Meðalhiti í Stykkishólmi 2021

Meðalhiti ársins 2021 var 4,8 stig í Stykkishólmi, 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára, en 0,2 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020.

w-blogg010122 

Bláu súlurnar á myndinni sýna vik mánaða ársins 2021 frá nýja 30-ára meðaltalinu. Sjá má að hiti var nánast í því í apríl, september, október og nóvember, nokkuð undir því í janúar, maí og júní, en yfir því í febrúar, mars, júlí, ágúst og nú í desember. Ágúst var einstaklega hlýr í Stykkishólmi - og reyndar um land allt. 

Á myndinni má einnig sjá samanburð tímabila. Grænu súlurnar bera saman hita ársins 2021 og gamla meðaltalstímabilsins 1961 til 1990. Ágúst 2021 var meir en 3 stigum hlýrri en meðalágúst á þessum árum framan af ævi ritstjóra hungurdiska. Árið hefur síðustu 30 árin verið um 1 stigi hlýrra heldur en næstu 30 ár á undan og munar um minna þegar svo langt tímabil er undir.

Gulbrúnu súlurnar sýna bera hins vegar saman hita mánaða ársins 2021 og næstu 10 ára á undan. Má segja að þetta nýliðna ár falli vel í flokk þessara hlýindaára.

w-blogg010122b

Hér má sjá ársmeðalhita síðustu 220 árin rúm í Stykkishólmi. Tíminn fyrir 1830 er nokkuð óviss - sérstaklega hvað varðar hita einstakra ára. Við sjáum að tímabilið allt hefur hiti hækkað um 1,6 stig eða svo, gríðarleg breyting. Við sjáum vel að hlýindi þessarar aldar eru orðin talsvert veigameiri en þau sem næst voru á undan (1926 til 1964) - og bæði 10-ára (rautt) og 30-ára (grænt) meðaltöl hærri en nokkru sinni áður síðustu 220 árin.

Hiti hefur þó hækkað minna síðustu 10 árin en þau næstu á undan - þegar hlýnunin „fór fram úr sér“. Ekkert lát er þó að sjá á hlýindunum. Þrjátíu ára meðaltalið (græn lína) er enn á uppleið og þar sem árin 1992 til 1995 voru köld, og meðalhiti þeirra um 1 stigi lægri heldur en hitinn árið 2021, er líklegt að 30 ára meðaltalið muni enn hækka næstu árin. En auðvitað vitum við ekkert um hita næstu ára. Tíðni vindátta og slíkir þættir ráða miklu um breytileika frá ári til árs. 

Við munum á næstunni rifja upp fleiri atriði varðandi veður á árinu 2021 - en ársyfirlit Veðurstofunnar mun auðvitað birtast um síðir.

Ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og öðrum velunnurum árs og friðar og þakkar góðar og vinsamlegar undirtektir á liðnum árum. Hann er orðinn nægilega gamall til að óska þess að nýhafið ár verði sem tíðindaminnst í veðri og allir hamfaraviðburðir haldist víðs fjarri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðilegt nýtt ár og kærar þakkir fyrir fróðleikinn og skemmtunina á síðunni. Eins og þú bendir á Trausti fór hlýnunin etv fram úr sér uppúr aldamótunum. Fór þá ekki hlýnunin á árunum fyrir og um 1930 líka fram úr sér því þá hlýnaði ekki á minni hraða en gerði á árunum uppúr 2000.   

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 2.1.2022 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (21.5.): 336
 • Sl. sólarhring: 345
 • Sl. viku: 1882
 • Frá upphafi: 2355729

Annað

 • Innlit í dag: 313
 • Innlit sl. viku: 1737
 • Gestir í dag: 294
 • IP-tölur í dag: 293

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband