Snjóflóðalægðin

Lægðin sem olli snjóflóðunum á Austurlandi í dag (mánudag 27. mars) var af minni gerðinni. Hún myndaðist yfir suðvestanverðu landinu seint á laugardagskvöld, þokaðist austur og dýpkaði og var síðastliðna nótt við Suðausturland. Afskaplega „lúmskt“ kerfi, vakið upp af háloftalægðardragi sem kom austur yfir Grænland og hreyfðist til austsuðausturs. Reiknilíkön höfðu fyrir allnokkrum dögum síðan náð myndun lægðarinnar - og samspili hennar og háloftalægðardragsins. Um tíma var útlit fyrir að talsvert gæti snjóað á höfuðborgarsvæðinu, en reyndin varð sú að þar féll nær engin úrkoma - en á Suðurlandsundirlendinu varð alhvítt í gærmorgun (sunnudag). 

Eftir að reiknimiðstöðvar höfðu loks náð taki á lægðarmynduninni varð ljóst að mikil úrkoma var í vændum á landinu austanverðu, sérstaklega á Austfjörðum, og að hún myndi falla ofan á undirlag sem býður upp á snjóflóð. En þrátt fyrir þetta verður að segja eins og er að stærð þessa atburðar er meiri en flestir væntu (telur ritstjóri hungurdiska). 

Lítum nú á fáein veðurkort. 

w-blogg270323a

Háloftalægðardragið kom eins og áður sagði yfir Grænland. Ekkert (nema flóknir líkanreikningar) sýndi lægðarmyndun við sjávarmál, fyrr en lægðardragið nálgaðist Ísland. Lægðin myndaðist ekki fjarri rauða hringnum á myndinni. Éljagarðar tóku að myndast (nokkuð óskipulega) yfir hlýjum sjó - og tengdust loks úrstreymi háloftalægðardragsins í efri hluta veðrahvolfs yfir landinu og rétt sunnan við það. Þar með varð greið leið fyrir ákaft uppstreymi og úrkomumyndun. Kortið sýnir stöðuna í miðju veðrahvolfi, í 500 hPa-fletinum, kl. 3 síðastliðna nótt. Þá var hafði dálítil lægð snarast út úr háloftadraginu og dró raka loftið úr suðri yfir landið austanvert. Meir en -40 stiga frost var þá í rúmlega 5 km hæð yfir Austfjörðum. Í neðri lögum varð vindur austlægari - og norðaustlægari eftir því sem neðar dró.

w-blogg270323b

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting og úrkomuákefð kl.6 á mánudagsmorgunn. Þá er allmikill norðaustanstrengur yfir Austfjörðum og líkanið sýnir 15 til 20 mm úrkomu næstliðnar 3 klukkustundir þar um slóðir. Það ástand stóð lengur - og mikill snjór hefur safnast upp ofan á klaka- og harðfennisundirlag í fjöllum. 

Þó þessi staða sé á stórum kvarða mjög ólík þeirri sem olli snjóflóðunum í Neskaupstað 1974 eru staðbundnar aðstæður ekki svo ólíkar - aðstæðurnar yfir miðjum Austfjörðum. Sérlega köld suðlæg átt í háloftum, en til þess að gera hlýrri norðaustanátt undir. Afskaplega eitruð blanda. Það er hins vegar afskaplega mikil tilviljun að lenda í því að kerfi sem þetta skuli hitta svona nánast „fullkomlega“ í, jafnveigalítið sem það þrátt fyrir allt virðist vera. En þannig getur það verið - og þannig verður það því einhvern tíma. 

Háloftalægðardrög sem þetta, bæði stór og smá, hafa valdið óteljandi vandræðum hér á landi, en við getur þó þakkað fyrir að reiknilíkön nútímans eru farin að vara okkur miklu, miklu betur við þeim heldur en ungir veðurfræðingar af kynslóð ritstjóra hungurdiska ólust upp við - svo ekki sé talað um forfeður okkar sem engar veðurspár höfðu nema eigið hyggjuvit. 

Háloftalægðardragið og lægðin eru nú úr sögunni hjá okkur, koma eitthvað við í Noregi og Svíþjóð á morgun - en vonandi skaðalaust. En svo er að sjá að frekari leiðindi geti tekið við fyrir austan síðar í vikunni. Við látum Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila vara við því - ef þörf er á. 

Fréttamenn (vonandi ungir og reynslulausir) voru spyrjandi að því í dag hvort snjóflóð væru algeng í mars. Rétt að (endur)birta myndina hér að neðan.

w-blogg270323d

Þetta er gamalt súlurit úr fórum ritstjóra hungurdiska. Við höfum engar áhyggjur af sjálfum tölunum (þó úreltar séu), en myndin sýnir greinilega árstíðasveiflu snjóflóðatjónsatburða. Þeir eru ámóta tíðir í janúar, febrúar og mars, nokkuð tíðir í apríl og desember. En sárafáir í maí og september (koma þó fyrir). Mars er því mikill snjóflóðamánuður og rétt að árétta það. 

Þeir sem hafa áhuga geta rifjað upp pistil hungurdiska um veðrið sem olli snjóflóðunum í Neskaupstað 1974.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband