15.6.2022 | 14:37
Hugsað til ársins 1948
Tíðarfar á árinu 1948 var talið fremur óhagstætt - en þó komu góðir kaflar, Fjölmargir merkisviðburðir urðu í veðri. Mikil flóð gerði víða um land eftir miðjan vetur - sum minnisstæð. Eins og venjulega flettum við blöðum á timarit.is, auk þess sem við nýtum okkur allskonar gögn Veðurstofunnar. Snemma árs voru fréttir af síldveiðinni í Hvalfirði mikið á síðum blaðanna. Merkilegt mál.
Janúar var umhleypingasamur og snjóþungur, einkum austanlands. Febrúar var óstilltur og gæftir stopular, mjög hlýtt var í veðri. Mars var líka hlýr og sérlega úrkomusamur á Suður- og Vesturlandi. Tún fóru að grænka. Óróatíð var í apríl og gróður sölnaði heldur. Í maí var fremur kalt og gróðri fór lítið fram. Júní var sömuleiðis þurr og kaldur. Júlí þótti hagstæður og heyskapur gekk bærilega. Ágúst var líka hagstæður, hlýr og þurr. Kalt var í september og votviðri norðaustanlands, en annars var tíð þurr og hagstæð. Október var óstöðugur og úrkomusamur, mörgum þótti kalt í veðri, svipað var í nóvember. Í desember var umhleypinga- og stormasamt.
Í janúar ríktu þrálátar austanáttir og því nokkuð misjafnt hvernig sýn manna var á tíðina. Í Síðumúla segir Ingibjörg Guðmundsdóttir: Veðráttan þurrviðrasöm og mild og mjög góð. Jörð snjólaus, en dálítið svelluð. Flest hross ganga sjálfala. Vestan af Rauðasandi segir Ólafur Sveinsson: Það hefir verið mjög vindasamt. Sífellt austan- og norðaustan hvassviðri, en merkilega kuldalaust og snjólétt. Jörð hefir víðast verið sæmileg nema hér hefir verið töluverður áfreði með köflum.
Tíðin var óhagstæðari eftir því sem austar dró á Norðurlandi:
Sandur (Friðjón Guðmundsson): Tíð mild og úrkomulítil, en rysjótt framan af. Snjór töluverður og víðast haglítið.
Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Stöðug austanátt, ekki mikill snjór en þó allir vegir ófærir mest af mánuðinum.
Grímsstaðir (Sigurður Kristjánsson): Rosatíð allan mánuðinn, oftast austan og norðaustan stormur og renningur, en ekki mikið snjófall. Snjór er samt allmikill, feikna stórfenni og hagar litlir og notast sjaldan fyrir stormum.
Gunnhildargerði á Úthéraði(Anna Ólafsdóttir): Tíð hefir verið mjög óhagstæð og mikil snjóþyngsli.
Í upphafi mánaðarins varð mikið rafmagnsleysi á Akureyri vegna krapastíflu í Laxá. Slíkt var algengt á þessum árum (nærri því fastur liður). Þann 11. gerði miklar símabilanir víða um land, snjóflóð braut 10 símastaura á Fagradal.
Eftir miðjan mánuð gerði einnig hríð um tíma suðvestanlands. Tíminn segir frá þann 20.janúar:
Ófært er nú með öllu austur yfir fjall, bæði yfir Hellisheiði og um Mosfellsdal. Í gærmorgun var vegurinn yfir Hellisheiði ruddur, og var hann fær bifreiðum fram á kvöld í gær. Í nótt lokaðist leiðin aftur vegna skafbyls og ofanbyls, svo að engir bílar hafa hafa getað komist að austan í morgun. Snemma í morgun fóru ýturnar af stað frá skíðaskálanum í Hveradölum, en þær urðu að hætta vegna þess, hve skafbylurinn var mikill. Áttu mennirnir, sem stjórnuðu þeim, fullt í fangi með að halda veginum. Skildu þeir ýturnar eftir uppi á háfjallinu, og taka til aftur strax og lygnir og hættir að skafa. ... Þingvallaleiðin er að heita má ófær bifreiðum og mikill skafbylur á þeirri leið. Þá er Mýrdalurinn orðinn ófær, en á morgun verður reynt að ryðja braut bílum, sem þurfa að komast vestur um, og póstbílnum sem á að fara austur. Norðurleiðin er illfær, en þó munu stórar bifreiðar og póstbílarnir geta brotist norður yfir Holtavörðuheiði. [Þann 25. varð einnig illa ófært á Hellisheiði, margir bílar fastir og við lá að maður yrði úti].
Þann 27. janúar segir Tíminn frá ískyggilegu útliti norðaustanlands:
Það, sem af er þessum vetri, hefir tíð verið óvenjuhörð á Norðausturlandi og veturinn gjafafrekur. Má heita, að innístaða hafi verið þar víða i ellefu vikur, og er hætta á, að fóðurbirgðir manna gangi til þurrðar, ef snjóalög haldast mjög lengi frameftir. Mjög víða á Norðausturlandi má heita, að búfénaður allur hafi staðið inni síðan viku af nóvembermánuði. Þá lagðist þar að með snjóa, og hafa síðan víðast verið þar jarðbönn, nema fáeina daga fyrir jólin, að hláku gerði. svo að hnjótar komu upp. En brátt fennti aftur og tók fyrir alla beit. Auk þess sem snjór er víða mikill, er snjólagið sérlega vont, að minnsta kosti í mörgum byggðarögum.
Tíminn heldur áfram að segja af harðindum austanlands þann 4.febrúar (stytt hér):
Átti tíðindamaður Tímans símtal við Pétur Jónsson, bónda á Egilsstöðum á Völlum, og spurði hann frétta úr byggðarlögunum þar eystra. Hér hafa verið löng og óvenjuleg harðindi, sagði Pétur, að heita má óslitið frá því snemma í nóvembermánuði. Veturinn lagðist sérstaklega snemma að. Að vísu var snjórinn ekki ýkjamikill hér um miðbik Fljótsdalshéraðs, en snjólag var víða ákaflega vont, þar sem hver spilliblotinn hefir rekið annan. Víða annars staðar er snjór mjög mikill, og veður hafa verið hin verstu. Upp til dala mun ekki hafa komið annar eins snjór síðan veturinn 1910. Allan janúarmánuð má heita, að hér hafi verið látlaus austanátt með snjókomu og bleytuhríðum til skiptis. Er það svo sjaldgæft, að elstu menn muna vart svo vonda og þráláta austanátt. Síðustu tvo eða þrjá dagana hefir þó verið hláka um miðbik Fljótsdalshéraðs, og er hér komin upp talsverð jörð. En hætt er þó við, að taki fyrir haga fljótlega, ef aftur gengur að með snjóa. Á fjöllum uppi hefir þó snjóað fram til þessa, og inn til dala og um norðurhluta úthéraðsins hefir þessi bloti ýmist ekki gætt enn sem komið eða þá aðeins verið til spillis, ef ekki hlýnar og hlánar meira. Mun snjór ekki hafa sjatnað þar. Í Skriðdal er mjög mikill snjór, og svo mun einnig vera í Fljótsdal, Jökuldal, Hróarstungu og Jökulsárhlíð.
Þann 1.febrúar gerði gríðarlegt austanveður þegar óvenjudjúp lægð nálgaðist landið úr suðri. Kortið sýnir að bandaríska endurgreiningin nær veðrinu allvel. Um miðnætti um kvöldið eru skil lægðarinnar að fara yfir landið. Þrýstispönn varð mest kl.21, 36,9 hPa - og um það leyti mun veðrið hafa orðið hvað mest. Gríðarleg úrkoma var suðaustanlands, meiri en 100 mm á sólarhring í Hólum í Hornafirði. Við lítum á blaðafréttir.
Vísir 2.febrúar: Aftakaveður var hér í bænum í gær og er vitað, að það hafi valdið allmiklu tjóni. Vitað er um að tveir skúrar, sem stóðu skammt frá Tripoli-camp fuku i storminum. Ekkert verðmæti mun hafa verið geymt í skúrum þessum. Þá fauk skúr í Kleppsholti, en ekki er blaðinu kunnugt, hvort nokkuð verðmæti var geymt í honum. Þakplötur losnuðu af skúrbyggingu á bak við húsið nr. 19 við Laugaveg, en ekkert tjón mun þar vera um að ræða. Víða slitnuðu rafleiðslur og grindverk í kringum hús fuku.
Tíminn 2.febrúar: Af völdum óveðurs í nótt og gærdag hafa orðið allmiklar símabilanir. Meðal annars fauk ýmislegt járnarusl á símalínuna hjá Brúarlandi í Mosfellssveit, svo að rafmagn komst að línunni. Varð af þeirri ástæðu lífshættulegt að vera á verði við stöðina þar um stund. Mestu bilanirnar urðu á Suðurlandslínunni austur um. Er gersamlega sambandslaust við Höfn í Hornafirði og allar aðrar stöðvar á Austurlandi. Hefir símalínan slitnað norður á stórum kafla fyrir austan Brunnhól í Austur-Skaftafellssýslu. Eru símastaurar brotnir þar á talsvert löngu svæði, og telja verkfræðingar símans, að þessar bilanir stafi af óvenjulega miklum vatnavöxtum, en ár og fljót þar hafa hlaupið fram vegna leysinga, er voru samfara stórviðrinu að undanförnu. Til Norðurlands var einnig sambandslaust í morgun. Hafði síminn bilað vegna storms, fyrir ofan Kollafjörð. Símastjórnin lætur vinna að viðgerðum eftir því, sem við verður komið, og má vænta þess, að samband komist á aftur við stöðvar á Norður- og Austurlandi á hverri stundu.
Tíminn 3.febrúar: Nú hefir verið gert við flestar símalínurnar, sem biluðu í veðrinu um helgina. Talsamband er komið á til Norðurlandsins, en fjölsíminn norður er þó ekki í lagi ennþá. Komið er samband á austur til Hornafjarðar, og verið að gera við smærri bilanir á þeirri leið og út frá aðallínunni. Mikil símabilun varð í ofviðrinu hjá Skrauthólum á Kjalarnesi. Þar var stormurinn svo mikill, að 16 símastaurar fuku um koll og sumir rifnuðu frá símalínunni og þeyttust langar leiðir, enda mun hvassviðrið hafa verið með einsdæmum undir Esjunni. Á Skrauthólum fauk til dæmis skúr, sem gerður var úr múrsteini. Gerði stormurinn svo rækilega út af við skúrinn, að ekkert sést eftir af honum. Búast má við, að talsverðum erfiðleikum verði bundið að gera við þessa símabilun þarna á Kjalarnesi, og getur viðgerðin tekið nokkurn tíma. Þá er ekki að fullu búið að gera við ýmsar, smærri skemmdir, er urðu á símalínum í ofviðrinu.
Morgunblaðið 4.febrúar: Í Kjós gerði aftakaveður um helgina og urðu ýmsar skemmdir á mannvirkjum. Á Reynivöllum fauk nokkur hluti af þaki þinghúss hreppsins, og fjárhús löskuðust nokkuð. Í Hækingsdal færðist hlaða af grunni og á Þorláksstöðum fauk bílskúr. Á Valdastöðum fauk þak af hænsnahúsi og færði hlöðu allmikið til ásamt tveimur fénaðarhúsum sem áföst voru við hlöðuna. Fé í húsunum sakaði þó ekki. Á Felli fauk hænsnahús og fórust milli 10 og 20 hænsn. Víða fuku þakplötur af húsum og heyhlöðum og sumstaðar urðu minniháttar skemmdir.
Ingibjörg Guðmundsdóttir í Síðumúla ræðir tíð í febrúar og getur illviðrisins mikla þann 1.:
Fyrsta febrúar gerði svo mikið fárviðri í Reykholtsdal, að mikið tjón varð að. Á Sturlureykjum fuku 4 gróðurhús að miklu leyti, þar af eitt alveg. Þar fauk og þak af fundarhúsi hreppsins, rúður úr íbúðarhúsinu, girðingar og fleira. Rúðurnar brotnuðu þannig, að grjót tættist upp af veginum heim að húsinu, hnefastórir steinar, og kastaðist með miklu afli gegnum gluggann, að það molnaði úr steinvegg móti glugganum. Víðar úr dalnum fauk mikið gler, og þök af útihúsum, og fauk eitt þeirra á símaþræði, svo að sambandslaust varð við Reykholt og alla bæi á þeirri línu. Hér í Hvítársíðu varð veðrið mikið hægra og gerði hvergi tjón, nema á einum bæ, neðsta bænum [Síðumúlaveggjum?], þar fauk geymsluskáli, braggi, sem var illa um búinn. Þetta var um kvöldið. Stóð veðrið um 2 klukkustundir. Að kvöldi þ. 10. var líka mikið rok, en litlar skemmdir urðu þá. Að öðru leyti hefir tíðin verið ágætlega mild, en nokkuð úrkomusöm, þó ekki stórkostlega. Jörðin er auð og þíð, nema í hálsum og fjöllum er hún flekkótt af snjó. Hross ganga sjálfala.
Þann 5.febrúar segir Tíminn af erfiðum sandbyljum í Meðallandi. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki enn fundið hvaða dag sandbylur varð mestur (fyrir áramót), e.t.v. 28. desember. Síðan eru fleiri tjónafréttir af veðrinu mikla.
Tíminn 5.febrúar:
Miklir sandbyljir hafa herjað jarðir í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu í vetur. Hafa engjar og graslendi farið undir sand, sérstaklega í veðri, er gerði fyrir áramótin. Í stórviðrinu um síðustu helgi voru sandarnir aftur á móti að miklu leyti undir vatni, svo að tjón af því varð stórum minna. Í suðaustan- og austanrokum gengur nú mjög á graslendi jarða í Meðallandi austanverðu. Hefir sandurinn verið mjög áleitinn í vetur, og í stórviðri fyrir áramótin fóru stórar landspildur undir sand. Voru þá vötn á haldi en jörð auð, svo að sandinn skóf viðstöðulaust inn yfir byggðina. Sérstaklega er þó jörðin Lyngar hart leikin. Þar hlóðust upp mannhæðarháir sandskaflar, svo til heima við bæjarvegg, og stórar spildur beitilands og engja kafði. Fleiri munu hafa orðið fyrir búsifjum af völdum sandsins í vetur, þótt ekki vofi yfir þeim eins bráð hætta. En segja má, að sandurinn ægi þar mörgum bújörðum. Í stórviðrinu nú um helgina var þó tiltölulega lítið sandfok, þar eð vatnsagi var mikill á söndunum, svo að stormurinn náði sér ekki niðri.
Þrjár hlöður fuku að Seljavöllum í ofviðrinu, sem geisaði um helgina síðustu [1. febrúar], fuku þrjár hlöður að Seljavöllum undir Eyjafjöllum. Sviptist þakið af þeim öllum á aðfaranótt mánudagsins, og var aðeins ein hlaða á bænum, sem stóð af sér veðrið. Hey fauk þó ekki til muna, en miklar skemmdir urðu á heyjum af völdum rigningar. Mjög erfitt hefir vérið að setja nýtt þak á hlöðurnar, því að járn er ófáanlegt. Hefir orðið að tína saman gamalt plöturusl til þess að gera við hlöðurnar til bráðabirgða. Í ofviðrinu, sem geisaði um helgina urðu miklar skemmdir í Reykholtsdal. Rúður brotnuðu víða á bæjum og þök fuku af húsum. Mestar skemmdir urðu þó að Sturlureykjum, sem er. bær utarlega í dalnum. Þar eru mikil gróðurhús og stórt tveggja hæða íbúðarhús. Heita má, að gler úr tveimur gróðurhúsum hafi fokið og eyðilagst en grindur húsanna standa uppi að mestu. Þá brotnuðu einnig 20 rúður í íbúðarhúsinu, og mun láta nærri að samtals hafi brotnað um 3000 rúður á þessum eina bæ. Hefir bóndinn þar orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni, sem nemur mörgum þúsundum króna, auk þess, sem illmögulegt er sem stendur að fá gler í staðinn fyrir það, sem brotnaði. Framar í dalnum og í Hálsasveit urðu einnig mikil spjöll á húsum í veðrinu, en ekki mun fólk hafa sakað neitt að ráði. Snorrastyttan, sem menn hafa talið riða talsvert í stormum, stóð hins vegar af sér veðrið, og er henni væntanlega ekki hætt við falli fyrst um sinn. Veður þetta er eitt hið allra mesta, sem komið hefir á þessum slógum í mörg ár.
Tíminn 6.febrúar (stytt):
Súðin, sem nú er í síldarflutningum til Siglufjarðar, lenti í aftakaveðri á leiðinni norður og hlaut áfall. Var skipið um tíma í yfirvofandi háska, en fyrir dugnað og harðfengi skipshafnarinnar komst það af, og er nú komið heilu og höldnu til Siglufjarðar. Engan mann á skipinu sakaði, og má það teljast hin mesta mildi.
Rétt er að birta hér einnig frétt Vísis þann 3. febrúar um jöklarýrnun á Íslandi, en taka má fram að síðar hefur komið í ljós að skriðjöklar Drangajökuls eru framhlaupsjöklar. Slíkir jöklar eru gjarnan í litlum takti við veðurfar frá ári til árs.
Vísir 3.febrúar: Jöklar hafa minnkað stórlega á Íslandi. Skriðjöklar hafa styst um allt að 100 m síðarliðin ár. Mælingar hafa verið gerðar á ýmsum helstu jöklum landsins á undanförnum árum. Mældir hafa verið 27 skriðjöklar í Drangajökli, Snæfellsjökli, Eyjafjallajökli, Vatnajökli, Langjökli, Hofsjökli og Kerlingarfjöllum. Þessar mælingar hafa sýnt að jöklarnir eru undantekningarlaust að minnka. Um nokkurra ára skeið hljóp Drangajökull reyndar allmikið fram, en er nú farinn að minnka aftur. Einn af skriðjöklum hans, svokallaður Leirufjarðarjökull, hljóp fram um einn kílómetra árin 19381942, stóð svo þrjú næstu árin í stað, en er tekinn að minnka að nýju, m.a. um 100 metra á s.1. ári. Árið 19421943 hljóp annar skriðjökull úr Drangajökli, sá er gengur niður í Kaldalón, fram um 620 metra og sama ár hljóp Reykjarfjarðarjökull fram um 432 metra. Allir aðrir jöklar en Drangajökull hafa gengið mjög til baka um mörg undanfarandi ár. Árið sem leið styttust jöklarnir víðasthvar 2550 metra, en mest um 100 metra. Aðeins ein skriðjökulsálma í Hoffellsjökli hefir lengst frá í fyrra, um 5 metra. Er oft mikill gangur í þessari álmu og lengist hún og styttist á víxl.
Það er Jón Eyþórsson veðurfræðingur, sem hefir unnið að þessum mælingum og safnað gögnum undangengin ár. Hefir hann haft menn víðsvegar um landið, þá sem búið hafa i grennd við jöklana, sér til aðstoðar. Sumir þessara manna hafa gert ýmsar merkilegar athuganir, ýmist í sambandi við breytingar á jöklum eða á öðrum sviðum náttúrufræðinnar. Þannig skýrði t.d. Björn Pálsson á Kvískerjum í Öræfum nýlega frá því i bréfi til Jóns að stórfelldar breytingar hefði átt sér stað í Breiðamerkurjökli. Nú er kominn 34 hundruð metra breið aurspilda upp í Breiðamerkurfjall, og fer ört breikkandi. Þarna hefir jökull legið allt til þessa frá því um 1700 og hulið hin fornu býli Breiðá og landnámsjörðina Fell. Nú er landið, þar sem býli þessi hafa staðið, um það bil að koma í ljós að nýju. Þá getur Björn þess einnig að Fellsá, sem til þessa hefir komið i einu lagi undan jöklinum fyrir framan Breiðamerkurfjall, falli nú í tveimur kvíslum sín hvoru megin við það.
Þann 16. febrúar gerði mikið vatnsveður um landið vestanvert, leysing varð einnig mikil. Tíminn segir frá 19.febrúar:
Á mánudag og þriðjudag [16. og 17.] gerði úrhellisúrkomu og hvassiðri víða um land. Á Snæfellsnesi var úrkoman svo mikil, að víða urðu skemmdir af vatns- og snjóflóðum. Einna mestar skemmdir urðu þó í Ólafsvík og í Fróðárhreppi. Átti tíðindamaður Tímans í morgun tal við Kristján Þórðarson símstöðvarstjóra í Ólafsvík um vatnsflóðin, sem eru þau mestu, er orðið hafa lengi á þessum slóðum. Í Ólafsvík urðu skemmdirnar mestar. Svokallað Ólafsvíkurgil, sem venjulega er lítið vatnsfall, óx svo í rigningunum og leysingunni, að það flæddi með miklum þunga út úr farvegi sínum. Á bakka Ólafsvíkurgils, stendur bærinn Ólafsvíkurkot, og stendur fjósið þar nær bakkanum en sjálf bæjarhúsin. Þegar gilið breytti farvegi sínum, tók það fjósið og reif það til grunna. Var það gert úr torfveggjum, en með járn og timburþaki. Veggirnir hrundu niður og þakið féll niður á kýrnar, sem voru i fjósinu, en þær voru tvær. Skipti það engum togum að flóðið tók þakið með sér í fjósrústunum, ásamt kúmun, sem urðu fastar í brakinu og bar allt saman 4050 faðma niður í áttina til sjávar. Skeði þetta einhvern tíma þriðjudagsnæturinnar og varð fólk í Ólafsvíkurkoti ekki þess vart fyrr en um morguninn klukkan átta, er farið var á fætur. Kýrnar voru þá enn með lífsmarki, fastar í brakinu. En líðan þeirra var slæm, eins og gefur að skilja. Lágu leifarnar af brakinu, ásamt kúnum í árfarveginum, þar sem vatnið flæddi um. Gilið braut sér nýjan farveg milli fjóssins og íbúðarhússins í Ólafsvíkurkoti, og gekk það svo nærri íbúðarhúsinu, að það sópaði burt nýbyggðum skúr, sem var áfastur við íbúðarhúsið. Hvarf skúr þessi með öllu til sjávar og hefir ekki til hans spurst síðan. Hann var þó rammlega gerr á grjóthlöðnum grunni. Bóndinn í Ólafsvíkurkoti, Þórarinn Guðmundsson hefir því orðið fyrir miklu tjóni, þar sem allt er eyðilagðist var óvátryggt. Þar, sem Ólafsvíkurgil rennur gegnum þorpið, urðu allmiklar skemmdir en sjálft vatnsfallið flæddi þó ekki út um þorpið. Vatnsmagnið jókst svo mikið að flóðið tók með sér rammgera fiskhjalla sem voru á bakkanum og reif upp vatnsleiðslur sem lágu yfir gilið. Samt sem áður varð mikið vatnsflóð á götum þorpsins. Vatn safnaðist saman við snjóstíflur í hæðunum fyrir ofan þorpið og rann það í stríðum straumum niður eftir götunum eins og stærstu lækir. Eru margar götur að heita má ófærar eftir flóðin, sökum þess hve sundurgrafnar þær eru. Vegir í nágrenni Ólafsvíkur eru líka stórskemmdir og illfærir bifreiðum, nema helst jeppabílum. Vegurinn frá Ólafsvík um Fróðárhrepp er til dæmis ófær eftir flóðið.
Í Fróðársveit urðu líka miklar skemmdir. Í Mávahlíð í Fróðárhreppi urðu miklar skemmdir á túni. Breytti svonefnt Mávahlíðargil farvegi sínum svo að það rann yfir besta hlutann af túninu í Mávahlíð, um leið og gilið myndaði nýjan farveg niður hlíðina. Segir bóndinn þar að skemmdirnar séu svo miklar á túninu að það geti aldrei orðið nothæft aftur. Hefir Mávahlíðargil aldrei í mannaminnum fyrr breytt farvegi sínum.
Allmikið Skeiðarárhlaup gerði í febrúar. Í fyrstu var eitthvað minnst á öskufall, en engin áreiðanleg merki sáust síðan um slíkt. Ekki gott að vita hverju á að trúa, gos geta verið mjög lítil.
Tíminn 20.febrúar:
Þær fregnir bárust í morgun austan frá Kirkjubæjarklaustri, að þar hefði orðið vart lítils háttar öskufalls. Einnig hefir orðið vart öskufalls á Meðallandi og i fleiri byggðarlögum þar eystra.
Tíminn 21. febrúar:
Hlaupið í Skeiðará óx enn í nótt var tíðindamanni blaðsins tjáð í samtali sem hann átti við Sigurð Arason bónda að Fagurhólsmýri. Rennur áin nú yfir 2 km breitt landsvæði. Hlaupið er nú orðið með mestu Skeiðarárhlaupum eftir því sem Sigurður segir. Er það til dæmis mun meira en síðasta hlaup. Að þessu sinni hefir hlaupið enn ekki brotið jökulinn, svo teljandi sé, heldur fellur það eftir hinum venjulega farvegi undan jöklinum. Mikinn brennisteinsþef leggur af hlaupinu og fellur á málma og húsþök. Hins vegar hefir ekki orðið vart við öskufall á Fagurhólsmýri. Skeiðarárhlaupið hefir þegar valdið nokkrum skemmdum á símalínum á því svæði, er áin hefir flætt yfir. Voru í morgun fallnir þrír símastaurar. Önnur spjöll hafa ekki orðið af völdum hlaupsins, enda fellur það um gróðurlausa sanda, þar sem engin mannvirki eru nema helst símalagnir. Mönnum eystra þykir líklegt, að eldar séu uppi Grímsvötnum, enda eldsumbrot þar harla tíð.
Tíminn 23. febrúar:
Ennþá er ekkert gos komið upp úr Vatnajökli hjá Grímsvötnum og telja jarðfræðingar eftir að hafa flogið yfir umbrotasvæðið óvíst að koma muni til svo mikils goss að það brjótist upp úr jöklinum. í gær flaug póst- og símamálastjóri austur, ásamt jarðfræðingunum, Pálma Hannessyni rektor og dr. Sigurði Þórarinssyni. Hefir blaðamaður frá Tímanum átt viðtal við Pálma um förina. Myndi ég álíta, segir Pálmi, að þetta hlaup sé ekki ennþá orðið eins mikið og hlaupið 1945, en hins vegar meira en hlaupið 1941.
Tíminn 24. febrúar (stytt):
Ragnar Stefánsson i Skaftafelli í Örfum kom í skrifstofur Tímans í gr. Var hann nýkominn að austan og hafði með sér litla járnplötu, er sýnir hvernig brennisteinsloftið frá Skeiðarárhlaupinu litar járn, húsþök, veggi og margt annað. Hlaupið var enn í vexti, sagði hann. Sandgígjarkvisl, sem er miklu vestar á sandinum, var líka tekin að vaxa. Jakabrot úr jöklinum var ekki teljandi. Hvenær tókuð þið fyrst eftir vexti í ánni? - Það var upp úr miðjum janúar. Þá tókum við eftir lítilsháttar vexti i henni og 5.febrúar var áin orðin allmikil og hefir síðan vaxið jafnt og þétt en hægt. Um miðjan þennan mánuð var vatnsmagnið orðið geysimikið, og nú er áin nær tveggja km breið skammt neðan við Skaftafell og mun breiðari viða þegar neðar dregur á sandinn. Áin hefir ekki brotið jökulinn svo að teljandi sé að þessu sinni, en í mörgum fyrri hlaupum hefir verið mikill jakaburður fram á sandinn. Vatnsmagnið í þessu hlaupi mun vera því sem næst mitt á milli þess sem var í hlaupunum 1941 og 1945, en hlaupið 1941 var þeirra mest. En það er hins vegar mun minna en hlaupin 1934 og 1938. Þá var áin um 5 km. a breidd á móts við Skaftafell og braut símann á stóru svæði. Hvenær rofnaði símasambandið austur yfir sandinn núna? Á föstudaginn var [20.]. Flóðið hefir nú brotið nokkra staura, en annars eru skemmdir á símanum tiltölulega litlar að þessu sinni. Flest eldri hlaup hafa hagað sér svipað. Hefir þetta Skeiðarárhlaup hagað sér á svipaðan hátt og hin næstu á undan? Já, en þó mun það hafa vaxið heldur hægar. Í hlaupunum 1934 og 1938 var mikill jakaburður fram á sandinn, en enginn í hinum síðari. Þó er rétt að geta þess, að Skeiðarárhlaup hafa ekki ætíð komið með þessum hætti og stundum borið bráðar að. Kringum 1860 kom geysilegt hlaup í Skeiðará. Að morgni dags var hún nær því þurr, en um kvöldið sá ekki á dokkan díl á sandinum, nema smáeyri við jökulinn. Skeiðarárhlaupið virðist nú vera í rénun, að minnsta kosti í bili.
Tíðindamaður Tímans átti í morgun tal við Guðmund Hlíðdal, póst- og símamálastjóra og spurðist fyrir um skemmdir af hlaupinu á símanum yfir sandinn. Guðmundur hefir haft nákvæmar fregnir af hlaupinu allan tímann frá því það byrjaði. Í gærdag byrjaði hlaupið að réna og hefir það farið minnkandi síðan, svo nú eru sem óðast að koma upp eyrar á sandinum, þar sem áður flæddi yfir. Má gera ráð fyrir Skeiðarárhlaupi þessu sé nú senn lokið, en þó getur hugsast, að það vaxi aftur, þótt ólíklegt megi teljast, þegar tekið er tillit til þess, hvernig umhorfs var við Grímsvötn. Í hlaupinu urðu allmiklar skemmdir á símanum. Átta staurar féllu, og verður ekki hægt að hefja viðgerðir fyrr en hlaupið hefir rénað það mikið, að hægt er að komast yfir ána. Skemmdir þessar eru þó aðeins smávægilegar hjá því, sem þær hafa mestar orðið i Skeiðarárhlaupi. 1934 féllu til dæmis um 200 staurar á um 10 kílómetra löngu svæði.
Síðari hluta mánaðarins var harðindum aflýst eystra. Tíminn segir frá því þann 24.:
Frá fréttaritara Tímans á Fljótsdalshéraði. Hin miklu og langvinnu harðindi á Fljótsdalshéraði eru nú liðin hjá, að menn vona, og hagar yfirleitt komnir. Fyrsti bíllinn, eftir að hlána tók, kom til Egilsstaða 14. febrúar, og. var dreginn af ýtu yfir versta torfrið. Hópar hreindýra, er leitað hafa undan fannferginu og veðrahamnum á örfunum, hafa haldið sig niðri i byggðum. Strax í byrjun nóvembermánaðar í haust gerði hér hríðar miklar, og urðu snjóalög mikil um miðsveitir. Héldust hríðar með stuttu millibili fram til hátíða, en þá herti mjög að. Snjóaði ýmist af norðaustri, en í þeirri átt snjóar mest um mið- og úthéraðið eða suðaustri, en þá snjóar mest um uppsveitir, Skriðdal, Fljótsdal og Jökuldal. Gerði hagleysur og jarðbönn um allt Hérað, en á þeim fáu stöðum, er fé náði til jarðar, notaðist ekki beit vegna storma og umhleypinga. Varð jafnvel haglaust á Jökuldal, og mun sjaldgæft vera. Héldust hríðarveður fram um 20. janúar, og fóru bændur að verða uggandi, því að allmargir voru ekki nægjanlega vel heyjaðir, þrátt fyrir eindæma gott sumar [1947], enda fer þeim mönnum hér fækkandi, er fyrningar eiga, og veldur þar sjálfsagt mestu, hve fámennt er yfirleitt orðið í sveitunum, svo að bændur eiga fullt í fangi með að afla heyja handa búfé sínu í meðalári.
Rétt um mánaðamótin febrúar/mars gerði óvenjumikil flóð, bæði á Suður- og Norðurlandi. Þau hófust á hlaupársdaginn, en héldu síðan áfram. Norðanlands var aðallega um leysingu að ræða, en sunnanlands rigndi mjög mikið. Í greininni Flóð í Þjórsá og Hvítá sem birtist í tímaritinu Veðrinu 1971 fjallar Hlynur Sigtryggsson um veðrið sem olli flóðunum og birtir veðurkort fyrir einn flóðdagana 1948.
Fyrst bárust fréttir af flóði í Varmá í Ölfusi. Tíminn segir frá því 2.mars:
Í fyrrinótt [aðfaranótt 1. mars] hljóp aftakaflóð í Varmá í Ölfusi, en hún rennur í gegnum Hveragerði. Óx áin svo mikið, að annað eins flóð hefir ekki komið í hana í mannaminnum. Olli það miklum skemmdum og flæddi niður um allt Ölfus, svo að það er nú allt að heita má í kafi í vatni fyrir neðan þjóðveginn. Í gær fjaraði nokkuð í ánni, en hún óx aftur í nótt. Algengt er, að flóð komi i Varmá, einkum í leysingum á vorin, en sjaldan valda þessi flóð neinu teljandi tjóni. En flóðið, sem hljóp í ána í fyrrinótt, er meira en elstu menn muna eftir. Aðdragandi þessa flóðs var stuttur. Í fyrradag [29.febrúar] var áin ekki farin að vaxa að ráði, og má heita, að þessi vöxtur hafi hlaupið í hana á einni nóttu.
Skemmdir, sem flóðið hefir valdið, eru miklar, en þó er ekki enn vitað til fulls um allar þær skemmdir, er kunna að hafa orðið í Ölfusi, þar sem vatnið liggur yfir að heita má öllu láglendinu fyrir neðan þjóðveginn. Vitað er þó, að flóðgarðar eru víða skemmdir. Í Hveragerði urðu skemmdirnar mestar. Yfir ána liggja vatnsleiðslur með vatni heitu og köldu, og reif áin þær allar burt, svo að mestur hluti þorpsins er nú án neysluvatns. Lágu þessar leiðslur yfir ána frá Reykjalandi og hafa staðið af sér öli flóð í ánni hingað til. Þá sópaði áin burt þremur rammgerum göngubrúm, sem yfir hana voru. Af þeim orsökum er ekki hægt að komast að eða frá tveim bæjum í Ölfusi fyrir ofan Hveragerði. Þeir eru umflotnir vatni. Þetta eru Reykjakot og Gufudalur. Fólkið á þessum bæjum hefir þó símasamband. Þá sópaði áin burtu einni steinsteyptri brú, sem gerð var í fyrra upp hjá Gufudal. Flóðið sleit jarðsímastreng, sem liggur milli Selfoss og Reykjavikur neðan þjóðvegarins, austur Ölfusið. Samband er þá austur um aðrar línur. Í Fagrahvammi flóði vatnið inn í gróðurhús og eyðilagði mikið af plöntum. Sumu af þeim bjargaði þó leðjan, sem áin bar með sér. Hún huldi þær og varði. Var allmikið af plöntum grafið upp úr leðjunni í gær, er flóðið rénaði. Orsakir þessa flóðs eru hinar miklu leysingar undanfarna daga. Mikill snjór var kominn í Henglafjöll og Reykjadali, þar sem áin á upptök sín, og hljóp þessi vöxtur í hana, er snjórinn hlánaði.
Síðan kom að Hvítá í Árnessýslu, Vísir 4.mars:
Gífurlegir vatnavextir eru í Hvítá og öðrum ám og lækjum austur í Árnessýslu. Í morgun flæddi hún yfir bakka sina austur á Skeiðum og bæirnir Útverk og Ólafsvallarhverfi voru orðnir umluktir af vatni. Hvítá hélt áfram að vaxa í allan gærdag og í nótt og var enn að vaxa í morgun. Ef hún heldur þannig áfram að vaxa enn um stund, getur hún valdið alvarlegu tjóni. Hjá Selfossi var Hvítá einnig orðin bakkafull og flæðir yfir bakkana þá og þegar, ef vöxturinn heldur áfram. Þá hafa ýmsar aðrar ár og lækjarsprænur tekið að vaxa óðfluga og var kominn flugvöxtur í þær í morgun, þar á meðal Varmá i Ölfusi. Þessi vöxtur hefir valdið miklum skemmdum á vegum, m.a. var talið að steinsteypta brú hafi tekið af á Sogsveginum og að hann væri nú orðinn ófær. Vísir átti tal við Jón bónda Brynjólfsson að Ölafsvölum og spurði hann frétta af flóðinu. Segir hann, að flóðið í Hvítá sé mjög mikið og fari vaxandi. Margir bæir eru umflotnir og verður ekki komist á milli nema á bátum. Fjárhús hjá bænum Norðurgarði eru alveg að fara í kaf og verður að Flytja fé þaðan á brott eða a.m.k. að færa það upp á húsin. Flóðið er komið fram fyrir Ólafsvelli og fer vaxandi. Rigning er þar austur frá ennþá og ekki útlit fyrir að upp stytti.
Vísir segir enn frá 6.mars:
Að minnsta kosti 10 hús á Selfossi hafa orðið fyrir verulegum skemmdum af völdum flóðanna, sem verið hafa þar eystra s.l. daga. Kjallarar þeirra eru hálffullir af vatni og komst vatnið á neðstu hæð í nokkrum húsum, sem neðarlega standa á árbakkanum. Sérstaklega mikið tjón hefir orðið á Tryggvaskála, en hann hefir verið umflotinn, vatni frá því í fyrradag og hnédjúpt vatn í veitingasölum og eldhúsi. Þá tók áin geymslubragga, er stóð fyrir neðan Ölfusárbrúna. Brotnaði hann í spón undan vatnsþyngslunum og barst á brott með straumkastinu. Þegar flóðið náði hámarki flóði vatnið einn og hálfan meter yfir gólfið í brúnni yfir Hvítá að Brúarhlöðum. Uppfyllingunni, sem var beggja vegna brúarinnar, skolaði burt, en brúin stendur eftir. Auk þessara skemmda, varð nokkurt tjón annað á brúnni, en ekki þó alvarlegt. Brýrnar yfir Tungufljót og Brúará sluppu að mestu óskemmdar. Flogið var austur yfir fjall, og þegar komið var austur yfir miðja Hellisheiði blasti vatnselgurinn í Ölfusinu við augum. Var Ölfusá margir kílómetrar á breidd neðarlega í Ölfusinu en eins langt og augað eygði austur á bóginn, var að líta gríðarlegan vatnsflaum. Úr lofti virtist a.m.k. þriðji hluti af Selfossi undir vatni. Tryggvaskáli virtist út í miðri á, ennfremur bílaverkstæði K.Á. Allmörg íbúðarhús á árbakkanum austarlega í þorpinu voru einnig umflotin vatni. Frá Selfossi var flogið upp með ánni og komu þá i ljós nokkrir bæir, sem voru alveg umflotnir vatni. Nokkrir sumarbústaðir standa við ána fyrir neðan Þrastalund, en þeir voru að meira eða minn a leyti i kafi. Af einum virtist þakið aðeins standa upp úr. Þjóðvegurinn, sem liggur austur Flóann var á stórum svæðum i kafi og sums staðar fossuðu breiðir vatnsálar yfir hann. Neðarlega í Flóanum virtist sem allt væri á floti og voru nokkrir bæir þar einangraðir.
Tíminn 5.mars:
Flóðið í Hvítá og Ölfusá hefir valdið margvíslegum skemmdum, einkum á vegum. Brúin yfir ána við Brúarhlöð er í hættu stödd. Mörg hús eru umflotin á Selfossi og vatnsleiðslan þar hefir bilað. Er þetta mesta flóð, sem komið hefir í Hvítá síðan 1930. Er blaðið átti tal við Selfoss um hádegi í dag var flóðið ekki farið að minnka þar neðra, en tekið að lækka uppi 4 Biskupstungum. Má búast við, að það fari að minnka úr þessu, því að veður þar eystra er nú þurrt og kaldara. Undanfarna daga hafa verið mjög miklar rigningar og leysingar sunnan lands og vestan og hefir hlaupið forátta í öll vatnsföll. Hvítá, Tungufljót og Ölfusá hafa vaxið mjög og flætt yfir bakka, svo að annað eins flóð hefir ekki komið í þessi vatnsföll síðan árið 1930. Brúin við Brúin á Hvítá við Brúarhlöð er umflotin, en stendur þó enn. Landbrúin við hana er þó rifin burt og uppfylling hefir skolast frá henni. Má búast við, að brúin sé hætt komin, ef vatnið fellur ekki í ánni hið bráðasta.
Á Selfossi eru allmörg hús umflotin og vatn hefir hlaupið í kjallara margra húsa. Í Tryggvaskála, sem stendur á árbakkanum rétt við brúna, var hnédjúpt vatn í eldhúsinu í morgun og skálinn allur umflotinn. Vatnsleiðslan að Selfossi hefir. bilað og ýmsar aðrar smávægilegri skemmdir orðið. Austan við Selfoss flæðir vatnið yfir stór svæði, og vegurinn er víða í kafi. Má búast við, að allmiklar skemmdir komi í ljós á honum, þegar hann kemur undan vatninu. Eru nú ófærar allar leiðir austur frá Selfossi.
Frá Laugarvatni bárust í morgun þær fréttir, að vatn hefði flætt upp í hverinn, sem hitar upp skólahúsið og aðrar byggingar þar á staðnum. Er því allt óupphitað sem stendur. Skillandsá í Laugardal braust úr farvegi sínum og rennur nú utan við brúna, sem á henni var.
Tíminn 6. mars:
Feneyjalíf á Selfossi. Í fyrrinótt byrjaði í Ölfusá og ám þeim, sem hana mynda, eitt mesta flóð, sem orðið hefir á þeim slóðum á þessari öld. Í fyrrakvöld fór Ölfusá að flæða inn í hús á Selfossi og undir morgun í gær óx flóðið enn sem örast. Fjöldi fólks varð að yfirgefa íbúðir sínar á Selfossi, vegir urðu ófærir og stórskemmdir urðu á túnum, sem liggja á bökkum Ölfusár. Það var ekki fyrr en síðdegis í gær, að heldur fór að draga úr flóðinu niður við Selfoss. Flóð eins og það, sem nú kom í Ölfusá og árnar upp frá henni, er sjaldgæfur viðburður. Síðan 1930 hefir ekkert slíkt flóð komið, nema þetta. Kunnugir telja, að flóðið í gær hafi verið síst minna, þegar það var mest. Á árunum fyrir 1930 voru flóðin algengari. Eftir að hlaðið hafði verið fyrir Hvítá hjá Brúnastöðum hætti hún að flæða eins yfir byggðirnar austan Ölfusár og hún hafði áður gert. Í gær var samt mikill vatnselgur niður um byggðirnar sunnan Hestfjalls og einnig flæddi um Ólafsvallahverfi á Skeiðum. Að þessu sinni rann ekki nema lítið út úr ánni hjá Brúnastöðum. Hins vegar lá aðalvatnsflaumurinn niður hjá Bitru og þar í Hróarsholtslækjarfarveg, sem varð við það að stóru fljóti, ekki minna en fimm hundruð metra á breidd. Á Selfossi, þar sem flóðsins gætti mest, var í gær líkast um að litast og komið væri til Feneyja. Fólk fór á milli húsanna á litlum róðrarbát eða flekum. Þeir, sem betur voru settir, komust að og frá húsi sínu á klofháum vaðstígvélum. Á þetta þó eingöngu við þann hluta þorpsins, sem liggur næst ánni.
Tryggvaskáli var umflotinn og var róðrarbátur í förum milli hans og þurrlendisins í allan gærdag. Á neðri hæð hússins var hnédjúpt vatn. Kollurinn á bensínmælinum stóð upp úr flóðinu eins og viti á vatnaleiðinni við Tryggvaskála. Bifreiða- og landbúnaðarvélaverkstæði Kaupfélags Árnesinga varð fyrir miklu tjóni af völdum flóðsins. Flæddi inn um öll verkstæðin, svo að hnédjúpt vatn var í þeim í gærdag. Í alla fyrrinótt unnu 15 menn við að bjarga vélum verkstæðisins og tókst að lyfta þeim, þannig að þær munu ekki hafa orðið fyrir verulegum skemmdum. Flæddi í kringum verkstæðið og upp undir veg hjá aðalbyggingu kaupfélagsins. Öll umferð stöðvaðist að og frá Selfossi skömmu fyrir hádegið í dag. Hjá Skeggjastöðum rann vatn yfir veginn með nokkrum straumþunga á 300 metra löngum kafla, líkt og 1930, og einnig rann yfir veginn hjá Neistastöðum á löngum kafla. Bílar gátu brotist þarna yfir, en þegar kom að lægðinni fyrir neðan Bitru, varð ekki komist lengra á neinu ökutæki. Þar flóði vatnið yfir veginn á um það bil hálfs kílómetra löngu svæði og var sums staðar svo djúpt, að ekki sást á háa brúarstólpa. Straumþungi var einnig i þessu vatnsfalli, og má búast við, að miklar skemmdir komi í ljós á veginum, þegar flóðið rénar, sem útlit er fyrir að verði í dag. Yfir vatnselginn hjá Skeggjastöðum voru skólabörnin flutt frá skólanum á Farmall-dráttarvél í gær.
Nokkrir bæir í lágsveitunum voru með öllu umflotnir í gær, og ekki varð komist að þeim eða frá, nema á bátum Stóðu bæirnir á hólunum, eins og eyjar í úthafi. Á Hjálmholti flæddi til dæmis í kringum fjárhúsin, svo að þau stóðu á eyju, en að þeim varð ekki komist frá bænum. Það varð fénu til happs, að það var úti við. Ýmsum fjölskyldum, sem bjuggu í kjöllurum á Selfossi, varð ekki svefnsamt i fyrrinótt. Blaðamaður frá Tímanum átti tal við einn heimilisföður, þar sem allt var komið á flot, er ekki var búið að bjarga upp á efri hæðina. Var það Lúðvík Guðnason. Við urðum fyrst vör við það í fyrrakvöld, að vatn var farið að renna inn á gólfið", segir Lúðvík. Tókum við þá strax til óspilltra málanna, og reyndum að bjarga því, sem bjargað varð, upp á efri hæðina. Lengi hélst ökkladjúpt vatn í íbúðinni, en undir morgun fór vatnið að aukast hröðum skrefum og varð á skammri stundu hnédjúpt. Síðan óx flóðið jafnt og þétt í gær og skömmu eftir hádegi var vatnið farið að flæða upp á eldhúsborðið". Átta íbúðir urðu álíka hart úti í flóðinu, og hefir fólkið, sem í þeim bjó, orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni. Þar sem Ölfusá byltist undan brúnni, skall hún á horninu á túninu á bænum Selfossi. Var straumiðan þar eins og öldurót í úthafi og gengu flóðbylgjurnar langt upp á túnið. Horn á túninu skagar út í ána og braut svo að segja stanslaust af því í allan gærdag. Þegar brotið var mest, brotnaði um 20 metra spilda af túninu á tveimur klukkustundum og losnaði einu sinni átta metra breið spilda frá i einu lagi. Þrátt fyrir allan vatnsganginn var ekkert neysluvatn til á Selfossi i gær. Vatnsleiðslurnar, sem liggja að þorpinu undir Ölfusárbrúnni, biluðu. Síðdegis i gær var þó lögð bráðabirgðaleiðsla yfir brúna, svo að fólk gat sótt sér neysluvatn í krana við annan brúarendann.
Þegar blaðið hafði samband við menn á Selfossi skömmu fyrir hádegið, var flóðið mikið farið að réna og er nú orðið vætt að Tryggvaskála. Er búist við að flóðið. hverfi að mestu í dag og nótt og vegir komi þá upp austan við Selfoss, hvort sem þeir kunna að verða færir fyrr en eftir að viðgerðir hafa farið fram.
Síðan bárust fréttir af flóði í Skjálfandafljóti, Vísir segir af því 8.mars:
Ofsavöxtur hljóp í Skjálfandafljót í vikunni sem leið og hefir ekki annar eins vöxtur komið í ána frá því 1925. Flæddi áin þá upp á gömlu brúna, og munaði minnstu að hún færi. Var talið að álíka hátt hefði verið í ánni núna. S.1. fimmtudag gekk í asahláku nyrðra og tók þá Skjálfandafljót ört að vaxa. Leysingin var svo mikil bæði á fimmtudag og föstudag að menn muna varla eins. Var mikill snjór fyrir stund, svo jörð varð alauð. Í gær kyngdi hinsvegar niður fádæmum af snjó, svo að nú liggur hnédjúpur sjór yfir öllum Bárðardal. Snjóýtur hafa samt rutt veginn frá Akureyri, og er nú sem stendur fært milli Akureyrar og Húsavíkur.
Tíminn sagði einnig frá Skjálfandafljóti, 8.mars:
Mikið hlaup kom í Skjálfandafljót s.l. föstudag [5.mars] með geysilegri jakastíflu á móts við Þóroddsstað í Köldukinn. Skemmdir urðu miklar á vegum, brúm, heyjum og girðingum. Á láglendinu á móts við Þóroddsstað og þar fyrir norðan eru nú stóreflis jakahrannir og vatnselgur. Fregnir er komu í morgun hermdu, að fljótið hefði hlaupið aftur í nótt en væri þó nokkru minna en fyrir helgina og jakaburður enginn, þar sem fljótið er búið að ryðja sig. Ekki er búist við, að hlaupið geri meira tjón en orðið er.
Í síðustu viku voru mjög bráð þíðviðri í Þingeyjarsýslu eins og víðast hvar annars staðar á landinu. Urðu miklar leysingar og leysti því nær allan snjó úr byggðum á nokkrum dögum, en hann hafði verið allmikill fyrir þíðviðrið. Á föstudag kom mikið hlaup í Skjálfandafljót. Flóði það yfir bakka og braut af sér mikinn ís, sem venjulega myndast á Skipapolli og þar fyrir norðan. Geysimikil jakastífla hjá Þóroddsstað. Hlóðust jakahrannirnar upp og mynduðu mikla jakastíflu á móts við Þóroddsstað og flóði vatnið þar upp yfir láglendið á breiðu svæði. Bárust stórir jakar langa vegu upp á land og mynduðust íshrannir. Gekk hlaupið yfir veginn, sem liggur frá nýju brúnni á Skjálfandafljóti þarna upp að Ófeigsstöðum. Er talið, að mjög miklar skemmdir hafi orðið á veginum þar, en ekki er enn fullvíst hve miklar þær eru, því að vegurinn er ekki kominn til fulls undan vatninu enn. Á svæði því, sem flóðið hljóp yfir, eru engjar Kinnarbænda og stendur allmikið af heyjum þar á fljótsbökkunum og víðar. Flóði vatnið víða umhverfis og undir þessi hey, skemmdi þau stórlega og tók sumt á burt með sér. Hafa orðið þarna allmiklar heyskemmdir, sem nema miklu fjártjóni. Á eystri
fljótsbakkanum urðu og allmiklar skemmdir bæði á heyjum og girðingum. Tók þar með öllu burt mæðiveikivarnagirðingu á löngum kafla. Lá hún norður með fljótinu fremst á bakkanum. Þar tók líka á burt þrjár smábrýr á veginum, og miklar skemmdir aðrar urðu á honum. Bærinn Húsabakki, sem stendur að austanverðu við fljótið norður undir hrauninu, var algerlega umflotinn, og varð ekki komist að honum um tíma. Vatn hljóp þar einnig í fjárhús og hlöður og urðu nokkrar skemmdir á heyjum. Um. allt þetta svæði, sem flóðið fór yfir, eru nú miklar jakahrannir, því að ísinn, sem braut af fljótinu var geysimikill.
Nýtt hlaup í fljótið í nótt. Samkvæmt fregnum, sem blaðinu bárust i morgun [væntanlega 7.mars] að norðan, kom nýtt hlaup í fljótið í nótt; Það mun þó vera tæplega eins mikið og fyrra hlaupið og enginn jakaburður fylgir því, vegna þess að fljótið hefir nú brotið allan ís af sér. Er ekki talið líklegt, að þetta nýja hlaup hafi í för með sér meiri skemmdir en orðið er. Slík hlaup í Skjálfandafljót eru ekki tíð og koma helst ekki nema i bráðum þíðum, þegar ís leysir af fljótinu í skyndi. Talið er, að þau komi ekki nema því sem næst á tíu ára fresti að jafnaði. Nýja brúin stóðst raunina. Skammt frá þeim stað, er flóðið og jakastíflan varð mest, er ný brú á fljótinu, eins og kunnugt er. Sakaði hana ekki á nokkurn hátt, og er það talið gott vitni um styrkleik hennar. Frammi í Bárðardal urðu engar skemmdir af völdum flóðsins svo að teljandi væri, því að þar er alls staðar nokkuð hærra að fljótinu og þar hefir ekki verið teljandi ís á því, sem valdið gæti jakaburði. Í dag er austan andvari fyrir norðan og hlýtt og stillt veður.
Þann 9. segir í framhaldsfrétt Tímans:
Eins og frá var skýrt hér í blaðinu í gær, kom nýtt hlaup í Skjálfandafljót í fyrrinótt. Því fylgdi þó enginn jakaburður, vegna þess að fljótið hafði þegar brotið af sér allan ís, og það var talið talsvert minna en fyrra hlaupið. Telja margir, að seinna hlaupið muni stafa meðfram af því, að miklar uppistöður hafi myndast á Sprengisandi, nú í leysingunum og fengið framrás í Skjálfandafljót. Vatnsmagn fljótsins var mjög mikið og flóði það langt yfir bakka sína í gær víðá, en ekki er talið að meira tjón hafi hlotist af en þegar var orðið í fyrra hlaupinu. Í morgun var hlaupið tekið að réna að mun.
Tíminn 9. mars, fréttir bárust undan Eyjafjöllum:
Jón Hjörleifsson í Skarðshlíð skýrði tíðindamanni Tímans svo frá. í símtali í gær, að þar hefðu verulegar skemmdir orðið á brúm og vegum. Síðastliðið föstudagskvöld gróf Skógá svo undan stöpli þeim, sem brúin hvíldi á að vestan, að hún seig niður. Einnig reif hún skarð mikið í uppfyllinguna að austan. Brúin á Skógá er úr steinsteypu, og eru engar líkur til þess að unnt verði að lyfta henni að nýju. Víðar undir Eyjafjöllum urðu skemmdir á vegum, svo sem hjá Svaðbælisá, þar sem vatnsflaumur gróf skarð i veginn. Búið er að gera við þessar skemmdir til bráðabirgða, svo áð vegurinn er nú bílfær.
Í Vísi 16.mars er greint frá flóðum við innanvert Ísafjarðardjúp:
Sigurður Þórðarson, bóndi á Laugabóli við Ísafjarðardjúp, hefir ritað Vísi eftirfarandi fréttabréf, dagsett 9. mars: Í hinum óvenjulega miklu rigningum og vatnavöxtum sem hér hafa gengið undanfarið, hafa orðið miklar skemmdir á Þorskafjarðarveginum, svo að hann verður með öllu ófær bifreiðum þó að snjólétt verði í vor þangað til úr hefir verið bætt. Vegurinn fram Langadalinn er víða stórskemmdur. Hefir vatn runnið yfir hann mjög viða og grafið djúpt niður fyrir veginn, einkum þar sem steypt ræsi voru. Þar hefir vatnið grafið allt utan af og undan steypunni svo hólkarnir liggja þar og rennur ekki um þá vatn víða. Í heiðarbrekkunum hafa þrjár stórar skriður fallið yfir veginn og gert hann ófæran. Þar og annarsstaðar i brekkunum hefir vatnið tekið kanthleðsluna burtu og veginn með, svo að varla er fært hestum. Hjá brúnni við Bakkasel hefir áin tekið alla upphleðslu að brúnni burtu að vestanverðu og var áin þar á sund og ófær þeim megin brúárinnar í vöxtunum, en vatnið sauð á brúnni. Þó er hún óskemmd sjálf. Þetta vildi eg láta yður vita nú, vegna ferðamanna eða áætlunarbila er kynnu að brjótast vestur, er þeir heyra að snjólaust sé á heiðinni. Þá hefir og eyðilagst brú yfir gil, milli Laugabóls og Arngerðareyrar og er vonandi að vegamálastjórnin láti laga þetta allt svo snemma í vor sem unnt verður. Þyrfti að lengja brúna við Bakkasel, því þessi vegarhleðsla að henni fer árlega ef áin vex að ráði.
Tíminn segir 9.mars frá vandræðaveðri á Vestfjarðamiðum:
Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði. Aðfaranótt sunnudagsins [7.mars] gerði hvassan norðaustan storm út af Vestfjörðum, og brast veðrið skyndilega á. Margir bátar voru á sjó frá Ísafirði og urðu margir þeirra fyrir miklu, veiðarfæratapi. Fjórir bátar Samvinnufélagsins misstu samtals um 350 lóðir. Vélbáturinn Vébjörn fékk á sig mikinn brotsjó og brotnuðu allar stíur og kom allmikill sjór í lest bátsins, en honum tókst þó að komast til hafnar. Bátar frá Hnífsdal og Sú0ayík urðu einnig fyrir miklu veiðarfæratjóni. Afli hefir verið mjög tregur á Ísafirði og gæftir stirðar síðan vertíðin hófst þar, og hafa engir bátar aflað fyrir tryggingu enn sem komið er.
Nú var farið að tala um hlýindi: Tíminn 10.mars:
Fregnir, sem borist hafa austan úr sveitum, herma, að enn séu þar sömu votviðrin og hlýindin. Er jörð nú tekin að grænka sums staðar, og austur í Landeyjum er klaki að mestu farinn úr jörðu. Hlaupið í Ölfusá er nú búið, en áin er mikil eins og eðlilegt er um þetta leyti árs, er hlýindi ganga.
Veðrátta var áfram mjög óstöðug og úrkoma mikil. Mars 1948 er með úrkomusömustu marsmánuðum allra tíma. Sá úrkomusamasti í Stykkishólmi og á Kirkjubæjarklaustri, sömuleiðis á Ljósafossi (athugað frá 1937 til 1972). Þar mældist mánaðarúrkoman 446,8 mm. Flóðið í Varmá var þannig afleiðing óvenjumikillar úrkomu. Við vitum ekki hver úrkoma var á vatnasvæði hennar, en trúlega enn meiri en Ljósafosstölurnar gefa til kynna.
Heildregnu línurnar á kortinu sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins í mars 1948. Strikalínur (daufar) marka þykktina, en litirnir sýna þykktarvikin. Vel má sjá hina eindregnu og hlýju suðvestanátt þessa óvenjulega mánaðar.
Tíminn segir af sjóslysi 15.mars:
Aðfaranótt sunnudagsins [14.] drukknuðu fjórtán breskir sjómenn af breska togaranum Epine frá Grimsby, sem strandaði við Dritvík á Snæfellsnesi þá um kvöldið. Björgunarsveitirnar frá Arnarstapa og Sandi björguðu fimm mönnum af áhöfn skipsins. Mikið brim.
Hvasst varð um miðjan mánuð, tveir bátar sukku á Keflavíkurhöfn þann 16. Eins bárust fréttir af umferðarvandræðum í Hvalfirði og á Hellisheiði í fannkomu þann 19. Tíminn ræðir þann 17.mars um Keflavíkurflugvöll - ætli menn séu ekki að rugla eitthvað hér með meðalvind og hviður - rétt einu sinni:
Það þykir tíðindum sæta, að þrátt fyrir hvassviðrið síðustu sólarhringana hefir Keflavíkurflugvöllur aldrei lokast og hafa flugvélar komið við á vellinum á hverjum sólarhringi síðan um helgi. Í nótt komu til dæmis við þar fjórar Skymasterflugvélar á leið frá Bandaríkjunum til Evrópu. Þessa daga hefir það stundum komið fyrir, að vélarnar hafa orðið að bíða nokkurn tíma yfir vellinum til að geta lent, oft stundarfjórðung til hálfa klukkustund, en þá hefir verið hægt að lenda á milli éljanna, þó að hvasst væri. Í fyrradag lenti Skymastervél á vellinum, þegar veðurhæðin var 12 vindstig. Slík lending er að vísu erfið, en þó ekki talin hættuleg, þegar um vana og vel þjálfaða flugmenn er að ræða.
Óvenjuhlýtt var í veðri nokkra daga seint í mánuðinum. Þann 27. [laugardag fyrir páska] fór hiti í 18,3 stig á Sandi í Aðaldal, Íslandsmet í marshita á þeim tíma og stóð allt til ársins 2000, þegar hiti mældist 18,8 stig á Eskifirði þann 28. Síðar hefur enn verið bætt um betur, hæst 20,5 stig í Kvískerjum þann 29. árið 2012. Metið sem var slegið 1948 var 3 stigum hærra heldur en gamla metið á þeim tíma, 15,2 stig. Sá hiti hafði mælst þrisvar, síðast á Hlaðhamri í Hrútafirði þann 21. mars 1943. Í Reykjavík fór hitinn í 14,2 stig, opinberlega það hæsta sem hefur nokkru sinni mælst þar á bæ í marsmánuði. [Við trúum 16,5 stigum frá 1913 illa]. Á Akureyri mældist hámarkshitinn 16,0 stig og er ekki vitað um hærri hita þar í mars.
Tíminn segir 31.mars frá tjóni á Ísafirði - og getur síðan veðurblíðunnar.
Á skírdag [25.mars] var suðvestan ofsarok fyrir Vestfjörðum með hellirigningu. Landfestar þriggja báta, sem lágu í bátahöfninni hér á Ísafirði slitnuðu og rak þá upp á sandrifið, hjá Edinborg. Skemmdir urðu þó engar á þeim. Mjög var stórstreymt um þessar mundir og í veðrinu gekk sjór upp í Hafnarstræti og varð efsti hluti þess eins og fjara yfir að fara.
Mikil veðurblíða hefir verið um nær allt land síðustu dagana. Norðanlands og austan var hiti líkt og á sumardegi. Á Akureyri var oftast 1416 stiga hiti á daginn meðan skíðamótið var. Á Hvammstanga var 14 stiga hiti á laugardaginn. Annars staðar hefir verið svipað þessu. Nú er aftur tekið að kólna í veðri, en veður er þó enn hið fegursta víða um land.
Það er nú á mörkunum að eftirfarandi pistill sem birtist í Vísi 1.apríl eigi heima hér - en látum gott heita. Um þetta mál eru auðvitað til nýrri og ítarlegri upplýsingar:
Kleifarvatn hefir í vetur byrjað að valda skemmdum á veginum meðfram vatninu undir Sveifluhálsi, og er nú svo komið, að vegurinn er orðinn ófær venjulegum bifreiðum. Láta mun nærri að vatnið seytli yfir veginn á allt að 1000 metra svæði og hefir öldugjálfrið í vatninu sópað burt fyllingarefninu á þessum hluta vegarins, en öflugur grjótgarður sem settur var meðfram vegbrúninni vatnsmegin stendur enn víðast hvar upp úr. Jeppar og háir herbílar hafa enn farið veginn og haldið uppi nauðsynlegum flutningum til Krýsuvíkur, en aðrir bilar fara veginn naumast og flestir alls ekki. Samkvæmt upplýsingum sem Vísir hefir fengið hjá Vegamálaskrifstofunni hafa árlegar mælingar verið gerðar á vatnsborðinu frá því 1930, en auk þess var leitað upplýsinga hjá kunnugum mönnum um það hvernig vatnið hefði hagað sér áður og hve hátt vatnsborðið hefði komist hæst áður. Samkvæmt þessum upplýsingum hafði vatnið komist hæst svo vitað væri árið 1915 eða '16. Þá komst það í svokallaðan Lambhagahelli og var vegarlagningin meðfram vatninu miðuð við þær upplýsingar sem þá fengust. Var vegurinn lagður 1 metra hæð þá, og var talið að það myndi duga hvað sem á gengi. En nú hefir hækkað meira í vatninu en nokkurn óraði fyrir og um það bil 1 metra hærra en vatnsborðið hafði komist hæst áður, en hækkað um 4,8 metra frá því að reglubundnar mælingar hófust 1930.
Kleifarvatn hefir, sem kunnugt er, ekkert innrennsli, og sumir telja að vatnsbotninn sé svo gisinn að aðrennslisvatnið seytli þar niður. Hinsvegar eru áraskipti í að því hvort vatnsborðið hækkar eða lækkar. Dr. Bjarni Sæmundsson taldi Kleifarvatn eitt hið merkasta stöðuvatn heimsins vegna þessara kenja þess. Hann sagði að yfirborð þess, sem væri að jafnaði ca. 135 metra yfir sjó, hækkaði ca. 4 m á fáum árum, en lækkaði svo smám saman aftur á ca. 30 árum, án þess að menn vissu neitt um hvernig á því stæði.
Nú bárust allt í einu fréttir af hafís - eins og venjulega höfðu menn áhyggjur af honum.
Tíminn segir frá í nokkrum aprílpistlum:
[5.] Þær fregnir bárust í morgun vestan af fjörðum, að hafís hefði rekið þar að landi í nótt. Virðist hann hafa komið af hafi utan nú í norðangarðinum, bar eð ekkert hefir orðið þar vart við ís á slæðingi áður. Ekki er þó enn unnt að segja, hversu mikil brögð eru að ísnum Samkvæmt fréttum frá Galtarvita norðan Súgandafjarðar var ís orðinn landfastur þar klukkan níu í morgun. Ekki verður þó um það sagt á þessu stigi, hversu mikinn ís er um að ræða, því að skyggni er vont, kafaldságangur og renningsstormur. Einnig hafa borist ísfregnir frá Horni. Er sagt, að töluvert af ís sé við bjargið og út af víkinni. Illa sést til hafsins, svo að ekki verður um það sagt, hversu mikil brögð eru að ísnum. Fátt er um skip úti af Vestfjörðum, svo að ekki hafa borist fréttir af sjó. Goðafoss mun ekki hafa verið kominn, nema til Þingeyrar í morgun.
[6.] Í morgun hafa litlar nýjar fregnir borist af hafísnum fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum. Þó er nú vitað að ísinn er minni en haldið var í fyrstu. Goðafoss hefir komist í gegnum íshrönglið og er nú kominn alla leið til Ísafjarðar. Þegar fyrstu fregnir bárust af hafísnum frá Galtarvíta í morgun voru þær óljósar. Vitað var að hafíshröngl var komið að landi, en hvort um ísbreiður væri að ræða út frá landinu sást ekki vegna dimmviðris.
Bátar, sem voru á sjó frá Önundarfirði í gær, sáu íshröngl á sjónum, en hvergi mikinn ís. Lögðu þeir lóðir sínar hindrunarlaust eins og venjulega. Nokkra jaka rak á land við Grímsey. Tíðindamaður Tímans átti í morgun tal við Víking Baldvinsson stöðvarstjóra í Grímsey og spurði hann frétta af ísnum. Hann sagðist hafa gengið fram á Bjarg á eynni rétt fyrir hádegi. Skyggni var þá slæmt og sást sama og ekkert. Fór Víkingur svo aftur austur á Bjarg skömmu eftir hádegið og sá þá nokkra jaka, sem rekið höfðu á land í fjörunni. Ekki hélt hann að mikill ís væri við eyna, en skyggni var slæmt, svo ekki sást langt út. Í morgun var einnig snjófjúk og slæmt skyggni.
Mönnum varð ónotalega við þegar þær fregnir spurðust í gær, að ísjaka hefði borið að landi við Gölt, norðan Súgandafjarðar, og orðið hefði vart við íshröngl við Horn og Grímsey. Raunar er það ekkert nýnæmi, að vart verði við ís í námunda við landið á útmánuðum. En það er eins og menn tækju þessum fréttum í gær af miklu meiri alvöru en oft áður, hvort sem því hefir valdið norðangarðurinn að undanförnu, vafi sá, sem á því lék, hversu mikinn kynni að vera um að ræða, eða einhverjar sálrænar orsakir. Ég spurði þá Jón Eyþórsson og Jónas Jakobsson veðurfræðinga álits á þessum fréttum í gærkvöldi. Jón Eyþórsson benti á, að veður hefði verið með þeim hætti að undanförnu, að vel gæti verið, að talsverðan hafís hefði borið upp undir landið. Síðari hluta marsmánaðar hefði átt verið vestlæg, en stórviðri af norðri upp á síðkastið. Það væri að minnsta kosti sýnt, að talsvert íshrafl væri á svæði frá Vestfjörðum norðanverðum norður og austur um Grímsey. Hversu mikið það væri, yrði ekkert um sagt, fyrr en létti upp, svo að unnt væri að kanna svæðið. En að svo komnu máli væri ekki ástæða til þess að ætla, að endilega þyrfti að vera um hafþök að ræða. Jónas Jakobsson fletti fyrir mig í gegnum ísfregnabók Veðurstofunnar. Það kom í ljós, að á hverju ári verður eitthvað vart við hafís í námunda við landið, einkum á útmánuðunum, þótt hitt sé sjaldgæfara, að hann verði landfastur eða valdi truflun eða trafala. Þannig varð til dæmis vart við hafís norðvestur af Vestfjörðum í maí 1946, og út af Horni var hafísbreiða samhliða siglingaleið 1015 mílur frá landi. Í ágústmánuði 1945 kom hafísslitringur inn á Húnaflóa. í febrúar 1944 kom hafís undir Grímsey, og var samfelld hella að sjá til hafs. Í mars var hann orðin landfastur í Grímsey. Í aprílmánuði sama ár varð vart við ís á Dalatanga og á Reykjarfirði var íshrafl þennan sama mánuð. Það er því ekki nýnæmi, þótt hér sé ísslitringur á sveimi um þetta leyti árs. Á hinn bóginn er alllangt síðan, að ís hafi lagst svo að landi, að voði stafaði af. Eitthvað nálægt tuttugu og fimm ár munu vera síðan einhverjar teljandi hindranir urðu á siglingum af völdum hafíss fyrir Ströndum og á Húnaflóa. En allslæm hafísár hafa komið á þessari öld, eins og 1906, þegar siglingateppa og vandræði urðu norðan lands, og 1914, harða vorið svokallaða, sem mörgum rosknum bændum mun enn í minni [mun meiri ís var 1915]. En vonandi er ekki neitt slíkt í aðsigi nú. JH
[7.] Í morgun var allgott skyggni á Vestfjörðum, svo að gerla var hægt að sjá, að samfelldur ís var ekki nærri landi. Hins vegar sést víða út af Vestfjörðum allmikill rekís. Þegar tíðindamaður blaðsins átti tal við Þórð Hjaltason stöðvarstjóri í Bolungavík í morgun, sást þaðan einn stór ísjaki á reki úti fyrir. Bátar, sem voru á sjó, sáu allmikinn rekís, en hvergi samfelldan ís. Einna mestur mun ísinn vera við Ísafjarðardjúp, en þar er að heita má belti af rekís fyrir mynni fjarðarins. Frá Goðafossi sem er nýlega farinn frá Ísafirði, hefir frést að íshrafl sé norður að Horni, og þar sjáist allstór ísspöng til hafs. Við Skaga sést einnig ís á reki.
[8.] Bátar úr Hnífsdal og Bolungarvík, sem voru á sjó í gær komust ekki á hin venjulegu fiskimið sín fyrir ís og fengu lélegan afla. Talsverður hafíshroði var þar sem þeir lögðu, einkanlega að austanverðu. Afli hefir annars verið sæmilegur hjá Vestfjarðarbátunum, þegar gefið hefir á sjó, en gæftir hafa verið stirðar lengi að undanförnu.
[17.] Í gær kom norskur hákarlaveiðari inn til Ísafjarðar. Hafði hann ætlað á hákarlamið út af Horni, en er hann var kominn 35 sjómílur út af Horni, rakst hann á samfellda hafísbreiðu, sem náði óslitið vestur fyrir Arnarfjörð. Komst hann því ekki á venjuleg og fyrirhuguð hákarlamið að þessu sinni og hafði litla veiði. Eftir þessum fregnum að dæma er svo að sjá, að hafþök af hafís séu skammt úti fyrir Vestfjörðum og þarf sennilega ekki nema dálítið norðankast til þess að ísinn reki aftur að landi. Og nú virðist norðanátt vera að aukast, og er til dæmis orðið allhvasst víða á Norðurlandi.
Ingibjörg í Síðumúla lýsir aprílmánuði um mánaðamótin: Nú er frost á Fróni, en mjög hefir tíð verið misjöfn þennan mánuð, stundum dásamlega hlýtt og gott veður með 15 st. hita að degi og 8 stigum að nóttu, en hinn tímann frosti og norðannepju. Bliknaði þá sá gróður, er greri á hitatímanum. Nú er jörðin gaddfrosin, flekkótt af snjó og hvít og skinin á milli. Fé er enn hýst og gefið.
Fádæma snjókomu gerði í Vestmannaeyjum og allra syðst á landinu 1. til 2. maí. Um þetta veður var fjallað í sérstökum pistli á hungurdiskum 3.maí 2018 - verður það ekki endurtekið hér - nema að litlu leyti. Fjárskaðar urðu þá í Mýrdal og samgöngutruflanir urðu. Snjór sagður í klyftir eða mitti í Vík. Snjóasvæðið náði frá Sólheimasandi og austur á Síðu.
Tíminn segir af snjókomunni í fréttum 3 og 5.maí:
[3.] Þau undur hafa gerst, að bifreiðaumferð í Vestmannaeyjum nær stöðvaðist vegna snjóa í gær og flugvélin getur ekki hafið sig á loft af flugvellinum þar vegna fannar. Venjulega sést varla snjór í Vestmannaeyjum á vetrum, og var einnig svo síðastliðinn vetur. En í fyrrinótt og fyrrihluta dags í gær kyngdi þar niður svo miklum snjó, að þar er nú hnédjúp fönn yfir allt á jafnsléttu. Hefir ekki komið þar svo mikill snjór í 1020 ár. Ekki er viðlit fyrir flugvélina að komast á loft af flugvellinum vegna snjósins, og ekki er hægt að hreinsa völlinn með ýtum, þar eð um malarvöll er að ræða, enda engin tæki til slíks í Eyjum, meðal annars vegna þess, að alls ekki hefir verið búist við slíku fannfergi á vellinum.
[5.] Enn er mikill snjór í Mýrdal, en minni fyrir austan sand. Samt hefir ekki snjóað síðan á dögunum. Þótt sjatnað hafi undanfarna daga, er jörð enn lítið komin undan fönninni í Mýrdal. Skaflarnir á götunum í Vík voru 12 metrar og þykja það mikil firn.í maímánuði, En í dag er miklu hlýrra í veðri, svo snjó ætti að taka upp fljótlega. Ekki er vitað um neina teljandi fjárskaða. Búið er að ryðja með ýtum veginn austur til Víkur, og farið er á bílum austur yfir fyrir sunnan heiðar og yfir Múlakvísl þar.
Heldur kalt var í maí og júní, en tíðindalítið veður. Þann 7. júní varð alhvít jörð á Húsavík og víðar norðaustanlands.
Tíminn segir fréttir úr Skagafirði 8.maí og enn fleira 10.maí:
[8.] Tíðarfar í Skagafirði var með einsdæmum gott s.l. vetur, svo að elstu menn muna vart slíka vetrarblíðu. Var hvor tveggja, að tíðin var mild og stillt og aldrei stórhríð. Þó var veðrátta eigi eins hagstæð í austurhluta héraðsins. Var þar stormasamara. Bílfært hefir verið um allt héraðið i vetur.
[10.] Að undanförnu hefir verið unnið að flóðvarnagarði undir Vindheimabrekkum í Skagafirði. Sækja Héraðsvötnin þar nú mjög fast á, svo að mannvirki þau sem þar eru fyrir, ern í hættu, ef þau verða ekki treyst stórum, og mikið og gott land í voða. Það var 1925 að Héraðsvötn fóru að brjóta land undir Vindheimabrekkum. En svo hagar til, að gamlir vatnsfarvegir liggja með brekkunum og vestur í Svartá. Sýnilegt var, að ef Vötnin" næðu þessum farvegum, myndi meginhluti þeirra leggjast vestur í Svartá og þar með flæða yfir vesturhluta eylendisins, eyðileggja þjóðveginn yfir Vallhólm og engjar og ræktarlönd fjölda jarða í vestanverðu héraðinu. Var þá um haustið stofnað félagið Héraðsvatnafyrirhleðslan af bændum úr 5 hreppum, til að vinna að því að hindra landbrotið. Var þá byggður varnargarður úr grjóti undir umsjá vegamálastjóra. Þótt tækist að stöðva landbrotið í bili, kom fljótt í ljós að eigi væri hættunni aflétt og eftir athugun og mælingu verkfræðinga var nokkrum árum síðar byggður varnargarður allmiklu norðar frá svo nefndu Arnarbergi.
Þann 21. maí segir Tíminn af tíðarfari vetrarins í Dalasýslu:
Ágúst Júlíusson bóndi að Laugum í Dalasýslu var staddur í bænum fyrir skömmu, og hitti tíðindamaður blaðsins hann að máli. Tíð hefir verið stirð vestra að undanförnu, en fénaðarhöld eru góð, þrátt fyrir ill hey í vetur, og nýi fjárstofninn virðist reynast vel. Vegir spilltust mjög í vatnavöxtum góðviðrisdagana um páskaleytið, og þurfa þeir mikillar aðgerðar við eftir veturinn víða í Dalasýslu. Hvernig hefir tíðin verið í Dalasýslu í vetur? Hún má teljast góð. Veturinn var óvenjulega snjóléttur. Um páskaleytið var mikil veðurblíða í Dalasýslu sem annars staðar á landinu, og komst hiti þá upp í 1720 stig. Síðan kom kuldakast og kulnaði þá allur gróður, sem kominn var, og nú er mjög lítill gróður kominn aftur.
Kuldafréttir eru í Tímanum 27.maí:
Lítið er farið að vora á Vestfjörðum ennþá. Snjóað hefir í fjöll af og til undanfarna daga og næturfrost hafa verið tíð. Gróður er enn mjög lítill vegna kuldans.
Tíminn segir 2.júní enn af tíð í Dölum:
Styrkár Guðjónsson bóndi í Tungu í Hörðudal er staddur bænum um þessar mundir, og leit hann inn á skrifstofu blaðsins fyrir nokkrum dögum. Fréttamaður blaðsins spurði hann tíðinda að vestan. Veturinn þar hefir verið snjóléttur og vorið mjög kalt til þessa. í síðustu viku var oft 46 stiga frost á nóttum og grátt ofan í miðjar fjallshlíðar. Hörðudalsá var brúuð í fyrra hjá Hörðubóli, en sú brú er ekki á heppilegum stað og má nefna til dæmis um það, að í vetur hljóp áin undan brúnni, og var þá hvorki fært á hana né af á hestum. Rennur áin þarna á eyrum, og er það slæmt, að ekki skuli vera hægt að treysta því, að fært sé yfir þessa góðu brú, þótt vöxtur sé í ánni. Hvenær komu þessir miklu vatnavextir hjá ykkur í Dalasýslu? Það var á góunni, og eru þetta mestu vatnavextir, sem komið hafa hjá okkur síðan 1930. Miklar skemmdir urðu á vegum víða í sýslunni og verða viðgerðir þeirra miklar og dýrar í vor.
Mjög hlýtt var um allt Norðaustur- og Austurland síðast í júní. Þá mældist hæsti hiti ársins, 24,2 stig á Grímsstöðum á Fjöllum [28.].
Þann 10.júlí gerði allmikið þrumuveður á Suðvesturlandi - snemma morguns. Veðurathugunarmaður á Víðistöðum í Hafnarfirði segir þrumuveðrið hafa staðið frá 3:30 til 5:15 um morguninn. Svo er að sjá að þrumuveðrið hafi tengst skilakerfi lægðar skammt fyrir vestan land. Heldur óvenjuleg uppákoma á þessum tíma sólarhrings að sumarlagi. Skráð er í bækur að sólarhringsúrkoma á Arnarstapa á Snæfellsnesi hafi mælst 91,1 mm. Þrumuveðrið gerir þetta að líklegri tölu en ella - alla vega þurrkum við hana ekki út umhugsunarlaust.
Morgunblaðið segir frá 11.júlí:
Mjög óvenjulegt veður gerði hér í Reykjavík og nokkrum öðrum stöðum hér suðvestanlands, snemma í gærmorgun [10.júlí]. Um kl. 5.30 kváðu við miklar þrumudrunur, en skömmu síðar gerði úrhellisrigningu. Fór rigningin vaxandi næsta hálftíma, en um kl. 6, mun hún hafa náð hámarki sínu og um líkt leyti var þrumugnýrinn mestur. Vaknaði mikill fjöldi bæjarbúa við hávaðann. Úrkoman var svo mikil, að líkast var því, sem skýfall hefði orðið. Jón Eyþórsson veðurfræðingur sagði Morgunblaðinu í gær, að slíkt veður sem þetta væri mjög sjaldgæft hér og á Norðurlöndum einnig. Veðrið stóð í sambandi við lægð milli Íslands og Grænlands. Jón taldi víst, að mest mundi hafa rignt hér í Reykjavík, en á þessum klukkutíma mældist úrkoman 17 mm. Þrumuveður og rigning mun einnig hafa verið í nærsveitum hér austan fjalls. en þess var þó ekki getið í veðurskeytum í gærmorgun. Tvær veðurathugunarstöðvar tilkynna þrumuveður, Keflavíkurflugvöllur og Reykjanesviti. Á Eyrarbakka mun úrkoman hafa veið um 16 mm og á Þingvöllum 11 mm. í Borgarfirði var hún 6 mm og minni eftir því sem vestar dró.
Tíminn 11.júlí - fyrst um þrumuveðrið, en síðan af grassprettu:
Mikið þrumuveður gerði á Reykjanesskaga og við Faxaflóa snemma í gærmorgun. Þrumaði látlaust í hálftíma af óvenjulegra ákefð, miðað við það. sem hér gerist, og fylgdi úrhellisrigning. Lék allt á reiðiskjálfi, þegar reiðarslögin riðu yfir.
Grasspretta hefir verið með minnsta móti norðanlands í vor og sumar, enda verið miklir kuldar samfara þurrkum. Fyrri viku byrjaði að rigna eftir langvarandi þurrka, og hefir gróðri farið mikið fram síðan. Sláttur er þó óvíða byrjaður, norðanlands, nema inn til dala þar sem hlýrra er, en úti með fjörðum er lítil spretta. Segja aldraðir menn, að þetta sé eitt það kaldasta vor, er þeir muna. Sláttur er víða byrjaður i innsveitum Eyjafjarðar og tún víða vel sprottin þar. Hins vegar er mjög óvíða farið að slá í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Sunnanlands er sláttur víðast hvar byrjaður og búið að slá mestan hluta túnanna á allmörgum bæjum.
Í Tímanum 22.júlí segir frá því að í flóðunum í marsbyrjun muni hafa hlánað hátt til fjalla:
Tíðindamaður Tímans hitti Teit Eyjólfsson, forstjóra að Litla-Hrauni, að máli í gær. Hefir hann farið allmargar ferðir upp á öræfin í sumar. Sagði hann, að flóðið, sem varð í Hvítá og í vetur, hefði sýnilega átt upptök sín inni við jökla. Teitur skýrði svo frá, að þetta flóð hefði valdið miklu tjóni á veginum upp á Hveravelli og í Kerlingarfjöll. Hefði það meðal annars sópað brúnum af Svartá og Jökulfalli, og sést ekki urmull eftir af brúnni, sem var yfir Jökulfallið. Er nú með öllu ófært á bifreiðum upp í Kerlingarfjöll. Einnig hafa orðið miklar skemmdir á veginum, sérstaklega vestan Bláfells. Nú er þó búið að gera við veginn til bráðabirgða, og er farið yfir Svartá á nýju vaði. Er því fært á bifreiðum inn á Hveravelli og leiðin allgreiðfær.
Heldur kuldalegt varð um tíma seint í júlí:
Vísir 22.júlí: Mjög kalt er nú norðan lands og í nótt snjóaði í fjöll niður í miðjar hlíðar eða jafnvel lengra niður.
Tíminn 23.júlí: Mikill kuldi er nú um allt land, þótt hans gæti mest norðanlands. Hefir svo verið tvo síðustu daga.
Tíminn 24. júlí: Tíðindamaður Tímans hitti í gær Hannes Jónsson frá Hleiðargarði i Eyjafirði. Hann kvað síðasta vor hafa verið eitt hið kaldasta, er aldraðir menn á Norðurlandi minnast, þegar ekki hefir verið hafís uppi við ströndina. Eigi að síður er nú sæmileg spretta í Eyjafirði. Er það fyrst og fremst því að þakka, að ekki gat heitið, að neinn klaki væri í jörðu undan vetrinum, svo að ekki lagði kulda að gróðrinum neðan frá.
Þann 25. júlí var óvenjudjúp lægð skammt undan Suðvesturlandi. Þrýstingur fór niður í 977,9 hPa í Reykjavík, ekki met, en heldur óvenjulegt samt.
Við látum Ingibjörgu í Síðumúla lýsa sumarveðráttunni fram í september:
Júlí: Júlímánuður var yndislegur að veðurfari, þurrviðrasamur og hlýr. Heyskapur gengur því mjög ákjósanlega. Tún eru allvel sprottin, og nú er langt komið að slá þau og hirða inn töðuna, sem öll þornar jafnóðum, græn og góð.
Ágúst: Indæl tíð, ágætur heyskapur. En síðasta vika mánaðarins hefir verið vætusöm og er því dálítið hey úti enn.
September: September var þurrviðrasamur, en stundum nokkuð kaldur. Hey var hirt inn snemma í mánuðinum. Kartöflur náðust upp í þurru og góðu veðri, og var uppskera í meðallagi. Sumstaðar var mikill vatnsskortur til stóróþæginda, en í dag er mikil rigning og rætist vonandi úr vatnsleysinu.
Eins og Ingibjörg segir var óvenjuþurrt í september. Í hópi þurrari septembermánaða á Suðvestur- og Vesturlandi. Ekki mátti þar mikið þorna til að það færi að bera á vatnsskorti á þessum árum. Leiðinlegt norðanveður gerði í mánuðinum. Morgunblaðið segir frá þann 16.:
Í norðanveðrinu um síðustu helgi [12.] urðu skemmdir á hafnarmannvirkjum á Blönduósi, Sauðárkróki, Hofsósi og Dalvík. Mestar skemmdir urðu á hafskipabryggjunni á Hofsósi, sem verið er að lengja. Mikið brim var á Blönduósi og skemmdist þá steinker, sem nota á til að lengja bryggjuna þar. Í sumar hefur verið unnið að því að lengja hafskipabryggjuna [á Hofsósi] og þegar veðrið skall á var búið að setja niður um 60 m langt járnþil. Í briminu lagðist um þriðjungur þilsins út af. ... Hafskipabryggjan á Dalvík varð og fyrir lítilsháttar skemmdum í veðri þessu. Á Sauðárkróki urðu nokkrar skemmdir á hafnarmannvirkjum í illviðrinu. Þar skemmdist steinnökkvinn sem verið hefir í byggingu og sökkva átti við bryggjuna. Ennfremur urðu aðrar skemmdir á hafnarmannvirkjum bæjarins.
Í forystugrein Vísis var bent á að þessar hafnarskemmdir hafi einkum orðið þar sem framkvæmdir voru í gangi - og gefið í skyn að þeim hefði miðað hægt - staðið að þarflausu í mörg ár - og þar með hafi líkur á skemmdum aukist.
Tíminn gerir heyskaparsumarið upp í pistli 19.september:
Heyskap er nú yfirleitt lokið sunnan lands og vestan, en bændur á Norður- og Austurlandi eiga enn nokkur hey úti. Heyfengur er orðinn góður, og hey munu víðast hvar vera vel verkuð í sumar, að því er Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri hefir tjáð blaðinu. Síðastliðið vot var sprettan óvenjulega sein. Vorið var líka kalt og þurrkasamt, víðast hvar um landið. Sláttur byrjaði á þessum sökum talsvert seinna en venjulega, víðast einni til tveimur vikum seinna. Sumarið, sem nú er að líða, hefir verið þurrkasamt að heita má um allt land, einkum þó á Suður- og Vesturlandi. Heyskapurinn gekk því að óskum, þegar byrjað var á honum, og tún voru orðin nógu sprottin til þess, að hægt væri að slá þau. Þegar líða tók á sumarið varð grasspretta líka góð, bæði á túnum og útengjum. Flæðiengi voru þó sums staðar fremur léleg að þessu sinni, og stafaði það af því, mikil viðbrigði frá í fyrra. Á Suðurlandi og víðast hvar á Vesturlandi er heyskap lokið. Hefir sumarið verið hið ákjósanlegasta hvað tíðarfar snertir. Er varla hægt að segja að nokkurn tíma hafi rignt nokkuð að ráði. Hey á þessu svæði er því mjög góð að þessu sinni og mikil viðbrigði frá í fyrra. Þá varla kom þá þurr dagur á Suðurlandi, allt sumarið til hausts. Er óhætt að fullyrða, að slætti hefði lokið nokkru fyrr, ef spretta hefði orðið fyrri til í sumar, og ekki þurft að bíða eftir því að tún yrðu sláandi. Heyskapurinn gekk vel norðan lands og austan framan af sumrinu. Náðu menn upp jafnóðum fyrri slætti af túnum og nokkru af útengi víðast hvar. En síðastliðinn hálfan mánuð má heita, að samfelldar úrkomur hafi verið norðan lands og austan. Eru hey þar því farin að hrekjast mikið. Sumir bændur á þessum slóðum eiga mikil hey úti, aðallega á útengjum og há. Þegar allt kemur til alls er óhætt, að segja,
að sumarið, sem nú er að líða, hafi orðið gott heyskaparsumar, þótt heldur illa horfðist á með grassprettuna framan af sumrinu.
Í byrjun október gerði mikla úrkomu víða um land. Hún olli skriðuföllum í Skagafirði: Tíminn segir frá 3.október:
Í fyrrinótt féllu skriður yfir þjóðveginn á löngum kafla milli Silfrastaða og Ytri-kota í Skagafirði. Var öll bílaumferð stöðvuð þarna í gær og komust bílar ekki frá Akureyri suður, eða norður til Akureyrar að sunnan. Unnið var af kappi í allan gærdag með tveimur jarðýtum að ryðja af veginum og búist við að því verki lyki um miðnætti í nótt.
Í fyrradag rigndi óvenjumikið norðanlands og stóð rigningin að heita má stanslaust þar til í gærmorgun að upp stytti. Orsakir skriðufallanna eru því vatnavextir í fjallshlíðinni fyrir ofan þjóðveginn, og reif vatnselgurinn með sér skriðurnar. Bóndinn á Silfrastöðum tjáði tíðindamanni Tímans að mest hefði rignt þar á tímabilinu frá því klukkan fimm í fyrradag og fram yfir miðnætti. Skriðurnar hafa aðallega fallið um og eftir miðnættið, nokkuð um svipað leyti. Fjárbíll festist þegar skriða féll á hann ... þar sem hann ók eftir veginum. Varð það til happs að sú skriða var þunn og féll hægt svo bíllinn gat rifið sig lausan út úr aurleðjunni áður en aðalskriðan kom á veginn. Skriðurnar féllu á veginn á um 3 km löngum kafla. Ein skriðan féll yfir túnið á Silfrastöðum og önnur rétt utan við það. Lá við að bærinn yrði þarna fyrir skemmdum, því ein kvísl skriðunnar féll heim að bænum og staðnæmdist fyrir framan bæjardyrnar svo varla var hægt að ganga þar út og inn um bæinn í gær fyrir aur úr skriðunum. Símalínurnar á þessu svæði skemmdust mjög mikið.
Í lok október gerði mikið landsynningsillviðri á Suðvestur- og Vesturlandi. Segir nánar af því í sérstökum pistli hungurdiska og má lesa um það þar.
Tíminn 10.nóvember:
Afspyrnurok gerði víða vestanlands og norðan í fyrrinótt og urðu sums staðar skemmdir af völdum þess. Mestar munu þær hafa orðið á Siglufirði, en þar fuku járnplötur af húsum og þök skemmdust. Gamalt timburhús fauk líka um koll, en stórvægilegt getur tjónið þó ekki talist. [Í þessu veðri fréttist einnig að fiskhús hefðu fokið af grunnum í Gunnólfsvík].
Tíminn 12.nóvember:
Um síðustu helgi, eða öllu heldur á mánudaginn [8.], gerði afspyrnuveður úti fyrir Norðurlandi og komust bátar, sem voru á sjó, með naumindum til lands. Einn bátur frá Dalvík lenti í miklum hrakningum í veðrinu og komst ekki til hafnar fyrr en á þriðjudag. Var um tíma óttast um afdrif bátsins.
Tíminn 17.nóvember:
Síðastliðið þriðjudagskvöld [líklega 9. nóvember] gerði illviðri mikið austur á Jökuldal. Skall norðan stormur á þá um kvöldið og fylgdi honum úrhellisrigning. Undir morguninn breyttist veðrið og gerði hörkuhríð. Stóð veður þetta allt til hádegis á miðvikudag, án þess að nokkurt lát væri á, en þá stytti skyndilega upp og gerði sæmilegasta veður. Tíðindamaður Tímans átti í gær símtal við frú Önnu Einarsdóttur húsfreyju að Fossvöllum í Jökulsárhlíð og spurði hana frétta af veðrinu. Innarlega í Jökuldal varð fannfergið mest. Fennti fé á nokkrum bæjum í dalnum, og svo nokkrum tugum nam á þeim bæjum, þar sem flests er saknað. Vitað er um að margt fé hefir fennt frá Giljum, Hofteigi og Hjarðarhaga. Hefir margt fé fundist dautt undan fönninni. Ekki er vitað um mikið tjón að öðru.leyti af völdum þessa fárviðris, en þó munu nokkrar skemmdir hafa orðið á símalínum.
Tíminn 24.nóvember:
Vélbáturinn Armbjörn úr Reykjavík slitnaði upp á Grundarfirði í afspyrnuroki í gærkveldi og rak út fjörðinn, þar sem hann tók niðri á skeri. Vélbáturinn Runólfur frá Grundarfirði fór á strandstaðinn, en Arinbjörn komst aftur á flot með aðfallinu.
Tíminn 26.nóvember:
Asahláka hefir verið víða norðan lands síðustu daga og er jörð alauð í byggð og víða langt upp til fjalla. Sunnanlands hefir einnig verið hlýtt síðustu dægur og víða rignt talsvert. Þar er alautt.
Tíminn 27.nóvember:
Fréttabréf úr Öxarfirði: Sumarið er liðið og veturinn genginn i garð. Þetta síðasta misseri hefir tíðarfarið verið næsta mislynt, þótt stórillt hafi það ekki mátt kallast. Vorið var eitt hið kaldasta og gróðurlausasta sem elstu menn muna og héldust kuldarnir óslitið allan júnímánuð. Um það leyti byrjar sláttur venjulega. En að þessu sinni var hér þá hvergi sláandi gras. Með júlí brá loks til nokkurra hlýinda og tók þá gras að spretta, svo að ýmsir gátu farið að slá nýrækt um miðjan mánuðinn. En yfirleitt byrjaði sláttur ekki fyrir alvöru fyrr en dagana 23. og 24. júlí. En ekkert hirtist þó af heyjum í þeim mánuði sökum votviðra. Með ágústbyrjun gekk í þurrka og héldust þeir allan mánuðinn. Var þá hin ágætasta heyskapartíð. Luku þá allir fyrri slætti að fullu og sumir voru byrjaðir á háarheyskap. En þessi góða heyskapartíð varð heldur endaslepp. Með 1. september gekk í hina verstu ótíð og má segja, að hún hafi haldist óslitið síðan. Síðast í september komu þrír góðviðrisdagar og aðrir þrír dagar fyrir miðjan október. Þá voru menn við fjárrekstra eða í göngum, svo að þessir dagar notuðust illa til heyþurrkunar, en talsvert var þó hirt, en óvíða að fullu. Eiga sumir talsvert af há ennþá úti, sem kemur þó áð nokkrum notum, þar sem heyið er í sátum. Heyfengur mun yfirleitt hafa orðið í meðallagi og sumstaðar betri, þar sem tún voru að spretta fram undir ágústlok, má telja víst, að heyin séu mjög góð, nema það sem lenti i hausthrakningi.
Um mánaðamótin nóvember/desember gerði mikið illviðri á Vestfjörðum. Skemmdir urðu allvíða, mestar í Súðavík. Bátar löskuðust í höfninni og brim eyðilagði hluta af aðalgötu þorpsins. Þekktast er veðrið hins vegar fyrir strand togarans Sargon við Hafnarmúla í Patreksfirði. Var björgunin kvikmynduð og notuð inn í myndina frægu um björgunarafrekið við Látrabjarg, en það átti sér stað ári áður. Fjölmargir fórust í Sargonstrandinu (sjá hér að neðan).
Kortið sýnir stöðuna um hádegi fimmtudaginn 2. desember. Þá er versta veður á Vestfjörðum, frost og hríð - þrýstilínur mjög þéttar, Annars staðar á landinu var veður mun skaplegra, t.d. 8 stiga hiti í Reykjavík. Gríðarmikil úrkoma féll á undan skilunum á leið þeirra norður á landið. Það var ekki aðeins Sargon sem strandaði. [Veður í Þórshöfn í Færeyjum er ritað á lengst til hægri á kortinu]. Tíminn segir frá í frétt þann 3. desember:
Í fyrrakvöld strönduðu tveir togarar á Vestfjörðum með stuttu millibili, annar íslenskur, Júní frá Hafnarfirði, hinn enskur, Sargon frá Grimsby. Var aftaka veður vestra og raunar ófært, bæði á sjó og landi. Þrátt fyrir veðurofsann var skjótt brugðið við um björgun, og tókst að bjarga allri áhöfninni á Júní, og sex mönnum af seytján, sem voru á enska togaranum. Tíu Englendinganna dóu úr kulda. Í fyrradag var aftakaveður um mestan hluta landsins.Vestan lands og á Vestfjörðum var veðrið þó einna mest, hvassviðri og hríð. Klukkan 18.30 sendi togarinn Júní frá Hafnarfirði út neyðarskeyti, og var tilkynnt, að skipið væri strandað við Sauðanes á Vestfjörðum. Var skipið á leið inn á Önundarfjörð undan veðrinu. Meðan menn voru með allan hugann við björgun skipverja af Júní, barst neyðarkall frá öðrum togara, er strandaður var undir Hafnarmúla við Örlygshöfn, sunnanvert við Patreksfjörð. Heyrðu skipverjar á togurunum, sem komnir voru á strandstaðinn við Sauðanes, neyðarkallið kl. 21.20 í fyrrakvöld. Kom í ljós, að breski togarinn var Sargon frá Grimsby. Var sá togari hér í höfninni fyrir fjórum dögum, og var því nýfarinn á veiðar, er hann strandaði. Er þetta lítill togari, varla minna en þrjátíu ára gamall. Þegar skipverjar sendu út neyðarkallið, sögðust þeir vera strandaðir einhversstaðar við Patreksfjörð, og að skipið væri að sökkva. Síðan heyrðist aldrei neitt frá skipinu, en blysum var varpað frá því skömmu fyrir miðnætti og síðan klukkan fimm i gærmorgun. Þrátt fyrir erfiða aðstöðu tókst björgunarsveitinni frá Örlygshöfn hins vegar að koma línu um borð i skipið og gat hún bjargað sex mönnum á björgunarstól í land. Gerðist þetta um hádegisbilið. Var þá enginn maður eftir lifandi á skipsflakinu. Höfðu tíu skipverja dáið úr kulda, en einn tók út um svipað leyti og skipið strandaði og drukknaði hann. Mennirnir, sem bjargað var, voru aðframkomnir af kulda og vosbúð, er þeir komu á land, og gátu ekki svo mikið sem skrifað nöfn sín. Voru þeir fluttir á bæi í Örlygshöfn eða þar í grennd og hjúkrað eftir föngum.
Miklar skemmdir urðu á símalínum í ofviðrinu í fyrradag. Mestar eru skemmdirnar á Vestfjörðum, og var með öllu símasambandslaust við Vestfirði í gær, og einnig var sambandslaust við Hólmavík og Stykkishólm. Þá er ennfremur símasambandslaust við Austfirði, vegna bilana á línum þar.
Enn segir Tíminn frá þann 4.desember:
Ekki hafa borist neinar nánari fregnir af björgunarstarfinu við breska togarann, sem strandaði við Hafnarmúla á miðvikudaginn. Símasambandslaust er enn við alla Vestfirði, en hægt er að ná loftskeytasambandi við skip, sem eru á fjörðunum, en meginhluti togaraflotans, sem er á veiðum, lá þar inni á fjörðum í gær. Henry Hálfdánarson, skrifstofustjóri Slysavarnafélagsins, tjáði tíðindamanni blaðsins í gær, að ekki væri enn vitað, hverjir tóku þátt í hinu erfiða björgunarstarfi við Hafnarmúla, eða hvernig skipbrotsmönnunum, sem af komust, líður. Hafði Henry samband við skipstjórann á togaranum Verði í gegnum loftskeytatæki. Sagði hann, að veðrinu væri fyrst farið að slota um miðjan dag í gær, og var þá ætlunin að senda bát frá Vatneyri í morgun yfir fjörðinn, til að fá fregnir, sem síðan væri hægt að senda með loftskeytum til Reykjavikur. Ætla Patreksfirðingarnir að senda línu í land frá bát sínum og fá boð frá landi í flösku. Líðan skipbrotsmannanna af Júní er góð og bíða þeir á Flateyri eftir að veður batni, svo að hægt sé að flytja þá suður.
Illviðrasyrpan hélt síðan áfram. Tíminn segir frá 7. desember:
Aðfararnótt laugardagsins [4.desember] urðu allmiklar skemmdir á hafnarmannvirkjum Kaupfélagsins í Vopnafirði. Var í haust steyptur 50 metra langur garður, sem síðar á að fylla að og mynda þannig athafnasvæði. Var ekki búið að fylla að nema litlum hlut af garðinum. Aftaka brim gerði um nóttina og hrundi nokkur hluti garðsins. Er talið að tjónið nema nokkrum þúsundum króna.
Tíminn ræðir símabilanir og viðgerðir í pistli þann 11. desember:
Fullkomið símasamband komst á kl.15 þann 9. desember við Ísafjörð. Hafði landssímalínan slitnað niður í ofviðrinu 1. desember á 15 km svæði í Ögurhreppi og á 400 m. svæði í Reykjarfjarðarhreppi við Ísafjarðardjúp. Þá slitnaði línan einnig á svæði á Steingrímsfjarðarheiði og auk þess voru nokkur slit milli Hólmavíkur og Borðeyrar. Búist er við að símasamband komist á við Stykkishólm og aðrar símstöðvar á Snæfellsnesi nú í kvöld. Landssímalínan lagðist á hliðina á 12 km. svæði á Mýrum vegna óvenjumikillar ísingar sem gerði 1. desember og auk þess slitnaði á mörgum stöðum frá Arnarstapa á Mýrum að Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi.
Næsta illviðri olli einnig hörmulegum slysförum, í þetta sinn snjóflóði í Goðdal í Bjarnarfirði þann 12. Víðáttumikil lægð dýpkaði vestur af Bretlandseyjum og þokaðist nær. Vindur óx mjög af norðaustri og gerði illskuveður.
Kortið sýnir veðrið síðdegis þann 12. Norðaustanillviðri geisar um land allt, mikil hríð fyrir norðan, veðurathugunarmaður á Hamaendum í Dölum (Guðmundur Baldvinsson) segir af 11 vindstigum og 5 til 50 metra skyggni þennan dag. Á Suðurlandi var þurrt að mestu þann 12., en snjóaði nokkuð þann 13. og 14., þrátt fyrir norðanáttina. Á kortinu má sjá 8 stiga frost í Bolungarvík, en 5 stiga hita í Loftsölum í Mýrdal. Fréttaflutningur var nokkuð stopull. Við lítum fyrst á frétt Morgunblaðsins þriðjudaginn 14.:
Um helgina hefur verið aftaka veður um allt land einkum á Suðvesturlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Var ofsarek á norðaustan sunnudag. en í gær lægði rokið heldur og tók að hlaða niður snjó. Símasamband hefur slitnað víða, einkum til Vestfjarða. Fjallvegir eru orðnir ófærir á öllum vesturhluta landsins.
Tíminn segir frá sama dag, 14.desember:
Norðanveðrið, sem skall á síðastliðna sunnudagsnótt var mjög hart víða um land, en einna hvassast var suðvestanlands og vestan. Miklar símabilanir urðu víða um land. ... Fjölsímasamband við Ísafjörð féll niður á laugardaginn vegna samsláttar á línum milli Hvítaness og Ögurs við Ísafjarðardjúp. Milli Borðeyrar og Hólmavíkur er sambandslaust. Þrefalda fjölsímasambandið við Akureyri er rofið vegna slita milli Dalsmynnis og Búðardals, en einfalt talsímasamband er með fjölsíma til Akureyrar, og þaðan er aftur samband til Siglufjarðar. Sambandslaust er við Stykkishólm vegna slita vestan við Brúarfoss. Línan milli Króksfjarðarness og Stórholts er biluð. Á Suðurlandi er símasamband austur að Núpsstað, en línan milli Núpsstaðar og Fagurhólsmýrar er biluð. Viðgerðir á símalinum hafa tafist fram að þessu vegna óveðurs, sem enn er viða um land.
Flestir fjallvegir landsins eru nú ófærir bifreiðum sökum snjóa. Áætlunarbifreiðarnar, sem lögðu af stað frá Akureyri áleiðis suður á laugardagsmorgun, komust ekki nema til Blönduóss, og eru þær þar tepptar. Bifreiðar, sem lögðu á Holtavörðuheiði, urðu þar fastar, og hélst allmargt fólk við í sæluhúsinu á heiðinni eða í bifreiðunum, þar til í gærmorgun, að snjóýta var send að sækja fólkið. Kom það að Fornahvammi í Norðurárdal fyrir hádegi í gær. Allir munu þó hafa verið sæmilega haldnir, eftir þessa útilegu á Holtavörðuheiði.
Tíminn heldur áfram daginn eftir, 15.desember:
Í gær lokuðust leiðir víðast hvar um landið vegna snjóa. Allir fjallvegir norðanlands og sunnan eru með öllu ófærir bifreiðum og mikill snjór á láglendi víðast hvar og ófært bifreiðum. Þó var sæmilega fært um Borgarfjörð i gær, samkvæmt upplýsingum, sem blaðið fékk frá Ásgeiri Ásgeirssyni skrifstofustjóra Vegamálaskrifstofunnar. Í nágrenni Reykjavíkur var orðin þung færð í gærkvöldi, en þó bílfært um Mosfellssveit og Kjalarnes. Leiðin fyrir Hvalfjörð var hins vegar orðin ófær í gærdag og urðu mjólkurbílar frá Borgarnesi, sem voru á leið suður, fastir í snjó skammt frá Þyrli. Til Norðurlands er nú orðið ófært með öllu og einnig er ófært um byggðir þar víðast hvar.
Tíminn notar tækifærið þann 16.desember til að hnýta í íhaldið.
Það er Krýsuvíkurveginum að þakka, að næg mjólk berst væntanlega til bæjarins í dag, versni veður ekki aftur. Var sú leið eingöngu farin í gær, bæði af flutningabifreiðum og fólksbifreiðum, sem bæði fóru austur og komu að austan. Allar aðrar leiðir eru nú með öllu ófærar bifreiðum, en Krýsuvíkurvegurinn hins vegar greiðfær. Var í gær unnið að því að ryðja snjó af veginum í Ölfusinu og viðar í lágsveitum austan fjalls, en sjálfur Krýsuvíkurvegurinn var nær snjólaus, nema við Kleifarvatn, þar sem moka þurfti á stuttum kafla. Má því segja, að í þessari fyrstu ófærð vetrarins rætist vel úr með flutninga að höfuðborginni, þrátt fyrir fjandskap bæjarstjórnarmeirihluta íhaldsins við Krýsuvíkurveginn, sem nú er lítið ánægður yfir því, að reykvísk börn fá mjólk eftir hinni nýju vetrarbraut, sem gerð var í óþökk bæjaryfirvaldanna.
Það var fyrst sunnudaginn 19. desember sem ritað var um snjóflóðið í Goðdal. Tíminn segir þá frá:
Átakanlegt slys varð að Goðdal í Bjarnarfirði á Ströndum síðastliðinn sunnudag [12. desember]. Mikil snjóskriða féll úr Hólsfjalli og lenti á bænum, en ekki vitnaðist um slysið fyrr en á fimmtudag [16.]. Var þá þegar grafið í rústirnar. Fjórir af heimilisfólkinu voru þá látnir, tveir með lífsmarki, en dóu eftir skamma stund, en aðeins einn maður, Jóhann Kristmundsson bóndi í Goðdal, heldur lífi, meiddur og kalinn.
Miklum snjó hlóð niður á Ströndum um síðustu helgi, eins og víðar um norðurhluta landsins. Höfðu miklar hengjur myndast í Hólsfjalli og víðar, og féllu snjóskriður, sem rufu símalínur, svo að ekki var samband milli bæja. Snjóflóðið, sem féll á bæinn í Goðdal, var 130 metra breitt. Steyptist það yfir snemma á sjöunda tímanum á sunnudagskvöld. Hafði klukka, sem grafin var upp úr rústunum, stöðvast fimmtán mínútur yfir sex. Húsið í Goðdal var að mestu leyti úr steini, en eigi að síður reif snjóskriðan það af grunni og bar það með sér langt niður á túnið. Stöðvaðist það þar norðarlega í röstinni, og voru veggir þess í méli og rústirnar fullar snjó.
Bærinn Goðdalur er innarlega í samhefndum dal, sem gengur inn af Bjarnarfjarðarbyggðinni, milli Hólsfjalls að austan og Tungukotsfjalls að vestan. Er þangað um hálfs annars tíma röskur gangur frá næsta bæ, Skarði í Bjarnarfirði. Enginn átti leið fram að Goðdal næstu daga eftir að slysið varð, og vissi enginn hvað gerst hafði, svo að hjálp barst ekki fyrr en á fimmtudag, fjórum sólarhringum eftir að snjóflóðið féll á bæinn. Þá fór Halldór Ólafsson á Bakka í Bjarnarfirði þangað með póst. Kom hann að rústunum um hádegisbilið.
Kortið sýnir stöðu 500 hPa-flatarins þann 12. desember. Suðlæg átt er í lofti og ber hún hlýtt og rakt loft frá Bretlandseyjum yfir landið. Neðar geisaði illvíg norðaustanátt undir áhrifum mikillar hæðar yfir Grænlandi.
Þann 15. desember fórst breskur togari með allri áhöfn undan Aðalvík á Hornströndum.
Enn gerði mikið illviðri þann 17. Í það sinn með þíðu. Morgunblaðið segir af því þann 18.desember:
Mikið sunnanrok gekk hér yfir í gærdag og í gærkveldi. Um tíma mældist vindhraðinn allt að 90 mílur, en 12 vindstig eru 75 mílna vindhraði og allt það, sem fer þar yfir. Ekki hafði frést um neinar skemmdir hér í bænum eða nágrenni hans í gærkveldi, utan hvað nokkur lendingarljós á flugbrautum flugvallarins biluðu á þann hátt að perur skemmdust. Verður ekki hægt að gera við það fyrr en veður lægir. Þrátt fyrir veðurofsann voru nokkrar flugferðir hér um. Fjórar flugvélar voru á leið til landsins, en þrjár frá landinu. Lentu þessar vélar og hófu sig til flugs á Keflavíkurflugvelli.
Tíminn segir þann 21.desember af skemmdum í veðri þann 18. desember:
Síðastliðinn laugardag [18.] urðu allmiklar skemmdir af völdum hvassviðris í Bárðardal og Ljósavatnshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Hey fuku, þök tók af húsum og hlöðum o.fl. Á Litluvöllum í Bárðardal fauk hlaða með öllu. Fauk hún á fjárhús og skemmdi það allmjög. Á Stóruvöllum fauk einnig þak af hlöðu og eitthvað af heyi og fleiri skemmdir urðu.
Í veðrinu urðu einnig skemmdir í Svarfaðardal. Þar fuku þök af íbúðarhúsum og útihúsum, en ekki tilgreint hvar.
Tíminn segir þann 22.desember frá hríðarveðri á Suðurlandi - ekki er alveg ljóst hvaða daga átt er við, sennilega kringum þann 13. [12. til 14.].
Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Efrabrú í Grímsnes. leit inn í skrifstofu Tímans í gær nýkominn að austan og spurði tíðindamaður hann frétta. Stórhríð var á þar eystra nær samfellt í þrjá daga um fyrri helgi og kom mikill snjór. Fé fennti á nokkrum bæjum og enn vantar fé víða, sem menn óttast að fennt ha£i. Bílfært er nú orðið aftur um allar sveitir þar eystra.
Þokkalegt veður var síðustu dagana fyrir jól og á aðfangadag jóla, en síðan hrökk hann aftur í heldur grófgerða umhleypinga sem héldu áfram - og enduðu með hinu illræmda vori 1949.
Þann 31. desember birti Tíminn slysayfirlit - heldur ískyggilegt finnst okkur (stytt hér):
Minna af slysförum á þessu ári en oft áður. Að minnsta kosti 58 íslendingar fórust af slysförum á sjó og landi á árinu, sem nú er að líða. Í fyrra var talið, að 82 íslendingar hefðu farist af slysförum. Hefir verið mun minna um slysfarir að þessu sinni en oft áður. Til dæmis drukknaði nú enginn maður af skipum, sem strönduðu eða fórust. [Þess er svo getið síðar í fréttinni að 25 breskir togarasjómenn hafi farist við landið - vantar þar ábyggilega togarann sem fórst undan Aðalvík um miðjan desember]. Af þessum 58 mönnum, sem fórust, biðu nítján bana á sjó eða í skipum, tíu fórust af völdum umferðarslysa, 23 fórust á annan hátt á landi og sex fórust við flugslys. Af þeim, sem á landi fórust lentu sex i snjóflóði, einn varð úti, tveir drukknuðu í ám og vötnum, tveir hröpuðu í klettum, þrír biðu bana við byggingavinnu, einn varð undir dráttarvél, einn féll af hestbaki, einn féll í stiga, einn fórst af eldi í lýsisgeymi, einn fórst í hver, tveir dóu af völdum rafstraums og einn fannst örendur á götu eftir að hafa fengið flog. Tveir þeirra sex, sem fórust í flugslysum, biðu bana í svifflugvél, en fjórir í farþegaflugvél.
Lýkur hér umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1948. Alls konar tölulegar upplýsingar eru í viðhenginu, þar má t.d. sjá að í janúar virðist hafa verið þrálátasta austanátt aldarinnar og þrálátasta sunnanáttin í mars. Ritstjóri hungurdiska hefur leyft sér að færa stafsetningu að mestu til nútímahorfs. Sparar það mikinn tíma við yfirlestur texta sem sleiktur er af timarit.is. Fréttir úr dagblaðinu Tímanum eru áberandi hér að ofan. Meginástæða þess er bæði ítarlegur veðurfréttaflutningur blaðsins, en ekki síður að prentun þess var betri en margra annarra blaða þetta árið - og því minna af villum í tölvulestrinum en þegar unnið var með texta annarra blaða. Þökkum öllum textahöfundum þeirra framlag.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:52 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.