Mjög rakt loft

Eitt þeirra fjölmörgu veðurkorta sem æstustu veðurnörd þessa lands fylgjast grannt með er það sem sýnir svokallað „úrkomumætti“ (á guðamálinu „precipitable water“). Hversu mikið vatn væri hægt að kreista út úr fermetravíðri súlu beint ofan við hvern stað (alveg uppúr). Það sem sett er á kortin eru millimetrar (mögulegrar) úrkomu. Hér á landi finnst manni 20 mm nokkuð mikið og fari gildin yfir 30 fer maður aðeins að óróast. 

En vatnsmagnið eitt og sér sagir auðvitað ekkert um úrkomuna. Til að af henni verði þarf að kæla loftið (oftast með því að lyfta því). Svo lengi sem ekkert - eða lítið - uppstreymi á sér stað liggur vatnsgufan róleg innan um aðrar lofttegundir - myndar kannski örsmáadropa (mistur) eða aðeins stærri (þá ský). 

Flestir sem á annað borð eru í því að skoða veðurkort fylgjast vel með úrkomuspám, úrkomusvæðum og skilum og þess háttar. Nú er málum þannig háttað að spár gera nú ekki ráð fyrir verulegri úrkomu á morgun (föstudag 16.júní) og ekki heldur á þjóðhátíðardaginn. Þess vegna kemur úrkomumættiskort morgundagsins nokkuð á óvert (eða þannig).

w-blogg150623a

Spáin gildir kl.15 á morgun, föstudag. Á bleiku svæðunum er úrkomumættið um og yfir 20 mm og fer upp í meir en 30 mm yfir Úthéraði. Við megum taka eftir því að Bárðarbunga stendur upp úr mesta rakanum (rakamagn er langoftast langmest í neðstu lögum), þar er úrkomumættið ekki nema 10 mm (en það er samt allhá tala miðað við hæð staðarins). Úrkomuspá igb-líkansins sýnir að vísu talsverðar skúrir á stangli í innsveitum á Norðausturlandi - en bara rétt á stangli og ekki víst að af þeim verði. Svo er lítilsháttar úrkomu spáð á blettum vestanlands. 

En svona er það stundum - nægilegt vatn til flóða, en enginn nennir að lyfta því, úr- og ístreymi er ekki rétt raðað til þess og svo virðist sem sólarylur ætli ekki að duga (sé úrkomuspáin rétt). En - við skulum þó líta á annað spákort igb-líkansins.

w-blogg150623c

Þetta kort gildir líka síðdegis á morgun (föstudag) og sýnir svokallað veltimætti. Við skilgreinum það svo: 

Veltimætti (CAPE – convective available potential energy) er sú staðorka sem loftböggull öðlast við að vera lyft innrænt frá þéttingarhæð og upp í hæð þar sem flotjafnvægi ríkir. Veltimættið er mest þar sem þurrt loft liggur yfir mjög röku hlýju lofti. 

Þetta hljómar auðvitað ekki mjög skýrt - en er samt mælikvarði á afl skúra- eða þá jafnvel þrumuveðra. Gildin sem við sjáum yfir landinu austanverðu eru nokkuð há - sem táknar á mannamáli að takist sólarylnum að komast upp úr hitahvörfum (sem útgeislun næturinnar - og hafgola dagsins í dag er búin að búa til) verður mikill lóðréttur ruðningur og dembur stórar - jafnvel þrumur. Veltimættið sem evrópureiknimiðstöðin tilgreinir yfir Austfjörðum á morgun er líka mikið - óvenjumikið reyndar. 

En allt er þetta bara „mætti“ - það er ekkert víst að neinn umturnist - en líkur þó greinilega miklu meiri austanlands heldur en vestan. Við verðum ekkert óskaplega hissa þótt einhvers staðar vökni.

Þetta raka loft á að liggja yfir landinu næstu daga. Á sunnudaginn kemur þurrara loft úr vestri - niðurstreymisafurð frá Grænlandi.

w-blogg150623b

Úrkomumættið er þá enn yfir 20 mm víða um land, en er ekki nema 5 til 6 mm í þurra loftinu (sem er þó ekkert afburðaþurrt). Þarna eru einhvers konar skil á ferð - þurrt loft sækir að röku. Spár gera ráð fyrir því að talsvert rigni í framhaldinu - kaldara loft tekst á við það hlýja og raka. Of snemmt er að velta sér upp úr því (þó „froðumætti“ ritstjóra hungurdiska sé sé mikið er leti hans meiri).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband