Hár hiti í Grímsey í júní

Mánaðarmeðalhiti júnímánaðar í Grímsey var 8,9 stig. Þetta er þriðjihæsti júnímeðalhiti þar. Júnímeðalhiti var hæstur 2014, 9,7 stig (talsvert hærri en nú) og 2013, 9,0 stig (sjónarmun hærri en nú). 

Hins vegar fór hámarkshiti í Grímsey nú í 20,7 stig. Það var þann 23. og er hæsti hiti sem þar hefur mælst í júní á sjálfvirku stöðinni. Ein júnítala, 21,0 stig, er hærri á mönnuðu stöðinni, mældist þann 25. árið 1876. Hámarkshitamælingar á þeim tíma eru almennt taldar vafasamar - þó vafalítið hafi verið mjög hlýtt þennan dag. 

Tuttugu stiga hiti er ekki algengur í Grímsey. Þetta er þó í 11. skipti á þessari öld sem hann mælist. Það gerðist hins vegar aldrei á mönnuðu stöðinni allt frá 1955 til enda hennar árið 2000. Þó verður að hafa í huga að veðurathugunarmenn tóku alloft nokkurra vikna sumarleyfi eftir 1985. Þann 25. júlí árið 1955 (rigningasumarið mikla á Suðurlandi) er getið um 21,9 stiga hita í Grímsey, og þar á undan 21,8 stig 21.júlí 1917. Í hitabylgjunni miklu 11. júlí 1911 fór hiti í Grímsey í 24,1 stig og talinn 26,2 stig í hinni óvenjulegu hitabylgju 18. ágúst 1876 - en þeirri tölu er þó varlegt að trúa bókstaflega - þótt við efumst ekki um hitabylgjuna sem slíka. Óvenjuhlýtt varð víða um land. 

Hæsti hiti sem mælst hefur á sjálfvirku stöðinni í Grímsey er 22,3 stig. Hann mældist 25. águst 2021, en þá var sérlega hlýtt um landið norðan- og austanvert.

Eins og fram kom í yfirliti Veðurstofunnar var hæsti hiti í nýliðnum júnímánuði 27,9 stig sem mældust á Egilsstaðaflugvelli þann 17. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur á Egilsstöðum í júní og hæsti hiti í júní á landinu síðan 1988, en þá fór hiti á Vopnafirði í 28,6 stig þann 25. Landsjúnímetið er auðvitað 30,5 stigin á Teigarhorni 1939. 

Viðbót - 

Þykktarvikakort júnímánaðar 2023 sýnir mikil hlýindi við norðanvert Atlantshaf.

w-blogg060723a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, þykkt sýnd með daufum strikalínum en þykktarvik í litum. Bláu litirnir sýna svæði þar sem þykktin var undir meðallagi - þar var kalt - á brúnu svæðunum var mjög hlýtt. Eindregin suðvestanátt var ríkjandi í mánuðinum, ýtti undir drungalegt veður um landið sunnan- og vestanvert. Við þekkjum fleiri júnímánuði með ámóta sterkri suðvestanátt, síðast 2006 og þar áður 1992 og 1988, við getum líka nefnt 1970. Allir þessir fortíðarmánuðir voru þó þannig að köld svæði fyrir vestan og norðan land voru miklu víðáttumeiri heldur en nú þegar kuldinn einskorðaðist við hluta Grænlands. Þar var líka mjög kalt, þykktin nærri 90 metra undir meðallagi 1981 til 2010. Hiti í neðri hluta veðrahvolfs meir en 4 stig neðan meðallags. 

Fyrir austan land var hiti í neðri hluta veðrahvolfs hins vegar 3 til 4 stigum ofan meðallags - rétt eins og á Austurlandi. Í Reykjavík var hiti +0,2 stigum ofan meðallags þessara ára (1981-2010), en neðri hluti veðrahvolfs um +1,5 stigum ofan - hafáttin „tók þannig af okkur“ um 1,3 stig - í mesta lagi. Venjulega eru vik á veðurstöðvum í mannheimum minni en í neðri hluta veðrahvolfs á sama tíma. Slík áhrif voru með minnsta móti austanlands, væntanlega vegna hinnar stöðugu landáttar og lítillar hafgolu - suðvestanáttin hélt því kælingaráhrifum sjávar í skefjum - og sömuleiðis nýtur sólaryls sérstaklega vel á þeim tíma árs sem dagur er lengstur. Meðalþykkt yfir landinu miðju var um 5460 metrar - það er ekki met í júní [547,5 yfir Austurlandi - það er nær meti þar].

Við þökkum BP að vanda fyrir kortið. 

Nú í kvöld (fimmtudag 6.júlí) gerir evrópureiknimiðstöðin ráð fyrir því að á laugardaginn verði söðull í háloftunum yfir landinu. „Söðull“ er landslagsfyrirbrigði í þrýsti- eða hæðarsviði - rétt eins og hæð og lægð. Þar skerast hæðarhryggur og lægðardrag í þrýstiflatneskju. 

w-blogg060723b

Eins og glögglega má sjá á kortinu hér að ofan. Lægðardrag liggur beint suður um vestanvert Ísland - milli lægða - og hæðarhryggur beint austur um mitt landið. Söðullinn er nágrenni skurðpunktsins. - Þar má ef vel er skoðað sjá logn - jú, ekki alveg óalgengt á háloftakortum, en maður tekur samt sjaldan eftir því eins og hér (sést betur sé myndin stækkuð).

Hvort hefur nú betur - loft úr suðaustri sem vill norður um landið - eða loft úr norðvestri sem vill líka sjá um veðrið á landinu. Suðaustanvindurinn er rakur - en norðvestanáttin ábyggilega þurr - stendur af Grænlandi. Það skiptir miklu máli hvoru megin garðs við lendum. Nú sem stendur er spáð allgóðum hlýindum sunnanlands og vestan á laugardag og sunnudag - en verði nyrðra lægðardragið ágengara heldur en ráð er fyrir gert - verður mun minna úr en ella. Helgarspáin er að vissu leyti í uppnámi - við vitum ekki hvaða leik skákmeistarinn mikli mun leika. 

Hér er ritstjórinn í gömlum söðli sumarið 2012


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040524c
  • w-blogg040524b
  • w-blogg040524a
  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 192
  • Sl. sólarhring: 284
  • Sl. viku: 1278
  • Frá upphafi: 2352237

Annað

  • Innlit í dag: 174
  • Innlit sl. viku: 1160
  • Gestir í dag: 169
  • IP-tölur í dag: 169

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband