10.5.2022 | 23:37
Hugsað til ársins 1967
Hér er hugsað til ársins 1967. Ritstjóri hungurdiska hafði þá fylgst náið með veðri í ein sex ár. Honum fannst veðurlag þessa árs lausara í sniðum en verið hafði árin á undan, minni þráviðri, meiri tilbreyting. Þótt sumarið geti ekki talist hlýtt á síðari tíma vísu er það samt allgott í minningunni. Við lestur blaða og annarra heimilda rifjast samgönguvandræði og vondir vegir þessara ára mjög upp. Eins það að vandræði af völdum flóða eru áberandi, fannburður í þær með tilheyrandi krapa og klakastíflum - og síðan leysingar voru fylgifiskar kaldrar umhleypingatíðar. Stafsetning er færð til nútímahorfs að mestu.
Menn töldu tíðarfar á árinu 1967 óhagstætt lengst af. Sumarið fékk þó góða dóma syðra. Janúar var óhagstæður framan af, en batnaði síðan. Mjög umhleypingasamt var í febrúar og gæftir stirðar, en tíð þó talin fremur hagstæð til landsins. Í mars var tíð mjög óhagstæð og kalt var í veðri, snjóþyngsli voru mikil og færð erfið. Kuldi og gróðurleysi ríktu í apríl. Maí var sólríkur syðra, en kalt var í veðri og mjög dauf tíð nyrðra. Júní var líka talinn óhagstæður. Kal kom fram í túnum. Tíð var hagstæð í júlí og langt fram eftir ágúst á Suður- og Vesturlandi, en óhagstæð nyrðra og grasvöxtur lítill. Í september var tíð hagstæð, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Rysjótt tíð var norðaustanlands í október, en hagstæð tíð syðra. Nóvember var stormasamur, gæftir slæmar og snjór í meira lagi, svipað tíðarfar hélst fram í desember.
Ýmislegt minnisstætt gerðist í veðri á árinu. Hafís var viðloðandi við land allt fram á sumar, en þó í talsvert minna magni heldur en 1965 og aftur næstu ár á eftir. Vindur mátti vart snúast til norðlægrar áttar án þess að frost yrðu mjög hörð. Sé blöðunum flett eru þar stöðugar fréttir af ófærð og samgönguerfiðleikum. Morgunblaðið segir frá slíku strax í upphafi árs, þann 3.janúar:
Mikil ófrð á Vestfjörðum, ... en þar lokaðist allt á gamlársdag. Þó er fært frá Ísafirði að flugvellinum, og unnið að mokstri frá kaupstaðnum til Bolungavíkur. Í Skagafirði, Eyjafirði og Þingeyjarsýslu er sama ástand og á Austfjörðum, alls staðar gífurlegt fannkyngi og ófærð, og vart fært nokkurs staðar.
Ritstjóri hungurdiska var um þessar mundir við nám á Akureyri og til að komast norður varð að fljúga. Það var í fyrsta sinn á ævinni að hann kom upp í flugvél. Í það skipti var flogið með DC-6 vél, sem var ekki það algengasta. Þann annan janúar voru ákveðin vandræði í flugi. Tíminn segir frá þann 4.:
KJ;Reykjavík, þriðjudag. Óvenjulega mikil þoka lagðist yfir Reykjavík og nágrenni um miðjan dag í gær [mánudag 2.], og þéttist stöðugt eftir því sem á daginn leið. Olli þokan miklum truflunum á flugsamgöngum, og urðu flugvélar að snúa frá flugvöllunum í Reykjavík og Keflavík, bæði í millilanda og innanlandsflugi. Þokan mun hafa verið einna þéttust um miðnættið hér í Reykjavík, og hafði þau áhrif á umferðina að ökumenn fóru sér hægar, enda skyggni slæmt, og ökumenn óvanir slíkum aðstæðum á götum borgarinnar. Það sem olli þokunni voru hitaskil [hitahvörf köllum við það nú] í lítilli hæð yfir jörðu, en rakt loft hafði borist inn yfir landið sunnan af sjónum. Úr lofti að sjá virtist ekki um mikla þoku að ræða, að minnsta kosti skartaði Reykjavík sínu fegursta þegar landhelgisgæsluflugvélin Sif flaug yfir með blaðamenn, en eftir lendingu kom í ljós að skyggni á jörðu niðri var mjög slæmt, og einkennilegt að sjá flugvélar koma inn til lendingar.
Framan af janúar voru þó hlýindi og úrkoma minnisstæðari en annað. Um tíma lék óvenjuhlýtt loft um landið.
Kortið sýnir stöðuna í 500-hPa að kvöldi þess 8.janúar. Þykktin er í hæstu hæðum, hefur sárasjaldan orðið svona mikil norðan við landið í janúarmánuði. Hiti fór í 15,0 stig í Hólum í Hornafirði og komst í meir en 10 stig á mörgum stöðvum á Vestfjörðum. Næstu dagar voru líka hlýir flestir. Þessa daga, 9. til 11. sáust mikil glitský um allt norðan- og austanvert landið. Var það í fyrsta sinn sem ritstjóri hungurdiska sá þetta merka fyrirbrigði.
Lægðir gerðust ágengari og þann 12. fuku hlöður, hey og eitthvað af gripahúsum í Hörðudal í Dölum og sama dag fuku þakplötur í Neskaupstað. Helgina 14. til 15. var mikil úrkoma sunnanlands og leysing um land allt. Við skulum líta á fréttir dagblaðsins Tímans af vatnavöxtunum, þótt langar séu - en styttum aðeins:
Tíminn þriðjudaginn 17.janúar:
Reykjavík, mánudag. Blaðamenn og fréttamenn Tímans öfluðu í dag frétta af hinum óvenjumiklu flóðum og vegaskemmdum, sem urðu víða um land nú um helgina, sunnanlands, vestanlands og fyrir norðan. Flóðin fylgdu í kjölfar mikils úrfellis á þessum landssvæðum og asahláku, sem kom á freðna jörð. Vatnssöfnunin varð því gífurlega mikil og á mörgum stöðum var sem hafsjór yfir að líta, en bæir stóðu upp úr eins og eyjar. Báðar Hvítárnar flæddu yfir bakka sína, Blanda lokaði Langadalsvegi. Vegna jakaburðar rofnuðu raflínur og símalínur. Af þeim sökum hafa Biskupstungur og Skeið verið rafmagnslaus í gær og í dag. Fyrir utan að vegir hafa víða rofnað, er brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi að hrynja, og óvíst, hvenær tekst að opna hana fyrir umferð.
Blaðamaður Tímans flaug í dag austur á flóðasvæðið á Skeiðum, og var þar sums staðar yfir að líta sem hafsjór væri. Margir bæir voru umflotnir vatni, eins og Austurkot í Hraungerðishreppi, Ólafsvallahverfið og Útverk á Skeiðum. Voru bændur og búalið í Ólafsvallahverfinu að flytja mjólk frá bæjunum og upp á veginn á litlum pramma, sem róið var á milli. Hross og sauðfé stóð á þurru við útihús, og voru ekki í neinni hættu. Er blaðið símaði þangað austur í kvöld, sagði Ingimar í Björnskoti, að vatn hefði komið í tvo kjallara, og hefði fólk staðið við austur í dag. Hann sagði, að þeir í Ó1afsvallahverfinu væru ekki óvanir flóðum, en þó væri þetta með því mesta sem kæmi. Flóðið náði þó ekki heyjum, og komst ekki í útihús.
Útverk á Skeiðum voru eins og eyja { hafi, þar sem húsin stóðu upp úr vatnshafinu. Þar er enginn um þessar mundir, svo að flóðið kemur ekki svo mikið að sök þess vegna. Fyrir austan gekk á með svörtum éljum í dag, og varð því ekki af frekari könnun á flóðasvæðinu úr lofti. Jakastífla var í Hvítá og veitti vatninu upp á undirlendið, og var mikill jakaburður í ánni úr lofti að sjá. Álftavatn hafði flætt yfir veginn við sumarbústaðahverfið, og voru jakahrannir við austurhluta vatnsins. Allir engjavegir og hliðarvegir voru umflotnir vatni eða á kafi. Í Flóanum hafa ekki orðið neinar verulegar vegaskemmdir, runnið hefur yfir Hamarsveg, og Gaulverjabæjarveg, en ekki skemmst að ráði, og einnig yfir Vorsabæjarveginn, og hann varð ófær í gær, en verið að laga hann í dag, rann úr nýgerðu ræsi.
Laugardalsvegur lokaðist fyrir neðan Eyvindartungu, vegurinn að Haukadal varð ófær fyrir neðan Neðra-Dal, og Gullfossvegurinn stórskemmdist ofan við Tungufljótsbrú. Þar festist mjólkurbíllinn svo illa, að jarðýta varð að koma honum til aðstoðar. Stórflóð með miklum jakaíburði varð við Hvítá, svo hún flæddi suður yfir Auðsholtsmýri með miklum jakaburði, og braut þar staura í háspennulínunni, sem liggur í Hreppa og Skeið, og varð þá rafmagnslaust um mestan hluta uppsveita Árnessýslu í gærmorgun, en komst þó á aftur vestan Hvítár eftir fimm klukkustundir en á 1. tímanum í nótt gerði mikið flóð í Brúará, og braut þá þrjá staura til viðbótar í háspennulínunni fyrir Biskupstungur og er rafmagnslaust þar, og verður í dag, þar sem viðgerð getur ekki hafist sökum mikils vatnsflóðs á þessu svæði. Svo hafa símastaurar við Tungufljót brotnað, í það minnsta tveir svo vitað sé.
Þetta eru einhver mestu flóð sem hafa komið síðast liðin tuttugu ár. Rafmagnsleysið veldur mjög miklum erfiðleikum alls staðar, en þó mestu á stóru kúabúunum, þar sem mjaltavélar eru stöðvaðar. Eru dæmi til þess, að bændur með 4050 kýr og lítinn mannskap eru mestan hluta sólarhringsins að mjólka. Einnig veldur miklum erfiðleikum, að víðast hvar ganga vatnsdælur fyrir rafmagni og sækja verður vatn í brúsum bæði fyrir kýr og fénað, einnig hefur kennsla í skólum fallið niður vegna rafmagnsleysisins. Pálmi Eyjólfsson á Hvolsvelli sagði að geysilegt vatnsveður hefði verið þar undanfarna tvo sólarhringa. Rignt hefur í logni og hiti verið átta til níu stig. Á Sámsstöðum í Fljótshlíð hefur verið úrkomumælir um áratugi, og hefur aðeins einu sinni mælst meiri úrkoma, en það var í september 1933, þá mældust 76 mm á sólarhring, en núna 68 mm á sólarhring. Í dag hefur verið unnið að því að kanna vegaskemmdir eystra, og eru vegir víða skemmdir. Þykkvabæjarvegur rann í sundur á móts við bæinn Hrafnstóftir, og er það 60 m skarð. Jeppar gátu brotist yfir með mjólk í dag, en mjólkurbíllinn fór ekki. Við Strandasýki, sem er á þjóðveginum til Reykjavíkur, rofnaði vegurinn, en strax var gert við skemmdirnar. Vegurinn í Fljótshliðinni er mikið skemmdur, og komust mjólkurbílar, sem aka þangað ekki nema móts við Uppsali í Hvolshreppi, þar var vegurinn í sundur og urðu þeir því að snúa við og aka austur Landeyjar og upp hjó Stóra-Dímon og í Fljótshlíðina. í Landhreppnum komust mjólkurbílar nokkurn veginn leiðar sinnar, þó er vegurinn grafinn á móts við Strandarhöfða, en hefur nú verið lagfærður. Í Austur-Landeyjahreppi lét sig brúarhol á afleggjara, sem liggur í Hólmarhverfið í A-Landeyjum. Mestu skemmdirnar hér um slóðir sagði Pálmi munu vera við Seljalandsá, en þar var byggð ný brú á ána í sumar. Hefur vatnsflaumurinn rofið um tíu metra skarð í uppfyllinguna vestan við brúna, og rann áin þar um. Í dag var byrjað að lagfæra skemmdirnar.
Hlaup kom í Markarfljót og rauf skarð í varnargarðinn við Þórólfsfell í Fljótshlíð. Skörðin voru þó ekki það djúp að rynni þar um eftir að sjatna tók, en ýtur eru nú á leið til að lagfæra skemmdirnar eftir hlaupið. Þá hljóp Gljúfurá við Hamragarða úr farvegi sínum, og raunin austur með þjóðveginum, en er nú komin í sinn venjulega farveg, og engar skemmdir urðu á veginum. Mjólkurbíll austan úr Vík komst ekkí leiðar sinnar við Seljaland.
Áin Klifandi rann yfir bakka sína á þjóðveginum austan við Pétursey. Komu skörð þar í veginn, en stórir bílar komust þar um í gær. Uppfyllingin við brúna á Skógá undir Eyjafjöllum mun eitthvað hafa látið sig, en ekki svo að umferð tepptist. Talið er að klaki sé að mestu úr jörð í Austur-Eyjafjallahreppi, og örlar fyrir grænni slikju á túnum vegna hita og úrkomu. Aftur á móti er mikill klaki í jörð í utanverðu héraðinu, og vegir því þungir og holóttir. Í gær byltu allir lækir og ár sér yfir bakka sína, í nótt stytti svo upp, og nú er grátt-fyrir, því gengið hefur á með éljum í dag.
Í nótt grófst undan einum stólpa um miðbik brúarinnar yfir Jökulsá á Sólheimasandi og í dag var hallinn á brúargólfinu orðinn 40 gráður og brúin öll skökk og skæld á kafla. Engir bílar hafa að sjálfsögðu farið yfir brúna í dag, og ferðir gangandi fólks voru takmarkaðar þar yfir vegna hins mikla halla á brúnni og hættu á að hún færi alveg. Í miklum vatnavöxtum á árinu 1965 fór stöpull undan enda brúarinnar, og var engin bílaumferð leyfð um hana í marga daga á meðan gert var við skemmdirnar. Skemmdirnar núna eru erfiðari viðfangs en þá, og má því búast við umferð verði ekki hleypt á brúna í nokkra daga a.m.k.
Engin umferð um Mýrdalssand. Mikið skarð er við eina brúna á Mýrdalsandi, sem er eiginlega beint suður af Hafursey. Stendur brúin þar í dálítilli kvos á sandinum, og 1015 metra skarð við brúna. Mikið vatn var þar í gær, en var farið að fjara í dag. Engin umferð mun hafa verið um Mýrdalssand í dag.
Frá því á sunnudagsmorguninn og þangað til um klukkan tíu í morgun var þjóðvegurinn á milli Síkisbrúnna í Borgarfirði ófær bifreiðum vegna skarðs, sem flóð hafði brotið í veginn og einnig var vegurinn við Hvítárvelli undir vatni. Umferðinni var beint um Kljáfossbrúna á meðan vegurinn beggja megin Ferjukots var ófær, en í dag var umferðin um aðalþjóðveginn að færast í eðlilegt horf. Í gær komst klakastífla í Grímsá og flæddi þá yfir veginn hjá Hesti. Klakastíflan brast í nótt og við það jókst vatn töluvert í Hvítá. Frá Kolási voru Stafholtstungurnar yfir að líta eins og hafsjór í gær, en í dag var vatnið mikið farið að sjatna, en jakar víða. Sævar Guðmundsson í Arnarholti í Stafholtstungum sagði, að skarð hefði komið í þjóðveginn fyrir ofan bæinn í gær, en núna væri orðið sæmilega fært þarna um. Hann sagði, að þetta væri með meiri flóðum, sem kæmu þarna, en nú væri mikið farið að sjatna í. Ekki náði flóðið útihúsum eða íbúðarhúsum, þar sem þau standa hátt, en flóðið náði um mýrar á milli bæja. Sveinn Jóhannsson að Flóðatanga í Stafholtstungum sagði, að mikið af jökum hefði borist upp á veginn neðst í Stafholtstungunum. Svona flóð væru ekki óalgeng á þessum slóðum. Frá Sólheimatungu í Stafholtstungum fengust þær fréttir, að bakkar Norðurár hefðu farið í kaf, og væri þetta með mestu vetrarflóðum þar um slóðir, en vorflóð væru þó hærri. Flóðið náði hámarki sínu í gærkvöldi, en var farið að sjatna mikið í dag. Reykjadalsá í Miðdölum, Dalasýslu flæddi yfir veginn og urðu skemmdir á honum þar en ekki þó mjög alvarlegar, að því er talið er.
Þormóður Pétursson, verkstjóri á Blönduósi, sagði blaðinu, að í nótt hefði Blanda rutt sig og lokað Langadalsveginum. Flæddi hún yfir veginn á fjórum stöðum á um 100 metra kafla. Setti Blanda í sig miklar klakastíflur frammi í dalnum. Mikil klakahrönn er á veginum, og mikið magn af vatni rennur nú yfir veginn. Liggur klakahrönnin yfir allt láglendið og yfir veginn rétt hjá Æsustöðum í Langadal. Þormóður kom að veginum, þar sem áin flæðir yfir hann, um kl. 15 í dag, og var þá mikið vatn á veginum og klakahrönn. Þá lokaðist Svínadalsvegurinn einnig, vegna úrrennslis á tveim stöðum. Í dag var gert við veginn, og var hann fær í kvöld. Annars sagði Þormóður, að skemmdir á öðrum vegum væru litlar, einungis smávegis úrrennsli. Hefðu vegirnir yfirleitt sloppið vel í þessum miklu leysingum.
Í Skagafirði eru vegir sundurskornir á nokkrum stöðum, en hvergi munu þeir þó vera alófærir. Mikill vatnselgur hefur verið á veginum yfir Vallabakka í Hólmi, en stærri bílar og jeppar hafa komist þar um. Héraðsvötnin flæddu yfir veginn hjá Völlum á stóru svæði í gær og í dag. Asabálka var í Skagafirði á laugardaginn og á sunnudaginn rigndi mikið, en flóð eru víðast hvar í rénum núna. Rann víða úr vegum. Blaðið hafði tal af Guðmundi Benediktssyni vegaverkstjóra á Akureyri, og sagði hann að á tveim stöðum í sinu umdæmi hefðu orðið alvarlegar vegaskemmdir af völdum vatnavaxta, en á mörgum stöðum hefði runnið úr vegum og yfir þá. Alvarlegustu skemmdirnar hafa orðið á Köldukinnarvegi við Ófeigsstaði, þar sem vatn flæðir yfir veginn á um 70 metra kafla og við brúna á Skjálfandafljóti. Hjá Stóruvöllum í Bárðardal var vatn að brjóta stórt skarð í veginn seinnipartinn í dag. Guðmundur sagði, að þessar vegaskemmdir væru ekki fullkannaðar, þar sem vatnið er mjög gruggugt og erfitt að átta sig á vegaskemmdunum sem stendur, en það yrði gert á morgun. Svarfaðardalsá flæddi yfir þjóðveginn og sömuleiðis Hörgá, en ekki svo að umferð stöðvaðist um vegina.
Tíminn heldur áfram að segja frá flóðunum þann 18. janúar:
KJ Reykjavík, þriðjudag. Alls urðu 275 bæir í Árnessýslu rafmagnslausir er jakaburður braut rafmagnslínustaura við Brúará og í Auðholtsmýri. Í dag komst rafmagnið aftur á á um 100 bæjum í Grímsnesi og Biskupstungum, og í kvöld eða fyrramálið fá bæir á Skeiðum og í Hreppum rafmagn frá dieselrafstöð sem verið er að setja upp að Flúðum í Hrunamannahreppi. Guðjón Guðmundsson deildarstjóri hjá Raforkunálaskrifstofunni fór ásamt fleirum í dag í þyrlunni EIR, og könnuðu þeir aðstæður til viðgerðar, en vont er að komast þarna um vegna vatnselgs.
Í þessum langa texta var minnst á hlaup í Markarfljóti - rétt í framhjáhlaupi. Í ljós kom að það var óvenjulegra heldur en allir aðrir vatnavextir þessa daga.
Innstihaus, fjallhnjúkur við Steinsholtsjökul (í norðurhliðum Eyjafjallajökuls) hrundi sunnudaginn 15. janúar. Tíminn segir þann 24. janúar:
Jökulhlaupið kom að Markarfljótsbrú rétt fyrir kl. 4 um daginn, og mun það því hafa tekið um tvo tíma að brjótast undan jöklinum og fara niður Markarfljótsauranna að brúnni. Taldi Guðmundur [Kjartansson], að þetta væri ekki ósennilegt. Guðmundur sagði, að rætur Innsta-hauss, sem er eins og þverhníptur veggur upp frá ísröndinni, væru í um 300 metra hæð yfir sjávarmál, en toppur haussins væri í um 700 metra hæð. Væri sjálft fjallið því 300400 metrar, og mætti segja, að klofnað hefði framan af fjallinu, frá toppnum og niður úr. Virðist svo, sem þessi spilda hafi gengið út að neðan líklega sem heilleg hella og hún sunkað" niður í lónið sem væntanlega hefur verið undir jöklinum. Til þess að þessi fjallshluti kæmist ofan í lónið varð jökullinn að færast til hliðar.
Um þennan mikla atburð má lesa í ítarlegri grein sem Guðmundur Kjartansson ritaði í Náttúrufræðinginn (3-4 tölublað 1968, byrjar á s. 120), við rekjum hann ekki frekar hér.
Þann 27. janúar gerði mikið austanveður. Þak fauk af hlöðu á Úlfsstöðum í Blönduhlíð í Skagafirði og hluti af kornhlöðu fauk á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Skip slitnuðu upp í Vestmannaeyjum. Fyrri hluti febrúar var mjög illviðrasamur og miklar fréttir af samgöngutruflunum og hrakningum ferðalanga í blöðum. Hefur veður í kringum 11.febrúar 1967 komið við sögu á hungurdiskum áður og verður sú umfjöllun ekki endurtekin hér.
Ekki voru þó allir óánægðir með tíðarfarið, betri dagar greinilega innan um. Tíminn segir frá 18. mars (hvers vegna fréttin birtist ekki fyrr er ekki ljóst, þorranum lauk 18. febrúar):
Þorrinn var óvenju mildur að þessu sinni og góa heilsaði með hlýindum. Um miðjan febrúar voru komnir blómhnappar á vetrargosa, dvergliljur og vorboða sunnan undir húsveggjum í Reykjavík og blöð margra garðblóma voru farin að spretta. Grænir flekkir sáust í grasblettum og brum byrjuðu að þrútna á sumum trjám og runnum. En síðustu sólarhringana í febrúar gerði 69° frost, sem stöðvaði þorragróðurinn". 4. mars var komin hláka og laukblómin héldu áfram að vaxa eins og ekkert hefði í skorist. 8. mars var komið föl á jörð, en ekkert bítur það á þessi harðgerðu fjallablóm, sem við ræktuðum í görðum okkar.
Mikil ótíð var í mars. Tíminn segir af snjó og ófærð þann 3.:
Mikið fannfergi er á Austur- og Norð-Austurlandi og samgöngur mjög slæmar. Verst mun ástandið vera á Raufarhöfn og nærsveitum, en þar hafa samgöngur að mestu legið niðri í marga daga. Þegar Tíminn hafði tal af fréttariturum sínum á þessum slóðum, geisaði þar enn stórhríð og ekki viðlit að halda vegum opnum. Á Raufarhöfn er mjólkurlaust orðið, og sloti veðrinu ekki innan skamms fá þorpsbúar ekki mjólk fyrr en strandferðaskipið Blikur kemur þar, en það er ekki væntanlegt fyrr en eftir viku. Vart er fært milli húsa í þorpinu, en reynt hefur verið að halda aðalvegunum þar opnum með snjóplóg til að hægt sé að koma olíu í húsin. Sum húsin hefur nærri fennt í kaf, og á einum stað þurfti maður að skriða út um glugga á efri hæð húss til að komast út. Á Þórshöfn er ástandið nokkuð skárra, en þó hvergi nærri gott, og bátar þaðan hafa ekki getað stundað veiðar um hálfsmánaðarskeið vegna gæftaleysis. Talsverðir samgönguerfiðleikar hafa einnig verið á Austurlandi. Snjó kyngir niður jafnskjótt og vegir hafa verið ruddir, og samgöngum er að mestu haldið uppi á snjóbilum. Fjallvegir eru vitaskuld allir lokaðir.
Þessa daga voru einnig fréttir af ís, Tíminn segir m.a. þann 5. mars:
Í nótt færðist ísinn töluvert suður eftir Vestfjörðum og í morgun voru ísjakar reknir á fjörur við Sæból á Ingjaldssandi. Látlaus snjókoma er fyrir vestan og skyggni mjög slæmt og því erfitt að segja um hve mikill ís er úti fyrir landinu. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar er hér um að ræða ísspangir á reki en aðalísinn er fjær landinu. Vélbáturinn Mímir tilkynnti í nótt um jaka á reki út af Galtarvita og sáust þeir ekki i radar. Undan Stigahlíð er íshröngl en ekki sér nema. um 200 metra frá landinu. Í Látravík er breið ísspöng landföst og ís á reki fyrir utan og ís er út af Straumnesi og austur fyrir Kögur. Ekki er hægt að fara í ískönnunarflug vegna veðurs og því ógjörningur að segja hve mikill ís er úti fyrir en íshröngl er á öllum siglingaleiðum fyrir Vestfjörðum.
Margir muna e.t.v. enn eftir stórbruna sem varð við Lækjargötu og Vonarstræti í Reykjavík þann 10. mars.
Myndin sýnir annars vegar mun á hæsta og lægsta sjávarmálsþrýstingi á landinu (þrýstispönn) á 3 stunda fresti frá 13, mars 1967 og út mánuðinn(ljósblátt þreparit), en hins vegar lægsta þrýsting á landinu á sama tíma (gulbrúnn ferill). Snemma í mánuðinum komu nokkrir rólegir dagar (5. til 8.), en síðan tók við mjög órólegt veður. Dagana 13. til 20 gekk yfir mikill illviðrakafli, fjórar stórar lægðir gengu hjá með og blés af ýmsum áttum. Hvert þessara illviðra stóð þó ekki lengi. Þann 21. til 23. var aftur rólegt veður, en síðan gerði mjög hvassa norðanátt, páskahret, sem stóð í 3 til 4 daga. Náði hámarki á laugardag fyrir páska og á páskadag (26.). Síðustu daga mánaðarins var ekki hvasst.
Ung veðurnörd máttu hafa sig við ef fylgjast átti með atburðum. Upplýsingar lágu ekki alveg á lausu. Veðurskeytalestur útvarpsins mikilvægastur ásamt veðurkortum Morgunblaðsins. Veðurfregnir voru nýhafnar í sjónvarpi, en útsendingar náðu ekki til landsins alls og voru þar að auki ekki daglegar.
Þetta kort birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 18. mars, í lægðafárinu miðju. Lægð númer tvö í syrpunni rétt gengin yfir. Miklar fréttir voru í blöðunum af veðri þessa daga. Við grípum niður í fáeinum fréttum Tímans:
14.mars: Reykjavík mánudag [13. mars]: Versta veður var á SV-landi kvöld og voru vegir víða ófærir. f Vestmannaeyjum hefur verið blindhríð í allt kvöld, rafmagnslínur hafa slitnað, þak fauk af hænsnahúsi og tveir bátar héldu sjó fyrir utan Eiðið. Heldur er óvenjulegt að blindhríð geri í Eyjum, en í kvöld var þar orðinn þæfingur á götum og ekki fært bílum sums staðar. Nokkrir bátar réru í morgun og komust þeir allir í höfn nema tveir, Stígandi VE og Magnús IV., er áður hét Stígandi, og héldu þeir sjó fyrir utan Eiðið, en 13 vindstig mældust á Stórhöfða. Mörg sjónvarpsloftnet brotnuðu í veðrinu, og þar sem þau stóðu af sér veðrið lýsti af þeim, og var líkast því sem ljósagangur væri um allan bæ, en sumir hlutar hans voru rafmagnslausir, vegna þess að loftlínur höfðu slitnað. Vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur var um það bil að lokast fyrir minni bíla í kvöld á Arnarneshæðinni og í Silfurtúni, en vegagerðarmenn komu með moksturstæki og ruddu veginn. Má búast við að skafið hafi fljótlega í slóðina Mikil hálka var á Keflavíkurveginum nýja, en færð sæmileg. Aftur á móti var vegurinn til Grindavíkur að lokast, og ekki búist við að hann yrði ruddur fyrr en í fyrramálið. Hér í Reykjavík skóf nokkuð, og sums staðar urðu umferðartafir, en ekki þó alvarlegar. Einn bíll fór útaf í Ártúnsbrekkunni af völdum hálku en þeir sem í bílnum voru sluppu ómeiddir.
17.mars: Enn eru vegir tepptir víða um land vegna snjóa og segja má að allir vegir á Norður- og Austurlandi séu ófærir allt frá Skagafirði austur um land og suður á Lónsheiði. Mikill snjór er á Vestfjörðum sérstaklega á norðanverðum kjálkanum og liggja þar niðri allar samgöngur á landi. Í dag voru stórir bílar aðstoðaðir við að komast frá Skagafirði til Reykjavíkur og norður á Strandir. Á morgun verða allir aðalvegir um Snfellsnes ruddir og opnast þá Kerlingarskarð og Fróðárheiði. En Ennisvegur milli Hellissands og Ólafsvíkur verður ekki ruddur. Miklar snjóhengjur hafa myndast ofan við veginn og er hætta á snjóflóðum, og þykir ekki ráðlegt að fara þá leið. Flestir vegir á Suðurlandi eru færir allt austur að Vík í Mýrdal.
21.mars: Mikið hvassviðri gekk yfir landið um síðustu helgi [18. til 19.] og olli víða skemmdum á rafmagns- og símalínum. Ófærð var víða um landið og flugsamgöngur lágu niðri innanlands. Veðurofsinn gekk að mestu niður í dag og síðari hluta dagsins var flogið til margra staða sem hafa verið einangraðir í allt að vikutíma. Þegar leið á daginn voru rafmagnslínur komnar í samt lag og sömuleiðis flestar símalínur. Ekki er kunnugt um að aðrir skaðar hafi orðið vegna veðursins. Fáir bátar voru á sjó og komust þeir allir til hafnar. Um 17 bátar leituðu vars í Rifshöfn á Snæfellsnesi og á Patreksfirði voru 20 bátar í höfninni í gær, þar af sjö heimabátar. Allir Eyrabakkabátar leituðu hafnar í Vestmannaeyjum, nema einn er í Þorlákshöfn og einn annar í heimahöfn og kemst ekki út vegna hafróts. Bátarnir sem ráku upp á Stokkseyri fyrir helgi eru báðir taldir ónýtir og hafa verið teknir á leigu tveir bátar til að vetrarvertíð leggist ekki niður á Stokkseyri, þeir eru Stefnir frá Hafnarfirði og Þorgrímur frá Þingeyri. Hólmsteinn og Hásteinn liggja enn á legunni við Stokkseyri og er ekkí hægt að koma þeim út vegna brimsins, en þegar gefur verður farið með þá til Vestmannaeyja til viðgerðar. Bjarmi II. liggur enn á fjörukambinum og er ekki í hættu. Vélbáturinn Auðunn GK-27 fékk á sig sjó út af Jökli á sunnudag. Brotnuðu rúður í brúnni og biluðu loftskeyta og fiskileitartæki bátsins. Tveir menn voru í brúnni þegar ólagið skall á og sluppu þeir báðir með smáskrámur. Skipverjar voru nýbúnir að taka upp netin þegar sjórinn reið yfir og voru með rúml. 15 lestir af fiski. Báturinn sigldi í var og ætluðu skipverjar að taka upp þau net sem enn voru í sjó og sigla til Hafnarfjarðar þegar veður batnar.
Á Raufarhöfn er fannfergi og hefur verið þar blindhríð síðan fyrir helgi. Sjúkraflugvél Tryggva Helgasonar hefur verið veðurteppt þar síðan á fimmtudag, en niðurkoman er svo mikil að ekki er viðlit að ýta snjó af flugvellinum, fyrr en hríðinni slotar. Flugvélin er vel bundin niður og er henni ekki hætta búin. í dag var flogið til Patreksfjarðar og höfðu þá allar flugsamgöngur legið niðri í vikutíma. Rafmagnstruflanir urðu á suðvestanverðu landinu á laugardag og sunnudag. Orsakaðist það af bilun í aðalrofa í Elliðaárstöðinni. Á sunnudagskvöld bilaði Hafnarfjarðarlínan og þar með línan í sendistöð útvarpsins á Vatnsenda og féllu útvarpssendingar niður í 15 mínútur. Á sunnudag urðu miklar rafmagnsbilanir í Rangárvallasýslu. Bilunin varð á linunni frá Hellu til Hvolsvallar. Varð það svæði og austur til Víkur í Mýrdal rafmagnslaust mikinn hluta dagsins. Símatruflanir urðu víða á Norður- og Vesturlandi en flestar símalínur voru komnar í lag upp úr hádegi í dag. í morgun var fjölsímalínan milli Brúar í Hrútafirði og Akureyrar biluð. Þá bilaði línan milli Brúar og Hólmavikur. Línan milli Brúar og Patreksfjarðar hefur verið biluð síðan fyrir helgi og er enn ekki komin í lag. Þá er línutruflun milli Húsavíkur og Raufarhafnar, en sambandið ekki alveg rofið. Í morgun var símalínan milli Hafnar og Hornafjarðar og Víkur í Mýrdal biluð en gert var við hana í dag. Flestar þessar línubilanir hafa orsakast vegna samsláttar á línunum í rokinu. Línan milli Patreksfjarðar og Brúar er sennilega slitin.
Ástandið í vegamálum er svipið og fyrir helgi. Fært er um Suðurland allt til Víkur í Mýrdal, en ekki nema stórum bílum austur fyrir Mýrdalssand. Frá Reykjavík er fært upp í Borgarfjörð og vestur á Snæfellsnes, en fjallvegir þar eru ófærir. Kerlingarskarð og Fróðárheiði verða opnuð í dag og svo og Brattabrekka vestur í Dali. Á Vestfjörðum er mikið fannfergi og flestir vegir þar ófærir. Á morgun verður Holtavörðuheiði rudd norður í Skagafjörð og stórir bílar verða aðstoðaðir norður Strandir til Hólmavíkur. Á miðvikudag reynir Vegagerðin að aðstoða stóra bíla yfir Öxnadalsheiði og yfir í Eyjafjörð. Á Austurlandi eru nær allir vegir ófærir. Vegagerðin mun reyna að opna aftur leiðina til Skagafjarðar á fimmtudag og síðan aftur 23. þessa mánaðar.
En síðan kom smáhlé. Frétt sem birtist í Tímanum 23. mars (á skírdag) sýnir vel hversu erfitt var að spá um veður á þessum árum, hvað þá meir en sólarhring fram í tímann. Þættu það viðbrigði nú ef skipti til sömu hátta. Væntanlega hefur verið rætt við Veðurstofuna daginn áður.
Tíminn 23.mars:
Veðurútlit um páskahelgina er gott víðast hvar um landið. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar eru horfur á norðlægri átt sem væntanlega stendur fram yfir páska. Á Suðurlandi má reikna með að veðrið verði gott, hægviðri og sólskin. Norðanlands mun ganga á með éljum en sennilega verður veður þar gott að öðru leyti. Erfitt er að spá um veðurfar langt fram í tímann um þetta leyti árs og geta einhverjar breytingar á orðið en mestar líkur eru á að þessi spá standist. Færð á vegum er yfirleitt góð á Suður og Vesturlandi og er fært á litlum bílum um Suðurnes, um Þrengsli austur í Árnes- og Rangárvallasýslur austur að Vík.
Rétt var getið til um vindátt, en góðviðrisspáin fór algjörlega í vaskinn. Á skírdag (23.) snjóaði mikið allvíða, éljabakkar virðast hafa gengið yfir. Á föstudaginn langa fór veður mjög versnandi og gerði mikla hríð um stóran hluta landsins. Stóð þetta veður í hátt í fjóra sólarhringa. Ofankoma var ekki mjög mikil syðra, en þar skóf hins vegar mikið og samgöngur tepptust algjörlega. Er þetta næstöflugasta páskahret sem ritstjóri hungurdiska man, næst á eftir hretinu mikla 1963. Það bar þó allt öðru vísi að. Miklir kuldar höfðu verið ríkjandi nær allan marsmánuð. Frost á landsvísu náði hámarki á skírdag, þegar meðallágmarkshiti á landinu var -12,9 stig. Mikið frost hélst út mánuðinn.
Kortið sýnir páskahretið í hámarki, kringum hádegi á páskadag, 26. mars. Nær sama vindátt var í háloftum og við jörð, en hægari vindur efra.
Morgunblaðið rekur páskaveðrið í pistli þann 29. mars (miðvikudag eftir páska:
Páskarnir í ár voru fyrr en undanfarin ár og var veður um allt land mjög slæmt. Samkvæmt upplýsingum, sem Morgunblaðið fékk í gær hjá Jónasi Jakobssyni, veðurfræðing, var veður um hátíðina svipað um land allt og einkum slæmt hvað veðurhæð og frost snertir. Frost var alls staðar á landinu frá skírdag og fram á annan í páskum og allt upp í 10 stig, sem var eitt það mesta sem verið hefur á landinu í vetur. Á annan í páskum var mikil hríð á Norður- og Austurlandi, en úrkomulaust á Suðurlandi. Mikill skafrenningur var á Suðurlandi alla hátíðina, einkum föstudag og laugardag meðan mikið var um lausan snjó. Jörð var alhvít um land allt. Þessum mikla veðurofsa ollu djúpar lægðir austan undan Noregsströndum og mikil hæð yfir Grænlandi. Yfir alla hátíðina var djúp lægð á sveimi yfir hafinu á milli Noregs og Íslands, en hæð eins og fyrr getur yfir Grænlandi. Sökum þess lagði sterkan breiðan loftstraum norðan úr íshafi meðfram austurströnd Grænlands, þar sem er mjótt autt belti milli hafíssins norðanundan og lands, þá var frostharkan yfir hátíðina eins mikil og raun var á. Hafís barst að landinu norðan frá ísröndinni á öll svæðin frá Melrakkasléttu að Bjargtungu [svo]. Veðurstofan spáir nú góðu veðri framundan með nýrri lægð, sem er að myndast yfir Grænlandshafi.
Til þess að gera yfirlit um veðrið um hátíðina verður hér greint frá veðrinu um nónbil dag hvern. Á skírdag var hæg norðanátt yfir landinu, en léttskýjað á Suðurlandi. Frost var frá 28 stig á láglendi. Í Reykjavík var 2 stiga frost. Á föstudaginn langa var veður orðið mun verra um land allt. Veðurhæðin var meiri, víðast 58 vindstig, snjókoma víða á Suðurlandi og í útsveitum norðanlands og vestur á Firði, en þurrt var á Suðurlandi og talsverður skafrenningur víða. Frost var þá á Suðurlandi, 12 stig, en á Norðurlandi 710 stig. Í Reykjavík var á 4 stiga frost. Laugardaginn 25. var komið 8 stiga frost í Reykjavík. Á Norður- og Suðurlandi var talsverð snjókoma og frost víða 710 stig. Á páskadag var veðrið mjög svipað og norðanlands og daginn áður, mikil snjókoma norðanlands, en bjart fyrir sunnan. Á annan í páskum var 5 stiga frost í Reykjavík, norðanátt um land allt og mjög hvasst. Í gær [þriðjudag 28. mars] var veður betra, víða logn og sólskin.
Á annan páskadag [27.] féll snjóflóð úr Bjólfinum á Seyðisfirði og á mjölskemmu. Lagðist skemman saman, fleiri snjóflóð féllu í firðinum.
Þess má geta að í dymbilvikunni urðu miklar slysfarir á fjöllum í Noregi, bæði í Jötunheimum sem og á Saltfjalli í Nordlandfylki. Fjórtán urðu úti og margir björguðust naumlega. Voru þessir ólukkupáskar oft nefndir meðal veðurfræðinga og veðurfræðinema á tíð ritstjórans í Noregi fáeinum árum síðar - og eru ábyggilega enn.
Fyrstu dagar aprílmánaðar voru heldur hlýrri, og þann 6. til 7. gerði góða hláku. Hún var að vísu ekki mjög góð að því leyti að hún olli bæði miklum leysingaflóðum og ófærð á vegum. Á þessum árum óðust allir vegir upp í drullu og for og urðu algjörlega ófærir minni bílum.
Í blöðum eru fjölmargar fréttir af vatnavöxtum og skemmdum vegum þessa daga. Við veljum eina þeirra, nánast af handahófi. Hún birtist í Tímanum 14. apríl:
Vegir um land allt eru nú yfirleitt ófærir með öllu öðrum farartækjum en jeppum og létthlöðnum flutningabílum. Þetta ástand veganna skapast af vatnselg af völdum úrkomu og leysinga, aurskriður hafa víða fallið yfir vegi, ræsi flæða yfir þá og mikil úrföll eru víða úr vegunum. Sum staðar er ástandið svo slæmt að starfsmenn Vegagerðar ríkisins geta ekkert gert til að gera við vegina að sinni og verða að bíða eftir að þorni. Gífurleg vatnsflóð eru á Snæfellsnesi og Dalasýslu og margir vegir þar ófærir öllum farartækjum. Sérstaklega er útnesjavegur illa farinn og sífelld skriðuföll eru á Ennisvegi milli Ólafsvíkur og Hellissands. Mikil úrföll eru á veginum yfir Fróðár(heiði) og í Fróðárhreppi er vegurinn víða undir vatni. Skógastrandarvegur er lokaður hjá Ósi vega vatnavaxta. Á Vestfjörðum eru vegirnir einkum illa farnir vegna skriðufalla og aurbleytu. Samgöngur milli fjarða liggja þar víðast niðri. Í Húnavatnssýslu og Skagafirði er ástand nokkru betra, en talsvert hefur rignt þar í dag og fara vegir versnandi. Í Langadal hefur Blanda flætt yfir bakka sína og lokað veginum. Ekkert hefur rignt í Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslum, en þar er 11 stiga hiti í dag og miklar leysingar, og vegir illa farnir af aurbleytu og úrrennslis, en víðast hvar færir. Á Dalvíkurvegi skarst vegurinn sundur þar sem ræsi flaut yfir hann. Þegar starfsmenn Vegagerðarinnar komu þar til að .gera við var bíll kominn ofan í ræsið og munu einhver slys hafa orðið á fólki, ók bílinn á fullri ferð út í vatnselginn og áttaði bílstjórinn sig ekki á að djúpur skurður var yfir þveran veg fyrr en um seinan. Á Austurlandi er ástandið í vegamálum hvað best og ekki teljandi tjón af leysingum það sem komið er. Sæmilega er fært um Suðurland til Víkur í Mýrdal á jeppum og stærri bílum en mikið rigndi þar í dag og fóru vegir versnandi.
Daginn eftir var fjallað um flóð í Hvítá í Árnessýslu og leysingaflóð fyrir norðan. En vorið var ekki komið því að um miðjan mánuð kólnaði verulega aftur og við tóku einhverjir köldustu apríldagar sem ritstjóri hungurdiska man eftir - meðallágmarkshiti á landsvísu var -11,9 stig þann 17., -11,3 þann 18. og -10,1 þann 22. Vantaði ekki mikið upp á hörkuna á páskahretinu 1963, en vindur var þó hægari en þá. Man ritstjórinn ekki betur en að útskriftarnemendur MA þetta vor hafi ekið um bæinn á dráttarvélum og heyvögnum þann 19. (daginn fyrir fyrsta sumardag) til að kasta kveðju á kennara sína. Er óvíst að sú athöfn hafi nokkru sinni farið fram í kaldara veðri - en þó var hríðarlítið þann dag.
Þann 22. apríl urðu töluverð tímamót í veðurspám hér á landi þegar tekið var á móti gervihnattamynd beint í fyrsta sinn. Það var útibú Veðurstofu Íslands, flugveðurstofan á Keflavíkurflugvelli sem naut fyrst góðs af. Myndir þessar bárust nú ótt og títt, en í fyrstu aðeins á sýnilegri rás. Innrauðar rásir bættust við síðar og var það mesta framförin. Þrátt fyrir að fyrstu myndirnar væru oft ógreinilegar og illráðanlegar voru þær samt ómetanlegar í leit veðurfræðinga að veðrakerfum sem áður gátu týnst gjörsamlega - eða myndast óvænt yfir Atlantshafi á leið til landsins. Auðvitað tók nokkurn tíma að læra að ráða í myndirnar. Á þessari mynd sést meginísjaðar norðan við land allvel, en mun síður miklar ísdreifar nær landi. Nokkur tími leið þar til veðurfræðingar í Reykjavík gátu notið myndanna, en úr því var bætt.
Maí var sólríkur syðra, en suddasamur og kaldur á Norðurlandi. Meðalhiti mánaðarins í Grímsey var 0,1 stig og -0,2 stig í Skoruvík á Langanesi. Allar meðalhitatölur ársins má finna í viðhenginu.
Tíminn segir af hríð í maí þann 6.:
Reykjavík, föstudag [5.maí]. Þótt komið sé fram í maímánuð og sumardagurinn fyrsti löngu um garð genginn, lætur vorið enn bíða eftir sér. Í gærdag snjóaði mikið á Suðvesturlandi og ísrek er fyrir Norðurlandi, ísjaka rekur á fjörur á Langanesi. Í gærmorgun [4.] snjóaði mikið á nokkru svæði sunnan- og vestanlands. Talsvert snjóaði í Reykjavik en snjóinn tók af eftir nokkrar klukkustundir. Aftur á móti snjóaði mun meira í fjöll í nágrenninu og lokaðist Hellisheiði um tíma. Mönnum var ráðlagt að fara ekki úr bænum á litlum bílum. Þegar leið á daginn, var heiðin rudd og eru nú allir vegir færir. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar lá hríðarbeltið eftir Reykjanesfjallgarði, innan við Hvalfjörð og upp í Borgarfjörð Beggja megin við það var heiðskírt og besta veður. Þar sem hríðarbeltið náði yfir var mikil niðurkoma og á Hólmi mældist snjólagið um 40 sentímetra þykkt í gærkveldi. Er það nálægt 20 mm úrkoma. Í dag hlýnaði í veðri og má búast við að snjóinn taki fljótlega af. ... Í Skoruvík á Langanesi hefur talsvert af ís rekið á fjörur. Úti fyrir ströndinni er rekís á siglingaleið og lengra úti í hafi sjást þéttari ísspangir. Rekís er dreifður á siglingaleiðum úti fyrir Hornbjargi og sést meiri ís úti fyrir. Ef núverandi vindátt helst, er líklegt að ísinn reki frá landinu. Að þessu sinni vorar óvenju seint hér á landi og er sömu sögu að segja um norðanverða Evrópu. Er vorið þar 23 vikum seinna á ferðinni en endranær.
Morgunn í maí. Ritstjóri hungurdiska var á leið frá Akureyri suður í Borgarfjörð þennan dag. Kuldi var um allt Norðurland og þarna um morguninn líka í Borgarfirði. Hiti um og ofan við frostmark yfir ísasvæðum Húnaflóa. Hámarkshiti dagsins á Horbjargsvita var 1,5 stig og um 3 stig í Hrútafirðinum. Austar á Norðurlandi varð sæmilega hlýtt síðdegis, hiti komst í 11,6 stig á Akureyri. Hæsti hámarkshiti dagsins var 14,5 stig á Víðistöðum í Hafnarfirði. Eftirminnileg aurbleytan á Hrútafjarðarhálsi sem og hinn mikli munur á vorgróðri við Hrútafjörð og í Borgarfirði.
Fyrir miðjan júní urðu aftur mikil leysingaflóð á Norðurlandi með skemmdum á vegum og landi. Síðar í mánuðinum voru sagðar fréttir af kalskemmdum í túnum um landið norðanvert.
Snemma í júlí gerði mikið úrhelli um landið norðvestanvert, sérstaklega á Ströndum. Mældist úrkoma á Hornbjargsvita (85,5 mm) og Kjörvogi (71,1 mm) meiri en fyrr og síðar í júlímánuði.
Tíminn segir frá 11. júlí:
Hér i Árneshreppi hefur verið gífurleg rigning síðustu daga og vegaskemmdir geysimiklar. Á Kjörvogi mældist úrkoman frá kl. 18 á laugardag til kl. 9 á sunnudagsmorgun 64,3 mm. Eru allir vegir ófærir, en stór stykki hafa runnið úr þeim á mörgum stöðum, einkum í Kleifunum. Eru viðgerðir þegar hafnar, en taka mun nokkra daga að gera vegina umferðarhæfa. Skriður hafa víða fallið hátt úr fjallshlíðunum yfir vegina og niður i sjó. Eru á nokkrum stöðum stórir haugar i flæðarmálinu. Hér í víkinni lenti skriða í vatnsbóli því, er bæirnir hér kring fá vatn úr. Stíflaðist vatnsleiðslan, sem er um km á lengd af aur, og er viðbúið að rífa þurfi upp alla leiðsluna til þess að hreinsa hana.
Í Tímanum 18. júlí er frétt um kólnandi veðurfar í heiminum. Hún er of löng til að hafa eftir hér en þó segir m.a.:
Veðurspáin fyrir árið 2000 gerir ráð fyrir kaldara veðri í heiminum en á þessu ári og á hitastigið að fara lækkandi ár frá ári. Virtustu vísindamenn á sviði veðurfræði telja að hin hægfara hækkunar tilhneiging hitastigsins á fyrra helmingi þessarar aldar hafi nú náð hámarki og nú hefjist lækkunin niður á við. Mun það hafa víðtækar efnahagslegar og þar af leiðandi pólitískar afleiðingar og áhrif. Bandaríski veðurfræðingurinn, dr. Murrey Mitchell, sem er í vísindaráði bandarísku stjórnarinnar hefur lýst þvi yfir í viðtali við vikuritið US News and World Report, að jörðin hafi smám saman verið að kólna síðan 1940. Dr. Mitchell gerir ráð fyrir aukningu jöklanna á Norðurhveli og muni það hafa í för með sér versnandi siglingaaðstöðu um nyrstu höf. Erfiðleikar munu skapast í heimskautahöfnum Sovétríkjanna og Kanada og í bandarískum höfnum í Norður-Alaska. ... Við erum því ekki á leiðinni inn í nýja ísöld, en hins vegar verðum við að gera ráð fyrir, að lækkun hitastigsins muni hafa veruleg áhrif á plöntu og dýralíf á hinum ýmsu svæðum jarðar.
Í síðari hluta júlí gerði allmikið hret og hálku gerði á fjallvegum norðaustanlands. Á Grímsstöðum á Fjöllum snjóaði.
Í júlílok urðu talsverðir jarðskjálftar á Suðurlandi. Upptökin voru nærri Villingaholti í Flóa. Stærstu skjálftarnir urðu þann 27. og 29. Stærð um 5 [á Richter]. Um mánaðamótin september/október varð talsverð jarðskjálftahrina við Grindavík.
Um mitt sumar var lengst af gott veður um landið sunnan- og vestanvert, en um og upp úr 20. ágúst brá til töluverðrar úrkomu. Annars voru þessir mánuðir, allt fram í nóvember stórtíðindalitlir í veðri.
Þann 22. ágúst gerði haglél og þrumuveður í Reykjavík. Tíminn segir frá þann 23.:
Haglél gerði í Reykjavík í morgun. Við hringdum á Veðurstofuna og spurðum, hvort slíkt veðurlag væri eðlilegt á þessum árstíma, en fengum þau svör, að svo yrði að teljast, því að ekki væri óvenjulegt, að haglél gengju yfir á sumrin. Yrði þetta helst, þegar svo háttaði um veðurlag, að mjög háir skúraklakkar gengju yfir, og gæti það orsakað bæði þrumuveður og hagl, en þó væri haglið algengara í slíkum tilvikum. Þetta gæti orðið í besta veðri, og t.d. hefur verið um 8 stiga hiti í Reykjavík undanfarið. Í kvöld um áttaleytið kom svo aftur hálfgert hagl hér í borginni og fylgdu því þrumur og eldingar úr þungbúnum skýjum, sem voru yfir borginni, en að sjá austur til Hengilsins var besta veður, sól og heiðskírt.
Veður gerðist órólegra þegar kom fram í nóvember og varð foktjón í nokkrum veðranna. Þann 12. nóvember fauk þak af söltunarhúsi á Seyðisfirði og járnplötur af síldarverksmiðju Ríkisins auk þess að gafl hennar sprakk. Maður varð fyrir járnplötu og meiddist. Pallur af heyvagni fauk á Egilsstöðum og skemmdi símalínu. Þann 18. sama mánaðar urðu miklar skemmdir í hvassviðri á Ísafirði, bátar löskuðust og bryggjur skemmdust. Kjallarar fylltust af sjó, rúður brotnuðu og þakjárn fauk á Ísafirði, í Hnífsdal og í Súðavík. Þrjár trillur löskuðust í Hrísey og járnplötur fuku af húsum, fiskhjallar fuku þar og á Árskógsströnd, en sjór gróf þar undan bryggjuhaus, heygeymsla fauk í Brimnesi og járnplötur á fleiri bæjum í nágrenninu. Þakplötur fuku af húsum í Ólafsfirði. Bátur fauk langa leið á Borgarfiðri eystra. Þann 3. desember fauk vörubíll af bryggju í sjóinn á Siglufirði og járn fuku af húsum. Þakplötur og hey fuku á bæ í Kelduhverfi.
Í lok nóvember gerði aftur mikla ófærð um mestallt land og skiptust á mjög kaldir dagar og asahláka fram eftir desember. Hafíss varð vart við Grímsey snemma í desember og reyndist hann mikill, aðdragandi mesta hafísvetrar allt frá árinu 1902.
Viku af desember gerði allmikil frost og varð þá afkastabrestur hjá hitaveitunni í Reykjavík í allmörgum eldri hverfum. Tíminn segir í frétt þann 8. desember að kuldabeltið" [nái] yfir allan Vesturbæinn og alveg austur að Rauðarárstíg eða þar um bil. ... í langflestum húsanna hvort sem um steinsteypt hús eða timburhús er að ræða er nístingskuldi. Í þessum húsum verður fólk að haldast við með börn sín. Gamalmenni verða einnig að þola kuldann. Fólk kappklæðist en það dugar lítið. Flestir reyna að hita upp, þó ekki væri nema eitt herbergi, með rafmagnsofnum.
Tíminn segir enn af hitaveituvanda 12. desember - en þá hafði hlánað og skemmdir komið í ljós:
Töluvert miklar skemmdir munu hafa orðið víðs vegar um borgina nú um helgina, þegar frostið tók að lina, og í ljós kom að fjöldi miðstöðvarofna og leiðsla hafði sprungið í kuldunum og vatnið tók að streyma úr rifum. Við höfðum samband við Gunnar Kristinsson verkfræðing hjá Hitaveitunni, og sagði hann að skemmdirnar nú væru þær mestu undanfarin ár, líklega helmingi meiri en í fyrravetur, en þá hefði fyrst orðið veralegar skemmdir vegna frostanna og hitaveitunnar svo nokkru hefði numið.
Enn meiri vandræði urðu svo í veitumálum fyrstu dagana eftir áramót. Um það kuldakast má lesa í gömlum pistli á hungurdiskum: Af kuldakastinu fyrir 50 árum.
Tíminn segir frá þann 12.:
Geysileg flóð hafa orðið úr ám og kvíslum í Skagafirði i dag [11. desember]. Ríkir sums staðar hálfgert neyðarástand, eftir því sem dæma má af fréttum að norðan, býli eru einangruð og sums staðar kemst fólk ekki út fyrir dyr vegna vatnsflaums, sem ríður yfir tún. Á fjórum stöðum í Skagafirði hafa orðið flóð, en ástandið er misjafnlega slæmt. Mesta flóðið er í Svartá í Lýtingsstaðahreppi, einnig mun talsvert flóð hafa orsakast af stíflu í Húseyjarkvísl. Þá flæðir Dalsá yfir veginn í Blönduhlíð og í Gönguskörðum var vegurinn næsta ófær í kvöld vegna flóða. Svo sem fyrr segir, er flóðið mest í Svartá í Lýtingsstaðahreppi. Stíflaðist hún snemma í dag af krapi skammt fyrir framan Reykjafoss, og gífurlegur vatnsflaumur streymdi yfir bakkana. Einangruðust tveir bæir af þessum sökum, Reykjaborg og Laugabakki, en býlin eru umflotin vatni, og vart viðlit að fara út úr húsi. Er sýnt var, hvernig komið var, ákváðu bændur á nærliggjandi bæjum, að freista þess að bjarga fólkinu. Hrintu þeir, báti á flot og voru nær komnir að húsinu á Laugabakka, er þeir urðu að snúa við, vegna hins gífurlega straumþunga við bæinn. ... Vel byggt er á báðum bæjunum, og er fólkinu talið óhætt, ef ástandið versnar ekki því meira. Á Laugabökkum, sem nær eru veginum er einlyft steinhús en Reykjaborg er nokkru fjær og þar er tvílyft steinhús. Vegurinn hjá Varmalæk er algjörlega ófær og túnið er á floti. Þá stíflaðist í dag Húseyjarkvísl fyrir innan Húsey hjá Vallhólmi. Flæðir yfir Vallhólma og straumurinn úr kvíslinni braut ræsi í veginn hjá Sólvöllum og er hann ófær. Er mjög erfitt um skepnuhirðingu á þessum slóðum, en túnin eru á kafi í vatni og sums staðar standa húsin eins og eyjar uppi úr flaumnum. Þá flæðir Dalsá yfir veginn hjá Akratorfu í Blönduhlíð, en vatnsmagnið er ekki eins gífurlegt og á hinum stöðunum tveimur, og ekki annað vitað, en fólk sé sæmilega statt. Einnig eru flóð í Gönguskörðum fyrir utan Sauðárkrók, og flæðir yfir veginn fyrir neðan Veðramót. Vatnsmagnið í Héraðsvötnum er óvenjulega mikið, en ekki er vitað til, að þau hafi stíflast að ráði. Hægt er að komast um Skagafjörðinn með því að fara leiðina frá Sauðárkróki og út á Hegranes. Fréttaritari blaðsins á Sauðárkróki sagði í kvöld, að ekki hefðu í manna minnum orðið svona mikil flóð á þessum slóðum. Svartá þar sem flóðin eru mest, er bergvatnsá, og að jafnaði mjög vatnslítil.
Miklar vegaskemmdir um helgina og í dag [mánudag 11. desember] rigninga og asahláku. Ár og lækir runnu viða yfir vegi og skörð mynduðust í vegina svo lokuðust margir þeirra í dag. Sérstaklega urðu miklar skemmdir á vegum á Suðurlandi og á Vesturlandi. ... Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar var Suðsuðurlandsvegur fær í dag en þó varla nema stórum bílum og jeppum. En á mörgum stöðum voru komin stór skörð í veginn og hann hættulegur yfirferðar. Verstur er vegurinn milli Hvolsvallar og Hellu. Í Landeyjum liggur vegurinn að töluverðu leyti undir vatni. Ýmsir aðrir vegir á Suðurlandi eru alveg ófærir. Ár renna yfir vegina og í þeim eru stór og djúp skörð. Svo er ástatt með Fljótshlíðarveg, Þykkvabæjarveg, Landeyjarveg syðri og Leirnaveg i Austur-Eyjafjallahreppi. Aðrir vegir eru skörðóttir og mangir illfærir þótt aka megi eftir þeim með lagni. Vesturlandsvegur er illfær og flæðir víða yfir hann. Í Kollafirði liggur vegurinn undir vatni á kafla, en er þó fær stórum bílum. Í Hvalfirði er vegurinn mjög slæmur og um tíma í dag lokaðist hann alveg við Olíustöðina, en þar tókst að opna hann aftur. Í Borgarfirði er ástandið afleitt og flæða þar margar ár yfir bakka síma og loka vegum. Svo er til dæmis með Hvítá, en hún flæðir yfir veginn hjá Hvítárvöllum og er mikill jakaruðningur í ánni. Þá flæðir einnig yfir veginn hinu megin árinnar við Ferjukot. ... Hjá Hvammi [í Norðurárdal er] mjög djúpt vatn á veginum og við Dalsmynni, en þar geta stórir bílar ekið eftir veginum, en vatnið er gruggugt og jakaíburður mikill og því varasamt að reyna að aka þarna um og eiga bílstjórar erfitt með að átta sig á hvar vegurinn liggur undir vatninu.
Allt innanlandsflug lagðist niður í gærkveldi og í morgun vegna svartaþoku um land allt. Einnig urðu allmiklar tafir á millilandaflugi, t.d. varð þota FÍ að lenda á Reykjavíkurflugvelli í stað Keflavíkurflugvallar, og Friendshipvél félagsins, sem átti að lenda í Reykjavík, neyddist til að fljúga til Akureyrar og lenda þar í nótt. ... Tíminn segir þann 15.desember af mikilli hálku í Reykjavík daginn áður, þann 14.:
Mikil hálka var á götum Reykjavíkur og nágrennis i morgun. Fyrir kl. 10 var nær algjört umferðaröngþveiti í Kópavogi og á Hafnarfjarðarveginum af þessum sökum. Miklar brekkur eru á þessari leið og var hálkan slík að bilar komust hvergi nærri upp brekkurnar þótt þeir væru á snjódekkjum. Lögreglan í Kópavogi segist ekki muna annað eins öngþveiti. Fjöldi bíla fór út af veginum og nokkrir árekstrar urðu. Engin slys urðu á fólki og bílarnir skemmdust ekki að ráði, sem varla var von því þeir náðu aldrei þeim hraða í hálkunni að hætta stæði af, þótt þeir færu út fyrir vegkantinn.
Í sama blaði er sagt frá því að flóð væru í rénun, en á aðfangadag segir enn af flóðum í Ölfusá. Rætt er við Eyþór Einarsson bónda í Kaldaðarnesi:
... sem sagði Tímanum í dag að síðan 4. des. hafi hann aðeins komist fjórum sinnum með mjólk frá bænum, og sé ástandið nú með versta móti ... En samt ætlaði Eyþór að reyna að koma mjólk frá sér og taka varning til jólanna. Vegurinn frá bænum er allur undir ísi og á ísnum er mittisdjúpt vatn. Nær það langt yfir framhjól á dráttarvél. Mikið íshröngl fylgir flóðunum, og gerir það öll ferðalög enn erfiðari. Þegar hlánar lyftir áin ísnum upp og ryður honum yfir bakkana og kemur síðan undan honum hér og hvar uppi á landinu. Eru því víða djúpir álar þar sem að öllu jöfnu er þurrt land.
Hér lýkur þessari lauslegu (en löngu) hugleiðingum ritstjóra hungurdiska um árið 1967.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.