Smávegis af febrúar

Meðan við bíðum eftir tölum Veðurstofunnar lítum við á meðalstöðuna í háloftunum í febrúar.

w-blogg010322a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar. Jafnþykktarlínur eru strikaðar (mjög daufar), en þykktarvik eru sýnd í lit. Bláu litirnir eru kaldir, en gulir og brúnir hlýir. Við sjáum að þykktin yfir Íslandi var um -50 metra undir meðallagi. Neðri hluti veðrahvolfs því um -2,5 stigum kaldari en að meðallagi 1981 til 2010 (viðmiðunartímabil þessa korts). Mánuðurinn var ýmist næstkaldasti eða þriðjikaldaski febrúar á öldinni hér á landi. Við sjáum að kaldast - að tiltölu - var vestan við Grænland. Að sögn dönsku veðurstofunnar var óvenjukalt og úrkomusamt í Nuuk. Vindrastir háloftanna voru að mestu fyrir sunnan við Ísland - en þó var suðlæg átt ríkjandi í miðju veðrahvolfi yfir landinu. Þrýstingur var vel undir meðallagi og sömuleiðis voru háloftafletir lægri en venjulega, 500 hPa-flöturinn um 150 metrum neðar en að meðaltali, en hefur fjórum til fimm sinnum staðið neðar en nú frá upphafi háloftaathugana, meðaltalið yfir miðju landi var nú 5103 metrar. Á fyrstu starfsárum ritstjóra hungurdiska á Veðurstofunni höfðu svona lág meðalgildi aldrei sést í febrúar - allt frá því háloftaathuganir hófust. Febrúar 1989 kom honum því mjög á óvart - meðalhæðin þá var aðeins 5071 metri - og í febrúar árið eftir 5044 metrar - þótti honum þetta mikil tíðindi. Síðan komu 5069 metrar 1997, 5104 metrar í febrúar 2000 og 5085 metrar árið 2020. Síðustu 30 ár hafa því verið allt öðru vísi hvað þetta varðar heldur en 40 árin þar næst á undan. Eitthvað er með öðrum hætti. 

w-blogg010322b

Myndin sýnir þykktarvik þeirra fjögurra febrúarmánaða sem líkastir eru þeim nýliðna. Rétt að benda á að viðmiðunartímabil vikanna er öll 20. öldin í 3 eldri mánuðunum - það breytir þó ekki stóru. Við sjáum að jafnhæðarlínur liggja afskaplega svipað í þessum mánuðum öllum - þeir eru hins vegar aðeins miskaldir suðvestan- og vestan Íslands. 

Mánuðirnir allir fá svipaða dóma - fréttir áberandi af vondri færð og hrakningum:

[2020]: Tíð var óhagstæð og fremur köld. Úrkomusamt var á Norður- og Austurlandi. Samgöngur riðluðust margoft vegna óveðurs. 

[2000]: Umhleypingasamt og snjór óvenju þrálátur á jörð á Suður- og Vesturlandi og tíð þar talin erfið. Óvenju mikið var um samgöngutruflanir á höfuðborgarsvæðinu.

[1997]: Tíðarfar var fremur erfitt, veður rysjótt og víða var mikill snjór, einkum undir lok mánaðarins.

[1989]: Slæm tíð og stormasöm. Snjóþungt víðast hvar.

Í bleytuhríðinni í gær (mánudaginn 28. febrúar) fékk ritstjóri hungurdiska einhverja óskiljanlega apríltilfinningu - honum fannst sem þetta væri aprílhríð - en ekki á góu. Ekki nóg með það - þegar hann horfði á spákort morgundagsins (2.mars)

w-blogg010322c

datt honum í hug annað kort - sama dag fyrir 59 árum (2.mars 1963):

w-blogg010322d

Ekki eins - auðvitað - en ákaflega svipað. Samt er samhengið allt annað. Febrúar 1963 var gjörólíkur nýliðnum febrúar. Það var að vísu ekki alveg snjólaust - en nálægt því. Austlægar og norðlægar áttir voru ríkjandi lengst af - en síðasta vikan var nokkuð rysjótt og hvassviðrasöm - en ekki með hríðarveðri. Marsmánuður var allur meira og minna mildur og hagstæður - austanáttin gaf sig ekki. 

Nú er annað uppi, mikill snjór og krapaelgur á jörðu - miklu harðara veður - og umhleypingum spáð í mars. En höfum í huga að mars veit í rauninni ekki neitt af febrúar - hann er meir og minna frír og frjáls.

w-blogg010322e

Þessi mynd sýnir þetta. Lárétti ásinn sýnir meðalloftþrýsting í febrúar (í 200 ár), en sá lóðrétti í mars sama ár. Ártölin eru merkt - (og má sjá þau sum sé myndin stækkuð). Ekkert veit mars af þrýstingi í febrúar. Við sjáum t.d. lengst til hægri og neðantil árið 1986 - þá var þrýstingur hár í febrúar - en sérlega lágur í mars. Aldamótaárið 1900 var þrýstingur hár bæði í febrúar og mars - en 1989 (sem við minntumst á hér að ofan) var þrýstingur í mars líka lágur - það ár er í hópi með fáeinum öðrum (1832, 1868 og 1903) neðarlega til vinstri á myndinni. Hvar kemur mánaðaparið sér fyrir í ár (2022)? Við vitum nú þegar að það verður vel vinstra megin (meðalþrýstingur í febrúar var 988,5 hPa).  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 30
 • Sl. sólarhring: 81
 • Sl. viku: 1498
 • Frá upphafi: 2356103

Annað

 • Innlit í dag: 30
 • Innlit sl. viku: 1403
 • Gestir í dag: 30
 • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband