Illviðrametingur - mánudagsillviðrið

Ritstjóri hungurdiska telur illviðradaga. Hann hefur lengst af notað tvær aðferðir til að meta styrk illviðra - á landsvísu. Annars vegar telur hann á hversu mörgum veðurstöðvum í byggð vindhraði hefur náð 20 m/s (einhvern tíma sólarhringsins - 10-mínútna meðaltal) og hve hátt hlutfall sá fjöldi er af heildarfjölda veðurstöðva. Hins vegar reiknar hann meðalvindhraða allra veðurstöðva - allan sólarhringinn.

Til að komast á fyrri illviðralistann þarf fjórðungur veðurstöðva að hafa náð 20 m/s markinu, en til að komast á þann síðari þarf meðalvindhraði að vera meiri en 10,5 m/s. Sögulegar ástæður eru fyrir þessari pörun - hún þarf ekkert að vera nákvæmlega þessi. 

Þessar tvær flokkanir mæla ekki alveg það sama - sú fyrri (vindhraðahlutfallið) segir vel frá „snerpu“ veðra - skila sér vel á lista þó þau standi ekki lengi á hverjum stað. Hin síðari (sólarhringsmeðaltalið) mælir „úthald“ vel. Veður sem ekki er yfirmáta mikið getur komist á þann lista haldi það áfram allan sólarhringinn. 

Veðrið á mánudaginn (7.febrúar) skorar hátt á snerpulistanum, fær 620 stig (af 1000 mögulegum) í einkunn. Þetta er hæsta hlutfall síðan 14. febrúar 2020 - og sé farið lengra aftur komum við að 7. og 8. desember 2015 - og 14. mars sama ár. Töluvert tjón varð í þessum veðrum öllum. 

Á úthaldslistanum er veðrið miklu minna, meðalvindhraði 11,2 m/s, svipað og 22.janúar á þessu ári. Mánudagsveðrið varð því býsna snarpt, en hafði ekki mikið úthald (náði þó á listann). 

w-blogg090222a

Myndin sýnir hvernig dagar falla á þessa tvo flokkunarvísa. Lárétti ásinn sýnir snerpuna, en sá lóðrétti úthaldið. Við sjáum að allgott samband er á milli. Lóðréttu og láréttu strikalínurnar sýna mörkin áðurnefndu og skipta fletinum í fjögur svæði eða horn. Í horninu sem er efst til hægri eru 149 dagar áranna 1997 til 2020 - þetta eru dagar þegar illviðri höfðu bæði snerpu og úthald. Í neðra horninu til hægri eru 145 dagar - sem komast allir á snerpulistann - en skorti úthald. Í efra horni til vinstri eru 87 úthaldsgóðir dagar - sem komast ekki á snerpulistann. Í neðra horni til vinstri er svo afgangur daganna - sem gera ekki tilkall til að komast á illviðralistana (takið þó eftir því að vel má vera að hvesst hafi illa í einstökum landshlutum eða stöðvum þessa daga).  

Efst á snerpuleistanum er mikið vestanveður sem gerði í nóvember árið 2001. Efst á úthaldslistanum er norðaustanillviðri mikið í janúar 1999. Á myndinni bendir ör á veðrið á mánudaginn - það var greinilega „alvöru“. 

Til gamans eru líka merkt inn veður sem stóðu sig í öðrum hvorum flokknum - en illa í hinum. Norðaustanveður sem gerði 10. desember árið 2000 virðist hafa haft gott úthald - en ekki komist í stormstyrk víða. Þá fauk þó áætlunarbifreið út af vegi við Hafursfell á Snæfellsnesi. Veðrið sem við nefnum fyrir snerpu - en lélegt úthald gerði 11. desember árið 2007 - af suðaustri. Þetta var reyndar nokkuð minnisstætt veður og segir í atburðaskrá ritstjóra hungurdiska: 

„Talsverðar skemmdir af foki um landið suðvestanvert, mest í Hafnarfirði, Kópavogi og í Reykjanesbæ. Járnplötur fuku, rúður brotnuðu, bátur slitnaði upp, hjólhýsi tókust á loft og mikið af jólaskrauti skemmdist. Skemmdir urðu einnig í Vestmannaeyjum. Gámur og hjólhýsi fuku á hliðina í Njarðvík“.

Það er „skemmtilegt“ við þetta síðarnefnda veður að bæði 2006 og 2007 gerði svipuð veður nærri því sömu daga í desember - og ruglast í höfði ritstjórans (og hugsanlega fleiri). 

Hér hefur verið miðað við sjálfvirka stöðvakerfið eingöngu. Ritstjórinn á ámóta lista fyrir mönnuðu stöðvarnar. Báða flokka veðra aftur til 1949 - og snerpuflokkinn aftur til 1912. Á þessu langa tímabili hafa orðið miklar breytingar á stöðvakerfinu sem og athugunarháttum. Í ljós kemur að hlutfall illviðraflokkanna tveggja er ekki alveg það sama nú og það var fyrir 70 árum. Ástæðurnar eru kannski fyrst og fremst þær að athuganir voru miklu færri að nóttu á árum áður - sólarhringurinn var því „styttri“ en hann er nú - og síðan hefur mönnuðum stöðvum fækkað svo á síðustu árum að kerfið missir frekar af snörpum en skammvinnum veðrum heldur en áður var. Við erum komin á svipaðar slóðir og var fyrir 100 árum. En vindathuganir sjálfvirka kerfisins eru þó miklu betri heldur en var - þannig að við getum ekki beinlínis saknað mönnuðu stöðvanna vindsins vegna - heldur fremur af öðrum ástæðum. 

En lítum samt á samskonar mynd fyrir mönnuðu stöðvarnar - allt aftur til 1949.

w-blogg090222b

Hér sjáum við að fleiri veður eru í efra vinstra horni heldur en í því hægra neðra (öfugt við það sem er á fyrri mynd). Líkleg ástæða er hinn „styttri“ sólarhringur fyrri tíma. Versta veðrið í snerpuflokknum er hið illræmda veður 3. febrúar 1991, en í úthaldsflokknum annað, líka illræmt, 29. janúar 1966 (af norðaustri). Það veður stóð reyndar í meir en 3 sólarhringa - sérlega úthaldsgott. Um bæði þessi veður hefur verið fjallað nokkuð ítarlega hér á hungurdiskum. 

Eitt veður kemst í úthaldsflokkinn - án þess að skora stig í snerpuflokknum. Það er norðanveður 26.apríl 2015. Ritstjóri hungurdiska kvartaði þá um kulda og trekk í pistli (ekki alveg af ástæðulausu). 

Hinu megin eru tvö veður merkt, annað 13. janúar 1967 - af suðvestri, þetta er „afgangur“ af öllu harðara veðri daginn áður (og líklega fram eftir nóttu). Í því veðri varð foktjón. Þessir dagar eru minnisstæðir ritstjóranum fyrir mikla glitskýjasýningu norðaustanlands - hafði hann aldrei séð slík ský áður.

Hitt dagsetningin er 14. janúar 1982 - skilar sér vel í stormatalningu - en illa í meðalvindhraða vegna skorts á næturathugunum. Eitthvað rámar ritstjórann í þetta veður - var líklega á vakt öðru hvoru megin við það. 

Nokkur vinna fellst í því að tengja gagnaraðir mannaða og sjálfvirka stöðvakerfisins saman þannig að ekki verði ósamfellur til ama. Ólíklegt er að ritstjóra hungurdiska endist þrek til þess - og viðbúið að nútíminn finni einhverjar allt aðrar skilgreiningar á illviðrum. Í besta falli gæti ritstjórinn endurskrifað eða endurbætt langa ritgerð sem hann tók saman fyrir nærri 20 árum - tími til kominn.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 54
  • Sl. sólarhring: 490
  • Sl. viku: 2376
  • Frá upphafi: 2413810

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 2194
  • Gestir í dag: 52
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband