Hugsað til ársins 1958

Árið 1958 var talið óhagstætt framan af, sérstaklega um landið norðaustan- og austanvert, en síðan hagstætt. Úrkoma í tæpu meðallagi. Hiti yfir meðallagi. Í janúar var tíð óhagstæð tíð og samgöngur erfiðar. Gæftir sæmilegar. Hiti undir meðallagi. Febrúar var snjóþungur, en þurrviðrasamt var á Suður- og Vesturlandi. Um landið norðvestanvert þótti tíð allgóð. Í mars var óhagstæð tíð framan af, en síðan mun hagstæðari. Víða var óvenju mikill snjór í byrjun mánaðarins. Tíð í apríl var góð og hæglát. Gæftir ágætar. Hlýtt. Í maí var tíð hins vegar óhagstæð, bæði köld og mjög þurr. Veðurathugunarmenn tala þó um stillta tíð lengst af. Hæglátt var einnig í júní, en þurrkur háði gróðri. Júlí var hagstæður og tíð fremur þurrviðrasöm. Ágúst þótti hagstæður á Suður- og Vesturlandi, en óþurrkatíð var norðanlands. September var mjög hagstæður og hlýr. Sama var um október, þá voru tún enn græn og gras í vexti. Nóvember var mjög úrkomusamur og hlýr, tíð mjög hagstæð síðari hlutann. Desember var almennt hagstæður, nema helst norðaustanlands þar var færð mjög þung um tíma. 

Hér er mikið notast við fréttir af veðri sem birtust í blöðum og aðgengilegar eru á timarit.is. Í sumum tilvikum eru fréttirnar styttar hér (og biðst ritstjóri hungurdiska velvirðingar á því). Sömuleiðis kunna að koma upp villur í lestri - þær bagalegustu geta orðið í mislestri manna- eða staðanafna. Vænt þætti ritstjóranum um að heyra af slíkum villum, rekist lesendur á þær. Athugunarbækur Veðurstofunnar, gagagrunnur hennar og timaritið Veðráttan eru ómetanlegur brunnur upplýsinga hér sem endranær. Persónulega man ritstjórinn ekki eftir veðuratburðum ársins 1958 þannig að hann geti neglt þær á dag. Í maí mætti hann í fyrsta sinn á ævinni í skóla, það var þurr og sólríkur mánuður í Borgarfirði. Einnig fannst honum sól ekki skína eins mikið þetta sumar og sumarið áður (1957) - svo vill verða í norðannæðingi í Borgarfirði þótt þurrkur sé. Sömuleiðis minnist hann leiðangurs til Norðurlands í júlí - þar var svo sannarlega kalt um þær mundir, snjór í fjöllum. Einnig þykist hann muna mikil septemberhlýindi. 

Í janúar gerði nokkur eftirminnileg illviðri. Tjón varð þó ekki mjög mikið. Þann 4. janúar kom mjög djúp lægð að landinu. Daginn eftir mældist lægsti þrýstingur ársins á landinu, 952,1 hPa á Galtarvita. Á undan lægðinni var landsynningshvassviðri. Þá hvessti mjög af austri og suðaustri á Akureyri, en hvassviðri af þeirri átt eru ekki mjög algeng þar um slóðir. Veðrið stóð ekki lengi, mesti 10-mínútna meðalvindur talinn 18,0 m/s, en það er það mesta sem vitað er um með vissu af háaustri á Akureyri.

Vísir segir frá þann 6.janúar - og síðan Tíminn þann 7.: 

Nokkru fyrir hádegi á laugardaginn [4.janúar] gerði afspyrnurok af suðaustri í Eyjafirði og á Akureyri og hlutust þá af nokkrar skemmdir á vörum, sem verið var að skipa upp úr m.s. Heklu við Torfunesbryggju. Hvassviðrið var svo mikið að Hekla varð að losa festar og leggjast út á Poll rétt fyrir hádegið, en þá var allmikið af Vörum, þ.á m. sykri og annarri matvöru, enn fremur ull og fleira á bryggjunni, sem búið var að skipa upp. Og enda þótt breitt væri yfir vöruna með seglum var sjógangurinn svo mikill að seglin hlífðu ekki til fulls, auk þess sem flæddi undir vöruna, þannig að hún blotnaði meira eða minna og skemmdist. Tjónið hefur enn ekki verið metið til fullnustu. Á meðan hvassviðrið var sem mest gekk sjór og særok upp á land og m. a. gekk sjór alveg yfir Eimskipafélagshúsið. Skip, sem stödd voru á Akureyri voru þá alveg hulin sjó og særoki í hvössustu hryðjunum. Upp úr kl. 4 um daginn tók veðrið að lægja og rétt á eftir lagðist Hekla aftur að bryggju og var þá afgreidd. Hélt hún frá Akureyri kl. 8 um kvöldið.

Tíminn 7.janúar: Á laugardaginn gerði hvassviðri mikið með sjógangi á Akureyri. Var sjógangurinn svo mikill, að vörur, sem verið var að skipa upp úr strandferðaskipinu Heklu við Torfunesbryggju skemmdust talsvert og var skipið sjálft að fara frá bryggjunni meðan veðrið var harðast. Lagðist strandferðaskipið þá út á Pollinn. Þegar skipið varð að fara frá var alimikið magn af ýmiskonar vörum á bryggjunni og skemmdust þœr nokkuð. Hvassviðrið var svo mikið og sjógangurinn um tíma, að bátar, sem voru í höfninni huldust særoki og sjórinn rauk yfir bæinn, enda stóð vindurinn af suðaustri. Færð er nú sæmileg í Eyjafirði og búið að skafa snjó af vegunum, þar sem færðin var þyngst vegna snjóa.

Mikil veðrasyrpa gekk yfir landið dagana 12. til 18. Þrjár lægðir fóru hjá. Sú fyrsta þann 13. til 14. á milli Vestfjarða og Grænlands. Sú næsta fór til norðausturs yfir Suðurland og ýmist rigningu eða hríð, en vestanstormur með miklum hríðaréljum fylgdi í kjölfarið. Þriðja lægðin fór síðan til austsuðausturs skammt undan Suðurlandi þann 18. Var hvasst af norðri á landinu þann dag. Sérlega kalt loft flæddi síðan suður um landið. 

Slide3

Kortið sýnir fyrstu lægðina í syrpunni valdandi miklu suðvestan- og vestanveðri. Talsverðar fréttir eru af veðri í blöðum þessa daga, mest af ófærð og slíku. Blöðin greina frá tjóni og vandræðum ýmsum:

Tíminn 14.janúar:

Stórviðri gekk yfir Vestfirði og Vestfjarðamið í nótt og dag, og urðu bátar að hverfa frá línu sinni, einn þeirra varð fyrir stýrisbilun, og hér í höfninni urðu nokkrar skemmdir á togaranum Ísborgu og vélbátnum Bryndísi í hvassviðrinu í dag.

Morgunblaðið 14.janúar:

Ísafirði 13. janúar. Seinnipartinn í nótt og í morgun gerði aftakaveður á ísafirði af suðvestri. Stóð rokið fram á síðari hluta dags en varð stillt um kvöldmatarleytið. Hvassast var hins vegar upp úr hádeginu. Nokkurt tjón varð af þessu roki. Allir bátar voru á sjó þegar stormurinn skall á og urðu þeir að skilja eftir meira og minna af línu, 40—80 lóðir. Tveir bátar fengu áfall. Það voru Ásbjörn frá Ísafirði, en á honum brotnaði stýrishús og Mímir frá Hnífsdal, en á honum brotnaði borðstokkurinn. Ekkert tjón né meiðsl urðu á mönnum. Nokkrir bátar lágu í höfninni og var rokið svo mikið, að erfitt var að hemja þá. Einn þeirra, Bryndísi, 14 smálestir, sem var í bátahöfninni, sleit upp og rak upp að  Edinborgarbryggju, sem báturinn barðist utan í og skemmdist á honum öldustokkurinn. — Einnig brotnaði vélbáturinn Gullfaxi frá Þingeyri nokkuð. Togarinn Ísborg lá á Ísafirði við hina nýju uppfyllingu. Var verið að landa fiski úr skipinu. En svo mikil var veðurhæðin, að togarinn sleit margsinnis af sér festingar og kippti m. a. í sundur 3 1/2 þumlunga vír. Þó tókst að verja skipið tjóni. Í roki þessu, sem stóð innan úr firðinum, gekk brimlöðrið yfir eyrina. Það var þó bót í máli, að ekki var stórstreymi. Ella hefði tjón getað orðið meira.

Miklar annir voru í Skíðaskálanum [í Hveradölum] um helgina, einkum síðdegis á sunnudag [12.] og aðfaranótt mánudags, er fjöldi manns var á leið að austan og austur um Hellisheiði í aftakaveðri og hríð. Aðfaranótt mánudags var því vökunótt hjá starfsfólki Skíðaskálans, sagði Steingrímur Karlsson, gestgjafi í Skíðaskálanum, er leitað var frétta hjá honum í gær.

Tíminn 17.janúar:

Í gær var versta veður á Vestur- og Norðurlandi. Vestanrok var á og var veðurhæðin 8—10 vindstig á óveðurssvæðinu og fylgdi víðast hvar éljagangur. Mikið var um símabilanir og rafmagnstruflanir urðu á orkuveitusvæði Sogs vegna krapa og var af þeim sökum tekin upp skömmtun á rafmagni. Þá urðu vegir ófærir meir vegna veðurofsa og hálku en ófærðar. Allir flugvellir voru lokaðir. í nótt var búist við að vindur snerist til norðlægari áttar og var spáð norðvestan roki um allt land í dag. í gær var frostið 4—7 stig. Engar bilanir urðu á rafmagnslínum hér sunnanlands, utan bilun á Vífilsstaðalínunni. Var búist við að sú lína kæmist í lag í gærkveldi. Símasambandslaust var við Vestfirði og sambandslaust við Akureyri nema í gegnum Austfirði, en norðanlínan hafði bilað í Langadal.

Veðurofsi mikill var hér á Suðvesturlandi og Suðurlandsundirlendi í gær. Sums staðar var lítil snjókoma, en annars staðar hlóð niður snjó. Til dæmis á Laugarvatni var veðrið svo óskaplegt, að talið er að þar hafi ekki komið önnur eins stórhríð síðustu 20—30 árin, og voru skaflar þar orðnir allt að tveim metrum á hæð í gærkveldi.

Morgunblaðið 17.janúar:

Vetur konungur flesta landsmenn finna það í gær, að það er hann, sem ríkir um þessar mundir. Yfir mikinn hluta landsins gekk mesta óveður, sem komið hefur á þessum vetri 8—10 vindstig með dimmum hríðaréljum. Í gærkvöldi var ekki kunnugt um neinn stórskaða af völdum þess. Bátar voru ekki á sjó, því að veðrið var þegar orðið ófært í fyrrakvöld. Óveðrið hafði í för með sér töluverðar símabilanir, sem skýrt er frá á öðrum stað hér í blaðinu. Hér í Reykjavík varð að taka upp rafmagnsskömmtun, samgöngur töfðust mjög vegna ófærðar, því að snjó dró mjög í skafla. Eldur kom upp í húsi í Vesturbænum. Kona varð bráðkvödd í strætisvagni í gær. Í fyrrinótt var mjög slæmt veður hér í bænum. Óveður þetta skall á síðari hluta dags á miðvikudaginn. Um hádegisbilið gerði mjög dimmt él, en í verstu hryðjunum komst veðurhæðin upp í 12 vindstig. Þetta hafði í för með sér, að aðstandendur skólabarna voru mjög á báðum áttum, hvort senda skyldi börnin í skóla, enda var það svo, að eftir hádegið var mjög illa mætt í barnaskólunum. Var þá víða gefið frí, þar eð ekki var kennslufært. Einn barnaskólinn tilkynnti að kennsla myndi falla niður eftir hádegið. Var það Langholtsskólinn. Í gærkvöldi tilkynntu barnaskólarnir, að kennsla myndi falla niður í dag vegna þess, hve spáð er slæmu veðri. Er þess vænst, að norðanveðrið lægi með kvöldinu. Um klukkan 3 í gærdag fór að verða vart rafmagnstruflana hér í bænum. Var ekki hægt að koma fullri orku til bæjarins frá orkuverunum austur við Ljósafoss en ástæðan var gífurleg krapamyndun. Iðulaus stórhríð, .ofanbylur og skafrenningur var þar eystra og lagði út á vatnsuppistöðuna við stíflugarða orkuveranna, og myndaðist mikið krap þar. Tókst að koma þessu í lag aftur um klukkan 6, og var þá rafmagnsskömmtuninni hætt. Hverfin voru til skiptis rafmagnslaus í svo sem hálftíma í senn. Hvar, sem farið var um bæinn í gær, var umferð fólks mjög lítil, enda var veðrið þannig, er bæjarbúar risu úr rekkju í gærmorgun, að það voru aðeins þeir, er brýnt erindi áttu, sem fóru að heiman. Í gærkvöldi mátti heita, að ekki sæist nokkur maður i strætisvögnunum. Vögnunum gekk yfirleitt vel að halda áætlun. Ef tafir urðu þá var það vegna þess, að élin sem stundum stóðu alllengi voru svo dimm, að ekki var hægt að aka nema fetið. Færð var þó sums staðar orðin þung síðdegis, en þá komu vegheflar og ýtur bæjarins á vettvang og ruddu allar helstu samgönguleiðirnar um bæinn þveran og endilangan. Lögbergsvagninn festist í gærkvöldi uppi við Rauðavatn. Munu engir farþegar hafa verið með vagninum. Úr Kópavoginum bárust þær fregnir í gærkvöldi að þar væri víða mikil ófærð. Um klukkan 3:30 kom kona utan úr hríðinni inn í strætisvagn sem fara átti í Vesturbæinn. Hafði hún setið skamma stund, er hún skyndilega féll fram úr sætinu. Var sjúkraliðið þegar kvatt á vettvang. Konan var látin er að var komið. Hafði hún orðið bráðkvödd. Í óveðrinu í gærmorgun var slökkviliðið kallað vestur í Selbúðir 9. Þar var mikill eldur í stofu, er brunaverðir komu á vettvang. Brann þar allt og eyðilagðist, en brunaskemmdir urðu ekki aðrar en í þessari stofu. Voru eldsupptök þau, að þar stóð enn jólatré og mun rafmagnsljós á því hafa kveikt í trénu. Í Reykjavíkurhöfn var allt rólegt að því undanskildu, að þýski togarinn Anton Dhorn sleit sig oft frá bryggju, en var loks fluttur innar í höfnina. Lögregluvarðstofan skýrði blaðinu frá því í gærkvöldi, að lögreglan hefði haft mörgu að sinna í gær í sambandi við ófærð á götum bæjarins, fjölda bílaárekstra og fleira. En stórtíðindalaust var að öðru leyti. Allar flugsamgöngur til og frá landinu lágu niðri í gær, og báðir flugvellirnir voru lokaðir.

Samkvæmt upplýsingum frá ferðaskrifstofu Kaupfél. Árnesinga á Selfossi, í gærkvöldi, var færð yfirleitt góð um allar sveitir fyrir austan Fjall. Laugardælingar höfðu þó aðra sögu að segja, því að þar hefur kyngt niður meiri snjó en menn muna þar um 30 ára skeið. Var bráðófært um hinn fagra dal og heima á Laugarvatni hafði dregið svo í skafla, að þeir voru nær því jafnháir og húsin þar, að því er fregnir hermdu. Snjóþungt var orðið í öðrum uppsveitum, svo sem Biskupstungum. Krýsuvíkurleiðin var greiðfær í gær, og farið var milli Reykjavíkur og Selfoss á 5 klst. Það voru hin dimmu él, sem töfðu, en í byljunum sá ekki fram fyrir bílana.

Keflavík l8. janúar. Miklar rafmagnstruflanir hafa verið um gjörvöll Suðurnesin í dag af völdum óveðursins. Hafa rafmagnslínur slitnað eða orðið samsláttur á línum. Hér í bænum hefur ekki dregið til neinna sérstakra tíðinda í sambandi við veðrið, að öðru leyti en því að færð er víða orðin erfið og í kvöld voru horfur á að þjóðvegurinn til Reykjavíkur myndi jafnvel lokast.

Miklar símabilanir urðu í ofviðrinu í gær, en þær voru í því fólgnar að ýmist slitnuðu símalínurnar eða línusamsláttur varð. Ekki er kunnugt um að símastaurar hafi brotnað. Flestar þessar bilanir hafði tekist að lagfæra í gærkvöldi. Í fyrrinótt varð fyrsta símabilunin er talsímasambandið milli Reykjavíkur og Ísafjarðar og Patreksfjarðar rofnaði. Símalinan milli Hrútafjarðar og Hólmavíkur slitnaði. Þar var ofsaveður í gærdag og ógerlegt að senda símamenn á vettvang. Árdegis bilaði svo fjölsímasambandið við Akureyri, Þó varð ekki sambandslaust þangað, því hægt var að tala um Suðurlandslínuna. Það sem olli biluninni var, að í fárviðrinu slitnuðu símalínur skammt frá Blönduósi. Nærri samtímis slitnuðu þar einnig símalínur til Sauðárkróks og Skagastrandar. Fyrir harðfylgi símamanna þar nyrðra tókst milli bylja, að koma símasambandinu á aftur, á fjölsímann til Akureyrar og einnig milli Blönduóss og Skagastrandar. Símtöl til Akureyrar voru þó ekki truflanalaus með öllu. Í gærkvöldi var símasambandslaust við Sandgerði og miklar truflanir á smástöðvum austur í sveitum t.d. Laugarvatni og Torfastöðum. Um skeið var aðalsímasambandið við Stykkishólm rofið, en það tókst að lagfæra. — Á meðan var hægt að ná þangað um Hrútafjarðarstöðina.

Eins og áður sagði kom nú óvenjukalt loft suður um landið. Svonefnd þykkt, sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs hefur ekki oft orðið jafnlítil yfir landinu og þann 20.janúar. Kortið hér að neðan sýnir þetta. Þann 10. hafði frost farið í -32,0 stig í Möðrudal. Þetta var í fyrsta skipti eftir 1920 sem frost á landinu hafði mælst meira en -30 stig, en raunar er ýmislegt vafasamt við þessa mælingu (hún er nánast ólesanleg í skýrslunni). Frost náði t.d. ekki -20 stigum á Grímsstöðum á Fjöllum þennan dag og var mest -21,4 í Reykjahlíð við Mývatn. Síðar í mánuðinum [25.] fór frost í -25,0 stig í Reykjahlíð við Mývatn. Við leyfum tölunni lágu samt að standa - en höfum villumöguleikann í huga. 

Slide2

Morgunblaðið birti ísfrétt þann 18.janúar:

Í gær bárust tvær hafísfregnir. Önnur fréttin kom frá togarm um Aski. Tilkynntu skipsverjar ís skammt norð-vestan af Vestfjörðum. Var þar ísspöng, sem náði eins langt og augað eygði frá austri til vesturs og var ísrek talsvert grynnra en spöngin. (Hin fréttin var frá siglingaleið til Ameríku).

Fréttir bárust nú af lagnaðarís, bæði í nágrenni Reykjavíkur sem og vestan úr Breiðafirði:

Vísir segir frá 22.janúar: 

Víkur og vogar í nágrenni Reykjavíkur eru nú ísi lagðar eftir frostakaflann, sem staðið hefur samfleytt á aðra viku. Skerjafjörð hefur lagt innanverðan frá Shellbryggju og yfir í Álftanes. Ísinn er ekki mannheldur, en mun að líkindum verða það næstu dægur ef stillur og frost haldast. Þá hefur Elliðaárvog lagt. Ísinn þar er það þykkur að vélbátar komast ekki að og frá dráttarbrautinni, sem þar er.

Tíminn segir frá ís á Breiðafirði í frétt 31.janúar:

Stykkishólmi í gær. — Innfirði Breiðafjarðar var farið að leggja í kringum síðastliðna helgi og ísinn víða mannheldur, svo farið var að ganga milli eyja í Flateyjarhreppi Á þessu svæði leggur alltaf fljótt, enda grunnsjávað. Lagís var kominn á Gilsfjörð og Hvammsfjörð, en þegar hlýnað molnaði ísinn og gætti rekíss nokkuð á Breiðafirði. Vegna norðanáttarinnar lagðist þessi rekís að landi sunnanvert við fjörðinn og barst m.a. inn í höfnina í Stykkishólmi. Var um tíma mjög erfitt að athafna sig í henni af þeim sökum.

Þetta óvenjukalda loft olli einnig mikilli snjókomu í Færeyjum. Við skulum halda þessari frétt sem Tíminn birti 24.janúar til haga:

Kaupmannahöfn í gær. Frá Þórshöfn í Færeyjum berast þær fregnir, að síðustu dagana hafi snjóað slík ósköp í Færeyjum, að slíks séu engin dæmi síðustu þrjátíu árin. Meginhluti þessa fannfergis hefir fallið síðasta sólarhringinn. Í gær var algert samgöngubann á landi á eyjunum vegna snjóa.

Það er fróðlegt að lesa hugleiðingar og fréttir af veðurfarsmálum fyrr á árum. Um þetta leyti gætti ótrúlegrar bjartsýni sumra vísindamanna um að mönnum tækist brátt að ná stjórn á veðri. Þessi bjartsýni var ekki aðeins í æsifréttaritum heldur birtist um þetta allmikill fjöldi vísindagreina og virtir vísindamenn létu ýmislegt eftir sér hafa - sem þeir flestir sáu síðan eftir. Morgunblaðið birti þann 16. janúar frétt af málinu. Þar er m.a vitnað í „föður vetnissprengjunnar“ Edward Teller - sem síðar varð einnig frægur fyrir svonefnda „stjörnustríðsáætlun“:

Árið 1953 skipaði Bandaríkjaþing sérfræðinganefnd til þess að gera athuganir á „veðurstjórn" og skila áliti og tillögum í því sambandi hið fyrsta. Nú hefur nefnd þessi lokið störfum og lagt mikla greinargerð fyrir Bandaríkjaforseta. Er þar lögð áhersla á að auknar verði að mun rannsóknir á því hvernig stjórna megi veðrinu. Segir og, að innan tíðar verði „veðurstjórnin" talin jafnmikilvæg hverju stórveldi og vopnin eru nú til dags. Það geti haft örlagaríkar afleiðingar fyrir mannkynið, ef eitthvert stórveldi næði stjórn á veðrinu á undan öllum öðrum — og gæti beitt því óvinum sínum til bölvunar. Nú þegar geta sérfræðingar framkallað rigningu hvar sem er og á þann hátt er hægt að valda stórtjóni á mannvirkjum og ræktuðu landi, með stórflóðum. Á sama hátt verður í framtíðinni hægt að koma í veg fyrir alla úrkomu. Þar af leiðandi mundi draga úr gróðri á viðkomandi svæðum — og væri á þennan hátt hægt að valda hungursneyð. Líklegt er talið, að þróunin verði sú, að mennirnir geti með tímunum ráðið öllum veðrum — og hefur vísindamaðurinn Edward Teller, sem talinn er „faðir" vetnissprengjunnar, m.a. sagt, að mennirnir muni innan tíðar hafa vald yfir veðurfarinu — og hætta geti jafnvel orðið á því, að „kalt stríð" verði háð með veðri. Stríðið gæti þá raunverulega orðið „kalt", ef fjandmenn herjuðu hvor á annan með kuldabylgju, hörkufrosti og snjókomu. Veðrið yrði þá jafnvel enn hættulegra vopn en öflugustu sprengjur eru nú til dags. Það verður því mjög mikilvægt að mennirnir misnoti ekki yfirráðin yfir veðurfarinu í framtíðinni. í því sambandi hafa margir lagt það til, að Sameinuðu þjóðunum verði falin  yfirsjón yfir öllum tilraunum mannanna til þess að gera veðurfarið sér undirgefið. 

Þann 25. janúar fór hlýrra loft aftur að þrengja að því kalda. Lægð nálgaðist úr suðri og olli miklu illviðri, sérstaklega syðst á landinu. 

Slide4

Tíminn 30.janúar

Síðastliðinn laugardag gerði hér aftakaveður undir [Eyja-] Fjöllunum, og var hvassast undir svonefndu Steinafjalli. Mun vindhraðinn hafa orðið 12—14 vindstig. Nokkrar skemmdir urðu í veðri þessu, einkum að Steinum. Að Steinum búa þrír bræður, Sigurbergur, Bárður og Páll Magnússynir. Hjá Sigurbergi fauk þak af hlöðu og geymsluskúr. Hjá Bárði fuku fjórar plötur af nýjum fjárhúsum. Hjá Páli fuku nokkrar plötur af nýju íbúðarhúsi. Einnig brotnuðu allmargar rúður og fleiri skemmdir af smærra tagi urðu. Að Þorvaldseyri urðu einnig nokkrar skemmdir. Þar fuku um 20 járnplötur af nýjum fjárhúsum. Frá þökum á húsum undir Eyjafjöllum er gengið sérstaklega vandlega vegna veðrahættu, og var svo á þeim húsum, sem þakplöturnar fuku af. Veðrið kippti plötunum upp með nöglum, sem þó voru hnykktir innan á súð. Nokkrar skemmdir urðu á síma línum í veðrinu. Síðustu dagana hefir verið góð hláka og rigning mikil. Snjólaust má heita með öllu undir Fjöllunum.

Veður varð einnig mjög vont austur í Hornafirði. Tíminn segir frá 2. febrúar. Þann 26. janúar var kosið til sveitarstjórna á þéttbýlisstöðum landsins. 

Frá fréttaritara Tímans í Hornafirði í gær. Laugardaginn fyrir kosningasunnudag brást á foraðsveður hér um slóðir með hvassviðri og slyddu eða snjókomu. Hlóð snjó á símalínur og brotnuðu alls 122 símastaurar hér í sveitunum og línur slitnuðu víða. Í Nesjum brotnuðu 66 staurar og 50 í Lóni og nokkrir í Suðursveit. Skemmdir urðu ekki teljandi aðrar, en þó fauk hey á einum bæ. Bátarnir komust heilu og höldnu inn undan veðrinu, og einnig nokkrir Austfjarðabátar, sem úti voru, komu einnig nokkrir hingað inn.

Austanlands var veðurlag skárra heldur en í öðrum landshlutum. Veðurathugunarmaður á Skriðuklaustri segir af vatnsskorti á bæjum á Fljótsdal. Hann segir einnig af snjó og krapaflóðum í Norður- og Austurdal, einkum hjá Eiríksstöðum í Norðurdal. Sama veður olli tjóni við mannvirkjagerð við Grímsárvirkjun. Tíminn segir af því þann 31. janúar:

Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Hér er enn sama veðurblíðan, snjólaust að mestu, svellalög nokkur, en fært um fjallvegi. Hagar eru góðir og hefir svo verið í vetur, fé hraust og gjaflétt. Er vetur þessi enn sem komið er einhver hinn mildasti og snjóléttasti sem hér hefir komið um áratugi. Allmikill vöxtur hljóp í ár og læki hér í hlákunni og rigningunni eftir helgina, og ruddu sumar sig og hlupu úr farvegum. Eyvindarstaðaá stíflaðist af íshröngli og krapi og hljóp upp á flugvöllinn og liggur en á 300 metra kafla hans á norðurendanum.

Allmikið hlaup kom í Grímsá, og olli smávegis tjóni við nýju virkjunina, einkum á bráðabirgðastíflu úr timbri, sem notuð hefir verið til að bægja ánni til hliðar meðan unnið er að mannvirkjagerð.

Slide5

Kalt var í febrúar - og ófærðarfréttir áberandi. Við leyfum okkur að birta talsvert af þeim. Kortið að ofan sýnir stöðuna í háloftunum. Norðvestlægar áttir voru ríkjandi. Úrkoma var lengst af ekki mikil sunnanlands. 

Tíminn segir af snjókomu nyrðra þann 11. febrúar - og heldur síðan áfram:

Frá fréttaritara Tímans. Akureyri í gær. — Hér snjóaði látlaust í nótt er leið og í dag og er nú hið mesta fannfengi um allt héraðið svo að hvergi sér á dökkan díl, bókstaflega talað. — Allir vegir eru ófærir hér innanhéraðs og illfært víða um bæinn. Þegar fréttaritari átti tal við Mjólkursamlag KEA um kl. 6 í dag, var aðeins einn mjólkurbíll kominn úr Hrafnagilshreppi, en nokkrir aðrir höfðu verið mest allan daginn að brjóta sér leið, en voru ekki komnir til Akureyrar. Mjólk er flutt sjóleiðis frá Dalvík, Grenivík, Svalbarðseyri og Árskógsetrönd. Það eru einkum stórir „trukkar", sem notaðir eru nú á vegum, eða sleðar, sem ýtur draga. En illfært er öllum farartækjum, þar sem snjórinn er mjög laus og jafnfallinn og þyrlast óðara og golar í geilar þær, sem myndast hafa á vegum að undanförnu. Jarðlaust er nú um allt Eyjarfjarðarhérað. Í framfirði er löngum útigangur fyrir hross, en nú er það af, og hross hýst. Í gær kom hrossahópur úr Eyjafirði til Akureyrar. Voru það hross Akureyringa, sem nú taka við þeim í hús. Hér er nú líka starfrækt tamningastöð í vetur og er þar margt hrossa.

Tíminn 12.febrúar:

Dalvík í gær. — Hér hefir hlaðið niður miklum snjó undanfarið og allir vegir ófærir öðrum tækjum en dráttarvélum og jarðýtum, er annast mjólkurflutninga innan sveitar, en til Akureyrar er mjólkin flutt sjóleiðis. Fannfergi er orðið svo mikið, að óttast er um þök lágreistra húsa og farið að moka ofan af sumum þeirra svo að þau brotni ekki undan snjóþunganum. Í dag er nokkurn veginn bjart veður og mildara.

Tíminn 15.febrúar:

Ólafsfirði 14. febrúar. Hér hefir verið óslitið hríðarveður, það sem af er þessum mánuði, og stundum versta norðaustan stórhríð. Snjókoma hefur stöðugt verið það mikil, að til vandræða hefur horft fyrir bændur að koma mjólkinni í bæinn vegna ófærðar. Allt er á kafi í snjó. Skaflar á götum bæjarins eru nú orðnir i þakskegg sumra húsa, svo hægt er að ganga á skíðum yfir þau. Gæftir eru mjög slæmar og þá sjaldan að gefur á sjó er afli mjög tregur. Tvívegis hefir orðið að vísa togurum frá löndun, vegna ótíðar. Er þetta mjög bagalegt, þar sem algjört atvinnuleysi er hér um þessar mundir.

Tíminn 16.febrúar:

Fosshóli í gær. — Hér er hríðarveður flesta daga og er kominn mjög mikill jafnfallinn snjór. Nú er gersamlega ófært öllum venjulegum bílum um alla vegi í sýslunni og ekki reynt að hreyfa aðra bíla en snjóbíla. Þeir eru nú fjórir í förum um sýsluna og ganga flutningar þeirra allvel

Tíminn 19.febrúar - nú af Suðurlandi:

Það má segja, að 12 vikna harðindi hafi verið í uppsveitum Árnessýslu og alger innistaða fyrir sauðfé. Hross hafa og verið á gjöf síðan um nýjár, sagði Þorsteinn Sigurðsson bóndi á Vatnsleysu í gær, er tíðindamaður Tímans hafði tal af honum. Þótt veturinn hafi verið gjaffrekur svo að fágætt er er ekki hœgt að segja. að snjóalög séu mikil, heldur eru alveg óvenjulegar storkur á jörð. Komið hafa smáblotar en aðeins til þess að snjóbrynjan hefir orðið harðari. en fyrr. Veður hafa og verið ill og verða frostmikil, oft skafrenningur og því varla hægt að beita fé þess vegna, þótt jarðarsnöp væri. En mjólkurflutningar hafa eiginlega aldrei teppst í vetur, verið tafsamir dag og dag, en ekki stöðvast alveg. Má það eindregið þakka Iðubrúnni á Hvítá. Mestu snjóþyngsli eru nú eins og oft áður í Laugardalnum og á Hlíðabæjunum.

Tíminn 22.febrúar eru aftur fréttir af ís á Breiðafirði:

Frá fréttaritara Tímans í Stykkishólmi. Hér hefir verið talsvert vetrarríki undanfarnar vikur, og síðasta hálfan mánuðinn hefir Stykkishólmshöfn verið full af rekís. Hefir þetta valdið róðrarbátum miklum erfiðleikum og minni báta, trillur, hefir ekki verið hægt að hreyfa. Mikill ís hefir Verið á Hvammsfirði og Gilsfirði, og hefir verið gengið af Skógaströnd fram um eyjar. Bændurnir í Brokey og Öxney hafa og verið innilokaðir í þrjár vikur og samgöngulausir við land að öðru en því, að þeir hafa getað gengið á ís til lands. Hins vegar hafa þeir ekki getað notað nein farartæki og því ekkert getað flutt að sér eða frá.

Fyrri helmingur marsmánaðar var svipaður. Tíminn segir frá 12.mars:

Harðindi eru enn mikil í flestum landshlutum, og er vetur þessi að verða einn hinn harðasti, sem komið hefir hér í mörg ár. Síðdegis í gær var stórhríðarveður um meginhluta landsins, norðan stormur og veðurspá ill. Frosthörkur eru og töluverðar og innigjöf fénaðar í flestum sveitum. Á Norðurlandi, einkum austanverðu mega heita samfelld harðindi, snjóalög og innigjöf síðan um hátíðar, og er þetta orðinn einn gjaffrekasti vetur, sem þar hefir komið lengi. Allar samgönguleiðir hafa verið tepptar þar lengi. Á Austurlandi var mjög mildur og snjóléttur vetur fram í febrúar, en þá breytti til, og síðan hefir verið þar alisnjóþungt og innigjöf. Á suðausturhorni landsins hefir veturinn verið mjög mildur og góður, og er það eini landshlutum, sem þá sögu hefir að segja af þessum vetri öllum. Þegar á allt er litið, verður vetur þessi að teljast einn hinn harðasti, sem komið hefir um árabil. Þessi harðindi haldast enn og fara vaxandi, og er nú stórhríðarveður með allmiklu frosti um meginhluta landsins. Einna snjóléttast hefir verið á Suðvesturlandi og Suðausturlandi. Í gær var þó nokkur snjókoma sunnan lands og vestan, og voru vegir orðnir tepptir í uppsveitum Árnessýslu og gengu mjólkurflutningar treglega. Hellisheiði er ófær en Krísuvíkurleið allgóð í gær. Vegir voru sæmilegir um Borgarfjörð og vestur á Mýrar, en aðrar leiðir máttu heita ófærar um land allt, og hafa margar verið mánuðum saman. Þótt ekki hafi getað talist snjóþungt sunnan lands í vetur, hafa löngum verið þar áfrerar og innigjöf fyrir fénað, einkum í uppsveitum, og svo hefir einnig verið í Borgarfirði. Frosthörkur hafa verið miklar sunnan lands. Ísalög hafa verið óvenjulega mikil á innfjörðum Breiðafjarðar og valdið miklum trafala.

Vísir segir 13.mars frá stöðunni á Siglufirði:

Fannir eru með mesta móti á Siglufirði í vetur og feikna þiljur í öllum hvosum og giljum, en skefur úr fjöllum og fjallabrúnum vegna hvassviðrisins. Í kaupstaðnum sjálfum hafa ýtur haldið opnum aðalgötunum, en það þarf að ryðja þær oft vegna þess hve mjög fennir í brautirnar. Margar götur eru ófærar allri bifreiðaumferð.

Og loksins fór að snjóa í Borgarfirði líka, Tíminn 13.mars. Einnig er sagt af ísalögum í Skagafjarðarhéraði:

Færð var orðin mjög ill á vegum í Borgarfirði í gær og gengu mjólkurflutningar treglega. Ýtur voru að verki, en þó komust bílar ekki leiðar sinnar úr sumum sveitum. Einnig var orðið þungfært vestur á Mýrum.

Sauðárkróki í gær. — Það má heita að Héraðsvötnin ísi lögð séu orðin að þjóðbraut hér í Skagafirði nú meðan ófærðin er sem mest. Hafi vegirnir verið ruddir, hafa þeir lokast svo að segja strax aftur. Menn hafa því notað tryggan ís á Héraðsvötnum til að komast eftir leiðar sinnar og hafa þau ferðafög gefist vel. Farið er á jeppum og nú í seinni tíð hafa Blöndhlíðingar flutt mjólk í jeppakerrum í kaupstað. Svo má heita að á hverjum degi komi hingað einn eða fleiri bílar framan úr sveit og ekin séu Héraðsvötn. G.Ó.

Veðráttan hélst svipuð fram undir miðjan mars. Þá breytti rækilega um á einum degi. Öflug lægð sótti að úr suðri og olli miklu austanveðri um stóran hluta landsins. Verst varð veðrið þó á Suðurlandi og varð þar talsvert tjón. Snjóflóð urðu á Vestfjörðum. 

Slide6

Blöð segja frá illviðrinu næstu daga:

Tíminn 14. mars:

Geysilegir erfiðleikar eru nú á mjólkurflutningum í sveitunum austan fjalls og hafa verið síðustu þrjá dagana. Þegar blaðið átti tal við Helga Ágústsson á Selfossi um klukkan hálftíu í gærkveldi voru engir mjólkurbílar komnir úr uppsveitum eða austan úr Rangárþingi, en búist við að þeir mundu brjótast til Selfoss í nótt eða dag.

Tíminn 16.mars:

Fárviðri af austri og suðaustri, eitt hið mesta sem kemur, gekk yfir sunnan- og vestanvert landið í fyrrinótt og fram eftir degi í gær en fór þá lægjandi. Mun veðurhæð sums staðar hafa komist upp í 14 vindstig og jafnvel 15 í Vestmannaeyju. Ekkert stórtjón hefir þó orðið svo vitað sé.

Að sjálfsögðu var aftakaveður undir Eyjafjöllum, og urðu þar smáskemmdir, sleit plötur af þökum og eitthvað fauk af heyi, en stórvægilegar geta þær ekki talist. Símabilanir urðu nokkrar þar austur undan og var sambandslaust austur til Víkur. Í gær var þar mikil hláka og mátti heita orðið autt þar síðdegis. Í Fljótshlíð var aftakaveður, brotnuðu rúður á einstöku stað og reið sitthvað fleira til. Rafamagnstruflanir urðu í Rangárþingi. Í uppsveitum Árnessýslu var veðrið mjög hart og urðu þar nokkrar skemmdir. Hálft þakið tók af íbúðarhúsinu að Ásum í Gnúpverjahreppi. Þetta er mjög stórt hús úr steini. Reif þakið að kalla alveg af annarri húshliðinni og er það mikið tjón.

Morgunblaðið segir af snjóflóði á Patreksfirði í frétt 16.mars:

Um miðnætti í fyrri nótt féll snjóskriða úr hlíðinni ofan við Patreksfjörð. Skriðan fór rétt hjá ysta húsinu í kauptúninu, sem stendur við Urðargötu. Einhver snjór mun og hafa runnið þar inn í kjallarann. Aðalskriðan lenti á tveim skúrum við götuna. Var annar bílskúr, þar sem geymdar voru tvær bifreiðar. Eyðilagðist önnur, ný, lítil rússnesk bifreið, en hin skemmdist. Hinn skúrinn var áhaldageymsla. Þar var einnig geymd vörubifreið, sem eyðilagðist með öllu. Skellinaðra, sem þarna var, er einnig ónýt. Skriðan stöðvaðist nokkru neðan við skúrana.

Ítarlegri frétt er í Morgunblaðinu 18.mars og síðan fjallar blaðið einnig um foktjón á Suðurlandi:

Svo sem getið hefur verið í fréttum, féll mikið snjóflóð úr fjallinu Brellum á Patreksfirði aðfaranótt síðastliðins laugardags. Féll aðalflóðið utan við kauptúnið, en lenti þó lítillega á ysta húsinu í byggðinni. Hreif það með sér þrjá bílskúra. Í skúrunum voru tvær fólksbifreiðir og ein vörubifreið, eyðilögðust tvær þeirra, en sú þriðja stórskemmdist. Þá urðu miklar eyðileggingar á rafmagnsstaurum, girðingum, lóðum og görðum af völdum flóðsins. Fréttaritari blaðsins á Patreksfirði, skýrir svo frá snjóflóði þessu sem er það stærsta sem sögur fara af í Patreksfirði. Flóðið féll úr fjallinu ofan Urða á Patreksfirði, sem er ysta byggðin þar. Þar hafði myndast mikil hengja í fjallinu upp við brún, en það er milli 300—400 metra hátt á þessum stað. Flóðið var 700 metra breitt. Bílskúrarnir sem sópuðust burtu með snjóflóðinu stóðu utan við kauptúnið og voru eigendur þeirra Þráinn Hjartarson, útgerðarmaður, Sigurður Guðmundsson. bílstjóri og Kristján Ólafsson birgðavörður. Bilskúr Þráins var úr timbri, járnvarinn. Í honum var nýr fjögurra manna fólksbíll ásamt miklu af vörum. Bíllinn gjöreyðilagðist, og skúrinn sópaðist burtu með flóðinu. Skúr Sigurðar Guðmundssonar var 20 metra löng steinbygging, með járnvörðu þaki. Ytri endi skúrsins sópaðist burtu en sex metrar af húsinu stóðu eftir. Í skúrnum var 3ja tonna vörubíll nýuppgerður og kassar með rafmagnsvörum sem Rafveita ríkisins átti. Gjöreyðilagðist allt sem í skúrnum var. Skúr Kristjáns Ólafssonar var timburbygging, járnvarin. í honum var fjögurra manna fólksbíll og skemmdist hann verulega, er skúrinn fór af grunni og flóðið hreif hann með sér. Þá rifnuðu upp allir rafmagnsstaurar sem á vegi flóðsins urðu og þar á meðal staurar þeir sem leiða að innsiglingarljósum hafnarinnar. Þá skemmdist einnig áhaldahús ríkisins í Mikladal mikið, er einnig lenti í flóðinu og allar vörur sem í því voru. Þakjárnið rifnaði af því og húsið skekktist til. Girðingar rifnuðu upp og lóðir og garðar stórskemmdust eða eyðilögðust alls staðar þar sem flóðið fór yfir. Snjóflóðið náði einnig að ysta íbúðarhúsinu í kauptúninu. Er það eign Kristins Jónssonar útgerðarmanns og Guðjóns Jóhannessonar, byggingarmeistara. Þetta er tveggja hæða hús. Var það jaðar flóðsins sem kom á húsið. Opnaðist hurðin að miðstöðvarklefa hússins er flóðið skall á því og fylltist herbergið af snjó. Einnig braust snjór inn í íbúðargang neðri hæðarinnar. Ekki urðu verulegar skemmdir á húsinu sjálfu en olíugeymir, sem var fyrir utan það rifnaði upp. Tæpt stóð að maður yrði fyrir flóðinu, en honum tókst að forða sér inn í fyrrnefnt hús í tæka tíð. Þetta er þriðja snjóflóðið sem núlifandi menn muna eftir að fallið hafi þarna úr fjallinu. Þetta er þó langsamlega mest þeirra allra. Fyrir eigi allmörgum árum féll snjóflóð þarna og hreif þá með sér allstórt hænsnabú. Ekki er vitað til að fyrsta flóðið sem munað er eftir að fallið hafi þarna gerði neinn verulegan skaða, en þá var engin byggð á þessum slóðum.

Hvolsvelli 17. mars. — Stórtjón varð á ríkisbúinu að Gunnarsholti í stórviðrinu aðfaranótt laugardagsins. Var það veður eitt hið mesta sem menn muna eftir að komið hafi um vestanverð Eyjafjöllin og sveitirnar þar fyrir vestan. Að Gunnarsholti er ein allra stærsta heyhlaða sem byggð hefur verið sunnanlands að minnsta kosti. Rúmar hún 3000—4000 hesta. Í stórviðrinu fauk gaflinn úr henni, og nokkru síðar reif veðrið og sviptibyljir upp mikið af járni á þaki. Í Gunnarsholti er rafstöð og liggur rafmagnslínan frá henni á 10—12 steinsteyptum staurum, járnbentum, heim í húsið— í veðrinu slitnaði stag er tengt var í staur heima á hlaðinu, en það hafði í för með sér að öll stauraröðin brotnaði. Staurarnir hanga þó saman á járnunum. Í Næfurholti urðu skemmdir á íbúðarhúsinu, er járn tók af helmingi þaksins. Þar varð fólk að halda kyrru fyrir inni í húsinu, því ekki var stætt úti. Á Galtalæk á Landi fuku tvö hey og missti bóndinn milli 50—100 hesta af töðu. Á Nýabæ undir Eyjafjöllum fauk einnig hey og þar skemmdist fjárhús. Eitthvað mun hafa fokið og skemmst af völdum veðurofsans í Fljótshlið svo og í Hvolhreppi. T.d. munu hlöður í Vatnsdal í Fljótshlíð hafa skemmst mikið. Þak þeirra hafði sópast í burtu. Ekki hafa fregnir borist af tjóni undir Austur-Eyjafjöllum og ekki úr Landeyjunum. Garðyrkjubændur í Reykholti í Biskupstungum höfðu einnig orðið fyrir miklu tjóni í fárviðrinu. Þar urðu skemmdirnar bæði af völdum  veðurofsans, sem braut mikið af rúðum í húsunum. Eins var það snjóþungi sem húsin braut. Hafði verið þar mikill skafrenningur áður en hlánaði. Í einu gróðurhúsinu, þar sem fallegar agúrkuplöntur stóðu í örum vexti og gefa hefðu átt ávöxt eftir 2—3 vikur, eyðilagðist allt. Í gær var einn garðyrkjubóndinn, Ingvar Ingvarsson búinn að setja 60 ferm. af nýju gleri í hús sín í stað þess sem brotnaði í fárviðrinu, en hann átti en nokkru ólokið.

Tíminn segir enn af ofsaveðrinu á Suðurlandi 18.mars:

Rauðalæk í gær. — Aðfaranótt laugardagsins gekk hér upp með ofsarok, sem hélst allan laugardaginn. Um ofanverða Rangárvallasýslu geisaði aftakaveður svo elstu menn muna vart annað eins. Skemmdir urðu á húsum og mannvirkjum. Hey fauk og jafnvel steinsteyptir raflínustaurar fuku um koll. Á Galtalæk fuku um sextíu hestar af heyi, sem hlaðið hafði verið upp úti. Þar fauk líka þak af súrheyshlöðu. Í Næfurholti fauk hálft þak af íbúðarhúsi og í Gunnarsholti varð stór hlaða fyrir miklum skemmdum. Hlaðan í Gunnarsholti er stórt boghús og fauk mikið járn af annarri hlið hennar og mæninum. Þá brotnuðu átta staurar í heimtaug frá rafstöð, sem er bæði fyrir Gunnarsholt og Akurhól. Staurar þessir voru steinsteyptir. Kemur þetta sér mjög illa, einkum fyrir fólkið á Akurhóli, þar sem húsið þar var upphitað með rafmagni. Í Vatnsdal í Fljótshlíð fuku tvær hlöður og 30—40 hestar af heyi. Rúður brotnuðu í íbúðarhúsinu á Heiði á Rangárvöllum og plötur fuku víða af húsum bæði í Hvolshreppi og Fljótshlíð. Veðurofsinn var mestur á ofanverðu Landi, Rangárvöllum og Fljótshlíð.

Og áfram heldur Tíminn 19.mars:

Seljabrekku í gœr. — Í óveðrinu fyrir helgina varð nokkurt tjón á húsum á Kjalarnesi. Þakplötur fuku af íbúðarhúsinu í Brautarholti, heyhlöðu í Lykkju og fjósi í Króki. Þak fauk af votheysturni í Skrauthólum og töluvert magn af heyi fauk í Bergvík og einnig fauk hey í Jörfa og Sjávarhólum. G.Þ.

Í Borgarfirði fréttist af eldingum þann 15. Tíminn segir af því þann 22.mars: 

Borgarnesi í gær. — Síðastliðinn laugardag [15.] sló tveimur eldingum niður með skömmu millibili nærri Hvassafelli í Norðurárdal í Borgarfirði. Gerðist þetta milli klukkan tólf og eitt á laugardaginn og fylgdu eldingunum síma- og útvarpstruflanir og skammhlaup á rafmagni. Þá er sýnilegt nokkurt rask, þar sem fyrri eldingunni sló niður, en hin kom fjær byggð. Virðist hín hafa verið öllu meiri, en ekki verður sagt um verksummerki eftir hana, þar sem ekki er vitað með vissu, hvar hún kom niður. Björgin klofnuðu. Fyrir ofan bæinn Hvassafell í Norðurárdal er klettabelti og sló fyrri eldingunni niður í brún þess. Fylgdu henni miklar þrumur. Um leið og eldingin reið á berginu, sáust eldflog í klettunum, en snjór hvarf af nokkru svæði og klöppin splundraðist. Féll grjótmulningurinn niður í fannir undir klettabeltinu. Fólki á Hreðavatni fannst síðari eldingin öllu meiri. Héldu menn þar í nágrenninu, að um jarðskjálfta væri að ræða, enda varð vart við titring í Bifröst og bæjum þar í kring. Háspennuöryggi brann í sundur í Bifröst og virtist eins og loga á öllum rafmagnstækjum, sem voru í notkun. Eldingunum fylgdu útvarps truflanir víða um héraðið, og þeir, sem voru að tala í síma, heyrðu lítið annað en brak og bresti meðan þetta gekk yfir.

Þann 7. maí birtist í Tímanum fregn um snjóflóð í Dýrafirði í þessu sama veðri:

Neðri-Hjarðardal, V-ís., 2. maí. — Veturinn hér var mjög jafnviðrasamur. Jarðbönn komu að vísu seint í nóv. og fyrst í des., en snjódýpi var ekki, en klaki á jörð. Fennti nokkuð af vestri í janúar, en veður voru aldrei mikil. Einu sinni í febrúar kom norðan gusa, er stóð stutt. En um miðjan mars gerði íhlaup af norðri ,með mikilli fannkomu og veðurhæð 15. mars kom snjóflóð héðan úr fjallinu fyrir utan bæinn í Neðri-Hjarðardal og féll á sjó út á um hálfan km breiðu svæði. Sópaði það burt nýræktargirðingu og braut nokkuð af túngirðingu hér. Sópaði snjóflóðið burt bátum við sjóinn, bátaspili og öðru lauslegu Og rak það á Þingeyri. Snjóflóð á þessum stað hefir ekki komið í minnum núlifandi manna, en gamlar sagnir eru um einsetukonu er Þórkatla hét í kofa hér utan við túnið, er snjóflóð átti að hafa sópað kofanum með öllu saman á sjó út. Síðan þetta skeði hefir verið mjög stillt veður. Logn dag eftir dag og sjórinn spegilsléttur, og er róíð á hverjum degi að heitið getur.

Eftir þetta var tíð í aðalatriðum góð til aprílloka. Fréttir voru aðallega af blíðviðri, en frétt frá Akureyri segir af hægri hláku og erfiðri færð á götum. Alhvítt var talið á Akureyri alla daga mánaðanna janúar til mars (gerðist líka 1936), en enginn alhvítur dagur var hins vegar í apríl. Tíminn segir frá 23. mars:

Akureyri í gær: Hér í Eyjafirði og í nálægum héruðum hefir verið mesta góðviðri undanfarna daga, Sólskin og fremur hlýtt í veðri, en sólin vinnur lítt á fönninni, sem liggur enn sem nær samfelld breiða yfir Norðurlandi. Vegir eru víðast torfærir og jörð er enn ekki til gagns fyrir skepnur. Snjór hefir að vísu sigið verulega þessa síðustu daga og vatn rennur undan, en hlákan er hægfara. Hér á Akureyri hefir færð um bæinn versnað síðustu dagana. Hefir verið mjög erfitt að komast um bæinn síðan hlánaði. Klakafylla er á flestum götum og sitja bílar fastir á henni þar sem hjólför eru djúp. Enn er mikill snjór í bænum og ruðningar sums staðar nær mannhæðar háir, en annars staðar má heita að slétt sé við girðingar í görðum. Rjúpur sækja nú mikið í garða bæjarbúa og hér um morguninn sat ugla á girðingarstaur við eina af götum bæjarins.

Þann 29. mars fórst flugvél í Vaðlaheiði. Var enn um það hörmulega slys rætt í Menntaskólanum á Akureyri á tíð ritstjórans þar nokkrum árum síðar. Tíminn segir frá þann 1. apríl:

Cessna-flugvélin, sem týndist á laugardagskvöldið, fannst snemma á sunnudagsmorgun á Öxnadalsheiði. Hafði hún rekist á snæviþakið landið og mölbrotnað. Fjórir ungir menn, sem með vélinni voru, fórust allir.

Með maí kólnaði og var leiðindatíð um allt landið norðanvert nær allan þann mánuð. Syðra var sérlega sólríkt. Flestir veðurathugunarmenn telja mánuðinn óvenju stilltan. Kortið sýnir stöðu í háloftunum í maí. Ekki ósvipað að yfirbragði og febrúar, en þykktarvik mest við Ísland að þessu sinni. Samsvara um -5 stiga hitaviki þar sem mest var. 

 Slide7

Mjög var kvartað undan kuldanum í fréttum í maí. Byrjum á því að lesa Tímann 7.maí og síðan áfram:

Vetrarveður er nú komið á Norðurlandi, og mátti raunar heita það einnig hér sunnanlands í gær. Á Norðurlandi, einkum á annesjum, snjóaði nokkuð í fyrrinótt og gekk á með éljum í gær. Var víða snjóföl á jörðu og frost töluvert. Á Siglufirði var t.d. versta hríðarveður framan af degi.

Tíminn 11.maí:

Harðindi eru enn um mikinn hluta landsins, einkum norðan og austan. Hefir snjóað nær hvern dag norðan lands síðustu viku, verið mikil næturfrost og oftast um frostmark á daginn. Er þetta illur ábætir á mikinn fannavetur. Ef vorharðindi þessi halda áfram enn um sinn, hlýtur þessi vetur að teljast með þeim hörðustu, sem komið hafa um langt árabil. Á Norðaustur-landi var enn éljaveður í fyrrinótt og gær og 1—2 stiga hiti um hádaginn. Á Austurlandi hefir veður verið lítið eitt mildara en þó mjög kalt. Sunnan lands og vestan hefir verið bjartara en þó jafnan næturfrost og norðan kuldasteytingur, þótt klökknað hafi í sólskini hádagsins.

Tíminn 14.maí:

Egilsstöðum í gær. Hér er sama kuldatíðin og virðist heldur herða á. Hefir svo gengið síðasta hálfan mánuðinn, að i oftast hefir verið næturfrost, gránað um nætur en tekið um hádaginn. Gróður er nær enginn kominn enn.

Tíminn 22.maí:

Vorharðindi þau, sem nú dynja yfir meginhluta landsins eru að verða með fádæmum og síðustu daga hefir fremur kólnað en hlýnað. Í gær var norðaustan kaldi um allt land og hríðarveður vestan, norðan og austan lands, svo að jafnvel festi snjó í byggð, og veðurspáin gerði ráð fyrir éljum eða hríðarveðri í dag á Norðurlandi og Vestfjörðum. Á Vestfjörðum hefir verið frost á hverri nóttu undanfarið, oft gránað niður í byggð en snjóað talsvert á heiðum. Enginn gróðurvottur er enn kominn og fénaður allur á gjöf. Sauðburður stendur sem hæst. Í gær var hríðarveður af og til. Á Norðurlandi er sömu sögu að segja. í Fljótum og í Ólafsfirði mátti heita stórhríðarveður meg köflum í gær og alhvítt nema um hádaginn. Þar eru hörkufrost allar nætur í maímánuði nema eina. Í gær var þar kuldastrekkingur með éljum, lá við að festi snjó. í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum var hríðarveður í uppsveitum í gær, snjór á jörð í Mývatnssveit og fremst í Bárðardal, svo og á Hólsfjöllum. Á Fljótsdalshéraði var éljagangur í gær og mikil næturfrost síðustu nætur. Enginn gróður á þess um slóðum og fénaður allur á gjöf. Gengur mjög á heybirgðir og liggur við skorti á fóðurbæti sums staðar. Á Vaðlaheiði varð áætlunarbíll að nota snjókeðjur í gær, en þó var ekki mjög mikill snjór þar. Í dag eru fjórar vikur af sumri. Sauðburður stendur sem hæst og enginn gróður kominn. Bændur eiga í miklum erfiðleikum með lambfé sitt og lambám verður að gefa að mestu inni. Geldfé er þó víðast hvar búið að sleppa, og sums staðar reka fram á afrétt, t.d. í Þingeyjarsýslu. Þessi vorharðindi eru að verða með fádæmum.

Tíminn 23.maí:

Haganesvík, 22. maí. — Harðindunum, sem hófust hér fyrir alvöru 5. maí, linnir síður en svo ennþá. Í dag og gær hefir að kalla verið hvítahríð og alhvít jörð. Undanfarið hefir yfirleitt verið bleytuhríð, og fest snjó öðru hverju, en snjóinn hefir tekið upp aftur hér niðri við sjóinn. Öðru máli er að gegna frammi í dölunum. Þar er enn kafsnjór og bætir sífellt á, því að þar nær snjóinn ekki að taka.

Talsverður sinubruni varð í Flóanum þann 23. til 26.maí, hvítasunnan var þann 25. Blöð segja svo frá:

Tíminn 24.maí:

Frá fréttaritara Tímans á Stokkseyri í gærkveldi. Í dag gaus upp mikill reykjarmökkur hér ofan við kauptúnið, og lagði undan hægri norðangolunni yfir byggðina. Kom í ljós, að þarna var mikill sinueldur laus, og breiddist hann óðfluga út. Þótti þegar sýnt, að einhverjir illvirkjar eða slysamenn hefðu kveikt í sinunni, og var þegar mikil hætta á ferðum. Mikill sinuþófi er viða á þessu svæði og mosi í rót. Nú er allt skraufþurrt og magnaðist eldurinn því mjög og varð aðgerðarmikill með glóð í mosa niður í svörð. Sauðburður stendur sem hæst og höfðu bændur sleppt lambám þarna í mýrarnar, og var auðséð að það lambfé var í hættu, þar sem eldurinn gat kreppt að því við girðingar og skurði. Brugðu þeir því við með fólki sínu til þess að bjarga fénu undan eldinum, og áttu í ströngu við það daglangt. Eldurinn var orðinn svo víðáttumikill og magnaður, að ekki reyndist unnt að hefta útbreiðslu hans.  Skurðir eru þurrir, og þar sem slý og annar gróður er í þeim, fer eldurinn yfir þá. Augljóst er að miklar skemmdir eru orðnar á engjum nokkurra jarða, einkum Svanavatns, Hoftúns og Syðra-Sels. Á þessum og fleiri bæjum verður fólk að vaka í nótt og fylgjast með eldinum til þess að reyna að koma í veg fyrir að lambfé fari sér að voða og fyrirbyggja tjón á mannvirkjum, ef hann gerist nærgöngull. Nokkrar skemmdir munu og vera orðnar á girðingum. Augljóst er, að svo djúp sár verða eftir eldinn víða, að ekki grær upp til heyskaparnytja í sumar. Þá er hörmulegt að sjá, hverja útreið fuglarnir, sem nú liggja á hreiðrum sinum þúsundum saman á þessu svæði, fá af eldinum. Þarna verpa margar tegundir fugla, m.a. álftir, endur og fjöldi mófugla. Flúðu fuglarnir í hrönnum undan eldinum, sem eyðilagði egg þeirra og hreiður. Mikið skaðræðisverk hefir hér verið unnið með þessari íkveikju, og væntir fólk þess, að málið verði ýtarlega rannsakað og upp komist um sökudólgana. Sorti fyrir sól Reykjarsortinn var svo mikill hér á Stokkseyri, að sólin var sem dimmrauður hnöttur að sjá og skuggsýnt af reyk, enda var golan lítil.

Alþýðublaðið segir einnig frá eldinum 28.maí:

Eldurinn logaði fjóra daga samfellt um hvítasunnuna. Kviknaði eldurinn um miðjan föstudag skammt austan við Stokkseyri og slokknaði ekki fyrr en um miðjan dag á annan í hvítasunnu. Lagði svo mikinn reykjarmökk upp af svæðinu að sást um allt Suðursland og reykjarsvælu lagði langar leiðir. Hefur þarna orðið stórtjón á engjum og högum. Alþýðublaðið átti í gær tal við Helga Sigurðsson á Stokkseyri og sagði hann svo frá, að ekki - hafi tekist að ráða neitt við eldinn, svo fljótt breiddist hann út og var þá ekki frekar reynt til að hefta útbreiðsluna, heldur unnið að því að bjarga lambám undan eldinum því að víða komust ær í sjálfheldu við girðingar og skurði. Stórtjón hefur orðið þarna á engjum nokkurra jarða, aðallega bæjanna Syðra-Sels, Svanavatns og Hoftúns. Jörð var óvenjulega þurr, mikil sina og mosi í rót. Allt logaði þetta glatt og þykir einsýnt að jörðin grói ekki upp fyrr en eftir 2—3 ár. Girðingarstaurar brunnu allir á eldsvæðinu og er talið að þarna hafi brunnið sina á 60—70 hektara svæði. Á þessu svæði voru mikil varplönd og hafa fuglarnir verið grátt leiknir, því að öll hreiður hafa orðið eldinum að bráð. Talið er að ungir strákar hafi kveikt í sinu og ekki séð fyrir hinar geigvænlegu afleiðingar af gerðum sínum.

Tíminn 31.maí segir af vatnsleysi syðra:

Ívar Jasonarson á Vorsabæ, fréttaritari Tímans.í Gaulverjabæjarhreppi. leit inn á ritstjórnarskrifstofur blaðsins í gær og sagði nokkur tíðindi að austan. Ívar sagði þær fréttir af Flóaáveitunni að búið væri að veita á, en vatn væri af skornum skammti og veldur það bændum nokkrum áhyggjum. Þá kvað hann vegi alla í sæmilegu ástandi nú orðíð en hefðu verið illa færir um og sums staðar ófærir með öllu um sumarmál. Veðurfari hefir verið svo háttað að engin nótt var frostlaus frá sumarbyrjun að hvítasunnu og stundum hefði frostið komist upp í 6 gráður. Síðustu nætur hefir þó verið frostlaust.

Þurrkurinn olli vatnsskorti í Vestmannaeyjum. Tíminn segir frá honum 6. júní. En allgóð hlýindi voru á landinu fyrstu daga júnímánaðar. Síðan kólnaði.

Vatnsleysi er nú alvarlega farið að gera vart við sig í Vestmannaeyjum og þarf að hafa mikið fyrir því að sækja vatn til íbúðarhúsa og fiskvinnslustöðva til þeirra tveggja vatnsbóla, sem helst er gripið til, þegar vatn þrýtur í forðabúrum fólks. Meginhluta vatns er aflað á þann hátt í Eyjum, að rigningarvatn er hagnýtt af húsþökum og því safnað í stóra vatnsgeyma við húsin. Um brunna er vart að ræða, nema  hvað  helsta vatnsbólið er í Herjólfsdal. En þar þrýtur sjaldan vatn með öllu. Nú hafa langvarandi þurrkar orðið þess valdandi, að geymar allir eru tómir að kalla og sumir fyrir nokkuð löngu síðan. Þegar mest hefir hert að í vatnsþurrð í Vestmannaeyjum, hefur orðið að sækja vatn til meginlandsins, en til slíks hefir ekki þurft að koma nú um langt skeið, hvað sem verða kann, ef þurrkar haldast lengi enn.

Um mánaðamótin júní/júlí komu allmargi hlýir og góðir dagar. Gras tók að spretta og horfur urðu betri. En smám saman fór á erfiðari veg fyrir norðan og austan. Síðari hluti júlí og ágústmánuður voru þar kaldir og erfiðir, en syðra var mun betri tíð. 

Þoka er algengust í Reykjavík í júlí, Tíminn segir frá þann 6. en ræðir síðan um góða sprettutíð:

Miklar truflanir hafa orðið á flugferðum hér á landi síðustu dægur. Í gærmorgun og lengi dags í gær voru allir millilandaflugvellimir á Íslandi lokaðir vegna þoku og var svo enn, þegar blaðið fór í prentun síðdegis í gær.

Sprettutíðin síðasta hálfan mánuðinn, svo að segja um allt land, hefir verið svo góð, að grasspretta hefir verið með eindæmum ör. Tún voru snögg og jafnvel grá fyrir þrem vikum, en nú má heita að komið sé ágætt gras og sláttur er víða byrjaður. Mun hann byrja í öllum héruðum landsins í þessari viku.

Um miðjan mánuð leit vel út. Tíminn 18.júlí og síðan áfram:

Heyskapur hefir gengið mjög vel þessa viku, sem er víðast hin fyrsta raunverulega heyskaparvika sumarsins. Blaðamaður frá Tímanum átti í gær símtal við fréttaritara víðs vegar um landið og leitaði fregna af heyskapnum. Samkvæmt upplýsingum í gær, er sláttur nú byrjaður af kappi um landið allt, og víðast hefir það, sem af er þessari viku verið sérlega hentug tíð til heyskapar. Einna best hefir heyskapartíðin verið á Suðurlandinu, en þar má heita að brakandi þurrkur hafi verið alla vikuna það sem af er.

Tíminn 19. júlí:

Hvarvetna um Norðurland eru nú ágætir heyþurrkar og heyskapur er í fullum gangi. Undanfarna viku hefur vart dregið ský fyrir sólu á daginn, hitar hafa verið miklir víða og bændur slá og hirða jöfnum höndum að heita má.

Tíminn 24.júlí:

Það sem af er þessu sumri hefir verið hagstætt landbúnaðinum, segir Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri í viðtali víð Tímann. Grasið hefir sprottið á undrastuttum tíma, svo að segja má að á miklum hluta landsins sé komið gott gras á túnum og flæðiengjum, en norðaustanlands mun horfa einna verst. Þar er mikið kal víða í túnum og sums staðar hafa tún brunnið vegna hinna langvarandi þurrka. Þar mun því einna mest hætta á að gras bregðist. Vorið var kalt og þurrt og greri seint um allt land, segir búnaðarmálastjóri. Í raun og veru fóru ekki vætur að koma, fyrr en seinast í júní eða í júlíbyrjun. Snjóa leysti afar seint nyrðra og það seinkaði öllum vorverkum þar. Þetta þurrkasama vor var bændum erfitt. Víðast um land varð að gefa sauðfé fram yfir sauðburð langt fram eftir júnímánuði. Fyrir 20—30 árum hefði verið stórfelld vá fyrir dyrum við tíðarfar eins og í vor — heyleysi og fellir, en því betur fór ekki svo nú. Vafalaust má þakka það aukinni búmenningu og sívaxandi vélanotkun við bústörf. Grasið hefir þotið upp á stuttum tíma fyrri hluta júlímánaðar, svo að segja má að á miklum hluta landsins sé komið gott gras á túnum og flæðiengjum. Norðaustan lands mun grasspretta vera einna verst. Þar hafa þurrkarnir verið þrálátastir og úrkoman minnst og tún eru þar víða orðin sólbrunnin.

Ritstjórinn minnist ferðar norður í land þetta sumar og undraðist hann nýsnævið í Hlíðarfjalli. Þegar heim var komið birtist þessi mynd í Morgunblaðinu (ljósmyndara ekki getið). Þetta er fyrsta veðurfréttin sem ritstjórinn man eftir að hafa tekið eftir í dagblaði (og finnst því merkileg). 

Slide1

Kuldinn var mikill fyrir norðan og snjóaði í efstu byggðum, en góðar heyskapar- og tíðarfréttir voru af Suðurlandi:

Tíminn 27.júlí:

Bræla var fyrir norðan í gær, og norðaustanátt um land allt Víða snjóaði til fjalla í fyrrinótt, og í Möðrudal var snjókoma og aðeins eins stigs hiti í gærmorgun. Víða um Norðurland var mikil rigning og kuldi. Torfært var um Siglufjarðarskarð í gærmorgun.

Fréttaritari blaðsins á Siglufirði skýrir svo frá í gær, að þar hafi þá verið súld og þoka. Lá mikill hluti flotans þar við land. Snjóaði töluvert í fjöll og  var  Siglufjarðarakarð illfært bifreiðum í gærmorgun. Á Akureyri var í fyrrakvöld mjög kalt í veðri, og gránuðu fjöll niður í miðjar hlíðar um nóttina. Í gær hlýnaði nokkuð, Og rigndi þá mikið.

Morgunblaðið segir af ótíð nyrðra 1. ágúst:

Grundarhóli. Hólsfjöllum. 30. júlí. — Hér er versta ótíð, norðanbræla og rigning og hitinn kemst ekki nema í 6 til 7 stig. S.l. föstudagskvöld snjóaði hér á láglendi og á laugardagsmorguninn var snjórinn það mikill á fjallgörðunum, að bílar þurftu aðstoð til að komast leiðar sinnar.

Næturfrost gerði á stöku stað syðra í kuldakastinu og leit um hríð ekki vel út með kartöfluuppskeru. Tíminn 2.ágúst:

Fréttaritari blaðsins í A-Landeyjum símar: Aðfaranótt þess 28. júlí gerði frost í Landeyjum. Mest var frostið um neðanverðar Austur-Landeyjar. Þar stórsér nú á kartöflugrasi. Kartöflugarðar á þessu svæði eru nær svartir yfir að líta. Einkum blöðin og stöngullinn að ofanverðu hafa kvolast við frostið. -.Ekki var farið að taka upp kartöflur í Landeyjum, en nú virðist uppskerubrestur yfirvofandi. Næturfrost gerði á þessum slóðum fyrir réttum mánuði.

Fréttaritari blaðsins í Gnúpverjahreppi símar: Heyskapur hefur gengið vel í Hreppum og eru nokkrir að ljúka við fyrri slátt. Mikið hey er úti í bólstrum og sæti. Tíðin hefur verið með afbrigðum góð, en þó hefur þurrkurinn ekki verið jafn eindreginn síðast liðna viku.

Tíminn segir af illri tíð nyrðra 13.ágúst:

Svo illa horfir nú um heyöflun í Norður-Þingeyjarsýslu, á Tjörnesi, jafnvel í Aðaldal og nyrstu sveitum Eyjafjarðar, að líkur eru til, að bændur verði að fækka á fóðrum og muni lítið sem ekkert setja á af lömbum í haust. Í Þistilfirði innanverðum er ástandið heldur betra og einnig í Öxarfirði, en í öðrum sveitum N-Þingeyjarsýslu hefir ekki komið þurrkur síðan 17. júlí, og liggur taðan stórskemmd eða jafnvel ónýt á túnum, sums' staðar flöt. Spretta var mjög lítil framan af og tún sums staðar mjög kalin, og hófst sláttur því seint. Þeir, sem allra fyrst byrjuðu, náðu nokkru um eða eftir 10. júlí, en meginhluti túna var sleginn eftir það, og liggur sú taða flöt víða. Oftast hefir verið norðan kaldi og oft þoka, en ekki stórrigningar. Hiti hefir oft verið 4—5 stig að morgni.

Tíminn 24.ágúst:

Enn er ótíð, norðanátt og rigningar á Norður- og Norðausturlandi, og er nú svo komið, að fullkomið vandræðaástand blasir við í ýmsum sveitum Norður-Þingeyjarsýslu og jafnvel víðar. „Það er nú auðséð, að sérstakra ráðstafana til heyöflunar þarf við í mörgum sveitum norðaustan lands,ef víkja á vá frá dyrum og komast hjá verulegri bústofnsskerðingu", sagði Gísli Guðmundsson, alþingismaður, er blaðið átti tal við hann nýkominn úr ferðalagi um Norður-Þingeyjarsýslu.

Með septemberbyrjun hlýnaði mjög í veðri og gerði eftirminnilega blíðu, ekki síst um landið vestanvert. September var víða hlýjasti mánuður sumarsins um landið norðan- og austanvert. Eystra var blautara. Fréttir af landhelgismálinu höfðu allan forgang á aðrar fréttir í fjölmiðlum. 

Tíminn 1.september.

Í sumar hefir talsvert jökulvatn fallið um austanverðan Mýrdalssand og valdið allmiklum trafala á umferð um sandinn. Síðustu dagana hefir þetta vatn vaxið.mikið og rennur nú á 4 km. breiðu svæði. Er þar með öllu ófært fyrir allar bifreiðar nema þær sem hafa drif á öllum hjólum og þó illfært fyrir jeppa. Djúpir álar hafa myndast víða og auk þess mikil sandbleyta. Horfir þarna til mikilla vandræða, og er ekki annað sýnna en sveitirnar austan Mýrdalssands einangrist ef ekkert verður að gert. Vatn þetta mun áður að mestu hafa fallið í Skálm, en hefir nú brotið sér farveg undan Mýrdalsjökli miklu vestar en áður. Þó hefir flugvatn verið í Skálm í allt sumar svo að hér er um óvenjumikla leysingu að ræða. Þess má þó geta að Múlakvísl hefir verið óvenjulega vatnslítil í sumar. Þetta ástand er mjög alvarlegt þar sem hæpið er að leggja á sandinn í öðrum bílum en stórum trukkum. Horfir til mikilla vandræða nema gripið verði til skjótra aðgerða og reynt að bæta úr ástandinu.

Tíminn 13.september:

[Vestur-Skaftafellssýsla] Í sumar var yfirleitt góð heyskapartíð hér í sýslu, en þó voru þurrkar mjög stopulir á allmörgum bæjum og ollu því tíðar fjallaskúrir, og einnig bar nokkuð á kali vegna kulda í vor. Á þessum bæjum, sem eru allir uppi undir fjöllum, er heyfengur og lélegur, jafnvel svo að nálgast vandræðaástand. Á þetta í raun og veru við bæði austan og vestan Mýrdalssands. Á Síðu á þetta við um bæina Hörgsdal, Norðtungu, Heiðasel, Heiði, Holt, Skál og Skaftárdal. Ennfremur á það við um nyrstu bæi í Skaftártungu, svo sem Ljótarstaði, Snæbýli, Búland, Hvamm, Borgarfell og Gröf. í Mýrdal má nefna Heiðarbæina, Falabæi, Gróf, Fellin og Sólheimabæi. Á öllum þessum bæjum nýttust þurrkar mjög illa vegna stöðugra fjallaskúra, og er heyfengur á sumum þeirra svo lítill og skemmdur að nálgast vandræðaástand. Annars staðar í sýslunni má heita þolanlegt ástand hvað fóðuröflun snertir, en þó því aðeins að einhverjir þurrkar komi nú í september.

Staðarsveit, 29. ágúst (Höfuðdag. — Segja má, að í nótt og dag hafi komið fyrstu regnskúrir sumarsins, sem um hafi munað og eiginlega hefir aldrei rignt neitt að ráði, það sem af er þessu ári, hér á sunnanverðu Snæfellsnesi. Heyskapur hefir gengið með afbrigðum vel og er nú lokið að mestu. Þrátt fyrir þurrkana, varð spretta á túnum í góðu meðallagi og útengi vel sprottið víðast. Háarspretta er aftur rýr eða engin og það sama má segja um síðsánar nýræktir. Við höfum notið í ríkum mæli sólríks sumars og með okkur fjöldi ferðamanna og sumargesta

Í septemberblíðunni bötnuðu horfur fyrir norðan. Tíminn 17.september:

Alireikið hefir nú bæst úr skák með heyskapinn á Norður- og Norðausturlandi, því að góðir þurrkar hafa verið þar í viku, bændur búnir að ná meginhluta heyja sinna, bæði hrakningnum og nýslegnu heyi. Er heyskapnum nú að ljúka, enda fara göngur og slátrun í hönd.

Tíminn 18.september:

Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Hér hefir nú verið góður heyþurrkur flesta daga í viku, og hefir orðið mikil breyting um heyskapinn. Hafa bændur hirt mikil hey og einnig slegið mikið og eru enn að losa.

Frá fréttaritara Tímans á Hvolsvelli. Flestir eru nú hættir heyskap hér um slóðir, enda hefir engin heyskapartíð verið að undanförnu. Víðast hvar í sýslunni hefir þetta þó verið hið ákjósanlegasta heyskaparsumar, og eru hey því góð en minni að vöxtum en oft áður. Í innanverðri Fljótshlíð og undir Eyjafjöllum, sérstaklega Austur-Eyjafjöllum á þeim bæjum, sem með fjöllunum standa, hefir þó verið mjög skúrasamt. Bændur á þessum bæjum hafa oft og einátt ekkert getað þurrkað, þótt fólk á næstu bæjum hafi verið í þurrheyi. Á Þorvaldseyri hafa t.d. ekki komið nema 12 þurrkdagar frá 1. júlí. Aftur á móti virðist kartöfluuppsker.a með ágætum, engin frostnótt hefir enn komið, og er fólk nú farið að taka upp úr görðum. Krækiber hafa varla sést í sumar, þykir það tíðindum sæta. Hins vegar er óvenjulega mikið af blá berjum og þau stór og vel sprottin.

Þann 30. september urðu allmikil skriðuföll á Seyðisfirði. Morgunblaðið segir frá þeim þann 1.október:

Austur á Seyðisfirði urðu þrjú meiri háttar skriðuhlaup í gærmorgun, eftir 6—7 klst skýfall, en allar hlupu skriðurnar úr Strandatindi. Manntjón varð ekki, en fólk varð að yfirgefa um 5—10 hús í gærmorgun og þrjú hús urðu fyrir meiri og minni skemmdum og þrær síldarverksmiðjunnar fylltust, er skriða hljóp yfir þær. Það var seinnihluta nætur í fyrrinótt, sem rigningin, er verið hafði allan mánudaginn, jókst svo að um hreint skýfall var að ræða. Strax í gærmorgun tók fólk sem býr í útjaðri bæjarins, þar sem kallað er Strönd, að ugga um hag sinn, því þá munu smáskriður hafa verið teknar að fallá. Fyrir kl. 10 hafði fólkið í húsunum „Skuld“ og „Hörmung“ yfirgefið þau. Um kl. 10 féll á þau skriða og urðu húsin bæði fyrir svo miklum skemmdum að við þau mun tæplega verða gert. Einnig féll skriða á hús Haralds kaupmanns Jóhannssonar og varð það fyrir lítils háttar skemmdum. Önnur skriða féll á síldarverksmiðjuna og grófust síldarþrærnar á kaf í aur og leðju en tjón á verksmiðjuhúsinu varð ekki. Þriðja skriðan féll í gili við símstöðvarhúsið, sem sjálft varð ekki fyrir skemmdum, en grjót og aur er þar kringum húsið og brú á læknum yfir Hafnargötu varð ófær eftir hlaupið. Ekki þótti ráðlegt að símastúlkurnar væru við símþjónustuna meðan aðalskriðuhættan stóð yfir og var Seyðisfjörður að nokkru símasambandslaus árdegis í gær og fram yfir hádegið. Talið er víst að skriður hafi einnig hlaupið á Strandaveg og lokað honum. Eins er talið sennilegt að skriður hafi hlaupið á veginn yfir Fjarðarheiðina. Klukkan að ganga 3 síðdegis dró verulega úr úrfellinu og undir kvöldið hætti að rigna. — Veðurspáin fyrir Austfirði er að aftur muni rigna í dag, en Seyðfirðingar telja nú skriðuhlaupahættuna liðna hjá. — Meðan ósköpin gengu yfir var óhugnanlegt um að litast og mun mörgum hafa orðið hugsað til skriðufallsins mikla 1950, er fimm manns biðu bana þar í bænum, á svipuðum slóðum og skriðurnar hlupu nú á „Hörmung“ og „Skuld“.

Hitamet októbermánaðar í Reykjavík telst 15,7 stig. Lítum aðeins á það mál. Þessi tala var lesin af hámarksmæli á Reykjavíkurflugvelli að morgni 1. október 1958. Síðast var lesið á mælinn kl.18 daginn áður, 30. september. Þá var hiti 15,6 stig, hámark dagsins var 16,9 stig (dægurmet auðvitað). Hámarkshiti síðdegis þann 1. október var 15,4 stig. Hámarkshitamet október í Reykjavík er því í raun og veru sett í kringum kl.18 þann 30. september. Svona eru reglurnar, engin miskunn. Síðan eru liðin meir en 60 ár. Veðurnördin hafa beðið - og bíða enn eftir því að þetta gamla met verði slegið. Hitinn sem mældist síðdegis, 15,4 stig var reyndar hærri en öll önnur hámörk í mánuðinum þar til að hiti komst í 15,6 stig þann 18. október árið 2001 - en ekki tókst þá (formlega) að slá metið. - Það flækir svo málið enn frekar að þennan sama dag, 18. október 2001 fór hiti á sjálfvirku stöðinni á Veðurstofutúni í 15,8 stig. Að viðurkenna það? - Sú stöð ræður þrátt fyrir allt öllu um hita í Reykjavík nú á dögum. 

Slide8

Kortið sýnir háloftastöðuna þann 30.september - dæmigerð hlýindastaða á höfuðborgarsvæðinu, verður ekki öllu betra eftir haustjafndægur. 

Október var góðviðrasamur. Þó er getið um eitt hríðarveður í fréttum og landsynningsrok gerði í Borgarnesi:

Morgunblaðið 16.október:

Árnesi, Suður-Þingeyjarsýslu.  Í norðanstórviðrinu s.l. föstudag [10.] varð svo mikil stórhríð í Bárðardal að fé fennti í kaf. Hjá Víðikeri í Bárðardal fundust 12 kindur í fönn, allar lifandi, og vitað er um 9 kindur, sem hrakist hafa í krap og læki og drepist. Fleira fé getur hafa farið í fönn, en það er enn ekki rannsakað. Í þessu stórviðri urðu miklar bilanir á símalínum, brotnuðu staurar og línur slitnuðu. Var þetta eitt með allra verstu veðrum, sem komið hafa, Hér er enn allt hvítt af snjó, einkum til heiða.

Vísir 21. október:

Síðastliðinn föstudag [17.] fuku allmargar járnplötur af þaki hótelsins í Borgarnesi, en ekki hlaust þó af frekara tjón og ekki meiðsli á fólki. Gerði á föstudaginn allmikið suðaustan veður, en þó síst meira en oft koma á haustin hér um slóðir. Suðaustanveðrum fylgja oft snarpir sviptivindar og svo var einnig á föstudaginn. Alls fuku 14 þakplötur af hótelinu og voru orsakirnar helst raktar til þess að fúi hafi verið kominn í sperrurnar og naglarnir því ekki haft nægilegt hald. [Innskot hungurdiska: Geta má þess að húsið var aðeins fárra ára gamalt - en varð oft fyrir fokvanda - e.t.v. vegna hönnunar]. 

Tíminn lofar tíð 29.október:

Vetur er genginn í garð fyrir nokkrum dögum og október senn á enda. Haustið er því í raun og veru liðið, og það fer ekki lengur milli mála, að íslendingar hafa lifað eitt hið mildasta haust, sem komið hefir hér á landi á þessari öld. Aðeins ein frostnótt hefir enn komið, og mun það mjög fátítt. Sumarhlýindi eru um allt land dag eftir dag, gras í sprettu, blóm springa út og ber eru óskemmd. Samkvæmt upplýsingum veðurstofunnar var september með allra hlýjustu septembermánuðum á þessari öld. Október hefir að sínu leyti ekki verið síðri, en hitameðal tal hans er þó ekki búið að reikna út enn. Blaðið átti í gær og fyrradag tal við nokkra fréttaritara sína í ýmsum landshlutum og fékk hjá þeim yfirlít um tíðarfarið. Fréttaritari blaðsins á Hvolsvelli sagði, að fram undir þetta hefði há á túnum verið að spretta og þau væru enn hvanngræn. Kýr hafa verið látnar út fram að þessu víða. Nokkuð vætusamt síðustu vikur en ekki stórrigningar. Flest haust hafa margar frostnætur verið komnar um þetta leyti, en nú aðeins ein. Þetta mun eiga við á öllu Suðurlandi, enda hafa fréttaritarar á Kirkjubæjarklaustri, Vík í Mýrdal og i Árnessýslu mjög sömu sögu að segja. Fréttaritari Tímans á Egilsstöðum sagði, að í gær hefði verið rigning og stormur síðustu daga, og hefði þá lauf farið mjög af skógum, sem staðið hefðu vel laufgaðir fram undir þetta. Tún eru græn, og gras sprottið einkum á nýræktun fram að þessu. Kúm er mjög víða beitt. Sauðfé hefir haldið sig mjög á heiðum og verið erfitt að ná því heim í haust, síðasta smalamennska til slátrunar staðið yfir síðustu daga. Auðir vegir, einnig um Oddsskarð, sem er hæsti fjallvegur landsins, eru færir sem að hásumri. Þetta hefir verið einmuna veðurblítt haust. Fréttaritari Tímans á Húsavík sagði, að þar væri kúm enn beitt, t.d. frammi í Reykjadal og vafalaust víðar. Háin hefir verið að spretta fram að þessu, snjóföl það sem kom í fjöll í smáhreti fyrir nokkru, er horfið og sumarsvipur yfir Öllu. Þó var komin kaldari norðanátt í gær. Fólk hefir farið í berjamó síðustu daga, t.d. frammi í Hvömmum og tínt óskemmd og sumarfögur aðalbláber. Fréttaritari Tímans á Sauðárkróki símaði blaðinu í gær, að stöðug hlýindi hefðu verið þar nyrðra það sem af er þessum mánuði. Hann sagði, að jörð hefði verið að gróa fram að þessu, að minnsta kosti á ræktuðu landi. Fréttaritari hafði tal af bónda framan úr sveit í gær, og sagðist bóndinn hafa séð nýútsprungna sóley á túni sínu þá daginn áður. Til marks um veðurblíðuna má geta þess, að síðastliðinn sunnudag var hitinn ellefu stig á Sauðárkróki, klukkan fimm síðdegis. Tíðin hefir verið vætusöm með þessum hlýindum. Allar skepnur liggja enn úti, og kúm er enn beitt. Ekki er hægt að segja, að frost hafi komið það sem af er mánuðinum, í mesta lagi eina eða tvær nætur, en þó ekki svo, að þess gæti á gróðri.

Fréttaritari Tímans á Ísafirði símaði blaðinu í gær, að vetur hefði gengið þar í garð með eindæma hlýindum, en á síðasta vetrardag var 8—10 stiga hiti á Ísafirði. Veður hefir verið afar milt vestra í október og tæplega hægt að segja að snjóað hafi í fjöll allan mánuðinn. Það hefir aðeins einu sinni komið fyrir að þurft hefir að hreinsa lítillega snjó af veginum yfir Breiðadalsheiði, sem hefir iðulega verið teppt um þetta leyti, eða þá að búið hefir verið að moka. Gras er allt iðjagrænt enn þá, ... Á Vesturlandi, í Borgarfirði og suðvestan lands er sömu sögu að segja og frá þeim stöðum, sem getið hefir verið. Þar er alls staðar sumartíð, gras grænt, ber óskemmd, blóm í görðum. Þetta er orðið eindæma gott haust.

Hálka lá þó í leyni. Tíminn 31.október:

Í gærmorgun, er menn komu á fætur hér í bæ, var komin svellgljá yfir allar götur. Hafði rignt en síðan fryst og hlaupið í svell. Menn héldu af stað til vinnu, en margur fékk skell eða rann af leið. Bíleigendur settust undir stýri, en ökuferð margra varð stutt. Bílarnir runnu út af, á garða og girðingar og jafnvel hús. Nokkrir bílaárekstrar urðu einnig en slys urðu ekki á mönnum. Urðu bílstjórar að skilja við bíla sína og taka til fóta. Var það heldur böksulegt að sjá til fólks, sem á ferli var. Ekki er þess getið, að neinn hafi gengið á mannbroddum, enda slík þarfaþing flest týnd nú á dögum. Í nótt sem leið snjóaði lítils háttar og er jörð nú alhvít, einnig hér í bænum. Hálkan er minni, því að svell og föl hafa runnið saman. Veður er gott, og enginn teljandi snjór er enn á heiðum. ED

Nóvember varð einstaklega votviðrasamur og þáverandi úrkomumet slegin. Hvasst var með köflum. Þjóðviljinn segir frá 5.nóvember:

Borgarnesi. Frá fréttaritara Þjóðviljans. Í fyrradag var hér afspyrnurok og bilaði rafmagnslínan um 5 km frá Borgarnesi í fyrrakvöld og var viðgerð ekki lokið fyrr en um sexleytið í gærkvöldi. Veðurofsinn hér í Borgarnesi var slíkur að ekkert viðlit var að reyna að gera við raflínuna í fyrrakvöld. Sátu Borgnesingar í myrkri — og kulda — Þar til bráðabirgðaviðgerð var lokið í gærkvöldi. Um 5 km frá Borgarnesi lögðust tveir staurar á hliðina undan rokinu og kviknaði i þriðja staurnum og mun hafa brunnið um 1 m ofan af honum. Raflínan var tekin úr sambandi hjá Hvanneyri, og hafði Hvanneyri og sveitirnar því ljós. Rokið bar mikið særok og seltu inn yfir landið. Aðrar skemmdir af völdum roksins urðu ekki teljandi, nema ýmislegt lauslegt fauk og girðingar brotnuðu smávegis.

Tíminn 11.nóvember:

Það er ekki kuldatíðin þessa dagana. Þótt hann frysti sem snöggvast fyrir helgina, rann hélan af á sunnudaginn, og í gær voru komin hlýindi sem i júní væri. Norðan lands var þurrt veður. sunnanátt nokkuð hvöss sums staðar, en hitinn 12—15 stig. Fyrir hádegið voru t.d. 15 stig á Siglunesi og í Fagradal i Vopnafirði, en 14 stig á Akureyri. Þetta er eitt hið hlýjasta nóvemberveður er hér getur.

Mesta vatnsveðrið gerði þann 17. til 18. Þá lá mjög hlýr og rakur loftstraumur langt sunnan úr höfum til landsins, eins og kortið hér að neðan sýnir. Að morgni þess 18. mældist sólarhringsúrkoma á Stóra-Botni í Hvalfirði 184,6 mm og 165,3 mm í Andakílsárvirkjun. Talsverðar skemmdir urðu af vatnagangi og skriðuföllum, einkum á vegum. 

Slide9

Morgunblaðið 19.nóvember:

Í gærdag í 4. viku vetrar var vorveður um land allt. í gærkvöldi var 6—12 stiga hiti, hlýjast á Dalatanga 12 stig, 11 á Egilsstöðum og hér í Reykjavík var 9 stiga hiti. Í fyrrakvöld og nótt var geysileg rigning um allt suður- og vesturlandið. Sem dæmi um þá feikna úrkomu, sem var, má geta þess að milli kl. 5 í fyrrakvöld og þar til klukkan 8 í gærmorgun, rigndi 56 millimetra vestur í Kvígindisdal, 53 vestur í Stykkishólmi, austur á Hellu á Rangárvöllum hafði rignt 37 millimetra. Víða hafði úrkoman mælst milli 25 og 30 millimetrar, en hér í Reykjavík rigndi „aðeins“ 19 millimetra. Í dag er búist við áframhaldandi suðlægri átt, en um vestanvert landið mun verða svalara veður en í gær, en búast má við óbreyttu vorveðri um Austfirðina.

Valdastaðir í Kjós 18. nóvember: Eftir stórfellda rigningu undangenginn sólarhring og ofsaveður af suðri og suðvestri, varð flóð svo mikið hér í Laxárdalnum í nótt, að dalurinn var allur á kafi fjalla á milli. Fé og hross voru á engjum, einkum þó norðan Laxaár. Fé og hestar leituðu undan flóðinu upp á hæstu hóla, en veðurofsinn hefir þó hrakið eitthvað af kindum út í flóðið. Strax með birtingu var farið að huga að fénu og bjarga því upp á land og gekk það allgreiðlega. Fundist hafa sex kindur drukknaðar og voru þær frá Sogni og Valdastöðum. Er ekki vitað með vissu hvort fleiri bændur hafi misst kindur í flóðinu. Hrossin syntu til lands strax eftir að bjart var orðið Dg mun ekkert hross hafa drukknað. Þetta er mesta flóð, sem orðið hefur í Laxárdal svo menn muni. Í dag hefur úrkoman verið minni og síðdegis mátti sjá að vatnið hafði nokkuð lækkað.

Ísafirði 18. nóv. — Í gærkvöldi og í nótt var hér með fádæmum mikil rigning. Á augabragði tók upp allan snjó, sem hér hafði fallið. Göturnar næst hlíðinni grófust brátt í sundur vegna vatnselgs. Er æði langt síðan annað eins úrfelli hefur komið hér. Vegna rigningarinnar spilltist Bolungarvíkurvegurinn svo og Súðavíkurvegur, en á vegina hlupu skriður og vatn gróf þá í sundur. Í dag er verið að lagfæra vegina og opna fyrir umferð á ný. Hér er nú vorveður, logn og 7 stiga hiti. — GK.

Vestmannaeyjum 18. nóv: Hér hefur verið mjög stormasöm tíð undanfarið og hefur ekkert verið á sjó farið. Rigningar hafa verið stórfelldar suma dagana og í þessum veðraham hefur veðurhæðin á Stórhöfða komist upp í 13 vindstig. —Bj. Guðm.

Morgunblaðið 20.nóvember:

Stykkishólmi 19. nóv. — Margar skriður hafa fallið á Skógarstrandaveginn, í Narfeyrarhlíðinni, ræsi farið af veginum inn á Skógarströnd og vegurinn skemmst. Á Bjarnarhafnarveginum í Helgafellssveit, fyrir innan Berserkjahraun fór 8 m breitt skarð úr 6 m. háum vegi. Vegurinn til Grundarfjarðar er allur erfiður og sums staðar ófær. Vörubifreið frá Landssímanum, sem var að koma frá Grafarnesi, á leið til Reykjavíkur, festist og varð ýta að koma henni til hjálpar. Sagði bílstjórinn veginn mjög erfiðan.

Morgunblaðið 21.nóvember:

Í vatnsveðri því, sem gengið hefur yfir Vesturland að undanförnu hafa orðið talsverðar skemmdir á vegum vegna skriðufalla og brögð orðið að því að lækir brytu skörð í vegina. Morgunblaðið átti í gær tal við Árna Pálsson, yfirverkfræðing hjá Vegamálastjórninni, og sagði hann að unnið væri að því að gera við þessi spjöll og mundu vegirnir yfirleitt komast aftur í samt lag innan fárra daga. Skemmdir urðu t.d. í Grundarfirði, nálægt Setbergi og austan Stykkishólms, fyrir ofan Narfeyri. Er þar unnið að viðgerðum. Einnig hafa orðið skemmdir á vegum í Dölum. Hörðudalsá braut skarð í veginn við brúna. Sama er að segja um Reykjadalsá, hún braut skarð í veginn Búðardalsmegin. Í gær fóru stærstu bílar um veginn þarna, og búist er við að fært verði öðrum bifreiðum um leið og sjatnar í ánum. Nálægt Ólafsdal í Gilsfirði urðu spjöll á vegi, en það kemst fljótlega í lag. Á Vestfjörðum urðu talsverðar skemmdir á vegum. í Patreksfirði fóru skörð úr veginum báðum megin við brúarstólpana í Skápadalsá. í Tálknafirði er vegurinn ófær á kafla. Við Dýrafjörð og Önundarfjörð var mikið um skriðuföll. Standa vonir til að þessar vegir komist í lag eftir fáa daga. Inni í Ísafirði er sömu sögu að segja, og verður hafist handa eftir 2—3 daga um viðgerðir á vegunum.

Þúfum Norður-Ísafjarðarsýslu 19. nóv. — Mánudagskvöldið 18. þ.m. og nóttina þar á eftir var hér óhemju slagveður með geysilegri úrkomu, svo vart hefir komið annað eins um langan tíma. Skemmdir urðu miklar á vegum og skriður féllu. Stór svæði austan brúar á Botnsá í Mjóafirði skoluðust burtu, en brúna sakaði ekki. Brúna tók aftur á móti af Gljúfurá í Mjóafirði. Um 30 skriður féllu í Eyrarhlíð og er vegurinn alveg ófær. Þá féllu skriður á Botnshlíð og skemmdist vegurinn mikið. Vatnsflóð og skriðuföll urðu nálægt Galtahrygg og Heydal, en það olli ekki stórskemmdum. Smáar óbrúaðar ár urðu ófærar og vatnagangur var mikill alls staðar. — P.P.

Skriðuklaustri 19. nóv. — í gær var hér ofsaveður af suðri og 13 gráðu hiti, en í dag er lygnara, og mikil hlýindi. Haustveðrátta hefur verið óvenju mild og hægt að vinna að steinsteypu og jarðvinnslu lengst af. Sauðfé gengur allt sjálfala nema hrútar.

Akranesi 20. nóv. — Ég átti tal við Pétur Þorsteinsson á Mið-Fossum í Andakíl í dag, og sagði hann að þar upp frá hefði rignt feiknmikið tvo undanfarna sólarhringa. Hefði Skorradalsvatn brotið stíflugarðinn og flætt yfir bakka Andakílsár og renniskurðarins, sem liggur samhliða ánni nokkru sunnar. Hefir svo mikið vatn safnast neðst í Indriðastaðaflóa og á milli brúnna, að þarna er alófært sums staðar, og hefur verið svo í þrjá daga. Utarlega í miðjum Skorradal flæðir vatnið yfir veginn, sem liggur þar mjög lágt. Eina leiðin sem nú er hægt að fara upp í Skorradal, er að sunnanverðu í dalnum, og er hún aðeins fær stórum bílum. Hjá Hvítárvöllum hefur vatn úr Hvítá flætt upp á bakkana og þar er ófært eins og er. Undir venjulegum kringumstæðum verður vegurinn hjá Hvítárvöllum ekki ófær af vatnavöxtum, nema snjór sé kominn í fjöll, að því er Pétur bóndi sagði. — Oddur.

Morgunblaðið 4.desember:

Kirkjubæjarklaustri 29. nóv. — Tíðarfar hefur verið meðafbrigðum gott í haust og það sem af er vetri, stöðug hlýindi og yfirleitt stillt veður. Hins vegar hefur verið mikið um úrkomur og það svo að sumir af þessum skammdegisdögum hafa helst ekki verið annað en myrkur og vatn — vatn og myrkur. Engar skepnur eru komnar á gjöf nema kýrnar og þeim var beitt fram í lok októbermánaðar. Óvenju mörg lömb drápust úr bráðapest í haust og hafa sum heimili orðið fyrir tilfinnanlegum skaða af völdum hennar. Þess má geta t.d. að á einum bæ drápust 16 lömb. Höfðu þó lömbin á þessum bæ verið bólusett um leið og markað var í vor. — G.Br.

Akureyri 3. des. — Veðurfar hefur verið mjög sérstætt á þessu hausti og það sem af er vetrar, og má segja að ekki hafi borið á vetrarveðri fyrr en í dag. Raunar hefur veðráttan verið óvenjuleg í allt sumar. T.d. var maímánuður einn hinn kaldasti, sem verið hefur hér á Akureyri í fjölda ára. Þá var meðalhiti 2,9°. Hins vegar var nokkurn veginn meðalhiti í júní og júlí, en aftur á móti var ágústmánuður kaldur, 7,9° meðalhiti. Septembermánuður var heitasti mánuður sumarsins, með 10,1 meðalhita. Október hafði 5° meðalhita, en nóvember 3,3°. Hiti þessara þriggja mánaða er langt fyrir ofan meðallag. Þess má geta að stöðug  norðan og norðlæg átt helst hér á Akureyri allt frá nóvembermánuði í fyrra og þar til í september í haust. Í vor var t.d. aldrei sunnan hláka, og allan snjó tók upp með sólbráð. Þetta er skýringin á því að vegir komu óvenju vel undan vetri og skemmdust lítið í vor. Einnig var sumarið í sumar venju fremur þurrkasamt og úrkoma talsvert fyrir neðan meðallag. Segja má að nú í haust hafi tún verið í sprettu allt fram undir þennan dag, og enn má sjá iðjagrænar nýræktir. Suðlæg átt hefur haldist stanslaust frá því viku af september. Afleiðingarnar af þessari góðu veðráttu eru m.a. tvær: Kartöfluuppskeran varð í meðallagi og bjargaði septembermánuður henni. Heyskapur var undir meðallagi í sumar, en haustið bætir
þetta að nokkru, enda var kúm beitt að minnsta kosti hálfum mánuði lengur en venjulega. Enn er sauðfé beitt, en það er jafnaðarlega komið fyrir nokkru á fulla gjöf á þessum tíma. Ennfremur ganga kálfar og geldneyti með nokkurri gjöf. Jörð er ófrosin, sem að líkum lætur, og hefir verið hægt að vinna að jarðyrkju fram á þennan dag. Eina fölið, sem komið hefur á haustinu, féll 9—10 október, en tók skjótt upp. Síðan hefur ekki verið teljandi snjókoma fyrr en í dag. Ekki hafa bílar þurft að hafa keðjur nema þá vegna ísingar að morgni, þá aðeins skamma stund. Verður því ekki annað sagt en að vetur gangi vel í garð hér á norðurlandi.

Tíminn 4.desember

Tuttugu og fjórar tegundir jurta alblómgaðar. Þetta er jafnt í görðum sem á víðavangi, slík blómatíð hefir ekki verið hér á landi í byrjun desember síðustu áratugina. Það var hvassviðri og éljagangur um allt land í gær. Kaldara og hryssingslegra en verið hefur, og er ef til vill lokið einum mesta hlýviðriskafla, sem komið hefur hér á landi í nóvember á þessari öld. Jörð er enn marþíð um allt land og tún víða græn, og blómin hafa sprungið út hvert af öðru. Ingólfur Davíðsson, grasafræðingur sagði blaðinu t.d. í gær að í fyrradag, 2. des., hefði hann talið 24 tegundir blómgaðra jurta i görðum og á víðavangi í Reykjavík og nágrenni. Og þetta er ekki eitt og eitt blóm á stangli, heldur blómafjöldi. Meðal þessara blómguðu jurta má nefna túnfífil, gulbrá, bellis, stjúpublóm og þrjár grastegundir. Þetta er um allan bæ. Ingólfur segir að þetta sé meiri blómgun, en sést hafi hér á landi 2. des. áratugum saman. Fyrir allmörgum árum voru allmargar tegundir með blómi 24. nóvember en nú eru þær miklu fleiri. Hætt er samt við, að blómin falli í þessu veðri, sem nú er skollið á. Hvítkál og fleiri káltegundir standa enn óskemmdar í görðum.

Morgunblaðið birti enn fréttir af hausttíðinni 14.desember:

Borgarfirðir eystra, í nóvemberlok: — Svo mikil veðurblíða var hér framundir nóvemberlok, að eldri menn telja sig vart muna svo milda haustveðráttu. Aðeins tvisvar hefur föl komið á jörð í byggð og stóð stutt í bæði skiptin. Frost hafa lítil verið, og oftast frostlaust nótt og dag. Jarðvinnsla hefur því verið í fullum gangi, tún græn yfir að líta og kýr úti á einstaka bæ, sauðfé í.sumarhögum.

Þann 3. desember skipti aftur um. Þá gerði mikið vestanveður um mestallt land og kólnaði verulega. Blöðin birtu enn fréttir af hagstæðri hausttíð. Furðulítið foktjón varð í þessu mikla veðri. 

Tíminn 3.desember:

Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði. Einmuna veðurblíða hefur verið hér undanfarna daga. Snjór er horfinn úr fjöllum og bílfært er til Önundarfjarðar og Súgandafjarðar. Hefur slíkt aldrei komið fyrir á þessum tíma árs, síðan vegurinn var lagður.

Tíminn 4.desember:

Vestan stórviðri og sums staðar fárviðri var um allt land í gær, víðast með éljum. Ekki var þó vitað um teljandi tjón af veðrinu. Skip hafa þó víða tafist, en bátar voru flestir í höfn. Í byljunum fór veðurhæðin oft í 14 vindstig, en var víðast 10—12 vindstig. Veðurstofan gerði ráð fyrir, að heldur mundi hægja í nótt. Slysavarnafélaginu hafði engin beiðni borist um hjálp í veðri þessu í gærkveldi.

Í gær var versta veður á miðunum og voru togarar ekki að veiðum af þeim sökum. Út af Glettinganesi voru síðdegis í dag 13 breskir togarar; Þarna var vestan ofsarok, en hinsvegar ekki mikill sjór. Létu bresku togararnir reka þarna, eða héldu sjó ásamt tundurspillinum Diamond. Voru skipin 4—6 sjómílur frá landi. Þess má geta, að varðskipið, sem þarna var, mældi um kvöldið yfir 14 vindstig í hryðjunum.

Morgunblaðið 4.desember:

Suðvestanrok gekk yfir mikinn hluta landsins í fyrrinótt. Ekki hafa fregnir borist af neinu verulegu tjóni. Hér í Reykjavík komst veðurhæðin upp í 11 vindstig, en var á milli hvassara hér í bænum. Laust eftir hádegið var því veitt eftirtekt að skrokkur skipsins Íslendingur, sem legið hefur við bauju á Viðeyjarsundi, slitnaði upp og rak hann á land í Viðey. Í gærkvöldi hafði veðrið slitið niður og laskað jólaskreytinguna í Austurstræti. Í gærmorgun fór héðan frá Reykjavík til Keflavikur olíuskipið Þyrill.Hreppti hann versta veður á leiðinni. Var hvorki meira né minna en 7 klukkustundir að sigla þennan spotta, en leiðin mun vera um 20 sjómílur. Í gærkvöldi tilkynnit hafnarskrifstofan hér að innsiglingarvitinn í Engey hefði bilað. Rekja menn orsakirnar til óveðursins. Í gærkvöldi taldi veðurstofan allar horfur á að veðrið myndi hægja í nótt, vindáttin snúast til norðvestanáttar.

Slide10

Kortið sýnir þessa miklu vestanátt - og umskiptin. Lægðin við Nýfundnaland fór yfir landið þann 6, en var þá úr henni allur kraftur. Síðan ríktu norðaustan- og austanáttir út mánuðinn. Miskaldar nokkuð. Um jólin hlánaði um stund. Undir miðjan mánuð fóru að berast fréttir af ófærð. 

Morgunblaðið 12.desember:

Akureyri, 11. des. — Undanfarið hefur snjóað hér nokkuð á hverjum degi og sett niður talsverðan snjó, en hann er jafnfallinn og ekki rekið í skafla, svo umferð á vegum hefur ekki teppst svo heitið geti. Þó er þung færð fyrir smærri bíla á vegum úti. Allir mjólkurbílar komu til mjólkursamlagsins hér í bæ, í morgun, en sums staðar voru „trukkar" notaðir til flutninganna svo sem frá Dalvík. — Áætlunarvagnar Norðurleiðar fengu þæfingsfærð á Öxnadalsheiði norðanverðri í gærkveldi og þar var kafald og blinda. Ekki tafðist vagninn þó að neinu ráði. Áætlunarbíllinn frá Húsavík rann út af veginum á Vaðlaheiðarbrún austanverðri vegna hálku. Þurfti að sækja bil honum til aðstoðar og náðist bíllinn ekki upp aftur fyrr en eftir um 3 klst. Enginn meiðsli urðu á mönnum né heldur skemmdir á bílnum. Í dag er hér stillt veður og bjart og úrkomulaust og frost komist niður í 9 stig. — vig

Alltaf er jafneinkennilegt hvað blíðan gleymist fljótt komi nokkrir dagar með hryssingslegu veðri. Svo virðist hafa verið ef við tökum mark á orðum Morgunblaðsins 20. desember:

Það liggur við að fólki þyki sem yfirstandandi norðaustan kuldi, hafi staðið vikum saman. Allir býsnast yfir hinni kuldalegu veðráttu. En Veðurstofan sagði Mbl. í gærdag, að það væri ekki að sjá að í vændum væri breyting fyrr en eftir helgina, í fyrsta lagi. Hinn kaldi loftstraumur, sem liggur hér yfir landið, er ósvikinn pólkuldi. Hann nær ekki mjög langt suður fyrir landið. Það er lægð, sem nærri er kyrrstæð suður í hafi og háþrýstisvæðið yfir Grænlandi, sem veldur þessari stöðugu norðaustanátt.

Morgunblaðið 23.desember:

Akureyri 22. des. Stöðugt þyngir nú færð hér norðanlands, enda snjóar meira og minna dag hvern. Veður er hins vegar fremur milt og frostlítið. Hægviðri eru i innsveitum, en hvasst hefir verið með ströndum fram. Mjólkurflutningar ganga nokkurn veginn reglulega enn sem komið er. Framan úr Eyjafirði ganga venjulegir vörubílar, enda er færð þaðan ekki þung ennþá. Aftur á móti er illfært eða alls ófært úr ýmsum útsveitum Eyjafjarðar. Vegurinn til Dalvíkur er alveg lokaður, og er mjólk úr Svarfaðardal flutt sjóleiðis til Akureyrar. Úr Arnarneshreppi hafa trukkar brotist til Akureyrar og sömuleiðis af Svalbarðsströnd. Ófært er út í Höfðahverfi. Ekki er að óttast um skort á mjólk eða rjóma hér um jólin. Heiðavegir eru sumir hverjir enn sæmilega færir, en hins vegar eru dalirnir, sem að þeim liggja víðast ófærir. Svo háttar t.d. um Öxnadalsheiði. Sjálf er hún fær, en Öxnadalur alls ófær. Bifreiðar Norðurleiðar hafa átt erfiða ferð nú um helgina. Kl. 5 í dag kom bifreið hingað til bæjarins með 30 farþega, og höfðu sumir þeirra verið á ferð sunnan úr Reykjavik frá kl. 8 á laugardagsmorgun eða í 56 klst. Þeir gistu þó á Blönduósi vegna óveðurs. Aftur á móti höfðu þeir farþegar, sem lögðu upp frá Reykjavík í gærmorgun, verið 33 klst. á stöðugu ferðalagi. Erfiðasti hluti leiðarinnar var frá Varmahlíð til Akureyrar og tók hann 13 klst Ráðgert er, að síðasta ferðin landleiðis héðan til Reykjavíkur hefjist í kvöld kl. 7.30. Vaðlaheiði var í gær farin á jeppum, en í dag hefir færð þar þyngst að mun. Kinnavegur er ófær orðinn, og Ljósavatnsskarð að lokast. Má því segja, að þeim, er vilja komast heim til sín um jólin, gangi skrykkjótt ferðalagið á landi. Flugferðir hafa einnig tafist. A laugardaginn var ekkert flogið hingað til Akureyrar. Í gær heyrðu bæjarbúar í flugvél hér yfir um hádegið, en hún varð að snúa við og lenti á Sauðárkróki. Um miðnætti í nótt komst hún hingað til Akureyrar. — vig.

Tíminn 24.desember:

Frá fréttaritara Tímans í Ólafsfirði i gær: Hér hafa verið stanslausar norðaustanhríðar síðasta hálfan mánuðinn, og síðustu tvo dagana stórhríð. Kominn er geysimikill snjór og allir vegir ófærir bifreiðum fyrir löngu. Bændur úr sveitinni hafa ekið mjólk til bæjarins á hestasleðum og hefir það gengið sæmilega þangað til í fyrradag og gær, en þá kom mjólk aðeins frá næstu sveitabæjum. Í dag er heldur skárra veður, og komust þá flestir en þó með miklum erfiðismunum. Flóabáturinn Drangur var veðurtepptur tvo daga á Siglufirði. Í fyrradag gerði hann tvær tilraunir til að komast út úr firðinum og ætlaði til Sauðárkróks og Grímseyjar, en varð að snúa aftur í bæði skiptin. Í dag komst hann leiðar sinnar, og fengu Grímseyingar þá jólapóst sinn og ferðamenn, sem í landi voru. komust heim til eyjar.

Morgunblaðið 24.desember:

Allt útlit er fyrir, að þíðviðri verði víðast hvar um landið um jólin — og verður sunnan- og suðaustanátt sennilega ríkjandi, að því er veðurstofan tjáði Mbl. í gærkvöldi.

Mjög djúp og víðáttumikil lægð fór til austurs fyrir sunnan land milli jóla og nýárs, en olli ekki verulegu veðri hér á landi. 

Lýkur hér samantekt hungurdiska um árið 1958. Að vanda má sjá ýmsar tölulegar upplýsingar, meðalhita og úrkomusummur í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kær þökk fyrir þetta.  Ég var sautján ára þetta sumar og man vel eftir veðrinu um sumarið, því að þá var sumarhlé í M.R. og ég vann alla daga úti í upphafi byggingarvinnu tólf hæða blokkarinnar að Austurbrún 2, sem var að allri gerð tímamótahús í byggingarsögunni hér á landi, því að dásamlega einföld teikning hússins ásamt notkun skriðmóta sparaði byggingarkostnaðinn stórlega og stytti byggingartímann um helming.  

Auk þess var það byggingarsamvinnufélag, sem reisti húsið. +

Góða veðrið í Reykjavík þetta sumar tryggði eftirminnilegt drengjameistaramót Íslands í frjálsum íþróttum, sem skilaði gulli í 100 m, 300 m og 4x100 m. boðhlaupi.  

Viku eftir mótið var farið að gantast með íþróttaiðkun mína í góða veðrinu kaffitíma úti við, og lauk því með víðavangsþrístökki, þar sem ég kom svo illa niður úr fyrsta stökkinu að ökklinn fór í spað, og við tók rúmlega í nokkrar vikur.  

Til þess að hún færi ekki með allt í vaskinn hjá mér notaði ég tímann og samdi, að mestu rúmliggjandi, fyrstu skemmtidagskrána mína, sem varð uppistaðan í skemmtunarprógrammi frumfluttu í M.R. rétt fyrir jól. 

Nóbelskáldið var þar heiðursgestur og umfjöllun í vikublaði um þá uppákomu gaf fljúgandi start inn í miðja hringiðu skemmtanalífsins. 

Niðurstaða: Góða veðrið í ágústbyrjun skóp ævilangan feril, annars hefði ekkert víðavangsþrístökk verið stokkið!?   

Ómar Ragnarsson, 29.6.2022 kl. 23:51

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Bestu þakkir fyrir þessa frásögn Ómar - umhugsunarvert atvik. Minnir svona í smáu á allar frásagnirnar sem maður hefur heyrt um það hvernig tilviljanakennt veður einstaka daga/mánaða er stundum talið hafa breytt veraldarsögunni. 

Trausti Jónsson, 30.6.2022 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband