkur leið að snúa bílunum við. Var því ekki um annað að gera en aka aftur á bak sömu leið og þeir komu Geta flestir skilið að hvílíkt hafi ekki verið þægilegt með höfuðið út um gluggann á móti veðrinu. Þetta tókst að lokum, en skilja varð minni bílinn eftir. Þessi villa á gamla veginum kostaði 7 tíma erfiði. Voru menn blautir og hraktir enda litt búnir af skjólfötum.
Morgunblaðið segir af ótíð 22.september:
Bæ, Höfðaströnd, 15. september. Undanfarinn hálfan mánuð hefur verið veruleg ótíð hér í Skagafirði. Stórrigningar á láglendi marga daga, en snjókoma til fjalla. Á afréttum hefur sett niður nokkra fönn, svo hleypa þurfti fé svo hundruðum skipti niður fyrir afréttargirðingar. Göngur eru að byrja hér í Skagafirðinum og lítur frekar illa út með að gangnamenn fái gott skyggni og færi. Sæti standa í vatni. Víða eru töluverð hey úti og standa sæti sumstaðar upp til miðs í vatni. Tæplega hafa bændur fengið meðalheyskap þetta sumar, sérstaklega þeir sem seint byrjuðu að slá, en varahluti í vélar vantaði svo tilfinnanlega í vor og sumar að stór bagi var að. Þó nokkrir skápar er nú þegar komnir í hey bænda, þar sem kýr hafa verið hýstar í óveðrunum. Þykir bændum það nokkuð snemmt.
Eins og áður sagði er nánar fjallað um illviðrið mikla 24. september og næstu daga á eftir í sérstökum pistli.
Október varð mjög umhleypingasamur og ollu stöku illviðri talsverðu tjóni, en þess á milli var allgóð hausttíð. Aðfaranótt 2. október gekk djúp lægð inn á Grænlandshaf. Rækilega hvessti á Snæfellsnesi, en aðrir landshlutar sluppu að mestu. Tíminn segir frá 3.október:
AS-Ólafsvík, 2. október. Gífurlegt hvassviðri af suðri gekk yfir Ólafsvík í nótt og morgun. Þakið fauk af nýju íbúðarhúsi í þorpinu, en plöturnar brutu glugga í næsta húsi og skemmdu innanstokksmuni, þak síldarverksmiðjunnar fauk að nokkru leyti, þak fór af nýju íbúðarhúsi í Fróðárhreppi, uppsláttur að verkstæðishúsi umturnaðist, og tveir bátar slitnuðu frá bryggju og rak upp. Sterkviðrið var mest frá klukkan 3 til 5, og einhvern tíma milli klukkan 3 og 4 fauk þakið af nýju íbúðarhúsi Þórðar Vilhjálmssonar hér í þorpinu. Járnplöturnar skullu á nýju íbúðarhúsi Runólfs Kristjánssonar, sem stendur þar næst, og brutu þrjá glugga með tvöföldu gleri í húsi Runólfs. Runólfur og kona hans voru á fótum, þegar járnið braut gluggann á svefnherbergi þeirra á annarri hæð og skall inn, en á neðri hæð voru unglingar í svefnherbergi, þar sem járnplötur komu inn um gluggann. Sem betur fór sakaði engan, en plöturnar stórskemmdu rúm og annan húsbúnað, og í stofunni skemmdust sófi, stóll og borð og gólfteppið. Þá urðu miklar skemmdir af vatninu, sem lamdist inn um brotna gluggana, og í morgun var heimili Runólfs eins og eftir loftárás. Þeir Runólfur og Þórður eru báðir með heimilistryggingar, en vafi leikur á, hvort þeir fá tjón sitt bætt. Þykir mönnum harla undarlegt og hart aðgöngu, ef svo verður ekki. Þá fauk þakið af nýju íbúðarhúsi í Tröð í Fróðárhreppi, en það var byggt upp eftir bruna í fyrra. Í Tröð býr Ragnheiður Skarphéðinsdóttir, ekkja, sem missti mann sinn í fyrra. Hluti af þaki síldarverksmiðjunnar fauk í veðrinu, og þar urðu skemmdir á mjöli, sem eftir er að kanna. Vigfús Vigfússon trésmiður, var nýbúinn að slá upp mótum fyrir nýju trésmíðaverkstæði skammt fyrir innan þorpið, en mótin féllu sem spilaborg, og var engin spýta uppistandandi í morgun. Vélbátarnir Baldur og Tindafell slitnuðu frá bryggjunni og rak upp, en þeir eru óskemmdir. Nýja hafnarmannvirkið skemmdist ekkert. Þetta er eitt mesta sunnan ofviðri, sem Ólafsvíkingar muna, en klukkan 10 í morgun var komið logn. Blaðið talaði við mann á Hellissandi í dag, en þar hafði ekki orðið tjón. Hins vegar var töluvert rok þar í nótt. Húnbogi Þorsteinssori i Grafarnesi sagði, að þar hefði verið stinningshvasst, en ekkert tjón.
Morgunblaðið segir 3.október af sama veðri:
Ólafsvík, 2. október. Síðastliðna nótt gerði hér afspyrnu rok af suðaustri og mun vindhraði hafa komist upp í 12 vindstig. Hér urðu talsverðir skaðar. Tveir bátar 1213 tonn að stærð slitnuðu frá hafnargarðinum og rak upp í fjöru. Ekki er enn vitað um skemmdir á þeim. Þá fauk þak af nýbyggðu íbúðarhúsi og þök af hafnarskúrnum og fleiri skúrum. Uppsláttur fauk um koll við hús, sem verið er að byggja og skemmdust mót talsvert. Í Fróðárhreppi fauk þak af nýju íbúðarhúsi á Tröð. Símasambandslaust var milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur um tíma, en veðrinu slotaði á 7. tímanum í morgun. Hjörtur.
Djúp lægð fór yfir landið þann 8.október, án tíðinda og meinleysið hélt áfram allt fram til þess 14. að leifar fellibylsins Flóru komu inn á Grænlandshaf. Hungurdiskar hafa áður gert grein fyrir lægðinni og verður það ekki endurtekið hér - en setjum þó inn nánari fregnir af tjóni sem veðrið olli. Það var ekki mikið og fyrst og fremst suðvestanlands. Olli lægðin ritstjóra hungurdiska nokkrum vonbrigðum - því talsvert hafði verið gert úr - Flóra hafði valdið miklum mannsköðum suður í Karíbahafi nokkrum dögum áður, einkum á Kúbu.
Tíminn segir frá 15.október:
BÓ Reykjavík, 14. október. Hvirfilvindurinn Flóra segir til sín hérlendis í dag og nótt. Flóra er nú á leiðinni norður um hafið milli Íslands og Grænlands, og klukkan þrjú í dag var lægðarmiðjan beint vestur af Snæfellsnesi. Flóra er nú mörg hundruð kílómetrar í þvermál, en var aðeins fáeinir kílómetrar í þvermál, þegar hún geisaði í hitabeltinu. Í dag reif hún járn af húsum í Reykjavík og Hafnarfirði, velti skúrum og umturnaði mótauppslætti. enda var styrkur hennar 1213 vindstig i mestu hrinunum í Reykjavík milli klukkan tólf og eitt. Af þessu má gera sér í hugarlund hvernig Flóra hefur hamast, þegar afl hennar var sameinað í punkti, sem var nokkrir kilómetrar í þvermál.
Flóra heilsaði upp á í Vestmannaeyjum kl.4 í nótt. Þá fór að hvessa. Kl. 56 var komið rok, en harðast var veðrið í Eyjum frá klukkan 8 til hádegis. Þá voru 12 vindstig á Stórhöfða. Ekkert tjón varð i Eyjum, og sögðust heimamenn hafa fundið meiri gust. Þá voru 78 vindstig undir Eyjafjöllum og mikil vatnskoma, strekkingsvindur en þurrt á Rangárvöllum og vestur um Árnesþing. en foráttubrim í Þorlákshöfn. Á Reykjanesi var sterkviðri frá kl 912, en engar skemmdir nema hvað nokkrar járnplötur losnuðu af húsi, sem er í byggingu í Sandgerði og skúrræfill fauk í Keflavík. Í Hafnarfirði fauk mótauppsláttur, allur gaflinn úr stórbyggingu Frost hf á Flatahrauni. Spennistöð rauk um koll á Hvaleyrarholtinu og straumurinn fór af, vinnuskúr þeyttist á hús og járnplötur losnuðu af byggingum hér og þar um bæinn. Upp úr hádeginu var hætta á ferðum vegna járnfoks, en ekkert slys hlaust af þessum sökum. Lögreglan vann að því að hirða járn og losa plötur, sem voru í þann veginn að fjúka. en ekkert gekk að fá mannskap til að hjálpa lögreglunni við þessi störf. Í Kópavogi fauk ekkert til skaða, en í Reykjavík var lögreglan og vinnuflokkar bæjarins á þönum fram eftir degi við að hirða járn og timbur, sem var að fjúka. Steypumót losnuðu i sambyggingu DAS við Ljósheima. Í Skipholti 4547 fauk járn af húsinu. Í Nesti við Elliðaár, Réttarholtsveg 1 og í Blesugróf urðu skemmdir, gluggar brotnuðu víða en enginn slys urðu á mönnum.
Á Akranesi eru feikna sandskaflar á Skagabrautinni, en skeljasandurinn barst í stríðum straum út úr geymslu sementsverksmiðjunnar þvert yfir Skagann. Enn sem komið er hefur ekki verið steypt kringum helminginn af sandgeymslunni. Í Borgarnesi var ekki kunnugt um skemmdir. Veðrið gekk niður og brá til sunnansuðvestanáttar um suðvestanvert landið þegar á daginn leið en kl.6 var enn hvasst á Hellissandi. Þá var heldur að draga niður i Ólafsvík. Kl.7 var farið að lægja á Patreksfirði, en þar var ólátaveður og mikil úrkoma eftir hádegið. Á Ísafirði gekk á með rokum seinnipartinn í dag. Fjallvegir tepptust í slyddubyl. Gert er ráð fyrir vegaskemmdum hér og þar á Vestfjörðum. Lægðarsvæðið nær langt austur fyrir Ísland. Má reikna með hvössum útsynningi með skúrum á morgun. Í morgun var lygnt á Norðurlandi, en þar hvessir í kvöld og nótt. Austfirðingar fá seinast að kenna á lægðinni. Veðurfræðingar sögðu, að nú mundi hlána af heiðunum nyrðra. Engar hjálparbeiðnir bárust til Slysavarnafélagsins í dag, en bátar sem voru á síldarmiðunum leituðu inn eftir hádegið. Innanlandsflug féll niður, nema hvað ein vél flaug til Akureyrar í morgun og tepptist þar. Undir kvöldið barst neyðarskeyti frá norska skipinu Hindholmen, sem var statt 250 mílur út af Garðskaga vestur í Grænlandshafi á 64:30 gráðu norðlægrar breiddar og 33:30 vestlægrar lengdar. Þarna er brotsjór og 12 vindstig. Veðurskipið Alfa er næst staðnum en varðskipið Óðinn er á leið þangað líka. Einnig hafði danskt skip, Edward Evensson, sem var statt 195 mílur frá norska skipinu, haft samband við það.
BÓ-Reykjavík, 14. október. Sjö til átta manns á Neskaupstað horfðu á ljós, sem bar yfir fjörðinn klukkan 20:20 í kvöld. Héldu menn, að skip hefði sent upp neyðarblys, en þeir sáu að sindraði úr ljósinu. Haft var samband við Slysavarnafélagið; Hafþór sendur út til að svipast um, og haft var samband við breskan togara á hafinu fyrir utan. Engin skýring hefur fengist á þessu ljósi, en Henry Hálfdánarson sagði í kvöld, að Slysavarnafélaginu bærust þráfaldlega fréttir um ljós, sem eru ekki af manna völdum og ekki heldur ofsjónir eða uppspuni, þar sem margir eru til frásagnar. Þessi ljós verða aðeins skýrð sem náttúrufyrirbæri.
Tíminn segir fregnir af sandbylnum á Akranesi 16.október:
GBAkranesi, 15. október. Oft hefur fokið úr skeljasandsgeymslu sementsverksmiðjunnar, en aldrei sem í gær. Í allan dag er verið að moka sandinum af Skagabrautinni, en svo harður var bylurinn, að mönnum var ekki fært gegn honum. Ekki hef ég heyrt þess getið, að Skagakonur ætli að berja stjórn Sementsverksmiðjunnar fyrir að hún er ekki búin að loka sandgeymslunni, en hitt er annað mál, að nokkrir aðilar hér í plássinu sneru sér til lögfræðings eftir næstsíðustu ákomu úr geymslunni, og hafa matsmenn verið skipaðir til að virða tjónið.
Tvær sérlega djúpar lægðir fóru yfir landið 19. og 23. október. Olli sú fyrri sjávarflóði við suðurströndina, en sú síðari miklum foksköðum víða um land. Um þessa syrpu var fjallað í sérstökum pistli hungurdiska - og verður það ekki endurtekið hér.
Tíminn birti þann 30.október en einn ótíðarpistilinn af Ströndum:
GPV-Trékyllisvík, 29.október. Mikil óáran hefur verið í Árneshreppi í sumar. Hefur það haldist áfram í haust, og er útlitið ekki sem best. Búast má við að skera verði niður bústofn bænda, en um þessar mundir eru þó þrír menn norður í Eyjafirði í heykaupum, sem stofnað hefur verið til fyrir forgöngu Búnaðarfélagsins. Víða var töluvert af heyjum úti, þegar hretið skall á 24. og 25. september. Aðallega var það úthey, sem heyjað var eftir höfuðdag, en aldrei gert flæsu á. Þetta hey fór allt í fönn. Hjá flestum er það algerlega ónýtt, enda hefur fé gengið í það. Verða það líklega einu notin af því. ...
Síðan i ofviðrinu 24.25. september, hefur verið stöðug ótíð hér Enginn heill dagur góður, heldur stöðugir umhleypingar. Þá setti niður mikinn snjó, svo að allt var á kafi, jarðlaust og vegir ófærir. Það tók tvo daga að ryðja snjó af veginum frá Árnesi til Norðurfjarðar, um 78 km leið. Á tveimur stöðum þurfti að fara í gegnum 23 mannhæða háa skafla. Lengst af hefur verið jarðlaust síðan eða jarðlítið. Gat ekki heitið að tæki neitt upp fyrr en 14. október, eftir að fellibylurinn Flóra fór yfir. Þá komu upp hagahnjótar og stóð það nokkra daga. Oft hefur bleytt í stund úr degi, en úr koman jafnan breyst í snjókomu og skeflt yfir aftur. Nokkuð hefur bleytt í núna síðustu dagana, og snjór sigið töluvert. Nokkrir fjárskaðar urðu í bylnum, aðallega þó á tveimur bæjum. Á Melum drápust 20 kindur, sem ýmsir áttu og í Bæ 8 kindur. Annars staðar hafa ekki orðið fjárskaðar, þó vantar víða kind og kind, sem sennilega hefur drepist. Nýlega hafa fundist þrjár kindur, sem fennti í leitahretinu. Á Melum fannst ær í skafli. Hafði hún þá verið 3 vikur í fönn. Skeflt hafði yfir hana frammi í fjörugrjóti, þar sem hún var í algeru svelti og sjálfheldu Hún var lifandi, en svo aðframkomin, að lóga varð henni. Fyrir viku kom ær úr skafli, sem var héðan frá Bæ. Hafði hana fennt í djúpum skurði. Í blotanum undanfarna daga hafði þiðnað svo ofan af henni, að hún komst af sjálfsdáðum úr skaflinum. Hún er sæmilega hress, en orðin mögur, enda ekki náð í neitt nema þá mold. Á miðvikudaginn fannst svo þrevetur hrútur frá Munaðarnesi uppi á Krossnesfjalli í fönn. Hann hafði staðið í dýi þegar skefldi yfir hann. Var hann með lífi, en svo aumur, að honum var lógað strax.
Enn var verkfall, engin blöð komu út 2. til 10. nóvember. Meðan á því stóð var veður lengst af hagstætt. Það kólnaði að vísu talsvert, og þann 6. gerði talsvert hríðarkast. Víðáttumikil lægð var við Bretlandseyjar, en hæð yfir Grænlandi.
Tíminn segir nokkurra daga gamla frétt 11.nóvember:
Reykjavík, 6. nóvember. Mikið hvassviðri hefur verið um land allt í dag, nema í Vestmannaeyjum. Sums staðar á Norðurlandi og Austurlandi snjóaði. Ófært var orðið í Langadal skammt ofan við Blönduós, Siglufjarðarskarð og Lágheiði, á Hálsavegi á milli Raufarhafnar og Þórshafnar, um Möðrudalsöræfi og Oddsskarð.
Morgunblaðið dregur saman 12.nóvember:
Í s.l. viku kólnaði um allt land og veturinn er kominn. Á þriðjudag [5.]kom kuldaþræsingur yfir landið, en lygndi á föstudag [8.]. Hefur yfirleitt verið nokkurt frost nyrðra en um frostmark syðra.
Morgunblaðið gefur fréttariturum orðið 13.nóvember:
Talsvert mikill snjór er á Vestfjörðum og Norðurlandi, en minna á Austfjörðum og svo til enginn snjór á Suðurlandi. Veður hefur einkum verið slæmt á Vestfjörðum, en stillur meiri í öðrum landshlutum. Morgunblaðið hefur haft samband við nokkra fréttaritara sína til að afla frétta um veðurfarið og fara frásagnir þeirra hér á eftir:
Þingeyri, 12. nóvember. Snjóað hefur hér undanfarna daga og ennfremur í dag. Ofsaveður hefur verið hér út af fjörðunum, en stilltara hjá okkur. Talsverður snjór er hér, en laus og er ekki í sköflum. Fært er fyrir fjarðarbotninn, en fjallvegir eru allir lokaðir vegna snjóa. Magnús.
Ísafirði, 12. nóvember. Blindhríð var á köflum í gær og í nótt. Mikinn snjó setti niður og dró víða í skafla. Betra veður hefur verið í dag. Götur eru færar, en á stöku stað hefur þurft að ryðja þær. Vegir á Vestfjörðum eru löngu ófærir og bátar hafa ekki komist á sjó frá því fyrir helgi. Högni.
Hólmavík, 12. nóvember. Hér var versta veður í gær og fram á miðjan dag í dag. Þungfært er orðið á vegum hér í kring, en þó mun færð ekki vera mjög slæm á Holtavörðuheiði. Töluvert mikill snjór er hér í Hólmavík og versnar eftir því sem norðar dregur.
Blönduósi, 12. nóvember. Í norðanverðum Langadal er talsverður snjór og vegurinn ekki fær lágum bílum. Allir aðrir vegir eru að mestu snjólausir. Í gær var nokkur éljagangur og skafrenningur, en í dag hefur verið stillt og bjart veður. Lítill snjór er á Blönduósi og engar umferðatruflanir af hans völdum. Þær eru ekki fyrr en í Langadal. Á Svínvetningabraut þurfti þó að moka einn skafl hjá Sauðanesi. Björn.
Sauðárkróki, 12. nóvember. Hér í Skagafirði er allmikill snjór. Fært er út á Skaga, þó ekki nema á mjög góðum snjóbílum. Allsæmileg færð er inni í Skagafirði, en mjög þungfært út á eftir að austan. Í dag er annars besta veður, logn og hríðarlaust.
Siglufirði, 12. nóvember. Hér er sæmilegt veður eins og er, aðeins slítur þó snjó úr lofti og alhvítt er milli fjalls og fjöru. Ágætur skíðasnjór er og töluvert um þjálfun skíðamanna, því hér hefur staðið yfir keppni í svigi og göngu. Nokkrir ísfirðingar hafa tekið þátt í þeirri keppni. Töluvert hefur verið hér um skipakomur undanfarið bæði til að taka síldarmjöl og skreið. ... Ekki er hægt að segja, að hér hafi verið veðurharka að undanförnu, þó snjókoma hafi verið af og til. Stefán.
Akureyri, 12. nóvember. Í dag og undanfarna daga hefur gengið á með dimmum éljum og snjó hlaðið niður, svo að komin er allmikil fönn. Snjórinn er laus og jafnfallinn, enda hefur logn haldist. Akureyrargötur eru orðnar þungfærar bílum og sumar ófærar litlum bílum, en aðalgötum og strætisvagnaleiðum hefur verið haldið sæmilega greiðfærum með snjóheflum. Vegirnir í nágrenninu eiga að heita færir stórum bílum og jeppum og sumir, svo sem vegurinn fram Eyjafjörð að vestan og vegurinn vestur í Hörgárdal, eru enn færir öllum bílum. Leiðirnar til Dalvíkur, Húsavíkur og Mývatnssveitar eru aðeins færar kröftugum bílum, svo og leiðin til Skagafjarðar. Vaðlaheiði var síðast farin seint í gærkvöldi. Hún er ef til vill ekki ófær með öllu, en bílstjórar hafa ekki viljað hætta á það heldur farið Dalsmynni. Mikil blinda er alls staðar á vegum og ekkert verður skafið á meðan útlit er jafn tvísýnt og það er nú. Ef nokkuð hreyfir vind má gera ráð fyrir að allir vegir verði gjörófærir þegar í stað. Sv. P.
Raufarhöfn, 12. nóvember. Hlýviðri er hér nú og snjórinn farinn að bráðna. Ekki hefur sett mikinn snjó hér niður ennþá, en vegurinn milli Þórshafnar og Raufarhafnar tepptist vegna skafla í hríðum undanfarna 3 daga. Verið er nú að ryðja veginn með jarðýtu. Skip hafa verið að koma hingað til að taka Svíþjóðarsíld og síldarmjöl. Einar.
Seyðisfirði, 12. nóvember. Hér snjóaði í morgun, en síðdegis var kominn rigning í allhvassri austanátt. Undanfarna daga hefur verið hægviðri og lítilsháttar snjókoma. Vegir hafa verið færir, en ryðja hefur þurft á Fjarðarheiði Snjór er ekki mikill í byggð.
Neskaupstað, 12. nóvember. Slydduveður er hér í dag og kuldi um frostmark. Oddsskarð var rutt í gær, en trúlegt er að það teppist fljótlega aftur, þar sem slydda er í byggð. Lítið hefur snjóað hér ennþá, þótt hvítt sé niður í fjöru. Allir vegir eru færir í sveitunum og götur í bænum eru auðar. Ásgeir.
Höfn, Hornafirði, 12. nóvember. Hér er ljómandi veður, stilla og við frostmark. Snjóföl er á, en engir skaflar. Auð jörð er þegar komið er í Suðursveit. Ágætt veður hefur verið undanfarna daga og bátar verið á sjó. Afli hefur verið sæmilegur, 57 tonn í róðri. Gunnar.
Vík, 12. nóvember. Dagurinn byrjaði með heiðríkju og sólskini, en upp úr hádegi fór að þykkna upp og um miðjan dag var skollinn á blindbylur, en hann stóð ekki lengi. Ljómandi gott veður hefur verið hér að undanförnu og auð jörð þar til nú. Allir vegir eru færir í nágrenninu, en nokkra hálku gerði í brekkum, þegar snjóaði í dag. Andrés.
Vestmannaeyjum, 12. nóv. Blíðviðri, logn og frostlítið, hefur verið hér í dag. Þó gránaði aðeins jörð milli 3 og 4. Þetta er það fyrsta sem við höfum séð af snjó, ef snjó skyldi kalla, hér í Eyjum í haust. Ágætt veður hefur verið allan nóvember og má geta þess, að flogið hefur verið ellefu ferðir af tólf áætluðum. Svo stillt hefur veðrið verið.
Tíminn greinir frá ófærð 14.nóvember:
KH-Reykjavík, 13. nóvember. Snjó hefur kyngt niður um norðanvert landið undanfarna daga, víðast í logni, og eru vegir víða ófærir eða þungfærir af þeim sökum. Vestfjarðavegir eru allir meira og minna lokaðir, og er ekki hugsað til að opna þá meira í vetur. Á Austfjörðum er víða þungfært, og Austurlandsvegur er lokaður. Margir vegir á Norðurlandi eru orðnir ófærir af fannfergjunni, og þyngist jafnt og þétt á öðrum. Fréttaritari blaðsins á Akureyri sagði sem dæmi um ófærðina, að áætlunarbíll til Reykjavíkur var sjö tíma frá Akureyri til Varmahlíðar í dag, og fór þó trukkur á undan til að troða slóðina og draga, ef með þyrfti. Tveir bílar sitja nú fastir i Öxnadal, en þeim verður fljótlega bjargað. Milli Dalvíkur og Akureyrar er ófært nema trukkum, sömuleiðis til Húsavíkur. Vaðlaheiði er að sjálfsögðu ófær. Færð er þung á götum Akureyrar, þó að þeim sé stöðugt haldið opnum. Ef eitthvað hvessir að ráði, má búast við, að allt verði ófært á Norðurlandi. Aðeins var flogið til Vestmannaeyja í dag.
Þann 14. urðu mjög óvænt tíðindi - rétt einu sinni. Tíminn greinir frá 15.nóvember:
Snemma í gærmorgun urðu sjómenn frá Vestmannaeyjum varir við eldsumbrot í hafinu, níu mílur suðvestur af eyjunum. £r þarna um mikið eldgos að ræða og vænta menn þess að upp kunni að koma eyland á gosstöðvunum, en landmyndun fylgir gjarnan eldgosum í hafi, þótt eyjar þær sökkvi stundum í sæ síðar meir. Myndin [í blaðinu] er tekin af gosinu skömmu fyrir hádegi í gær og var mökkurinn þá talinn standa þrjú þúsund metra í loft upp. Gosið virðist koma úr tveim samliggjandi gígum og sást það vítt að, þennan fyrsta dag enda hreinviðri á Suðurlandi. Þetta er tíunda eldgosið í hafi hér við land frá upphafi Íslandsbyggðar.
Það var farið að birta af degi og hafflöturinn var sléttur og friðsæll eins langt og sá frá mótorbátnum Ísleifi II. frá Vestmannaeyjum, þar sem skipverjar biðu hjá línunni um níu sjómílur suðvestur af Vestmannaeyjum, klukkan rúmlega sjö í gærmorgun. Einn háseta var á baujuvakt og vissi ekki annað tíðinda úr djúpunum en það, að þar mundi þorskurinn væntanlega vera byrjaður að gæða sér á beitunni á línunni, sem þeir höfðu verið að leggja. En viti menn.
Allt í einu rís svartur mökkur hljóðlaust upp úr hafinu, skammt frá bátnum og ber óhugnanlega við himin í grárri dagsskímunni. Þetta voru meiri stórmerki en búast mátti við á venjulegum fiskimiðum. Í fyrstu trúir hásetinn ekki sínum eigin augum, heldur starir á fyrirbærið, sem hnyklast þarna upp í loftið. Síðan gerir hann félögum sínum viðvart. Þeir koma allir upp á þilfar, og þeim dettur í hug, að kannski sé skip að brenna þarna hjá þeim. Skipstjórinn, Guðmar Tómasson lætur það verða sitt fyrsta verk að kalla í talstöðina og spyrja eftir því hjá Vestmannaeyjaradíó, hvort þeir þar hefðu orðið varir við kall frá skipi í nauðum. Hann fékk þau svör, að ekkert slíkt kall hefði borist og allt væri með kyrrum kjörum á hafinu í kringum hann. Á meðan Guðmar var að kalla á Vestmannaeyjar Lét hann þoka báti sínum nær mekkinum. Það birtir óðum yfir hafinu og nú fer að sjást betur hvers konar mökkur er þarna á ferðinni. Víst er um það, að frá þessum mekki kallar engin rödd í Vestmannaeyjaradíó. Þegar þeir voru komnir í hálfrar mílu fjarlægð frá svörtum mekkinum, sem steig með boðaföllum upp úr lognsævinu, sáu þeir, að hér var sjaldgæft náttúruundur á ferð, eldgos á hafsbotni, sem þeir höfðu orðið vitni að fyrstir manna og séð stíga úr hafinu. Þeim þótti eðlilega ekki fært að nálgast hamfarirnar meir og sneru því frá, og héldu aftur til baujunnar, sem var í mílu fjarlægð frá gosinu. Menn í suðlægari löndum hefðu áreiðanlega siglt beint til lands til að tilkynna tíðindin, jafnvel farið með hrópum, en skipverjum á Ísleifi fór eins og öðrum mönnum á þessu landi, sem hafa búið við eldfjöllin við túngarðinn, að þeir byrjuðu að draga línu sína með kraumandi sjóinn, skammt undan og vikur- og gufumökkinn yfir sér.
Og þeir héldu áfram að draga línu sína þarna í skugga eldgossins fram eftir degi, meðan jarðfræðingar og blaðamenn klufu himininn yfir þeim í flugvélum til að rannsaka þetta náttúrufyrirbæri. Og um hádegi í gær, þegar Tíminn náði tali af Guðmari Tómassyni, skipstjóra á Ísleifi, var ekki meiri asinn á þeim en það, að þeir voru enn að draga línu sína og voru komnir aðeins þrjár mílur frá eldgosinu. Hann sagði, að gosið hefði komið af fullum krafti þegar í byrjun og væri mökkurinn ýmist dökkur eða ljós. Þeir heyrðu engar dunur en hann sagði að nokkur ólga væri í sjónum nær eldstöðvunum og þar væri nokkur öldugangur. Sextíu til sjötíu faðmar væru í botn á gosstaðnum, en botninn á þessu svæði væri hraunhella. Hann sagði enn fremur, að ekki yrði séð á dýptarmæli bátsins, að botninn hefði breytt sér nokkuð frá því sem hann hefði verið, á því svæði sem hann hefði dregið línuna. Guðmar sagði að lokum, að hann byggist ekki við að koma að landi fyrr en þeir væru búnir að draga, eða um klukkan 5. Aðrir bátar en Ísleifur II. voru ekki á þessum slóðum og því engir aðrir sjónarvottar að upphafi eldgossins. Liggur við að segja megi að þeir hafi fengið gosið upp undir bátinn, en þeir hefðu þó alltént orðið að róa heim frá línunni, hefði hún verið lögð yfir sjálfan gíginn, hvað sem annars verður um æðruleysi þeirra sagt.
Blöðin voru auðvitað full af gosfréttum næstu daga og vikur - aðrir hafa gert grein fyrir þeirri sögu og látum við hana því að mestu afskiptalausa. Í sama tölublaði Tímans (15.nóvember) voru aðrar stórfréttir - en satt best að segja gerði ritstjórinn sér enga grein fyrir því þá hversu stór viðburður þessi var - og má telja að sama megi segja um fleiri:
HF-Reykjavík, 14. nóvember. Komið hefir í ljós, að Brúarjökull hefur á rétt rúmum mánuði skriðið fram um 3 kílómetra á geysistóru svði, eða beggja vegna Jökulsárinnar og allt vestur að Kringilsá. Gangnamenn af Héraði voru þarna fyrir viku að smala í síðustu göngur og urðu þá varir við þessi stórmerki. Síðast voru þeir þarna í lok september og var þá allt eins og það átti að sér. Því hafa þessar náttúruhamfarir átt sér stað á rúmum mánuði. Gangnamennirnir áttu þarna leitarkofa og hefur jökullinn staðnæmst rétt fyrir ofan hann. Ekki hafa menn orðið varir við gos, eða neitt þess háttar, en Jökulsá á Brú er full af leðju, og eykst vatnið ekki að sama skapi, svo ekki virðist vera flóðahætta. Ekki hafa menn heldur orðið varir við neina lykt.
Tíminn er með fleiri fregnir af framhlaupi Brúarjökuls 16.nóvember:
HF-Reykjavík, 15.nóvember. Tíminn skýrði frá því í dag, að á rúmlega einum mánuði hefði Brúarjökull, mikil jökulbunga, sem gengur út af Vatnajökli norðaustanverðum skriðið fram um 3 kílómetra. Það voru gangnamenn af Héraði, sem fyrst urðu varir við þetta hlaup, en gangnastjóri var Jörgen Sigurðsson, Víðivöllum í Fljótsdal, og hafði Tíminn tal af honum í dag. Hvenær var það Jörgen, sem þið urðuð fyrst varir við einhverjar breytingar á jöklinum? Ja, það var 18.19 september, sem við tókum eftir því að jökullinn var óvenju úfinn og höfðu myndast i honum ótal strýtur og gjár, en þá hafði hann ekkert skriðið fram. Svo var það núna 3. nóvember, að við fórum í síðustu leitir og þá sáum við að jökullinn hafði hlaupið fram. Ykkur hefur ekki orðið bilt við þessa sjón? Nei, það kom svipað fyrir, fyrir einum 67 árum. en þá kom skriða úr Brúarjökli og vestasta hluta Eyjabakkajökuls og náði hún yfir æðimikið svæði. Svo vita elstu menn hér til þess, að annað eins skeði árið 1890. Hvernig lítur landið þarna út, Jörgen? Það vex þar fljótlega kjarnmikill gróður og dökkgrænn, þegar jökullinn bráðnar og segja má, að Jökullinn sé sífellt að minnka en frjósamt gróðurlendi komi í staðinn.
Síðan höfðum við tal af Jóni Eyþórssyni veðurfræðingi, sem manna fróðastur er um jökla og hátterni þeirra, og sagði hann okkur, að það virtist sem sumir jöklar hefðu það fyrir sið að safnast svona saman í lengri tíma og hlaupa svo skyndilega. Hlaupið árið 1890 hefði náð um 10 kílómetra fram, en þetta hlaup sagði hann að mætti ætla að næði yfir 200 ferkílómetra. Ekki er vitað, hvort þessu hlaupi er lokið, en vísindamenn, eiga eftir að rannsaka það að öllu leyti. Einnig þarf að athuga, hvort fleiri jöklar eru að búa sig undir hlaup því að það virðist oft ske samtímis veðurbreytingum að jöklar hlaupi. Vatnamælingarmenn eru þarna staðsettir í Hjarðarhaga á Jökuldal, Grímsstöðum á Fjöllum og Hóli í Fljótsdal. og samkvæmt upplýsingum frá þeim sagði Sigurjón Rist okkur að árnar væru nú fullar af jökulkorg, og vatnið í þeim því líkast sementsvatni. Þarna er um að ræða Jökulsá á Brú og Jökulsá á Fjöllum, en Jökulsá í Fljótsdal tær og eðlileg, eða eins og hún á að sér í svona veðráttu. Eftir þessu að dæma virðist framhlaupið ná allt vestur að Jökulsá á Fjöllum, og svæðið ætti því að vera u.þ.b. 25 km breitt.
Vatnamælingamennirnir urðu fyrst varir við þennan annarlega lit á ánum hinn 20 ágúst, en það vakti ekki sérstaka athygli, þar sem jökulárnar eru dökkar að sumrinu.
Morgunblaðið segir einnig af á óróleika í jöklinum sunnanverðum í pistli 19.nóvember:
Einhver hreyfing er í Vatnajökli. Brúarjökull skríður fram að norðan á stóru svæði, eins og skýrt hefur verið frá. Er jöklarannsóknarmenn flugu yfir í eftirlitsferð í haust, sáu þeir miklar og óvenjulegar sprungur við Pálsfjall, sem er uppi á jöklinum ... Og í gær tilkynnti Hannes á Núpsstað Jóni Eyþórssyni, að Djúpá væri kolmórauð, en lítið eða ekkert flóð í henni, sem gæti bent til þess að jökullinn í Djúpárbotnum sé að ganga fram, í suðurátt. Ætli eitthvert samband sé milli eldsumbrotanna suður af landinu og þessarar hreyfingar í jöklinum, spyrja margir? Það þarf ekki að vera, segir Jón. Jöklar geta gengið fram alveg kaldir. Það eru líka svo margar samhliða sprungur í landinu, að maður má vara sig á að draga Jón sagðist mundu fljúga yfir þegar færi gæfist og skoða þetta allt. Fréttaritari blaðsins á Síðu símaði: Holti. Fyrir 34 dögum veittu menn í Fljótshverfi því eftirtekt að lítils háttar vöxtur var að koma í Djúpá, sem orðin var kornlítil í frostunum undanfarna daga. Þótti þetta ekki einleikið, þar sem kuldar héldust og hreinviðri og þar sem einkennilegra var, er að vatnið er mjög jökullitað. Fréttaritari blaðsins átti tal um þetta við Björn Stefánsson bónda og fyrrum póst á Kálfafelli og gaf hann honum fyrrgreindar upplýsingar. Djúpá kemur úr Vatnajökli austan við upptök Hverfisfljóts og rennur fram í Fljótshverfi eftir djúpu gili í heiðinni milli bæjanna Kálfafells og Rauðabergs Hún var löngum hinn versti farartálmi fyrir Fljótshverfinga áður en hún var brúuð fyrir nokkrum árum. Stundum munu hafa komið í hana smáhlaup og spillti hún þá engjum og beitilöndum á nærliggjandi jörðum. Nýlega hafa verið settir varnargarðar á aurana við Djúpá til að hefta landbrot af völdum þessa. Siggeir.
Jón Eyþórsson tjáði Morgunblaðinu að menn hafi orðið varir við ókyrrð í jöklinum í Djúpárbotnum á árunum 193040, en þá var oft farið þar um á jökulinn. Morgunblaðið átti tal við Hannes á Núpsstað í gær. Hann sagði að áin væri gruggug, sem væri óvenjulegt á þessum tíma árs. En hann teldi að það gæti stafað af því að hlaupið hefði úr lóni þar upp frá. Verið er að útbúa leiðangur frá Egilsstöðum á Brúarjökul, að því er Sigurjón Rist tjáði blaðinu. Mun Steinþór Eiríksson, vélvirki, sem'er áhugasamur jöklarannsóknarmaður, fara inn eftir á snjóbíl, sem Ingimar Þórðarson, langferðabílstjóri, stýrir, og taka þeir staðkunnugan mann með af efstu bæjum í Jökuldal. Hafa þeir á Egilsstöðum góðan flugbjörgunarútbúnað til slíkrar ferðar. Erindi þeirra að jöklinum er að setja niður mælistikur til að mæla skriðhraðann á jöklinum. Um gruggið úr Djúpárbotnum sagði Sigurjón, að þróunin að undanförnu hefði verið sú um leið og jökullinn styttist að hluti af jökulvatninu færi ýfir í Brunná, og afleiðingin er sú að nú er Brunná einnig gruggug af jökulframburði.
Kalt var í háloftunum og éljagarðar komu inn yfir landið - og síðan fór allmikil lægð til norðausturs fyrir suðaustan land. Þá var óvenjudimmt í norðaustanhríð í Borgarnesi - ekki algeng staða. Tíminn 21.nóvember:
HF-Reykjavík, 20. nóvember. Í dag hafði snjóað um allt land og var þetta fyrsti snjórinn hér í Reykjavík á þessum vetri. Ekki virðist fannkyngi þetta samt hafa valdið mikilli ófærð, því að ástandið á vegunum er svipað og í síðustu viku. Vestfirðir eru algjörlega tepptir og sömuleiðis allir fjallvegir Austanlands.
Daginn eftir var hert á ófærðarfréttum. Tíminn 22.nóvember:
FB-Reykjavík, 21. nóvember. Mikil ófærð er nú um allt land. Vegir norðan lands og vestan eru ófærir, og hér sunnan lands er einnig allt að verða ófært. Vegheflar voru sendir með bílum í Hvalfjörðinn í dag, og voru þeir komnir að Olíustöðinni um klukkan 5. Þrengslavegurinn er enn fær, en Hellisheiði er algerlega ófær. Snjóað hefur stanslaust norðanlands í allan dag, og vegir eru þar allir þungfærir, og yrðu þegar ófærir ef hvessti og færi að skafa. Ófært er í kringum Blönduós og á Holtavörðuheiði, og Brattabrekka er einnig ófær. Sama máli gegnir um alla vegi á Vestfjörðum, en þeir hafa verið ófærir í nokkra undanfarna daga. Í morgun var orðið ófært í Hvalfirði og voru vegheflar sendir með bílum, sem þurftu að fara þá leið. Um klukkan fimm voru þeir komnir í Olíustöðina, og var ætlunin að þeir fylgdu bílunum að minnsta kosti að Ferstiklu. Þrengslavegur er fær vörubílum, en Hellisheiði er algerlega ófær, og engum bílum fært að komast upp að Skíðaskála. Vegamálaskrifstofan hafði ekki heyrt um ófærð á leiðinni til Keflavíkur. Í gær var snjó rutt af flugvellinum á Akureyri, en þegar menn vöknuðu þar fyrir norðan í morgun, var kominn 45 sm jafnfallinn snjór yfir allan völlinn. Víða er orðið ófært innan bæjar á Akureyri, en þrælst er um á stórum trukkum út í sveitinni. Veðurstofan tjáði blaðinu, að norðanátt væri um land allt. Fyrir norðan og vestan snjóaði og vindur væri talsverður. Í Reykjavík voru 9 vindstig kl. 5 og 10 vindstig í Æðey, en þar var hvassast. Austanlands var hitinn rétt fyrir ofan frostmark, vestar á landinu var vægt frost og kaldast var í dag í Æðey, 3 stiga frost. Hlýjast var á Hólum í Hornafirði, 4 stigs hiti.
Svo kom enn ein óvænta fréttin. Kennedy forseti Bandaríkjanna var myrtur í Dallas föstudaginn 22.nóvember. Samstillti klukkur heimsbyggðarinnar. Svo vildi til að fáeinum dögum áður kom sjónvarp á heimili frænku minnar í næsta húsi - kanasjónvarpið. Í því mátti sjá nýlegar fréttamyndir af atburðinum. - Síðustu viku nóvember gengu tvær öflugar lægðir til norðausturs fyrir vestan land og ollu sunnanstormi með rigningu - en síðan vestanátt með éljum. Tíminn segir frá 28.nóvember:
FB-Reykjavík 27.nóvember. Ófærðin helst enn þá þótt farið sé að blotna. Þar sem ekið var ofan á snjó, eins og í Öxnadal og í Eyjafirði og þar í kring dettur allt niður, og umferð verður mjög erfið. Annars staðar er vatnselgurinn mikill og skriðuföll voru í nótt í Hvalfirði Skriður féllu á 34 stöðum í Hvalfirði í nótt að Sögn Vegamalaskrifstofunnar, en vegurinn var hreinsaður í dag, og orðinn vel fær þrátt fyrir nokkra hálku.
KJ-Reykjavík, 26. nóvember. Tíminn hafði i dag tal af Kristjáni Grant bílstjóra hjá Pétri og Valdimar á Akureyri. Hann var i 10 bíla flutningalestinni, sem lagði af stað héðan úr bænum um hádegi á föstudag [22.] og kom ekki til Akureyrar fyrr en um fjögur á sunnudag [24.]. Fyrsti áfangi ferðarinnar var í Hreðavatnsskála, á laugardaginn [23.] var svo farið til Varmahlíðar og seinasta spölinn til Akureyrar á sunnudaginn. Kristján ekur bíl, sem er sérlega hentugur til svona vetrarferða ... Hann er með tvöföldu húsi, og þar eru kojur fyrir tvo menn. Þegar þung er færð og bílarnir komast ekki áfram hjálparlaust og verða að híða lengi eftir aðstoð, er gott að hafa svona stór hús. Þar geta bílstjórarnir komið og rabbað saman eða þá þeir taka slag, því nóg er plássið í bílnum og funhiti þar inni. Kojurnar eru þægilegar og sagðist Kristján hafa með sér rúmföt svo honum væri ekkert að vanbúnaði þótt hann lenti í ófærð. Hann gæti lagt sig í bílnum og hefði þar að auki talstöð.
ES-Egilsstöðum, 27. nóvember. Í kvöld sló einkennilegum bjarma á vesturloftið yfir jöklunum, en heiðskírt hefur verið í allan dag. Töldu sumir, að bjarmi þessi væri frá eldstöðvum, en aðrir, að þetta væri aðeins venjulegur kvöldbarmi. Goslykt fannst hér einnig greinilega aftur í dag, og kemur mönnum ekki saman um, hvort hún geti átt rætur sínar að rekja til Vestmannaeyja eða einhvers annars staðar inni á Vatnajökli. Heiðskírt hefur verið í allan dag, en í kvöld sló einkennilegum bjarma á vesturloftið og albjört rönd var niður við jökla, þótti mönnum þetta nokkuð óvenjulegt. Ekkert hefur þó vaxið í ám, svo ótrúlegt er að eldsumbrot séu í Vatnajökli.
Tíminn segir 29.nóvember frá jakaburði í Ölfusá:
FB-Reykjavík, 28. nóvember. Mikill jakaburður hefur verið í Ölfusá í gær og í dag, og í fyrrinótt ruddu sig Hvítá og Stóra-Laxá og flæddi Hvítá yfir töluvert land á Brúnastaðanesi og tók þar með sér girðingar og gerði allmikinn usla. Kaldaðarnes og Kálfhagi eru umflotin og ófært upp á veginn hjá bæjunum. Í fyrrinótt ruddu Hvítá og Stóra-Laxá sig og flæddi mikið vatn við Brúnastaðanes á milli Brúnastaða og Austurkots. Þá brotnaði einnig klakastífla í Hvítá rétt fyrir neðan Auðsholt í Biskupstungum og mun þar í nánd hafa slitnað símalína í vatnsflóðinu. Þegar fólkið í Kaldaðarnesi vaknaði i morgun heyrði það árnið fyrir utan. Var íshrönglið sem skolast hafði niður eftir Ölfusá komið að Kaldaðarnesi, en þar er ísinn á ánni allt að einu feti á þykkt, og lét hann ekki undan þunganum heldur lyftist upp einn og hálfan metra, og er nú kominn upp á árbakkann við Kaldaðarnes á móts við Kirkjuferju. Þarna á bakkanum er gamall varnargarður frá því á stríðsárunum, og er ísinn kominn upp á garðinn. Kaldaðarnes og Kálfholt, sem er hjáeiga frá Kaldaðarnesi eru umflotin og komast menn ekki þaðan í land. því vatnið í kring er mittisdjúpt. að sögn Eyþórs í Kaldaðarnesi. Í dag hefur það þó lækkað um allt að einu feti Mjólkurbíllinn varð að snúa frá í morgun, þar eð bílsstjórinn taldi ekki fært að komast yfir vatnselginn. Þar sem sér yfir íshrönglið virðist vera um 100 metra á breidd, en þar sem flóðið í ánni er breiðast, fyrir neðan Kaldaðarnes á engjunum þar, er það 56 km breitt. Engjarnar eru rennisléttar og liggja lágt. Ekki kvað Eyþór neina hættu á ferðum, því bæði Kaldaðarnes og Kálfholt stæðu nokkuð hátt, og aldrei hefði bæina flætt.
Tíminn segir 30.nóvember frá síðari lægðinni sem minnst var á:
HF-Reykjavík, 29. nóvember. Síðasta sólarhringinn hefur mikið hvassviðri með skúrum gengið yfir allt land. Um hádegisbilið í dag mældust 10 vindstig hér í Reykjavík og 12 mm regn, en í nótt var regnið 20 mm. Mesta úrkoman mældist þó í Stykkishólmi, 29 mm. Ár víðast hvar á landinu hafa vaxið mikið, vegna hinnar gífurlegu úrkomu, og hafa vegir sums staðar spillst. Í Dalasýslu er Hörðudalsá ófær vegna vatnavaxta, og hafa því mjólkurflutningar úr Dalasýslu út á Skógarströnd lagst niður í dag. Ekki er um neina aðra stórtrafala að ræða vegna þessa óveðurs, en í Borgarfirði t.d. flæddu ár á mörgum stöðum yfir vegi, og er verið að bæta úr því. Aðfaranótt þriðjudagsins gerði einnig mjög vont veður með úrkomu og hljóp svo í læk einn í grennd við nýja Þingvallaveginn, að hann hefur verið ófær síðan, en nú er að ljúka viðgerð á honum. Um leið og þetta gerðist, hlupu ár á Mýrdalssandi. Hjá Klifandabrúnni, hafði flætt yfir veginn, en lokið er viðgerð þar. Vegurinn, sem liggur frá Kirkjubæjarklaustri út á Síðu, skemmdist einnig á aðfaranótt þriðjudags, en áætlað var að laga það í dag. Veðurútlitið næsta sólarhringinn er frekar slæmt. Búist er við suðvestan átt og köldu skúraveðri og éljagangi.
KJ-Reykjavik, 29. nóvember. Í óveðrinu í nótt sleit mb Flóaklett frá bryggju í Hafnarfirði. Báturinn losnaði að aftan og rak afturendann upp í fjöru við bryggjuna. Engar skemmdir urðu á bátnum svo vitað sé, en hann náðist út á flóðinu um hádegi í dag.
Tíminn segir 1.desember enn af Ölfusá - og vatnavöxtum víðar:
KH-Reykjavík, 30. nóvember. Enn er mikill vöxtur í Ölfusá, þó að veðrið hafi nú gengið niður, og er svo til allt láglendið frá Hellisheiði að Kaldaðarnesi, austan Ölfusár, undir vatni, ... Austurvegur er fær, en ófært er til nokkurra bæja nær sjónum. Í óveðrinu eyðilögðust víða girðingar, símastaurar brotnuðu og símalínur slitnuðu, og var enn þá símasambandslaust við Biskupstungur, nema um bráðabirgðalínu um hádegi í dag. Í fyrradag brutust fjórir menn á íshröngli út í Tungueyju í Hvítá og björguðu þaðan 50100 hrossum, sem nærri lá, að flæddi þar. Í Tungueyju í Hvítá, sem er allstór eyja, er oft geymdur hópur hrossa. Voru þar um 50100 hross í vikunni, þegar vöxtur hljóp í ána. Vegna bágborins símasambands náði blaðið ekki tali af neinum þeirra, sem björguðu hrossunum, en sjónarvottur frá einum bæjanna austan Hvítár, sagði, að þaðan hefðu hrossin sést híma á rindum hingað og þangað um eyna, og sum sýndust standa í vatni. Ekki var viðlit að koma við báti út í eyna fyrir íshröngli, en fjórir karlmenn brutust út í eyna á hrönglinu og teymdu hrossin öll heil á húfi til Lands. Er það talið. mikið þrekvirki, því að talið var, að ekki mundi nokkur lifandi maður komast út í eyna. Í gærkveldi var vatnsborð í Stóru-Laxá tekið að lækka, og upp úr miðnætti var vatnið tekið að fjara af veginum út af Syðra-Langholti og Birtingaholti. Seinni part nætur fóru þrír vegheflar að ryðja klakahrönnum af veginum, og var hann orðinn fær flestum bílum í morgun. Hins vegar var Auðsholtsvegur fyrir vestan Syðra-Langholt ófær enn í morgun, og Auðsholtsbæirnir enn umflotnir. Jarðýta byrjaði í morgun að ryðja klakahröngli af veginum í Auðsholtsmýri, og standa vonir til. að hann verði fær síðdegis í dag.
Arnarbælishverfi í Ölfusi er umflotið vatni og ófært var til fleiri bæja þar á láglendinu Kaldaðarnes er ekki alveg umflotið lengur, og sagði bóndinn þar, að íshrönglið væri að ná sér fram í ósa En á að líta væri láglendið frá Hellisheiði að Kaldaðarnesi eins og einn sjór. Vatnið í Hvítá og Norðurá í Borgarfirði hefur nú sjatnað, en ófært var í gær hjá Hvítárvöllum og Ferjukoti. Vegurinn er orðinn fær og virðist ekki skemmdur að ráði. Smá skemmdir urðu á Stykkishólmsvegi, en hann er bílfær. Ekki virðast neins staðar hafa orðið stórvægilegar vegaskemmdir í veðurham þessum, samkvæmt upplýsingum vegagerðarinnar.
Hálkan sem minnst er á í frétt Tímans er reyndar nokkuð minnisstæð - afleiðing frostrigningar - varla stætt á götum í Borgarnesi. Einnig segir af hörmulegu sjóslysi. Tíminn 3.desember:
KJ-Reykjavík, 2. desember. Mörg umferðaróhöpp urðu af völdum hálkunnar á sunnudaginn [1. desember] og í dag. Eru bókaðir samtals 24 árekstrar, ákeyrslur og útafkeyrslur hjá lögreglunni í Reykjavík.
FB-Reykjavík, 2. desember. Nú er talið fullvíst, að Hólmar, GK 546 frá Sandgerði hafi farist þar sem hann var staddur austur af Alviðruhömrum, en ekkert hefur heyrst frá bátnum frá því kl.9:20 á föstudagsmorgun [29.]. ... Aðfaranótt föstudagsins var veður vont á þeim slóðum, sem bátarnir voru á, 810 vindstig og er talið líklegt, að báturinn hafi fengið á sig brotsjó.
Morgunblaðið fjallar 4.desember um fannirnar í Esju:
Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, heldur uppi athugunum á fönnunum í Esju, sem kunnugt er. Í nýjasta hefti Veðrinu skýrir hann frá fönnunum í Esjunni í sumar. Þar segir: Fönnin í Kerhólakambi hvarf 15. ágúst. Þann 11. sáust enn þrír litlir dílar i skarðinu. 12. september var suðaustanátt, mikil rigning og hlýindi, en upp úr því gránaði í brúnum fjallsins. Sennilega hafa því 2-3 smádílar lifað af sumarið í Gunnlaugsskarði.
Tíminn skýrir dyn á Austurlandi í pistli 5.desember:
FB-Reykjavík, 4. desember. Blaðinu hefur borist ný skýring á hinum mikla dyn, sem heyrðist á Austurlandi um miðjan október og var talinn koma frá þrýstiloftsflugvél, sem flaug þar yfir og fór í gegnum hljóðmúrinn. Metúsalem Kjerúlf á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal segist hafa heyrt sams konar dyn árið 1890, þegar Brúarjökull hljóp, og telur hann brestinn, sem heyrðist í október, hafa stafað frá jöklinum.
Um miðjan október s.l. skýrði blaðið frá því, að mikill hávaði, einna líkastur sprengingu, hefði heyrst á Austurlandi. Heyrðist hávaði þessi á Djúpavogi, um alla dali austan Vatnajökuls og allt til Grímsstaða á Fjöllum. Í þann mund er hávaðinn heyrðist, flaug þrýstiloftsflugvél yfir, og sáu menn rákir eftir hana á loftinu, og var talið, að vélin hefði farið í gegnum hljóðmúrinn, og við það hefði bresturinn orðið. Einn maður, Metúsalem Kjerúlf á Hrafnkelsstöðum, hefur þó aðra skýringu. Hann sagði, þegar bresturinn buldi við: Nú er jökullinn að hlaupa, svona brestur kom 1890, þegar hlaupið byrjaði, en þá hljóp jökullinn síðast. Um mánaðamótin október-nóvember fóru Fljótsdælingar í göngur inn á Vesturöræfi, sáu þeir þá, að jökullinn var hlaupinn, og hafði hann skriðið fram um marga kílómetra að þeir töldu, en þeir höfðu ekki farið þarna um í einn mánuð. Sögðu gangnamenn, að svokallaðar Hreinatungur væru að mestu komnar undir jökul, en annars höfðu þeir ekki aðstöðu til þess að rannsaka þetta, og engin vitneskja er um það, hve hlaupið nær vítt um vestan Jökulsár á Dal, því að þar var síðast gengið áður en hlaupið hófst, sagði Aðalsteinn Jónsson á Vaðbrekku, í bréfi til blaðsins.
Í dag hringdum við í Metúsalem og spurðum hann um hlaupið og brestinn 1890. Ég var 8 ára, þegar það var, sagði hann, og tók svo undir í Bersastaðagilinu, að ég fór að hátta, svo hræddur var ég. Hávaðinn var miklu meiri þá en nú. Við spurðum Jón Eyþórsson veðurfræðing um þetta fyrirbrigði. Ekki sagðist hann geta sagt neitt um þetta, nokkur hávaði fylgdi jökulhlaupi, en honum fannst ótrúlegt, að hann hefði heyrst á jafn stóru svæði og menn heyrðu hávaðann í október.
Morgunblaðið birtir mánaðargamlan fréttapistil 8.desember, hann var skrifaður í verkfallinu, Ærlækur er í Öxarfirði:
Ærlæk, 3.nóvember. Vorið var kalt og slæm tíð fram eftir sauðburði, en í lok maí batnaði og greri, en þó fremur hægt. Eftir það var góð sauðburðartíð, enda engin teljandi voráfelli. Fjárhöld urðu víðast hvar góð og heyleysi gerði lítið vart við sig. Tún spruttu í seinna lagi, svo sláttur hófst ekki almennt fyrr en upp úr mánaðamót um júní og júlí. Heyskapartíð mátti heita hagstæð af því þurrkarnir komu í köflum og marga daga í einu, svo sjaldan þurfti að taka upp hálf þurrt, til að dreifa aftur. Nýting heyja varð yfirleitt góð, en heyfengur nokkuð misjafn hjá bændum og mun þurfa að hafa alla gát á með ásetninginn í haust. Uppskera garðávaxta var mjög misjöfn og hjá flestum nær engin, vegna kulda og tíðra næturfrosta. Ber spruttu seint, en á endanum varð berjaspretta í meðallagi.
Þann 8.september gerði hríðaráfelli. Hlóð þá niður bleytusnjó til heiða. Fé fennti á sumum heiðum, einkum Búrfellsheiði og Urðum. Nokkrar kindur fundust í fyrstu göngum í haust sem drepist höfðu í fönn. Hins vegar fannst mjög fátt sem farið hafði afvelta. Svo tjón var ekki tilfinnanlegt og fjárheimtur í haust engu lakari en venjulega. Dilkar reyndust í haust með allra lakasta móti til frálags.
Fyrstu þrjár vikur desembermánaðar voru sérlega hagstæðar. Mikið háþrýstisvæði var lengst af í námunda við landið, ekki ósvipað og var í upphafi árs, en var þó ekki alveg jafnöflugt og þá. Kortið hér að ofan sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í desember og vik hennar frá meðallagi. Meðal fólks var mikið rætt um prestskosningar í Reykjavík - og morðið á Kennedy. Blöðin komu ekki út vegna verkfalls 11. til 20.desember - enn og aftur. En tíðindi voru fá af veðri - nema þá óvenjulegri blíðu.
Tíminn segir af færð og veðri 23.desember - og spáin um jólaveðrið var góð:
FB-Reykjavík, 22.desember. Ágætis færð er nú um mestallt landið, og ekki ætti hún að versna um jólin, þar eð spáð er sunnanátt og áframhaldandi hláku næstu daga og rigningu. Hlýjast var á norðanverðum Austfjörðum í dag 8 stiga hiti, og hvergi var kaldara en 4 stiga hiti. Í dag var sunnanátt og hláka um allt land, að sögn veðurfræðinga og tekur snjó upp sem óðast. Sunnanlands rigndi mikið í nótt og fékk Skaftafellssýslan sinn skammt af rigningunni, eða hvorki meira né minna en 42 mm á Fagurhólsmýri. Búist er við að heldur kaldara verði hér á morgun, og eitthvað verði um krap í éljunum. Færð hefur verið ágæt vestanlands og norðan síðustu daga. Fært er allt vestur í Reykhólasveit, en þaðan eru vegir lokaðir. Þá er fært austur á Hólsfjöll, en lokuð leiðin til Austfjarða, en aftur er góð færð frá Egilsstöðum um alla Austfirðina. Sunnanlands verða vegir góðir, eftir að þeir hafa verið heflaðir, spillist veður ekki fyrir hátíðina, sem ekki er útlit fyrir, svo öll ferðalög eiga að geta orðið mönnum auðveld.
En þetta varð ekki alveg svona einfalt. Að vísu hélst veður tíðindalítið syðra - meira varð þó úr kulda og snjó heldur en spáð hafði verið. Mjög kalt loft kom að landinu - ekki mjög ósvipað og gerst hafði um 20.nóvember. Á annan dag jóla var komin mikil fönn nyrðra - einkum þó í útsveitum - og enn einn óvæntur atburður bankaði upp á. Snjóflóð féllu á mjög óvenjulegum stað á Siglufirði.
Veðurkortið sýnir stöðuna að morgni annars jóladags. Allmikið frost er á landinu og hríðarveður um allt norðanvert landið og allhvasst víða á Austurlandi. Hríð á Kirkjubæjarklaustri. Hvasst var á Stórhöfða, en lygnt og nánast heiðríkt inn til landsins á Suður- og Vesturlandi. Að sumu leyti einkennilegt veður.
Fleygur af mjög köldu lofti var yfir landinu - í kjölfar lægðar sem fór til norðausturs nærri landinu daginn áður. En þetta stóð ekki lengi.
Tíminn segir 28.desember frá snjóflóðunum á Siglufirði. Einnig segir af nokkuð einkennilegu jólaveðri - góðu - en samt ekki:
BJ-Siglufirði, 27. desember. Í fyrsta sinn í manna minnum féll snjóskriða úr Strákafjalli norðan Hvanneyrarskálar í gærmorgun um 10-leytið. Skriðan féll á íbúðarhúsið Hvanneyrarhlíð, sem gjöreyðilagðist, en hús þetta er mannlaust nema yfir síldarvertíðina. Síðan fór skriðan á tvö íbúðarhús önnur við Fossveg, og urðu á þeim nokkrar skemmdir. Á aðfangadag og jóladag fennti óskaplega á Siglufirði, og muna menn ekki eftir því, að annan eins snjó hafi sett niður á jafn skömmum tíma.
Um kl.10 á annan dag jóla hljóp síðan skriða úr Strákafjalli rétt norðan við Hvanneyrarskál. Fyrst varð fyrir skriðunni lítill steinsteyptur skúr, sem stóð þar skammt frá Hvanneyrarhlíð. Tók skriðan hann með sér og færði upp á húsið, sem fór í kaf. Húsið færðist sjálft til um 67 metra á grunninum. Hvanneyrarhlíð er timburhús, ein hæð og ris. Það er í eigu síldarleitarinnar og mannlaust nema rétt yfir síldarvertíðina. Hins vegar voru ýmis konar tæki í húsinu og húsgögn Húsgögnin munu öll hafa eyðilagst, en mönnum tókst að grafa upp úr snjónum talstöðvar og nokkur önnur tæki sem þarna voru. Eftir að skriðan hafði lent á Hvanneyrarhlíð hélt hún áfram, og næst urðu fyrir henni tvö hús við Fossveg. Þetta eru húsin nr. 8 og 10, og búa í þeim tvær fjölskyldur. Bæði húsin eru nýbyggð steinhús. Húsið nr. 8 varð fyrir allmiklum skemmdum. Þar fór snjórinn inn í forstofu og alla leið inn í eldhúsið, og var snjólagið inni í húsinu allt að einum metra á dýpt. Rúður brotnuðu, hurðir hrukku upp og karmar skemmdust, og sömuleiðis skemmdust flísar á gólfum vegna glerbrota og vatns. Eigandi Fossvegs 8 er Gunnlaugur Karlsson, en Hólmsteinn Þórarinsson er eigandi Fossvegs 10. Það hús slapp heldur betur, en samt fór snjór inn í forstofu þess.
FB-Reykjavík 27. desember. Veðrið var ljómandi gott um allt land á jólunum, og víða voru hvít jól, þótt veðurfræðingar hefðu spáð hláku og jafnvel rigningu. Rigningin, sem spáð var, kom hins vegar í nótt, en stytt hafði upp, þegar dagur var að kvöldi kominn. Á Egilsstöðum var ágætis veður á aðfangadag og jóladag, en hvessti og var komið rok aðfaranótt annars í jólum. Norðan Lagarfljóts var veðrið svo slæmt, að fólk treystist ekki milli bæja. Austanlands var yfirleitt litill snjór nema niður á fjörðum, þar snjóaði mikið og Fjarðarheiði er lokuð. Hvít jól voru austan fjalls að þessu sinni. Þar snjóaði dálítið, en færð spilltist ekki að ráði. Í gær var afbragðs jólaveður og kirkjusókn því góð. Á Ísafirði voru einnig hvít jól en þar fennti á aðfangadag og jóladag, en þó var greið ferð um allan bæinn. Á Akureyri var gott veður, og hvítur og hreinn snjór lá yfir öllu á aðfangadag.
BJ-Siglufirði, 27. desember. Um fjögurleytið í dag urðu tvær smátelpur undir snjófyllu, sem féll ofan af Bíóhúsinu við Aðalgötu á Siglufirði. Svo vel vildi til, að menn voru þarna nærstaddir, og tókst þeim að ná telpunum undan snjónum eftir skamma stund. Telpurnar, sem eru 4 og 6 ára gamlar höfðu verið á gangi með fram bíóhúsinu, þegar snjóhengja féll allt í einu ofan af því. Skipti það engum togum, að telpurnar grófust undir snjóinn. Þarna skammt frá voru nokkrir menn á gangi, og sáu þeir þegar þetta gerðist. Tóku mennirnir strax að grafa í snjóinn og fundu eldri telpuna, en sú yngri fannst skömmu síðar, en yfir henni var meters þykkt snjólag. Hefði slys getað af þessu hlotist, ef enginn hefði verið nálægt, þegar snjórinn féll niður. Telpunum varð ekki meint af og hlupu þær þegar heim á leið, er þeim hafði verið bjargað úr snjónum.
KJ-Reykjavík, 27. desember. Mikill vatnselgur og hálka var sums staðar á götum Reykjavíkurborgar í morgun.
Morgunblaðið segir af snjóflóðunum í fréttapistlum þann 28.desember:
Siglufirði 27.desember. Að morgni annars jóladags féll snjóflóð úr fjallinu Strákar rétt norðan Hvanneyrarár. Fyrir skriðunni varð fyrst húsið Hvanneyrarhlíð, sem stendur nokkru ofan við aðra byggð hér. Reif snjóflóðið þetta hús af grunni og færði það 57 m. og er-það gjörónýtt. Enginn var í húsinu. Næst skall flóðið á tveimur íbúðarhúsum, nr. 8 og nr. 10 við Fossveg. Brotnuðu útihurðir og snjórinn flæddi inn í eldhús og anddyri en ekki lengra. Í háðum húsunum voru fjölskyldur uppi á lofti og sakaði þær ekki, og er það mesta mildi. Í öðru húsinu sváfu börn innan við glugga sem snjórinn náði upp á.
Seinni hluta dagsins kom annað snjóflóð niður á ströndina um 1/2 km frá hinum staðnum, en þar eru tvö fjárhús, þar sem menn héðan hafa fé sitt. Voru þeir að sinna fénu, en snjóskriðan fór milli húsanna og niður í sjó og sakaði engan.
Snjóflóðið úr Strákum mun hafa komið úr klettabelti utan við Hvanneyrarskál og farið niður snarbratta hlíð, 400500 m vegalengd og verið um 200300 m breitt. Skall það beint á húsinu Hvanneyrarhlíð, sem er gamalt timburhús, járnvarið og mannlaust, sem betur fer. Í þessu húsi bjó áður Karl Dúason, en undanfarin ár hefur síldarleitin verið þar til húsa. Snjórinn braust inn um alla glugga á vesturhlið hússins og fyllti það gjörsamlega af snjó og gluggahlerar á öðrum hliðum þess bunguðu út vegna snjóþyngslanna innan frá. Reif flóðið húsið af grunni og færði það 57 m. Húsið sjálft er skekkt og brotið og mun vera gjörónýtt. Tókst að bjarga ýmsum tækjum Síldarleitarinnar úr húsinu. Snjórinn fyllti eldhúsið.
Þá hélt flóðið áfram og skall á tveimur nýjum íbúðarhúsum úr steini, sem standa norðan árinnar (sjúkrahúsið og prestsetrið eru sunnan árinnar). Í þeim búa loftskeytamenn með fjölskyldur sínar. Í húsinu nr.8 býr Guðlaugur Karlsson með konu sinni Magðalenu Halldórsdóttur og tveimur börnum sínum. En í hinu Hólmsteinn Þórarinsson með konu sinni Ólínu Olsen og 4 börnum. Voru þau öll heima er flóðið kom. Fréttamaður blaðsins talaði við Magðalenu Halldórsdóttur, sem skýrði honum frá því sem gerðist. Magðalena sagði að flóðið hafði skollið á húsinu um kl.9:30. Fólk hennar var ekki komið á fætur og vissi ekki fyrr en flóðið skall á húsinu með háum dynk. Snjórinn braut forstofuhurðina og fyllti forstofuna af snjó. Ennfremur braut það eldhúsglugga á vesturhlið hússins og eldhúsið hálffylltist og fór snjórinn áfram fram í stórt anddyri. Svo vel vildi til að enginn var í eldhúsinu, annars er auðséð að illa hefði farið. Fólkinu brá heldur en ekki í brún, en gerði sér þegar ljóst hvað um var að vera. Magðalena sagðist hafa verið svo heppin að hafa tekið símann með sér upp í svefnherbergið og hafði hann á náttborðinu. Hún setti sig strax í samband við lögreglu og nágranna og brá fólk skjótt við til hjálpar. Miklar skemmdir urðu á húsinu vegna þess að rúðubrot fóru um allt og málning skemmdist á veggjum. Í eldhúsinu færðist ísskápur úr stað, svo mikill var krafturinn á snjónum. Sagði Magðalena að þetta hefði verið óskemmtilegur jólagestur. En allir voru rólegir.
Í hinu húsinu nr. 10 kom flóðið með svipuðum hætti. Hjónin voru komin á fætur, en börnin sváfu undir glugga sem sneri að flóðáttinni. Braut hann upp hurð sem var um 2 m frá glugganum, en krafturinn í snjónum, sem náði upp á miðjan gluggann uppi var ekki það mikill að glugginn brotnaði. Hefði snjóflóðið lent inni í barnaherberginu, hefði hann farið yfir rúm barnanna. Þau vöknuðu ekki. Flóðið fór þarna inn um aðalinnganginn og þaðan fram í skálann. Þó snjór væri í skálanum, þá komust hjónin að símanum, með því að rétta höndina um dyr í stofuna og gerðu aðvart. Vann hjálparlið að því að hreinsa út snjóinn og setja rúður í glugga. Húsin eru nýbyggð og sterk og er fólkið þar um kyrrt.
Síðdegis sama dag féll annað snjóflóð skammt frá. Á ströndinni eru tveir fjárkofar, þar sem menn úr bænum hafa fé, en engin byggð er þar. Þetta er um 1/2 km fjarlægð frá fyrri staðnum. Mennirnir voru búnir að sjá þarna ískyggilegar hengjur og í ljósaskipunum þegar þeir voru að gefa fénu, höfðu þeir einn mann á vakt úti. 34 menn voru að gefa kindum í öðru húsinu, en í hinu húsinu var einn maður. Allt í einu heyrir vaktmaðurinn ískyggilegan hvin og varð þess áskynja að snjóflóð var á leiðinni og. gerði mönnunum aðvart. Um það bil brast á mikill skafrenningur og áður en varði var komin gífurleg snjóskriða milli þessara húsa og féll hún út í sjó. Var hvinurinn og fjúkið svo mikið að þeir gátu ekki gert sér grein fyrir því fyrr en eftir á að flóðið var að fara milli húsanna. Engan mann sakaði, en flóðið tók kartöflugeymslur bæjarins, sem eru þarna skammt fyrir ofan. Ekki er vitað að fallið hafi snjóflóð á þessum stað fyrr. Þó hafa komið snjóflóð á Siglufirði og valdið miklu tjóni, svo sem sagt er frá á öðrum stað í blaðinu.
Stykkishólmi, 27. desember. Á aðfangadag var hér stormur og snjóhraglandi og hélst það veður einnig á jóladag, en á annan jóladag var frost og gott veður. Samgöngur voru sæmilegar. Nú er hér komið mikið hvassviðri. Fréttaritari.
Ísafirði, 27. desember. Talsverð snjókoma var um hátíðarnar við Ísafjarðardjúp og hefur sett niður nokkurn snjó, en þó varla til baga, enn sem komið er. Bylur og dimmviðri var fram eftir degi í dag. HT.
Sauðárkróki, 27. desember. Hér byrjaði að snjóa á jólanóttina, og snjóaði alla nóttina og talsvert á jóladag. Snjór er meiri að vestanverðunni í Skagafirði, en færð hefur ekki teppst til muna. Jón
Siglufirði, 27. desember. Á aðfangadag gerði allmikla úrkomu og hélt áfram á jóladag. Má segja að sjaldan hafi kyngt hér niður svo miklum snjó á svo skömmum tíma. Snjóskriða féll úr Strákum á 3 hús, og er sagt frá því annars staðar. Snjókoma var það mikil að öll eðlileg bifreiðaumferð torveldaðist algerlega. Í morgun var strax hafist handa um að ryðja götur og verður haldið áfram í dag. Þetta hafði þó ekki áhrif á venjulegt jólahald. Við erum vön snjónum hér fyrir norðan og komumst milli húsa. Stefán.
Húsavík, 27. desember. Ágætt veður var á aðfangadag, en hvítt yfir, en á jóladaginn skipti um og gerði blindhríð, svo að setti mikla skafla í bænum og varð allt ófært um bæinn þangað til í gær að ýtt var af aðalgötunni vegna mjólkurflutninga úr sveitinni. En minna hefur snjóað framundan á götum. Og er nokkuð greiðfært nema í Aðaldalshrauni, þar sem voru töluverðir skaflar, en lausir fyrir og kom mjólk úr flestum sveitum. Ennþá er þó ófært á Tjörnesið. Fréttaritari.
Morgunblaðið segir 29.desember frá þrumuveðri:
Þrumur og eldingar gengu yfir Reykjavík í gærdag og um sunnan- og vestanvert landið, en það er óalgengt í suð-vestan éljagangi. Ekki hefur fyrr í vetur orðið vart eldinga í Reykjavík. Um kl. 9 í gærmorgun sást eldingarglampi í Reykjavík og urðu þeir fleiri er á daginn leið. Einnig varð vart við eldingar í Keflavík og telur Veðurstofan að svo hafi verið víðar um sunnan- og vestanvert landið.
Tíminn birtir 29.desember bráðabirgðaslysayfirlit ársins:
FB-Reykjavík 28. desember. Dauðaslysum hefur fjölgað um nær því helming frá því í fyrra. Þá fórust 57, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu en í ár hafa 104 látið lífið í ýmiskonar slysum bæði á sjó og landi. Á tímabilinu 1. janúar til 24. desember í ár hefur 51 maður farist í sjóslysum eða drukknað í ám og vötnum og er það 16 fleiri en í fyrra en þá drukknuðu 35. Átján manns hafa beðið bana í umferðarslysum í ár og er það fleiri en á sama tíma í fyrra. Árið 1962 fórst aðeins einn maður í flugslysi en nú samtals 14.
Tíminn segir 31.desember frá nýjum umbrotum nærri Surtsey - menn töluðu síðan um Syrtlu:
FB-IGÞ-Reykjavík, 30. desember. Í birtingu á sunnudagsmorgun [29.] urðu menn í Vestmannaeyjum varir við ókyrrð í hafinu milli Surtseyjar og Heimaeyjar. Nýja gossvæðið er um tveim og hálfum km nær Heimaey heldur en Surtsey. Stóðu um hundrað metra háir strókar upp úr hafinu öðru hverju fram eftir sunnudagsmorgni, en í dag var gosið minna á þessum nýja stað, enda þá komið kröftugt gos í Surtsey, og talið samband þar á milli, þótt nú þyki sýnt að nýja gosið kemur úr annarri sprungu, sem liggur samsíða Surtseyjarsprungunni. Báðar þessar sprungur stefna að því er virðist á Vestmannaeyjar. Þá hafa menn í Eyjum sterkar grunsemdir um, að hafsbotninn hafi risið á svæðinu milli Brands og Álfseyjar. Hafa risið upp boðar á þessu svæði, sem benda til grynninga. Aðrir vilja meina að boðarnir séu flóðbylgjur frá nýja gosinu. Ekki hefur dýpi verið mælt milli Brands og Álfseyjar. Ef einhver hræring er á hafsbotninum þarna, þá er sæsímastrengurinn til Skotlands í hættu, því að hann liggur einmitt á milli þessara eyja.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og tíðarfar á árinu 1963. Þakka blöðum og blaðamönnum auðvitað fyrir þeirra elju þetta merka og minnisstæða ár. Að vanda eru fjölmargar tölur og ýmsar fágætar upplýsingar í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:10 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.11.): 10
- Sl. sólarhring: 420
- Sl. viku: 2553
- Frá upphafi: 2414408
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 2372
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.