26.9.2022 | 16:38
Smávegis um illviðri gærdagsins (25.september)
Óvenjusnarpt illviðri gekk sem kunnugt er yfir landið á laugardagskvöld (24.september) og á sunnudag. Byrjaði veðrið með vaxandi suðvestanátt og óvenjulegum hlýindum. Á einhvern hátt má tengja hlýindin og stöðu háloftavinda við framsókn fellibylsins Fionu við austurströnd Kanada. Sunnanáttin austan fellibylsins var sérlega hlý og ruddist norður til Suður-Grænlands og síðan austur til Íslands. Á laugardagakvöldið fór hámarkshiti á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga í 24,1 stig. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu vetrarmegin haustjafndægra, en varla þó marktækt hærri en eldra met sem sett var á sama stað 1. október 1973. Þá fór hiti á Dalatanga í 23,5 stig á kvikasilfursmæli í hefðbundnu mælaskýli. Kvikasilfursmælir er ekki lengur á Dalatanga. Hiti komst í 20 stig á 10 öðrum almennum stöðvum og þremur stöðvum Vegagerðarinnar að auki. Allmikil úrkomuhryðja gekk yfir landið vestanvert á laugardagskvöld.
Einnig voru veruleg hlýindi í háloftunum yfir landinu. Hiti í 500 hPa og 400 hPa var nærri meti í athugun yfir Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir miðnætti á laugardagskvöld. Í 500 hPa mældist hiti -9,0 stig, það þriðjahæsta í september frá upphafi mælinga - og reyndar ómarktækt lægra en metið (-8,5 stig). Í 400 hPa fór hiti í -21,0 stig, sömuleiðis ómarktækt lægra en eldri hæstu septembertölur í fletinum. Þegar hlýtt loft úr suðri ryðst sunnan úr höfum lyftir það veðrahvörfunum og öllu þar fyrir ofan. Þá vill kólna þar uppi. Í 100 hPa (í um 16 km hæð) fór hiti niður í -60,2 stig. Það er meðal tíu lægstu septembergilda í þeirri hæð.
Svo vildi til að þetta hlýja loft hitti fyrir kalt lægðardrag sem var á leið yfir Grænland og úr varð myndarlegur árekstur vestan og sunnanlofts - þar sem fjallgarður Grænlands kom einnig mjög við sögu. Þetta er reyndar ekki mjög fjarri þeirri atburðarás sem átti sér stað þegar fellibylurinn Sandy olli usla í kringum New York fyrir tíu árum. Þá skall á mikið illviðri hér á landi í kjölfarið - óbeint tengt atburðum vestra - þó ekki hitabeltiskerfið sjálft. Við gætum talað um eins konar keflisatburð - kefli í boðhlaupi lofthjúpsins berst frá hitabeltiskerfi til heimskautarastarinnar.
Óvenjuhvasst varð víða um land, sérstaklega þó á Austurlandi þegar og eftir að vindur hafði snúist til norðvestlægrar áttar. Ritstjóri hungurdiska þreifar alltaf á tveimur vindavísum. Annars vegar hlutfalli stöðva í byggð þar sem vindur nær 20 m/s (9 vindstigum). Hlutfallstala sunnudagsins fór upp í 55 prósent. Það er það næstmesta í september á tíma sjálfvirka kerfisins, var lítillega hærri þann 17. árið 2008, en þá fóru leifar fellibylsins Ike yfir landið. Veður var þá verst um landið vestan- og norðvestanvert og tjón töluvert. Sé litið til lengri tíma finnast aðeins tveir dagar með áberandi hærri hlutfallstölu, 24. september 1973 (kennt við fellibylinn Ellen) og 16. september 1936, kennt við franska hafrannsóknaskipið Pourqoui Pas?. Einn dagur að auki er með svipaða hlutfallstölu, 21. september 2003, nokkuð tjón varð þann dag, bæði vegna foks, ísingar og vandræða í höfnum.
Annar mælikvarði fellst í meðalvindhraða. Sólarhringmeðalvindhraði í byggðum landsins reiknast nú 10,8 m/s (bráðabirgðatala). Á mæliskeiði sjálfvirku stöðvanna hefur hann í fáein skipti orðið jafnmikill eða meiri í september. Minnisstæðast þessara veðra eru hretin miklu 2012 (10.september) og 2013 (16.september), áðurnefndar leifar Ike 2008, og veðrið sem minnst var á hér að ofan 2003. Á eldri tíð eru allmörg veður með meiri sólarhringsmeðalvindhraða heldur en nú. Klukkustundarmeðalvindhraði í byggð mældist nú mestur 14,9 m/s. Ámóta eða hærri gildi finnum við árin 2008, 2004 og að auki þann 29. árið 1997, en þá varð mikið foktjón á Austurlandi og sömuleiðis mikil sandbylur á Möðrudalsöræfum og Mýrdalssandi.
Septembervindhraðamet voru sett á allmörgum veðurstöðvum, jafnvel þeim sem athugað hafa lengi. Í viðhenginu má sjá lista yfir þau merkustu (stöðvar þar sem athugað hefur verið í 15. ár eða meira).
Mikil og snögg umskipti urðu frá hlýindum yfir í hríðarveður á heiðum á Norðausturlandi. Sömuleiðis varð óvenjulegt sjávarflóð á Akureyri (og e.t.v. víðar). Ritstjóri hungurdiska hefur varla nægilegar upplýsingar um flóð þetta til að ræða orsakir þess af einhverju viti. Hann minnir samt á að allmikil sjávarflóð hafa nokkrum sinnum orðið á Oddeyri áður og trúlega talsvert fleiri en fram koma í hinum einföldu skrám ritstjóra hungurdiska. Eins og venjulega er nokkuð áhyggjuefni hvað lítið tillit er tekið til mögulegra sjávarflóða í skipulagi strandsvæða, jafnvel á þeim stöðum þar sem slík hætta blasir við.
Við látum þetta vind- og mættishitasnið fylgja sem myndskreytingu þessa pistils. Það er fengið úr narmonie-líkani Veðurstofunnar og gildir kl.16 sunnudag 25.september. Jafnmættishitalínur eru heildregnar (Kelvinstig) - af þeim má ráða stöðugleika (og sömuleiðis má ráða í lóðréttar hreyfingar að nokkru). Sniðið er frá suðri (lengst til vinstri) til norðurs (lengst til hægri) um 15,5° vesturlengdar (sjá smákort í efra hægra horni). Vindörvar sýna vindhraða og stefnu, en vindhraði er einnig sýndur í lit. Gráa svæðið sýnir landið (enginn vindur blæs í gegnum það). Hæsti hluti gráa svæðisins er suðurjaðar Vatnajökuls ofan Suðursveitar. Þar rétt sunnan við er vindhraði mestur, líkanið nefnir 62 m/s. Rétt er að taka eftir því að jafnmættishitalínurnar sveigja þar niður. Það táknar að loft er að dregst þar niður - munar hátt í 20 stigum á hita utan og innan niðurstreymissvæðisins. Ekki efnilegt fyrir flugvél að fljúga þarna um.
Við sjáum í heimskautaröstina efst til vinstri. Þar er vindhraði einnig meiri en 60 m/s í um það bil 10 km hæð. Yfir Norðausturlandi, neðarlega, eru mjög fáar jafnmættishitalínur neðan við um 850 hPa (um 1400 metra hæð). Þar er loft því mjög vel blandað - illviðrið sér um að hræra. En áberandi vindhámark er yfir norðausturhálendinu. Vindhraði yfir 40 m/s. Það er sennilega landið sjálft sem býr þetta vindhámark til. Loftið skellur á landinu úr norðri og norðvestri og verður að fara yfir það eða framhjá og leggst í streng. Þar sem þessi strengur rekst síðan á enn hærri Austfjarðafjöllin tætast úr honum vindhviður og sveipar sem sumar hverjar ná niður í firðina. Samspil landslags og vinds býr þá ýmist til strengi eða skrúfvinda og ákvarðar á hvorn veginn snúningurinn er. Hver staður á sér uppáhaldssnúningsstefnu - ýmist hægri- eða vinstriskrúfu. - Áhugasamir ættu að gefa því gaum hvort er algengara á hverjum stað - það er auðvelt blási vindurinn yfir vatn eða sjó.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 29
- Sl. sólarhring: 129
- Sl. viku: 2476
- Frá upphafi: 2434586
Annað
- Innlit í dag: 26
- Innlit sl. viku: 2200
- Gestir í dag: 26
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.