22.5.2022 | 21:13
Hugsað til ársins 1927
Hlýindaskeiðið mikla var nýhafið, en menn höfðu enga hugmynd um það. Allt gat gerst, viðsnúningur til 19. aldarveðurlags mögulegur. Jón Þorláksson fyrrverandi forsætisráðherra lofaði tíðarfar ársins 1927 í áramótapistli í Morgunblaðinu 31.desember:
Árið 1927 hefir verið af náttúrunnar hálfu eitthvert hið allra besta, sem núlifandi menn muna. Hagstæð veðrátta, góður grasvöxtur, nýting á heyjum í besta lagi og fiskafli óvenjulega góður. Veðurblíðan hefir verið jafnari um landið, en menn eiga að venjast, en þó auðvitað ekki alveg jöfn. Er talið að Austfirðir hafi helst farið nokkuð varhluta af sumarblíðu og aflabrögðum.
Eins og Jón lýsir var yfirleitt hagstæð tíð á árinu 1927. Það var hlýtt ár, miðað við það sem á undan var gengið, en þætti ekki hlýtt nú. Meðalhiti í Reykjavík var 4,8 stig. Janúar var talinn frekar erfiður, en var þó ekki snjóþungur. Febrúar var umhleypingasamur framan af, en síðasti þriðjungurinn góður. Hlýtt var í veðri - og sömuleiðis í mars sem var bæði hægviðrasamur og snjóléttur. Apríl byrjaði vel, en um miðjan mánuð hljóp í hret sem stóðu fram í fyrstu daga maímánaðar. Þá gekk til góðrar tíðar, en fullþurrt þótti svo hamlaði sprettu. Í júní var nokkuð góð tíð, einkum síðari hlutann. Júlí var hagstæður og hlýr og þurrkar góðir, sérlega hlýtt var inn til landsins á Norðausturlandi. Ágúst var líka talinn hagstæður, en þurrkar voru þó daufir norðaustanlands. September var hagstæður og mjög þurr syðra og vestanlands, en óhagstæður nyrðra eftir miðjan mánuð. Október var umhleypingasamur og tíð norðaustanlands óhagstæð. Veðurlag var óstöðugt í nóvember, þá var mjög úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi, en annars var tíð talin hagstæð. Desember var hagstæður, sérstaklega fyrir norðan þar sem var mjög þurrt. Úrkomusamt var sunnanlands.
Ekki var mikið um eftirminnileg stórviðri á árinu. Þann 24. janúar olli óvenjudjúp lægð fyrir suðvestan og sunnan land miklu austanveðri á landinu. Í júlí var um tíma óvenjuhlýtt norðaustanlands, spurning hvort á að trúa því. Meðalhámarkshiti á Grímsstöðum á Fjöllum reiknast 21,8 stig og 19,7 stig á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði. Þetta hafa ætíð þótt ótrúverðugar tölur, en segja okkur samt að í þessum mánuði var fjöldi mjög hlýrra daga mjög óvenjulegur á þessum slóðum. Þann 22. júlí var hámarkshiti á Þorvaldsstöðum talinn 30,3 stig - ekki viðurkennd tala. [Um þessa og fleiri háar tölur - margar grunsamlegar - er fjallað í gömlum hungurdiskapistli]. Hæsti hiti á Grímsstöðum í þessum mánuði var 26,0 stig og 20 daga í röð mældist hámarkshiti 20 stig eða meiri. Í hinum ofurhlýja júlí 2021 var meðalhámarkshiti á Grímsstöðum 19,9 stig, þá var mánaðarmeðalhitinn 14,2 stig, en ekki nema 11,9 í júlí 1927. - En auðvitað eigum við þessar tölur áfram á lager handa síðari kynslóðum að fást við.
Í ágúst fóru leifar fellibyls hjá landinu austanverðu á miklum hraða. Þá mældist þrýstingur lægri á landinu en vitað er um fyrr og síðar í ágúst. Fyrir miðjan september voru þurrkar og vatnsskortur farnir að valda áhyggjum sumstaðar á Suður- og Vesturlandi, verður að teljast fremur óvenjulegt á þeim tíma árs - úr því rættist þó. September 1927 er sá næstþurrasti í meir en 160 ára sögu úrkomumælinga í Stykkishólmi. Desember var sérlega þurr norðaustanlands, sá þurrasti sem við vitum um á Akureyri og á Húsavík. Úrkomumælingar á þessum stöðum teljast þó ekki sérlega áreiðanlegar á þessum árum, sérstaklega í mánuðum þegar úrkoma var mjög lítil.
Hér að neðan er farið í gegnum helstu veðurtíðindi ársins með aðstoð dagblaða, tímaritsins Veðráttunnar og athugana Veðurstofunnar. Á þessum árum var starfrækt fréttastofa, kennd við Blaðamannafélagið. Flest blöð birtu fréttir þessarar stofu með sama orðalagi. Birting fréttanna í blöðunum virðist þó hafa verið nokkuð tilviljanakennd. Vaknar ákveðin forvitni um þessa starfsemi þessarar stofu og hvort fréttir hennar hafi varðveist í frumeintökum. Einkaútvarpsstöð starfaði í Reykjavík með nokkuð fjölbreyttri dagskrá (hún var auglýst í blöðum). Þar voru lesnar veðurfréttir en annars var ekki auðvelt að koma veðurspám á framfæri nema um símstöðvar.
Við berum (nokkuð tilviljanakennt) niður í yfirlitstextum veðurathugunarmanna (styttum þá stundum):
Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Janúar: Yfir mánuðinn hefir hér verið mjög snjólétt, en fremur óstöðug tíð og vindasöm. Hagi oft ekki góður og notast illa.
Húsavík (Benedikt Jónsson): Janúar: Óstillt veðrátta, en ekki stórfelld. Úrkomur tíðar, en ekki miklar. Fremur snjólétt, en áfreðar, svo að jarðlaust varð 28. og 29. og varð hér algerð innistaða fyrir allar skepnur hér við sjávarsíðuna en löngu fyrr upp í hásveitunum.
Vík í Mýrdal (Haraldur Jónsson): Janúar: Slæm tíð í þessum mánuði. Í rokinu þ.24. varð tjón á húsum í Eyjafjallasveit, hlöður fuku í Steinum, á Þorvaldseyri og Núpakoti. Baðstofa í Hlíð.
Stórhöfði í Vestmannaeyjum (Gunnar Jónatansson): Janúar: Umhleypingasamt og stormasamt. Aðfaranótt 24. sló eldingu í rafmagnsþráð í bænum. 24. gerði aftakveður og urðu talsverðar símabilanir. Fórst bátur með 8 mönnum, slitnaði upp saltskip sem lá á höfninni og hraktist um höfnina en gerði samt engar skemmdir. Mér þætti gott ef Veðurstofan geti sett hér vindhraðamæli, þar sem er oft ágreiningur með veðurhæðir. Sumir telja of háa og aðrir of lága. Og eins langar mig að vita hvort eigi aldrei að hafa veðurhæð 12, því mér hefur verið sagt eftir Veðurstofunni að það ætti aldrei að hafa 12 því menn (væru ekki að mæla það).
Haraldur í Vík og Gunnar á Stórhöfða geta um mikið illviðri sem gerði þann 24.
Gríðarlega djúp lægð var þá fyrir suðvestan land. Þrýstingur fór niður í 941,3 hPa á Stórhöfða síðdegis þann 24. Við höfum á síðustu árum séð fáeina ættingja hennar. Veðurstofan gaf út viðvörun, en erfitt var að koma henni til skila. Tjón varð ekki stórfellt, en við lítum á nokkrar blaðafréttir - þar sem m.a. er fjallað um erfiðleika á dreifingu viðvarana.
Morgunblaðið 25.janúar (nokkuð stytt):
Í fyrrakvöld [23.] sá Veðurstofan það af veðurskeytunum, að ofsaveður væri í nánd hér á Suðurlandi af norðaustri. Hafði veður þetta náð til Hornafjarðar í fyrrakvöld (eða lengra) og var þá veðurhæðin þar 11, en mesta veðurhæð sem mæld er er 12. Klukkan 7 í fyrrakvöld sendi svo Veðurstofan út aðvörunarskeyti til verstöðvanna hér syðra, en annað hvort hafa skeyti þau ekki náð formönnum fiskibátanna, eða þá að menn hafa eigi tekið mark á þeim, því að í flestum veiðistöðvum munu bátar hafa róið. Um hádegi í gær [24.] brast veðrið á hér og mátti um tíma kalla, að vart væri stætt á götum bæjarins. Lygndi þó aftur um tíma, en undir kvöldið hvessti aftur. Víða mun þó hafa verið verra veður en hér. Svo var rokið mikið í Mosfellssveit að snjó og hjarn reif þar svo upp að renningurinn stíflaði alveg aðrennsli Elliðaánna og varð ljóslaust og rafmagnslaust hér í bænum um tíma.
Frá Keflavík. Héðan reru 8 bátar í morgun [24.]. Var þá veður sæmilegt, en svo tók að hvessa. Brast svo á ofviðri og hefir versnað allt fram að þessu. Af þessum 8 bátum hafa 2 náð höfn í Sandgerði, 1 komst hingað svo snemma, að skipshöfnin komst í land, en 3 liggja hér út á höfn og komast mennirnir alls eigi í land fyrir ofviðri, enda stendur beint upp á höfnina. Er sjórokið svo mikið að mannlausir bátar eru borðstokkafullir á höfninni. Tveir af þessum bátum sem liggja hér á höfninni með fullri áhöfn hafa misst smábáta sína; sjórokið gengur alltaf yfir þá og hljóta mennirnir að eiga illa æfi um borð. ... Bifreiðir voru sendar héðan í gærmorgun upp að Lögbergi til þess að sækja þangað vermenn er komnir voru austan yfir heiði. En er þær komu aftur niður að Baldurshaga var veðrið orðið svo mikið að lífsháski var að aka í bifreiðum. Gengu þá mennirnir af þeim. Sumir þeirra fóru gangandi til bæjarins, en aðrir settust að á Baldurshaga og treystust ekki til að halda áfram til Reykjavíkur nema veðrinu slotaði eitthvað. Milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur gátu bifreiðir ekki farið eftir hádegi í gær.
Morgunblaðið 26. janúar:
Eins og kunnugt er sendir Veðurstofan veðurskeyti til flestra verstöðva hér nærlendis, síðari hluta dagsins kl.7 að kvöldi. Hún gerði það og á sunnudagskvöldið var og taldi austanrok í aðsigi. En þess er að gæta að símstöðvum í sumum þessara verstöðva er lokað kl.6 á kvöldin og fá sjómenn því enga vitneskju um veðurspána. Er hún þeim gagnslaus þegar svo stendur á. Þetta þarf nauðsynlega að lagfæra. ... Í ofviðrinu í fyrradag brotnuðu tveir símastaurar í Öskjuhlíðinni. En þó var samband við Hafnarfjörð eftir sem áður. Þak rauf af öðru þvottalaugarhúsinu í ofviðrinu í fyrra dag svo ekki var tætla eftir. Var mesta mildi að það lenti ekki á íbúðarskúr sem þar stendur mjög nærri.
Morgunblaðið 30. janúar:
Í Mýrdal urðu engar verulegar skemmdir í veðrinu [þann 24.], aðeins smávægilegar. Öðru máli gegnir um Eyjafjallasveit, enda er hún vön að fá að kenna á veðrum sem þeim, er kom þann 24. Sagði presturinn í Holti blaðinu að þetta veður hafi verið eitt mesta fárviðri sem menn muna eftir að hafi komið þar. Það olli líka tilfinnanlegu tjóni þar í sveitinni. Skulu nefnd þau helstu: Í Steinum (Hvoltungu) fauk hlaða með áföstum skúr. Lítil skemmd varð þó á heyjum. Í Hlíð fauk þak af hlöðu og sjálfsagt 20 hestar af heyi. Í Núpakoti rauf þak af fjósi. Í veðrinu losnaði stór steinn úr fjallinu fyrir ofan Núpakot og kom hann niður á hesthús er stóð neðan við fjallið. Lenti steinninn á mænir hesthússins, braut hann en sakaði ekki hesta er inni voru. Á Þorvaldseyri fuku 48 þakplötur af hlöðunni miklu sem ferðamenn er þar fara um veita eftirtekt. Einnig fuku 6-8 plötur af íbúðarhúsinu á Þorvaldseyri. Á Núpi fuku 20 þakplötur af íbúðarhúsinu. Svo mikið var veðrið á Núpi að fólkið flúði allt í kjallara hússins því það hélt að húsið myndi fjúka á hverju augnabliki. Sem dæmi upp á það hversu mikið fárviðri var þarna, má nefna að sláttuvél er stóð heima við bæinn á Núpi tók í loft upp í einni hrinunni og fauk hún 8 faðma og kom hvergi niður á leiðinni. Hest tók þar einnig í loft upp og fauk hann tvær lengdir sínar en kom standandi niður. Á símalínunni urðu li mitlar skemmdir, aðeins fjórir staurar brotnuðu.
Febrúar var órólegur vestan lands framan af, en fékk betri dóma nyrðra: Þann 7. varð mikið snjó- og vatnsflóð í Öræfum, tjón varð mest á Svínafelli og eyðilagði þar rafstöð.
Morgunblaðið segir frá þessu í pistli þann 4. mars - vitnar í samtal við Vík í Mýrdal:
Aðfaranótt 7. febrúar s.l. gerði svo mikið snjó- og vatnsflóð í innri hluta Öræfa, að menn þar muna ekki dæmi annars þvílíks nokkru sinni fyrr. Varð víða talsvert tjón af völdum flóðsins, en mest var tjónið í Svínafelli. Þar skall flóðið yfir túnið, og bar mikla skriðu á það. Ennfremur skall flóðið á rafmagnsstöðina, sem stóð í gili nokkuð fyrir ofan bæina. Sópaði flóðið öllum mannvirkjum rafmagnsveitunnar burtu, svo gersamlega, að engin verksummerki þeirra sáust eftir. ... Eigi urðu skemmdir á öðrum húsum í Öræfum af völdum flóðsins, og ekkert slys, hvorki á mönnum né skepnum.
Veðurathugunarmenn lýsa tíð í febrúar:
Hvanneyri (Þorgils Guðmundsson): Febrúar: Fram til þess 20. var veðráttan í þessum mánuði mjög slæm, svo ekki notaðist beit þrátt fyrir það að jörðin væri oftast nær alauð. Síðustu 8 daga mánaðarins var mjög fagurt veður, en þó allmikið frost um nætur.
Húsavík: Febrúar: Frá 1. til 4. stillt og svalt veður. Frá 5. til 20. þýður og rosaveður á víxl, oftast hvassviðri. Frá 21. til 28. stillur oftast logn og léttskýjað. Yfirhöfuð framúrskarandi blíð vetrarveðrátta. Mjög snjólétt við sjávarsíðu, en mjög mikill gaddur á fjöllum og í efri sveitum lítil snöp og rennihjarn.
Vísir segir 16. mars frá óvenjumikilli bólgu í Þjórsá mánuði áður:
Þjórsárbrú, 16. febr. FB. Tíðarfar er gott. Þíðviðri. Þjórsá hefir hlaupið upp hjá Sauðholti i Ásahreppi. Hefir áin flætt alveg kringum bæinn, er stendur mjög lágt, og hefir fólk ekki komist til sauðahúsa. Eru aðstæður bóndans afskaplega örðugar sem stendur. Hefir verið um það ráðgast að senda bát að Sauðholti, því ef flóðið eykst er fólkið í hættu statt og kæmist ekki í burtu. Aðeins einu sinni, svo menn muna, hefir áin flætt upp þarna svo mikið. Áin hefir ekki hagað sér eins og i vetur í manna minnum.
Mars fékk mjög góða dóma:
Lambavatn: Mars: Yfir mánuðinn hefir mátt heita gott vorveður, fremur en vetur. Alltaf mátti heita alautt og úrkomulítið. Kringum hús í í lautum er komin þó nokkur græn nál.
Húsavík: Mars: Framúrskarandi blíð veðrátta yfirleitt. Jörð að mestu alauð hér en allmikill snjór til sveita. Sást fyrst gróðurvottur 19., en í mánaðarlokin nokkur grænka á túnum og sjávarbökkum. Sjór nokkuð ókyrr og nokkur brim, þótt hér væri löngum logn eða hægvirðri.
Gæðaveðrið hélt áfram fram í apríl, en þá gerðist tíð erfiðari og í innsveitum norðaustanlands var marga daga samfellt hríðarveður síðustu vikuna. Þann fjórða gerði allmikið austanhvassviðri á Suðurlandi, togarar á Selvogsbanka fengu stór áföll auk fleiri skipa. Margir menn slösuðust. Fimm menn drukknuðu er bátur fórst í brimgarðinum við Eyrarbakka. Sérlega kalt var undir lok mánaðarins og þann 27. og 28. hlánaði ekki í Reykjavík.
Lambavatn: Apríl: Fyrri hluta mánaðarins var óvenju góð tíð, svo allur gróður var farinn að lifna. Þann 17. skipti um, gerði þá snjó og kulda. Snjóaði þá svo mikið að aldrei á vetrinum kom jafnmikill snjór. Og helst þessi snjógangur enn.
Húsavík: Apríl: Veðráttan miklu verri en í mars: Umhleypingar, kuldar og hret, en lítil snjókoma. Vorgróður sem kom í mars aldauða nú.
Möðrudalur (Jón A. Stefánsson): Apríl: Mánuðurinn yfirleitt kaldur, þó yfirtæki eftir 21. - 30. sífelldar hríðar.
Maí byrjaði mjög kuldalega, en eftir tæpa viku batnaði og síðan þótti tíð allgóð.
Kortið sýnir háloftastöðuna þann 1. maí. Þá er mjög kalt lægðardrag að fara til suðausturs yfir landið. Trúlega var dragið snarpara heldur en endurgreiningin sýnir. Töluvert snjóaði.
Hvanneyri: Maí: Nokkra fyrstu dagana fremur kalt, en eftir það góð og hagstæð veðrátta.
Lambavatn: Maí: Fyrstu viku mánaðarins var kalt en þurrt. En mánuðurinn hefir verið óvenju góður og einstök blíða og kyrrð til lands og sjávar.
Húsavík: Maí: Mánuðurinn allur fremur kaldur og sólarlítill að frádregnum nokkrum dögum. 1. til 10. miklir kuldanæðingar en ekki mikil úrkoma. Eftir það hlýrra en of þurrt til þess að gróðri færi vel fram. Jafnaðarlega næturfrost í hærri sveitum og heiðríkar nætur. Hærri fjöll alhvít. Ís á stöðuvötnum í mánaðarlokin.
Vík í Mýrdal: Maí: Fjúkhreytingur og kuldi fyrstu dagana fram á þ.4. Úr því er mánuðurinn hinn blíðasti bæði til lands og sjávar. [Alvítt var í Vík 2., 4. og 5. (2 cm) og 15 cm á Stórhöfða þ.1. og 5 cm , 2. til 5.
Júní var góður, en eitthvað var kvartað um sólarleysi norðaustanlands.
Lambavatn: Júní: Óminnanleg blíða til lands og sjávar og hagstæð tíð. 16. til 18. gerði norðan stórviðri sem skemmdi hér garða, einkum fræ. Grasvöxtur er orðinn víðast í góðu meðallagi.
Húsavík: Júní: Mánuðurinn var sólarlítill við sama hér. Veðurfarið var stillt. Sífelld barátta milli sunnan- og norðaustanáttar. Snöggar breytingar hita og kulda eftir snöggum áttaskiptum. Auðsæ áhrif frá ekki fjarlægum pólís. Gróður hægfara. Tún yfirleitt vel sprottin, en úthagagróður rýr. Eitt tún hér í sýslunni nú slegið og hirt.
Júlí var einnig góður - víðast hvar. Farið að kvarta um þurrk - Ólafur á Lambavatni á Rauðasandi kvartar þó um votviðri. Einnig er talað um síðdegisskúrir og þrumuveður.
Morgunblaðið segir 27. júlí frá þrumuveðri. Þennan sama dag voru einnig þrumur í Vestmannaeyjum og austur á Kirkjubæjarklaustri.
Þrumuveður, stórfellt, gekk yfir Rangárvallasýslu seinnipart mánudags síðastliðinn [25. júlí] að því er Matthías Þórðarson þjóðminjavörður sagði Morgunblaðinu í gærkvöldi. Hann var á Bergþórshvoli og kom þaðan í gær. Veðrið skall yfir kl.2 e.m. og hélst til kl.5. Rak hver þruman aðra og eldingar leiftruðu í sortanum, regnið stórfellt með afbrigðum og haglél með köflum. Eftir því sem séð varð frá Bergþórshvoli mun veðrið hafa skollið yfir Eyjafjallasveit, Landeyjar, Fljótshlíð, Rangárvelli, Landsveit og sennilega Hreppa. Uppi í Þórsmörk kom ekki dropi úr lofti.
Dagur segir af þrumuveðri í frétt 11. ágúst. Víðar var getið um þrumur þessa daga, t.d. á Hvanneyri og Þingvöllum:
Þrumur og eldingar gengu bæði í uppsveitum Skagafjarðar og Húnaþings fyrstu dagana í þ.m. Þeirra varð einnig vart eystra, í Mývatnssveit og alt austur á Fljótsdalshérað. Hér í Eyjafirði bar ekkert á þeim. Eru þær mjög sjaldgæfar hér norðanlands.
Veðurathugunarmenn lýsa júlímánuði:
Hvanneyri: Júlí: Ágætis veður oftast, og það miklir þurrkar að veðráttan má teljast hagstæð til heyskapar.
Lambavatn: Júlí: Það hefur verið votviðrasamt, en hlýtt nema frá 25. til 28. var norðan krapa blástur og kalt. Hér hefur verið lítið um þurrk nema fyrstu viku mánaðarins.
Suðureyri (Kr. A. Kristjánsson) Júlí: Kyrr - heitur, mjög hagstæður til lands og sjávar.
Fagridalur í Vopnafirði (Kristján N. Wiium) Júlí: Fádæma góð (tíð). Stillt, hlýtt og þurrt, heldur of þurrt fyrir garða- og grasvöxt, og vatnsskortur sums staðar t.d. í brunnum á Vopnafirði. Þoka og regn síðasta daginn.
Vík í Mýrdal: Júlí: Afbragðsgóð heyskapartíð. Grasvöxtur tæplega í meðallagi.
Morgunblaðið segir af tíð:
Morgunblaðið segir af tíð 30.júlí og snemma í ágúst:
Borgarnes 30. júlí. Tíðarfarið ágætt og eru menn nú sem óðast að binda inn töðuna sem hirt er jafnóðum, en stöku menn eru komnir á engjar. Á harðvellisengjum er illa sprottið vegna þurrkanna í vor.
Morgunblaðið 31. júlí:
Veðráttan í vikunni sem leið var yfirleitt hagstæð bæði til lands og sjávar. Vindur hefir alltaf verið norðlægur vestanlands en oftar austlægur á Norðurlandi. Sunnanlands hefir verið þurrkasamt en Norðanlands hefir rignt öðru hvoru einkum við sjávarsíðuna. Í Reykjavík hefir aldrei verið nein mælanleg úrkoma en á Þingvöllum hefir rignt 3,4 mm af fjallaskúrum. Á Hraunum í Fljótum hefir rignt 12 mm. og á Lækjamóti í Húnavatnssýslu 8 mm. Veðráttan hefir verið í kaldara lagi Norðanlands.
Morgunblaðið 7. ágúst:
Veðráttan í vikunni sem leið: Mjög kyrrt veður og fremur hlýtt. Mestan hluta vikunnar var óþurrkasamt á Norður- og Austurlandi, oftast þoka og dumbungsveður, en aldrei stórfeld rigning. A Suður- og Vesturlandi hefir verið skúrasamt mjög til fjalla, en oftar úrkomulaust við sjávarsíðuna. Á þriðjudaginn {2. ágúst] kom snörp þrumuskúr á Þingvöllum. Varð úrkoman 12.5 mm., regn og hagl, á lítilli stundu. Á föstudaginn glaðnaði til um alt land og hefir haldist allgóður þurrkur síðan, nema á Austurlandi. Þar þyngdi fljótt aftur í lofti. Úrkoma hér í bænum alls 1 mm, á Þingvöllum 22.
Ágúst var lengst af góður, en þó gerði athyglisvert illviðri undir lok mánaðar. Leifar fellibyls komu sunnan úr hafi og fór hann hratt til norðausturs nærri Suðausturlandi aðfaranótt og að morgni þess 27. Loftþrýstingur fór þá neðar en nokkru sinni hefur mælst í ágústmánuði hér á landi. Tjón varð ekki mikið, einna mest vegna brims á Siglufirði. Eldsumbrota er getið í Öskju. Þar rak hvert smágosið annað á þessum árum, allt fram til 1929.
Lambavatn: Ágúst: Það hefir verið mjög hagstætt á landi og sjó, nema seinustu viku mánaðarins hefir (verið) óstöðug og rosafengin tíð. Yfir mánuðinn hefur heyskapur allstaðar gengið ágætlega.
Húsavík: Ágúst: Veðráttan yfirleitt blíð og stillt. Lítið um sólskin og smáskúrir einkum til landsins. Nýting heyja því sein og tafsöm. Mjög mikil hey úti nú og sums staðar skemmd. Gæftir á sjó fágætlega góðar. Dagana 27.-28. gerði norðan óveður og mjög mikið brim, en brá aftur til blíðu 29. ágúst og síðan blíðviðri en skúrir. Eldur sagður uppi í Öskju enda sést móða og mistur nokkrum sinnum.
Teigarhorn (Jón Kr. Lúðvíksson): Ágúst: Góður, hey hirtust öll græn og gott veður allan mánuðinn. 27. gerði sjávar fyllir mikinn. Gerði ekki tjón.
Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins að kvöldi 26. ágúst, 40 metrar samsvara 5 hPa. Bandaríska endurgreiningin nær lægðinni allvel, setur miðjuþrýsting niður í um 966 hPa, raunveruleikinn hefur líklega verið um 959. Þrýstibratti yfir landinu er heldur minni en hann var í raun og veru.
Braut fellibylsins (númer 1, 1927) og síðar lægðarafkvæmis hans. Myndin af wikipediu, en byggð á gögnum fellibyljamiðstöðvarinnar í Miami. Lægðin mun hafa valdið talsverðu tjóni í Nova Scotia í Kanada áður en hún kom hingað.
Myndin sýnir lægsta mældan þrýsting á landinu síðari hluta ágústmánaðar. Þann 24. nálgast kerfi og loftvog fellur mjög aðfaranótt 25. Þrýstifallið á undan fellibylsleifunum byrjar þann 26. og lægsti þrýstingurinn mældist í Hólum í Hornafirði kl.6 að morgni þess 27. Þrýstifallsins gætti mun minna um landið vestanvert og á Vestfjörðum þannig að þrýstispönn yfir landið varð umtalsverð, mest 24,4 hPa milli veðurstöðva (en þær voru ekki margar). Þetta er með því mesta í ágúst. Tók þetta fljótt af.
Íslandkortið að morgni þess 27. sýnir mjög þéttar jafnþrýstilínur yfir landinu. Átta stiga hiti er í Reykjavík og á Akureyri, en ekki nema 4 stig á Ísafirði. Það rigndi um land allt.
Blöðin segja lítillega frá tjóni:
Morgunblaðið 30. ágúst 1927:
Morgunblaðið átti í gær tal við Siglufjörð til þess að spyrjast tíðinda af óveðrinu sem þar var fyrir helgina. Þangað (til Siglufjarðar) hafði frést að norskt fiskveiðiskip hafi sokkið nálægt Ásmundarstöðum á Sléttu. Mennirnir komust allir í annað skip. ... heyrst hafði að allmikil síld hafi verið í lest skipsins, hafi síldin kastast til í lestinni og hvolft skipinu. ... Veðrið var svo slæmt á laugardag og sunnudagsnótt að menn voru smeykir um skipin sem úti voru. Brim var óvenjulega mikið á Siglufirði í norðangarðinum á laugardaginn og brotnuðu nokkrar bryggjur. Í síldarstöð Óskars Halldórssonar, Bakka, brotnaði ein stór bryggjan alveg í spón og önnur laskaðist. Ein af bryggju Goos stórskemmdist, og ein bryggja Lúðvíks Sigurjónssonar. Flóð var svo mikið að sjór gekk yfir alla eyrina og var hnédjúpt vatn um allar götur á eyrinni. Bylgjurnar skullu á hlaðana af tómu tunnunum og sundruðu þeim mörgum svo tunnurnar flutu um allt, út á Pollinn og alla leið inn á Leiru. Voru menn í gær önnum kafnir við að leita uppi tunnur er frá þeim höfðu flotið og gekk sú leit seint og erfiðlega.
Vísir 30. ágúst:
Akureyri 29. ágúst. FB. Í óveðrinu á laugardaginn urðu mörg síldveiðaskipin fyrir meiri og minni áföllum. Norska skipið Fiskeren sökk undan Ásmundarstöðum á Sléttu og björguðust mennirnir nauðuglega í annað skip. Enn þá eru nokkur skip ókomin fram. Í gær alhvítt niður í miðjar hlíðar. Í dag aftur sumarblíða.
Vísir 30. september:
Háskaför. Í ofviðrinu 27. [ágúst] lenti Steindór Sigurðsson prentari í Grímsey í miklum og merkilegum hrakningum. Kvöldið áður en ofviðrið skall á var hann að fiski, einn á báti, norðaustur af eynni. Náði hann ekki eynni um kveldið og hrakti undan stórsjó og stormi alla nóttina. Þegar birti um morguninn var hann kominn inn i Eyjafjarðarmynni. Kom þá skip honum til hjálpar og flutti hann til Hríseyjar. Þykir það stórfurðulegt að Steindór skyldi sleppa heilu og höldnu úr þessari svaðilför. (Verkamaðurinn).
September var nokkuð tvískiptur, sérstaklega fyrir norðan: Farið var að kvarta undan þurrkum bæði á Suður- og Vesturlandi. Þann 16. kom hlaup í Dalsá í Fáskrúðsfirði, upptök þess voru í smájökli við Lambatind. Ritstjóri hungurdiska hefur því miður ekki fundið frumheimild fyrir þessum atburði.
Hvanneyri: September: Veðráttan mjög góð; óvenju þurrviðrasamt og gott veður, en þó sjaldan verulegt frost. Mest þann 26.. -7,4.
Lambavatn: September: Það hefir verið mjög hagstætt. Þurrt og hlýtt, aldrei snjóað ennþá í byggð, aðeins tvisvar gránað á fjöllum og nokkrar nætur frosið jörð. Vöxtur í görðum er allstaðar góður og sumstaðar óvenju góður. Heyskapur allstaðar góður og nýting svo góð sem hægt er að ákjósa.
Hraun í Fljótum (Guðmundur Davíðsson): September: Tíðarfarið í þessum mánuði var ágætt til 14., ýmist norðan andvari eða logn, eða þá suðlæg átt, oftast hæg, sólskin og þurrkur lengst af; og til sjávarins mátti heita öldulaust allan tímann. En þann 14. breyttist allt í einum svip. Skall þá á geypilegt óveður, sem hélst til 17. og úr því var enginn sólarhringur úrkomulaus til mánaðamóta; jafnvel þótt mest kvæði að því 15. og 16. og 28. og 29. Var og einlægt ókyrrð til sjávarins síðari hluta mánaðarins, jafnvel þó ekki væri stórbrim nema 15., 16. og 17. og 29. og 30. Margir áttu hey úti þegar óveðrið skall á þann 14. og náðist það þvínæst hvergi fyrir mánaðamót. Snjór kom mikill í fjöll og varð ófærð á Siglufjarðarskarði með hesta og tepptist algjört umferð þann veg í nokkra daga. Reykjaheiði á milli Ólafsfjarðar og Svarfaðardals var lengi ófær með hesta. Á fremsta bæ í Stíflu var ekkert hægt að vinna heyvinnu 1 dag vegna snjávar. Voru fjöll að mestu hvít um mánaðamót. [Úrkoma á Hraunum mældist samtals 100,0 mm þann 16. og 17. og 60 mm samtals þann 29. og 30.].
Vík í Mýrdal (Júlíus Páll Steindórsson): September: Rosakafli framan af, en svo kom þurrkur. 16. til 17. urðu heyskaðar töluverðir undir Eyjafjöllum og nokkrir í Mýrdal hjá þeim sem ekki voru búnir, en þeir voru margir sem lokið höfðu heyskap.
Stórhöfði: September. Góð tíð. Snjóstengurnar brotna á hverju ári og veit ég ekki hvort ég bý til nokkrar núna.
Hretið um miðjan mánuðinn virðist hafa verið leiðinlegt. Það olli þó ekki miklu tjóni en skip lentu í vandærðum á sjó og talsverðir heyskaðar urðu undir Eyjafjöllum í hvassviðrinu.
Morgunblaðið 17. september:
Blindbylur var á Vestfjörðum í fyrradag [15.]. Ætlaði Þórólfur, einn Kveldúlfstogarinn, suður frá Hesteyri, en varð að hætta við vegna stórhríðar. Þá voru og þrír Kveldúlfstogararnir á veiðum á Húnaflóa þegar bylurinn skall á, en leituðu inn á Steingrímsfjörð og lágu þar veðurtepptir í fyrradag.
Vísir 24. september:
Stykkishólmi, 23. september. FB Vatnsleysi. Stöðug norðanátt og hvassviðri. Sökum þurrka er farið að bera á vatnsleysi hér. Haldi þurrviðrið áfram, má búast við, að sækja verði vatn í árnar, en það er 34 tíma ferð.
Vísir 26. september:
Þjórsá, 27. september FB Tíðarfarið síðasta hálfa mánuðinn: Stormar, norðanátt og kuldar. Þurrkar svo miklir, að á Skeiðum og í Flóa voru skepnur farnar að þjást vegna vatnsleysis. Nú í nótt kom rigning. Engin kartöflusýki hér nærlendis. Uppskera úr görðum ágæt og viðast óvenjulega góð.
Í september ritaði Vísir um athyglisverða jarðskjálftahrinu í Borgarfirði. Koma skjálftarnir vorið 1974 í hugann - og einnig jarðskjálftasyrpa um 1870:
Landskjálftar í Borgarfirði. Skýrsla frá Runólfi Runólfssyni í Norðtungu. FB. 25. sept. Í fyrra haust byrjuðu landskjálftar eftir veturnætur og héldust fram yfir nýár. Á þessum bæjum varð mest vart við þá: Örnólfsdal, Helgavatni, Hömrum, Högnastöðum og Norðtungu. Sömuleiðis lítilsháttar neðst í Hvítársíðu og á nokkrum bæjum í Stafholtstungum og Norðurárdal. Þessir landskjálftar virðast ganga frá NA til SV og ber mest á þeim á fjallabæjum, sérstaklega Örnólfsdal, og hafa brotnað þar rúður. Nú eru byrjaðir landskjálftar aftur og ber fullt svo mikið á þeim og í fyrra.Aðfaranótt þ.24. þ.m. lék alt á reiðiskjálfi í Örnólfsdal og varð bóndinn að fara út í fjós til þess að gæta kúnna. Oftast smáhristist öðru hverju og í haust komu afarmiklar drunur á undan kippunum, en í fyrra bar lítið á þeim. Þessir landskjálftar virðast halda sig aðallega á bringunni milli Litlu-Þverár og Örnólfsdalsár úr stefnu innan Kjarrárdals, undan Eiríksjökli, eða dálitið norðar. Í fyrrinótt varð snarpur kippur í Norðtungu um kl. 4. Landskjálftar eru alveg óvenjulegir á þessum slóðum. Þegar landskjálftarnir gengu fyrir austan 1896, hristist einnig í Borgarfirði, en virtist ganga jafnt yfir. (Eftir símtali milli R. R. og Jóns Eyþórssonar veðurfræðings kl. 15 þ. 25. sept. Afrit af skýrslunni sent FB, að ósk skýrsluhöfundar).
Af skrifum veðurathugunarmanna afgang ársins má ráða að tíð hafi verið nokkuð umhleypingasöm í október, nóvember og fram í desember. En ekki eru þeir þó á einu máli. Það er hins vegar ljóst að veður var ekki til vandræða og ekki var mikið um tjón af þess völdum síðustu mánuði ársins. Ekki var mikið um fréttir af sköðum eða vandræðum af völdum veðurs í blöðum. Eftir farandi frétt birtist þó í Morgunblaðinu þann 4. nóvember:
Símslit. Í fyrradag var ofsaveður og urðu símabilanir víða. Mestu símslitin voru á Fjarðarheiði og á Dimmafjallgarði. Ennfremur slitnaði síminn milli Ögurs og Skálavíkur og milli Ögurs og Ísafjarðar. A mörgum öðrum stöðum urðu smábilanir á símanum.
Athugunarmenn lýsa nóvember og desember:
Hvanneyri: Október: Sérlega mild og góð veðrátta fram yfir miðjan mánuðinn. Eftir þann 15. þ.m. dálítil frost, en þó ágætasta veðrátta, svo tíðarfarið má teljast mjög gott.
Lambavatn: Október: Fyrri helmingur mánaðarins var hér hlýr, en töluverð væta. Þann 16. gekk í norður og hefir verið norðan næðingur og kuldi síðan. 23. var krapakafald um kvöldið og nóttina og harðviðri dagana á eftir svo fé var hýst hér nokkrar nætur. Nú er alautt í byggð en töluverður snjór á fjöllum.
Húsavík: Október: Veðráttan þennan mánuð getur ekki kallast höst, en afar óhagstæð fyrir landbúnað. Hey mjög víða orðið úti meira og minna, og vonlaust að hirðist héreftir. Aldrei þerrir þótt úrkomulaust hafi verið dag og dag. Snjór lítill í sveitum en allmikill á fjöllum og heiðum. - Austanátt ríkjandi, sífelld kólga á fjöllum og sjór ókyrr en ekki stórbrim.
Hraun í Fljótum: Nóvember: Tíðarfarið í þessum mánuði hefur verið mjög óstillt, að undanteknum dögunum 7.- 12. og 16.- 22. Síðasta hluta mánaðarins var ýmist hríð eða þíða. Stormur var þ.2., og nóttina þ. 30. Þann 30. fuku ca. 25 hestar heys á einum bæ og þak af nýbyggðri baðstofu á einum bæ.
Stórhöfði: Nóvember: Tíðin umhleypingasöm og stormasöm.
Hvanneyri: Desember: Óvenju milt og gott veður fram til þess 13, en þó dálítil úrkoma. Frá 13. og fram til þess 24. allmikil frost, en hægviðri. Síðustu dagana töluvert úrfelli og stormasamt. Veðráttan yfirleitt hagstæð.
Lambavatn: Desember: Tíðarfarið yfir mánuðinn líkist meir haustveðrátt en vetrar. Miðstykkið einlæg stilla og blíðviðri. En seinustu vikur rigning og rosi. Það getur ekki heitið að sjáist snjór á fjöllum né í byggð.
Þórustaðir (Hólmgeir Jensson) 27. desember: Grænka tún, blóm sprungu út.
Húsavík: Desember: Einmuna góð veðurátt. Frá 1.-10. þíðviðri, alauð jörð að kalla um allar sveitir. Frá 11.-26. stillur, oft heiðríkjur og hæg sunnanátt; lítið þurrkföl á jörðu. Besti hagi. 22.-31. marahlákur og alautt að kalla. Sauðfé lá víða úti allan mánuðinn. Sumstaðar hýst, en lítið gefið. ... Halastjarna sást fyrst 18. svo nærri sól að hún sást í dagsbrún kvölds og morgna, fyrst mjög skýrt, en dofnaði fljótt og sást ekki eftir 23.
Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson) Desember: Tíðarfarið má teljast hið hagstæðasta. Mjög snjólítið, aðeins lítilsháttar snjór um miðbik mánaðarins. Annar var alautt, nema í brekkum og lægstu dældum. Þess má geta að 5. og 6. rigndi afarmikið upp til landsins. Hljóp þá snögglega geysimikill vöxtur í Jökulsá og Lagarfljót, sérstaklega í Jökulsá, svo menn muna hana ekki meiri. Hvort sem það hefur stafað meðfram af jökulhlaupi. Tók hún 5 ferjur en annan skaða mun hún ekki hafa gert.
Eiðar (Erlendur Þorsteinsson): 6. desember: Vatnavextir svo miklir að elstu menn muna ekki slíkt.
Vík í Mýrdal (Júlíus Steindórsson) Desember: Mild og góð tíð framan af. Svo gerði snjóhríð með nokkru frosti. Hvergi hafa orðið skaðar tíðarfarsins vegna. Brim hefur oft verið ákaflega mikið í þessum mánuði, flætt inn yfir fjöruna. Reki lítill.
Lýkur hér að sinni ferð hungurdiska um árið 1927. Tölur og fleira má sjá í viðhengi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 31
- Sl. sólarhring: 127
- Sl. viku: 2478
- Frá upphafi: 2434588
Annað
- Innlit í dag: 28
- Innlit sl. viku: 2202
- Gestir í dag: 28
- IP-tölur í dag: 26
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Skýringin er að sjálfsögðu AMO sem stýrir því hvort við fáum hlýinda- eða kuldaskeið á Íslandi.
Hermann Sigmarsson (IP-tala skráð) 23.5.2022 kl. 15:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.