Gaumur gefinn

Í dag (þriðjudag 15. mars) og á morgun (miðvikudag 16.) er veðrið í námunda við okkur að jafna sig á hinni óvenjulega djúpu lægð sem kom að Suður-Grænlandi í gær og olli miklu illviðri hjá okkur. Svo virðist sem þrýstingur í lægðarmiðju hafi farið niður fyrir 930 hPa og á grænlandsströnd mældust lægst 934,1 hPa. Gæti verið lægsti þrýstingur sem nokkru sinni hefur mælst á norðurhveli jarðar í mars. Íslandsmetið er þó ómarktækt hærra, 934,6 hPa sem mældust í Reykjavík 4. mars 1913. 

Illviðrið sem gekk yfir landið í gær var einnig í flokki þeirra verri í vetur. Á hinum einfalda hlutfallsmælikvarða ritstjóra hungurdiska fékk það (bráðabirgða-)töluna 547 - öllu minna en verstu febrúarveðrin, en er samt í þungaviktarflokki. 

Ársvindhraðamet var slegið á veðurstöðinni Sátu norðan Hofsjökuls, fór 10-mínútna vindur þar í 46,9 m/s. Mánaðarmet (mars) var slegið í Sandbúðum þar sem vindur fór í 42,2 m/s. Mánaðarmet voru einnig slegin við Kárahnjúka, á Fagradal og á Hallormsstaðahálsi - svo aðeins hið merkasta sé talið. Gríðarlegur vindstrengur fór austur um landið - og gætti mest á hálendinu og á nokkrum stöðum vestanlands. 

Á eftir skilakerfi lægðarinnar fylgir hefðbundið éljaloft ættað frá Kanada og mótað af hlýjum sjó fyrir suðvestan land.

Það er alltaf athyglisvert að fylgjast með þeim lægðum sem koma í kjölfar þessara risalægða. Nái þær í hlýtt loft sunnan úr höfum verða þær afskaplega skæðar og mörg verstu veður sem yfir landið ganga eru einmitt þessarar ættar. Full ástæða er því alltaf til að fylgjast með. Nú á dögum getum við nokkuð treyst reiknilíkönum til að segja til um það hvort hlýtt loft næst inn í kerfin eða ekki. 

Lægðin sem næst kemur virðist ekki vera af þessari verstu gerð - en samt nægilega slæm til þess að gefa verður henni gaum og rétt að sýna fulla virðingu. 

w-blogg150322a

Spákortið sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna á hádegi á morgun (miðvikudag 16.mars). Gamla lægðin er þá enn að beina þéttum éljum til okkar með allhvössum vindi í éljunum. Kannski jafnvel eldingum á stangli. Nýja lægðin er um það bil að verða til nokkuð langt suðvestur í hafi. Hún á að vera um 990 hPa í lægðarmiðju, en dýpkar ört og stefnir til landsins. Flestar spár setja leið hennar rétt fyrir vestan land. Hún á ekki að ná í mjög hlýtt loft - það loft sjáum við sem úrkomubakka nokkuð suðaustan við lægðarmiðjuna - kerfin fara rétt á mis. 

Það sem gerir þessa lægð sérlega erfiða viðfangs er að í henni virðist loft vera mjög óstöðugt. Þáttur klakkaúrkomu er mjög hár í meginúrkomusvæði hennar. Líkön höndla slíka klakka nokkuð misjafnlega - það er talsverður munur á - sérstaklega þegar við erum að tala um meira en einn og hálfan sólarhring. 

w-blogg150322b

Evrópureiknimiðstöðin býr til nokkuð skemmtilegar gervi-gervihnattamyndir eftir spám sínum Hér er ein sem á að gilda annað kvöld (miðvikudag) kl.21. Lægðin nýja er þá um 700 km fyrir suðvestan land á leið norðnorðaustur. Mikill skýjabakki fylgir og nálgast hann landið hratt. 

w-blogg150322c

Klukkan 3 aðra nótt er veðrið að ná hámarki suðvestanlands. Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, hann er kominn niður í um 970 hPa, lægði hefur dýpkað um 20 hPa á 15 klukkustundum. Loftvog hríðfellur suðvestanlands. 

w-blogg150322d

Vindaspá harmonie-líkansins (100 m hæð) sýnir stöðuna kl.6. Þá er foráttuveður af suðaustri á landinu - en farið að ganga niður á höfuðborgarsvæðinu. Ein helsta spurningin varðandi þennan úrkomubakka er hvort að í honum verða miklar eldingar - hann hefur til þess alla burði - en mjög erfitt er þó að spá slíku. Verðum alla vega ekki hissa ef svo fer.

w-blogg150322e

Sneiðmyndin (Ísland þvert - frá vestri til austurs (vinstri til hægri á myndinni) - frá sjávarmáli og upp í 250 hPa (um 10 km hæð). Vindstrengurinn (litir og örvar) nær nánast frá jörðu og upp fyrir veðrahvörf. Flest illviðrin sem hafa plagað okkur að undanförnu hafa hins vegar átt eindregið hámark fremur lágt í lofti - í um 1500 til 2000 metra hæð. 

Gaman er að sjá ólíkt hitamynstur í miðju veðrahvolfs og síðan nærri veðrahvörfunum.

w-blogg150322f

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins, vind og hita (litir). Gríðarkalt loft fylgir í kjölfar lægðarinnar - hiti fer niður undir -45 stig í um 5 km hæð. Þetta er með því lægsta sem sést í mars (þó ekki met) - og sýnir hversu vel veðrahvolfið er hrært - um það sjá vindurinn og kyndingin að neðan. Ekki er nærri metkulda í neðstu lögum. Loftið er gríðarlega óstöðugt. Við skulum líka taka eftir því að hlý tunga (sem fylgir úrkomubakka lægðarinnar) teygir sig til vesturs norður af landinu. 

w-blogg150322g

Þetta kort sýnir stöðuna í 300 hPa á sama tíma - nærri veðrahvörfun. Þar er hlýjast við suðvesturland - en mjög kalt fyrir norðan land. Kuldinn verður til við lyftingu - kalda loftið að vestan (í neðri lögum) ryður garði á undan sér - það sem er þar fyrir ofan verður að lyftast - sé litið á næstu spákort á undan er fjólublái liturinn ekki til - hann bara birtist þarna upp úr þurru. Sýnir hins gríðarlegu lyftikrafta sem þarna eru á ferð. Loft kólnar við að streyma upp. Frostið er allt að -67 stig. Það er ekki heldur fjarri meti í marsmánuði. 

Skylt er að taka fram að bandaríska veðurstofan gerir talsvert minna úr þessar lægð - lætur hana renna hjá án stórkostlegra átaka - stundum hefur hún rétt fyrir sér. En veðurnörd ættu að gefa þessari lægð gaum - og auðvitað eiga þeir sem eitthvað eiga undir að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband