15.7.2023 | 22:09
Hugsað til ársins 1954
Í baksýnisspeglinum sýnist árið 1954 hafa verið allillviðrasamt, en samt þótti það fremur hagstætt - nema sumarið um landið norðanvert. Nokkur athyglisverð veður gerði, bæði hvassviðri og úrhelli.
Við rifjum hér upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Mest er um texta úr Morgunblaðinu, Tímanum og Vísi. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn og fleira úr gagnagrunni og safni Veðurstofunnar. Talnasúpu má finna í viðhenginu.
Hlýtt var í janúar og snjólétt. Samgöngur voru greiðar en gæftir stopular, stormasamt var framan af mánuðinum. Febrúar var talinn hagstæður á Norður- og Austurlandi, en annars var umhleypinga- og illviðrasamt. Snjólétt var fyrri hlutann, en samgöngur voru erfiðari síðari hlutann. Gæftir stopular. Mars var fremur óhagstæður framan af, þá var talsverð ófærð. Síðan var tíð hagstæðari og gæftir voru góðar. Apríl var talinn hagstæður, en þó var nokkuð stormasamt framan af. Gróður tók vel við sér. Í maí var tíð hagstæð, sérstaklega síðari hluta mánaðarins. Grasspretta góð. Gæftir góðar. Fyrri hluti júní var einnig hagstæður, en síðan gerði mikla óþurrka um mikinn hluta landsins. Júlí var heldur óhagstæður og votviðrasamur, en þó gerði góðan þurrk um landið sunnanvert seint í mánuðinum. Í ágúst var tíð óhagstæð og votviðrasöm norðaustanlands, en skárri annars staðar. September var talinn hagstæður á Suðurlandi, en óhagstæður norðaustan- og austanlands. Óvenju kalt var í veðri, sérstaklega síðari hluta mánaðarins. Október var umhleypingasamur og gæftir stirðar. Framan af nóvember var illviðrasamt, en síðan hagstæðari tíð. Gæftir heldur stirðar. Í desember var tíð hagstæð.
Ingibjörg Guðmundsdóttir í Síðumúla lýsir janúartíðinni:
Mánuðurinn var ómunagóður og mildur en nokkuð vætusamur, þó engin stórrigning nema fyrsta daginn. Tveir síðustu dagar mánaðarins voru dásamlega góðir.
Árið hófst með óvenjulegri blíðu - en hún stóð ekki lengi. Tíminn segir frá 3.janúar:
Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Áramótin á Austurlandi voru líkari sumarblíðu en vetrarveðri. Tólf stiga hiti, eða um það bil var flesta daga í kringum áraskiptin, bar til í gær að aftur brá til kaldari veðráttu. Lítils háttar frost var þá. Jörð er alveg auð og allir vegir færir, sem um sumardag. Til dæmis var farið á jeppabíl milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar um helgina og tók ferðin ekki nema hálfan þriðja tíma. Er þessi leið ekki ekin fljótar að sumri en þetta er nýr vegur, sums staðar ófullgerður, sem fyrst var ekin i sumar alla leið á milli kaupstaðanna. Snjór er á hæstu fjallatindum, sem minnir menn á vetur, auk skammdegis.
Vísir segir einnig af blíðunni í pistli þann 4. janúar:
Í gær var sumarhiti sumstaðar á Norður- og Austurlandi Mestur hiti var 15 stig á Fagradal í Vopnafirði, en 14 á Akureyri.
Fréttir bárust einnig af tjóni í miklu illviðri sem gerði rétt fyrir áramótin (sjá pistil hungurdiska um árið 1953 og sérstakan pistil um illviðrið 30.desember 1953).
Tíminn segir þann 5.janúar af tjóni í illviðrinu 30.desember - og blíðviðri síðan:
Frá fréttaritara Tímans á Breiðdalsvík. Fyrir nokkrum dögum fauk þak af íbúðarhúsinu að Hlíðarenda í Breiðdal. Þrátt fyrir mikil hlýindi í veðri að undanförnu eru stormar tíðir og mjög umhleypingasamt. Þakið fauk af húsinu í einu lagi og hefir ekkert sést af því eða máttarviðum þess síðan. Veðurofsinn var svo mikill, að þakið sviptist af í einum svipan og kom ekki til jarðar í næsta nágrenninu, þar sem ekkert hefir fundist af því, þrátt fyrir töluverða leit. Hlíðarendi er langt frá sjó og því ekki líklegt að þakið hafi fokið á haf út óbrotið og í heilu lagi.
Frá fréttaritara Tímans í Kelduhverfi. Það ber nú við, sem er algert einsdæmi um miðjan vetur, að farið er á bílum yfir Reykjaheiði. Venjulega er heiðin aðeins fær þrjá eða fjóra mánuði hásumarsins, enda er þar aðeins ruddur vegur. Fyrir þrem dögum fóru þeir Skarphéðinn og Guðmundur Jónassynir yfir heiðina í trukkbílum og voru fimm klukkustundir frá Húsavík að Fjöllum. Í fyrradag fór svo Gunnar Indriðason í Lindarbrekku á jeppabifreið yfir heiðina til Húsavíkur og var aðeins þrjár klukkustundir. Heiðin er nær snjólaus en þó skaflar á einstaka stað, sem hægt er að krækja fyrir. Einmuna veðurblíða hefir verið og er enn hér um slóðir, þíðviðri dag eftir dag, marauð jörð upp á fjallsbrúnir.
Morgunblaðið segir 5.janúar frá því að óvenjusnjólétt sé á hálendinu - og síðan af tjóni í veðrinu mikla 30.desember:
Það mun vera fátítt, hafi það nokkurn tíma komið fyrir yfirleitt, að hálendið sé eins autt og snjólaust á þessum tíma árs og það er nú. Að sjálfsögðu undrast menn það stórlega, hve veðráttan hefur verið mild í byggðum landsins bæði sunnan lands og norðan, en menn geta vænst þess að í skammdeginu dragi til meiri kulda á hálendinu og þar geti verið frost og snjór þótt hlýtt sé í byggðum. En eftir því sem flugmenn hafa tjáð Morgunblaðinu Þeir er farið hafa um hálendið þvert og endilangt, er þar autt og snjólaust enn sem komið er Á austurhálendinu er enginn snjór alla leið suður til Vatnajökuls, og að því er flugmaður skýrði blaðinu frá í gær, hefur honum virst að Öskuvatn sé íslaust en það er um 1050 m. yfir sjávarmál. Hvergi er um neina fönn að ræða á hálendinu þegar jöklum sleppir en föl á stöku stað. Er hvít jörð t.d. á hæstu öræfunum suður af Eyjafirði og í fjöllunum í kringum Siglufjörð. Síðustu daga hafa hlýindi verið meiri á austanverðu landinu en vestanverðu, og til merkis um það eru vötnin á Arnarvatnsheiði og þar um slóðir á ísi.
Akureyri 4. jan: Það óhapp vildi til að Krossum að Árskógsströnd í Eyjafirði að fjárhús og hlaða fuku þar í ofsa hvassviðri á miðvikudaginn var [30.desember 1953]. Í fjárhúsinu voru milli 60 og 70 fjár er slapp ómeitt, en nokkuð af heyinu í hlöðunni lauk í veðrinu. Á miðvikudaginn var hér í Eyjafirðinum norðvestan átt með snörpum vindbyljum, en ekki stórviðri fyrr en undir kvöld. Þá herti veðrið að mun og gerði rok sem stóð í nokkrar klukkustundir. Á Krossum var m.a. bygginga sambyggt fjárhús og hlaða undir einu risi. Sneri byggingin norður og suður. Stafnar voru úr timbri, en þak og veggir úr bárujárni en steingrunnur undir og var hlaðan niðurgrafin. Í rokinu mun norðurstafn hafa gengið inn undan veðrinu, en við það að vindurinn komst inn í húsið, svipti hann því að mestu í heilu lagi af grunninum og feykti því langar leiðir. Féð, milli 60 og 70 talsins, var að mestu sloppið út úr brakinu er að var komið og meiddist engin kind. Nokkuð af heyinu fauk sem fyrr segir, en það sem eftir varð liggur nú undir skemmdum.. Eru húsin ónýt með öllu, því þó gott járn væri í þeim, tættist það svo í sundur að ekkert af því mun nothæft aftur. Óvenjulegt er að svo mikinn storm geri á Árskógsströnd af norðvestri, en vestanáttin er þar skæðust vindátta. Vignir.
Þann 4. til 5. janúar gerði mikið illviðri suðvestanlands, kennt við bræðsluskipið Hæring, og olli það töluverðu tjóni. Hungurdiskar fjölluðu um það í sérstökum pistli fyrir nokkrum árum.
Vísir segir frá 5.janúar:
Flestum, sem mest hafa haft af illviðrum hér að segja, ber saman um, að fárviðrið í fyrrinótt og gærmorgun, sem gekk yfir Reykjavík og nágrenni, hafi verið hið óskaplegasta, er þeir muna.
Þá hafði borist svo mikið grjót úr fjörunni, að Grandagarðurinn, sem liggur milli
Örfiriseyjar og lands, var ófær bifreiðum, en það mun algert einsdæmi. Oft hefur það að vísu komið fyrir í aftaka brimi, að nokkrir steinar hafi skolast upp á garðinn, en ekki neitt í líkingu við það, sem gerðist í gær. Þá hafði grjót af sjávarbotni og eins utan úr garðinum sjálfum kostast upp á akbrautina, sem er á garðinum sjálfum kastast upp á ýtu til þess að gera garðinn akfæran.
Tíminn segir af veðrinu í pistli 6.janúar:
Í fyrrinótt [aðfaranótt 5.] geisaði aftakaveður mikið um mestan hluta Suður- og Vesturlandsins og var veðrið einna hvassast í Reykjavík. Mikið tjón varð í höfninni og slitnuðu mörg skip frá bryggju, meðal þeirra Hæringur, sem búinn var að liggja árum saman við Ægisgarð. Hæringur slitnaði frá garðinum og héldu engin bönd skipinu í hvassviðrinu, en veðurhæðin komst upp í 150 km. Utan á Hæringi lágu togararnir Guðmundur, Júní, Þórólfur og varðskipið Þór og línuveiðari. Fylgdu öll þessi skip Hæringi, þegar hann slitnaði frá með miklum átökum, þegar sverir vírar, sem héldu skipinu, slitnuðu. Hæring rak út á höfnina og stefndi beint að hafnarmynninu, svo að útlit var fyrir, að hann ræki á hafnargarðinn, eða kæmist ef til vill út úr höfninni. Er í hætt við að miklar skemmdir hefðu orðið á höfninni sjálfri og skipunum, sem lágu utan á Hæringi, ef svo vel hefði ekki viljað til, að Hæringur tók niðri, áður en hann kæmist að hafnarmynninu. Dró hann akkerisfestar, sem voru fram af skipinu við bryggjuna. Lá hann þar í gærdag og þrengdi til muna allt athafnasvæði innan hafnarinnar, svo að stór skip geta varla komist út og inn um höfnina. Skipin, sem utan á Hæringi lágu, voru leyst frá honum í gær og dregin til lands. Hafnsögumennirnir og hafnarbátarnir höfðu nóg að gera í gær við björgunarstörfin. Bátarnir voru á ferðinni til að draga skip og báta upp að bryggjunum. En ekki var hægt að ná öllum skipunum af strandstöðunum. Fjóra báta rak út úr höfninni. Hvítá, sem rak upp í Laugarnesi, Leó, sem strandaði á Skarfakletti framundan lýsisstöðinni á Laugarnesi og Ásdís rak upp á land í Gufunesi. Fjórða bátinn, Guðrún, rak á land í Viðey. Allir voru þessir bátar mannlausir, nema Hvítá, Þar voru tveir óboðnir gestir um borð. Tveir stórir bátar strönduðu á hafnargarðinum rétt utan við Örfirisey og skemmdust mikið. Voru það Rifsnes og Erna. Erna náðist út í gærdag, en Rifsnesið lá á hliðinni við hafnargarðinn í gærkvöldi. Þegar skipið rak upp að garðinum hallaðist það fyrst upp að honum, en þegar féll út lagðist það á hliðina frá garðinum og sneri kjöl að grjótgarðinum. Í gærkvöldi var komið gat á skipið og nokkur sjór í lestina. Á kvöldflóðinu í gær var Hæringi bjargað af strandstaðnum í höfninni og hann dreginn upp að bryggjum austanverðu í höfninni. Er honum þar fengið bólverk til fárra nátta.
Fárviðrið í fyrrinótt er eitt hið mesta, sem komið hefir á Akranesi, samfara miklum
sjógangi. Skemmdir urðu þó litlar, en sjómenn héldu uppi vöku í bátunum, sem bundnir voru við bryggjurnar og varð ekkert tjón á þeim. Hins vegar urðu skemmdir á hafskipabryggjunni. Leiðslur fyrir sjó, vatn og olíu, skemmdust framan til á bryggjunni.
Í fyrrinótt gerði vestan fárviðri á Snæfellsnesi, sem olli talsverðu tjóni. Í Grafarnesi slitnuðu tveir bátar frá bryggju og rak upp. Skemmdust þeir mikið. Í Ólafsvík slitnuðu einnig tveir bátar upp, en skemmdir á þeim munu hins vegar ekki miklar. Annar báturinn hafði legið ónotaður í nokkur ár. Annað tjón var ekki teljandi.
Sjór gekk mjög á land á Álftanesi í fárviðrinu í fyrrinótt og braut nokkuð land, skemmdi varnargarðinn hjá Gestshúsum og bar grjót á vegi. Blaðið átti tal við Erlend Sveinsson, hreppstjóra á Grund í gærkveldi. Sagði hann, að sjór hefði þó ekki gengið eins hátt og í haust, þótt brim hefði verið nú, en það hjálpaði, að ekki var háflæði, þegar hvassast var og ekki mjög stórstreymt. í haust var hins vegar stórstreymt og flóð meðan veðrið var mest. Tjónið, sem sjórinn gerði núna, er þó allmikið. Braut töluvert land og bar upp grjót og þang. Garðinn, sem verið er að hlaða til varnar hjá Gestshúsum, braut nokkuð að framan, og er auðséð, að hann er í hættu, ef ekki verður undinn bugur að því að fullgera hann. Sjórinn bar grjót og þang á veginn og var til dæmis vegurinn heim að Grund, alveg ófær.
Morgunblaðið segir 9.janúar frá þoku - en síðan af tjóni í illviðrinu nokkrum dögum áður:
Árdegis í gær var óvenju svört þoka hér í bænum. Þegar dimmast var, má heita að skyggni hafi verið aðeins nokkrir faðmar frá sér. Slys urðu ekki vegna þokunnar, en hafnsögubátur frá Reykjavíkurhöfn sigldi í strand. Þokan skall á um klukkan níu, en var dimmust milli klukkan 1011. Þegar þokan var sem svörtust strandaði einn hafnsögubátanna. Verksstæðismenn hjá Strætisvögnum Reykjavíkur heyrðu þá þeyta horn sitt undan landi. Verkstæðið er sem kunnugt er á Ytra-Kirkjusandi. Úti í þokunni grillti í bát og maðurinn á honum kallaði til verkstæðismannanna að hann hefði villst í þokunni og væri báturinn strandaður. Verkstæðismennirnir sögðu hafnsögumanninum hvar hann væri og gerðu síðan hafnarskrifstofunni aðvart. Báturinn var að koma innan úr Sundum. Hrundið var út báti og hafnsögumaðurinn sóttur. Á kvöldflóði kom annar hafnsögubátur og dró hinn á flot aftur sem verið hafði að mestu á þurru um fjöru.
Sandi 8. janúar: Í fárviðrinu á dögunum sleit hér frá bryggju og rak á land eina þilfarsbátinn hér í kauptúninu. Var það Guðmundur, sem áður hét Farsæll, 18 lesta bátur. Rak hann upp í stórgrýtta fjöruna, rétt innan við kaupfélagið. Brotnaði báturinn svo mikið að hann er ónýtur talinn. Á botni eru a.m.k. þrjú göt. Mikill skaði er að því að missa bátinn, en eigandi hans var Þorkell Guðmundsson, sem jafnframt var skipstjóri. Þorkell er nú að vinna að því að taka bát á leigu til vertíðarinnar. Hann mun standa í samningum við eigendur bátsins Vonar á ísafirði, en sá bátur er 18 lestir.
Mikið eldingaveður gerði á landinu 12. janúar - sáust glampar víða um land. Tíminn segir frá 13.janúar:
Frá fréttariturum Tímans í Þingeyjarsýslum. Laust eftir klukkan sex í gærkveldi símaði fréttaritari Tímans á Fosshóli, að menn hefðu frá því um klukkan fjögur séð mikla og kynlega ljósglampa yfir suðuröræfunum í stefnu frá Dyngjufjöllum eða Kverkfjöllum. Samtímis því töldu menn sig hafa heyrt þórdunur, er líktust fjarlægum gosdrunum eða þrumum. Töldu menn fyrst líklegast, að hér væri um allmikil eldgos að ræða, en eftir því sem á kvöldið leið, töldu menn í Mývatnssveit og fremst í Bárðardal, sem oft hafá séð elda uppi, að þetta væri líkara eldingum. Af viðtali, sem blaðið átti við Veðurstofuna í gærkveldi er sýnt að þrumuveður var í Skaftafellssýslum og yfir Vatnajökli og líklegt að þar væru miklar eldingar. Er alls ekki talið ólíklegt að eldingar þessar hafi sést norður í Þingeyjarsýslur.
Veðráttan segir að þann 20. hafi bifreið fokið af vegi undir Hafnarfjalli. Þann 28. gerði mikið brim í Þorlákshöfn. Tíminn segir frá því 29.janúar:
Í gær var ofsalegt brim í Þorlákshöfn, svo að elstu menn þar muna varla annan eins sjógang. Gengu brimskaflarnir á land upp og særokið fauk yfir kauptúnið. Brotnaði undan keðjunum. Um klukkan 11 í gær gekk mikið ólag yfir höfnina. Voru þau raunar tvö með stuttu millibili. Í þessum ólögum reyndi svo á festingar bátanna, að keðjan sem hélt vélbátnum Ögmundi AR-6, rifnaði út úr stefni bátsins og tók með sér brot úr bátnum. Losnaði báturinn þannig af legunni, en hinir héldu í þess um óstjórnlegu átökum. Rak bátinn upp í fjöru og var að hrekjast þar á klöppum og gömlum sjóvarnargarði í gær og brotnaði svo að báturinn er með öllu talinn ónýtur.
Tíminn segir 3.febrúar frá snjóleysi á Ströndum:
Fréttaritari Tímans í Trékyllisvík hefir skrifað blaðinu, að nálega aldrei hafi snjó fest á jörð, það sem af er þessum vetri á Ströndum. Hins vegar hefir tíð verið rosasöm og því lítið gefið á sjó. Reki hefir verið með minna móti í vetur. Nánar segir svo í fréttabréfinu: Hér hefir verið einmunatíð, það sem af ef þessum vetri. Nálega aldrei fest snjó á jörð, og þá sjaldan það hefir verið, hefir sá snjór aldrei staðið degi lengur. Jörð er nú í þorrabyrjun alauð og þíð, aðeins smáskaflar sjást í hlíðum og fjöllum. Frostlaust er oftast nætur og daga. Tún hafa eiginlega aldrei með öllu tapað grænku sumarsins.
Morgunblaðið segir af hlýindum 3.febrúar:
Meðan miklar frosthörkur ganga yfir Evrópu, grimmdarkuldi og hríðarveður er við Miðjarðarhafið, hefir blíða verið slík hér á landi, að menn muna tæpast eftir öðru eins veðurfari. Veðurstofan skýrði Morgunblaðinu frá því í gær, að þá hafi verið hlýjast á Loftssölum í Mýrdal, 7 stiga hiti. Í Reykjavík var hitinn 6 stig. Metta undarlega veðurfar stafar af því að kyrrstætt háþrýstisvæði er yfir Norðurlöndum. Veldur það norðan og austan átt um Evrópu, svo að kaldir straumar frá Norðurlöndum og Norður-Rússlandi seilast æðilangt suður á bóginn. Hér á landi er hinsvegar suðlæg hlý hafátt. Taldi Veðurstofan allt útlit fyrir að þetta sama veðurfar héldist enn um sinn, því að háþrýstisvæðið yfir Norðurlöndum er kyrrstætt.
Febrúar var nokkuð rosasamur með köflum, sérstaklega dagar um og eftir miðjan mánuð þegar mjög djúpar lægðir fóru til norðurs fyrir vestan land. Hungurdiskar hafa í sérstökum pistli fjallað um illviðrið þann 21. febrúar.
Ingibjörg í Síðumúla lýsir febrúartíð: Febrúarmánuður var mildur, en nú er samt vetrarlega en verið hefir, því seinnipart mánaðarins snjóaði talsvert og er jörð nú [í marsbyrjun] snævi hulin. En ekki er snjómagn mikið og eru góðir hagar.
Tíminn segir 7.febrúar frá hafnarvandræðum í Sandgerði:
Frá fréttaritara Tímans í Sandgerði. Á fimmtudagskvöldið [4.febrúar] slitnaði vélbáturinn Þorsteinn EA 15 frá Dalvík upp hér á legunni og rak á land hér innan við bryggjuna. Fór hann allhátt upp en lenti í sandi og er því ekki mikið brotinn. Ekki hefir þó tekist að ná honum út enn, en talið að það muni takast. Jarðýtur af flugvellinum hafa verið að lagfæra umhverfis hann í gær til að auðvelda björgun hans. Þorsteinn er um 50 lestir að stærð.
Tíminn segir 12.febrúar af snjókomu á Seyðisfirði - snjóleysið þykir tíðindum sæta:
Frá fréttaritara Tímans á Seyðisfirði. Í gær snjóaði í Seyðisfirði og þykir það nú orðið tíðindum sæta, að snjór sést. Venjulega tilheyrir það þessum árstíma, en snjó hefir varla fest í vetur.
Myndin segir af sjávarmálsþrýstingi á landinu (rautt) og þrýstispönn (bláar súlur) á landinu 11. til 28. febrúar. Ráða má í vindhraða af spönninni, því meiri sem hún er því meiri er meðalvindur á landinu. Hér má að oft hefur verið hvasst á þessu tímabili, sérstaklega er djúpar lægðir fóru hjá þann 16. og 21. Einnig var langvinnt hvassviðri, en þó minna dagana 25. til 27.
Þann 15. til 16.febrúar fór mjög djúp lægð til norðurs fyrir vestan land. Mikið hvassviðri fylgdi, en tjón varð samt ekki verulegt. Tíminn segir frá 16.febrúar
Frá fréttaritara Tímans í Þorlákshöfn. Í gærmorgun [15.febrúar] rak tuttugu og tveggja smálesta bát á land hér í Þorlákshöfn. Brotnaði báturinn mikið, enda stórgrýtt, þar sem hann rák upp. Reynt var að dytta að bátnum á fjöru j gærkveldi, en síðan er ætlunin að ná honum á flot á flóði og koma honum áleiðis til frekari viðgerðar.
Tíminn heldur áfram að segja af tjóni í veðrinu í pistli 17.febrúar:
Ofsaveður gekk yfir Suðurland í fyrrinótt og gær og urðu nokkrir skaðar hér og hvar, einkum í sveitunum austan fjalls. Ekki hafði þó frést um neina stórskaða í gærkveldi. Að Hvammi í Ölfusi fauk þak af nýlegu fjósi. Fauk allt ytra þakið og nokkuð af einangrun þaksins líka. Veðrið skall á um klukkan fjögur um nóttina og hélst fram undir hádegi, en þá fór að kyrra. Allstórt gróðurhús fauk í Laugarási og eyðilagðist að mestu. Víðar brotnuðu rúður í gróðurhúsum, en stórfellt tjón mun ekki hafa orðið á þeim annars staðar. Þá er vitað um, að þök fuku af hlöðum á nokkrum stöðum, svo sem í Hrepphólum í Hrunamannahreppi og Þykkvabæ í Landbroti. Víðar fuku hlutar af þaki eða járnplötur. Á allmörgum stöðum mun hafa tætt úr uppbornum heyjum eða jafnvel fokið hey, svo að um munaði, svo sem að Hjallanesi í Landsveit og víðar. Þá fuku mjólkurpallar á einum tveim eða þrem stöðum, sumir ásamt skúrum. Að Miðengi í Grímsnesi fauk mjólkurpallur með skúr og með honum mjólkurbrúsarnir fullir af mjólk í gærmorgun.
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Afspyrnurok var hér á Akureyri í fyrrinótt og fram yfir hádegi í gær, en þá fór að lygna. Ekki er vitað um verulegt tjón hér í kaupstaðnum nema þakjárn tók af nokkrum hluta menntaskólahússins gamla. Það var fyrir hádegi sem járnplötur tók að slita af húsinu og um hádegið var kennslu hætt í skólanum því að ekki þótti varlegt að láta fólk vera meira en þurfti á ferli um nágrenni hússins meðan þakplötur væru að fjúka þar. Var Eyrarlandsveginum lokað um tíma fyrir umferð farartækja og gangandi manna.
Akranesbátar voru 17 á sjó í ofviðrinu í fyrrinótt og komust þeir allir heilu og höldnu að landi í gær eftir talsverða hrakningsför í Flóanum.
Frá fréttaritara Tímans í Höfðakaupstað. Afspyrnurok var hér í fyrrinótt og gær. Allmikið af þakjárni fauk af tveim húsum hér í kauptúninu. Einnig fauk hluti af síldarplani. Tveir bátar voru á sjó héðan í gær, en náðu báðir heilu og höldnu landi, þrátt fyrir veðrið.
Frá fréttaritara Tímans i Vík í Mýrdal. Afspyrnurok var hér í gærmorgun af suðvestri, en ekki hefir þó frést um teljandi tjón hér í nágrenninu. Þó var svo hvasst, að sand skóf úr fjörunni upp yfir kauptúnið og settist í smáskafla á götur.
Tíminn segir 18.febrúar enn af skemmdum í veðrinu þann 16.:
Frá fréttaritara Tímans á Akranesi. Í fárviðrinu í fyrradag fauk skeljasandurinn, sem geymdur er í Leirugróf á Akranesi mikið og mátti heita, að drífa af þessum hvíta sandi væri ofan til í kaupstaðnum í verstu rokunum.
Í gær var að mestu símasambandslaust við Austfirði vegna þess að síminn hafði bilað austur í Skaptafellssýslu. Bilunar hafði einnig orðið vart í fyrradag en þá var hægt að framkvæma viðgerð fljótt, en bilunin í gær var erfiðari viðureignar.
Þann 20. til 21. gerði annað illviðri. Um það hafa hungurdiskar fjallað áður, eins og minnst var á hér að ofan. Tjón varð einkum á Vestfjörðum.
Tíminn segir frá 23.febrúar:
Frá fréttaritara Tímans á Flateyri. Í aftakaveðri því, sem geisaði aðfaranótt sunnudags [21.febrúar], fauk fjós ofan af fjórum kúm í Fremri-Breiðadal í Breiðadal við Önundarfjörð. Ennfremur fauk ofan af votheysgryfju á sama bæ. Fjós það, er fauk í óveðrinu, var hlaðið að nokkru úr torfi og grjóti. Stóðu kýrnar í tóftinni, þegar að var komið, en hestar voru látnir út á bænum, svo hægt væri að koma kúnum í hús. Grjót og timbur fýkur. Einnig fauk ofan af votheysgryfju þarna á bænum. Hafði mótatimbur verið lagt yfir gryfjuna og síðan fergt með grjóti. Stormurinn reif þetta allt ofan af gryfjunni og sást ekki urmull eftir af því. Ennfremur fuku járnplötur af þaki íbúðarhússins.
Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði. Í ofsaveðrinu á sunnudagsnóttina fauk heyhlaða úr timbri hér á Ísafirði, eign Arngríms Bjarnasonar. Lítið hey var í hlöðunni. Í veðri þessu slitnuðu loftnet víða og flaggstengur brotnuðu.
Frá fréttaritara Tímans á Flateyri. Aðfaranótt sunnudags var suðvestan rok hér á Flateyri. Var veðrið mest frá því klukkan fjögur um nóttina og til klukkan 89 um morguninn. Skemmdir urðu nokkrar á húsum, fisktrönur fuku og trillubát tók upp úr vetrarstæði og fauk hann út á sjó. Á oddanum við Flateyri eru fisktrönur og fuku tólf þeirra um koll í óveðrinu. Enginn fiskur var á þeim. fauk járn af húsum og rúður brotnuðu vegna áfoks. Bátur fýkur úr vetrarstæði. Lítinn trillubát, sem komið hafði verið fyrir í vetrarstæði tók upp í storminum. Fauk hann út á sjó en rak að landi annars staðar og var hann ekki mikið skemmdur. Þá fauk fjórtán metra hár fallhamarsturn um koll í óveðrinu. Á palli niður við jörð, er var áfastur við turninn, lá tólf hundruð kílóa fallhamar, og þótt nokkur kjölfesta hljóti að hafa verið í hamrinum, virðist það ekki hafa hindrað storminn í að leggja turninn á hliðina. Í öðru lagi stóð fallhamarsturn inn í vari. Mun þetta veður vera það alversta, er menn muna eftir.
Frá fréttaritara Tímans í Súgandafirði. Í óveðri, sem geisaði hér aðfaranótt sunnudags, urðu þær skemmdir á Suðureyri, að þak fauk af gömlu íshúsi. Íshús þetta er frá þeim tíma, þegar fryst var með snjó, en vélar ekki notaðar. Er hér um stórt hús að ræða, en aðrar skemmdir munu ekki hafa orðið á því, né á öðrum húsum hér á Suðureyri eða í firðinum. Brim var mikið og gekk sjór yfir bryggjurnar.
Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði. Aðfaranótt sunnudagsins gerði ofsarok af suðvestri. Vélbáturinn Ver, sem er 10 lestir að stærð, eign Einars Guðmundssonar, slitnaði frá bæjarbryggjunni og rak hann upp í fjöru.
Tíminn segir enn af sama illviðri í pistli 26.febrúar:
Aðfaranótt síðastliðins sunnudags [21.febrúar] var aftakaveður hér norðarlega á Ströndum. Í þessu veðri urðu þeir skaðar, að rúður brotnuðu í íbúðarhúsi Andrésar Guðmundssonar í Norðfirði [Norðurfirði] og þak fauk ofan af fjárhúsi á sama bæ. Allar rúður í einni hlið íbúðarhússins brotnuðu í óveðrinu, eða fjórtán til sextán rúður. Tuttugu kindur voru í fjárhúsi því, sem þakið fauk af. Auk kindanna var einn hestur hýstur í húsinu. Stóðu kindurnar í tóftinni, þegar að var komið um morguninn, en hesturinn hafði brotist út um nóttina.
Nú gekk að með nokkurri snjókomu sem olli ófærð og vandræðum. Tíminn segir frá 27.febrúar:
Mjólkurflutningar hingað til bæjarins gengu heldur seint í gær [26.], en þó fór svo að síðdegis komust allmargir mjólkurbílar til bæjarins bæði að austan og úr Borgarfirði, og mun verða næg mjólk á markaði í bænum í dag.
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri og Blönduósi. Í fyrrinótt brast á versta hríð á Akureyri og í Þingeyjarsýslum. Snjókoma var allmikil og hvasst, svo að mjög dró í skafla. Bílar komust þó með mjólk úr Eyjafirði til Akureyrar í gær. Í gærmorgun varð rafmagnslaust á Akureyri. Háspennulínan mun þó ekki hafa bilað, heldur krapastífla myndast í Laxá eins og oft verður, þegar mikla snjókomu gerir skyndilega á auða jörð. Var rafmagnslaust fram undir kvöld í gærkveldi. Í sveitum á Mið-Norðurlandi er kominn allmikill snjór og ófærð á vegum, til dæmis í Langadal. Hvasst var þar í gær og stórsjór við ströndina.
Mars var kaldari en næstu mánuðir á undan, sérstaklega framan af. Ingibjörg í Síðumúla segir:
Fyrstu dagar marsmánaðar voru kaldir og vetrarlegir, enda hávetur. Þá setti niður snjó, svo vegir urðu ófærir, bæði á heiðum uppi og inn til dala. En ekki stóð þetta lengi því fyrir miðjan mánuð var tíð aftur orðin mild og góð. Snjórinn tók að sjatna og vegir urðu færir á ný. Seinni hluti mánaðarins var dásamlega góður. Mars og einmánuður voru bestu vinir. Jörð má nú heita alauð. Snjór aðeins í giljum og dýpstu lautum, sem óðum grynnist og hverfur.
Tíminn segir af sjóslysi vestra í pistli 4.mars:
Frá fréttaritara Tímans í Bolungarvík. Það slys vildi til í fyrrinótt [aðfaranótt 3.], að einn skipverji af vélbátnum Flosa fr£ Bolungarvík féll útbyrðis og drukknaði, er báturinn fékk á sig brotsjó og lagðist á hliðina. Aftakaveður gerði fyrir Vestfjörðum í fyrrakvöld og náðu bátar landi með herkjum.
Myndin segir af sjávarmálsþrýstingi á landinu (rautt) og þrýstispönn (bláar súlur) á landinu 11. til 28. febrúar. Ráða má í vindhraða af spönninni, því meiri sem hún er því meiri er meðalvindur á landinu. Þann 5. til 7. kom lægðardrag úr norðvestri yfir Grænland og Ísland. Í því var ört dýpkandi lægð sem olli áköfu hríðarveðri, bæði á Vestfjörðum, Norðurlandi sem og sums staðar sunnanlands.
Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins kl.18 síðdegis þann 5.mars. Þá var lægðin við Suðausturland. Mikil norðaustanstrengur fylgdi í kjölfar lægðarinnar. Tíminn segir frá 6.mars:
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Hið versta veður með hvassviðri og allmikilli snjókomu en litlu frosti var á Norðurlandi í gær [5.]. Munu vegir víða hafa teppst. Fáir mjólkurbílar komust til Akureyrar. Einn þeirra fór út af veginum og hvolfdi vegna blindu. Illfært var orðið um Akureyrarbæ. Miklar símabilanir munu hafa orðið á Norðurlandi síðdegis í gær og var orðið sambandslaust við ýmsa staði.
Tíminn segir af ófærð 7.mars, sömuleiðis er óvenjuleg ísfrétt:
Hellisheiði mun nú vera orðin ófær og ekki er ráðgert að reyna að ryðja veginn yfir hana fyrr en veðurskilyrði batna. Mjólkurbílar, sem lögðu af stað að austan snemma í gærmorgun, voru allan gærdag að brjótast að austan og komu ekki til Reykjavíkur fyrr en á tíunda tímanum í gærkveldi.
Hvassviðri með fannkomu svo að stórhríð má kalla hefir verið um norðurhluta landsins síðustu tvo sólarhringana og því verra, sem austar dró. Er komin mikil fönn og ófært um flestar sveitir Norðausturlands.
Í gærkveldi barst Veðurstofunni skeyti frá Ms. Vatnajökli, sem var staddur 8900 mílur suðvestur í hafi frá Reykjanesi, að hann sæi hafísjaka. Mun skipið hafa séð þrjá jaka, en engar fregnir voru um, hve stórir þeir væru. Að því er Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, sagði blaðinu í gærkveldi, er það allóvenjulegt, að hafís sjáist á þessum slóðum eða svona sunnarlega, þótt einn og einn borgarísjaki flækist suður á bóginn af venjulegum ísaleiðum, bráðna þeir fljótt í hinum hlýja sjó. Kvaðst Jón hafa sent skeyti til Vatnajökuls til að fá nánari fregnir af ís þessum, stærð jakanna og fleira.
Morgunblaðið segir 9.mars fréttir af hríð á Vestfjörðum og snjóflóði á Ísafirði, einnig vandræðum við höfnina í Reykjavík:
Ísafirði 8. mars. Iðulaus stórhríð að norðaustan hefur verið hér síðan á fimmtudagskvöld [4.mars] og hefur kyngt hér niður svo miklum snjó, að öll umferð hefir verið mjög erfið. Á föstudagskvöld [5.mars] féllu fjórar snjóskriður úr hlíðinni fyrir innan Ísafjörð. Féll ein þeirra á sumarbústað Elíasar J. Pálssonar kaupmanns. Bústaðurinn stóð fyrir neðan skíðaveginn við Seljalandsá og eyðilagðist sumarbústaðurinn gjörsamlega. Önnur snjóskriða féll á fjárréttina við Grænagarð. Á föstudaginn, er snjókoman var hvað mest, kom togarinn Ísborg af veiðum og landaði 117 tonnum af fiski. Það gekk erfiðlega að koma fiskinum frá skipinu til vinnslu í frystihúsinu hér. Fjórir bílar brutust gegnum ófærðina með fisk til hraðfrystihússins í Hnífsdal. Þegar þeir voru á leið hingað aftur féll snjóskriða á einn bílanna og skemmdist hann lítilsháttar. JP.
Vegna hins stöðuga norðan roks hefur á stundum verið erfiðleikum bundið fyrir hafnsögumennina að færa skip inn eða út úr höfninni [í Reykjavík]. Á þetta sérlega við um hin stærri farmskip. Á ytri höfninni lágu í gær þrjú skip, sem ekki komust upp að í höfninni vegna veðurs. Tvö þeirra eru birgðaskip á vegum varnarliðsins og hið þriðja saltflutningaskip. Birgðaskipin hafa beðið eftir að veðrinu sloti síðan fyrir helgi.
Vísir segir 10.mars frá óvenjulegum snjóþyngslum í uppsveitum Árnessýslu:
Einhvern mesta snjó sem um getur um langt árabil, setti niður í Biskupstungum aðfaranótt laugardagsins s.l. [6. mars] Veðurofsinn var svo mikill á föstudagskvöld [5.] að bændur á sextugsaldri sögðust ekki muna annað eins. Stórhríð og skafrenningur var alla nóttina og fram á hádegi á laugardag. Ekki er vitað um neinn skaða á skepnum enda flestar komnar á hús, þar með talin útigangshross. Aftur á móti urðu nokkrar skemmdir á mannvirkjum, einkum á gróðrarstöðvunum. Á Syðri-Reykjum brotnuðu niður, að miklu leyti, tvö allstór gróðurhús vegna snjóþyngsla og það þriðja skemmdist allmikið en það var uppeldishús með ungum tómatplöntum, sem stóðu fullbúnar til útplöntunar í húsin. Urðu miklar skemmdir á plöntunum. Á Sjónarhóli brotnaði endi á gróðurhúsi, var það uppeldishús, en plöntum öllum varð bjargað. Á Stóra-Fljóti brotnuðu á þriðja hundrað rúður í gróðurhúsi af snjóþyngslum. Fjárhús og önnur útihús fennti víða í kaf, þar sem snjórinn lagðist að þeim og á einum stað a.m.k. er vitað að fólkið þurfti að grafa sig upp úr snjóskafli til að komast út úr bænum. Ár og lækir eru í foráttuvexti og ef allan þennan snjó leysir skyndilega, má búast við miklu flóði í ám og vötnum. Allar samgöngur tepptust frá fimmtudegi og fram á mánudag og þriðjudag, en unnið var að því á sunnudag og mánudag að ryðja vegi með jarðýtu.
Vísir segir 11.mars frá hrakningum á Hellisheiði:
Stór hópur barna og unglinga lenti í hrakningum á Hellisheiði í gærkveldi og nótt, er þeir voru að koma úr skíðaferð. Tepptust fjölmargir bílar í Svínahrauni vegna fólksbifreiðar, sem sat þar föst og stöðvaði alla bílalestina með skólabörnunum.
Tíminn segir af símslitum 12.mars:
Símasambandslaust hefir nú verið við Austurland um nærri vikutíma. Er hvorki hægt að ná austur gegnum Höfn í Hornafirði né um Akureyri. Blaðið fékk í gær þær upplýsingar hjá símaverkfræðingi að alvarlegastar væru bilanirnar á línunni milli Reyðarfjarðar og Starmýrar í Lóni, einkum í Álftafirðinum og við sunnanverðan Fáskrúðsfjörð. Þá er línan frá Egilsstöðum og norður í Möðrudal mjög illa farin og á sama hátt símalínurnar víða um Héraðið.
Tíminn er 13.mars með nánari fréttir af símabilunum:
Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Vonskuveður og mikil snjókoma hefir verið hér eystra undanfarna viku, en nú er brugðið til hlýinda og snjó farið að taka. Miklar símabilanir urðu hér eystra i veðrinu fyrir síðustu helgi og brotnuðu staurar víða og línur slitnuðu. Hér í nágrenninu brotnuðu um 20 staurar, en nú er viðgerðum að ljúka og símasamband komst á við Reykjavík i dag.
Tíminn segir 21.mars frá merkilegri ályktun búnaðarþings um snjóflóðamál:
Búnaðarþing gerði ályktun um, að gerð verði sem rækilegust rannsókn á því, hvar líklegt er að hætta stafi af snjóflóðum og skriðuhlaupum með hliðsjón af legu þeirra bygginga og mannvirkja, sem þegar hafa verið reistar, og staðsetningu væntanlegra bygginga og mannvirkja. Einnig taldi Búnaðarþing nauðsynlegt, að hafin verði starfsemi í landinu, sem vinni að því með mannvirkjagerð eða að öðrum leiðum, eins og nú mun gert erlendis í fjallahéruðum, að koma í veg fyrir, að manntjón og eignatjón hljótist af snjóflóðum og skriðuhlaupum.
Tíminn segir 23.mars af kulda:
Í gærkveldi var komið 810 stiga frost hér í Reykjavík og má búast við að það frost
haldist í dag og verði jafnvel enn kaldara í nótt. Í uppsveitum má búast við meira frosti. Á Norðurlandi var 911 stiga frost í gærkveldi. Frost þessi munu haldast hér 23 daga en úr því má búast við hlýnandi veðri. Bregður mönnum nú illa við eftir hin miklu hlýindi síðustu daga.
Um klukkan ellefu í gærkveldi strandaði breskur togari á Akureyjarrifi við Reykjavík. Nokkur stormur var og ókyrr sjór. Sæbjörg og fleiri bátar fóru á strandstaðinn, og um klukkan eitt hafði öllum skipverjum, 20 að tölu, verið bjargað.
Enn urðu símabilanir vegna ísingar. Í þetta sinn á Suðurlandi. Tíminn segir frá 25.mars:
Í fyrrinótt [aðfaranótt 24.] gerði hvassviðri með bleytuhríð á Suðurlandsundirlendinu og hlóðst snjór á símalínur, svo að allmiklar símabilanir urðu, og var sambandslaust austan Hvolsvallar. Skemmdirnar munu hafa orðið einna mestar í Flóanum og undir Eyjafjöllum. Á bilinu frá Selfossi niður að Haga, sem er stutt leið. brotnuðu 12 símastaurar og linur slitnuðu víða. Var því sambandslaust í gær frá Selfossi til Eyrarbakka og Stokkseyrar og á ýmsa bæi í Flóa. Víða um sveitir Árnessýslu og Rangárvallasýslu urðu bilanir, en yfirlit um það var ekki nákvæmt fyrir hendi í gær. Undir Eyjafjöllum urðu miklar bilanir. Bílstjóri, sem kom þaðan að austan í gær, sagði að símavírsflækjur hefðu legið þar á vegum og staurar sáust víða brotnir. Viðgerðamenn voru á þessum slóðum í gær. Útvarpsloftnet slitnuðu víða niður á Suðurlandi.
Í suðaustan rokinu í fyrrinótt slitnaði vélbáturinn Ægir upp af legunni í Þorlákshöfn og rak á land. Skemmdist hann þó furðu lítið.
Apríl var almennt mjög hagstæður, en þó var óróa- og umhleypingasamt um stund fyrir og í kringum þann 10. Ingibjörg í Síðumúla segir frá:
Apríl var indæll. Síðustu dagarnir svo hlýir að jörð var byrjuð að grænka. Vorverk voru byrjuð. Borið á tún og þau slóðadregin eins og væri komið fram í maí. Vegavinna var hafin víða í héraðinu en þegar maímánuður byrjaði kólnaði tíðin og vorverkin stöðvuðust. Túnin eru svo þurr og áburðurinn harðnar á þeim, svo ekkert verður aðhafst. Jarðargróðri fer lítið fram.
Tíminn segir frá 7.apríl:
Í gær [6.] hrepptu Faxaflóabátar hið versta sjóveður og urðu skipverjar á vélbátnum
Skrúð frá Fáskrúðsfirði, sem gerður er út frá Sandgerði, að yfirgefa bátinn eftir að
hann hafði fengið á sig mikinn brotsjó. Skrúður var að veiðum um fimm sjómílur út af Stafnesi, er mikill brotsjór skall yfir bátinn með þeim afleiðingum, að stýrishúsið brotnaði í spón og flest annað ofanþilja.
Tíminn segir enn frá óhappi á sjó 8.apríl:
Frá fréttaritara Tímans á Flateyri. Í fyrradag [6.] varð bátur frá Flateyri fyrir áfalli í róðri. Brotnaði báturinn mikið ofanþilja en sjór komst samt ekki í lest og komu skipverjar bátnum hjálparlaust til hafnar eftir áfallið.
Órói yfir sjóveðri á Sauðárkróki, Tíminn 10.apríl:
Frá fréttaritara Tímans á Sauðárkróki í gær [9.]. Mikinn ugg setti að mönnum hér á Sauðárkróki í morgun, þegar snögghvessti á suðvestan, en allir Sauðárkróksbátar voru á sjó. Er hér um trillur að ræða, sem tveir til þrír menn sækja á til fiskjar. Var þetta á níunda tímanum, sem rekið skall á, og var svo hvasst, að sjóinn skóf. Jafnframt veðrinu gekk á með éljum, og eftir fyrstu hrotuna lygndi heldur, en hvessti svo á ný um klukkan tólf og mun þá hafa verið öllu meiri stormur, en þegar veðrið skall yfir.
Tíminn segir enn af óhappi á sjó 13.apríl:
Um ellefuleytið í fyrradag [11.apríl] fórst vélbáturinn Glaður frá Vestmannaeyjum rétt hjá Elliðaey, er báturinn var að komast í landvar á heimleið frá því að leggja net. Allir skipverjar, átta að tölu, björguðust í gúmmíbát og var þeim bjargað af enskum togara eftir 22 klukkustunda hrakning.
Tíminn segir af góðri tíð 25.apríl:
Sumarið heilsaði með einmuna veðurblíðu um allt land. Sumardagurinn fyrsti var víðast hvar fagur og mildur, 10-12 stiga hiti víða. Var það samdóma álit fréttaritara blaðsins um allt land, að slík veðurgæði um þetta leyti væru einsdæmi. Á Suðurlandi eru tún farin að gróa, komin á þau grænn litur, og undir Eyjafjöllum og í Mýrdal eru valllendisbrekkur að verða grænar. Á þessum slóðum eru menn farnir að vinna á túnum, og sauðburður er víða byrjaður í Rangárvallasýslu. Þar eru aðeins gemlingar sem bændur láta bera snemma. Í gær mátti heita að hitamóða hvíldi yfir hér Sunnanlands. Á Austurlandi er snjólaust en frostnætur hafa verið og tafið fyrir. Fagridalur er orðinn fær. Í Vopnafirði er alveg snjólaust en jörð ekki farin að grænka. Verið er að ryðja Siglufjarðarskarð, og hefir það aldrei verið gert svo snemma. Í hinni miklu snjóasveit Fljótum er jörð orðin auð að mestu og klaka að leysa af vötnum. Á Vestfjörðum er einnig mjög lítill snjór í byggðum og sama veðurblíðan var þar og annars staðar á landinu í gær.
Maímánuður byrjaði með kuldasteytingi, en svo lagaðist tíð mikið: Ingibjörg í Síðumúla segir frá:
Fyrstu 9 daga maímánaðar var norðanátt og næturfrost, kaldir vindar næddu. Gróðri jarðar fór ekkert fram, en að morgni þ.10. var komin sunnanátt. Síðan hefir verið óslitin veðurblíða. Tún og úthagi spretta ört, svo að nú er gert ráð fyrir að innan skamms hefjist sláttur. Kýr liggja úti um nætur, gefinn matur en ekkert hey.
Tíminn segir 6.maí fréttir að austan:
Hér er kalt dag hvern, gránar á nóttum, en tekur að mestu upp á daginn. Er hér oft norðaustan éljahraglandi og sér ekki til sólar. Hefir þetta veðurfar nú haldist á aðra viku og hefir kippt úr þeim gróðri, sem kominn var. Bændur voru að byrja að sleppa fé áður en kuldakastið kom en hafa tekið það aftur. Sauðburður er ekki byrjaður að ráði. Fagridalur er ófær bifreiðum öðrum en snjóbílum. Var búið að ryðja veginn, en síðan skefldi í traðirnar. Jarðvinnsla er þó í þann veginn að hefjast, því að frost er ekki í jörð. ES.
Tíminn greinir frá batanum 11.maí:
Nú hefir brugðið til hlýinda um allt land, og virðist norðanáttin með kulda sínum búin í bili, en komin hæg suðaustanátt með 813 stiga hita víðast hvar á landinu. Mun verða hlýtt að minnsta kosti næsta sólarhring en lítil úrkoma, en hennar er nú helst þörf vegna gróðursins.
Tíminn hrósar tíð 26.maí:
Það er nú álit allra manna, að spretta sé betur á veg komin en verið hefir um áratugi svo snemmsumars. Komin er góð háarslægja á mörg tún, og telja má víst, að sláttur verði almennt hafinn um miðjan júní, sagði Páll Zóphóníasson búnaðarmálastjóri, er blaðið átti tal við hann í gær. Það var annað 1952. Mönnum verður á að bera þetta einmuna góða vor saman við vorið 1952 eða 1951. Þá var um þetta leyti snjór víða um land, fjallvegir flestir ófærir og jörð grá. Enginn gróður kom norðan lands og austan að marki fyrr en með júlí, og sláttur hófst ekki almennt fyrr en um miðjan júlí. Nú má fullvíst telja, að sláttur hefjist mánuði fyrr og verði þá komin miklu betri spretta en þá var.
Júní var afskaplega hagstæður - óþurrka gætti þó í lok mánaðar á Suðurlandi. Ingibjörg í Síðumúla segir frá:
Júnímánuður var yndislegur að veðurfari, sólríkur, hlýr og þurrviðrasamur. Tún eru talin vera vel sprottin. Hey var byrjað að slá 21.júní. Víða var byrjað löngu fyrr í héraðinu. Nýting hefir verið góð á því sem búið er að slá.
Tíminn segir af úrvalshorfum 3.júní:
Fullvíst er nú, að sláttur hefst almennt í öllum landshlutum enn fyrr en búist var við fyrir viku síðan. Var þá gert ráð fyrir, að hann mundi almennt hefjast um miðjan júní, en síðan hefir sprettutíð verið svo góð, að margir bændur, að minnsta kosti sunnan lands og norðan, og jafnvel líka vestan lands og austan, munu byrja um næstu helgi eða þegar eftir hana. Af þessum fregnum mun óhætt að fullyrða, að sláttur hefjist almennt fyrr í öllum landshlutum en nokkru sinni áður hér á landi og fullum þrem vikum fyrr en meðallag má teljast undanfarna áratugi.
Tíminn segir góðar fréttir úr Mývatnssveit 5.júní:
Frá fréttaritara Tímans í Mývatnssveit. Einmuna veðurblíða hefir verið hér í sveitinni síðan 9. maí. Öll jörð er orðin óvenjulega vel sprottin og gróin. Sést það m.a. á því, að 3.júní voru tvö tún slegin í Vogum með ágætu grasi, og má búast við að slátturinn hefjist almennt áður en langt líður.
Tíminn segir 25.júní frá breytingum á Breiðamerkursandi:
Frá fréttaritara Tímans í Öræfum. Í vor hefir orðið breyting á vötnum á Breiðamerkursandi. Mun þessi breyting geta haft í för með sér nokkra erfiðleika við upprekstur fjár á Breiðamerkurfjall. Það er áin Breiðá, sem hefir flutt sig upp við jökul og fellur hún nú í farvegi Fjallsár. Er fyrri farvegur Breiðár þurr með öllu.
Minniháttar hret gerði þann 25. júní. Tíminn segir frá þann 26.:
Í gær var leiðinlegt veður víða norðan lands, kuldi og rigning í byggð, en snjókoma og krapaél til fjalla.
Tíminn segir 29.júní frá óvenjulegum hlýindum í sjó:
Blaðinu barst í gær skýrsla frá Fiskideild Atvinnudeildar Háskólans um síldarrannsóknir Ægis í júnímánuði. kemur fram í skýrslunni, eins og Tíminn skýrði frá í fyrradag, að engin síld fannst fyrir Norðurlandi, nema lítið magn djúpt milli Kolbeinseyjar og Sléttu og síðan 75 mílur austur af Langanesi. Hins vegar er meira af hlýsævi fyrir Norðurlandi en síðustu ár og betri skilyrði fyrir átu, þótt enn fyndist lítið af henni.
Út af Vestur og Norðurlandi var að þessu sinni óvenju mikil útbreiðsla af hlýja (Atlantsse) og gætir hans nú austur með öllu Norðurlandi, allt til Langaness, og einnig lengra til norðurs en á undanförnum árum. Hafísinn liggur nú langt undan landi miðað við árstíma. Þannig var ísröndin nú um 70 sjómílur norður af Kögri, en á sama tíma í fyrra aðeins 30 sjómílur frá landi. Sjávarhiti við yfirborð er svipaður og s.l. ár, en vegna meiri áhrifa hlýsævarins í neðri lögum sjávarins hefir áberandi hitaskiptalag ekki myndast og spáir það góðu um átuskilyrði á síldveiðisvæðinu.
Tíminn segir sprettu- og heyskaparfréttir úr Borgarfirði 30.júní:
Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Heyskapur stendur nú orðið sem hæst í Borgarfirði og eru ýmsir komnir langt með túnin, Á stöku bæjum eru menn búnir að hirða alveg fyrsta slátt. Einkum á þetta við í neðri byggðum héraðsins í neðri byggðum héraðsins. Slátturinn er snemma á veg kominn i dölunum, enda kaldari tíð dregið þar úr sprettu að undanförnu. Einkum sprettur illa á harðvelli vegna langvarandi þurrka.
Þann 30.júní varð almyrkvi á sólu syðst á landinu. Afskaplega eftirminnilegur atburður fyrir þá sem sáu - og jafnvel aðra landsmenn líka. Almyrkvar eru mjög sjaldséðir á hverjum stað. Rúm 100 ár voru frá síðasta almyrkva á landinu og 72 ára bið í þann næsta (2026).
Tíminn segir frá 1.júlí:
Fólk streymdi í stórhópum á almyrkvasvæðið í gær til þess að sjá náttúruundrið. Sólmyrkvinn í gær mun lengi verða minnisstæður þeim sem áttu kost að fylgjast með því hvernig myrkur varð um miðjan dag og sólin stóð svört á himni meðan stjörnur skinu.
Júlí var býsna misjafn. Óþurrkar voru syðra - og reyndar víða á landinu langt fram eftir mánuði. Óvenjulega rigningu gerði í Skagafirði 6. til 7. og dagana áður hafði snjóað á láglendi í Þingeyjarsýslu.
Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Fram yfir miðjan mánuð var úrkomusamt og kalt, næturhiti 1 til 2 stig fyrstu næturnar. Þá kól kartöflugras í görðum en ekki mikið. Seinnipart mánaðarins var stormasamt og kalt, svo hvasst að ekki var hægt að hreyfa þurrt hey, samt náðist inn mikið af töðu en ekki er hún með ákjósanlegri góðri verkun. Meðan óþurrkarnir voru, var heyjað í súrhey. Brennisteinslykt fannst hér og í grenndinni nokkra daga. Grasspretta er ágæt. Víða byrjað að slá á engjum þó mikið af töðu sé óhirt vegna storma og rigninga.
Skriðuland (Kolbeinn Kristinsson): Mánuðurinn heldur kaldur, einkum seinni hlutinn. Norðlæg átt algengust, en þó tíð veðrabrigði. Þurrkar tregir, nýting þó sæmileg á töðu og spretta á túnum ágæt. Óvenjumikil rigning og stórflóð ollu stórtjóni í Norðurárdal í Skagafirði og í Blönduhlíð sem sem kunnugt er orðið. [6.] Óminnilegt stórflóð í ám.
Sandur (Friðjón Guðmundsson): Tíðarfar var kalt og úrfella- og óþurrkasamt. Mjög óhagstætt til heyskapar. Töður hröktust og tín spruttu úr sér vegna óþurrka. Þ.4. kl.4 að morgni snjóaði niður í sjó, en hér hefur ekki snjóað í júlímánuði síðastliðin 30-40 ár, að líkindum ekki síðan 1915.
Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Snjórinn og kuldinn aðfaranótt 4. þ.m. gerði það að verkum að úthagi allur hætti næstum að spretta.
Sámsstaðir (Klemens Kristjánsson): Í tæpu meðallagi hlýr, hægviðrasamt, úrkoma yfir meðallagi, en aðallega kom fyrri hlutann. Allan síðari hluta mánaðar var þurrviðri og hin hagstæðasta heyskapartíð. Sólfar í mesta lagi og góðviðri flesta daga. [6. mikil rigning], [7. geysimikil rigning - 89,5 mm].
Fyrstu vikuna var veður harla hryssingslegt og óvenjulegt. Talsvert norðanáhlaup gerði, strekkingsvindur var 1. til 3. með miklum kulda. Þá snjóaði niður að sjó sums staðar norðaustanlands. Síðan kom lægð eða lægðardrag úr vestri inn yfir landið. Virðist hafa haldist kyrrstætt um tíma um landið þvert frá suðri til norðurs þann 6 og fram á 7. Úrkoma varð sums staðar mikil, mest mældust 89,5 mm á einum sólarhring á Sámsstöðum, það mesta sem vitað er um þar á bæ. Á Blönduósi mældust 30,2 mm, það mesta sem þar hefur mælst í júlí. Á Skriðulandi í Kolbeinsdal mældust 25,4 mm, það mesta sem þar mældist í júlí, en mun meiri úrkoma mældist þar í nokkrum öðrum mánuðum. Úrkoman hafði mestar afleiðingar fyrir norðan, í austanverðum Skagafirði, þar olli hún tjóni. Ástæða væri til að athuga þetta veður betur en hér er gert.
Tíminn birti frétt 7.júlí:
Mikill vöxtur hljóp í Djúpadalsá í Blönduhlíð í gær og teppti hún umferð um veginn til Akureyrar um fjögurleytið í gær. Komust áætlunarbifreiðar Norðurleiða ekki til Akureyrar og urðu að snúa við að Sauðárkróki. Enn fremur munu hafa orðið nokkur skriðuföll á veginn í Silfrastaðafjalli, en ekki var blaðinu kunnugt um skemmdir af þeim skriðuföllum í gærkvöldi.
Tíminn heldur áfram að segja frá flóðum og skriðuföllum 8.júlí:
Gífurlegt tjón hefir orðið í Skagafirði af völdum flóða, bæði í fyrradag og í gær. Fór að rigna að kvöldi mánudags [5.júlí] og rigndi sleitulaust til þriðjudagskvölds eða í sólarhring. Á þessum tíma hljóp gífurlegur vöxtur í ár og vötn. Rofnaði Blönduhlíðarvegur á tveimur stöðum og er nú með öllu ófært til Akureyrar. Fjöldi manns komst ekki leiðar sinnar á þriðjudagskvöldið og varð að snúa við til Sauðárkróks. Beið það þar til í gærkvöldi, að flugvélar frá Flugfélaginu fluttu það áfram til Akureyrar. Er fyrirsjáanlegt, að koma verður á loftbrú milli Sauðárkróks og Akureyrar, en þungaflutningur verður að fara sjóleiðina um óákveðinn tíma. Gífurlegt tjón hefir hlotist af þessum vatnavöxtum. Er bæði um að ræða tjón á mannvirkjum og eigum manna. Skriður féllu á tún tveggja bæja og ollu stórtjóni á báðum stöðum og miklar skemmdir urðu á vegunum. Á þriðjudaginn [6.] ruddist Djúpadalsá úr farvegi sínum og braut sig í gegnum veginn á mörgum stöðum, þar sem hann liggur skammt frá brúnni yfir Héraðsvötn. Flæddi Djúpadalsáin yfir um fimm kílómetra svæði, en var aðeins spræna í gamla farveginum. Kvíslaðist hún um allt þetta svæði og rann yfir hluta túnsins á Mið-Grund. Ennfremur braust Hellnaá úr farvegi sínum og rann suður fyrir neðan Sólheimatún. Stóð brúin yfir ána á þurru, en áin féll yfir veginn hjá Sólheimum. Strax og fært þótti voru hafnar viðgerðir á Blönduhlíðarvegi og voru viðgerðarmenn komnir fram að Silfrastöðum í gærkvöldi. Höfðu þeir komist þangað á bifreið. Mikill vöxtur hljóp í Héraðsvötn og skemmdu þau engi að Völlum og Vallanesi.
Miklar skriður urðu í Silfrastaðafjalli og Norðurárdal. Ennfremur féllu skriður á Öxnadalsheiði. Rofnaði ljótt skarð í veginn á heiðinni á einum stað og verður erfitt um viðgerðir á því. Karl Friðriksson skýrði blaðinu svo frá, að skriða hefði fallið í svokallaðri Dagdvelju vestast í Giljareit. Þar er vegurinn að mestu tekinn í sundur og er skarðið fimm til sex metrar á dýpt og jarðvegurinn rifinn í burtu niður í klöpp. Sagði Karl að erfitt væri að kanna skriðurnar, því þær væru enn ekki gengar. Sagði Karl að ljótt væri að sjá yfir veginn frá Valagilsá og að Neðri-Kotum. Skriður hefðu fallið á hann með stuttu millibili og væri í veginn að sjá eins og eyjar í skriðuhafinu. Skriður féllu einnig á veginn í Silfrastaðafjalli.
Lítilsháttar tjón mun hafa orðið af vatnsveðrinu í Langadal, en þar féllu tvær smáskriður, sem ekki ollu teljandi skemmdum.
Í vatnsveðrinu hljóp mikill vöxtur í Gljúfurá í Viðvíkursveit. Er nýlega lokið við að gera brú yfir hana þar sem hún fellur þvert um Út-Blönduhlíðarveg. Gljúfurá rennur um breiðar grjóteyrar, skömmu áður en hún fellur í Eystrivötn. Rennur hún þar samsíða þjóðveginum. Þegar vöxturinn hljóp í hana, rann hún að veginum og rauf í hann skörð. Mun þó ekki taka langan tíma að gera við þær skemmdir.
Aur var farinn að falla á veginn um Silfrastaðafjall og Norðurárdal upp úr miðjum
um degi á þriðjudag [6.júlí]. Var þá fólksbifreið úr Borgarnesi á ferð í Silfrastaðafjalli. Eigandi hennar, Daníel Jónsson frá Borgarnesi ók henni. Er hann var staddur á veginum skammt frá gömlu beitarlúsunum á Silfrastöðum, festist bifreiðin í aur. Skipti þá engum togum, að aurskriða kom úr fjallinu og umlukti bifreiðina á alla vegu. Var ekki hægt að hreyfa neina hurð og fólkið algjörlega innilokað. Barst því brátt hjálp og varð að moka það út úr bifreiðinni. Daníel telur bifreið sína, sem er Ford, árgangur 1947, næstum því ónýta, ef ekki ónýta með öllu.
Búandinn á Fremri-Kotum hefir orðið fyrir miklu tjóni af völdum skriðufallanna í Norðurárdal. Liggur nú tún hans allt, eða að mestu leyti undir aurleðju. Hann hafði nýlega húsað, upp bæ sinn og stendur nú húsið eitt upp úr skriðunum. Á Fremri-Kotum hefir búið um langan tíma, Gunnar Valdimarsson, bifreiðarstjóri. Er hann mörgum kunnur fyrir einstæða hjálpfýsi við vegfarendur, þegar eitthvað bjátar á. Munu margir, sem átt hafa í erfiðleikum með að komast áfram í vetrarfönnum og hríðum, minnast Gunnars með þakklæti. Eru allar líkur á því að Gunnari þyki Fremri-Kot ekki byggileg úr þessu og verða Silfrastaðir fremsti byggði bær austan Héraðsvatna og Norðurár, en ekki er búið á Neðri-Kotum.
Snemma í gærmorgun {7.] mun Valagilsá hafa rifið af sér hina rammgjörðu steinbrú, sem á henni var á veginum skammt fyrir framan Fremri-Kot í Norðurárdal. Kom Karl Friðriksson, vegaverkstjóri, að ánni í gær. Skýrði hann blaðinu svo frá að ekki hefði verið mögulegt að komast yfir ána. Var áin mjög djúp og með miklu grjótflugi. Brúin var horfin með öllu og flóði vatn um eyrina Akureyrarmegin við ána. Hafði áin rifið um sjötíu metra af veginum hið næsta og var sá spotti alveg horfinn. Karl sagði, að ekki hefði verið urmul að sjá eftir af brúnni. Brú þessi var sterklega byggð með mikið burðarmagn í handriðum, sem voru steinsteypt og í heilu lagi. Mikill grjótgarður var norðan við brúna og er hann horfinn. Sama er að segja um stöplana, að þeir eru horfnir. Yfirleitt hefir áin hreinsað svo til í brúarstæðinu, að það sést varla vottur þess, að þar hafi nokkru sinni verið brú. Var ómögulegt að sjá í gær, hvort brúin lá skammt frá stæðinu, gat hún allt eins hafa borist niður í Norðurá. Ekki er enn ráðið, hvort heldur áin verður rudd fyrir stærri bifreiðir eða bráðabirgðabrú sett á hana.
Þegar farið er vestur yfir Vatnsskarð er hátt fell á hægri hönd, sem Grísafell heitir. Hafa ekki í manna minnum og ekki svo skráðar sögur séu af, fallið skriður úr því fjalli. En það virðist sem allt hafi orðið undan að láta í regninu aðfaranótt þriðjudagsins og fyrrihluta hans, því skriðuhlaup varð úr Grísafelli. Undir Grísafelli stendur bærinn Fjall, sem er fremsti bær í Sæmundarhlið. Féll skriðan á túnið og eyðilagði mestan hluta þess. Hefir Halldór Benediktsson, sem býr á jörðinni, orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni af völdum skriðunnar þótt ekki yrðu skemmdir á húsum af völdum hennar.
Frá fréttaritara Tímans. Mönnum brá heldur en ekki í brún á þriðjudagsmorguninn er veður fór að með regni, en Veðurstofan hafði spáð suðaustan golu og léttskýjuðu á Norður- og Norðausturlandi, Höfðu bændur, t.d. í Þingeyjarsýslu, víða látið liggja hálfþurrt hey og treyst á veðurskeytin en fengu nú illa ofan í. Þykir bændum á þessum slóðum veðurskeytin bregðast oft og hafa við orð að skora á Veðurstofuna að senda engin veðurskeyti út um hásláttinn til þess að rugla ekki bændur í ríminu meðan á heyskap stendur.
Tíminn segir af vexti í Skeiðará 9.júlí - úr varð allmikið hlaup og brennisteinsfýlu var getið í flestum landshlutum næstu daga:
Frá fréttaritara Tímans í Öræfum. Töluverður vöxtur hefir að undanförnu verið í Skeiðará. Hafa þessir vatnavextir þótt benda til þess, að hlaup væri væntanlegt, enda hafa Skeiðarárhlaup oft byrjað með þessum hætti. Áin er orðin dökk á lit og harla ófrýnileg og er af henni svokallaður jökulfnykur eða brennisteinsfnykur. Síðasta Skeiðarárhlaup varð árið 1947. Var þá ekki um stórhlaup að ræða. Er það eins í þetta sinn, að ekki eru líkur á stórhlaupi.
Tíminn segir fréttir úr Skagafirði 10. júlí:
Frá fréttaritara Tímans á Sauðárkróki. Klukkan sjö í morgun lagði þrjátíu manna hópur af stað héðan frá Sauðárkróki og ætlar hann til Akureyrar. Verður komið á móti hópnum við Valagilsá. Hefir þá ekki verið farið yfir skriðusvæðið síðan snemma á þriðjudaginn. Fólkið er búið undir það að þurfa að ganga í hálftíma, frá Ytri-Kotum að Valagilsá.
Það eru alltaf að koma í ljós nýir skaðar, sem hafa orðið af völdum skriðufallanna á svæðinu Silfrastaðafjall, Norðurárdalur, Öxnadalsheiði og Krókárdalur. Eru líkur til að töluvert af hrossum og fé hafi farist í skriðunum, grafist undir þeim, þegar þær féllu, eða festast í eðjunni og ekki getað bjargað sér úr henni aftur.
Fyrir vatnsveðrið á þriðjudaginn var kunnugt um stóran hóp af hrossum, sem hélt sig í Krókárdal. Krókárdalur liggur sunnan Heiðarár og opnast mynni hans móti Skógarhlíð á Öxnadalsheiði. Mikil skriðuföll hafa orðið í Krókárdal. Er talið líklegt að hrossin hafi farist í skriðunum, því ekkert sést eftir af þeim og þeirra hefir hvergi orðið vart. Ekki mun enn hafa verið leitað í Krókárdal til að afla fullrar vitneskju um það, hver orðið hafi afdrif hrossanna.
Hrólfur Þorsteinsson, Stekkjaflötum, sem er vanur fjallamaður, var að fylgja manni norður yfir skriðusvæðið í Norðurárdal, seint í fyrradag. Rákust þeir Hrólfur þá
á fyrstu fórnardýr skriðufallanna. Voru það þrjú hross sem höfðu borist með skriðunum niður undir Norðurá. Tvö þessara hrossa voru sér og lá þriðja hrossið nokkuð frá þeim. Er búist við að fleiri dauðar skepnur eigi eftir að finnast í skriðunum. Enn hefir alls ekki verið fært að rannsaka það til hlítar, hvort meira tjón á skepnum hefir orðið.
Tíminn er 11.júlí enn með fréttir af skriðusvæðinu:
Fréttamaður Tímans á Sauðárkróki fór í gærmorgun ásamt ferðafólki austur til Akureyrar og hafði blaðið tal af honum síðdegis í gær, er ferðafólkið var komið austur. Kvað hann ömurlegt um að litast á skriðusvæðinu. Strax og komið var fram í Vallhólm taka skemmdir flóðanna að blasa við. Hafa Héraðsvötn borið sand og leir á stór svæði. Þegar austur kemur fyrir vötnin í Blönduhlíðinni, eru skemmdirnar þá enn meiri. Munu vera meiri og minni skemmdir á hverjum einasta bæ þar, annað hvort af skriðum eða vatni, allt fram í Úlfsstaði. Við komumst hindrunarlaust á bílnum fram að Ytri-Kotum. Búið er að ryðja þangað. Nýi vegurinn er þó víða alveg grafinn en ýtur hafa sléttað ruðninginn ofan á honum. En hjá Ytri-Kotum færast skriðurnar fyrst i aukanna og lengra verður ekki komist á bil ennþá. Lögðum við þá land undir fót og klöngruðumst yfir ófærurnar að Valagilsá. Á Fremri-Kotum er ljótt um að litast. Túnið er að mestu undir stórgrýtisurð. Skriðurnar tóku öll peningshús jarðarinnar og virðist einsætt, að þar verði ekki búið lengur. Er tjón bóndans, Gunnars Valdemarssonar óskaplegt, því að um tryggingu gegn skriðuföllum er ekki að ræða. Á kaflanum milli Kota og Valagilsár eru aðeins smáspottar af veginum heilir. Víðast hvar er hann annað hvort kafinn stórgrýtisurð eða þá tættur sundur. Þar eru tvö stór skörð, annað 8 metrar á dýpt en hitt grynnra en 18 metra breitt. Ýtur eru nú Þarna verki og reyna að jafna, til ofan á veginum.
Tíminn heldur áfram að segja frá Skeiðarárhlaupi 13.júlí - en einnig af heyskap nyrðra:
Frá fréttaritara Tímans í Öræfum. Skeiðará virðist enn hafa vaxið nokkuð síðustu 2 dagana og mun nú vera um það bil fjórfalt vatnsmagn í henni miðað við meðalvatnsmagn að sumri. Breiðir hún orðið dálítið úr sér en aðalvatnsmagnið þó enn í fyrri farvegum. Hún er ekki enn búin að brjóta af sér jökulinn svo að ekki er um raunverulegt hlaup að ræða og ekki einu sinni víst að svo verði. Brennisteinslykt leggur enn af henni og sorti fellur á málma. Síminn virðist ekki enn í verulegri hættu. SA
Frá fréttaritara Tímans í Mývatnssveit. Heyskapur hefir gengið hægt hér undanfarnar vikur vegna úrkomu og kulda. Hefir hitinn farið í frostmark margar nætur, og að morgni 4. júlí var alhvítt af snjó hér í sveitinni.
Tíminn segir 14.júlí óþurrkafréttir:
Frá fréttaritara Tímans í Stykkishólmi. Miklir óþurrkar eru hér við Breiðafjörð, og fer hey að liggja undir skemmdum. Mikið hey er flatt hjá bændum og hefir ekkert af því náðst enn þá, það sem af er sumrinu, nema á nokkrum bæjum. Töluvert af heyinu er komið í sæti, en illa þurrt. Bændur hafa beðið með að slá vegna óþurrkanna, en grasið sprettur þá úr sér, svo að það skemmist í óþurrkunum. hvort sem það er slegið eða óslegið. Hefði verið um þurrk að ræða á þessu svæði, væri búið að heyja mikið, því að spretta er mjög góð. Enn eru bændur víðast hvar á þessu svæði ekki búnir að koma því svo fyrir, að þeir geti verkað heyið í vothey.
Tíminn segir 15.júlí af afhendingu veðurhandrita - stórmerk gjöf. Síðan segir enn af Skeiðarárhlaupi.
Danskir veðurfræðingar hafa gefið löndum sínum fagurt fordæmi. Þeir hafa afhent íslendingum að gjöf handrit þau, er geyma skýrslur íslenskra veðurathugunarstöðva, gerðar á tímabilinu 18451920, eða meðan Danir fóru með þessi mál á Íslandi.
Frá fréttaritara Tímans í Öræfum. Skeiðará er stöðugt að vaxa og breikkar hún dag frá degi. Í gær var hún orðin um einn km á breidd fyrir framan Skaftafell. Fimm símastaurar eru nú komnir í vatn, en síminn er enn ekki í teljandi hættu. Veltur það á mestu, að ekki stendur straumstrengur á neinum stauranna. Þar sem áin rennur þröngt er straumkastið orðið ægilegt. Á öðrum stöðum breiðir áin úr sér, rennur hún nú allt austurundir Hnappavallaós. Áin kemur enn í óklofnu straumkasti undan jökli. Hins vegar er hún farin að sprengja jökulinn af sér og koma öðru hverju smájakar með straumnum.
Tíminn lýsir en hlaupinu 16.júlí - og segir af óþurrkum:
Frá fréttaritara Tímans í Öræfum í gærkvöldi. Nú er sá tími óðum að færast nær, að hlaupið í Skeiðará komist í algleyming. Hefir áin sprengt jökulinn mikið og vöxtur í ánni er orðinn örari. Sigurjón Rist hefir verið hér að undanförnu og mælt vatnið. Er vatnið orðið svo mikið, að hann er farinn að miða það við Þjórsá. Telur hann að heildarvatnið nemi nú nokkrum Þjórsám, en í dag hafi Skeiðará vaxið sem nemi einni Þjórsá.
Frá fréttaritara Tímans í Borgarfirði. Látlaus rigningartíð er að verða bændum erfið og má heita að heyskapur gangi ekkert, meðan óþurrkarnir standa, nema hjá þeim, sem geta verkað vothey. Óþurrkar eru nú búnir að standa hálfan mánuð, og eru hey víða farin að hrekjast á túnunum. Flestir hafa lítið sem ekkert slegið síðan brá til óþurrka, en margir voru búnir að slá mikinn hluta fyrri sláttarins, og sumir jafn vel búnir með túnin.
Í gær var dálítill þurrkur á Austurlandi. Í fyrradag lurðu mikil spjöll af völdum rigningar, sem kom skyndilega ofan í hey um miðjan dag_ Þurrkur hafði verið daginn áður og byrjaði næsti dagur me3 þurrki. Breiddu margir hey, þegar svo vel leit út með þerri.
Enn eru fregnir af Skeiðarárhlaupi, pistlar úr Tímanum:
[18.júlí] Frá fréttaritara Tímans í Öræfum. Blaðið átti tal við fréttaritara sinn í Öræfum eftir hádegið í gær. Sagði hann að Skeiðará hefði heldur vaxið um nóttina, en litlar breytingar hefðu annars orðið á hlaupinu. Áin er nú um þrír km. á breidd hjá símalínunni, en um einn km. á móts við Fagurhólsmýri. Hefir hún þegar borið nokkuð af jökum fram á sandinn, en um jökulruðning er þó ekki að ræða enn. Tveir símastaurar eru fallnir og símalínan slitin, en samband var milli Fagurhólsmýrar cg Reykjavíkur um talstöð.
[20.] Frá fréttaritara Tímans í Öræfum í gær. Skeiðarárhlaupið virðist, að því er séð verður, hafa náð hámarki sínu á sunnudaginn, og nú virðist áin aðeins farin að minnka aftur, þótt ekki sé það áberandi. Sigurjón Rist vatnsmælingamaður, sem fylgist með hlaupinu frá Skaftafelli, telur, að áin flytji nú fram undan jöklinum um þúsund teningsmetra af vatni á mínútu [greinilega rangt eftir haft hér].
[22.] Ferlegt að sjá yfir Grímsvatnasvæðið eftir Skeiðarárhlaupið. Gaf á að líta þar sem vatn var á brautu en eftir stóðu hrikalegir íshamrar, þverhníptir og regindjúp undir, en ker í þeim djúpum. Sagði Sigurður [Þórarinsson] að þessi sýn hefði verið ferleg. Aðalhlaupið kom fram í farvegi Skeiðarár. Átta minni hlaup urðu vestar, flest smá. Komu þau hlaup annað hvort eftir farvegum kvísla eða gömlum þornuðum farvegum.
Tíminn segir af þurrki á Suðurlandi 27.júlí:
Í gær [26.] var ágætur þurrkdagur um allt Suður- og Suðvesturland. Víða var mikið hirt af þurru heyi og einnig var mikið slegið austanfjalls og einnig í nágrenni Reykjavíkur og í Borgarfirði. Hafa bændur lengi beðið eftir þessu góða heyskaparveðri, sem kom loks í gær eftir langvarandi óþurrka.
Tíminn segir 1.ágúst frá góðri heyskaparviku á Suður- og Vesturlandi:
Síðasta vika varð mikil heyskaparvika á Suðurlandi og í Borgarfirði og raunar líka víðast um Vesturland. Er þetta besta þurrvikan eftir langvarandi óþurrka og hefir því verið mikill heyskapur þessa viku. Flestir bændur á Suðurlandsundirlendi voru búnir að hirða fyrri slátt af túnum og í gær var mjög víða verið að aka heyi heim í hlöður. Svipaða sögu er að segja úr nágrenni Reykjavíkur og Borgarfirði. Þar hefir þó ekki verið stöðugur þurrkur alla vikuna, einkum upp til dalanna, sem næst liggja heiðunum. Norðanlands og austan er aðra sögu að segja af heyskapnum. Þar er búin að vera ill veðrátta til heyskapar mestan hluta vikunnar og talsverðar úrkomur, einkum á Austurlandi. Heyskapur hefir því gengið illa þar upp á síðkastið. Allmargir bændur á Norðurlandi eru samt langt komnir með túnin og vantar aðeins herslumuninn að þeir geti haldið upp á töðugjöldin.
Morgunblaðið rekur tjón í skriðunum á Fremri-Kotum í pistli 1.ágúst:
Eins og kunnugt er af fréttum blaða og útvarps o.fl. féllu hinn 6. júlí s.l. stórkostlegar skriður í landi Fremri-Kota í Norðurárdal í Skagafjarðarsýslu og ollu þar geysi miklu tjóni. Af túninu á Fremri-Kotum, sem var 8 hektarar að flatarmáli eru nú aðeins 2,5 ha eftir í nothæfu ástandi. Yfir hinn hlutann féllu þykkar og mjög stórgrýttar skriður. Framræst land, að stærð 5 ha., sem orðið var þurrt og tilbúið til ræktunar, er að mestu eyðilagt og framræsluskurðir flestir fullir af aur og stórgrýti. Hluti af beitilandi jarðarinnar er skemmdur og í því hafa skapast allmiklar hættur fyrir skepnur vegna nýrra vatnsfarvega og grafninga. Túngirðing hefur eyðilagst með öllu. Fjárhús yfir 120 fjár og hlaða við þau eru gjöreyðilögð, ásamt heyfyrningum og ull af 80 fjár, er geymd var í fjárhúsunum. Tvö hesthús yfir 10 hross og haughús áfast við fjósið hafa einnig eyðilagst. Ekki er enn vitað um skaða á sauðfé, en vitað er að.eitthvað af því hefur farist.
Tíminn segir 3.ágúst af óþurrkum á Norðaustur- og Austurlandi:
Litlir þurrkar eru enn á Norðausturlandi og Austurlandi. Þó kom þurrkur á þessum slóðum á mánudaginn og löguðu menn töluvert fyrir sér. Skúraleiðingar voru þó hér og hvar og fengu ýmsir ofan í, t. d. í Þingeyjarsýslum. í Eyjafirði og Skagafirði mátti þurrkurinn hins vegar teljast góður. Heyskapurinn gengur hægt á þessum slóðum, og töður farnar að skemmast. Á Vestfjörðum hafa þurrkar einnig verið mjög tregir, en flæsur nú um helgina.
Frá fréttaritara Tímans í Mýrdal. Hér hefir tíðin verið afbragðs góð og heyskapur gengið mjög vel. og er raunar þá sögu að segja um alla sýsluna. Er sýnt, að heyskapur hér í Mýrdal mun verða með allra besta og mesta móti í sumar.
Ágúst var erfiður á Norðurlandi, en kaflaskiptari syðra. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Veðurfar sæmilegt. Engin minnisverð tíðindi. Heyskapur langt kominn, sumstaðar búinn.
Suðureyri (Þórður Þórðarson): Veðráttan góð í mánuðinum og úrkomur litlar. Nokkuð kalt.
Sandur: Tíðarfar var kalt og úrkomusamt fyrrihluta mánaðarins og óhagstætt til heyskapar. Seinni hlutann var mildari tíð og sæmileg til heyskapar. Hirtu menn þá tún fyrst almennt til fullnustu. Taða þá yfirleitt orðin mikið hrakin og úr sér sprottin.
Þorvaldsstaðir (Haraldur Guðmundsson): Óvenjulega mikil berjaspretta. Má segja að allir lyngmóar séu alveg svartir. Eru berin vel þroskuð. [28. Snjóaði í fjöll og aðfaranótt 29. var frost og alhvít jörð af hélu. Féllu þá kartöflugrös í görðum].
Tíminn segir af erfiðleikum 11.ágúst:
Frá fréttaritara Tímans á Sauðárkróki. Tíðin hefir verið ákaflega köld og stirð síðustu vikur og gengur illa að hirða. Þó eru bændur að verða búnir að koma inn töðum sínum af fyrra slætti. Engjaheyskapur verður víða lítill, enda eru engjar víða stórskemmdar eftir flóðin í sumar. Um síðustu helgi komu þurrkar og náðu menn þá upp nokkru af heyjum. Svo kalt hefir verið sumar síðustu nætur, að frost hefir komið, og var alhrímað einn morguninn. Féll kartöflugras sums staðar. GÓ.
Annað var fyrir sunnan. Tíminn segir frá 14.ágúst:
Blaðið átti í gær tal við Þorstein Sigurðsson bónda í Vatnsleysu, og spurði hann um heyskapinn í Árnessýslu. Það má segja, að þetta sé eitthvert allra besta heyskaparsumar, sem við höfum fengið lengi, sagði Þorsteinn. Spretta var mikil og snemma og sláttur hófst fyrr en dæmi eru til. Nær samfelldir þurrkar hafa verið nema hálfa aðra viku um síðustu mánaðamót. Margir bændur eru nú að ljúka heyskapnum, og verður töðufengur meiri og betri á þessum slóðum en dæmi eru til áður. Þurrkarnir hafa verið svo miklir að kál hefir sprottið illa og eru sums staðar skemmdir á því, einkum þó blómkáli.
Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Í gær naut sólar á Reyðarfirði og þykir mönnum gott þegar hún lætur sjá sig aftur fyrir alvöru eftir langvarandi rigningar og kulda. Um langt skeið hefir ekki verið nema 310 stiga hiti á Reyðarfirði og oftast rigningarsúld eða dumbungsveður. En lítið hefir verið um stórfelldar rigningar. Sömu sögu er að segja af Héraði, nema hvað of hefir verið þurrkur á Úthéraði þegar rignt hefir á innhéraði og svo öfugt.
Tíminn segir af glætu fyrir norðan í pistli 15.ágúst:
Í gærmorgun birti upp á Norðurlandi og gerði þurrk allgóðan einkum vestan til, og var unnið eins og hægt var að heyþurrki, enda voru margir orðnir langeygðir í meira lagi eftir þurrki. Bændur á annesjum norðanlands hafa margir því nær engu náð af heyi, þar sem súgþurrkun er ekki.
Tíminn segir 21. ágúst frá nokkurra daga góðum þurrki og hlýindum eystra, hiti fór víða í meir en 20 stig:
Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Afbragðsþurrkar hafa haldist síðustu daga og hafa bændur náð geysimiklu af heyi. Sumir bændur eru nú að ljúka heyskapnum, og einstaka maður hættur heyskap. Margir munu þó halda áfram enn um sinn, ef góð tíð helst. Hitinn hefir verið mjög mikill, oft 2022 stig í skugga, lofthiti geysimikill. Á Seyðisfirði voru 22 stig í sólarlausu veðri í gær. Heyskapurinn hefir gengið svo þessa viku, að menn hafa losað, látið síðan liggja og hirt síðan þurrt en í gær brá út af. Kom steypiskúr að óvörum og fengu menn ofan í.
Heyskapur bænda er orðinn geysimikill og meiri en i dæmi munu vera um áður hér á Austurlandi á sama tíma sumars. Hefir þessi vika verið mesta heyskaparvika, sem menn muna hér. ES.
Morgunblaðið segir 24.ágúst frá jarðskjálfta á Húsavík:
Fréttaristari Morgunblaðsins á Húsavík símaði í gær, að þar hefðu menn á sunnudagskvöldið tvívegis fundið jarðskjálftakippi. Var sá fyrri nokkuð harður, en olli þó ekki tjóni. Síðari kippurinn var vægari.
Tíminn segir 26.ágúst frá góðri heyskaparviku - en sjá svo síðar:
Tíminn átti tal við nokkra fréttaritara sína á Norðurlandi í gær um heyskapinn síðustu viku. Var það almennt álit þeirra, að hún hefði verið einhver hin besta heyskaparvika, sem bændur muna, enda var ógrynni af heyi hirt og gerbreytti hún til hins betra hinum uggvænlegu horfum, sem voru um miðjan mánuðinn á þessum slóðum. Þó munu þurrkarnir hafa verið betri eftir því sem austar dró á Norðurlandi. Fréttaritari blaðsins á Fosshóli sagði, að vikan hefði verið óslitinn þurrkdagur allt frá mánudegi og síðan hver dagurinn öðrum betri til vikuloka. Muna menn varla eins mikla hirðingu í Suður-Þingeyjarsýslu á einni viku. Um helgina brá til dimmviðris aftur. Nokkrir bændur hafa lokið heyskap, aðrir slá há í vothey eða fara á engi, sem þó er yfirleitt lélegt, að minnsta kosti háardeigjur. Töðufengur er með langbesta móti og mesta móti. Svipaða sögu mun að segja úr Norður-Þingeyjarsýslu.
Tíminn segir 3.september frá jarðaskjálftakippum á Siglufirði:
Í fyrrinótt varð vart við tvo stutta en snarpa jarðskjálftakippi á Siglufirði. Varð sá fyrri kl. 3:45 en hinn síðari 5:49, og var hann öllu snarpari, því að fólk vaknaði við hann. Ekki urðu neinar skemmdir. Eysteinn Tryggvason skýrði blaðinu frá því í, gær, að mælar hér í Reykjavík og á Akureyri hefðu sýnt þessar jarðhræringar. Þá gat Eysteinn þess, að óvenju mikið hefði verið um jarðskjálfta fyrir norðan Ísland i sumar. Á aðfaranótt sunnudags varð smáhræringar vart á Akureyri. Þar var settur upp mælir fyrir tæpum tveimur mánuðum, en hann er lélegur, er annar hinna gömlu mæla, sem voru í Reykjavik og orðinn 40 ára gamall.
September var óvenjulegur, sá kaldasti um áratugaskeið og lagðist að með frosti og snjóum. Syðra þótti þó víða hagstæð tíð. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: September var þurrviðrasamur, en eftir miðjan mánuð var mjög kalt. Næturfrost voru þá frá 1 til -10,5 st. seinustu vikuna. Þ. 26. setti niður snjó og varð jörð alhvít að kalla og lá snjórinn nokkra daga, svo kýr gátu lítið verið úti og hafa síðan sumstaðar verið á fullri gjöf. Hér um slóðir náðist hey inn og kartöflur uppúr görðum ófrosnar en uppskeran var víða mjög rýr. Heyskapur mikill og sæmilega góður.
Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið óvenjustillt og bjart veður yfir mánuðinn.
Sandur: Tíðarfar var mjög kalt, úrkomusamt og óhagstætt. Þurrkar komu engir og skemmdust hey til mikilla muna. Snjókomur og frost voru síðustu vikuna, kartöflur frusu í görðum og ónýttust í stórum stíl.
Reykjahlíð: Einn versti september um langan tíma og áreiðanlega ekki svo vont nema ef svo hefði verið 1917.
Þorvaldsstaðir: [24. Kýr teknar á gjöf vegna snjóa og kulda]. [28. Nokkrar kindur fórust og einn hest hrakti í læg og drapst. Því alla læki fyllti af krapi.
Sámsstaðir: Þurr og fremur köld tíð og hagstæð heyskap og garðvinnu. Einmuna þurrt veður svo öll útiverk gengu að óskum.
Morgunblaðið segir af óhappi á Hafravatni 4.september - og óþurrkum eystra:
Seinnipart dags í gær hvolfdi skemmtisiglingarbáti undir einum manni á Hafravatni, er ofsarok brast snögglega á. Skall hvirfilvindur á bátinn, tókst hann á loft og hvolfdi honum. Einn maður var á bátnum, ósyndur og honum tókst að komast strax á kjöl. Þegar bátnum hvolfdi, var hann að koma að landi. En nú rak bátinn út á vatnið aftur. Enginn bátur var tiltækilegur við vatnið. Enga hjálp var hægt að veita nauðstöddum manninum. Honum var aftur á móti ljóst, að fyrir hann var aðeins um eitt að gera: Að halda sér á kjölnum, uns báturinn væri rekinn yfir vatnið þvert. Mun maðurinn hafa verið á kjöl í fast að tvo tíma, áður en bátinn bar að landi. Mun maðurinn hafa strengt það heit er hann var í land kominn: Að læra sund þegar í stað. Ekki varð manninum meint af volkinu og hresstist hann furðu fljótt.
Bessastöðum [Fljótsdal] 3. sept.: Tíðarfar hefir skipt um svip þessa fyrstu septemberdaga. Hefir rignt hér eins mikið þrjá fyrstu daga mánaðarins og rigndi allan júlímánuð. Í morgun var grátt ofan í miðjar hlíðar hér í dalnum og slydda í byggð á tímabili. Hiti var aðeins 23 gráður. Almennt er hér verið við heyskap ennþá, en víða lítið hey úti. J.P.
Tíminn segir af kuldatíð 14.september:
Í fyrrinótt snjóaði allmikið á fjöllum og heiðum, einkum norðan lands og vestan. Var alls staðar hvítt ofan í miðjar hlíðar og jafnvel hvítt eða grátt í byggð í gærmorgun. Í dölum og á fjallvegum Þingeyjarsýslna var nokkur snjór. Reykjaheiði var þó fær bifreiðum. Á Öxnadalsheiði var snjóföl í gær. Í gær snjóaði á vegina frá Ísafirði til Súgandafjarðar og Önundarfjarðar og jafnvel búist við að þeir tepptust í gærkvöldi. Á Vestfjörðum snjóaði víða ofan í byggð í gærmorgun. Þá voru fjöll hvít í Borgarfirði í gær og hvít jörð í efstu byggðum Borgarfjarðar. jafnvel föl niðri i Hvalfirði.
Vísir segir 15.september frá ótta manna um að vetnissprengjur kynnu að hafa áhrif á veðurfar:
Jean-Rene Rivet, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðlega veðurathuganafélagsins (The World Meteorological Organization) hefir skýrt fréttamönnum frá (því, að framkvæmdastjórnin hafi tekið ákvörðun um að gangast fyrir rannsóknum á áhrifum kjarnorkusprenginga á veðrið. Rivet sagði, að þessi ákvörðun hefði verið tekin vegna hins almenna kvíða í ýmsum löndum, er ríkjandi væri, út af áhrifum kjarnorkusprenginganna, aðallega að lífi manna og heilsu sé hætta búin af geislavirku ryki, sem borist getur yfir löndin eftir slíkar sprengingar. Þessi kvíði er almennastur í Japan. Japanska veðurathuganafélagið sneri sér til Alþjóðafélagsins og fór fram á, að það gengist fyrir slíkum rannsóknum.
Tíminn segir 16.september frá jarðhræringum við Grindavík:
Klukkan rúmlega níu í fyrrakvöld varð vart jarðhræringa í Grindavík. Fundu menn jarðskjálftakippi fram eftir nóttu og í gærmorgun. Um hádegisbilið í gær komu svo nokkrir kippir, er voru svo snarpir, að hlutir í húsum inni rótuðust til.
Morgunblaðið segir 16.september af erfiðum heyskap nyrðra:
Fréttaritarar blaðsins í Aðaldal í S-Þing. og Húsavík hafa báðir símað blaðinu, að nú horfi til stórvandræða með heyskap hænda þar nyrðra vegna stöðugra rigninga og óþurrka allt síðan 23. ágúst. Sumir bændur eiga ennþá mikið hey úti, úthey og há og jafnvel töðu af fyrri slætti. Liggur þetta hey undir stórskemmdum og nokkuð þegar orðið ónýtt. Síðustu dagana hefir verið krapahríð niður í byggð og í fyrradag var ökklasnjór á túnum Í Bárðardal.
Morgunblaðið segir enn af erfiðum heyskap 18.september:
Á Jökuldal hefir heyskapartíð verið erfið í sumar. Tæplega komið þar þurrkur nema vikuna góðu eftir miðjan ágúst. Fé hefir komið allmikið af heiðunum síðustu daga, enda varð snjórinn á Fljótsdalsheiðinni a.m.k. 25 cm djúpur 3. sept. s.l. Stóð féð þá víða og gat sig naumast hreyft. Þá var a.m.k. einn hópur hreindýraveiðimanna staddur uppi og varð að halda til byggða. Friðrik á Hóli, sem um marga áratugi hefir ferðast um Fljótsdalsheiði á hverju sumri og hausti og oftast margsinnis, segist aldrei hafa verið staddur í slíkum snjó, sem á dögunum fyrir göngur. JP.
Tíminn segir 18.september frá snjó á heiðum á Norðausturlandi:
Frá fréttaritara Tímans á Fosshóli. Gangnamenn af austurafrétti Bárðdæla voru ekki komnir til byggða um klukkan sjö í gærkveldi, og voru þá orðnir sólarhring á eftir áætlun. Vitað var, að mikill snjór er á heiðunum austan Skjálfandafljóts og ófærð töluverð. Frost var þar og mjög mikið í fyrrinótt. Í fyrrinótt var hörkufrost í uppsveitum Þingeyjarsýslu. Í Mývatnssveit mældist sjö stiga frost í gærmorgun. Má því geta nærri, hve frost hefir verið mikið fram á afrétti, þar sem mikill snjór var.
Tíminn segir enn heyskaparfréttir 19.september:
Á föstudagsmorgun birti loks upp eftir hinn mikla óþurrkakafla á Norðausturlandi og í gær var einnig góður þurrkur. Þessa daga hafa langflestir hirt þau hey, sem úti voru, en þau voru víða allmikil og farin að skemmast. Má búast við, að menn hafi almennt hirt sig í gær og þar með sé heyskapnum lokið.
Kuldakastið í síðustu viku september er eitt hið mesta sem við vitum um svo snemma hausts. Aðfaranótt 27. fór frost í Möðrudal í -19,6 stig, það mesta sem vitað er um í september hér á landi. Fleiri met voru sett þessa daga sem enn standa (sjá lista í viðhengi).
Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinu sem fylgdi þessum óvenjulega kulda.
Tíminn segir 26.og 27. september af illviðri og hríð fyrir norðan og austan:
[26.] Í fyrrinótt og framan af degi í gær var hið versta veður norðan lands og austan og kominn snjór viða í byggðum og fjallvegir margir illfærir eða ófærir. Siglufjarðarskarð var ófært svo og Oddsskarð. Snjórinn mun þó ekki hafa náð nema vestur að Vatnsskarði í byggðum.
[27.] Frá fréttaritara Tímans í Ólafsfirði. Segja mátti, að hér væri stórhríðarveður um helgina, og á sunnudaginn rauk upp svo mikið hafrót á firðinum, að með eindæmum er á þessum árstíma. Héldust stærri vélbátarnir ekki við á höfninni og flúðu brott.
Kuldarnir hér á landi þessa dagana eru þeir mestu, sem komið hafa svo snemma haust um langt árabil. Í gær var kominn mannheldur ís inni á leirunum við Akureyri, og var fólk komið þar á skauta. Sömu sögu var að segja úr Ólafsfirði. Þar var mannheldur ís á tjörninni í kaupstaðnum og börn og unglingar þar á skautum. Muna elstu menn þar ekki eftir því að tjörnina hafi áður lagt svo snemma. Víða á Norðurlandi var frostið 1015 stig, og einna mest i Mývatnssveit og á Hólsfjöllum og tíu stig víða í lágsveitum og við sjó. Austfjarðaleiðin er teppt af snjó. Ekki eru taldar líkur til, að verulega hlýni í veðri hér á landi þennan sólarhring.
Dálítið snjóföl kom í Reykjavík eins og annars staðar hér suðvestan lands um helgina. Börn og unglingar voru ekki lengi að taka fram skíði og sleða og notfæra sér þennan snemmfengna snjó. ... Slíkur snjór hefir ekki komið í Reykjavík síðustu áratugina í september.
Vísir segir af snjó í Reykjavík - og fyrir norðan 27. september:
Svo undarlega brá við í gærmorgun, þegar menn komu á fætur, að jörð var alhvít orðin og 6 sm. þykkt snjólag lá yfir öllu. Í skýrslum, sem Veðurstofan á yfir snjókomu í Reykjavík undanfarin 10 ár hefir snjó aldrei fest á jörðu svo snemma, en árið 1947 festist snjór 15. október á jörðu og var það í fyrsta lagi á þessum 10 árum. Snjór hefir yfirleitt ekki fal-lið á jörðu fyrr en í byrjun október og hefir hann þá vanalega tekið upp jafnharðan, en þó brá svo við árið 1943, að snjór féll á jörðu 19. september.
Frá fréttaritara Vísis. Akureyri í morgun. Undanfarna daga hefur verið þungur sjór fyrir Norðurlandi, en í morgun jókst hann enn, einkum á Ólafsfirði og olli þá töluverðu tjóni. Gekk sjór þá yfir bryggju og hafnargarðinn á Ólafsfirði og skolaði burt öllu lauslegu, sem á bryggjunni var, en það voru töluverð verðmæti.
Tíminn segir af kulda og frostum 29.september:
Í uppsveitum Borgarfjarðar hefir verið hörkufrost síðustu nætur og er kominn heldur ís á tjarnir og jafnvel ár, þar sem lygnt er. Er mikil hætta fyrir fé í högum af þessum sökum. Heita má, að alsnjóa sé um allar byggðir. Í gær veittu vegfarendur því athygli, að við brúna á Norðurá hjá Haugum, var kominn um það bil heldur ís á ána. Þar sáust þrjár álftir helfrosnar í ísnum. Munu það hafa verið ungar frá sumrinu. Fregnir hafa borist um, að álftir hafi sést dauðar og frosnar í ís á tjörnum til heiða, en þó að sjálfsögðu ekki nema fáar. Sýnir þetta, hve frostið hefir verið brátt og mikið.
Frá fréttaritara Tímans á Þórshöfn. Bændur frá þremur bæjum vestan Þistilfjarðar, Kollavík, Borgum og Krossavík hafa síðustu fjóra dagana verið að berjast við að ná fé sínu ofan úr Seljaheiði, en í venjulegu tíðarfari er þetta ekki nema eins eða tveggja daga verk. Mjög mikill snjór er kominn á heiðinni og erfitt um rekstur, og einnig eru þar hættur miklar í tjörnum og lækjum. Í fyrrakvöld voru smalamenn búnir að ná fénu samar. í hópa á nokkrum stöðum og fóru þaðan frá því til bæja. Í gærmorgun lögðu þeir svo upp aftur til að reyna að koma fénu niður, en ekki vitað hvernig það gekk. Allmikil hey eru enn úti hér, og sums staðar mikið af seinni slætti.
Seyðfirðingar urðu heldur siðbúnir með heyskap og haustannir eins og fleiri Austfirðingar að þessu sinni. Um helgina fennti og fraus nokkuð af flötu heyi og óttast er um garðávexti í jörðinni. Heyskapartíð er vera slæm að undanförnu fyrir austan og voru allmikil hey úti og óþurrkuð í Seyðisfirði í byrjun síðustu viku. Þá í vikunni gerði nokkra sæmilega þurrkdaga og tókst mörgum að ná upp sæmilega þurrum heyjum, sem enn eru á túnum. En þegar snjóa tók um helgina var lítilsháttar flatt af illa þurru heyi og liggur það nú undir snjó. Menn óttast um garðávexti, sem víða eru í jörðinni ennþá. Frost eru mikil á nóttum og miklir kuldar dag hvern að undanförnu. Þykir mönnum eystra að vetur gangi snemma í garð. Fjarðarheiði er þó fær bílum enn þá, enda er ekki hægt að segja. að um mikinn snjó sé að ræða, þótt alhvít sé í sjó fram.
Tíminn segir enn kuldafréttir 1.október:
Frá fréttaritara Tímans í Svarfaðardal. Mikill snjór er hér í framanverðum Svarfaðardal og jarðlítið, því að storka er, enda hefir verið hörkufrost hverja nótt um skeið, þótt aðeins hafi klökknað á daginn. Bændur náðu fé sínu af fjalli og gekk sæmilega í göngum, þótt veður væri illt, enda eru göngur stuttar. Flestir bændur í framanverðum dalnum eru búnir að taka allt fé sitt í hús og er það fyrr en verið hefir síðustu áratugi. Eitthvað af heyi er enn úti, og kartöflur sums staðar niðri í görðum enn. FZ.
Frá fréttaritara Tímans í Andakíl. Heyskap er víðast með öllu lokið fyrir nokkuð löngu og hey víða meiri en nokkru sinni fyrr í búskaparsögu bænda í Borgarfirði.
Morgunblaðið er einnig með kuldafréttir 1.október:
Ísafirði, 29. sept. Um síðustu helgi snjóaði hér mikið á fjöll og nokkuð í byggð. Tepptust allir vegir frá ísafirði og vestur í Dýrafjörð. Síðan á sunnudag hefur verið gott veður hér að deginum, sólskin og heiðríkja, en að nóttunni hefur fennt á fjöll.
Veðurathugunarmenn voru ekki alveg sammála um október - þá snerist til ákveðinnar sunnanáttar eftir kuldana miklu í september.
Síðumúli: Október var mildur og góður en nokkuð úrkomusamur framan af. Kýr voru teknar alveg inn þ. 9. Þá var rigning og slagveður. Jörð varð þá svo blaut og grasið fallið svo ekki þótti borga sig að beita mjólkurkúm en það er óvanalega snemma hausts að taka inn kýr.
Reykjahlíð: Kaldur og snjóasamur haustmánuður. Öll útivinna verið örðug og því lítið farið fram. Mývatn verið á ís allan mánuðinn nema 3 daga, 9. til 11.
Þorvaldsstaðir: [31. Eitthvað mun óhirt af heyjum enn. En þó ekki mjög mikið. Snjór lítill í byggð, en bleytugaddur er mikill er nokkuð dregur til heiða. Einn hefir ekki gefið til að ná fullnaðarsmölun á afréttum].
Sámsstaðir: Kaldur og hrakviðrasamur. Fremur óhagstætt tíðarfar allan mánuðinn.
Tíminn segir frá ís á Pollinum á Akureyri 2.október:
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Í gær mátti heita logn á Akureyri og svolítið sólskin, svo að kuldinn var ekki bitur rétt um hádaginn, en jafnskjótt og sól hvarf var nístandi frost. í gærmorgun var frost þar 10 stig og virtist ekki ætla að verða minna í nótt. Vegna lognsins var Akureyrarpoll þegar tekið að leggja í gær, og var komin ísþynní á hann allt út undir Torfunesbryggju. Inni á leirunum og flæðunum leikur fólkið sér nú á skautum dag hvern. Þessar hörkur eru nú orðnar með eindæmum miklar og langar á þessum árstíma. Á Svalbarðsströnd mun um helmingur hinnar miklu kartöfluuppskeru vera enn í jörð og er hætt við, að hann sé ónýtur, nema þar sem nógu þykkur snjór skýlir. ED.
Alþýðublaðið segir þann 5. október af illviðri undir Eyjafjöllum og þar í grennd:
Fregn til Alþýðublaðsins_ Hvolsvelli í gær. Óvenjulega mikið stórviðri gekk hér yfir á laugardagsnóttina. Urðu talsverðir skaðar af völdum þess, m.a. fuku stafnar af nýsteyptum hlöðum á tveimur bæjum, og mun það vera fátítt, þótt mikið sé veður. Á Teigi í Fljótshlíð hafði verið hlaða í byggingu, og voru stafnar uppsteyptir fyrir viku. Steypan var orðin hörð í mótunum, en þau höfðu ekki verið tekin frá, og hefðu því átt að styrkja veggina. Samt fauk stafn af þessari hlöðu. Á Skála undir Austur-Eyjafjöllum, þar sem kennari sveitarinnar býr, var einnig nýsteypt hlaða. Var steypan þar hálfsmánaðar gömul, en búið að reisa sperrur og festa þeim. Óveðrið svipti af báðum stöfnum þessarar hlöðu og tók sperrurnar með. Skaði bændanna á bæjum þessum er alltilfinnanlegur. Á Hvolsvelli urðu ekki teljandi skaðar. Þó fauk þar pappi af húsi. Stórviðri þetta er með þeim allra mestu, sem koma hér en það stóð ekki nema tiltölulega skamman tíma. Samkvæmt viðtali Alþýðublaðsins við Veðurstofuna var veðurhæðin mest í Vestmannaeyjum á laugardagsnótt 14 vindstig eða fárviðri. Talið er að svo hvasst hafi getað orðið undir Eyjafjöllum líka.
Tíminn segir 7.október af heyskap í Öxarfirði:
Frá fréttaritara Tímans á Kópaskeri. Enn er hér í Norður-Þingeyjarsýslu geysimikið eftir úti af heyi, enda hafa ekki komið þurrkar síðan í ágúst. Sumstaðar er meira að segja eftir að slá tún fyrrislátt, t.d. átta dagsláttur eftir á einum bæ og allvíða smávegis. Er þetta mjög óvenjulegt hér um slóðir. Snjólaust er nú orðið á láglendi. Göngur hafa verið mjög erfiðar og heimst illa af fjalli. Eru menn jafnvel hræddir um að eitthvað af fé hafi fennt um daginn á heiðum eða farist í hættum sem miklar urðu í frostunum.
Morgunblaðið birti 10.október bréf úr Borgarfirði, dagsett 29. september:
Borgarfirði 29. sept Laugardaginn 25. þ.m. var hér hríðarveður og setti niður töluverðan snjó og síðan hefur verið hér alger vetrarveðrátta, frost og fjúk. Ekki hefur tekið fyrir jörð enn. Skaflar eru orðnir miklir í giljum og lægðum, en berrifið á milli. Ekki hefur komið eins vont áfelli í septembermánuði hér í mörg ár. Ekki er óttast um fjárskaða af völdum veðranna að öðru leyti en því, að hætta stafar af lækjum og pyttum, sem lausadriftir eru yfir. Fé mun ekki hafa fennt, enda var fé lítið í háfjöllum þegar veður versnaði. Ekki var þó farið að smala því þá þó að snjóað hefði nokkuð að undanförnu allt ofan í mið fjöll, en féð hafði fært sig niður undan snjónum. Enginn verulegur þurrkdagur hefur komið hér síðan 23. ágúst, en 17. og 18. þ.m. voru góðviðrisdagar, og náðu þá margir nokkru af heyinu undir þak, nokkrir misstu hey sín undir snjóinn. Heyfengur mun almennt neðan við meðallag, enda var sumarið erfitt til heyskapar. Í júlí og ágúst voru þurrkdagar samtals tvær vikur. Kartöfluuppskera mun yfirleitt hafa orðið neðan við meðallag. Yfirleitt munu menn hafa verið búnir að taka upp fyrir snjóinn.
Dagana 7. til 9. október 1954 komu tvær öflugar lægðir að landinu. Sú fyrri var leifar fellibyls, sem raunar er nafnlaus, komst aldrei svo nærri landi að hann teldist nafnsins virði. Lægðin varð þó mjög djúp og vindur talinn hafa náð meir en 43 m/s. Syrpan hófst á hefðbundinn hátt. Djúp lægð kom að Suður-Grænlandi. Fellibylurinn gekk inn í suðausturjaðar hennar og kom að landinu aðfaranótt 7. og stóð veðrið fram eftir degi. Á eftir fylgdi kröpp lægð sem kom hefðbundna leið frá Nýfundalandi og olli miklu veðri hér á landi þann 8. og 9. Lægðin fór síðan norður fyrir land og olli vestanillviðri. Við reynum að halda þessum tveimur veðrum aðskildum.
Kortið sýnir fellibylinn (nafnlausa) ganga inn í jaðar lægðarinnar djúpu sunnan við Hvarf. Leifar hans héldu áfram allt til Íslands. Lægðin sem olli síðara veðrinu - sem nærri því féll saman við það fyrra er á kortinu sunnan við Nova Scotia og barst óvenjugreitt til Íslands.
Kortið sýnir stöðuna seint að kvöldi þess 8. Lægðin þá orðin um 950 hPa í miðju skammt undan Vesturlandi. Hún hélt svo áfram til norðausturs langt norður í höf.
Tíminn segir af fyrri lægðinni 8.október - en einnig er þar pistill um vatnsskort á Skeiðum:
Í fyrrinótt [aðfaranótt 7.] gerði sunnan ofsarok um Suður- og Suðvesturland. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni var veðurhæðin mest um 9 leytið í gærmorgun og mældist þá 13 vindstig í Vestmannaeyjum. Tjón af völdum óveðursins mun hafa orðið óverulegt eftir því, sem blaðið hafði fregnir af í gærkvöldi. Bátar voru á sjó frá flestum verstöðvum við Faxaflóa, en byrjuðu snemma að draga og komu að landi áður en veðrið náði hámarki. Í Reykjavík mældist veðurhæðin mest 9 stig. Ekkert tjón varð við höfnina, en hafnsögumenn björguðu þó einum trillubáti, og drógu upp í fjöru. Járnplötur fuku á fjórum stöðum af húsþökum og skúr fauk á Skólavörðuhæð, en annað tjón varð ekki. Í Keflavík og Grindavík komst veðurhæðin í 12 vindstig, en ekkert tjón varð vegna veðurofsans. ... Stór trillubátur, sem lá við legufæri í Kópavogi, slitnaði upp og rak upp í grýtta fjöru í Kársnesi. Fyllti hann af sjó og einnig mun hann eitthvað hafa brotnað.
Í fárviðrinu í fyrrinótt og árdegis í gær urðu miklar truflanir á flugferðum um Ísland. Hinar stóru áætlunarflugvélar á leið yfir úthöfin með viðkomu á Íslandi urðu ýmist að snúa við. hætta við ferðir, eða fljúga langt fyrir sunnan óveðurssvæðið, sem náði langt suður og vestur um Atlantshafið.
Frá fréttaritara Tímans á Skeiðum. Það má með tíðindum telja, að nú að hausti til er mikill vatnsskortur víða um Suðurland. Vatnsból, sem í venjulegu tíðarfari eru örugg, eru mjög víða þrotin. Verða menn að aka vatni til heimilisþarfa, sums staðar um langan veg. Er þetta sérstaklega erfitt nú, þegar kýr koma á gjöf, og þar sem kúabú eru stór. Í sumum sveitum eins og t. d. á Skeiðum er vatnsskortur fyrir búpening í úthaga, þar sem allar dælur og vatnsstæði eru orðin þurr. Bregður svo við að margir óska eftir rigningu svo um munar áður en jörð frýs. Þessi vatnsskortur er afleiðing stöðugra þurrviðra síðan um fardaga í vor.
Tíminn birti 9.október fregnir af síðara veðrinu:
Frá fréttaritara Tímans í Keflavík í gær [8.október]. Síðdegis í dag gerði hér afspyrnurok með geysilegri úrkomu. Tvö skip lágu hér við hafnarbryggjuna, og sleit annað þeirra upp og rak upp í fjöru. Aðrar skemmdir urðu ekki á skipum eða bátum.
Frá fréttaritara Tímans á Akranesi. í fárviðrinu í gær munaði minnstu, að tjón yrði mikið á bátum á Akranesi. Voru þeir allir við bryggju, en veðrið var svo mikið um tíma, að sjómenn urðu að gæta þeirra og vera viðbúnir, ef festar slitnuðu í átökunum. Sem betur fór höfðu menn veðurfregnir af þessu fárviðri, sem skall skyndilega á. Önnur ferjan, sem er í eign hafnarinnar var bundin við bátabryggjuna áður en veðrið skall á. Þegar gert var ráð fyrir hvassviðri var hún flutt að hafskipabryggjunni og bundin þar til að forða því að hún gæti orðið bátaflotanum til tjóns ef hún kynni að slitna upp. Er ferjan stórt járnskip, sem tekur mikið á sig í veðrum og hættuleg bátunum ef hún losnar í hvassviðri í höfninni. Hin ferjan, sem höfnin á, var að nokkru leyti á sandi, en hana rak hærra upp í fárviðrinu í gær. Þessa ferju rak á land á síðastliðnum vetri og hefir ekki verið gert við hana síðan. Eru þetta sömu ferjurnar, sem ætlunin var að nota sem bílferjur á Hvalfjörð, meðan sú hugmynd var á dagskrá. Venja er að geyma ferjurnar að vetrinum í svokallaðri Kalmannsvík við Berjadalsá skammt innan við kaupstaðinn. Stóð til að flytja ferjumar þangað einhvern næsta dag. Sem betur fór var enginn Akranesbáta á sjó í gær.
Morgunblaðið 10.október - við höfum í huga að það voru hviður sem mældust 12 vindstig í Reykjavík, meðalvindur var minni.
Eitt versta veðrið, sem hér hefur komið í haust gekk yfir landið síðustu þrjá sólarhringana. Svo hermir Veðurstofan, og kveður sjaldan hafa rignt meira en frá því kl.9 á föstudagsmorguninn [8.] til jafnlengdar á laugardagsmorgun [9.] rigndi hvorki meira né minna en 25 millimetra. Vindhraðinn var var harla mikill, komst upp í 12 vindstig hér í Reykjavík, en hvassastur var hann í Vestmannaeyjum að vanda, 14 vindstig. Óveður þetta orsakaði lægð, mikil og djúp, sem spratt upp suðvestur í hafi og fór yfir landið og var um hádegið í gær [9.] skammt norður af Vestfjörðum. Fór hún með óvenjulega miklum hraða, eða allt að 100 km. á klukkustund og er það talið hraðfara lægð af veðurfræðingum.
Sandgerði, 9. október. Í fárviðrinu milli kl.4 og 6 í morgun, stórskemmdist hér í Sandgerði stórt fiskverkunarhús og trillubátur sökk. Var veðurhæðin með fádæmum mikil. Fiskverkunarhúsið var feiknmikið hús um 60 m langt og gekk það undir nafninu Langahúsið. Stendur það niður við sjóinn. Þak þessa mikla húss tók af í einu lagi og skall það með braki og brestum niður í port eitt um 10 m frá. Um leið og þakið tók af féll önnur hlið hússins fram á götuna í einu lagi. Lítið hús, sem hér er í smíðum, eign Haralds Sveinssonar stórskemmdist. Húsið var ekki fokhelt orðið, en búið að hlaða gafla og veggi. Hrundi annar gaflinn og önnur hlið hússins undan veðurofsanum. Trillubátur, sem lá utan við syðri bryggjuna sökk við legufærin. Tveir bátar lágu í vari við hinn nýsteypta 170 cm háa skjólgarð og varð ekkert að hjá þeim.
Í foráttubrimi á Akranesi varð mikið tjón á grjótgarði þeim, sem síðar á að verða bryggja sementsverksmiðjunnar. Þá rak á land sand- og grjótferju Akraneshafnar. Búið var að aka miklu af grjóti í garðinn og í gærmorgun hafði brimið molað það allt niður. Undirstöðumar munu þó ekki hafa raskast, en flytja þarf mikið af grjóti aftur í garðinn. Sjógangur var mikill þar og «r hætt við að sjógangurinn hefði -valdið meira tjóni, ef stórstreymt hefði verið. Á öllum bátaflotanum voru menn á varðbergi í fyrrinótt. Varð því ekkert að hjá bátunum, þó mikill sjógangur væri. Gamall innrásarprammi, sem höfnin á og notaður er á sumrin til sand- og grjótflutninga, rak á land upp. Er botninn sendinn, þar sem pramminn liggur.
Tíminn segir frá sama veðri 10.október:
Stórviðri það, sem gekk yfir sunnan- og vestanvert landið s.l. sólarhring, olli vonum minna tjóni, en þó bárust fregnir um minni háttar skaða víða að. Haugabrim var úti fyrir suðurströndinni og gekk sjór mjög hátt á land þrátt fyrir smástreymi. Sjómenn á Eyrarbakka og Stokkseyri fullyrtu að sjór hefði aldrei gengið eins hátt þar síðan 1925 Tjón af völdum brimsins varð þó vonum minna. Fréttaritari Tímans á Eyrarbakka sagði, að veðrið hefði verið óskaplegt. Flæddi sjór inn um hliðin á sjóvarnargarðinum við kauptúnið og 1 alveg heim að húsdyrum víða. Ekki mun þó hafa farið sjór í nema fáa kjallara húsa. Tjón varð ekki á bátaflotanum.
Fréttaritari Tímans á Stokkseyri símaði í gær, að þar hefði verið hið versta veður, foráttubrim og hvassviðri. Fjögurra lesta trillubátur sem já á legunni, slitnaði upp, rak upp i fjöru og brotnaði i spón. ... Brimrót var svo mikið, að sjór gekk upp á sjóvarnargarðana við kauptúnið og urðu smávægilegar skemmdir á þeim, en hvergi rofnaði skarð. Vélbáturinn Hersteinn, sem stóð uppsettur í fjöru, færðist ofar í fjöruna, þar sem sjór gekk undir hann.
Smástreymi bjargaði á Álftanesi. | Að því er Sveinn Erlendsson bóndi á Grund á Álfta
i nesi sagði blaðinu í gær, vann sjórinn ekkert tjón á Álftanesi og ekki varð heldur tjón af veðurofsanum. Sagði hann, að svo vel hefði viljað til, að smástreymt var og þá er ekki teljandi hætta af sjávargangi á Álftanesi, en annars sagði hann, að veðurlag og sjógangur hefði verið með þeim hætti, að stórspjöll hefðu orðið, ef stórstreymt hefði verið.
Í stórviðrinu, sem geisaði um Suðvesturland í fyrrinótt, varð mikið tjón í Sandgerði. Þak af stóru fiskverkunarhúsi fauk í einu lagi, trillubátur sökk á höfninni, símastaurar brotnuðu og veggir á nýhlöðnu húsi féllu að miklu leyti um koll. Um klukkan tvö um nóttina mun veðrið hafa náð hámarki og sviptist þá þakið á stóru fiskverkunarhúsi, sem Miðnes h.f. á, af í einu lagi. Fauk það yfir götuna, braut niður port og eitthvað af símastaurum, en fjórir símastaurar brotnuðu í allt, ekki þó allir af völdum braksins úr þakinu. Hús þetta var byggt fyrir rúmum 10 árum. Suðurveggurinn, sjávarmegin ,er byggður úr steini, og haggaðist ekki, en veggurinn hinum megin er úr timbri og lagðist hann út á götuna. Fimm tonna trillubátur, eign Páls Gunnarssonar og Sveins Sveinssonar, sem lá við legufæri á höfninni, sökk í gærmorgun. Sennilega næst hann upp, en ekki var vitað í gær hvort hann hafði brotnað. Nýhlaðið hús úr steini, eign Haraldar Sveinssonar, skemmdist mikið og fuku veggirnir um koll að miklu leyti.
Frá fréttaritara Tímans í Vík í Mýrdal. Ofsaveður var hér s.l. nótt og stórrigning. Engar teljandi skemmdir urðu þó, svo að kunnugt sé. Svo mikið sandveður var á Mýrdalssandi í gær, að bílar lögðu ekki á hann, og töfðust bílferðir því yfir hann. Þegar slík veður gerir er sandfokið svo mikið, að vélum bílanna er hætta búin og málning skefst af þeim,. Einnig er viðkvæmum varningi hætta búin. Bætir sandrokið lítið, þótt stórrigning sé, þegar veðrið er svo mikið. Taka bílstjórar því það ráð, að leggja ekki á sandinn í slíku veðri. ÓJ.
Frá fréttaritara Tímans í Bolungarvík. Suðaustan stórviðri með úrhellisrigningu gerði hér í gærkvöldi og nótt. Það tjón varð í veðri þessu, að þak fauk af fjósi Guðmundar Magnússonar á Hóli og að nokkru leyti af viðbyggðri hlöðu. Er tjón eiganda tilfinnanlegt. ÞH.
Frá fréttaritara Tímans á Selfossi í gær. Ofsaveður og stórrigning var hér í alla nótt og frameftir degi. Ekki mun tjón þó hafa orðið teljandi hér um slóðir. Vegir eru mjög blautir og vatnselgurinn á þeim óskaplegur fyrir bílana, en þó gengu ferðir þeirra slysalaust. Járnplötur fuku af hús um hér og hvar. Í Ölfusforum varð allmikið flóð, því að þegar bæði er brim úti fyrir og signingarvöxtur í Ölfusá, kemur fylla í ósinn og vatn flæðir þá yfir í forunum. ÁG
Aftakaveður var í Vestmannaeyjum s.l. sólarhring. Milli kl. 911 í fyrrakvöld var afspyrnurok, kyrrði síðan og snerist og hvessti á ný. Í alla fyrrinótt og fram eftir degi í gær mátti heita sama veðrið. Eyjabátar voru allir í höfn og varð ekkert að þeim. Ekki hefir heldur frést um teljandi tjón á landi. Brimið var óskaplegt, með því allra mesta, sem kemur og gekk yfir Eiðið, en það gerir elski nema í mestu brimum.
Í fyrradag [8.] gerði ofsarok að suðaustan í Þorlákshöfn, en það er versta vindátt þar.
Óttuðust menn mjög um báta á legunni, en sem betur fór lygndi um sex-leytið, en síðan hvessti aftur og snerist vindáttin í suð-vestur. Var mjög hvasst um nóttina og fauk þá nokkuð af mótauppslætti við nýja pakkhúsið, sem er í byggingu. Umferð bifreiða til Þorlákshafnar var erfið í fyrradag, vegna þess, að möl og jafnvel grjóthnullungar þyrluðust upp á veginn.
Tíminn birti 11.október frekari fréttir af Skaganum:
Frá fréttaritara Tímans á Akranesi. Í fárviðrinu um helgina urðu nokkrar skemmdir á
varnargarði þeim, er myndar sandþró hina miklu, er geymir skeljasandinn, sem nota á í sementsframleiðslu á Akranesi Urðu skemmdir á garðinum í fyrradag og í sumar var gert við þær skemmdir og unnið að viðbótarframkvæmdum í sambandi við bryggjugerð vegna verksmiðjunnar. Var búið að gera grjótgarð, en til stóð að koma stórgrýti fyrir til varnar utan garðsins. í sjógangi urðu nokkrar skemmdir á þessum nýjustu mannvirkjum en oft verða í hvassviðrum skemmdir á grjótgarðinum, þegar brimið brotnar á honum. GB.
Tíminn segir 12.október af heyskap norðaustanlands:
Síðustu þrjá dagana hefir verið allgott veður á Norðausturlandi, jafnvel sæmilegur þurrkur, þar til í gær að aftur tók að rigna.sums staðar. Þessa daga hafa langflestir bændur náð þeim heyjum, sem úti voru, en þau voru sums staðar mikil og að sjálfsögðu orðin stórhrakin.
Nýi tíminn segir 14.október frá miklum framkvæmdum í Síberíu - þótt ekki yrði úr þeim í raun minnist ritstjóri hungurdiska þess að lengi var mikið um þetta rætt:
Frá Genf berst sú frétt, að vísindamenn við Alþjóðaveðurfræðistofnunina þar telji að stórframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í Síberíu muni hafa mikil áhrif á veðurfar á stórum svæðum jarðar. Frá þessu er sagt í fréttaskeyti frá bandarísku fréttastofunni UP. Framkvæmdirnar, sem fyrirhugaðar eru í Síberíu, miða að því að breyta farvegum stórfljótanna í Síberíu, láta þær renna til suðurs í stað norðurs. Þannig mætti gera mikil flæmi, sem nú eru eyðimerkur, að frjósömu landi. En til þess að þetta megi takast verður að sprengja farveg fyrir fljótin gegnum heila fjallgarða og er ætlunin að nota kjarnorkusprengjur til þess. UP skýrir frá því, að þegar sé byrjað á þessum framkvæmdum. Þegar þessum framkvæmdum er lokið, munu hafa myndast stór innhöf á sléttum Síberíu, þar sem áður voru lítil vötn. Þetta mun gerbreyta veðurfarinu í Síberíu, draga bæði úr brennheitum eyðimerkurvindum sumarsins og vetrarkuldum. UP segir, að vísindamenn við veðurfræðistofnunina í Genf hafi miklar áhyggjur af þessum fyrirætlunum sovéskra stjórnarvalda, þar sem þær geti haft mjög mikil og óheppileg áhrif á veðurfar í öðrum hlutum heims. Fréttastofan hefur það eftir ónefndum vísindamanni, að veðrið á heimsskautssvæðinu sé lykillinn að öllum veðurfarsbreytingum annars staðar. Ef loftslagi er breytt á þessum slóðum verður afleiðingin að öllum líkindum sú, að stefna heimsskautavindanna mun breytast og það mun aftur hafa áhrif á veðurfar um alla jörðina, sagði hann. Ef til vill mun afleiðingin verða sú, að þokusúld komi í stað heiðríkjunnar við strendur Miðjarðarhafs eða að snjór falli aldrei í Alpana. Samkvæmt UP eru hinar fyrirhuguðu framkvæmdir í Síberíu í þrem köflum. Í fyrsta lagi verður farvegi stórfljótsins Amú-Darja breytt og því veitt yfir á sléttur Síberíu, í öðru lagi á að veita fljótinu Ob í Aralvatn og í þriðja lagi verður grafinn 160 km langur skurður milli Obs og Yenísífljóts. Grafnir verða skurðir sem leiða eiga allt vatn úr þessum fljótum í Aralvatn, sem mun vaxa svo, að flatarmál þess verði 20 sinnum meira en Hollands. UP segir að þegar sé byrjað á þessum framkvæmdum.
Tíminn segir 14.október frá fjárskaða í Ólafsvík:
Frá fréttaritara Tímans í Ólafsvík. Í fyrrinótt [aðfaranótt 13.] flæddi fjórtán kindur undir svonefndum Ólafsvíkurgöngum skammt innan við kauptúnið og fórust þær allar. Kindurnar voru í fjörubeit þarna undir klettum, sem sjór flæðir að.
Þann 19. og 20. fór mjög djúp lægð austur yfir landið. Veðurspá virðist hafa tekist vel. Tíminn segir frá 20. og 21.október:
[21.] Mikil og óvenjulega snögg veðrabrigði urðu hér á landi síðdegis í gær og gærkveldi, er mjög djúp lægð gekk yfir landið, og var þá að skella á norðaustan hvassviðri með mikilli fannkomu um vestan- og norðanvert landið og mundi færast til Austurlands með morgninum. Veðurstofan spáði roki og snjókomu í nótt þegar í gærmorgun, og i höfðu menn því góðan tíma til að væðast gegn bylnum. Þegar blaðið átti tal við Veðurstofuna í gærkvöldi var hin djúpa lægðarmiðja komin yfir Borgarfjörð og veður var farið að snúast til norðanáttar og kólna mjög á Vestfjörðum, jafnvel byrjuð snjókoma þar sums staðar. í Vestmannaeyjum var veðurhæð orðin 13 vindstig. Vestur á Galtarvita var hiti fallinn niður í 2 stig og komin slydda. Á Ísafirði var byrjað að snjóa. Fram eftir degi var mjög hlý sunnan átt um meginhluta landsins, og urðu hitabrigðin mjög snögg í gærkveldi.
[22.] Í fyrrinótt voru skip í hættu stödd út af Norðurlandi í hvassviðri miklu, er þar gekk yfir með snjókomu um nóttina. Strandferðaskipið Skjaldbreið, sem var á leið til Siglufjarðar frá Akureyri um nóttina, fékk á sig brotsjó út af Siglufirði en komst þó hjálparlaust til hafnar.
Frá fréttaritara Tímans á Fáskrúðsfirði. Í fyrradag [20.] skall skyndilega á fárviðri mikið á Fáskrúðsfirði og víða um Austfirði. Var veðurhæðin mest milli kl. 10 og 2 en upp úr því fór að lygna. Ekki varð teljandi tjón af veðrinu á Fáskrúðsfirði.
Tíminn segir 29.október frá strandi:
Frá fréttaritara Tímans í Siglufirði í gærkveldi. Togarinn Hafliði kom hingað inn í gærmorgun og var aflanum landað hér. Þegar skipið var að fara út aftur í kvöld, strandaði það austanvert við fjörðinn. Norðaustan hvassviðri var á og allmikil snjókoma. Lagði skipið úr höfn á sjöunda tímanum í kvöld. Var þá mjög dimmt. Strandaði það á móts við kaupstaðinn austan fjarðarins á móts við bæinn Staðarhól.
Tíminn segir 30.október frá jarðskjálftum á Suðvesturlandi:
Allsnarpir jarðskjálftakippir fundust á nokkrum stöðum á Suðvesturlandi í gærkveldi, og munu þeir hafa orðið einna harðastir í Hveragerði. Þar hristust húsgögn mjög og hlutir duttu niður. Einkum var einn kippurinn langur og harður þar og sló óhug á fólk og börn urðu mjög hrædd. Ekki hafði þó frést um teljandi skemmdir.
Nóvember var illur framan af, úrkomukast gerði um miðjan mánuð, en síðan batnaði tíð. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Nóvember var mildur og að kalla má góður að veðurfari, sérstaklega síðustu dagarnir, þeir urðu dásamlega góðir.
Arnarstapi (Kristbjörn Guðlaugsson): Það hefur verið mjög umhleypingasamt allan mánuðinn og þann 8. var afspyrnurok og snjókoma og muna menn ekki slíkt í mörg ár. Brotnuðu 23 símastaurar og um 60 á hliðinni frá Öxl að Arnarstapa.
Lambavatn: [8. Mesti snjór sem hér hefir komið í fleiri ár á alauða jörð]. [11. snjódýpt 45 cm].
Reykjahlíð: Fyrri hluti mánaðar harður svo að sauðfé var nær allstaðar komið í innistöðu. Batnandi veðurátta seinni hluta mánaðar. Um mánaðamót nærri snjólaust nema leifar af stórfenni þar sem aldrei hefur orðið snjólaust hér síðan 13. september.
Fyrstu dagana komu lægðir ótt og títt að landinu, sú fyrsta þann 2. og önnur þann 3. Olli hún snarpri norðanátt.
Tíminn segir frá 5.nóvember:
Hið versta veður var í fyrrinótt [aðfaranótt 4.] og gær um vestur og norðurhluta landsins, hvasst og allmikil snjókoma. Allmikill snjór er kominn á heiðar og fjallvegir víða tepptir. Áætlunarbifreiðar hafa teppst eða brotist áfram í ófærð.
Frá fréttaritara Tímans í Haganesvík. Á fimmtudag í s.l. viku [28.október] gerði hér mjög vont veður og hélst það þann dag allan og næsta dag einnig. Sjö kindur frá Hraunum flæddi þá á háum klettum við sjóinn og komust í sjálfheldu. Tók sjórinn þær annað hvorn daginn. Á Hraunum er tvíbýli og hafa bændurnir þar, Vilhjálmur og Pétur Guðmundssynir, orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni. Nokkuð var um símabilanir í óveðrinu, línur slitnuðu og staurar hölluðust. SE. [Sama veður og olli togarastrandinu á Siglufirði].
Þann 6. nóvember kom djúp lægð að Vestur-Grænlandi og sendi afleggjara austur til Íslands. Skil lægðarinnar fóru yfir síðdegis, í kjölfarið kom ný lægð frá Nýfundnalandi. Hún virtist stefna fyrir sunnan land, en dýpkaði mjög og fór norðnorðvestur með Suðvestur- og Vesturlandi og olli mun verra veðri en ætlað hafði verið. Afskaplega hættuleg lægð. Nú á dögum hefðu tölvuspár trúlega neglt hana.
Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum síðdegis þann 7.nóvember. Veðurfræðingar hafa væntanlega haft þetta kort undir höndum - hafi allar háloftaathuganir á svæðinu skilað sér. Ljóst að eitthvað mikið er í vændum, en afskaplega erfitt að sjá hvað úr verður. Líklegast þótti að vasandi lægð á sunnanverðu Grænlandshafi færi til austurs fyrir sunnan land.
Upplýsingar frá veðurskipinu Alfa á Grænlandshafi og Indía sem var beint suður af Íslandi hafa átt að staðsetja lægðina með nokkurri vissu. Hún er hér orðin um 980 hPa djúp, en aðeins 12 tímum síðar var hún komin niður fyrir 960 hPa og komin að suðvesturströnd Íslands. Ekkert var vitað um hvað bjó sunnan lægðarmiðjunnar. Það kom ekki í ljós fyrr en lægðin gekk á land við Reykjanes. Ekkert grín að fást við veðurspár á þessum árum.
Íslandskortið kl.9 að morgni mánudags 8.nóvember. Lægðin yfir Mýrum á leið norður. Rok eða ofsaveður á Faxaflóa og suður af Reykjanesi. Suðaustan hvassviðri og rigning um landið norðanvert, en skilin farin yfir landið sunnanvert og þar er komið sæmilegt veður uppi í sveitum.
Bandaríska endurgreiningin nær lægðinni nokkuð vel, hún var reyndar sjónarmun dýpri heldur en greiningin segir. Vindstrengurinn vestan og suðvestan við lægðarmiðjuna kemur vel fram og sömuleiðis að mun skaplegra veður var um landið austanvert, eins og betur sért á kortinu hér að neðan.
Klukkan 18 var lægðin um 950 hPa djúp yfir Vestfjörðum. Gríðarlegt illviðri á Snæfellsnesi, og Norðurlandi vestanverðu en heldur farið að lagast á Reykjanesi. Fremur hægur næst lægðarmiðjunni og bjartviðri um allt austanvert landið.
Morgunblaðið segir frá 9.nóvember:
Miklar skemmdir urðu á tveim húsum hér í bænum í fárviðrinu í gærmorgun [8.], er veðurofsinn komst upp í 13 vindstig [hér er aftur miðað við hviður]. Er annað þessara húsa Dvalarheimili aldraðra sjómanna en hitt íbúðarhús vestur á Ægissíðu. Víða urðu minni háttar skemmdir á húsum. Rafmagnstruflanir urðu víða í úthverfunum, er raftaugar slitnuðu. Við lá að skip slitnuðu frá bryggju hér í höfninni. Skömmu eftir að veðrið brast á, tóku lögreglunni að berast tilkynningar um að plötur af húsþökum væru teknar að fjúka Var það um allan bæ, sem hús urðu fyrir slíku tjóni. Á öðrum stöðum fuku girðingar. Raflínur slitnuðu víða í úthverfunum og truflanir urðu á símakerfinu. Íbúðarhúsið að Ægissíðu 54 varð fyrir miklum skemmdum. Vindur komst inn undir þakið og svipti burtu stóru stykki úr því. Féll brotið rétt hjá húsinu. En allt losnaði þakið frá húsinu og er sýnt að smíða verður alveg nýtt þak á það. Á aðalbyggingu Dvalarheimilis aldraðra sjómanna í Laugarásnum fauk meirihluti þakplatanna en þakið mun vera um 44 m á lengd. Vindur komst inn undir járnið og svipti hverri plötunni á fætur annarri af þakinu. Hefði veðrið sennilega hreinsað allar plöturnar í burtu, ef ekki hefði skjótlega verið gripið til varúðarráðstafana. Þegar bárujárn er neglt á þak. má ekki leggja út af eða hnoða nagla þá, sem halda plötunum. Eru um þetta ákvæði í brunamálasamþykkt bæjarins. Í ofviðrinu drógust naglarnir út úr þakinu og fuku með plötunum. Var gripið til þess að beygja naglana í þeim plötum, sem eftir voru. Fyrst eftir að veðrið skall á og snjóa tók urðu nokkrar tafir á ferðum strætisvagnanna, og Reykjavíkurflugvöllur var lokaður allan daginn, svo að allt flug féll niður. Merkilegt má heita að lítt var um slys á gangandi fólki að ræða, þó mun ein kona hafa meitt sig lítilsháttar.
Í miðdegisútvarpinu skýrði þulur frá því að óttast væri að loftnetið við útvarpsstöðina á Vatnsenda myndi slitna í veðurofsanum. Hafði hann tæplega sleppt orðinu, þegar það bilaði. Var búið að laga loftnetið klukkan 8 í gærkvöldi.
Í Reykjavíkurhöfn höfðu hafnsögumenn og skipverjar á öllum togurum, farmskipum og fiskibátum nóg að gera. Nokkur skip slitnuðu frá án þess þó að valda neinu tjóni. Minnstu munaði að Lagarfoss, sem lá vestur við Ægisgarð slitnaði frá bryggjunni. Stálhringur í bryggjunni, tvær og kvart tomma að gildleika, sem nokkrir vírar frá skipinu voru festir í, slitnaði í sundur og eins slitnaði á hvalbak skipsins polli sá, sem mesta átakið var á. Var Lagarfoss mjög hætt kominn, þegar þetta hvort veggja gerðist en það var milli kl. 2 og 3. Skipið teygði á öllum landfestum og færðist svo langt frá bryggjunni, að landgöngubrúin náði hvergi nærri milli skips og bryggju. En um síðir tókst skipverjum að bjarga Lagarfossi. Stórstreymt var og brimskaflinn við ytri vitagarðinn mun hafa verið 2530 m hár. Sögðust sjómenn aldrei hafa séð þvílíkt brim við garðinn. Ófært var út í Örfirisey vegna þara sem barst upp á Grandagarðinn, og illfært var einnig vegna sjávargangs um Skúlagötuna. Lögbergslínan slitnaði og munu staurar hafa brotnað í ofveðrinu. Eins slitnaði háspennulínan til Vífilsstaða og í úthverfunum þar sem rafmagnið er leitt í loftlínum urðu víða miklar og langvarandi rafmagnstruflanir, t.d. í Smáíbúðahverfinu.
Fárviðrið sem brast á hér í Reykjavík klukkan rúmlega 8 í gærmorgun, kom öllum á óvart, jafnt Veðurstofunni sem öðrum. Að vísu vissi hún um ferðir lægðarinnar, sem veðrinu olli, en lægðin breytti skyndilega um stefnu. Þótt veðrið skylli á eins og hendi væri veifað, er ekki kunnugt um neitt manntjón. En skemmdir urðu á mannvirkjum. Tvö hús stórskemmdust hér í Reykjavík.
Þegar veðrið brast á, voru bátar héðan frá Reykjavík almennt á sjó. Þeir höfðu lagt línuna um 45 mín siglingu frá höfninni. í skyndi yfirgáfu þeir línuna, 2530 bjóð og heldu heim. Flestir bátanna náðu landi án aðstoðar, en Sæbjörg og vitaskipið Hermóður fóru til móts við þrjá báta, sem erfiðlega gekk, vegna þess, hve dimmt var í éljunum og skyggni takmarkað. Síðasti báturinn náði Reykjavíkurhöfn með aðstoð Hermóðs um klukkan 3 í gærdag. Var það mb. Freyja. Niðri við gömlu verbúðarbryggjurnar stóðu þá nokkrir formenn á bátum héðan. Tíðindamaður Mbl. spurði þá hvort veðurspáin hefði verið þannig að sjóveðri hafi verið spáð. Fyrir svörum varð Einar Sigurðsson, skipstjóri á Aðalbjörgu RE 5. Bátarnir fengu enga spá kl. hálf fjögur í nótt, en eftir þeirri spá róum við. Ég fór þá upp á lögreglustöð og hringdi þaðan í Veðurstofuna til þess að fá veðurspána, en hún var á þá leið, að NV stinningskaldi myndi verða með hvössum éljum. Það var ekkert að því að róa í slíkri spá og bátarnir fóru. Veðurstofan vissi um ferðir lægðarinnar, sem kom upp að landinu suðvestan úr hafi. Skyndilega breytti hún um stefnu frá suðri til norðurs. Var þetta með krappari lægðum, sem hér koma. Eftir að hún kom inn yfir landið, hægði hún á sér og fór hægt yfir. Þessi skyndilega stefnubreyting og hve lægðin hægði óvænt á sér, mun hafa komið veðurfræðingunum mjög á óvart.
Vegna bilunar á sambandinu milli Veðurstofunnar og loftskeytastöðvarinnar í fyrrinótt, var ekki hægt að útvarpa veðurfregnum kl. 3:30 um nóttina. Vinna féll víða niður í gær, einkum þó útivinna.
Akranesi, 8.nóvember. Brim hefur verið hér nokkuð í dag og feykilegur vindsjór. Á flóðinu um þrjú leytið var mjög sjávarhátt á vestur Skaganum, því þar er áhlaðandinn meiri, í þessari átt. Þá jókst brimið einnig töluvert. Engir bátar voru á sjó í nótt og engar skemmdir hafa orðið hér af völdum veðursins, sem vitað er um. Oddur.
Stykkishólmi, 8. nóvember. Í morgun voru hér 11 vindstig og mikill hríðarbylur, svo illstætt er milli húsa. Engar skemmdir hafa þó orðið af völdum veðursins enn sem komið er. Allir bátarnir frá Stykkishólmi hættu við að róa í gær, vegna veðurspárinnar, og ekki er vitað til að nokkur bátur umhverfis Nesið hafi farið á sjó. Símalínur hafa víða slitnað og eru óðum að slitna, til dæmis er símasambandið við Ólafsvík rofið. Vegir hafa teppst vegna fannkomu út í Grafarnes og einnig í Eyrarsveit. Kerlingarskarð mun þó fært ennþá. Áætlunarbáturinn Baldur, átti að fara til Reykjavíkur í dag, en varð að fresta förinni út af óveðrinu, en engum báti er fært á sjó eins og stendur. Árni.
Hafnarfirði Hér var rafmagnslaust í allan gærdag, og var ekki lokið við að gera við fyrr en laust eftir kl. 9 í gærkvöldi. Rafmagnsbilunin stafaði af því, að sjávarselta og krap settist á einangrara á háspennulínunni skammt frá Fífuhvammi og varð að setja nýja á nokkurn kafla línunnar. Annars munu einangrarar vera orðnir heldur lélegir á þessum slóðum. Í vestan rokinu, sleit nýlegan trillubát upp af legunni hér, og rak hann upp á móts við Vélsmiðju Hafnarfjarðar og brotnaði þar í spón. Annars mun ekki hafa orðið neitt teljandi tjón á eignum manna G.E.
Tíminn segir einnig frá 9.nóvember - flest það sama og í Morgunblaðinu - en við hleypum því að líka - þetta var merkilegt veður:
Í gærmorgun gekk í vestan rok suðvestan lands, fyrst með rigningu en síðar snjókomu. Var mjög byljótt, og vindur 1213 stig í verstu byljum. Skemmdir munu ekki hafa orðið miklar, en telja má víst, að hefði veðrið haldist í allan gærdag, myndi tjón hafa orðið mikið, því að þök voru víða tekin að losna, en eftir hádegið kyrrði brátt, og síðdegis var komið sæmilegt veður. ... Allmiklar rafmagnstruflanir urðu á ýmsum stöðum, er línur slitnuðu eða krap hlóðst á þær. Kona féll á götuna á Lindargötu og meiddist í höfði. Var hún flutt á Landsspítalann.
Frá fréttaritara Tímans á Selfossi í gær. Hið versta veður skall hér á í morgun, fyrst með rigningu en síðan snjókomu. Bílar, sem fóru héðan til Reykjavíkur, lentu í miklum töfum á Hellisheiði, og bílar, sem fóru héðan eftir hádegið fóru Krísuvíkurleið og gekk vel. ... Blaðið átti einnig tal við fréttaritara sinn í Biskupstungum, og sagði hann, að þar væri aftakaveður og fannburður. Væri kominn allmikill snjór, en þó ekki svo að bílar kæmust ekki leiðar sinn ar þess vegna. Var yfirleitt hið versta veður í uppsveitum Árnessýslu í gær, en mun hafa batnað nokkuð er leið að kvöldi. Illveður þetta náði hins vegar ekki nema austur undir Eyjafjöll. Þar austan við var veður gott.
Nokkrar rafmagnstruflanir urðu í Borgarfirði vegna óveðursins í gær. Snjór og krap
settist á háspennulínustaurana og varð þess valdandi að á nokkrum þeirra leiddi saman, svo að heilar sveitir og Borgarnes varð rafmagnslaust um tíma.
Frá fréttaritara Tímans í Andakíl. Mikið af sauðfé bænda í Borgarfirði var úti í óveðrinu og gekk smalamennska illa í óveðrinu í gær. Tíð hefir verið hagstæð að undanförnu og áttu því flestir bændur, að minnsta kosti í lágsveitunum fé sitt úti í heimahögum. Óveðrið skall ekki á fyrr en undir morgun í gær og fóru menn þá þegar að leita að fénu. Hríðin var víða svo grimm, að varla sást út úr augum, þegar verst gegndi, og urðu margir að halda heimleiðis, án þess að koma nokkurri kind til húsa.
Í ofviðrinu, sem gekk yfir Suðvesturland í fyrrinótt og gærdag, slitnuðu tveir smábátar, trillur, upp af legunni í Hafnarfirði. Rak þá á land og mun annar báturinn hafa brotnað mikið, svo hann mun að mestu ónýtur. Hinn bátinn mun hins vegar hafa lítið sem ekkert skemmst.
Tíminn segir enn af skemmdum og sköðum í pistlum 10. og 11. nóvember:
[10.] Starfsmenn rafveitnanna höfðu nægum verkefnum að sinna meðan á óveðrinu stóð í fyrradag, fyrrinótt og í gær. Hafnarfjörður var rafmagnslaus þar til um klukkan þrjú í fyrrinótt og Reykjavík var rafmagnslaus í gær í nær fjórar klukkustundir. Ástæðan fyrir öllum þessum rafmagnstruflunum var ísing, sem hlaðist hafði á staurana, sem halda uppi háspennulínunum og þó einkum einangrara þá, sem skilja á milli háspennulínurnar og stólpanna sem bera hana uppi. Einkum er það háspennulínan milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, sem valdið hefir erfiðleikum. Í veðrum eins og þessum, þegar bloti er og snjókoma, hleðst snjórinn á háspennulínuna, staurana og einangrara, svo að vandræði hljótast af. Einkum ber á þessu, þar sem línan liggur nærri sjó, því að seltan í krapinu leiðir vel og þá er aukin hætta á samslætti á línunni. Þannig var þetta á Hafnarfjarðarlínunni. Var bærinn rafmagnslaus í fyrradag og fram á nótt, eins og fyrr segir. Var þá gripið til þess ráðs að berja klaka af öllum staurum eða réttara sagt einangrunarglerjum þeirra.
[11.] Víða í Borgarfirði hefir litlu munað að miklir fjárskaðar yrðu í ofviðrinu á dögunum. Vitað er, að nokkuð af fé hefir fennt í Borgarfirði, en óvíst enn, hvað vera kann á lífi af því fé, er þar vantar enn á bæjum eftir óveðrið. Þegar veðrið skall skyndilega á snemma morguns voru menn því óviðbúnir. Fé var alls staðar úti, þar sem ágætt veður hafði verið lengi að undanförnu. Þegar hríðarofsinn var skollinn á, fóru menn víða til smalamennsku en árangurinn varð víðast lítill, því að veðrið var mjög illt og varla fært, þar sem það var verst. Í gær og fyrradag var svo loksins hægt að hefja fullnaðarleit að fénu, en þá hafði mörgum bændum tekist að ná mestu í hús. Í gær var óttast um margt fé frá bæjum í Reykholtsdal og var gerður út flokkur leitarmanna. Óttuðust menn, að féð hefði hrakið langt undan veðrinu, og ef til vill fennt, því að snjór er allmikill í sköflum og veðrið þannig að hætta var á að fé fennti. Á einum bæ í Bæjarsveit fundust fimm kindur dauðar í skafli ekki langt frá bænum og óttast er, að miklu fleira fé hafi fennt í þessu óveðri.
Frá fréttaritara Tímans á Fosshóli. Síðasta hálfan mánuðinn má heita að algert jarðbann hafi verið hér í Suður-Þingeyjarsýslu og sauðfé að mestu gefið inni víðast hvar. Eru þessar hörkur óvenjulega snemma á ferðinni.
Fé og hross á gjöf í Rangárþingi. Allmikill snjór er kominn hér í sýslunni, og það svo, að bændur eru flestir búnir að taka fé sitt og jafnvel hross á gjöf. Ekki er þó um storku á jörð að ræða. Allmikið hefir snjóað síðustu dægrin.
Frá fréttaritara Tímans í Trékyllisvík, 4. nóvember. Tíðarfar var hér mjög óhagstætt í sumar til heyskapar. Allan júlímánuð voru sífelld votviðri, svo hey nýttust ekki, og lítið sem ekkert var hirt í þeim mánuði. Þessi votviðri héldust allt sumarið fram á haust að undanteknum þeim átta samfelldu þurrkdögum, sem komu dagana 14.21. ágúst.
Morgunblaðið ræðir veðurfarsbreytingar 11.nóvember - hér er ýmislegt vafasamt á ferð - en ekki ljóst hvort frumtextinn misskilur vísindi eitthvað - eða hvort þýðingin hefur farið úrskeiðis. Pistillinn er talsvert lengri en búturinn hér að neðan:
Annað Nóaflóð í aðsigi? Mikið hefir verið rætt um það á síðastliðnum árum, hvort veðráttan á jörðinni sé að breytast, hverjar séu orsakir þess og hvort afleiðingar geti orðið óheillavænlegar. Amerískur fræðimaður ritar eftirfarandi grein í breska fiskveiðitímaritið Fishing News og gerir grein fyrir orsökum og afleiðingum veðrabreytinganna. Allir fiskimenn hafa, eða ættu a.m.k. að hafa, mikinn áhuga á suðurpólnum og því sem þar er að gerast. Á suðurpólnum myndast ekki aðeins ís, heldur hefur sú ísmyndun einnig mikil áhrif á hafstrauma, er miklu ráða um vöxt og útbreiðslu fiskimiða í öllum heimshöfum. Það eru því fleiri en vísindamenn sem ættu að láta sig máli skipta þá kenningu er fræðimaður nokkur hefir sett fram, að ísbreiðan á suðurpólnum sé, ef svo mætti segja óviðráðanleg. Fræðimaðurinn fullyrðir að hún vaxi stöðugt með óhugnanlegum hraða, og það sem verra er að samtímis hlýnar á norðurpólnum og ísbreiðan þar minnkar stöðugt. Haffræðirannsóknir og veðurfarsskýrslur síðustu 30 ára hafa leitt þetta skýri í ljós. Þessar veðurfarsbreytingar hafa haft mikil áhrif á gnægtir fisks á ýmsum svæðum hafsins. ... Brown kveðst mundu geta gert talsvert til að afstýra flóði um allan heim, ef hann hefði 20 milljónir dollara undir höndum.
Tíminn segir frá fannfergi í Árnessýslu í pistli 12.nóvember - og einnig af fjársköðum í veðrinu mikla fáeinum dögum áður:
Miklum snjó hlóð niður í Árnessýslu í fyrrinótt og gær. Var svo komið í gærdag, að illfært var orðið bílum um uppsveitir sýslunnar, og mátti ekki tæpara standa að bílar, sem sækja mjólk í Biskupstungur og Hreppa kæmust leiðar sinnar. Til mjólkurflutninga úr Biskupstungum er notaður nýr og aflmikill bíll, sem kemst þótt illfært eða ófært sé venjulegum bílum. Í gær var svo mikill jafnfallinn snjór á veginum í Tungunum, og bíllinn gat ekki haldið veginum, þótt bjart væri af degi og fór út af. Var fenginn öflugur kranabíll frá Selfossi til hjálpar. Snjórinn er upp undir hnédjúpur í uppsveitunum. Telur Helgi Ágústsson á Selfossi, sem þessum málum er kunnugur vel, að ekki megi hvessa mikið á þennan jafnfallna snjó, til þess, að ófært verði um þær sveitir, þar sem mest hætta er á því að skefli yfir veginn. Mjólkurflutningar gengu vel til Reykjavíkur í gær, og var Krísuvíkurleiðin farin. Vegurinn er ófrosinn undir snjónum og þolir hann illa þessa miklu umferð og myndast í hann hættuleg hvörf, sem reynt er að gera við jafnóðum. Þungfært var í Hvalfirði í gær, en flestir bílar komust þó leiðar sinnar, og langferðabílar komust yfir Holtavörðuleiði. Færð er hins vegar allgóð norðanlands. Hætt er við nokkurri snjókomu hér sunnan lands og vestan næstu dægur.
Nokkru nákvæmari fréttir hafa nú borist blaðinu af fjársköðum vegna óveðursins, en þeir hafa einkum orðið í Borgarfirði og á Snæfellsnesi. Ekki mun þó neinstaðar um verulega stórfellda skaða að ræða, en víða hefir kindur fennt. Ekki er enn vitað um afdrif fjárhópa, er voru langt frá byggðum, þegar veðrið skall á. Þannig mun fé á fremstu bæjum í Hvítársíðu hafa verið á fjalli í óveðrinu. Skammt frá bæ einum í Þverárhlíð fundust fjórar kindur dauðar í skafli eftir óveðrið. Líkur eru taldar til að sjö kindur hafi fennt frá einum bæ í Hálsasveit, þótt ekki hafi það fé fundist og frá nokkrum bæjum í Reykholtsdal vantar fáeinar kindur og líklegt, að eitthvað af þeim hafi fennt. Bændur í Skorradal og Lundareykjadal munu einnig hafa misst nokkrar kindur í hríðinni. Vestur á Snæfellsnesi urðu líka fjárskaðar í óveðrinu. Í Grundarfirði hrakti nokkrar kindur í sjóinn og enn vantar menn fé í Ólafsvik, og er talið víst, að eitthvað af því hafi fennt.
Tíminn segir enn ófærðarfréttir 13.nóvember:
Blaðið átti í gærkvöldi tal við Helga Ágústsson, hreppsstjóra á Selfossi um færðina og mjólkurflutningana í héraðinu. Hann sagði, að snjórinn væri orðinn mikill, og bílstjórar segðu, að færi svo að hvessti nokkuð að ráði á þennan jafnfallna snjó, mundi verða bráðófært í mörgum uppsveitum. Mjólkurbílstjóri sagði, að hann hefði séð, að snjór tók hrossum í kvið í högum og á túnum. Snjórinn er mestur á Skeiðum, í Hreppum og Biskupstungum, og úr þessum sveitum má búast við að vegir teppist, ef nokkuð golar, og þaðan flytja sjö mjólkurbílar mjólk. Sama er að segja um veginn upp á Land. Í Rangárvallasýslu er snjórinn heldur minni.
Tíminn er enn með hugann við fjárskaða 14.nóvember:
Bændur norðan á Snæfellsnesi voru í gær og fyrradag að leita fjár þess, sem þá vantaði eftir illviðrið á dögunum. Enn er allmargt ófundið en þegar er ljóst, að allmiklir fjárskaðar hafa orðið utanvert á nesinu. Fréttaritari Tímans í Grundarfirði símaði í gær, að komið hefði í ljós, að heila fjárhópa hefð fennt þar, en mörgu hefir samt verið hægt að bjarga síðustu dagana. Allmargt fé hefir fundist dautt, og menn óttast, að það, sem enn er ófundið, sé margt dautt í fönn. Einn maður í Grafarnesi átti 50 kindur í hóp alllangt frá byggð, og fennti hópinn allan. Hafði hann leitað afdreps í þröngu dalverpi. Sólarhring síðar fannst hópurinn og var grafinn upp. Voru allar kindurnar lifandi nema fjórar. En margar kindur voru mjög aðframkomnar. Nær 100 kindur fundnar dauðar. Síðustu dagana hafa menn verið að leita og grafa féð úr fönn, og hafa menn víða fundið 2-8 kindur dauðar í hóp, og er talið, að samtals sé búið að finna nær 100 kindur dauðar í Grundarfirði. Fréttaritari Tímans í Ólafsvík símaði í gær, að þar væri nú búið að finna flest það fé, sem vantaði, og væru fjárskaðar þar heldur minni, en þó mundu 2030 kindur hafa farist þar, og eru þær eign ýmissa manna í kauptúninu. Vantar enn margt fé frá Hellissandi. Fréttaritarinn á Hellissandi sagði í gær, að enn vantaði þar margt fé úr nágrenninu og kauptúninu, svo að ekki væri að fullu vitað um fjárskaða þar. Óttast menn samt, að allmargt fé hafi fennt. Undanfarna daga hafa menn verið að ná fénu í hús, en það hefir reynst erfitt verk, vegna þess hve féð er tvístrað eftir óveðrið, og þótt það finnist, er erfitt að koma því um vegna fannkyngi. Telja menn, að lítil von sé um, að það fé lifi, sem nú er í fönn síðan í óveðrinu.
Næstu daga gerði enn illviðrasyrpu, en af suðri. Fylgdi mikil rigning og hláka um land allt. Tíminn segir frá 16.nóvember:
Nokkrar skemmdir munu hafa orðið á vegunum vegna skyndilegs vatnsveðurs og leysinga í gærdag [15.] og fyrrinótt. Víða hefir runnið nokkuð úr vegunum, eins og títt er í miklum leysingum, og í Hvalfirði kom til nokkurrar umferðastöðvunar í gær, vegna þess að skriður féllu á veginn milli Hvamms og Hvítaness, þar sem vegurinn liggur í einna mestum bratta, en lausar skriður eru ofan vegarins.
Frá fréttaritara Tímans á Selfossi í gær. Mikil asahláka var hér austan fjalls í gær og nótt og fylgdi henni stórrigning. Var mjög hlýtt, og hjaðnaði hinn mikli snjór fljótt. Var orðið sæmilega greiðfært á vegum í dag og komu mjólkurbílar flestir á eðlilegum tíma til búsins.
Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. í fyrrinótt varð mikið tjón á mannvirki, sem er í byggingu í Borgarnesi. Fauk mestur hluti klæðningar og uppistaðna nýju sundlaugarinnar, sem þar er í smíðum. Var búið að byggja sundlaugina sjálfa, en í haust var unnið að því að koma upp byggingu yfir hana og búningsklefum og böðum. Yfirbygging laugarinnar átti að vera járnvarin timburbygging, og var búið að slá upp grindinni og langt komið að klæða hana járni fyrir óveðrið. Um nóttina fauk svo mestur hluti byggingarinnar, og mikið af efninu fór á sjó út, eða eyðilagðist á annan hátt, þar sem það kom niður. Ungmennafélagið Skallagrímur í Borgarnesi vann að þessum framkvæmdum, og hefir félagið því orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni vegna þessa, og líklegt og þetta óhapp kunni að seinka því verulega, að sundlaugin verði fullgerð. Mjög hvasst var í Borgarnesi i fyrrinótt og var heppni, að ekki hlaust miklu meira tjón af ofviðrinu.
Morgunblaðið segir af illviðri 18.nóvember:
Stykkishólmi 17. nóvember. Mesta óveður hefur stöðugt haldist hér undanfarna daga. Hefur verið ótíð bæði til sjós og lands. Enginn bátur hefur verið á sjó undanfarið, og hríð er af og til. Færð á vegum er þó allgreiðfær, og í gær komu hingað áætlunarbifreiðir úr Reykjavík og gekk þeim vel. Vegurinn út í Grafarnes mun vera þungfærastur.
Í óveðrinu um daginn urðu talsverðar skemmdir á símalínum, sérstaklega í Breiðuvíkurhreppi. Á leiðinni frá Arnarstapa að Syðri-Tungu brotnuðu 22 símastaurar og féll símalínan niður á löngum kafla. Við þetta rofnaði samband við Arnarstapa sem er símstöð.
Morgunblaðið segir af hláku vestra 20.nóvember:
Patreksfirði, 19. nóvember. Talsverð rigning hefur verið undanfarið hér og hefur snjóa leyst allverulega. Þó eru ýmsir fjallvegir mjög ógreiðfærir, en þó aðallega vegna hálku og leysinga. Kleifaheiði var farin nýlega og var hún erfið yfirferðar, vegna hálku. Hefur heiðin verið mokuð af og til í vetur, en má búast við að því verði hætt hvað líður.
Morgunblaðið segir af eldingu og tjóni af hennar völdum 24.nóvember:
Mykjunesi, 21. nóvember. Laugardagskvöldið 20. þ.m. laust niður eldingu að Skammbeinsstöðum hér í Holtum og olli nokkru tjóni á símum í ofanverðri sveitinni. Margbýlt er að Skammbeinsstöðum og eru íbúðahúsin tvö. Standa þau með 4050 metra millibili. Sími er á báðum bæjunum. Gereyðilagðist annað símatækið, er eldingunni sló niður, en hitt er óskemmt. Var það hjá Sigurði Sigurðssyni, sem eldingunni sló niður í húsið, og eru sviðablettir í veggjum herbergisins, sem fyrir henni varð. Hitt húsið lék á reiðiskjálfi, er þruman reið yfir, en skemmdir urðu þar engar. Frá Skammbeinsstöðum er lögð símalína að allmörgum bæjum uppsveitarinnar, og urðu símar á þeim bæjum fyrir meiri eða minni skemmdum. Stóðu eldglæringar út af þeim flestum er þessi ósköp gengu á. Ekki hefur farið fram nákvæm rannsókn á hve miklar skemmdir hafa orðið, en símakerfið er algjörlega óvirkt. Hefur sennilega litlu munað að alvarlegir atburðir ættu sér stað.
Tíminn segir 26.nóvember af rigningum á Austfjörðum og fleiru:
Síðustu þrjá dagana hefir verið úrhellisrigning á Austfjörðum einkum sunnanverðum, og er hlaupinn mikill vöxtur í ár og vegir víða orðnir illfærir sökum aurbleytu. Var vatnsveðrið svo mikið í gærkveldi, að ekki var hægt að vinna að uppskipun. Allhvasst var af austri.
Fréttaritari Tímans á Hornafirði sagði, að Herðubreið lægi þar inni og kæmist ekki út vegna brims. Er mjög mikill sjógangur sagður fyrir Suðausturlandi. Geysimikil rigning var á Hornafirði síðdegis í gær. Herðubreið var búin að liggja sólarhring í Höfn. Fréttaritari Tímans á Reyðarfirði sagði, að rigningin hefði verið óskapleg síðustu dægur og mest síðdegis í gær. Væri kominn flugvöxtur í ár og læki. Fagradalsá var svo mikil, að ófær var bílum í gærkveldi, og er þó venjulega aðeins smálækur. Var fólk frá bænum Grænuhlíð teppt við ána, því að bílar treystu sér ekki til að leggja í hana.
Það var eins með Desember og fleiri mánuði þessa árs að hann fékk misjafna dóma - en þó talinn hagstæður þegar á allt var litið.
Síðumúli: Desembermánuður hóf göngu sína með mildri veðráttu, sannri veðurblíðu. Jörð var þá alauð fyrstu 3 dagana. Það kólnaði þó brátt í veðri og jörð varð alhvít eða því sem næst, það sem eftir var mánaðarins, þó ekki mikill snjór hér en frostlaust og kalt var nokkurn hluta mánaðarins eftir því sem hér gerist svo snemma vetrar.
Sandur: Tíðarfar var hægviðrasamt og veðurgott. Snjór var lítill og hagar yfirleitt góðir.
Sámsstaðir: Kaldur og hrakviðrasamur. Frost og snjóar flesta daga og illfært á vegum oftast nær.
Tíminn er farinn að búast við Kötlugosi 3.desember (alltaf hollt að lesa um það):
Hvenær má vænta næsta Kötlugoss? Þeirrar spurningar spyrja ýmsir, og jarðfræðingarnir ekki síður en aðrir. Þykir margt hníga að því, að við því megi búast á næstu árum. ... Þess má geta, að það hefir lengi verið álit þeirra er búa í nágrenni Kötlu, að goss sé ekki lengi að bíða, þegar dældin milli hnjúkanna á jöklinum, þar sem Katla er undir, er orðin full af jökli eða jafnvel komin bunga þar sem lægð var. Láta mun nærri, að dæld þessi sé nú full.
Morgunblaðið segir af rýrnum jökla 3.desember:
Jöklamælingar, sem fram fóru í sumar bera það með sér að allflestir þeir jöklar, sem rannsakaðir voru eru á hröðu undanhaldi, enda þótt veturinn hafi verið snjómikill á háfjöllum og jöklum.
Tíminn segir 5.desember frá athyglisverðu atviki:
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Það atvik vildi til í Víðigerði í Hrafnagilshreppi s.l. miðvikudagskvöld, að þak fjárhúss féll inn og ofan á 100 fjár, sem í húsinu var. Tókst þó að bjarga fénu nema sex kindum. ... Orsök þessa atviks er talin sú, að í hinum miklu rigningum. sem gengið hafa að undanförnu. hafði svo mikið vatn safnast í torfvegg sem var milli fjárhúsa og hlöðu, að hann lagðist fram og sligaði þakið.
Morgunblaðið segir 19.desember frá sæmilegri tíð:
Stokkseyri 17. desember. Veður hefur verið sæmilegt í Árnessýslu undanfarið. Hér á Stokkseyri og í Flóanum er snjólaust með öllu. Lítið hefur verið farið á sjó héðan vegna stöðugra brima.
Þann 17. og 18. desember var mikill kuldapollur í háloftunum yfir Grænlandshafi. Honum fylgdu miklir éljagarðar. Morgunblaðið segir frá 19.desember:
Árdegis í gær, klukkan langt gengin 11, brast skyndilega á stórhríð hér í Reykjavík, og var nokkur veðurhæð af suðvestri. Veðrið sagði skjótt til sín, því að brátt komu umferðatafir ýmiskonar, er bílar lentu í árekstrum eða biluðu. Hafði þetta í för með sér, að strætisvögnunum gekk illa að halda áætlun. Svo dimm var hríðin, að bílar óku með fullum ljósum. Veðrið stóð beint upp á jólaskreytingarnar í Bankastræti og snaraðist þar stærðar greniklukka, og á Skólavörðustígnum slitnaði ein niður. Um hádegið birti upp að nýju, og gekk síðdegis á með snjóéljum og um kvöldið var komið ágætis veður.
ER snögglega gerði stórhríð skömmu fyrir hádegi í gærmorgun, varð Hellisheiðin brátt ófær bílum. Snjóýtur vegagerðarinnar fóru nokkrum bílum til aðstoðar upp á heiðina, svo þar sat enginn bíll, er heiðin lokaðist alveg skömmu eftir hádegi. Þingvallaleiðin varð einnig skjótlega ófær. Hætt er við, að Holtavörðuheiðin hafi mjög spillst, ef ekki orðin ófær með öllu. Hvalfjörður mun vera fær. Í gær fóru bílar um Krísuvík, og var sú leið allgreiðfær. Fréttaritari Morgunblaðsins á Selfossi símaði, að vegir í austursveitum hefðu ekki spillst í gær.
Tíminn segir frá sama veðri í pistli 19.desember:
Í gærmorgun var versta veður hér í Reykjavík. Tepptust ferðir smærri bifreiða um hádegið, vegna.þess að snjó skóf inn á vélarnar. Strætisvagnar áttu í nokkrum erfiðleikum vegna veðursins. Voru dæmi þess, að þær bifreiðar, sem fóru af Lækjartorgi og eru rúman hálftíma í ferðum vanalega, komu ekki aftur fyrr en undir klukkan eitt.
Tíminn segir af ófærð í pistli 20.desember:
Færð var víða þung Sunnanlands í gær, enda snjókoma talsverð og rok. Samkvæmt upplýsingum frá Vegamálaskrifstofunni var Krísuvíkurleiðin allvel fær fyrri hluta dags í gær, en stórviðri skall þar á um miðjan dag, snjókoma mikil og austan rok. Festust þar margir bílar, en leiðangur hélt þegar af stað héðan úr bænum til að koma bilunum til hjálpar, og var búist við að því verki myndi ljúka seinni partinn í gær.
Árið 1954 gekk talvert á í veðri í heiminum. Blöðin birtu stöðugt fréttir af illviðrum erlendis, stormum, flóðum og kuldum. Fór svo að almannarómur kenndi kjarnorkutilraunum um. Við veljum þessa fregn úr Nýja tímanum 28.desember sem dæmi um þessa umræðu. Fellibyljamergðin sem átt er við eru sennilega skýstrokkar - þessu oft ruglað í þýðingum. Fellibyljafjöldi á Atlantshafi var reyndar yfir meðallagi.
Enskir vísindamenn hallast meira og meira að þeirri skoðun, að fádæma hraklegt veðurlag víða um heim á þessu ári standi í einhverju sambandi við tilraunirnar með vetnisvopn í vor. Í erindi í breska útvarpinu í gær sagði Ritchie Calder, vísindafréttaritari stórblaðsins News Chronicle, að það sem mest styrkti þessa skoðun væri að síðan athuganir hófust hefði aldrei orðið vart jafn margra fellibylja eins og í haust eða 600 talsins. Hingað til hefur fjöldi fellibylja farið eftir því hve mikið er um sólbletti, gasgos í ysta borði sólarinnar, sem varpa rafeindum út um geiminn og hafa fyrir þeirra tilverknað áhrif á veðurfarið hér á jörðinni. Í ár hefur hinsvegar verið venju lítið um sólbletti svo að ekki getur fellibyljamergðin verið þeim að kenna. Hinsvegar varpa vetnissprengingar geislavirkum eindum út í efstu lög lofthjúpsins um jörðina, og þeirri tilgátu er gefinn vaxandi gaumur að þessar eindir geti haft svipuð áhrif og þær sem stafa frá sólblettunum. Í Vestur-Evrópu og víðar hefur veðrið í ár verið með versta mói, kalt votviðrasamt, hvasst og sólarlítið. Í fyrstu höfnuðu veðurfræðingar algerlega þeirri hugmynd að vetnissprengjur ættu sök á þessu, en nú eru þeir farnir að hugsa sig um sagði Calder. Vera má að vetnissprengjurnar megni að raska því loftjafnvægi sem eðlileg veðurmyndun byggist á.
Morgunblaðið hugar að jólaveðrinu 24.desember:
Í gærdag var hið fegursta vetrarveður hér í Reykjavík, logn, hreinviðri með nokkru frosti. En ekki gera veðurfræðingar ráð fyrir slíku veðri í dag, á aðfangadag. Í nótt mun hafa náð hingað suðaustan átt og eftir öllum sólarmerkjum að dæma, mun verða stinningskaldi á Suðvesturlandi og Vestfjörðum í dag. Um leið og hlýnar í veðri, má búast við snjókomu fyrst í stað, en síðdegis verði komin slydda. Og þá má alveg eins búast við því að í kvöld verði komið þíðviðri með rigningu.
Tíminn ræðir við togarasjómann 29.desember:
Blaðamaður frá Tímanum hefir nýlega rætt við togarasjómenn, sem stundað hafa veiðar á Halamiðum að undanförnu og segja þeir, að haustið og það sem af er vetrinum sé eitt erfiðasta veiðitímabil togaranna um margra ára bil, sökum stöðugra umhleypinga og óveðra.
Allkröpp lægðarmiðja fór til norðurs skammt vestur af landinu þann 30. desember, Morgunblaðið segir þann 31. frá óhappi á Keflavíkurflugvelli:
Keflavíkurflugvelli 30.desember. Um klukkan níu í morgun hvessti skyndilega af suðvestri og var vindhraðinn að lítilli stundu liðinni kominn upp i 110 km. Hér á vellinum var lítil einkaflugvél, Tiger Mouth. Flugvélin stóð á flugvélastæði fyrir framan slökkvistöðina. í flugvélinni var eigandi hennar Einar Sigurðsson. Hugðist hann gæta flugvélarinnar. En allt í einu tók sviptivindur flugvélina á loft, með Einari í. Fauk flugvélin um 300 metra leið yfir grjóturð og móa, en Einar hékk í vélinni þessa óskemmtilegu flugferð. Honum tókst að afstýra því að henni hvolfdi. Í lendingu skemmdist flugvélin litla nokkuð er vængendar brotnuðu og stýrið laskaðist. Flugvélin mun óvátryggð. Einkennisstafir hennar eru TF-KBDB.
Tíminn segir 31.desember frá sama veðri - en á undan lægðinni. Síðan er greint frá því að árið 1954 hafi verið tiltölulega slysalítið (ekki nema 51 farist):
Frá fréttaritara Tímans á Selfossi. Í fyrrinótt hvessti hér um slóðir og gerði nokkra snjókomu svo að færð þyngdist nokkuð á vegum. Í uppsveitum Árnessýslu var þungfært framan af degi og komu mjólkurbílar í seinna lagi til búsins. Þegar leið á dag og veður batnaði var snjó víða rutt af vegum. Krísuvíkurleiðin var einnig þungfær framan af degi, og komu mjólkurbílarnir að austan ekki í bæinn fyrr en eftir hádegi. S
Árið 1954, sem nú er að kveðja, hefir verið óvenjufarsælt á margan hátt og slys orðið með minnsta móti, borið saman við það, sem oft hefir áður verið. Þó hefir 51 íslendingur látist af slysförum á árinu. í fyrra létust 78 íslendingar af slysförum og árið þar áður 63. Sjóslys og drukknanir eru langtilfinnanlegust eins og alltaf hefir verið, af þeim orsökum hafa farist 20 manns á árinu, þar af hafa flestir eða 75% látist við skyldustörf sín á sjónum.
Hér lýkur langri umfjöllun hungurdiska um veður og veðurfar ársins 1954. Margvíslegar tölulegar upplýsingar eru í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 16
- Sl. sólarhring: 211
- Sl. viku: 981
- Frá upphafi: 2420865
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 862
- Gestir í dag: 13
- IP-tölur í dag: 13
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Ég man árið 1954 næstum eins og það hefði verið í gær. Hélt dagbók stóran hluta ársins þar sem smásmygli réði ferðinni með endemum. Man vel eftir sólkmyrkvanum um sumarið þegar ég var í sveitardvöld að Hvammi í Langadal.
Miklar skemmdir urðu á túninu í Hvammi í stórrigningunni um sumarið þegar Hvammsá stíflaðist í gili sínu af sktriðu, og ruddist síðan fram með feikn af grjóti.
Bóndinn, einstæð móðir, ömmusystir mín, varð slegin við þessar hamfarir, því að 20 árum fyrr hafði komið enn stærri skriða yfir túnið og eyðilagt rafstöð og stíflu í Hvammsá.
Eftir var það lítil og einföld áveita bæjarlækjarins, sem skóp nógu mikið rafmagn til að mjólka kýrnar, en slökkva varð ljósin í húsunum á meðan.
Ómar Ragnarsson, 16.7.2023 kl. 00:00
Þakka feita athugasemd Ómar.
Trausti Jónsson, 17.7.2023 kl. 02:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.