Hugsað til ársins 1947

Tíðafar á árinu 1947 var afskaplega breytilegt og skiptust á langir þráviðriskaflar, ýmist af suðri eða norðaustri. Snjóflóðahrinur gengu yfir bæði síðla vetrar og seint um haustið. Mikið rigningasumar á Suðurlandi, en eitt hið allrahlýjasta sem vitað er um norðaustanlands. Jörðin lét ekki sitt eftir liggja. Stórt eldgos hófst í Heklu og jarðskjálftar breyttu mjög hveravirkni í þéttbýlinu í Hveragerði. Síldveiðar brugðust að miklu við Norðurland, en aftur á móti varð fræg síldarganga í Hvalfjörð um haustið. Margir minnast enn hins frækilega björgunarafreks við Látrabjarg í desember og Snorrahátíðar í Reykholti. 

Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Mest er um texta úr Morgunblaðinu, Tímanum og Vísi. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn og fleira úr gagnagrunni og safni Veðurstofunnar. Talnasúpu má finna í viðhenginu.

Janúarmánuður var einn sá hlýjasti sem vitað er um (rétt eins og janúar hundrað árum fyrr, 1847), blóm sprungu út og tún tóku að grænka. Í febrúar voru lengst af stillur og bjartviðri, einkum sunnanlands. Þurrviðrasamt víðast hvar. Talsverður snjór síðari hlutann á landinu norðanverðu, fremur kalt var í veðri. Í mars var veður einnig stillt. Óvenjulítil úrkoma og mikil bjartviðri voru á öllu S- og V-landi, en snjór furðumikið til trafala. Mikil snjóþyngsli fyrir norðan. Kalt í veðri. Í apríl var tíð óhagstæð mjög stormasöm miðað við árstíma. Snjóþyngsli mikil. Gæftir stopular. Maí var hlýr og hagstæður í innsveitum, en svalara var við sjóinn. Í júní var svalt og þurrt fyrri hlutann, en úrkomusamt og hlýtt síðari hlutann. Í júlí var linnulítil rigningatíð á Suður- og Vesturlandi, en hagstæð heyskapartíð norðaustan- og austanlands. Í ágúst gengu enn rigningar um sunnan- og vestanvert landið, en mjög hagstæð tíð norðaustanlands. Þar var sérlega hlýtt. Í september var einmuna tíð norðaustanlands, en annars yfirleitt óhagstæð. Í október var tíð enn góð á Norður- og Norðausturlandi, en óhagstæð á Suður- og Vesturlandi framan af, en síðan betra. Lengst af hægviðrasamt og hlýtt. Fyrstu 10 dagar nóvember voru hlýir, en síðan var kalt og snjóþungt fyrir norðan, en þurrt syðra. Í desember var tíð óstöðug fyrir norðan, en betra tíðarfar syðra.

Eins og áður sagði var janúar sérlega hlýr, þó var vægt frost alveg í upphafi og enda mánaðarins, og eins 1 til 2 daga kringum þann 17. Veðurathugunarmenn segja frá hinum óvenjuhlýja janúar:

Síðumúli (Ingibjörg Guðmundsdóttir): Janúarmánuður var mildur og góður, en nokkuð úrkomusamur, þó aldrei stórrigning eða mikil snjókoma. Jörð er nú snjólítil og klakalaus.

Sandur í Aðaldal (Njáll Friðbjörnsson): Tíðarfar yfirleitt milt fyrri hluta mánaðarins og úrfellalítið. Úr miðjum mánuði hlýnaði verulega svo snjó leysti nálega alveg af láglendi, vötn urðu mikið til íslaus og jörð víða marþíð.

Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Hlýjasti janúar sem menn muna hér.

Papey (Gísli Þorvarðsson): Það hefur verið mild og hlý tíð allan mánuðinn, svo tún og úteyjar slá á grænan lit víða. Hér oft mikið úrfelli með hvassviðri og stormi með stórsjó sem hefur brotið upp jörð og borið grjót og torf langt á land.

Nokkuð illviðri gerði dagana 2. og 3. og síðan þann 5, byrjaði með snjókomu og slyddu en síðan hláku. Morgunblaðið 3.janúar:

Nokkru eftir hádegi í gær [2.janúar] tepptist leiðin austur yfir Fjall. Svo mikla snjókomu gerði að báðar snjóýturnar urðu að hætta. Er Morgunblaðið átti tal við Skíðaskálann um kl. 6 í gærkvöldi var komin þar efra stórrigning.

Skömmu eftir að kvölddagskrá útvarpsins hófst í gærkvöldi, bilaði loftnet útvarpsstöðvarinnar á Vatnsenda og féll því það sem eftir var dagskrár niður. Víð athugun kom í ljós, að niðurtak loftnetsins hafði slitnað. Háspennulínan frá Reykjum bilaði í gærkveldi og var ekki hægt að dæla heitu vatni til hitaveitunnar frá kl.1 í nótt.

Morgunblaðið segir frá illviðri á Akureyri í pistli 4.janúar og síðan símslitum víða um land:

Í fyrrinótt á miðnætti [aðfaranótt 3.] skall á eitt hið mesta sunnanveður, sem komið hefir á Akureyri. — Nokkrar skemmdir urðu á bátum og eitt hús skemmdist. Siglutré á póstbátnum Drangur brotnaði og féll niður á þilfar. Þá urðu skemmdir á vélbát frá Dalvík og línuveiðarinn Bjarki varð einnig fyrir litlum skemmdum. Tvö skip, sem lágu. við bryggju slitu landfestar, en sjálfboðaliðum og skipverjum tókst að koma festunum á skipin og forða þeim frá skemmdum. Sjógangurinn var svo mikill að öldubrjóturinn, sem er út af hafnarbryggjunni eyðilagðist með öllu. Öldubrjótur þessi var 20 metra langur trérani. Inni í bæ tók þak af litlu húsi. Íbúana sakaði ekki og þeir létu fyrirberast i húsinu yfir nóttina. — Þá hafa nokkrir símastaurar brotnað. Ekki er vitað um frekari skemmdir og engin slys munu hafa orðið á mönnum. Veðurofsinn stóð yfir í tvo tíma, eða frá miðnætti til kl. 2 um nóttina.

Í gærkveldi var nær því talsímalaust út um land. Við Austurland var símasambandslaust. Við Ísafjörð var samband afar slæmt. Aðeins ein lína var nothæf fyrir allt Norðurland. Sambandið við Akureyri var mjög slæmt og stundum var ekki hægt að ná sambandi þangað.

Morgunblaðið segir af skipstrandi 7. janúar:

Í ægilegu brimi strandaði breski togarinn „Lois“ í Hraunsvík í Grindavík á sunnudagskvöld [5.janúar]. Fyrir frábæran dugnað björgunardeildar Slysavarnafélagsins tókst að bjarga fimmtán mönnum af sextán manna áhöfn togarans. Það var skipstjórinn Smith, 46 ára, sem drukknaði.

Tíminn segir af hárri sjávarstöðu í Reykjavík í pistli 10.janúar. Loftþrýstingur var þó ekki sérlega lágur:

Við stórstraumsflóð í gærmorgun [9.janúar] flæddi sjór inn í kjallara margra húsa í miðbænum. Kemur slíkt ekki fyrir nema í aftaka flóðum og hefir varla komið fyrir nokkurn tíma í svo stórum stíl sem í gær. Meðal þeirra húsa sem flæddi inn í var pósthúsið í Reykjavík. Þar flæddi um öll gólf bögglapóststofunnar, sem er i kjallara hússins og var það einungis fyrir snarræði starfsmanna bögglapóststofunnar að hægt var að varna því að bögglar skemmdust, eða eyðilegðust. Má búast við, að skemmdir hefðu orðið fyrir tugi þúsunda króna, hefði flóðið komið að næturlagi og engir starfsmenn hefðu verið nærstaddir. Í allan gærdag var ökklaflóð í kjallaranum og rafmagnsdælur notaðar til að dæla sjónum út. Bögglarnir voru í hrúgum uppi á geymsluhólfunum, þar sem vatnið náði ekki til þeirra. Þrátt fyrir þessi erfiðu skilyrði gegndu starfsmenn bögglapóststofunnar störfum sínum í allan gærdag, eins og venjulega. Þetta atvik ætti að verða mönnum til áminningar um það, hve illa er búið að póststarfseminni með húsnæði. Heita má að kjallarinn undir pósthúsinu sé orðinn algerlega ófullnægjandi fyrir bögglapóststofuna, svo umfangsmikil starfsemi, sem þar er nú rekin. Þótt ekki sé flóðum til að dreifa eru starfsskilyrðin afleit þarna i kjallaranum sökum þrengsla og slæms aðbúnaðar.

Einnig varð talsvert flóð í Vestmannaeyjum, Vísir segir frá 11.janúar:

Ofviðri mikið gekk yfir Vestmannaeyjar aðfaranótt fimmtudagsins [9.janúar]. Gekk sjór á land upp og olli verulegum skemmdum á ýmsum mannvirkjum. Tíðindamaður Vísis í Vestmannaeyjum, Jakob Ó. Ólafsson, hefir skýrt blaðinu frá tjóni því, sem orðið hefir í þessu veðri. Steinsteyptur veggur, sem stendur um olíugeyma Shell og B.P. á Edinborgarbryggju, brotnaði, og steinsteypt gólf í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, sprakk. Sjór gekk yfir Básaskersbryggju og var hún öll í kafi. Síldarmótorbátar, sem á henni stóðu, fóru á flot, og malarofaníburður, sem þakti nokkurn hluta hennar, skolaðist i burt. Stórstreymt var og sjógangur mikill, og gekk sjór alla leið upp fyrir svonefnt Hafnarhús, sem stendur syðst við Básaskersbryggju.

Morgunblaðið segir 18.janúar frá Jökulsárlóni, nýlega mynduðu:

Nú er Jökulsá á Breiðamerkursandi alltaf ófær hestum, nema að sundreka þá lausa. Og nú er jökulinn líka með öllu ófær, bæði skepnum og mönnum, nema þá óra langt innfrá. Nú er komið stórt lón innan við Jökulsá, inn að jökli, og er það alltaf að stækka með hverju ári. Er nú hægt að róa á báti yfir báðar kvíslar Jökulsár (eystri og vestri) á þessu nýja lóni, sem er alveg lygnt upp við jökulinn. Þetta lón nær sem sé milli ánna norðan við ölduna, sem er á milli þeirra. Þarna eru þær mestu breytingar, sem orðið hafa hér með jöklum á seinustu árum. (Úr bréfi frá Skarphéðni Gíslasyni á Vagnstöðum).

Minniháttar tjón varð í illviðri þann 18. janúar. Tíminn segir frá 21.janúar:

Á laugardaginn [18.janúar] gerði hvassviðri mikið af suðaustri. Voru flestallir bátar frá verstöðvum við Faxaflóa á sjó, er veðrið skall á. Bátarnir komust þó allir heilu og höldnu að landi, flestir hjálparlaust. Tveir bátar þurftu á aðstoð að halda vegna vélarbilunar. Voru það Aldan frá Akranesi og Þorsteinn frá Dalvík.

Í ofviðrinu um helgina rak bátinn Víði úr Garði á land í Keflavík. Hafði hann slitnað frá hafnargarðinum. Hafnarskilyrði eru ekki góð í Keflavík, eins og kunnugt er. Ef eitthvað er að veðri geta bátarnir ekki legið við stjóra úti á höfninni, heldur verða þeir að vera bundnir við bryggju. Víðir var bundinn við bryggjuna, en slitnaði frá og tók að reka upp. Skipverjar voru um borð og settu vél bátsins í gang, en kaðall flæktist í skrúfuna og stöðvaði hana. Rak bátinn því upp í fjöru, án þess að hægt væri við því að gera.

Suðaustanáttin og hlýindin óvenjulegu báru með sér mengun frá Evrópu. Hér má geta þess að þessi vetur var fádæma harður í Vestur-Evrópu og olli þar margskonar hörmungum ofan í matarskort eftirstríðsástandsins. Morgunblaðið segir frá 24.janúar:

Frá því hefir verið skýrt í útvarpsfréttum, að vart hafi orðið við öskufall í Austur-Skaftafellssýslu og sunnanverðri Suður-Múlasýslu. Fréttist fyrst um þetta á þriðjudag [21.janúar] og aftur í gær. Þegar slíkar fregnir berast, verður manni fyrst fyrir að spyrja, hvar eldur kunni nú að vera uppi, eða hvaðan vindur hafi blásið, þar sem vart varð við öskufallið, svo af því megi marka hvar upptökin séu. Í þetta sinn bregður svo við, að báða dagana, sem menn hafa orðið varir við loftryk það, sem þeir þar eystra geta ekki annað en líkt við öskufall, hefir vindur staðið af hafi. Morgunblaðið átti í gær tal við greinargóðan mann á Kvískerjum, en þar urðu menn varir við „öskufallið“, einkum á þriðjudaginn. Heimildarmaður blaðsins skýrði svo frá, að þennan dag hafi gengið á með regnskúrum, og verið eindregin suðaustanátt en ekki hvasst. Ekki kvað svo mikið að rykfalli þessu, að menn yrðu þess mikið varir, þó þeir væru úti við, nema þeir veittu því sérstaka eftirtekt. Mest bar á þessu á allstórri tjörn, sem er skammt frá bænum. Ryk flaut á vatninu og barst eftir yfirborðinu, svo mest bar á því við vesturbakkann, þar eð golan, sem var á vatninu, bar það þangað. Var líkast því, sem olíubrák væri á tjörninni, þar sem mest bar á þessu dusti á vatnsfletinum. En þar sem regnvatn var látið renna í skjólu af járnþaki, þar litaðist vatnið, sem rann af þakinu, svo að vatnið í skjólunni varð ekki gegnsætt nema niður í skjóluna hálfa. ... Heimilismenn á Kvískerjum gátu safnað svo.miklu af dusti þessu til rannsóknar, að hægt verður að efnagreina það, er til þess næst til efnagreiningar: — Ætti þá að koma í ljós, af hvaða uppruna dust þetta er.

Skýring birtist í Morgunblaðinu 25.janúar:

Það er nú komið upp úr kafinu að „öskufallið“, sem menn hafa orðið varir við á Suðausturlandi, mun verið smiðjusót, sem borist hefir þangað frá Englandi. Eða þá getgátu hefir Jónas Jakobsson, veðurfræðingur, komið með, og hefir ekki fundist á þessu önnur skýring sennilegri. Jónas fullyrðir, að ekkert sé því til fyrirstöðu, að reykjarsót geti borist svo langa leið í lofti. ... Eftir vindstöðu, sem var á hafinu milli Englands og Íslands dagana áður en menn urðu varir við dust þetta, eða hroða, í loftinu, á einmitt loft það, sem þá var yfir Suð-Austurlandi að hafa komið frá Englandi. En ekkert úrfelli var á hafinu milli landanna. Þegar svo sunnanvindar þessir skella á hálendinu og leita upp á við, en raki þeirra verður að regnfalli, þá kemur sótið með regninu til jarðar. Svo mikil brögð voru að þessu t.d. að Hólum í Hornafirði, að mikið sá á þvotti sem þar var úti, enda tekið fram í veðurskeyti þaðan þann dag, að þar hafi verið „öskufall“. Aðra skýringu hafa menn ekki haft þar á slíkum óhreinindum í loftinu fram til þessa. Jónas Jakobsson veðurfræðingur hefir unnið hér á Veðurstofunni í eitt ár. Hann skýrði tíðindamanni Morgunblaðsins svo frá í gærkveldi, að hann hafi tekið eftir því í veðurskeytum frá Suð-Austurlandi, að þegar gengið hafi sunnanvindar um tíma en engar úrkomur fylgt þeim, þá hafi skyggni versnað, vegna
mósku, sem þá hafi komið yfir landið. Hann álítur, að þetta muni geta stafað af hinu sama og nú mun hafa átt sér stað, að verksmiðjureykur með sóti berist þá alla leið hingað til landsins, svo draga kunni úr skyggni. En frekari athugun á þessari kenningu verður gerð, þegar hingað til Reykjavíkur kemur sýnishorn það, er tekið var á Kvískerjum á miðvikudaginn svo það verði efnagreint. Mönnum-kann að finnast það eigi skipta miklu máli, hvort það er sót úr verksmiðjureykháfum Englands, sem óhreinkar loftið í Skaftafellssýslum, eða óhreinindin kynnu að koma einhversstaðar annars staðar að. En óneitanlega er það viðkunnanlegra að vita vissu sína um það, þegar þvottur óhreinkast á bæjum þar eystra, að ekki þarf þetta að stafa af því, að eldsuppkoma sé einhversstaðar úr iðrum jarðar, heldur getur það alt eins verið vegna þess, að þeir kynda svona skarpt kolum sínum suður á Bretlandi. En hvort heldur sé eldfjallaaska eða sót, sem menn verða varir við, geta þeir þá héðan í frá m.a. nokkuð markað, eftir því hvaðan vindur blæs.

Í blálok mánaðar kólnaði í veðri. Mjölnir (Siglufirði) segir frá í pistli 5.febrúar:

Miðvikudaginn 29. janúar s.l. skall á norðaustan ofsaveður með hríð, en litlu frosti. Voru þá á leið hingað tvö skip með síld til bræðslu. Eldborg, sem komin var hér upp undir Siglufjörð, en vegna dimmviðris treysti sér ekki að taka innsiglinguna hér, og lá því til sjós um nóttina. En að morgni var komin það mikil kvika, að samanbraut í fjarðarmynni, og því ógjörlegt fyrir ókunnuga að fara inn á fjörðinn. Lá hún því úti þar til á föstudag, að hún fór inn að Hrísey og hafði skipið það gott eftir ástæðum. ... Hér í bænum varð enginn stórskaði; járn fauk af tveimur húsþökum að nokkru. Þá er vinna var að hætta á föstudag í Síldarverksmiðjum ríkisins gerði einhvern alstærsta bylinn sem kom hér í þessu veðri, og fauk ýmislegt lauslegt, sem var nálægt vinnuplássinu, og lenti á manni, sem var þar. Meiddist hann nokkuð, sérstaklega á höfði. Var hann fluttur á sjúkrahús og gert þar að sárum hans, en síðan fluttur heim til sín og líður nú eftir vonum. Heitir maðurinn Albert Einarsson, Hlíðarveg 44, eldri maður.

Tíminn segir af hríðinni í pistli 31.janúar:

Stórhríð var um allt Norðurland í fyrrinótt og fram eftir degi í gær. Er kominn talsverður snjór um Norður- og Vesturland, og hætt er við, að ýmsir fjallvegir, sem yfirleitt hafa verið færir bifreiðum fram að þessu, hafi nú teppst. Fyllilega er þó ekki um þetta vitað, meðal annars vegna þess, að lítið var um bílferðalög í gær sökum kafalds og muggu til heiða og víða í byggðum. Má vera, að allvel hafi rifið af vegum, því að veðurhæð var mikil. Menn, sem voru á ferð á Vaðlaheiði í jeppabíl í fyrrinótt, voru í þrjá klukkutíma að brjótast yfir heiðina, og sögðu þetta hafa verið hið versta veður. Vegagerð ríkisins sendi í gær menn til eftirlits á Hellisheiði. Reyndist hún vel fær bifreiðum, svo að engin hætta er á, að mjólkurflutningar til Reykjavíkur teppist af þessum sökum, ef ekki snjóar enn til verulegra muna.

Tvær smálægðir kom að landinu um það bil viku af febrúar. Olli hin síðari mikilli snjókomu á blettum, þar að auki þrumuveðri. Þar sem snjór féll að ráði var hann til vandræða út veturinn. Mikið snjóaði t.d. á Hamraendum í Miðdölum þann 8. og mældist úrkoma að morgni 9. 31 mm og snjódýpt 40 cm. Í sama skipti snjóaði einnig mikið í Síðumúla í Borgarfirði, en nær ekkert neðar í héraðinu. Við tökum þessar lægðir út fyrir sviga og greinum frá þeim sérstaklega í lok þessa pistils.

Slide1

Mjög óvenjuleg veðurstaða var uppi við norðanvert Atlantshaf bæði í janúar, febrúar og mars. Í janúar var mikið háþrýstisvæði norðaustur í hafi og eindregnar suðlægar áttir ríkjandi. Síðan skipti um. Háþrýstisvæði og gríðarleg hlýindi ríktu vestan Grænlands, en austar var þrálátt norðanátt og kuldi. Kortið sýnir tillögu evrópsku endurgreiningarinnar. Kuldarnir voru sérlega beittir í Vestur-Evrópu (hér á landi var veður lengst af þokkalegt). Þar voru óvenjulegir kuldar og snjókomur. Hreint hörmungaástand og jafnvel hungursneyð.

En veðurathugunarmenn segja frá febrúarveðri - þeir eru langt í frá sammála:

Síðumúli: Nú er vetrarríki. Mikill snjór. Mjög litlir hagar. Öllum hrossum gefið. Það er frost og kuldi daglega, en glampandi sól og fagurt veður, oft nokkuð hvasst. Við, sem vindrafstöð höfum, köllum að sé góður hleðsluvindur og höfum þá yndislega björt rafljós,þá við vildum láta þau loga allan sólarhringinn.

Stykkishólmur (Magnús Jónsson): Ágætt tíðarfar má heita allan mánuðinn. Auð jörð að heita má, og frost vægt.

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir mátt heita óslitið góðviðri yfir allan mánuðinn. Oftast bjartviðri og stilla og alltaf snjólaust nema rétt föl, jafnt á fjöll sem í byggð. En alltaf dálítið frost.

Sandur: Fyrstu viku mánaðarins var hæg norðlæg átt með vægu frosti og nokkurri snjókomu. Þá gerði samfellt 12 daga hægviðri og bjartviðri. Úr því norðlæg átt mánuðinn út með nokkru frosti og mikilli snjókomu.

Gunnhildargerði (Anna Ólafsdóttir): Mjög óhagstæð tíð og köld, mikill snjór og jarðlaust að mestu leyti.

Tíminn segir af leiftrum í pistli 11.febrúar - héldu sumir að um eldgos væri að ræða (athugið að í haus blaðsins stendur ranglega 8. febrúar): 

Síðastliðið laugardagskvöld [8.febrúar] sáust leiftur mikil í suðri frá bæjum í Mývatnssveit. Átti tíðindamaður Tímans í gær tal við séra Magnús Má Lárusson á Skútustöðum. Kvað hann leiftur þessi hafa sést við og við hátt á þriðja klukkutíma. Var þá sunnanátt, talsverð gola, en himininn heiður þar nyrðra. Ekki telur þó séra Magnús Már, að þessi leiftur hafi stafað frá eldgosi, heldur hafi einungis verið um eldingar og snæljós að ræða. Sé ekki fátítt, að slíkra fyrirbæra verði vart. Á sunnudagsmorguninn [9.] var veður skírt og jöklasýn frá Skútustöðum. Sást hvergi votta fyrir mekki yfir Vatnajökli. Í gær [10.febrúar] var flogið yfir Kverkfjöll og Grímsvötn. Í þeirri för voru nokkrir kunnir náttúrufræðingar, sem fýsti að svipast að eldsummerkjum þarna á hálendinu. Veður var gott og skyggni ágætt. Hvergi sáust nein merki um eldsumbrot, ekkert öskufall né nein merki umbrota.

Alþýðublaðið er með einhvern hund út í flugleiðangurinn í pistli 11.febrúar:

Allmikill leiðangur flaug í gær austur yfir land til þess að leita eldgosa, og voru í honum auk jarðfræðinga og annarra sérfræðinga Nýbyggingarráð allt og starfsfólk þess. Leiðangursmenn flugu fyrst til Akureyrar, en þaðan suður yfir Kverkfjöll og um öræfin norðan Vatnajökuls, en engin merki sáust um eldgos eða umbrot á þeim slóðum. Upphaf leiðangurs þessa er það, að bændur í Mývatnssveit sáu um helgina eldbjarma í suðurátt og bar hann á Kverkfjöll. Var þá | undirbúinn leiðangur héðan úr bænum og hin nýja Dakotaflugvél flugfélagsins leigð til ferðarinnar. Náttúrufræðingarnir, sem í ferðinni voru, voru þeir Steinþór Sigurðsson, Sigurður Þórarinsson, Jón Eyþórsson og Pálmi Hannesson, og sögðu þeir, er þeir komu til bæjarins, að engin merki um eldsumbrot hefðu sést. ... Þar sem nú er gengið úr skugga um að ekki sé eldur uppi, er talið líklegt, að leiftur þau, sem Mývetningar sáu, hafi verið eldingar. Nýbyggingarráð og eitthvað af starfsfólki þess var með í ferðalagi þessu, eins og áður gat, en hvers vegna það var til slíks leiðangurs valið, er hulin ráðgáta. Verið getur, að það vilji einnig fylgjast með nýsköpun náttúrunnar og læra eitthvað af henni.

Morgunblaðið segir eldingafréttir í pistli 11.febrúar:

Síðastliðinn laugardag [8.febrúar] gekk eldingaveður um Suðurland og sló eldingu niður í íbúðarhúsið að Voðmúlastaðahjáleigu í Landeyjum og olli miklum skemmdum á húsinu, en fyrir tilviljun, eða mestu mildi varð ekkert tjón á mönnum. Húsið er einlyft timburhús, klætt bárujárnsþaki og með bárujárnsrisi. Eldingin setti gat á þakið og hluti af þakinu rifnaði upp. Gat kom á gafl hússins og allar rúður í því brotnuðu, en rót varð talsvert í kringum húsið. Ennfremur hrundi reykháfur hússins. Það var fjórða eldingin, sem kom, sem sló niður í húsið, en allmargar komu á eftir. Auk þess, sem eldinganna varð vart í Landeyjunum gengu eldingar á Rangárvöllum og víða um Suðurland. Bóndi í Voðmúlastaðahjáleigu er Ólafur Guðjónsson. Hefir hann orðið fyrir miklu tjóni við skemmdir á íbúðarhúsi sínu.

Vísir segir af tíð í pistli 12.febrúar:

Í janúarmánuði var veðurblíða svo mikil norðanlands að jafnvel uppi í Mývatnssveit var jörð tekin að grænka og munu varla vera dæmi þess. Nú eru allmikil frost þar nyrðra og hafa undanfarna daga verið 15—17 gráðu frost á Skútustöðum, enda er Mývatn allt orðið ísi lagt. Bílfært er enn á milli Húsavikur og Mývatnssveitar og snjóalög yfirleitt mjög lítil.

Tíminn segir af eldingunum í pistli 13.febrúar:

Síðastliðinn laugardag [8.febrúar] bar mikið á eldingum í Rangárvallasýslu. Ekki er þó vitað um, að þær hafi valdið tjóni nema á einum bæ, en þar laust eldingu niður í bæjarhúsin. Það var á Voðmúlastaðahjáleigu. Fólk sakaði þó ekki og ekki húsdýr. Þegar eldingunni laust niður, skulfu bæjarhúsin öll, rúður brotnuðu, efri hluti reykháfsins hrundi og tvær raufar komu í þakið. Enn má geta þess, til marks um, hve mikið kvað að eldingunni, að steinstétt á hlaðinu laskaðist verulega.

Tíminn segir af klakastíflu í Laxá í pistli 25.febrúar:

Laxá í Þingeyjarsýslu hefir stíflast af klakahröngli við Knútsstaði í Aðaldal, hlaupið úr farvegi sínum og flætt yfir hraunið og þjóðveginn, svo að hann er nú algerlega ófær bifreiðum. Tíðindamaður Tímans átti í gær tal við Karl Kristjánsson oddvita í Húsavík. Hann sagði, að Laxá hefði hindrað ferðir um Aðaldalsbraut að meira eða minna leyti síðustu þrjár vikurnar. Hafa klakastíflur myndast í Laxá norðan við Knútsstaði, svo að áin hefir náð að hlaupa úr farveginum og flæða yfir Aðaldalshraun og þjóðveginn á talsverðum kafla. Hverfur hún síðan í hraunið, sem víða er mjög sprungið og glufótt. Þetta hefir verið til mikilla óþæginda fyrir héraðsbúa. Nú er vegurinn með öllu ófær á þessum slóðum vegna árennslis Laxár. Gangandi menn og menn með hesta komast þó leiðar sinnar með því að taka á sig stóran krók og fara að nokkru leyti á ísum. Það hefir alloft komið fyrir að undanförnu, þegar frost hafa gengið, að Laxá hafi hlaupið úr farvegi sínum á þessum slóðum og torveldað samgöngur. En aldrei hefir þetta verið í svo stórum stíl né jafn langvinnt og nú. Töluverð fönn er nú nyrðra og vetrarríki allmikið.

Tíminn segir 1.mars frá góðum gæftum:

Á Akranesi hafa ekki um langt skeið verið jafn stöðugar gæftir í janúar og febrúar eins og í ár. Þeir bátar, sem oftast eru búnir að róa, hafa nú farið um 40 sjóferðir. Í febrúar hafa þrír dagar fallið úr, svo að ekki hefir verið róið.

Mars var kaldur, lengst af stilltur og óvenjubjartur og þurr á Suður- og Vesturlandi. Norðanlands og á Vestfjörðum voru hríðar - skammvinna hríð gerði einnig á Suðvesturlandi. 

Veðurathugunarmenn segja af marstíðinni: 

Síðumúli: Í marsmánuði var veðrátta yfirleitt góð, en snjór svo mikill, að varla er um jörðina fært. Alla mjólk verður að flytja á klökkum óravegu þaðan, sem lengst er, þangað sem bíllinn kemst. Vegarútur halda aðalbílleiðunum færum, og mörgum sinnum hafa þær verið settar á dalavegina, en brátt hefir skafið í förin hennar aftur og allt ófært á ný. Hagar eru mjög litlir. Öll hross eru á gjöf.

Stykkishólmur: Það hefur verið þurrviðri og kuldar allan mánuðinn, úrkoma lítil sem engin. Yfirleitt ágæt tíð.

Reykjahlíð: Reglubundin norðaustan- og norðanátt. Mikill snjór orðinn um mánaðarlok. Allir vegir ófærir. Á Mývatni sökkvandi veikur ís undir djúpum snjó sem þá verður að krapi. Vatnið því illt yfirferðar.

Gunnhildargerði: Tíðin hefir verið vond og oftast mikil snjókoma.

Morgunblaðið segir athyglisverðar svartsýnisfréttir af olíubirgðum heimsins í pistli þann 6. mars, og síðan af ófærð nyrðra:

Hvað mundi koma fyrir, ef vísindin uppgötvuðu og gerðu kunnugt; að eftir 10 ár, eða í janúar 1957, mundi jörðin springa í loft upp eða verða óbyggileg? Getið þið ekki gert ykkur í hugarlund, hvernig allir vísindamenn heimsins myndu stríða dag og nótt, til þess að reyna að finna ráð til þess að afstýra ógæfunni eða útbúa flugfar, sem gæti flutt allt mannkynið yfir á annan hnött? Haldið þið ekki að rifist mundi verða um síðustu sætin í eldflugunni? Og nú, í byrjun ársins 1947, er það staðreynd að vísindin hafa gert þessa uppgötvun. Ef til vill er kveðið fullsterkt að orði, en samt er þetta ekki svo fjarri sanni. Það er best fyrir okkur að vera raunsæ og horfast í augu við þær staðreyndir, að næstu 10 árin munu hafa í för með sér gjörbreytingu á grundvallaratriðum mannlífsins á þessum hnetti. Flestum fróðum mönnum kemur saman um, að við erum að verða búnir að eyða birgðum okkar af nauðsynlegustu orkugjöfunum eða kola- og olíubirgðum okkar. ...

Allir vegir til Akureyrar voru ófærir bílum í morgun, sagði fréttaritari vor á Akureyri, er hann átti tal við blaðið í gær. Snjókoma hefir verið mikil þar í marga daga og er ennþá. Hefir ekki komið þar meiri snjór í mörg ár. Öll bílaumferð á götum bæjarins er einnig erfið. Engin tök eru á því, að ryðja vegina með ýtu, vegna þess að fönnin er svo mikil, að þær geta ekki ýtt henni frá sér. Mjólk verður flutt til bæjarins á sleðum, eftir því, sem við verður komið og einnig sjóleiðis frá Svalbarðseyri. Á þriðjudagskvöldið féll niður þak á stórum skúr í miðbænum vegna snjóþyngsla. Skúr þessi hafði áður verið flugvélaskýli, en nú voru geymdir í honum þrír bílar. Skemmdust þeir nokkuð, en ekki er enn vitað hvað mikið.

Tíminn er rekur ófærðarfréttir 11.mars:

Mikið fannfergi er nú orðið víða norðan lands, og hafa eins mikil fannalög ekki “verið síðustu ár. Bætist nú að kalla daglega við snjóinn, en veður eru oftast stillt, svo að snjórinn er mjög laus og torveldar það samgöngur enn meir en ella, einkum á austanverðu landinu.

Nær allir fjallvegir á norðanverðu og austanverðu landinu eru nú ófærir með öllu og hefir svo verið síðustu vikur. Einnig eru allir vegir tepptir innan héraðanna á Austurlandi og Norðurlandi austan. Öxnadalsheiðar, nema í Eyjafirði, þar sem Eyjafjarðarbraut hefir verið rudd með snjóýtum síðustu daga og byrjað er að ryðja veginn út Árskógsströndina. Eru tvær snjóýtur á Akureyri. Í Þingeyjarsýslum eru allar leiðir tepptar og í Vopnafirði og austur á Héraði er allt í kafi í snjó. Snjóýtur eru á Reyðarfirði, en hafa ekki verið notaðar, þar eð það er talið tilgangslaust. Snjór er á þeim slóðum mjög laus, og ef eitthvað kular, lokast vegurinn jafnóðum fyrir aftan ýturnar. Til Skagafjarðar hefir verið fært til skamms tíma, en nú mun Vatnsskarð illfært eða ófært. Innan héraðs í Skagafirði hefir vegum verið haldið opnum eftir föngum með snjóýtu, sem þar er. Holtavörðuheiði er aftur á móti allvel fær, og ganga áætlunarbílarnir til Blönduóss. Er ein snjóýta á Blönduósi, sem starfar eftir þörfum. Annars er fremur snjólétt í Húnavatnssýslum víðast. Brattabrekka hefir nýlega verið farin, en færð er erfið. Var leiðin opnuð með snjóýtum í síðustu viku, og fór póstbíllinn þá til Búðardals. Svínadalurinn er aftur á móti ófær og allar leiðir þar fyrir vestan og norðan. Allt Suðurland er mjög snjólétt, og eru þar allar leiðir færar sem á sumardegi. Hellisheiði hefir aldrei orðið ófær bifreiðum í vetur, hvað sem verða kann. Í Ausur-Skaftafellssýslu og syðstu hreppum Suður-Múlasýslu er einnig snjólétt.

Morgunblaðið segir 14.mars frá hinu fyrsta af fleiri hörmulegum flugslysum ársins. Veður kom hér lítt eða ekki við sögu:

Í gærdag [13. mars] hrapaði í sjóinn vestur við Búðardal Grumman flugbátur er var að leggja af stað. Í honum voru átta manns. Af sjö farþegum fórust fjórir.- Tvær konur, önnur héðan úr Reykjavík, en hin frá Búðardal, og tveir karlmenn. Annar frá Ísafirði en hinn frá Búðardal. Af þeim fjórum sem bjargað var slapp aðeins einn ómeiddur. Er slysið vildi til, var veður hið besta og ládauður sjór.

Morgunblaðið lofar góðar gæftir 16.mars:

Undanfarið hefir afli báta í verstöðvum hér við Faxaflóa verið sæmilegur. Í Vestmannaeyjum og í Keflavík hefir afli verið góður, en í öllum verstöðvum hafa gæftir vérið óvenjulega góðar. Bátar hafa róið nær því dag hvern síðan í byrjun febrúar og er það alveg einsdæmi. Á Akranesi hafa aldrei verið farnar jafn margir róðrar í röð.

Þó mikið bjartviðri væri mestallan marsmánuð um landið suðvestanvert var á því ein undantekning - nokkuð hefðbundin. Háloftalægðardrag úr norðri og vestri tengdist lægð sem nálgaðist úr suðri. Mikla hríð gerði um mestallt land. 

Slide10

Hér er mikil lægð vestur af Bretlandseyjum. Hún hreyfðist norður. Á sama tíma kom lægðardrag úr norðri suður með Grænlandi austanverðu. Bætti þá í úrkomu - og það snjóaði líka á Suðurlandi í norðaustanátt, eins og gjarnan gerir undir svipuðum kringumstæðum..  

Vísir segir frá snjókomu í Reykjavík og nágrenni 21.mars:

Óvenju mikil snjókoma var hér i Reykjavík og nágrenni í gærkvöldi [20.] og nótt Hér í Reykjavík var snjódýptin mæld 17 cm. Er þetta mesti, snjór, sem komið hefir hér í Reykjavík í vetur og hefir sjaldan snjóað eins mikið á einni nóttu hér.

Tíminn segir frá hríðinni í pistli 22.mars:

Í fyrradag snjóaði mikið á Suðurlandi, einkum í Árnes-, Gullbringu- og Kjósarsýslu og sunnanverðri Borgarfjarðarsýslu. Hlóð snjónum niður í fyrrinótt, svo að illfært varð jafnvel um næsta nágrenni Reykjavíkur, og í gær hélt einnig áfram að snjóa og skefla.

Í gærmorgun mátti heita að ófært væri um nágrenni Reykjavíkur og með öllu ófært austur yfir fjall, bæði um Hellisheiði og Mosfellsheiði, og meira að segja Krýsuvíkurvegurinn, sem margir hafa haft tröllatrú á, var orðinn ófær í gærmorgun, þó ekki hefði snjóað nema eina nótt, sagði skrifstofustjórinn. Þung færð suður með sjó og uppi í Kjós. Í Borgarfirði snjóaði hins vegar sama og ekkert í fyrradag eða fyrrinótt, og mátti heita þar ágæt færð. En í gær var byrjað að snjóa þar. Vitað var um bíla, sem voru á leiðinni suður fyrir Hvalfjörð í gær og varð snjóýta að fylgja þeim, svo að þeir kæmust áfram. Í gærmorgun komust mjólkurbílar hjálparlaust ofan úr Kjós, en voru nokkrum klukkustundum lengur á leiðinni en venjulega. Mjólkurbílar úr Mosfellssveit töfðust einnig á leið sinni til Reykjavikur. Þung færð var fyrst í gærmorgun suður með sjó, en batnaði þar líða tók á daginn, enda mikil umferð á þeim vegi. Hafnfirðingar gátu ekki haft samband við bújörð sína í Krýsuvík, og báðu vegamálastjórnina að senda ýtu til að ryðja veginn, en engin ýta var laus til þess þá í svipinn. Í gær var engin tilraun gerð til þess að ryðja veginn austur yfir Mosfellsheiði, þó að líklegt sé, að hann verði ruddur og frekar reynt að halda honum opnum en  Hellisheiðarveginum, ef um langvarandi snjóalög verður að ræða. Er reynslan sú, að sú leið er yfirleitt heldur snjóléttari. Í fyrrakvöld fóru þrír bílar úr Reykjavík og ætluðu austur yfir fjall. Urðu þeir allir fastir á Hellisheiði fyrir austan skíðaskálann í Hveradölum, og biðu bílstjórarnir í þeim fram undir morgun, er birta tók, þá héldu þeir af stað niður í skíðaskálann og komust þangað um kl.9 í gærmorgun. Skömmu eftir hádegi lögðu svo tvær snjóýtur af stað frá skíðaskálanum austur yfir og áttu þær að ryðja braut bílunum, sem fastir voru. Mjög þung færð var um alla Árnessýslu strax í gærmorgun, en auk þess hélt snjór áfram að hlaðast niður í allan gærdag. Sama og engin mjólk barst til Flóabúsins í gær, sökum ófærðar á vegunum austur þar. Engir mjólkurbílar lögðu af stað austan frá Selfossi fyrr en um kl. 5 í gærdag. Voru tvær snjóýtur, sem áttu að ryðja bílunum braut suður, tilbúnar á hádegi. Byrjaði ófærðin strax við Ölfusá. Ekki var vitað í gærkvöldi, hvernig ferðalag þetta hefði gengið en búist var við, að ýtunum tækist að brjóta bílunum leið yfir heiðina einhvern tíma í nótt. Ekki var teljandi mjólkurskortur í gær í Reykjavík, og fór aðeins litlu minni mjólk í búðirnar frá samsölunni en venjulega. í dag getur ef til vill orðið einhver mjólkurskortur framan af deginum, en líkur eru þó til, að úr því rætist, er líður á daginn. Gerðar voru ráðstafanir til þess í gær að fá mjólk frá Borgarnesi, bæði með bílum og skipi.

Slide12

Þann 23. var lægðin að sunnan komin að Norðausturlandi. Mikla hríð gerði nú um allt Norðurland og Vestfirði. Lægðin fór síðan til suðvesturs yfir landið.

Slide13

Kortið sýnir veðrið undir miðnætti að kvöldi sunnudagsins 23. Þá var lægðarmiðjan yfir Norðausturlandi (en þar var reyndar símasambandslaust). Hún fór síðan til suðvesturs yfir landið og loks suður af því. Þetta er afskaplega kunnugleg snjóflóðastaða - minnir að ýmsu leyti á veðrið sem olli snjóflóðunum á Seljalandsdal um páskana 1994. Mikið snjóaði bæði á Siglufirði og á Vestfjörðum. Vandræði urðu einnig í Hafnarfirði - eins og sjá má var vindátt óvenjuleg - norðvestanátt er ekki algeng á Faxaflóa. Vísir segir 24.mars frá atburðum á Siglufirði og í Hafnarfirði:

Þau tíðindi gerðust á Siglufirði í nótt [aðfaranótt 24.], að þakið á hinni nýju mjölgeymslu Síldarverksmiðja ríkisins — stærsta geymsluhúsi landsins — hrundi af snjóþyngslum. Vísir átti í morgun tal við Siglufjörð og fékk þá þær upplýsingar um þetta, að þakið á syðri helming norðurhluta hússins hefði hrunið og fallið niður á gólf, sperrur og járnplötur. Blotaði í gærkveldi og varð snjófargið svo mikið á þaki hússins, að það þoldi það ekki og féll niður stafna á milli. Vesturstafn þess skekktist einnig. Segja menn á Siglufirði, að húsið líti út eins og eftir loftárás, en áætlaður kostnaður við að gera við það mun vera á aðra milljón. Gólfflötur geymslunnar er 6600 fermetrar og á hún að taka um 15.000 smálestir mjöls, en í húsinu voru geymdar um 700 smálestir undir segli og í öðrum hluta hússins en þeim, sem fór. Er nú unnið að því að bjarga mjöli þessu úr húsinu. Svo sem kunnugt er, hefir mikill styr staðið um byggingu hússins milli byggingarnefndar síldarverksmiðjanna og stjórnar þeirra. Hefir stjóri verksmiðjanna deilt á nefndina fyrir byggingarlag hússins og fyrirkomulag.

Í morgun slitnuðu tvö skip upp í Hafnarfirði. Annað þeirra rak á land, en hinu var hægt að bjarga og koma því að bryggju aftur. Skipið, sem rak á land heitir Ásbjörg og er 26 rúmlestir að stærð, eign Bátafélags Hafnarfjarðar. Var hringt á lögreglustöðina um
kl. 6 í morgun og tilkynnt um þetta. Var báturinn þá rekinn á land og liggur hann nú í fjörunni fyrir neðan Hamarinn og er mikið skemmdur. Hitt skipið, sem slitnaði upp, er Skinfaxi, en þar sem það lá við bryggju og menn um borð í því, tókst að koma því að bryggjunni aftur. Engar skemmdir urðu á því.

Nær allir vegir frá Reykjavík urðu ófærir í gær vegna fannkomu og skafrennings. Ennfremur er leiðin norður yfir Holtavörðuheiði orðin ófær. Reynt verður að opna Hellisheiðina í dag og Ölfusið, en þar var hríðarveður í allan gærdag og snjóþyngsli mikil. Nú er orðið frostlaust beggja megin heiðarinnar og því líkur til að auðvelt verði að athafna sig þar eð hætt er að skafa. Bjóst Vegamálaskrifstofan við því að ef veður batnaði myndi e. t. v. takast að opna leiðina austur yfir fjall í kvöld, en kl. 1 áttu snjóýturnar að leggja á fjallið frá Lögbergi. Í gær urðu á tímabili allir vegir frá Reykjavik ófærir nema leiðin til Hafnarfjarðar. Meira að segja leiðin út á Álftanes og til Vífilsstaða urðu ófærar, í gærkveldi var þó búið að koma leiðinni suður með sjó í sæmilegt horf. Í dag er verið að ryðja leiðina upp á Kjalarnes og í Kjósina, en upp í Borgarfjörð er ófært sem stendur. Í Borgarfirði, einkum uppsveitum, fennti mikið í gær og ofarlega í Norðurárdal er norðurleiðin ófær, einnig á Holtavörðuheiði. En ýta sem er í Hrútafirðinum á að reyna að opna leiðina í dag.

Það mun láta nærri, að 4—5 hundruð manns hafi orðið veðurteppt að Kolviðarhóli í gær. Og í skíðamótinu var ekki hægt að keppa vegna óveðurs nema í b-flokki karla í svigi.

Vestfirðir sluppu ekki, Morgunblaðið segir 25.mars frá miklum snjóflóðum á Ísafirði:

Ísafirði, mánudag [24.]. Frá Fréttaritara vorum. Að minnsta kosti þrjú snjóflóð féllu úr Eyrarfjalli, um fjóra kílómetra innan við Ísafjörð, og tók hið síðasta með sér íbúðarhúsið Karlsá og barst það með flóðinu niður í sjávarmál. Ein kona var í húsinu og meiddist hún lítilsháttar. Fyrsta snjóflóðið mun hafa orðið snemma í morgun eða seinnipart nætur. Það tók með sér sumarbústað Bárðar Jónssonar og færði hann af grunni og velti honum á hliðina. Síðasta flóðið varð klukkan 3 í dag. Skall snjóflóðið á Karlsá, sem er eign Eggerts Halldórssonar. Húsmóðirin frú Þorbjörg Jónsdóttir var þar ein heima er flóðið skall á húsinu. Flóðið flutti húsið niður að sjávarmáli. Þar stöðvaðist það. Frú Þorbjörg barst alla þessa leið með húsinu, og hafði hún meiðst lítilsháttar er henni var bjargað út úr því. Tveir synir þeirra hjóna voru nýfarnir er flóðið skall á húsið. Í einu snjóflóðinu tók í burtu fjóra sumarbústaði og eitt útihús við húsið að Seljalandi. Fólk sem býr í næstu húsum hefir yfirgefið heimili sín vegna yfirvofandi hættu á snjóflóðum. Mikil snjóflóð féllu úr Eyrarhlíð í gær.

Í sama blaði er einnig mjög löng frásögn af hrakningum skíðamanna og fleiri í nágrenni Reykjavíkur. Skemmtileg og fróðleg lesning, en við sleppum henni hér - nema rétt byrjuninni og síðan segir nánar af þakhruninu á Siglufirði:

Sennilegt er að aldrei hafi jafnmargir íslendingar lent í hrakningum á einum sólarhring, og á sunnudag og aðfaranótt mánudags. 

Hluti af þekju mjölgeymsluhúss SR-46 á Siglufirði, féll niður undan snjóþunga í fyrrinótt. Manntjón varð ekki. Tjónið hefir lauslega verið metið á hálfa aðra milljón króna. Vafasamt er talið, að efni til endurbyggingar þekjunnar verði komið nægjanlega snemma til landsins, til þess að hægt sé að koma húsinu í nothæft ástand fyrir næstu síldarvertíð. Grunnflötur mjölhússins alls er 6.600 fermetrar, en þar sem þekjan féll niður er hann 3.300 ferm. Það var nyrðri helmingur þess sem féll. Tvö ris eru á húsinu og er kvos í milli. Hvort ris er borið uppi af 24 sperrum 30 metra löngum. Húsið er járngrindarhús, klætt bárujárni. Strax eftir fyrstu snjóa í vetur, bar á því, að langbönd svignuðu undan snjóþunganum á syðri þekju nyrðra risins. Í fyrrakvöld var snjódýptin 3 fet. Á sunnudag blotnaði og var þekjan athuguð um miðnætti og sást á henni engin breyting frá því sem verið hafði. Um klukkan 2 mun þekjan hafa fallið inn. Mjölhús þetta átti að rúma alls milli 15 og 18 þús. tonn af mjöli en nú voru í því aðeins um 700 tonn, sem unnin voru úr Kollafjarðarsíld. Mjöl þetta varð ekki undir þekjunni. Það var geymt í syðri helmingi þess og var það varið með seglum í gærkvöldi og í nótt var verið að vinna að því að forða því frá skemmdum og var það sett í geymslu Dr. Páls verksmiðju. Undir þekjunni urðu hinsvegar 3 bílar. Tveir þeirra eru fólksbílar og gjöreyðilagðist annar þeirra, en hann átti Leó Guðlaugsson. Svo sem alkunnugt er hefur að undanförnu staðið yfir deila milli verksmiðjustjórnar og byggingarnefndar þeirrar er skipuð var af Áka Jakobssyni fyrrverandi atvinnumálaráðherra, um ýmislegt í sambandi við byggingu verksmiðjunnar SR-46, þ.á.m. gerð þessa mjölhúss, sem verksmiðjustjórn telur vera alltof veiklega byggt og að það yrði að umbyggja það.

Vísir greinar 25.mars frá snjóflóðunum á Ísafirði:

Í gær féllu þrjú snjóflóð úr Eyrarfjalli, við Ísafjörð, og sópuðu burt a.m.k. fimm sumarbústöðum, einu íbúðarhúsi, heyhlöðu og auk þess ýmsum smærri húsum. Síðastliðna daga hefir norðan átt með mikilli snjókomu verið á Ísafirði. Og í gærmorgun féll snjóflóð úr sunnanverðu Eyrarfjalli og sópaði a.m.k. fjórum sumarbústöðum með sér, auk heyhlöðu og nokkrum smærri húsum. Eigi var búið í þessum húsum. Laust eftir hádegi í gær féll annað snjóflóð úr fjallinu, 2 1/2—3 km fyrir innan Ísafjörð og sópaði það snjóflóð með sér nýbýlinu Karlsá, en það stóð í brekkunni fyrir neðan Seljalandsveginn. — Snjóflóð þetta var um 200 m á breidd og bar það hluta af húsinu með sér á sjó út, en það stóð um 70 m frá sjó. Í húsi þessu bjó Eggert Halldórsson ásamt konu sinni og þrem börnum. Var Eggert ekki heima er þetta skeði og börnin höfðu farið á skíðum til þess að skoða snjóflóðíð, er fallið hafði fyrr um daginn. Þrír gestir höfðu verið í heimsókn og voru nýfarnir er snjóflóðið féll. Húsið liðaðist í sundur á leiðinni, en hluti þess stansaði spölkorn fyrir ofan fjöruna og var konan í þeim hluta hússins. Slasaðist hún nokkuð, en þó ekki hættulega. Sást rétt á húsið upp úr snjónum. Er atburður þessi spurðist, brugðu Ísfirðingar fljótt við og sendu hjálp á vettvang. Var læknir m.a. í hjálparleiðangrinum. Þriðja snjóflóðið féll síðdegis í gær og sópaði það enn einum sumarbústað með sér. Enn er álitin hætta á, að snjóflóð hlaupi og hefir lögreglan fyrirskipað fólki að flytja úr þeim húsum, sem á hættusvæðinu eru.

Morgunblaðið segir 26.mars frá snjóflóðum í Hnífsdal: 

Ísafirði, þriðjudag. Um kl.11 í gærkveldi [24.mars] féllu þrjú snjóflóð í Hnífsdal. Snjóflóð þessi komu úr giljum í fjallinu fyrir ofan þorpið, Búðargili, Hraungili og Staðargili og tók það fjárhús nálægt bænum Heimabæ, sem í voru um 80 fjár, og drápust fimm kindur. Einnig fyllti flóðið fyrir fjósið, sem er alveg við Heimabæ, en kýrnar voru strax grafnar upp og sakaði ekki. Þá tók flóðið yfir minkabú Halldórs Halldórssonar og er ennþá verið að grafa búið upp úr fönninni. Eru dýrin lifandi í þeim búum, sem búið er að grafa upp. Flóðið tók og geymsluhús, sem minkabúið átti og mun það hafa eyðilagst. Veður er nú orðið gott og er jarðýta vegagerðarinnar að ryðja veginn inn fyrir Ísafjörð, til þess að mjólk komist til bæjarins. Eins og skýrt var frá í blaðinu í gær tóku snjóflóðin rétt við Ísafjörð fjóra sumarbústaði, og þá skemmdu þau einnig íbúðarhúsið á Seljalandi og tók þar útihús. Íbúðarhúsið Karlsá er alveg ónýtt og hefur eigandi þess, Eggert Halldórsson, orðið, fyrir tilfinnanlegu tjóni. Missti hann m.a. allt sitt innbú. Kona hans, Þorbjörg, er var ein heima, þegar snjóflóðið tók húsið, varð fyrir snjóflóðinu mikla í Hnífsdal 1910, þegar 18 manns fórust, þá barn að aldri. — MBJ.

Vísir segir 27.mars frá febrúaruppgjöri Veðurstofunnar:

Veðurfar hér sunnanlands var með eindæmum gott í febrúarmánuði síðastliðnum og hefir slík einmunatíð ekki verið hér á landi frá því að veðurathuganir hófust. Vísir sneri sér i gær til frú Teresíu Guðmundsson, veðurstofustjóra og fékk þessar upplýsingar. Þá skýrði veðurstofustjóri frá því, að mælt hefði verið sólskin hér í 160 klukkustundir i mánuðinum og hefir jafnmikið sólskin aldrei fyrr verið hér á landi í febrúarmánuði. Flestar sólskinsklukkustundir í mánuðinum voru áður mældar 130. Var það árið 1936. — Geta má þess til samanburðar, að meðaltal sólskinsstunda í febrúar síðustu ár hér sunnanlands er 52.3 klukkustundir. Sýnir þessi tala best, hvílík einmunatíð var hér í mánuðinum. Loks skýrði frú Teresía Vísi frá því, að mjög mikill munur hefði verið á veðurfari hér sunnanlands og norðanlands og austan. Á Austfjörðum var veður t.d. mjög slæmt í febrúar og hefði jafnvel verið talað um hörkur á Seyðisfirði. Einnig var veður kalt norðanlands. En hér syðra var veður bjart og stillt í febrúar og oftast nær hæg norðausan átt.

Tíminn segir af snjóþyngslum víða um land 28.mars:

Víða um land er nú óvenjulega mikill snjór. Um Austurland og Norðurland austanvert mun ekki hafa verið slíkur snjór síðan 1936. En þar hefir nú verið góðviðri í nokkra daga, þíðviðri og sólbráð. Það er aðeins um Vestfirði norðanverða, sem hríðarveður og fannkomur haldast enn að staðaldri. Blaðið hafði í gær tal af fréttaritara sínum á Flateyri. Hann sagði að þar væri nú svo mikill snjór, að dæmalaust væri síðan 1920. Eimskipið Horsa hefir verið á Vestfjarðahöfnum undanfarna daga, að taka freðfisk, sem á að fara til Frakklands, sitt lítið úr hverju frystihúsi, því að alls staðar er fullt. Hefir víða þurft miklum snjó að moka til að koma bílum milli frystihúss og skips, og það jafnvel tveggja mannhæða há göng gegnum skaflana.

Stórgos hófst í Heklu snemma morguns 29. mars. Hafði meginfjallið þá ekki bært á sér (svo vitað sér) í rétt rúm 100 ár. Veðráttan segir um upphaf Heklugossins:

Þ.29. kl.06:40 byrjaði Hekla að gjósa eftir rösklega 100 ára hvíld. Gosmökkurinn varð hæstur 27 þús. metrar og var það á fyrstu klukkustund gossins. Loftalda, sem myndaðist í upphafi þess hafði áhrif á loftvogir í Rvk., Keflavík og Vm. Vikur- og öskufall var mest í Fljótshlíð og undir Eyjafjöllum og mældust öskuskaflar í byggð allt að 2 m. (Útlit var fyrir, að eitthvað af býlum í Fljótshlíð legðist í eyði, en búpeningur varð allur að vera á gjöf og leit helst út fyrir, að skera þyrfti niður fé þar sem ekki mátti flytja það til vegna sauðfjársjúkdóma. Öskufalls varð vart suður í hafi og víðar.

Gosið stóð í rúmt ár, en varð þó máttlítið eftir nokkurra vikna mikla virkni. Hungurdiskar hafa áður fjallað um veður við upphaf gossins og verður það ekki endurtekið hér. Veðurathugunarmenn um mikinn hluta landsins segja af brestum og drunum frá gosinu í margar vikur. Veðráttan segir frá loftöldu sem sást á loftvogum. Myndin hér að neðan sýnir klippu úr þrýstisírita úr Reykjavík. Góðan vilja þarf til að sjá meinta þrýstibylgju, en hún er líklega þarna - við stækkum hana út og reynum að rýna í. Þetta er á réttum tíma.

Slide14

Veðurathugunarmenn segja frá apríltíðinni, en hún var nokkuð erfið. Krappar lægðir gengu yfir dagana 9. til 13. Í þeirri syrpu varð veðrið þann 12. verst. En annað enn verra veður gerði svo 20. til 21. Tjón varð þá allmikið:

Síðumúli: Í aprílmánuði var veðrátta fremur köld, en þurrviðrasöm. Fram yfir miðjan mánuð var feikna mikill snjór og haglítið, en nú er hann að mestu farinn, nema stórfannir í lægðum og giljum. Nú virðist vorið vera komið, þó ekki hlýtt, en frostlaust í nótt, rigning og hláka í dag.

Skriðuland í Kolbeinsdal (Kolbeinn Kristinsson): Mest ráðandi norðan- og norðaustlæg átt nema frá 9. til 15. Þá var fyrst suðaustan, síðan vestlæg átt með éljum. Ofsaveður þ.12 af suðvestri og þann 21. ofsaveður af norðaustri. Skemmdir á húsum spyrjast víða að, einkum á timburhlöðum, heyfok einnig. Jarðlaust að kalla allan mánuðinn. Innistaða. Mestir gosdynkir heyrðust dagana 27. og 28.  

Tíminn segir af tíð og harðindum 3.apríl:

Miklir snjóar og harðindi hafa verið um allt Norðausturland frá því um nýár að heita má, og haldast enn. Tíðindamaður blaðsins átti í gær tal við Karl Kristjánsson í Húsavík. Í gær var hríðarveður á Húsavík og má heita að snjóað hafi þar alltaf öðru hvoru frá því um nýár og muna menn ekki jafn snjóþungan vetur í 15—20 ár. Bændur koma með mjólk sína á sleðum til kaupstaðarins. Allir vegir hafa um langan tíma verið ófærir bifreiðum. Ekki hefir verið gerð tilraun til að ryðja vegina með snjóýtum, þar sem það myndi lítið stoða, vegna hinnar tíðu snjókomu. Snjóýtur hafa stöku sinnum verið notaðar til að komast á milli og gengið full erfiðlega.

Þjóðviljinn segir 1.apríl (takið vel eftir dagsetningunni) frá furðulegum atburði: 

Það virðist enginn vafi leika á því, að á Tindum i í Geiradal í Austur-Barðastrandasýslu hafi fallið 1150 gr þungur vikursteinn frá Heklu. Bóndinn á Tindum hefur sagt frá því, að þessi steinn hafi fallið þar úr lofti 30. þ.m. [mars] Litur steinsins er dumbrauður. Frá Heklu að Tindum mun vera um 222 km. loftlína.

Vísir segir 14.apríl frá tjóni í illviðrinu þann 12. [laugardag]. 

Allmiklar bilanir urðu á símalínum hér á Suðurlandi í óveðrinu er geisað hefir um helgina. Alvarlegasta bilunin mun vera á stöðinni að Húsatóftum. Sló eldingu niður í línuna á Skeiðum með þeim afleiðingum, að símstöðin að Húsatóftum bilaði eða eyðilagðist. Ennfremur orsakaði þessi elding bilun á símatækjum á nokkrum bæjum fyrir ofan Húsatóftir. Þá slitnaði línan á milli Gufuness og Brúarlands, ennfremur símalínan á Mýrdalssandi og loks á milli Volasels og Byggðarholts.

Vísir segir af veðurfræðingaskorti 15.apríl [um þessar mundir var bandarísk flugveðurstofa á Keflavíkurflugvelli - ótengd rekstri Veðurstofunnar]:

„Okkur er brýn nauðsyn á fleiri veðurfræðingum, en eins og sakir standa, verðum við að sætta okkur við, að veðurfræðingar geti ekki unnið öll þau störf, sem æskilegt væri, að þeir hefðu með höndum," sagði frú Teresía Guðmundsson, veðurstofustjóri, í viðtali við fréttamenn blaða og útvarps í gær. Veðurstofustjóri átti tal við fréttamennina í tilefni af  því, að ár er liðið síðan Veðurstofa Íslands tók við veðurathugunum fyrir flugvélar, sem fljúga hér um, einkum þær vélar, sem nota Reykjavíkurflugvöllinn. Á þessu ári hefir veðurstofan haft margþætt starf með höndum og meira en yfirleitt tíðkast á einni veðurstofu annars staðar. Á stórum flugvöllum eru alltaf veðurstofur, sem eingöngu annast leiðbeiningar fyrir flugið, en veðurstofan í Reykjavík þarf að sinna þessu starfi, auk almennu veðurspánna. Starfsmenn Veðurstofunnar eru nú um 30 talsins, þar af 4 veðurfræðingar, 10 loftskeytamenn og svo aðstoðarfólk. Flugveðurþjónustu er nauðsynlegt að halda uppi dag og nótt alla daga ársins, og hefir því þurft að auka starfslið stofunnar að miklum mun. 300 flugvélum hefir Veðurstofan í Reykjavík veitt leiðbeiningar undanfarið ár,sem er þó lítið brot af þeim flugvélafjölda,sem farið hefir hér um, því að flestar vélanna hafa notað  Keflavíkurflugvöllinn og hafa fengið veðurspár hjá veðurstofunni þar. Einnig þarf starfsfólk veðurstofunnar að hafa eftirlit með alls konar vísindatækjum, svo sem jarðskjálftamælum o.fl. Starf veðurstofunnar er flókið og umfangsmikið, og er ekki einungis mál, sem kemur íslendingum við, heldur hefir það mikla þýðingu fyrir samgöngur allra þjóða, sem lifa við norðanvert Atlantshaf.

Síðastliðinn marsmánuður var einn sá sólríkasti og úrkomuminnsti er sögur fara af síðan mælingar hófust. Aftur á móti var kuldinn í mánuðinum alimikið fyrir neðan meðallag, samkvæmt upplýsingum, sem Vísir hefir fengið hjá Veðurstofunni í Rvík.

Þann 20. og 21. gerði mikið norðaustanillviðri. Loftþrýstingur á landinu fór þá neðar en áður hafði verið vitað um í aprílmánuði (954,3 hPa á Stórhöfða) og hefur þrýstingur í apríl aðeins tvisvar orðið lægri síðan (1990 og 1994). Það skemmtilega er að 9 dögum síðar fór þrýstingur líka ofar en vitað hafði verið til áður á landinu í apríl (1046,8 hPa í Reykjavík). Þrýstingur hefur síðan aðeins tvisvar mælst meiri heldur en þetta í apríl (1986 og 1991). 

Morgunblaðið segir 22.apríl frá illviðrinu daginn áður:

Um klukkan tvö í gærdag var fárviðri hér í Reykjavík, 12 vindstig. Mun veðurhæð ekki hafa orðið jafnmikil annarstaðar á landinu. Hér í Reykjavík munu engar skemmdir hafa orðið svo teljandi sé. Og ekki hafði blaðið frétt um skemmdir úti á landi. Slysavarnafélagið var ekki beðið aðstoðar vegna báta. Sjóinn skóf hér úti fyrir og gætti þess hér um allan bæ að meira eða minna leyti. Seinnipart dags í gær var alófært gangandi mönnum um Skúlagötu sakir sjógangs. Var hann svo mikill að stundum gekk yfir vörugeymslu Áfengisverslunarinnar. Var af þessum sökum mikið flóð á Skúlagötunni og þar allskonar rusl, er barst á land í sjóganginum. Landssími Íslands skýrði blaðinu svo frá, að engan teljandi skemmdir hefðu orðið á símalínum, en talsverðar truflanir urðu á símakerfi landsins sakir samsláttar á línum. Veðurstofan spáir, að veðurhæðin muni fara minnkandi í dag, en veðurfræðingar gera ráð fyrir að veðurhæðin muni þó verða um 6 vindstig. Um vestanverða Vestfirði og víða Norðanlands var stórhríð í gær með 7 til 9 vindstigum.

Morgunblaðið segir enn af tjóni 23.apríl:

Ísafirði, þriðjudag. Frá fréttaritara vorum. Á sunnudag [20.]gerði hér vonskuveður með feikna fannkomu og hefir veður þetta haldist fram á hádegi í dag [22.], en þá rofaði heldur til. Snjórinn í bænum er sá mesti, sem hér hefir komið í mörg ár. Á mánudag skömmu fyrir hádegi hvolfdi vélbátnum „Heklu“ í bátahöfninni, og var hafnsögubáturinn bundinn utan á „Heklu“ og sökk hann með. Um borð í „Heklu“ hafði verið settur upp „rammbúkki“, sem nota á við að ramma niður þilið á hinn nýja hafnarbakka, sem byggja á í Neðstakaupstað, og átti sú vinna að hefjast strax og veður leyfði. „Rammbúkki“ þessi er um 50 fet að hæð og stóð veðrið mjög á hann, og hvolfdi bátnum eins og fyrr segir og sökk með hafnsögubátnum, sem bundinn var við hann. Strax og veður leyfir verður hafist handa með að ná bátunum upp. Er ekkert hægt um það að segja nú, hvort bátarnir hafa brotnað mikið. Eigandi „Heklu“, Sveinn Sveinsson, var nýfarinn upp úr bátnum, þegar honum hvolfdi. — MBJ.

Patreksfirði, þriðjudag. Undanfarna daga hefir geisað hér norðaustan stórviðri, en þó lítil sem engin snjókoma. Í gærdag varð það tjón á bænum Fossi á Barðaströnd að þar fauk hlaða og fjárhús og drápust 9 ær, en um 20 hestar af heyi fuku. Eigandi þess var Friðgeir Guðmundsson, bóndi.

Tíminn segir einnig af tjóni 23.apríl:

Mikið norðaustanrok hefir verið hér í Reykjavík undanfarna daga, svo sem víða annars staðar, og hefir verið óvenjulegt brim við Reykjavíkurhöfn. Í fyrradag voru hafnargarðarnir oftast í kafi í hvítlöðrandi særoki, og stundum hafnarvitarnir ekki einu sinni upp úr. Gekk sjórinn langt upp á götur, og meðfram sjónum, eftir Skúlagötunni, var ófært fyrir sjóroki. Esja kom til Reykjavíkur í rokinu í fyrradag, og reyndist ókleift að koma skipinu inn í höfnina í fyrradag og fyrrinótt. Afréð skipstjórinn þá að varpa akkerum á ytri höfninni, og þar lá Esjan þar til í gærmorgun, að tiltök voru að komast inn. Súðin hafði átt að fara frá Reykjavík í fyrrakvöld. En það var sama sagan með hana — hún komst ekki út fyrr en í gærmorgun, að veðrið og brimið tók að lægja.

Morgunblaðið greinir enn af tjóni í pistli 24.apríl:

Miklar skemmdir og bilanir hafa orðið á símakerfi landsins í ofviðri því, sem geisað hefur að undanförnu. Er nú símasambandslaust við Vestfirði og truflanir vegna samsláttar á línum til Vestmannaeyja. Mestar skemmdir á símalínunni hafa orðið norður á Skagaströnd. Í veðrinu er geisaði þar á sunnudagsnóttu og mánudag brotnaði fjöldi staura. Hafa sjónarvottar skýrt blaðinu svo frá, að þeir hafi kubbast í sundur eins og eldspýtur. Norður í Ljósavatnsskarði slitnuðu símalínur niður og er sambandslaust við flestar stöðvar fyrir austan Akureyri. Símasambandslaust var við Siglufjörð í gær. Verkfræðingadeild Landssímans skýrði svo frá í gær, að veðurs vegna hefði lítið verið hægt að aðhafst á Vestfjörðum, en viðgerðarmenn myndu fara strax og veður tæki að lagast. Í Ljósavatnsskarði eru vinnuflokkar að gera við línurnar. Er vonast til þess að viðgerð á símalínunum, sem slitnað hafa verði lokið innan fárra daga.

Vísir segir einnig af tjóni í veðrinu mikla í pistli 25.apríl:

Óskaplegt tjón varð á raf og símalínum á Skagaströnd í óveðrinu, sem geisaði um nær allt land í byrjun vikunnar. Guðbrandur Ísberg sýslumaður, sem dvalið hefir á Skagaströnd undanfarið, en er nú kominn til Blönduóss, skýrði blaðinu svo frá, að flestir símastaurar, sem eru á Skagaströnd, hafi brotnað í óveðrinu í byrjun vikunnar og liggi þeir eins og hráviði á götum kauptúnsins. Auk símastauranna brotnuðu margir staurar er héldu uppi rafmagnslögn kauptúnsins. Er engu líkara en búið sé að koma upp hergirðingum á götum kauptúnsins, svo mikil er víraflækjan að sögn sýslumanns. Hefir sambandslaust verið við Skagaströnd frá því s.l. sunnudag, en það var aðfaranótt mánudagsins er óveðrið geisaði, er olli þessu óskaplega tjóni. Símamenn telja, að langan tíma taki að gera við símalínuna, a.m.k. eina viku ennþá. Allmargir bátar lágu í höfn kauptúnsins og áttu skipstjórar þeirra fullt i fangi með að verja þá fyrir skemmdum. Gátu þeir ekki sofið í nokkrar nætur vegna þess, að þeir urðu sífellt að vera á verði í bátunum. Á Skagaströnd telja menn, er dvalið hafa þar langdvölum, að annað eins veður hafi ekki komið þar i 30 ár. Veðurhæðin mun hafa verið, er verst lét, um 12 stig, það þýðir að vindur hafi farið með um 110 km hraða á klukkustund.

Og enn fréttist af tjóni í sama veðri. Morgunblaðið 26.apríl:

Siglufirði, föstudag [25.]. S.l. sunnudag [20.apríl] slitnaði rafleiðsla frá Skeiðfossstöðinni til Siglufjarðar og hefur komið í ljós, að 9 staurasamstæður hafa brotnað. Kemur því ekkert rafmagn til bæjarins frá Skeiðsfossi, og er ekki búist við því, að úr því rætist fyrr en síðari hluta maímánaðar. Bærinn hefur að undanförnu fengið rafmagn frá ríkisverksmiðjunum, en það hefur verið af skornum skammti, af því að ekki hefur verið hægt að hafa mótora verksmiðjunnar í gangi nema öðru hvoru sökum skorts á kælivatni. — Lindir þær og lækir sem vatnsveita bæjarins fær vatn sitt úr, eru nú að mestu þornaðar, og hefur verið hér skortur á neysluvatni í þrjá mánuði. Talsambandslaust hefur verið síðan s.l. sunnudag. Snjóþyngsli eru hér mikil nú og hefur snjó einkum kyngt niður síðastliðna viku.

Mjölnir á Siglufirði segir af vatnsskorti þar í bæ í pistli 26.apríl:

Að undanförnu hefur verið skortur á neysluvatni í bænum, svo sem bæjarbúar hafa áþreifanlega reynt. Hefur ýmsum getum verið að því leitt, hverju um sé að kenna, og mun það allútbreidd skoðun, að um einhverskonar bilun á vatnsveitukerfinu sé að ræða. Samkvæmt upplýsingum, sem blaðið hefur aflað sér um þetta mál, er þó ekki um neitt slíkt að ræða, heldur eingöngu vatnsskort í jörðinni, eða með öðrum orðum skort á vatni á aðrennslissvæðum vatnsveitnanna. Er þess getið til, að hann muni stafa af því, að undanfarin sumur hafa verið þurrviðrasamari en venjulegt er. Er m.a. á það bent, þessari skoðun til stuðnings, að nú um sömu mundir er víða skortur á vatni, a.m.k. hér norðanlands. Hefir sums staðar kveðið svo rammt að vatnsleysinu, að skip hafa ekki getað fengið afgreitt vatn. Þá er og vitað, að kaldavermslalind ein hér í bænum, sem um eitt skeið var notuð fyrir vatnsból, er nú þornuð upp eða af öðrum ástæðum gersamlega horfin. Bæði gamla og nýja vatnsveitan skila nú miklu minna vatni en eðlilegt má teljast, miðað við aðstæður.

Mjölnir segir 30.apríl frá tjóni í illviðrinu um þann 20.:

Í s.l. viku gerði afar vont veður með slyddu og síðar ísingu. Í þessu óveðri urðu mjög miklar skemmdir á háspennulínunni frá Skeiðsfossi. Brotnuðu alls níu staurasamstæður, eða átján staurar á svæðinu milli Lambaness og Brúnastaða. Fær bærinn því ekkert rafmagn frá Skeiðsfossi, en Síldarverksmiðjur ríkisins reyna að fullnægja raforkuþörf bæjarins. Í sama óveðri slitnuðu líka símalínur á löngum köflum og má heita að sambandslaust hafi verið síðan við Siglufjörð, a.m.k. á öllum aðallínum.

Maí var yfirleitt hagstæður. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Maímánuður var mjög góður og mildur og þurrviðrasamur. tún eru græn og farin að spretta. Úthagi er að grænka. Kýr látnar út fyrst í dag (1. Júní). Víðast búið að setja í garða.

Reykjahlíð: Einmuna veðurblíða allan þennan mánuð.

Morgunblaðið segir af þrumuveðri í frétt 8.maí:

Í gærdag [7.maí] um klukkan 6 urðu þrumur og eldingar yfir bænum. Þrisvar sinnum með stuttu millibili kváðu við gífurlegar drunur, en nokkrum augnablikum eftir að þær hættu gerði stórrigningu. Einni eldingunni sló niður í timburhúsið Kringlumýrarblettur 12, við Seljalandsveg. Eldingunni sló niður í heimataug hússins og mun hafa gjöreyðilagt rafleiðslur í húsinu. Svo mikill var kraftur eldingarinnar að slökkvari í suðausturherbergi hússins þeyttist út á gólf. Slökkviliðinu var þegar gert aðvart, en ekki kviknaði í út frá eldingunni. Í húsi þessu býr Sigmundur Gíslason tollvörður.

Mikir jarðskjálftar urðu í Hveragerði og umrót af þeirra völdum. Morgunblaðið 20.maí:

Ekki hafa aðrir eins jarðskjálftar orðið í Hveragerði í fjölda mörg ár, sem aðfaranótt mánudags [19.maí] og í gærmorgun. Fyrst var jarðhræringa vart á laugardag og sunnudag, en um klukkan 10 á sunnudagskvöld fóru þeir vaxandi og um kl 12 á hádegi í gær kom snarpasti kippurinn. Olli hann skemmdum á húsum og öðrum mannvirkjum þar. Í allan gærdag voru því nær látlausar jarðhræringar, en þær virtust þó fara minnkandi eftir því sem á daginn leið. Fleiri tugir hvera hafa myndast í sjálfu þorpinu og varð fólk í tveim húsum að yfirgefa þau í gær. Þá hafa myndast goshverir, sem spýta svartri leðju i 70 til 90 metra hæð. Grýta hefur hinsvegar hætt að gjósa a.m.k. í bili. Ekki er vitað til að slys hafi orðið á mönnum.

Morgunblaðið segir frekar af atburðum í Hveragerði í pistli 21. maí:

Jarðhræringarnar austur í Hveragerði hafa stórlega minnkað síðan í fyrradag. Í allan gærdag voru þó öðru hverju smákippir. Fleiri og fleiri hverir myndast og hefir allt verið flutt úr tveim húsum. Þá hafa margir hverir myndast við eina gróðurhúsastöðina rétt utan við þorpið.

Þann 29. maí varð hörmulegt flugslys í Héðinsfirði. Þoka var á svæðinu. Morgunblaðið segir frá 31.maí:

Douglasflugvélin sem var á leið til Akureyrar rakst á Hestfjall í Héðinsfirði á fimmtudag [29.] og fórust allir þeir, sem í vélinni voru. Catalínaflugbátur, sem fór að leita, fann vélina, eða það sem eftir var af henni í fjallinu um klukkan 8:30 í gærmorgun. Voru síðar sendir leiðangrar frá Ólafsfirði og Siglufirði á staðinn og náðu þeir 24 líkum og voru þau flutt til Akureyrar. Talið er, að það, sem vantar sé undir flugvélarhlutum, en leiðangursmenn hreyfðu þá ekki, þar sem skoðunarmenn eiga eftir að koma á staðinn til að rannsaka.

Morgunblaðið segir af öðru hörmulegu flugslysi 3.júní:

Annað flugslys varð hér á landi s.l. laugardagskvöld [31.maí]. Tveggja manna flugvél, sem í voru tveir menn féll til jarðar og varð það bani þeirra beggja.

Morgunblaðið segir 5.júní enn frá breytingum á hverasvæðunum í Hveragerði:

Allt frá því að jarðskjálftarnir miklu stóðu yfir í Hveragerði á dögunum hafa hverasvæðin smám saman verið að færast út. Af þessum orsökum hafa orðið allverulegar skemmdir á gróðurhúsum, einkum þó í Hverahvammi, en þau hús eru eign Gunnars Björnssonar Álfafelli. Íbúðarhúsin í Hverahvammi og Hverhamri eru nú að heita má orðin óhæf vegna hita. Fólkið þar er þó ekki enn flutt burt, enda er því talið hættulaust að vera þar enn um hríð. Í sprungunni milli Bláhvers og Svaða hafa myndast nýir hverir og gamlir vaxið, einkum þó austan megin við Varmá, en það er þó ekki svo bagalegt, vegna þess að íbúðarhús eru engin á því svæði. Allmikils öskufalls hefur orðið vart í Hveragerði, einkum í gærkvöldi og í nótt. Rigningarsuddi hefur verið í dag, og mun það hafa dregið nokkuð úr öskufalli.

Aska úr Heklu hefir fallið hér í bænum og nágrenninu í gær og í fyrrakvöld og er það í fyrsta sinni síðan Hekla tók að gjósa að þessu sinni, að vitað er með vissu að aska hefir fallið hér í bænum.

Tíð í júní þótti frekar hagstæð, en þó voru kuldaköst framan af um landið norðanvert og að morgni þ.9. var jörð alhvít á Skriðulandi og í Möðrudal, snjódýpt á Skriðulandi mældist 8 cm. Einnig snjóaði niður undir byggð austanlands þann 15. Síðari hluta mánaðarins dró til votviðra um landið sunnanvert. Veðurathugunarmenn segja af tíð í júní:

Síðumúli: [Mánuðurinn] var góður og mildur framan af en frekar leiðinlegur og votviðrasöm tíð seinni partinn. Tún eru orðin vel sprottin. 

Stykkishólmur: Veður hefur verið ágætt. Gróður með besta lagi hér.

Hallormsstaður (Páll Guttormsson): Þann 15. gránaði niður undir fljót stutt hér frá Hallormsstað og snjóhríð var úr lofti um tíma þá um daginn. En skömmu þar á eftir komu hitar svo tún uxu hratt og var orðin meðalspretta fyrir mánaðamót.

Morgunblaðið segir 14. júní frá öskuflekkjum á sjó undan Norðurlandi:

M.S. Rifsnes, sem verið hefur í síldarleit fyrir Norðurlandi frá því í byrjun þessa mánaðar hefur ekki enn orðið vart við neina síld að ráði. Á fimmtudag var skipið í síldarleit út af Ströndum. Sáu skipverjar þar ösku og vikurhrannir fljótandi, sem mjög líktust síldartorfum tilsýndar, en engrar síldar varð vart. Giskað hefur verið á, að vikur sá, sem féll fyrir Suðurlandi hafi nú borist með straumi norður fyrir land.

Júlí var mjög óhagstæður um landið sunnan- og vestanvert. Fáeinir óvenjuhlýir dagar komu þó í kringum þann 20., en þá var haldin Snorrahátíð í Reykholti. Hungurdiskar hafa áður fjallað um veður þá daga og verður ekki endurtekið hér. Veðurathugunarmenn segja af tíð:

Síðumúli: Júlímánuður var allur votviðrasamur, nema dagarnir, sem Snorrahátíðin stóð, þá var yndisleg tíð og allt lék í lyndi. Heyskapartíð er mjög óhagstæð og eiga flestir mikið úti af hrakinni töðu.

Hof í Vopnafirði (Jakob Einarsson): Fyrstu þrjá daga mánaðarins var gott veður. Með 4. byrjar vætutíð og stóð til 10. Illviðri voru þó aðeins sunnudag og mánudag 6. og 7. júlí, en þau líka með ódæmum, svo að fjöldi fjár fórust á heiðum, einkum á Smjörvatnsheiði, fyrir rok og vatnsveður. Hér var rokið ekki eins mikið, en vatnsveður ógurlegt á sunnudag og mánudagsnótt og til hádegis.

Gunnhildargerði: Hlýtt og hagstætt nema fjárskaðaveðrið 6. og 7.

Hallormsstaður: Hið mikla rigningarveður 6. júlí hafði mjög góð áhrif á gróðurfar hér af því að heit tíð kom í kjölfar þess. 12. júlí var svo hvasst að toppar fuku af einstaka trjám þar sem árssprotar voru orðnir langir.

Teigarhorn (Jón Lúðvíksson): Júlí má kallast fremur óhagstæður. Hinn 6. júlí gerði norðanrok, urðu þá skemmdir víða í kartöflugörðum.

Óvenjuleg illviðri gerði um mestallt land í kringum þann 6. til 7., þá snjóaði niður undir byggð á Þingvöllum (rétt eins og um svipað leyti 1970).

Slide18

 

Lægð dýpkaði hægt og bítandi austur af landinu og þokaðist nær og hreyfðist til suðurs.

Vísir segir af veðri í pistli 7.júlí:

Allhvöss norðanátt og rigning er nú víða um land, að því er Veðurstofan tjáði Vísi í morgun. Um þrjúleytið í nótt var veðurhæðin mæld tíu vindstig i Vestmannaeyjum, en kl.8 í morgun var hún þar 8 vindstig. Mikil úrkoma er á Suður- og Austurlandi. Úrkomumælir Veðurstofunnar sýndi í morgun að s.l. tólf tíma hefði rignt 2,9 mm hér í Reykjavik. Frá Ísafirði hefir blaðið þær fregnir, að snjóað hefði þar í fjöll í síðustu viku, svo að þau urðu grá niður í miðjar hlíðar. I Húnavatnssýslu hefir verið óveður undanfarnar vikur, látlausar rigningar.

Símalínan austur um land er slitin. Í óveðrinu, sem nú geisar, slitnaði línan á svonefndum Steinasandi í Skaftafellsýslu. Hægt er að ná sambandi við Fagurhólsmýri héðan úr Reykjavík, en að austan frá Höfn í Hornafirði að Brunnhól á Mýrum í A-Skaftafellssýslu. Erfitt verður að gera við símalínuna, þar sem hún liggur þarna víðast hvar um vatnasvæði, en viðgerðum verður hraðað eins og mögulegt er.

Norðan stormur og rigning er nú á miðunum norðanlands og komast síldveiðiskipin ekki úr höfn sökum veðurofsans. Talsverður sjógangur er á miðunum og gerir það að verkum að gjörsamlega ómögulegt er fyrir skipin að athafna sig.

Tíminn segir heyskapar- og illviðrisfréttir 8.júlí:

Samkvæmt fregnum, sem Tíminn hefir fengið mun sláttur nú yfirleitt hafinn um land allt. Á Suðurlandi og Vestfjörðum mun hann hafa byrjað um mánaðamótin, en óhagstætt tíðarfar hamlað víða að gengið væri að honum af fullu kappi. Víða á Fljótsdalshéraði og í Eyjafirði hófst sláttur upp úr miðjum júní, en nokkru seinna í Þingeyjarsýslum. Á þessum stöðum munu bændur vera búnir að hirða allmikið af töðu. Einn bóndi, Ólafur Jónsson, forstjóri Ræktunarfélags Norðurlands, hefir þegar lokið fyrsta slætti og alhirt alla töðuna. Grasspretta mun yfirleitt vera með meira móti um allt land En víða veldur það nokkrum ugg, að fólk er með allra fæsta móti, og getur það haft alvarlegar afleiðingar, ef tíðin reynist óhagstæð.

Í fyrradag og alla fyrrinótt geisaði ofviðri mikið um land allt, sem algerlega er einsdæmi á þessum tíma árs, eftir því sem veðurstofan tjáði blaðinu í gær. Mest var veðurhæðin hér á Suðurlandi og á Austurlandi. Stóð það af norðri og norðaustri. Í gærmorgun var veðurhæðin 9 vindstig hér í Reykjavík, en 10 vindstig á Þingvöllum. Fylgdi veðurofsa þessum úrhellisrigning. Norðanlands og á Vestfjörðum var veðurhæðin minni, en þokubræla var við norðurströndina. Eins og áður er sagt, telur Veðurstofan þetta veður, bæði vindhraða og rigninguna, einsdæmi hér sunnanlands í norðanátt. Tjón af völdum ofveðursins mun nokkurt, en ekki hefir enn frést um neina meiriháttar skaða af völdum þess. Hér í Reykjavík var ofviðrið svo mikið, að skip gátu ekki komist að bryggju.

Morgunblaðið segir af stórviðrinu í pistli þann 8.júlí:

Frá því eldsnemma á sunnudagsmorgun þar til seinnipart dags í gær, geisaði norðan stórviðri með gífurlegri rigningu um því nær land allt. Ekki munu skemmdir hafa orðið alvarlegar af völdum veðurofsans. Veðurhæðin mun hafa orðið hvað mest hér við sunnanverðan Faxaflóa. Í Reykjavík og á Þingvöllum mældist veðurhæðin mest 10 vindstig. Á Austfjörðum náði veðurhæðin 9 vindstigum. Eins og fyr segir var mikil rigning samfara veðrinu. Í Fagradal við Vopnafjörð varð úrkoman langsamlega mest. Frá því kl.6 á sunnudagsmorgun þar til kl. 6 í gærmorgun mældist úrkoman þar 112 mm. Lætur það nærri, að ef vatnsmagnið pr. fermetra væri mælt, myndi það vera 112 lítrar. Veðurfræðingar hafa skýrt svo frá, að veður og úrkoma sem hér hefir orðið, sé mjög óvanalegt fyrirbrigði á þessum tíma árs. Í veðurofsanum urðu nokkrar skemmdir á landbúnaðarsýningunni og var henni lokað fram eftir degi í gær, meðan verið var að lagfæra og hreinsa til. Þar urðu talsverðar skemmdir á veitingaskála sýningarinnar og vatn komst í básana í sýningarskálanum. Tvær eða þrjár fánastengur brotnuðu. Í skemmtistaðnum Tívolí urðu einnig nokkrar skemmdir. Tjaldið yfir bílabrautinni rifnaði og tók af. Sama er að segja um tjaldið yfir barnahringekjunni. Þá skýrði Landssíminn Morgunblaðinu svo frá að nokkrar skemmdir hefðu orðið á símakerfinu. Á svonefndum Steinasandi, sem er á milli Hala og Kálfafellsstaðar A-Skaftafellssýslu, brotnuðu þrír símastaurar. Vegna veðurs tókst ekki að setja upp nýja staura í gær. Þá bilaði Norðurlandslínan við Hvalfjörð og urðu því truflanir á fjölsímanum norður. Við þetta tókst fljótlega að gera. Þá slitnaði Patreksfjarðarlínan þar sem hún liggur um Laxárdalsheiði. Skömmu eftir hádegi var sambandið komið á að nýju. Ekki hefur blaðið frétt, að heyskaðar hafi orðið svo teljandi sé, enda lítið farið að slá. Hér á Kjalarnesi urðu þeir bændur er áttu hey flatt, fyrir lítilsháttar tjóni. Þeir sem áttu hey í sætum gátu bjargað því. Ólafur bóndi í Brautarholti sagði Morgunblaðinu, að þetta hafi verið með mestu veðrum, sem komið hafa á Kjalarnesi. Hér í höfninni liggja nú allmörg flutningaskip, sem komið hafa meðan á Dagsbrúnardeilunni stóð. í gærmorgun átti að taka nokkur þeirra inn, en ekki var viðlit að hreyfa við þeim stærstu, til dæmis eins og Salmon Knot og kolaskip af sömu gerð og fleiri skip. Veðurstofan gerir fastlega ráð fyrir því, að lægð sú, er þetta veður stafaði frá, fari minnkandi. Má því gera ráð fyrir að hér geti verið sólskin og gott veður í dag.

Vísir segir 9.júlí frá breytingum á Skeiðarárjökli:

Skeiðarárjökull hefir tekið óvenju örum breytingum frá því í fyrrasumar, og á einu ári hefir hann a.m.k. hækkað um 60—70 metra, eða jafnvel meira. Í fyrrasumar skýrði Hannes bóndi á Núpstað Vísi frá því, að Skeiðarárjökull færi ört hækkandi, og kvaðst hann þá ekki hafa áður tekið eftir jafn örri hækkun á jöklinum. En eins og kunnugt er, hækkar Skeiðarárjökull jafnan á undan hlaupum. Tók Hannes eftir því í fyrravor, að jökullinn tók breytingum, en er kom fram á sumarið, eða í júlímánuði, byrjaði Hannes að miða hækkun jökulsins við fjöll handan hans. Sá Hannes þegar, að hækkunin var óvenju ör og sá greinilegan mun i hverri viku. Í vetur, eða eftir að snjóa tók, hætti Hannes miðunum sínum, en er byrjaður á þeim að nýju. Verður hann nú að fara upp i hlíðar framan í Lómagnúp, til þess að sjá sömu mið handan Skeiðarárjökuls, sem hann sá af jafnsléttu í fyrra. Sagði Hannes að jökullinn hefði hækkað a.m.k. um 60—70 metra, frá því er hann hóf miðanir sínar í fyrra, og e.t.v. væri hækkunin ennþá meiri. Áður en Skeiðarárjökull byrjaði að hækka í fyrra, var hann mjög lágur, enda höfðu bæði Súla og Skeiðará þá nýlega hlaupið, Súla i fyrra en Skeiðará fyrir 4—5 árum. Skeiðarársandur er nú orðinn ófær yfirferðar, og er það Súla, sem torveldar mönnum leiðina. Síðast er póstur ætlaði yfir sandinn, varð bann frá að hverfa. Fellur Súla i þröngum farvegi og er óreið með öllu. Kvaðst Hannes ekki gera ráð fyrir, að hún yrði reið framar í sumar. Er þar með útilokað að komast landleiðina í Öræfin að vestan. Í fyrra lokaðist leiðin yfir Skeiðarársand af sömu ástæðu, enda voru þá miklir vatnavextir i Súlu vegna hlaupsins. Var óreitt yfir hana allt sumarið. Túnspretta er orðin góð í Fljótshverfi, enda þótt útlit hafi verið slæmt fram eftir vorinu, og er sláttur í þann veginn að byrja.

Morgunblaðið segir 15.júlí frá veðurfarsbreytingum:

Prófessor Hans Ahlmann, þekktur sænskur landfræðingur og jöklafræðingur, sem er nýkominn heim til Stokkhólms úr fyrirlestraför um Bandaríkin, segir að lofthiti í heiminum, jafnvel í hitabeltinu, fari stöðugt hækkandi. Jöklarnir minnka. Hann bendir á það, að jöklarnir í heimskautslöndunum bráðni stöðugt og sjórinn hitni. Þetta valdi því, að ýmsar fisktegundir leggja leiðir sínar norðar en hingað til. Rekísinn nái ekki yfir jafn stórt svæði og á undanförnum árum. Þannig sé nú hægt að skipa kolum út í Spitzbergen 200 daga á ári hverju, en ekki nema 95 daga í byrjun þessarar aldar. Þetta batnandi veðurfar hafi einnig valdið því, að skógar séu farnir að vaxa á svæðum, sem áður voru skóglaus. Og uppskera sé orðin góð á breiddargráðum, þar sem áður fékkst ekki nema léleg uppskera. Veðurfarið hafi einnig breyst með svipuðum hætti í hitabeltislöndunum, enda þótt menn taki þar ekki eins mikið eftir því, að hitinn fari vaxandi.

Tíminn segir af löku tíðarfari í Mýrdal í pistli 16.júlí:

Síðastliðinn vetur reyndist Mýrdælingum óvenjulega gjaffelldur þótt snjóléttur væri. Ollu því ýmist stórfeldar úrkomur eða þyrrkingar, sem bönnuðu alla fjárbeit. Fé var gefið inni fram um miðjan maí, og er það óvenjulegt. Í vor hefir tíðin verið með afbrigðum votviðrasöm og köld. Mátti heita svo að ekki kæmi vinnuveður um hálfsmánaðartíma um hvítasunnuleytið. Grasspretta bæði á túnum og engjum er þrátt fyrir þetta í góðu meðallagi og er sláttur aðeins byrjaður, en þó ekki að neinu ráði vegna votviðranna. Á örfáum bæjum er þó búið að hirða lítið eitt af töðu. Eins og að líkum lætur er mikill áhugi hjá bændum um aö eignast heyþurrkunartæki, en þó því aðeins að unnt sé að koma þurrkuninni við með heitu lofti, þar eð súgþurrkun með köldu lofti muni vart koma að gagni, þar sem loft er jafn vatnsmettað og oftast er í Mýrdalnum og raunar víðar Sunnanlands. Í óveðrinu mikla í byrjun mánaðarins urðu mjög miklar skemmdir í görðum þar eystra. Mátti víða sjá kartöflugarða næstum því graslausa. Ennfremur fauk hey hjá þeim, sem eitthvað voru búnir að slá, jafnvel allt að tveim þriðju hlutum.

Morgunblaðið segir 17.júlí af illviðri á síldarsvæðum undan Norðurlandi:

Í gær var slæmt veður fyrir Norðurlandi. Rauk hann upp um morguninn með suðvestanstormi og leituðu skipin til hafnar. En síðast í gærkvöldi var aftur komið logn og stillt veður og voru skipin þá að leggja út. Flugvél hefur flogið um allt veiðisvæðið en sá hún ekki neina síld eftir að hvessti.

Morgunblaðið segir 22.júlí frá skipsströndum í þoku:

Í svartaþoku aðfaranótt mánudags, strönduðu þrjú skip hér við land. Tvö þeirra voru íslensk síldveiðiskip, en hið þriðja norskt vöruflutningaskip. Veður var stillt og gott og hafa skipverjar á hinum strönduðu skipum látið fyrirberast um borð í skipunum.

Tíminn segir af heyskapartíð 23.júlí:

Breyting sú, sem varð á veðráttunni um seinustu helgi [Snorrahátíðarhelginni], kom sér vel fyrir bændur á Suðvesturlandi, því að þeir hafa getað notað þrjá seinustu dagana til að þurrka heyin, sem voru farin að hrekjast. Horfði orðið mjög illa með heyskapinn þar. ... Síðastliðna viku má segja, að aldrei þornaði á steini á Suðurlandi. Bændur fóru sér því hægt við sláttinn, dunduðu við að slá það, sem ekki er véltækt í túnunum, en létu það véltæka eiga sig og spretta úr sér. Taðan, sem sett var í dríli um fyrri helgi, var aldrei hreyfð alla vikuna. Á Vestfjörðum hefir tíðarfarið verið skárra, en þó má heita að ekkert af töðu hafi náðst upp þar. Í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum er töluvert af töðu komið í sæti, og nokkuð inn, en þurrkar hafa verið mjög stopulir og tafsamt við heyskapinn að eiga. Í Eyjarfjarðarsýslu byrjuðu þeir fyrstu að slá tún um miðjan júní, og þó tíðarfarið væri erfitt um tíma, hafa þeir, er fyrst byrjuðu, hirt tún sín, og má segja, að taðan sé góð. Þeir sem síðar byrjuðu, hafa enn ekki lokið túnaslætti, en það sem losað er, er komið inn, og nýtingin góð. Þó spruttu töður nokkuð úr sér hjá þeim, er síðar byrjuðu, því óþurrkar um mánaðamótin gerðu það að verkum, að menn veigruðu sér við að slá mikið niður þá. Í Þingeyjarsýslu hefir taða náðst með ágætri verkun, og er túnaslætti víða langt komið. Í Múlasýslum hefir öll taða náðst með ágætisverkun og er túnaslætti þar lokið allvíða, enda var víða byrjaður sláttur um Jónsmessu. Þeir, sem síðar byrjuðu, eru enn í túnum, en allt hefir náðst inn til þessa um leið og það er losað. Í Skaftafellssýslu hafa verið óþurrkar, en þó skárra tíðarfar en á Suðurlandi.

Tíminn segir af heyskapartíð 30.júlí:

Frásögn Páls Zóphóníassonar ráðunauta. Í gær var sunnudagurinn í fjórtándu sumarviku, og við hann stendur í almanakinu „heyannir byrja“. En tímarnir hafa breyst, og heyannirnar hafa færst fram, og eiga þó eftir að færast það betur. Margir bændur eru nú langt komnir með að slá túnin, og þó nokkrir hafa þegar hirt fyrri slátt af túnum sínum. Vikan, sem leið var yfirleitt hagstæð fyrir heyskapinn, en misjöfn, enda er það sjaldgæft, að eins viðri um land allt. Á Suðurlandi byrjaði vikan með þerri og blíðskaparveðri. Töldu sumir, að það væri vegna Reykholtshátíðarinnar, og hefðu máttarvöldin viljað heiðra minningu Snorra með góðu veðri, en aðrir, að þau hefðu aumkast yfir töðurnar, sem farnar voru að gulna á túnunum, þar sem háin var að spretta upp úr flekkjunum. Strax á sunnudag sást víða, að Farmall sláttuvélarnar voru settar af stað, og nú slógu menn nótt og dag. Og mikið var losað. Á mánudag og þriðjudag náðust töðurnar, sem lausar voru fyrir helgina upp, og í vikulokin, á föstudag og laugardag, náðist það inn, sem slegið var fyrstu daga vikunnar. Er því lítið úti nú. Nokkrir hafa þegar náð allri fyrri sláttar töðunni inn, og flestir eru langt komnir með að slá tún sín. Nokkrir þeir sem byrjuðu seint og ekki hafa vélar — eru þó hvergi nærri búnir, en líka hjá þeim hefir saxast á túnin þessa vikuna. Og nokkuð af töðunni er gott, þó annað hafi hrakist og sprottið úr sér. Í Borgarfirðinum hefir síst verið verra að fást við heyskapinn en á Suðurlandi. Þar eru menn sums staðar að komast á flæðiengin. En aðrir eru skemmra komnir, en allir hafa þessa viku fengið mikla töðu inn. Á Vestfjörðum hefir tíðarfarið verið breytilegra. Víðast hefir það verið gott, og heyskapurinn gengið vel, en á þeim norðanverðum hafa þokur tafið fyrir heyþurrknum, og er þar komið lítið inn enn sem komið er. Í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum hefir tíðarfarið verið misjafnt. Í innsveitum hafa verið þurrkar, og töður náðst nokkuð, enda þó tafsamt hafi verið, en nær sjónum hefir þoka hamlað, og lítið verið hirt. Í Eyjafjarðarsýslu er fjöldinn að verða búinn með túnsláttinn. Spretta var þar mjög góð og töðufengur er mikill. Í Þingeyjarsýslum hefir tíðarfarið verið með afbrigðum gott. Þar hefir allt náðst eftir hendinni, og verður töðufengurinn bæði mikill og góður. Í Múlasýslum hefir spretta verið ágæt, og töður náðst inn eftir hendinni á Fljótsdalshéraði. Í fjörðunum hefir það gengið verr, en þó hefir heyskapur ekkert verulega tafist vegna tíðarfars. Margir bændur á Héraði eru nú búnir með fyrri slátt, og hafa fengið mikla og góða töðu. Í Austur-Skaftafellssýslu hefir tíðin verið stirð. Gengið hefir á með skúrum, og varla komið heilir þurrkdagar. Heyskapurinn hefir því gengið heldur treglega, og verið tafsamt að þurrka. Þó er nokkuð komið upp og inn hjá mönnum, en misjafnt mjög, eins og ætíð vill verða í slíku tíðarfari. Þar er mikið úti af töðu. Í Vestur-Skaftafellssýslu hefir verið góð heyskapartíð, og eru Mýrdælingar langt komnir með tún sín og einstaka að verða búnir. Fyrir austan Sand hefir tíðin verið verri, en þó hafa náðst þar upp töður þessa viku svo að mikið er ekki úti.

Slide19

Ágúst var sérlega votviðrasamur um landið sunnan- og vestanvert, en óvenjuhlýr norðaustanlands, einn sá hlýjasti sem vitað er um. Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins, þykkt og þykktarvik. Sunnan- og suðvestanáttir voru ríkjandi allan mánuðinn. Veðurathugunarmenn lýsa tíð:

Síðumúli: Ágústmánuður var mjög erfiður og óhagstæður fyrir heyskapinn. Taðan hraktist vikum saman. En að síðustu kom flæsa svo að margir hauguðu upp í sæti illa þurri töðunni.

Sandur (Friðjón Guðmundsson): Tíð einmuna hlý og þerrisöm, eins hagstæð til heyskapar og hugsast gat.

Hlíð í Hrunamannahreppi (Guðmundur Guðmundsson). Rosi með afbrigðum, aðeins 2 dagar þurrir.

Tíminn segir af heyskap 6.ágúst:

Tíminn hefir átt viðtal við Pál Zóphóníasson ráðunaut um heyskapinn í síðastliðinni viku og fer frásögn Páls hér á eftir: Síðastliðinn laugardag (26.júlí) hafði ég símleiðis tal af mönnum víðsvegar að, til að fá fréttir af heyskapnum. Þá áttu þeir Sunnlendingar, er ég átti tal við, von á þurrki, og töldu „rakið þurrt útlit“. Bjuggust þeir við, að töðurnar mundu þá nást upp og inn. En þetta fór á annan veg. Það þykknaði upp, og dagurinn varð ekki þurrkdagur, heldur einn af þessum rigningardögum, sem sett hafa svip á þetta sumar á Suðurlandi. Töðurnar náðust því ekki upp, og síðastliðna viku hefir enn verið rigning, nema á þriðjudaginn, þá var þurrt í uppsveitum, en þó náðist þá lítið upp. Það er því úti öll sú taða, sem losuð hefir verið síðastliðinn hálfan mánuð, og margt af henni orðið hrakið, enda þó hún sé víða í föngum og smásætum, sem flestum þarf að dreifa aftur. Og þeir, sem byrjuðu síðast að slá, eiga alla sína töðu úti. Enn eru nokkrir, sem láta hluta af túninu standa óslegna, og bíða eftir því, að þurrkur komi. Í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og á Fljótsdalshéraði hafa verið stöðugir þurrkar og allt náðst inn um leið og það er losað. Þar eru töður miklar og góðar, en þær hafa þornað við mikla sól, og má því ætla, að bætiefnin hafi tapast úr þeim að mun, og þarf að taka tillit til þess við fóðrunina í vetur. Verði það ekki gert er t.d. hætt við, að kýr verði „tregar að ganga“ og fitumagn mjólkurinnar lækki, er á veturinn líður. Annars staðar hefir heyskapurinn gengið misjafnt. Þurrkar verið stopulir en þó alls staðar náðst nokkuð upp og í Vestur- Skaftafellsýslu mikið.

Tíminn segir 16.ágúst af misheppnaðri síldarvertíð: 

Sjaldan munu íslendingar hafa bundið eins miklar vonir við síldarvertíðina og í ár. Því miður hafa þessar vonir nú brugðist að verulegu leyti. Nú er komið fram yfir miðjan ágústmánuð, en í flestum tilfellum lýkur síldarvertíðinni í ágústlok. Síldarmagnið, sem á land hefir borist, er hins vegar langt fyrir neðan það, sem menn höfðu almennt gert sér vonir um. Íslendingar hafa þó aldrei haft fleiri skip við síldveiðar en í sumar. Aðal orsökina til þess hve litið hefir aflast, álíta flestir of mikinn sjávarhita og of mörg skip á miðunum, sagði Ástvaldur Eydal, fulltrúi hjá Síldarútvegsnefnd, er Tíminn átti viðtal við hann i gær.

Tíminn segir enn heyskaparfréttir 26.ágúst:

Enn hefir ein óþurrkavikan bæst við heyannatímann á Suður- og Suðvesturlandi, sagði Páll Zóphóníasson, þegar fréttamaður Tímans átti viðtal við hann í gær um heyskapinn í seinustu viku. ... Á öllu svæðinu milli Mýrdalssands og Arnarfjarðar eru mikil hey úti, sagði Páll. Í upphluta Borgarfjarðar er þó ekki úti nema 2—3 vikna heyskapur, en annars staðar meiri, og víða er meginhluti heyjanna eða allt að sex vikna heyskapur úti.

Vísir segir af hvassviðri suðvestanlands í pistli 27.ágúst:

Mikið hvassviðri gerði hér sunnanlands í gærmorgun [26.ágúst]. Um tíuleytið um morguninn var veðurhæðin hér í Reykjavík mæld tíu vindstig en yfirleitt var veðurhæðin 7—9 vindstig.

Alþýðublaðið segir af sama illviðri í pistli 27.ágúst:

Í fyrrinótt fauk þakið af bílabrautinni í Tívolí og eyðilagðist algerlega.

Tíminn greinir enn frá heyskap í pistli 2.september:

Lítil breyting hefir orðið á veðráttunni, sagði Páll Zóphóníasson ráðunautur, þegar Tíminn spurði hann frétta af heyskapnum í síðastliðna viku. Ótíðin hefir haldist sunnanlands, en góða veðráttan á Austurlandi og Norðausturlandi. Nokkuð breytti til hins betra á Vesturlandi. Af Fljótsdalshéraði og úr Vopnafirði er mér sagt, sagði Páll, að elstu menn muni ekki eins hagstæða heyskapartíð. Úr Þingeyjarsýslu segja menn tíðina óvenju góða, svo að allt þorni um leið og losað er. Í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum hefir tíðarfar verið gott, en þó varla eins og norðar. Í Borgarfirði, Dölum og á Vestfjörðum var góður þerrir á fimmtudaginn var og víða var líka þurrt á miðvikudag og föstudag, þó skúrum slægi hér og þar niður. Þessir dagar voru dýrmætir, og náðist mikið hey upp og nokkuð inn á öllu Suðvestur- og Vesturlandi þessa daga, en hrakið var mikið af því orðið. En sumt af því heyi, sem upp náðist, var lítið hrakið, enda létu nokkrir það sitja í fyrirrúmi að ná því upp, er nýjast var og minnst hrakið, en létu hitt sitja á hakanum, sem orðið var hálfónýtt vegna langvarandi hrakninga, og það gerðu þeir hyggilega. Á Suðurlandi hafa enn haldist sömu óþurrkarnir og þar muna menn ekki aðra eins óþurrka.

Svipað veðurlag hélt áfram í september, en þó með meiri tilbreytingu. Veðurathugunarmenn segja frá: 

Síðumúli: September var mjög erfiður vegna votviðris og snjóa. Þ.28. setti niður snjó svo að jörð varð alhvít og kýr voru teknar inn einn sólarhring. Þá tók snjóinn upp aftur á láglendi. Næturfrost er 4-6 stig, svo hætt er við að kartöflur skemmist í görðum, því víða er ekki búið að taka upp. Hey er sumstaðar úti.

Lambavatn: Það hefir verið svipað og sumarið. Votviðri og rok á milli. Nú síðustu dagana er allt hvítt af snjó og þeir sem enn hey eiga úti eiga það í snjónum. Nú, 1. og 2. október var hér gott veður og náðu þá margir heyjum inn. En þar sem sólar naut ekki var ekki not að þeim vegna snjóa. Þetta sumar hefir verið hér það votviðrasamasta sem menn muna. 

Grímsstaðir á Fjöllum (Sigurður Kristjánsson): Einmuna tíð allan mánuðinn.  

Tíminn segir af jökulhlaupi 10.september:

Um helgina kom hlaup í Súlu og hefir það farið vaxandi síðan, og þegar valdið nokkru tjóni. Í fyrradag óx hlaupið mikið og slitnuðu þá símalínur þar sem áin flæddi yfir Skeiðarársand. ... Jakaburður er mikill í ánni og hefir brotnað talsvert framan af jöklinum.

Þann 11. gerði mikið illviðri um mikinn hluta landsins. Gríðarlega rigndi á Austurlandi eftir langvinna þurrkatíð. 

Slide20

Kröpp og djúp lægð kom að landinu sunnan úr hafi. Veðrið varð sérlega slæmt undir Eyjafjöllum. Morgunblaðið segir frá þann 12.september:

Suðaustan stórviðri geisaði um því nær allt land í fyrrinótt [aðfaranótt 11]. Af völdum þess, hafa bændur undir Eyjafjöllum orðið fyrir gífurlegu tjóni á heyjum. Mikið af heyi sópaðist burt og skemmdir urðu miklar á útihúsum og landbúnaðarverkfærum. Slys urðu ekki á mönnum önnur en þau að bóndi nokkur skarst af rúðubrotum. Á Siglufirði urðu einnig skemmdir af völdum veðurofsans og þar strönduðu tvö skip. Nokkur skip urðu fyrir lítilsháttar skemmdum í Vestmannaeyjum.

Í gær átti Morgunblaðið tal við Einar Sigurðsson bónda að Varmahlíð í Vestur-Eyjafjallahreppi. Sagði hann, að annað eins veður hefði ekki komið þar um slóðir í fjölda mörg ár. Það var ekki viðlit, að fara út fyrir hússins dyr, enda hefði það verið stórhættulegt. Eyjafjallabændur áttu mikið hey úti, bæði flatt og í sæti. Mest alt þetta hey fauk út í veður vind. Sagði Einar, að heytjón bænda skipti eflaust þúsundum hesta. Sjálfur missti hann 400 hesta. Var hey þetta hin besta taða og óhrakin með öllu. „Tjónið á heyjum er okkur tilfinnanlegast", sagði Einar, „því það er ekki hægt að bæta“. Á fjórum bæjum, sem hann vissi til, fuku þök af hlöðum. Að Ásólfsskála, en þar býr Sigmundur Þorgilsson skólastjóri skemmdist 4—500 hesta hlaða. Tók þakið af henni og gafl lagðist inn. Hjá Geir Tryggvasyni í Hvoltungu fauk þakið af nýuppgerðri hlöðu og gaflar hlöðunnar skemmdust einnig. Á hlaðinu framan við bæinn stóðu tveir bílar, sem Geir á og annar maður þar á bænum. Veðurofsinn var svo gífurlegur, að vindurinn velti báðum bílunum. Fóru þeir nokkrar veltur undan vindinum og skemmdust mikið. íbúðarhús Bergs Magnússonar í Steinum, varð fyrir miklum skemmdum. Af þaki þess tók 9 járnplötur. Þá gjöreyðilögðust útihús Jóhanns Guðmundssonar kaupmanns þar. Útihús þessi voru sambyggð. Í einu þeirra var hlaða, öðru fjárhús og í því þriðja vörugeymsla verslunarinnar. Sagði Einar, að þannig væri umhorfs við útihúsin, að engu væri líkara, en að sprengja hefði fallið þar niður. Að Hlíð, en par býr Jónas Sigurðsson og Sigurlína Jónsdóttir, fuku tvær hlöður, en lítið var af heyi í þeim auk þess fuku þar heygaltar. Þess má geta, að lykkjur er héldu netgirðingu þar við bæinn, drógust út undan veðrinu og allmargir girðingastólpar þverbrotnuðu. Einar í Varmahlíð sagðist ekki hafa heyrt þess getið, að slys hefðu orðið á mönnum í veðrinu nema hvað bóndinn að Núpakoti, Sigurjón Þorvaldsson_ skarst þó nokkuð á höndum og í andliti er rúður í bæ hans brotnuðu undan grjótfoki. Um frekari skemmdir þar fyrir austan sagðist Einar ekki vita. Bæði var að símakerfið undir Eyjafjöllum hefir skemmst mjög mikið og í gær var veðurhæðin enn svo mikil og úrkoma að sama skapi, að menn héldu sig heima við. Einar bætti því við frásögn sína, að ekki væri annað að sjá, en að miklar skemmdir hefðu orðið á landbúnaðarverkfærum. Sagði hann heyvagna og rakstrarvélar brotnar og ýmislegt annað. Því allt lauslegt fauk eins og hráviði. Bátur er Einar á ásamt bændum í Holtshverfi, brotnaði í spón. Þetta var áttæringur og tókst hann á loft sem fis væri, sagði Einar.

Í fyrrinótt nokkuð á þriðja tímanum, fór veður skyndilega versnandi um allt land og kl.6 í gærmorgun, varð veðurhæðin frá 9 til 12 vindstig um land allt. nema Austfirði, þar varð ekki eins hvasst. Klukkan 6 í gærmormun var veðurhæðin 12 vinstig í Vestmannaeyjum og mældist hún hvergi meiri. Á Siglufirði voru 11 Vinstig. Hér í Reykjavík mældist mest veðurhæð um kl.9, 10 vindstig. Samfara veðurofsanum var mikil rigning. Hér í Reykjavík munu litlar sem engar skemmdir hafa orðið á mannvirkjum og skipum. En blómgarðar urðu fyrir miklum skemmdum.

Skemmdir urðu ekki miklar á símakerfinu í rokinu í fyrrinótt. Símasamband er austur að Varmahlíð undir Eyjafjöllum, en lengra austur er ekkert samband. Í veðrinu brotnuðu þrír símastaurar skammt fyrir austan bæinn. Um frekari skemmdir þar eystra var Landssímanum ekki kunnugt. Þar var því nær óstætt vegna veðurs í gær. Skemmdir urðu einnig á Patreksfjarðarlínunni.

Fréttaritari Morgunblaðsins á Siglufirði símaði i gær að skemmdir hefðu orðið á mannvirkjum og skipum í ofsaveðri er geisaði í fyrrinótt. Þök tók af húsum þar í bænum og önnur brotnuðu. Vinnupallar við hús er voru í smíðum hrundu eins og spilaborgir og um allar götur liggja tunnur, er fuku úr stæðum. Söltunarhæðir fuku af bryggjum í sjóinn. Tvö sænsk skip er lágu þar, rak upp á Skútugranda, en hitt á Marbalskerum, inn við Ásgeirs bryggju. — Annað skipanna er kútter Harry, en hitt þrímöstruð skonnorta, Skandia. Slys urðu ekki á skipverjum.

Óhemju rigning var samfara veðrinu. Vegna vatnsgangsins urðu skriðuföll efst á Siglufjarðarskarði og tepptist vegurinn þar. Bílar, sem ætluðu um það urðu að snúa við.
Tjón í Vestmannaeyjum. Nokkur skip er lágu þar við bryggju, m.a. timburskip, losnuðu frá bryggjunni í veðrinu. Þetta símaði fréttaritari Morgunblaðsins í gær. Hafnarmönnum og skipverjum tókst að ná skipunum upp að bryggju aftur og mun ekkert skipanna hafa orðið fyrir neinum verulegum skemmdum. — Fréttaritarinn gat þess, að ekkert skipanna hefði strandað.

Tíminn segir af illviðrinu í pistli 12.september:

Í fyrrakvöld bárust fregnir hingað til lands af lægð, sem var á Atlantshafinu sunnan við Ísland. Dýpkaði lægð þessi skyndilega í fyrrinótt og olli aftakaveðri á austan um allt land. Verst var þó veðrið á Suður- og Vesturlandi. Samkvæmt fregnum, sem blaðið hefir fengið frá veðurstofunni, var ekki búist við því hvorki hér á landi, eða annars staðar, þar sem fylgst var með þessum veðrabrigðum, að lægð þessi dýpkaði svo snöggt og ylli svo skjótum og miklum veðurbreytingum hér á landi. Sú varð þó raunin á og skall ofviðrið skyndilega á sunnan og vestanlands þegar tók að líða á nóttina. Mest mun veðurhæðin hafa orðið í Vestmannaeyjum. en þar var hún mæld tólf vindstig um kl. sex í gærmorgun. Hélst hvassviðrið í allan gærmorgun, en uppúr hádeginu fór heldur að draga úr veðurhæðinni. Eru líkur til þess, að óveður þetta sé nú á enda. Má þó búast við að það haldist lengst á Vestfjörðum og út af þeim. Í Reykjavík varð veðurhæðin mest í gærmorgun 10 vindstig en svo hvasst varð víða um land. Samfara ofviðrinu var úrhellisrigning um allt land. Í gær hafði ekki frést um stórfellda skaða af völdum veðursins, nema helst frá Vestmannaeyjum. Þar var fjöldi skipa á höfninni, og stórt,
norskt flutningaskip lá þar við bryggju, er veðrið skall á. Var bað að losa timburfarm til Eyja. Í ofvirðinu slitnuðu festar skipsins að aftan, en við það losnuðu bátar, sem bundnir voru utan á skipið og rak þá frá, án þess að, við neitt yrði ráðið. Rak þannig 10—15 báta upp á grunn, en engan þeirra sakaði verulega. Bátarnir voru allir mannlausir. En varðmenn voru í norska skipinu, sem ekki gátu neitt að gert vegna veðurs.

Vísir segir enn af tjóni 12.september:

Nokkurt tjón varð á Kjalarnesi af völdum óveðursins. Ekki mun mikið af heyi hafa tapast, en hinsvegar fuku heysæti um koll og heyið dreifðist út um túnin. Stanslaus rigning hefir verið síðan og ekki enn tekist að ná heyjunum saman aftur. Leikur því vafi á, hvort nokkuð af þeim nýtist.

Morgunblaðið segir fleira af tjóni 13.september:

Til viðbótar fréttum þeim er fréttaritari Morgunblaðsins á Siglufirði símaði um skemmdir þar af völdum ofviðursins, símaði hann í gærkvöldi, að skemmdir hefðu orðið á Sunnubryggju. Skip er bundin voru við bryggju þar skammt frá, slitnuðu upp og rak þau undan veðrinu á bryggjuna og skemmdu hana talsvert mikið. Þá hrundi hús, er nýlega var lokið við að hlaða upp.  Trjáplöntur við kirkjuna slitnuðu upp með rótum undan veðrinu. Í gær var skriðum þeim er féllu í Siglufjarðarskarði rutt í burtu og er vegurinn orðinn fær á ný

Óvenjulegt flóð var í Ölfusá í gær og í fyrradag. Þar sem áin rennur um Arnarbælishverfi og Hjallahverfi flæddi áin yfir bakka sína og engjar. Bændur á 10 til 15 bæjum áttu hey í sætum og flatt á engjunum og hefir flóðið sópað því í burtu. Hve mikið hey um ræðir, verður ekki sagt með neinni vissu, en láta mun nærri að það skipti nokkrum hundruðum hestburða. Hvergi hefir áin flætt inn á tún, en flóðið nær að túnum bæjanna Grímslæks og Hrauns. Klukkan 3 í gærdag byrjaði flóðið að réna og töldu menn að engjarnar myndu koma vel undan vatninu. Morgunblaðinu hafa borist litlar fréttir af frekari skemmdum af völdum veðursins í austursveitum. Víða hafa þó hey bænda fokið að meira eða minna leyti.

Vísir heldur áfram 13.september:

Í óveðrinu, sem geisaði hér í vikunni, urðu allmargir síldarbátar úr verstöðvunum hér við Faxaflóa, fyrir tilfinnanlegu veiðarfæratjóni.

Úrkoman, sem fylgdi illviðrinu, sem gekk yfir, landið eftir miðja vikuna, olli m.a. miklu tjóni í Ölfusi. Ölfusá tók mjög að vaxa í fyrradag, þar sem allir lækir urðu að beljandi vatnsföllum og hélt áin áfram að vaxa í gær. Þá var hún þegar búin að flæða yfir bakka sína og taka um 1000 hesta af heyi, sem var tiltölulega nýslegið og bændur höfðu gert sér góðar vonir um að bjarga í hús lítt eða ekki skemmdu.

Tíminn ræðir óþurrkana um landið sunnanvert 17.september:

Sumarið í sumar hefir verið eitt hið versta sem elstu menn sunnan lands muna eftir. Hafa óþurrkarnir komið tilfinnanlega við töðuöflun bænda, en einnig hefir kornræktin á Suðurlandi beðið mikið tjón við óþurrkana. Tíðindamaður Tímans átti í gær tal við Klemens á Sámsstöðum og spurði hann frétta af kornræktinni. Sagði Klemens, að þetta sumar væri eitthvert allra votviðrasamasta sumar, sem hann myndi eftir og hefði a.m.k. ekki í seinustu 25 árin viðrað eins illa fyrir kornræktina og í ár. Votviðrin hafa tafið mjög fyrir þroska kornsins, svo að það verður nú miklu minna að vöxtum og seinna þroskað. Bygg er nú að verða þroskað, en seinsprottnir hafrar verða ekki, þroskaðir fyrr en í lok þessa mánaðar. Ofan á alla óþurrkana í sumar bættist svo ofviðrið um daginn, sem skemmdi kornið ennþá meira en óþurrkarnir, þar sem korn fauk af mörgum dagsláttum lands. Í veðrinu urðu miklir skaðar á ökrunum á Sámsstöðum, einkum þó byggökrunum. Byggið fauk alveg af 9 dagsláttum lands. Og þar fuku einnig yfir 100 hestar af heyi.

Tíminn er enn með heyskaparfréttir 23.september:

Viðtal við Pál Zóphóníasson ráðunaut um heyskapinn í sumar (brot). Á Suðurlandi hefir varla komið þurr dagur. Þar hefir nær látlaust rignt. Oft hafa þó verið skúrir, og þá leitt misjafnt yfir. Hefir þá stundum heppnast að þurrka í skúraleiðingunum, þegar nógu lítið hefir verið undir, og skúrirnar leitt hjá bænum, en það er altítt á Suðurlandi í sumar, að hellirignt hefir á einum bænum, en á nágrannabænum leiddi skúrina hjá. Eins óþurrkasamt og hefir verið á Suðurlandi, eins þurrkasamt hefir verið austanlands. Þar hefir varla komið dropi úr loftinu. Á Suðurlandi komu fjórir þurrkdagar síðasta hálfan mánuð sláttarins, tveir hvora viku. Þá daga náðist mikið hey inn en það þurfti einn dag í viðbót hvora vikuna til þess, að gamli hrakningurinn hefði allur komist upp og inn, hjá öllum. Enn eru því hey úti hjá flestum, en mismikil. Og hjá sumum sem eiga þau á hálfblautum mýrum, er hæpið að þau náist hér eftir. Hey fuku undir Eyjafjöllum og víðar á sumrinu, en flæddu í Ölfusi, og var hvort tveggja tilfinnanlegt. Á Suðurlandi eru margir með lítil hey og allir með meira eða minna hrakin hey, nema þeir, sem hirtu í vothey og höfðu súgþurrkun. Þeir eiga góð hey. Með heyjunum þarf mikinn fóðurbæti, fóðursalt og lýsi, eigi skepnurnar að sýna sæmilegt gagn. Í Borgarfirðinum er heyskapurinn misjafn. Utan heiðar er hann verri en ofan heiðar. Ofan heiðar er hann sæmilegur í upphéraðinu. Þar er víða meðal heyskapur, og heyin ekki mjög hrakin. Í niður-héraðinu og á Mýrunum eru heyin aftur meira hrakin og minni og á Andakílsengjum flæddi nokkuð. Þar er ekki meðal heyskapur. Menn í Borgarfirði þurfa því að gefa misjafnt af fóðurbæti, en alls staðar þar þarf að gefa fóðursalt og lýsi með heyjunum, og meira eða minna af fóðurbæti, eigi skepnurnar að sýna gagn. Í Snæfells- og Hnappadalssýslu er heyskapur misjafn. Hann er betri norðan fjallgarðsins en sunnan, en þó hvergi góður. Mjólkurmarkaður er þar ekki alls staðar, og því ekki þörf á mikilli fóðurbætisgjöf nema sums staðar. En alls staðar þarf að gefa sauðfé og kúm lýsi eða lifur, sem þar er víða gott að ná í, og kúm þarf að gefa fóðursalt. Margir bændur norðan fjallgarðsins eiga meðal heyskap, en sunnan fjallgarðsins eru þeir færri, sem það eiga. Í Dalasýslu er tæplega meðalheyskapur að vöxtum og heyin nokkuð hrakin. Þar er í vestanverðri sýslunni skorið niður sauðfé, svo hey verða þar næg. Fóðurbætir þarf þar lítinn. Er lambaheyið er ekki gott hjá mörgum, og þarf að gefa lömbunum lýsi og síldarmjöl með, ef þau eiga að fóðrast og koma upp lömbum að vori. Í Barðastrandasýslu er heyskapurinn misjafn. í Geiradal og Reykhólasveit er meðal heyskapur, en hey nokkuð hrakin eins og í Dölum. Annars er heyskapur ekki í meðallagi, þar til kemur í vestursýsluna. Í þrem vestustu hreppunum er sæmilegur heyskapur. Kringum Patreksfjörð, þar sem mjólkursala er, verður að gefa kúm fóðurbæti, fóðursalt og lýsi eða lifur, en annars staðar þarf þess vart, nema hámjólka kúm. En alls staðar þarf að gefa þeim fóðursalt og lýsi eða lifur. Í Ísafjarðarsýslum er heyskapur misjafn, en víðast sæmilegur. Þar eru hey víða góð og lítið og ekki hrakin. Þó mun vissara að gefa með þeim lýsi. Í Strandasýslu eru víða góð hey, og vel í meðallagi að vöxtum. Í Húnavatnssýslum er heyskapur því betri, sem austur eftir sýslunni dregur. Hey eru þar víða mikil og góð, og gætu þeir miðlað Borgfirðingum, ef flutningsspursmálið yrði leyst viðunandi. Þar þarf ekki fóðurbætir með heyjunum nema handa hámjólka kúm, og þó ekki nema þar sem kýrfjöldinn er orðinn miðaður við það að fullnægja heimilisþörfinni með því að hver kýr sé fullnotuð, en það er þar óvíða. Í Skagafirði, Eyjafirði, Þingeyjasýslum og Múlasýslum eru alls staðar mikil og góð hey nema syðst í Suður-Múlasýslu. Þó er hætt við að víða þurfi að gefa kúm ögn af lýsi með heyinu, og hámjólka kúm, og þær eru margar í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, þarf að gefa fóðurbæti, þó heyin séu góð. Í Austur-Skaftafellssýslu hefir heyskapur verið tafsamur og erfiður, en þó er þar meðal heyskapur. Hey eru nokkuð velkt en ekki mikið hrakin. Í V.-Skaftafellssýslu skiptir um við Mýrdalssand. Fyrir austan hann er meðal heyskapur að vöxtum, en hey nokkuð hrakin. En í Mýrdalnum eru hey hrakin og ekki hefir þar náðst upp meðal heyskapur. Þar þarf að gefa með heyjunum fóðurbæti, fóðursalt og lýsi.


Morgunblaðið er enn með mæðufréttir 27.september:

Rigningarnar hér sunnanlands ætla ekki að verða endasleppar að þessu sinni. Menn voru að vonast eftir að einhver lítilsháttar „skúraskil" yrðu áður en haustrigningamar byrjuðu fyrir alvöru. En ekkert hefir orðið úr því enn.

Morgunblaðið greinir 30.september frá hörmulegu slysi í Ólafsvík - ekki er vitað hvort veður kom við sögu (líklega ekki):

Frá fréttaritara vorum í Ólafsvík. Þrír ungir menn drukknuðu hér í höfninni síðastliðið laugardagskvöld [27.september], er vélbátnum Framtíðin hvolfdi. — Hinum tveim tókst að bjarga um borð í vélbát er var nærstaddur. Tveir hinna þriggja manna er fórust, voru bræður.

Október fékk ekki svo slæma dóma. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Októbermánuður var mjög vætusamur þar til seinustu vikuna. Hún var dásamlega góð. Þá þornaði jörðin og vegirnir, og þeir sem hey áttu úti, gátu þurrkað það og náð því inn. Næturfrost sem var í endir september tók fljótt enda og náðu víst allir upp úr görðum kartöflum sínum lítið skemmdum.

Lambavatn: Framan af mánuðinum var svipuð tíð og í haust og sumar, rigningar og óstöðugt veður þar til nú síðast hefir verið þurrt og blíðviðri. Þeir sem áttu hey úti í göngum hafa ekki náð því að fullu inn fyrr en nú. Kúm hefur sumstaðar verið beitt til vetrar.  

Nóvember var hlýr framan af, en síðan skipti til norðlægra átta og kulda. Þá snjóaði mikið fyrir norðan. Gríðarmikil síldveiði var í Hvalfirði. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Nóvembermánuður var sérstaklega þurrviðrasamur og yfirleitt ágætur að veðurfari. Jörð er hér snjólaus, aðeins orðin flekkótt af föli. Fé gengur sjálfala úti og öll hross.

Sandur: Auð jörð og hlýindatíð fyrstu 10 daga mánaðarins. Úr því er kalt og illviðrasamt og hleður niður allmiklum snjó til mánaðamóta. 

Morgunblaðið segir frá mannskaða á Halamiðum í frétt 11.nóvember:

Aftakaveður gerði a Halamiðum aðfaranótt sunnudags [9.nóvember]. Fjöldi togara bæði innlendra og erlendra var þar á veiðum og urðu þeir að leita til hafnar og aðrir í var. Í veðrinu hlekktist tveimur íslenskum togurum á og tók mann út af öðrum þeirra, Sigurð Jóhannsson frá Hafnarfirði, er var skipverji á Hafnarfjarðartogaranum Surprise.

Tíminn segir 11.nóvember frá hrakningum í sama veðri:

Í hvassviðrinu í gær [10.nóvember] lentu bátar frá Akranesi í hrakningum á Hvalfirði. Þorsteinn frá Akranesi missti annan nótabát sinn í ofviðrinu, en bjargaði hinum og nótinni við illan leik. Fylkir frá Akranesi, sem var með reknet undan Laxvogi, lenti líka í storminum og gat við illan leik náð netunum upp og forðað því að reka á land.

Morgunblaðið segir af kulda og hríð 19.nóvember:

Í gærmorgun klukkan 9 mældist 17 stiga frost að Nautabúi í Skagafirði og á Grímsstöðum á Fjöllum. Hefur ekki meira frost mælst á þessum vetri. A Akureyri var þá 13 stiga frost. Hér í Reykjavík var frostið í gærdag 6 stig, en í gærkveldi var það komið niður í 4 stig. Á Norður- og Norðausturlandi, var í gærkveldi mikil snjókoma og veðurhæðin þar frá 7 til 9 vindstig. Á Akureyri var frostið komið niður í 4 stig í gærkveldi. Hér í Reykjavík var veðurhæðin í gær frá 8 til 10 vindstig og var vindur nokkuð misvinda.

Vísir segir 19.nóvember frá snjóflóði í Langadal (Vísir var síðdegisblað eins og menn muna): 

Um níuleytið í morgun féll snjóflóð á íbúðarhús og peningshús á Gunnsteinsstöðum í Langadal í Húnvatnssýslu. Snjóflóðið féll á 200—300 m breiðu svæði ofan úr fjallinu niður yfir bæinn og fram á jafnsléttu. Húsið var tvílyft, byggt bæði úr steini og timbri og féll flóðið með því afli á húsið, að þiljur á efri hæðinni brotnuðu inn og snjórinn fyllti allt húsið. Slys á fólki urðu þó engin. Fyrir ofan bæinn standa peningshús, sem snjóflóðið féll einnig á, en mun þó ekki hafa valdið öðru tjóni en því, að ofan af heyi tók, sem stóð við húsin. Hinsvegar mun snjóflóðið hafa fallið yfir hóp af hrossum, en ekki er ennþá vitað hve mörg, en um hálftólfleytið í morgun var búið að grafa 8 hross úr fönninni. Á þessu svæði hefir aldrei fallið snjóflóð i manna minnum og ekki  vitað til þess, að snjóflóð hafi fallið þar fyrr eða síðar. Óhemju fannkyngi er í Langadal, enda stórhríð af norðaustri með feikna mikilli snjókomu og óttast menn að fleiri snjóflóð kunni að falla í Langadal.

Aftaka veður geisaði á Akureyri og víðar norðanlands í gær og nótt. Síðari hluta dags í gær gerði hríð mikla á Akureyri og jókst hún eftir því sem leið á daginn. Í gærkvöldi voru göturnar á Akureyri orðnar ófærar vegna snjóþyngsla. Einnig eru allir vegir í nágrenni bæjarins ófærir og er nú með öllu mjólkurlaust á Akureyri. Um fimmleytið í gær kom áætlunarbifreiðin, sem annast ferðir milli Norður- og Suðurlands til Blönduóss og var þá orðið ófært norður. Bifreiðarstjórinn gerði þó tilraun til þess þess að komast norður og var kominn i Langadal, þegar hann neyddist til þess að snúa við. Tók það langan tíma fyrir ferðalangana að komast til Blönduóss aftur. Iðulaus stórhríð geisar nú á Blönduósi og þar i grennd. Í nótt mun veðurhæðin hafa verið um 10 vindstig víða Norðanlands.

Morgunblaðið segir frá snjóflóðinu í fréttapistli 20.nóvember:

Í gærmorgun [19.] féll snjóflóð yfir bæinn Gunnsteinsstaðir í Langadal. Slys urðu ekki á mönnum, en íbúðarhúsið varð fyrir miklum skemmdum. Einnig skemmdust útihús. Í allan gærdag unnu heimamenn við að moka snjó út úr bænum og var því ekki lokið fyrr en seint í gærkvöldi.

Að Gunnsteinsstöðum býr Hafsteinn Pjetursson með konu sinni Guðrúnu Björnsdóttur og börnum sínum, en heimamenn eru 8. Flóðið féll úr svonefndu Gunnsteinsstaðafjalli, sem er í Langadalsfjalli. Klukkan var þá eitthvað nærri 9. Fólk var allt inni í bæ og var aðeins þrennt komið á fætur, er snjóflóðið skall á austurhlið hússins. Skipti engum togum, að húsið því nær fyllti af snjó. Þeim, sem voru í rúmum sínum, tókst að brjótast í gegnum snjóinn í herbergjum sínum fram í eldhús, en þangað náði flóðið ekki og voru þar allir sem komnir voru á fætur. Fjárhúsið, sem stendur rétt fyrir ofan bæinn, því nær eyðilagðist. Steinsteyptur veggur þess lagðist inn í húsið. Þá skemmdist stór skemma, sem í voru tveir bílar. Annar bílanna skemmdist talsvert. Fjósið skemmdist ekki. Rúmlega 20 hross voru í girðingum nokkuð frá bænum og lentu 10 þeirra í snjóflóðinu. Þegar myrkur var skollið á í gærkvöldi, hafði Hafsteini tekist að grafa upp 8 þeirra, en tvö voru því enn ófundin í viðtali við Morgunblaðið í gær rómaði Hafsteinn mjög hjálp manna af næstu bæjum, er komu þegar til hjálpar. Í allan gærdag var unnið að því að moka út úr húsinu og frá því, sem fyrr segir. Kom þá í ljós, að húsið hafði orðið fyrir miklum skemmdum. Það stendur á háum kjallara, steinsteyptum en hæðin er úr timbri. Hafði snjóflóðið rifið þriggja faðma langa rauf í austurhlið hússins. Einnig höfðu skilrúm brotnað og fleira skemmst. Hafsteinn taldi þó að hann myndi fljótlega geta gert við eitthvað af skemmdunum. Hann taldi enga ástæðu til að yfirgefa húsið, „fyrst við yfirgáfum það ekki þegar eftir snjóflóðið“, eins og hann orðaði það. Skemmdir urðu og miklar á öllum girðingum og nokkuð af heyi tók flóðið með sér. Hafsteinn sagðist telja að snjóflóðið myndi vera um 400 metra breitt, þar sem það væri breiðast. Að lokum Sagði Hafsteinn, að sér væri ekki kunnugt um að snjóflóð hefði fallið á þessum slóðum fyrr. Þar hefur nú í vikutíma verið því nær stöðug hríð og óhemju snjó hlaðið niður.

Frá fréttaritara vorum. Það var ömurlegt um að litast hér í gærkvöldi, símaði fréttaritari Morgunblaðsins á Akureyri. Úti var blindbylur, en á heimilunum sátu Akureyringar í svartamyrkri. Allir vegir til og frá Akureyri eru tepptir og engin umferð um götur bæjarins. Undanfarna daga hefur Laxárvirkjunin illa brugðist Akureyringum. Rafmagn hefur verið af mjög skornum skammti og ríkir að sjálfsögðu mikil óánægja meðal bæjarbúa, er telja þetta ástand alveg óþolandi. Eftir hádegi í gær var Akureyri rafmagnslaus og ekkert rafmagn var komið á í gærkvöldi. Úti var öskubylur og komin slík ófærð um götur bæjarins að þær voru illfærar gangandi fólki. Allir vegir til og frá Akureyri hafa teppst og er bærinn því gjörsamlega einangraður af landi.

Leiðin norður til Akureyrar tepptist í fyrrinótt. Einnig tepptist Stykkishólmsvegur. Hraðferðin milli Akraness og Akureyrar varð að snúa við á leið suður til Akraness og eru bílarnir nú á Blönduósi. Hvorki rjómi né skyr verður fáanlegt hér í bænum, þar til
tekist hefur að ryðja leiðina.

Morgunblaðið segir af ófærð 22.nóvember:

Látlaus hríð hefur verið á Húsavík í 10 daga. Í fyrradag stytti upp, eftir 9 daga hríð, en í gær var snjókoma skollin á að nýju og fannfengi. Allir vegir í nærsveitum Húsavíkur eru ófærir bílum og sama er að segja um Húsavík. Þar í bænum eru vel mannhæðarháir skaflar á götunum.

Vetrarbílar Póstmálastjórnarinnar, sem halda uppi ferðum milli Akureyrar og Akranes á vetrum, hafa nú verið teknir í notkun. Færðin norður er mjög þung, en snjóýtur eru að ryðja leiðina á undan bílunum. Frá Akranesi fór einn bíll í morgun áleiðis til Akureyrar. Þá hélt bíll sá áfram ferð sinni norður er snúa varð við sökum ófærðar á dögunum. Þessi bíll kom til Sauðárkróks í fyrrinótt um kl.3 og hélt ferðinni áfram til Akureyrar í gærdag. Búist var við að bíllinn myndi koma til Akureyrar seint í gærkveldi. Einnig fóru bílar frá Akureyri í morgun. Norður í Eyjafirði var í gær mikill skafrenningur og fennti jafnóðum í það sem rutt var.

Tíminn segir frá hríðarveðri og snjóflóði við Öxarfjörð 25.nóvember:

Frá fréttarritara Tímans á Kópaskeri. Aðfaranótt síðastliðins laugardags var afspyrnuveður við Öxarfjörð. Féllu þá snjóflóð í Núpasveit og fórst fjöldi fjár, og margt hrakti í sjó fram vegna veðurofsans. Laugardagsnótt síðastliðna var hér ofsarok, segir i skeyti fréttarritarans, og fórst í því verði nær eitt hundrað fjár, eign Snartarstaðabænda, Guðna og Sigurðar Ingimundarsona. Féll um nóttina snjóflóð mikið úr Snartarstaðanúp og gekk allt í sjó fram. Er talið, að það hafi sópað með sér eða kafið í fönn nær fjörutíu kindur. En af þeim hefir ekki urmull sést. Um sextíu fjár mun hafa hrakið fram af sköflum við sjóinn og niður í fjöruna og farist þar. Hafa 37 kindur þegar fundist sjóreknar. Fjáreign þeirra Snartarstaðabræðra mun hafa verið um 360 kindur, áður en þeir urðu fyrir þessu tjóni.

Desember var nokkuð blandaður. Kaldur í báða enda, en óvenjulega hlýtt um miðjan mánuð. Ingibjörg í Síðumúla segir frá: 

Veðráttan yfirleitt mild og góð fram yfir jól. Síðan hefir verið kalt og hvasst, en úrkomulítið. Fé gekk sjálfala framundir jól, síðan er það hýst um nætur, en beitt að deginum því jörð er að heita má snjólaus.

Morgunblaðið segir af ljósagangi í frétt 6.desember:

Þrumuveður? Í gærkveldi [5.desember] urðu menn í austursveitum varir við allmikinn ljósagang sem bar yfir Mýrdalsjökul. Voru þetta bláleitir blossar, misjafnlega bjartir og alltíðir er líða tók á kvöldið. Í fyrstu óttuðust menn að um eldsumbrot væri að ræða í Mýrdalsjökli, eða fjöllunum þar í kring. En er Morgunblaðið átti tal við Vík í Mýrdal í gærkveld töldu menn þar að um snæljós væri að ræða. Veðurstofan hafði spurnir af ljósaganginum víða að. M.a. höfðu skipverjar á Gylfa, sem var staddur 140 mílur út af Vestmanneyjum orðið ljósanna varir á tímabilinu frá kl. 17—21:30. Var það tilgáta veðurfræðinga, að um þrumuveður við Suðurland eða út af Suðurlandi væri að ræða.

Vísir segir frá veseni í Hvalfirði í pistli 10.desember:

Um 40—50 bátar voru á Hvalfirði í nótt, en ruddaveður hamlaði veiðum. Í nótt og í morgun var svo hvasst á Hvalfirði, að ekki var viðlit að veiða og biða bátarnir þessi, að veður lægi. Ekki er vitað, að neitt tjón hafi orðið á hinum mörgu bátum, er hér liggja á höfninni, fullhlaðnir síld, hvorki í nótt né í morgun.

Morgunblaðið segir 13.desember frá strandi og björgun við Látrabjarg. Björgunarafrekið varð síðar maklega margfrægt um land allt og víðar:

Tólf eða fjórtán breskir sjómenn börðust í allan gærdag og í nótt er leið, harðri baráttu fyrir lífi sínu, undir 200 metra háum hamravegg, Keflavíkurbjargs við Látrabjarg. Skip þeirra Dhoon frá Fleetwood, rúmlega 170 smálestir strandaði undir bjarginu í gærmorgun í myrkri og hríð. Gerðar voru tilraunir úr skipum til þess að bjarga skipbrotsmönnum, en þeim varð ekki viðkomið. Björgun úr landi var ekki möguleg í gær. Sögðu menn í gærkvöldi, litlar líkur til þess að þeim yrði bjargað, en björgunarsveit fer á vettvang í birtingu í dag.

Morgunblaðið segir enn af björguninni 14.desember:

Þrátt fyrir ótrúlega erfiðar aðstæður, tókst björgunarsveitinni frá Hvallátrum í gær að bjarga þeim skipbrotsmönnum, er enn voru á lífi í breska togaranum Dhoon. Af 15 manna áhöfn skipsins var 12 mönnum bjargað. Þrír þeirra létust um borð í skipinu. Björgun skipverjanna mun hafa tekið um það bil tvo klukkutíma. Í nótt er leið létu skipbrotsmenn fyrirberast í fjöruborðinu undir Keflavíkurbjargi. Um land allt er litið á björgun skipbrotsmannanna sem  hið mesta þrekvirki. Slíkt mun heldur ekki vera ofmælt.

Vísir segir 18.desember frá miklum hlýindum:

Sérstök hlýindi eru um land allt, og er hlýjast á Hornströndum og Ísafjarðardjúpi. Þar er nú 10 stiga hiti. Vindur er yfirleitt hvass sunnan um vesturhluta landsins, en má gera ráð fyrir að hann fari minnkandi. Um allan austurhluta landsins er þurrt veður og hæg suðvestan átt með 5—7 stiga hita. Loftþrýsting helst óvenjulega há hæði hér á landi og um Bretlandseyjar, en lægðir halda sér yfir sunnanverðu Grænlandi og vestanverðu Atlantshafi, eins og oft er þegar um óvenjuleg vetrarhlýindi er að ræða hér á landi.

En svo kólnaði aftur - og það verulega. Morgunblaðið segir frá 28.desember:

Það má búast við að vetrarríki verði um land allt næstu daga. En líkur eru til þess, að draga muni úr veðurhæðinni, en ekki mun draga úr frostunum. Um land. alt er norð-norðaustan átt, með 6—8 vindstigum. Frostið er 11—12 stig með ströndum fram, en 14—16 stiga gaddur í innsveitum norðanlands og sunnan. Mest frost mældist í gær 16 stig á Grímsstöðum á Fjöllum. Á Akureyri voru 13 stig, í Reykjavík 11 stig og hefur ekki mælst svo mikið frost á þessum vetri. Á Þingvöllum voru í gær 14 stiga frost. Í gær var snjókoma um Vestur-, Norður og Norðausturland, en víðast hvar þurrt veður um Suðurland.

Vísir segir einnig af kulda og illu veðri 29.desember:

Í óveðrinu, sem geisað hefir hér á landi síðustu dægur, hafa allmiklar bilanir orðið á símakerfinu út um land og er nú sambandslaust frá Reykjavík við ýmsa landshluta. Samkvæmt upplýsingum sem blaðið hefir fengið frá Landssíma Íslands, er nú sambandslaust milli Norður- og Suðurlands. Talsverðar skemmdir hafa orðið á símalínunni milli Borðeyrar og Blönduóss. Er nú verið að ganga úr skugga um hve víðtækar þær skemmdir eru. Sambandslaust er einnig á milli Borðeyrar og Ísafjarðar. Í fyrrinótt mun símalínan milli Sands og Ólafsvíkur á Snæfellsnesi hafa bilað, þar sem ekki náðist samband milli þessara staða í gær. Töluvert hvassviðri var á þeim slóðum í gær og hefir ekki verið unnt að athuga skemmdir nánar. Sambandslaust er milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði. Hinsvegar er samband milli Víkur í Mýrdal að Núpsstað, en bilað frá Varmahlíð undir Eyjafjöllum og að Vík. Mjög er erfitt að rannsaka skemmdir á línunni, þar sem mikið hvassviðri er nú undir Eyjafjöllum. Óttast menn að um allvíðtækar skemmdir sé þar að ræða, en að svo komnu máli er allt óvíst um það. Strax og veður leyfir mun verða hafin viðgerð á línunum, sem bilað hafa. Norðanáttin er nú að ganga niður víðast hvar um landið, en undanfarna daga hefir allmikil fannkoma verið um allt Norðurland, og þó meira til hafsins en til sveita. Hér sunnanlands hefir bjartviðri verið alla dagana en töluverður strekkingur og kuldi.

Morgunblaðið segir frá hitaveituvandræðum í pistli 30.desember:

Víða í bænum hefur orði tjón og óþægindi af því að frosið hefur í vatnslögnum, miðstöðvarofnum og hitaleiðslum. Stafaði það af hinu mikla frosti, sem komst um tíma upp í 11 stig, en veðurhæðin var um 9 stig. Morgunblaðið hefir fengið hjá Hita- og vatnsveitu Reykjavíkur eftirfarandi ráðleggingar til almennings til að forðast tjón og óþægindi, ef frostið skyldi herða á ný. Hafið ekki opna glugga. Það skal brýnt fyrir fólki að hafa ekki opna glugga nálægt miðstöðvarofnum sem ekki er hiti á, óeinangruðum vatnspípum heitum eða köldum, eða vatnsmælum hitaveitunnar. Sama gildir um vatnssalerni bæði vatnskassa og skálar. Sum staðar hefir frosið í frárennslispípum hitaveitunnar, þar sem þær eru óeinangraðar á háaloftum. Fólk ætti að gera við eða byrgja brotnar rúður og loftrásir, loka gluggum að nætur lægi sérstaklega í óupphituðum herbergjum sem leiðslur liggja um. Þá ætti að vefja pípur með einhverju sem einangrar og breiða teppi eða þ.h. yfir vatnsmæla ef hætta er á að þeir frjósi, svo og þensluker og heitavatnsgeyma, séu þeir ekki einangraðir. Nauðsynlegt að þíða strax. Ef vatn frýs í pípum eða tækjum, ætti strax að reyna að þíða hið frosna, því annars er hætta á að það rifni. Rétt er að fá pípulagningamenn til hjálpar ef fólk getur þetta ekki sjálft. Það er ekki einasta að tjón og stundaróþægindi hljótist af rifnum leiðslum og tækjum, heldur er sumt af þessu með öllu ófáanlegt eins og stendur.

Tíminn segir 30.desember frá tjóni í illviðrinu:

Í óveðrinu um jólin urðu miklar símabilanir víða um land. Sambandslaust er með öllu við allt Austurland og við Norðurland frá Borðeyri. Unnið er að því að mæla út og staðsetja þessar bilanir, en strax að því loknu verður hafist handa um viðgerðir, ef nokkur tök verða á því vegna veðurs. Austur undir Eyjafjöllum er alvarleg bilun á símanum, sem erfitt mun reynast að gera við, fyrr en veður breytist til batnaðar. Þar hefir vatnsfall ruðst úr farvegi sínum og rifið símalínuna niður á um það bil 150 metra löngum kafla. Mittisdjúpt vatn er á öllu þessu svæði og línan slitin. Vegna þessarar bilunar er sambandslaust við allt Austurland, en þó er aðeins lélegt samband stöku sinnum við Vík í Mýrdal.svo að þaðan hefur verið hægt að koma veðurfregnum. Frá Vík er allgott samband austur, en í Öræfunum er svo önnur bilun. sem ekki er vitað, hversu víðtæk er. Í gær var sambandslaust við Snæfellsnes, en nú er samband aftur komið þangað. Hins vegar er beina linan til Ísafjarðar slitin einhvers staðar í Borgarfirðinum, en að öðru leyti eru ekki miklar bilanir á Vestfjarðalínunni. Símasamband er norður í land til Borðeyrar og eitthvað norður á Strandir. Hins vegar er síminn bilaður norður og austan frá Borðeyri og sambandslaust við Siglufjörð og Akureyri þaðan. Ekki er enn vitað hversu víðtækar bilanir er um að ræða á þessari leið, en líkur eru til þess að um bilun sé að minnsta kosti að ræða í Langadal. Frá Sauðárkróki er veikt samband til Siglufjarðar, en sambandslaust er frá Siglufirði til Dalvíkur og þaðan til Akureyrar. Ritsímasamband var þó við Akureyri í gær.

Milli jóla og nýárs lenti vélbáturinn Björg frá Djúpavogi í hrakningum - og var um tíma talinn af. Hann fór í róður á öðrum degi jóla, en kom ekki fram fyrr en þann 4.janúar. Þýskur togari bjargaði mönnunum sem voru búnir að hrekjast um á vélarlausum bát í 8 sólarhringa. 

Lýkur hér frásögn hungurdiska af veðri og veðurfari ársins 1947. Talnasúpa er að venju í viðhengi. 

Viðbót - um tvær smálægðir: 

Við lítum nú nánar á smálægðirnar tvær sem komu að landinu 6. og 8. febrúar. Endurgreiningar ná þeim ekki vel, en gera þó tilraun. Kalt loft var við landið og andaði einkum af norðri í háloftunum. Lægðardrög bárust þó með norðanáttinni þannig að háloftavindur snerist til vesturs af og til. Sömuleiðis virðist kalda loftið hafa verið mjög óstöðugt. 

Slide3

Hér má sjá klippu úr þrýstirita úr Reykjavík dagana 6. til 8. febrúar 1947. Fyrri lægðin virðist hafa komið úr norðaustri og farið suðvestur yfir landið - eða þannig leit veðurfræðingur á vakt á málið. Við skulum muna að athuganir voru mjög gisnar, engar gervihnattamyndir, veðursjár eða tölvuspár. En loftvog féll mjög ákveðið í Reykjavík á undan fyrri lægðinni - en hreyfðist ekki mjög mikið á öðrum stöðvum. Einnig hvessti talsvert á undan lægðinni. Vindur fór í að minnsta kosti 8 vindstig í Reykjavík um tíma um morguninn - og það kastaði éli. Úrkoma var þó ekki mikil að magni til. 

Slide2

Bandaríska endurgreiningin (500 hPa) sýnir að nokkuð snarpt lægðardrag virðist hafa farið yfir landið þarna um nóttina, en er komið suður af kl.6 um morguninn þann 6. Ekkert sést á grunnkortinu. 

Slide4

Kort veðurfræðings á vakt er nokkuð óvenjulegt. Það gildir kl.5 (að íslenskum tíma - sami tími og bandaríska greiningin). Ritstjóranum fannst, þegar hann sá kortið í fyrsta sinn, að það væri nokkuð djarflega dregið - engar upplýsingar að hafa í raun um lægðina. En þegar litið er á þrýstiritið og þá tilviljun að braut lægðarinnar fari nærri Reykjavík og að hreyfing loftvogarinnar er langmest þar fer hann heldur að hallast að því að þetta kunni að vera nærri lagi hjá vakthafandi. Textaspárnar (þær sem lesnar voru í útvarp og sendar út í síma) réðu auðvitað ekkert við þetta - frekar en við er að búast.

Slide5

Seint þann 7. kom svo annað lægðardrag úr norðri (kortið að ofan gildir á miðnætti það kvöld). 

Slide6

Sem fyrr sést ekkert á grunnkortinu. Dálítið lægðardrag við Vesturland. En þetta lægðardrag dýpkaði og kemur betur fram á síðdegiskortinu þann 8. 

Slide7

Þá gekk eldingaveður yfir Rangárvallasýslu og fólk í Mývatnssveit sá leiftur og grunaði eldgos. Snjó dengdi niður í uppsveitum Borgarfjarðar og vestur í Dölum. Einkennilegt veður.

Slide8

Hér má sjá Íslandskortið um hádegi þann 8. Veðurfræðingur á vakt setur tvær lægðarmiðjur í lægðardragið - kannski með réttu. Hita er mjög misskipt. Fer sjálfsagt mest eftir því hvort kalt loft situr eftir neðan grunnstæðra hitahvarfa eða hefur hreinsast burt. Ákveðin sunnanátt er á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, en óráðin átt vestanlands. 

Slide9

Háloftalægðardragið virðist síðan hafa búið til sérstaka háloftalægð vestan til á Grænlandshafi og fjarlægst landið. Heiðríkjan tók við upp úr því. 

Einkennileg veðurtilbrigði í einkennilegum veðramánuði. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 2476
  • Frá upphafi: 2434586

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 2200
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband