10.8.2024 | 23:08
Upprifjun á pistli um heimshita og hita hér á landi
Vorið 2016 skrifaði ritstjóri hungurdiska nokkra alllanga pistla um heimshita (og hita í Stykkishólmi) og í framhaldinu um meintan bláan blett á Norður-Atlantshafi. Það er varla kominn tími til að endurskrifa þessa pistla - þeir standa enn fyrir sínu - og auðvelt að finna þá á hungursdiskum (sá fyrsti birtist í apríllok 2016 og hinir síðan frameftir maímánuði).
Á þessum sjö árum hefur heimshlýnun auðvitað haldið áfram eins og ekkert sé og við var búist. Hér á landi hefur hins vegar lítið sem ekkert hlýnað í 20 ár - enda fór hlýnunin um og fyrir aldamót langt fram úr væntingum - skyndilega var tekin út hlýnun sem hefði staðið í marga áratugi hefði hún verið í sama takti og heimshlýnunin. Svo vill til að það var einmitt árið 1998 sem ritstjóri hungurdiska skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins þar sem hann þóttist sýna fram á með góðum rökum að hlýnun fram að þeim tíma væri meiri en heimshlýnun gæfi ein og sér til kynna - en eins og langminnugir muna hafði þá um 20 ára skeið lítið sem ekkert bólað á henni hér á landi. Svo kom stökkið mikla - og ámóta stökk höfðu átt sér stað áður - í báðar áttir - bæði til hlýnunar og kólnunar - svo lengi sem mælingar sýna (rúm 200 ár). Þessi stóru stökk geta ýmist falið eða ýkt þá undirliggjandi hlýnun sem hefur verið í gangi í heiminum í meir en 100 ár - og hefur farið vaxandi eftir 1980.
Rétt er að taka fram að textinn hér að neðan er ekki léttlesinn - þeir sem ekki hafa sérstakan áhuga á málefninu ættu ekki að eyða tíma í að lesa hann. En þeir sem á annað borð lesa eru beðnir um að lesa vel (ábendingar um pennaglöp vel þegin).
Fyrsti greinarstúfurinn 2016 birtist 28. apríl undir titlinum: Heimshiti - hiti hér á landi. Í honum voru þrjár myndir, línu- og punktarit. Við skulum nú líta aftur á tvær þeirra - uppfærðar til ársins 2023 (fyrri myndir náðu til 2015). Skýringartexti hér að neðan er að nokkru leyti sá sami og í fyrri pistli.
Fyrri myndin sýnir hitabreytingu frá ári til árs á heimsvísu - á móti hitabreytingu frá ári til árs í Stykkishólmi. Heimshitinn er fenginn úr gagnaröð Hadleymiðstöðvarinnar (hadcru5). Röðin er í sífelldri endurskoðun - (árið 2016 hét hún hadcru4) - tölur breytast lítillega eftir því sem þekking á hitafari fortíðar batnar. Þeir sem framleiða röðina kusu að miða hana við tímabilið 1961 til 1990 - vikin eru miðuð við meðaltal þess tímabils. það er -0,07 stigum kaldara heldur en meðaltal tímabilsins alls (1850 til 2023).
Lárétti ásinn sýnir mun á heimshita hvers árs og ársins á undan, en sá lóðrétti það sama fyrir Stykkishólm. Hér er Stykkishólmskvarðinn sexfaldur miðað við heimskvarðann.
Sé fylgin reiknuð (og myndin rýnd) kemur fram væg neikvæð fylgni á milli árlegra heimshitabreytinga og hitabreytingar í Stykkishólmi. Með öðrum orðum að líkur eru til þess að hlýni snögglega milli ára á heimsvísu muni kólna milli ára í Stykkishólmi. Þessi fylgni er hins vegar ekki marktæk á tímabilinu öllu (finna má styttri tímabil þar sem hin neikvæða fylgni er vægt marktæk). Hadleymiðstöðin býður upp á þáttun hitaraðarinnar, norður- og suðurhvel sér, og haf og land sér. Þegar ritstjórinn gerði samskonar rit fyrir þáttaraðirnar kom hin neikvæða fylgni heldur betur fram fyrir norðurhvel og landhlutann heldur en heiminn í heild. (Þetta var 2016 - ekki er víst að sama eigi við nú - ritstjórinn reiknaði nú aðeins fylgnina fyrir breytingar heimshitans og hitans í Stykkishólmi.
Við sjáum að það eru þrisvar á tímabilinu sem heimshitinn hefur tekið stór stökk upp á við, í fyrra 2023, 1977 og 1877. Árið 1877 var (líklega) mesti el-nino 19.aldar í uppsiglingu. Í öllum tilvikunum þremur kólnaði milli ára í Stykkishólmi - reyndar mjög lítið í fyrra.
Á hinum vængnum finnum við árið 1879 - þá kólnaði um -0,3 stig á heimsvísu - sem er reyndar á mörkum þess trúverðuga - en við getum ekkert sagt við því, el-nino datt út. Þá hlýnaði hins vegar um 0,8 stig í Stykkishólmi frá því árið áður (sem við sjáum af myndinni að er alvanalegt).
Við skulum nú ekki fara að gera neitt úr þessu - en það sýnir alla vega svart á hvítu að snögg hlýnun á heimsvísu er ekkert endilega vísun á einhver skyndileg aukahlýindi hér á landi - nema síður sé. Hlýnun eða kólnun á heimsvísu frá ári til árs segir ekkert um breytingar hér á landi. Finna má ýmsar skýringar á þessu háttalagi - en kannski mjög erfitt að finna rétta skýringu - við látum það liggja milli hluta. Tökum þó fram að það er skoðun ritstjóra hungurdiska að blái bletturinn svonefndi hafi ekkert með þessa mynd að gera.
En - hins vegar hefur hlýnað bæði á heimsvísu og hér á landi síðustu 170 árin - þannig að býsna góð fylgni er á milli heimshita og hita í Stykkishólmi. Sú fylgni er hins vegar ekki tilkomin af breytileika frá ári til árs - heldur eingöngu af lengri þróun - og aðallega af mjög langri þróun (lengri en 50 ár).
Hin myndin sem við endurtökum sýnir heimshita á móti Stykkishólmshita - frá ári til árs. Rétt að taka fram að ásunum hefur verið snúið (frá birtingu 2016 - það er viljandi gert).
Heimshitavik eru á lárétta ásnum - ársmeðalhiti í Stykkishólmi á þeim lóðrétta. Munur á hæsta og lægsta ársmeðalhita í Stykkishólmi er nærri því 5 stig, en aðeins 1,7 stig á heimshitanum. Lóðrétta og lárétta strikalínan sýna meðaltölin - þær skerast þar sem bæði heimshiti og Stykkishólmshiti eru nærri meðallagi alls tímabilsins (1850-2023). (Það er pínulítið skemmtilegt að einmitt þar er gat í punktaskýinu).
Við sjáum vel að framan af var alls ekkert samband á milli heimshitans og hitans í Stykkishólmi - hlý ár hér á landi - eins og t.d. 1929 og 1933 eru undir meðallagi á heimsvísu. Köldustu árin í Stykkishólmi eru þó köld á heimsvísu. Kaldast var 1859 og 1866 og einnig 1892. Ritstjórinn hefur - til gamans - sett þar inn bláa strikalínu - sem liggur síðan upp á við til hægri nærri Stykkishólmslágmörkum punktadreifarinnar. Við sjáum að árið 2023 (rautt) er við þessa bláu línu - það var kaldara í Stykkishólmi heldur en heimshitinn einn og sér segir - sama má svo segja um 2015 og 1998. Á sama tíma skulum við taka vel eftir því að langflest ár á þessari öld eru ofan fylgnilínunnar (svarta punktalínan) - ár sem hafa verið hlýrri heldur en vænta mætti út frá heimshitanum einum og sér eru mun fleiri en hin. Samband Stykkishólmshita við heimshita er orðið til - en var ekki.
En tökum nú vel eftir einu: Hin nýlegu köldu ár sýna mun minni vik frá heimshitalínunni heldur en hin gömlu (bláa punktalínan nálgast þá svörtu eftir því sem á liður). Þetta leiðir af sér grunvallarspurningar: Er einhver sérstök ástæða til þess að halda að hiti hér á landi fylgi heimshitanum betur í hlýjum heldur en í köldum heimi? Getum við verið viss um að auða svæðið á myndinni haldist autt - og stækki bara (hlutfallslega) eftir því sem heimshitinn hækkar? Það er hægt að búa til skýringar á því hvers vegna það kunni að vera svo. Annars vegar að hafís sé að hverfa úr sögunni við Ísland - og hins vegar (ekki alveg ótengt) að munur á hita norðurslóða og tempraða beltisins minnki - þar með verði lengra í mikinn kulda en áður - þrálátari norðan- eða vestanáttir þurfi til að kæla heldur en áður.
Ýmislegt bendir til þess að þannig hafi það verið síðustu áratugi. Ísinn hefur alla vega ekki sýnt sig - og norðanáttir hafa orðið hlýrri en áður. Við höfum því elt heimshitann betur en áður.
Það er svo annað mál að ritstjóri hungurdiska þykist - af reynslu - vita að þegar til mjög langs tíma er litið - þúsund ár eða meira - mun þetta línurit fyllast að mestu - það munu detta inn punktar álíka - eða lengra fyrir neðan svörtu strikalínuna heldur en nítjándualdartilvikin sýna okkur - og þegar það gerist er það bara eðlilegur atburður í veðrakerfinu - sem ekki segir neitt um hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa - hún gengur sinn gang. Þessir punktar gætu birst fyrirvaralítið - en komi einn eru líkur á að fleiri fylgi í kjölfarið. Ekkert sérstakt bendir þó til þess að slíkt sé yfirvofandi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 11.8.2024 kl. 03:22 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 81
- Sl. sólarhring: 383
- Sl. viku: 2403
- Frá upphafi: 2413837
Annað
- Innlit í dag: 77
- Innlit sl. viku: 2218
- Gestir í dag: 75
- IP-tölur í dag: 75
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Takk kærlega fyrir þetta Trausti
Hvað með ~65 ára hitasveifluna sem Páll Bergþórsson talaði gjarnan um? Nú er rætt um bláa blettinn fyrir suðvestan okkur, og hugsanlegan, og svolítið ógnvænlegan, óstöðugleika AMOC í tengslum við heldur kólnandi veður hér síðustu ár. Ef við gerum hins vegar ráð fyrir þessari ~65 ára sveiflu, í kringum „trend“ upp á við, þá mætti væntanlega búast við svalara veðri hér hjá okkur næstu 20 árin eða svo?
Um og upp úr miðri öld myndu afkomendur okkar svo njóta hlýrra veðurs...
Hvað segir þú um þetta? Ég veit ekki hvort þetta skiptir máli, en langtímasveifla kring um stígandi leitni upp á við hljómar heldur betur en hrun veltihringrásar hafstraumanna!
Bkv Guðrún
Guðrún (IP-tala skráð) 13.8.2024 kl. 16:25
Eins og margoft hefur komið fram í pistlum hér á hungurdiskum eru miklar áratugasveiflur í hita á Íslandi. Þessar sveiflur geta tímabundið dregið umtalsvert úr hlýnun hér á landi eða bætt í hana - allt eftir atvikum. Ekkert bendir hins vegar til þess að þessar sveiflur séu reglubundnar - þótt svo geti virst við fyrstu sýn. Hlýskeið ríkti hér á landi á árunum 1920 og fram yfir 1960 - þá tók við rúmlega 30 ára kuldaskeið. Næsta kuldaskeið á undan stóð hins vegar í 65 ár - þar á undan var hlýskeið. - Sá möguleiki að röskun verði á veltihringrásinni í Atlantshafi kemur þessum áratugasveiflum okkar ekkert við - möguleg röskun af því tagi (sem mér finnst að vísu ólíkleg) er mun alvarlegri heldur en þessar (þó mjög stóru) áratugasveiflur sem við höfum upplifað á mæliskeiðinu (rúmum 200 árum). Ekki má rugla þessu saman. Við vitum ekkert um hvað gerast mun með hita á næstu áratugum. Fyrir um 20 árum fórum við langt fram úr heimshlýnuninni - hefði slíkt haldið áfram væri heimurinn í enn verri málum heldur en hann er - síðan þá hefur hiti að mestu staðið í stað hér á landi - hvort næst mun kólna eða hlýna einn meir vitum við ekki - en heimshlýnun heldur líklega áfram eins og verið hefur.
Trausti Jónsson, 13.8.2024 kl. 19:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.