19.12.2023 | 03:02
Staða dagsins - aðallega glitskýjatengd
Í því sem hér fer á eftir er aðallega fjallað um glitský (perlumóðurský), vetrarský í heiðhvolfinu. Tilefnið er mikil glitskýjasýning á dögunum - og líklega verða sýningarnar fleiri í vikunni (leyfi lægri ský). Skýin sjást best í ljósaskiptunum - en geta í raun verið á lofti allan sólarhringinn.
Árið 2008 skrifaði ritstjóri hungurdiska dálítinn pistil á vef Veðurstofunnar um árstíðasveiflu glitskýja (tíðni þeirra eftir árstímum). Flest af því getur staðið eins og það er - því ekki hefur hann lagt í að framlengja glitskýjadagatalið fram til nútímans - né heldur aftur í tímann (sem full ástæða væri til). Á vef Veðurstofunnar má sömuleiðis finna ágætan pistil Halldórs Björnssonar um glitský almennt (frá 2006). Við vísum til þessara pistla.
Undanfarna daga hefur frést af glitskýjum yfir Norðaustur- og Austurlandi, sömuleiðis yfir Skandinavíu og jafnvel suður á Eistland og England (sem er heldur sjaldgæfara). Eftirminnileg er glitskýjasyrpa í janúar á síðasta ári, þá líka suðvestanlands - þau ský voru svo óvenjuleg að ritstjórinn hikstaði aðeins - og kenndi eldgosinu mikla á Tongaeyjum (og enn heldur hann að sú skýring sé rétt). Hann hefur ekki betur séð en að útlit himins hafi loks jafnað sig nú fyrir fáeinum vikum - og óvíst hvort vatnsgufuauki sá sem gosið kom í heiðhvolfið er þar enn - flæktur í litasýningar (en samt ekki gott að segja).
Glitský eru aðallega af tveimur gerðum (útlitslega), annars vegar sem bylgjur, en hins vegar breiður. Bylgjuformið er mun algengara, það er hins vegar orðið til á að minnsta kosti tvennan hátt, annars vegar á sama hátt og bylgjuský yfir fjöllum verða til (og eru reyndar vakin af fjallgörðum), en hins vegar þegar mikill ruðningur verður á lofti við veðrahvörf. Þá lyftist allt fyrir ofan mjög skyndilega og kólnar. Lesa má um slíkt tilvik og tilraun til skýringar í fornum pistli hungurdiska.
Glitský geta vart orðið til nema hiti fari niður fyrir um -75 stig, helst enn lengra. Þetta getur gerst í kröppum fjallabylgjum niður í 13 til 16 km hæð, en oftast eru skýin ofar. Flestar heimildir nefna meir en 20 km. Þá er þrýstingur komin niður fyrir 50 hPa, aðeins tuttugasta hluta þess sem er við yfirborð. Við horfum hér aðallega á 30 hPa-flötinn í 22 til 23 km hæð. Nútímaháloftaathuganir ná oftast ekki ofar - gerðu það frekar þegar helíum var notað á belgina og sleppingar ekki sjálfvirkar eins og nú er. Nú eru athuganir í 20 hPa og þar fyrir ofan sárafár. Þó tókst að ná í nýtt lágmarkshitamet yfir Keflavíkurflugvelli [-92 stig í 20 hPa, 3.janúar 2020].
Stöku sinnum leggjast glitský í breiður (rétt eins og blika og gráblika). Þá er erfiðara að sjá þau - en gerðist þó í sýningunni óvenjulegu í janúar í fyrravetur (2023) og sömuleiðis í mikilli sýningu milli jóla og nýárs 1981. Til að mynda breiður þarf útbreitt, almennt uppstreymi - eða mjög hægan vind og hægfara margra daga kólnun (ekki hefur ritstjórinn slíkt í fingrunum). Einhverjar óformlegar hugmyndir eru uppi um það að slíkum breiðum muni fjölga í heiðhvolfinu þegar það kólnar frekar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa (já, það hefur raunverulega kólnað).
Í sjálfu sér ætti glitskýjabólstrum að geta brugðið fyrir í einhverjum ófyrirséðum undantekningartilvikum, en eru samt afskaplega ólíklegir - því loft er svo stöðugt í heiðhvolfinu - bólstrar eru einkennisský óstöðugs lofts.
Lítum nú á stöðu (morgun-)dagsins:
Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir um miðnætti á þriðjudagskvöld. Þá er gríðarleg hæð suður í hafi (1052 hPa, mjög óvenjuleg tala á þessum slóðum - erlendir tístarar nefna met). Lægð er við Suður-Grænland, hún myndaðist í Mexíkóflóa fyrir nokkrum dögum og hefur valdið mikilli óvissu í spám. Þegar þetta er skrifað (á mánudagskvöldi) er lægðin yfir Lárentsfljóti á landamærum Kanada og Bandaríkjanna og á miðvikudagskvöld (eftir tvo daga) á hún að vera norður af Færeyjum á leið til suðausturs, ört dýpkandi. Við sleppum bara vel - að því er virðist.
Þetta kort gildir á sama tíma og hið fyrra (þriðjudagskvöld). Það sýnir hæð veðrahvarfanna (í hPa - því lægri sem tala er því hærri eru veðrahvörfin). Hlýja loftið sem streymir til norðurs austan við hæðina miklu er mun fyrirferðarmeira heldur en loft af norrænum uppruna og lyftir því veðrahvörfunum þegar það ryðst til norðurs og síðan austurs. Veðrahvarfabrattinn er mestur rétt austan við Ísland (hér - á myndinni). Þar lyftist loft mög ört og líklega myndast glitský þar ofan við. Sömuleiðis eru glitský líkleg alls staðar þar sem lóðréttar bylgjur myndast inni á bláa svæðinu, t.d. í námunda við Suður-Grænland og þar austur af, sömuleiðis yfir Íslandi á miðvikudag. Þar fyrir ofan er mjög kalt (vegna uppstreymis) - eins og sjá má á næstu mynd.
Hér má sjá hæð 30 hPa-flatarins - enn á þriðjudagskvöld (19.desember) - og sama svæði, Ísland rétt ofan við miðja mynd. Á fjólublái liturinn sýnir hita neðan -82 stiga og sá hvíti neðan -90 stiga, kaldast í bylgjum sem vakna við suðurodda Grænlands. Allt mjög ákjósanlegt fyrir glitský - kannski bæði bylgjur og breiður? Næstu daga er fjólubláa litnum spáð allt suður á Frakkland - þar eru glitský mjög óvenjuleg.
Þegar norðanáttin tekur við á eftir þessu, lækka veðrahvörfin og draga heiðhvolfsloft niður með sér. Við að streyma niður hlýnar það - en langtímaspár eru auðvitað óvissar.
Hér á eftir kemur efni sem enn færri hafa áhuga á - og enginn þarf að lesa nema áhugasömustu nörd.
Hér má sjá súlurit sem sýnir fjölda athugana yfir Keflavík þegar hiti var lægri en -78°C í 30 hPa-fletinum á árunum 1973 til 2022. Slíkir dagar fara að detta inn í nóvember, en eru ekki algengir. Fjölgar snögglega í desember, sól er þá alveg horfin af heimskautasvæðinu og heiðhvolfið kólnar nokkuð ört og öflug heiðhvolfslægð myndast. Kringum hana blæs öflug röst, skammdegisröstin (sem við köllum - en á heimsveldismálinu kallast lægðin stratospheric polar vortex - en röstin polar night jet - ein höfuðrastanna þriggja).
Frá 1. desember og fram í febrúar ríkir hávetur á norðurhveli. Þá renna kuldapollar um veðrahvolfið og hreyfist þeir stóru nægilega hratt yfir geta þeir togað og teygt veðrahvörfin á mjög stórum svæðum - þau trufla aftur heiðhvolfslægðina sem á það þá til að slitna í sundur og brotna. Getur þá orðið til stórkostlegur bylgjugangur með æðisgengnu niðurstreymi sem hitar loftið sem í því lendir. Er þá talað um snögghlýnun í heiðhvolfi. Slíkir stóratburðir í heiðhvolfi - sem veðrahvolfið veldur geta aftur haft áhrif niður í veðrahvolf. Mjög er í tísku þessi árin að fylgjast með þeim atburðum - einkum þó vegna kuldakasta sem stundum verða þá á meginlöndunum (og jafnvel hér á landi) í kjölfarið þegar heimskautaröstin (sem dvelur við veðrahvörfin) raskast og vestanáttin í háloftunum truflast.
Tíðni glitskýja er í takt við tíðni kulda í heiðhvolfinu - eins og myndin að neðan sýnir (hún hefur ekki verið endurnýjuð nýlega).
Tíðni glitskýja áberandi mest í desember og janúar, nokkur í febrúar, en lítil í nóvember og mars. Í mars er sólin líka farin að hita heiðhvolfið baki brotnu - þar er það einkum óson sem er móttækilegt fyrir geislum hennar.
Hér má sjá ártíðasveiflu hitans í 30 hPa yfir Keflavík á árunum 1973 til 2022. Blái ferillinn sýnir meðaltalið. Það fellur ört á haustin, fer niður fyrir -70 stig seint í nóvember og aftur upp fyrir þá tölu snemma í janúar (snögghlýnunaratvik byrja þá að hafa áhrif á meðaltalið). Græni ferillinn sýnir lægsta hita sem mælst hefur hvern almanaksdag á þessu tímabili. Það er um 20. nóvember sem dagar þar sem hiti er undir -78 stigum fara að sjást - og þeir sjást allt fram í marsbyrjun (og hafa aðeins sést síðar í mars). Þetta er einmitt glitskýjatíminn. Rauði ferillinn sýnir hæsta hita hvers almanaksdags. Þar sjáum við að það hefur stöku sinnum gerst að snögghlýnunin hefur hitt á Ísland, hiti hefur komist upp í -20 stig í 30 hPa. Við sjáum að snögghlýnunin á sér eiginlega sérstakt skeið - frá því rétt eftir áramót þar til um mánaðamót febrúar/mars. En þarna er líka slatti af allhlýjum dögum - það eru þeir sem snögghlýnun í fjarska hefur búið til handa okkur - eða þá að við lendum undir syðra jaðri skammdegisrastarinnar þar sem er hlýrra heldur en nær lægðarmiðjunni sjálfri.
Síðasta myndin er jafnframt sú flóknasta. Lórétti ásinn sýnir hæð frá sjávarmáli (í hPa). Neðst er þrýstingur í kringum 1000 hPa, er um 500 hPa í 5 km hæð, en efst á myndinni erum við í um 25 km hæð (20 hPa). Neðri lárétti ásinn á við bláu og rauðu strikaferlana. Blái ferillinn sýnir meðalhita í aðskiljanlegri hæð þá daga sem glitský hafa sést hér á landi (1973 til 2004), en sá rauði er meðaltal allra daga á sama tíma árs. Við sjáum að blái ferillinn er kaldari í heiðhvolfinu (ofan við 300 hPa) heldur en sá rauði. Glitskýjadagar eru þar kaldari en aðrir dagar. Neðan veðrahvarfa eru glitskýjadagarnir hins vegar hlýrri (nema alveg niður í 850 hPa-fletinum - þar sem munurinn er enginn).
Græni ferillinn (efri lárétti kvarðinn) sýnir hitamuninn, sé hann neikvæður eru glitskýjadagar kaldari en aðrir. Við sjáum að það munar um 5 stigum þar sem mest er (í 50 hPa). Í veðrahvörfum er munurinn enginn, en í um 400 hPa (ofarlega í veðrahvolfi) eru glitskýjadagar að jafnaði um 3 stigum hlýrri en aðrir dagar. - Allt er þetta í samræmi við það sem er áður sagt. Hlýindabólga í veðrahvolfi lyftir heiðhvolfinu og það kólnar.
Fleira kemur reyndar við sögu glitskýjamyndunar - bylgjuskýin þurfa á því að halda að vindátt sé svipuð í veðrahvolfi og heiðhvolfi og vindur hvass. Ekki er alveg víst að allar glitskýjabreiður falli vel að þessu meðaltali - trúlega ekki þær sem myndast vegna útgeislunarkólnunar. Um það ástand munu þó fá dæmi í háloftunum yfir Íslandi - frekar yfir norðurskautssvæðinu. Annars ætti ritstjórinn (fáfræði vegna) ekki að úttala sig allt of mikið um slíkt - en veit þó að ekki er allt sem sýnist í glitskýjagerð.
Glitský eru mikið sjónarspil náttúrunnar. Ruglist ekki saman við silfurskýin sem helst sjást hér síðustu daga júlímánaðar og fyrri hluta ágúst, þegar rökkva tekur á kvöldin.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 30
- Sl. sólarhring: 128
- Sl. viku: 2477
- Frá upphafi: 2434587
Annað
- Innlit í dag: 27
- Innlit sl. viku: 2201
- Gestir í dag: 27
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.