Hugsað til ársins 1957

Árið 1957 þótti hagstætt, nema fyrstu mánuðirnir. Úrkoma var undir meðallagi. Hiti var yfir meðallagi. Janúar var sæmilega hagstæður framan af, en síðan var veðurlag mjög óhagstætt á Suður- og Vesturlandi, með mikilli ófærð, illviðrum og slæmum gæftum. Febrúar var óhagstæður, nema á Suðausturlandi. Samgöngur mjög erfiðar, en úrkoma ekki mikil. Gæftir sæmilegar. Veður voru hæglát í mars en snjóþyngsli mikil. Hreindýr féllu úr hor. Gæftir góðar. Í apríl var tíð hagstæð og hlý. Gæftir góðar. Í maí var heldur kalt og óhagstætt fyrstu þrjár vikurnar, en síðan tók gróður vel við sér. Gæftir góðar. Í júní var tíð hagstæð á Vesturlandi, en annars staðar var hún óhagstæð gróðri. Engin úrkoma mældist í Reykjahlíð í júní. Gæftir voru góðar. Júlí var hagstæður um land allt. Þurrkar góðir, heyskapur gekk vel. Tíð var hæglát í ágúst, mjög hagstæð á Norður- og Austurlandi, en annars þurrkar daufir. Í september var tíð hagstæð nema norðaustanlands, þar voru óþurrkar. Uppskera úr görðum góð, heyfengur góður. Berjaspretta með afbrigðum góð. Október var umhleypingasamur, en fyrri hlutinn talinn hagstæður. Gæftir voru stopular. Mjög hagstæð tíð var í nóvember, nema fyrstu vikuna. Fyrri hluti desember var hagstæður, en síðan varð tíð órólegri og þá spilltist færð. Gæftir voru slæmar.

Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Textar úr dagblaðinu Tímanum verða mjög fyrir valinu þetta ár. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn úr gagnagrunni Veðurstofunnar. Talnasúpu má finna í viðhenginu.

Einstakir atburðir eru rétt utan seilingar minnis ritstjóra hungurdiska. Hann man þó vel hið sérlega góða sumar (svona eiga sumur að vera) og illviðrið mikla á aðfangadagskvöld jóla. Einnig man hann vel tal um hina miklu ófærð vetrarins. Sumum lesendum kann að þykja hún fá óþarflega mikið vægi hér - en ritstjórinn biður forláts og vísar til persónulegra ástæðna.

Tvær verulegar illviðrasyrpur gengu yfir í janúar. Sú fyrri var af vestri og stóð yfir vikuna 13. til 20. Gríðarmikil hæð var fyrir sunnan land en lægðir tróðust til norðausturs með austurströnd Grænlands. Síðari syrpan hófst síðan nokkrum dögum síðar og stóð út mánuðinn, og rétt rúmlega það. Mjög djúpar lægðir fóru hjá landinu, sumar yfir það og ollu hvassviðrum af ýmsum áttum og mikilli úrkomu, oftast snjókomu. 

Janúar byrjaði ekki illa þó alldjúpar lægðir færu hjá:

Tíminn segir frá 5.janúar: 

Frá fréttaritara Tímans á Sauðárkróki. Hér í Skagafirði hefur verið einmunatíð síðan fyrir jól, stöðugt logn og hlýindi. Hér er nú ágætur afli inni í firði og er það óvenjulegt á þessum tíma árs. Stunda trillur héðan frá Sauðárkróki veiðar í net og afla vel. Mikil áta er
í sjónum.

Þann 5. snjóaði nokkuð um landið sunnanvert. Tíminn segir frá 6.janúar:

Í gær hlóð niður talsverðum snjó á Suðurlandsundirlendinu og í Reykjavik, en hvergi þó svo að til verulegra umferðatálmana kæmi. Vegurinn fyrir Hvalfjörð var ágætlega fær í gærkvöldi síðast þegar blaðið hafði spurnir af og sömu sögu er að segja á öðrum aðalvegum út frá Reykjavík. Hætt er við að færð spillist ef hvessir og skaflar geta myndast á vegunum.

w-1957-p-jan

Rauði ferillinn á línuritinu sýnir lægsta þrýsting á landinu á 3 klukkustunda fresti frá 12. janúar til 3. febrúar. Blágráu súlurnar eru hins vegar þrýstispönn yfir landið, munur á hæsta og lægsta þrýstingi hvers athugunartíma. Allgott samband er á milli þrýstispannar og meðalvindhraða landsins. Staðbundin veður koma síður fram. Mjög óróleg tíð var þessar þrjár vikur. Í fyrstu var þrýstingur nokkuð hár, en síðan kom mjög svalt loft í háloftum vestan frá Kanada og ríkti við landið frá og með þeim 20. Það loft var mjög óstöðugt, snjókomur miklar og þrumuveður tíð. Lægðir voru mjög djúpar. 

Fyrri illviðrasyrpan náði hámarki þann 14. og 17./18. janúar, þótt hvasst væri líka aðra daga. Eðlilegt er að þessum tveimur veðrum verði einhvern tíma ruglað saman - en af fréttum sem bárust af fyrra veðrinu áður en það síðara skall á sýna vel hörku þess.

Slide1

Mynd sýnir þrýstirit frá Galtarvita dagana 7. til 21. janúar. Allmikil lægð gekk hjá þann 10., en frá því síðdegis þann 13. þar til eftir kl.15 þann 18. var stöðugt illviðri á Galtarvita. Við sjáum það meira að segja á loðnum ferli þrýstiritans, mikið sog virðist hafa verið í vitavarðarhúsinu.

Slide3

Kortið er úr safni bresku veðurstofunnar (UK-Met Office) og sýnir veðrakerfi og athuganir um hádegi þann 14. janúar. Þá slær háloftaröstin sér niður á Vestfirði og landið norðanvert. 

Slide4

Daginn eftir fór þrýstingur í um 1050 hPa vestur af Skotlandi. Þar var miðja gríðarmikillar hlýrrar hæðar. Þótt öflugar hæðir séu algengar á þessum slóðum á þessum árstíma er þessi hæð í flokki þeirra allraöflugustu. Hiti fór víða í meir en 10 stig á Norður- og Austurlandi þessa daga.  

Slide5

Næsta lægð tróð sér norðaustur milli Vestfjarða og Grænlands þann 17. og 18. Kortið gildir kl.6 að morgni þ.17. þegar kuldaskil nálguðust. 

Slide6

Klukkan 9 voru kuldaskilin rétt vestan við land. Vindur var minni á Suðurlandi heldur en fyrir norðan og vestan. 

Slide7

Háloftakort (500 hPa) á hádegi 17. janúar (bandaríska endurgreiningin).

Tíminn er með fréttir frá Flateyri og Ísafirði 15.janúar:

Frá fréttaritara Tímans á Flateyri í gær. Hér í Önundarfirði gerði aftakaveður af vestri í nótt [aðfaranótt 14], og var hvassviðrið með eindæmum. Stóð veðrið fram eftir degi en var verst í morgunsárið. Miklir skaðar hafa orðið, einkum á einum bæ, Vífilsmýrum innarlega í Önundarfirði.Þar fuku fjárhús og hlöður og fjós stórskemmdist. Einn maður slasaðist illa í veðri þessu.

Snemma í morgun hleyptu bændum á Vífilsmýrum, sem eru tveir, fé sínu út úr húsum. Rétt á eftir tók þakið af fjárhúsunum tveim, sem Kristinn Guðmundsson, bóndi átti og einnig af hlöðu og kastaði þessu langt brott. Einnig tók þak af fjárhúsi og hlöðu Guðjóns Hálfdánssonar bónda. Fjós skemmdist einnig allmikið á bænum. Hjá Kristni fauk mikið hey, líklega um hundrað hestar og einnig eitthvað hjá Guðjóni. Nágrannarnir þustu að til hjálpar, og einnig fóru menn á bíl frá Flateyri með yfirbreiðslur og fleira til hjálpar. Óku þeir að Vífilsmýrum og lögðu bílnum á ská upp í veðrið neðan við bæinn og héldu af stað heim. En þeir voru skammt komnir þegar þeir sáu, að veðrið svipti bílnum á hliðina, feykti honum síðan um 10 metra leið, en þar hvolfdi honum í mýri. Þetta var þó fimm tonna vörubíll. Enginn var í bílnum. Um sama leyti slengdi veðrið einum mannanna, sem komið hafði með bílnum, til jarðar og hlaut hann mikið höfuðhögg og lá í öngviti. Var það Guðmundur Arason, bóndi í Kotum. Var hann borinn til bæjar og raknaði þar við. Læknir kom til hans. Hafði hann fengið heilahristing og marist, en var óbrotinn. Var hann fluttur í sjúkrahús í gærkveldi og töluvert þungt haldinn. Á ýmsum öðrum bæjum urðu smá skaðar. Á Flateyri fauk þak af nýbyggðum peningshúsum sem 1 Magnús Jónsson átti. Nú er veðrið að lægja, en þó hefir verið mjög hvasst í allan dag.

Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði í gær. Ofsaveður af norðvestri hefir verið hér síðari hluta nætur og í dag en var verst í morgun. Ýmsir skaðar hafa orðið hér um slóðir en þó ekki stórvægilegir. Allstór vélbátur slitnaði upp í Súgandafirði og rak upp á sker. Veður og sjógangur var svo mikill, að bátarnir í Bolungavík héldust ekki við brimbrjótinn þar og urðu að halda út. Komust þeir heldur ekki til hafnar á Ísafirði og urðu að andæfa fram eftir öllum degi úti í Djúpi. Ekkert mun þó hafa orðið að hjá þeim. Á Ísafirði var veðrið svo mikið, að Pollurinn rauk sem snædrífa að sjá. Órólegt hefir verið í bátahöfninni. Rákust bátar mjög saman og brotnuðu nokkuð og skemmdust. Munu t.d. borðstokkar hafa brotnað á einum þrem bátum. Á Súgandafirði lá Freyja eldri við festar á legu. Er það allstór bátur og í góðum færum. Slitnaði báturinn upp og rak upp á sker í firðinum. Situr hann þar og óttast menn að hann sé brotinn og stórskemmdur. Á Hafrafelli í Skutulsfirði tók þak af hlöðu og fjósi og fauk það út á Poll. Hús þessi eru eign Gunnars Guðbjörnssonar. Klukkan hálfátta í morgun varð rafmagnslaust, höfðu spennistöðvar við bæi bilað. Línan til Suðureyrar stóðst þó veðrið vel. Var rafmagnslaust hér til kl. 11 í morgun. Í dag var kafald öðru hverju, en í kvöld er farið að rigna og veður að lægja en er þó enn allhvasst. — GS.

Og daginn eftir, 16.janúar, voru fleiri fréttir í Tímanum:

Frá fréttaritara Tímans í Ólafsfirði í gær. Stórviðri eitt hið mesta gekk hér yfir í gær [14.] og olli margvíslegu tjóni í bænum og sveitinni. M.a. sprakk leiðsla frá olíugeymi Shell norðan við bæinn og runnu um 200 þúsund lítrar af bátaolíu úr geyminum, að mestu í sjó fram. Hér hefur einmuna mild tíð verið síðan á Þorláksmessu, en allstormasamt. Í fyrrinótt skall á vestan rok og stóð fram yfir hádegi í gær. Er þetta eitt hið mesta veður, sem hér hefir komið lengi. Urðu ýmislegar skemmdir í veðri þessu. Á Þverá fauk 50—60 hesta uppborið hey að mestu í heilu lagi, svo að nær ekkert sat eftir. Átti það Magnús Sigurðsson bóndi á Þverá. Á Vermundarstöðum fauk þak af votheyshlöðu og á Syðriá á Kleifum fauk bílskúr. Hér í bænum urðu ýmsar smærri skemmdir. Járnplötur sleit af mörgum húsum, og fuku þær um, svo að um tíma var mannhætta að vera á ferli í bænum. Í morgun tóku menn eftir því að olía hafði runnið frá stórum olíugeymi, sem Shell á hér, og stendur norðanvert við bæinn. Þegar nánar var að gáð var geymirinn tómur, og höfðu þarna runnið niður um 200 þús. lítrar af olíu. Höfðu leiðslur sprungið við geyminn. Olían hafði að mestu runnið í sjó fram, og var mikil olíubrák á sjónum. Telja menn, að veðrið hafi skekið geyminn svo til, að leiðslurnar hafi nuddast sundur. — BS.

Akureyri: Á mánudaginn [14.] gerði hér alveg óvenjulegt hvassviðri af norðvestri og telja sumir veðurhæðina meiri en orðið hefir í áratug eða meira, einkum mun þó hafa verið hvasst í útsveitum Eyjafjarðar og í Grímsey. Á Akureyri og í grennd urðu ekki skemmdir af veðrinu svo að teljandi sé, en rafmagnslaust var um stund, er stíflulok féll fyrir vatnsæð í Laxárvirkjun, en ekki var sú truflun langvinn. Hér er annars hlýviðri á degi hverjum, jörð alauð og vegir greiðfærir.

Fosshóli: Í rokinu á mánudaginn fauk þak af fjárhúsi á Birningsstöðum í Fnjóskadal. Gekk ofsaveður yfir sunnanverðan dalinn. Veðrið fór með þakið og hraut ofan af torfveggjum, þeytti burt dyraumbúnaði og jötustokkum, og er allt gjörónýtt. Bóndi á Birningsstöðum er Ferdínand Jónsson.

Þingeyri í gær. — Hið versta vestan hvassviðri gekk hér yfir í fyrrinótt og gær [14.] og varð af nokkurt tjón, en þó hvergi í stórum stíl. Járnplötur og þök fuku af húsum, einstaka bátur skemmdist lítillega og fleiri smávegis skemmdir urðu.

Í gær hafði blaðið tal af Jósúa Magnússyni, sem ekið hefir áætlunarbifreiðum milli Reykjavíkur og Akureyrar í þrettán ár og segist hann ekki muna eftir jafngóðu vetrarfæri á norðurleið og nú um þessi áramót. Um jólin var vegurinn alauður alla leið til Akureyrar og mun það mjög fátítt á þeim tíma árs.

Tíminn segir af góðri færð 17.janúar - og síðan enn af illviðrinu þann 14.:

Frá fréttaritara Tímans í Þingvallasveit. Það getur varla heitið að snjó hafi fest í byggð hér í Þingvallasveit, það sem af er þessum vetri. Nú er nær alauð jörð í byggð og vatnið íslaust með öllu. Kann að vera að eitthvað sé um veiði í net ennþá.

Í aftakaveðri því, sem gekk yfir vestan- og norðanlands í fyrradag varð veðurofsi og hafrót með þeim fádæmum, að menn hafa ekki séð þær hamfarir öllu meiri þar. Olíugeymir, sem Olíufélagið á í Grímsey færðist til á grunni undan briminu, nokkur olía rann niður, en heimamönnum tókst með harðfylgi að stöðva rennslið. Geymir þessi er nýlega byggður, tekur um 140 lestir, en í honum voru nú 60—70 lestir. Hann stendur á mjög traustri og sterkri undirstöðu, gerðri á klöpp og stendur um sex metra ofan við venjulegt sjávarmál. Brimið gekk svo hátt, að braut á geyminum af slíku afli, að hann færðist til á grunninum, þrátt fyrir þungann, um hálfan metra. — Rofnuðu að sjálfsögðu leiðslur frá honum, og rann allmikið af olíu niður, eða um 30 lestir, en þá tókst heimamönnum með harðfylgi að komast út að geyminum og skrúfa fyrir aðalloka. Undirstöður geymisins hreyfðust ekki. Særokið var svo mikið yfir eyna að hún má heita öll sæstokkin, og óttast menn að gróðurland hafi beðið hnekki við. Grímseyingum tókst að bjarga bátum sínum svo undan sjá áður en hamfarirnar skullu yfir, að þá sakaði ekki.

Tíminn 19.janúar: 

Frá fréttaritara Tímans í Reykhólasveit. Um helgina [13.] fauk samkomuhúsið í Gufudal í Gufudalshreppi. Tók það af grunninum og kom niður í túnið og brotnaði við það í spón. Samt er talið að hægt sé að bjarga einhverju af nothæfu timbri úr brakinu og er verið að vinna að því. Eins og kunnugt er, þá var mikið hvassviðri á þessum slóðum um helgina. Fauk einnig þak af hesthúsi, við samkomuhúsið í Berufirði í Reykhólasveit, en ungmenna félagið þar átti húsið. Samkomuhúsið í Gufudal var eign Gufudalshrepps og ungmennafélagsins og var þinghús hreppsins og skemmtistaður. Þetta var lítið hús, 4x8 m, byggt úr timbri og klætt járni og byggt fyrir tuttugu og sjö árum.

Frá fréttaritara Tímans í Vopnafirði í gær. Í dag [18.] milli kl.1 og 2 slitnaði vélbáturinn Báran NS-18 af bóli sínu í bátahöfninni, rak út höfnina og strandaði á skeri. Mun báturinn vera eyðilagður eða stórskemmdur, og fer þar með síðasti dekkbáturinn, sem Vopnfirðingar eiga.

Blaðið átti í gærkveldi tal við Pál Bergþórsson veðurfræðing um óveður það, sem gekk yfir landið undanfarin dægur og í gær. Sagði hann, að þetta suðvestan hvassviðri væri þá komið um allt land og mundi vart hvessa meira í þetta sinn. Með nóttinni var búist við, að veðrið snerist í norðvestur og kólnaði þá um leið, en ekki yrði teljandi frost eða snjókoma hér suðvestan lands, en búast mætti við éljum eða snjókomu norðan lands.

Flateyri í gær. Í Önundarfirði, einkum á Flateyri, urðu miklir skaðar af ofsaveðri í nótt sem leið [aðfaranótt 18.]. Hefir fokið fiskaðgerðarhús og fiskhjallur, einnig skemmdust íbúðarhús, og munaði litlu, að meiðsli yrðu á mönnum. Veðrið sópaði fiskhúsinu, sem er eign Kaupfélags Önfirðinga, á brott, svo að aðeins stóðu eftir grunnstöður og veggpartur. Fauk brak úr húsinu á íbúðarhús, sem nærri stóð, en þar býr á efri hæð, Trausti Friðbergsson kaupfélagsstjóri ,en á neðri hæð Guðmundur Jónsson, starfsmaður kaupfélagsins. Brotnuðu gluggar í húsinu, og var fólk í hættu af glerbrotum, sem þeyttust inn. Brak fauk einnig á bílskúr, fór inn úr vegg hans og braut rúður í bíl. Þá fauk einnig hjallur með allmiklu af fiski, sem ísfell átti. — Skemmdist fiskurinn nokkuð, en fauk ekki teljandi. Enn var veður mikið í Önundarfirði og óttuðust menn þá, að enn myndi hvessa. Nokkuð tjón mun hafa orðið á bæjum í Önundarfirði, en þó var hvergi vitað um stórtjón í gærkveldi.

Haganesvík í gær. Í Haganesvík og þar í kring urðu ýmsar skemmdir í fárviðri því sem staðið hefir undanfarið. Þak tók af gistihúsi staðarins í heilu lagi. Allar símalínur slitnuðu s.l. mánudag og var símasambandslaust í tvo daga. Meiri og minni skemmdir hafa orðið til sveita og hey víða fokið og skemmst. Síðastliðinn mánudag [14.] brast á suðvestan ofsaveður í Haganesvík. Þakið fauk af gistihúsinu í heilu lagi og hluti af þaki sölubúðar kaupfélagsins. Símasambandslaust var frá því á mánudag þar til í fyrradag, vegna þess að allar langlínur slitnuðu. Að Lundi í Holtshreppi fauk þak af hundrað kinda fjárhúsi og varð bóndinn að koma fénu fyrir á næstu bæjum. Á Bjarnargili fauk járn af þaki íbúðarhússins og einnig sextíu til sjötíu hestar af heyi. Á Brúnastöðum og Stór-Holti fauk af íbúðarhúsunum og á Sléttu fauk hey og hluti af fjárhúsþaki. Að Litla-Holti fauk hey en náðist aftur að mestu. Einstök hlýindi hafa verið að undanförnu og er jörð alauð, og er slíkt fátítt um þetta leyti árs. Í gær var suðvestan hvassviðri í Haganesvík. SE.

Í fyrrinótt [aðfaranótt 18.] var veður fádæma hvasst í Patreksfirði og jafnframt stórrigning. Á bænum Stapadal urðu miklar skemmdir. Þar fuku tvö fjárhús alveg og þak af hlöðu. Margt fé var í húsunum og fannst ein kindin dauð. Þar býr Einar Ásgeir Torfason. Allmikið af heyi fauk úr hlöðunni. Allmikið rok gerði í Stykkishólmi í fyrrinótt, með verri veðrum sem orðið hafa þar í vetur. Skemmdir urðu þó ekki svo teljandi sé nema á einum stað fauk allmikið af heyi, kýrfóður eða meira. Heyið fauk allt úr stórum galta og skemmdist þó meira en fauk.

Tíminn segir þann 19.janúar einnig frá sjávarflóði á Álftanesi - og fleiri skaðafréttir að vestan: 

Í fyrrinótt og gærmorgun urðu stórfelldar skemmdir af völdum sjávargangs á Álftanesi. Brimið, sem gekk hátt á land, braut mörg skörð í sjóvarnargarðinn og sópaði honum að kalla burtu á köflum og bar grjót og sand á ræktunarland jarða og stórskemmdi það. Þá rann sjór inn í Bessastaðatjörn, svo að allir hólmar fóru í kaf, og er stíflan fyrir tjarnarósnum í bráðri hættu. Eyðileggingin mest á morgunflóðinu. Á kvöldflóðinu í fyrrakvöld gekk sjór allhátt, en ekki svo að stórvirki yrðu að, en á morgunflóðinu í gærmorgun gekk sjórinn úr öllum ham og braut á skömmum tíma víða skörð í varnargarðinn yst á nesinu. Garður þessi er ekki fullgerður, en verið unnið að honum undanfarin ár. Brimið braut víða stór skörð í garðinn og flæddi inn um þau og sópaði burt löngum köflum hans. Þá gekk brimið upp á tún og ræktunarlönd og bar á þau sand og grjót. Voru bæir yst á nesinu umflotnir í gær árdegis. Miklar skemmdir urðu á mörgum bæjum, og má segja að um einhverjar skemmdir sé að ræða á öllum jörðunum vestan á nesinu, en einna mestar á Breiðabólstöðum, Akrakoti, Grund og Sveinskoti. Sjór gekk yfir veginn og bar á hann stórgrýti, og var hann ófær um skeið. Er enn sjór víða á túnum og mýrarsundum þarna. Sjórinn flæddi yfir allt eiðið milli sjávar og Bessastaðatjarnar, og hækkaði yfirborð tjarnarinnar um 25—30 cm. Mikil fylla var þó í tjörninni eftir langvarandi rigningar, þar sem affallið hafði ekki haft undan. Nú eru allir hólmar í tjörninni komnir í kaf. Stíflan, sem gerð hafði verið fyrir tjarnarósinn, og er mikið og dýrt mannvirki, stendur enn, en er auðsjáanlega í mikilli hættu. Eru mikilsverðar framkvæmdir í hættu, ef hún brestur, t.d. er á góðum vegi að myndast gott æðarvarp í hólmum í tjörninni eftir að tjörnin var friðuð fyrir sjávargangi. Tjón það, sem hér hefur orðið, verður ekki metið þegar í stað, en vafalaust nemur það hundruðum þúsunda króna, bæði fyrir hið opinbera og bændur. Ræktarland þeirra er stórspillt, og mikið verk að hreinsa af því. Af þessu og fyrri ágangi sjávar er auðsætt, sagði Sveinn, að aðeins er um tvennt að velja, annað hvort að menn gefist upp á því að búa hér, eða að varnaraðgerðum verði hraðað og lokið, því að verði sami seinagangur á framkvæmdum, eyðileggur sjórinn jafnharðan það, sem gert er. Ég tel, að öflugur varnargarður hefði staðist raunina, einkum ef hann hefði verið gerður úr nógu stóru grjóti. Það sést, að þar sem grjótið í honum hefir verið nógu stórt, hefir hann staðist, en þar sem smærra var grjótið, hefir hann látið undan. Það væri illt til þess að vita, ef þessar jarðir færu í eyði þar sem hver blettur er ræktaður.

Í fyrrinótt og gærmorgun gekk fárviðri yfir Vestfirði og varð stórfellt tjón á Flateyri, og einnig bárust í gærkvöldi fregnir um skaða á Suðureyri í Súgandafirði. Óttast er, að skemmdir hafi víðar orðið. Ekki var talssamband við Vestfirði í gær, og eru fregnir því enn af skornum skammti. Áttin var norðvestlæg. Komu úthafsöldur æðandi inn Önundarfjörð, sem er stuttur inn að Flateyri, og brotnuðu á eyrinni, sem er lág, en varin að norðan af steyptum sjóvarnargarði. Varð þó lítið skjól af honum í ofsanum, því að öldurnar komu óbrotnar upp á kamb og skullu á húsunum nyrst á eyrinni, brutu hurðir og vatni. Enn er ekki búið að kanna skemmdir til hlítar, þær munu samt teljast í hundruðum þúsunda króna og er þetta mikið áfall fyrir lítið byggðarlag. Enn er óséð hver varanleg hervirki brimið hefur unnið á sjálfri eyrinni, sem þorpsbúar hafa reynt að verja með varnargarði á undanförnum áratugum. Mun skarð hafa komið í landið ofarlega á eyrinni og víðsvegar um landið er urð af fjörugrjóti, sem brimið hefur skilið eftir. Á Suðureyri gekk sjór á land og vann þar einnig mikið tjón, þótt ekki hafi það orðið eins stórkostlegt og á Flateyri.

Um kl. 17 í fyrradag rofnaði háspennulínan frá Andakílsárvirkjun til Akraness. Bilunin átti sér stað á Súlueyrum, norðan Leirárósa. Sjór gekk þar á land og braut tvær staurasamstæður. Strax í fyrrakvöld fóru viðgerðarmenn af stað til þess að kanna hvort tiltækilegt væri að hefja viðgerðir, en urðu frá að hverfa vegna ofsaveðurs og sjógangs. Í gærmorgun var strax hafist handa um viðgerð, en verkið var mjög miklum erfiðleikum bundið og var ekki búist við að því yrði lokið í gær. Samt tókst viðgerðarmönnum með harðfengi, að koma línunni saman og komst straumur á bæjarkerfið laust fyrir kl. 20 í gærkvöldi.

Hellissandi í gær. — Hér var óskaplegt hvassviðri í gær og nótt, og sjór gekk hátt á land, en ekki olli hann þó teljandi tjóni. Sjór flæddi yfir veginn hjá Krossnesi. MP

Stokkseyri, 17. janúar. — Hér hefir verið óskaplega brimasamt í vetur, og varla að bátar hafi komist út, einn og einn bátur aðeins skotist út sem snöggvast. Sjór hefir oft gengið hátt, og t.d. farið tvisvar sinnum að undanförnu yfir veginn hér austan kauptúnsins.

Sauðárkróki í gær. — Hér hefir verið hinn mesti veðrahamur síðustu daga, oft hvassviðri, t.d. mjög hvasst í gær. Ekki hafa þó orðið teljandi skaðar hér í sveitunum svo frést hafi um. Þak hefir fokið af hlöðu á einum bæ og víðar orðið smáskemmdir. GÓ

Frá fréttaritara Tímans á Patreksfirði í gær. Ofsaveður af vestri gekk yfir hér á Patreksfirði í gær [17.] og hafa orðið nokkrar skemmdir af. Mestar eru skemmdirnar á höfninni, einnig brotnaði gömul trébryggja, gróf undan olíugeymi, leiðslur sprungu og eitthvað af olíu rann niður. Höfnin í Patreksfirði er, sem kunnugt er, þannig gerð, að hún er grafin inn í Vatneyrina, en opin rás fyrir skipin inn í lónið. Í stórbriminu í gær gekk sjór mjög á eyrina við rásina, og braut úr henni, og hrundi niður í rásina, svo að hún mjókkaði og grynnkaði. Óttast menn, að hún sé nú vart skipgeng, og var þó nógu grunnt fyrir. Í dag var verið að byrja að mæla dýpið en ekki séð enn, hvort rásin hefir þrengst og grynnkað svo mikið, að hún sé ekki fær skipum lengur. Þarna á eyrinni stóð olíugeymir Olíufélagsins, og gróf sjórinn undan honum, svo að hann rann til og hallaðist, en stendur enn utan í kambinum. Ekki fór þar teljandi af olíu niður, því að lítið var í geyminum. Gömul en allstór trébryggja, sem stóð hér við eyrina, brotnaði og er gerónýt. Fram eftir henni lágu olíuleiðslur frá geymi Shell. Rofnuðu þær og rann nokkuð af olíu niður. Vitað er um ýmsar minni háttar skemmdir á ýmsum stöðum hér í firðinum.

Tíminn heldur enn áfram að segja fréttir af sköðum þann 20.janúar:

Talsímasamband var ekkert við Vestfirði í gær, og munu símabilanir vera allmiklar. Ekki hafa því enn fengist nákvæmar fregnir af atburðum á Flateyri, þar sem særótið gerði mestan usla á föstudagsnóttina, en auðséð er af skeyti, sem blaðinu barst í gær, að hervirkin eru geysimikil og tjónið eftir því Fréttaskeytið var svohljóðandi: Síðdegis í fyrradag gerði hér enn ofsaveður af suðvestri og vestri, og á háflóði um nóttina var ókaflegt særót og gekk þá víða sjór hér yfir eyrina, sums staðar óbrotinn að húsveggjum. Götur skemmdust, garðar um húslóðir hrundu, þar sem undan þeim gróf, vörur skemmdust hjá verslununum í geymsluhúsum og einnig hjá einstaklingum. Sjór fyllti víða kjallara og sums staðar fór sjór í íbúðarhúsnæði, geymsluhús og gripahús. Skreiðarhjallar hrundu, og skreið og hjallar fóru á sjó út. Járn fauk af nokkrum þökum, hita- og rafmagnslaust var víða fram eftir degi í gær. Fólk flutti úr mörgum húsum meðan hamfarirnar stóðu sem hæst. Skaði af eyðileggingu þessari allri, svo og fiskhúsi og hjöllum Kaupfélags Önfirðinga, sem fuku degi áður og gereyðilögðust, nemur hundruðum þúsunda króna samtals. Í dag er gott veður. ... Margir gátu ekki sinnt vinnu vegna þess að þeir urðu að bjarga eignum sínum og lagfæra hervirkin. Vegurinn umhverfis Önundarfjörð er víða sundur skorinn eftir ágang sjávar. Skaðar hafa enn orðið hér í sveitinni Þak fauk af geymsluhúsi í Holti og af fjósi í Hvilft. TF.

Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði í gær. S.l. fimmtudagsmorgun [17.] var hér ofsarok af suðvestri með hellirigningu. Gróf þá sundur Seljalandsveg á tveim stöðum. Sjór komst í kjallara tveggja húsa við Hafnarstræti. Miklar skemmdir urðu í húsum þessum, einkum á heimilisvélum. Fólkið flutti úr öðru þessara húsa, húsi Böðvars Sveinbjörnssonar, því að sjórinn gróf allmikið undan því, og var um tíma nokkur hætta á því að húsið raskaðist á grunni og að á því yrðu miklar skemmdir. Hafnarstræti er stórskemmt af sjávargangi, svo að viðgerð mun kosta tugi þúsunda. Eftir hádegið gekk til vestanáttar, og var ofsarok um kvöldið með hagléljum. Klukkan átta rofnaði rafstraumurinn frá Fossum, hafði brotnað einn staur við Árbæ í Skutulsfirði og víða slit á línunni. Rafmagn fékkst aftur á föstudag. Í bátahöfninni var allt á tjá og tundri, og áttu bátarnir í miklum erfiðleikum með að haldast þar. Einn þeirra, Sæbjörn, slitnaði upp og rak hann á land, en mun þó vera heill. Sæfari frá Súðavík brotnaði allmikið ofan þilja. Bryggjan á Langeyri í Álftafirði fór alveg, auk þess urðu meiri og minni skemmdir víða. GS

Svo sem þegar er kunnugt af fréttum hefir veðurofsi mikill verið á Vestfjörðum undanfarna daga, svo sem víðar á landinu. Hafa þar vestra hlotist af þessu margvíslegar skemmdir ekki síst á vegum, einkum þeim er með sjó liggja. Mestar urðu skemmdirnar á Dalavegi, Bíldudal og úti á Hvestu. Má svo heita, að vegina hafi tekið algerlega af, þar sem þeir liggja með sjó á þessu svæði. Einkum er þetta svo undir Svörtuhömrum, þar sem sjór hefir gengið alveg upp að berginu. Samgöngur á bifreiðum við Dalahrepp eru gjörsamlega tepptar og geta bændur ekki komið frá sér sölumjólk til Bíldudals. Þá hefir vegurinn milli Tungu og Sveinseyrar í Tálknafirði skemmst verulega af sjógangi. Miklar skemmdir urðu á veginum í kringum Patreksfjörð, sérstaklega frá Rakknadal og Hlaðseyri og í Skápadalshlíð, þar sem vegurinn er að mestu brotinn niður á eins km. kafla. Nokkrar skemmdir urðu einnig á vegum á Rauðasandi Truflar þetta mjög allar samgöngur, þar eð einungis er hægt að komast um veginn á jeppabifreiðum, en víða verður að aka í fjörum. Háir þetta mjólkurflutningum til Patreksfjarðar, þar sem ekki hefir heldur verið hægt að flytja mjólkina á sjó síðustu daga. Á Hvallátrum var ofsaveður og aftaka brim. Þar gekk sjór svo langt á land, að litlu munaði að tæki út báta, sem settir höfðu verið í vetrarskorður. Vöktu menn yfir bátum sínum um kvöldflóðið. Muna menn ekki eftir að sjór hafi þar áður gengið svo hátt. Í Kollsvík eyðilagðist sandgræðslugirðing, sem stóð langt frá sjó og minnast menn þess ekki að sjór hafi gengið þar yfir áður. Á Patreksfirði urðu einnig skemmdir á vegum. Veginn, sem liggur á milli Geirseyrar og Vatneyrar með sjónum tók af að mestu.

Frá fréttaritara Tímans í Súgandafirði í gær. Í gær [18.] gerði hér í Súgandafirði ofsarok með miklu sjógangi og urðu nokkrar skemmdir á hafnargarði og er kafli af honum óbílfær. Hjá Sturlu Jónssyni skemmdist bryggja og hliðar brotnuðu á fiskmóttökuhúsi. Svipaðar skemmdir urðu hjá Fiskiðjunni Freyju, og að auki fauk þar stór fiskhjallur úr skorðum og beitingaskúrar á stólpum skemmdust við bryggju Ísvers, fuku upp á bryggjuna, sem einnig skemmdist töluvert. Sjór og grjót gekk inn um glugga á nokkrum húsum næst sjó. Nokkrar skemmdir urðu á þökum, og kona meiddist illa á handlegg. Illviðri þetta er einsdæmi hér, og tjón skiptir hundruðum þúsunda króna. JÞJ

Tíminn 22.janúar:

Frá fréttaritara Tímans á Flateyri. Eins og kunnugt er af fréttum, þá var ákaflega mikill sjógangur hér á Flateyri í óveðrinu og hlaust af margvíslegt tjón. Er þetta tjón álitið nema aldrei undir hálfri milljón króna. Skemmdust húsmunir og matvæli auk ýmislegs fleira, er fór forgörðum. Um 40—50 tunnur af garðávöxtum voru geymdar í jarðhúsi fremst á eyrinni, en sjór gekk í það og skemmdi eða eyðilagði. Sjórinn gekk yfir miðja eyrina og skildi eftir eyju fremst á eyraroddanum. Sjógangurinn var slíkur, að öldur braut stöðugt á húsunum og löðrið þeyttist yfir þau. Sjór komst í bensíngeymi og flæddi bensínið úr honum en sjórinn sat eftir. Þegar vatnsaginn var sem mestur, var varla gengt í klofháum stígvélum fremst af eyrinni til gömlu verslunarhúsanna fyrir ofan. Tjónið sem einstaklingar hér hafa orðið fyrir, er gífurlegt, þar sem tryggingarfélög munu greiða minnst af skemmdunum. Nokkuð af skreið skemmdist og eyðilagðist og mun eitthvað af því fást greitt. Í sveitinni hér í kring mun einkum hafa orðið tjón á þökum íbúðarhúsa og skepnuhúsa, en mest mun hafa fokið um þrjátíu járnplötur af einu þaki. Skemmdir urðu í Holti, Hjarðardal innri og Kirkjubóli í Korpudal. TF

Síðan tók ófærð við. Tíminn segir frá 24.janúar:

Frá fréttaritara Tímans á Selfossi í gær [23.]. Hér hefir verið hæg austanátt og snjóstitringur í dag, alveg frostlaust en færð er orðin mjög ill á vegum, og hafa bílar tafist mjög. Tveir bílar hafa brotnað í ófærðinni, og bílar, sem fóru í tvær sveitir að minnsta kosti hafa ekki komist leiðar sinnar í kvöld. Mjólkurbílarnir, sem fóru í Flóann, Skeiðin og Ölfus, komust hingað aftur fyrir miðjan dag, en þó nokkuð seinni á ferð en venjulega. Bílar, sem fóru í Gnúpverjahrepp, komu aftur til Selfoss rétt fyrir klukkan sex í kvöld eftir erfiða ferð. Í Hrunamannahreppi var færð enn verri. Tveir bílar, sem fóru í Biskupstungur, lentu í mikilli ófærð og brotnuðu báðir. Tveir bílar, sem fóru í Grímsnes og í Laugardal lentu í mikilli ófærð og voru í allan dag að brjótast áfram. Voru þeir ekki komnir nema upp að Minni-Borg klukkan sex í kvöld, og koma því ekki fyrr en mjög seint, ef þeir komast þá leiðar sinnar. Bílar, sem fóru upp á land í dag komu síðdegis, og bílar, sem fóru austur í Rangárvallasýslu, komust leiðar sinnar, en voru seint á ferð. Hellisheiði mun hafa verið mjög erfið, en bílar komust þó yfir hana með mikilli hjálp. Áætlunarbíllinn, sem fór frá Reykjavík í morgun, kom hingað austur um klukkan 5 í dag.

Allmikill ljósagangur var hér í gærkveldi og nótt og þrumur heyrðust, en ekki hefir frést um tjón af því. Í dag er besta veður. ÁG

Færðin hér í Reykjavík og í nágrenninu hefir verið erfið undanfarið vegna snjókomunnar. Færðin var farin að léttast nokkuð í fyrrinótt vegna krapa, en í gær snjóaði og þéttist þá snjórinn að nýju og færið versnaði.

Frá fréttaritara Tímans á Hvolsvelli í gær. Óvenjulega mikið eldinga- og þrumuveður gekk hér yfir í nótt [aðfaranótt 23.] og olli smávegis tjóni, einkum á símatækjum í símstöðvum. Mesta tjónið var það, að skiptiborð og fleiri tæki símstöðvarinnar á Seljalandi undir Eyjafjöllum sprakk og gereyðilagðist. Í gærdag var hér austanátt og allmikil snjókorna fram undir kvöld, en þá snerist hann til suðvestlægrar áttar, hlýnaði og gekk á með krapaéljum og rigningu. Samfara þessu varð ljósagangur mikill og þrumuveður, svo að einsdæmi má kallast hér um slóðir. Gekk á þessu fram á morgun. Virtust skruggurnar ganga mjög nærri, svo að undir tók í húsum. Þetta hafði þau áhrif á símann, að hann hringdi í tíma og ótíma, öryggi sprungu og ljósaperur í stæðum sínum, virðist veðrið hafa valdið nokkru tjóni á síma, því að árdegis í dag er símasambandslaust frá Hvolsvelli í Landeyjar og austur undir Eyjafjöll. Klukkan hálfátta í morgun sló eldingu niður í símann við símstöðina á Seljalandi undir Eyjafjöllum, með þeim afleiðingum, að skiptiborð tvístraðist, framhliðin fleygðist úr því, og allar rúður í gluggum símaherbergisins brotnuðu nema ein, en það var rúðan sem hægt var að opna. Eldingin eyðilagði tengikassa á símastaur nokkuð frá húsinu. Eldingin kveikti í gluggatjöldunum. Enginn var í herberginu og sakaði því engan, en þegar að var komið, var herbergið fullt af reyk. Öll öryggi sprungu í heimilisrafstöðinni á Seljalandi.

Hvolsvelli í gær. — Hér er kominn töluvert mikill snjór, enda hefir honum kyngt niður síðustu dægur, einkum þó í dag. Færð er mjög farin að spillast. Mjólkurbílarnir frá Mjólkurbúi Flóamanna voru um fjóra klukkutíma hingað austur frá Selfossi í morgun, sem venjulega er um klukkustundar ferð. Jörð er þó alveg þíð undir snjónum, og fram til þessa hefir verið unnið með jarðyrkjuvélum að skurðgreftri og jarðvinnslu hér í sveitinni. PE

Tíminn segir 25.janúar enn af tjóni á Vestfjörðum, nú af Ströndum - en einnig af óvenjulegri snjókomu á sunnanverðu Snæfellsnesi:

Frá fréttaritara Tímans, Bæ, Trékyllisvík. Á fimmtudaginn í fyrri viku urðu spjöll á húsum á tveimur stöðum hér í Árneshreppi. Þessir skaðar urðu á Reykjanesi og Gíslabakka. Á Reykjanesi eyðilagðist gamalt fjárhús úr timbri og skemmdist þak á öðru, en á Gíslabakka tók þak af hlöðu. Hér var um gamlar byggingar að ræða og ekkert haft í þeim. Undanfarið hefir snjóað dálítið hér, en annars hefir verið snjólaust fram á síðustu daga og er það óvenjulegt á þessum slóðum.

Frá fréttaritara Tímans í Miklaholtshreppi í gær. Tvo síðastliðna sólarhringa hefir kyngt hér niður snjó, og er hann 30-50 sentímetrar á dýpt á jafnsléttu. Eru mörg ár síðan jafnmikill snjór hefir komið á eins stuttum tíma. Vegir eru tepptir. Áætlunarbílar fóru þó yfir Kerlingarskarð í dag með aðstoð ýtu og voru tvær klukkustundir frá Vegamótum að Fáskrúðsbakka, sem er 4 km leið. Þeir ætla að reyna að ná í Borgarnes í kvöld. Snjór er minni norðan fjalls. Símabilanir eru miklar hér um slóðir, bæði slitnar línur og brotnir staurar. Snjórinn hefir sest á línurnar, svo að þær eru sem mannshandleggur að gildleika. Má búast við enn meiri skemmdum á línunum, ef hvessir.

Tíminn 26.janúar:

Frá fréttaritara Tímans í Þorlákshöfn í gær. Í gærmorgun [24.] gekk hér á með þrumum og eldingum, og urðu af því nokkur spjöll á rafkerfi og síma, en þau mest að stór spennistöð eyðilagðist og var kauptúnið rafmagnslaust nær sólarhring. Eldingunni laust niður í spennistöðina, sem var nokkuð frá jörð milli fjögurra staura, sem héldu henni uppi, og gereyðilagði hana að því er talið er. Varð þá rafmagnslaust. Einnig urðu miklar truflanir á síma, og hefir verið símasambandslaust héðan frá því þetta gerðist og þar til í morgun. Þessar skemmdir af eldingunum urðu laust fyrir hádegið í gær.

Slide9

Kortið sýnir gríðarkrappa lægð yfir Suðurlandi að morgni 28. janúar. Bandarísku endurgreiningunni tekst hér vel til. Mikið hríðarveður var um landið vestanvert, en þítt eystra.

Tíminn segir frá slysi 29.janúar:

Ung stúlka verður úti á Keflavíkurflugvelli. [3.febrúar segir blaðið: Samkvæmt upplýsingum, sem blaðið fékk í gærkveldi hjá lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli, er rannsókn vegna dauða stúlkunnar, sem varð úti þar við völlinn um daginn, nú lokið. Réttarkrufning, sem fram hefir farið, sýndi að stúlkan hafði króknað. Með stúlkunni var varnarliðsmaður, og fóru þau úr bíl skammt frá girðingunni um völlinn nokkru eftir miðnætti. Gengu þau eftir vegarspotta að girðingunni, og fóru gegnum hana. Veður var þá allgott, en alllöng leið að ganga að húsum við völlinn. Mun veður hafa versnað skyndilega, skollið á dimm hríð, og hafa þau villst. Varnarliðsmaðurinn fannst rúman kílómetra frá stúlkunni um morguninn, nær dauða en lífi af kulda, er honum var bjargað. Segist hann hafa ætlað að reyna að sækja hjálp handa stúlkunni, en ekki komist alla leið. Varð maðurinn að fara í sjúkrahús um sinn, vegna kals].

Frá fréttaritara Tímans á Selfossi í gær. Heldur treglega gekk að ná mjólk úr sveitunum í dag, en þó mun allmikið mjólkurmagn hafa borist. Mjólk kom úr öllum Flóanum í morgun nema Villingaholtshreppi, en síðdegis var verið að sækja mjólk þangað eftir annarri leið en venjulega er farin. Þá kom mjólk af Skeiðum og úr Hreppum, og einnig úr flestum sveitum Rangárvallasýslu.

Frá fréttaritara Tímans á Stokkseyri í gær. Í gær, sunnudag. fóru tveir ungir menn héðan af Stokkseyri upp.á Selfoss með áætlunarbíl til þess að skemmta sér, en sú för endaði þó ekki sérlega skemmtilega, þar sem þeir urðu að dveljast í alla nótt í bíl, sem sat fastur í snjó á leiðinni hingað frá Selfossi. Piltarnir fóru með áætlunarbíl til Selfoss og munu hafa farið þar í bíó í gærkvöldi, en eftir að sýningu lauk, fengu þeir sér leigubifreið til að skjóta sér heim. Sú [bifreið festist og skollið] var á stórhríðarveður. Piltarnir voru illa búnir og treystust ekki til að ná til byggða fótgangandi í þessu veðri, og tóku það ráð að sitja í bifreiðinni nóttina af og bíða dags og mannaferða. Leið þeim þar þolanlega, því að þeir settu bifreiðina í gang við og við, til þess að hita upp. En eitt sinn, er þeir settu hana í gang, mun hafa verið snjóað fyrir útblásturspípuna, og komst kolsýringur inn í bílinn. Leið einn mannanna út af, en hinir áttuðu sig þó fljótt á því, hvað á seyði var, og drógu hann út úr bifreiðinni og raknaði hann þá brátt við. Í morgun voru menn mjög farnir að óttast um mennina, og var sendur kranabíll frá Selfossi til þess að brjótast niður veginn og
svipast eftir þeim, Var komið til þeirra um kl. 10 í morgun, og um sama leyti kom mjólkurbíl einnig á vettvang. Piltarnir voru sæmilega hressir, þótt þeim hefði verið nokkuð kalt. BT

Ekki fréttist af jafn miklu foktjóni í síðari illviðrasyrpunni og þeirri fyrri. Það varð þó eitthvað víða um land. Tíminn segir t.d. frá 30.janúar:

Frá fréttaritara Tímans í Siglufirði. Að undanförnu hefir verið mjög illviðrasamt í Siglufirði og í fyrrinótt [aðfaranótt 29.] urðu þar mikil spjöll á mannvirkjum vegna veðurofsans. Snjór er hins vegar ekki mjög mikill, enda Siglfirðingar ýmsu vanir í þeim efnum að vetrarlagi. Í fárviðrinu svipti þökum af húsum. Fauk alveg þak af einu húsi, en hlutar úr þökum annarra húsa. Járnplötur fuku eins og skæðadrífa um kaupstaðinn og brutu rúður og skemmdu hús. Víða brotnuðu rúður af þessum sökum og sums staðar urðu spjöll innanhúss, vegna rúðubrota. Eru þess jafnvel dæmi að járnplötur hafi fokið inn um glugga, inn í stofur og skemmt húsgögn og veggi. Veður var orðið sæmilegt í gærdag og þá stóðu vonir til þess að lygna tæki á Norðurlandi. Í fárviðrinu var Dettifoss staddur á Siglufirði og var verið að ferma skipið með síldarmjöli til útflutnings. Hætta varð vinnu við skipið og leysa það, þegar veðrið var verst, þar sem hætta var talin á því að skipið yrði fyrir skakkaföllum í fárviðrinu, ef það væri bundið við bryggju í Siglufirði, enda er einstaklega góð höfn þar inni.

Næstu fimm til sex vikur bar mest á ófærðarfréttum af landinu vestanverðu. Var þessi ófærð öll lengi í minnum höfð í Borgarfirði, á Mýrum og á Snæfellsnesi sunnanverðu. Öll síðari ófærðartilvik borin saman við hana. 

Tíminn segir frá 31.janúar:

Flutningaerfiðleikarnir uxu enn að miklum mun í gærdag. Bílar tepptir um allar jarðir, jafnt uppi í Hreppum og í Rangárþingi sem á Hellisheiði og Krýsuvíkurvegi. Þetta eru geysilegir erfiðleikar, sagði Helgi að lokum. Veðurlagið er svo illt, að fádæmi eru, brestur á hvern dag og fyllir á ný allar traðir, sem ruddar eru, svo að hvern dag þarf að byrja á nýtt við aukna erfiðleika. Annars er veðurlagið ákaflega svipað og verið hefir síðustu vikurnar, loftið aðeins 2—3 stigum kaldara Og það gerir allan muninn, og sá munur er mikill.

Umferð hefir að mestu legið niðri milli Ólafsvíkur og annarra landshluta síðan vegir tepptust vegna snjóa. Fyrstu dag ana um daginn þegar vegirnir tepptust áttu tveir flutningabílar frá kaupfélaginu Dagsbrún í Ólafsvík erfiða ferð vestur, en komust þó eftir þriggja daga barning Fyrsta daginn komust þeir félagar við illan leik frá Reykjavík til Borgarness og komust þar ekki í náttstað fyrr en um klukkan fimm að morgni. Um klukkan átta lögðu þeir upp aftur og komust þann dag að Vegamótum og gistu þar aðra nótt. Nutu þeir aðstoðar snjóplógs, en víða á leiðinni vestur Mýrar og Snæfellsnes sást hvergi móta fyrir veginum upp úr fönn. Víða blöstu við mikil spjöll á símalínum og töldu leiðangursmenn 80 símastaura, sem brotnað höfðu og lágu á jörðinni. Höfðu staurarnir þverkubbast niður við jörð, undan þunga ísingar, sem hlaðist hafði á símalínuna, sem þeir héldu uppi. Verður mikið verk og erfitt að reisa línuna við á þessum kafla. Einna mestar virtust símaskemmdirnar vera vestur í Kolbeinsstaðahreppi. Eftir gistingu og góða hvíld á Vegamótum, hjá Kristjáni Breiðdal gestgjafa þar, var ferðinni haldið áfram að morgni, hins þriðja ferðadags og sóttist ferðin allgreitt vestur yfir Fróðárheiði. Var þar eini staðurinn á allri leiðinni, þar sem til voru auðir blettir á vegi, en erfiðir skaflar voru þar einnig á stöku stað.

Reykjavík fær nú orðið daglega yfir sig hríðargusu síðdegis, sem veldur truflunum í umferðinni og strætisvagnaferðir leggjast jafnvel niður á versta tíma. Í gær hríðaði mikið á tímabilinu 3:30—7 e.h. Strætisvögnunum gekk mjög illa og féllu ferðir niður með öllu á mörgum áætlunarleiðum. Fljótlega upp úr sjö fóru leiðirnar að opnast að nýju.

Frá fréttaritara Tímans í Miklaholtshreppi í gær. Veður hafa verið hin verstu alla daga síðustu viku, ýmist suðaustan eða suðvestan hvassviðri og oftast snjókoma eða éljaveður. Bætist því við snjóinn daglega. Vegir eru illfærir eða ófærir, til dæmis um fönnina er það, að mjólkurbíll, sem fór úr Staðarsveit á sunnudagskvöld, komst í gærkvöld með ýtuaðstoð að Brúarfossi. Ýta, sem átti að koma á móti úr Borgarnesi, bilaði. Óvíst er því hvort bíllinn kemst til Borgarness í dag. Þessi samgönguteppa er hin alvarlegasta fyrir héraðið. Flest heimili nota olíu til upphitunar húsa, og er hún flutt frá olíustöðinni í Hvalfirði eftir þörfum. Litlar olíubirgðir eru fyrir hendi á mörgum heimilum, og getur skapast neyð, ef ekki tekst að halda sæmilega greiðum samgöngum. Eins og með fóðurbæti. Hann er fluttur með bílum eftir þörfum, ýmist frá Stykkishólmi, Borgarnesi eða Reykjavík. Hann er brátt á þrotum. Ekki hefir verið annað símasamband síðustu viku til Reykjavíkur en skeytasamband. Erfitt er að gera við símalínurnar vegna illviðra. Mestar bilanir eru í Kolbeinsstaðahreppi.

Auk þeirra skaða sem taldir hafa verið hér að ofan getur Veðráttan einnig þessara í veðrinu 17. til 18.: 

Miklar skemmdir urðu á mannvirkjum á Straumnesfjalli og í Aðalvík. Skaðar urðu einnig í Seyðisfirði og á Borgarfirði eystra. Víða reif þakjárn af húsum og síma- og raflínur slitnuðu. Miklar rafmagnstruflanir urðu, mest vegna salts á línum. Sjór gekk á land á Rauðasandi og spillti vegi ekki langt frá Saurbæ. Brim skemmdi vegi í Arnarfirði milli Hvestu og Bíldudals.

Ólafur Sveinsson veðurathugunarmaður á Lambavatni segir frá janúar:

Það hefur verið mjög stórgert og umhleypingasamt. Sífelld rok og ýmist snjór eða rigning. Nú seinni hluta mánaðarins er allstaðar jarðlaust eða jarðlítið. Allir vegir ófærir í byggð og á fjöllum. Það hefir hvað eftir annað gert stórflóð hér af brimi og roki. Það hefir oft komið hér eins stórar flæðar en það er óvanalegt að hver flæðin komi eftir aðra eða eins stórar og hafa verið í þessum mánuði. Síðast 31. mjög stórt flóð.

Eldingar voru óvenjutíðar frá og með þeim 22. Veðráttan segir frá: [22.] Eldingu sló niður í símstöð á Seljalandi undir Eyjafjöllum, víðar urðu skemmdir á símtækjum. [24.] Eldingu sló niður í spennistöð Þorlákshöfn og eyðilagði hana. [25.] Dráttarbraut Keflavíkur skemmdist af eldingu. Þann 25. segir Veðráttan að fjósþak hafi fokið á Reykjum í Reykjahverfi í Þingeyjarsýslu og að þann 28. hafi Flugturnarnir í Reykjavík og Keflavík báðir skemmst af völdum hvassviðris. 

Tíminn segir af tjóni í Hornafirði í pistli 2.febrúar: 

Frá fréttaritara Tímans í Hornafirði í gær. Símasambandslaust hefir verið við Hornafjörð alla þessa viku eftir skemmdir, sem urðu á símanum í stórviðri, sem hér gerði s.l. sunnudagsnótt [aðfaranótt 27.]. Þessa nótt hlóðst svo mikil ísing og snjór á símann, að allmargir staurar brotnuðu hér við kauptúnið, eða alls sex staurar og aðrir sex munu hafa brotnað í línum hér í Nesjunum. Er nú lokið að gera við þessar símaskemmdir. Í þessu sama veðri fauk allt járn af annarri hlið þaksins á kirkjunni í Nesjum, og hluti af þaki íbúðarhússins í Fornustekkum. Síðan hefir snjóað nokkuð, en ekki er þó snjórinn mikill.

Morgunblaðið segir frá 10. febrúar:

Borg, Miklaholtshreppi, 2. febrúar. Á miðvikudagskvöld [30. janúar] vildi það óhapp til í Haukatungu, að Páll Kjartansson skarst mikið á höfði, með þeim hætti að Páll sat við glugga, en rúðan í glugga þessum brotnaði vegna veðurofsa. Í Haukatungu var símasambandslaust vegna hinna miklu símabilana og voru engin tök á því að ná í lækni um kvöldið, en þetta var að kvöldi dags. Snemma næsta morgun var farið af stað til að vitja læknis í Borgarnes. Varð Páll að fara og fylgdarmenn hans á hestum alla leið að Arnarstapa, en þar var hægt að síma í Borganes. Leiðin milli Borgarnes og Arnarstapa hafði verið rudd og gat læknirinn komist þangað á bíl. Ennfremur var það nú eftir að símabilanirnar urðu, að annar bændanna að Stórahrauni veiktist hastarlega af lungnabólgu. Varð hann að fara í vonsku veðri að Haukatungu, til þess að ná þar sambandi við lækni, en með aðstoð annarra símstöðva tókst það. Mjög er aðkallandi að nú þegar verði gerðar ráðstafanir til þess að koma á símasambandi við Borgarnes, því að með öllu er óviðunandi fyrir okkur að hafa ekkert samband við Borgarnes. — P.

Vísir segir frá 4.febrúar:

Hvert óveðrið rekur annað og í nótt var ofsaveður í Vestmannaeyjum. Vindhraðinn náði 14 stigum á Stórhöfða og óttuðust menn um að stóri bátaflotinn í höfninni myndi verða fyrir tjóni af völdum veðursins. Lögregla hafnarverðir, skipstjórar og vélamenn voru til taks að bjarga bátunum ef eitthvað kynni að koma fyrir, sem alltaf getur skeð undir slíkum kringumstæðum.

Í gærdag lokuðust allir vegir til Reykjavíkur, en helstu leiðir voru opnaðar aftur undir kvöldið eða í nótt. Leiðin til Hafnarfjarðar lokaðist eftir miðjan dag í gær og sat þá fjöldi bíla þar fastur. Tafði það allmikið fyrir mokstri Sömuleiðis lokaðist leiðin suður með sjó, en fært var til Keflavíkur. Mosfellssveitarvegurinn lokaðist með öllu í nótt og varð strax ófær fyrir innan Elliðaár.

Tíminn segir ófærðarfréttir 5.febrúar:

Heita má að allir akvegir í Borgarfirði séu nú ófærir bílum vegna fannfergis. Engin mjólk barst til Borgarness í gær. nema með þremur bílum, sem lögðu af stað upp í sveitir á sunnudag, en komust ekki heim til Borgarness fyrr en í gærkveldi. Blaðamaður frá Tímanum átti í gær samtal við Ara Guðmundsson vegavinnuverkstjóra, sem undanfarna daga hefir stjórnað aðgerðum þar í héraðinu til þess að greiða fyrir flutningum. Sagðist Ari ekki muna eftir öðrum eins erfiðleikum síðan flutningar með bílum urðu veigamikill liður í samgöngum héraðsins. Á sunnudaginn fóru mjólkurbílar upp um sveitir til að sækja mjólk eins og venjulega, enda þótt færð væri mjög þung víða. Upp úr hádeginu fór að hvessa skyndilega og gerði svo mikinn skafbyl, að allir vegir, þar sem ekið var «m mokaðar brautir, fyllti af snjó, svo að bílarnir sátu fastir. Jarðýtur vegagerðarinnar voru þá þegar sendar til hjálpar til að brjóta bílum leið, en fjórir bílar komust hvergi og urðu að láta fyrirberast úti á þjóðvegunum í fyrrinótt. Um klukkan átta í gærkveldi komust þrír þeirra loks til Borgarness með aðstoð snjóýtu. Höfðu tveir þeirra setið lengst fastir við Ferjukot en einn við Gufuá. Einn bílanna situr enn fastur uppi í Stafholtstungum og hefir setið þar síðan á sunnudag. Einna mestur er snjórinn á veginum í Borgarhrepp og vestur á Mýrum. Í gær hélt áfram að skafa í brautirnar, svo að þar sem bílum var opnuð braut í gær var aftur orðið fullt af snjó í gærkveldi. Er talið að til lítils sé að reyna að opna vegi í Borgarfirði, meðan veður kyrrist ekki þar sem ekki hefir orðið frostlaust neina stund þar efra og því enginn bloti þar eins og á Suðurlandi.

Tíminn segir 7.febrúar frá símasambandsleysi í Þingvallasveit:

Frá fréttaritara Tímans í Þingvallasveit. Undanfarinn hálfan mánuð hefir ekkert vegasamband verið við Þingvallasveit vegna snjóa. Jafnframt urðu miklar bilanir á símalínunni og má segja að Þingvallasveit hafi ekki verið í sambandi við umheiminn í rúma viku, þegar fór saman símasambandsleysi og ófær vegur. Miklar skemmdir urðu á símalínunni og mikið verk að koma henni í samt lag aftur. Línan fór niður af hundrað staurum, ýmist lagðist á jörð eða slitnaði alla leið utan úr Bæjardal og austur undir Almannagjá. Fyrst var komið á bráðabirgðasambandi, en undanfarið hefir vinnuflokkur unnið að lagfæringu á línunni. Mun því verki hafa lokið í fyrradag. Í Þingvallasveit eru nú alger jarðbönn. Snjór er þó ekki ýkjamikill, en gert hefir blota öðru hverju milli snjókoma og því ísalög í snjónum. Frost hafa ekki verið nein að ráði. Þingvallavatn hemaði í fyrradag, en í fyrrinótt gerði austan kalda og vatnið er nú autt, en nokkurt íshröngl við vesturlandið. G.E.

Tíminn segir af íshrönnum í Þjórsá í pistli 16.febrúar:

Mikill ágangur er nú í Þjórsá, og hleður hún upp íshrönnum í farvegi sínum. Hefir hún hækkað 14—15 metra í gljúfrinu hjá Urriðafossi og var farin að flæða upp á túnið á Urriðafossi í gærkveldi. Eru það frostin síðustu daga, sem valda þessu. Blaðið hafði tal af Sigurjóni Rist, vatnsmælingamanni í gær, en hann fylgist nákvæmlega með öllum hræringum árinnar þarna. Sagði hann, að Þjórsá væri undir ís neðan við Egilsstaði, en með vaxandi frosti síðustu daga tók ísröndin að færast ofar. Mikið ísskrið var í ánni og hlóðst íshrönglið upp við skörina, sem spenntist upp og hækkaði sífellt og færðist ofar í ána, þar sem þrengsli voru meiri. Ofan við ísgarðinn myndast lygna í ánni og hækkar sífellt í gljúfrinu. Í gær var Urriðafoss, sem er skammt neðan við brúna, alveg horfinn, og áin hafði hækkað þar í farveginum 14—15 metra og var farin að renna upp á túnið á bænum Urriðafossi. Neðar er áin að mestu undir ís, og ekki hefir frést, að hún hafi bólgnað upp á öðrum stöðum. Þjórsá hefir verið talin vatnsmesta á landsins. Hún er það að vísu á sumum árstímum, vori og sumri, en jafnaðarrennsli hennar árið um kring er svipað og í Ölfusá. Meðalrennsli Þjórsár er talið 385 teningsmetrar á mínútu en í Ölfusá 382. Að vetri er rennsli Þjórsár miklu minna, eða uni 200 teningsmetrar, en Ölfusá er þá vatnsmeiri, þar sem hún hefir jafnari vatnsmiðlun. S.l. tvo vetur hafa myndast allmiklar íshrannir við Þjórsá. Þegar líður á vor, sker áin sig niður í gegnum klakabrynjuna, og eftir stendur ísstálið beggja vegna eins og hamraveggir.

Nú fóru einnig að berast ófærðarfréttir að norðan. Tíminn 17.febrúar:

Akureyri í gær. — Síðustu dagana hefir verið látlaus norðanátt með hvössum éljum og hefir sett niður allmikinn snjó. í dag brá svo til meiri snjókomu og um hádegið var orðið illfært á götum bæjarins svo að grípa varð til snjóplóga til að hreinsa þær.

Húsavík í gær: Vélskipið Goðafoss kom hér í gær og lagðist að bryggju. Flutti skipið nokkurt magn af vörum og átti að lesta hér freðfisk. Þegar vinna við skipið stóð sem hæst í nótt er leið, og eftir var að skipa á land um 20 lestum af vörum, versnaði veður mjög skyndilega. Skipið slitnaði frá bryggju að framan og var þá það tekið til bragðs, að sigla aftur á bak frá bryggjunni. Var þá komið versta veður, og braut skammt undan kinnungi skipsins. Mun skipið þá hafa tekið niðri að aftan, eða rekist í fót hafnargarðsins eða aðra fyrirstöðu því að leki kom að því. Sigldi skipið þegar til Akureyrar.

Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Mikil ófærð er á vegum í Borgarfirði og á Snæfellsnesi, vegna fannkomu. Mátti heita að engir bílar kæmust leiðar sinnar um Borgarfjörð í gær og sátu margir mjólkurbílar og aðrir flutningabílar fastir í sköflum á þjóðvegunum. Veður var skaplegt í Borgarnesi í gærmorgun og fóru þá mjólkurbílar af stað upp í héraðið. Fæstir þeirra komust lengra en upp að Gufuá, en einn komst að Norðurárbrú, en varð að snúa þar við. Sátu þessir bilar allir fastir í sköflum, síðast þegar til fréttist í gærkvöldi og var þá enn hríð og hvassviðri. Ýtur voru til hjálpar, en lítið var hægt að gera til hjálpar vegna hríðar. Vegir voru orðnir nokkuð góðir um héraðið, áður en þessi norðangarður skall á í fyrrinótt með snjókomu, sem fyllti allar traðir á þjóðvegunum á skammri stundu. Í gær voru sjö flutningabílar fastir í snjó vestur á Mýrum. Voru þeir á leið til Borgarness frá Snæfellsnesi, en þangað höfðu þeir farið í einni lest með olíu og matvöru. Gekk ferðin vestur vel, en bílarnir urðu heldur seinir fyrir að komast austur aftur, áður en skafhríð lokaði öllum leiðum. Tveir stórir flutningabílar að vestan komust þó alla leið til Borgarness í gærmorgun. En þeir voru nokkru fyrr á ferð en þeir sjö, sem fastir sátu skammt frá Hítará í gær. Úr þessu fer að horfa illa um útvegun eldsneytis og fóðurvöru í sveitirnar, sem lengst hafa búið við samgönguerfiðleika vegna snjóa að undanförnu og lítið um leiðir til bjargar, ef illa gengur að halda þjóðvegum opnum. Víða er líka erfitt að koma varningnum heim að bæjum, þótt stórir bílar komist eftir sjálfum þjóðvegunum.

Vísir segir af Þjórsá 18.febrúar:

Í gærkveldi og í nótt braut Þjórsá sér farveg undir klakahrönnina miklu, sem myndast
hafði fyrir neðan Urriðafoss og lækkaði þá í ánni um 5 metra. Þetta mun vera mesti ágangur í Þjórsá sem vitað er um með vissu en annars stíflast áin á þessum slóðum flesta vetur, en vatnsborðið hækkar sjaldan nema 10—13 metra. Sigurjón Rist sagði að jakar hefðu hrannast upp í krapahafinu. allt að 6 metra hæð fyrir ofan sjálfan vatns- eða krapaflötinn og náðu jafnhátt húsþakinu á Urriðafossbænum. Sagði hann að áin hafi þarna litið út hvað líkast úfnum og ferlegum skriðjökli.

Tíminn 19.febrúar:

Mjólkurbíllinn var viku til Borgarness, 80 kílómetra veg Staðarsveit innilokuð vegna snjóa, enginn póstur hefir borist í mánuð, farið að bera á vistaskorti.

Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum 16. febr. Hér á Héraði er nú kominn allmikill snjór, stöðug norðaustan átt síðustu daga og oft töluverð snjókoma. Vegir eru flestir ófærir venjulegum bílum, en hagar víða sæmilegir. Hreindýrin komin niður. Auðséð er, að farið er að verða hart í högum á venjulegum hreindýraslóðum, því að nú eru hreindýrin farin að flykkjast niður í dalina. Eru þau í stórum hópum úti í Hjaltastaðaþinghá og einnig í hlíðum Skriðdals og Fljótsdals alveg niðri undir bæjum. Eru þau sæmilega gæf, enda amast menn lítið við þeim.

Vísir 22.febrúar

Í fyrradag [20. febrúar] hlóð niður gífurlegu fannkynngi norðan Holtavörðuheiðar og í vesturhluta Vestur-Húnavatnssýslu var í gær kominn óvenju mikill snjór. En snjórinn er jafnfallinn og í gær voru vegir ruddir fyrir bílalest og mjólkurflutninga úr Hrútafirði til Blönduóss. Komust bílar sem voru með drif á öllum hjólum leiðar sinnar.

Tíminn 24.febrúar:

Frá fréttaritara Tímans í Miklaholtshreppi. Mikill snjór er enn á sunnanverðu Snæfellsnesi og Mýrum. Bændur geta ekki komið mjólkinni frá sér í Borgarnes og bíða við það mikið fjárhagslegt tjón. Hefir þetta gengið þannig til síðastliðnar fimm vikur, en nú er svo komið, að hætt er að gera frekari tilraunir til að koma á vegasambandi frá Borgarnesi og vestur. Flutningi á brýnustu nauðsynjum er hins vegar haldið uppi með snjóbílum. Snjórinn er orðinn gífurlega mikill víða í byggð hér um sunnanvert Snæfellsnes. Til marks um fannfergið má geta þess, að Sláturhús Kaupfélags  Stykkishólms að Vegamótum er komið á kaf í fönn. Sést aðeins móta fyrir hvar húsið er á bungu, sem er á hjarninu, en meters þykkur snjór er á þakinu. Skafrenningur hefir alltaf verið töluverður á hverjum sólarhring í lengri tíma. Og einn morguninn, þegar afgreiðslufólkið ætlaði að fara í kaupfélagsverslunina að Vegamótum, lá skafl frá þakskeggi og eina 20—30 m. frá húsinu.

Færð er nú að verða sæmileg upp um sveitir Borgarfjarðar. Eru allir vegir færir nema kaflinn frá Gufuá að vegamótunum við Ferjukot. Hafa bílar orðið að fara um Kljáfossabrúna undanfarið. En nú er verið að ryðja vegarkaflann og standa vonir til að hann verði fær á næstunni. Vegurinn vestur á Snæfellsnes er sæmilega fær víðast hvar. Á 5 km kafla við Arnarstapa verður þó ýta að aðstoða bílana.

Færð versnaði aftur í Borgarfirði. Tíminn 28.febrúar:

Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Færð er nú mjög farin að spillast á vegum í Borgarfirði að nýju. Mjólkurbílar, sem fóru frá Borgarnesi snemma í gær, voru flestir ókomnir heim aftur seint í gærkvöldi og áttu í miklum erfiðleikum að komast áfram, vegna þess að snjóað hafði og skafið í djúpar traðir, sem ekið er um víðast á þjóðvegunum.

Veðráttan segir frá því að þann 16. febrúar hafi hafnargarður í Höfðakaupstað laskast í brimróti, þar gróf einnig undan vegi.

Framan af mars héldu ófærðarfréttir áfram, en svo fór að skána. 

Tíminn 3.mars:

Akureyri í gær. — Stórhríð var á Norðurlandi í dag, og hefir bætt mjög á. Allar leiðir frá Akureyri eru lokaðar, og barst engin mjólk til bæjarins nema nokkrir bændur komu með mjólk á hestasleðum úr nágrenninu, og ein ýta kom með mjólkurbrúsa á tveimur sleðum. Í kvöld er veðurspáin betri, og verður þá hafist handa um að ryðja vegina á morgun. ED.

Stykkishólmi í gær. — Fátíð harðindi hafa verið hér á annan mánuð. Síðan 20. janúar hafa verið hér mikil og illa gerð snjóalög og haglaust fyrir fénað nema í góðum eyjum. Samgöngur hafa verið mjög erfiðar á landi og aðeins bílfært spölkorn út fyrir kauptúnið. Mjólkurflutningar úr Helgafellssveit hafa gengið illa, og hafa bændur flutt mjólk á hestum, en það hefir ekki verið gert hér árum saman. Bátar afla heldur illa, fá 3—6 lestir í róðri, mest 8—9 lestir og er það viðburður. Átta bátar eru byrjaðir róðra hér, þar af einn útilegubátur. Snjóbíll hefir komið hingað einu sinni. Var það Páll í Fornahvammi, sem kom með sjúkling í fyrradag. KG

Tíminn 6.mars:

Frá fréttaritara Tímans í Trékyllisvík í gær. Hér er hríðarveður og norðanstormur dag eftir dag og svifar sjaldan til. Snjór er orðinn geysimikill, samgöngulaust með öllu á landi og sjaldan fært frá landsteinum. Haglaust er og hefir verið lengi, og fjörubeit notast illa vegna harðviðra.

Dalvík í gærkveldi. — Hér bætir sífellt á snjó. S.l. föstudag, er nýlokið var að ryðja snjó af vegi hér fram í dalinn og eins til Akureyrar, brast á stórhríð og fyllti allar slóðir svo að miklu verra var yfirferðar en áður og ófært hestum að kalla. Ýtur brutust þó fram í dal í gær og í slóð þeirra gátu dráttarvélar farið, og draga þær sleða með mjólkinni á. Færðin til Akureyrar er einnig mjög erfið. Fjórir trukkbílar lögðu af stað kl. 6 í morgun og voru í allan dag að brjótast þennan spöl, komu til Akureyrar í kvöld. PJ

Frá fréttaritara Tímans á Vegamótum í gær. Fannkyngin er enn hin sama, og samgönguleysið veldur miklum erfiðleikum. Útibú kaupfélagsins á Vegamótum hefir þó reynt að bæta úr þörfum bænda eftir megni með hjálp tveggja snjóbíla, sem þar hafa verið í förum síðustu vikuna, Eru þar á ferð Páll í Fornahvammi og Guðmundur Jónasson.

Tíminn segir af ófærð í Þingeyjarsýslum 7.mars:

Frá fréttaritara Tímans í Húsavík í gær. Snjókoma er hér flesta daga og aukast snjóþyngslin því sífellt. Samgöngur eru mjög erfiðar. Mjólk er flutt til Húsavíkur á bíl úr næstu sveitum enn, en úr hásveitum við og við á snjóbíl, sem dregur sleða, svo sem úr Mývatnssveit. Snjóbíll fer einnig við og við til Akureyrar. Engar skipakomur eru nú hingað. Bátur var sendur í gær til Akureyrar eftir pósti og fólki.

Tíminn 12.mars:

Snjóþyngsli aukast enn á Norðurlandi, og mátti heita að þar væri stórhríðarveður í gær, að minnsta kosti austan til. Í gærkveldi var enn spáð snjókomu. Allir vegir eru nú tepptir, og mjólkurflutningar úr sögunni á landi um sinn.

Enn voru ófærðarvandræði í uppsveitum á Suðurlandi og Snæfellsnesi. Tíminn 13.mars:

Frá fréttaritara Tímans á Selfossi í gær. Hér er þíðviðri í lágsveitunum, en þess mun ekki gæta í hásveitum. Hefir jafnvel snjóað þar og færð spillst sums staðar. Er nú ófært um Grímsnesið og hefir engin mjólk borist þaðan eða úr Laugardal og Biskupstungum í tvo daga. Fyllti þar traðir á vegum í gær.

Frá fréttaritara Tímans í Miklaholtshreppi í gær. Hér er blindhríð í dag og var einnig í gær. Bætir sífellt á fannfergi það, sem fyrir var. Alltaf er unnið að vöruflutningum, þegar unnt er, enda er þess mikil þörf. Er notaður til vöruflutninganna stór sleði, sem ýta dregur.

Tíminn sagði 21.mars frá ófærð austur á Héraði:

Egilsstöðum í gær. Í dag er hér snjókoma og hefir enn bætt á. Nú er svo komið, að snjóbílar komast ekki einu sinni leiðar sinnar. Snjóbíll og ýta lögðu á Fjarðarheiði í morgun en urðu að snúa við. Í gær kom snjóbíll upp yfir Fagradal en er hér tepptur enn. Í dag lagði snjóbíll af stað inn í Skriðdal, en varð að snúa við. ES

Tíminn 22.mars:

Aðal snjóþyngslasvæðið í Grímsnesinu er á um 16 kílómetra svæði frá Kerhólnum upp fyrir Svínavatn. Víða í Flóanum er snjórinn lítið eða ekkert minni. Við snjóruðning í Flóanum vinna nú tvær ýtur, einn snjóplógur og tveir vegheflar, en í Grímsnesinu eru plógur og ýta, sem voru búin að vinna þar í fulla 40 klst til að gera veginn færan, og munu þó eiga þar eftir að minnsta kosti helmingi meira verk að moka snjónum út til þess að traðirnar sléttfyllist ekki í næstu gusu.

Tíminn segir 24.mars fréttir úr Rangárvallasýslu - og að loks sé farið að sjatna á Snæfellsnesi:

Rauðalæk í gær. — Hér er nú hláka í dag og tekur töluvert. Hér í Holtunum hefir verið ákaflega snjóþungt síðustu tvo mánuðina. Bændur hafa þó flesta daga komið mjólkinni frá sér, en ýtur hafa orðið að vera stöðugt að verki til að hjálpa bílum. Sums staðar hefir þó orðið að fara nýjar leiðir og vegleysur. ÓÓ.

Snjólétt austan Rangárvalla Hvolsvelli, 21. mars. — Vegir hér austan Eystri-Rangár eru yfirleitt ágætir. Snjólaust að kalla er í Landeyjum og undir Eyjafjöllum en nokkur snjór í Hvolhreppi og Fljótshlíð. Hins vegar skiptir um þegar kemur vestur fyrir Ytri-Rangá. Þar eru snjóþyngsli mikil. t. d. í Holtum. PE.

Hjarðarfelli í gær. — Hér er blíðviðri í dag, þíða og sólbráð, og er farin að koma upp jörð. Búið er að ryðja veginn frá Vegamótum vestur í Staðarsveit en ófært um aðrar leiðir.

Nokkur veðrabrigði virðast þessa dagana, og hefir dregið til hlýrra veðurs en áður, jafnvel svo að þíðviðri og hláka var i ýmsum landshlutum í gær. Voru þessi veðrabrigði kærkomin, þar sem fannfergi hefir hert að svo að jarðlaust hefir verið vikum saman.

Rétt að birta hér eina fregn að utan. Tíminn segir frá 26.mars:

Kaupmannahöfn 25. mars. Einkaskeyti til Tímans: — Mikið óveður gekk yfir Danmörk í gær og olli milljónatjóni. Þrír menn fórust í óveðrinu en sjómenn urðu fyrir milljónatjóni er þeir misstu net sín. Tjón varð einnig mikið í landi, þök fuku af húsum og þúsundir rúða brotnuðu.

Farið að hlána í Staðarsveit. Tíminn 27.mars:

Frá fréttaritara Tímans í Staðarsveit. Eins og kunnugt er, hefur mikið vetrarríki verið á Snæfellsnesi undanfarið, en í góðviðri undanfarna daga hefur snjórinn heldur minnkað, og eru nú komnir hagar á stöku stað. Vegir til Stykkishólms og Borgarness eru þó ófærir ennþá. Öðru hvoru er brotist yfir Fróðárheiði með vörur og eftir mjólk á innstu bæi sveitarinnar. Bændur hafa ekki komið mjólk sinni á markað í átta vikur samfleytt og nemur tjón þeirra af þeim sökum tugum þúsunda. Forðagæslumenn sveitarinnar hafa nú lokið athugun á fóðurbirgðum bænda. Telst þeim svo til að fóðurbirgðir séu nægar fram til 20. maí, ef miðað er við fulla gjöf allan tímann. Allar nauðsynjar sem komast í sveitina eru fluttar yfir Kerlingaskarð að Vegamótum við ærna erfiðismuni og dreift þaðan meðal bænda með snjóbíl, sem jarðýtur aðstoða. Björn Pálsson flugmaður hefur komið fjórar ferðir í sveitina á flugvél sinni og flutt bæði sjúkt fólk og heilbrigt. ÞG.

Kröfur komu upp um ófærðarviðbrögð og fjárstyrki. Tíminn 28.mars:

Samþykkt á Alþingi í gær þingsályktunartillaga frá fjárveitinganefnd um vetrarflutninga á mjólkurframleiðslusvæðum. Halldór Sigurðsson benti síðan á þá staðreynd, að þrátt fyrir tiltölulega milda veðráttu hér á landi undanfarna áratugi hafa oft orðið alvarlegar truflanir á flutningum og oft orðið að verja miklu fé til að geta haldið þeim uppi. Í vetur hafa snjólög, sérstaklega vestanlands, verið mun meiri en um langt skeið að undanförnu og valdið mönnum erfiðleikum og miklu tjóni. Þannig féllu að heita má alveg niður mjólkurflutningar um mánaðartíma í mörgum sveitum á Snæfellsnesi og í Mýrasýslu. Mjólkurbússtjórinn í Borgarnesi telur að tjón bænda, sem þangað senda mjólk sé orðið 150 —200 þús. kr. vegna truflana á flutningum í vetur. Þó hefir verið varið miklu fé af hálfu hins opinbera til þess að reyna að halda leiðum opnum á þessu svæði, sem víða annars staðar. Gripið hefir verið til ýmissa ráða til þess að reyna að koma flutningunum áfram. Snjóbílar eru notaðir, en burðarmagn þeirra er takmarkað til þungavöruflutninga og. hefir reynst einna best að draga nokkra fremur litla sleða aftan í jarðýtum. Hraði slíkra farartækja er hins vegar mjög takmarkaður.

Tíminn segir 29.mars frá snjómokstri á Mýrum - og vatnsleysi í Andakílsá:

Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Jarðýtur vinna nú að því að ryðja veginn frá Borgarnesi til Snæfellsness. Í gærkveldi var fært að Arnarstapa, 15 km veg frá Borgarnesi. Verður verkinu haldið áfram næstu daga. Þá er verið að útbúra bifreiðar með drif á öllum hjólum til að annast mjólkurflutninga frá Snæfellsnesi. Undanfarna daga hefur verið þíðviðri í Borgarfirði og hefur snjór sigið verulega, en enn hefur ekki rignt verulega. Alltaf er jafn vatnslítið í Andakílsá og rafmagnsskortur tilfinnanlegur, verður að skammta rafmagn frá virkjuninni niður í 5 tíma á dag. Í frosti og hörkum jafngilti þetta neyðarástandi, því að megnið af olíukyndingartækjum er óstarfhæft án rafmagns.

Veður voru góð undir lok marsmánaðar. Tíminn segir frá 31.mars:

Akureyri í gær. — Hér er hlýviðri, komst hitinn í dag í 12 stig. Er því asahláka og tekur snjó ört. Mikill vöxtur er í ám og lækjum. Starfsmenn vegagerðarinnar voru önnum kafnir í dag úti á þjóðvegum að veita vatni í ræsin og forða skemmdum á veginum. Enn er alhvítt í Eyjafirði, nema þegar kemur fram í sveitina, þar er jörð mjög komin upp úr.

Ásgarði í Grímsnesi í gær. Mjög hefir snjórinn minnkað síðustu daga, en þó er enn allmikill snjór um miðhluta sveitarinnar, einkum við Svínavatn. Jörðin kemur klakalaus undan snjónum og með grænum blæ. Vatnselgur er ekki mikill í þessum leysingum, enda gleypir jörðin leysingarvatnið þar sem hún er þíð. ÁE.

Hjarðarfelli í gær. — Mikil breyting hefir orðið hér síðustu dagana. Í hlákunni hefir snjóinn mjög tekið, og er víða komin góð jörð. Bílar eru farnir að hreyfa sig innsveitist, og verið er að ryðja veginn til Borgarness og vonir til að hann opnist í kvöld. Ófært er enn yfir Kerlingaskarð en ekki mjög mikill snjór á því. Við erum sem leystir úr álögum eftir hinn langa snjókafla. GG

Tíminn birti 3.apríl óljósar fregnir af öskufalli - ekkert eldgos hefur þó fundist:

Biskupstungum í gær. — Í dag þóttust menn verða varir við öskufall hér í sveitinni. Þó getur það ekki talist í stórum stíl og sér ekki á snjósköflum, enda eru þeir óhreinir fyrir. Hins vegar var fé kolkrímótt, er það kom heim af beit í dag, og virtist auðsætt. að bað stafaði af smágerðri eldfjallaösku. Vindátt var á háaustan. ÞS

Blaðið átti tal við Veðurstofuna í gær, og sagði hún, að engar fréttir um öskufall hefðu borist frá veðurathugunarstöðvum Einnig átti blaðið tal við frétta ritara sína í Öræfum, Kirkjubæjarklaustri og á Hvolsvelli, höfðu þeir engar spurnir af öskufalli. Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, sagði blaðinu í gærkveldi, að sér hefði ekki borist neinar fregnir um eldgos eða öskufall. Ef til vill gæti verið um kolaryk erlendis frá, sem bærist stundum hingað til lands, eða um gamla ösku að ræða. Ljóst er að þetta gæti ekki stafað frá Heklu, og menn mundu hafa orðið varir við, ef Katla hefði bært á sér, enda byrjaði hún vart með svona sendingum. Um eldgos í Vatnajökli hefði ekki frést.

Tíminn segir 14.apríl af reka á Ströndum:

Trékyllisvík, 30. mars. — S.l. ár var sérstakt rekaleysisár hér um slóðir. En núna síðustu mánuðina er norðanáttin var svo stöðug, rættist nokkuð úr þessu og hefir töluvert af rekavið borið á fjörur til nytja fyrir þá, sem að því búa. SPV

Vísir segir 16.apríl frá þrumuskúr í Reykjavík:

Þrumuskúrir og þrumuél gengu yfir bæinn á ellefta tímanum árdegis og var úrfelli mikið í tveimur skúrum feikn mikið í einu svo að líktist skýfelli, a.m.k. í Hlíðunum.

Vísir segir 17.apríl frá góðum vetri í Skagafirði, en samgönguerfiðleikum vegna aurbleytu: 

Frá fréttaritara Vísis. Sauðárkróki í gær. Veðrátta hefur verið einmunagóð í Skagafirði að undanförnu og sunnanátt með hlýviðri. Snjór er nú horfinn með öllu af láglendi og hefur mikið tekið upp til fjalla Í heild hefur síðastliðinn vetur verið með afbrigðum góður og í innsveitum hefur verið snjólétt, en í útsveitum sýslunnar var nokkuð snjóþungt á tímabili og lokuðust þá samgöngur um skeið. Vegna bleytu á vegum ... er víða komið slark í vegina og samgöngur þess vegna erfiðar um héraðið sem stendur. Vegbann ríkir fyrir stóra bíla á Norðurlandsleiðinni og fyrir þær sakir ganga ekki áætlunarbílar milli Suður- og Norðurlands.

Tíminn segir 17.apríl frá sjávarflóði á Álftanesi - trúlega afleiðing af garðaskemmdum í janúarflóðinu:

Á háflóðinu um klukkan 7 í gærkveldi [16. apríl] gekk sjór á land á Álftanesi og flæddi yfir nesið út í Bessastaðatjörn. Bæir yst á nesinu voru umflotnir sjó og veginn hafði alveg tekið af. Allhvöss norðaustanátt var á, en það er hættulegasta áttin fyrir Álftnesinga, einkum ef svo hittist á, að stórstreymt er samfara henni. Eins og kunnugt er kom stórflóð á Álftanesi í vetur og gerði mikið tjón á sjóvarnarmannvirkjunum, túnum og vegum. Nokkuð hafði verið reynt að gera við skemmdirnar og fylla ( skörðin, en því verki var hvergi nærri lokið. Var því minna um varnir en áður og nesið í sárum að þessu leyti. Miklar skemmdir urðu á túnum á Álftanesinu í vetur, sjórinn bar á þau grjót, möl og þang, og voru bændur rétt að ljúka við að hreinsa þau, en það var mikið verk. Nú fá þeir heimsókn Ægis á ný og vafalaust með sömu afleiðingum, og er það allt annað en fýsilegt í þann mund, sem ávinnsla hefst og tekið er að gróa. Eftir áganginn í vetur var auðséð, að ekki mátti lengur við svo búið standa, að ekki yrði lokið varnarmannvirkjum þeim, sem þarna voru hafin, því að auðséð er, að annars jafnar sjórinn við jörðu jafnharðan það, sem gert er. Á fjárlögum yfirstandandi árs eru ætlaðar 220 þús. kr. til sjóvarnarmannvirkja á Álftanesi.

Tíminn segir af vorkomu 25.apríl:

Í dag, á sumardaginn fyrsta, má segja að allvel sé farið að sumra um allt land. Snjór er allsstaðar að mestu horfinn í byggð og sumstaðar farið að gróa. Jörð má heita klakalaus víðast hvar á láglendi. Fréttaritari Tímans á Ísafirði sagði í gær, að snjór sá, sem kom þar í páskahretinu [páskadagur var þann 21.apríl], væri alveg horfinn í byggð, en þó nokkur á fjöllum enn. Þar er þó nær ekkert farið að gróa enn, enda hefir verið kalt í veðri síðustu vikuna.

Fréttaritari blaðsins á Akureyri sagði, að þar og víðast hvar á Norðurlandi hefði enginn snjór fallið á láglendi í kuldakastinu fyrir páskana, aðeins gránað sem snöggvast. Frost hafa þó verið nokkur á Norðurlandi síðustu sólarhringa og ekki er hægt að segja, að teljandi gróður sé kominn. Fréttaritari blaðsins á Egilsstöðum sagði, að þar hefði verið næturfrost að undanförnu, farið væri að votta fyrir gróðri, en honum hefði ekki farið fram síðustu vikuna. Snjólaust er með öllu í byggð og jörð frostlaus. Fréttaritari Tímans í Vík í Mýrdal sagði, að þar væri hin mesta blíða, jörð að verða græn og sumarlegt yfir að líta, þótt frostnætur hefðu verið að undanförnu. Mun gróður þar vera lengst á veg kominn á landinu, en tún þó farin að grænka dálítið um allt Suðurland. Í gær hlýnaði mjög í veðri um allt land, og var víðast hvar sunnan hlýviðri í gærkvöldi, svo að litlar vonir stóðu til að saman frysi sumar og vetur, en það þótti áður fyrr góður boði um sumarið.

Veðráttan segir frá því í aprílheftinu að þann 21. (páskadag) hafi rafstrengur slitnað í brimróti við Hrísey og að þann 24. hafi skúr fokið í Skerjafirði. 

Vor og sumar 1957 voru lengst af hagstæð, þó eitthvað brygði út af stund og stund, alla vega var stundum kvartað. 

Tíminn segir af snjókomu í pistli 5.maí - og birtir einnig ágætt yfirlit um veðurfar vetrarins í Skagafirði:

Snjókoma í gær í Skaftafellssýslum og á Norðausturlandi en birti upp um hádegi. Þetta kuldakast, sem gengið hefir yfir landið síðustu dagana mun nú vera að mildast og er spáð fremur hlýnandi veðri, að því er Veðurstofan sagði blaðinu í gær. Fram undir hádegi í gær var hríðarslitringur í Skaftafellssýslum og nær því hvítt af snjó, t.d. á kirkjubæjarklaustri og í Öræfum. Hríðarhraglandi var og á Norðausturlandi og grátt í rót. En um hádegi birti til og tók fyrir snjókomuna.

Í fréttabréfi, sem Tímanum hefir borist frá Ólafi bónda á Hellulandi í Skagafirði, dags. 28. apríl, segir á þessa leið: — Þessi vetur verður að teljast í röð hinna bestu hér í Skagafirði. Að vísu var haustið rosasamt með einni vondri stórhríð dagana 3. og 4. okt. en þann snjó tók mjög fljótt. En frá veturnóttum og fram yfir miðjan febrúar var tíðarfar milt og snjólaust að kalla. 19. febrúar hófst snjóakafli, sem stóð um fimm vikna skeið. Varð þá að ryðja vegi, svo að bílar kæmust leiðar sinar, en þó ekki nema á köflum. T.d. þurfti aldrei að ryðja vegi í Blönduhlíð eða framhéraðinu, en aftur á móti yfir Hegranes og heim í Hjaltadal, út á Hofsós og svo frá Sauðárkrók til Varmahlíðar. Nú er orðið snjólaust með öllu og hvergi ís á vatni á láglendi. Vegir eru teknir að þorna en voru blautir og víða skornir illa. Hross hafa mjög lítið komið á gjöf í vetur og eru í ágætum holdum. Sauðfé er vel fram gengið og heilsugott  eftir hætti. Aftur á móti hafa kýr verið hvellisjúkar og allmargar drepist. Flestum ber saman um, að hey hafi reynst létt og því mikilgæf, þó eru heybirgðir alls staðar nægar og á það sem hér að undan er sagt við sýsluna í heild. Á Skaga var mjög snjólétt og komu þar engin hross á gjöf önnur en þau, sem daglega voru notuð. Fjörubeit var þar góð og stöðug og er sauðfé þar ágætlega á sig komið. Fiskihlaup kom þar snemma í apríl og náðu flestir bændur þá fiski til heimila sinna. Í Hjaltadal kom dyngjusnjór 19. febrúar svo að jarðlaust varð með öllu, og varð að gefa öllum hrossum. Einnig varð mikill snjór
í Óslandshlíð og á Höfðaströnd en nú er orðið snjólaust í þessum byggðarlögum á láglendi. Í Fljótum er enn mikill snjór að vanda. Var verið að ryðja þar snjó af vegum síðustu daga. Í Austur-Fljótum eru einungis hæstu hólar komnir upp úr og öll vötn eru þar undir ís enn. Á veginum fram Fljótin fram í Stífluhóla er víða 2—3 metra djúpur snjór. Fært er litlum bílum héðan innan úr firði út í Haganesvík, en vegurinn mjög skorinn á köflum.

Nokkuð kólnaði undir miðjan mánuð og segir Tíminn frá í pistlum 15. og 24. maí:

[15.] Allkalt var á Norðurlandi í gær. Á Húsavík var hríðarfjúk öðru hverju en festi þó ekki snjó. Gróðri fer mjög lítið fram. Sauðburður er nú að hefjast, og sums staðar kominn nokkuð áleiðis, t.d. í Þingeyjarsýslu. Verður þar að gefa lambfé að mestu inni.

[24.] Bæ, Trékyllisvík. Í byrjun einmánaðar breyttist veðráttan hér til batnaðar og leysti að verulegu leyti upp snjó á láglendi, frá þeim tíma og fram til sumarmála. Upp úr páskum kólnaði aftur og hefir lengst af verið kalt í veðri síðan. Síðastliðna ellefu daga hefur verið látlaus norðaustan og austan stormur og hiti aðeins um frostmark á daginn og oft frosið á nóttunni. Af þessum sökum er nú alveg gróðurlaust. G.V.P

Tíminn segir 26.maí frá úrhellisrigningu á sauðburði:

Úrhellisrigning og rok var á Suður- og Vesturlandi í fyrrinótt og fram eftir degi í gær, og lentu bændur, einkum á Suðurlandi í miklum erfiðleikum með lambfé sitt. Sauðburður stendur nú sem hæst í sveitunum á þessum slój'um, og eru ærnar úti. Urðu bændur víða á Suðurlandi að vera við fé sitt úti í haga meginhluta nætur við að bjarga nýbornum ám í hús og forða lambfénu frá hættum. Mun þó eitthvað hafa drepist af lömbum, þótt ekki sé í stórum stíl, en erfið nótt hefir þetta verið. Eftir hádegi í gær stytti upp og veður batnaði nokkuð.

Vísir segir 29.maí frá leysingaflóðum fyrir norðan:

Akureyri í morgun. Stórskemmdir hafa orðið í Bárðardal og Köldukinn af völdum vatnsflóða. Skjálfandafljót sem verið hefur síðustu dágana í foráttuvexti vegna hlýinda og leysingu á hálendinu hefur flætt yfir farveg sinn og tekið veginn af á nokkrum kafla austan við brúna hjá Stóruvöllum. Hefur áin brotið þar skarð í veginn á 100 metra löngum kafla og er hann algjörlega ófær öllum farartækjum sem stendur. Má búast við að nokkur tími líði þangað til hægt verður að koma veginum í samt lag aftur. Þá hafa vegskemmdir orðið af völdum vatnsflóða í Köldukinn. Óvenjumikill vöxtur hljóp í Skálará svo hún hljóp langt yfir bakka sína og tók veginn af á löngu svæði. Þar er og öllum farartækjum ófært sem stendur. Allt láglendi norðan við Ófeigsstaði í Köldukinn liggur að mestu leyti undir vatni þar eð bæði Sjálfandafljót og aðrar ár hafa flætt yfir farvegi sína og fá ekki næga framrás. Undanfarna daga hefur verið 15—18 stiga hiti nyrðra og mikil leysing.

Vísir segir af hreti 31.maí:

Frá fréttaritara Vísis. Húsavík í morgun. Í gærkveldi og nótt kólnaði skyndilega í veðri hér nyrðra og komst hitinn niður að frostmarki í nótt. Í morgun var orðið alhvítt niður undir bæi í nágrenni Húsavíkur, en á láglendi var ennþá auð jörð.

Veðráttan segir frá því í maíhefti að þann 25. hafi átján skreiðarhjallar hrunið í Hafnarfirði (vegna vatnavaxta?) mikið tjón varð á fiski. Skriða teppti veg í Kjós.

Mánaðamótahretið hélt áfram, Vísir segir frá 4.júní:

Frá fréttaritara Vísis. — Akureyri í gær. Undanfarna daga hefur verið hríðarveður niður undir byggð norðanlands og frost, allt niður í 4 stig. Á laugardaginn var veður hvað verst og hríðaði þá niður í byggð þannig, að fjöll eru enn hvít niður í miðjar hliðar. Í Fnjóskadal varð jörð hvít allt niður að Vaglaskógi. Frost varð þar mest 3 stig, en 4 stig í Mývatnssveit og á fremstu bæjum í Eyjafirði. Í nótt var 1 stigs frost á Akureyri, en í morgun var sólskin og bjart veður.

Tíminn segir 6.júní frá staðbundinni jarðskjálftahrinu í Reykholtsdal:

Síðustu dagana hefir orðið vart óvenjulegra og tíðra jarðskjálftahræringa í Reykholtsdal. Eru þessar hræringar allharðar, en þó varla meira en 3. eða 4. stigs jarðskjálfti, að því er jarðskjálftafræðingar kalla. En það sem kynlegast er við hræringar þessar er það, að þær eru bundnar við mjög lítið svæði. Breytingar hafa og orðið á heitum laugum á þessu svæði. Tíðindamaður blaðsins átti í gær tal við séra Einar Guðnason í Reykholti um þetta. — Það var á föstudagskvöld s.l., sem fyrstu hræringarnar fundust, sagði séra Einar. Þær voru allsnarpar, einkum fyrst í stað, svo að hlutir hristust. Hafa þessar hræringar svo haldið áfram með nokkrum hvíldum allt þangað til um hádegi í gær, en þá fundust þær síðast. Hræringar þessar eru titringur og ölduhreyfing, sem virðist koma úr norðaustri í átt frá Úlfsstöðum, héðan miðað. Hræringar þessar hafa aðeins fundist á mjög litlu svæði á Norður-Reykjum handan hálsins, og á Úlfsstöðum, Breiðabólsstað, Reykholti og niður að Sturlureykjum, en varla lengra. Jarðskjálftamælar í Reykjavík munu ekki hafa sýnt hræringar. Þá hefir orðið vart breytinga á laugum, einkum á Úlfsstöðum, þar sem vatn er leitt heim úr þrem litlum laugum. Hvarf vatn úr þeim að mestu fyrir helgina, en í gær var það komið aftur að nokkru, en þó ekkert úr efstu lauginni, sem er nokkuð uppi í hálsinum.

Tíminn segir af framtíðardraumum Veðurfræðinga 22.júní. Má segja að nú, hátt í 70 árum síðar séu þessar væntingar Geirmundar Árnasonar veðurfræðings komnar fram. Geirmundur var þekktur meðal fræðimanna á sinni tíð fyrir rannsóknir sínar. 

Sennilegt er, að eftir nokkur ár muni útreikningar með rafheilum geta að miklu leyti komið í stað þeirra aðferða, sem nú tíðkast við veðurspár. Þannig fórust Geirmundi Árnasyni, mag. scient, orð í viðtali við blaðamenn á föstudagsmorgun. Hann mun flytja fyrirlestur í háskólanum á mánudagskvöld um sérgrein sína, vélreiknaðar veðurspár.

Hingað er Geirmundur nýkominn af ráðstefnu, sem haldin var í Stokkhólmi þ. 3.—7. júní, þar sem menn báru saman ráð sín um nýjustu framfarir í vélreiknuðum veðurspám. Á fundi þessum mættu Rússar og Kínverjar og skýrðu frá tilraunum sínum á þessu sviði. Þar voru og margir fulltrúar frá Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum. Á fundi þessum í Stokkhólmi skýrði Geirmundur frá starfsemi þeirrar stofnunar í Bandaríkjunum, sem hann var fulltrúi fyrir. Nefnist hún Joint Numerical Weather Prediction Unit, og var sameiginlega til hennar stofnað af flota, flugher og veðurstofu Bandaríkjanna. Er hún því hin langstærsta sinnar tegundar og hefur aðsetur í Washington. Síðustu tvö árin hefur stofnun þessi gert daglega vélreiknaðar veðurspár fyrir verulegum hluta af norðurhveli jarðar, aðallega þó um loftstraumana í h.u.b. 5 kílómetra hæð frá jörðu. Þessar spár hafa verið sambærilegar að gæðum við þær, sem gerðar eru með vanalegum aðferðum á veðurstofum. Sá er þó munurinn, að meiri möguleikar eru til þess að bæta vélreiknuðu spárnar, og telur Geirmundur allar líkur til þess að þær verði betri innan tíðar. Geirmundur er einn af þeim sex veðurfræðingum, sem vinna í rannsóknadeild þessarar reikniveðurstofu Bandaríkjanna, en rannsóknadeildin sér um hina fræðilegu hlið starfseminnar. — Hinar deildirnar tvær sjá um undirbúning veðurkorta og reikninga með hinum geysihraðvirka rafheila, sem notaður er við þessar tilraunir. Má geta þess, að sá nýjasti þeirra getur lagt saman 40.000 tíu stafa tölur á einni sekúndu, en við margföldun lætur hann sér þó nægja 4000 tölur á sama tíma.

Vísir segir 25.júní frá því að hafís sé með minnsta móti í norðurhöfum:

Osló, í fyrradag. Blöðin hér og víðar í Noregi hafa sagt frá því undanfarið, að ísalög í norðurhöfum séu mjög óvenjuleg. Hafa borist fregnir frá selföngurum, sem hafa verið ísnum milli Grænlands, og Svalbarða vikum saman í vetur og vor. Segja skipverjar á þeim, að ís sé óvenjulega lítill meðfram austurströnd Grænlands og milli hennar og Jan Mayen, svo að ísbeltið sé mörgum tugum kílómetra mjórra en það hafi verið um lagt árabil. Þá var enginn ís við vesturströnd Svalbarða í nær allan vetur, og eru þess vart dæmi um margra áratuga skeið. Flugmenn frá SAS, sem fljúga yfir norðurheimskautið til og frá Japan, skýra einnig frá því, að í vetur hafi ísröndin ekki sést fyrr en komið var um 200 sjómílur norður fyrir Svalbarða. Aftenposten í Osló birtir þá fregn eftir fréttaritara sínum í Tromsö, að íslög í Norðuríshafi virðist vera með svipuðum hætti og vorið 1933, en þá var sumar mjög hlýtt í Noregi.

Tíminn segir af óvenjulangvinnum þurrki um landið norðaustanvert í pistli 4.júlí. Vorþurrkar eru sjaldnast vel séðir:

Akureyri: Lömbin hér í sýslu, sem flest eru fædd fyrir um það bil sex vikum, höfðu aldrei séð rigningu á ævinni fyrr en á laugardaginn var, sagði Baldur bóndi Baldvinsson á Ófeigsstöðum í Kinn við fréttamann blaðsins hér nú fyrir fáum dögum, og átti vitaskuld við þingeysku lömbin. Pétur Jónsson í Reykjahlíð telur, að slíkt samfellt þurrkatímabil hafi ekki komið í Mývatnssveit síðan 1920. Jörð er víða sem væri kalin, brennd af þurrki. En á laugardaginn breyttist veður í lofti og tók að rigna, og kom steypiregn á sumum stöðum, en misjafnlega gekk það yfir. Fréttamaður blaðsins var staddur í Reykjadal um miðjan s.l. sunnudag og gekk þá yfir steypiregn með þrumum svo að undir tók í fjöllunum. Víða hér í Eyjafirði rigndi mjög mikið um helgina og síðan annað slagið, en eftir helgi kólnaði mjög í veðri. Þótt steypiflóð þetta stæði ekki lengi, nægði það til að belgja upp ár og læki. Urðu talsverðir vatnavextir hér í Eyjafirði, sem best má merkja af því, að pollurinn varð kolmórauður af framburði Eyjafjarðarár, og náði móryglan langt út fyrir Oddeyrarál, og svo voru mórauð svæði á firðinum, hvar sem á eða lækur og sjór mættust. Menn vona nú, að þessi hressilega væta hafi gert gróðrinum nauðsynlegt gagn. En kuldatíð síðan um helgi hefir þó eitthvað spillt árangrinum.

Tíminn segir af sláttarbyrjun 7.júlí:

Sláttur er nú byrjaður víðast um land og sums staðar, einkum í Borgarfirði, Eyjafirði og Árnessýslu er víða búið að slá stóra túnbletti og á nokkrum stöðum þegar búið að þurrka og hirða fyrsta töðufeng sumarsins.

Tíminn segir enn af þurrki og gróðurleysi norðaustanlands í pistli 11.júlí:

Kópaskeri 21. júní. Hér greri snemma í vor en sá gróður var seinn til þroska síðar vegna mikilla kulda og þurrka. Þó er skógur nú loks að verða laufgaður. Dræmt og lítið kemur upp í görðum enn, og hér virðist langt í land að hefja slátt. GÞ

Vísir segir af kjarreldi 11.júlí:

Frá fréttaritara Vísis. Selfossi í gær. Skjót viðbrögð Selfyssinga og ýmissa nágranna þeirra komu í veg fyrir, að Þrastaskógur eyddist af eldi síðastliðinn þriðjudag [9.júlí], því skógurinn var farinn að loga á allstóru svæði nærri Álftavatni, þegar slökkvistarfið hófst. Eldurinn mun fyrst hafa átt upptök sín i húsi, sem byggt er yfir rafstöðvarmótor, er tilheyrir eigendum nokkurra sumarbústaða við Álftavatn, Húsið brann til kaldra kola og náði eldurinn skjótri útbreiðslu um kjarrskóginn, sem er þéttvaxinn og sprekþurr eftir  langvarandi þurrka.

Tíminn segir aðallega af hagstæðri tíð 26.júlí:

Sauðárkróki í gær. Heyskapartíðin hefir verið fádæmagóð, samfelldir þurrkar og hirðingin gengið eins og í sögu, töðufengurinn því mikill og góður. Margir eru langt komnir að hirða tún sín fyrra sinni. Spretta er góð. GÓ.

Egilsstöðum í gær. — Hér hefir brugðið veðri. Eftir langa röð skínandi sólskinsdaga er komin úrgrá þoka og í dag hellirigning. Bændur voru þó yfirleitt búnir að ná inn eða upp meginhluta af töðu sinni. Nokkurt hey er þó enn úti einkum upp til dala en á miðhéraðinu er hún að mestu komin í hlöðu. ES.

Hvolsvelli í gær. — Heyskapurinn hefir gengið eins og best verður á kosið. Margir eru langt komnir með fyrri slátt á túnum og sumir búnir. Víða er þó mikil hey úti í göltum, því að menn telja vissara að láta hina kraftmiklu töðu standa áður en hún er sett í hlöður. Þurrkur hefir verið hvern dag langan tíma, þar til síðari hluta dags í gær, er rigndi nokkuð hér um slóðir. PE.

Þórshöfn í gær. — Heyskapur hefir gengið ágætlega hér á Langanesi og í Þistilfirði. Þurrkar hafa verið góðir og margir að mestu búnir að slá og hirða tún sín. Seint spratt þó og mun sprettá almennt ekki vera meira en í meðallagi.

Mývatnssveit 21. júlí. Fyrstu viku júlí rigndi hér nokkuð. vikuna milli 7. og 14. júlí var ágæt sprettutíð. Spruttu tún þá fljótt, þar sem ekki var alveg brunnið niður í grjót áður, en víða er grunnt á hraun í mývetnskum túnum. Túnasláttur hófst ekki af fullum krafti fyrr en 15. júlí, þegar rúningi sauðfjár var að fullu lokið. Síðustu viku hefir aldrei dregið fyrir sól og heyskapur á túnum gengið með afbrigðum vel. Tún eru víða ágætlega sprottin. Silungsveiði í Mývatni hefir verið mjög lítil og er svo enn.  PJ.

Tíminn segir 30.júlí af áhyggjum manna af kola- og olíubirgðum heimsins:

Það gengur stöðugt meira og metra á eldneytisbirgðir heimsins — aðallega kol og olíu — og menn reyna því að finna ný ráð til þess að framleiða orku. Þetta vandamál hefir verið rætt innan Sameinuðu þjóðanna, sem hafa látið semja ítarlega skýrslu um málið. Skýrslan, sem nýlega er komin út, verður til umræðu á síðari hluta ársþings Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna, sem haldið verður í Genf í sumar. Ráðið ræddi þessi mál nokkuð í fyrra og var samþykkt, að láta rannsaka að hvað miklu leyti, „nýir“ orkugjafar gætu komið í stað þess eldneytis, sem nú er almennt notað. Nefndi ráðið fimm orkugjafa: sólina, vinda loftsins, jarðhitann, sjávarhita og sjávarföllin, Ráðið lagði áherslu á, að ef takast mætti að framleiða orku og hagnýta hana úr þessum fimm orkugjöfum, gæti það haft hina mestu þýðingu fyrir bætta lifnaðarhætti í hinum svonefndu vanyrktu löndum heimsins. Fjöldi sérfræðinga hefir unnið að samningu skýrslunnar. Í formála hennar er bent á að af þeim fimm orkugjöfum sem skýrslan ræði um sé aðeins einn „nýr“, þ.e. sjávarhitinn. Þegar orðið „nýr“ er notað í sambandi við hina fjóra aflgjafa er fyrst og fremst átt við nýjar aðferðir til þess að notfæra sér orkuna á hagkvæman hátt.

Tíminn segir enn af hagstæðri tíð 1.ágúst:

Vopnafirði í gær: Hér hefir verið einmuna heyskapartíð, látlausir þurrkar og eru nær allir bændur búnir að hirða tún sín að fyrra slætti. Vatnsskortur hefir verið hér mikill og hefir orðið að sækja vatn á bílum inn í á og flytja til kauptúnsins. Unnið er að nýrri vatnsleiðslu og standa vonir til, að hún komist í notkun í haust.

Frá fréttaritara Tímans í Þykkvabæ. Mjög lítið er farið að taka upp kartöflur hér enn, enda svo snemmt. að varla er h,ægt að búast við teljandi uppskeru enn úr köldum görðum. Þó munu nokkrir pokar hafa verið teknir upp og sendir á markað. Upptaka mun þó vart hefjast að marki fyrr en um miðjan ágúst. Uppskeruhorfur eru góðar.

Sumartíðin var hagstæð um nær allt land, en þó ekki alveg alls staðar. Tíminn segir frá 2.ágúst:

Kirkjubæjarklaustri í gær. Þótt eintómar þurrkfréttir hafi borist úr flestum sveitum lands í sumar, er ekki þá sögu að segja austan af Síðu. Þar hefir verið sanni kölluð óþurrkatíð það sem af er slætti og lítið búið að hirða. Oft hefir verið þykkt loft og þótt sólskin hafi komið, hafa fjallaskúrir eyðilagt þurrkdagana. Menn hafa slegið niður, en taðan hefir hrakist. Óþurrkar hafa einnig verið í í Landbroti og Meðallandi, en þó heldur betri þurrkar þar en á Síðunni.

Ekki var mikið af fréttum af hinu ágætta veðri í ágúst. Tíminn segir þó frá þann 11.;

Akureyri: — Hér er nú sól og hiti á daginn, en heiðskírt og svalt á næturnar. Í fyrrinótt var frost, en mun ekki hafa valdið tjóni.

Tíminn segir af rýrum fönnum á fjöllum 3.september:

Vík í Mýrdal í gær. — Sumarið hefir verið svo hlýtt að snjóa hefir leyst óvenjulega mikið til fjalla. Það er eftirtakanlegt, hve jöklar hafa minnkað mikið, t. d. Kötluskriðjökullinn sem hefir styst til muna. Fannir, sem þraukað hafa mörg undanfarin sumur, hafa horfið úr fjöllum.

Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Mikil veðurblíða hefur verið á Norðurlandi undanfarið, hlýviðri en þó ekki heyþurrkur. Heyfengur bænda í Eyjafirði er mjög góður eftir sumarið, enda segja bændur að það hafi verið eitt hið besta um margra ára skeið.

Í Vísi 6.september er frétt að vestan um góða tíð, en einnig viðtal við Jón Eyþórsson um jökla. Þar segir m.a.:

Um jökla á Norðurlandi er það annars að segja að ... í flestum dalbotnum, einkum á hálendinu milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar, svo og í mörgum fjallaskörðum á þessu svæði, eru smærri eða stærri jökulkökur. Stærst þeirra er svonefndur Tungnahryggsjökull, sem er á áður fjölfarinni leið milli Kolbeinsdals í Skagafirði og Hörgárdals í Eyjafirði. Að lokum sagði Jón að auðséð væri á þeim jöklum er hann hefði skoðað norðanlands, að þeir hafi náð 600—1000 metrum lengra fram en þeir gera nú. Þar eru víða nýlegar og greinilegar jökulöldur og vottar litt fyrir gróðri innan við þær, en utan við þær er víðast fjölskrúðugur og allmikill gróður.

Ísafirði, 3. sept. Heyskap er nú almennt að ljúka hjá bændum. Sumir hættu heyskap síðustu daga ágúst. Aðrir hættu næstu daga. Nokkrir halda á með heyskap fram undir miðjan september Heyskapur hér vestra er alls staðar mikill, bæði að vöxtum og gæðum, og að mestu tekinn á ræktuðu landi. Er svo komið á mörgum bæjum og býlum að ekkert er heyjað nema á véltæku landi. Hefði slíkt þótt fyrirsögn hér á árum áður. ... Maklega fær þetta indæla sumar lof af öllum. Sumir elstu menn líkja því við sumarið 1896, er var sérlega gott. Aðrir líkja því við sumarið 1939, er einnig var gott. Rétt mun þó, að yfirstandandi sumar taki báðum hinum fram, a.m.k. með einstaka lognsæld hér í Vestfjörðum um langan tíma. Að heita má frá síðari hluta júnímánaðar til þessa dags. Svo löng veðurkyrrð mun vera einsdæmi hér vestra og eflaust víðar hérlendis.

Siglufjarðarskarð varð oft ófært síðsumars. Vísir segir frá 9.september:

Frá fréttaritara Vísis, Siglufirði í morgun. Á Siglufirði ríkir nú vetur og fjöll alhvít niður undir rætur. Í allan gærdag snjóaði til fjalla og Siglufjarðarskarð varð ófært bílum. ... Í kaupstaðnum sjálfur var krapaslydda og leiðindaveður í allan gærdag, en snjó festi þar ekki. Sjógangur var mikill.

Tíminn minnist á ís þann 17.september, það munu þó hafa verið borgarísleifar - eins og algengt er síðla sumars. Svo segir af óþurrkum á Norðausturlandi:

Enginn hætta er á því að hafís sé að verða landfastur hér við land, sagði Páll Bergþórsson veðurfræðingur, er blaðamenn frá Tímanum hittu hann að máli í gær, og ísfregnir að vestan bárust í tal. Páll sagði, að aldrei sé minni hætta á hafís en einmitt á þessum tíma árs, og engin hætta sé á því að hafís sé að koma að landinu, og engar fregnir borist um hafís af hafinu norðan eða vestan við Ísland. Ís sá, sem sést hefir við Horn undanfarna daga er rekís, sem borist hefir hingað frá Grænlandi, að öllum líkindum. Er þar bersýnilega um fjallís (borgarís), að ræða, sem brotnað hefir úr hinum miklu skriðjöklum Grænlands, borist þar suður með landi og rekið hingað fyrir straumum og vindi. Jakar sem þessir, sem iðulega brotna úr skriðjöklunum, geta verið býsna stórir og standa mikið upp úr sjó, þannig, að þeir geta rekið langar leiðir fyrir vindi, sem hefir áhrif á ferðir þessara stóru jaka, ekki síður en straumar. Þessir stóru ísjakar berast oft langar leiðir suður á höfin, eins og sjófarendur þekkja, og þannig stendur á þessu íshrafli, sem nú mun hafa borist að Horni, og sumpart vera þar strandað við land. Munu jakarnir bráðna fljótt og molna og þá ekki  von í bráð á frekari „íshættu" við landið, nema þá af sama tagi. Samkvæmt fregnum, sem Veðurstofunni bárust að vestan í gær, voru nokkrir smærri jakar, sem sennilega hafa brotnað úr stóra fjallísnum, rekið á land skammt frá vitanum, en sjálfur fjallísinn lónaði undan nokkrar mílur frá landi. Bárust fregnir um ísjaka, bæði frá Látravík og strandferðaskipinu
Heklu, og einnig frá Reykjaborg.

Reykjahlíð í gær: Óþurrkur hefir verið hér síðan seint í ágúst. Eru því allmikil hey úti. Mjög kalt hefir verið síðan 7. september, en þó ekki frost fyrr en aðfaranótt þ.14, en þá var 4 stiga frost.

Haganesvík í gær: Leiðindatíð hefir verið hér í Fljótum undanfarið, en síðastliðna tvo daga hefir veður verið gott. Mikill snjór er kominn í fjöll og er snjór niður í byggð til dala. Þegar mest snjóaði varð hvítt niður að vatni í Stíflunni.

Tíminn segir 26.september af óþurrkum norðaustanlands. Þeir hófust þó ekki fyrr en um 20. ágúst, en vegna vor- og snemmsumarþurrka spratt seint:

Kópaskeri í gær. — Í dag er hér sunnanátt og góður þurrkur og kom hann sér vél þótt seint væri, svo að bændur gætu hirt hána. Síðasta mánuðinn, eða síðan 20. ágúst hefir verið samfelldur rigninga- og óþurrkakafli. Háin spratt heldur seint vegna mikilla þurrka í júlí og fram eftir ágúst. En þegar leið á ágúst spratt hún ört og er farið var að slá hana almennt undir ágústlok, komu samfelldir óþurrkar er haldist hafa síðan.

Tíminn segir 27.september af Skaftárhlaupi:

Kirkjubæjarklaustri í gær. — Síðustu tvo eða þrjá dagana hefir verið allmikill vöxtur í Skaftá, og mikill jökullitur á vatninu. Einnig hefir lagt megna brennisteinsfýlu af ánni. Áin virðist heldur hafa vaxið enn í dag. Um síðustu helgi var orðið mjög lítið í ánni, þar sem kalt hafði verið til fjalla og frost um nætur. Svo óx hún skyndilega án þess að veður hlýnaði til fjalla. Blaðið átti einnig tal við Hannes á Núpstað í gær. Sagði hann, að enn væri vöxtur í Súlu, en þó hefði ekki verið farið að ánni í gær og ekki sæist greinilega, hvort hún hefði vaxið síðasta sólarhring.

Tíminn segir 28.september frá óhappi við Grímsey:

Grímsey í gær. — Nær miðnætti í nótt strandaði dýpkunarskipið Bergfoss. SI 92, við Grímsey austanverða hlaðið grjóti til hafnarinnar í Sandvík og með fjóra menn innanborðs. Mannbjörg varð, en skipið er talið ónýtt, þar sem það liggur nærri landi í stórgrýttri fjöru undir háum hömum. Seint í dag var reynt að ná úr því ýmsu lauslegu dóti. Skipið strandaði með mjög snöggum hætti. Hafði það verið einar þrjár klukkustundir á siglingu frá Siglufirði til Grímseyjar í hvassri vestanátt. Þegar komið var til Grímseyjar, var of mikið brim í Sandvík til að hægt væri að leggjast þar. Bergfossi var því siglt í var austur undir eyna. Sáu menn úr eynni síðast til skipsins um klukkan fimm í gær hjá eyjarendanum, og var það þá komið í skjól. Skipið lá í vari í logni og hæg um sjó til klukkan 11:20 um kvöldið. Þá hvessti snögglega á norðaustan, og telja skipverjar, að veðurhæðin hafi numið átta vindstigum og kominn haugasjór á samri stundu. Skipti það engum togum, að skipið tók niðri og strandaði. Lenti það í mikilli grjóturð og hjuggust fljótt göt á það og fylltist það um leið af sjó. Skipverjar telja, að ekki hafi liðið nema sjö mínútur frá því veðrið rauk upp og þar til skipið var strandað.

Vísir segir 30.september frá óþurrkunum norðaustanlands. Athyglisvert er að talað er um óþurrkasumar:

Frá fréttaritara Vísis Akureyri í morgun. Í Norður-Þingeyjarsýslu er nú búið að rigna samfleytt í 40 daga og 40 nætur, að vísu ekki alltaf mikið, en fullyrða má, að síðan 20 ágúst s.l. hafi ekki komið þurr dagur í sumum sveitum sýslunnar. ... Á þessu óþurrkasumri þar nyrðra hafa bændur í Kelduhverfi, Axarfirði og Þistilfirði verið sérstaklega hart leiknir. Víða liggur allt hey úr seinni slætti, en aðrir hafa náð helmingnum.

Veðráttan (og blöðin) greina frá því að 19. september hafi hluti af fjárrekstri hrapað fyrir björg í þoku og myrkri í Grafningi og að 8 kindur hafi drepist.

Tíð varð nokkuð óróleg þegar kom fram í október, en ekki eru teljandi fregnir af sköðum. Veðráttan segir þó frá því að þann 6. október hafi nokkrir bílar skemmst mikið þegar vinnupallur fauk á þá í Reykjavík og að þann 16. hafi lítil flugvél fokið á Keflavíkurflugvelli og gereyðilagst.

Tíminn segir 24.október frá fyrsta snjó haustsins í Reykjavík:

Fyrsti snjórinn á þessum vetri féll í Reykjavik í fyrradag (22.], en hann hvarf fljótt aftur, en í gærmorgun byrjaði svo aftur aS snjóa. Höfuðborgin varð brátt hvít sem á vetrardegi. Þ

Einnig snjóaði fyrir norðan. Tíminn 27.október:

Akureyri í gær: Hér hefir snjóað síðustu daga, og í dag hefur bætt verulega á. Er sumstaðar metersdjúpur snjór í Eyjafirði. Veður hefur annars verið milt til þessa. Akfæri er þungt, en allir aðalvegir heita enn færir.

Tíminn segir af þungri færð 28.október:

Veturinn gekk í garð samkvæmt almanakinu sunnanlands og snjóaði mikið sunnanlands og vestan á laugardag og sunnudag. Færð er orðin mjög þung víða á vegum.

Tíminn segir þann 30.október frá ísingartjóni í Suður-Þingeyjarsýslu:

Akureyri: Í krapahríð á sunnudagsnóttina brotnuðu 20—30 símastaurar á leiðinni frá Laxamýri til Húsavíkur. Settist krap og ísing á línuna og braut staurana. Símasambandslaust var við Húsavík í dag af þessum sökum.

Tíð hélst almenn góð áfram allt fram í miðjan desember, en þó gerði nokkurt snjókast nyrðra snemma í nóvember.

Tíminn segir frá 7.nóvember:

Hið versta hríðarveður gekk yfir Norður- og Norðausturland í fyrrinótt og stóð fram eftir degi í gær, en þá hlýnaði heldur og gerði víða krapahríð. Búist er við hlýnandi veðri á þessum slóðum og suðaustlægri átt. Í fyrrinótt hlóð víða niður allmiklum snjó og þá var einnig mjög hvasst af norðaustri á Norðausturlandi og mátti heita blindbylur sums staðar. Í Skagafirði var illfært víða um vegi í gær, heiðar ófærar og í Eyjafirði var þungfært á vegum. Vaðlaheiði var gersamlega ófær og heiðar í Þingeyjasýslu einnig, nema trukkbílum. Fnjósksdælingar flytja mjólk til Húsavíkur og fara út Kinn. Þegar leið á daginn í gær batnaði veður töluvert á Norðurlandi. Á Austurlandi var og allmikil snjókoma og krapahríð í gær og talið að snjó kyngdi þá niður á fjöll og heiðar. Illfært mun yfir Fagradal og ófært um Oddskarð og Fjarðarheiði. Þar varð snjóbíll að snúa við í fyrrakvöld. Innanlandsflug til Norður- og Austurlandsins mun hafa legið niðri í gær vegna dimmviðris.

w-1957-p-des

Myndin sýnir lægsta þrýsting á landinu á hverjum athugunartíma dagana 9. til 31. desember 1957 (rauð lína). Grábláu súlurnar sýna þrýstispönn (mismun á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu) á 3 klukkustunda fresti sömu daga. Sjá má þrjú meginillviðri. Þann 15. til 16., þann 19. og þann 24. til 25. Allra þessara veðra er getið hér að neðan.

Tíminn segir af særoki og rafmagnstruflunum af þess völdum í pistli þann 17.desember:

Samkvæmt upplýsingum, sem Tíminn fékk í gær hjá Jónasi Jakobssyni veðurfræðingi, var talsvert særok samfara útsynningi á sunnudaginn [15.]. Vestur á Grænlandshafinu var hvassviðri, sem náði hingað til lands og skóf sjó með veðrinu inn yfir landið. Þegar veður er þurrt með slíkum stormi af hafi getur særokið borist langt inn yfir landið og selta komið á hluti, sem fólk veitir fljótt athygli, svo sem gluggarúður á bílum og húsum. Þannig háttaði einmitt til síðasta sunnudag. En sé hins vegar ofan fall, rigning eða snjókoma með særokinu, fellur seltan venjulega fljótt til jarðar með úrkomunni. Saltið leiðir mjög vel, og þess vegna er seltan illa séð á háspennulínur og veldur rafmagnstruflunum, eins og raun varð á hér í gær. Í gær varð Reykjavik rafmagnslaus um 2 klst, frá kl. um 1 til rösklega 3, og var ástæðan sú, að salt hafði safnast á einangrara á háspennulínu frá Soginu. En mikið útsynningsrok með særoki gekk yfir á sunnudag og fram á dag í gær. Vinna í verksmiðjum stöðvaðist, en í verslunum og heimahúsum bjargaðist fólk við kertaljós.

Slide10

Þann 19. nóvember fór sérlega djúp lægð til norðurs yfir landið austanvert og olli skammvinnu illviðri. Sjávarflóð varð á Akureyri. Kortið sýnir niðurstöðu bandarísku endurgreiningarinnar og gildir á hádegi þann 19. Á sama tíma og kortið hér að neðan. 

Slide11

Gríðarlegur þrýstibratti er vestan lægðarinnar við Melrakkasléttu og olli hvassviðrið sem honum fylgdi sjávarflóði á Oddeyri.

Vísir segir frá 20.desember:

Fréttaritari Vísis í Húsavík símar, að þar hafi skollið á blindöskuhríð í gærmorgun [19.] mjög skyndilega og var mesta stórviðri um margra ára skeið þar í gær, en lægði síðdegis. Segjast menn ekki muna svo snögga veðurbreytingu síðan veturinn 1918. Mátti segja, að aðeins hraustustu mönnum væri fært húsa milli. Nokkrir bátar voru lagðir af stað í róður, en sem betur fer eigi komnir lengra en það, að þeir gátu snúið við í tæka tíð. Mátti áreiðanlega litlu muna. Strandferðaskipið Hekla tepptist hér við bryggju. Bifreiðastjórar höfðu komið hér, upp stóru jólatré á torginu fyrir i framan samkomuhúsið og brotnaði það. Þakplötur fuku af húsum og fleiri skemmdir urðu. Vegir eru tepptir nærlendis.

Tíminn segir frá sama veðri í pistli 20.desember:

Í fyrrinótt og gærmorgun gekk norðan stórviðri yfir Norðausturland, og olli nokkru tjóni, einkum við Eyjafjörð, þar sem sjór flæddi á land á Svalbarðseyri, Oddeyri og Krossanesi. Á Húsavík var veður mjög hart og lá við slysum, en tjón varð vonum minna.

Frá fréttaritara Tímans á Akureyri í gær: Um níunda tímann í morgun, brast hér á aftaka norðanveður með feikna fannburði. Var þá háflóð og stórstreymt og gekk sjór brátt á land norðan á Oddeyrinni og flæddi yfir götur og inn í hús. Kvað svo mikið að þessu um tíma, að neðst í Gránufélagsgötu var sjór nær metersdjúpur, og á Kalbaksvegi, neðst á Oddeyri var sjór í mitt læri. Var strætisvagn þar á ferð, er mest gekk á, og fór maður fyrir honum og var rétt bússutækt. Sjórinn komst í vörugeymslur á Oddeyrartanga, og munu hafa orðið talsverðar skemmdir á verslunarvarningi og iðnaðarvörum en ekki ljóst enn hve miklu þær nema. Sjór flæddi inn á gang frystihúss KEA, og stóðu menn þar í austri, en ekki urðu þar teljandi skemmdir. Þegar veðrinu tók að linna og sjór að fjara út. var ófagurt um að litast á Oddeyrartanga. Var unnið að því að veita sjó frá húsum og ausa úr kjöllurum, og kanna skemmdir. Mikil fannkoma var fram eftir morgni, svo að götur urðu ófærar. Mjólkurbílar brutust í bæinn úr flestum sveitum. Þetta er mesta flóð, sem orðið hefir í bænum í mörg ár. 

Í veðrinu í morgun strandaði þýska fiskflutningaskipið „Hermann Langreder“ á Leirunni innst í Akureyrarhöfn. Skipið, sem er 950 lestir að stærð, átti að lesta fisk á Eyjafjarðarhöfnum, en hélt undan veðrinu til Akureyrar. Lagðist við akkeri ó Pollinum, en sleit upp í veðurofsanum og rak upp á Leiruna á móts við Höefnersbryggjur. Stendur þar á mjúkum sandbotni, og mun vera óskemmt. Á flóðinu í kvöld ætlar „Snæfell“ að gera tilraun til að ná skipinu út. Enginn fiskur var kominn í skipið, í því voru aðeins 300 lestir af sandi til kjölfestu.

Svalbarðseyri í gær. — Veðrið rauk upp hér laust eftir miðnættið og samfara stórstreymi og aftaka brimi olli það miklu sjávarflóði, svo að fátítt er hér. Sjórinn braut niður malarkamb norðanvert á eyrinni og flæddi suður yfir hana. Fór hann í kjallara nokkurra húsa og í vörugeymslur kaupfélagsins og urðu allmiklar skemmdir á vörum, einkum sekkjavöru. Sjórinn braut upp lagís á tjörn norðan á eyrinni og bar flóðið jaka suður á hana og myndaði þar uppistöðu. Var sjór um metri á dýpt sunnan á eyrinni og urðu menn að vaða milli húsa í klofstígvélum. Timburhlaði hér á eyrinni tvístraðist. Með morgninum lægði sjó og veður. Þrír bátar skemmdust, einn héðan af eyrinni, annar frá Breiðabólstað og hinn þriðji frá Sólheimum. Aftakaveður var einnig í Suður-Þingeyjarsýslu. Bátum á Húsavíkurhöfn var mikil hætta búin, en stóðust þó veðrið. Hekla lá veðurteppt á Húsavik. Járnplötur fuku af húsum. Allmiklum snjó kyngdi niður og munu vegir vera illfærir í héraðinu.

Tíminn segir af góðri tíð eystra í pistli 23.desember:

Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Vetur er sérlega snjóléttur það sem af er og er varla hægt að segja að snjó hafi fest á jörð í Reyðarfirði og tæpast uppi á Héraði heldur. Vegurinn yfir Fagradal hefir oftast verið ágætlega bílfær, sem á sumardegi og er svo enn nú í jólaumferðinni.

Slide12

Á aðfangadag og jólanótt gerði eftirminnilegt veður. Óvenjulegast virðist það hafa verið á Akureyri og nágrenni, en varð víða slæmt. Húsbruni varð í Reykjavík sem margir muna [Þingholtsstræti 28, góð lýsing er á brunanum í Morgunblaðinu 28.desember]. Kortið sýnir stöðuna á miðnætti á jólanótt. Þá var lægðin við norðurströndina á hraðri leið norðaustur. Á undan lægðinni féll þrýstingur gríðarlega. Frá því kl.18 á Þorláksmessu til kl.18 á Aðfangadag féll þrýstingur á Galtarvita um 65,5 hPa. Þetta er í flokki þess mesta sem gerist hér á landi.  

Slide14

Íslandskortið kl.24 á jólanótt. Versta veðrið var þá rétt gengið niður á Akureyri.

Tíminn segir frá 28.desember:

Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Óvenjulegt hörkuveður gerði við Eyjafjörð á aðfangadag jóla og urðu af völdum þess talsverðir skaðar á mannvirkjum, einkum þó á síldarverksmiðjunni í Krossanesi. Veður þetta var mjög óvenjulegt, eftir því, sem tíðast gerir nyrðra. Framan af degi var hláka og rigning, en svo sneri snögglega til vestanáttar með hvassviðri og snjókomu. Er skemmst frá því að segja, að allan síðari hluta aðfangadags var veðurofsinn svo mikill að fólk komst fæst hjálparlaust á milli húsa. Lögreglan á Akureyri hafði nóg að gera við að hjálpa fólki til að komast leiðar sinnar og notaði við það lögreglubílinn, sjúkrabíl og leigubíla, sem fengnir voru til hjálpar. Beinar skemmdir urðu ekki stórvægilegar af veðrinu á Akureyri, en nokkur spjöll urðu þó á húsum og trillubát rak yfir fjörðinn. Hins vegar urðu miklar skemmdir á Krossanesverksmiðjunni. Munaði ekki miklu að þar yrði þó enn meira tjón, er þak fauk af byggingum og reykháfur skemmdist. Flestir smiðir á Akureyri unnu allan jóladaginn við viðgerðir á verksmiðjubyggingunum og mikinn hluta annars dags jóla. Þetta hörkuveður er eitt allra versta veður, sem elstu menn á Akureyri muna, enda var hvergi nærri stætt í hörðustu byljunum.

Borgnesingar fóru ekki var hluta af jólaveðrinu og urðu að sitja í myrkrinu á aðfangadagskvöld. Rafmagnið fór af kauptúninu rétt fyrir klukkan sjö, einmitt þegar aftansöngur stóð sem hæst. Var guðsþjónustugjörðinni síðan haldið áfram við kertaljósin ein. Margar húsmæður munu hafa verið að ljúka við að elda jólamatinn en víða mátti þó ekkí tæpara standa. Rafmagnið kom ekki fyrr en undir miðnætti. Hafði þá tekist að gera við bilunina, sem olli straumrofinu og vann stöðvarstjórinn við Andakílsárvirkjunina allt aðfangadagskvöldið að viðgerðum úti í mjög vondu veðri.

Mikið fannfergi er nú i Siglufirði og má segja að kominn sé meira en hnédjúpur snjór, miðað við jafnfallinn snjó. Í gær vann snjóýta að því að ryðja snjó af  helstu umferðargötum svo að þær verða akfærar síórum bílum. Báðir bæjartogararnir voru inni í heimahöfn yfir jólin. Fór annar þeirra til veiða í gær, en verið er að losa hinn.

Alþýðublaðið segir af rafmagnsleysi í Grundarfirði í pistli 28.desember:

Fregn til Alþýðublaðsins. Grafarnesi í gær. Jólin voru köld og dimm hér í Grundarfirði að þessu sinni. Rafmagnslaust varð um sexleytið á aðfangadagskvöld og kom ekki aftur fyrr en um miðjan dag á jóladag. Skemmdir urðu á símalínunni til Ólafsvikur. Munu staurar hafa brotnað.

Tíminn segir þann 29.desember fleiri fréttir af jólaillviðrinu: 

Frá fréttaritara Tímans í Sandgerði. Illviðrasamt hefir verið á Suðurnesjum yfir jólin, þótt ekki hafi orðið spjöll á mannvirkjum, svo teljandi sé utan það að bát rak á land í Sandgerði á jólanóttina og er ekki enn búið að ná honum á flot aftur.

Þýska flutningaskipið Herman Langreder, sem rak upp á leirur í Eyjafjarðarbotni um daginn, var statt við Skagaströnd á jólanóttina, er vestanveðrið mikla gekk yfir. Lá skipið þar við bryggju. Slitnaði skipið frá og laskaði bryggjuna nokkuð. Einnig tók það niðri en losnaði af grunni og sigldi brott. Skipstjóra hafði verið bent á að færa sig frá bryggjunni og leggjast við festar, ef veður harðnaði.

Færð er orðin mjög erfið víða um akvegi landsins og algjörlega ófært sumstaðar. Í gærdag var þó enn fært austur um Krýsuvíkurleið og norður um Hvalfjarðarleið var fært um tíma í gær, en Hvalfjörður mun hafa lokast aftur í gærkveldi. Samkvæmt upplýsingum, sem Tíminn fékk hjá Vegagerð ríkisins í gær var þá búið að vinna að því lengi dags að opna Hvalfjarðarleiðina og tókst það í gær. Færðin var samt alltaf þung þar og í gærkvöldi var aftur kominn þar svartur bylur og búist við að vegurinn lokaðist að nýju. Einna verstu kaflarnir á Hvalfjarðarleiðinni eru hjá Staupasteini, í Brynjudal, undir Þyrli og hjá Sandi og Brekku. En mokað var snjó af veginum á öllum þessum stöðum í gær.

Síðan er allgóð færð alla leið norður til Akureyrar. Óvenjulegt er það, þegar svona stendur á um snjó, að tiltölulega lítill snjór er á Holtavörðuheiði enda þótt mikið hafi snjóað vestar og Brattabrekka sé að heita má með öllu ófær bílum, og alveg ófær bílum hjálparlaust. Hefir stórum bilum verið hjálpað þar yfir með aðstoð stórvirkra tækja. Heita má hins vegar að fært sé vestur í Stykkishólm og stórum bílum er fært yfir Fróðárheiði til Ólafsvíkur.

Íslendingur segir frá 4.janúar 1958, fyrst frá tíðarfari í Fljótum, en síðan af  sjávarflóðinu 19. desember og jólaillviðrinu:

Saurbæ í Fljótum 10. desember. Vorið 1957 var hér í Fljótum, sem víðar Norðanlands, þurrt og kalt, næturfrost oft margar nætur í röð fram á sumar, jörð vaknaði aldrei af hlýju regni fram yfir sólstöður. Tíðarfar þetta tafði grassprettu mjög, enda illa sprottið allt land í sláttarbyrjun, nema þau tún, er höfðu að mestu tilbúinn áburð. Hann nýttist, þó að húsdýraáburður skrölti glerharður ofan á rótinni og yrði ekki að gagni. Þau hey, sem náðust frá sláttarbyrjun fram undir miðjan ágúst voru öll vel verkuð. Úr því breyttist tíðarfar algjörlega. Gekk þá til hlýinda með vætum. Gras æddi þá upp á örstuttum tíma, en hey ónýttust að sama skapi. Man ég vart eftir að hey færu hér í sveit jafn illa á skömmum tíma sem þá. Hey náðust ekki vel verkuð það eftir var sumars, en töpuðust ekki í veður, því aldrei kom rok á slættinum. Þessum hlýja mollukafla seinni part ágústmánaðar fylgdi það mikið mýbit, að slíkt er hér óvanalegt. Máttu menn hafa verjur er verst var til að geta haldist við vinnu sína. Með vetrarkomu gerði hér vont kuldakast, hlóð niður feikna fönn. Allar skepnur fóru þá á gjöf. Fé stóð inni um hálfs mánaðartíma. Fór þá aftur að hlýna í veðri, fönn að taka og hefir verið einmunatíð nú undanfarið. Akfærir vegir um Skagafjörð að Siglufjarðarskarði og Lágheiði.

Fimmtudagskvöldið 19. desember gerði snögglega norðanveður hér um slóðir [Akureyri og grennd], og leið þá ekki á löngu, að rafmagnið tæki af, eins og rafmagnsnotendur á orkuveitusvæði Laxár eru farnir að reikna með sem sjálfsögðum hlut í fyrstu stórviðrum vetrarins. Var rafmagn skammtað á föstudaginn, en þá um kvöldið fékk allur bærinn rafmagn á ný til ljósa og suðu að minnsta kosti. Í þessu veðri gerði mikið sjávarflóð á neðanverðri Oddeyri, enda var hásjávað, er veðrið var sem mest og bar flóðölduna inn fjörðinn. Var tæplega komist þurrt á gúmmístígvélum um sumar götur þar, en unnið var að því um morguninn að bjarga hestum og öðrum gripum er stóðu í alldjúpu vatni í húsum þar. Í nokkrum vöruskemmum urðu stórskemmdir af flóðinu, er numið munu hafa hundruðum þúsunda króna. Á Svalbarðseyri gekk þessi flóðalda yfir, og urðu þar einnig stórskemmdir á vörubirgðum hjá Kaupfélaginu og ýmsum öðrum verðmætum þar á staðnum. Í veðri þessu rak þýskt fisktökuskip inn á Leirur og tók þar niðri. Náðist það þó óskemmt á flot með aðstoð bæjarskipa. Ofviðrið á jólanótt. Á ellefta tímanum á jólanótt hvessti snögglega af norðvestri og gerði eitt hið mesta rok er hér kemur. Fylgdi rokinu mikið snjókóf, þótt snjókoma væri ekki mikil. Eftir miðnættið varð veðrið hvað mest, en lægði, er nær dró morgni, og var stillt veður á jóladag. Víða um bæinn voru fjölskyldur gestkomandi hjá ættingjum og vinum, er veðrið skall á, og höfðust sumar þar við til morguns, enda mátti veðrið heita óstætt, er verst lét og engan veginn farandi með börn milli húsa. Í veðri þessu urðu miklar skemmdir hjá Krossanesverksmiðjunni. Reif veðrið þak af mjölskemmu hennar, þurrklofti og olíugeymi, og var strax hafist handa við að setja ný þök á, er veðrinu slotaði á jóladagsmorgun. Veður var víða hið versta þessa nótt, og urðu Grundfirðingar rafmagnslausir um kl.6 á jólanótt og máttu sitja í myrkri og kulda í heilan sólarhring. Snjóþungt á nýársnótt. Síðustu daga ársins hlóð hér niður miklum lognsnjó, svo að þungfært varð um götur bæjarins jafnt ökutækjum og gangandi fólki. Var veður dimmt á gamlárskvöld og nokkur snjókoma. Fólk var því með minna móti á ferli úti við, en dansleikir fóru fram eftir áætlun.

Veðurlýsing desembermánaðar frá Þorvaldsstöðum í Bakkafirði (Þórarinn Haraldsson):

Aðfaranótt 19. suðaustan rok með slyddu og rigning. Lygndi að morgni og skall á ofsaveður af vestnorðvestri með snjókomu. Skaðar urðu allvíða, þök fuku og skemmdust, rúður brotnuðu, hey fuku og fleiri skemmdir. Vestlæg átt hélst næstu daga. Vestsuðvestan ofsarok var aðfaranótt 25. með snjókomu síðari hluta nætur. Hey fuku þá einnig.

Ítarlegri lýsing Þórarins fylgir einnig: Eftir suðaustanhvassviðrið sem var aðfaranótt þess 19. desember, gerði nær því blæjalogn sem stóð í um það bil einn klukkutíma, en um kl.10:30 skall yfir ofsa vestnorðvestan rok og svartur hríðarbakkinn æddi yfir með ógnarhraða. Í einu vetfangi var komið svo mikið ofsaveður að nær óstætt var. Um hádegið mun verðrið hafa verið hafa verið allramest. Þá álít ég að hafi verið 12 vindstig. Þeir menn sem fóru til fjár og lentu í veðrinu urðu að skríða mikið, því þar sem slétt var t.d. á melum var algjörlega óstætt og eins á túnum. Á tveim bæjum fuku þök af útihúsum og annarstaðar urðu skemmdir á þökum, rúður fuku úr gluggum og hey fuku svo og flest sem lauslegt var, t.d. heyvagnar og fleira. Kindur fundust ósjálfbjarga daginn eftir. Veðrið mun hafa slengt þeim svo hart niður.

Hof í Vopnafirði (Jakob Einarsson): Tveir stormhvellir komu, hinn 19. og 25. Hinn fyrri hefði getað orðið afdrifaríkur hefði hann staðið lengur þar sem víða var búið að láta út og fé búið að dreifa sér. (Stóð 3 1/2 tíma, 10 1/2 - 2). Fauk eitthvað af heyi, skemmdi 2 heyvagna, reif járnplötur af húsum á tveim bæjum og drap fjórar kindur samtals á þrem bæjum, sem slegið hafði um á svelli í hrakningunum.

Veðráttan getur þess að þann 15. desember hafi bátur slitnað upp í Kópavogi og laskast og að þann 16. hafi mönnum verið bjargað úr eyju á Breiðafirði í foráttuveðri. Þess er einnig getið að í illviðrinu þann 19. hafi þak tekið af lýsishúsi síldarverksmiðjunnar á Raufarhöfn. Einnig sagt af því að í illviðrinu á aðfangadagskvöld hafi beituskúrar hrunið á Hellissandi. Þá hafi sömuleiðis fokið þök af útihúsum á Hamraendum og Gröf í Breiðuvík.

Morgunblaðið segir fréttir úr Fljótsdal 4.janúar 1958:

Skriðuklaustri, síðasta sunnudaginn 1957 [29. desember] Veðráttan hefur verið allstórbrotin um jólin, og tímabil fyrir hátíðina. Aðfaranótt 19. desember gerði hér suðaustan  stórúrfelli, snjókomu fyrst, en síðan rigningu. Létti um morguninn laust fyrir birtingu, en aðeins stutta stund, því að rétt á eftir brast á ofsa-vestanveður með éljahrinum. Var fyrri hluta þess dags fátítt ofsaveður af vestri. Dimmviðri var öðru hverju af éljakófi og hleypti öllum krapaelgnum er var á jörðinni í svell. Var því spauglaust að komast leiðar sinnar meðan ofsinn var mestur. Tjón varð þó ekki hér um slóðir, svo vitað sé og mun svellstorkan hafa hjálpað í því efni. Loftvog stóð svo lágt að morgni 19. desember að fæstir muna svo lága stöðu. Þeir, sem loftvog höfðu og athuguðu um morguninn, settu yfirleitt ekki fé til beitar. En nokkrir voru þó búnir að láta út fé, er rokið skall á. Ekki varð þó tjón á skepnum, en ýmsir áttu í erfiðleikum við að ná fénu aftur í hús. Á nokkrum bæjum var ekki farið að hýsa ær. Aftur gerði vestan-ofsaveður á jólanóttina, sennilega engu minna en hið fyrra, a.m.k. sums staðar, en það stóð skemur. Segja má að látlaus vestan-skakviðri hafi verið lengst af þenna tíma. Jörð er mjög svelluð og ekki gott í högum og fremur erfitt umferðar vegna hálku. Fljótsdalsvegur fær víðast undir glærum ís.

Hér lýkur upprifjun hungurdiska á veðri og veðurfari ársins 1957. Alls konar talnaefni er í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 64
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 2511
  • Frá upphafi: 2434621

Annað

  • Innlit í dag: 57
  • Innlit sl. viku: 2231
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband