Ekki algeng staða

Nú er málum þannig háttað að hlýjasta loftið í námunda við landið (í neðri hluta veðrahvolfs) er í norðvestri, yfir Grænlandi - og það kaldasta suðaustan við land. Algengast er að þetta sé öfugt. Þótt alloft sé hlýrra fyrir vestan landið heldur en austan við (jafnvel heilu mánuðina) er það þó oftast þannig að á sama tíma er kaldara fyrir norðan landið heldur en fyrir sunnan það. Á morgun (laugardaginn 10. desember) munar um 5 stigum í neðri hluta veðrahvolfsins. Meira að segja ef við förum niður í 850 hPa (um 1500 metra) er þessi munur enn til staðar, verður á morgun (séu spár réttar) í kringum -2 stig á Grænlandi, en -10 stig suðaustan við land. Þessi óvenjulegi hitamunur nær þó ekki alveg til sjávarmáls, en þó gera spár ráð fyrir því að á stöku stað verði frostlaust á morgun við strönd Grænlands, norðvestur af Vestfjörðum. 

Sú norðanátt sem verið hefur ríkjandi hér á landi síðustu daga er líka óvenjuhlý - þótt þeirra hlýinda gæti auðvitað lítið í hægum vindi og björtu veðri - um leið og eitthvað hreyfir vind fer hiti upp undir eða jafnvel upp fyrir frostmark. 

w-blogg091222a

Staðan sést vel á spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á hádegi á morgun (laugardag). Jafnhæðarlínur eru heildregnar, þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Norðaustanátt er í háloftunum - hluti af hringrás kringum hlýja hæð yfir Grænlandi. Þar sem hæðin er nú orðin sambandslaus við hlýjar lindir í suðri dregur úr afli hennar næstu daga (nema ný hlýindi ryðjist fram). Eftir því sem hún dofnar vaxa líkur á því að henni verði líka velt úr sæti - kalt loft úr norðri sparkar í hana og nær undirtökunum. 

Ekki er beinlínis hægt að segja að hæðir sem þessar séu sjaldgæfar á norðurslóðum - mjög oft er einhver svona hæð einhvers staðar norðan við 60. breiddarstig - oftar austan við okkur heldur en vestan við. En þegar leitað er að svipuðu í sögunni kemur í ljós að tilvikin sem við eigum á lager eru ekkert mörg í desember (heldur fleiri að sumarlagi). Við leit finnst þó strax eitt afskaplega svipað - hæðin að vísu enn öflugri heldur en nú.

w-blogg091222b

Kort (japönsku endurgreiningarinnar) gildir um hádegi á Þorláksmessu árið 1978. Þá var ívið öflugri hæð nánast á sama stað og nú. Hélst þar við dögum saman - afskaplega eftirminnileg ritstjóra hungurdiska sem fékk veðurlag hennar í fangið við heimkomu frá Noregi - eftir að hafa lokið embættisprófi (eins og það hét) í veðurfræði nokkrum dögum áður. 

Niðurbrot hæðarinnar, tæpri viku síðar endaði líka á mjög minnisstæðan hátt og er rifjað upp í gömlum pistli hungurdiska, sem nördin hafa auðvitað gott af því að rifja upp. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.11.): 230
  • Sl. sólarhring: 556
  • Sl. viku: 2592
  • Frá upphafi: 2410894

Annað

  • Innlit í dag: 193
  • Innlit sl. viku: 2276
  • Gestir í dag: 188
  • IP-tölur í dag: 182

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband